Print

Mál nr. 450/2013

Lykilorð
  • Hlutafélag
  • Hlutafé
  • Lögmaður
  • Réttindasvipting
  • Skilorð

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 13. mars 2014.

Nr. 450/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Lýði Guðmundssyni og

(Gestur Jónsson hrl.)

Bjarnfreði H. Ólafssyni

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Hlutafélag. Hlutafé. Lögmaður. Réttindasvipting. Skilorð.

L og B voru sakfelldir fyrir brot gegn lögum nr. 2/1995 um hlutafélög. L með því að hafa, sem stjórnarmaður í B ehf., brotið gegn ákvæðum laganna um greiðslu hlutafjár með því að greiða E hf. minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í félaginu, en B ehf. skyldi greiða fyrir hlutina með 1 milljarði hluta í K ehf., sem metnir höfðu verið á 1 milljarð króna. Var háttsemi L talin varða við 1. mgr. 16. gr., sbr. 2. tölulið 1. mgr. 153. gr. laga nr. 2/1995. B var sakfelldur fyrir brot gegn 1. tölulið 1. mgr. 153. gr. laga nr. 2/1995 með því að hafa sent villandi tilkynningu til fyrirtækjaskrár þar sem kom fram að hækkun á hlutafé E hf., að nafnverði 50 milljarðar króna, hefði að fullu verið greidd til félagsins. Var refsing L ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en fullnustu 5 mánaða af henni var frestað skilorðsbundið í 2 ár. Var refsing B ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en fullnustu 3 mánaða af henni var frestað skilorðsbundið í 2 ár. Þá var B sviptur réttindum til þess að vera héraðsdómslögmaður í 1 ár.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2013 af hálfu ákæruvaldsins. Hann krefst þess að ákærðu verði sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru, refsing ákærða Lýðs Guðmundssonar verði þyngd og ákærða Bjarnfreði H. Ólafssyni gerð refsing auk þess sem hann verði sviptur réttindum til að vera héraðsdómslögmaður.

Ákærði Lýður krefst aðallega sýknu, til vara að sér verði ekki gerð refsing en að því frágengnu að refsing verði skilorðsbundin.

Ákærði Bjarnfreður krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, til vara að sér verði ekki gerð refsing en að því frágengnu að ákveðin verði vægustu viðurlög sem lög frekast heimila.

I

1

Í vottorði úr fyrirtækjaskrá, sem starfar eftir ákvæðum laga nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá og gegnir meðal annars hlutverki hlutafélagaskrár samkvæmt lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, var tilgangur Exista hf. sagður „vera fjármálaþjónustufyrirtæki í gegnum hluti í öðrum félögum“, meðal annars á sviði vátryggingarstarfsemi, svo og á sviði fjármála-, lána- og fjárfestingastarfsemi, þar með talið eignaleigu, og á sviði öryggisþjónustu, enn fremur að hafa með höndum kaup og sölu verðbréfa og fasteigna, þjónustu við dótturfélög og annan skyldan rekstur. Ákærði Lýður var stjórnarformaður félagsins á þeim tíma er máli skiptir. Hinn 30. október 2008 var haldinn hluthafafundur í félaginu þar sem gerðar voru þrjár breytingar á samþykktum þess, meðal annars svofelld breyting á 2. mgr. 4. gr. þeirra: „Stjórn félagsins er heimilt að auka hlutafé þess um allt að 50.000.000.000 króna að nafnverði eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í evrum, með áskrift allt að 50.000.000.000 nýrra hluta.“ Kom fram í ræðu ákærða Lýðs á fundinum að ekki væru uppi áform um að nýta heimild til hlutafjáraukningar eins og sakir stæðu, en stjórnin teldi mikilvægt að félagið hefði verulegt svigrúm til að styrkja eiginfjárgrunn sinn ef aðstæður kölluðu á slíkt og tækifæri gæfist. Tilkynning um niðurstöður hluthafafundarins var birt í kauphöll sama dag og hann var haldinn, jafnframt því sem fyrirtækjaskrá var tilkynnt um þær 4. nóvember 2008.

Nýi Kaupþing banki hf. sendi 3. desember 2008 bréf til hollensks félags með heitinu Bakkabraedur Holding B.V., sem ákærði Lýður mun hafa verið í fyrirsvari fyrir. Var í bréfinu vísað til þess að félagið hafi 29. september 2006 sett að handveði til Kaupþings banka hf. 6.407.905.675 hluti í Exista hf. til tryggingar nánar tilgreindum skuldum, en nýi bankinn hafi tekið yfir þau kröfuréttindi ásamt tryggingunni fyrir þeim. Með því að gangverð hlutanna hafi lækkað svo að það næmi aðeins 73,6% af fjárhæð skuldanna væri kallað eftir því að félagið annað hvort greiddi þær niður eða setti frekari tryggingu fyrir þeim ekki síðar en 8. desember 2008 að viðlögðu því að bankinn gengi að handveðinu. Samkvæmt gögnum málsins var hlutafé í Exista hf. á þessum tíma samtals 14.174.767.632 krónur og náði handveðréttur Nýja Kaupþings banka hf. þannig til um 45,2% af hlutafénu.

2

Logos lögmannsþjónusta sf., sem ákærði Bjarnfreður er meðal eigenda að, stofnaði 12. nóvember 2008 þrjú einkahlutafélög sem fengu heitin ELL 194, ELL 195 og ELL 196 og var hlutafé í hverju þeirra 500.000 krónur. Ákærði Bjarnfreður sendi 1. desember 2008 tölvubréf til annars starfsmanns lögmannsstofunnar þar sem fram komu tilmæli um að breyta nafni eins þessara félaga í BBR ehf., en það myndi „kaupa stóran hlut í Bakkavör Group hf. á morgun eða næstu daga.“

Samkvæmt framlögum fundargerðum voru haldnir hluthafafundir í þessum félögum 3. desember 2008, þar sem heiti ELL 194 ehf. var breytt í Kvakk ehf., ELL 195 ehf. fékk nafnið BBR ehf. og ELL 196 ehf. varð Korkur vélaleiga ehf. Ákærði Lýður var kjörinn stjórnarmaður í öllum félögunum og A til vara, en einnig var samþykkt á hluthafafundunum að flytja heimilisfang félaganna að Ármúla 3 í Reykjavík, þar sem Exista hf. hafði starfstöð. Samhliða þessu gerði Logos lögmannsþjónusta sf. kaupsamninga um hluti í félögunum þremur. Í einum af þessum samningum keypti Korkur ehf., sem ákærði Lýður kom fram fyrir ásamt A, alla hluti í BBR ehf. af lögmannsstofunni, í öðrum keypti BBR ehf. alla hluti í Kvakki ehf. og í þeim þriðja keypti Korkur ehf. alla hluti í Korki vélaleigu ehf., en í öllum tilvikum var kaupverð hlutanna það sama og nafnverð. Samkvæmt fundargerð var haldinn annar hluthafafundur í Kvakki ehf. 3. desember 2008, þar sem ákærði Lýður var einn mættur. Þar kom fram að ákveðið hafi verið að hækka hlutafé í félaginu um 1.000.000.000 krónur með útgáfu nýrra hluta að nafnverði 1 króna hver, svo og að eini hluthafinn í félaginu, BBR ehf., hafi skráð sig fyrir öllum hinum nýju hlutum og að nýja hlutaféð væri „greitt samhliða áskrift.“

Korkur vélaleiga ehf. og BBR ehf. gerðu samning 4. desember 2008 um að fyrrnefnda félagið veitti því síðarnefnda lán að fjárhæð 1.000.000.000 krónur, sem átti að endurgreiða í einu lagi ásamt 15% ársvöxtum 4. desember 2011. Ákærði Lýður undirritaði samning þennan fyrir hönd beggja aðila.

3

Í gögnum málsins eru mörg tölvubréf sem gengu milli starfsmanna Exista hf. og Logos lögmannsþjónustu sf. á tímabilinu 2. til 4. desember 2008 og báru yfirskriftina: „Drög að samningi um kaup á hlutum í Kvakki ehf.“ Í orðsendingu 2. desember 2008 frá C héraðsdómslögmanni hjá Logos lögmannsþjónustu sf. til samstarfsmanna sinna D héraðsdómslögmanns og ákærða Bjarnfreðs, svo og tveggja lögfræðinga sem munu hafa starfað hjá Exista hf., E og F, sagði meðal annars: „Meðfylgjandi eru fyrstu drög að kaupsamningi um hluti í Kvakki ehf. Eins og við töluðum um þurfum við að skoða nánar fyrirvarann um að samningar náist við kröfuhafa um endurskipulagningu.“ Þessu svaraði E á eftirfarandi hátt að morgni 3. desember 2008: „Meðfylgjandi finnur þú drög að kaupsamningnum með fáeinum commentum frá okkur er varða framhaldið og breytingu á orðalagi.“ Í annarri orðsendingu hans síðar þann dag sagði: „Hvenær má eiga von á upplýsingum um yfirtökureglur, þ.e. verð og þess háttar? Það væri gott ef hægt væri að hraða því. ... Getið þið verið okkur innan handar vegna tilkynningar á Kauphöll vegna þessara viðskipta sem þarf væntanlega að setja inn í Kauphöll í fyrramálið áður en markaðir opna þar sem stjórnarfundur verður í kvöld þar sem samþykkt verður að kaupa félagið og LG og ÁG (félag) skráir sig fyrir allri fjárhæðinni.“

Laust fyrir hádegi 3. desember 2008 sendi G, sem átti sæti í stjórn Exista hf., út boð um stjórnarfund í félaginu klukkan 19 þann dag. Sendi ákærði Lýður í kjölfarið svofelldan tölvupóst til beggja forstjóra Exista hf. og F: „Mikilvægt er að senda eitthvað á eftir þessu sem fyrst þannig að menn haldi ekki að það séu að koma 50 milljarðar inn í félagið!!!!!“

Í tölvupósti skömmu síðar frá F til áðurnefndra starfsmanna Exista hf. og Logos lögmannsþjónustu sf. sagði meðal annars: „Logos – það þarf einnig að fara yfir yfirtökureglur þar sem [...] munu eignast 88% í félaginu. Þurfum asap álit á hvaða verði yfirtökuverð þeirra yrði.“ Þessu svaraði C svo þegar liðið var á dag: „D hefur verið bundinn á fundum í allan dag og hefur því ekki haft tækifæri til að skoða þessi mál. Það eru einhver hugsanleg vandkvæði varðandi lýsinguna, undanþágan er víst ekki mjög sterk. Veit að D mun skoða þetta nánar þegar hann kemur í hús. Varðandi gengi hlutanna þá er óheimilt að áskriftarverð hlutanna í Exista sé lægra en nafnvirði og því er ljóst að 0,02 gengur ekki. Bjarnfreður er held ég búinn að nefna þetta við ykkar fólk. Verið er að skoða möguleika á öðrum leiðum.“ Um fimmleytið síðdegis sendi F svohljóðandi tölvubréf: „Við þurfum e-n frá Logos á símafund með okkur asap ef niðurstaðan er að leiðin sem til umræðu var gengur ekki. Stjórnarfundur er eftir 2 klst.“ Þessu svaraði C um hæl: „Bjarnfreður verður í sambandi eftir örfáar mínútur.“ Laust fyrir klukkan sjö um kvöldið sendi H starfsmaður á fjármálasviði Exista hf. svofellt tölvubréf meðal annars til þeirra sömu og áður hefur verið getið: „Sæl, nýjustu fréttir frá Deloitte: 1. Þeir eru tilbúnir að samþykkja verðmat nýrra hluta (0,02 pr. hlut) 2. Þeir vilja að Logos staðfesti hækkunina, þ.e. 50 ma. hækkun greidd með 1 ma. 3. Jafnframt að tengt verði við tilkynningar sú atburðarrás sem fara mun fram í kjölfarið, þ.e.: - boðun hluthafafundar, þar sem hlutafé verður lækkað - öðrum hluthöfum gefinn kostur á því að taka þátt í hlutafjáraukningu“. C sendi síðan klukkan 19.44 þennan dag svofelldan tölvupóst til ákærða Bjarnfreðs: „Bara ad lata thig vita ad thad hefur ekki tidkast ad Logos stadfesti svona lagad og vid reynum ad fordast that. Thad er ad okkar mati edlilegt ad endurskodandi geri thetta i sama plaggi og serfraediskyrslu. En thu metur thad bara.“

Að kvöldi 3. desember 2008 sendi ákærði Bjarnfreður ákærða Lýði svofellt tölvubréf: „Þar sem lán Bakkabraedur Holding BV er frá Kaupþingi á Íslandi, þá velti ég fyrir mér hvort ekki sé hægt að setjast niður með þeim á morgun með eftirfarandi tillögu: Fyrir liggi vilyrði um nýtt hlutafé í Exista hf. frá nokkrum af æðstu stjórnendum félagsins, ef samkomulag næst um eftirfarandi aðkomu; - Boðað verði til hluthafafundar í Exista hf. nú þegar; - Ef Kaupþing ákveður að ganga að hlutum í eigu Bakkabraedur Holding BV, þá muni bankinn styðja tillögu stjórnar félagsins um lækkun hlutafjár til jöfnunar taps og hækkun hlutafjár með áskrift nýrra hluta - Með þessum hætti eru fjárfestar tilbúnir að koma inn með um 1 milljarð af nýju hlutafé, aðrir hluthafar hafa einnig tækifæri til að auka sinn hlut - Jafnframt verði félaginu breytt í einkahlutafélag (=engin stimpilgjöld, ekki prospectus eða yfirtöku issue) Ég á bágt með að sjá að bankinn hafi nokkur rök fyrir að standa þessu í vegi. Er í raun forsenda þess að félagið starfi áfram og að Kaupþing geti fengið eitthvað fyrir hluti sína í félaginu o.s.frv. Í ljósi þeirra vandkvæða sem eru á verðmati, skráningar- og yfirtökumálum í núverandi plani, þá velti ég því fyrir mér hvort það sé ekki þess virði að reyna þessa leið? Þú hringir endilega ef þú vilt ræða þetta núna. Á fund með Deloitte kl. 9 í fyrramálið.“ Þessu svaraði ákærði Lýður með svofelldum hætti laust eftir miðnætti: „Call me at in the morning at 0800. This is not the way forward.“

Að morgni 4. desember 2008 sendi ákærði Bjarnfreður svohljóðandi tölvubréf meðal annars til áðurnefndra D og C: „Var á fundi með Deloitte. Þeir ætla að gefa út skýrslu um staðfestingu á hækkun hlutafjár. Hún er rúmt orðuð og tekur tillit til væntanlegs hluthafafundar sem mun lækka hlutafé aftur til jöfnunar á tapi. Það verður svo að koma í ljós hvort þetta fer í gegn hjá Hlutafélagaskrá. Deloitte verður tilbúið með frekari rökstuðning fyrir útreikningum. C, viltu útbúa tryggingarbréf frá BBR ehf. til Kvakks ehf. fyrir 49 millj kr., komi til þess að matið verði ekki samþykkt eða á það reyni. Ef það gerist og BBR getur ekki staðið við skuldbindinguna, þá verður hlutafjárhækkunin afturkræf skv. 77. gr. hlfl.“

4

Samkvæmt framlagðri fundargerð var haldinn fundur 4. desember 2008 klukkan 12 í stjórn Exista hf. Ákærði Lýður stýrði upphafi fundar, en vék svo af honum. Í fundargerðinni segir meðal annars í þýðingu löggilts skjalaþýðanda: „Fundarstjóri bað stjórnarmenn að ræða og álykta um tillögu um aukningu hlutafjár í Exista um 50.000.000.000 í tengslum við kaup á 1.000.000.000 hlutum í Kvakki ehf. ... með það að markmiði að styrkja hlutafjárgrunn Exista. Seljandi Kvakks er BBR ehf. ... eigendur A og Lýður Guðmundsson, stjórnarmenn í Exista. Frá stofnun hefur Kvakkur ekki verið með neina starfsemi. Samtölur á efnahagsreikningi (ISK) eru: Heildareignir: Handbært fé 1.000.000.000 og hlutafé 1.000.000.000. ... Stjórnin telur sig ekki í aðstöðu til að sannreyna varfærni slíkrar hlutafjáraukningar sem lögð er til, en treystir á staðfestingu frá endurskoðendum félagsins, Deloitte hf. sem lögð var fram á fundinum og staðfestir að þetta sé fullnægjandi virði hlutanna. ... Eftir vandlega íhugun ályktaði stjórnin að það þjónaði hagsmunum félagsins best, miðað við aðstæður, að ganga til viðræðna við BBR ehf. ... í tengslum við kaup á 1.000.000.000 hlutum ... í Kvakkur ehf. ... og í kjölfar þess að auka hlutafé félagsins í ISK 50.000.000.000 með tilliti til hlutanna. Stjórnin ræddi að samkvæmt veittum upplýsingum, hefur engin starfsemi verið í Kvakki frá stofnun þess og félaginu er kunnugt um fjárhagslega stöðu Kvakks og önnur mál sem kunna að hafa áhrif á virði hlutanna. Þess vegna verður ekki gerð áreiðanleikakönnun á Kvakki. ... Í tengslum við möguleg kaup og greiðslu kaupverðs mun stjórnin samkvæmt 4. grein stofnsamþykkta félagsins auka nafnvirði hlutafjár félagsins um ISK 50.000.000.000 með áskrift nýrra hluta. Nýju hlutirnir tilheyra sama flokki og þeim fylgja sömu réttindi og öðrum hlutum í félaginu. Staðfesting frá endurskoðanda félagsins, Deloitte hf., sem staðfestir fullnægjandi virði hinna keyptu hluta var einnig lögð fyrir stjórnina. Samkvæmt 4. grein hafa hluthafar félagsins afsalað sér forkaupsrétti á nýju hlutunum. Ef viðræður leiða til kaupa á hlutunum skal seljandi skrifa sig fyrir öllum 50.000.000.000 hlutunum sem greiðslu fyrir hlutina í Kvakki. Áskriftin skal fara fram eigi síðar en 31. desember 2008 og greiðsla við áskrift. Nýju hlutirnir verða greiddir samtímis áskriftinni með afhendingu hlutanna til félagsins eins og lýst er í SPA með seljanda. Hlutafjáraukningin verður að því loknu og eigi síðar en 31. desember 2008 skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og að því loknu í lögboðnar bækur félagsins og hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Að því loknu verða hlutirnir framseldir seljanda. Áætlaður kostnaður við hlutafjáraukninguna er ISK 150.000 ásamt 0.5% stimpilgjaldi af nafnvirði nýju hlutanna. LOGOS lögmannastofu verður falið og heimilað að undirrita öll nauðsynleg skjöl í tengslum við opinbera skráningu og skrásetningu í tengslum við hlutafjáraukninguna og kaupin á hlutunum. ... Lýður Guðmundsson kom inn á fundinn og tók við fundarstjórn. Stjórnin ályktaði að boða hluthafa á hluthafafund eigi síðar en 31. desember 2008. Stjórnin ræddi drög að dagskrá fundarins þar sem væru eftirtalin atriði: (a) Lækkun á hlutafé félagsins um ISK 62.891.272.280 (b) Breyting á nafnvirði hluta félagsins í 1.283.495.353“.

5

Að morgni 8. desember 2008 sendi B endurskoðandi hjá Deloitte hf. svofellt tölvubréf til ákærða Bjarnfreðs, H og G: „Meðfylgjandi er sérfræðiskýrslan undirrituð“.

Þennan dag var gerður samningur milli Exista hf. og BBR ehf. þar sem sagði að Exista hf. keypti „1.000.000.000 hluti“ í Kvakki ehf. og að „kaupverð hlutanna er 50.000.000.000 hlutir í Exista hf. ... hver að nafnvirði ISK 1.“ Skyldi kaupverðið greitt „að fullu við undirritun samnings“ og bæri BBR ehf. að afhenda Exista hf. hlutina í Kvakki ehf., en samningurinn teldist tilkynning til hlutaskrár um framsal hlutanna til Exista hf. „eins og fram kemur í stofnsamþykktum félagsins.“ Þá sagði að frá stofnun hafi engin starfsemi verið í Kvakki ehf. og væri kaupanda „kunnugt um fjárhagsstöðu félagsins og önnur mál sem hafa áhrif á virði hlutanna“. Undir samninginn rituðu framkvæmdastjórar Exista hf. fyrir hönd félagsins og ákærði Lýður fyrir hönd BBR ehf.

Síðar sama dag var fyrirtækjaskrá afhent tilkynning, sem undirrituð var af ákærða Bjarnfreði, þar sem sagði: „Hér með er tilkynnt til Fyrirtækjaskrár að á stjórnarfundi í Exista hf. ... sem haldinn var þann 4. desember, var samþykkt að nýta heimild í 4. gr. samþykkta félagsins til að hækka hlutafé félagsins um kr. 50.000.000.000 að nafnvirði. Hinir nýju hlutir tilheyra sama flokki og eldri hlutir og hafa verið greiddir að fullu til félagsins, sbr. meðfylgjandi sérfræðiskýrslu og staðfestingu endurskoðanda. Eftir breytinguna er 1. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins svohljóðandi: „Hlutafé félagsins er 64.174.767.632 krónur að nafnverði, sem skiptist í einnar krónu hluti. Fylgir eitt atkvæði hverri krónu í hlutafé á hluthafafundi. Hlutaféð er ekki flokkaskipt.“ ... Var LOGOS lögmannsþjónustu falið að annast tilkynningu til Fyrirtækjaskrár.“ Tilkynningunni fylgdu meðal annars skýrsla áðurnefnds B 8. desember 2008 og samþykktir Exista hf.

Í skýrslu B vegna hlutafjárhækkunar í Exista hf. sagði: „Á stjórnarfundi félagsins Exista hf. ... 4. desember 2008, hefur verið ákveðið að hækka hlutafé félagsins í samræmi við heimild stjórnar í 2. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins ásamt því að boða til hluthafafundar þar sem lögð er til lækkun hlutafjár félagsins. Boðað er til hluthafafundarins í ljósi alvarlegrar stöðu félagsins eins og nánar er lýst hér að neðan. Skýrsla þessi er gerð í þeim tilgangi að leggja mat á þau endanlegu verðmæti sem eftir verða hjá félaginu við hlutafjárhækkun og að hlutafjárlækkun lokinni. Ákveðið hefur verið að hlutafé félagsins hækki að nafnverði um kr. 50.000.000.000 og með því verði heildarhlutafé félagsins kr. 64.174.767.632. Tillaga stjórnar gerir ráð fyrir að hlutafé félagsins verði þvínæst lækkað á hluthafafundi félagsins fyrir lok árs 2008 um kr. 62.891.272.279 til jöfnunar taps þannig að alls heildarhlutafé félagsins að því loknu verði kr. 1.283.495.353 sem skiptist þannig að kr. 1.000.000.000 verður nýtt hlutafé skv. framangreindri hækkun. Með þessu munu eigendur hins nýja hlutafjár eiga 77,9% eignarhlut í félaginu og eigendur eldra hlutafjár 22,1%. Óskað hefur verið eftir því að Deloitte leggi mat á þau verðmæti sem greidd eru vegna alls 77,9% hlutar í Exista hf. Við mat okkar höfum við tekið mið af 37. gr. og 5.-8. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Einnig höfum við haft hliðsjón af lögum um ársreikninga og ákvæðum alþjóðlegra reikningsskilastaðla.“ Að því er varðaði einstaka matsþætti sagði undir liðnum „Lýsing á hverri greiðslu eða því sem tekið er við“ að sem endurgjald fyrir 77,9% hlut í Exista hf. legði BBR ehf. til allt hlutafé í Kvakki ehf., alls að nafnvirði 1.000.000.000 krónur. Undir liðnum „Upplýsingar um aðferðina sem notuð er við matið“ sagði að byggt væri á staðfestingu á eign Kvakks ehf. í reiðufé samkvæmt staðfestri hlutafjárhækkun þess félags. Þá hefði komið fram á hluthafafundi Exista hf. 30. október 2008 að fjárhagsleg staða félagsins væri verulega erfið og óvissa um hana. Við mat á virði félagsins þennan dag staðfestu gögn að eigið fé væri „verulega neikvætt“ en ekki lægi fyrir hvort þörf væri á niðurfærslu bókfærðrar viðskiptavildar. Undir liðunum „Tilgreining á endurgjaldi fyrir þær eignir og réttindi sem tekið er við“ og „Yfirlýsing um hið tiltekna verðmæti svari a.m.k. til umsamins endurgjalds“ sagði að 100% hlutur í Kvakki ehf. svaraði að minnsta kosti til 77,9% hlutar í Exista hf.

Hækkun hlutafjár í Exista hf. var skráð án athugasemda hjá fyrirtækjaskrá 8. desember 2008 og var sama dag birt tilkynning um viðskiptin í kauphöll.

6

Af gögnum málsins verður ráðið að Lýsing hf., sem var í eigu Exista hf., hafi 8. desember 2008 veitt Korki vélaleigu ehf. lán að fjárhæð 1.000.000.000 krónur með því skilyrði að hún yrði varðveitt á geymslureikningi hjá Logos lögmannsþjónustu sf. og ekki ráðstafað af honum nema með samþykki Lýsingar hf. Korkur vélaleiga ehf. lánaði sama dag BBR ehf. 1.000.000.000 krónur sem það félag virðist svo hafa notað sem greiðslu fyrir nýja hluti í Kvakki ehf. Eftir sem áður virðist þessi fjárhæð hafa staðið óhreyfð á fyrrnefndum geymslureikningi.

7

Nýi Kaupþing banki hf. sendi símskeyti 8. desember 2008 til ákærða Lýðs og framkvæmdastjóra Exista hf. þar sem vísað var til tilkynningar um að stjórn félagsins hafi samþykkt 4. sama mánaðar að „hefja viðræður við einkahlutafélag í eigu A og Lýðs Guðmundssonar um kaup Exista á öllu hlutafé í Kvakki ehf. og í framhaldi af því að nýta heimild hlutahafafundar Exista frá 30. október sl. um að auka hlutafé í félaginu um 50 milljarðar hluta til greiðslu fyrir hluti í Kvakki ehf.“ Þess var krafist að boðað yrði til fundar hluthafa í Exista hf. til að gefa þeim kost á að taka afstöðu til þessarar ráðstöfunar, svo og að stjórn félagsins gengi ekki frá þessu máli eða gerði löggerninga í tengslum við það án þess að hlutahafafundur hefði verið haldinn. Ekki verður séð að þessu erindi hafi verið svarað. Bankinn mun síðan hafa leyst til sín 12. desember 2008 fyrrnefnd hlutabréf í Exista hf. að nafnverði 6.407.905.675 krónur, sem hann naut handveðréttar í, fyrir 5 aura á hlut.

BBR ehf. gerði 11. apríl 2009 öðrum hluthöfum í Exista hf. yfirtökutilboð með vísan til ákvæða X. og XI. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Átti tilboðið að standa til 8. maí 2009 og hljóðaði það á tvo aura á hlut, en Fjármálaeftirlitið hafði samþykkt það 6. apríl sama ár. Meðal þeirra sem tóku boðinu var Nýi Kaupþing banki hf. sem virðist eftir gögnum málsins hafa fengið greiddar 134.683.376 krónur fyrir áðurnefnda hluti sína.

8

Fyrirtækjaskrá ritaði bréf 2. júní 2009 til ákærða Bjarnfreðs og B þar sem borin var fram fyrirspurn með vísan til 16. gr. laga nr. 2/1995 um hvort greiðsla hlutafjár í Exista hf. við aukningu þess í desember 2008 hafi numið tveimur aurum fyrir hverja krónu að nafnverði og í hverju verðmæti hluta í Kvakki ehf. hafi legið. Þessu svaraði B með bréfi 5. júní 2009 þar sem kom fram að Deloitte hf. hafi ekkert komið að tilkynningu um hækkun hlutafjár í Exista hf. eða staðfest hana, auk þess sem gerð var athugasemd við að fyrrnefnd skýrsla hans 8. desember 2008 hafi verið sérfræðiskýrsla í skilningi laga nr. 2/1995. Svar ákærða Bjarnfreðs 11. júní 2009 var á þann veg að Logos lögmannsþjónustu sf. hafi einfaldlega verið falið að senda til fyrirtækjaskrár tilkynningu um ákvörðun stjórnar Exista hf. um hækkun hlutafjár og fyrirliggjandi skýrslu endurskoðanda félagsins um þá hækkun. Það hafi verið gert með hefðbundnum hætt, en lögmannsstofan hafi ekki verið beðin um mat á hinu framlagða hlutafé.

Með samhljóða bréfum 12. júní 2009 til ákærða Bjarnfreðs, B, Exista hf. og BBR ehf. gerði fyrirtækjaskrá athugasemd um að henni hafi ekki verið tilkynnt um að hlutafé í Kvakki ehf. hafi verið aukið um 1.000.000.000 krónur. Af þessum sökum hafi tilkynningin 8. desember 2008 um hækkun hlutafjár í Exista hf. um 50.000.000.000 krónur verið tekin til athugunar, enda þætti verulegur vafi um raunverulegt verðmæti hækkunarinnar. Af þessum sökum teldi fyrirtækjaskrá að fella þyrfti úrskurð um hvort nauðsynlegt væri að bakfæra tilkynninguna og lækka skráð hlutafé í Exista hf. Viðtakendum bréfsins var gefinn kostur á að færa fram athugasemdir og gögn af þessu tilefni. Þessu svöruðu B og ákærði Bjarnfreður 16. og 18. júní 2009 með vísun til fyrri bréfa, auk þess sem sá síðarnefndi lét fylgja svarbréfi sínu afrit af fundargerð hluthafafundar um hækkun hlutafjár í Kvakki ehf. og nefndi að svo virtist sem tilkynning um hækkunina hefði misfarist. Með bréfi Exista hf. 18. júní 2009 sagði að réttilega hefði verið staðið að málum og fyrirtækjaskrá ekki gert athugasemdir þegar í stað samkvæmt 150. gr. laga nr. 2/1995.

Í bréfi sem lögmaður ritaði af hálfu Exista hf. til fyrirtækjaskrár 25. júní 2009 var því lýst yfir með vísun til bréfs hennar 12. sama mánaðar „að tilkynning frá 8. desember 2008 er hér með afturkölluð en jafnframt tekið fram að sú ráðagerð sem fram kemur í skýrslu B, lögg. endurskoðanda sem fylgdi tilkynningunni og varðar lækkun hlutafjár mun koma til framkvæmda við fyrsta tækifæri og er nú þegar fyrirhugað að kalla saman hluthafafund. Tekið skal fram að bréf þetta hefur ekki verið borið undir stjórn félagsins en stærstu hluthöfum er kunnugt um aðal efnisatriði þess.“

Hinn 29. júní 2009 sendi fyrirtækjaskrá frá sér úrskurð um að „bakfæra“ tilkynninguna 8. desember 2008 um hækkun hlutafjár í Exista hf.

Korkur vélaleiga ehf. og Lýsing hf. gerðu samning 23. júlí 2009 um endurgreiðslu á fyrrnefndu láni að fjárhæð 1.000.000.000 krónur. Sú fjárhæð virðist þá enn hafa staðið óhreyfð á vörslureikningi hjá Logos lögmannsþjónustu sf.

Fyrirtækjaskrá sendi bréf um málefnið til sérstaks saksóknara 22. september 2009 „til þóknanlegrar meðferðar“ og þremur dögum síðar bar Nýi Kaupþing banki hf. upp við sérstakan saksóknara kæru vegna þessa máls. Ákæra í málinu var gefin út 19. september 2012.

II

Helstu atriði í skýrslugjöf ákærða og vitna eru rakin í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að framburður I, annars forstjóra Exista hf., var á annan veg fyrir dómi en við rannsókn málsins um hvort hann eða ákærði Lýður hafi átt hugmyndina að því hvernig staðið yrði að aukningu hlutafjár í félaginu í desember 2008. Gaf hann þá skýringu á misvísandi framburði sínum að þegar hann veitti um þetta svar á rannsóknarstigi hafi hann fengið margar spurningar í einu og því misskilið þær, en hann myndi þetta mjög skýrt. Þá bar J endurskoðandi og framkvæmdastjóri Deloitte hf. að hann hafi heyrt hvað áðurnefndur B sagði í samtali við ákærða Lýð að kvöldi 3. desember 2008, en eins og greinir í héraðsdómi kom fram hjá B að hann hafi látið ákærða Lýð vita að hann gæti ekki staðfest í skýrslu annað en að virði Kvakks ehf. væri 1.000.000.000 krónur en virði Exista hf. ekkert.

III

1

Í lögum nr. 2/1995 eru fyrirmæli um hækkun hlutafjár og greiðslu þess. Í 1. mgr. 33. gr. laganna segir að hluthafafundur einn geti ákveðið hækkun hlutafjár, hvort heldur er með áskrift nýrra hluta eða útgáfu jöfnunarhluta. Frá þessari meginreglu er gerð sú undantekning í 1. mgr. 41. gr. að með ákvæðum í samþykktum félags megi heimila stjórn þess að hækka hlutaféð með áskrift nýrra hluta. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnverði hans. Þar sem lögin hafa ekki að geyma neina undantekningu frá þeirri reglu er með þessu ákvæði lagt fortakslaust bann við því að greiðsla fyrir hvern hlut nemi lægri fjárhæð en nafnverði hans. Tekur ákvæðið samkvæmt orðum sínum jafnt til þess sem greiðsluna innir af hendi og félagsins sem við henni tekur. Í 153. gr. laganna, þar sem meðal annars er mælt fyrir um að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta vísvitandi ákvæði laganna um greiðslu hlutafjár, sbr. 2. tölulið greinarinnar, eru ekki taldir upp þeir sem bakað geta sér slíka refsiábyrgð, öndvert við ákvæði 152. gr. Þar er kveðið á um að gera megi stofnendum, stjórnendum og öðrum þeim, sem þar eru taldir og gegna tilteknum trúnaðarstörfum fyrir hlutafélag, févíti til að knýja þá til að inna skylduverk af hendi. Af því sem að framan er rakið og orðalagi 153. gr. verður sú ályktun dregin að áskrifendur að hlutum í hlutafélagi og viðsemjendur félagsins geti eftir atvikum unnið sér til refsingar samkvæmt ákvæðinu.

Eins og að framan er rakið var haldinn hluthafafundur í Exista hf. 30. október 2008 þar sem tekin var upp í samþykktir félagsins heimild til handa stjórn þess að auka hlutafé félagsins með áskrift um allt að 50.000.000.000 krónur að nafnverði. Á hinn bóginn tók stjórnin þá ákvörðun á fundi sínum 4. desember 2008 að hækkun hlutafjárins skyldi felast í því að Exista hf. tæki við 1.000.000.000 hlutum í Kvakki ehf. sem greiðslu fyrir 50.000.000.000 hluti í félaginu. Verðmæti hlutanna í Kvakki ehf. og þar með greiðslan fyrir hið aukna hlutafé var sögð vera 1.000.000.000 krónur eða 1/50 af nafnverði þess. Ákvörðun stjórnarinnar var því hvorki í samræmi við samþykkt hluthafafundarins né hið fortakslausa ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995 um að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnverði hans. Er að framan og einnig að nokkru í hinum áfrýjaða dómi lýst þeim tilfæringum, sem áttu sér stað í tengslum við þessa ákvörðun, þar á meðal þætti ákærða Lýðs í fjármögnun kaupa á hlutunum í Kvakki ehf. með láni sem upphaflega kom frá Lýsingu hf. Með áðurgreindum samningi 8. desember 2008, sem gerður var að tilhlutan ákærða Lýðs eins og rakið hefur verið og undirritaður af honum fyrir hönd BBR ehf., var það félag í raun sem áskrifandi að aukningarhlutunum í Exista hf. að leggja því síðarnefnda til umrædda hluti í Kvakki ehf. sem greiðslu fyrir hlutina. Af gögnum málsins verður ráðið að þetta hafi ákærði Lýður, sem var stjórnarformaður í Exista hf., gert í því skyni að tryggja sér og A áframhaldandi yfirráð yfir félaginu sem og mun hafa tekist. Samkvæmt því sem að framan greinir hefur ákærði Lýður gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla ákærunnar. Með henni braut hann vísvitandi gegn 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995 sem lýst er refsivert í 2. tölulið 153. gr. laganna.

2

Samkvæmt 1. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 varðar það meðal annars sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum hlutafélags eða öðru er það varðar í tilkynningum til hlutafélagaskrár. Í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að eigi hlutafélag að taka við verðmætum í öðru en reiðufé til greiðslu hlutafjár samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. frá stofnendum eða öðrum skuli sérfræðiskýrsla fylgja stofnsamningi og eru talin upp í fjórum liðum þau atriði sem hún skuli geyma. Í fyrsta lagi lýsingu á hverri greiðslu eða því sem tekið er við, í öðru lagi upplýsingar um aðferðina sem notuð er við mat á verðmætinu, í þriðja lagi tilgreiningu á endurgjaldi fyrir það sem tekið er við og í fjórða lagi yfirlýsingu um að hið tiltekna verðmæti svari að minnsta kosti til hins umsamda endurgjalds, þar á meðal nafnverðs þeirra hluta sem gefa skal út að viðbættu hugsanlegu álagi vegna yfirverðs. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna, sem fjallar um hækkun hlutafjár, skulu ákvæði 5. gr. og 6. gr. þeirra gilda eftir því sem við á ef hina nýju hluti má greiða á annan hátt en með reiðufé.

Í tilkynningu ákærða Bjarnfreðs 8. desember 2008 til fyrirtækjaskrár um hækkun á hlutafé í Exista hf. sagði að á stjórnarfundi í félaginu hefði verið samþykkt að nýta heimild í samþykktum þess til að hækka hlutaféð um 50.000.000.000 krónur að nafnverði. Jafnframt var tekið fram að hinir nýju hlutir hefðu verið greiddir að fullu og vísað í því sambandi til meðfylgjandi sérfræðiskýrslu og staðfestingar endurskoðanda. Sú skýrsla, sem fylgdi með tilkynningunni og undirrituð var af B, bar heitið „Skýrsla endurskoðanda vegna hlutafjárhækkunar Exista hf.“ Skýrslan var þannig upp byggð að á eftir inngangi fylgdu fjórir kaflar með sömu heitum og fram koma í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1995. Í innganginum var eins og áður greinir tekið fram að ákveðið hefði verið á stjórnarfundi Exista hf. 4. desember 2008 að hækka hlutafé félagsins að nafnverði um 50.000.000.000 krónur og með því yrði heildarhlutafé þess 64.174.767.632 krónur. Síðar sagði að tillaga stjórnar gerði ráð fyrir að hlutaféð yrði því næst lækkað með nánar tilgreindum hætti. Þá hefði við mat á þeim verðmætum sem greidd hefðu verið vegna hlutafjárhækkunarinnar verið tekið mið af 37. gr. og 5. til 8. gr. laganna. Þótt því væri lýst yfir í skýrslunni að BBR ehf. legði til allt hlutafé í Kvakki ehf., alls að nafnverði 1.000.000.000 krónur, sem endurgjald fyrir 77,9% hlut í Exista hf. kom þar hvergi fram berum orðum að umrædd hækkun á hlutafé í síðastnefnda félaginu hefði numið að raunvirði 1.000.000.000 krónum.

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn eru þeir opinberir sýslunarmenn og bera skyldur samkvæmt því. Í 18. gr. þeirra laga er mælt svo fyrir að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Af þessum ákvæðum verður ráðið að lögmanni er ekki skylt að hlíta fyrirmælum umbjóðanda síns um að tilkynna til stjórnvalds ákvörðun sem umbjóðandinn hefur tekið en brýtur bersýnilega í bága við lög eins og um hafi verið að ræða lögmæta ákvörðun. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 2/1995 kemur fram að sérfræðiskýrsla samkvæmt 6. gr. laganna skuli unnin af einum eða fleiri óháðum, sérfróðum mönnum, annað hvort löggiltum endurskoðendum eða lögmönnum ellegar öðrum sérfróðum mönnum sem dómkvaddir eru til þess starfa. Sökum þess að kveðið er á um að lögmenn séu hæfir til þess að staðfesta í slíkri skýrslu hvert sé verðmæti greiðslu fyrir hlut, sem fólgin er í öðru en reiðufé, við hækkun hlutafjár í hlutafélagi, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 2/1995, mátti sá sem tók við tilkynningu ákærða Bjarnfreðs líta svo á, eins og hún var úr garði gerð, að hún staðfesti að greiddar hefðu verið 50.000.000.000 krónur fyrir hluti að því nafnverði í Exista hf. í samræmi við 1. mgr. 16. gr. laganna.

Fram er komið að ákærði Bjarnfreður þekkti efni skýrslunnar og aðdraganda að gerð hennar, en hann hafði meðal annars í tölvubréfi 4. desember 2008 til ákærða Lýðs látið í ljósi efasemdir um að efni tilkynningarinnar væri í samræmi við lög nr. 2/1995. Þá kom fram hjá ákærða Bjarnfreði við skýrslugjöf fyrir dómi að hann hefði haft efasemdir um að fyrirtækjaskrá myndi fallast á réttmæti tilkynningarinnar því um væri að ræða „rúma túlkun á 16. greininni.“ Eigi að síður ritaði hann sem lögmaður undir hina lögboðnu tilkynningu þar sem tekið var fram eins og áður greinir að hlutafé félagsins hafi verið hækkað að nafnverði um 50.000.000.000 krónur og hefðu hlutirnir verið greiddir að fullu. Með því að vísa í því sambandi til sérfræðiskýrslu og staðfestingar endurskoðanda var gefið til kynna að greiðsla hlutafjárins hafi verið í samræmi við lagafyrirmæli, þar á meðal 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995, og því hafi í raun verið greiddar 50.000.000.000 krónur fyrir hlutina.

Samkvæmt framansögðu skýrði ákærði Bjarnfreður með tilkynningunni til fyrirtækjaskrár á villandi hátt frá því sem fólst í greiðslunni fyrir hina nýju hluti í Exista hf. og nam aðeins 1/50 af því sem lögboðið var. Verður hann því sakfelldur fyrir brot á 1. tölulið 153. gr. laga nr. 2/1995 eins og honum er gefið að sök í II. kafla ákæru.

Um II. kafla ákæru að því er ákærða Lýð varðar taldi héraðsdómur ekki unnt að vefengja staðhæfingar hans fyrir dómi, meðal annars með vísan til framburðar ákærða Bjarnfreðs um að gerð hinnar röngu tilkynningar hafi ekki verið að undirlagi ákærða Lýðs. Þótt dómurinn hafi ekki tekið sérstaka afstöðu til áðurnefnds framburðar endurskoðenda hjá Deloitte hf. er með tilliti til annarra gagna málsins og röksemda héraðsdóms, sem reistar eru á munnlegum framburði, ekki nægileg ástæða til að vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar hvað þennan þátt þess varðar. Því verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða Lýðs af sakargiftum samkvæmt II. kafla ákæru.

3

Ákærði Lýður hefur ekki áður unnið sér til refsingar sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar hans nú og ákærði Bjarnfreður hefur ekki áður sætt refsingu. Þegar litið er til atvika málsins eins og þeim er lýst hér að framan, en einkum þess að brot ákærðu beggja varða verulegar fjárhæðir og voru til þess fallin að hindra eða fresta hvers kyns réttmætum aðgerðum skuldheimtumanna Exista hf., hafa ákærðu báðir unnið sér til fangelsisrefsingar. Skal ákærði Lýður sæta fangelsi í átta mánuði, en ákærði Bjarnfreður í sex mánuði. Þær refsingar verða að hluta bundnar skilorði eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt því sem að framan greinir og með vísan til 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður ákærði Bjarnfreður sviptur réttindum til að gegna starfi héraðsdómslögmanns í eitt ár.

Með hliðsjón af því hversu umfangsmikil rannsókn sérstaks saksóknara var umfram það sem þörf var á verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um greiðslu ákærða Lýðs á sakarkostnaði jafnframt því sem ákærði Bjarnfreður verður látinn greiða helming málsvarnarlauna verjanda síns eins og þau voru ákveðin í héraði. Samkvæmt yfirliti saksóknara leiddi ekki annan sakarkostnað af málinu í héraði.

Ákærðu verða einnig dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, allt eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði Lýður Guðmundsson sæti fangelsi í átta mánuði, en frestað er fullnustu fimm mánaða af þeirri refsingu og fellur niður sá hluti hennar að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Bjarnfreður H. Ólafsson sæti fangelsi í sex mánuði, en frestað er fullnustu þriggja mánaða af þeirri refsingu og fellur niður sá hluti hennar að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Bjarnfreður er sviptur réttindum til að vera héraðsdómslögmaður í eitt ár frá uppsögu þessa dóms.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað hvað ákærða Lýð varðar er óraskað.

Ákærði Bjarnfreður greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, eins og þau voru ákveðin í héraði.

Ákærði Lýður greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.004.000 krónur.

Ákærði Bjarnfreður greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, 1.004.000 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað, samtals 141.904 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2013.

I

Málið, sem dómtekið var 8. maí síðastliðinn, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 19. september 2012 á hendur „Lýði Guðmundssyni, kt. [...], með lögheimili í [...] og Bjarnfreði H. Ólafssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot gegn lögum um hlutafélög:

I.

Á hendur ákærða Lýði fyrir að hafa hinn 8. desember 2008, sem stjórnarmaður einkahlutafélagsins BBR, kt. [...], brotið vísvitandi gegn ákvæðum laganna um greiðslu hlutafjár með því að greiða hlutafélaginu Exista, kt. [...], minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í Exista hf., að nafnverði 50 milljarða króna, sem BBR ehf. keypti sama dag og greiddi fyrir með 1 milljarði hluta í einkahlutafélaginu Kvakki, kt. [...], sem metnir voru á 1 milljarð króna, en á sama tíma var ákærði Lýður starfandi stjórnarformaður Exista hf. BBR ehf., sem þannig eignaðist 50 milljarða hluta í Exista hf., var í eigu einkahlutafélagsins Korks, kt. [...]. Ákærði Lýður var stjórnarmaður Korks ehf. auk þess sem hann var eigandi félagsins ásamt [...], A.

Telst ofangreind háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 16. gr., sbr. 2. tl. 1. mgr. 153. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, með síðari breytingum.

II.

Á hendur ákærðu Lýði og Bjarnfreði fyrir að skýra vísvitandi rangt og villandi frá hækkun á hlutafé Exista hf. með því að ákærði Bjarnfreður sendi hinn 8. desember 2008, að undirlagi ákærða Lýðs, tilkynningu til hlutafélagaskrár (fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra), Laugavegi 166, Reykjavík,  þar sem ranglega kom fram að hækkun á hlutafé Exista hf., að nafnverði 50 milljarða króna, hefði að fullu verið greidd til félagsins þótt einungis hefði verið greitt fyrir hlutaféð með 1 milljarði hluta í Kvakki ehf. að verðmæti 1 milljarðs króna, eins og í I. tölulið greinir.

Telst ofangreind háttsemi ákærðu varða við 1. tl. 1. mgr. 153. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Að auki er þess krafist að ákærði Bjarnfreður verði, með vísan til 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1961, sviptur réttindum til að vera héraðsdómslögmaður.“ 

Ákærðu neita sök og krefjast sýknu. Þess er krafist að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

II

Málavextir eru þeir að á hluthafafundi í Exista hf. 30. október 2008 var ákveðið að heimila stjórn félagsins að hækka hlutafé þess um allt að 50.000.000.000 króna. Á fundi stjórnar félagsins 4. desember sama ár kom fram að nauðsynlegt væri að afla nýs hlutafjár til að geta greitt vexti af sambankaláni er væri á gjalddaga 5. sama mánaðar. Síðan segir í fundargerðinni: „Þar sem félagið býr ekki við þann munað að hafa tiltækan tíma til að finna lausnir, hafa Lýður Guðmundsson og A boðist til að leggja þetta fé fram persónulega gegnum eignarhaldsfélag sem þeir hafa stofnað.“ Stjórnin hóf nú umræður um þetta og viku framangreindir [...] af fundi, en annar stjórnarmaður tók við fundarstjórn af ákærða Lýð, stjórnarformanni félagsins. Hann bað „stjórnarmenn að ræða og álykta um tillögu um aukningu hlutafjár í Exista um 50.000.000.000 í tengslum við kaup á 1.000.000.000 hlutum í Kvakki ehf., kennitala [...], einkahlutafélag sem starfar á Íslandi með það að markmiði að styrkja hlutafjárgrunn Exista. Seljandi Kvakks er BBR ehf. rg. Nr. [...], Ármúla 3, 108 Reykjavík, eigendur A og Lýður Guðmundsson, stjórnarmenn í Exista. Frá stofnun hefur Kvakkur ekki verið með neina starfsemi. Samtölur á efnahagsreikningi (ISK) eru: Heildareignir: Handbært fé 1.000.000.000 og hlutafé 1.000.000.000.“

Eftir að hafa rætt þessi mál ályktaði stjórnin að það þjónaði hagsmunum félagsins best, miðað við aðstæður, að ganga til viðræðna við BBR ehf. í tengslum við kaup á 1.000.000.000 hlutum í Kvakki ehf. „og í kjölfar þess að auka hlutafé félagsins í ISK 50.000.000.000 með tilliti til hlutanna.“ Þá kemur fram að stjórninni var kunnugt um fjárhagslega stöðu Kvakks og að engin starfsemi hafi verið í því frá stofnun. Stjórnin fól framkvæmdastjórum félagsins að sjá um framkvæmd málsins, ræða við seljanda og undirrita öll skjöl í tengslum við hlutafjáraukninguna og kaupin á hlutunum.

Í lok fundargerðarinnar er eftirfarandi bókað: „Í tengslum við möguleg kaup og greiðslu kaupverðs mun stjórnin samkvæmt 4. grein stofnsamþykkta félagsins auka nafnvirði hlutafjár félagsins um ISK 50.000.000.000 með áskrift nýrra hluta. Nýju hlutirnir tilheyra sama flokki og þeim fylgja sömu réttindi og öðrum hlutum í félaginu. Staðfesting frá endurskoðanda félagsins, Deloitte hf., sem staðfestir fullnægjandi virði hinna keyptu hluta var einnig lögð fyrir stjórnina. Samkvæmt 4. grein hafa hluthafar félagsins afsalað sér forkaupsrétti á nýju hlutunum. Ef viðræður leiða til kaupa á hlutunum skal seljandi skrifa sig fyrir öllum 50.000.000.000 hlutunum sem greiðslu fyrir hlutina í Kvakki. Áskriftin skal fara fram eigi síðar en 31. desember, 2008 og greiðsla við áskrift. Nýju hlutirnir verða greiddir samtímis áskriftinni með afhendingu hlutanna til félagsins eins og lýst er í SPA með seljanda. Hlutafjáraukningin verður að því loknu og eigi síðar en 31. desember, 2008, skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og að því loknu í lögboðnar bækur félagsins og hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Að því loknu verða hlutirnir framseldir seljanda.“

Loks er bókað að LOGOS lögmannsstofu verði falið og heimilað að undirrita öll nauðsynleg skjöl í tengslum við opinbera skráningu og skrásetningu í tengslum við hlutafjáraukninguna og kaupin á hlutunum.

Með kaupsamningi 8. desember 2008 keypti Exista hf. 1.000.000.000 hluta í Kvakki ehf. af BBR. ehf. fyrir 50.000.000.000 hluta í Exista hf. og skyldi kaupverðið að fullu greitt við undirritun samningsins. Undir samninginn ritar ákærði Lýður fyrir hönd BBR. ehf. en framkvæmdastjórar Exista hf. fyrir hönd félagsins.

Í samræmi við framangreint var Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra send tilkynning 8. desember 2008 um hækkun á hlutafé í Exista hf. og breytingar á samþykktum. Meginefni tilkynningarinnar er eftirfarandi: „Hér með er tilkynnt til Fyrirtækjaskrár að á stjórnarfundi í Exista hf., kt. [...], Ármúla 3, 108 Reykjavík, sem haldinn var þann 4. desember, var samþykkt að nýta heimild 4. gr. samþykkta félagsins til að hækka hlutafé félagsins um kr. 50.000.000.000 að nafnvirði. Hinir nýju hlutir tilheyra sama flokki og eldri hlutir og hafa verið greiddir að fullu til félagsins, sbr. meðfylgjandi sérfræðiskýrslu og staðfestingu endurskoðanda.

Eftir breytinguna er 1. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins svohljóðandi: „Hlutafé félagsins er 64.174.767.632 krónur að nafnverði, sem skiptist í einnar krónu hluti. Fylgir eitt atkvæði hverri krónu í hlutafé á hluthafafundi. Hlutaféð er ekki flokkaskipt.““

Í lok tilkynningarinnar segir að LOGOS lögmannsþjónustu hafi verið falið að annast tilkynningu til Fyrirtækjaskrár og ritar ákærði Bjarnfreður undir tilkynninguna. Þetta er tilkynningin sem um getur í II. kafla ákæru.

Í tilkynningunni er vitnað til sérfræðiskýrslu og staðfestingar endurskoðanda. Er þar um að ræða skjal frá B, endurskoðanda hjá Deloitte, sem dagsett er 8. desember 2008 og ber yfirskriftina: Skýrsla endurskoðanda vegna hlutafjárhækkunar Exista hf. Í skýrslunni segir að ákveðið hafi verið að „hlutafé félagsins hækki að nafnverði um kr. 50.000.000.000 og með því verði heildarhlutafé félagsins kr. 64.174.767.632. Tillaga stjórnar gerir ráð fyrir að hlutafé félagsins verði því næst lækkað á hluthafafundi félagsins fyrir lok árs 2008 um kr. 62.891.272.279 til jöfnunar taps þannig að alls heildarhlutafé félagsins að því loknu verði kr. 1.283.495.353 sem skiptist þannig að kr. 1.000.000.000 verður nýtt hlutafé skv. framangreindri hækkun. Með þessu munu eigendur hins nýja hlutafjár eiga 77,9% eignarhlut í félaginu og eigendur eldra hlutafjár 22,1%.“ Síðan segir að sem endurgjald fyrir 77,9% hlutinn í Exista leggi BBR ehf. fram allt hlutafé í Kvakki ehf., alls að nafnvirði 1.000.000.000 króna. Það var niðurstaða endurskoðandans að hluturinn í Kvakki ehf. svaraði að lágmarki til endurgjalds fyrir 77,9% hlut í Exista.

Ríkisskattstjóri tilkynnti sérstökum saksóknara með bréfi 22. september 2009 að Fyrirtækjaskrá hefði borist framangreind tilkynning frá 8. desember 2008 og hefði hún verið tekin til athugunar í júní 2009. Fyrirtækjaskrá kvað upp úrskurð í málinu 29. júní og í úrskurðarorði kemur fram „að tilkynning um hlutafjárhækkun í Exista hf. frá 8. desember 2008, sé ólögmæt“. Enn fremur segir að Fyrirtækjaskrá muni bakfæra tilkynninguna og “lækka skráð hlutafé hjá Exista hf. niður í þá fjárhæð sem opinberlega var skráð, áður en þeirri fjárhæð var breytt með“ tilkynningunni.

Áður en úrskurðurinn var kveðinn upp, eða 25. júní, hafði lögmaður Exista hf. tilkynnt Fyrirtækjaskrá að félagið afturkallaði tilkynninguna frá 8. desember. Jafnframt var tekið fram að sú ráðagerð sem fram komi í skýrslu endurskoðandans, og varði lækkun hlutafjár, muni koma til framkvæmda við fyrsta tækifæri og sé fyrirhugað að kalla saman hluthafafund.

Af hálfu sérstaks saksóknara var efnt til allvíðtækrar rannsóknar á málinu þar sem 8 manns höfðu stöðu sakborninga, þar á meðal ákærðu í málinu. Ákæran er byggð á þessari rannsókn.

III

Ákærði Lýður kvaðst hafa verið starfandi stjórnarformaður Exista hf. á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann hafi einnig verið stjórnarmaður BBR ehf. og átt, ásamt [...], einkahlutafélögin Kvakk og Kork.

Ákærði neitar sök og við aðalmeðferð bar hann að í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hefði Exista lent í verulegum erfiðleikum eins og mörg önnur hlutafélög. Í lok október hefði verið haldinn hluthafafundur þar sem farið hefði verið fram á heimild til að auka hlutafé félagsins og í framhaldinu hefði náðst samkomulag um uppgjör á skuldum félagsins við Nýja Kaupþing. Þá hafi verið eftir að ná samkomulagi við erlenda kröfuhafa. Í lok nóvember hafi verið haldinn stjórnarfundur og þá hefðu stjórnendur félagsins upplýst að 5. desember væri skuld á gjalddaga sem félagið ætti ekki fyrir. Reynt hefði verið að fá stærstu hluthafana til að leggja fram aukið hlutafé en enginn hefði verið fáanlegur til þess. Ákærði kvað sig og [...], A, hafa verið stærstu hluthafana og hefðu þeir ákveðið að leggja fram meira fé. Þetta fé hefðu þeir fengið að láni gegn veði í eignum sínum. Í framhaldinu hefði verið haldinn stjórnarfundur í félaginu og hefði þar verið ákveðið að semja við þá [...]. Síðan hefðu sérfræðingar verið fengnir til að ganga frá þessu eins og tíðkanlegt hafi verið í félögum sem ákærði hafi stjórnað. Varðandi ákæruefni I. kafla kvaðst ákærði hafa greitt sannvirði fyrir hlutinn eins og endurskoðendur hefðu staðfest og eins hefði Fjármálaeftirlitið samþykkt þetta. Nánar tiltekið kvað ákærði BBR ehf. hafa greitt 50 milljarða nýrra hluta í Exista með hlutafé í Kvakki að verðmæti 1 milljarður. Hann kvað þetta fé hafa verið fengið að láni hjá Lýsingu sem hafi verið í eigu Exista. Stjórn félagsins hefði gefið út nýtt hlutafé í félaginu og ákærði og [...] hefðu sett milljarð króna inn í einkahlutafélagið Kvakk. Síðan hefðu orðið skipti á hlutafénu í þessum félögum, þeir hefðu afhent hlutabréfin í Kvakki og fengið í staðinn hlutabréfin í Exista eins og kaupsamningur hefði kveðið á um.

Varðandi II. kafla ákæru kvaðst ákærði einnig neita sök, enda hefði hann engan þátt átt í að senda tilkynninguna. Hann kvaðst ekki vita hvað ákæruvaldið ætti við með því að tilkynningin hefði verið send að undirlagi hans. Hann kvaðst fyrst hafa séð tilkynninguna í yfirheyrslu í júní 2012. Nánar spurður um þetta kvaðst hann ekki geta upplýst annað en að meðákærði hefði unnið mikið fyrir Exista og eins væru þeir tveir vinir. Ákærði ítrekaði að umræddir 50 milljarðar hefðu aldrei verið greiddir inn í Exista. Hann tók einnig fram að eftir að Fyrirtækjaskrá hefði ákveðið að bakfæra ákvörðun sína hefði félagið ákveðið að draga hana til baka, en engu að síður hefði Fyrirtækjaskrá afturkallað hana sérstaklega.

Ákærði kvað niðurstöðuna hafa orðið þá að kaupin á hlutabréfunum hefðu gengið til baka. Þeir [...] hefðu fengið peningana til baka og hefðu notað þá til að gera upp lánið hjá Lýsingu. Eftirleikurinn hefði hins vegar verið sá að þeir hefðu á endanum misst Exista í hendur kröfuhafa.

Ákærði Bjarnfreður neitaði sök og bar við aðalmeðferð að í byrjun desember hefði komið beiðni frá Exista um að huga að ýmsum málum varðandi félagið. Hann kvað það ekki hafa verið nýtt, enda hefði um skeið legið í loftinu að hækka ætti hlutafé félagsins. Ákærði kvað LOGOS hafa sinnt ýmsum störfum fyrir Exista í aðdraganda hækkunarinnar og hefði hann og aðrir starfsmenn verið í sambandi við starfsmenn félagsins. Þá kvaðst ákærði hafa mætt á fund hjá Deloitte að morgni 4. desember og hefði hann skilið það svo að starfsmenn Exista hefðu verið að sækja sér ráðgjöf hjá fyrirtækinu varðandi hækkunina. Hann kvað erindi sitt á fundinn hafa verið annars vegar að geta um 16. gr. hlutafélagalaganna og hins vegar að LOGOS myndi ekki gefa út lögfræðiálit um hækkunina heldur væri um að ræða ráðgjöf af þeirra hálfu. Á fundinum hafi verið starfsmenn Deloitte og hafi þeir verið að sýna sérfræðiskýrslu endurskoðanda og fundarmenn verið að ræða orðalag hennar. Ákærði kvaðst hafa spurt hvort menn könnuðust ekki örugglega við nefnda 16. gr. og fengið þau svör að svo væri „og menn væru bara komnir fram hjá því“. Hann kvaðst ekki hafa verið lengi á fundinum og þegar hann kom á skrifstofu sína hefði hann sent tölvupóst á þá starfsfélaga sína sem höfðu komið að þessu máli. Í póstinum hefði hann lýst því sem gerðist á fundinum, en það hafi verið „að Deloitte ætlaði að vera með rúmt orðaða skýrslu og reyna á þá túlkun og sjá hvort hún færi í gegn eða ekki. Menn ætluðu að vera tilbúnir með gagnrök ef Fyrirtækjaskrá myndi ekki samþykkja þessa túlkun félagsins og endurskoðanda þess.“ Næst kvaðst ákærði hafa fengið tölvupóst frá starfsmanni félagsins þar sem fram hafi komið að endurskoðandinn væri tilbúinn „að kvitta upp á pappírana“ og eins hafi komið póstur með spurningu um hvort LOGOS geti tekið á móti greiðslu en endurskoðandinn hefði þurft „að fá staðfestingu á því að milljarðurinn sé kominn inn“. Ákærði kvað þetta reyndar hafa verið í samræmi við tölvupóst er hann hafi fengið kvöldinu áður frá starfsmanni Exista þar sem greint hafi verið frá niðurstöðum fundarins með starfsmönnum Deloitte, það er „að þeir myndu gefa út skýrsluna gegn því að við staðfestum milljarð, þannig að þetta var allt saman eins og venjulegur undanfari að sérfræðiskýrslu, það þarf að fá staðfestingu á þessum greiðslum“. Skömmu síðar kvaðst ákærði hafa fengið tölvupóst frá endurskoðandanum með orðunum: „Meðfylgjandi er sérfræðiskýrslan“ og undir póstinn skrifaði endurskoðandinn með kveðju. Eftir að hafa farið yfir skýrsluna kvaðst ákærði hafa beðið fulltrúa sinn að fara með tilkynningu til Fyrirtækjaskrár og þremur klukkutímum síðar hafi komið staðfesting á að búið værri að færa efni hennar inn.

Varðandi tilkynninguna, sem ákærði er ákærður fyrir að hafa sent, kvað ákærði hana hafa verið rétta og hafa skýrt frá því sem hafði gerst. Hann hafi einungis verið að tilkynna það sem umbjóðandi hans, stjórn Exista, hafði ákveðið að gera, það er að selja hluti í félaginu á sanngjörnu verði samkvæmt ráðgjöf er stjórnin hafði fengið um að væri löglegt. „Þetta var ákvörðun sem var löglega tekin af félaginu og ég gat bara ekkert annað gert en að tilkynna þetta.“ Tilkynningin sé alveg rétt og í henni sé vísað í sérfræðiskýrsluna. Hefði hann tilkynnt um eitthvað annað hefði tilkynningin verið röng. Nánar spurður um hlutafjárhækkunina bar ákærði að hann hefði skilið skýrsluna svo að 50 milljarðar hefðu komið inn í félagið. Hann hefði skilið það svo „að það væri niðurstaða endurskoðenda að þetta væri rétt mat út af hlutafjárhækkun Exista. Menn væru að láta reyna á rúma túlkun 16. gr., það er að það mætti horfa á lækkunina sem kæmi í kjölfarið líka í staðinn fyrir að það yrði gert á undan því niðurstaðan yrði sú sama.“ Hann kvað að vísu hafa verið efasemdir hjá LOGOS um að Fyrirtækjaskrá myndi fallast á þessa túlkun og hefði hann verið sammála þeim efasemdum.

Ákærði kvað meðákærða engan þátt hafa átt í að senda tilkynninguna og þeir hefðu ekki verið í samskiptum vegna hennar. Tilkynningin hefði ekki verið send að undirlagi meðákærða.

Endurskoðandinn, sem samdi framangreinda skýrslu, kvaðst hafa farið á fund starfsmanna Exista 3. desember ásamt tveimur öðrum frá Deloitte. Þar hefði þeim verið sagt frá hlutafjáraukningunni og hefði ætlunin verið að Deloitte semdi sérfræðiskýrslu um hækkunina. Henni var lýst þannig að það ætti að hækka hlutafé Exista um 50 milljarða og ætti að greiða það með félagi sem heitir Kvakkur og það væri BBR sem myndi leggja fram þessa hlutafjáraukningu upp á þessa 50 milljarða með einkahlutfélaginu Kvakki. Endurskoðandinn kvað afstöðu Deloitte til þessarar beiðni um að útbúa sérfræðiskýrslu hafa verið þá að segja að samkvæmt hlutafélagalögunum þyrfti að koma króna fyrir krónu, þannig að það gæti ekki gengið að hækka hlutafé Exista um 50 milljarða með einum milljarði. Það samrýmdist ekki hlutafélagalögunum að framkvæma hlutafjárhækkun þannig. Afstaða Deloitte hafi komið skýrt fram, þeir gætu ekki skrifað upp á þessa 50 milljarða hækkun en málin hefðu þróast þannig að þeir gætu staðfest þarna tvo hluti. Það var annars vegar að virði Kvakks væri einn milljarður ef þeir fengju staðfestingu á bankainnistæðu eða eitthverju slíku sem félagið ætti og hins vegar gætu þeir staðfest að virði Exista væri ekkert. En það var vitað á þessum tíma eftir bankahrunið að stærsta eign félagsins var verðlaus og að virði Exista hlyti þá að vera ekki neitt. Endurskoðandinn kvað ákveðna tímapressu hafa verið á þessu máli enda komið að gjalddaga skuldar eftir einn eða tvo daga. Hann kvaðst hafa talað í síma við ákærða Lýð og í því símtali sagt honum að Deloitte gæti ekki samið sérfræðiskýrslu um hækkunina en það gæti staðfest tvö framangreind atriði í skýrslu. Ákærði hefði svarað að það nægði og með því hefði samtalinu lokið. Varðandi samskipti við ákærða Bjarnfreð kvað endurskoðandinn hann hafa komið á fund daginn eftir og honum hefði verið sagt að Deloitte gæti ekki skrifað upp á þetta, staðfest þessa 50 milljarða. Hann kvaðst muna eftir því að einhver frá Deloitte hefði spurt ákærða að því hvort að hann ætlaði að skrifa upp á hækkunina og hefði þá verið átt við tilkynningu til Fyrirtækjaskrár. Ákærði hefði leitt það hjá sér að svara því. Að öðru leyti hefðu engin samskipti verið við ákærða Bjarnfreð. Endurskoðandanum var sýndur tölvupóstur þar sem fram kemur að hann kallar skýrsluna sérfræðiskýrslu og kvaðst hann vera sérfræðingur og hafa samið hana sem slíkur.

Annar endurskoðandi hjá Deloitte bar á sama hátt og fyrrgreindur endurskoðandi um fundi með starfsmönnum Exista, svo og um fundarefnið. Hann kvað þá hafa talað um það á einhverjum af þessum fundum að eðlilegri leið í þessu væri að byrja á að lækka hlutaféð og hækka það síðan með þessu, þá hefði nafnverðið verið orðið rétt miðað við verðmæti Exista á þeim tíma. Hann kvaðst ekki hafa verið upplýstur um af hverju sú leið var ekki farin. Hann kvaðst hafa lesið yfir skýrsluna og litið svo á að hún væri staðfesting fyrir stjórn Exista á því að þau verðmæti sem til stæði að leggja inn í félagið væru einn milljarður og það jafngilti þessum 77,9% hlut í Exista. Hann kvað það ekki hafa borið á góma að skýrslan yrði send til Fyrirtækjaskrár, enda hefðu þeir sagt allan tímann að Deloitte myndi ekki staðfesta þessa hlutafjárhækkun.

Lögfræðingur, sem starfaði hjá Deloitte á þessum tíma, bar að á fundi í desember með starfsmönnum Exista hefði verið farið yfir þær hugmyndir að hækka hlutaféð um 50 milljarða að nafnvirði. Eftir því sem leið á fundinn hefðu þó vaknað efasemdir um að þessi aðferðafræði, sem starfsmenn Exista hugðust beita, myndi standast hlutafélagalöggjöfina. Framangreindir endurskoðendur og lögfræðingurinn hefðu síðan hist aftur og rætt málin.  Niðurstaðan hefði orðið sú að það væri ekki hægt að gefa út sérfræðiskýrslu í samræmi við hlutafélagalöggjöfina, en það væri hægt að staðfesta það að milljarður svaraði til verðmætis fyrir hlutinn, það er að milljarður væri alveg fullnægjandi greiðsla fyrir 77% hlut í Exista á þessum tíma. Þessi milljarður hefði átt að vera hlutafé í einkahlutafélagi sem var ekki með rekstur en átti þó þessa fjárhæð á bankareikningi. Skýrslan sem Deloitte samdi var til þess að staðfesta verðmæti Exista en var ekki sérfræðiskýrsla í skilningi hlutafélagalaganna.

Annar þáverandi forstjóra Exista bar að í byrjun desember hefðu kröfuhafar félagsins kallað mjög ákveðið eftir stuðningi stærstu eigenda þess við það og eins hefði verið vaxtagjalddagi á sambankaláni þann 5. Hann kvaðst sjálfur hafa átt hugmyndina að því hvernig greitt var fyrir hlutafjárhækkunina, en hann hefði hins vegar ekki verið í samskiptum við endurskoðanda eða lögmenn vegna þess. Hann kvaðst hafa litið svo á að þetta væri eina leiðin til að koma réttum verðmætum milli þessara tveggja aðila og að Exista væri að selja hlutafé á nafnvirði 50 milljarðar gegn gjaldi, einum milljarði í Kvakki. Um sambærileg verðmæti hefði verið að ræða. Hann kvaðst hafa farið á fund í Fyrirtækjaskrá og þar hafi komið fram að hún hygðist fella niður skráninguna. Eftir það hefði verið ákveðið að kaupin gengju til baka og hefði umræddur milljarður verið endurgreiddur.

Hinn forstjórinn bar efnislega á sama hátt og fram er komið um fjárhagsstöðu Exista á þessum tíma. Hann kvaðst hafa litið á skýrslu Deloitte sem sérfræðiskýrslu. Þá bar hann á sama hátt og hinn forstjórinn um að kaupin hefðu gengið til baka.

Þáverandi fjármálastjóri Exista staðfesti slaka fjárhagsstöðu félagsins á þessum tíma. Einnig bar hann að það hefði skipt miklu máli í samskiptum við kröfuhafa að aðaleigendur félagsins hefðu sýnt í verki að þeir styddu við bakið á félaginu á erfiðum tímum

Starfsmaður á fjármálasviði Exista bar að hafa verið á einum fundi í desember ásamt öðrum starfsmanni Exista og framangreindum endurskoðendum og lögfræðingi frá Deloitte. Tilefni fundarins var að Exista var að biðja um sérfræðiskýrslu þar sem til stóð að hækka hlutafé félagsins í öðru heldur en reiðufé. Það kallaði þá á sérfræðiskýrslu endurskoðanda.   Hækkunin hefði átt að vera 50 milljarðar og endurgjaldið hlutafé í Kvakki að andvirði eins milljarðs. Hann kvað starfsmenn Deloitte hafa fallist á að semja sérfræðiskýrslu sem staðfesti 50 milljarða hækkun með greiðslu upp á 1 milljarð. Hann kvaðst hafa litið þannig á að þetta væri sérfræðiskýrsla samkvæmt 6. gr. hlutafélagalaganna þar sem verið væri að staðfesta innborgað hlutafé  í öðru heldur en reiðufé.

Þá komu fyrir dóm lögfræðingar, er unnu hjá Exista á þessum tíma, og báru á sömu lund og önnur vitni um aðdraganda þess sem er ákæruefnið. [...], sem var í stjórn Exista á þessum tíma, gat ekkert borið um málsatvik, nema hvað hann staðfesti bága fjárhagsstöðu félagsins í kjölfar bankahrunsins.

Einn af stjórnarmönnum Exista bar, eftir því sem hann taldi sig muna best, að stjórnendur félagsins hefðu fengið sérfræðimat frá endurskoðendum félagsins um að sú leið, sem farin var við hækkun hlutafjárins, væri lögleg og fær. Hann kvaðst ekki muna hvort  skýrsla Deloitte hefði verið lögð fram eða kynnt munnlega af stjórnendum félagsins.

Annar stjórnarmaður í Exista bar um stjórnarfund félagsins á sama hátt og fram er komið og þar með hvernig greiða átti fyrir hlutaféð. Hann kvað félagið hafa verið í tímaþröng og brýnt hefði verið að afla aukins fjár hið fyrsta.

Þáverandi bankastjóri Nýja Kaupþings banka bar að Exista hefði skuldað bankanum fé á þessum tíma og bankinn hefði kallað eftir frekari veðum til tryggingar skuldinni. Það næsta sem hann hefði svo vitað var að það hafði orðið breyting á eignarhaldi Exista þannig að hlutur bankans, sem tekinn hafði verið að veði, var orðinn miklu minni en áður hafði verið talið. Þannig að það hafi verið búið að rýra veðstöðu bankans og það hefði gerst mjög fljótlega eftir að veðkallið var sent. Bankinn hefði verið með veð í um helmingi hlutabréfa Exista en við þennan gjörning hefði hlutfallið farið niður í um 10% og þannig hefði veðstaða bankans augljóslega rýrnað. Hann kvaðst ekki muna betur en að þessu hefði verið mótmælt. Eins hefðu verið samskipti við Fyrirtækjaskrá til þess að ganga úr skugga um hvernig þetta hefði verið gert og hvernig í ósköpunum hefði staðið á því að Fyrirtækjaskrá hefði heimilað þetta því lögfræðingum bankans hefði þótt þetta strax mjög undarlegt.

Starfsmaður á útlánasviði bankans bar að ef bankinn hefði fylgt veðkallinu eftir hefði hann eignast um 40% hlut í Exista og þar með orðið stærsti hluthafinn og ráðandi í félaginu.

Lögfræðingur, sem starfaði hjá bankanum, bar að afleiðingar atburðarásarinnar, sem hefði farið af stað eftir veðkallið, hefðu verið „eins og þetta horfði við okkur þá var bankinn bara þynntur út. Sá hlutur sem var veðsettur, hann var þynntur út, þannig að það var enginn möguleiki á inngripi eða neinu slíku.“

Annar lögfræðingur bankans bar að stjórn Kaupþings á þessum tíma hefði ekki verið sátt við að verið væri að gera þetta með þessum hætti, það er að verið væri „að hækka hlutafé um 50 milljarða og greiða fyrir það einn milljarð. Það væri verið að nýta hækkunarheimildina í samþykktunum með þessum hætti. Á sama tíma og í andstöðu við þá, stóran kröfuhafa í félaginu.“ Lögfræðingurinn kvaðst hafa haft samskipti við Fjármálaeftirlitið og Kauphöllina vegna þessa og í þeim samskiptum hefði komið í ljós að þessir aðilar vissu að 50 milljarða hlutafé í Exista hefði farið út og einn milljarður af verðmætum komið í staðinn. Það hefði verið það sem hann hefði verið að mótmæla þegar hann hefði haft samband við þessar stofnanir. Hann kvað engin viðbrögð hafa komið frá þeim. Þá kvaðst hann ekki hafa verið ósáttur við tilkynninguna sjálfa sem send var Fyrirtækjaskrá, heldur við það sem til stóð að gera.

Lögmaður hjá LOGOS bar að stofan hefði tilkynnt um hækkun hlutafjár en ekki staðfest neitt í þeim efnum, enda ekki í verkahring hennar að gera það. Lögmaðurinn kvaðst hafa samið tilkynninguna og notað til þess form úr safni stofunnar. Lögmaðurinn hefði ekki sent hana vegna veikinda og þess vegna hefði ákærði Bjarnfreður gert það. Varðandi skýrsluna frá Deloitte kvað lögmaðurinn hana vera sérfræðiskýrslu í skilningi hlutafélagalaganna, enda hefði endurskoðandi sent hana með tölvupósti og sagt að meðfylgjandi væri sérfræðiskýrsla. Tveir aðrir lögmenn af lögmannsstofunni komu fyrir dóminn og báru efnislega á sama hátt. 

Lögmaður, sem fór á fund Fyrirtækjaskrár með framangreindum forstjóra, bar að vegna fjölmiðlaumfjöllunar um tilkynninguna hefði forstjórinn leitað ráða hjá sér um hvernig væri best að bregðast við. Þeir hefðu átt fund með starfsmönnum Fyrirtækjaskrár og hefði tilgangur hans verið að komast að því hvort það væri hægt að finna einhverja lausn á þessu. Niðurstaðan af þessum fundi hefði verið sú að Fyrirtækjaskrá ætlaði að fella niður þessa tilkynningu og í framhaldi af því ákváðu þeir að verða fyrri til og afturkalla tilkynninguna til að losna við frekari umræðu. Það hefði að vísu misheppnast því að skömmu eftir að lögmaðurinn hafði sent afturköllun felldi Fyrirtækjaskrá skráninguna niður með formlegum hætti.

Forstöðumaður Fyrirtækjaskrár bar að þegar um hækkun á hlutafé væri að ræða kæmi tilkynning um það frá viðkomandi félagi. Í tilkynningunni þurfi að greina frá því hvort hlutafé hafi verið greitt að fullu og raunar sé það svo að það eigi að vera búið að greiða hlutafé þegar tilkynning berst. Ef hlutafé er greitt í öðru en reiðufé þurfi að fylgja með svokölluð sérfræðiskýrsla löggilts endurskoðanda þar sem gerð sé grein fyrir þeim verðmætum sem koma inn í hlutafélagið fyrir hlutaféð. Varðandi tilkynninguna sem hér um ræðir kvað hann hana hafa komið inn síðdegis og sérfræðingar stofnunarinnar hafi ekki verið tiltækir. Þess vegna hafi hún verið lesin yfir af ólöglærðum starfsmanni og skráð. Hann kvað það hafa gefið skýrslunni aukinn trúverðugleika og hún hafi komið frá virtri lögmannsstofu. Síðar hafi stofnunin farið yfir tilkynninguna og komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi verið röng og ólögleg og þess vegna hafi hún verið bakfærð.

IV

Í fyrri kafla ákæru er ákærða Lýð gefið að sök að hafa, sem stjórnarmaður í einkahlutafélaginu BBR, brotið vísvitandi gegn ákvæðum hlutafélagalaga nr. 2/1995 með því að greiða Exista hf. minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í Exista hf,. eins og nánar er rakið ákæruliðnum. Hér að framan var rakinn framburður ákærða og vitna um aðdraganda þess að ákveðið var að auka hlutafé Exista hf. um 50 milljarða nýrra hluta. Þá var og gerð grein fyrir skýrslu endurskoðanda um þessa hækkun og þeirri niðurstöðu hans að kaupverð hlutanna, 1 milljarður hluta í einkahlutafélaginu Kvakki, svaraði að lágmarki til 77,9% hluta í Exista hf.

Með kaupsamningi 8. desember 2008 keypti BBR ehf. framangreinda hluti í Exista hf. og var kaupverðið greitt með framangreindu hlutafé í Kvakki ehf. Ákærði var stjórnarmaður í BBR ehf. og undirritar hann kaupsamninginn fyrir þess hönd. Á honum hvíldu skyldur stjórnarmanns, sbr. IX. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og auk þess hefur hann komið að rekstri fleiri félaga eins og hann bar sjálfur. Honum hlaut því að vera ljóst að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um hlutafélög má greiðsla hlutar ekki nema minna en nafnverði hans. Með því að greiða þannig nefnda fjárhæð fyrir hlutina í Exista hf. braut ákærði gegn þessu ákvæði, enda var honum óheimilt, sem stjórnarmanni í BBR ehf., að greiða minna en nafnverð fyrir þá. Ákærði verður því sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í fyrri kafla ákærunnar og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis. Ákærði framdi brotið 8. desember 2008. Hann var, sem sakborningur, yfirheyrður um málið af lögreglu 27. janúar 2010 og aftur 19. júní 2012. Sök hans er því ófyrnd, sbr. 81. og 82. gr. almennra hegningarlaga.

Í síðari kafla ákæru er ákærðu báðum gefið að sök að hafa skýrt vísvitandi rangt og villandi frá framangreindri hækkun á hlutafé í Exista hf. með því að ákærði Bjarnfreður sendi, að undirlagi ákærða Lýðs, tilkynningu þá sem grein var gerð fyrir í II. og III. kafla hér að framan. Ákærðu neita báðir sök. Ákærði Lýður bar að hann hefði fyrst vitað af tilkynningunni er hann var yfirheyrður af sérstökum saksóknara í júní 2012. Ákærði Bjarnfreður kvað tilkynninguna ekki hafa verið senda að undirlagi meðákærða og hefðu þeir ekki verið í samskiptum vegna hennar. Engin vitni hafa borið um aðkomu ákærða Lýðs að því að semja eða senda nefnda tilkynningu og engin önnur gögn styðja við fullyrðingu ákæruvaldsins um að tilkynningin hafi verið send að undirlagi ákærða. Samkvæmt þessu er ósannað að ákærði Lýður hafi átt þátt í að semja eða senda tilkynninguna eins og honum er gefið að sök. Þegar af þeirri ástæðu verður hann sýknaður af síðari lið ákærunnar.

Í I. kafla hér að framan var rakið hvað ákveðið var á stjórnarfundi Exista hf. 4. desember 2008 um hlutafjáraukningu í félaginu og hvernig að henni var staðið og fyrir hana greitt. Þá var og gerð grein fyrir skýrslu endurskoðanda hjá Deloitte, en hún fylgdi tilkynningunni til Fyrirtækjaskrár. Í tilkynningunni, sem ákært er út af, kemur ekki annað fram en það sem gerðist á nefndum stjórnarfundi. Hlutverk ákærða, sem lögmanns, var að tilkynna til Fyrirtækjaskrár það sem umbjóðandi hans hafði gert og hann hafði verið beðinn um. Í tilkynningunni kom fram það sem gerst hafði varðandi nefnda hækkun hlutafjár, auk þess sem með tilkynningunni fylgdi skýrsla endurskoðanda þar sem mun nákvæmari grein var gerð fyrir málinu. Það er því ekki hægt að fallast á það með ákæruvaldinu að ákærði hafi skýrt rangt og villandi frá hækkuninni. Þvert á móti skýrir tilkynningin og skýrsla endurskoðanda frá því sem gerðist. Hér að framan var því lýst hvernig Fyrirtækjaskrá tók á málinu í upphafi og svo síðar, en það er úrlausn þessa máls óviðkomandi. Samkvæmt þessu verður ákærði Bjarnfreður sýknaður af ákærunni.

Ákærði Lýður var sektaður fyrir umferðarlagabrot 2010. Honum verður því gerður hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að hafa í huga að samkvæmt margnefndri skýrslu endurskoðanda Deloitte var verðmæti það, sem BBR ehf. greiddi fyrir eignarhlutinn í Exista hf., sannvirði og hefur því mati ekki verið hnekkt. Þá hafa engar bótakröfur verið hafðar uppi í málinu. Að þessu athuguðu er refsing ákærða nú hæfilega ákveðin tveggja milljóna króna sekt með vararefsingu eins og í dómsorði segir.             

Samkvæmt framangreindum málsúrslitum verður ákærða Lýð gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns að hálfu en að hálfu skulu þau greidd úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda ákærða Bjarnfreðar skulu greidd úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun eru ákvörðuð með virðisaukaskatti.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Lýður Guðmundsson, greiði 2 milljónir króna í sekt og komi 60 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.

Ákærði, Bjarnfreður Ólafsson, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði Lýður greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Gests Jónssonar hrl., 10.900.000 krónur, að hálfu en að hálfu skulu þau greidd úr ríkissjóði.

Málsvarnarlaun verjanda ákærði Bjarnfreðar, Þorsteins Einarssonar hrl., 3.000.000 króna, skulu greidd úr ríkissjóði.