Hæstiréttur íslands
Mál nr. 347/2015
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 12. nóvember 2015. |
|
Nr. 347/2015.
|
Nesbúegg ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Arion banka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging.
N ehf. höfðaði mál á hendur A hf. og krafðist þess að viðurkennt yrði að lánssamningur N ehf. og K hf., sem A hf. rakti rétt sinn til, væri bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Að virtri fyrirsögn lánssamningsins, tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar og því að lánið hefði að langstærstum hluta verið greitt út í erlendri mynt var talið að um lán í erlendum gjaldmiðlum væri að ræða. Var A hf. því sýknað af kröfu N ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. maí 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að lánssamningur 8. júlí 2004 milli sín og Kaupþings Búnaðarbanka hf. sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningur máls þessa lýtur að lánssamningi sem gerður var milli Kaupþings Búnaðarbanka hf. og áfrýjanda 8. júlí 2004, en ágreiningslaust er að kröfum í málinu er réttilega beint að stefnda sem fengið hefur kröfu samkvæmt umræddum lánssamningi framselda sér.
Heiti samningsins bar með sér að um væri að ræða lánssamning í erlendum gjaldmiðlum. Í grein 2.1. samningsins sagði að lántaki lofaði að taka að láni og bankinn lofaði að lána allt að jafnvirði íslenskar krónur 150.000.000, 31% í bandaríkjadölum, 22% í svissneskum frönkum, 12% í japönskum jenum og 35% í evrum.
Lán það, sem hér um ræðir, skyldi samkvæmt grein 2.3. í samningnum greiðast inn á reikning hjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf., sem tilgreindur var í íslenskum krónum, en tilgangur lánsins var þar sagður vera að greiða niður erlent lán áfrýjanda hjá Íslandsbanka hf. Lánið var þó ekki greitt inn á áðurgreindan reikning, heldur verður af gögnum málsins ráðið að fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum hafi verið ráðstafað inn á reikning hjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf. 22. nóvember 2004 og næsta dag hafi stærstum hluta fjárhæðarinnar verið ráðstafað til Glitnis banka hf. í erlendri mynt til uppgreiðslu skuldbindingar í þágu áfrýjanda, en hluta fjárhæðarinnar ráðstafað inn á reikning hans í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu var lánið að langstærstum hluta greitt út í erlendri mynt og skipti því fé í erlendum gjaldmiðlum um hendur þegar Kaupþing Búnaðarbanki hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt samningnum. Í grein 2.7. lánssamningsins sagði að lánið bæri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af. Þó var áfrýjanda heimilt að endurgreiða lánið í íslenskum krónum, sbr. grein 2.5. í samningnum, og varð sú raunin. Skiptir sú greiðslutilhögun ekki máli, sbr. dóm Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 106/2015. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Nesbúegg ehf., greiði stefnda, Arion banka hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. febrúar sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Nesbúegg ehf., Vatnsleysuströnd, Vogum, á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 25. nóvember 2013.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að ákvæði lánssamnings Nesbúeggs ehf. og stefnda, Arion banka hf., nr. 1939, dagsetts 8. júlí 2004, upphaflega milli stefnanda og Kaupþings Búnaðarbanka hf., kt. 560882-0419, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu, samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins.
II
Málavextir eru þeir að hinn 8. júlí 2008 var gerður lánssamningur, nr. 1939, á milli Nesbúeggs og Kaupþings Búnaðarbanka hf., forvera stefnda, en samkvæmt grein 2.1 í samningnum, lofaði stefnandi að taka lán, og forveri stefnda, Kaupþing Búnaðarbanki hf., lofaði að lána allt að jafnvirði 150.000.000 íslenskra króna í eftirfarandi erlendum myntum: 31% í Bandaríkjadölum, 22% í svissneskum frönkum, 12% í japönskum jenum og 35% í evrum.
Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hlutahafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en í framhaldi af því var settur á stofn Nýi Kaupþing banki hf., sem nú ber heiti stefnda. Óumdeilt er að meðal eigna eldri bankans, sem færðar voru til stefnda samkvæmt ákvörðum Fjármálaeftirlitsins, voru réttindi samkvæmt lánssamningi nr. 1939, dagsettum 8. júlí 2008, upphaflega milli stefnanda og Kaupþings Búnaðarbanka hf.
Samningurinn, samkvæmt fyrirsögn hans, ber heitið ,,lánssamningur“ og þar undir kemur fram í undirfyrirsögn að samningurinn sé ,,í erlendum myntum“. Samkvæmt greinum 2.2 og 2.3 í samningnum átti lánið, að uppfylltum útborgunarskilyrðum, að koma til útborgunar eftir skriflegri beiðni lántakans. Var ráðgert að það yrði greitt inn á tilgreindan reikning lánveitanda og tilgangur þess sagður vera ,,að greiða niður erlent lán lántaka hjá Íslandsbanka hf.“ Í grein 2.4 kemur fram að lánið skyldi endurgreitt með 12 greiðslum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. maí 2007. Samkvæmt grein 2.5 í samningnum skyldi greiðslustaður vera hjá lánveitandanum, sem var heimilt að skuldfæra tékkareikning lántakans í íslenskum krónum fyrir greiðslu afborgana og vaxta, án undangenginnar tilkynningar til lántakans og bar honum ,,að hafa ávallt innistæðu á reikningnum til greiðslu afborgana“. Í grein 2.7 í lánssamningnum kom fram eftirfarandi: ,,Lánið ber að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af, en greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum, þá skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans.“
Í grein 3.1 í lánssamningnum sagði m.a. að aðrir hlutar lánsins en í evrum skyldu bera svonefnda LIBOR-vexti ,,fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni“ með 2,45% álagi, en lánshluti í evrum skyldi bera svonefnda EURIBOR-vexti með sama álagi samkvæmt grein 3.2. Í grein 3.6 kom fram að yrðu vanefndir af hendi lántakans skyldi hann greiða dráttarvexti, sem vegna lánshluta í erlendum gjaldmiðlum yrðu sömu vextir og að framan greinir með 10% álagi. Í sömu grein var tekið fram að lánveitanda, í tilefni af vanefnd lántaka, væri heimilt vegna vanskila ,,að umreikna allt lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi bankans í þeim myntum sem lánið samanstendur af“ og hefði lánveitandi val um hvort hann krefðist ,,dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af allri skuldinni breyttri í íslenskar krónur“.
Samkvæmt 5. grein lánssamningsins var lántaka heimilt að óska eftir ,,myntbreytingu á láninu“, væri það í skilum, og skyldi þá ,,höfuðstóll lánsins umreiknaður til jafnvirðis í annarri mynt“. Ætti þá að nota ,,sölugengi þeirra myntar sem horfið er frá og kaupgengi þeirrar myntar eða mynta sem við taka“. Í 6. grein var kveðið á um að fyrir skuldinni bæri lántaka að gefa út til lánveitandans tryggingarbréf, auk þess sem til tryggingar væru nánar tilgreind, þegar útgefin tryggingarbréf, auk handveðs í hlutum í stefnanda.
Samkvæmt grein 9.1 í lánssamningnum hafði lánveitandi heimild til að segja upp öllu láninu einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakra uppsagnar ef bókfært eiginfjárhlutfall lántaka færi undir 14%. Hinn 30. mars 2010 gaf Arion banki út yfirlýsingu um undanþágu til lántaka, í tilefni af því að eiginfjárhlutfall lántaka fór undir 14%. Með yfirlýsingunni féllst Arion banki á, vegna beiðni lántaka, að beita ekki vanefndarúrræði greinar 9.1 í lánssamningi.
Hinn 20. ágúst 2010 var gerð skilmálabreyting á láninu, þar sem lánssamningurinn var framlengdur, samkvæmt framlengingarheimild lánsins og átti þá sérhver greiðsla að nema 1/62 hluta af höfuðstól hinn 21. maí 2009. Þar kom einnig fram að á lokagjalddaga hinn 21. júlí 2013 skyldi lántaki greiða 37/62 hluta lánsins en að öðru leyti áttu ákvæði lánssamningsins að haldast óbreytt.
Stefndi vísi til þess að stefnandi hafi undirritað ódagsetta beiðni um útborgun láns, samkvæmt umræddum lánssamningi um ,,jafnvirði allt að íslenskar krónur 150.000.000 í USD, CHF, JPY og EUR“ og hafi stefnandi þar óskað eftir því ,,í samræmi við ákvæði samningsins“ að lánið yrði greitt út. Þá liggi fyrir að lánveitandi hafi gert stefnanda svonefnda kaupnótu, vegna útborgunar þess lán sem hér um ræði og hafi þar verið greint frá fjárhæðum einstakra hluta þess í framgreindum myntum, sem 1% lántökugjald hafi verið í hverju tilviki dregið frá. Að auki hafi komið til greiðslu samkvæmt kaupnótunni þóknun vegna ráðgjafar og gerð lánssamnings að fjárhæð 15.000 krónur. Stefndi kveður að efni kaupnótunnar beri með sér að tilgreindar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum, til samræmis við tilgreiningu hlutfalla þeirra í meginmáli lánssamningsins, hafi verið greiddar hinn 22. nóvember 2004. Nánar tiltekið hafi þessum fjárhæðum verið ráðstafað inn á svokallaða safnreikninga lánveitanda, í hinum tilgreindu erlendum gjaldmiðlum, eða inn á reikninga nr. 0301-38-181718, sem hafi verið í Bandaríkjadollurum, nr. 0301-38-678718, sem hafi verið í japönskum jenum, nr. 0301-38-718718, sem hafi verið í evrum, og nr. 0301-38-608718, sem hafi verið í svissneskum frönkum.
Stefndi vísar til þess að næsta dag eftir að lánið samkvæmt lánssamningnum hafi verið greitt út, hinn 23. nóvember 2004, hafi hluta tilgreindra fjárhæða, sem hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, verið ráðstafað til Glitnis hf., með eftirfarandi hætti:
|
|
Upphafleg lánsfjárhæð |
Ráðstafað til GLB |
Mismunur |
Gengi |
ISK |
|
USD |
692.672,28 |
548.522,19 |
144.150,09 |
66,41 |
9.573.007,48 |
|
JPY |
27.700.917,00 |
21.501.500,00 |
6.199.417,00 |
0,6438 |
3.991.184,66 |
|
EUR |
600.047,81 |
897.794,44 |
-297.746,63 |
87,105 |
-25.935.220,21 |
|
GBP |
Á ekki við |
121.032,55 |
-121.032,55 |
124,53 |
-15.072.183,45 |
|
CHF |
571.533,53 |
Á ekki við |
571.553,53 |
57,23 |
32.710.008,52 |
|
|
|
|
|
|
5.266.797,01 |
Stefndi kveður að ráða megi af framangreindu að fjárhæðirnar, sem hafi verið ráðstafað til Glitnis hf., séu ekki nákvæmlega þær sömu og lánsfjárhæðirnar samkvæmt hinum umþrætta lánssamningi auk þess sem samningurinn við Glitni hf. virðist hafa verið í sömu myntum og hinn nýi að öðru leyti en því að hluti hans hafi verið í sterlingspundum í stað svissneskra franka, sbr. skjal sem hafi verið útbúið á sínum tíma í tengslum við afgreiðslu lánsins, en það sýni andvirði og ráðstöfun lánsfjárhæðarinnar. Stefndi kveður að það skjal beri nánar tiltekið með sér að lánið sé í Bandaríkjadollurum, að því marki sem þeir hafi ekki verið nýttir til uppgreiðslu lánsins við Glitni hf. í sama gjaldmiðlni, og svissneskum frönkum, en lánið við Glitni hafi ekki virst vera í þeim gjaldmiðli, hafi verið ráðstafað til kaupa á samtals 121.032,55 sterlingspundum, sem hafi svarað til fjárhæðarinnar sem ráðstafað skyldi til Glitnis hf. Þá sé hinum svissnesku frönkum að hluta til ráðstafað til kaupa á 297.746,63 evrum, eða sem svari til mismunar evrufjárhæðar hinnar eldri lánsskuldbindingar, svo sem framangreind tafla beri einnig með sér. Að þessu frágengnu hafi þeim fjárhæðum, þ.e. þeim sem hafi svarað til skuldbindingarinnar við Glitni hf., þ. á m. í sterlingspundum, verið ráðstafað til Glitnis hf. fyrir milligöngu erlendra lánastofnana, sbr. nánar svokölluð SWIFT-skeyti, þar sem einnig hafi komið fram að um hafi verið að ræða ,,greidsla a//erlendum lanum//Nesbuegg ehf//Nesbu“, sbr. einnig skuldafærslu safnreikninga. Í reynd hafi fjármunirnir af safnreikningunum farið inn á reikninga lánveitanda hjá hinum erlendu lánastofnunum og þaðan áfram til Glitnis hf. fyrir milligöngu erlendra lánastofnana. Að öllu ofangreindu frágengnu hafi síðan 5.266.797 krónum verið ráðstafað inn á veltureikning lántaka nr. 315-26-4030 hinn 17. desember 2004.
III
Stefnandi byggir á því að umdeilt lán sé í íslenskum krónum bundið ólögmætu ákvæði um gengistryggingu.
Stefnandi vísar til þess að í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi því verið slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Frá þeim tíma hafi rétturinn kveðið upp marga dóma, þar sem á það hafi reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teldist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan hátt hafi verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði taki ekki til. Af þeim meiði sé m.a. dómur Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, en þar hafi verið deilt um samning um lán, sem tilgreindur hafi verið sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilteknum erlendum gjaldmiðlum, og hafi þess þá einnig verið getið hvert hlutfall hvers erlends gjaldmiðils ætti að vera af fjárhæð lánsins. Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar hafi verið sú að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Þannig hafi lánsfjárhæðin ekki verið tilgreind í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum og samningsaðilar hafi báðir efnt meginskyldu sína samkvæmt lánssamningnum með greiðslum í erlendum krónum.
Stefnandi vísi til þess að í grein 2.1 hins umþrætta samnings sé lánsfjárhæð tilgreind sem ,,allt að jafnvirði íslenskar krónur 150.000.000,- segi og skrifa krónur eitthundraðogfimmtíumilljónir 00/100 í eftirfarandi myntum“. Þar á eftir fylgi hlutfall þeirra mynta sem samningurinn sé tengdur við og sé þar hlutfalla erlendra mynta aðeins tilgreint í prósentum.
Samkvæmt grein 2.3 í samningnum hafi lánið verið greitt inn á bankareikning nr. 301-26-956000. Um sé að ræða bankareikning í íslenskum krónum. Stefnandi mótmælir harðlega þeirri afstöðu stefnda sem hafi birst í bréfi hans, dagsettu 6. mars 2013, þess efnis að lánið hafi verið ,,greitt út í erlendri mynt“. Stefnandi kveður að samkvæmt skýru orðalagi lánssamningsins hafi lánið verið greitt inn á bankareikning í íslenskum krónum. Þessu til stuðnings vísar stefnandi auk þess til breytingar á greiðsluskilmálum lánsins frá 20. ágúst 2010. Þar sé upphafleg lánsfjárhæð eingöngu tiltekin í íslenskum krónum. Þannig segi ofarlega í skjalinu: ,,Upphafleg lánsfjárhæð 150.000.000.“ Stefnandi vísar til þess að engu breyti um eðli skuldbindingarinnar þótt stefndi kunni síðar að hafa selt hinar íslensku krónur fyrir erlenda gjaldmiðla.
Samkvæmt grein 2.5 í samningnum hafi afborganir lánsins og vextir verið skuldfærðar af bankareikningi nr. 0315-26-4030. Stefnandi kveður að um sé að ræða tékkareikning stefnanda í íslenskum krónum.
Stefnandi vísar til þess að eina tilgreining í lánssamningi nr. 1939 á fjárhæð lánsins hafi verið, samkvæmt framansögðu, í íslenskum krónum, en hvergi sé getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföllum. Fjárhæð lánsins hafi þannig verið í grunninn eingöngu tiltekin í íslenskum krónum. Aðalskylda stefnda, sem lánveitanda samkvæmt lánssamningnum, hafi verið efnd með greiðslu í íslenskum krónum inn á tékkareikning nr. 302-26-956000. Aðalskylda skuldara samkvæmt lánssamningnum hafi verið greiðsla vaxta og afborgana. Stefnandi kveður að bankareikningur stefnanda hjá stefnda hafi ávallt verið skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum í íslenskum krónum. Báðir samningsaðilar hafi því, samkvæmt framansögðu, átt að efna meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með greiðslum í íslenskum krónum og hafi þeir gert það í raun að mati stefnanda.
Kröfu um heimild til að afla viðurkenningardóms byggir stefnandi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá lán sitt leiðrétt til samræmis við lög.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir á því að lánsskuldbinding sú sem um ræðir teljist vera gilt lán í erlendum gjaldmiðlum. Stefndi vísi til þess að í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi því verið slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Frá þeim tíma hafi rétturinn kveðið upp marga dóma, þar sem á það hafi reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teldist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan hátt hafi verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði taki ekki til. Af þeim meiði séu meðal annarra dómar Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012 og 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012, en þar hafi verið deilt um samninga um lán, sem tilgreindir hafi verið sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilteknum erlendum gjaldmiðlum, og hafi þess þá einnig verið getið hvert hlutfall hvers erlends gjaldmiðils ætti að vera af fjárhæð lánsins. Í þessum tilvikum hafi verið litið svo á að orðalag í samningi um skuldbindingu í þessari mynd dygði ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu, heldur hafi jafnframt þurft að líta til þess hvernig aðilar samnings hafi í raun efnt hann hvor fyrir sitt leyti. Að því gættu hafi í fyrstnefnda dóminum verið litið svo á að samningur hafi í reynd verið um lán í íslenskum krónum, sem hafi verið bundið ólögmætu ákvæði um gengistryggingu, en í hinum dómunum tveimur að samningar hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum, sem hafi verið skuldbindandi fyrir lántaka.
Stefndi vísar til þess að í dómi Hæstaréttar í síðastnefndu máli nr. 66/2012, sbr. einnig dóm réttarins í máli nr. 3/2012, hafi orðalag í lánssamningi þeim, sem þar á reyndi, verið nánast það sama og samkvæmt samningi þeim sem hér sé um deilt. Hafi lánið í málinu nr. 66/2012 verið greitt út með því að bankinn hafi lagt til tilteknar fjárhæðir í evrum, japönskum jenum, svissneskum frönkum og Bandaríkjadölum inn á fjóra gjaldeyrisreikninga lántaka í þeim gjaldmiðlum. Þessi aðferð við útborgun lánsfjárins hafi verið talin í samræmi við ákvæði í samningnum. Hafi fé í erlendum gjaldmiðlum þannig í reynd skipt um hendur þegar lánveitandi hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum, samkvæmt því sem hafi sagt í dómi Hæstaréttar. Eftir því, sem ráðið yrði af gögnum málsins, hafi lántakinn á hinn bóginn ekki greitt afborganir af skuld sinni með fé í sömu erlendu gjaldmiðlunum. Í forsendum dómsins hafi þó sagt um þetta að þess yrði þó að gæta, meðal annarra atriða, að eftir hljóðan lánssamningsins hafi borið að endurgreiða lánið ,,í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“. Hafi það því ekki breytt niðurstöðunni þótt efndir á aðalskyldu lántaka hefðu farið fram með þeim hætti sem um ræddi.
Stefndir vísi sérstaklega til nýgengis dóms Hæstaréttar 14. nóvember 2013 í máli nr. 337/2013. Þar hafi ekki verið talið ráða úrslitum að lántaka var heimilt samkvæmt samningi að inna af hendi afborganir í íslenskum krónum, og einnig hafi verið vísað til dóms réttarins í máli nr. 66/2012 til stuðnings þeirri niðurstöðu. Þvert á móti hafi sérstaklega verið til þess litið að efndir á aðalskyldu lánveitanda hafi farið fram í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum.
Á sama hátt og í nefndum dómum réttarins telur stefndi að leggja verði til grundvallar að umþrætt lán sé að sönnu um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum. Þó svo að erlendir gjaldmiðlar hafi ekki skipt um hendur með nákvæmlega sama hætti og þar hafi verið um rætt, þ.e. þannig að þeir hafi verið lagðir inn á sérstaka reikninga í eigu lántaka, þá hafi ástæða þess sýnilega verið sú að ráðstafa hafi átt lánsfénu til uppgreiðslu á láni hjá annarri lánastofnun fyrir milligöngu lánveitanda sjálfs, sem hafi jafnframt verið að mestu leyti í sömu erlendu gjaldmiðlum. Öll sú framkvæmd hafi borið ljóslega með sér að stefnandi hafi að sönnu stofnað til skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum. Stefndi telji, með hliðsjón af því sem þar hafi sagt um framkvæmd lánveitingarinnar, svo og með tilliti til annarra ákvæða lánssamningsins og heiti hans, að leggja verði til grundvallar að um lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða. Af framangreindu leiði jafnframt að málatilbúnaður stefnanda, sem sé í grunninn reistur á því einu að fjárhæð lánsins hafi verið greidd út í íslenskum krónum, standist ekki nánari skoðun. Stefndi árétti sérstaklega, með vísun til málavaxtalýsingar, að sú tilfærsla og ráðstöfun fjármuna sem þar um ræði, og sem hafi verið til samræmis við tilgang samningsins um uppgreiðslu á erlendu láni, geti bersýnilega ekki talist vera í íslenskum krónum.
Varðandi efndir á aðalskyldu lántaka sé að því að gæta að samkvæmt efni samningsins hafi verið um það samið að erlendir gjaldmiðlar skyldu skipta um hendur við efndir lántaka, þ.e. stefnanda, á aðalskyldu sinni, sbr. grein 2.7 í samningnum og fyrri umfjöllun. Einu gildi þá, eins og hér hátti til, þótt svo hafi ekki farið í raun við reglulegar afborganir lánsins, þ.e. í þeim skilningi að reikningur í íslenskum krónum hafi verið skuldfærður samkvæmt því sem greini í grein 2.5 í samningnum, sbr. og að þessu leyti dóm Hæstaréttar í máli nr. 66/2012 og í máli 337/2013. Þá sé að því að gæta, að enda þótt reikningur í íslenskum krónum hafi verið skuldfærður fyrir greiðslu afborgana og vaxta hafi þeirri fjárhæð í reynd verið varið til kaupa á hinum erlendu gjaldmiðlum og til lækkunar á höfuðstól lánsins í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum, svo sem leiði einnig af eðli málsins.
Því sé eins sérstaklega hafnað, þ. á m. með tilliti til framangreinds, að skilmálabreyting frá 20. ágúst 2010, þar sem upphafleg fjárhæð sé tilgreind í íslenskum krónum, geti orðið til þess að lánið teljist vera í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu frá öndverðu. Feli hún ekki í sér að upphafleg lánsskuldbinding teljist, frá öndverðu, hafi verið í íslenskum krónum. Stefndi vísi hér til áðurnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 337/2013, en samkvæmt því sem þar hafi sagt geti viðaukar ,,einir og sér ekki breytt því hvernig upphaflega var samið um þá mynt sem lánið var í“. Sé heldur ekki á því byggt af hálfu stefnanda að lánið hafi eftirleiðis verið í íslenskum krónum, enda sé slík niðurstaða að lögum háð því að litið yrði svo á að með þessari skilmálabreytingu hafi aðilar að lánssamningnum samið um breytingu á tilgreiningu þeirra gjaldmiðla sem hafi myndað höfuðstól lánsins samkvæmt efni upphaflegrar lánsskuldbindingar. Þá athugist að í skilmálabreytingum frá 26. maí og 18. nóvember, hafi skuldbindingin verið tilgreind sem ,,jafnvirði kr. 150.000.000, í erlendum myntum“. Stefndi bendir á að í svokallaðri yfirlýsingu um undanþágu 30. mars 2010, sem veitt hafi verið stefnanda vegna þess að bókfært eiginfjárhlutfall hafi verið undir samningsbundnum mörkum, hafi komið fram að lánið ,,svaraði til kr. 150.000.000,- og var veitt í USD, CHF, JPY og EUR“.
Stefndi vísar einnig til þess að í útdráttum úr ársreikningum stefnanda á árunum 2004-2012 komi fram að skuldbindingin sé þar ítrekað tilgreind í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum. Fari því trauðla á milli mála að stefnandi sjálfur hafi talið að skuldbindingin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, þ. á m. eftir áðurnefndar skilmálabreytingar.
Við skýringuna beri og að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningnum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum. Sé jafnframt á því byggt að stefnandi hafi, hvað sem öðru líður, með athafnaleysi sínu samþykkt að líta skuli svo á að téð skuldbinding sé í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum.
Telur stefndi samkvæmt framansögðu, bæði um einstök atriði og að samanlögðu, að leggja beri til grundvallar að um lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Um lagarök vísar stefndi m.a. til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, svo og meginreglna fjármunaréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga og frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum, sem telja verði gilda nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau gengi erlendra gjaldmiðla, en lán í erlendri mynt fara ekki gegn ákvæðum laganna, sbr. og dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.
Í máli þessu deila aðilar um hvort lánssamningur stefnanda og Kaupþings Búnaðarbanka hf., forvera stefnda, hinn 8. júlí 2008, varði lánsfé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.
Ákvæði umdeilds samnings er lýst hér að framan. Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, þar sem fjallað hefur verið um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta viðkomandi lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gegnst undir. Í þeim tilvikum þegar textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er, eins og á við um þann samning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti.
Samkvæmt því ber fyrst að líta til þess að umdeildur samningur er á forsíðu sinni sagður vera um lán í erlendum myntum. Í samningnum sjálfum er lánið sagt vera allt að 150.000.000 íslenskar krónur í tilgreindum erlendum myntum og er prósenta þeirra mynta tiltekin. Í samningnum er gert ráð fyrir því að stefnandi leggi fram sérstaka beiðni um útborgun lánsins. Samkvæmt fylgiskali með lánssamningnum var óskað eftir því að lánið yrði nýtt til að greiða niður erlent lán stefnanda hjá Íslandsbanka hf. og skyldi endanleg fjárhæð umþrætts láns miðast við uppgreiðsluverðmæti þess. Óumdeilt er að útborgunarfjárhæð lánsins var að stærstum hluta notuð til að greiða upp erlent lán stefnanda hjá Íslandsbanka og að aðeins hluti þess var greiddur inn á reikning stefnanda í íslenskum krónum. Þá bera kvittanir fyrir uppgreiðslu lánsins hjá Glitni hf. það með með sér að lánið hafi verið gert upp í erlendum gjaldmiðlum. Af dómum Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 66/2012, má ráða að rétturinn gerir ekki fortakslausa kröfu til þess að skuldbindingar aðila á grundvelli samninga, eins og þess sem deilt er um í þessu máli, séu að öllu leyti efndir með greiðslu í erlendum gjaldmiðlum til þess að lán verði talin í þeim gjaldmiðlum. Þegar efndir aðila á samningsskyldum sínum eru virtar verður að telja að þær hafi að svo verulegu marki falist í því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur, að leggja verði til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum. Þá samræmast ákvæði samningsins um vexti, sem og heimild lánveitanda til að umreikna lánið í íslenskar krónur við gjaldfellingu þess og reikna á það dráttarvexti, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Það styður og framangreinda niðurstöðu að tilgreining lánsins í ársreikningum stefnanda, sem erlent lán gefur vísbendingu um að samningsvilji stefnanda hafi staðið til þess að lánið væri í erlendum gjaldmiðlum. Þegar allt framangreint er virt verður að leggja til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Nesbúeggs ehf.
Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.