Hæstiréttur íslands

Mál nr. 256/2009


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. nóvember 2009.

Nr. 256/2009.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.

 Þórarinn V. Þórarinsson hdl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

 

M og K deildu um forsjá tveggja barna sinna. M hafði farið með forsjá þeirra frá skilnaði aðila árið 1999. Í mati dómkvadds matsmanns var afstöðu og líðan barnanna rækilega lýst. Við meðferð málsins kom fram að báðir foreldrar væru hæfir forsjáraðilar. Talið var að M og K svöruðu þörfum barna sinna með nokkuð ólíkum hætti. M uppfyllti vel þarfir þeirra fyrir aðhald, reglur og aga, en K væri í nánari tilfinningalegum tengslum við þau og virtist umhyggjusamari í huga þeirra. Við meðferð málsins kom einnig fram að K íþyngdi börnunum með forræðisdeilu aðila. Þá væri búseta hennar óljós. M hefði hins vegar sýnt að hann gæti haldið heimili fyrir sig og börnin, sinnt skólagöngu þeirra og almennu uppeldi. Að þessu virtu var það niðurstaða héraðsdóms að ekki hefði verið sýnt fram á að slíkar breytingar hefðu orðið á högum málsaðila að réttlætt gæti breytingu á forsjá. Það væri álit dómsins að börnunum væri fyrir bestu að forsjá þeirra skyldi standa óbreytt, en afar mikilvægt væri að þau nytu áfram eðlilegrar umgengni við K. Bæri því að sýkna M af kröfum K. Var héraðsdómur staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2009. Hún krefst þess að sér verði dæmd forsjá barna sinna og stefnda, A og B, sem fædd eru 1995 og 1996, til 18 ára aldurs þeirra, stefnda verði til sama tíma gert að greiða áfrýjanda meðlag með börnunum frá uppsögu dóms að telja og kveðið verði á um umgengisrétt hans við þau. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefnda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 20. apríl 2009.

                Mál þetta, sem dómtekið var 2. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 5. maí sl.

                Stefnandi er K, kt. [...],[...],[...].

                Stefndi er M, kt. [...],[...],[...].

                Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að henni verði með dómi einni falin forsjá barna hennar og stefnda, þeirra A, kt. [...] og B, kt. [...], til 18 ára aldurs þeirra.  Í öðru lagi er þess krafist að stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs þeirra.  Í þriðja lagi er þess krafist að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar stefnda við börnin.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 10. janúar 2008.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og jafnframt að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt reikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefndi fékk gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 24. júní 2008.  Þar kemur fram að gjafsóknin sé takmörkuð við 400.000 krónur.

Málavextir.

Málsaðilar voru í óvígðri sambúð og eiga saman börnin M sem er fæddur [...] 1995 og B sem fædd er [...] 1996.  Mun meðganga og fæðing barnanna hafa reynst stefnanda erfið og segist hún hafa átt við þunglyndi að stríða í kjölfarið.  Í janúar 1999 slitu þau sambúðinni og staðfestu þau samkomulag þess efnis hjá sýslumanni að stefndi færi með forsjá beggja barnanna.  Hafa börnin frá þeim tíma búið hjá stefnda en stefnandi freistar þess nú í þriðja sinn að fá forsjá barnanna með málshöfðun.  Fyrsta málinu lauk með dómsátt 5. mars 2002 þar sem stefnandi féll frá kröfum um forsjá en féllst á samkomulag um reglulega umgengni við börnin.  Kveðst stefnandi hafa fallist á þessi málalok vegna þrýstings frá stefnda og þar sem hún taldi að umgengni við börnin yrði ekki tryggð með öðrum hætti.  Stefnandi höfðaði enn forsjármál á hendur stefnda árið 2004 og kveður stefnandi ástæðuna vera þá að hún hafi talið hagsmunum barnanna betur borgið hjá sér og þá hafi börnin lýst eindregið þeim vilja sínum til að vera hjá stefnanda.  Því máli lauk með dómsátt 25. nóvember 2005 þar sem sæst var á að stefndi færi með forsjá barnanna og að þau byggju hjá honum og fyrrverandi eiginkonu hans á [...].  Í kjölfar skilnaðar stefnda og konu hans mun stefndi hafa flutt í [...] þar sem fólk hans bjó á þeim tíma, en kona hans varð eftir á [...] ásamt sonum þeirra og hálfbróður sammæðra.  Stefndi mun hafa búið í [...] í tæpt ár en í kjölfar þess að foreldrar hans fluttu til [...] þar sem stórfjölskylda hans býr, ákvað stefndi að flytja þangað með börn sín og stefnanda í desember 2007 og búa þau þar enn.

Í tilefni af málsóknum stefnanda í því skyni að fá forræði barna sinna hafa nokkrar matsgerðir verið unnar í því skyni að leggja mat á og skoða aðstæður aðila með tilliti til þess að unnt yrði að ákveða hvort þeirra teldist hæfara til að fara með forsjá barnanna. Fyrsta matsgerðin var gerð af Aðalsteini Sigfússyni sálfræðingi og er hún dagsett 12. febrúar 2002.  Í matsgerðinni kemur fram að á þeim tíma hafi stefndi búið í einbýlishúsi í [...] ásamt vanfærri eiginkonu sinni en stefnandi hafi búið í tveggja herbergja íbúð á [...] í [...].  Stefndi var þá í fastri vinnu en matsmaður kvað stefnanda eiga sér mjög stutta atvinnusögu og vera á endurhæfingarlífeyri.  Taldi matsmaður að aðstæður stefnda bentu til að hann byggi við  sterkari félagslegar aðstæður en stefnandi. Matsmaður kvað bæði börnin mjög tengd báðum foreldrum sínum og ljóst að þeim liði vel í návist þeirra.  Bentu niðurstöður til þess að A væri uppteknari af móður sinni en föður en B væri háðari föður en móður.  Matsmaður taldi að fengi stefnandi forsjá barnanna myndi verða veruleg breyting á umhverfi þeirra en honum virtust bæði börnin ánægð með félagslegt umhverfi sitt. Hann taldi báða foreldra virðast geta veitt börnum sínum örvun en stefnandi virtist eiga auðveldara með að sýna börnunum tilfinningalegt atlæti. Matsmaður kvað geðsögu stefnanda bera með sér að hún hefði átt við alvarleg geðræn veikindi að stríða á nokkurra ára tímabili og þar að auki hefði hún átt við geðræn einkenni að etja allt frá bernsku.

Önnur matsgerðin var unnin af Ásu Guðmundsdóttur sálfræðingi í tengslum við dómsmálið sem lauk með dómsátt árið 2005.  Matsgerðin er ódagsett en var lögð fram í Héraðsdómi Reykjaness 18. apríl sama ár og virðist hafa verið unnin frá byrjun nóvember 2004 til marsloka 2005.  Matið tók einnig til fyrrverandi eiginkonu stefnda og var það niðurstaða matsmanns að öll þrjú teldust hæfir uppalendur.  Foreldrarnir væru þó mjög ólíkir einstaklingar og áherslur þeirra í uppeldi barnanna mjög ólíkar.  Ákveðinn agi og reglur með refsingum og hlunnindamissi ríkti á heimili stefnda meðan stefnandi lagði mikið upp úr því að hlusta, leiðbeina og sinna tilfinningalegum þörfum barnanna.  Matsmanni virtist tilfinningaleg tengsl barnanna mun sterkari við stefnanda en stefnda, einkum drengsins.  Þau leiti til móðurinnar eftir tilfinningalegri umönnun, þyki báðum vænt um föður sinn en kvarti undan neikvæðu viðmóti eiginkonu hans, ströngum aga og refsingum, pirringi og skömmum á heimilinu.  Börnin óski bæði eftir að flytja til móður sinnar og sé drengurinn mun eindregnari í afstöðu sinni.  Ólíkar uppeldisaðferðir foreldranna og ólíkt tilfinningalegt atlæti skapi mikla togstreitu og ósætti hjá honum og megi telja ólíklegt að það breytist við óbreyttar aðstæður.  Matsmaður taldi greinilegt að málsaðilar hafi kynnt sér vel niðurstöður úr mati á forsjárhæfni þeirra frá árinu 2002 og hafi tekið til umfjöllunar atriði af fyrra bragði sem talin væru til veikleika hjá hvoru um sig og hafi gert úrbætur eða lýst yfir áætlunum um úrbætur.  Frá fyrra mati hafi aðstæður stefnda breyst að því leyti að hann sé öryrki vegna vefjagigtar.  Matsmaður segir geðheilsu stefnanda hafa styrkst til muna og sýni hún engin alvarleg kvíða- eða þunglyndiseinkenni.  Hún taki þunglyndislyf og sé undir eftirliti heimilislæknis, en virðist mun styrkari og framtakssamari en áður. Niðurstaða forsjárprófs sem matsmaður lagði fyrir aðila voru þær að stefnandi hefði mjög góða foreldrahæfni.  Hún sé mjög meðvituð um eiginleika góðs foreldris og þá þætti sem máli skipti varðandi uppeldi og aðbúnað barna.  Niðurstaða forsjárprófsins að því er stefnda varðaði voru þær að hann taldist hæft foreldri.  Hann sé vel meðvitaður um flesta þætti sem máli skipti varðandi uppeldi og aðbúnað barna.

Vegna þessarar matsgerðar var óskað yfirmats og voru sálfræðingarnir Gunnar Hrafn Birgisson og Ragna Ólafsdóttir dómkvödd til starfans.  Stefndi var þá fluttur á [...] ásamt börnum aðila, þáverandi eiginkonu sinni, barni hennar og barni þeirra.  Matsgerð þeirra er dagsett 3. október 2005 og kemur þar fram að tengsl barnanna við báða foreldra séu sterk.  Séu tengslin við móður eingöngu jákvæð en tengsl við föður aðallega jákvæð en einnig komi fram neikvæð atriði.  Á heimili föður séu börnin hluti af sex manna fjölskyldu og þurfi að taka tillit til annarra barna en á heimili móður njóti þau óskiptrar athygli hennar og móðurömmu.  Á heimili föður þurfi börnin að sinna heimanámi og komi það í hlut hans og eiginkonu hans að halda þeim að námi og aðstoða þau.  Á heimili föður séu fleiri fletir í samskiptum sem geti kallað fram togstreitu meðan það reyni minna á slíkt hjá móður.  Matsmenn kváðu A vilja búa hjá móður sinni, aðallega vegna þess að þar væru þau systkinin meira dekruð en hjá pabba.  B hafi ekki getað tekið afstöðu til þess hvar hún vildi búa.  Hún segðist sakna pabba síns þegar hún hefði verið lengi hjá mömmu, eins þegar hún væri hjá pabba, þá vildi hún fara til mömmu.  Matsmenn töldu greinilegt að vel færi um börnin í umhverfinu fyrir norðan, þar líði þeim vel og ekkert hafi fundist sem knúði á að því skyldi breytt.  Þau séu vön að búa aðallega hjá föður og hann hafi verið aðalumönnunaðili þeirra frá skilnaði.  Þau séu vön að búa í litlum samfélögum og að vera í fámennum skólum.  Breyting á þessu fæli í sér verulega röskun fyrir börnin og þá töldu matsmenn óráðlegt að skilja systkinin að.  Matsmönnum virtust uppeldisaðferðir föður og stjúpmóður vera eðlilegar og uppbyggjandi fyrir börnin og hafi þeir ekki fundið annað en að vel sé hugsað um daglega umönnun þeirra í umsjá móður þeirra.  Þau séu greinilega ánægð hjá henni og sækist eftir því að umgangast hana.

Í tilefni af málshöfðun þessari var Ágústa Gunnarsdóttir sálfræðingur dómkvödd til þess að leggja mat á aðstæður aðila.  Stefnandi fór fram á að matið yrði takmarkað við að skoðaðir yrðu og metnir persónulegir eiginleikar og hagir hvors aðila um sig, svo og tengsl þeirra við börnin, en ekki var óskað eftir því að lögð yrðu hefðbundin sálfræðipróf fyrir aðila.  Matsgerðin er dagsett 14. janúar 2009 og kemur þar fram að stefndi búi með börn aðila hjá foreldrum sínum að [...] í [...].  Hann eigi tvö börn með fyrrverandi eiginkonu sinni og hafi hún forsjá þeirra og búi á [...] ásamt stjúpsyni stefnda.  Stefndi sé að gera upp húsnæði sem hann hafi keypt nýlega, en um sé að ræða 110 m² raðhús á þremur hæðum.  Á þeim tíma sem matsgerðin var gerð bjó stefnandi hjá móður sinni í leiguíbúð að [...] í [...].  Íbúðin sé 78m² og deili stefnandi og B herbergi en A hafi sérherbergi.   Stefnandi segir matsmanni að hún sé með vilyrði hjá Félagsbústöðum fyrir 4ra herbergja íbúð, en fyrst þurfi að fella niður 900 þúsund króna skuld vegna fyrri íbúðar, en tekjur hennar væru 123.000 krónur á mánuði.  Stefnandi segist vera búin að plana allt, þau komi til með að búa í [...] og börnin fari í [...]skóla.  Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi hins vegar fram húsaleigusamning sem hún hafði gert um 103,6 m² íbúð að [...] í [...] og er leigufjárhæð 100.000 krónur á mánuði.  Kemur fram að upphaf leigutíma sé 12. febrúar 2009 og lok leigutíma ári síðar.  Fyrir dómi skýrði stefnandi svo frá að hún væri ekki flutt inn í íbúðina. 

Í viðtali matsmanns við A í [...] kom fram að fengi hann þrjár óskir væri sú fyrsta að eiga heima hjá mömmu, önnur að mömmu og pabba kæmi betur saman og sú þriðja að þau ættu ekki í neinum vandræðum með peninga.  Hafi móðir hans sagt honum að fengi hún forsjána myndu þau flytja í [...].  Hann kvaðst myndu verða svekktur ef ákveðið yrði að hann ætti að búa áfram hjá föður sínum en brjálast af gleði ætti hann að búa hjá móður sinni.  Ef pabbi hans fengi forsjána og móðir hans fengi meiri umgengni myndi honum líða aðeins betur með það.  Við upphaf seinna viðtals matsmanns við A í fylgd móður segir matsmaður að móðirin hafi sagt að A hafi þótt fyrra viðtalið óþægilegt, en ekkert útskýrt það frekar.  Þá hafi hún tjáð matsmanni að samkvæmt barnalögum ættu börnin að ráða hvort þau búi hjá móður eða föður.  Matsmaður segir drenginn hafa verið svipbrigðalausan og dapran í viðtalinu.  Hann hafi sagt að hann vildi helst búa í [...] því þaðan væri styttra til tveggja bestu vina hans í [...].

Í viðtali matsmanns við B í [...] kom fram að börnin hefðu verið heima hjá móður sinni þegar hún forsjármálið og hefðu þau í raun vitað um það á undan föður sínum.  Ef hún fengi þrjár óskir kvaðst hún óskað þess að pabbi hennar og mamma yrðu aftur saman, að hún fengi fleiri dýr og hætti væri að drepa ref og minka og önnur dýr fyrir feldi þeirra.  Þegar matsmaður spurði hvernig henni myndi líða ef dómari segði að hún ætti að eiga heima hjá pabba sínum, kvaðst hún ekki vita það.  Ef dómari segði að hún ætti að eiga heima hjá mömmu sinni kvaðst hún verða hágrátandi yfir því að þurfa að flytja en sjálfsagt myndi hún líka gráta ef hún yrði áfram hjá pabba.  Hún kvaðst eiga æskuvinkonu í [...] og þá ætti mamma hennar vinkonur þar.  Aðspurð um líðan ef hún yrði áfram hjá pabba sínum kvaðst hún ekki vita það en taldi að hann yrði mjög sár ef hún segði að hún vildi ekki búa hjá honum og mamma yrði líka sár ef  hún segðist ekki vilja búa hjá henni.  Við upphaf seinna viðtals matsmanns við B í fylgd móður segir matsmaður að móðirin hafi sagt að B hafi þótt fyrra viðtalið óþægilegt, en ekkert útskýrt það frekar.  Þá hafi hún tjáð matsmanni að samkvæmt barnalögum ættu börnin að ráða hvort þau búi hjá móður eða föður.  Matsmaður kvað B ólíka sér frá fyrra viðtali og hafi hún verið mjög neikvæð.  Hún hafi virst döpur, ekki sagt mikið, ekkert að fyrra bragði, setið í lokaðri stöðu með krosslagða fætur og hendur. Hún kvaðst ekki vilja búa í [...], pabbi væri alltaf elta afa og ömmu, ef þau flytja, flytji hann líka. Hún kvaðst vilja að mamma hennar færi með forsjána, hún þori aldrei að segja neitt við pabba sinn en geti sagt allt við mömmu. 

Í samantekt og ályktunum matsmanns kemur fram að á heimili föður séu börnin hluti af stærri heild og þurfi að taka tillit til barna stefnda sem komi í umgengni til hans.  Í umgengni hjá móður njóti þau óskiptrar athygli hennar og endurspegli það tengsl þeirra.  Móðirin geri margt skemmtilegt með börnunum en hjá föður sé meiri regla og agi.  Faðir hafi verið í foreldrahlutverki gagnvart þeim, sett þeim mörk, agað þau, séð um skólanám og tómstundir meðan móðir þeirra hafi meira verið í vinahlutverkinu.  Komi það m.a. fram í því að hún setji þau inn í sín mál, þau hafi t.d. vitað á undan föður sínum að hún hafi ætlað að höfða forsjármál að nýju og þau viti hennar hlið á því hvers vegna faðir fari með forsjána.  Hafi A sagt matsmanni að pabbi hans hafi farið illa með móður sína og platað hana til að skrifa undir samning um að hann fengi forsjána.  Þetta séu upplýsingar sem barn hafi fengið frá fullorðnum og þarna sé verið að setja börnin í deilur foreldranna.  Matsmaður segir báða foreldra lýsa yfir innilegri væntumþykju í garð barnanna og engar forsendur séu til að efast um jákvæðar tilfinningar þeirra.  Börnin virðist ágætlega tengd foreldrum sínum en móðir þeirra virðist ná betur til þeirra tilfinningalega.  Matsmaður segir A almennt í góðu jafnvægi.  Hann sé viðkvæmur, lítið eitt kvíðinn og áhyggjufullur.  Kvíði hans tengist m.a. ferðalögum, honum finnist ekki gott að ferðast með [...] og hann sé flughræddur.  Hann hugsi mikið um forsjármálið og virðist það gera hann óöruggan og öryggislausan.  Móðir hans virðist ná betur til hans en faðir hans.  Honum gangi ágætlega í skóla, hann sé samviskusamur, eigi vini í skólanum og sinni tómstundum. Matsmaður segir líðan B breytilega.  Þegar matsmaður hafi hitt hana í [...] hafi hún verið opin, glaðleg, viðræðugóð og sjálfsörugg.  Í viðtalinu í [...] hafi verið eins og um annað barn væri að ræða, hún hafi verið neikvæð, örg, talað lítið og verið uppspennt.  Niðurstöður matslista hafi verið mjög ýktar, hún hafi lýst mikilli vanlíðan, depurð, kvíða, slakri sjálfsmynd og reiði.  Matsmaður greindi innri togstreitu hjá börnunum og kvað erfitt fyrir þau að setja þau í þá stöðu að velja hvar þau ættu að eiga heima.  Komi það fram í kvíða og áhyggjum og líkamlegum einkennum hjá B.  A sé mjög viðkvæmur og grátgjarn.  Þeim virðist líða vel hjá föður sínum, þau hafi aðlagast vel í skóla, hafi eignast félaga og séu í nánum tengslum við föðurforeldra sína.  Þau virðast bæði sakna móður sinnar, þeim líði vel hjá henni og hafi tjáð vilja sinn um að búa hjá henni.  Þau virðist hafa sterkara tilfinningasamband við móður og geti rætt við  hana um ýmis mál.  Hún virðist eftirgefanlegri í samskiptum við þau og geri ýmislegt skemmtilegt með þeim þegar þau komi í umgengni.  Móðirin hafi leyft B að máta sig inn í skóla í [...] og búið sé að byggja upp miklar og óraunhæfar væntingar barnanna um að allt yrði frábært ef þau væru hjá móður sinni.  Þau væru í betra húsi, í betri skóla, fengju betri þjálfara í íþróttum, fleiri krakkar væru þar með sömu áhugamál og meira hægt að gera með vinum sínum.  Matsmanni virtist börnin eiga góð og sterk tengsl við foreldra sína.  Ekkert hafi komið fram um að þeim líði illa hjá föður sínum í [...] og ekki sé óeðlilegt að börn tjái vilja sinn til að vera meira með því foreldri sem ekki hafi forsjána.  Þeim finnist erfitt að skilja við móður sína og vilji vera lengur hjá henni, móðir gráti þar sem hún sakni barnanna og þau gráti líka stundum þegar þau skilji við hana, en það þurfi ekki að þýða að þeim líði illa hjá föður sínum.  Matsmaður telur óráðlegt að skilja börnin að.  Matsmaður bendir á að móðirin geti leigt húsnæði á almennum markaði og fengið húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur. Matsmaður segir móður njóta stuðnings frá móður sinni, systkinum og kærasta en faðir njóti liðsinnis foreldra sinna og þá eigi hann stóra fjölskyldu í [...] sem hann hafi stuðning af. Börnin hafi búið í [...], í [...], á [...] og í [...].  Þau hafi búið hjá föður frá skilnaði og sé framtíðarhúsnæði þeirra í [...].  Þau hafi aðlagast ágætlega í skóla þar og eignast vini og telur matsmaður það fela í sér verulega röskun fyrir börnin að flytja til [...] í óþekkt umhverfi, í nýjan skóla og sé hætta á aðlögunarörðugleikum.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að það sé börnunum fyrir bestu að hún fari með forsjá þeirra enda séu tengsl hennar og barnanna afar sterk og góð.  Hafi stefnandi verið aðalumönnunaraðili barnanna meðan aðilar voru í sambúð og eftir sambúðarslit hafi stefnandi gætt þess að viðhalda nánum tengslum við börnin þrátt fyrir að umgengni þeirra við hana hefði verið takmörkuð af hálfu stefnda á tímabili.  Þá komi fram í álitsgerð Ásu Guðmundsdóttur sálfræðings að tilfinningaleg tengsl barnanna virðist mun sterkari við stefnanda en stefnda, einkum drengsins og að börnin leiti til stefnanda eftir tilfinningalegri umönnun.  Stefnandi hafi mestan hluta ársins 2007 borið hitann og þungann af umönnun barnanna þar sem hún hafi þá búið á heimili stefnda og þeirra.  Hafi tengsl hennar og barnanna því styrkst verulega undanfarið ár og sé samband hennar við börnin því nánar og betra en samband stefnda við þau.  Þá byggir stefnandi á því að hún hafi fremur en stefndi þá persónulegu eiginleika sem þurfi til að ala önn fyrir börnunum.  Í áðurnefndri álitsgerð komi fram að stefnandi hafi mjög góða foreldrahæfni meðan stefndi sé einvörðungu talinn vera hæft foreldri.  Þá sé hún meðvituð um eiginleika góðs foreldris og þá þætti sem skipti máli varðandi uppeldi og aðbúnað barna.  Þá hafi hún engin merki sýnt um geðræn vandamál eða sértækar persónuleikatruflanir og hafi góðan sjálfsstyrk.  Þá komi fram í álitsgerðinni að stefnandi sé í góðu jafnvægi og hafi góða innsýn í eigið líf og þarfir barnanna, öfugt við stefnda.

Við munnlegan flutning málsins kom fram að stefnandi hefði leigt íbúð á frjálsum markaði, hún fengi endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og þá gæti hún náð endum saman með því að fá sérstakar húsaleigubætur. Þá njóti hún góðrar aðstoðar móður sinnar og annarra fjölskyldumeðlima og vina.

Stefnandi byggir á því að frá því dómsáttin hafi verið gerð árið 2005 hafi aðstæður stefnda og barnanna breyst mikið til hins verra.  Stefndi sé skilinn við eiginkonu sína og hafi tvívegis flutt á milli landshluta, síðast frá [...] til [...].  Stefnandi telur forsendur sáttarinnar brostnar enda hafi stefndi og fyrrum eiginkona hans aldrei leitað til sálfræðings eins og sátt hafi náðst um.  Stefnandi óttast að með búsetu barnanna í öðrum landshluta muni tengsl þeirra við hana rofna og þau ekki hljóta þá tilfinningalegu umönnun sem þau þarfnist.  Þá byggir stefnandi á því að það sé skýr vilji barnanna að búa hjá henni og verði ekki hjá því komist með hliðsjón af aldri þeirra að taka tillit til afstöðu þeirra. 

Stefnandi krefst þess einnig að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar barnanna við stefnda, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Stefnandi byggir forsjárkröfu sína á 34. gr. barnalaga og reisir kröfu um einfalt meðlag með börnunum á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga og lágmarksmeðlagsskyldu forsjárlauss foreldris samkvæmt 57. gr., sbr. 55. gr. sömu laga.  Um heimild dómara til að kveða á um meðlagsskyldu vísar stefnandi tl 4. mgr. 34. gr. barnalaga.  Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr. og þá er vísað til fyrrgreinds gjafsóknarleyfis.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að með því séu hagsmunir barnanna best tryggðir, sbr. 34. gr. laga nr. 76/2003.  Ekki sé sýnt fram á að breyting á forsjá þeirra þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna eða sérstakra þarfa barnanna og ekki hafi verið sýnt fram á að forsjárbreyting samræmist högum þeirra.  Þurfi veigamikil rök til að fallist verði á kröfu um forsjárbreytingu sem hafi svo mikið rask í för með sér á högum barnanna þar sem forsjáin hefur verið í höndum stefnda frá árinu 1999.  Ekkert í gögnum málsins gefi ástæðu til að ætla að þörf sé á breytingu á aðstæðum barnanna nema síður sé.  Börnin hafi þroskast vel í umsjá stefnda, þeim gangi vel í skóla og séu að öllu leyti í góðu jafnvægi.  Stefndi telur börnin mjög tengd sér og fólki sínu tilfinningalega, enda hafi þau alltaf verið í umsjá hans og í nánum tengslum við stórfjölskyldu stefnda, sérstaklega föðurforeldra.  Hafi stefnandi reynt að hafa áhrif á börnin og höfða til þeirra um betri kjör á heimili sínu en stefndi telur að þegar til komi muni þau lýsa yfir vilja til óbreyttrar búsetu hjá stefnda.

Stefndi segir aðstæður sínar til að hafa forsjá barnanna mjög góðar.  Hann hafi fest kaup á húsnæði í [...] með aðstoð foreldra sinna og sé hann að gera húsnæðið upp.  Börnin hafi aðlagast vel í skóla og eignast vini og kunningja, þau séu í góðu jafnvægi og ljóst að vel muni fara um fjölskylduna í nýju íbúðinni, þar sé nægilegt rými, jafnvel þegar synir stefnda komi í umgengni.  Eftir flutning stefnda til [...] hafi hann og fyrrverandi eiginkoma hans gert með sér samkomulag um að drengirnir komi eina helgi í mánuði í stað annarrar hverrar helgar.  Séu tengsl barnanna allra innbyrðis mjög góð og fagnaðarfundir þegar umgengnishelgar eigi sér stað.   Stefndi segist vera öryrki og óvinnufær en hann fái örorkubætur  og gangi vel að láta enda ná saman.  Hafi hann því góðar aðstæður til að vera til staðar fyrir börnin, aðstoða þau við heimanám og tómstundastarf.  Hafi stefndi ávallt verið virkur í skólastarfi barnanna og átt góð samskipti við skóla þeirra.  Stefndi telur aðstæður stefnanda miklum mun verri, hún sé á örorkubótum vegna geðrænna erfiðleika og hafi svo verið árum saman.

Stefndi segir umgengni barnanna við stefnanda hafa gengið vel en stefndi telur ástæðu til að ætla að stefnandi muni ekki stuðla að umgengni barnanna við stefnda fái hún forsjá þeirra.  Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi borið hitann og þungann af uppeldi barnanna á árinu 2007. Hið rétta sé að stefnandi hafi dvalið í nokkur skipti á heimili stefnda, nokkra daga í senn, á nokkurra mánaða tímabili þetta ár en farið heim til sín á milli og því í reynd verið um stuttar heimsóknir að ræða.  Hafi hún verið afskaplega þreytt eftir þær heimsóknir enda virtist henni um megn að taka svo mikinn þátt í umönnun barnanna.

Stefndi mótmælir því að hann og eiginkona hans hafi ekki sinnt sálfræðiviðtölum, hið rétta sé að þau hafi hitt hann, allt hafi gengið vel á þeim tíma og ekki hafi verið talin ástæða til að halda viðtölum áfram.  Sé því fráleitt að halda því fram að forsendur sáttarinnar séu brostnar af þeim sökum.

Stefni byggir málskostnaðarkröfu á 130. gr. laga nr. 91/1991 og framangreindu gjafsóknarleyfi.

Niðurstaða.

Stefnandi freistar þess nú í þriðja sinn að fá forsjá barna sinna og stefnda í sínar hendur.  Allgóð mynd hefur fengist af högum málsaðila undanfarin ár, enda hefur verið aflað matsgerða nokkurra sálfræðinga í tilefni af þessum málaferlum.  Stefndi hefur farið með forsjá barnanna frá skilnaði aðila árið 1999 eða í um 10 ár.  A var þá um fjögurra ára gamall en B rúmlega tveggja ára.  Lögmenn aðila og dómendur voru sammála um að ekki væri ástæða til þess að dómendur kynntu sér afstöðu barnanna en í mati Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings, sem aflað var í tilefni þessa máls, er afstöðu þeirra og líðan rækilega lýst.  Við meðferð málsins hefur komið fram að báðir foreldrar eru hæfir forsjáraðilar. 

Eins og rakið hefur verið hafa börnin búið hjá stefnda frá 1999 og hefur umgengni verið í nokkuð föstum skorðum eftir að dómsátt var gerð 2002.  Þó hafa búferlaflutningar stefnda haft áhrif á umgengni en hann bjó í [...] og síðan flutti hann á [...] ásamt fyrrverandi konu sinni en þau skildu í september 2006.  Stefndi flutti tímabundið aftur í [...] en flutti svo til [...] um jól 2007.  Eftir það hafa börnin hitt stefnanda einu sinni í mánuði frá þriðjudegi til sunnudags.   Börnin hafa nú búið hjá stefnda undanfarin tíu ár og sýnt eðlilegar framfarir.  Þau hafa staðið sig vel í námi, virðast hafa verið í jafnvægi og eiga gott og náið samband við báða foreldra. 

Fram hefur komið í málinu að málsaðilar höfða hvort með sínu móti til barna sinna og svara þörfum þeirra með nokkuð ólíkum hætti.  Stefndi uppfyllir vel þarfir barnanna fyrir aðhald, reglur og aga en stefnandi er í nánari tilfinningalegum tengslum við börnin og virðist umhyggjusamari í huga systkinanna, einkum drengsins. Þannig kemur fram vilji hjá honum til að búa hjá stefnanda í framtíðinni.  Systkinin eru vel tengd innbyrðis. 

Við meðferð hefur komið fram að stefnandi ræðir forræðisdeiluna við börnin og virðist því sem hún setji þau inn í deilur foreldranna og íþyngi þeim þannig með málum sem börn eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af.  Einnig er búseta stefnanda óljós, hún mun nýlega hafa tekið á leigu íbúð í [...] en engin reynsla er komin á heimilishald hennar þar.  Hún hafði áður byggt upp væntingar hjá börnunum um búsetu í [...] þar sem hagur þeirra yrði miklu betri ef hún fengi forsjána.  Stefnandi hefur áður haft íbúð á leigu en náði ekki að halda henni og skuldar leigu af þeim sökum.  Hún hefur búið hjá móður sinni að undanförnu.  Stefndi hefur sýnt undanfarinn áratug að hann getur haldið heimili fyrir sig og börnin, sinnt skólagöngu þeirra og almennu uppeldi. Hann hefur fest kaup á íbúð í [...] þar sem foreldrar hans og stórfjölskylda búa.  

Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að slíkar breytingar hafi orðið á högum málsaðila að réttlætt gæti breytingu á forsjá.  Það er álit dómsins að börnunum sé fyrir bestu að forsjá þeirra skuli standa óbreytt, en afar mikilvægt er að þau njóti áfram eðlilegrar umgengni við stefnanda.  Ber samkvæmt framangreindu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.  

Málskostnaður er felldur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem er þóknun lögmanns hennar, Þyríar Steingrímsdóttur hdl., 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, sem og kostnaður vegna matsgerðar og annar útlagður kostnaður lögmannsins, 34.095 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnda sem er þóknun lögmanns hans, Valborgar Þ. Snævarr hrl., 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, sem og útlagður kostnaður lögmannsins, 23.408 krónur og kostnaður vegna aksturs, 10.488 krónur.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóminn ásamt sálfræðingunum Sæmundi Hafsteinssyni og Þórkötlu Aðalsteinsdóttur sem meðdómsmönnum.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en lögmenn aðila og dómendur voru sammála um að endurflutnings væri ekki þörf.

DÓMSORÐ:

Stefndi, M, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, K í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem er þóknun lögmanns hennar, Þyríar Steingrímsdóttur hdl., 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, sem og kostnaður vegna matsgerðar og annar útlagður kostnaður lögmannsins, 34.095 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnda sem er þóknun lögmanns hans, Valborgar Þ. Snævarr hrl., 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, sem og útlagður kostnaður lögmannsins, 23.408 krónur og kostnaður vegna aksturs, 10.488 krónur.