Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                              

Mánudaginn 9. janúar 2012.

Nr. 18/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 31. janúar 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2012.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að ákærða, [X], til heimilis að [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 31. janúar 2012, kl. 16:00.

Í greinargerð ákæruvaldsins kemur fram að rannsóknargögn hafi borist ríkissaksóknara 21. desember sl., og hafi mál verið höfðað með útgáfu ákæru í dag, 3. janúar.

Bent er á að í ákæru sé ákærða gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot og tolla-, lyfja- og lyfsölulagabrot með því að hafa staðið, saman með [Z], að innflutningi á fíkniefnum og steralyfjum ætluðum til söludreifingar í ágóðaskyni, þ.e. 9.908,06 g af amfetamíni, 8.100 töflum af fíkniefninu MDMA, 200,37 g af kókaíni, 11,73 g af fíkniefninu MDMA og eftirfarandi vefaukandi steralyfjum: 8.800 stykkjum af Metenolon töflum, 100 stykkjum af Nandrolon stungulyfi, 91 stykki af Primobolan stungulyfi, 100 stykkjum af Stanozolol töflum, 790 stykkjum af Sustanon ampúlum, 148 stykkjum af Testosteron stungulyfi, 1.800 stykkjum af Teostosteron töflum, 60 stykkjum af Danazol töflum og 60 millilítrum af Trenbolon stungulyfi, en fíkniefnin og steralyfin hafi verið flutt til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi frá fyrirtækinu Thorship sem lagt hafi að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði 10. október sl. og hafi efnin samdægurs verið haldlögð af lögreglu. Í ákæru sé nánar rakið verkaskipting brotsins, sem og meint aðkoma meðákærða, [Y], að innflutningi á hluta steralyfjanna.

Þá sé ákærða einnig gefið að sök fíkniefnalagabrot með því að hafa, mánudaginn 10. október á dvalarstað sínum að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 1,06 g af kókaíni sem lögregla hafi fundið við húsleit.

Ákæruvaldið telji brot ákærða varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001 og 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 32. gr., sbr. 1. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 ásamt áorðnum breytingum og 1. mgr. 170. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 1. mgr. 6. gr., sbr. 7. gr. reglugerðar um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota nr. 212/1998 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001

Þá er þess getið að ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 11. október sl., í fyrstu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en frá 8. nóvember sl. á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 659/2011.

Að mati ríkissaksóknari liggi ákærði undir sterkum grun um að hafa framið ofangreind brot. Þá liggi fyrir að brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga geti varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans. Vísist að öðru leyti um kröfuna til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem og fyrri úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur og dóma Hæstaréttar.

Niðurstaða:

Eins og rakið hefur verið er ákærði undir sterkum grun um aðild að broti gegn lögum um ávana- og fíkniefni, með því að hafa staðið að innflutningi á umtalsverðu magni fíkniefna. Brot það sem ákærði er grunaður um að hafa framið getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 11. október sl., í fyrstu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en frá 8. nóvember sl. á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 659/2011. Samkvæmt framansögðu verður fallist á það með ákæruvaldinu að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður því orðið við kröfu ákæruvaldsins, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði,  [X], [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 31. janúar 2012, kl. 16:00.

.