Hæstiréttur íslands

Mál nr. 268/2004


Lykilorð

  • Lögmannsþóknun
  • Vanreifun
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 2004.

Nr. 268/2004.

Edward Jóhannes Westlund

Elín Margrét Westlund

Katrín Guðlaug Westlund

Kristín María Westlund

Stefán Róbert Westlund Þórsson

Steingrímur Westlund og

Súsanna Rós Westlund

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

Gústaf Þór Tryggvasyni

(Gústaf Þór Tryggvason hrl.)

 

Lögmannsþóknun. Vanreifun. Kröfugerð. Frávísun frá héraðsdómi.

Lögmaðurinn G starfaði að skipulagningu landspildu í eigu E. G stefndi erfingjum E til greiðslu þóknunar fyrir störf sín. Ekki var gerður skriflegur samningur um þóknun G vegna starfa hans í þágu E, en framlögð gögn gerðu engu að síður ráð því að hann ætti rétt á þóknun fyrir störf sín. Í stefnu tiltók G að samkomulag hafi verið um að hann mætti ekki búast við greiðslu fyrir störf sín fyrr en árangur næðist. Var óumdeilt að sá árangur náðist ekki að fullu sem að var stefnt. Var talið að forsendur fyrir kröfu G fyrir vinnu hans hefðu breyst, hvað þetta varðaði, þegar umboð hans til frekari vinnu í þágu E o.fl. var afturkallað. Þótt þannig lægi fyrir að gert hafi verið ráð fyrir að G ætti kröfu til þóknunar fyrir störf sín og að hún hafi gjaldfallið við afturköllun á umboði hans tókst honum ekki að sýna fram á að komist hafi á samningur um fjárhæð þeirrar þóknunar. Af þessum sökum var talið að krafa G, sem var miðuð við ákveðið hlutfall af fjárhæð kauptilboðs í spilduna, væri vanreifuð. Þá lagði G heldur ekki fram í málinu tímaskýrslur né fólst í málatilbúnaði hans annar viðhlítandi  grundvöllur sem byggja mátti á ákvörðun um fjárhæð þessarar þóknunar. Vegna þessarar vanreifunar var málinu vísað frá héraðsdómi

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. júní 2004. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að þau verði sýknuð af kröfu stefnda, en að því frágengnu að krafa hans verði lækkuð. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í áfrýjunarstefnu er leitað endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms uppkveðnum 9. október 2003 þar sem frávísunarkröfu áfrýjenda var hafnað.

I.

Áfrýjendur eru bréferfingjar Esterar Guðlaugar Westlund, sem lést 4. desember 2000. Ester var eigandi spildu úr landi Syðri-Reykja í Mosfellsbæ. Hún og nokkrir eigendur annarra spildna á svæðinu munu hafa haft áhuga á að það yrði skipulagt undir íbúðabyggð. Var leitað til stefnda og Hauks A. Viktorssonar arkitekts um að vinna að þessu málefni. Stendur deila málsaðila um hvort og þá hversu mikla þóknun stefnda beri fyrir störf sín.

Í gögnum málsins er að finna ýmis skjöl um vinnu stefnda og Hauks frá því í nóvember 1980 til nóvember 2000, meðal annars bréf um samskipti þeirra við sveitarstjórn og landeigendur, skipulagsteikningar og drög stefnda 11. júlí 1996 og 10. janúar 2000 að lögum félags landeigenda. Þar koma fram ráðagerðir um endurgjald þeim tveimur til handa. Umrætt félag var ekki stofnað, en í hinum fyrri drögum var tekið fram að stefndi og Haukur skyldu teljast „fullgildir félagsmenn“ og yrði „hlutdeild þeirra saman 5% af heild (jöfn milli þeirra).“ Í hinum síðari var hið sama áréttað en nú skyldi „hlutdeild þeirra saman 10% af heild (jöfn milli þeirra).“ Þá segir í bréfi stefnda til landeigenda 30. desember 1992, sem virðist vera fundargerð vegna fundar landeigenda daginn áður, að greiðsla til þeirra Hauks skyldi verða „í formi lands, þ.e. samtals 5% af því svæði sem skipulagt verður.“ Útlagður kostnaður skyldi ekki vera innifalinn í þeirri þóknun. Í gögnum málsins er einnig yfirlýsing fjögurra landeigenda, sem samþykktu fyrir sitt leyti tilboð 2. nóvember 2000 í landspilduna, þar sem segir að þeim sé „kunnugt um þóknun til Gústafs Þórs Tryggvasonar hrl. og Hauks Viktorssonar arkit. sem er 8% + VSK.“ Yfirlýsingin er frá árinu 2000, en hún er ekki dagsett. Við meðferð málsins upplýsti stefndi að erfingjar eins landeiganda hafi þegar greitt sér þóknun. Þá mun stefndi hafa gert uppkast að breytingu á erfðaskrá Esterar Westlund þar sem segir að þeir Haukur skyldu hvor um sig erfa „eina lóð“ úr landi hennar, án þess að tilgreind sé stærð þeirra lóða. Af framburði Péturs Guðmundarsonar hæstaréttarlögmanns fyrir héraðsdómi og málatilbúnaði stefnda má ráða að breyting þessi á erfðaskránni hafi átt að mæla fyrir um greiðslu til stefnda fyrir vinnu hans vegna umrædds lands. Samkvæmt uppkastinu átti Pétur einnig að erfa skika úr landinu vegna vinnu hans að öðrum málum í þágu Esterar, en hann hafi ekki talið það eðlilegan greiðslumáta og því ekki orðið af breytingum á erfðaskránni. Ekki er fram komið hvenær þetta uppkast var gert.

Samkvæmt gögnum málsins mun skipulagsnefnd hafa lýst ánægju sinni yfir drögum að skipulagi svæðisins, en landeigendur ekki viljað leggja út í kostnað við að skipuleggja það til fullnustu. Stefndi kveðst því hafa í umboði þeirra leitað eftir að byggingaverktakar kæmu að uppbyggingu landsins. Hinn 2. nóvember 2000 gerði Viðar ehf. tilboð um kaup á landinu fyrir 105.000.000 krónur. Fjórir landeigenda samþykktu tilboðið fyrir sitt leyti, en ekki náðist samstaða þeirra allra um að ganga að því. Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. gerði 5. október 2001 tilboð í landspilduna að fjárhæð 95.000.000 krónur. Því var heldur ekki tekið.

Með bréfi lögmanns áfrýjenda 4. september 2001 tilkynnti hann, fyrir hönd þeirra og ýmissa annarra landeigenda, að afturkölluð væri heimild til stefnda að kanna möguleika á „sölu“ landsins, eða að „gera aðrar ráðstafanir þar að lútandi.“ Var sérstaklega tekið fram að hinu sama gegndi um „aðstoðarmann“ stefnda. Jafnframt var nefnt að stefndi hafi haft í huga að þóknun vegna vinnu hans yrði „ákveðin í hlutfalli við söluverð ef samningar tækjust um sölu, án þess þó að nánar hafi þar um verið samið.“ Með bréfi til lögmanns áfrýjenda 13. sama mánaðar óskuðu stefndi og Haukur eftir fundi um „frágang greiðslu“ vegna starfa þeirra í tvo áratugi fyrir landeigendur. Þeir tiltóku að þóknun hafi fyrst borið á góma 1992, en þá hafi 5% þótt nægileg greiðsla. Vegna frekari vinnu að málefninu í átta ár væri ekki „óeðlilegt að fara fram á 8%“ þegar kauptilboð Viðars ehf. 2. nóvember 2000 hafi verið „í höfn“. Umræddur fundur mun ekki hafa verið haldinn og í júní 2002 höfðuðu stefndi og Haukur mál á hendur áfrýjendum til greiðslu 3.183.154 króna með dráttarvöxtum, en til vara „10% hlutdeildar í landspildunni.“ Með úrskurði héraðsdóms 29. janúar 2003 var því máli vísað frá dómi vegna vanreifunar.

II.

Í máli þessu krefst stefndi helmings höfuðstóls þeirrar fjárhæðar sem þeir Haukur A. Viktorsson báðir höfðu krafist í hinu fyrra máli sem vísað hafði verið frá dómi. Samkvæmt héraðsdómsstefnu er krafan um þóknun reiknuð þannig: „Kauptilboð var kr. 105.000.000- fyrir ca. 8 ha. Hlutdeild stefndu er 24.350 m² eða kr. 31.959.375- 4% af þeirri fjárhæð er kr. 1.278.375- + VSK kr. 313.202- eða samtals kr. 1.591.577-, sem er stefnufjárhæðin.“ Mun stefndi hér taka mið af framangreindu kauptilboði Viðars ehf. 2. nóvember 2000 og stærð lands áfrýjenda eins og hann telur hana vera.

Eins og að framan er rakið var enginn skriflegur samningur gerður milli Esterar Guðlaugar Westlund og stefnda um þóknun vegna framangreindrar vinnu hans í hennar þágu. Engu að síður bera framlögð gögn og framburður Péturs Guðmundarsonar með sér að gert hafi verið ráð fyrir þóknun fyrir störf stefnda í þágu Esterar og líklega einnig annarra eigenda spildna á svæðinu. Stefndi hefur lagt fram reikning á hendur áfrýjendum með innheimtubréfi 4. janúar 2002 og er hann í samræmi við stefnufjárhæð. Í stefnu í héraði tiltekur stefndi að samkomulag hafi verið um að hann mætti ekki búast við greiðslu fyrir störf sín, „fyrr en árangur næðist.“ Fram er komið að ekki náðist sá árangur að fullu sem að var stefnt. Forsendur fyrir kröfu stefnda fyrir vinnu hans breyttust, hvað þetta varðar við að honum var sent framangreint bréf lögmanns áfrýjenda 4. september 2001 þar sem afturkallað var umboð stefnda til frekari vinnu í þágu landeigenda. Þótt þannig liggi fyrir að gert hafi verið ráð fyrir að stefndi ætti kröfu til þóknunar fyrir framangreind störf sín og að hún hafi gjaldfallið við afturköllun á umboði hans hefur honum ekki tekist að sýna fram á að komist hafi á samningur um fjárhæð þeirrar þóknunar. Þá hefur hann heldur ekki lagt fram í málinu tímaskýrslur né felst í málatilbúnaði hans annar viðhlítandi  grundvöllur sem byggja má á ákvörðun um fjárhæð þessarar þóknunar. Einnig er kröfugerð stefnda að nokkru leyti í ósamræmi við fyrirliggjandi gögn og málavexti eins og hann lýsir þeim. Er málatilbúnaður stefnda því í andstöðu við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna þessarar vanreifunar er fallist á aðalkröfu áfrýjenda um að vísa málinu frá héraðsdómi.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Gústaf Þór Tryggvason, greiði áfrýjendum, Edward Jóhannesi Westlund, Elínu Margréti Westlund, Katrínu Guðlaugu Westlund, Kristínu Maríu Westlund, Stefáni Róberti Westlund Þórssyni, Steingrími Westlund og Súsönnu Rós Westlund, samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2004.

Mál þetta er höfðað með stefnu útgefinni 3. mars 2003 og var málið þingfest þann 20. mars 2003.

Stefnandi er Gústaf Þór Tryggvason hrl., kt. 010234-4769, Tjarnargötu 10 d, Reykjavík.

Stefndu eru Steingrímur Westlund, kt. 221131-7469, Grandavegi 47, Reykjavík, Kristín María Westlund, kt. 101156-3039, Leirubakka 28, Reykjavík, Elín Margrét Westlund, kt. 160660-4659, Hljóðalind 3, Kópavogi, Edward Jóhannes Westlund, kt. 200462-4089, Smyrlahrauni 10, Hafnarfirði, Súsanna Rós Westlund, kt. 090264-4199, Norðurvangi 44, Hafnarfirði, Katrín Guðlaug Westlund, 090266-5949, Reykjavíkurvegi 48, Hafnarfirði og Stefán Róbert W. Þórsson, kt. 030877-3579, Hljóðalind 3, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða 1.591.577 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 03.01. 2002 til greiðsludags. Þá er þess krafist, að áfallnir vextir leggist við höfuðstól skuldarinnar og dráttarvextir reiknist af þeirri fjárhæð á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001.

Loks er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefndu eru aðallega, að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og til vara, að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Málavextir:

Stefnandi er lögmaður að atvinnu og eru kröfur í málinu um laun fyrir lögmannsstörf.

Eftir því sem segir í stefnu mun Ester Westlund hafa komið að máli við stefnanda síðla árs 1980 og spurt hann hvort hann væri tilbúinn til að vinna að því, með Hauki Viktorssyni arkitekt, að fá heimild til að skipuleggja til íbúðarbyggðar landsspildur úr landi Suður-Reykja í Mosfellsbæ, sem að nokkru leyti voru í eigu Esterar Westlund.

Strax var tekið fram, að ekki mætti búast við greiðslu fyrir verkið, fyrr en árangur næðist. Segir í stefnu, að samkomulag hafi náðst um þetta. Að því gerðu segir, að Ester hafi haft samband við aðra eigendur svæðisins, sem áhuga höfðu á aðgerðum og eru þeir nánar taldir í stefnu, sem stóðu að þessu samstarfi.

Í upphafi hafi verið hugur allra þeirra, sem að þessu stóðu að byggja sjálfir á hluta af landsspildum sínum. Var þá einnig gert ráð fyrir, að greiðsla fyrir vinnuframlag stefnanda og annarra, sem að þessu verki kæmu, yrði hluti úr landi.

Stefnandi og Haukur Viktorsson hafi setið fjölmarga fundi með stjórnendum hreppsins, síðar bæjarfélagsins, varðandi þetta mál. Auk funda með bæjaryfirvöldum hafi einnig verið fundir með landeigendum, saman eða hverjum fyrir sig, eftir því sem áhugi landeigenda stóð til og þá ekki síst Ester Westlund, sem oft hafi komið á milli funda til að ræða málin. Eftir að heimild fékkst til að skipuleggja svæðið varð ljóst, að ekki varð hjá því komist að skipuleggja landið í samstarfi við byggingaverktaka.

Haukur Viktorsson hafi gengið a.m.k. fjórum sinnum frá skipulagstillögum, auk módels í eitt skipti. Stefnandi hafi m.a. gengið frá tillögum um félagsstofnun.

Þegar eigendur landsins höfðu gert sér grein fyrir því, að til þess að skipuleggja svæðið endanlega, þyrfti fjármagn, sem þeir höfðu ekki á reiðum höndum, hafi verið samþykkt að leita að byggingaverktökum og var það svo síðla árs, að tilboð fékkst í landssvæðið, u.þ.b. 8 ha og var kaupverðið 105.000.000 kr.

Þegar kallað var eftir samþykki aðila á tilboðinu, drógu þrír aðilar, sem máli skiptu, að ganga frá samþykki. Þeirra á meðal var Pétur Guðmundarson, hrl. lögmaður Esterar Westlund, enda var hún þá orðin veik og vildi hann bíða þar til hún næði sér.

Ester Westlund lést 4. desember 2000. Pétur Guðmundarson hrl. upplýsti, að hann hefði ekki umboð erfingja til að ganga frá sölu og varð því ekki af ofangreindri sölu á landinu. Áfram hafi þó verið haldið í leit að tilboðum í landssvæðið.

Þann 4. september 2001 hafi stefnanda borist bréf frá Guðjóni Ólafi Jónssyni hdl. þar sem honum var tjáð, að þeirra Hauks Viktorssonar væri ekki lengur þörf og að þeir hefðu ekki lengur heimild til að kanna möguleika á sölu spildunnar. Bréf þetta hafi verið skrifað fyrir meirihluta landeigenda, að sögn lögmannsins, þar á meðal allra stefndu í máli þessu, en þau eru erfingjar Esterar Westlund, og höfðu þá þegar skipt búi hennar einkaskiptum og undirritað yfirlýsingu um að þau tækju á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum búsins.

Þar sem bréf þetta hafi upplýst, að starfi stefnanda væri lokið, lá næst fyrir að að gera reikning fyrir þá vinnu sem stefnandi hafði innt af hendi.

Fyrir dóminum gáfu skýrslu sem vitni Gunnlaugur Hreiðarsson, Haukur Viktorsson  og Pétur Guðmundarson hrl.

Málsástæður stefnanda.

Það hafi fyrst árið 1992 verið rætt um hve mikill kostnaður væri orðinn af vinnu þeirra stefnanda og Hauks Viktorssonar. Þá hafi verið áætlað að hann næmi 5% að jöfnu til beggja af verðmæti heildarspildna, en á þeim tíma hafi ekki verið gert ráð fyrir að landið yrði selt. Eftir að tilboð kom í allt landið í nóvember 2000, hafi ekki lengur verið um að ræða greiðslu í landsspildum. Þar eð vinna frá 1992 til 2000 var töluverð viðbót, var farið fram á, að hvor um sig fengi 4% þóknun auk virðisaukaskatts. Þessi þóknun hafi verið samþykkt af þeim, sem undirrituðu kauptilboðið, sbr. dskj. nr. 15.

Enda þótt fjárhæð hins umstefnda reiknings sé í formi 4% af kauptilboði, er krafan um þóknun fyrir alla þá vinnu, sem stefnandi hefur innt af hendi fyrir Ester Westlund frá 1980 við undirbúning á skipulagi umræddrar landsspildu.

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að hann hafi tekið að sér það verkefni með samkomulagi við Ester Westlund árið 1980. Þá hafi jafnframt verið um það samið, að ekki mætti búast við greiðslu fyrr en árangur næðist.

Stefnandi byggir á því, að hann hafi, þegar um verkið var samið, ekki átt neinna eigin hagsmuna að gæta varðandi land þetta. Ekkert tilefni hafi verið til þess, að hann tæki verkið að sér án greiðslu. Hann hafi verið allan þennan tíma og sé enn starfandi lögmaður. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 61/1942 um málflytjendur og í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er  að finna lagaákvæði, sem segir, að lögmönnum sé rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín.

Erfingjar Esterar Westlund geta ekki, með því að segja upp starfi stefnanda, komist hjá því að greiða fyrir þau störf sem stefnandi hefur unnið fyrir Ester á löngum tíma í trausti þess, að hann fái greitt fyrir vinnu sína. Ekkert bendir til þess, að Ester Westlund hafi ekki gert ráð fyrir því að greiða.

 Málsástæður stefndu.

Stefndu byggja á því, að með öllu sé ósönnuð sú fullyrðing stefnanda að Ester Westlund hafi beðið hann um einhverja tiltekna vinnu eða haft forgöngu þar um. Stefnandi hafi um langt skeið útbúið leigusamninga fyrir Ester um landsspildu hennar, sem stefndu síðan erfðu og séu það einu verkin, sem óumdeilt sé, að hún hafi beðið stefnanda um. Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu að fyrir hendi hafi verið einhver samningur milli stefnanda og Esterar, enda hvíli sönnunarbyrði um að samningur hafi tekist milli þeirra um kaup Esterar á þjónustu af stefnanda á honum, svo og hvers efnis sá samningur hafi verið, þ.m.t. hver meint umsamin þóknun stefnanda eigi að hafa verið, hvernig hún skyldi reiknast út, í hvaða formi hún skyldi greiðast og hvenær. Verði stefnandi að bera allan halla af því, að hafa ekki gengið frá meintum samningi við Ester með tryggilegum hætti. Á það er bent, að stefnandi sé hæstaréttarlögmaður og hafi starfað við lögmennsku og fasteignasölu svo áratugum skipti. Hafi það staðið honum nær að tryggja sér sönnun í þessu efni.

Jafnvel þótt talið yrði sannað, að Ester hefði samið við stefnanda um þjónustu hans, sé ósannað að stefnandi hafi áskilið sér einhverja þóknun fyrir vinnu sína eða gert kröfu um hana.

Í fundargerð á dskj. nr. 52, sem samin er og undirrituð af stefnanda sjálfum, og engum öðrum fundarmanna, en á meðal þeirra er talin hafa verið Ester Westlund,  komi fram, að stefnandi hafi áskilið sér greiðslu í formi lands, þ.e. samtals 5% af því svæði, sem skipulagt verði, handa þeim báðum, stefnanda og Hauki Viktorssyni. Því sé mótmælt, að Ester Westlund hafi samþykkt það, sem skráð er í þessa fundargerð, en yrði svo talið, að í fundargerðinni fælist eitthvert loforð af hálfu Esterar um greiðslu, getur sú greiðsla eingöngu verið í formi lands, sem skipulagt verður. Sé því enginn grundvöllur fyrir kröfu stefnanda um peningagreiðslu, auk þess sem ekki hafi verið samþykkt deiliskipulag af landsspildu þeirri, sem Ester átti og því ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu þóknunar í formi lands.

Þá byggja stefndu á því, að ef svo verði litið á, að Ester hafi samþykkt einhverja þóknun til stefnanda, hafi sú krafa fallið niður við andlát Esterar.  Í öllu falli getur slíkur samningur, sem án efa var ekki þinglýstur á landsspildu hennar, ekki verið skuldbindandi fyrir nýja grandlausa eigendur spildunnar. Breyti engu hvernig þau hafi eignast spilduna.

Stefnandi geri nú kröfu um peningagreiðslu, sem svarar til 4% af kauptilboði dags. 2. nóvember 2000, en Ester lést 4. desember 2000. Skiptum á dánarbúi hennar lauk 28. desember 2000. Krafa um peningagreiðslu til stefnanda er sett fram í bréfi dagsettu 13. september 2001 í kjölfar bréfs, sem lögmaður stefndu skrifaði honum þann 4. september s.á., þar sem afturkölluð er heimild þeirra stefnanda og Hauks Viktorssonar til könnunar á sölu landsspildnanna. Reikningurinn er svo dagsettur 3. janúar 2002. Stefndu byggja á því, að krafa stefnanda um peningagreiðslu byggist á atvikum sem gerðust löngu eftir andlát Esterar, enda sé hún sett fram 13 mánuðum eftir andlát hennar. Hafi krafa þessi því ekki verið til þegar Ester féll frá og hún ekki skuldbundin til að greiða hana. Verði kröfunni því heldur ekki beint að erfingjum hennar, enda geti hún ekki virkað aftur fyrir sig, aftur fyrir andlát Esterar.

Í stefnu sé því haldið fram, að stefnandi hafi unnið fyrir Ester Westlund allt frá árinu 1980. Af hálfu stefndu sé því haldið fram. Hafi í upphafi verið gert ráð fyrir, að greitt yrði með hundraðshlut úr landsspildum. Af hálfu stefndu sé á því byggt, að hvers konar kröfur stefnanda fyrnist á fjórum árum frá því hún á að hafa átt sér stað. Geti stefnandi því ekki mörgum árum og áratugum síðar haft upp kröfur um endurgjald á hendur erfingjum hinnar látnu, enda séu kröfur þær fyrndar.

Þá er á því byggt af hálfu stefndu, að hafi stefnandi átt einhverja kröfu á hendur Ester hafi hann í öllu falli glatað henni sakir tómlætis. Ljóst sé, að hafi stefnandi ætlað að krefja Ester heitna um endurgjald fyrir vinnu sína, hafi hann sýnt af sér vítavert tómlæti um þá kröfugerð eða að ganga með tryggum hætti frá samningum við hana og eftir atvikum eigendur annarra landsspildna á svæðinu um endurgjald og greiðslu þess. Við mat á tómlæti stefnanda verði m.a. að hafa í huga að hann sé hæstaréttarlögmaður sem starfað hafi við lögmennsku um áratugaskeið. Þá verði heldur ekki séð, að stefnandi geri fjárkröfu á hendur erfingjum Esterar fyrr en í ársbyrjun 2002, en hún lést 4. desember 2000. Mátti stefnanda vera ljós nauðsyn þess, að hafa uppi kröfur í dánarbú hinnar látnu.Verði stefnandi að bera allan halla af þessu tómlæti sínu, sem eitt og sér leiði til sýknu í málinu.

Til þrautavara krefjast stefndu stórfelldrar lækkunar á kröfum stefnanda. Telja stefndu í því sambandi aldrei koma til greina hærra hlutfall en sem nemur 4% af fasteignamatsverði landsspildu þeirra enda á því byggt af hálfu stefnanda, að hann hafi átt rétt til þóknunar í formi lands. Önnur gögn um verðmæti spildunnar liggi ekki fyrir. Kauptilboð byggð á forsendum um kaup á fleiri spildum, samþykktu deiliskipulagi og samþykki á óljósum greiðsluskilmálum segi ekkert til um verðmæti landsspildu stefndu, auk þess sem með öllu sé ósannað að stefndu eða arfláti hafi samþykkt þóknun stefnanda sem næmi 4% af einhverju kauptilboðsverði. Þvert á móti komi fram, að eigendur einhverra annarra spildna hafi samþykkt slíkt en ekki Ester. Eigi að reikna meinta þóknun stefnanda í peningum út frá landsstærðum annarra spildna, sé ekki unnt að miða við annað en minnstu stærð spildu stefndu og lægsta hlutfall af 10,5 hekturum.   

Niðurstaða:

Með stuðningi í framburðum þeirra Hauks Viktorssonar og Péturs Guðmundarsonar sem og í framlögðum gögnum um framkvæmd verksins verður að telja sannaða þá staðhæfingu stefnanda, að Ester Westlund hafi falið honum að vinna að því að fá heimild til að skipuleggja landsspildur þær, sem um ræðir í máli þessu. 

Með vísun til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 61/1942, sem þá giltu um störf lögmanna, og  1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, verður að ganga út frá því, að stefnandi hafi áskilið sér greiðslu fyrir verk sitt.

Ekki er óvanalegt, að lögmenn áskilji sér greiðslu fyrir verk sitt að því loknu. Enda þótt telja verði að óvenjulega langur tími hafi liðið frá upphafi verks þess, sem hér um ræðir, þar til gerð er krafa um greiðslu, verður að hafa í huga umfang verksins og eðli þess. Fram hefur komið í gögnum málsins, að á þessum langa tíma hefur komið upp umræða um greiðslu fyrir verkið, þar á meðal um form þeirrar greiðslu, þ.e. að stefndi fengi greiðslu með hlutdeild í landinu. Verður ekki fallist á, að stefnandi hafi glatað kröfu sinni fyrir tómlæti.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 telst fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Fari gjalddagi skuldar eða annarrar kröfu eftir uppsögn af hálfu kröfueiganda telst fyrningarfresturinn frá þeim degi, er skuldin í fyrsta lagi gat orðið gjaldkræf eftir uppsögn, samkvæmt 2. mgr. 5. gr. s.l.

Í bréfi stefnanda til lögmanns stefndu, dags. 13. september 2001, er fjallað um kröfur þeirra stefnanda og Hauks Viktorssonar, en þar segir m.a.: „Þóknun fyrir verk okkar í tvo áratugi var upphaflega rædd árið 1992. … Eigendur gerðu okkur strax ljóst, að þeir myndu ekki geta greitt fyrir aðstoð okkar nema með hlut í landi. Á þetta var fallist, en það stendur ekki eftir höfnun á sölutilboðinu. Verði ekki óskað eftir fundi með okkur um frágang greiðslu til okkar innan 3ja vikna, verðum við að líta svo á, að eigendur telji sig ekki þurfa að standa okkur skil á greiðslu.”

Uppsögn skuldar þeirrar, sem um ræðir í máli þessu, telst í fyrsta lagi hafa orðið með bréfi þessu og telst upphaf fyrningarfrests því frá 13. september 2000. Verður samkvæmt því ekki fallist á, að skuldin sé fyrnd.

Stefndu, sem öll eru bréferfingjar Esterar Westlund, fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúinu þann 28. desember 2000 og kemur fram í gögnum málsins, að erfðafjárskýrslu og skiptayfirlýsingu um landsspilduna hafi verið skilað samdægurs.  Ekki kemur fram, að innköllun hafi verið gerð. Með undirskrift sinni undir beiðni um leyfi til einkaskipta og samkvæmt 3. mgr. 80. gr. laga nr. 20/1991, bera stefndu ábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á skuldbindingum þess látna, sem kunna síðar að koma fram, þótt ekki hafi verið kunnugt um þær áður en skiptum lauk. Krafa stefnanda á hendur Ester Westlund féll því ekki niður við andlát hennar, og þá ekki heldur við að henni væri ekki þinglýst á fasteign þá, sem krafan varðaði, heldur bera stefndu solidariska ábyrgð á henni gagnvart stefnanda.

Þegar komið var að lokum þess verks, sem stefnandi hafði tekið að sér fyrir Ester Westlund og aðra landeigendur á svæðinu, var fengið kauptilboð í landið, fyrir milligöngu fasteignasölu. Nokkrir af landeigendum höfðu samþykkt tilboðið. Um leið og seljendur samþykktu tilboðið skrifuðu þeir einnig undir svohljóðandi yfirlýsingu: „Undirrituðum er kunnugt, að krafa fasteignasalans um þóknun fyrir milligöngu sína er 2%+vsk og verður ekki þokað niður á við. Á sama hátt er okkur einnig kunnugt um þóknun til Gústafs Þórs Tryggvasonar hrl. og Hauks Viktorssonar arkit. sem er 8%+vsk.”

Ester Westlund samþykkti ekki tilboðið eða neinn fyrir hana og varð ekki af kaupunum. Ekki var því af hennar hálfu skrifað undir ofangreinda yfirlýsingu. Eins og yfirlýsingin er orðuð, er hún ekki loforð um greiðslu þóknunarinnar, heldur yfirlýsing um að þeim sem undir hana rita sé kunnugt um þessar kröfur þeirra, sem þar eru tilgreindir. Þarf ekki að draga í efa, að Ester hafi einnig verið kunnugt um þessar kröfur.

Af efni yfirlýsingarinnar sést, að krafa þeirra stefnanda og Hauks Viktorssonar er ekki um greiðslu sölulauna, þar sem gert er ráð fyrir fullri greiðslu þeirra til fasteignasala. Í reikningi stefnanda kemur fram, að krafa hans er um þóknun fyrir störf við „að sameina aðila landssvæðis í botni Varmárdals og skipuleggja íbúabyggð og fá leyfi til að reisa hana”. Virðist sem samkomulag hafi verið komið á um að þessi háttur yrði hafður um viðmiðun þóknunar stefnanda og er ekki tilefni til að ætla, að greiðsla þóknunarinnar ætti að öðru leyti að tengjast sölu landsins.

Stefndu hafa ekki sýnt fram á, að krafa um þóknun sé ósanngjörn miðað við umfang þess verks sem innt var af hendi.

Verður því að taka kröfu stefnanda til greina að öllu leyti og verður niðurstaða málsins, að stefndu, Steingrímur Westlund, Kristín María Westlund, Elín Margrét Westlund, Edward Jóhannes Westlund, Súsanna Rós Westlund, Katrín Guðlaug Westlund og Stefán Róbert Westlund Þórsson, greiði in solidum stefnanda, Gústaf Þór Tryggvasyni, 1.591.577 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 4. febrúar 2002 til greiðsludags og 300.000 kr. í málskostnað.

Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Steingrímur Westlund, Kristín María Westlund, Elín Margrét Westlund, Edward Jóhannes Westlund, Súsanna Rós Westlund, Katrín Guðlaug Westlund og Stefán Róbert Westlund Þórsson, greiði in solidum stefnanda, Gústaf Þór Tryggvasyni, 1.591.577 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 4. febrúar 2002 til greiðsludags og 300.000 kr. í málskostnað.