Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2001
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Brottrekstur úr starfi
- Sjóveðréttur
|
|
Fimmtudaginn 20. september 2001. |
|
Nr. 46/2001. |
Þrotabú Vesturskipa ehf. (Gestur Jónsson hrl.) gegn Jóni Gunnari Björgvinssyni (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Brottvikning. Sjóveðréttur.
J var ráðinn munnlega sem vélarvörður á fiskiskip V. Starfaði hann á skipinu meðan það var bundið við bryggju, en hætti störfum í kjölfar ósættis við skipstjórann um launakjör. Í málinu var talið sannað að V hefði krafist þess að J skrifaði undir samkomulag þess efnis hvert skyldi vera lágmarksverð fyrir hvert kíló af hinum ýmsu fisktegundum. Þá hefði skiptaverðmæti afla skips V ekki verið ákveðið sem hlutfall af því heildarverðmæti, sem V hefði fengið fyrir hann, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Hæstiréttur taldi að J hefði verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum og ganga frá borði þar sem V hefði með þessum hæti lýst því fyrirfram yfir að það hygðist ekki ætla að efna réttilega samninginn. Samkvæmt því bæri V að bæta J tjón sem hann hefði hlotið af þessum sökum. Í málinu deildu aðilar um það hvort J hefði verið ráðinn til einnar veiðiferðar eða í ótiltekinn tíma. Hæstiréttur taldi sannað að ráðning J hefði verið takmörkuð við þá veiðiferð sem í vændum var. Var V gert að greiða J fyrir hvort tveggja tímabilið meðan skip þess var bundið við bryggju og þá veiðiferð sem skipið fór í kjölfarið. Þá tók Hæstiréttur til greina kröfu J um að hann ætti sjóveðrétt í söluverði þess skips, sem hafði verið í eigu V en verið selt nauðungarsölu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2001. Hann krefst aðallega sýknu að öðru leyti en því að hann greiði stefnda 71.558 krónur, en til vara 157.057 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. nóvember 1999 til 29. mars 2000. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að kröfur stefnda verði verulega lækkaðar. Hann krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að 20. október 1999 var stefndi ráðinn munnlega sem vélarvörður á fiskiskip Vesturskipa ehf., Geysi BA 25. Starfaði hann á skipinu meðan það var bundið við bryggju til 30. sama mánaðar, en að kvöldi þess dags hætti hann störfum í kjölfar ósættis við skipstjórann um launakjör. Deila málsaðilar um fjárhagslegt uppgjör vegna starfslokanna. Höfðaði stefndi málið gegn Vesturskipum ehf. 10. febrúar 2000, en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 19. apríl sama árs. Tók áfrýjandi eftir það við aðild málsins.
Meðal ágreiningsefna aðila er það hvert hafi verið efni hins munnlega ráðningarsamnings þeirra. Heldur áfrýjandi fram að samið hafi verið um að ráðningin skyldi einungis taka til einnar veiðiferðar. Sé heimilt að ráða sjómenn til ákveðinnar ferðar, sbr. 4. mgr. 10. gr. og 21. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Stefndi telur á hinn bóginn að ráðningin hafi verið til ótiltekins tíma. Hann hafi að vísu áskilið sér rétt til að hætta störfum með litlum fyrirvara ef væntingar hans um skiprúm á öðru fiskiskipi gengju eftir, en ekki hafi verið sérstaklega samið með þeim hætti, sem áfrýjandi haldi fram. Með því að skriflegur ráðningarsamningur hafi ekki verið gerður þrátt fyrir fyrirmæli í 6. gr. sjómannalaga um að svo skuli gert verði áfrýjandi að bera hallann af skorti á sönnun fyrir staðhæfingu sinni.
Meðal málsskjala er bréf lögmanns stefnda í héraði til Vesturskipa ehf. 3. nóvember 1999. Segir þar meðal annars: „Jón Gunnar kveðst hafa ráðið sig til einnar veiðiferðar sem búast hafi mátt við að tæki 20 daga.“ Þessi lýsing lögmanns stefnda, sem gefin var strax í kjölfar þess að atvik málsins urðu, fær nokkurn stuðning af ummælum í stefnu til héraðsdóms. Baldvin J. Þorláksson var á þessum tíma skipstjóri á Geysi og réði hann stefnda til starfa. Í skýrslu hins fyrrnefnda fyrir dómi kom fram að rætt hafi verið um að stefndi færi í þá veiðiferð, sem verið var að undirbúa. Hafi vitnið skilið orð stefnda svo að hann ætlaði að ráða sig á trillubát að veiðiferðinni lokinni.
Að virtu því, sem að framan er rakið, verður fallist á með áfrýjanda að ráðning stefnda á nefnt fiskiskip hafi verið takmörkuð við þá veiðiferð, sem í vændum var. Fram er komið að skipið lét úr höfn 3. nóvember 1999 og kom úr veiðiferðinni 15. sama mánaðar.
II.
Áfrýjandi reisir kröfur sínar á því að stefndi hafi sjálfur ákveðið að láta af starfi og eigi því ekki rétt til neinna greiðslna eftir það tímamark. Mótmælir hann því að hafa vísað stefnda úr starfi, svo sem hinn síðarnefndi haldi fram í málatilbúnaði sínum. Af hálfu stefnda er á því byggt að honum hafi verið gerðir tveir kostir. Annað hvort að hætta eða ganga að því, sem nefnt var fiskverðssamkomulag, og honum hafi verið kynnt. Í því hafi falist krafa um að stefndi, sem og aðrir skipverjar, tækju þátt í svokölluðum kvótakaupum með útgerðinni, sem ekki hafi haft yfir að ráða aflaheimildum fyrir áðurnefnt fiskiskip. Hann hafi ekki sætt sig við rangt uppgjör og því gengið frá borði. Hafi krafa vinnuveitandans um þetta jafngilt brottrekstri. Atvikum að því að stefndi hætti störfum fyrir Vesturskip ehf. er að öðru leyti lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Áðurnefnt fiskverðssamkomulag milli áhafnar og útgerðar Geysis er dagsett 28. október 1999. Var þar tilgreint ákveðið verð fyrir hvert kíló af hinum ýmsu fisktegundum og jafnframt tekið fram að um væri að ræða lágmarksverð, sem skyldi gilda í siglingum til Englands í nóvember. Fyrir dómi skýrði áðurnefndur skipstjóri Geysis svo frá að skiptaverð til áhafnarinnar hafi átt að miðast við ekki lægra söluverð en það, sem greindi í skjalinu. Aðspurður um hvernig færi ef söluverð yrði hærra en þar var tilgreint, svaraði hann því til að „það var eitthvað hálf loðið“. Ef salan yrði góð hafi áhöfnin ef til vill átt „að fá eitthvað meira út úr þessu.“ Tók hann skýrt fram að ekki hafi staðið til að gera upp við áhöfnina á grundvelli markaðsverðs, sem fengist fyrir aflann, og að útgerðin hefði ekki getað staðið ein undir því að kaupa aflaheimildir fyrir skipið. Hafi hún krafist þess að allir skipverjarnir skrifuðu undir fiskverðssamkomulagið. Stefndi hafi neitað og hvatt aðra til að gera það ekki heldur og „var með svona hálfgerða uppreisn þarna um borð“. Kvaðst skipstjórinn jafnframt hafa sagt við stefnda að hann gæti bara farið ef hann væri óánægður með þetta og „ég bauð honum bara að yfirgefa skipið ef hann væri óánægður með þennan samning.“
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins með síðari breytingum skal skiptaverðmæti afla fiskiskips, sem seldur er óunninn úr landi, til hlutaskipta og aflaverðlauna vera ákveðið hlutfall af því heildarverðmæti, sem útgerðin fær fyrir hann. Samkvæmt sömu lagagrein er ekki heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum. Sambærilegt ákvæði er að finna í kjarasamningi milli Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestfjarða, sem gilti frá 27. mars 1998 og tók til launakjara stefnda hjá Vesturskipum ehf. Segir í grein 1.01 þess samnings að þegar útgerðarmaður hafi með höndum sölu afla skuli skipverjum tryggt gangverð fyrir fiskinn en þó aldrei lægra verð en það, sem útgerðarmaður fær. Þá hafa lög nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna að geyma ákvæði í 3. mgr. 10. gr. þess efnis að sérstök úrskurðarnefnd um fiskverð skuli ekki ákveða fiskverð í þeim tilvikum þegar afli er seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmörkuðum.
Óumdeilt er að afli Geysis, sem fékkst í áðurnefndri veiðiferð, var seldur á uppboðsmarkaði í Englandi. Var forráðamönnum Vesturskipa ehf. óheimilt að ákveða að annað verð skyldi gilda við uppgjör til áhafnarinnar en það, sem fengist við sölu aflans. Samkvæmt framburði skipstjórans er ljóst að þetta gerði útgerðin engu að síður með því fiskverðssamkomulagi, sem áður er getið um, og gert var að skilyrði fyrir því að stefndi héldi skiprúmi sínu. Var honum óskylt að una þessum skilmálum, sem voru í andstöðu við lög og kjarasamning. Með því að útgerðin lýsti með þessum hætti fyrirfram yfir að hún hygðist ekki ætla að efna réttilega ráðningarsamning sinn við stefnda var honum heimilt að rifta samningnum og ganga frá borði. Ber áfrýjanda samkvæmt því að bæta honum það, sem hann varð af við að komast ekki í þá veiðiferð, sem ráðningin tók til, og áður er getið.
III.
Í málinu krefst stefndi þess að honum verði greiddar 71.588 krónur fyrir tímabilið 20. október 1999 til 30. sama mánaðar. Þessari kröfu er ekki mótmælt og er óumdeilt að launin eru enn ógreidd.
Af hálfu áfrýjanda hefur verið lagður fram launaseðill þess manns, sem ráðinn var sem vélarvörður á Geysi í stað stefnda. Er seðillinn fyrir tímabilið 3. til 15. nóvember 1999 og þar með þá veiðiferð, sem skiprúmssamningur stefnda tók til. Námu laun mannsins samtals 85.499 krónum. Samkvæmt framburði skipstjórans voru laun áhafnarinnar gerð upp „með þessu verði sem við skrifuðum upp á“ og að markaðsverðið hafi verið hærra en verðið, sem lagt var til grundvallar launauppgjörinu. Í kröfugerð stefnda felst hins vegar að hann fái greiddar 93.015 krónur fyrir þá þrettán daga, sem veiðiferðin stóð. Miðar hann þá við að laun fyrir hvern dag séu jafn há daglaunum sínum á tímabilinu 20. til 30. október 1999 eða 7.155 krónur fyrir hvern dag.
Samkvæmt framanröktu voru laun til þess manns, sem tók við starfi stefnda á Geysi, ekki gerð upp á réttum forsendum. Geta þau ekki komið til álita við ákvörðun greiðslna til stefnda fyrir umrætt tímabil. Ekki er fram komið í málinu hver launin áttu með réttu að vera ef miðað hefði verið við söluverð aflans. Þegar virt er að það var á færi áfrýjanda að veita upplýsingar um þetta og að hann hefur þrátt fyrir það ekki lagt fram gögn í málinu í því skyni, þykir mega leggja til grundvallar þá kröfu stefnda fyrir umrætt tímabil, sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Verður niðurstaða málsins samkvæmt því sú að áfrýjanda ber að greiða honum samtals 164.603 krónur með vöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði. Áfrýjandi skal jafnframt greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Með héraðsdómi var viðurkenndur sjóveðréttur stefnda í fiskiskipinu Geysi til tryggingar kröfu hans, en skipið hafði þá verið selt nauðungarsölu en afsal ekki enn gefið út. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að afsal hefur nú verið gefið út til kaupandans. Var því jafnframt lýst yfir af hálfu áfrýjanda að yrði krafa stefnda tekin til greina væru ekki gerðar athugasemdir við að sjóveðréttur hans yfirfærðist á söluverð skipsins. Verður krafa stefnda um viðurkenningu sjóveðréttar tekin til greina að þessu gættu.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Þrotabú Vesturskipa ehf., greiði stefnda, Jóni Gunnari Björgvinssyni, 164.603 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi á sjóveðrétt í söluverði Geysis BA 25 til tryggingar kröfu sinni.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 28. nóvember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 31. október sl., að undangengnum munnlegum málflutningi, hefur Jón Gunnar Björgvinsson, kt. 230674-5589, Þórsgötu 15, Reykjavík, höfðað hér fyrir dómi þann 4. febrúar 2000, með stefnu á hendur Vesturskipi ehf., kt. 620897-2059, Strandgötu 1, Bíldudal. Stefnda var úrskurðað gjaldþrota þann 19. apríl 2000 og hefur þrotabúið tekið við aðild málsins.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði dæmt til að greiða honum 715.580 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 15. nóvember 1999 til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Þá er gerð sú krafa á hendur stefnda að staðfestur verði sjóveðréttur í fiskiskipinu Geysi BA-25, skipaskrárnúmer 1608, fyrir framangreindum fjárhæðum.
Stefnda krefst þess aðallega að verða sýknað af kröfum stefnanda í málinu að öðru leyti en því að því verði gert að greiða 71.588 krónur með dráttarvöxtum frá 15. nóvember 1999 til 29. mars. Til vara er þess krafist að stefnda verði sýknað af kröfum stefnanda í málinu að öðru leyti en því að það verði dæmt til að greiða 157.057 krónur með dráttarvöxtum frá 15. nóvember 1999 til 29. mars 2000. Til þrautavara er þess krafist að stefnda verði sýknað af kröfum stefnanda í máli þessu að öðru leyti en því að því verði gert að greiða 398.912 krónur með dráttarvöxtum frá 3. desember 1999 til 29. mars 2000. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts af honum.
Málið var upphaflega höfðað gegn Vesturskipi ehf. sem fyrr segir og tók Eiríkur Böðvarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins til varna fyrir hönd þess og skilaði greinargerð af þess hálfu. Bú Vesturskips ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 19. apríl sl. og var samkomulag um að þrotabúið skilaði nýrri greinargerð af sinni hálfu sem kemur í stað hinnar fyrri.
Stefnandi kveðst hafa verið ráðinn símleiðis til vélavarðarstarfa á Geysi BA-25 að kvöldi 20. október 1999 af skipstjóranum Baldvin Þorlákssyni og kveðst hafa byrjað störf þann 21. október við veiðarfæraviðgerðir og fleira. Hafi hann þann dag unnið 8 klukkustundir í dagvinnu og eina klukkustund í næturvinnu. Daginn eftir hafi hann unnið við að rafsjóða lúgufestingar um borð í samtals 8 klukkustundir í dagvinnu og enn hafi hann unnið mánudaginn 25. október við tilfallandi störf, samtals 8 klukkustundir í dagvinnu. Þriðjudaginn 26. október hafi hann unnið við að rétta og festa „tersa“ á lestarlúgu og önnur tilfallandi störf, samtals 8 klukkustundir í dagvinnu. Miðvikudaginn 27. október hafi hann unnið að tilfallandi störfum við að festa bremsur og spil og logskera lása um borð í fiskiskipinu Erni BA til ná lengju undan trollinu, samtals 8 klukkustundir í dagvinnu. Fimmtudaginn 28. október hafi hann ekki komist um borð í skipið þar sem enginn landgangur hafi verið þar, samtals 8 klukkustundir í dagvinnu. Þann 29. október hafi hann farið um borð en engin vinna hafi verið fyrirliggjandi og reiknar hann sér fyrir það 8 klukkustundir í dagvinnu. Þann 30. október kveðst hann hafa unnið ýmis verk í vélarúmi og hafi skipstjóri sagt sér að skrifa 10 næturvinnustundir vegna þess dags. Klukkan 18 þann dag hafi skipstjóri hringt í sig og tjáð sér að hann þyrfti ekki að mæta meira til vinnu, þar sem hann hefði verið ráðinn til reynslu og sá reynslutími væri liðinn. Segir stefnandi ástæðuna hafa verið þá að fyrr þennan dag hafi farið fram umræður um borð um fiskverð vegna fyrirhugaðrar veiðiferðar. Hafi skipstjórinn sagt sér að skipið væri kvótalaust og þar af leiðandi þyrfti að leigja kvóta á það. Hafi hann þá spurt skipstjórann hvort mikið gæti verið eftir til skiptanna fyrir útgerðarmann eftir greiðslu leiguverðs og launa. Skipstjórinn hafi þá spurt stefnanda hvort honum dytti í hug að þeir fengju uppgert miðað við fullt söluverð á erlendum markaði en þar hafi hugsunin verið að landa aflanum. Stefnandi hafi krafist fulls aflaverðs eins og lög og kjarasamningar hafi kveðið á um og hafi skipstjórinn þá sagt honum að yfirgefa skipið. Stefnandi hafi neitað að ganga í land og krafist þess að hann fengi uppsagnarbréf frá stefnda þar sem ástæður uppsagnarinnar væru tilgreindar, en því hafi skipstjórinn alfarið hafnað. Seinna um daginn hafi stefnandi fengið þau skilaboð frá útgerðarmanninum að ekki mætti segja honum upp með þessum hætti, en ef hann sætti sig ekki við það sem í boði væri þá gæti hann einfaldlega yfirgefið skiprúm sitt. Stefnandi hafi ítrekað kröfur sínar en þær hafi engan hljómgrunn fengið. Stefnandi hafi lýst því yfir, að fengi hann ekki uppsagnarbréf myndi hann líta svo á að hann væri enn í ráðningarsambandi við útgerðina. Því næst hafi hann leitað til stéttarfélags síns, Vélstjórafélags Íslands, og hafi lögmaður ráðlagt sér að fá riftun skiprúmssamnings á hreint og fá það endanlega staðfest hvort útgerðarmaðurinn hyggðist enn standa við fyrri áætlanir sínar og neita honum um hið samningsbundna skiprúm. Hafi stefnandi síðan farið um borð klukkan 11, mánudagsmorguninn 1. nóvember 1999 og tekið föggur sínar. Hafi lögmaður ritað stefnda bréf þann 3. nóvember 1999 og rakið málsatvik eins og þau hafi horft við stefnanda og gert kröfur um greiðslu skaðabóta vegna riftunar á skiprúmsamningi stefnanda. Engin viðbrögð hafi fengist við þessu bréfi áður en mál var höfðað.
Af hálfu stefnda er málavöxtum svo lýst að stefnandi hafi verið ráðinn í eina veiðiferð og hafi komið fram við ráðninguna að hann væri bundinn annars staðar og gæti því ekki ráðstafað sér til lengri tíma. Hann hafi byrjað störf þann 21. október og unnið til 30. sama mánaðar. Ekki hafi verið um frekari störf hans að ræða í skipinu og hann yfirgefið það að þessum tíma loknum. Fyrir þessi störf hafi honum verið reiknuð laun að fjárhæð 71.558 krónur samkvæmt launaseðli. Þau hafi ekki enn verið greidd vegna fjárskorts og síðar gjaldþrots Vesturskips ehf., en hins vegar hafi þau verið viðurkennd af skiptastjóra sem forgangskrafa. Veiðiferðin hafi síðan verið farin þann 3. nóvember og staðið til 15. nóvember 1999 og hafi annar maður verið ráðinn í stöðu vélavarðar. Ljósrit af launaseðli hans hefur verið lagt fram í málinu. Á meðan hafi stefnandi verið á sjó á Þórshamri GK-75, þar sem hann hafi starfað samkvæmt lögskráningarvottorði frá 13. til 22. nóvember 1999.
Stefnda segir að fiskiskipið Geysir BA-25 hafi verið selt á uppboði þann 29. mars sl. og þann 11. júlí hafi boði næstbjóðanda, Skeljungs hf., verið tekið í skipið, að undangengnum vanefndum hæstbjóðanda, sem fyrst hafi fengið boð samþykkt. Við munnlegan málflutning kom fram að afsal hafi ekki enn verið gefið út vegna sölunnar.
Málsástæður stefnanda eru þær að hann hafi ráðið sig til einnar veiðiferðar á Geysi BA-25, en við ráðningu í skiprúm hafi þó ekki verið ljóst hvenær sú veiðiferð myndi hefjast. Enginn skriflegur skiprúmssamningur hafi verið gerður við hann þrátt fyrir skýlausa skyldu stefnda til þess skv. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og kveðst stefnandi meta ráðningu sína svo að ekki hafi verið neitt fastákveðið um hana, enda ekkert skriflegt fyrirliggjandi og sé einungis ljóst að hann hafi byrjað störf hjá stefnda og hafi þá þegar verið skuldbundinn að fara að lögum og kjarasamningum og virða þær skyldur sem því fylgdu. Þar sem ekkert hafi verið fastákveðið um ráðninguna verði að líta svo á að hún hafi verið ótímabundin, enda segi í 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 að uppsagnarfrestur yfirmanna sé 3 mánuðir nema sérstaklega hafi um annað verið samið. Stefnda hefði þannig verið heimilt að krefjast skaðabóta úr hendi stefnanda samkvæmt 60. gr. sjómannalaga, hefði hann fyrirvaralaust gengið úr skiprúmi. Samkvæmt 25. gr. sjómannalaga eigi skipverji sem vikið er úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án heimildar í 23. eða 24. gr., rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. Stefnanda hafi verið vikið úr skiprúmi, þar sem hann hafi neitað að taka þátt í ólöglegum uppgjörsaðferðum stefnda með því að samþykkja launakjör sem hafi átt að vera lægri en lög- og kjarasamningsbundin lágmarkskjör vélstjóra. Sé uppgjörsaðferð sú, sem stefndi hafi krafist að stefnandi tæki þátt í, andstæð grein nr. 1.01. í kjarasamningi Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestfjarða um kaup og kjör háseta, matsveina og vélstjóra og 2. ml. 1. mgr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994, þar sem segi að óheimilt sé að draga frá heildarverðmæti afla kostnað við kaup á veiðiheimildum. Hafi fyrirsvarsmaður stefnda haldið því fram að þessir uppgjörshættir yrðu nauðsynlegir til að unnt væri að leigja meiri aflaheimildir á skipið. Hafi stefnanda því verið vikið ólöglega úr starfi samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, enda ekki fyrir hendi skilyrði til þess samkvæmt 23. eða 24. gr. sjómannalaga. Í 25. gr. sjómannalaga sé kveðið á um skaðabótarétt í tilvikum sem þessum. Sé þá miðað við að stefnandi eigi rétt til kaups í þrjá mánuði samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Þó að kveðið sé á um kaup í ákvæðinu sé hér átt við skaðabætur sem ákvarðaðar séu með sérstökum hætti. Sé ákvæðið afbrigðilegt og gjörólíkt almennum skaðabótareglum. Bótaréttur stefnanda miðist ekki við aflahlutdeild eða vinnu annarra skipverja við Geysi BA-25 á þriggja mánaða fresti frá riftun, heldur við það sem stefnandi hafi haft í tekjur áður en ráðningu hans var slitið. Eigi bætur að greiðast til hans án tillits til þess hvort tjón hans af ráðningarslitunum hafi orðið meira eða minna og án þess að laun hans annars staðar eftir ráðningarslitin komi til frádráttar bótunum. Beri því að miða við að hann eigi rétt til skaðabóta að fjárhæð kr. 644.022, sem reiknist þannig að launaseðill sem útgefinn var af stefnda fyrir það tímabil sem stefnandi vann sé lagður til grundvallar bótum. Heildarlaun samkvæmt honum hafi numið 71.558 krónum fyrir 10 daga vinnuframlag. Meðallaun stefnanda hafi því verið kr. 7.155,00 (svo í stefnu, en á væntanlega að vera kr. 7.155,80) eða samtals 644.022 krónur fyrir 90 daga að viðbættum vangreiddum launum að fjárhæð kr. 71.558 nemi heildarkrafa stefnanda í málinu 715.580 krónur.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar aðallega á 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og 5., 6., 9. gr. sömu laga og ákvæðum kjarasamnings milli Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestfjarða um kaup og kjör háseta, matsveina og vélstjóra.
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að á nefndum launaseðli, sem það hafi viðurkennt, sé um að ræða fulla greiðslu fyrir þá vinnu sem stefnandi hafi innt af hendi og hann eigi ekki rétt á meiru. Fram hafi komið við ráðninguna að einungis væri um skammtímaráðningu að ræða, þar sem stefnandi væri bundinn annars staðar. Í bréfi lögmanns stefnda þann 3. nóvember 1999 komi fram að stefnandi hafi reiknað með að veiðiferðin tæki 20 daga. Það, ásamt því að stefnandi hafi ekki sætt sig við þau kjör sem í boði voru hafi orðið til þess að stefnandi hafi yfirgefið skipið án þess að til formlegrar riftunar kæmi. Þá komi fram í skjölum málsins að stefnandi hafi verið í öðru skiprúmi á meðan Geysir BA hafi farið í veiðiferðina sem stefnandi segist upphaflega hafa ætlað í. Telur stefnda aðila vera sammála um að stefnandi hafi upphaflega verið ráðinn í eina veiðiferð. Hafi breyttar forsendur hjá útgerðinni orðið til þess að þessari veiðiferð hafi seinkað og í hana hafi ekki verið farið fyrr en stefnandi hafi látið af störfum.
Í málinu liggi fyrir að samið hafi verið um að aðeins yrði um eina veiðiferð að ræða og geti 9. grein sjómannalaga því ekki átt við. Kveðst stefnda benda á 4. mgr. 10. gr. og 21. gr. sjómannalaga, þar sem gert sé ráð fyrir að ráðning geti verið til ákveðinnar ferðar. Verði fallist á kröfur stefnanda um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti sé ljóst að þá verði hann margfalt betur settur en ef samningurinn hefði verið efndur samkvæmt skilningi stefnanda á efni samningsins, þ.e. ef hann hefði farið í veiðiferðina þá hefði hann fengið greitt fyrir vinnuna í landi og fyrir veiðiferðina, sem sé sama fjárhæð og sé sett fram í varakröfu stefnda. Stefnandi vilji hins vegar fá greidda margfalda þá upphæð og sé ljóst að sú krafa standist engan veginn reglu kröfuréttarins um efndabætur. Til grundvallar kröfu stefnanda um laun út þriggja mánaða uppsagnarfrest sé útreikningur sem stefnda mótmæli alfarið. Stefnandi hafi verið á tímakaupi og unnið í 8 daga en ekki í 10 eins og stefnandi fullyrði. Í þessu sambandi sé einnig bent á að virkir vinnudagar í mánuði séu 21,67 og sé engan veginn hægt að margfalda með 90. Þá sé því einnig mótmælt sérstaklega að yfirvinnulaun séu tekin með inn í margföldunina en sú reikningsaðferð sé andstæð meginreglu vinnuréttarinns og eigi sér ekki lagastoð. Þá telur stefnda að ef fallist verði á kröfu stefnanda um laun í uppsagnarfresti beri að miða við kauptryggingu og draga frá launum önnur laun sem stefnandi hafi notið í uppsagnarfrestinum. Sama eigi við, hafi stefnandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu. Þetta sjónarmið kveðst stefnda meðal annars byggja á reglum skaðabótaréttar um skyldu tjónþola til að draga úr tjóni sínu, en fyrir liggi að stefnandi hafi farið nokkrar veiðiferðir á þessu tímabili með skipunum Þórshamri GK og Sigurborgu. Þá sé ljóst að hugleiðingar stefnanda um fiskverð eigi ekki við í þessu máli þar sem sýnt hafi verið fram á að stefnandi hafi ekki getað farið í veiðiferðina vegna þess að hann hafi þá þegar ráðið sig í annað skiprúm.
Varakrafa stefnda er á því byggð að stefnandi fái greitt fyrir vinnu sína í landi 71.558 krónur og hann fái einnig greidd staðgengilslaun 85.499 krónur eða alls 157.057 krónur. Byggir stefnda kröfuna á því að stefnandi hafi aðeins verið ráðinn til einnar veiðiferðar og með því að fá greidd staðgengilslaun hafi hann fengið fulla greiðslu fyrir þá veiðiferð, sbr. launaseðil staðgengils, sem liggur frammi í málinu.
Þrautavarakröfu sína byggir stefnda á því að stefnandi fái greiddar 398.912 krónur, en þá sé miðað við að hann fái greiddar 71.558 krónur fyrir þá vinnu sem hann hafi unnið og síðan að hann fái greidda kauptryggingu, 109.108 krónur á mánuði í 3 mánuði, sbr. grein 1.05.b í kjarasamningi milli Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestfjarða um kaup og kjör háseta, matsveina og vélstjóra. Vaxtakröfu sína kveðst stefnda miða við að vextir reiknist fyrir það tímabil frá því að launaseðill var gefinn út, til þess tíma að skipið var selt á uppboði. Stefnda kveðst ekki mótmæla kröfu um sjóveðrétt en benda á að veðið hafi verið selt á nauðungarsölu og samþykkt hafi verið boð frá þriðja aðila sem ekki sé aðili að málinu.
Við aðalmeðferð málsins gáfu auk stefnanda skýrslur fyrir dómi vitnin Baldvin Jóhann Þorláksson og Eiríkur Brynjólfur Böðvarsson.
Stefnandi skýrir svo frá að hann hafi við ráðninguna gert fyrirvara um það við skipstjórann sem réði hann að hann hyggðist hugsanlega hverfa til annarra starfa með skömmum fyrirvara. Hafi hann haft von um að fá skipstjórn á trillu og hugsað sér að setja annan hæfan mann í sinn stað, ef til kæmi, sbr. 16. gr. sjómannalaga nr. 34/1985. Samkvæmt 6. gr. sjómannalaga skal útgerðarmaður sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur (skiprúmssamningur) við skipverja. Í honum skal meðal annars greina ferð þá eða tímabil sem skipverjinn er ráðinn til, hvar ráðningu skuli slitið og uppsagnarfrest sé um það samið. Fyrir liggur að útgerðarmaður Geysis vanrækti þessa skyldu er stefnandi var ráðinn í skiprúm. Með því að ekki er alveg fyllilega sannað að samið hafi verið um tiltekinn ráðningartíma eða einstaka veiðiferð ber stefnda allan hallann af því að þetta er ekki ljóst. Verður því að líta svo á að ótímabundinn ráðningarsamningur hafi komist á með aðilum.
Samkvæmt framburði fyrrverandi skipstjóra á Geysi, Baldvins Jóhanns Þorlákssonar, vísaði hann stefnanda úr skiprúmi vegna þess að stefnandi neitaði að samþykkja samning um fiskverð sem frammi liggur í málinu og ber yfirskriftina „Fiskverðssamkomulag milli áhafnar og útgerðar Geysis BA-25“., Er þar tiltekið verð fyrir einstakar tegundir og tekið fram að verðlag þetta sé lágmarksverð og gildi um siglingu til Englands í nóvember. Ekkert liggur fyrir um það hvernig gert var upp við skipverja síðar. Eftir orðanna hljóðan er hér einungis um lágmarksverð að ræða. Gat stefnandi þá aldrei orðið nema verr settur en ella með því að skrifa ekki undir þennan samning. Var ekki lögmætt að víkja honum úr skiprúmi fyrir þá sök að hann vildi ekki undirrita samninginn. Verður því fallist á það með stefnanda að brottvikningin hafi verið ólögmæt og á hann því samkvæmt 25. gr. sjómannalaga rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. laganna, þ.e. í sjö daga fyrir undirmenn en þrjá mánuði fyrir yfirmenn.
Stefnandi var ráðinn sem vélavörður og á því rétt til bóta vegna brottvikningarinnar, sem nemur þriggja mánaða kaupi, sbr. 25. gr. og 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Af orðalagi nefndrar 25. gr. leiðir að um er að ræða bætur, sem ekki skerðast þótt sjómaður afli tekna annars staðar.
Í þessu máli háttar svo til að stefnandi hafði aðeins unnið um skamman tíma hjá stefnda áður en honum var vikið úr skiprúminu eins og nánar er rakið í stefnu. Ekki liggur neitt fyrir í þessu máli um tekjur vélavarðar á Geysi BA-25 næstu mánuði áður en stefnandi var ráðinn í skiprúm og aðeins liggur fyrir launaseðill eftirmanns stefnanda vegna einnar veiðiferðar. Eins og málið liggur fyrir þykir því rétt að fallast á það með stefnanda að miða bætur við meðallaun hans þá 10 daga, 21.10.99 til 30.10.99, sem hann hafði starfað í þágu stefnda. Verða dómkröfur hans eins og þær eru reiknaðar eru út frá þessum meðallaunum því teknar til greina. Verður stefnda því dæmt til að greiða honum 644.022 krónur í kaup samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, auk launa samkvæmt launaseðli, kr. 71.558, eða samtals kr. 715.580 með dráttarvöxtum frá 15. nóvember 1999 til greiðsludags.
Við aðalmeðferð málsins kom fram að afsal fyrir skipinu Geysi BA-25 hefur ekki enn verið gefið út, að undangenginni nauðungarsölu. Er því rétt að taka til greina kröfu stefnanda um að stefnda verði dæmt til að þola staðfestingu á sjóveði í skipinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 197. gr. laga nr. 34/1985, með athugasemd um að veðrétturinn fellur niður við útgáfu afsals að undangenginni nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. 202. gr. laga nr. 34/1985 og 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991.
Málskostnaður ákveðst 200.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.
Dómsorð:
Stefnda, þrotabú Vesturskips ehf., greiði stefnanda, Jóni Gunnari Björgvinssyni, kr. 715.580 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, af þeirri fjárhæð frá 15. nóvember 1999 til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi á sjóveðrétt í skipi stefnda, Geysi BA-25, skipaskrárnr. 1608, til tryggingar hinni tildæmdu skuld.