Hæstiréttur íslands
Mál nr. 73/2016
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Sjúkdómatrygging
- Málshöfðunarfrestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2016. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að kröfum stefnda á hendur áfrýjandanum Árna Reynissyni ehf. verð vísað frá héraðsdómi. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjendur gera þá varakröfu að málinu verði vísað frá héraðsdómi hvað snertir áfrýjandann Árna Reynisson ehf. þar sem aðild hans að málinu hafi í engu verið rökstudd af stefnda. Í héraðsstefnu er aðild þessa áfrýjanda rökstudd með fullnægjandi hætti og verður málinu ekki vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar að þessu leyti.
Fyrir Hæstarétti byggja áfrýjendur á því að áfrýjandinn Árni Reynisson ehf. eigi ekki aðild að máli þessu. Þessi málsástæða var ekki höfð upp í héraði og kemur hún af þeim sökum ekki til álita við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í málinu deila aðilar einkum um það hvort stefndi hafi með þeirri starfstryggingu sem hann tók verið tryggður sem húsasmiður eða eingöngu sem framkvæmdastjóri. Fyrir liggur álitsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis, sem áfrýjendur óskuðu einhliða eftir, á afleiðingum slitgigtar sem stefndi er haldinn. Var það niðurstaða læknisins að vegna slitgigtarinnar væri stefndi 100% óvinnufær sem húsasmiður og verkstjóri til slíkra starfa en 50% óvinnufær til starfa sem framkvæmdastjóri. Byggja áfrýjendur á því að starfstryggingin nái aðeins til starfa stefnda sem framkvæmdastjóri og hafa stefnda verið greiddar bætur í samræmi við það.
Í upphaflegri umsókn stefnda um starfstryggingu 14. febrúar 2001 tilgreindi hann atvinnu sína með þeim hætti að hann væri framkvæmdastjóri, húsasmiður og verkstjóri. Gildistími upphaflegu tryggingarinnar var þrjú ár og eftir það sótti stefndi um endurnýjun tryggingarinnar árlega. Sú starfstrygging, sem var í gildi þegar stefndi tilkynnti áfrýjendum um tjón sitt af völdum slitgigtarinnar, hafði verið endurnýjuð 31. janúar 2011 og var gildistími hennar frá 20. febrúar 2011 til 19. febrúar 2012. Samkvæmt umsókn stefnda um þá endurnýjun á starfstryggingunni var atvinna hans skráð sem húsasmiður og í vátryggingarskírteini vegna hennar, sem undirritað var af hálfu áfrýjandans Árna Reynissonar ehf., var starf stefnda tilgreint sem húsasmiður. Óumdeilt er að stefndi er algerlega óvinnufær sem húsasmiður og á hann því rétt á fullum bótum úr tryggingunni. Þá verður með vísan forsendna hins áfrýjaða dóms fallist á að málið hafi verið tímanlega höfðað. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Árni Reynisson ehf. og Liberty Corporate Capital Limited, greiði óskipt stefnda, Sigurjóni Pálssyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2015.
Mál þetta sem höfðað var 22. apríl 2014 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 8. október 2015. Stefnandi er Sigurjón Pálsson, Hörgslundi 5, Garðabæ en stefndu eru Árni Reynisson ehf., Skipholti 50d, Reykjavík og Liberty Syndicate samkvæmt stefnu. Undir rekstri málsins upplýsti lögmaður stefndu, sem stefnandi gerði ekki athugasemdir við, að rétt auðkenning á þeim aðila væri Liberty Syndicate Corporate Capital Limited, 20 Fenchurch Street, London EC3M 3AW, Bretlandi.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði, sameiginlega (in solidum), gert að greiða honum 10.000.000 króna auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sbr. 9. gr. sömu laga af 17.300.000 krónum frá 1. apríl 2012 til 3. apríl 2012, af 16.800.000 krónum frá þeim degi til 18. apríl 2012, af 15.800.000 krónum frá þeim degi til 9. maí 2012, af 14.800.000 krónum frá þeim degi til 16. maí 2012, af 13.100.000 krónum frá þeim degi til 7. júní 2012 en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
I.
Ekki er teljandi ágreiningur um málavexti en upphaf viðskipta aðila var að 14. febrúar 2001 sótti stefnandi um starfstryggingu fyrir miðlun stefnda Árna Reynissonar ehf. en félagið rak þá og rekur enn vátryggingamiðlun. Starfsemin er, a.m.k. í tilviki því sem hér um ræðir, fólgin í því að selja vátryggingar hér á landi fyrir hönd vátryggingafélaga í Bretlandi. Hlutverk slíks miðlara er því að koma á viðskiptum á milli vátryggjanda og vátryggingartaka samkvæmt lýsingu lögmanns stefndu. Í upphafi var vátryggjandi, þ.e. sá er seldi stefnanda þá tryggingu sem leitt hefur til þessa ágreinings, Europea Limited í Horsham, Sussex í Englandi. Tryggingin sem stefnandi sótti um að áeggjan starfsmanns miðlarans var starfstengd sjúkra- og slysaörorkutrygging sem átti að gilda 24 tíma sólarhringsins um heim allan.
Stefnandi var að sögn ekki að leita sérstaklega eftir tryggingu sem þessari en starfsmaður eða verktaki hjá stefnda Árna Reynissyni ehf. gaf sig fram við hann og bauð honum þessa vöru. Umsóknareyðublaðið var að sögn stefnanda fyllt út af fulltrúa stefndu sem tók niður eftir frásögn stefnanda skilgreiningu hans á atvinnu sinni þannig: Framkvæmdastjóri, húsasmiður, verkstjóri/housebuilder: director–supervisor, own building company. Lögmaður stefndu telur ósannað í málinu að fulltrúi á vegum stefndu hafi fyllt út umsóknina. Ekkert var rætt um mismunandi áhættuflokka eða mismunandi iðgjöld eftir því hvaða tryggingavernd væri keypt og við undirritun á umsókn um trygginguna hafði áhættuflokkur ekki verið ákveðinn. Stefnandi fullyrðir og að ekkert hafi verið rætt um starfshlutfall á milli ofangreindra atvinnuflokka. Ekki er ágreiningur um að stefnandi hitti eingöngu téðan fulltrúa stefndu en ekki forsvarsmenn þeirra.
Upphaflegur gildistími tryggingarinnar átti að vera þrjú ár. Bætur fyrir varanlega örorku áttu að nema 20.000.000 kr. fyrir fulla örorku. Fyrsta tryggingaskírteinið var gefið út af Europea og var ritað á ensku. Þar var starfi (occupation) stefnanda lýst sem „Housebuilding Company Director/Supervisor.“
Að ósk stefnanda þremur árum síðar var tryggingin endurnýjuð og var það gert á eyðublaði frá stefnda Árna Reynissyni ehf. en nú var tryggingafélagið annað eða AON Ltd. Atvinna stefnanda var í umsókn skilgreind sem húsasmiður/housebuilder. Skírteinið var gefið út af AON Global Risks í London. Starf stefnanda í skírteininu er sagt vera „director“.
Eftir þetta var starfstryggingin endurnýjuð árlega. Sú breyting varð á árið 2006 að stefndi Árni Reynisson ehf. gaf þá út vátryggingaskírteinið en ekki hið erlenda tryggingafélag. Bæði í umsóknum og skírteinum sem endurnýjuð voru af stefndu árlega eftir þetta, var starfi stefnanda nú lýst einvörðungu með orðunum húsasmiður/housebuilder. Sú tilgreining tók engum breytingum frá þessum tíma og fram til þess að á greiðsluskyldu úr tryggingunni reyndi.
Enn mun hafa orðið breyting á árið 2007 þannig að í stað AON Ltd. var komið félagið WILLIS Ltd. Sami háttur var hafður á varðandi umsóknir og útgáfu vátryggingarskírteina. Lýsingin á starfsgrein stefnanda var einnig sú sama.
Stefndi, Árni Reynisson ehf., gaf árlega út reikninga á hendur stefnanda vegna tryggingarinnar og greiddi stefnandi inn á tilvísaðan bankareikning félagsins. Lögmaður stefndu greindi frá því við aðalmeðferð að Hagall vátryggingamiðlun sem getið er í skjölum málsins í sömu andrá og hið stefnda einkahlutafélag Árni Reynisson ehf. er einn og sami lögaðilinn.
Á árunum 2010 og 2011 fór stefnandi að finna fyrir alvarlegum einkennum slitgigtar í flestum liðum, aðallega höndum og hnjám og fór svo á endanum að hann þurfti að hætta að vinna. Stefnandi sneri sér þá til forsvarsmanns stefnda Árna Reynissonar ehf. sem ákvað að láta meta heilsufar stefnanda og fól Sigurjóni Sigurðssyni lækni að framkvæma það mat. Í bréfi stefnda til Sigurjóns í lok árs 2011 óskaði hann eftir því að metið yrði heilsufar stefnanda miðað við starf hans sem framkvæmdastjóri og verkstjóri í eigin byggingafélagi. Forsvarsmaður stefnda sá ástæðu til að vekja fyrir fram athygli matsmannsins á því að í skýrslum og vottorðum sem stefnandi hafði lagt fram hafi hann gefið upp að hann starfaði við smíðar en það væri andstætt því sem fram hefði komið á upphaflegri umsókn hans um tryggingu. Iðgjald tryggingarinnar hafði að sögn stefnda miðað við stjórnunarstörf en ekki smíðar. Því hlyti matið að byggjast á því og mat Tryggingastofnunar ríkisins, sem þá lá fyrir, gæti þess vegna ekki verið rétt. Stefnanda var ekki gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna og réttar við matið sem stefndi óskaði einhliða eftir og kom því ekki að athugasemdum undir matsstörfunum.
Læknirinn skilaði matsgerð 1. mars 2012. Í henni er rakið að stefnandi hafi fundið fyrir versnandi einkennum frá flestum liðum, aðallega höndum og hnjám. Slitgigt hafi versnað mjög og svo væri komið að hann hefði þurft að gefast upp á vinnunni. Mat læknirinn stefnanda 100% óvinnufæran til starfa sinna sem húsasmiður (House Builder), og sem verkstjóri við húsasmíðar en 50% óvinnufæran til starfa sem framkvæmdastjóri.
Á grundvelli þessarar matsniðurstöðu tilkynnti stefndi, Árni Reynisson ehf., að stefnandi ætti rétt til helmings bóta úr starfstryggingunni eða alls 10.000.000 kr. að því er virðist samkvæmt ákvörðun þess tryggingafélags sem þá átti í hlut. Ágreiningslaust er að niðurstaðan úr matinu var ekki borin undir stefnanda né var honum gefinn kostur á andmælum áður en þessi ákvörðun var kynnt honum.
Að beiðni lögmanns stefnanda gaf Stefán Dalberg bæklunarlæknir út vottorð um heilsufar stefnanda hinn 18. desember 2012, en Stefán mun hafa sinnt stefnanda í veikindum hans undanfarin ár. Niðurstaða læknisins var að þeir sjúkdómar sem hrjáðu stefnanda væru þess valdandi að hann væri með öllu ófær um að sinna störfum sínum sem húsasmiður, verkstjóri og framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis síns frá mars 2011.
Engin breyting varð á afstöðu stefndu þannig að stefnandi afréð að óska eftir því að dómkvaddir yrðu tveir óvilhallir og sérfróðir menn til að meta örorku hans út frá starfstryggingunni. Þann 23. júlí 2013 dómkvaddi Héraðsdómur Reykjaness til starfans Ragnar Jónsson lækni og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmann. Við fyrirtöku málsins og uppkvaðningu úrskurðarins var mættur Árni Reynisson forsvarsmaður stefnda og með honum Baldvin Hafsteinsson hæstaréttarlögmaður. Aðilar voru boðaðir til matsfundar sem haldinn var 4. september 2013. Ekki var mætt af hálfu stefndu á fundinn.
Áður en matsfundurinn var haldinn beindu matsmenn þeirri spurningu til aðila hvort í matsspurningu nr. 1 væri átt við einn tiltekinn sjúkdóm stefnanda eða hvort átt væri við alla sjúkdóma sem hrjá hann. Af hálfu stefnanda var því svarað til í tölvupósti hinn 26. september að matsspurningin liti að því við hvaða varanlegu örorku stefnandi byggi af völdum þeirra sjúkdóma sem hrjáðu hann. Ekki bárust viðbrögð við þessari fyrirspurn frá stefndu.
Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna lá fyrir 7. desember 2013. Niðurstaða hennar var sú að stefnandi væri haldinn margvíslegum sjúkdómum sem gerðu hann óvinnufæran til þeirra starfa sem trygging hans tæki til, hvort sem væri framkvæmdastjóri í eigin fyrirtæki, húsasmiður eða verkstjóri.
Lögmaður stefnanda sendi því stefndu kröfugerð 23. desember 2013 byggða á matsgerðinni en stefndu höfnuðu kröfum hans með tölvupósti 4. mars 2014, þar sem því var haldið fram að niðurstaða matsmanna væri byggð á röngum forsendum þar sem varanleg örorka stefnanda væri þar metin heildstætt út frá fleiri en einum sjúkdómi stefnanda en hann væri eingöngu tryggður ef einn sjúkdómur leiddi til óvinnufærni.
II.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á vátryggingarsamningnum sem upphaflega var stofnað til árið 2001 og síðan reglulega endurnýjaður þannig að aldrei varð rof á samningssambandinu. Viðsemjandi hans var ætíð stefndi Árni Reynisson ehf. Hann tók við og gekk frá umsókninni á sínum tíma. Beiðnir um endurnýjun tryggingarinnar voru gerðar á eyðublöð frá félaginu og félagið gaf sjálft út vátryggingarskírteinin til stefnanda, að þeim allra fyrstu undanskildum. Þá tók félagið við öllum iðgjaldagreiðslum frá stefnanda og þegar kom að greiðslu bóta þá bárust þær frá Árna Reynissyni ehf.
Stefnandi telur því Árna Reynisson ehf. réttan aðila að máli þessu enda viðsemjandi hans frá upphafi. Stefndi hefur hins vegar bent á stefnda, Liberty Syndicate nr. 4472 á Lloyds, sem vátryggjandann á grundvelli samnings milli þessara aðila. Félagið hefur komið fram í málinu sem hinn endanlegi vátryggjandi og tekið ákvarðanir um bótaskyldu og greiðslu bóta. Því er honum stefnt einnig til að þola dóm í málinu.
Með bótagreiðslum og yfirlýsingum sínum hafa báðir stefndu gengist við bótaskyldu sinni gagnvart stefnanda á grundvelli vátryggingarinnar að mati stefnanda. Ágreiningur aðila varði eingöngu túlkun á niðurstöðum matsgerða um örorkustig og uppgjör bótafjárhæða.
Stefnandi bendir á að skilmálar vátryggingarinnar komi fram í upphaflegu umsókninni, í vátryggingarskírteinunum og í almennum skilmálum stefnda. Þegar sölumaður stefnda heimsótti stefnanda lá fyllilega fyrir við hvað hann starfaði. Hann rak lítið verktakafyrirtæki með á bilinu 2-5 starfsmenn. Verkefni félagsins voru á gildistíma tryggingarinnar nánast einskorðuð við þjónustu við Elliheimilið Grund. Sölumanninum var því kunnugt um að stefnandi var smiður að mennt, hann hafði menn í vinnu og sá sjálfur um öll þau verkefni sem hvíla á stjórnendum slíkra fyrirtækja, svo sem að sjá til þess að lögboðin gjöld séu greidd, skýrslur gerðar, bókhald fært o.s.frv.. Stefnandi greindi frá því í skýrslu fyrir dómi að hann hefði aldrei starfað sem framkvæmdastjóri nema í þessari mynd í eigin resktri.
Stefnandi fullyrðir að það hafi verið sölumaður tryggingarinnar sem færði inn allar upplýsingarnar á umsóknina en síðan hafi það verið Árni Reynisson sjálfur sem lauk útfyllingu hennar, m.a. ákvörðun um áhættuflokk. Allt frá því að stefnandi endurnýjaði tryggingu sína fyrst var atvinna hans skilgreind sem húsasmiður/house builder. Vátryggingarskírteinin skilgreindu atvinnu hans með sama hætti. Stefnandi telur því það engum vafa undirorpið að stefndu gerðu sér grein fyrir því að stefnandi væri húsasmiður og starfaði við að byggja hús.
Stefnandi vísar til greinar 2.2 í hinum almennu skilmálum vátryggingarinnar en þar er að finna svofellda skilgreiningu á varanlegri örorku: „Alger varanleg örorka“ og „alger varanlegur öryrki“ merkir algera líkamlega örorku hins vátryggða vegna líkamstjóns eða sjúkdóms, sem kemur að fullu í veg fyrir að hinn vátryggði ræki venjulega atvinnu sína eins og kveðið er á um í skírteini og sem annað hvort varir stöðugt í tólf mánuði án þess að nein von sé um bata að þeim tíma liðnum, eða er samkvæmt úrskurði vátryggjenda þar um, eða þegar vátryggjendur úrskurða hinn vátryggða varanlega algeran öryrkja hvort heldur á sér fyrr stað.“
Hvorki í þessu ákvæði, sem afmarkar 100% varanlega örorku, né í öðrum ákvæðum skilmálanna eða skírteinisins, sé nokkurs staðar vikið að því að örorkan verði að stafa af einum skilgreindum afmörkuðum sjúkdómi. Eingöngu segi að sjúkdómur þurfi að koma að fullu í veg fyrir að vátryggði ræki sína venjulegu vinnu. Þá vinnu sem tilgreind sé í vátryggingarskírteini hans.
Stefnandi telur að stefndu hafi rangtúlkað mjög niðurstöður Sigurjóns Sigurðssonar læknis um hæfni stefnanda og tekið eingöngu út þá niðurstöðu að stefnandi hefði 50% hæfni til að starfa sem framkvæmdastjóri og greitt bætur á þeim grundvelli. Þessi rangtúlkun stefndu á niðurstöðum Sigurjóns og synjun um greiðslu fullra bóta gerðu það að verkum að stefnanda var nauðugur sá kostur að fá dómkvadda matsmenn til að meta örorku hans. Niðurstaða þeirra var sú sama að mati stefnanda og Sigurjón hafði komist að. Fyrir liggi þannig að stefnandi er með slitgigt á háu stigi. Hún hafi þegar lagst á hnjáliði og ökkla sem hafi gert honum erfitt um gang og stöður auk þess sem hann getur ekki kropið eða lyft þannig að reyni á fæturna. Verst hafi hún þó lagst á hendur og olnboga sem geri að verkum að hann getur ekki unnið með smíðaverkfæri og heldur ekki við neitt sem krefst skrifta eða vinnu við tölvur. Flesta daga gangi stefnandi með járnspelku á fingrum til að vernda þá fyrir hnjaski.
Stefnandi telur því að örorka hans felist fyrst og fremst í þessum sjúkdómi og afleiðingum hans. Járnhleðslusjúkdómur virki til að auka tíðni og alvarleika gigtarinnar en ylli tæplega örorku ein sér ef gigtin væri ekki til staðar.
Stefnandi byggir þess vegna á því að niðurstaða matsmanna sé afdráttarlaus. Líkamlegt ástand stefnanda geri það að verkum að hann sé að þeirra mati ófær til þeirra starfa sem starfstrygging hans tekur til. Skiptir þá ekki máli hvort átt sé við störf hans sem smiður, verkstjóri eða framkvæmdastjóri. Stefnandi bendir og á að eina starfsheitið sem hann ber og er lögverndað er húsasmíðameistari og því ætti að miða við það ef vafi léki á og það þurfi ekki frekari skilgreiningar við.
Bótagrundvöllurinn og þá um leið greiðsluskylda stefndu er því að mati stefnanda skýr.
Varðandi vaxtakröfu sína bendir stefnandi á að samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti frá þeim degi er upplýsingar lágu fyrir sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Það skilyrði hafi verið uppfyllt þegar Sigurjón Sigurðsson skilaði af sér matsgerð sinni 1. mars 2012 og bótafjárhæðin sjálf lá og fyrir í samningi aðila. Því sé rétt að krafa stefnanda beri dráttarvexti frá því mánuður var liðinn frá útgáfu matsgerðarinnar eða hinn 1. apríl 2012.
Bótakrafa stefnanda á hendur stefndu byggir því á ákvæðum vátryggingarsamnings aðila auk almennra reglna íslensks skaðabótaréttar um bætur fyrir tjón af völdum réttarbrota utan og innan samninga sbr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um bótafjárhæðina vísast til 3. gr. vátryggingarskírteinis þess sem stefndi Árni Reynisson ehf. gaf út til stefnanda. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um upphafsdag þeirra til 9. gr. sömu laga. Um réttarfar vísar stefnandi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og málskostnað til
1. mgr. 130. gr. sömu laga.
III.
Meginmálsástæður stefndu eru að þeir krefjast sýknu á þeim grundvelli að stefnandi hafi fengið tjón sitt að fullu bætt í samræmi við samninga aðila og veikindi stefnanda. Því eigi hann engar frekari kröfur á hendur stefndu. Stefndu telja matsgerð dómkvaddra matsmanna svo miklum annmörkum háða að útilokað sé að byggja á henni með þeim hætti sem stefnandi gerir. Þá telja stefndu rétt stefnanda, hafi hann á annað borð verið til staðar, nú fallinn niður fyrir fyrningu.
Stefndu telja að til að hægt sé að greina þá vátryggingarvernd sem leiddi af samningi aðila þurfi að skoða vátryggingarsamninginn í heild sinni. Þar telja stefndu mikilvægt að hafa í huga að um frjálsa tryggingu hafi verið að ræða og því séu skilmálar tryggingarinnar samningsatriði aðila í millum.
Stefndu leggja áherslu á að vátryggingarsamningur aðila sé, eins og komi fram í honum, samansettur af upphaflegri umsókn stefnanda, almennum vátryggingarskilmálum stefndu og tryggingarskírteini með viðaukum, ef þeir eiga við.
Stefndu benda á að í umsókn vátryggða, stefnanda í máli þessu, sé, þegar getið er um atvinnu, tiltekið sem fyrsta starf stefnanda framkvæmdastjórn en jafnframt komi fram að starf hans sé húsasmíðar og verkstjórn. Það hver færði þessar upplýsingar inn á skjalið telja stefndu ekki úrslitaatriði varðandi framsetningu þess. Þær séu byggðar á upplýsingum frá stefnanda sjálfum og framsetning þeirra á umsóknareyðublaðinu samþykkt með undirritun hans á skjalið. Stefndu benda á að það komi fram í matsgerð dómkvaddra matsmanna Ragnars Jónssonar og Ingvars Sveinbjörnssonar að starfsemi stefnanda á vátryggingartímanum hafi nær alfarið verið bundin við þjónustu við elliheimilið Grund. Stefnandi hafði að jafnaði sex manns í vinnu á þessu tímabili og því hafi það verið bæði eðlilegt og rétt að miða hinn vátryggða starfsvettvang hans við framkvæmdastjórn, jafnvel þó svo að hann hafi á einhverjum tíma haft með höndum verkstjórn og jafnvel gripið einstaka sinnum í smíðar sjálfur.
Stefndu benda á að í 2. mgr. 2. gr. í almennum vátryggingarskilmálum er í málinu gilda undir fyrirsögninni „Skilgreiningar“ er alger varanleg örorka og alger varanlegur öryrki skilgreint sem „alger líkamleg örorka hins vátryggða vegna líkamstjóns eða sjúkdóms, sem kemur að fullu í veg fyrir að hinn vátryggði reki venjulega atvinnu sína eins og kveðið er á um í skírteini og sem annaðhvort varir stöðugt í tólf mánuði án þess að nein von sé um bata að þeim tíma liðnum, eða er samkvæmt úrskurði vátryggjanda þar um, eða vátryggjendur úrskurða hinn vátryggða varanlega algeran öryrkja hvort heldur á sér stað fyrr“.
Í 1. mgr. 3. gr. skilmálanna sé tekið fram að tilkynna skuli vátryggjanda strax, eða eins fljótt og með sanngirni er hægt að ætlast til, um þá sjúkdóma sem kunna að valda örorku. Með tilkynningu sem dagsett var 6. apríl 2011 hafi stefnandi tilkynnti um sjúkdóm bæði í hné og höndum sem samkvæmt meðfylgjandi læknisvottorði var skilgreint sem „arthrosys“. Með tilkynningum dagsettum 31. október 2011 greini stefnandi síðan frá því að hann sé haldinn slitgigt. Stefndu benda á að um aðra sjúkdóma hafi stefnandi ekki sent stefndu tilkynningu. Benda stefndu á að í matsgerð dómkvaddra matsmanna séu upplýsingar um að stefnandi hafi í kjölfar dvalar að Reykjalundi áramótin 2010 og 2011 verið greindur með bæði sykursýki, háþrýsting, bakflæði frá vélinda, offitu og hækkaðan blóðþrýsting, en þessar greiningar hafi ekki verið tilkynntar vátryggjanda.
Stefndu tilgreina að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skilmála stefndu sé það forsenda fyrir greiðslu bóta til vátryggðs að öll læknisfræðileg gögn sem málið varða verði fengin þeim læknisfræðilega ráðgjafa í hendur sem vátryggjendur kunna að tilnefna. Í tilviki aðila hafi þessi aðili verið Sigurjón Sigurðsson bæklunarlæknir sem skilaði niðurstöðu sinni í matsgerð dagsettri 1. mars 2012. Niðurstaða hans var sú, að mati stefnda, að stefnandi væri að hálfu leyti ófær um að sinna því starfi sem hann var tryggður fyrir, þ.e.a.s. sem framkvæmdastjóri í eigin byggingarfyrirtæki. Því hafi það verið á grundvelli ráðlegginga ráðgjafans sem vátryggjandi úrskurðaði stefnanda bætur í samræmi við þá niðurstöðu að hann væri 50% öryrki, sbr. bréf stefnda Liberty dags. 11. desember 2012. Stefndu byggja á því að þessari niðurstöðu vátryggjenda hafi ekki verið hnekkt af stefnanda.
Stefndu telja matsgerð dómkvaddra matsmanna ekki hafa nokkurt vægi eða gildi gagnvart stefndu í máli þessu. Deila aðila snúist um túlkun og framkvæmd á vátryggingarsamningi, en ekki um kröfu á grundvelli skaðabótalaga, eins og ranglega virðist byggt á af hálfu stefnanda. Ákvæði skaðabótalaga eigi því ekki við í málinu.
Stefndu telja að í samræmi við matsbeiðni og að eini sjúkdómurinn sem hafi verið tilkynntur vátryggjendum hafi verið slitgigt hafi matsmönnum verið með öllu óheimilt að útvíkka matsandlagið með þeim hætti sem þeir gerðu og taka til skoðunar aðra og fleiri sjúkdóma er hrjáðu stefnanda, eins og gert hafi verið. Stefndu telja að matsmenn hefðu átt að einskorða mat sitt við þann sjúkdóm einan sem stefnandi hafi byggt sína bótakröfu á. Þar sem matsmenn hafi ekki gætt þessa sé mat þeirra þegar af þeirri ástæðu með öllu ónothæft.
Stefndu telja að ef víkja hafi átt frá matsbeiðninni með jafn róttækum hætti og gert var, hafi sérstaka nauðsyn borið til þess að tryggt yrði með öruggum hætti skriflegt samþykki bæði matsbeiðanda og matsþola. Það hafi ekki verið gert. Í staðinn hafi matsmenn kosið að líta á það, að ekkert svar hafi borist frá stefndu, sem samþykki við þessari róttæku breytingu á matsbeiðni stefnanda, án þess að ganga úr skugga um hvort stefndu hefði yfirhöfuð borist athugasemdir matsmannanna um þessa breytingu.
Svo virðist varðandi matsgerð dómkvaddra matsmanna sem stefndu líti svo á að stefnanda hafi ekki verið heimilt að leita mats á örorku sinni með þeim hætti sem gert var. Því hafi matsgerðin ásamt öðru ekkert gildi í málinu,.
Stefndu krefjast að lokum sýknu á þeim grundvelli, að hugsanlegur réttur stefnanda til frekari bóta hafi verið fyrndur þegar mál þetta var höfðað. Þar er vísað til 124. gr. laga nr. 30/2004 en þar segir að hafi félag hafnað kröfu um bætur í heild eða að hluta glatar sá sem rétt á til bóta þeim rétti ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. laganna innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um höfnunina. Þá höfnun telja stefndu hafa birst í bréfi stefnda Liberty dagsettu 11. desember 2012, en af bréfinu megi ráða að kröfu stefnanda sé hafnað að hluta. Stefndu tiltaka í þessu sambandi að málið hafi verið þingfest þann 8. maí 2014, eða tæplega fimm mánuðum eftir að lögbundinn tólf mánaða frestur var liðinn. Því hafi krafa stefnanda verið fallin niður.
Um frekari lagarök vísa stefndu til ákvæða laga nr. 30/2004. Þá vísa stefndu til 130. gr. sbr. 129 gr. s.l. um málskostnað en þar er væntanlega átt fremur við lög nr. 91/1991.
IV.
Eins og glöggt verður ráðið hefur stefndi Árni Reynisson ehf. verið aðili að viðskiptum við stefnanda frá upphafi eða a.m.k. miðlari eins og lögmaður stefndu upplýsti við aðalmeðferð málsins. Á hinn bóginn hafa á samningstímanum ný tryggingafélög tekið við aðild að viðskiptunum þ.e. verið sá aðili sem á endanum telst vátryggjandi. Því hefur ekki verið haldið fram að þetta komi að sök og gengið út frá því að nýir vátryggjendur fyrir miðlun stefnda Árna Reynissonar ehf. hafi tekið við öllum réttinum og skyldum fyrirrennara sinna við aðilaskipti hverju sinni. Þrátt fyrir framangreint hefur dómnum reynst nokkuð erfitt á köflum að meta þátt hvors stefndu um sig í málinu, ábyrgð á ákvörðunum og sameiginlega ábyrgð þeirra á greiðsluskyldu, ef hún er viðurkennd. Þessi ónákvæmni kemur þó ekki að sök að mati dómsins þar sem stefndu hafa ekki mótmælt aðild sinni í máli þessu eða kröfu um óskipta ábyrgð þeirra á dómkröfum stefnanda verði á þær fallist.
Sá samningur sem markar upphaf viðskipta stefnanda og stefnda Árna Reynissonar ehf. sem vátryggingamiðlara, og vátryggjenda, sem hafa verið nokkrir á samningstímabilinu, er frá 14. febrúar 2001 og var því rétt rúmlega tíu ára gamall þegar stefnandi tilkynnti um óvinnufærni sína vegna sjúkdóms. Deilt er um túlkun á nokkrum atriðum í samningi aðila.
Með þeirri matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis frá 1. mars 2012, sem stefndu óskuðu einhliða eftir, var því strax slegið föstu að stefnandi hefði mjög skerta starfsorku. Í matsgerðinni er m.a. getið um háan blóðþrýsting stefnanda og að hann hafi þá fyrir 4-5 árum greinst með sykursýki 2. Þá fjallar læknirinn um að stefnandi hefði þjáðst verulega vegna ofþyngdar. Læknirinn kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að vegna afleiðinga slitgigtar eigi stefnandi erfitt með alla vinnu. Ekkert í matsgerð Sigurjóns bendir þannig til annars en að niðurstaða læknisins um örorku stefnanda byggist einvörðungu á afleiðingum slitgigtar.
Sem rökstuðning fyrir niðurstöðum sínum í kjölfar þessarar matsgerðar tiltóku forsvarsmenn stefndu að stefnandi hefði einungis verið tryggður sem framkvæmdastjóri yfir fyrirtæki sínu en ekki sem húsasmiður eða verkstjóri. Þetta var ítrekað við aðalmeðferð málsins. Þetta virðist í fyrstu hafa verið eina ástæðan fyrir synjun á fullri greiðsluskyldu úr vátryggingunni. Þannig er ekki tilgreint, hvorki í tölvupósti frá Árna Reynissyni 7. júní 2012 né bréfi frá Matthew Phillips fyrir hönd Liberty Syndicates 11. desember 2012, að ákvörðun, eða úrskurður eins og stefndu kalla hana, byggi á því að örorku stefnanda megi rekja til fleiri en eins sjúkdóms ef sú var og er raunin. Ákvörðun stefndu byggði þannig, að því er virðist, einvörðungu á því að stefnandi hafi verið tryggður og starfað sem framkvæmdastjóri og til slíkra starfa hafi hann verið metinn hálfdrættingur samkvæmt Sigurjóni Sigurðssyni lækni. Því er, að mati dómsins, greiðsluskylda í grunninn viðurkennd á þessu tímamarki en einungis helmingur vátryggingarfjárhæðar vegna varanlegrar örorku greiddur út á grundvelli framangreindrar túlkunar um hvaða starfi stefnandi hafi gegnt.
Þessi túlkun stefndu er nokkuð á skjön við útskýringu þeirra sjálfra á þýðingu tilgreiningar starfs á umsóknarblaði. Nú er lögð áhersla á að framkvæmdastjórastarfið sé samkvæmt umsókn aðalstarf stefnanda og því beri honum bætur samkvæmt því. Þessi niðurstaða leiðir, miðað við greiðslur úr vátryggingunni til þessa, óhjákvæmilega til þess að tilgreining á öðrum störfum, það er við húsasmíði og verkstjórn, virðist án þýðingar fyrir stefnanda eða vátryggingarsamninginn. Lögmaður stefndu taldi reyndar við aðalmeðferð að skort hefði á nánari útlistun á þessum tveimur störfum sbr. skýringartexta á umsóknareyðublaðinu þar sem eftir slíkum skýringum var leitað ef starfið væri ekki stjórnunar- eða skrifborðsvinna. Sú yfirlýsing vekur einnig upp spurningar þ.e. hver sú þörf var ef starfsgeta stefnanda sem framkvæmdastjóra var það eina sem tryggt var. Dómurinn telur að ef stefndu töldu á skorta, þannig að jafnvel gæti varðað réttindamissi fyrir stefnanda hafi það hlotið að liggja þeim nær að kalla eftir frekari skýringum til að tryggja eins og best yrði á kosið réttarstöðu vátryggingartaka fremur en að hann sjálfur hlutaðist til um skýringar eða eftir atvikum leiðréttingar. Þar verður horft til almennra reglna er um slík lögskipti gilda en einnig til þeirra skyldna sem hvíla sérstaklega á vátryggingamiðlara samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga nr. 32/2005 einkum 31. grein. Miðlari vátrygginga getur að mati dómsins ekki firrt sig ábyrgð að þessu leyti á þeim grundvelli að vátryggingartaki undirriti umsókn um trygginguna. Í þessu sambandi má jafnvel og vísa til 22. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
Fram að þeim tíma sem skrifað var undir vátryggingarsamninginn, en gildistími tryggingarinnar var frá 20. febrúar 2001, bar vátryggingamiðlaranum stefnda Árna Reynissyni ehf. því að ganga úr skugga um að skjalagerð væri í lagi og bar ábyrgð á því að grundvallaratriði í réttarsambandinu væru skýr. Hér verður litið til sjónarmiða um að skýra beri samningsákvæði þannig að þau verði ekki merkingarleysa. Einnig varðandi þetta atriði og raunar við heildarúrlausn málsins að samningsskilmálar eru staðlaðir og samdir einhliða af stefndu.
Á hitt ber einnig að líta að nokkrar breytingar urðu á tilgreiningu stefndu sjálfra á því hvaða starfi viðskiptavinur þeirra, vátryggingartaki, gegndi. Þar nægir við úrlausn málsins að horfa til þeirra breytinga sem urðu frá og með 2006 þegar hann er í vátryggingarskírteini sagður húsasmiður/house builder. Þarna varð einnig sú breyting að stefndi Árni Reynisson ehf. tók sjálfur við útgáfu á vátryggingarskírteinum vegna tryggingarinnar en sá aðili stóð augljóslega nær stefnanda að þessu leyti en fyrri útgefendur og í betri færum við hann ef eitthvað var talið óljóst. Skírteinið hverju sinni virðist hafa a.m.k. frá 2006 byggst á árlegri umsókn stefnanda sjálfs um starfstryggingu á skjali sem ber yfirskriftina „Starfstrygging endurnýjun Renewal“. Þar er sérstakt svæði til útfyllingar um breytingar frá fyrra ári. Á þessum skjölum eru gerðar í gegnum árin nokkrar athugasemdir á þessu svæði svo sem breytingar á símanúmerum, greiðslukortanúmerum og netfangi en aldrei hróflað við tilgreiningu á atvinnu stefnanda. Því er ómótmælt að þetta skjal var útfyllt af vátryggingamiðlaranum en handskrifaðar breytingar inn á skjölin þá væntanlega verið stefnanda eða samkvæmt upplýsingum frá honum því hann greindi frá því fyrir dómi að Árni Reynisson hefði hringt í sig ár hvert og farið yfir stöðu mála þar með talið um hvernig heilsufari og aðstæðum stefnanda væri háttað og hvort breytingar hefðu orðið á hans högum. Í kjölfarið hafi verið gengið frá þessum skjölum. Í vátryggingarskírteinum er skýr áskorun á vátryggingartaka um að skoða skjalið gaumgæfilega og tilkynna samstundis ef einhver hluti þess er rangur. Sú staðreynd að stefnandi gerir á þessum tíma engar athugasemdir við þessa tilgreiningu á því hver atvinna hans sé styður þann framburð hans fyrir dómi að þetta hafi enda verið besta lýsingin á því sem hann starfaði við. Með sama hætti blasir við tómlæti og eða andvaraleysi stefndu við því að leiðrétta þessa skráningu ef hún var að þeirra mati röng. Því hefur ekki verið mótmælt sem stefnandi staðhæfði fyrir dómi að hann hafi aldrei starfað sem framkvæmdastjóri fyrir annan aðila og það starf sem hann gegndi í eigin rekstri, einkum um kvöld og helgar. sé það eina á hans starfsferli sem hugsanlega megi gefa slíkt heiti.
Í ljósi framangreinds er ekki hægt að fallast á að vátryggingin hafi verið bundin við starf stefnanda sem framkvæmdastjóra. Rök standa þvert á móti til þess að þegar stefnandi verður óvinnufær vegna veikinda hafi hann að minnsta kosti verið tryggður fyrir missi starfsorku sem húsasmiður. Ágreiningslaust er að til slíkra starfa er stefnandi og hefur verið frá vori 2011 með öllu óvinnufær. Það er jafnvel tækur skýringarkostur að mati dómsins að stefnandi hafi verið tryggður sjálfstætt vegna allra þessara starfa eða að þau yrðu ella öll metin saman sem myndi þá leiða til greiðsluskyldu sem næmi 83,3% eins og stefnandi hefur bent á.
Í greinargerð stefndu er feitletrað úr almennum vátryggingarskilmálum stefnda að tryggt sé vegna óvinnufærni af völdum sjúkdóms. Hér virðist því byggt á því að ef óvinnufærni verður metin einungis af völdum samanlagðra áhrifa fleiri sjúkdóma en eins þá komi ekki til greiðslu úr tryggingunni nema þá eftir atvikum upp að því marki og miðað við þann sjúkdóm sem leiðir til hærri eða hæstu örorku. Þrátt fyrir að jafnvel stefnandi virðist í stefnu málsins gera ráð fyrir þessari málsástæðu verður henni hvorki fundinn með góðu móti staður í greinargerð stefndu né í málflutningi. Væntanlega er þessi feitletrun stefndu í greinargerð og athugasemdir í stefnu komnar til vegna sjónarmiða sem birtust í tölvupósti frá lögmanni stefndu frá 4. mars 2014 til lögmanns stefnanda.
Dómurinn telur þó rétt vegna þessarar framsetningar að fjalla um þetta sem málsástæðu. Þá verður að leggja til grundvallar að einn einstakur sjúkdómur verði að leiða til 100% örorku til að heildarvátryggingarfjárhæðin verði greidd út. Sú niðurstaða fæli þá í sér að ef vátryggingartaki greindist sannanlega með þrenns konar óskylda sjúkdóma sem hver og einn myndi leiða til 60% missis starfsorku yrði greiðsluskylda úr tryggingunni miðuð við 60%. Sú niðurstaða stæði óhögguð þótt viðurkenndir sérfræðingar kæmust að þeirri niðurstöðu að samanlögð áhrif þessara sjúkdóma tveggja eða þriggja leiddu til algjörrar (100%) óvinnufærni viðkomandi. Niðurstaða í þessa veru fær ekki næga stoð í gögnum málsins, hvorki samningi aðila, vátryggingarskilmálum né -skírteini. Tíðkanlegir skilmálar á þessu sviði gera enda ráð fyrir gagnstæðri reglu nema ef tryggt er sérstaklega fyrir sérstökum tilgreindum sjúkdómi eða sjúkdómum. Sjálfsagt er að vísa til fyllingar í þessum efnum til framburðar Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., annars dómkvaddra matsmanna fyrir dómi, sem er sérfróður á sviðinu.
Því verður ekki fallist á þessa túlkun stefndu. Stendur þá eftir mat á sönnunargildi þeirra gagna sem fyrir dóminn hafa verið lögð til marks um starfshæfni stefnanda eða fremur óvinnufærni hans og áhrif ástands stefnanda á greiðsluskyldu stefndu.
Eins og þegar hefur verið fjallað um er í máli þessu óumdeild sú niðurstaða Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarskurðlæknis að stefnandi hafi þegar um vorið 2011 verið 100% óvinnufær til að starfa sem húsasmiður og sem verkstjóri við húsasmíðar. Hins vegar er deilt um þá niðurstöðu að læknirinn metur hann með hálfa starfsgetu til að gegna starfi framkvæmdastjóra og einnig um þýðingu hennar fyrir greiðsluskyldu stefndu.
Stefndu óskuðu sjálfir og einhliða eftir mati læknisins í bréfi dagsettu 27. desember 2011 eins og þeim var heimilt. Í beiðninni til læknisins benti Árni Reynisson á að iðgjald tryggingarinnar hafi verið miðað við stjórnunarstörf en ekki smíðar og því hlyti matið að byggjast á annarri forsendu en örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins sem þá lá fyrir. Stefnanda gafst enginn kostur á formlegum andmælum eða að leggja fram gögn, heldur virðist matið byggt einvörðungu á gögnum sem Árni Reynisson sendi með beiðninni. Stefnandi var þó kallaður til viðtals hjá matslækninum. Eins og fyrr segir telur dómurinn ekkert í matsgerð Sigurjóns benda til annars en að niðurstaða læknisins um örorku stefnanda hafi einvörðungu verið byggð á afleiðingum slitgigtar. Sigurjón var ekki kallaður fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.
Í kjölfar matsgerðarinnar var stefnanda tilkynnt um ákvörðun stefndu um greiðsluskyldu sem var byggð á 50% örorku til að sinna starfi framkvæmdastjóra en litið fram hjá öðrum þáttum matsins.
Lögmaður stefnanda óskaði eftir vottorði frá Stefáni Dalberg bæklunarlækni sem hafði annast stefnanda. Vottorðið er dagsett 18. desember 2012 en þar kemst læknirinn að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að stefnandi hafi frá 29. mars 2011 verið með öllu ófær um að sinna störfum sínum sem húsamiður, verkstjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækis síns. Þessa óvinnufærni stefnanda rakti læknirinn einvörðungu til slitgigtar.
Stefndu héldu sig við fyrri niðurstöðu og vísuðu sem fyrr til matsgerðar Sigurjóns og úrskurðar á grundvelli hennar. Því sá stefnandi þann kost vænstan í stöðunni að óska eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta „tímabundna og varanlega örorku matsbeiðanda af völdum áverka sem hann hlaut í slysi og af völdum slitgigtar sem hann hefur greinst með“. Í nánari útlistun matsspurninga var óskað eftir því að matsmenn tækju afstöðu til vátryggingarsviðs tryggingarinnar, og hvort framangreind þrjú tilgreind störf stefnanda tengdust með þeim hætti að hæfni matsbeiðanda til að sinna einu starfinu hefði áhrif á möguleika hans til að sinna hinum.
Lögmaður beggja stefndu og Árni Reynisson vátryggingamiðlari mættu við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness 23. júlí 2013 þar sem dómkvaddir voru til starfans Ragnar Jónsson bæklunarlæknir og lögfræðingur og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður. Engar athugasemdir voru hafðar uppi vegna matsbeiðni eða dómkvaðningarinnar sem slíkrar.
Dómkvaddir matsmenn sendu aðilum tölvuskeyti 4. september 2014, þar sem þeir óskuðu eftir skýringum og gögnum. Meðal annars var óskað skýringa á því hvort átt væri við alla þá sjúkdóma sem hrjáðu stefnanda eða einn tiltekinn sjúkdóm. Lögmaður stefnanda svaraði með tölvuskeyti 26. september þar sem hann sagði andlag matsins vera þá sjúkdóma sem hrjáðu matsbeiðanda.
Ingvar Sveinbjörnsson hrl. staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. Aðspurður sem sérfræðingur í vátryggingarétti, greindi hann frá því að hann kannaðist einungis við tvenns konar sjúkdómatryggingar á markaði. Annars vegar væri um að ræða einfalda tryggingu þar sem tilteknir sjúkdómar væru tilgreindir og hins vegar þar sem tryggt væri fyrir almennum heilsubresti og tæki tryggingin þá til allra sjúkdóma. Ingvar staðfesti að niðurstaða matsins væri sú að örorka stefnanda væri 100%, hún væri heildarmat og erfitt væri að greina nákvæmlega á milli. Það væri hins vegar slitgigtin sem ylli fyrst og fremst óvinnufærni en aðrir undirliggjandi þættir myndu valda versnun.
Ragnar Jónsson kom einnig fyrir dóm og staðfesti matsgerðina. Hann sagði að örorka stefnanda væri vegna fjölliðaslitgigtar með festumeinum vegna gigtarinnar. Járnhleðslusjúkdómurinn væri einnig tengdur gigtinni eða gigtareinkennum. Örorkan væri þó fyrst og fremst vegna slitgigtarinnar, einkenna frá liðum. Sykursýkin hefði ekki áhrif og flestir sem væru með sykursýki án fylgikvilla hennar væru vinnufærir. Sama gilti um járnhleðslusjúkdóm sem leiddi ekki til óvinnufærni án annarra einkenna. Aðspurður hvort sykursýki stefnanda væri áhrifavaldur við mat á örorku hans sagði læknirinn svo ekki vera og þótt engin væri sykursýkin væri stefnandi þrátt fyrir það með öllu óvinnufær.
Niðurstaða dómkvaddra matsmanna var því sú að stefnandi væri óvinnufær. Skipti þá engu máli hvort um væri að ræða starf framkvæmdastjóra í eigin fyrirtæki, húsasmiðs eða verkstjóra. Bentu matsmenn og á að framkvæmdastjórn stefnanda hefði verið algjörlega háð hinum tveimur störfunum; að grundvöllur rekstursins og vinnufærni í heild hafi oltið á starfsgetu hans til allra þessara verka.
Aðilum er játað mikið svigrúm til að óska eftir mati dómkvaddra matsmanna á ýmsum atriðum. Slíkar matsgerðir eru enda unnar á áhættu og í fyrstu a.m.k. á kostnað matsbeiðenda. Þýðing þeirra fyrir sakarefni fyrir dómi veltur síðan á mati dómara. Á það bæði við um sönnunaratriði og eftir atvikum lagaatriði sé um þau spurt. Álit dómkvaddra matsmanna um lagaatriði binda aldrei hendur dómara eða þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta slík sjálfur. Niðurstaða sérfróðra dómkvaddra matsmanna hins vegar er snýr að sönnun í dómsmáli getur haft úrslitaáhrif við úrlausn þess, enda sé ekki til að dreifa öðrum sterkari sönnunargögnum eða matsgerð sem slík sé haldin verulegum annmörkum að formi eða efni.
Athugasemdir stefndu við niðurstöðu dómkvaddra matsmanna eru einkum þær að matið hafi verið einhliða og að það hafi ekki verið á valdi stefndu að hafa áhrif á matsspurningar eða tjá sig að öðru leyti um matsandlagið jafnvel þótt þeir væru spurðir sérstaklega. Því væri matsgerðin á engan hátt bindandi fyrir matsþola heldur stæði fyrri niðurstaða vátryggjanda óhögguð.
Stefndu gafst kostur á að koma að sjónarmiðum sínum fyrir og við dómkvaðningu matsmanna en einnig undir störfum þeirra. Jafnframt beindu matsmenn spurningum til aðila sem stefndu kusu að sinna ekki. Látið er liggja að því að fyrirspurn matsmanna frá 4. september 2014 til aðila hafi ekki borist stefndu. Þrátt fyrir það var hún send á það netfang sem gefið var upp í matsbeiðni og engar athugasemdir voru gerðar við þegar dómkvaðning fór fram. Það gefur óhjákvæmilega sterkar vísbendingar um að hún hafi skilað sér líkt og, að því er virðist, önnur tölvuskeyti málsins á þetta netfang. Það verður aukinheldur ekki talið hafa úrslitaáhrif um gildi matsgerðarinnar hvort þessar spurningar matsmanna hafi skilað sér til stefndu eður ei enda höfðu þeir alla möguleika á því meðan á matsstörfum stóð að koma að sínum sjónarmiðum en einnig verður horft til þess að matsmenn lýstu því fyrir dómi að það væri einn sjúkdómur, slitgigt, sem ylli í raun óvinnufærni stefnanda og leiddi til þess að hann ætti rétt á fullri greiðslu úr tryggingunni. Með vísan til þess og annarra sönnunargagna um óvinnufærni stefnanda verður ekki talið að það dragi úr sönnunargildi matsgerðarinnar fyrir sakarefnið þótt þessar vangaveltur matsmanna hafi ekki skilað sér strax til stefndu.
Dómurinn telur ekkert í málinu draga úr trúverðugleika niðurstöðu matsgerðar eða sönnunargildi hennar. Hún styrkir að auki með afgerandi hætti öll önnur gögn um starfshæfni stefnanda. Stefndu hafa engra gagna aflað sem haggar þessari niðurstöðu hvort sem er með yfirmati eða eftir öðrum leiðum.
Við aðalmeðferð málsins mótmælti lögmaður stefndu því að mat Tryggingastofnunar ríkisins á örorku stefnanda væri sönnunargagn um örorku stefnanda þar sem það sæti reglulega endurskoðun. Á það ber að líta í því sambandi að stofnunin hefur vissulega endurskoðað möt sín vegna stefnanda reglulega, en það sem skiptir máli hér fyrst og fremst er að stofnunin kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að stefnandi sé 100% óvinnufær og af gögnum málsins má ráða að stofnunin sér ekki fyrir neinar breytingar á því ástandi. Dómurinn telur því þvert á móti allt sem fram kemur í gögnum frá stofnuninni styðja niðurstöðu málsins um starfshæfni stefnanda.
Stefndu byggja á því að það varði jafnframt réttindamissi að aðrir sjúkdómar en slitgigt hafi ekki verið tilkynntir stefndu eins og skylt væri samkvæmt skilmálum. Þessi málsástæða er reyndar, að því er virðist, á skjön við þá að stefnandi sé ekki tryggður nema vegna eins sjúkdóms. Í þessu sambandi nefna stefndu til sögunnar umfjöllun í matsgerð dómkvaddra matsmanna um sjúkrasögu stefnanda sem þá hafi væntanlega komið þeim á óvart. Stefndu láta þess ekki getið í greinargerð sinni að Sigurjón Sigurðsson, sá læknir sem stefndu óskuðu sjálfir eftir til að leggja mat á heilsufar stefnanda, gat einnig um háan blóðþrýsting, offituvandamál og sykursýki stefnanda. Upplýsingar um þessa kvilla lágu því fyrir þegar stefndu úrskurðuðu, eins og þeir kalla það, um greiðsluskyldu úr tryggingunni, en ekki verður séð að skjöl málsins beri með sér að tilkynning stefnanda um sjúkdóma eða aðra krankleika sé háð einhverjum ströngum formskilyrðum, ef nokkrum. Þá verður ekki annað ráðið en að þessi, sem má heita, trúnaðarlæknir stefndu, hafi haft óhindraðan aðgang að sjúkraskrám og upplýsingum um stefnanda, en í grein 3.4 í vátryggingarskilmálum er kveðið á um skyldu vátryggingartaka til að veita og afla allra slíkra upplýsinga samkvæmt beiðni. Einnig er vísað til þeirra gagna sem læknirinn sjálfur tiltekur að hafi verið höfð til hliðsjónar í matsgerð hans. Sjónarmiðum stefndu um tómlæti að þessu leyti og skort á tilkynningarskyldu er því hafnað og jafnframt er ekkert sem bendir til þess að stefnandi hafi leynt eða haldið eftir upplýsingum sem máli skiptu, eða hafi ekki verið til fulls samstarfs við stefndu og fulltrúa er félögin tilnefndu. Aukinheldur telur dómurinn með hliðsjón af niðurstöðum sérfræðinga sem mátu starfgetu stefnanda að aðrir sjúkdómar en slitgigt, sem kunna að hafa hrjáð stefnanda, hafi ekki áhrif á niðurstöðu málsins.
Stefndu tefla að lokum fram þeirri málsástæðu að hugsanlegur réttur stefnanda til frekari bóta en þegar voru greiddar honum hafi verið fyrndur þegar mál þetta var höfðað skv. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Stefndu byggja á því að í tilkynningu frá vátryggjanda með bréfi 11. desember 2012 um greiðslu úr tryggingunni miðað við 50% örorku hafi verið fólgin tilkynning í skilningi þessa lagaákvæðis og því hafi ársfrestur ákvæðisins verið liðinn og kröfur stefnanda fallnar niður. Skýrt er kveðið á um að í tilkynningu samkvæmt 2. mgr. 124. gr. þurfi að koma fram hver lengd frestsins sé og hvernig honum verði slitið og lögfylgjur þess að það verði ekki gert. Engin slík viðvörun var í þessu bréfi til stefnanda sem aukinheldur var ritað á ensku. Dómurinn telur langan veg frá því að umrætt bréf hafi fullnægt því skilyrði að marka upphafstíma þessa frests. Engu breytir í því sambandi þótt stefnandi hafi á þessum tíma notið aðstoðar lögmanns eins og stefndu byggðu á í málflutningi að skipti máli í þessu sambandi.
Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn að stefndu beri að greiða stefnanda að fullu út úr tryggingunni miðað við fullan missi starfsorku og þar með höfuðstól umkrafinnar fjárhæðar. Ekki verður talið að 9. gr. laga nr. 38/2001 eigi við um dráttarvaxtakröfu stefnanda eins og hann gerir kröfu um þar sem hér er um kröfu á grundvelli vátryggingarsamnings að ræða. Því fer um dráttarvexti skv. 2. ml. 5. mgr. 123. gr. laga nr. 30/2004 sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Dráttarvextir verða dæmdir frá því að mánuður var liðinn frá bréfi lögmanns stefnanda til stefnda Árna Reynissonar ehf. rituðu 24. júlí 2012. Þar var gerð krafa um fulla greiðslu út úr tryggingunni. Þótt ekki sé tilgreind sérstaklega fjárhæð kröfunnar gátu stefndu á þeim tíma ekki velkst í vafa um hver fjárhæðin var enda hún fastákveðin í vátryggingarsamningnum.
Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefndu óskipt til að greiða stefnanda Sigurjóni Pálssyni málskostnað sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur.
Dómara var úthlutað málinu 15. september sl. og hafði þá ekkert komið að rekstri þess fram að því.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Auðunn Jónsson hrl. og af hálfu stefndu flutti málið Baldvin Hafsteinsson hrl.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, Árni Reynisson ehf. og Liberty Corporate Capital Limited, greiði sameiginlega stefnanda, Sigurjóni Pálssyni, 10.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 24. ágúst 2012 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda sameiginlega 1.000.000 krónur í málskostnað.