Hæstiréttur íslands

Mál nr. 70/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá
  • Arfleiðsluvottorð
  • Arfleiðsluhæfi


                                     

Mánudaginn 5. mars 2012.

Nr. 70/2012.

B

(Björn Jóhannesson hrl.)

gegn

C

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

Kærumál. Erfðaskrá. Arfleiðsluvottorð. Arfleiðsluhæfi.

B kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu C um að erfðaskrá A frá árinu 2009 skyldi við skipti á dánarbúi hans metin ógild. Málsatvik voru þau að A, sem enga lögerfingja átti, gerði árið 2003 erfðaskrá þar sem hann arfleiddi C að öllum eigum sínum. Skömmu fyrir andlát sitt árið 2009 gerði A nýja erfðaskrá, en samkvæmt henni skyldu eignir hans renna til B og ganga til viðhalds og endurnýjunar kirkjunnar. Deila aðila laut einkum að því hvort A hefði við gerð síðari erfðaskrárinnar fullnægt hæfisskilyrðum 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Hæstiréttur sló því föstu að erfðaskráin frá 2009 hefði ekki fullnægt formskilyrðum erfðalaga þar sem ekki var getið um það í arfleiðsluvottorði lögbókanda hvort A hefði verið svo heill heilsu andlega að hann væri hæfur til að gera erfðaskrá og því bar B sönnunarbyrði þar um. Rétturinn taldi sýnt að A hefði við það tímamark verið svo heill heilsu andlega að hann hefði verið fær um að gera þá ráðstöfun sem fólst í erfðaskránni á skynsamlegan hátt. Var kröfu C því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2012, sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 6. janúar 2012, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að erfðaskrá A frá 20. október 2009, en A lést [...] október það ár, skuli við skipti á dánarbúi hans metin ógild. Þess í stað skuli erfðaskrá A frá 10. september 2003 lögð til grundvallar við skiptin. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind erfðaskrá frá 20. október 2009 verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi A. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I

Krafa varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti er engum gildum rökum studd, enda er með hefðbundnum og fullnægjandi hætti gerð grein fyrir því í kæru á hvaða ástæðum hún er reist. Af málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti er ljóst að krafa hans er bæði reist á þeirri málsástæðu að varnaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að A hafi ekki fullnægt hæfisskilyrðum 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 við gerð erfðaskrárinnar 20. október 2009 og óháð því hvort á það verði fallist hafi tekist sönnun um að A hafi þá verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun sem í erfðaskránni fólst á skynsamlegan hátt.

II

A fæddist að [...] á Barðaströnd [...] 1918 og andaðist [...] október 2009 á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Hann var ókvæntur og barnlaus og hafði því heimild til að ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá án takmörkunar, sbr. 35. gr. erfðalaga. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi var hann lengst framan af ævi búsettur að [...], en bjó þó um hríð á Rauðasandi og Tálknafirði. Árið 1971 fluttist hann til [...]. Frá árinu 2000 naut hann heimahjúkrunar. Þá naut hann  heimilishjálpar á vegum sveitarfélagsins. Varnaraðili starfaði á vegum heimaþjónustu [...] og sinnti A í mörg ár. Tókst með þeim mikil og góð vinátta. Hann gerði 10. september 2003 erfðaskrá þar sem hann arfleiddi varnaraðila að öllum eigum sínum. Var þar kveðið á um að arfleifandi skyldi grafinn í kirkjugarðinum á [...]. Erfðaskráin er vottuð af lögbókandanum á  [...]. Í ágúst 2008 var A lagður inn á sjúkrahús á [...], en eftir skamma dvöl fluttur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Eftir að hann náði sér af veikindum var hann vistaður á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunarinnar þar sem hann dvaldi til dauðadags. Ellefu dögum fyrir andlát sitt gerði A nýja erfðaskrá. Samkvæmt henni skyldu allar eignir hans renna til B og ganga til viðhalds og endurnýjunar kirkjunnar. Þar kom og fram að arfleifandi óskaði þess að verða jarðsettur í kirkjugarðinum á Ísafirði. Í erfðaskránni er tekið fram að fyrri erfðaskrá væri jafnframt ógilt. Ágreiningur aðila um gildi þessarar erfðaskrár er tilefni dómsmáls þessa.

III

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er hafnað þeim málsástæðum varnaraðila er varða aðildarskort sóknaraðila, að ótilhlíðleg áhrif hafi verið höfð á A heitinn er hann gerði erfðaskrána 20. október 2009 og að nafnritun arfleifanda sjálfs sé ekki undir erfðaskránni.

 Hin umdeilda erfðaskrá er vottuð af lögbókandanum á Ísafirði. Vottorðið er svohljóðandi: „Árið 2009, hinn 20 október, var undirritaður lögbókandi staddur á Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar að Torfnesi, Ísafjarðarbæ. Hitti hann þar fyrir A ... sem er vistmaður á öldrunardeild. A sannaði á sér deili og lagði fram þessa erfðaskrá, sem hann undirritaði í viðurvist lögbókanda og undirritaðra votta. Kvaðst hann vera heill andlegrar heilsu, gera þetta af fúsum og frjálsum vilja og kvað erfðaskrána hafa að geyma vilja sinn. Lögbókandi á Ísafirði, 20. október 2009.“ Undir vottorðið ritar lögbókandinn og það er stimplað með stimpli hans. Þá rita á erfðaskrána sem vottar Tryggvi Guðmundsson héraðsdómslögmaður og D. Með vísun til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að með framangreindu arfleiðsluvottorði lögbókanda sé ekki fullnægt því skilyrði 43. gr. erfðalaga, sbr. 2. mgr. 42. gr., að þess skuli getið í arfleiðsluvottorði hvort arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá. Fullnægjandi arfleiðsluvottorð hefur því ekki verið fært á skjalið og uppfyllir erfðaskráin að þessu leyti ekki formskilyrði sem erfðalög áskilja. Af því leiðir samkvæmt 2. mgr. 45. gr. erfðalaga að sönnunarbyrði hvílir á sóknaraðila fyrir því að A hafi fullnægt hæfisskilyrðum 2. mgr. 34. gr. laganna er hann undirritaði erfðaskrána 20. október 2009.

IV

D, annar þeirra sem ritaði auk lögbókanda sem vottur á erfðaskrána 20. október 2009, var sá maður sem samkvæmt skýrslum vitna fyrir héraðsdómi virðist oftast hafa heimsótt A á öldrunardeild sjúkrahússins. Í skýrslu fyrir héraðsdómi sagði D að A hefði hringt til sín 18. október 2009, en þann dag hafi systir A dáið. Hafi A sagt að hann vildi ekki verða sér til skammar þegar hann væri dáinn. Þegar hann hafi verið inntur eftir því hvað hann ætti við með þessu hafi hann tjáð D að varnaraðili hafi hringt tvisvar í sig til að biðja um peninga og hafi hann talið sig vera búinn að láta hana hafa þrjár milljónir króna. Hafi hann sagt að varnaraðili hefði ekki heimsótt sig í allt sumar og hefði yfirleitt ekki frumkvæði að því að hringja í sig. Hafi A sagst vilja gera nýja erfðaskrá. Hafi D fundist vera orðin breyting á viðhorfi A til varnaraðila, en hann hafi fram að þessu talað hlýlega um hana og þótt vænt um hana. Hafi A sagst vilja leggja fé sitt til uppbyggingar á prestbústaðnum á [...], en gamall sveitungi sinn væri að safna peningum til að gera húsið upp. Jafnfram hafi hann sagst vilja hvíla á Ísafirði. Í framhaldi af þessu hafi D leitað til Tryggva Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, en hann er hinn votturinn auk lögbókanda á erfðaskránni.

 Tryggvi kvaðst í skýrslu fyrir héraðsdómi hafa kannað málið og komist að því að prestbústaðurinn á [...] væri ekki í eigu kirkjunnar og sagt D það. Hrafn kvaðst hafa tjáð A þetta en hann þá strax sagst vilja láta sína gömlu sóknarkirkju hafa peningana eftir sinn dag. Tryggvi kvaðst hafa að beiðni D hitt A einum eða tveimur dögum áður en erfðaskráin var undirrituð. Hafi þeir rætt um að A vildi breyta erfðaskrá sinni og hvers efnis hún ætti að vera. A hafi hins vegar ekki gefið Tryggva neinar skýringar á því hvers vegna hann vildi gera þessar breytingar. Í framhaldi af því hafi Tryggvi samið texta erfðaskrárinnar, en hann mun einnig hafa samið texta framangreinds vottorðs lögbókanda sem á hana var ritað.

 Önnur vitni gátu lítið borið um breyttan vilja A til ráðstafana eftir sinn dag eða af hvað ástæðum hann vildi gera nýja erfðaskrá. E hjúkrunarfræðingur, sem kunnugt var um efni fyrri erfðaskrárinnar, kvaðst um þetta leiti hafa spurt A hvort hann hygðist gera nýja erfðaskrá. Hann hafi játað því, en brugðist svolítið reiður við afskiptasemi hennar og þau ekki rætt það frekar. E sóknarprestur kvaðst hafa rætt við A að kvöldi 20. október 2009.  Hann hafi þá sagt sér að hann væri búinn að gera nýja erfðaskrá og hefði nú tekið þá ákvörðun að vera jarðsettur á Ísafirði. Ekki hafi þeir rætt önnur efnisatriði erfðaskrárinnar þetta sinn, en A hafi rætt um það síðar að hann hafi látið einhverja konu hafa peninga og ætlaði ekki að láta hana hafa meira. Hafi E skilist að þetta tengdist erfðaskránni, en um það var hann þó ekki viss.

V

Að beiðni varnaraðila voru 2. mars 2011 dómkvaddir tveir menn, Jón G. Snædal öldrunarlæknir og Tómas Zoëga geðlæknir til að meta andlegt atgervi A. Matsgerð þeirra er dagsett 8. júní 2011. Matsmenn yfirfóru sjúkraskrár A bæði frá Heilbrigðisstofnuninni á [...] og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði og höfðu undir höndum vottorð yfirlæknanna Helga Kr. Sigmundssonar og Þorsteins Jóhannessonar, en þeir störfuðu á síðarnefndu stofnuninni. Í matsgerðinni kemur fram að aldrei hafi verið gert formlegt mat á vitrænni getu eða andlegri líðan A á þeim tíma sem hann dvaldi á sjúkrahúsinu. Því þurfi að túlka þau gögn sem fyrir liggi. Í vottorði Þorsteins yfirlæknis komi fram að starfsmenn hafi farið að taka eftir andlegri vanstillingu hjá A upp úr miðjum júlí 2009. Nær einu heimildirnar í gögnum málsins um ástand A sé að finna í skýrslum hjúkrunarfræðinga, en þær séu ritaðar í lok hverrar vaktar. Þar komi fram að í miðjum júlí 2009 fari hann að eiga í útistöðum við herbergisfélaga og í september en einkum október sé lýst vaxandi líkamlegum einkennum og svefntruflunum. Að kvöldi 7. október 2009 sé í eina skiptið lýst að hann sé illa áttaður, en aldrei sé annars minnst á rugl eða óráð eða að hann sé gleyminn eða utan við sig. Hann hafi aldrei fengið lyf við rugli, ranghugmyndum, depurð eða kvíða, sem bendi til þess að líðan hans og andlegt ástand hafi ekki verið slæmt. Hið eina af þeim lyfjum sem A fékk sem gæti haft áhrif á andlega hæfni hans sé svefnlyfið Immovane. Ellefu dögum eftir að hann fór að taka þetta svefnlyf að staðaldri hafi hann skrifað hina umdeildu erfðaaskrá, en aldrei sé getið um rugl eða önnur andleg frávik á þessum dögum. Fyrir liggi að A hafi veikst æ meir síðustu vikur fyrir andlátið en matsmenn geti ekki dæmt um hvaða áhrif það hafi haft á andlega getu hans. Ekkert komi fram í gögnum sem bendi til þess að A hafi verið haldinn ranghugmyndum um varnaraðila og engin gögn séu um hvort andlegt ástand A hafi verið með þeim hætti að hann hafi verið ófær um að gera breytingar á erfðaskrá sinni. Lokaorð matsgerðarinnar, sem eru svar við 6. spurningu matsbeiðanda um það hvort A hafi við undirritun erfðaskrárinnar 20 október 2009 verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsaman hátt eru svohljóðandi: „Upplýsingar í sjúkragögnum eru af mjög skornum skammti. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir er ekki hægt [að] fullyrða að A hafi verið ófær vegna ástands síns [að] gera þær ráðstafanir sem hann gerði hinn 20. október 2009.“

Matsmenn gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Í skýrslu Jóns G. Snædal kom fram að gögn málsins væru óljós. Í þeim væri ekki getið um andlega vanheilsu A nema að mjög takmörkuðu leyti. Það væri sín reynsla að þess sé getið ef andleg vanheilsa sé áberandi þegar einstaklingar dvelji á stofnunum af þessu tagi. Hann geti ekki svarað því „óyggjandi“ að A hafi verið andlega hæfur þegar hann undirritaði erfðaskrána, á því leiki viss vafi. Hann sagði að A virtist hafa haft ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og það virtist út frá gögnum málsins ekki hafa breyst í þessari síðustu legu A, en hann vildi ítreka að gögnin væru „ósköp fátækleg.“ Tómas Zoëga tók fram að gögnin sem matsmenn höfðu til að styðjast við hefðu ekki verið ítarleg og að matsmönnum hefði báðum fundist sjúkragögnin og þá einkum hvað varðaði læknaupplýsingar „svona frekar snautleg“. Líkt og Jón tók hann fram að ef rugl á sjúklingi valdi breytingu á hegðun hans, sérstaklega þannig að grípa þurfi til lyfjagjafar sé það almennt skráð, en slíkar skráningar séu ekki í tilviki A. Þegar lögmaður varnaraðila gekk á hann um að fá skýrt svar við spurningunni um hvort hægt væri að fullyrða að A hefði verið hæfur til arfleiðslunnar treysti matsmaðurinn sér ekki til að svara því afdráttarlaust.

Í málinu liggur fyrir vottorð Helga Kr. Sigmundssonar yfirlæknis 9. desember 2010. Þar kemur fram að andlegt hæfi A hafi ekki verið metið og hann geti ekki vottað hvort A hafi verið hæfur til erfðaráðstöfunar 20. október 2009. Framburður hans fyrir héraðsdómi var mjög á sömu lund. Í vottorði Þorsteins Jóhannessonar yfirlæknis 22. desember 2010 kemur fram að andlegt atgervi A hafi farið þverrandi frá júlímánuði 2009, en hann telji sig „engan veginn færan um að svara því hvort A hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá þann 20.10.09.“ Í framburði hans fyrir héraðsdómi kom fram svipuð afstaða. Hann taldi A hafa verið með lifandi áhuga á því sem var að gerast í kring um hann, sérstaklega í pólitík, en sá áhugi hafi fjarað út undir það síðasta. Hann treysti sér ekki til að svara því hvort A hefði verið hæfur til að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt 20. október. 

G hjúkrunarfræðingur kvaðst fyrir héraðsdómi hafa verið nýbyrjuð að vinna á öldrunardeildinni og því ekki hafa þekkt A vel. Hann hafi verið líkamlega mjög lélegur, en virst alveg fylgjast með og hafi spjallað við hjúkrunarfólkið. Aðspurð af lögmanni varnaraðila um hvort hún teldi A hafa verið hæfan til arfleiðslunnar svaraði hún á þá lund að sér hafi fundist hann í svipuðu ástandi og þegar hann kom á sjúkrahúsið, hann hafi þekkt starfsfólkið með nafni, en hún ætti í rauninni erfitt með að segja til um hæfið. Þá kvaðst hún telja að minni hans hafi ekki hrakað frá því hann kom á sjúkrahúsið. E hjúkrunarfræðingur kvaðst hafa þekkt A frá því að hann kom á öldrunardeild sjúkrahússins. Hún skýrði svo frá fyrir héraðsdómi að sér hafi ekki fundist A breytast mikið eftir að hún kynntist honum. Hann hafi verið „einföld sál“ en alltaf nokkuð sjálfum sér samkvæmur og það hafi ekki breyst þennan mánuð áður en hann dó. Hún kvað A hafa verið orðinn veikan þarna síðustu dagana. Hún hafi þó ekki getað merkt að hann væri eitthvað byrjaður að „heilabilast eða gleyma eða neitt svoleiðis.“ Hann hafi verið sjálfum sér líkur hvað það snertir. Hún kvaðst sérstaklega aðspurð þó ekki geta sagt hvort A hafi verið hæfur til að breyta erfðaskránni.

 F sóknarprestur kvaðst hafa komið reglulega á sjúkrahúsið og hafa kynnst A um leið og hann kom þangað. Hann hafi verið hress og opinn og þeir hafi rætt um trúmál, pólitík og fótbolta. Hafi F sóst eftir því að ræða við A.  Hann hefði aldrei upplifað að A væri andlega vanheill eða honum væri farið að hraka svo að hann gerði sér ekki grein fyrir hvað hann væri að gera. Hann hafi ekki fundið andlegar breytingar á A síðan að hann kom á sjúkrahúsið og að hann hafi getað rætt um fótbolta og það sem væri að gerast í pólitík sem „benti nú til að hann væri nú alveg með fullum sönsum.“ Hann hafi rætt við hann daginn sem hann gerði erfðaskrána og ekki getað „merkt það, að hann væri neitt öðru vísi þennan dag en aðra daga þegar ég hitti hann.“

Eins og að framan er rakið samdi Tryggvi Guðmundsson héraðsdómslögmaður hina umdeildu erfðaskrá. Eftir að D hafi beðið sig um að gera erfðaskrá fyrir A kvaðst hann í skýrslu fyrir héraðsdómi hafa haft samband við Þorstein Jóhannesson yfirlækni og spurst fyrir um hvort A væri andlega hress. Hafi Þorsteinn talið svo vera. Um efni þessa samtals ber þeim ekki að fullu saman þar sem Þorsteinn segist hafa svarað spurningu Tryggva um ástand A þannig að „karlinn hefur bara verið svona það er hægt að tala við hann“, en Tryggvi yrði sjálfur að meta andlegt hæfi A. Eftir þetta samtal, einum eða tveimur dögum fyrir undirritun erfðaskrárinnar, kvaðst Tryggvi hafa farið upp á sjúkrahús og rætt við A. Hafi hann dvalið hjá honum um stund til að reyna að gera sér grein fyrir því hvort hann væri hæfur til að gera erfðaskrá. Hafi hann ekki getað fundið annað en að A „væri alveg með fulla skynsemi til þess“. Hafi það ekkert farið milli mála að A hafi gert sér grein fyrir því hvað hann var að gera. Hann hafi síðan samið erfðaskrána og farið einum eða tveimur dögum síðar til A og verið viðstaddur þegar lögbókandinn las erfðaskrána upp fyrir A, ræddi við hann um efni hennar og sannfærði sig um að þetta væri hans vilji. Sig minni að A hafi undirritað tvö eintök af erfðaskránni.

D kvað í skýrslu fyrir héraðsdómi að heilsu A hafi farið að hraka frá ágústlokum 2009. Þetta hafi þó ekki átt við um andlega heilsu hans. Ekkert hafi borið á gleymsku og hann hafi hugsað mikið um pólitík og þeir rætt um hana og knattspyrnu. Þann 20. október hafi Tryggvi hringt í sig og boðað sig á sjúkrahúsið, en þangað hafi þá Tryggvi verið búinn að boða lögbókanda til að votta erfðaskrána. Hafi lögbókandinn spjallað við A og síðan lesið fyrir hann erfðaskrána og spurt „á milli“ hvort þetta væri rétt og því hafi A alltaf jánkað. A hafi síðan verið fengin gleraugu og hann lesið sjálfur yfir erfðaskrána og síðan undirritað hana. Síðar um kvöldið hafi hann heimsótt A sem hafi verið mjög glaður yfir að hafa lokið gerð erfðaskrárinnar. Daginn eftir hafi A beðið sig að skrifa allan starfsferil sinn niður eftir sinni fyrirsögn og spurður um tilgang þess sagt að Hrafn gæti látið prestinn hafa þetta. Síðan hafi hann skrifað eftir A fæðingar- og dánardag föður hans, móður og allra systkinanna, en þau voru sjö og hafi það allt verið rétt, nema að einum degi hafi munað í einu tilviki.

Una Þóra Magnúsdóttir, sem var lögbókandi við vottun á hinni umdeildu erfðaskrá, gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Hún kvaðst hafa farið með Tryggva Guðmundssyni á sjúkrahúsið og hitt A þar fyrir rúmliggjandi. Hafi A virst líkamlega hrumur. Hafi hún lesið erfðaskrána fyrir A, gert hlé á lestrinum eftir hverja setningu og spurt hvort þetta væri rétt og A samsinnt því. Hafi hún sérstaklega innt hann eftir því hvort þetta væri samkvæmt hans vilja. Hafi henni fundist hann meðvitaður um hvað hann var að gera. Þau Tryggvi hafi spjallað við A og sér virst hann vel áttaður og liggja fremur vel á honum. Hafi hann virst algjörlega heill heilsu andlega og vitað hvað hann var að gera. Í skýrslu Unu Þóru kom fram að hún taldi texta notorialvottorðsins á erfðaskránni ranglega vera staðlaðan texta embættis sýslumannsins á Ísafirði. Verður ekki séð að það rýri trúverðugleika framburðar hennar um það sem fram fór á heilbrigðisstofnuninni umrætt sinn eða dragi úr gildi mats hennar á andlegri færni A.

VI

Af þeim skýrslum fyrir dómi sem raktar eru í IV kafla hér að framan verður dregin sú ályktun að vilji A hafi staðið til að breyta þeim ráðstöfunum sem ákveðnar höfðu verið með fyrri erfðaskrá og láta eignir sínar þess í stað renna til B. Verður ekki séð að D eða Tryggvi Guðmundsson hafi haft neinna þeirra hagsmuna að gæta af því að erfðaskráin verði metin gild, er rýrt geti gildi skýrslna þeirra.

Af matsgerðinni 8. júní 2011 og skýrslum matsmanna fyrir dómi sést að ekkert í gögnum þeim sem fyrir matsmönnum lá gaf tilefni til að draga andlegt hæfi A í efa. Á hinn bóginn voru þessi gögn ekki það ítarleg að matsmenn treystu sér á grundvelli þeirra til að svara því afdráttarlaust að A hafi haft andlegt hæfi til að gera erfðaskrána. Í þessu sambandi verður til þess að líta að fjögur vitni sem höfðu regluleg samskipti við A um þær mundir sem erfðaskráin var gerð, þau G, E, F og D, báru öll fyrir héraðsdómi að A hafi á þessum tíma verið við óskerta andlega heilsu. Þá báru þau Una Þóra Magnúsdóttir og Tryggvi Guðmundsson, sem bæði leituðust með viðtölum við A við að kanna sérstaklega andlegt hæfi hans til að gera erfðaskrána, að þeim hafi virst hann með fulla andlega burði og meðvitaður um hvað hann var að gera. Þegar allt þetta er virt verður talið að sýnt hafi verið fram á að A hafi þann 20. október 2009 verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun sem fólst í erfðaskránni á skynsamlegan hátt. Verður því hafnað kröfu varnaraðila um að erfðakráin verði metin ógild.

Eftir atvikum verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

 Hafnað er kröfu varnaraðila, C, um að erfðaskrá A frá 20. október 2009 verði ógilt.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 6. janúar 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. nóvember sl., barst dómnum með bréfi skiptastjóra, Inga Tryggvasonar hdl., dagsettu 8. mars 2010. Styðst málskot þetta við 53. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Sóknaraðili málsins er C, [...], [...]. Varnaraðili er B, [...], [...].

Sóknaraðili gerir þær kröfur að erfðaskrá A, kt. [...], sem lést [...] október 2009, verði metin ógild og að við skipti á dánarbúi A skuli erfðaskrá hans frá 10. september 2003 lögð til grundvallar um erfðaréttindi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað og að erfðaskrá sú sem A, kt. [...], gerði 20. október 2009 verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi hans. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

A.

A, hér eftir nefndur arfleifandi, andaðist [...] október 2009 á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Arfleifandi fæddist að [...] á [...] [...] 1918 þar sem hann bjó fyrstu fimmtán æviár sín. Var arfleifandi þriðji elstur í röð sjö systkina. Faðir arfleifanda lést þegar hann var fimm ára. Stóð móðir arfleifanda fyrir búi að [...] næsta áratuginn þar á eftir. Sextán ára gamall fór arfleifandi í vinnumennsku að [...] á Rauðasandi þar sem hann var í um níu ár. Árið 1943 sneri hann aftur að [...] þar sem hann bjó fram til 1961. Mun arfleifandi hafa starfað við vegavinnu á sumrin en bústörf á veturna, en á þessum tíma stóðu H, systir arfleifanda, og maður hennar fyrir búrekstri að [...]. Árið 1961 fluttist arfleifandi til Tálknafjarðar þar sem hann bjó í fjögur ár. Arfleifandi fluttist að nýju að [...] 1965 og bjó þar fram til 1971. Vann hann á þessum árum ýmsa verkamannavinnu, auk þess að fara á vertíð suður með sjó yfir vetrarmánuðina. Árið 1971 fluttist arfleifandi til [...] þar sem hann bjó sér heimili að [...] ásamt I bróður sínum. Starfaði arfleifandi í fyrstu við byggingarvinnu, síðar fiskvinnslu, en frá árinu 1973 og til starfsloka var hann starfsmaður í áhaldahúsi bæjarins.

Arfleifandi var ókvæntur og barnlaus. Hann mun hafa haft brennandi áhuga á pólitík og íþróttum og þekkt afar vel til þeirra mála. Heilsufar arfleifanda mun alla tíð hafa verið gott. Hann var þó lagður inn á sjúkrahúsið á [...] í rúmar þrjár vikur árið 2004 vegna slitgigtar í hægri mjöðm og hjartsláttaróreglu.

Frá árinu 2000 naut arfleifandi aðstoðar heimahjúkrunar og heimsótti hjúkrunarfræðingur frá Heilbrigðisstofnuninni [...] hann reglulega. Hann fékk sendan mat frá stofnuninni á virkum dögum, en um sjö ára skeið sáu nágrannar hans, J og K, um að koma til hans mat um helgar. Þá veittu J og K honum ýmsa aðra aðstoð. Arfleifandi naut jafnframt félagslegrar heimilishjálpar á vegum sveitarfélagsins. Sóknaraðili starfaði á vegum heimaþjónustu [...] og sinnti arfleifanda í mörg ár. Mun sóknaraðili hafa veitt arfleifanda mikla aðstoð við að sinna daglegum þörfum. Óumdeilt er í málinu að með sóknaraðila og arfleifanda hafi tekist mikil og góð vinátta.

Arfleifandi bjó í íbúð sinni á [...] allt þar til í ágúst 2008 er hann var lagður inn á sjúkrahús á [...] vegna blóðs í þvagi. Eftir tólf daga dvöl þar var hann fluttur á sjúkrahús á Ísafirði. Þar tókst að vinna bug á veikindum arfleifanda en í framhaldinu varð úr að hann færi til dvalar á öldrunardeild sjúkrahússins.

Haustið 2009 fór heilsu arfleifanda að hraka og svo fór að hann lést [...] október 2009, rúmlega 91 árs að aldri. Um það hvernig andlátið bar að segir í vottorði Helga Sigmundssonar læknis, dagsettu 9. desember 2010: „Nokkrum vikum fyrir andlát dró stöðugt af honum og var greinilegt að lífskraftur hans fór þverrandi. Hann virtist ætíð fylgjast vel með atburðum líðandi stundar, t.d. fréttum, stjórnmálum og sérstaklega íþróttum ýmiskonar. Á þessu varð breyting eftir að hann veiktist sem verður að teljast ekki óalgengt við þessar kringumstæður. Síðustu dagana fyrir andlátið lá hann banalegu, hlaut hjúkrun og aðhlynningu en var mjög af honum öllum dregið bæði líkamlega og andlega. Andaðist þann [...].10.2009 líklegast úr lungnabólgu.“

B.

Hinn 10. september 2003 gerði arfleifandi erfðaskrá. Í henni arfleiddi hann sóknaraðila að öllum eigum sínum. Var tekið fram að félli sóknaraðili frá á undan arfleifanda skyldi sonur sóknaraðila taka arf eftir arfleifanda með sama hætti. Féllu sóknaraðili og sonur hans báðir frá á undan arfláta skyldi arfurinn renna til lögerfingja sonarins. Í erfðaskránni var jafnframt kveðið á um það að arfleifandi skyldi grafinn í kirkjugarðinum á [...]. Var erfðaskráin vottuð af lögbókandanum á [...] og tveimur tilkvöddum „notarialvottum“.

Rúmum sex árum síðar, hinn 20. október 2009, gerði arfleifandi nýja erfðaskrá er hann lá á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði. Var erfðaskráin færð í letur af Tryggva Guðmundssyni hdl. Í erfðaskránni er kveðið á um að allar eigur arfleifanda skuli ganga til varnaraðila, „B, kt. [...].“ Síðan segir þar svo: „Fjármunir þeir eða önnur verðmæti sem ég læt þannig eftir mig skulu ganga til viðhalds og endurnýjunar á kirkjunni á [...] í [...].“ Geymir erfðaskráin einnig ósk arfleifanda um að hann verði jarðsettur í kirkjugarðinum á Ísafirði. Þá er þar jafnframt kveðið á um að með erfðaskránni sé ógilt fyrri erfðaskrá frá árinu 2003. Tveir vottar rituðu nafn sitt á erfðaskrána, fyrrnefndur Tryggvi Guðmundsson hdl. og D. Þá var erfðaskráin jafnframt undirrituð í viðurvist lögbókandans á Ísafirði. Í vottorði lögbókanda, sem prentað er á erfðaskrána með sama hætti og meginmál hennar, segir svo:

Árið 2009, hinn 20. október, var undirritaður lögbókandi staddur á Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar að Torfnesi, Ísafjarðarbæ. Hitti hann þar fyrir A, kt. [...], sem er vistmaður á öldrunardeild. A sannaði á sér deili og lagði fram þessa erfðaskrá, sem hann undirrituðu (sic) í viðurvist lögbókanda og undirritaðra votta. Kvaðst hann vera heill andlegrar heilsu, gera þetta af fúsum og frjálsum vilja og kvað erfðaskrána hafa að geyma vilja sinn.

Eftir andlát arfleifanda kom upp ágreiningur um gildi erfðaskrárinnar frá 20. október 2009. Hefur sóknaraðili véfengt gildi hennar og gert tilkall til arfs á grundvelli erfðaskrárinnar frá 2003.

Með bréfi 23. nóvember 2009 krafðist sýslumaðurinn á Ísafirði opinberra skipta á dánarbúi arfleifanda á grundvelli 3. töluliðar 37. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. þar sem vafi væri um hverjir gætu átt tilkall til arfs eftir arfleifanda. Með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða 17. desember 2009, mál nr. D-8/2009, var dánarbú arfleifanda tekið til opinberra skipta og Ingi Tryggvason hdl. skipaður skiptastjóri dánarbúsins. Skiptastjóri vísaði síðan ágreiningi málsaðila „... um það hver sé erfingi í dánarbúinu ...“ til úrlausnar héraðsdóms, sbr. 53. og 122. gr. laga nr. 20/1991, með bréfi 8. mars 2010. Mál þetta var síðan þingfest 7. apríl sama ár.

Undir rekstri málsins krafðist sóknaraðili úrskurðar dómsins um að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisstofnuninni [...] yrði gert skylt að afhenda lögmanni sóknaraðila sjúkraskrá arfleifanda og féllst dómurinn á kröfur sóknaraðila með úrskurði 1. september 2010. Þá voru 2. mars 2011, að kröfu sóknaraðila, dómkvaddir tveir matsmenn til að gefa álit sitt á tilteknum álitaefnum varðandi heilsufar arfleifanda, sbr. töluliði 1-6 í matsbeiðni sóknaraðila frá 8. febrúar 2011. Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna lá fyrir 8. júní 2011 og var hún lögð fram í málinu 15. sama mánaðar. Aðalmeðferð hófst í þinghaldi 22. september 2011 en ekki tókst að ljúka henni þá vegna neikvæðrar afstöðu vinnuveitanda þriggja vitna til skýrslugjafar þeirra í málinu. Var aðalmeðferð málsins síðan fram haldið 11. nóvember sl. og var málið þá tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi.

II.

Sóknaraðili heldur því fram í málinu að erfðaskráin frá 20. október 2009 sé ógild og óvirk bæði að formi og efni og krefst þess að ekkert tillit verði tekið til hennar við skipti á dánarbúi arfleifanda.

Rétti varnaraðila til arfs samkvæmt erfðaskránni frá 20. október 2009 kveðst sóknaraðili mótmæla sérstaklega. Varnaraðili sé ekki réttur aðili að málinu og njóti ekki erfðaréttinda samkvæmt þeirri erfðaskrá. Varnaraðili sé ekki rétthafi [...] og eigandi jarðarinnar [...] sé íslenska ríkið. Því beri að hafna kröfum varnaraðila í málinu þar sem aðildarskortur leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá byggir sóknaraðili á því að vottorð lögbókanda um staðfestingu erfðaskrár­innar uppfylli ekki skilyrði erfðalaga nr. 8/1962, 43. sbr. 42. gr., og arfleifandi hafi ekki verið svo á sig kominn sem áskilið sé í 2. mgr. 34. gr. laganna er hann hafi gert erfðaskrána 20. október 2009. Vottorð lögbókanda verði ekki lagt til grundvallar sem sönnun um að arfleifandi hafi við gerð erfðaskrárinnar verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá.

Í vottorði lögbókanda sé ekki, svo sem ófrávíkjanlegt sé og skylt, tekin afstaða til hæfis arfleifanda sem efni hafi verið til að bera brigður á. Þá sé í vottorði lögbókanda þess heldur ekki getið að arfleifandi hafi hvatt vottana eða lögbókanda til að votta arfleiðslu sína. Þeim aðilum verði ekki aðeins að vera kunnugt um að hinn vottfesti gerningur sé erfðaskrá heldur verði og að vera hafið yfir tvímæli að arfleifanda sé þetta einnig ljóst, enda eigi hann að kveðja þá til að votta arfleiðslu sína. Mótmælir sóknaraðili því að arfleifandi sjálfur hafi „lagt fram þessa erfðaskrá“ svo sem í vottorði lögbókanda segi. Þá vísar sóknaraðili til þess að hvorki sé getið nákvæmlega hvenær lögbókandagerðin hafi farið fram né hvar.

Sóknaraðili bendir enn fremur á að í vottorð lögbókanda skorti algjörlega hina mikilvægu og ófrávíkjanlegu sjálfstæðu yfirlýsingu lögbókanda og vottanna, það grundvallaratriði sem þeim beri að staðhæfa um og votta, byggt á eigin rannsókn, að arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá, en um það verði lögbókandi jafnframt að vera sannfærður. Vottorð lögbókanda sé ekki fortaks- og fyrirvaralaust um þetta efni, svo sem nauðsynlegt sé, en þar segi einungis: „Kvaðst hann vera heill andlegrar heilsu, ...“ Hér sé aðeins vísað til tjáningar arfleifanda sjálfs en undan því vikist að staðhæfa svo sem lögskipað sé að arfleifandi hafi verið „... svo heill heilsu andlega, að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá.“ Virða beri þetta svo að í vottorðinu sé ekkert skráð um hæfi arfleifanda og eigi heldur nein önnur efnisatriði sem þar sé rétt að geta og áhrif geti haft á gildi erfðaskrár, sbr. síðari málslið 2. mgr. 42. gr. erfðalaga, en meðal þeirra atriða megi nefna sjóndepru arfleifanda sem þurft hafi að nota stækkunargler við lestur og hafi séð mjög illa eins og áritanir á erfðaskrána, sem eigi að vera hans, beri með sér. Af hálfu sóknaraðila sé því reyndar mótmælt að áritanir þessar séu hins látna, en ef svo sé beri þær með sér mjög skerta getu/hæfni hans til nafnritunar.

Af hálfu sóknaraðila er enn fremur á því byggt að arfleifandi hafi ekki, er hann gerði erfðaskrána 20. október 2009, verið svo á sig kominn sem áskilið sé í 2. mgr. 34. gr. erfðalaga. Skv. 2. mgr. 45. gr. laganna beri varnaraðili sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða. Sönnun þess hafi varnaraðila ekki tekist og því teljist erfðaskráin frá 20. október 2009 ógild.

Sóknaraðili bendir á að orðalagið: „Kvaðst hann vera heill andlegrar heilsu, ...“ sé óvenjulegt og raunar óþekkt endranær í vottorðum lögbókanda á erfðaskrár, enda fordæmalaust og ekki í samræmi við nauðsyn um markvisst orðalag varðandi staðfestingu um arfleiðsluhæfið og -viljann. Í vottorði lögbókanda sé enga staðfestingu hans sjálfs að finna í þessu efni-, enga staðfestingu á andlegu hæfi arfleifanda, enga staðfestingu á því að arfleifandi hafi gert erfðaskrána af fúsum og frjálsum vilja-, og vottorðið því algerlega ófullnægjandi og hvorki fyrirvaralaust né vafalaust að þessu leyti, sem gefi skýrlega til kynna að vafi hafi verið, og sé enn, um arfleiðsluhæfi arfleifanda. Sé þetta burtséð frá öðrum þeim atriðum varðandi hæfi arfleifanda sem lögbókanda hafi borið að rannsaka miðað við greint orðalag og er áhrif gætu haft á mat á gildi erfðaskrárinnar, svo sem 2. mgr. 42. gr. erfðalaga krefjist og áður greini.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að slíkur vafi hafi leikið á um arfleiðsluhæfi arfleifanda að nauðsynlegt hafi verið að leita til læknis eða annars sérfróðs aðila til álitsgerðar um hæfi arfleifanda, eða sem arfleiðsluvotts vegna hugsanlegs andlegs vanhæfis, ranghugmynda, dómgreindarbrests, eða annarrar andlegrar og sálrænnar truflunar arfleifanda. Hann hafi dregið rangar ályktanir af því að sóknaraðili heimsótti hann ekki á Ísafjörð og einnig haft ranghugmyndir um afleiðingar arfleiðslu sóknaraðila fyrir sig eftir dauðann. Nefnir sóknaraðili í því sambandi að hinn látni hafi sagt í viðræðum við arfleiðsluvottinn D, áður en hann gerði erfðaskrána 20. október 2009, að sóknaraðili hefði ekki heimsótt hann á Ísafjörð og einnig að hann vildi ekki verða sér til skammar eftir dauðann með arfleiðslu sinni.

Sóknaraðili leggur á það áherslu að lögbókandi hafi ekkert þekkt til arfleifanda og hvorki kynnt sér né gert sér grein fyrir andlegum högum hans. Arfleifandi hafi verið sérstæður persónuleiki og því hafi andlegt ástand hans og leyndur afbrigðileiki þess svo skömmu fyrir andlát hans, er heilsu hans hafði mjög hrakað, getað dulist lögbókanda, jafnvel þó svo lögbókandi hefði kannað andlegt ástand arfleifanda, sem hann hefði hins vegar samkvæmt áðursögðu ekki gert. Vegna þessa hafi lögbókandi ekki verið fær um eða í aðstöðu til að meta arfleifanda við svo heila heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá, og alls ekki til að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt, þá er hann hafi undirbúið erfðaskrárgerðina og hún var staðfest af lögbókanda. Nauðsynlegt, eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að leita til lækna eða hjúkrunarfræðinga sem votta til að meta hæfi arfleifanda til erfðaskrárgerðarinnar á þeim tíma sem hún hafi verið gerð. Staðhæfir sóknaraðili að þeir heilbrigðis­starfsmenn sem umgengist og annast hafi arfleifanda hafi ekki treyst sér til þess að staðfesta að hann væri svo heill heilsu andlega að hann væri hæfur til að gera erfðaskrá. Í því kunni að liggja að ekki var leitað til þeirra til að votta hæfi arfleifanda.

Byggt er á því af hálfu sóknaraðila að lögbókandi hafi hvorki lesið erfðaskrána fyrir arfleifanda, svo sem nauðsynlegt hafi verið vegna sjóndepru hans, né heldur hafi lögbókandi gengið eftir því við hann hvort hann væri fullviss um efni, tilefni og markmið arfleiðslunnar og rétta tilgreiningu arfþega. Fullkomin óvissa sé því um að erfðaskráin frá 20. október 2009 sé í samræmi við sjálfstæðan,- fúsan og frjálsan- arfleiðsluvilja arfleifanda. Til þeirrar niðurstöðu að arfleiða B hafi arfleifandi verið leiddur helsjúkur undir áhrifavaldi annarra, einkum arfleiðsluvottsins D, og einnig í viðtölum við hann og lögmanninn Tryggva Guðmundsson, en í þeim sé arfleifandi sagður hafa breytt samkvæmt ábendingu lögmannsins þeirri arfleiðslu sem sá fyrrnefndi hafi tjáð þeim síðarnefnda að komið hefði fram í samtölum hans við arfleifanda, er D leitaði aðstoðar lögmannsins við bréfun nýrrar erfðaskrár arfleifanda. Óhjákvæmilegt hafi verið að lesa erfðaskrána upphátt, skýrt og skilmerkilega, fyrir arfleifanda til að hann meðtæki efni hennar, þar með talið afturköllun þeirrar erfðaskrár sem hann gerði 10. september 2003 að vandlega athuguðu máli og var í hjarta sínu sáttur við og hafði margsinnis sagt frá, m.a. eftir að hann kom á Ísafjörð. Það hafi ekki verið gert og að þessu leyti hafi skilyrði 2. mgr. 40. gr. erfðalaga því ekki verið uppfyllt við erfðaskrárgerðina.

Sóknaraðili bendir á að undirritanir á tveimur framlögðum erfðaskrám frá 20. október 2009, sbr. dómskjal nr. 4, séu ekki hinar sömu. Ætlað frumrit sé ekki undirritað, eða a.m.k. óskiljanlega, ólíkt afritinu. Ekkert liggi fyrir um þetta ósamræmi, hvernig það komi til eða hvernig gengið hafi verið frá þessum ósamrýmanlegu erfðaskrám svo búnum. Það eitt og sér, og með öðru, valdi ógildi þeirra.

Með vísan til alls framangreinds er því haldið fram af hálfu sóknaraðila að vottorð lögbókanda hafi ekki sönnunargildi, sbr. 1. mgr. 46. gr. erfðalaga, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og því beri að dæma erfðaskrána ógilda. Þar sem vottorð lögbókanda sé ófullkomið, eins og hér hafi verið rakið, hafi varnaraðili, sá er byggja vill rétt á erfðaskránni frá 20. október 2009, sönnunarbyrðina fyrir því sem ófullnægjandi sé varðandi andlegt hæfi arfleifanda til að gera erfðaskrá, og einnig að arfleifandi hafi verið fær um að gera þá erfðaráðstöfun á skynsamlegan hátt, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga.

Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að arfleifandi hafi 20. október 2009 verið haldinn andlegum annmörkum, andlegu vanhæfi, ranghugmyndum, dómgreindarbresti eða annarri andlegri og sálrænni truflun sem varði ógildingu erfðaskrár og varnaraðili verði að sanna vegna hugsanlegs annmarka arfleifanda að yfirvegaður og afdráttarlaus vilji hans hafi ráðið gerð erfðaskrárinnar. Að efni hennar sé í samræmi við fyrri yfirlýsingar arfleifanda á þeim tíma sem hann hafi verið við heila heilsu og að efni erfðaskrárinnar teljist eðlilegt og skynsamlegt eftir öllum aðstæðum. Eins og hér standi á verði varnaraðili að sanna að arfleifandi hafi verið hæfur til að gera erfðaskrána, sem og önnur þau atriði sem vottorði lögbókanda sé ætlað að staðfesta. Leggur sóknaraðili áherslu á að arfleifandi hafi alla tíð frá því að hann gerði erfðaskrána 10. september 2003 sagt að sóknaraðili ætti að erfa hann og fá allt eftir sinn dag, sbr. meðal annars í þessu sambandi millifærslur arfleifanda til sóknaraðila 2. og 16. september 2009. Ekki samrýmist þessari afstöðu arfleifanda að hann hafi á þeim tíma, eða þegar dró að gerð erfðaskrárinnar 20. október 2009, sagt að sóknaraðili hefði verið að biðja hann um peninga, svo sem komið hafi fram hjá arfleiðsluvottinum D, og það, eftir atvikum með öðru, hafi breytt „hinsta vilja“ hans til sóknaraðila, sem fram komi í vottorði lögbókanda á erfðaskrá arfleifanda frá 10. september 2003 með því að gera hana arflausa eftir sig. Hafi svo verið hafi um ranghugmyndir arfleifanda verið að ræða. Vísar sóknaraðili til þess að arfleifandi hafi margoft í símtölum sem hann hafi átt við sóknaraðila eftir að hann fór til dvalar á Ísafirði spurt hvort hann ætti ekki að láta sóknaraðila fá peninga. Hafi arfleifandi sagt sem svo að sóknaraðili gæti alveg eins fengið peningana þá þar sem hann ætti hvort eð er að fá allt eftir sinn dag. Fullyrðir sóknaraðili að hann hafi ætíð afþakkað boð arfleifanda. Sóknaraðili hafi aldrei beðið hann um peninga og einungis haft símasamband við arfleifanda vegna umhyggju sinnar fyrir honum.

Verði ekki á það fallist að varnaraðili beri sönnunarbyrðina samkvæmt framangreindu byggir sóknaraðili á því að honum hafi tekist sönnun þess að arfleifandi hafi ekki verið svo heill heilsu andlega, er hann gerði erfðaskrána, að hann hafi getað gert hana á skynsamlegan hátt eða gert verulega og nægilega sennilegt að mjög varhugavert verði að telja að arfleifandi hafi búið við svo fullkomið andlegt hæfi, að hann hafi haft næga yfirsýn yfir eðlilega og skynsamlega arfleiðslukosti og getað yfirvegað þá og ráðstöfun hinna miklu fjármuna, sem hann hafði með sparsemi dregið saman í þágu sóknaraðila, á viðhlítandi hátt. Andleg vanheilsa arfleifanda hafi dregið úr færni hans til yfirvegunar og rökhyggju og yfirleitt til sjálfstæðs mats. Hann hafi verið haldinn ranghugmyndum á síðustu dögum lífs síns þegar mjög hafi verið af andlegri færni hans dregið og hann slævður af andlegum kröftum. Þá hafi mat arfleifanda á mönnum og málefnum verið brenglað samkvæmt áðursögðu. Frjáls og óbrenglaður vilji arfleifanda hafi ekki verið grundvöllur erfðagerningsins 20. október 2009. Raunverulegur arfleiðsluvilji, rökhugsaður og yfirvegaður, hafi ekki verið í fyrirrúmi. Varnaraðili, sem sæki rétt í samræmi við það sem hann telji arfleiðsluvilja arfleifanda hafa staðið til, hafi ekki komið fram með neitt sem réttlæti að hann fái kröfum sínum í málinu framgengt.

Í erfðaskránni frá 20. október 2009 segir sóknaraðili þess getið að fjármunir þeir eða önnur verðmæti sem arfleifandi hafi látið eftir sig að teknu tilliti til skulda og útfararkostnaðar eigi að ganga til viðhalds og endurnýjunar á kirkjunni á [...] í [...]. Muni svo standa vegna ábendingar Tryggva Guðmundssonar hdl., sem fært hafi erfðaskrána í letur, og erfðaskráin og aðdragandi hennar því tilkomin vegna ótilhlýðilegra áhrifa lögmannsins og hins arfleiðsluvottsins á arfleifanda. Ekkert heilbrigt sálrænt baksvið í lífi arfleifanda geri líklegt eða sennilegt að hann hafi viljað falla frá því að arfleiða velgjörðarmann sinn, sóknaraðila. Arfleifandi hafi eindregið, einlægt og margoft lýst því yfir, bæði fyrir og eftir að hann fór til dvalar á sjúkrahúsinu á Ísafirði, að sóknaraðili ætti að erfa hann vegna allrar þeirrar umhyggju sem sóknaraðili hefði sýnt honum. Arfleifanda hafi þótt mjög vænt um sóknaraðila og með þessari ráðstöfun viljað launa honum fórnfús störf í sína þágu. Ákvörðun um þá arfleiðslu hafi verið reist á eigin hugmyndum arfleifanda og hafi hann tekið þá ákvörðun án utanaðkomandi áhrifa. Sóknaraðili hafi verið arfleifanda nánastur allra og hann hafi arfleifandi skráð sem sinn nánasta aðstandanda, meðal annars á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Með því að allur arfur eftir arfleifanda gengi til sóknaraðila hefði komið til framkvæmda sú ráðstöfun hans og hinsti vilji að sýna sóknaraðila verðskuldað þakklæti fyrir langvarandi umönnun við hann. Með því hafi verið óhugsandi og útilokað að arfleifandi hafi heill andlegrar heilsu og rökhugsunar getað látið sér til hugar koma af fúsum og frjálsum vilja að með því gæti hann orðið sér til skammar eftir dauðann.

Sóknaraðili segir arfleifanda ekki af yfirveguðu ráði hafa komist að sjálfstæðri niðurstöðu um í hvaða tilgangi eða augnamiði fjármunum hans skyldi varið með erfðaskránni 20. október 2009. Hann hafi sér enga grein gert fyrir því hver væri eigandi B, fjárhagsstöðu kirkjunnar eða þörf á viðhaldi og endurnýjun. Arfleifanda hafi verið ókunnugt um að kirkjan var tekin veglega í gegn árin 2006, 2007 og 2008 og að endurbótum á henni væri lokið. Því sé ljóst að hann hafi ekki á nokkurn rökbundinn hátt vegið eða metið ráðstöfunarkosti sína þannig að leiddi til skynsamlegrar niðurstöðu um skýrt markmið með arfleiðslunni, andstætt hinni eðlilegu ráðstöfun sem hann hafi gert með erfðaskrá sinni árið 2003 til sóknaraðila. Efni þeirrar erfðaskrár sem arfleifandi hafi gert 11 dögum fyrir andlát sitt sé óskynsamlegt og óeðlilegt miðað við allar aðstæður og trygga og fölskvalausa vináttu hans og sóknaraðila. Ekkert annað en andlegir vanhagir arfleifanda og ótilhlýðileg áhrif annarra hafi haft úrslitaáhrif á ákvörðun hans. Af þeim sökum verði að gera enn ríkari kröfur en ella um að varnaraðili færi sönnur á arfleiðsluhæfi arfleifanda.

Efnislega kveður sóknaraðili erfðaskrána frá 20. október 2009 vera tortryggilega og víkja alfarið frá því sem vænta hafi mátt. Þá fái heldur enginn skilið þá ráðstöfun að arfleifandi skyldi jarðsettur í kirkjugarðinum á Ísafirði. Arfleifandi hafi síðast í september 2009, enn og ítrekað, fært í tal við prest sinn á [...] að hann myndi sjá um jarðsetningu hans þar, frá kirkju heimabyggðar arfleifanda sem hann þekkti vel og með fylgd sveitunga sinna til langs tíma. Það með öðru styðji eindregið að erfðaskráin 2009 eigi rót að rekja til sjúklegra haga arfleifanda og þess að ótilhlýðileg áhrif hafi verið á hann höfð. Byggir sóknaraðili á því að allt framangreint valdi ógildi erfðaskrárinnar í heild sinni samkvæmt ákvæðum 37. og 38. gr. erfðalaga, enda séu orsakatengsl milli ranghugmynda arfleifanda og arfleiðslu hans. Forsendur arfleifanda hafi reynst rangar, eða brostið í veigamiklum atriðum, þegar virt sé það sem um viðhorf hans, skoðanir, sérkenni og persónuleika sé vitað, sem og virðingu hans fyrir sóknaraðila og væntumþykju í hans garð.

Af hálfu sóknaraðila er fullyrt að arfleifandi hafi engin tengsl haft við [...] eða B og þá hafi hann ekki verið haldinn trúarhita. Vissulega hafi æskuheimili hans verið á [...], en þaðan hafi hann hins vegar ekki átt neinar sérstaklega góðar minningar. Hann hafi fyrir löngu verið kominn úr öllum tengslum við sveitina á [...] og hann ekki rætt um [...] eða B sem sérstaka staði fyrir sig. Honum hafi hins vegar sárnað mjög eftir andlát móður sinnar, þegar hann var orðinn fullorðinn maður, að systkini hans gerðu hann arflausan. Ekkert styðji að arfleifandi hafi sérstaklega viljað hlynna að málefnum kirkjunnar eða hann borið ástand hennar fyrir brjósti. Aldrei hafi hann minnst á það við samferðamenn sína að honum þætti vænt um B.

Sóknaraðili segir tengsl vottsins D við [...] og B aftur á móti vera mikil og til þess fallin að hann vilji hag þeirra og sveitarinnar sem bestan. D sé fæddur og uppalinn á [...] og þar búi L bróðir hans. Enn fremur búi M hálfbróðir hans á [...] sem sé í sama túninu. Eigi D sumarbústað skammt frá. Eiginkona nefnds L sitji í sóknarnefnd B og sjálfur sé L skoðunarmaður reikninga sóknarinnar. Vegna þessara sifja- og hagsmunatengsla hafi D ekki verið votthæfur við gerð erfðaskrárinnar, sbr. 41. gr. erfðalaga. Hann hafi einnig skort hæfi vegna þess að hann hafi í einrúmi þeirra arfleifanda ráðið ráðum við hann um gerð erfðaskrárinnar 20. október 2009 og haft ótilhlýðileg áhrif á arfleifanda um gerð hennar. D geti því ekki talist áreiðanlegur vottur. Tekur sóknaraðili í þessu sambandi og fram að arfleifandi hafi tjáð starfsfólki á sjúkrahúsinu á Ísafirði að hann hefði gert erfðaskrá til handa sóknaraðila og arfleifandi lýst hlýju sinni og væntumþykju í hans garð. Enginn annar en fyrrnefndur vottur, sem umgengist hefði eða annast arfleifanda á Ísafirði, hafi heyrt minnstu hugmyndir hjá arfleifanda um gerð nýrrar erfðaskrár með tilnefningu annars arfþega.

Eins og áður hafi verið rakið hafi arfleifandi sýnt vilja sinn í verki til þess að sóknaraðili fengi allan arf eftir sig með því að færa til hans af bankareikningi sínum 1.000.000 króna 2. september 2009 og 2.000.000 króna 16. sama mánaðar, með þeim orðum í símtali að sóknaraðili gæti allt eins fengið þá peninga strax þar sem hann fengi allar eignir hans hvort eð er að honum gengnum. Með öllu sé það óskiljanlegt að arfleifandi hafi af fúsum og frjálsum vilja, og að yfirveguðu ráði, 11 dögum fyrir andlát sitt, breytt erfðaráðstöfun sinni svo sem raun bar vitni, þ.m.t. um útför sína og legstað. Á því séu engar skynsamlegar skýringar aðrar en að þar hafi ráði hugmynda- og/eða forsenduvillur arfleifanda sem áður greini og séu rangar eða brostnar. Ekkert hafi komið fram sem styðji eða styrki að arfleifandi hafi viljað gera erfðaskrá þess efnis að ráðstafa eignum sínum til varnaraðila og falla frá þeim heila, góða og hlýja hug sem hann hafi borið til sóknaraðila.

Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til 2. mgr. 34. gr. , 37. gr., 38. gr., 40. gr., 41. gr., 42. gr., 43. gr., 45. gr. og 46. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og almennra lögskýringaviðhorfa um erfðaskrár.

III.

Varnaraðili reisir kröfur sínar á því að ekkert sé fram komið í málinu sem renni stoðum undir þá fullyrðingu sóknaraðila að ógilda beri erfðaskrá arfleifanda frá 20. október 2009 vegna form- og/eða efnisannmarka. Kveður varnaraðili þá erfðaskrá þvert á móti uppfylla að öllu leyti skilyrði erfðalaga nr. 8/1962 varðandi form og efni erfðaskrár. Hana beri því að leggja til grundvallar við skipti á dánarbúi arfleifanda.

Varnaraðili segir eina af meginreglum erfðaréttar varðandi skýringu og túlkun á erfðaskrám vera þá að komast að vilja arfleifandans. Upplýsa skuli hvert hafi verið raunverulegt viðhorf arfleifandans og hvað fyrir honum hafi vakað með ráðstöfuninni. Í því tilviki sem hér um ræði sé vilji arfleifanda skýr og ótvíræður þar sem tekið sé fram í erfðaskránni að eignirnar skuli ganga til B, kt. [...]. Jafnframt sé þess sérstaklega getið að fjármunirnir skuli ganga til viðhalds og endurnýjunar á kirkjunni.

Af hálfu varnaraðila er til þess vísað að B sé skráð eign B, en skv. 48. og 49. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sé hver sókn grunneining þjóðkirkjunnar og starfs­vettvangur hennar á hverjum stað. Kirkjusókn sé félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem búi innan sóknarmarka og sé hver kirkjusókn fjárhagslega sjálfstæð og félagsleg eining. Ársreikningar B fyrir árin 2008 og 2009 beri það með sér að B sé færð til eignar í reikningum sóknarinnar, enda sé rekstrarkostnaður hennar, þ.m.t. viðhald og endurbætur, greiddur af sókninni. Þá sé B skráð eign B hjá Fasteignaskrá Íslands.

Varnaraðili segir ljóst að einstakar kirkjusóknir innan þjóðkirkjunnar geti átt                                                                                                aðild að dómsmálum, enda geti þær átt réttindi og borið skyldur að landslögum, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa sóknaraðila um að hafna beri kröfum varnaraðila um gildi erfðaskrárinnar frá 20. október 2009 á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 sökum aðildarskorts eigi því ekki við nokkur rök að styðjast. Allt að einu sé það hins vegar vilji arfleifandans sjálfs sem skipti mestu máli við mat á því hvort varnaraðili sé réttur aðili málsins samkvæmt þeirri tilgreiningu sem fram komi í erfðaskránni. Reglur einkamálalaga um aðildarhæfi skipti hér því ekki máli, en varnaraðili uppfylli engu að síður skilyrði þeirra laga samkvæmt áðursögðu.

Órökstuddum fullyrðingum sóknaraðila um að arfleifandi hafi við undirritun erfðaskrár­innar 20. október 2009 ekki verið svo á sig kominn sem áskilið sé í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 8/1962 kveðst varnaraðili mótmæla harðlega. Þau ítarlegu læknisfræðilegu gögn sem fyrir liggi í málinu um heilsufar arfleifanda renni alls engum stoðum undir þær fullyrðingar sóknaraðila að arfleifandi hafi verið þannig á sig kominn andlega fyrrnefndan dag að hann hafi ekki verið hæfur til að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt. Þvert á móti staðfesti þau gögn að arfleifandi hafi verið heill heilsu andlega og þannig að öllu leyti til þess bær að gera erfðaskrána.

Varnaraðili segir sönnunarbyrðina fyrir því að arfleifandi hafi verið haldinn andlegum annmörkum, sem valdi ógildingu erfðaskrár, hvíla á þeim sem erfðaskrána rengi. Þannig hafi sóknaraðili sönnunarbyrðina fyrir þeim fullyrðingum sínum að arfleifandi hafi 20. október 2009 ekki verið svo heill heilsu andlega að hann hafi þá verið hæfur til að gera erfðaskrána. Svo virðist sem sóknaraðili byggi málatilbúnað sinn einkum á því hvað þetta varði að ákvörðunin ein og sér gefi til kynna andlega vanheilsu arfleifanda. Þannig sé fullyrt í greinargerð sóknaraðila að „... ekkert heilbrigt sálrænt baksvið í lífi arfleifanda geri líklegt eða sennilegt að hann hafi viljað falla frá því að arfleiða velgjörðarmann sinn, sóknaraðila“. Fullyrðingar sóknaraðila um andlega heilsu arfleifanda séu þannig hvorki studdar læknisfræðilegum gögnum né framburði vitna.

Að sögn varnaraðila verður ekki annað séð en arfleifandi hafi haft gildar ástæður fyrir þeirri ákvörðun sinni að gera nýja erfðaskrá og fella þá eldri úr gildi. Þær ástæður beri á engan hátt vott um andlegt vanhæfi. Að sögn D, vinar arfleifanda, sem heimsótt hafi hann oft í viku eftir að hann kom til Ísafjarðar, hafi arfleifandi verið mjög leiður og dapur í byrjun október 2009. Inntur eftir ástæðum þess hefði arfleifandi skýrt frá því að sóknaraðili hefði verið að hringja enn eina ferðina til að biðja hann um peninga. Í framhaldinu hefði hann innt D eftir því hvort hægt væri að gera breytingar á þegar gerðri erfðaskrá. D hefði tjáð arfleifanda að hann skyldi kanna það. Arfleifandi hefði jafnframt skýrt D frá því að hann væri ósáttur við að sóknaraðili kæmi aldrei að heimsækja hann og hefði heldur ekki samband símleiðis, nema í þeim eina tilgangi að biðja um peninga. Ljóst væri því að vinátta þeirra tveggja væri ekki byggð á þeim forsendum sem arfleifandi hefði talið. Svo virtist sem sóknaraðili hefði fyrst og fremst áhuga á eignum hans en sæktist ekki eftir vináttu eða samneyti við hann. Arfleifandi hefði því viljað gera breytingar á erfðaskránni þar sem hann hefði ekki viljað verða sér til skammar eftir dauðann, eins og hann hefði komist að orði. Að sögn D hefði arfleifandi tekið gleði sína á ný eftir að hann hafði gengið frá nýrri erfðaskrá og fellt þá fyrri úr gildi.

Varnaraðili segir liggja fyrir að arfleifandi hafi látið millifæra samtals 3.000.000 króna inn á bankareikning sóknaraðila í september 2009. Millifærslurnar renni stoðum undir það að sóknaraðili hafi verið að óska eftir peningum frá arfleifanda. Ekki liggi fyrir hvort um gjöf eða lán hafi verið að ræða. Skoraði varnaraðili á sóknaraðila undir rekstri málsins að upplýsa hvort hafi verið og jafnframt hvaða ástæður hafi legið að baki millifærslunum.

Af hálfu varnaraðila er til þess vísað að erfðaskráin frá 20. október 2009 sé vottuð af lögbókandanum á Ísafirði. Notarialvottar hafi verið Tryggvi Guðmundsson héraðsdómslögmaður, sem fært hafi erfðaskrána í letur, og D, vinur arfleifanda til fjölmargra ára. Í notarialvottorði lögbókanda komi fram með skýrum hætti að um erfðaskrá sé að ræða sem arfleifandi hafi undirritað í viðurvist lögbókanda og vottanna tveggja. Einnig komi fram í vottorðinu að arfleifandi hafi gert erfðaskrána af fúsum og frjálsum vilja og að erfðaskráin hafi að geyma hinsta vilja hans. Þá komi þar og fram að arfleifandi kvaðst vera heill andlegrar heilsu, en líta verði svo á að í vottum lögbókanda og vottanna tveggja felist staðfesting af þeirra hálfu að svo hafi verið.

Notarialvottorð lögbókanda ber að sögn varnaraðila það með sér að hann hafi verið sérstaklega tilkvaddur af arfleifanda til að votta erfðaskrána. Í vottun lögbókanda sé einnig getið um stað og dagsetningu vottorðsins, en ekki verði séð að í erfðalögum nr. 8/1962 sé gert að gildisskilyrði erfðaskrár að nákvæmari tímasetningar sé getið.

Samkvæmt framansögðu verður að áliti varnaraðila ekki annað séð en að í notarialvottorði lögbókanda sé getið allra þeirra efnisatriða sem mælt sé fyrir um í 43. gr., sbr. 42. gr., laga nr. 8/1962. Þá fari um sönnunargildi notarialvottorðs sem um önnur opinber skjöl, sbr. 46. gr. laganna.

Varnaraðili kveður ljóst að arfleifandi hafi ritað undir erfðaskrána frá 20. október 2009 eigin hendi, en undirritun hans gefi til kynna að rithönd hans hafi verið óstyrk. Arfleifandi muni hafa ritað undir tvö eintök af erfðaskránni og sé undirritun hans nokkuð ólík á þessum tveimur eintökum. Það valdi hins vegar ekki ógildingu erfðaskrárinnar, enda bæði eintökin vottuð um undirritun arfleifanda. Gera verði ráð fyrir því að arfleifandi hafi sjálfur lesið texta erfðaskrárinnar í viðurvist vottanna. Hafi hann ekki gert það sé sennilegt að lögbókandi hafi lesið erfðaskrána upphátt fyrir arfleifanda og kallað eftir afstöðu hans til þess sem þar kom fram og þá hvort texti hennar væri í samræmi við vilja hans. Hafi það verið gert en ekki gætt að bókun þess í notarialvottorði lögbókanda valdi það hins vegar ekki ógildingu erfðaskrárinnar.

Af hálfu varnaraðila er mótmælt fullyrðingum sóknaraðila um að þeir heilbrigðisstarfsmenn sem umgengist hafi og annast arfleifanda á Ísafirði hafi ekki treyst sér til að staðfesta að arfleifandi hafi, þegar hann gerði erfðaskrána 20. október 2009, verið svo heill heilsu andlega að hann væri hæfur til að gera erfðaskrá. Einnig mótmælir varnaraðili því að notarialvottarnir, Tryggvi Guðmundsson héraðsdóms­lögmaður og D, hafi með einhverjum hætti reynt að hafa ótilhlýðileg áhrif á þá ákvörðun arfleifanda að gera nýja erfðaskrá og fella þá eldri úr gildi. Svo langt sé gengið af hálfu sóknaraðila að fullyrða að arfleifandi hafi verið „... leiddur helsjúkur undir áhrifavaldi annarra, einkum arfleiðsluvottsins D og einnig í viðtölum við arfleiðsluvottinn og lögmanninn Tryggva Guðmundsson ...“ til að arfleiða varnaraðila með þeirri erfðaskrá sem gerð hafi verið 20. október 2009. Þessar órökstuddu og ómaklegu fullyrðingar segir varnaraðili vera með miklum ólíkindum, svo ekki sé fastara að orði kveðið.

Í greinargerð sóknaraðila er að sögn varnaraðila reynt að gera arfleiðsluna til varnaraðila tortryggilega með vísan til þess að votturinn D sé ættaður frá [...] og tengdur því fólki sem þar búi. Varnaraðili kveður þessi tengsl ekkert hafa með arfleiðsluna að gera þar sem ljóst sé að það sem ráðið hafi þeirri ákvörðun arfleifanda, að arfleiða varnaraðila að öllum sínum eignum, hafi verið þau áratuga tengsl sem hann hafi haft við [...] og B, sína gömlu sóknarkirkju, en þar séu foreldrar og fóstra arfleifanda jarðsett, sem og fleira af hans skyldfólki. Fullyrðingar sóknaraðila um að arfleifandi hafi ekki átt sérstaklega góðar minningar frá [...], og að hann hafi verið kominn úr öllum tengslum við þá sveit, séu alrangar. Arfleifandi hafi fyrst og fremst litið á sig sem [...] og hafi hann haldið miklu sambandi við fólkið í sveitinni. Það að unnið hafi verið að viðhaldi og endurnýjun B á síðustu árum breyti engu um þá staðreynd að arfleifandi hafi haft skýran og eindreginn vilja til að ráðstafa eignum sínum með þessum hætti. Upphaflega hafi arfleifandi ætlað að ráðstafa eignum sínum til endurbyggingar á gamla prestbústaðnum á [...] en horfið frá því þegar fyrrnefndur Tryggvi Guðmundsson hafi upplýst hann um að bústaðurinn væri í eigu einkahlutafélags. Þá sé fráleitt að halda því fram að ákvæði 41. gr. laga nr. 8/1962 standi í vegi fyrir vottun D þannig að hann hafi ekki verið votthæfur sökum sifja- og hagsmunatengsla, eins og sóknaraðili haldi fram. Fyrir liggi að D hafi alls engra hagsmuna haft að gæta við erfðaskrána.

Verði það niðurstaða dómsins að vottun erfðaskrárinnar varðandi andlegt hæfi arfleifanda hafi að einhverju leyti verið áfátt, þ.e. að þar hafi ekki verið tekin fullnægjandi afstaða til andlegs heilbrigðis arfleifanda af hálfu lögbókanda, þá er á því byggt af hálfu varnaraðila að sá annmarki valdi ekki ógildingu erfðaskrárinnar, sbr. dómafordæmi. Það kunni hins vegar að hafa þau áhrif að sá sem vilji byggja rétt sinn á erfðaskránni þurfi að hrinda staðhæfingu þess sem rengi erfðaskrána og þá með vitnisburði arfleiðsluvotta eða með öðrum sönnunargögnum, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 8/1962. Vísar varnaraðili til þess að í vottorði lögbókanda sé sannanlega vikið að andlegu heilbrigði arfleifanda og því beri ekki að virða það sem þar segi svo, að ekkert sé getið um andlegt hæfi arfleifanda. Í vottorðinu felist þvert á móti vísbending um að lögbókandi og vottarnir tveir hafi gengið úr skugga um andlegt hæfi arfleifanda til að gera erfðaskrá. Varnaraðili vísar enn fremur til þess að skv. 46. gr. laga nr. 8/1962 fari um sönnunargildi notarialvottorðs sem um önnur opinber skjöl og skv. 3. mgr. 72. gr. laga nr. 91/1991 teljist opinbert skjal rétt þar til annað sannist, ef það varði tiltekin atvik sem sagt sé að hafi gerst í embætti eða sýslan útgefanda þess.

Varnaraðili segir að ekki verði með nokkru móti séð að erfðaskrá arfleifanda stafi af misskilningi af hans hálfu eða að ranghugmyndir hafi ráðið úrslitum um efni erfðaskrárinnar, svo sem haldið sé fram af hálfu sóknaraðila. Það eitt að gera nýja erfðaskrá og fella eldri erfðaskrá úr gildi verði hvorki talin röng hugmynd né misskilningur, enda liggi fyrir greinargóðar ástæður af hálfu arfleifanda fyrir þeirri ákvörðun hans að gera nýja erfðaskrá. Tilvísun sóknaraðila til ákvæða 37. og 38. gr. laga nr. 8/1962 eigi því ekki við.

Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962, einkum VI. kafla laganna. Jafnframt vísar hann til meginreglna erfðaréttar varðandi vilja arfleifanda og um túlkun og skýringu á erfðaskrám. Þá vísar varnaraðili til ákvæða laga nr. 86/1989 um lögbókandagerðir og laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, einkum 48. og 49. gr. þeirra laga, sem og ákvæða 16., 44., 46. og 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkröfu segir varnaraðili styðjast við 1. mgr. 130. gr., sbr. 3. mgr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

IV.

A.

Í erfðaskrá arfleifanda frá 20. október 2009 er tiltekið að allar eigur hans skuli ganga til „B, kt. [...]“, en kennitala þessi tilheyrir varnaraðila málsins. B er færð til eignar í reikningum varnaraðila og er rekstrarkostnaður kirkjunnar greiddur af sókninni. Þá er varnaraðili skráður eigandi B hjá Fasteignaskrá Íslands, sbr. framlagða tilkynningu um fasteignamat frá júní 2010.

Skv. 48. og 49. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar er hver sókn grunneining þjóðkirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað. Kirkjusókn er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem býr innan sóknarmarka og er hver kirkjusókn fjárhagslega sjálfstæð og félagsleg eining.

Einstaka kirkjusóknir innan þjóðkirkjunnar geta átt aðild að dómsmálum, enda geta þær átt réttindi og borið skyldur að landslögum, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því og öðru framangreindu er sú málsástæða sóknaraðila, að hafna beri kröfum varnaraðila vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, haldlaus með öllu.

B.

Sóknaraðili heldur því fram í málatilbúnaði sínum að ótilhlýðileg áhrif hafi verið höfð á arfleifanda í aðdraganda þess að hann gerði erfðaskrána 20. október 2009 og því eigi að ógilda þá erfðaákvörðun á grundvelli 37. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Að mati dómsins hefur ekkert fram komið í málinu sem rennir stoðum undir þennan málatilbúnað sóknaraðila. Þannig þykir sóknaraðili engar sönnur hafa á það fært að D og Tryggvi Guðmundsson, er árituðu erfðaskrána sem vottar, hafi haft slík áhrif á arfleifanda að talið verði falla undir tilvitnað ákvæði. Verður því ekki fallist á kröfur sóknaraðila á þeim grunni.

Nafn arfleifanda er ritað undir erfðaskrána frá 20. október 2009. Fer því fjarri að sóknaraðila hafi tekist að sýna fram á að ekki sé um nafnritun arfleifanda sjálfs að ræða.

C.

Á erfðaskránni er að finna nafn tveggja „votta“, þeirra D og Tryggva Guðmundssonar hdl., en upplýst er að sá síðarnefndi færði erfðaskrána í letur, sem og hinn prentaða hluta vottorðs lögbókanda. Óljóst er um tilgang nafnritunar þessara tveggja manna á erfðaskrána. Allt að einu liggur skýrlega fyrir að þeir voru ekki arfleiðsluvottar í skilningi 40.-42. gr. erfðalaga nr. 8/1962, enda er ekkert vottorð frá þeim að finna á skjalinu varðandi atriði þau sem nefnd eru í 42. gr. laganna.

Hin umdeilda erfðaskrá er árituð af lögbókanda, í þessu tilviki fulltrúa sýslumannsins á Ísafirði. Í vottorði lögbókanda kemur fram staður og stund lögbókandagerðarinnar og jafnframt er þess getið að lögbókandi hafi hitt arfleifanda þar fyrir, sem lagt hafi fram erfðaskrána, er hann hafi undirritað í viðurvist lögbókanda og tveggja votta. Síðan segir svo í vottorðinu: „Kvaðst hann vera heill andlegrar heilsu ...“.  Um niðurlag vottorðsins vísast til kafla I B hér að framan.

Skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr., erfðalaga nr. 8/1962, er eitt af því sem getið skal í vottorði lögbókanda um staðfestingu erfðaskrár hvort arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá. Tilvitnuð orð í vottorði lögbókanda eru ekki í samræmi við þennan áskilnað erfðalaganna, en skýra verður umrætt ákvæði 2. mgr. 42. gr. erfðalaga svo að vottorðið verði að hafa að geyma yfirlýsingu arfleiðsluvottanna sjálfra, eða eftir atvikum lögbókanda, sbr. 1. mgr. 43. gr., svo sem við á í þessu tilviki, um andlegt heilsufar arfleifanda, en ekki yfirlýsingu arfleifanda sjálfs um það efni. Samkvæmt framansögðu var þessa mikilvæga formskilyrðis ekki réttilega gætt af hálfu lögbókanda við gerð arfleiðsluvottorðsins. Framburður umrædds fulltrúa fyrir dómi var ekki til þess fallinn að bæta úr umræddum formgalla á vottun erfðaskrárinnar. Að mati dómsins var fullnægjandi arfleiðsluvottorð því ekki fært á erfðaskrána og uppfyllir skjalið af þeim sökum ekki formskilyrði þau sem erfðalög áskilja. Af þeirri niðurstöðu leiðir, sbr. 2. mgr. 45. gr. erfðalaga, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, að á varnaraðila hvílir sönnunarbyrði fyrir því að arfleifandi hafi fullnægt hæfisskilyrðum 2. mgr. 34. gr. laganna þegar hann gerði erfðaskrána 20. október 2009.

D.

Upplýst er að síðustu mánuði ævi arfleifanda var honum sinnt af tveimur læknum, Helga Sigmundssyni og Þorsteini Jóhannessyni. Hinn 30. september 2010 ritaði lögmaður sóknaraðila læknunum bréf og óskaði eftir vottorðum þeirra, meðal annars um andlegt hæfi arfleifanda 20. október 2009, sem og fyrir þann tíma frá 1. september 2009, og enn fremur álits um hvort hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá 20. október 2009. Jafnframt voru læknarnir inntir eftir því hvort arfleifandi hefði á þessum tíma, sérstaklega 20. október 2009, verið hæfur til að gera þá erfðaskrárráðstöfun á skynsamlegan hátt.

Í vottorði Helga Sigmundssonar læknis frá 9. desember 2010 segir meðal annars svo: „Ekki hefur áður verið farið fram á það við undirritaðan að meta andlegt hæfi A heitins, þ.e. á meðan hann lá hér inni á sjúkrahúsinu. Vissir og augljósir annmarkar eru á slíku afturskyggnu áliti. Veikindi þau er leiddu hann til dauða hófust fyrir þann 20.10.2009 og ástand hans á þeim degi var líklega breytt frá því sem verið hafði að jafnaði meðan á dvöl hans á þessari stofnun varði.“ Þá lýsti læknirinn því yfir í vottorðinu að hann gæti ekki vottað hvort arfleifandi hefði verið hæfur til að gera erfðaskrárráðstöfun 20. október 2009. Fyrir dómi staðfesti læknirinn vottorð sitt. Kom og fram hjá lækninum að af arfleifanda hefði verið dregið undir það síðasta og treysti hann sér ekki til að gefa um það álit hvort arfleifandi hefði verið hæfur andlega til erfðaskrárgerðar 20. október 2009.

Í vottorði Þorsteins Jóhannessonar yfirlæknis frá 22. desember 2010 kemur fram að hann hafi, ásamt fyrrnefndum Helga, sinnt arfleifanda allan þann tíma sem hann lá inni á sjúkrahúsinu á Ísafirði og oftast hitt hann tvisvar í viku. Segir meðal annars í vottorðinu að greinilegt hafi verið að „... andlegt atgervi A fór þverrandi frá júlímánuði 2009 en núna tel ég mig engan veginn færan um að svara því hvort A hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá þann 20.10.09.“. Telur læknirinn áhöld um hvort arfleifandi hafi á umræddum tíma, og þá sérstaklega 20. október 2009, verið hæfur til að gera erfðaskrárráðstöfun á skynsamlegan hátt. Fyrir dómi staðfesti yfirlæknirinn vottorð sitt. Einnig nefndi hann dæmi um geðsveiflur arfleifanda síðla sumars 2009 sem leitt hefðu til þess að hann var settur einn á stofu. Sagði læknirinn greinilegt hafa verið að um talsverða andlega skerðingu hefði verið að ræða hjá arfleifanda frá því hann kom í september 2008 og þar til síðsumars 2009. Þá áréttaði læknirinn þá afstöðu sína, sem fram kom í vottorðinu, að hann gæti ekki lagt mat á hæfi arfleifanda til gerðar erfðaskrár 20. október 2009, læknirinn hafi ekki „... verið spurður um þetta meðan ég hafði tækifæri til þess að meta það.“ Í þessu samhengi nefndi læknirinn að lögmaður sá sem gerði erfðaskrána hefði komið að máli við hann og spurt um ástand arfleifanda. Kvaðst læknirinn ekki hafa lagt mat á ástand arfleifanda heldur bent lögmanninum á að fara til fundar við arfleifanda og meta ástand hans sjálfur.

Í málinu liggur frammi matsgerð dómkvaddra matsmanna, Jóns G. Snædal öldrunarlæknis og Tómasar Zoëga geðlæknis. Í niðurstöðum matsgerðarinnar kemur meðal annars fram að einungis einu sinni sé í fyrirliggjandi sjúkragögnum minnst á að arfleifandi hafi verið illa áttaður, þ.e. að kvöldi 7. október 2009. Aldrei annars sé minnst á rugl eða óráð. Af undirritun arfleifanda á erfðaskrá 20. október 2009 megi þó ráða að athygli hans hafi ekki verið full góð þann dag og líkamsburðir orðnir veikir. Af þessu sé þó ekki hægt að ráða að hvaða leyti arfleifandi hafi gert sér grein fyrir þeim gerningi. Í niðurlagi matsgerðarinnar segir síðan svo: „Upplýsingar í sjúkragögnum eru af mjög skornum skammti. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir er ekki hægt að fullyrða A hafi verið ófær vegna ástands síns gera þær ráðstafanir sem hann gerði hinn 20. október 2009.“ Fyrir dómi staðfesti Tómas Zoëga matsgerðina. Var geðlæknirinn spurður um hvort hann gæti staðfest á grundvelli þeirra gagna er fyrir lágu við matsgerðina að arfleifandi hafi verið hæfur til að gera umræddar ráðstafanir 20. október 2009. Sagðist hann ekki treysta sér til þess að svara þeirri spurningu, „... ég treysti mér ekki til að svara því afdráttarlaust, nei.“ Jón G. Snædal staðfesti matsgerðina einnig fyrir dómi. Kvaðst hann aðspurður ekki geta svarað því með óyggjandi hætti hvort arfleifandi hefði 20. október 2009 verið hæfur til að gera þær ráðstafnir sem hann þá gerði. Á því léki viss vafi.

Ýmis önnur vitni gáfu skýrslu fyrir dómi um ástand arfleifanda um það leyti sem hann gerði hina umdeildu erfðaskrá. G hjúkrunarfræðingur tók fram að hún hefði hafið störf á öldrunardeildinni skömmu fyrir 20. október 2009 og því ekki verið búin að kynnast sjúklingunum vel. Arfleifanda sagði hún hafa verið líkamlega mjög lélegan á þessum tíma en hann virst fylgjast með og hann hafi spjallað við starfsfólkið. Spurð um hvort hún hefði haft efasemdir um það hvort arfleifandi væri hæfur á fyrrnefndum degi til að gera erfðaskrá svaraði G því til að henni hefði fundist arfleifandi í svipuðu ástandi og þegar hann kom á sjúkrahúsið, en bætti síðan við að hún ætti í raun „... erfitt með að segja til um það.“

E hjúkrunarfræðingur sagði arfleifanda hafa verið orðinn úthalds- og þreklítinn síðustu dagana fyrir andlátið. Vitnið hefði hins vegar ekki getað merkt að hann væri byrjaður „... að heilabilast eða gleyma eða neitt svoleiðis.“ Þrátt fyrir það treysti vitnið sér ekki til að leggja mat á hæfi arfleifanda til að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt á umræddum tíma en bar að það hefði verið hissa er það fékk vitneskju um breytingu arfleifanda á erfðaskrá sinni. Spurt um hvort því hefði fundist breytingin óeðlilegt miðað við heilsufar arfleifanda svaraði vitnið: „Já, á þessum tímapunkti ...“.

Fram kom hjá Unu Þóru Magnúsdóttur sýslumannsfulltrúa að 20. október 2009 hefði hún verið beðin að koma á sjúkrahúsið á Ísafirði til að votta gerð erfðaskrár. Bar fulltrúinn að arfleifandi hefði virkað á hann þannig að hann væri „... algjörlega heill heilsu andlega ...“ og að hann vissi hvað hann var að gera. Að mati dómsins dregur úr gildi þessa vitnisburðar fulltrúans að hann hélt því ranglega fram, sbr. framlagt bréf sýslumanns á Ísafirði frá 28. september 2011, að við gerð arfleiðsluvottorðsins, sem upplýst er að fært var á erfðaskrána, hvað hinn prentaða hluta þess varðar, af Tryggva Guðmundssyni hdl., hefði hann stuðst við form að bókun sem notuð hefði verið í áraraðir við embætti sýslumannsins á Ísafirði.

Fyrrnefndur Tryggvi Guðmundsson hdl., sem færði hina umdeildu erfðaskrá í letur samkvæmt áðursögðu, bar fyrir dómi að hann hefði fyrir gerð erfðaskrárinnar haft samband við Þorstein Jóhannesson lækni og innt hann eftir því hvort arfleifandi væri það andlega hress að hann væri fær um að gera erfðaskrá og hafi læknirinn talið svo vera. Sá framburður lögmannsins samræmist hins vegar illa áðurröktu vætti læknisins. Í kjölfarið kvaðst lögmaðurinn hafa rætt við arfleifanda og „... ég gat ekki annað fundið en að hann væri alveg með fulla skynsemi til þess ...“ að gera erfðaskrá. Ekkert hefði bent til annars.

D bar fyrir dómi að eftir mánaðamótin ágúst/september 2009 hefði arfleifanda tekið að hraka líkamlega. Á Hrafni var hins vegar að skilja að hið sama hefði ekki gilt um andlega heilsu hans. Lýsti Hrafn því hvernig lögbókandi hefði lesið erfðaskrána fyrir arfleifanda, ítrekað stöðvað lesturinn til að spyrja arfleifanda þess hvort hún væri efnislega eins og vilji hans stæði til, og arfleifandi ávallt jánkað. Að lokum hefði arfleifandi skrifað undir erfðaskrána. Og „... þegar ég heimsótti hann síðan um kvöldið þá var hann mjög glaður að vera búinn að þessu. Þannig að hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera.“

F sóknarprestur bar fyrir dómi að hann hafi rætt við arfleifanda 20. október 2009 og hefði arfleifandi meðal annars nefnt erfðaskrárgerð sína í því samtali. Sagði vitnið arfleifanda hafa haft fótaferð þennan dag og vitnið ekki skynjað að hann væri neitt öðruvísi að sér en aðra daga.

Þegar allt framangreint er virt heildstætt, en þó sérstaklega að athuguðum vottorðum og vætti þeirra tveggja lækna sem sinntu arfleifanda síðustu mánuði ævi hans og framburði hinna dómkvöddu matsmanna, þykir varnaraðila ekki hafa tekist að sanna, sbr. niðurstöðu dómsins hér að framan og 2. mgr. 45. gr. erfðalaga, að arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega, er hann gerði hina umdeildu erfðaskrá 20. október 2009, að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt, sbr. ákvæði 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Í málatilbúnaði varnaraðila hefur ekki verið sérstaklega vísað til 2. mgr. 48. gr. erfðalaga. Þá verður ekki séð, svo sem mál þetta er vaxið, að ákvæði erfðaskrárinnar frá 20. október 2009 um ógildingu fyrri erfðaskrár frá 2003 geti staðið sjálfstætt, að öðrum ákvæðum hennar úr gildi föllnum. Samkvæmt því og með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan telst erfðaskrá arfleifanda frá 20. október 2009 ógild og verður hún því ekki lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi arfleifanda og skal erfðaskrá arfleifanda frá 10. september 2003 lögð til grundvallar um erfðaréttindi við skiptin.

Að ágreiningi málsaðila og atvikum öllum virtum þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., rétt að láta hvorn aðila bera sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Erfðaskrá A, kt. [...], sem lést [...] október 2009, frá 20. október 2009, skal við skipti á dánarbúi hans metin ógild. Við skiptin skal erfðaskrá A frá 10. september 2003 lögð til grundvallar um erfðaréttindi.

Málskostnaður fellur niður.