Hæstiréttur íslands

Mál nr. 508/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Hótanir
  • Frelsissvipting
  • Líkamsárás
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Ákæra
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 22. janúar 2015.

Nr. 508/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Björn Jóhannesson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Hótanir. Frelsissvipting. Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni. Ákæra. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haldið A nauðugri í íbúð hennar í fimm klukkustundir að morgni jóladags 2013, uns A tókst að flýja úr íbúðinni og leita skjóls hjá nágranna, og hótað A og dóttur þeirra lífláti. Þá var X einnig sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 194. gr. sömu laga gagnvart A á fyrrgreindum tíma, en var á hinn bóginn sýknaður af öðru broti gegn 233. gr. laganna, enda yrði X ekki gert refsing öðru sinni fyrir sama brot. Var síðastgreindum sakargiftum um hótanir því vísað frá héraðsdómi. Loks var X sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga með því að hóta tilgreindum lögreglumanni, sem var á vettvangi við skyldustörf, að beita hnífi gegn lögreglu reyndi hún inngöngu. Héraðsdómur sýknaði X hins vegar af ákæru um að hafa jafnframt hótað því að hann myndi ganga frá fjölskyldu áðurgreinds lögreglumanns og kom sú niðurstaða ekki til endurskoðunar fyrir réttinum. Við ákvörðun refsingar X var til refsiþyngingar að nauðgunarbrot hans var framið á sérstaklega meiðandi hátt, sbr. c. lið 195. gr. almennra hegningarlaga og refsing hans ákveðin fangelsi í sex ár. Þá var X gert að greiða skaðabætur til A að fjárhæð 3.500.000 krónur og til dóttur þeirra að fjárhæð 800.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson settur hæstaréttardómari og Haraldur Henrysson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að vísað verði frá héraðsdómi ákæru um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, aðallega samkvæmt 1. og 2. lið I. kafla ákæru en til vara 2. lið kaflans. Til vara krefst hann sýknu. Að þessu frágengnu krefst hann ómerkingar hins áfrýjaða dóms, en ella að refsing verði milduð. Þá krefst ákærði þess að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 5.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu. Þá krefst B þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms um kröfu sína.

I

Ákærði er í máli þessu sakaður um frelsissviptingu, hótanir, líkamsárás, nauðgun og brot gegn valdstjórninni aðfaranótt og fram undir morgun jóladags 2013 eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Eru brotin talin varða við 1. mgr. 226. gr., 233. gr., 1. mgr. 217. gr., 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Í 1. lið I. kafla ákæru er ákærði meðal annars sakaður um frelsissviptingu með því að hafa haldið barnsmóður og fyrrum unnustu sinni, A, nauðugri í íbúð hennar frá því um miðnætti og fram til klukkan 6.00 að morgni jóladags og hótað henni og tveggja ára barni þeirra lífláti. Samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi komu þau A í íbúð hennar klukkan að ganga eitt aðfaranótt jóladags, en hún kvað þau hafa komið þangað rétt eftir miðnætti. Þeim ber saman um að hafa ræðst við í fyrstu. Ákærði hefur orðið missaga um hvenær hann hóf að beita A ofbeldi, en hún hefur á hinn bóginn staðfastlega borið að þau hafi fljótlega farið að rífast og um klukkan 0.30 til 1.00 hafi ákærði svo ráðist á hana og beitt hana ofbeldi eins og lýst er í ákæru. Hún hafi svo komist út úr íbúðinni um klukkan 6.00 til 6.30.

Héraðsdómur hefur ekki skýrlega tekið afstöðu til trúverðugleika framburðar ákærða og A vegna sakargifta í málinu, eins og rétt hefði verið, en af niðurstöðu dómsins verður ráðið að hann hafi lagt framburð hennar til grundvallar og hafnað framburði ákærða að svo miklu leyti sem hann hafi farið í bága við framburð hennar. Er ekkert fram komið í málinu sem bendir til að þetta mat héraðsdóms kunni að vera rangt svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Eins og fram kemur í forsendum hins áfrýjaða dóms skýrði A vitnunum C og D strax frá því, er hún leitaði skjóls hjá þeirri síðarnefndu í beinu framhaldi af því að hún hljóp berfætt, lítið klædd og illa til reika frá heimili sínu, að ákærði hafi haldið henni þar í gíslingu. Þá fær framburður A um líflátshótanir ákærða stoð í framburði C, sem kvað A hafa skýrt frá hótununum, og einnig í framburði lögreglumannsins E sem lýst er í forsendum héraðsdóms. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða samkvæmt þessum lið, þó þannig að lagt verður til grundvallar að ákærði hafi svipt A frelsi frá kl. 1.00 um nóttina.

II

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa hótað A „að berja hana til dauða“ á meðan á frelsissviptingunni stóð, svo sem nánar er lýst í 2. lið I. kafla ákæru. Eins og að framan greinir hefur ákærði þegar verið sakfelldur fyrir líflátshótanir í hennar garð þessa nótt og kemur því ekki til frekari sakfellingar fyrir sama brot. Ber því að vísa sakargiftum um hótanir samkvæmt þessum lið frá héraðsdómi. Að öðru leyti verður staðfest niðurstaða dómsins með vísan til forsendna hans um þennan lið ákæru svo og um 3. lið hennar. Varðar brotið í þeim fyrrnefnda við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga en þeim síðarnefnda við 1. mgr. 194. gr. sömu laga.

III

Ákærða er gefið að sök í II. kafla ákæru valdstjórnarbrot með því að hafa að morgni jóladags eins og þar er nánar rakið „hótað lögreglumanninum E, sem þar var við skyldustörf, að beita hnífi gegn lögreglu, reyndi lögregla inngöngu“. Þótt þetta orðalag ákærunnar sé ónákvæmt verður að skilja það svo að hótunin hafi verið höfð í frammi í viðurvist þessa lögreglumanns en hún hafi beinst gegn lögreglumönnum sem voru við störf á vettvangi. Er með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi og er hún þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

IV

Við ákvörðun refsingar ákærða er til refsiþyngingar að nauðgunarbrot hans var framið á sérstaklega meiðandi hátt, sbr. c. lið 195. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til þess en að öðru leyti til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða og einkaréttarkröfu brotaþolans A. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð barnaverndar [...] 9. janúar 2015. Þar kemur fram að enn ræði B um atvik þessa máls. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verða skaðabætur henni til handa ákveðnar 800.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns A, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Þá verður hann dæmdur til að greiða B málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, X. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald hans frá 25. desember 2013.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu A skal vera óraskað.

Ákærði greiði B 800.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 809.352 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþolans A, Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

Ákærði greiði B 186.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. maí sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 14. febrúar 2014 á hendur X, kennitala [...], [...], [...], „fyrir eftirgreind hegningarlagabrot gagnvart A, kennitala, [...], barnsmóður ákærða og fyrrum unnustu hans, á heimili A að [...], [...], framin aðfaranótt og fram undir morgun miðvikudagsins 25. desember 2013, svo sem hér greinir:

1.        Frelsissviptingu og hótanir, með því að hafa haldið A nauðugri í íbúð hennar frá um miðnætti og fram til um klukkan 06 að morgni jóladags, en þá tókst A að flýja úr íbúðinni og leita skjóls hjá nágranna. Ákærði hótaði Aog B, kennitala [...], tveggja ára dóttur hans og A, lífláti og ákærði beitti A jafnframt ofbeldi og rispaði hana með hnífi á meðan frelsissviptingu stóð, eins og lýst er í 2. tölulið ákæru. Ákærði varnaði því að A gæti hringt í lögreglu og kallað til aðstoð og tók af henni síma og varnaði því jafnframt að hún gæti tekið stúlkubarnið með sér út úr íbúðinni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 226. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.        Líkamsárás og hótanir, með því að hafa, skömmu eftir miðnætti ráðist á A þar sem hún sat með B í fanginu, rifið í hár A og margsinnis kýlt hana í síðuna, hendur, andlit og hnakka og á sama tíma hótað henni því að berja hana til dauða. Ákærði beitti A ítrekuðu ofbeldi og hótunum þar til henni tókst að flýja úr íbúðinni. Ákærði réðist meðal annars á A eftir að hún lagðist inn í rúm í svefnherberginu, þar sem dóttir þeirra svaf við hlið hennar, en ákærði lagðist hjá A og barði hana hnefahöggum í rúminu. Ákærði réðist einnig á A eftir að hún hafði lagst öðru sinni í rúmið og dró hana þá upp með því að rífa í hár hennar og sparkaði í hana þannig að hún féll fram úr rúminu og hélt svo barsmíðunum áfram. Um nóttina sló ákærði A hnefahöggum, reif í hár hennar og dró hana um íbúðina á hárinu, rispaði upphandleggi hennar með hnífi, sparkaði í hana, skallaði hana og hrækti á hana.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.

3.        Nauðgun, með því að hafa með ofbeldi og hótunum þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka í eldhúsi íbúðarinnar. Ákærði þvingaði A fyrst til munnmaka með því að hóta að hann myndi skera hana léti hún ekki að vilja hans. Í kjölfarið reif ákærði nærbuxur hennar og þröngvaði svo henni til samræðis og hélt hnífi að hálsi hennar á meðan.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Afleiðingar framangreindra brota voru þær að A hlaut margvíslega áverka um allan líkama, aðallega marbletti og húðblæðingar. Á höfði hlaut hún kúlu aftan á hnakka og húðblæðingar, í ytri eyrum og aftan við bæði eyru var mar, í hársrótum var mar og húðblæðing og þar varð jafnframt talsvert hárlos. A hlaut einnig eymsli yfir nefhrygg, bólgu á efri vör og mar innanvert á vör sem og mar á hægri kjálka. Á hálsi hennar voru beggja vegna ílöng för og roði, húðblæðing og byrjandi mar. Áverkar á útlimum voru skrapsár á vinstri öxl, rispa á hægri upphandlegg og mar á vinstri úlnlið og jafnframt mikil þreifieymsli. Auk þess hlaut hún mar og húðblæðingu á fótleggjum og á báðum sköflungum. Þá voru eymsli á öllum brjóstkassa og yfir öllu baki.

II.

Fyrir valdstjórnarbrot, að [...], [...], að morgni miðvikudagsins 25. desember 2013, er lögregla hugðist reyna inngöngu í áðurnefnda íbúð, með það að markmiði að tryggja velferð stúlkubarnsins B, kennitala [...], sem þar var innandyra ásamt ákærða, sem um tíma hélt á stúlkubarninu vopnaður hnífi, hótaði lögreglumanninum E, sem þar var við skyldustörf, að beita hnífi gegn lögreglu, reyndi lögreglu inngöngu og fyrir að hafa jafnframt hótað því að hann myndi ganga frá fjölskyldu E.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

A, kennitala [...], gerir þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 5.245.980, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar og dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða hæfilegan kostnað vegna réttargæslu skv. ákvörðun dómsins, sbr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008.

A, kennitala [...], gerir þá kröfu fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar og brotaþola, B, kennitala [...], að ákærða verði gert að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 2.245.980 kr, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar og dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða hæfilegan kostnað vegna réttargæslu skv. ákvörðun dómsins, sbr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður, bótakröfu vísað frá dómi og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð.

I.

Að morgni jóladags þann 25. desember 2013 barst lögreglunni tilkynning um heimilisófrið að [...] í [...]. Á meðan lögreglan var á leið á vettvang barst önnur tilkynning þess efnis að ákærði væri í íbúðinni en húsráðandi, brotaþoli, væri hlaupinn út úr íbúðinni og að barn væri þar inni. Samkvæmt lögreglu sáust fótspor í snjónum á leið frá íbúðinni og að viðkomandi hefði verið berfættur. Er lögregla kom á vettvang stóð ákærði í svaladyrum á íbúðinni, ber að ofan og virtist undir áhrifum. Kvaðst ákærði einungis vera drukkinn og ekki hafa neytt annarra vímugjafa. Ákærði kynnti sig fyrir lögreglu og kvaðst heita X og aðspurður sagðist hann hafa verið að rífast við barnsmóður sína. Ákærði var rólegur til að byrja með og sá lögregla stúlkubarn fyrir aftan hann, sem hann sagði vera dóttur sína. Ákærði lokaði síðan svaladyrunum, fór með barnið inn í svefnherbergi íbúðarinnar og kvaðst ætla að svæfa hana. Þegar ákærði kom svo aftur stuttu síðar út úr svefnherberginu var hann orðinn æstur að sögn lögreglu og bað lögreglu að koma sér í burtu. Hótaði hann því að ef lögregla kæmi inn í íbúðina þá myndi „allt verða vitlaust“. Lögreglan hringdi þá í heimasímann og ræddi við ákærða sem æstist í samtali sínu við lögreglu og endaði samtalið þannig að ákærði braut símann með því að henda honum í gólfið. Að sögn lögreglu fór ákærði aftur inn í svefnherbergið, en kom mjög fljótt út úr herberginu aftur og gekk beint inn í eldhúsið og náði þar í hnífa úr standi. Ákærði hefði gengið með hnífana að glugganum og kvaðst ætla að beita þeim gegn lögreglu kæmu lögreglumenn inn í íbúðina. Ákærði hefði svo farið aftur inn í svefnherbergið, náð í dóttur sína og komið með hana fram. Hefði hann haldið á barninu í fanginu ásamt tveimur hnífum sem hann hélt á sinn í hvorri hönd. Síðar hefði ákærði farið með barnið inn í svefnherbergið, komið aftur fram eftir dágóðan tíma og sagt að barnið væri sofnað. Ákærði hefði þá aftur verið kominn með hnífana og verið með ógnandi tilburði og byrjað svo að stinga sjálfan sig með hnífunum. Ákærði hefði sagst ætla að kála lögreglu og ganga frá fjölskyldu lögreglumannsins sem ræddi við hann. Hefði ákærði svo lagt hnífinn að hálsi sér og sagt að hann myndi einungis yfirgefa íbúðina dauður. Ákærði hefði svo lagt hnífana frá sér, kveikt sér í sígarettu og verið rólegri eftir það, en síðan orðið æstur aftur, tekið upp hnífana, gengið að glugganum og öskrað að lögreglu. Hefði ákærði sagst ætla inn í svefnherbergið og drepa dóttur sína og það væri lögreglumanninum að kenna. Ákærði hefði svo farið inn í svefnherbergið með hnífana, en komið svo þaðan aftur út. Ekki hefði mátt sjá neitt blóð á hnífunum þegar ákærði kom út úr herberginu. Ákærði hefði hótaði lögreglu ítrekað og lagt mikla áherslu á að ef lögregla kæmi inn í íbúðina myndi allt enda illa.

Sérsveit Ríkislögreglustjóra var einnig kölluð á vettvang, ásamt samningamanni frá Ríkislögreglustjóra og skipulögðu þeir aðgerðir á vettvangi ásamt stjórnendum vettvangs. Tekin var sú ákvörðun að bíða eftir réttu tækifæri til að fara inn í íbúðina.

Eftir nokkurn tíma gekk ákærði inn í eldhúsið og fann þar bol sem hann klæddi sig í. Þá var tekin sú ákvörðun að fara inn í íbúðina sem var gert. Farið var inn um framhurð og bakhurð samtímis og var ákærði yfirbugaður af sérsveit í eldhúsinu. Þegar lögregla kom inn í svefnherbergið mátti sjá barnið liggja sofandi í hjónarúminu og virtist hún ekki hafa vaknað við lætin.

Á meðan þessi atburðarás átti sér stað hóf lögreglan  leit að húsráðanda til að fá frekari upplýsingar um málið. Lögreglan mætti konu sem kynnti sig sem C og kom fram hjá henni að brotaþoli hefði komið til hennar að [...] og lýst því að hún hefði verið lamin af ákærða. Lögreglan bað konuna um að fylgja sér til stúlkunnar og í lýsingum lögreglu kemur fram að brotaþoli hafi verið með tætt hár og blætt hefði úr nefi hennar.

Tekin var skýrsla af brotaþola hjá lögreglu 27. desember 2013. Kvað hún ákærða hafa hringt í sig á aðfangadagskvöld og hefði hún sótt hann og boðið honum heim. Um miðnætti hefði ákærði byrjað að tuska hana til hótað henni og barni hennar lífláti,  sparkað í hana og kýlt. Hann hefði rifið í hár hennar, otað að henni hnífum og skorið hana á vinstri handlegg. Einnig hefði hann sett hnífsblað að hálsi hennar. Hann hafi haldið henni í íbúðinni og tekið af henni farsíma. Síðar um nóttina hefði ákærði tekið lim sinn út um buxnaklaufina og sagt henni að sjúga sig, hún hafi neitað. Hann hafi haldið á hnífnum og skipað henni að sjúga sig og kýlt hana í andlitið. Því næst hafi ákærði rifið hana úr buxunum og nauðgað henni og komið vilja sínum fram og hann hafi lamið hana meðan á því stóð. Þetta hafi átt sér stað inni í eldhúsi íbúðarinnar. Síðan hafi ákærði farið inn á bað til að þvo sér og hefði brotaþoli þá nýtt tækifærið og laumað sér út úr íbúðinni. 

Brotaþoli og dóttir hennar voru báðar fluttar á bráðadeild Landspítala til skoðunar. Í vottorði F læknis kemur fram að við skoðun hafi brotaþoli verið í greinilegu uppnámi og ekki var að sjá að hún væri undir áhrifum áfengis né annarra efna. Víðs vegar um líkamann voru áverkamerki í formi marbletta og húðblæðinga og almennt virtist hún finna til nánast hvar sem komið var við hana, á höfði, hálsi, brjóstkassa og baki. Við skoðun á höfði þreifaðist kúla sem var 4x4 cm að umfangi og voru húðblæðingar til staðar þar yfir. Á aftanverðu gagnaugasvæði vinstra megin þreifaðist aum markúla en ekki var að sjá húðblæðingar þar. Aftan við bæði eyru, aðallega á ytri eyrunum sjálfum, var mar og minniháttar bólga. Á framanverðu gagnauga vinstra megin var húðblæðing, aum viðkomu, 3x4 cm að stærð. Hægra megin á gagnaugasvæði var mar og húðblæðing sem var um 2,2 cm. Upp af enni vinstra megin í hárrótum sást striklaga húðblæðing sem var aum viðkomu. Talsvert mikið var af lausu hári sem losnaði og kom með þegar tekið var í hár hennar. Eymsli yfir nefhrygg en ekki bólga. Storknað blóð var í nefi. Efri vör var vægt  bólgin og mar var á innanverðri efri vör. Á hægri neðri kjálka var mar sem var aumt viðkomu, 3x2 cm að stærð. Við skoðun á hálsi reyndist hún vera aum við þreifingu og hreyfingar voru vægt takmarkaðar til allra átta. Beggja vegna neðarlega á hálsi voru ílöng för þar sem var roði, húðblæðingar og líklega byrjandi mar. Á brjóstkassa voru mikil eymsli við þreifingu, sérstaklega vinstra megin neðarlega. Við skoðun á baki var hún verulega aum við þreifingu bæði yfir hryggjartindum, rifbeinum og vöðvum beggja vegna við hryggsúlu á lendhryggjarsvæði. Við skoðun á útlimum sást skrapsár á vinstri öxl sem var um 4 cm langt. Innanvert á hægri upphandlegg var 4 cm löng grunn rispa, sem virtist vera eftir skarpt áhald. Á vinstri hendi var mar, þumalfingurs megin yfir úlnlið og yfir rótum og grunnlið þumalfingurs. Mar og húðblæðing var rétt ofan við mjaðmarhnútu á vinstri mjöðm. Mar var á báðum sköflungum, hægra megin var það staðsett á mótum neðri þriðjungs og miðþriðjungs og mældist um 5,4 cm. Vinstra megin var mar framan á öllum efri hluta sköflungs frá því rétt neðan við hné og niður fyrir miðju. Mikil eymsli voru í þessum marblettum. Var brotaþoli skoðuð aftur 7. janúar 2014 og kom þá í ljós að hún hefði hlotið rifbeinsbrot hægra megin neðarlega á brjóstkassa.

Brotaþoli var einnig skoðuð á vegum neyðarmóttöku af G kvensjúkdómalækni og kemur fram í skoðunarskýrslu að skoðun var framkvæmd um kl. 15 þann 25. desember og hafði brotaþoli þá fengið verkjalyf og róandi lyf á bráðamóttöku. Er þar lýst að brotaþoli hafi verið í losti, fjarræn og óraunveruleikatengd, óttaslegin og í hnipri. Hefði hún getað sagt skýrt frá en liðið illa. Var framkvæmd grindarbotnsskoðun sem reyndist eðlileg og fannst ríkulegt magn lifandi sæðisfrumna bæði í sýnum frá leggöngum og leghálsi. Brotaþoli leitaði á heilsugæslu í kjölfar atburðarins og fékk þar kvíðastillandi lyf og verkjalyf. Kemur fram í vottorði H læknis að hún hafi verið óvinnufær frá árásinni og muni verða það um óákveðinn tíma.

Framkvæmd var réttarlæknisfræðileg skoðun á ákærða og kemur fram í skýrslu að ákærði var rólegur og samvinnuþýður á meðan skoðun stóð. Var hann með rispur og smá sár á efri hluta kviðar miðjum, sem hann sagðist hafa veitt sér sjálfur að lögreglu viðstaddri.

II.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 30. desember 2013. Kvaðst hann hafa verið hjá ömmu barnsmóður sinnar þann 24. desember. Brotaþoli hefði sótt hann og þau hefðu farið eitthvert í [...] til föður og stjúpu brotaþola, en þar sóttu þau dóttur sína, B. Síðan hefðu þau farið í [...]. Ákærði sagðist hafa snappað heima hjá brotaþola, en hann hafði fengið fregnir um það að hún hefði sofið hjá nokkrum mönnum. Ákærði sagðist hafa ráðist á brotaþola og slegið hana víðs vegar um skrokkinn með flötum lófa, en alls ekki með krepptum hnefa. Hann sagði að það væri hins vegar rétt að hann hefði rifið í hár brotaþola. Ákærði sagði að barsmíðarnar hefðu ekki varað allan þann tíma sem brotaþoli hefði lýst, þær hefðu einungis varað í hálfa til eina klukkustund. Ákærði sagði að brotaþoli hefði aldrei kallað á hjálp á þessum tíma. Eftir barsmíðarnar kvaðst hann hafa átt samfarir við brotaþola í eldhúsinu. Hann sagði að hún hefði alls ekki neitað þeim, ekki sagt neitt og að hún hefði stunið á meðan á þeim stóð. Sagði ákærði að eftir samfarirnar hefði brotaþoli hlaupið út, enda hefði hún verið hrædd. Ákærði var beðinn um að lýsa samförunum sem hann átti við brotaþola. Ákærði sagði að hann hefði sagt við hana: ,,Tottaðu mig.‟ Hún hefði svarað því játandi og byrjaði að totta hann. Eftir það hefði hún snúið sér við og snúið baki í hann þegar hann átti við hana samfarir um leggöng og hann hefði fengið sáðlát inn í leggöng hennar. Aðspurður sagði ákærði að hnífur hefði ekki komið við sögu þarna. Spurður um það hvort kynlíf þeirra hefði farið fram með vitund og vilja brotaþola, svaraði ákærði að hún hefði viljað þetta kynlíf og hún hafi notið þess. Hann benti á í því sambandi að hann þekki hana, þar sem þau hefðu verið saman í þrjú ár. Við skýrslutöku var ákærða bent á að fram hefði komið að brotaþoli hefði verið hrædd og því hlaupið út. Auk þess hefði hann verið brjálaður og skyti það skökku við að hún hefði átt kynlíf með honum af fúsum og frjálsum vilja. Ákærði sagði að hún hefði verið hrædd við hann þar sem hann hefði verið brjálaður. Þau hefðu haft samfarir eftir að hann hefði tuskað hana til. Hefðu barsmíðarnar staðið í hálftíma til klukkutíma. Sagðist ákærði telja að hún hefði líklega verið með samviskubit yfir að hafa viðurkennt ríðingar með félögum hans. Gögn Neyðarmóttöku nr. NM-2327 voru borin undir ákærða, en á síðu 6 í gögnunum kemur fram að brotaþoli var alsett marblettum. Ákærði sagði að marblettirnir væru eftir að hann hafði slegið brotaþola. Ákærða voru sýndar ljósmyndir af vettvangi, en þar sjást meðal annars myndir af rifnum nærbuxum í eldhúsinu. Hann sagði þá að hann hefði rifið nærbuxurnar utan af brotaþola, en kynlíf þeirra hefði iðulega verið með þeim hætti í gegnum tíðina að hann hefði rifið nærbuxur hennar. Ákærði fullyrti að hann hefði aldrei nauðgað brotaþola og hann hefði aldrei ógnað dóttur sinni á nokkurn hátt. Ákærði sagði að lögreglan hefði komið eftir að brotaþoli var farin. Hann sagðist ekki hafa nennt að láta lögregluna handtaka sig. Kvaðst hann hvorki hafa hótað því að skaða dóttur sína né ógnað henni á nokkurn hátt. Kvaðst hann hafa sofnað með dóttur sinni og þegar hann vaknaði hefði lögreglan verið enn á staðnum. Kvaðst hann hafa verið beðinn af lögreglumanni að sýna barnið, sem hann svo gerði. Hann hefði svo farið með dóttur sína inn aftur og svæft hana. Ákærði var spurður að því hvort hnífar hefðu komið við sögu. Kvaðst hann hafa haldið á hníf fyrir framan lögregluna í því skyni að koma í veg fyrir að lögreglan kæmi inn. Aðspurður fullyrti hann að hann hefði aldrei ætlað að beita hnífnum, sem hann hafði náð í úr hnífastandi í eldhúsinu. Kvaðst ákærði aldrei hafa hótað lögreglumanni og fjölskyldu hans lífláti né hefði hann hótað að drepa dóttur sína. Tók hann það fram að hann myndi aldrei meiða dóttur sína, þar sem hann elskaði hana. Kvaðst ákærði hafa tekið inn kókaín og reykt marijúana síðastliðinn aðfangadag. Skýrsla lögreglumanns var borin undir ákærða en þar stendur: ,,X gekk með hnífana að glugganum og sagðist ætla beita hnífnum gegn lögreglu skyldu lögreglumenn koma inn í íbúðina.“ Kvað ákærði þetta vera rétt.

Tekin var skýrsla af brotaþola á vettvangi þann 25. desember og aftur á lögreglustöð þann 27. desember 2013. Í báðum skýrslum lýsti brotaþoli atvikum á svipaðan hátt. Kvaðst brotaþoli hafa kynnst ákærða fyrst árið 2007 eða 2008. Upp úr 2010 hefðu þau farið að vera saman. Kvað hún ýmislegt hafa gengið á þeirra á milli, svo sem framhjáhald, ofbeldi og annað. Þau hefðu endanlega hætt saman vikuna eftir páska 2013. Greindi hún frá því að 22. desember 2013 hefði hún fengið skilaboð frá ákærða þess efnis að hann vildi hitta stelpuna þeirra. Síðar hefði ákærði svo komið heim til hennar í [...], hitt dótturina og gefið henni meðal annars Babyborn-dúkku. Þau hefðu svo öll farið saman í [...] þann dag, en til stóð að hann keypti fatnað á dótturina. Kvað brotaþoli að um það hefði verið samið að ákærði myndi koma heim til þeirra á Þorláksmessu, en úr því hefði ekki orðið, en seinna þann dag hefði dóttir þeirra fengið að gista hjá ákærða og kærustu hans. Kvaðst brotaþoli hafa sótt dóttur sína þangað á aðfangadag og síðan skutlað ákærða til kunningja hans síðar um daginn. Kvað brotaþoli að ákærði hefði hringt í sig á aðfangadagskvöld, en þá hafði kærasta hans verið búin að henda honum út. Hann hefði farið til móður einnar barnsmóður sinnar og fengið þar að borða. Kvaðst brotaþoli hafa sótt ákærða, þau hefðu svo sótt dóttur sína heim til pabba brotaþola og síðan farið heim til hennar. Þau hefðu verið komin þangað um miðnætti. Lýsti brotaþoli því að eftir að þau hefðu verið komin heim hefði ákærði farið að tala illa um manninn hennar og sagst vera betri en hann. Hefði hún maldað í móinn og sagt það ekki rétt. Kvaðst hún hafa setið í eldhúsinu með dóttur þeirra í fanginu er ákærði hefði rifið í hárið á henni og margkýlt hana. Hefðu höggin lent á andliti hennar, síðu og hnakka. Hefði ákærði haft á orði að hann myndi lemja hana til dauða ef hún viðurkenndi ekki að hún hefði sofið hjá vini hans. Kvaðst brotaþoli ekki hafa þorað annað en að segja að hún hefði sofið hjá honum, jafnvel þó það hefði aldrei gerst. Kvaðst brotaþoli hafa talið að ákærði myndi hætta barsmíðunum ef hún gerði það. Lýsti brotaþoli að eftir þetta hefði ákærði fleygt dóttur þeirra inn í herbergi og haldið áfram að ganga í skrokk á henni, en barsmíðarnar hefðu átt sér stað um alla íbúðina. Fram kom að ákærði hefði margkýlt hana, stappað ofan á henni og hrækt framan í hana. Kvað hún ákærða hafa spurt hvort hún væri hrædd og haldið áfram að „drulla yfir“ manninn hennar á sama hátt og áður. Brotaþoli kvaðst hafa komist inn í herbergi til dóttur sinnar eftir þetta og ætlað að fara að sofa. Hefði hún þá heyrt skarkala frammi og ákærði hefði svo komið inn í herbergi til þeirra, rauður og þrútinn í framan. Kvað hún ákærða hafa haft á orði að hann væri að fá hjartaáfall. Kvaðst hún hafa farið fram í stofu um leið og séð að hann hafði stungið tveimur eldhúshnífum í gólfið fyrir framan sjónvarpið í stofunni, en hnífarnir voru geymdir í hnífastandi á borði í eldhúsinu. Kvaðst hún svo hafa farið að nýju inn til dóttur sinnar. Ákærði hefði komið þangað og lagst við hlið hennar og farið að segja henni að lýsa því yfir á Facebook að hún væri hætt með kærasta sínum. Kvaðst brotaþoli hafa svarað því til að hún gæti það ekki, þar sem hún elskaði hann. Kvað hún ákærða hafa þá heimtað bíllyklana þar sem hann væri að fara. Kvaðst hún hafa látið hann fá lyklana, þar sem hún þorði ekki öðru. Lýsti brotaþoli að ákærði hefði svo ráðist á hana enn á ný. Hann hefði rifið hana upp á hárinu, sest ofan á hana og kýlt hana í andlitið. Hann hefði síðan sparkað í kvið hennar þannig að hún hefði hafnað á gólfinu. Kvaðst hún hafa fengið högg og spörk um allan líkamann og haldið að hún væri að deyja. Brotaþoli kvaðst hafa farið fram í eldhús. Þar hefði ákærði tekið út á sér getnaðarliminn, stungið honum upp í munn hennar og þvingaði hana til að eiga við sig munnmök sem hún gerði í einhvern tíma. Hefði hún verið með blóð í munninum eftir barsmíðarnar. Ákærði hefði svo tekið hníf og rispað upphandleggi hennar með honum. Ákærði hefði svo rifið í hár hennar og skellt henni fram fyrir sig þannig að enni hennar lenti á lista undir eldhússkáp. Kvað hún listann hafa brotnað við það. Ákærði hefði svo sett hníf að hálsi hennar, girt niður um hana, rifið nærbuxurnar utan af henni og nauðgað henni aftan frá. Tók brotaþoli það fram að ákærði hefði fengið sáðlát inn í leggöng hennar. Kvað brotaþoli að eftir nauðgunina hefði ákærði sagst ætla drepa hana og skera af henni brjóstið. Hefði hann þá farið inn á bað, að hún taldi til að skola af sér blóðið. Hefði hún verið mjög hrædd og náð að hlaupa út úr íbúðinni, en hún hefði verið á ,,táslunum‟. Kvaðst hún hafa hlaupið að næstu blokk og hringt á nokkrum dyrabjöllum til að reyna að fá aðstoð. Það hefði enginn opnað fyrir henni nema D. Í framhaldi af því hefði lögreglan komið á vettvang og hún verið flutt á Landspítalann með sjúkrabíl. Kvaðst brotaþoli hafa skilið dóttur sína eftir því hún hefði metið það þannig að hún slyppi ekki undan ákærða ef hún tæki hana með sér. Kvað brotaþoli sér hafa liðið mjög illa á meðan á þessu stóð og hún hefði meðal annars grátið. Tók hún það fram að á meðan hún hefði sætt barsmíðunum hefði hún öskrað stöðugt á hjálp en það heyrði enginn í henni og enginn hringdi í lögregluna svo þetta gekk á í sex klukkutíma, en hún sagði að þær hefðu byrjað upp úr miðnætti og lokið þegar hún slapp út á milli kl. 6.00 og 6.30. Kvaðst hún hafa verið skíthrædd og óttast að ákærði myndi drepa hana. Kvað hún að ákærði hefði haldið henni í íbúðinni og tekið af henni síma, svo hún gat ekki hringt á hjálp.

III.

Fyrir dómi greindi ákærði svo frá að hann hefði fengið mörg sms og símtöl frá brotaþola þar sem hún hefði beðið hann að hitta dóttur þeirra. Hefði hún einnig beðið hann að „adda“ sér á Facebook, sem hann gerði. Hefði hún komið með barnið heim til þáverandi kærustu hans á Þorláksmessu og skilið það eftir hjá honum í einhvern tíma. Á aðfangadagskvöld hefði hann lent í rifrildi við kærustu sína og farið þá heim til ömmu annarrar barnsmóður sinnar. Kvað hann rifrildið við kærustuna hafa verið til komið vegna þess að brotaþoli hefði verið í stöðugu sambandi við hann. Brotaþoli hefði svo sótt hann og þau farið saman til föður hennar að sækja dóttur sína. Eftir það hefðu þau farið á heimili brotaþola. Hefðu þá rifjast upp gömul mál og þau farið að rífast. Brotaþoli hefði sofnað í nokkrar klukkustundir en hann hefði setið og drukkið á meðan. Eftir að hún hefði vaknað hefðu þau stundað kynlíf og allt verið í góðu. Hefðu þau svo aftur farið að rífast, hann hefði tuskað hana til og hefði hún síðan hlaupið út og hringt á lögregluna. Kvaðst hann hafa hrint og slegið brotaþola. Höggin hefðu lent á hnakka hennar og líkama, en hann hefði ekki kýlt hana. Kvað hann sögu brotaþola verulega ýkta og alls ekki rétta. Hefði barnið verið sofandi meðan þetta fór fram og hann hefði ekki ráðist á hana með barnið í fanginu. Kvað hann það lygi að hann hefði hótað henni og kastað barninu inn í herbergi. Kannaðist ákærði ekki við að hafa ráðist á brotaþola inni í svefnherbergi og hann hefði ekki verið með hníf í átökum við hana, það væri lygi. Er lögreglan hefði komið á staðinn hefði hann orðið mjög reiður og varnað þeim inngöngu. Hann hefði ekki hótað lögreglunni. Lögreglan hefði beðið hann að vekja barnið og koma með það, sem hann hefði gert. Barnið hefði verið ánægt og vinkað. Eftir það hefði hann farið inn með barnið og svæft hana og síðan sofnað sjálfur í um það bil tvær klukkustundir. Þegar hann hefði vaknað hefði hann séð að lögreglan var enn fyrir utan húsið og þá hefði fokið í hann. Hefði hann verið með hnífa, en ekki ætlað að beita þeim. Hefði hann lagt frá sér hnífana og farið inn í hornið á eldhúsinu og þar hefði hann staðið þegar lögreglan hefði brotið sér inngöngu í húsið og handtekið hann. Kvaðst ákærði hafa ráðist á brotaþola eftir að þau hefðu haft samfarir. Sagði hann tilgang þess að taka hnífana hafa verið þann að varna lögreglu inngöngu. Aðspurður um breytingu á framburði sínum fyrir dómi frá þeirri skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu, kvaðst hann hafa verið í einangrun þegar lögregluskýrslan var tekin og hann hefði verið orðinn ruglaður í höfðinu. Spurður um þá áverka á brotaþola, sem lýst er í áverkavottorði, taldi ákærði að marblettirnir gætu verið eftir hann. Rispurnar taldi hann að hlytu að vera eftir byltu, hann hefði aldrei beitt hnífi. Aðspurður um nauðgunarkæru lýsti hann aðstæðum þannig að hann hefði beðið brotaþola að „totta sig“ hann hefði ýtt á höfuð hennar við þá athöfn og hefði hún þá slegið á hönd hans og beðið hann að róa sig. Síðan hefði hann beðið hana að snúa sér við, rifið nærbuxurnar af henni og svo hefðu þau stundað samfarir. Þetta hefði verið í eldhúsinu, eftir að hún hefði lagt sig en áður en hann tuskaði hana til. Kvað hann hana aldrei hafa sagt nei, né já, þetta hefði bara verið venjulegt kynlíf. Neitaði ákærði að hafa verið með hníf á meðan á þessu stóð og kvaðst ekki hafa hótað brotaþola, hvorki lífláti né líkamsmeiðingum í kjölfarið. Kvað ákærði það, að hann hefði rifið nærbuxur brotaþola, hafa verið eðlilegan þátt í kynlífi þeirra. Aðspurður um skýrslu sína hjá lögreglu þar sem hann sagðist hafa hótað henni af því þau voru að rífast, kvaðst hann ekki hafa hótað henni. Kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um það hvers vegna brotaþoli hefði hlaupið berfætt út í snjóinn og skilið barnið sitt eftir, en lýsti því að brotaþoli væri mikið í því að búa til dramatískar aðstæður og væri mjög lygin. Kvað ákærði að brotaþoli hefði alltaf getað farið út og hann hefði ekki hindrað hana í að nota síma. Aðspurður lýsti ákærði því að nánast ekkert hefði heyrst í brotaþola þegar hann var að tuska hana til. Kvað hann lýsingu vitnis á ástandi brotaþola ekki vera í samræmi við það sem hann sá áður en hún hljóp út. Kvað ákærði að sambandi hans og brotaþola hefði verið lokið er þessir atburðir áttu sér stað. Spurður um neyslu vímuefna neitaði hann því að hafa notað fíkniefni umræddan dag en hann hefði verið verulega drukkinn.

Lýsti ákærði samskiptum sínum við lögreglu á þann hátt að hann hefði rætt við einn lögreglumann í gegnum lokaða hurð. Hefði lögreglan beðið hann um að róa sig niður og opna, en hann hefði ekki viljað hleypa þeim inn. Hefði lögregla spurt hann hvort það væri í lagi með barnið og viljað fá að sjá barnið. Hefði hann á endanum náð í barnið og sýnt lögreglunni barnið í gegn um glugga á svalahurð. Kvaðst hann hafa verið af og til með hníf í samskiptum sínum við lögreglu, hefðu þeir séð það í gegnum gluggann á svalahurðinni. Kvaðst ákærði muna eftir því að hafa staðið ber að ofan og rispað sig með hníf á kviðnum. Spurður um lýsingu lögreglumanns á því að ákærði hafi verið með dóttur sína í fanginu og hnífa á sama tíma, sagði ákærði það vera rangt en tók fram að þó hann hefði gert það sæi hann ekki hvað væri rangt við það. Kvaðst ákærði ekki hafa hótað lögreglumanninum, hann hefði spurt hann: ,,hvernig þætti þér ef ég kæmi heim til þín á aðfangadag og væri að angra þig?“ Kvaðst ákærði draga til baka þann vitnisburð sinn hjá lögreglu að hann hefði slegið brotaþola áður en þau stunduðu kynlíf. Kvað ákærði ástand sitt við skýrslutökuna hafa verið lélegt, hann hefði ekki fengið sinn lögmann fyrr en eftir tvær vikur, þrátt fyrir að hann hefði beðið um það strax.

Brotaþoli bar þannig um atvik fyrir dómi að hún hefði sótt ákærða um klukkan ellefu um kvöldið, þau hefðu síðan sótt dóttur sína og farið heim til hennar. Kvað brotaþoli að hún hefði sótt ákærða umrætt kvöld og boðið honum heim til sín þar sem hún hefði ekki viljað vita af barnsföður sínum vegalausum á jólanótt. En hann hefði farið út frá kærustu sinni á aðfangadagskvöld. Er þau hefðu komið heim til hennar hefðu þau farið að spjalla og að liðnum 30-40 mínútum hefði ákærði spurt hana hvort hún hefði sofið hjá öðrum manni og hefði hún neitað því. Hefði ákærði þá reiðst mjög mikið og sagt hana ljúga og síðan tekið í hár hennar og byrjað að lemja hana í andlitið, þar sem hún sat við eldhúsborðið með dóttur þeirra í fanginu. Dóttir þeirra hefði sagt: ,,Pabbi hættu að lemja mömmu mína.“ Hefði ákærði hætt að lemja hana stuttu síðar og sagt að hún ætti að vera fegin að hann lemdi hana ekki eins og karlmann. Hefði hann haldið áfram stuttu síðar og hárreitt hana og slegið, þannig hefði þetta verið alla nóttina. Hefði komið smáhlé á barsmíðunum og hefði ákærði þá sagt henni að hætta með Kristjáni, en hún sagðist ekki vilja það. Hefði hann þá reiðst aftur, hent dóttur þeirra inn í herbergi og hafið barsmíðarnar aftur. Hefði hún reynt að laumast inn í herbergi og hringja á lögregluna en hann hefði tekið af henni símann. Á einhverjum tímapunkti hefði hún farið með dóttir þeirra inn í herbergi til að svæfa hana, hefði hún legið þar er ákærði hefði komið inn í herbergi og sagst vera með hjartaflökt eða eitthvað. Hefði hann þá lagst upp í rúmið og reynt að kúra hjá henni, en síðar rokið upp og kýlt hana, rifið hana upp á hárinu og sparkað henni út úr rúminu. Hefði hún þá lent illa og fundist hún dofna upp og séð doppur, hefði hún sagt við hann að henni liði mjög illa og hún héldi að hún væri að deyja, en ákærði hefði espast upp við það. Dóttir þeirra hefði vaknað við þetta og hefði hann þá hent sænginni yfir barnið. Hefði ákærði svo dregið hana um alla íbúð og hent henni til og frá, kallað hana ljótum nöfnum, lamið og sparkað í hana. Hefði hún séð að hann var búinn að taka fram tvo hnífa inn í stofu og velta um borðum. Um klukkan 6 um morguninn, hefði ákærði látið hana gefa sér munnmök, síðan snúið henni við og skellt henni utan í eldhúsinnréttinguna og nauðgað henni. Kvað hún ákærða hafa rispað sig með hníf niður annan handlegginn og svo lagt hníf að hálsi hennar á meðan á þessu stóð. Eftir það hefði hann hótað að skera af henni brjóst eða fingur. Þegar ákærði hefði farið á salernið hefði hún notað tækifærið og farið út um svaladyrnar, hlaupið að næstu blokk og hringt dyrasíma þar til einhver svaraði. Kvaðst hún hafa verið í bol og íþróttabuxum, ekki í nærbuxum, sokkum eða skóm. Hefði kona svarað bjöllunni og ætlað að fara að sækja barnið, en brotaþoli beðið hana að hringja á lögregluna. Þegar lögreglan kom á staðinn hefði verið hringt á sjúkrabíl fyrir hana þar sem hún hefði verið illa stödd. Hefði hún verið mjög hrædd um barnið sitt á þessum tíma. Lögregla hefði rætt við hana við komu á staðinn, spurt hvort hún væri með lykla að íbúðinni, sem hún hafði ekki og spurt hana um númerið í heimasímanum. Kvaðst hún hafa sagt við lögregluna að það skipti engu máli ákærði hefði alltaf sloppið við allt og myndi sleppa við allt. Hefði lögreglan þá sagt að hann vissi hvaða maður ákærði væri og hann myndi ekki sleppa í þetta skiptið. Kvaðst hún hafa öskrað á ákærða og beðið hann að hætta þessu og láta sig í friði bæði þegar hann var að lemja hana og nauðga henni. Kvað hún það rangt að hún hefði ekki mótmælt því að veita honum munnmök í eldhúsinu. Aðspurð um áverkana sem ákærði veitti henni, kvaðst hún ekki vita hversu oft hann hefði slegið hana, hún hefði fundið mikið til sérstaklega í handleggnum. Kvað hún ákærða hafa haft í hótunum við sig á með á barsmíðunum stóð og að hann hefði hótað henni og dóttur þeirra lífláti ef hún myndi kæra hann. Kvað hún líkamsárásina hafa staðið yfir frá því um klukkan eitt um nóttina með hléum þar til hún hljóp út um hálfsjö um morguninn. Kvaðst hún hafa upplifað það að hún væri í lífshættu á meðan á þessu stóð. Kvað hún að dóttir þeirra hefði orðið vitni að hluta af þessum atburðum, hún hafi tekið þetta mjög nærri sér, talað mikið um þetta eftir á og átt erfitt með svefn. Kvaðst brotaþoli ekki hafa verið í ástandi til að hugsa um dóttur sína í tvær vikur eftir atburðinn. Aðspurð kvaðst brotaþoli hafa upplifað ofbeldi af hendi ákærða áður en þetta gerðist. Kvaðst brotaþoli hafa kallað á hjálp, barnið hefði grátið mikið þessa nótt og húsnæði hennar væri fremur hljóðbært. Aðspurð neitaði brotaþoli því að hafa farið að sofa umrædda nótt, brotaþoli hefði komið endurtekið og athugað hvort hún væri inni í herberginu og það væri útilokað að hún hefði verið þar inni sofandi í allt að fjórar klukkustundir. Aðspurð sagðist hún ekki muna hvort það hefði blætt úr henni eftir fyrri átökin inni í eldhúsinu, en það hefði verið farið að blæða úr vörinni eftir barsmíðar inni í rúminu. Aðspurð sagðist hún muna eftir því að hann hefði skallað hana í andlitið, en ekki hvenær það hefði gerst eða hvar höggið hefði lent nákvæmlega. Aðspurð kvað brotaþoli það ekki rétt að hún og ákærði hefðu stundað gróft kynlíf og að hann hafi oft rifið af henni nærfötin. Aðspurð um síma sem fannst undir kodda í hjónarúminu kvað hún það hafa verið sinn farsíma sem hún hafði reynt að fela, hún hefði ætlað að reyna að hringja á hjálp, en síminn hefði verið batteríslaus. Aðspurð hvort hún hefði rætt við nágranna sína umrætt kvöld, sagðist hún hafa rætt við nágranna sína eftir atburðinn og beðist afsökunar á hávaðanum. Kvað hún að það hefði gefið henni tækifæri til að sleppa að ákærði fór inn á salerni eftir að hann nauðgaði henni, það hefði í raun bjargað henni. Aðspurð kvaðst hún hafa íhugað það hvernig hún ætti að komast út, en hún hefði aldrei haft tækifæri til að reyna að fara út. Aðspurð kvaðst brotaþoli í raun aldrei hafa sagst vilja komast út en hún  hefði beðið ákærða að fara en hann  neitað og sagst ætla að vera áfram og hann myndi lemja hana eins og hund og hún mætti vera fegin að hann berði hana ekki eins og karlmann og hún ætti þetta skilið. Kvað hún alltaf hafa verið að hugsa hvernig hún kæmist út, en gert sér svo grein fyrir því að hún væri fangi á eigin heimili.

Lögreglumaðurinn I gaf vitnaskýrslu fyrir dómi. Lýsti hann atvikum þannig að þeir hafi fengið kall að fara á vettvang sem aðstoð. Við komu á staðinn klukkan 7:19 var annar lögreglubíll kominn á staðinn. Hefðu þeir byrjað á að fara til félaga sinna bak við húsið en síðan hefði félagi hans farið til brotaþola, en hann sjálfur farið að húsinu. Hefði ákærði verið inni í húsinu, ber að ofan, í gallabuxum, verið æstur og undir áhrifum. Hefði ákærði ekki viljað eiga samskipti við þá nema í gegnum glerið á svalahurð íbúðarinnar. Hefði hann síðan farið fram fyrir húsið til að tryggja að ákærði færi ekki út úr húsinu að framan. Kvaðst hann hafa vitað að barn væri inni í húsinu og hann hefði smátt og smátt fengið ítarlegri upplýsingar frá brotaþola um að henni hefði verið haldið í húsinu og hún beitt ofbeldi. Hefði hann þá kallað eftir aðstoð sérsveitar lögreglunnar, þar sem ljóst var að tryggja þyrfti öryggi barnsins. Við komu sérsveitar á staðinn tók hún við stjórn á vettvangi. Kvaðst hann ekki hafa verið í beinum samskiptum við ákærða, þar sem E lögreglumaður hefði séð alfarið um þau samskipti. Kvað hann aðgerðir lögreglu hafa tekið um það bil tvær til þrjár klukkustundir. Hefði ákvörðunin um að fara inn í íbúðina verið á endanum sín. Kvað hann að samningamaður ríkislögreglustjóra hefði verið kallaður til en það sé mjög sjaldgæft. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar þess efnis að ákærði hefði verið með hnífa og hefði stungið sjálfan sig með hníf, en hefði ekki séð það sjálfur. Aðspurður kvað hann ástandið hafa verið alvarlegt og þeir hefðu metið barnið í hættu, bæði út frá því sem þeir sáu og því sem þeim var sagt. Kvaðst hann hafa beðið sérsveitarmenn að fara beint út úr íbúðinni með ákærða, til að umgangur á vettvangi yrði ekki of mikill, því hann hefði fengið símleiðis þær upplýsingar að brotaþola hefði verið nauðgað. Lýsti hann því að hann hefði séð við fyrstu skoðun á íbúðinni, blóð í hjónarúmi og búrhníf í barnarúmi. Kvaðst hann ekki hafa heyrt hótanir ákærða í garð lögreglumanns, en honum hefði verið sagt frá þeim samdægurs. Aðspurður kvað hann veðrið hafa verið þokkalegt á jóladagsmorgun, snjór, mjög kalt og aðeins vindur. Kvað hann að barnið hefði verið sótt af öðrum lögreglumanni og afhent tengilið barnaverndar, sem var ættingi barnsins. Aðspurður um samskipti lögreglu kvað hann að einn lögreglumaður hefði alfarið séð um samskiptin við ákærða og sá lögreglumaður hefði nefnt það að honum hefði verið hótað af ákærða. Kvað hann engar upptökur vera til af þeim samskiptum sem áttu sér stað milli lögreglu og ákærða. Kvað hann ákærða ekki hafa veitt neina mótspyrnu við handtöku. Staðfesti hann frumskýrslu sína fyrir dómi.

J lögreglumaður gaf vitnaskýrslu fyrir dómi. Lýsti hann atvikum þannig að þeir hefðu fengið tilkynningu um alvarlegt mál í [...]. Við komu á staðinn fengu þeir þær upplýsingar að ákærði væri inni með hníf og lítið barn, konan hefði komist út og ákærði hafi hótað að skaða barnið ef lögreglan kæmi inn. Kvað hann ástandið hafa verið metið þannig að ekki var talið óhætt að reyna að brjótast strax inn þar sem barnið gæti þá verið í hættu. Hefði strax verið ákveðið að kalla eftir fleiri sérsveitarmönnum og samningamönnum. Kvaðst hann ekki hafa séð ákærða á vettvangi, fyrr en hann var handtekinn, en heyrt samskiptin í gegnum hurð íbúðarinnar á stigaganginum, þar sem hann var staðsettur. Kvað hann ákærða hafa verið mjög æstan og reiðan. Spurður um ummæli ákærða sem koma fram í skýrslu lögreglu kvaðst hann hafa heyrt þau sjálfur í gegnum hurðina. Kvaðst hann ekki hafa heyrt hótanir ákærða í garð E en heyrði ákærða hóta að stinga lögreglumenn ef þeir kæmu inn. Kvaðst hann hafa heyrt ákærða segja: ,,ef lögregla kemur inn þá sting ég hana“ en sagðist ekki vita hvort ákærði hefði átt við dóttur sína eða einhverja aðra. Staðfesti hann skýrslu sína fyrir dómi.

K, íbúi að [...], gaf vitnaskýrslu fyrir dómi. Lýsti hann sinni aðkomu að málinu þannig að hann hefði heyrt læti, öskur og dynk úr íbúð brotaþola á jólanótt og hefði hann hringt til lögreglu og tilkynnt grun um heimilisofbeldi. Kvaðst hann hafa heyrt hávaða úr íbúðinni frá því hann vaknaði um klukkan 5 um nóttina og líklega fram til klukkan 10 um morguninn. Kvaðst hann ekki hafa heyrt í barninu á þessum tíma. Kvaðst hann hafa verið allsgáður umrædda nótt, farið að sofa um miðnætti en vaknað við hávaðann. Kvaðst hann ekki vera viss hvað hefði liðið langur tími frá því hann vaknaði og þar til hann hringdi. Staðfesti hann fyrir dómi skýrslu sína hjá lögreglu.

L lögreglumaður gaf vitnaskýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum þannig að þeir hefðu fengið tilkynningu um heimilisófrið og farið á vettvang. Við komu á staðinn bakatil hefðu svaladyr verið opnar og þar hefði maður staðið, ber að ofan. Hefðu þeir gefið sig á tal við hann og hefði ákærði þá sagst heita X og að hann hefði verið að rífast við kærustu sína, sem hefði hlaupið út. Fyrir aftan manninn hefði staðið ungt barn, sem virtist vera nokkuð hresst, þrátt fyrir að það væri snemma morguns. Kvaðst hann ekki hafa tekið eftir því að barnið væri útgrátið né með ekka. Hefðu þeir ekki haft vitneskju um hvað hefði gerst, en séð fótspor í snjónum sem lágu frá íbúðinni. Kvaðst hann ekki hafa heyrt hótanir frá ákærða né séð hníf. Er hann hefði farið fram fyrir húsið hefði hann mætt konu sem hefði sagt honum að brotaþoli væri kominn inn í annað hús. Er hann hefði verið á leið þangað hefði félagi hans kallað eftir aðstoð þar sem ákærði væri að loka á hann. Fljótlega hefðu komið fleiri lögreglumenn á vettvang til aðstoðar. Hefði hann þá farið og rætt við brotaþola, sem hefði verið í miklu uppnámi, virst mjög óttaslegin og hrædd um barnið. Hefði hún lýst því að hún hefði sótt barnsföður sinn og þau farið heim, hann hefði svo upp úr miðnætti farið að beita hana ofbeldi. Hefði hún lýst ofbeldinu þannig að hún hefði verið dregin á hárinu og slegin í andlitið. Lýsti hann því að það hefði sést að hár brotaþola hefði verið reytt og hún hefði verið með áverka á nefi. Hefði brotaþoli svo sagt frá því að ákærði hefði hótað að skaða barnið og við það hefði ástandið breyst á vettvangi, þar sem sérsveit var þá kölluð til. Kvaðst hann hafa rætt við tvær systur sem höfðu hleypt brotaþola inn, þær hefðu í raun lýst því sem brotaþoli sagði þeim um ofbeldi og hótanir af hendi ákærða. Vitnið staðfesti þá skýrslu sem hann ritaði.

C, sem var gestkomandi í búð [...], gaf vitnaskýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum þannig að hringt hefði verið dyrabjöllu um miðja nótt, milli klukkan fimm og sex. Reyndist það vera brotaþoli sem sagðist hafa verið haldið í gíslingu í um sex klukkutíma. Hefði stórséð á brotaþola og hún varla getað gengið. Hefði runnið blóð úr munni og nefi brotaþola og hún verið mjög hrædd og sagt að barni sínu væri enn haldið í gíslingu. Hefði verið hringt strax á lögreglu og fljótlega hefðu margir lögreglumenn verið komnir á staðinn ásamt sjúkrabíl. Sagðist hún hafa fylgt brotaþola í sjúkrabíl um einni og hálfri klukkustund síðar og hefði ástand hennar verið mjög slæmt. Hefði brotaþoli haft miklar áhyggjur af dóttur sinni og verið mjög hrædd. Kvaðst hún þekkja til ákærða en ekki brotaþola.

D, íbúi að [...], gaf vitnaskýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum þannig að dyrabjalla hjá henni hefði hringt eitthvað um klukkan sex til sjö um morguninn, en hún væri ekki viss um tímasetninguna. Hefði hún opnað og þá hefði brotaþoli komið inn berfætt, grátandi, með hárið allt út í loftið, blóðug í andliti og illa til reika. Kvaðst hún þekkja brotaþola frá því hún var yngri. Kvað hún það algjöra tilviljun að brotaþoli hefði komið til hennar, þar sem hún hefði verið búin að hringja bjöllum hjá fleirum í húsinu. Hefði brotaþoli sagt að barnið sitt væri hjá ákærða og hefðu þær hringt á lögreglu til að fá aðstoð við að ná barninu út. Hefði brotaþoli lýst því að ákærði hefði nauðgað henni og barið hana og enginn hefði heyrt í henni. Kvað hún brotaþola hafa lýst því að mikill hamagangur hefði verið í íbúðinni og hún hefði reynt að kalla á hjálp. Hefði brotaþoli verið í mjög miklu uppnámi og lýst því að barnið hefði orðið vitni að ofbeldinu. Eftir að lögregla hefði verið komin á staðinn hefði brotaþoli farið að kvarta um kviðverki og hefði verið flutt af staðnum með sjúkrabíl. Kvaðst hún hafa séð barnið eftir að það hefði verið tekið út úr íbúðinni og það hefði verið skelfingu lostið. Hefði amma barnsins beðið eftir að taka á móti barninu inn á heimili vitnisins. Kvaðst hún ekki þekkja ákærða.

M, móðir brotaþola, gaf vitnaskýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum þannig að dóttir hennar hefði hringt í hana milli klukkan hálfsjö og sjö að morgni jóladags og sagst vera í næstu blokk, þar sem hún hefði orðið fyrir árás af hendi ákærða, hún hefði náð að hlaupa út en barnið væri enn inni hjá honum. Kvað hún brotaþola hafa lýst því að ákærði væri búinn að berja sig alla nóttina. Kvaðst hún ekki hafa skilið strax hvað brotaþoli væri að segja því hún hefði verið í svo miklu uppnámi og ekki getað almennilega sagt hvað væri að gerast. Kvaðst hún hafa farið á staðinn og hitt brotaþola sem hefði verið með sprungnar varir, bólgin í framan og með blóðnasir ásamt því að vera aum í baki. Hefði hár hennar verið mjög reytt og brotaþoli átt erfitt með að setjast vegna verkja. Hefði brotaþoli lýst því að ákærði hefði verið með hnífa og ógnað sér með þeim. Kvað hún brotaþola hafa lýst því að henni hefði verið nauðgað og hún beitt ofbeldi. Kvaðst hún hafa verið á staðnum þar til ákærði var handtekinn og þá hefði hún tekið á móti barnabarni sínu í stigaganginum við íbúðina. Kvað hún barnið hafa verið sofandi þegar hún var sótt og virkað illa áttuð og ringluð. Kvaðst hún hafa séð að barnið var mjög þreytt en hún hefði ekki getað merkt hvort það hefði grátið mikið eða verið með ekka. Kvað hún skoðun á barninu ekki hafa leitt í ljós að það hefði verið beitt ofbeldi. Kvað hún hegðun barnsins hafa borið þess merki í margar vikur á eftir að atburðurinn sat í henni. Hefði barnið talað um þetta fyrstu vikurnar og sagt : ,,pabbi lemja mömmu mína.“ Kvað hún brotaþola, dóttur sína, vera illa stadda andlega eftir atvikið. Kvaðst hún ekki vita til þess að ákærði hefði nokkurn tíma áður verið hættulegur barninu.

G læknir gaf vitnaskýrslu fyrir dómi og greindi þannig frá atvikum að hann hefði komið að skoðun á brotaþola á Bráðamóttöku Landspítala og hefði skoðun hans verið gerð um kl. 15 á jóladag. Hefði hann fengið frásögn brotaþola af því hvað hefði gerst. Lýsti hann því að mikið hefði sést af lifandi sæðisfrumum í sýnum, en ekki hefði verið að sjá neina áverka á kynfærasvæði. Kvað hann að kona, sem væri búin að eiga barn, þyrfti ekki að fá áverka á kynfærasvæði við nauðgun. Einnig taldi hann ólíklegt að þær sæðisfrumur sem sáust við skoðun væru eldri en 12 klst. gamlar. Kvaðst hann ekki hafa átt gott með að meta andlega líðan brotaþola, þar sem hún hefði fengið sterk verkjalyf við komu á bráðamóttöku og hefði verið undir áhrifum þeirra. Kvað hann brotaþola hafa verið verulega lemstraða hátt og lágt.

N læknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og lýsti því að hans aðkoma að málinu hefði verið lítil. Hann hefði eingöngu útskrifað brotaþola en ekki gert á henni skoðun umræddan dag. Hefði hann eingöngu skrifað örfáar línur um hana við útskrift. Aðspurður um læknabréf sem liggur fyrir í málinu kvað hann það ekki vera skrifað af honum en hans undirskrift væri á því þar sem hann hefði verið útskriftarlæknir umrætt sinn. Kvaðst hann ekki muna hvernig ástand eða útlit brotaþola var við útskrift.

Rannsóknarlögreglumaðurinn O gaf símaskýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum þannig að óskað hefði verið eftir aðstoð tæknideildar á vettvang. Hefði íbúðin verið innsigluð og hefði hann ásamt öðrum lögreglumanni farið inn, tekið myndir og haldlagt hníf í barnarúmi í svefnherbergi, tvo hnífa í eldhúsi og kvenmannsnærbuxur sem voru á eldhúsborði í eldhúsi. Kvaðst hann hafa skoðað bletti á laki í hjónarúmi sem hefðu reynst vera litur. Kvað hann það hafa komið í ljós síðar, við nákvæma skoðun á myndum af vettvangi, að það var brotinn kappi neðan á efri skáp eldhúsinnréttingar í horni við eldavél. Kvað hann að kappinn hefði ekki verið skoðaður á vettvangi og því ekki athugað hvort væri á honum blóð. Hefði fundist brotin fartölva í íbúðinni. Kvaðst hann ekki telja að vettvangi hefði verið spillt með umgangi, þeir munir sem hefðu verið haldlagðir hefðu ekki legið á gólfinu og því ólíklegt að umgangur hefði haft áhrif á þá. Kvaðst hann ekki hafa kannað hvort hleðsla hefði verið á síma sem fannst á staðnum, enda væri notkun á símanum marktækari um notkun síma, ekki væri hægt að segja til um hvenær sími hefði orðið hleðslulaus. Kvaðst hann hafa framkvæmt réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða áður en hann skoðaði vettvang. Kvað hann ákærða ekki hafa verið samstarfsfúsan til að byrja með en eftir að útskýrt var fyrir honum hvernig það gengi fyrir sig hefði hann sýnt samvinnu. Spurður um lýsingu á sjálfsáverkum á ákærða eftir hníf, kvaðst hann staðfesta það sem stóð í skýrslu sinni.

P sálfræðingur gaf vitnaskýrslu fyrir dómi. Kvaðst hún starfa á Áfallamiðstöð Landspítala og sinna að mestu neyðarmóttöku vegna kynferðislegs ofbeldis. Kvað hún brotaþola hafa leitað til sín og hefði hún hitt hana annan janúar. Í fyrsta viðtalinu hefði brotaþoli verið í frekar miklu uppnámi og hefði lifað miklar tilfinningalegar sveiflur og mikinn dofa til skiptis ásamt miklum svefnerfiðleikum. Það sem hefði þó verið mest áberandi í fyrsta viðtali voru líkamlegir áverkar, og hefði brotaþoli verið upptekin af því. Brotaþoli hefði verið marin í andliti, hölt og virst verkjuð. Hefði brotaþoli nefnt mikla bakverki og viljað sýna henni myndir af áverkunum. Kvaðst hún hafa hitt brotaþola í sjö skipti áður en hún hefði ritað vottorð það sem liggur frammi í málinu. Kvað hún brotaþola hafa lýst mjög miklum ótta sem hún hefði fundið fyrir á meðan ofbeldið hefði átt sér stað. Einnig hefði brotaþoli lýst miklu samviskubiti yfir því að hafa skilið barnið eftir í íbúðinni með ákærða þegar hún hefði komist út. Kvað hún brotaþola hafa fengið greininguna áfallastreituröskun og þunglyndi. Brotaþoli ætti sögu um þunglyndi sem hefði tekið sig aftur upp eftir atburðinn. Kvað hún brotaþola hafa endurupplifað atburði og forðast heimili sitt. Hefði það leitt til þess að brotaþoli gat ekki búið í íbúð sinni og þurfti að búa hjá ættingjum þar til hún fékk nýtt húsnæði. Sagði hún brotaþola forðast samskipti, vera verulega viðbrigðin og með einbeitingarvanda. Kvað hún brotaþola hafa rætt það í fyrstu viðtölunum að dóttir hennar hefði rætt atburðinn töluvert fyrst á eftir. Varðandi horfur brotaþola kvað hún að það væri erfitt að segja til um hverjar þær væru. Kvað hún brotaþola hafa verið hreinskilna og trúverðuga í viðtölum en hún hefði átt erfitt með að ræða andlegan vanda til að byrja með. Kvað hún brotaþola hafa lýst tveimur öðrum eldri áföllum í fyrsta viðtali sem bæði tengdust ofbeldi af hendi ákærða, en ekki virtust þeir atburðir hafa valdið áfallastreitu.

Lögreglumaðurinn E gaf vitnaskýrslu fyrir dómi og lýsti hann atvikum þannig að þeir hefðu komið á vettvang til aðstoðar. Hefði hann farið að íbúðinni baka til og hefði staðið við gluggann á íbúðinni sem hefði öll verið læst, er ákærði hefði komið til hans í annarlegu ástandi og verið mjög æstur. Hefði hann tekið eftir því að bak við ákærða var barn. Hefði ákærði byrjað að ræða rólega við hann en síðan æst upp. Kvaðst hann þá hafa beðið um að fá að sjá barnið og hefði ákærði sýnt honum barnið. Kvaðst hann hafa beðið ákærða um að afhenda sér barnið en ákærði hefði neitað því og sagt: ,,barnið fer ekki héðan út.“ Eftir það hefði ákærði sagst ætla að setja barnið inn í herbergi til að láta það fara að sofa, en komið svo út aftur eftir að lögregla hafði reynt að hringja í hann. Kvað hann ákærða hafa hent símanum í gólfið og verið ósáttur við að lögregla væri að reyna að hringja í hann þegar hann væri að reyna að svæfa barnið. Kvað hann ákærða þá hafa farið að eldhússtandi, gripið þar tvo hnífa og verið mjög ógnandi og með hótanir í garð lögreglu. Kvað hann ógnanirnar fyrst og fremst hafa verið þær að ef þeir kæmu inn, yrði allt vitlaust en síðar hefðu hótanir ákærða farið að beinast gegn vitninu. Hefði ákærði einnig hótað að hann færi ekki út úr íbúðinni, nema dauður. Kvað hann ákærða hafa stungið eða potað með hníf í kviðinn á sjálfum sér, án þess að sérstakir áverkar hefðu sést. Lýsti hann því að hann hefði mestmegnis verið í samskiptum við ákærða en síðar hefði sérsveit og samningamaður verið kölluð á vettvang. Kvað hann ákærða hafa farið inn í herbergi og náð í barnið og komið með það fram, haldandi einnig á tveimur hnífum. Þannig hefði ákærði verið með einn hníf í hvorri hönd og haldið þannig á dóttur sinni. Kvað hann barnið hafa verið rólegt og það hefði ekki virst hrætt. Hefði ákærði svo aftur farið með barnið inn í herbergi og komið svo aftur til að ræða við vitnið. Kvað hann ákærða hafa staðið við glugga sem var við hlið svaladyra, meðan þeirra samskipti áttu sér stað. Kvaðst hann hafa séð vel inn í íbúðina og hefði annar lögreglumaður verið við hlið hans til öryggis. Kvaðst hann hafa spurt ákærða hvort hann hefði neytt fíkniefna, en hann hefði sagst eingöngu vera undir áhrifum áfengis. Hefði ákærði smám saman æst upp, tekið upp hnífana aftur, gengið að glugganum og sagst ætla inn í herbergi að drepa barnið og það væri vitninu að kenna. Síðan hefði ákærði farið inn í herbergið í stutta stund en síðan komið fram aftur, en ekki hefði sést neitt blóð á hnífunum er hann kom fram aftur. Kvað hann hafa komið að því, að ákærði hefði opnað svaladyrnar og ætlað að koma út og ráðast á sig. Kvaðst hann hafa stigið til baka til að reyna að ná ákærða eins langt út úr íbúðinni og hann gæti, því sérsveitarmenn voru staddir þarna til hliðar. Kvað hann ákærða svo hafa aftur stigið inn og lokað hurðinni. Þetta hefði ákærði svo endurtekið og komið aðeins út úr íbúðinni, en ekki nægilega langt svo hægt hefði verið að gefa merki um að hægt væri að fara að honum, án þess að eiga það á hættu að ákærði næði að fara aftur inn og læsa á eftir sér. Kvaðst hann hafa rætt aftur við ákærða en hann hefði æst mjög mikið upp, farið inn í eldhús og náð sér í bol og skó og farið að klæða sig í. Kvað hann ákærða hafa átt í erfiðleikum með að klæða sig og hefði hann þá gefið merki um að farið yrði inn í íbúðina. Kvað hann ógnanir ákærða fyrst og fremst hafa beinst að lögreglunni sem slíkri en síðan að honum sjálfum og fjölskyldu hans. Hefði ákærði hótað að koma heim til hans og drepa hann og fjölskyldu hans. Kvaðst hann hafa tekið þessum hótunum alvarlega, þar sem ákærði hefði verið vopnaður og í annarlegu ástandi. Kvaðst hann telja að samskipti hans við ákærða hefðu líklega staðið yfir í 2-3 klukkustundir, en hann væri ekki viss. Kvað hann ástandið á vettvangi hafa verið metið hættulegt þar sem barn átti í hlut og hefði þess vegna verið kallað á samningamann. Kvað hann samningamann hafa metið það þannig að best væri að vitnið væri áfram í samskiptum við ákærða, en samningamaður hefði verið ráðgefandi og verið staðsettur við hlið hans. Kvaðst hann hafa verið með opna talstöð meðan hann ræddi við ákærða. Kvað hann ákærða ekki hafa sýnt mótþróa við handtökuna sjálfa. Lýsti hann aðstæðum þannig inni í íbúðinni að hnífur hefði legið í barnarúmi við hlið hjónarúmsins þar sem barnið lá sofandi, en ákærði hefði ekki verið með þann hníf þegar hann var frammi. Kvað hann ákærða hafa verið að sýna ógnandi tilburði þegar hann hefði haldið á barninu og hnífunum á sama tíma, þær hótanir hefðu beinst gegn lögreglu en erfitt hefði verið að meta hótunina gagnvart barninu. Kvaðst hann hafa metið það þannig á vettvangi að barnið væri í hættu. Kvaðst hann telja að barninu hefði liðið vel eftir að það var komið í fang ömmu sinnar eftir handtöku ákærða.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Q gaf vitnaskýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum þannig að hann hefði verið beðinn um að hafa upp á vitnum og ræða við þau. Hefði hann ásamt félaga sínum farið og rætt við íbúa í stigaganginum þar sem brotaþoli bjó. Hefðu þeir rætt við D og síðan bankað upp á í sama stigagangi og rætt við fólk. Hefði verið skrifuð skýrsla um þessi viðtöl. Kvað hann að fólk hefði ýmist ekki verið heima umrætt kvöld eða lýst því að það hefði bara heyrt mikið í veðrinu. Hefðu þeir einnig rætt við C, systur D. Hefði hún sagst þekkja eitthvað til ákærða og hefði hún þess vegna stöðvað D í að rjúka til og sækja barnið strax án aðstoðar lögreglu.

H læknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð sem hann gaf út og liggur fyrir í málinu. Kvaðst hann hafa séð brotaþola í fyrsta sinn eftir atvikið þann 9. janúar 2014, en annar læknir á heilsugæslustöðinni hefði séð hana 27. desember 2013 og ávísað á hana kvíðastillandi lyfjum og sterkum verkjalyfjum. Kvaðst hann hafa skoðað hana umræddan dag og hefði hún verið með klínískt rifbrot á neðsta rifi hægra megin. Kvað hann rifbrot greinast sjaldan með hefðbundinni röntgenmynd, því hefði hann pantað tölvusneiðmynd en brotaþoli hefði ekki mætt í þá rannsókn. Kvað hann að töluverðan kraft þyrfti til að brjóta rif í ungum einstaklingi og þyrfti að koma til beint högg.  Hefði brotaþoli verið verulega kvíðin og óróleg þennan dag og í þeim samtölum sem hann hefði átt við hana í síma síðan. Hefði verið áberandi að brotaþoli var mjög upptekin af árásinni og ræddi ekki um annað, hefði hún haft áhyggjur af afleiðingum á dóttur sína. Kvað hann það erfitt að spá fyrir um hvort hún myndi ná sér andlega á næstunni eftir þetta mikla áfall og sagðist efast um að hún myndi ná fullum bata.

F læknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð er hann gaf út og liggur fyrir í málinu. Lýsti hann ástandi brotaþola við komu á slysadeild þannig að hún hefði verið í verulegu uppnámi og liðið illa, með verki víðsvegar um líkamann og dreifða áverka um allan líkamann. Hefði brotaþoli verið útgrátin og léttklædd og með sýnilega áverka. Kvað hann að ekki væri hægt að greina rifbrot á röntgenmynd nema þau væru hliðruð og það hefði verið grunur um rifbrot við skoðun á brotaþola. Kvað hann að rispur sem sáust á upphandlegg brotaþola gætu vel verið eftir hníf og taldi hann það ákaflega hæpið að svona rispa hefði myndast við að detta utan í t.d. eldhúsinnréttingu eða borð, nema ef e.k. járnklæðning væri á borðbrún. Kvað hann að erfitt hefði verið að fá sögu hjá brotaþola þar sem hún hefði verið í mjög miklu uppnámi og hefði hann hlustað á upptökur af frásögn brotaþola frá lögreglu, áður en skoðun var framkvæmd. Kvað hann áverka á brotaþola ekki hafa verið alvarlega, en þeir hefðu hugsanlega getað verið verri ef staðsetning þeirra hefði verið önnur. Kvað hann högg með flötum lófa ekki vera líkleg til að mynda þær markúlur, rifbrot og aðra áverka sem brotaþoli var með. Aðspurður kvað hann það ekki útilokað að þannig áverkar gætu komið eftir fall utan í vegg eða annað. Kvað hann að mikil átök þurfi til að losa hár í því magni sem sást hjá brotaþola.

R rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum þannig að hann hefði farið beint til brotaþola til að fá hennar framburð. Hefði brotaþoli lýst því að henni og barninu hefði verið haldið nauðugum inni í íbúðinni. Hefði ákærði reiðst og beitt hana ofbeldi. Kvað hann brotaþola hafa verið í miklu uppnámi á þessum tíma þar sem barnið hennar var enn inni í búðinni með ákærða. Kvað hann brotaþola hafa lýst því að ákærði hefði hótað að skaða hana og barnið og hefði hún hugsað um lítið annað. Kvað hann það ekki hafa farið á milli mála að brotaþoli óttaðist um líf barnsins þar sem ákærði hefði hótað því að drepa hana og barnið. Kvað hann brotaþola hafa spurt hvort hún fengi einhverja vernd. Kvaðst hann hafa séð áverka á höfði hennar og andliti. Kvað hann frásögn í skýrslu sinni vera beina frásögn frá brotaþola, sem hefði verið tekin upp. Kvað hann brotaþola hafa lýst viðbrögðum dóttur sinnar á þann hátt að barnið hefði beðið pabba sinn um að hætta. Kvað hann brotaþola hafa lýst því að henni hefði verið þröngvað til kynmaka og hefði hún sagt frá því að hluti af eldhúsinnréttingu hefði brotnað við þann verknað. Hefði ákærði hótað henni með eggvopni og neytt hana til munnmaka. Kvað hann brotaþola hafa lýst því að eina leiðin til að losna hefði verið að nýta tækifærið þegar ákærði fór á salernið og hlaupa út um svaladyrnar. Staðfesti hann skýrslu sína fyrir dómi.

IV.

Niðurstaða

Ákærði hefur fyrir dómi játað að hafa aðfaranótt 25. desember, á heimili brotaþola, hrint henni, rifið í hár hennar og slegið hana með flötum lófa. Ákærði neitar að hafa svipt brotaþola frelsi og að hafa hótað brotaþola og dóttur þeirra lífláti. Þá neitar hann að hafa veitt brotaþola áverka með hnífi. Ákærði hefur viðurkennt að hafa stundað kynlíf með brotaþola, sem fólst í samförum um leggöng og munnmökum, einu sinni um nóttina, en kveður það hafa verið með hennar vilja. Ákærði hefur jafnframt neitað því að hafa hótað lögreglu og fjölskyldu lögreglumanns umrætt sinn.

Hér verður fyrst komist að niðurstöðu um það sem ákærða er gefið að sök í I. kafla ákæru og síðan fjallað á sama hátt um II. kafla hennar.

I.                    kafli

Um 1. tölulið.

Ákærði hefur alfarið neitað sök samkvæmt 1. tölulið I. kafla ákæru.

Ákærði bar í skýrslu sinni hjá lögreglu að barsmíðar hans gegn brotaþola hefðu staðið yfir í ½ til 1 klst. Kvaðst ákærði svo hafa haft samfarir við brotaþola en brotaþoli hafi hlaupið út af heimilinu eftir samfarirnar, enda hefði hún verið hrædd. Fyrir dómi bar ákærði að brotaþoli hefði sótt hann um kvöldið. Þau hefðu farið á heimili brotaþola og hefðu þá rifjast upp gömul mál og þau farið að rífast. Brotaþoli hefði sofnað í nokkrar klukkustundir en hann hefði setið og drukkið á meðan. Eftir að hún hefði vaknað hefðu þau stundað kynlíf og allt verið í góðu. Hefðu þau svo aftur farið að rífast, hann hefði tuskað hana til og hefði hún síðan hlaupið út og hringt á lögregluna.

Í skýrslu sinni fyrir dómi bar brotaþoli þannig um atvik að hún hefði sótt ákærða um klukkan ellefu að kveldi aðfangadags, þau hefðu síðan sótt dóttur þeirra og farið heim til hennar. Seinna um nóttina, eftir rifrildi þeirra, hafi ákærði rifið í hár hennar og margkýlt hana. Hefði ákærði haft á orði að hann myndi lemja hana til dauða ef hún viðurkenndi ekki að hún hefði sofið hjá tilteknum manni. Lýsti brotaþoli að ákærði hefði fleygt dóttur þeirra inn í herbergi og haldið áfram að ganga í skrokk á sér, en barsmíðarnar hefðu átt sér stað um alla íbúðina. Kvað hún ákærða hafa spurt hana hvort hún væri hrædd. Seinna um nóttina hafi ákærði rifið hana upp á hárinu, sest ofan á hana og kýlt í andlitið. Hefði hún reynt að laumast inn í herbergi og hringja á lögregluna en ákærði hefði tekið af henni símann. Spurð um síma sem fannst undir kodda í hjónarúminu kvað hún það hafa verið sinn farsíma sem hún hafði reynt að fela, hún hefði ætlað að reyna að hringja á hjálp, en síminn hefði verið batteríslaus. Kvað hún ákærða hafa haft í hótunum við sig á meðan á barsmíðunum stóð og að hann hefði hótað henni og dóttur þeirra lífláti ef hún myndi kæra hann. Kvaðst hún hafa upplifað að hún væri í lífshættu á meðan á þessu stóð. Aðspurð kvaðst hún hafa íhugað það hvernig hún ætti að komast út, en hún hefði aldrei haft tækifæri til að reyna það. Hún hefði aldrei sagst vilja komast út en hún hefði beðið ákærða að fara en hann neitað og sagst ætla að vera áfram og hann myndi lemja hana eins og hund og hún mætti vera fegin að hann berði hana ekki eins og karlmann og hún ætti það skilið. Kvað hún alltaf hafa verið að hugsa hvernig hún kæmist út, en gert sér svo grein fyrir því að hún væri fangi á eigin heimili. Hún hefði verið mjög hrædd og náð að lokum að hlaupa út úr íbúðinni, en hún hefði verið berfætt.

Í skýrslu vitnisins C fyrir dómi kom fram að þegar brotaþoli hafi komið til hennar um nóttina hefði hún strax sagt að sér hefði verið haldið í gíslingu í um sex klukkutíma og barninu hennar væri enn haldið í gíslingu. Vitnið D bar fyrir dómi að brotaþoli hefði sagt að ákærði hefði nauðgað henni og barið hana og enginn hefði heyrt í henni en hún hefði reynt að kalla á hjálp. Í skýrslu vitnisins K fyrir dómi kemur fram að hann hefði fyrst vaknað um klukkan 5 um nóttina og þá heyrt læti úr íbúð brotaþola. Einnig kom fram í skýrslu lögreglumannsins E, sem kom á vettvang eftir að brotaþoli hafði flúið af heimili sínu, að ákærði hefði verið æstur umrætt sinn, hann hefði verið með hnífa og sagst ætla að drepa barnið og það væri vitninu að kenna.

Liggur fyrir að brotaþoli hljóp berfætt og lítið klædd út af heimili sínu, um svaladyr og leitaði ásjár hjá nágrönnum um klukkan 7 að morgni jóladags. Kemur fram í skýrslum vitnanna C og D  að brotaþoli hefði strax sagt þeim að henni hefði verið haldið í gíslingu alla nóttina og að hún óttaðist um barnið sitt sem hún hefði neyðst til að skilja eftir. Jafnframt hefur komið fram að þegar lögregla óskaði eftir því að ákærði afhenti lögreglu barnið hafi ákærði neitað og sagt að barnið færi ekki út og jafnframt hótað því að drepa barnið. Einnig kom fram í vitnisburði læknisins F, sem skoðaði brotaþola á slysadeild að morgni jóladags, að hún hefði haft rispu sem sást á upphandlegg, sem gæti verið eftir hníf.

Enda þótt brotaþoli hafi hvorki verið bundin né læst inni þann tíma, sem um ræðir í málinu, þ.e. frá því um miðnætti 25. desember og þar til hún hljóp út að morgni sama dags, telur dómurinn ákærða hafa skapað þær aðstæður að hún hafi verið ófrjálsa ferða sinna allan þennan tíma og að ákærði hafi svipt hana frelsi sínu með því að brjóta niður mótstöðuþrek hennar og lama hana af hræðslu með hótunum. Kvaðst brotaþoli hafa beðið ákærða að fara af heimilinu en ákærði hefði hafnað því og hótað henni frekara ofbeldi. 

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi svipt brotaþola frelsi sínu umrædda nótt og hótað brotaþola og dóttur þeirra eins og lýst er í ákæru. Verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. og 233. gr. laga nr. 19/1940.

Um 2. tölulið.

Ákærði hefur játað að hafa slegið brotaþola með flötum lófa, hrint henni og rifið í hár hennar umrædda nótt. Ákærði hefur einnig játað fyrir dómi að þeir marblettir sem voru á brotaþola, væru eftir hann. Ákærði hefur alfarið mótmælt að hafa sparkað eða beitt hnefahöggum umrætt sinn. Einnig hefur ákærði neitað því að hafa slegið brotaþola á meðan hún hélt á barni þeirra og að hafa beitt brotaþola ofbeldi í svefnherbergi hennar.

Kom fram í skýrslu F læknis fyrir dómi að brotaþoli hafi verið í verulegu uppnámi við komu á slysadeild umræddan morgun. Hún hefði lýst verkjum víðs vegar um líkamann og verið með dreifða áverka um allan líkamann. Kvað hann hafa verið grun um rifbrot við skoðun á brotaþola. Einnig kom fram hjá vitninu að rispa sem sást á upphandlegg brotaþola gæti vel verið eftir hníf og taldi hann það ákaflega hæpið að svona rispa hefði myndast við að detta utan í t.d. eldhúsinnréttingu eða borð, nema ef einhvers konar járnklæðning væri á borðbrún. Kvað hann högg með flötum lófa ekki vera líkleg til að mynda þær markúlur, rifbrot og aðra áverka sem brotaþoli var með. Kvað hann að mikil átök þyrfti til að losa hár í því magni sem sást hjá brotaþola.

Þrátt fyrir að ákærði hafi neitað atvikalýsingu í ákæru telur dómurinn að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem tilgreind eru í 2. tl. ákæru og varða við 1. mgr. 217. gr. og 233. gr. laga nr. 19/1940.

Um 3. tölulið.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft samfarir við brotaþola einu sinni um nóttina en kveður það hafa verið með hennar vilja.

Í skýrslu ákærða hjá lögreglu bar ákærði því við hann hefði beitt brotaþola barsmíðum í 1/2 til 1 klst. Ákærði sagði jafnframt að brotaþoli hefði aldrei kallað á hjálp á þessum tíma. Eftir þessar barsmíðar sagðist hann hafa átt samfarir við brotaþola í eldhúsinu. Hann sagði að hún hefði ekki neitað þeim, ekki sagt neitt og að hún hefði stunið á meðan á þeim stóð. Eftir samfarirnar sagði hann að brotaþoli hefði hlaupið út, enda hefði hún verið hrædd, því hann hefði verið brjálaður. Ákærði breytti framburði sínum fyrir dómi. Þar kvaðst hann hafa ráðist á brotaþola eftir að þau hefðu haft samfarir. Aðspurður um breyttan framburð fyrir dómi frá skýrslu sinni hjá lögreglu, sagðist hann hafa verið í einangrun þegar lögregluskýrslan var tekinn og hann hefði verið orðinn ruglaður í höfðinu. Kvað hann brotaþola aldrei hafa sagt nei, né já, þetta hefði bara verið venjulegt kynlíf. Jafnframt neitaði ákærði að hafa verið með hníf á meðan á þessu stóð og sagðist ekki hafa hótað brotaþola, hvorki lífláti né líkamsmeiðingum. Kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um það hvers vegna brotaþoli hefði hlaupið berfætt út í snjóinn og skilið barnið sitt eftir, en lýsti því að brotaþoli væri mikið í því að búa til dramatískar aðstæður og væri mjög lygin.

Í skýrslu brotaþola hjá lögreglu kom fram að ákærði hefði ráðist á hana. Hann hefði rifið hana upp á hárinu, sest ofan á hana og kýlt í andlitið. Hann hefði síðan sparkaði í kvið hennar þannig að hún hefði hafnað á gólfinu. Kvaðst hún hafa fengið högg og spörk um allan líkamann og haldið að hún væri að deyja. Brotaþoli kvaðst hafa farið fram í eldhús. Þar hefði ákærði tekið út á sér getnaðarliminn, stungið honum upp í munn hennar og þvingað hana til að eiga við sig munnmök sem hún gerði í einhvern tíma. Hefði hún verið með blóð í munninum eftir barsmíðarnar. Ákærði hefði svo tekið hníf og rispað upphandleggi hennar með honum. Ákærði hefði svo rifið í hár hennar og skellt henni fram fyrir sig þannig að enni hennar hefði lent á lista undir eldhússkáp. Kvað hún listann hafa brotnað við það. Ákærði hefði svo sett hníf að hálsi hennar, girt niður um hana, rifið nærbuxurnar utan af henni og nauðgað henni aftan frá. Tók brotaþoli það fram að ákærði hefði fengið sáðlát inn í leggöng hennar. Kvað brotaþoli að eftir nauðgunina hefði ákærði sagst ætla drepa hana og skera af henni brjóstið. Hefði hann þá farið inn á bað, að hún taldi til að skola af sér blóðið. Hefði hún verið mjög hrædd og náð að hlaupa út úr íbúðinni, en hún hefði verið á ,,táslunum“.

Ákærði hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa haft samræði við brotaþola undir morgun jóladags 2013. Framburður ákærða og brotaþola var nánast samhljóða í skýrslum þeirra hjá lögreglu. Þar kvaðst ákærði hafa verið búinn að tuska brotaþola til, svo hefði hún stundað með honum munnmök og loks hefði hann rifið hana úr nærbuxunum og haft við hana samfarir. Brotaþoli lýsti því hjá lögreglu að ákærði hefði verið búinn að beita sig ofbeldi, svo hefði hann krafið hana um munnmök og síðan rifið af henni nærbuxurnar og nauðgað henni. Bæði báru hjá lögreglu að brotaþoli hefði hlaupið út af heimilinu strax eftir samfarirnar, sem kom ákærða ekkert sérstaklega á óvart þar sem brotaþoli hefði verið hrædd.

Framburður brotaþola hefur verið stöðugur, afdráttarlaus og skýr um málavöxtu og innbyrðis samræmi í honum um öll meginatriði málsins. Einnig er framburður hennar studdur því sem fram kom við læknisskoðun, sem hún gekkst undir síðar um nóttina á neyðarmóttöku Landspítalans. Ljósmyndir af brotaþola sýna, svo ekki verður um villst, skýra rispu á handlegg brotaþola og kemur fram í skýrslu F læknis, að hann telji áverka sem brotaþoli beri samrýmast því að henni hafi verið veittir þeir með hníf en það kemur heim og saman við lýsingu brotaþola á því hvernig ákærði á að hafa haldið hníf að henni á meðan hann nauðgaði henni.

Þegar frásögn ákærða fyrir dóminum er virt í heild er til þess að líta að hún fær enga stoð í öðru því sem komið hefur fram í málinu. Þannig fer framburður hans í veigamiklum atriðum í bága við frásögn hans hjá lögreglu. Að þessu gættu þykir framburður ákærða bera þess merki að hann reyni eftir mætti að draga úr og gera hlut sinn betri en efni eru til.

Verður dómur því ekki reistur á því hvernig ákærði lýsir atvikum fyrir dómi. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið eru engin efni til að vísa á bug þeirri frásögn ákærða hjá lögreglu að hann hafi slegið brotaþola og rifið í hár hennar og vakið hjá henni ótta. Er þá jafnframt til þess að líta að ákærði hefur borið, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hann hafi „snappað“ umrædda nótt.

Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið er sannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi gerst sekur um nauðgun með því að hafa með ofbeldi þröngvað brotaþola gegn vilja hennar til samræðis við sig og annarra kynferðismaka eins og honum er gefið að sök í ákæru og verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum.

II.   kafli

Skýrt er frá því í frum­skýrslu lögreglu að að ákærði hafi ógnað lögreglumanni með hnífi er lögregla var að reyna að tala við ákærða.

Í skýrslu hjá lögreglu var borin undir ákærða lýsing lögreglumanns á vettvangi. bað lögreglu um að drulla sér í burtu og einnig að ef að Lögreglan kæmi inn í íbúðina myndi allt verða vitlaust. X fór svo aftur inn í svefnherbergi og kom ekki aftur fyrr en að lögregla hringdi í heimasíma og ræddi við X, æstist mjög í símtali sínu við lögreglu og endaði samtalið þannig að X henti símanum í gólfið og brotnaði síminn við þetta. Hann fór svo aftur inn í svefnherbergið en kom fljótt út úr herberginu og gekk beint að eldhúsinu og náði þar í hnífana úr standinum. X gekk með hnífana að glugganum og sagðist ætla að beita hnífnum gegn lögreglu skyldu lögreglumenn koma inn í íbúðina. Kvað ákærði þessa lýsingu vera rétta. Hann hefði haldið á hníf fyrir framan lögregluna í því skyni að koma í veg fyrir að lögreglan kæmi inn. Aðspurður fullyrti hann að hann hefði aldrei ætlað að beita hnífnum, sem hann hafði náð í úr hnífastandi í eldhúsinu.

Lögreglumaðurinn, E, bar fyrir dómi að ákærði hefði umrætt sinn verið með hnífa og verið mjög ógnandi og með hótanir í garð lögreglu. Kvað hann ógnanirnar fyrst og fremst hafa verið þær að ef þeir kæmu inn, yrði „allt vitlaust“ en síðar hefðu hótanir ákærða farið að beinast gegn vitninu. Kvað hann ákærða hafa stungið eða potað með hníf í kviðinn á sjálfum sér, án þess að sérstakir áverkar hefðu sést. Seinna um morguninn hafi ákærði opnað svaladyrnar og ætlað að koma út og ráðast á vitnið. Kvaðst hann hafa stigið til baka til að reyna að ná ákærða eins langt út úr íbúðinni og hann gæti, því sérsveitarmenn voru staddir þarna til hliðar. Kvað hann ákærða svo hafa aftur stigið inn og lokað hurðinni. Þetta hefði ákærði svo endurtekið og komið aðeins út úr íbúðinni, en ekki nægilega langt svo hægt hefði verið að gefa merki um að hægt væri að fara að honum, án þess að eiga það á hættu að ákærði næði að fara aftur inn og læsa á eftir sér. Kvað hann ógnanir ákærða fyrst og fremst hafa beinst að lögreglunni sem slíkri en síðan að honum sjálfum og fjölskyldu hans. Hefði ákærði hótað að koma heim til hans og drepa hann og fjölskyldu hans. Kvaðst hann hafa tekið þessum hótunum alvarlega, þar sem ákærði hefði verið vopnaður og í annarlegu ástandi.

Lögreglumaðurinn, J, bar fyrir dómi að hann hefði ekki séð ákærða á vettvangi, fyrr en hann var handtekinn, en heyrt samskiptin í gegnum hurð íbúðarinnar á stigaganginum, þar sem hann var staðsettur. Kvað hann ákærða hafa verið mjög æstan og reiðan. Spurður um ummæli ákærða sem koma fram í skýrslu lögreglu kvaðst hann hafa heyrt þau sjálfur í gegnum hurðina. Kvaðst hann ekki hafa heyrt hótanir ákærða í garð E en heyrði ákærða hóta að stinga lögreglumenn ef þeir kæmu inn. 

Í skýrslutöku sinni fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa hótað lögreglu, hann hafi spurt lögreglumann:  ,,hvernig þætti þér ef ég kæmi heim til þín á aðfangadag og væri að angra þig?“ Ákærði kvaðst hafa verið með hníf af og til umrætt sinn sem lögreglan hefði hugsanlega getað séð og að hann hafi rispað sjálfan sig með hnífnum.

Varðandi þennan þátt ákærunnar er til þess að líta að ákærði hefur sjálfur borið við í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hafi sagt lögreglunni að hann myndi beita hníf gegn lögreglu skyldu lögreglumenn koma inn í íbúðina. Framburður ákærða hjá lögreglu er í samræmi við vitnisburð lögreglu fyrir dómi.

Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi vopnaður hnífi hótað lögreglumanni umrætt sinn. Að því gættu telur dómurinn sannað með vætti lögreglumannanna, en gegn neitun ákærða fyrir dómi, að hann hafi hótað að beita hnífi gegn lögreglumanninum, E. Þessar gerðir og orð ákærða varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Ekki liggja fyrir nægar sannanir um að ákærði hafi hótað fjölskyldu lögreglumannsins og verður hann sýknaður af þeim hluta sakarefnis samkvæmt ákæru.

V.

Ákærði er fæddur í [...] 1981. Samkvæmt sakavottorði á hann að baki nokkur umferðarlagabrot, sem ekki skipta máli við ákvörðun refsingar. Hann var í Héraðs­dómi Reykjaness 21. desember 2010 dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið, í þrjú ár fyrir, frelsis­sviptingu, húsbrot og líkamsárás.

Brot ákærða gagnvart A voru sérlega hrottafengin og langvinn en hann olli henni líkamlegum áverkum og nauðgaði henni með því að þvinga hana til samræðis og annarra kynferðismaka eins og í ákæru greinir. Þá verður litið til þess að hann notaði hníf í atlögunni, svipti hana frelsi sínu og hótaði henni og barni þeirra. Brot ákærða fól í sér rof á heimilisfriði brotaþola með ofríki og má slá því föstu að framganga hans hafi valdið ótta og er þá sérstaklega haft í huga að brotið var til þess fallið að valda barninu vanlíðan um lengri tíma þar sem barn þeirra var vitni að hluta atburðanna.

Gögn málsins bera með sér að brot ákærða hafi haft í för með sér líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir A. Á hann sér engar málsbætur. Ákærði hafði 21. desember 2010 verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið, m.a. fyrir frelsissviptingu og líkamsárás. Er refsing hans, að teknu tilliti til 1., 2., 3., 6. og 7. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. og 77. gr. og með hliðsjón af 1. mgr. 218. gr. b. laga nr. 19/1940, ákveðin fangelsi í sex ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal óslitið gæsluvarðhald frá 25. desember 2013 til dagsins í dag koma til frádráttar refsivistinni.

A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 5.245.980 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að um sé að ræða alvarlegt kynferðislegt ofbeldi, hrottalega líkamsárás og frelsissviptingu. Atlagan hafi verið sérlega hrottafengin. Brotin séu gróft brot gegn persónu, friði og frelsi A og óvíst hvort hún muni nokkru sinni ná sér að fullu. Krafist sé bóta fyrir brot sem muni hafa mjög mikil áhrif á andlega og þar með líkamlega heilsu konunnar um ókomna framtíð. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Í vottorði P sálfræðings er lagt mat á sálræn einkenni og líðan A. Í samantekt kemur fram:

„Allt viðmót A bendir til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta, bjargleysi og lífshættu í meintri líkamsárás og kynferðisbroti. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að A þjáist af áfallastreituröskun og þunglyndi í kjölfar meintrar árásar. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvöruðu vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virtist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.“

Með vísan til þess er hér að framan er rakið, sem og vottorðs P sálfræðings, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið A miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 3.500.000 króna. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.

A hefur einnig krafist skaðabóta úr hendi ákærða fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, B að fjárhæð 2.245.980 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að stúlkan hafi verið ung að aldri er atburðurinn hafi átt sér stað og reynslan henni þungbær. Sæki atburðurinn mjög á stúlkuna og trufli daglegt líf hennar. Um lagarök er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993.

Í vottorði frá leikskólanum, þar sem B er í dagvistun, kemur fram að hún hafi rætt um atburðinn við starfsfólk fyrst á eftir. Hafi orðið vart við hegðunarbreytingu hjá henni og hún hafi verið mun óöruggari og minni í sér en venja var.

Með vísan til þess er hér að framan er rakið, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið B miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar  500.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Verða dráttarvextir reiknaðir frá 24. febrúar 2014 en þá var mánuður liðinn frá því ákærða voru kynntar bótakröfur, sbr. 9. gr. laga, nr. 38/2001.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdóms­lögmanns, vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 941.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdóms­lögmanns., 502.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 461.995 krónur í annan sakarkostnað.

Guðfinnur Stefánsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Allan V. Magnússyni og Hólmfríði Grímsdóttur héraðsdómurum.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í sex ár en frá refsivistinni skal draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 25. desember 2013 til dagsins í dag.

Ákærði greiði A, 3.500.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. desember 2013 til 24. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B, 500.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. desember 2013 til 24. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 941.250 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdóms­lögmanns, 502.000 krónur, og 461.995 krónur í annan sakarkostnað.