Hæstiréttur íslands
Mál nr. 154/2014
Lykilorð
- Viðurkenningarkrafa
- Handveð
- Skuldskeyting
|
|
Fimmtudaginn 2. október 2014. |
|
Nr. 154/2014. |
KEA svf. (Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.) gegn Snæfellsbæ (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Viðurkenningarkrafa.
Handveð. Skuldskeyting.
K svf. keypti hlutabréf í S hf. af S árið 1998 og greiddi
fyrir þau með þremur skuldabréfum, hverju að fjárhæð 60.000.000 krónur. Í
kaupsamningi aðilanna sagði að K svf. setti S
hlutabréfin að handveði til tryggingar greiðslu skuldabréfanna og skrifuðu
aðilarnir undir sérstaka handveðsyfirlýsingu, dagsetta 25. nóvember 1998, þar
að lútandi. Sagði og í samningnum að handveðstryggingin væri sett S til
tryggingar greiðslu á öllu því fjártjóni sem leiða kynni af vanefndum K svf. á skyldum sínum og kynni að falla á S á grundvelli
ábyrgðar sem hann tækist á hendur við framsal á skuldabréfunum til þriðja
aðila. Fyrir lá að S framseldi öll skuldabréfin og mun eitt þeirra hafa verið
greitt upp árið 2004. Innheimtu hafði hins vegar verið beint að S á grundvelli
sjálfskuldarábyrgðar hans vegna hinna bréfanna og hafði hann greitt af þeim
báðum. Þegar S hefði í kjölfarið ætlað að ganga að hlutabréfunum í S hf. hefði
hins vegar komið í ljós að hlutabréfin höfðu fallið úr gildi vegna sameiningar
S hf. við önnur félög og láðst hefði að láta S í té hlutabréf sem gefin höfðu
verið út í staðinn. K svf. hefði vegna þessa gefið út
skaðleysisyfirlýsingu þar sem félagið hefði viðurkennt ábyrgð sína á þessum
mistökum, en þar hefði komið fram að K svf. setti S
að handveði 60.00.000 krónur á bankareikningi sínum, sem kæmu í stað veðsins í
hlutabréfunum. Í málinu lá ennfremur fyrir samningur K svf.
og K hf., en þar kom fram að K hf. yfirtæki allar skuldir og eignir K svf., þar á meðal handveðssamninga um hlutabréf í eigu
síðarnefnda félagsins og að handveðin væru til tryggingar skuldbindingum K svf. við lánardrottna félagsins. Samhliða yfirfærslu
eignarhalds hlutabréfanna til K hf. skyldi leitast við að nýir
handveðssamningar yrðu gefnir út af K hf. til tryggingar á hinum yfirteknu
skuldum og að fyrri handveðssamningarnir yrðu samhliða því felldir úr gildi. S
höfðaði síðan mál gegn K svf. og krafðist þess að
viðurkenndur yrði veðréttur hans í nánar tilgreindri fjárhæð á reikningi K svf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki hefði verið gefinn
út nýr handveðssamningur til tryggingar skuld K svf.
við S, sem K hf. hefði tekið yfir, þrátt fyrir ákvæði yfirfærslusamningsins um
að svo yrði gert. Hefði handveðsyfirlýsingin frá 25. nóvember 1998 því ekki
fallið niður þótt nýr skuldari hefði komið í stað K svf.
á skuldabréfinu. Var krafa S því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til
Hæstaréttar 28. febrúar 2014. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og
málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins
áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Tildrög máls þessa eru þau að árið 1998 keypti áfrýjandi hlutabréf af stefnda í Snæfelli hf. og greiddi fyrir þau með þremur skuldabréfum, hverju að fjárhæð 60.000.000 krónur, sem útgefin voru 4. september 1998. Í 3. gr. ódagsetts kaupsamnings um hlutabréfin sagði að áfrýjandi setti stefnda að handveði hin keyptu hlutabréf til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu afborgana og vaxta af skuldabréfunum meðan þau væru í eigu seljanda. Þá sagði að handveðstryggingin væri enn fremur sett stefnda til tryggingar greiðslu á öllu því fjártjóni er leiða kynni af vanefndum áfrýjanda á skyldum sínum og kynnu að falla á stefnda á grundvelli ábyrgðar sem hann tækist á hendur við framsal á skuldabréfunum til þriðja aðila. Gerð var sérstök handveðsyfirlýsing 25. nóvember 1998, undirrituð fyrir hönd beggja aðila vegna hlutabréfanna sem sett höfðu verið að handveði og stefnda síðan afhent þau. Í kjölfarið seldi stefndi skuldabréf þau sem hann hafði fengið sem greiðslu fyrir hlutabréfin, eitt til Landsbanka Íslands hf., annað til Sparisjóðs vélstjóra og hið þriðja til Sparisjóðs Hafnarfjarðar og tók jafnframt á sig sjálfskuldarábyrgð á bréfunum. Stefndi samþykkti, sem sjálfskuldarábyrgðaraðili, skuldaraskipti sem orðið höfðu 1. mars 2004 á bréfi því sem framselt hafði verið til Sparisjóðs Hafnarfjarðar, en þá kom Kaldbakur hf. í stað áfrýjanda sem greiðandi bréfsins. Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing 2. mars 2004 um breytingu á greiðanda skuldabréfs þess er framselt var Sparisjóði vélstjóra, undirrituð af fyrirsvarsmanni áfrýjanda og Kaldbaks hf., sem gerðist þá nýr skuldari að bréfinu í stað áfrýjanda. Ágreiningur stendur ekki lengur um að stefndi hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir skuldskeytingu þess bréfs. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um bréf það sem framselt var Landsbanka Íslands hf. nema yfirlýsing aðstoðarútibússtjóra bankans 24. júní 2013 þess efnis að skuldabréfið hafi verið greitt upp 6. október 2004. Hin tvö skuldabréfin munu hafa verið í skilum til 1. júlí 2009, en þá mun innheimtu hafa verið beint að stefnda á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar hans. Greiddi hann afborganir af báðum bréfunum í júlí 2009 og hugðist í kjölfarið ganga að hlutabréfum þeim í Snæfelli hf. sem sett höfðu verið að handveði til tryggingar efndum skuldabréfanna. Kom þá í ljós að þau höfðu fallið úr gildi vegna sameiningar Snæfells hf. við önnur félög á árinu 2000 og að láðst hafði að láta stefnda í té hlutabréf sem gefin höfðu verið út í staðinn. Gaf þá áfrýjandi út svokallaða ,,skaðleysisyfirlýsingu” 9. apríl 2010, þar sem hann viðurkenndi ábyrgð sína á þessum mistökum. Væri skaðleysisyfirlýsingunni ætlað að gera stefnda eins settan og mistökin hefðu ekki orðið. Í henni sagði meðal annars að áfrýjandi skyldi setja stefnda að handveði 60.000.000 krónur á bankareikningi sínum, er kæmu í stað veðandlagsins í handveðsyfirlýsingunni frá 25. nóvember 1998. Þar sem aðila greindi hins vegar á um túlkun fyrrgreindrar handveðsyfirlýsingar gerði áfrýjandi það að skilyrði fyrir tryggingunni að stefndi leitaði dóms um ágreining aðila er laut að því hvort réttur stefnda til tryggingar samkvæmt ofangreindri handveðsyfirlýsingu hefði fallið niður vegna skuldskeytingar bréfanna, er Kaldbakur hf. kom í stað áfrýjanda sem skuldari að bréfunum. Bréfið sem framselt hafði verið Sparisjóði Hafnarfjarðar greiddi áfrýjandi upp 26. apríl 2010 og fékk það framselt til sín.
II
Dómkrafa stefnda um að viðurkenndur verði veðréttur hans í tilgreindri fjárhæð á reikningi áfrýjanda og að veðrétturinn sé til tryggingar ,,vegna tjóns” stefnda ,,sem ábyrgðarmaður á þremur skuldabréfum, útgefnum 4. apríl 1998” tekur til allra þriggja skuldabréfanna. Í yfirlýsingu áfrýjanda fyrir Hæstarétti kom fram að hann féllist á varakröfu sem stefndi hafði uppi í héraði, um að veðrétturinn stæði til tryggingar vegna tjóns stefnda sem ábyrgðarmaður á þeim tveimur skuldabréfum þar sem ekki lægi fyrir samþykki stefnda á skuldskeytingu, þ.e. skuldabréfi sem upphaflega var framselt Landsbanka Íslands hf. og bréfi sem upphaflega var framselt Sparisjóði vélstjóra. Eftir því sem fram kom af hálfu beggja aðila við flutning málsins fyrir Hæstarétti stendur því ágreiningur málsins um það eitt hvort samningur aðila um handveð stefnda í hlutabréfum sem seld voru áfrýjanda í Snæfelli hf. hafi fallið niður þegar Kaldbakur hf. tók við sem skuldari af áfrýjanda á skuldabréfi sem upphaflega var framselt Sparisjóði Hafnarfjarðar, en þá skuldskeytingu samþykkti stefndi. Verður kröfugerð aðila skilin í því ljósi og lögð þannig til grundvallar við úrlausn málsins.
III
Eins og að framan greinir var mælt fyrir um það í kaupsamningi aðila um hlutabréf í Snæfelli hf. að áfrýjandi setti stefnda að handveði hin keyptu hlutabréf til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu afborgana og vaxta af skuldabréfunum meðan þau væru í eigu stefnda. Enn fremur sagði þar að handveðstryggingin væri einnig sett stefnda til tryggingar greiðslu á öllu því fjártjóni er leiða kynni af vanefndum áfrýjanda á skyldum sínum og kynnu að falla á stefnda á grundvelli ábyrgðar sem hann tækist á hendur við framsal á skuldabréfunum til þriðja aðila.
Í málinu liggur fyrir samningur áfrýjanda og Kaldbaks hf. um yfirfærslu eigna og skulda 28. desember 2001. Þar kom fram að samningurinn hefði að markmiði að færa allar skuldir og eignir áfrýjanda yfir í Kaldbak hf., svo og önnur réttindi og skyldur/skuldbindingar áfrýjanda. Samningurinn var gerður á grundvelli ályktunar aðalfundar áfrýjanda 28. apríl 2001. Stjórn Kaldbaks hf. samþykkti að taka við þessum eignum og skuldum, réttindum og skuldbindingum, en ályktun aðalfundarins taldist hluti samningsins.
Í 1. grein samningsins sagði að Kaldbakur hf. skuldbyndi sig til að yfirtaka allar yfirfæranlegar eignir áfrýjanda og áfrýjandi skuldbyndi sig til að afhenda allar yfirfæranlegar eignir sínar til Kaldbaks hf. Um væri að ræða skuldabréf, hlutabréf, viðskiptakröfur og eignarhluta í félögum og fyrirtækjum. Í 5. grein samningsins, sem bar yfirskriftina yfirtaka skuldbindinga, sagði að Kaldbakur hf. skuldbyndi sig til að yfirtaka allar ,,yfirtakanlegar“ skuldir áfrýjanda, sama hvaða nafni þær nefndust og áfrýjandi samþykkti þá yfirtöku. Þá var í 9. grein samningsins ákvæði um handveðssamninga. Þar sagði að handveðssamningar væru um hluta hlutabréfa í eigu áfrýjanda, sem yfirfærð væru með samningnum. Handveðin væru til tryggingar á skuldbindingum áfrýjanda við lánardrottna. Samhliða yfirfærslu eignarhalds þessara hlutabréfa til Kaldbaks hf. skyldi leitast við að nýir handveðssamningar væru gefnir út af Kaldbaki hf. til tryggingar á yfirteknum skuldum, þegar eigendaskipti á hlutafjáreign hefðu gengið í gegn. Við útgáfu nýrra handveðssamninga skyldu núverandi handveðssamningar felldir úr gildi. Í 11. grein samningsins var ákvæði um tímasetningu yfirfærslunnar sem skyldi verða 31. desember 2001. Frá þeim tíma skyldi Kaldbakur hf. verða aðili að yfirfærðum réttindum og skyldum, en yfirfærsla eigna og skulda skyldi gerast á sama tíma þannig að réttindi og skyldur áfrýjanda fylgdust ávallt að og væru á sömu hendi hverju sinni.
Eins og að ofan er rakið sagði í 9. grein yfirfærslusamningsins að handveðssamningar væru um hluta hlutabréfa í eigu áfrýjanda og væru handveðin til tryggingar skuldbindingum áfrýjanda við lánardrottna. Liggur fyrir að handveðsyfirlýsing áfrýjanda 25. nóvember 1998 féll þar undir. Ekki var gefinn út nýr handveðssamningur til tryggingar þeirri skuld áfrýjanda við stefnda sem um er deilt í málinu og Kaldbakur hf. tók yfir samkvæmt samningnum, þrátt fyrir ofangreind ákvæði yfirfærslusamningsins um að svo yrði gert og ákvæði hans um að yfirfærsla réttinda áfrýjanda samkvæmt samningnum til Kaldbaks hf. héldist í hendur við yfirfærslu skuldbindinga áfrýjanda samkvæmt honum. Féll því handveðsyfirlýsing sú sem aðilar höfðu undirritað 25. nóvember 1998 ekki niður þótt nýr skuldari kæmi í stað áfrýjanda á skuldabréfi því sem um er deilt í málinu, enda hefur ekkert komið fram í málinu um að stefndi hafi fallist á að gefa eftir þá tryggingu sína, þótt hann samþykkti skuldaraskiptin. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, KEA svf., greiði stefnda, Snæfellsbæ, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. nóvember 2013.
Mál þetta, sem var
dómtekið 27. júní sl., en endurupptekið og dómtekið á ný 3. október sl.,
höfðaði Snæfellsbær gegn KEA svf., Glerárgötu 36,
Akureyri, þann 28. júní 2012.
Stefnandi krefst þess
aðallega að viðurkenndur verði með dómi veðréttur hans í 60.000.000 króna
fjárhæð á reikningi stefnda nr. 1187-86-001550 í Sparisjóði Höfðhverfinga og
að veðrétturinn sé til tryggingar vegna tjóns stefnanda sem ábyrgðarmaður á
þremur skuldabréfum, útgefnum 4. apríl 1998, hverju að fjárhæð 60 milljónir
króna, verðtryggðum miðað við vísitölu neysluverðs með grunnvísitölunni 184 og
6% ársvöxtum, sem stefnda gaf út til stefnanda til greiðslu kaupverðs samkvæmt
kaupsamningi sem aðilar gerðu á árinu 1998 um hluti í Snæfelli hf.
Til vara krefst hann þess
að viðurkenndur verði með dómi veðréttur hans í fjárhæð á reikningi stefnda nr.
1187-86-001550 í Sparisjóði Höfðhverfinga og að veðrétturinn sé til tryggingar
vegna tjóns stefnanda sem ábyrgðarmaður á þeim tveimur skuldabréfum, útgefnum
4. apríl 1998, hverju að fjárhæð 60 milljónir króna, verðtryggðum miðað við
vísitölu neysluverðs með grunnvísitölunni 184 og 6% ársvöxtum, sem stefnda gaf
út til stefnanda til greiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningi sem aðilar gerðu
á árinu 1998 um hluti í Snæfelli hf., sem stefnandi samþykkti ekki
skuldskeytingu á, þar sem Kaldbakur hf. tók yfir skyldur stefnda sem greiðandi
að skuldabréfunum.
Í báðum tilvikum er
krafist málskostnaðar.
Stefnda krefst sýknu, en
til vara sýknu að svo stöddu og málskostnaðar í báðum tilvikum.
Kröfu stefnda um frávísun
hluta krafna stefnanda var hrundið með úrskurði 5. febrúar sl.
I.
Á árinu 1998 seldi
stefnandi stefnda öll hlutabréf sín í Snæfelli hf. fyrir 180 milljónir króna.
Greitt var með þremur skuldabréfum sem stefnda gaf út 4. apríl 1998 til stefnanda.
Var hvert að fjárhæð 60 milljónir króna, verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 184 og 6%
ársvöxtum. Skyldi greiða bréfin með 35 afborgunum á fjögurra mánaða fresti,
fyrst þann 1. júlí 2000. Vexti átti að greiða á fjögurra mánaða fresti, frá og
með 1. nóvember 1998.
Stefnda setti hin seldu
hlutabréf að handveði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu afborgana
og vaxta af skuldabréfunum meðan þau væru í eigu stefnanda. Tekið var fram í
kaupsamningi að handveðstryggingin væri jafnframt sett stefnanda til tryggingar
gegn öllu fjártjóni sem leiða kynni af vanefndum stefnda á skyldum sínum
samkvæmt skuldabréfunum og kynnu að falla á stefnanda á grundvelli ábyrgðar sem
hann tækist á hendur við framsal á skuldabréfunum til þriðja aðila. Jafnframt
var gerð sérstök handveðsyfirlýsing, þar sem m.a. var tekið fram að hlutabréfin
væru sett að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu afborgana og
vaxta af nánar greindum skuldabréfum sem stefnda hefði skuldbundið sig til að
greiða stefnanda. Einnig var tekið fram að yrðu vanskil á skuld stefnda við
handveðshafann væri honum heimilt að ganga að veðinu og láta selja það á
grundvelli laga um meðferð einkamála, aðfararlaga og uppboðslaga. Á meðan hann hefði handveðið og hefði ekki
leyst það til sín færi stefnda með öll réttindi og skyldur sem bréfin veittu og
njóta arðs af þeim. Stefnda væri þó skylt á meðan handveðshafinn hefði
handveðið, að greiða það sem bæri að greiða til að rétturinn sem fylgdi því
glataðist ekki eða rýrnaði og láta veðhafanum í té skilríki fyrir að svo væri
gert.
Stefnandi framseldi
skuldabréfin, eitt til Sparisjóðs vélstjóra, eitt til Sparisjóðs Hafnarfjarðar
og það þriðja til Landsbanka Íslands. Tók stefnandi á sig sjálfskuldarábyrgð
við framsalið.
Á árinu 2004 fór fram
skuldskeyting á bréfunum. Tók við skuldinni af stefnda Kaldbakur hf., sem
stefnandi segir að hafi verið hlutafélag í eigu stefnda og haldið utan um
eignir þess. Hafi skuldskeytingin verið liður í að færa eignir og skuldir
stefnda yfir í þetta félag.
Stefnandi samþykkti
skuldskeytingu bréfs nr. 300135, sem hafði verið framselt til Sparisjóðs
Hafnarfjarðar. Segir hann að ekki hafi
verið leitað eftir því að hann samþykkti skuldskeytingu hinna bréfanna og hafi
hann aldrei gert það.
Í stefnu er rakið að
Kaldbakur hf. hafi sameinast Burðarási hf., sem síðan hafi sameinast Straumi
hf. í Straum-Burðarás hf. Sparisjóður
vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar hafi sameinast árið 2006 í Byr hf., sem
þar með hafi átt tvö skuldabréfanna, bréf nr. 300135 og 2865. Hafi þau bréf verið í skilum til og með 1.
mars 2009, en 9. mars það ár hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir rekstur
Straums-Burðaráss hf. Á næsta gjalddaga,
1. júlí 2009, hafi Byr hf. beint kröfum að stefnanda. Hafi bæjarstjóri stefnda
verið í leyfi og starfsmenn greitt 3.959.869 krónur vegna bréfs nr. 300135 og
3.713.975 krónur vegna bréfs nr. 2865.
Er bæjarstjóri hafi komið úr leyfi hafi verið farið að athuga
réttarstöðu stefnanda. Hafi komið í ljós
að við sameiningu Snæfells hf. og BGB hf. á árinu 2000 hafi stefnandi ekki
verið upplýstur um hana og ekki verið kallað eftir hlutabréfunum sem stefnandi
hafði að handveði. Hafi þau verið orðin haldlaus trygging. Stefnda hafi talið að vegna atvika við skuldskeytingu
bréfanna hafi tjón stefnanda vegna þessa ekkert orðið, þar sem handveðrétturinn
hafi átt að tryggja efndir stefnda, en ekki annarra skuldara sem tækju við af
stefnda. Þessari túlkun hafi stefnandi
mótmælt alfarið.
Þann 9. apríl 2010 gaf
stefnda út skjal sem ber yfirskriftina ,,Skaðleysisandlag Nýtt
veðandlag“. Setti stefnda þar 60.000.000
krónur að veði, sem skyldi koma í stað hlutabréfanna. Er meðal annars tekið fram í skjalinu að
ágreiningur sé um gildi handveðssamningsins sem tryggingar. Gerði stefnda að skilyrði að stefnandi
leitaði dóms fyrir almennum dómstólum fyrir kröfum sínum á hendur stefnda, en
kvaðst ekki mundu bera fyrir sig fyrningu vegna krafna stefnanda, enda yrði
málið höfðað fyrir 1. júlí 2012.
Stefnandi höfðaði þetta
mál sem áður segir þann 28. júní 2012. Í
stefnu er krafist viðurkenningar veðréttar í nánar greindum skuldabréfum, sem
munu hafa verið veðsett í stað peninga með sérstöku samkomulagi aðila. Fram kom við aðalmeðferð að veðinu hefði enn
verið breytt, í þá veru sem endanleg kröfugerð stefnanda hljóðar um.
Stefnandi tekur fram að
hann hafi frá öndverðu mótmælt því að vera ábyrgur fyrir efndum skuldabréfs nr.
2865, sem upphaflega hafi verið framselt Sparisjóði vélstjóra. Telji hann að
ábyrgð sín hafi fallið niður, er Sparisjóður vélstjóra heimilaði skuldskeytingu
þess án þess að leita samþykkis stefnanda.
Byr hf., sem hafi eignast bréfið, hafi ekki fengist til að fallast á
þessa afstöðu, en ekki fylgt kröfu sinni eftir með innheimtuaðgerðum. Sjálfskuldarábyrgð sín á bréfi nr. 300135 sé
hins vegar óumdeild og hafi hann leyst það til sín gegn nánar tiltekinni
greiðslu og á móti fengið nánar greindar einingar í Straumi. Sé enn óljóst hvert endanlegt tjón hans
verði.
Stefnandi mun ekki hafa
verið krafinn um greiðslu á grundvelli skuldabréfs sem mun hafa verið framselt
Landsbanka Íslands. Í málinu liggur
tölvupóstur, lagður fram við aðalmeðferð, þar sem aðstoðarútibússtjóri segir
efnislega að lán, sem gæti samrýmst þessu bréfi, hafi verið greitt upp 6.
október 2004. Stefnandi kvað kröfur
sínar óbreyttar, þar sem hann gæti ekki metið þennan tölvupóst sem fullnaðarkvittun.
II.
Stefnandi kveðst byggja á
því að samkvæmt kaupsamningi aðila frá árinu 1998 liggi fyrir að hin veðsettu
hlutabréf hafi átt að standa sem trygging fyrir skilvísri og skaðlausri
greiðslu afborgana þeirra skuldabréfa sem kaupverð hinna seldu hluta hafi verið
greitt með, auk vaxta og kostnaðar sem af vanefndum hlytust, sbr. 3. gr.
kaupsamningsins. Hafi hin veðsettu
hlutabréf jafnframt átt að standa til tryggingar á greiðslu alls fjártjóns sem
stefnandi kynni að verða fyrir sem ábyrgðarmaður á greiðslu skuldabréfanna sem
hann tæki á sig við framsal þeirra.
Samkvæmt þessu megi vera ljóst að ef hin veðsettu hlutabréf hefðu
verðmæti í dag hefði stefnanda verið heimilt að ganga að þeim á grundvelli
framangreinds kaupsamnings og þeirrar handveðsyfirlýsingar sem gerð var 25.
nóvember 1998.
Hlutabréfin hafi orðið
verðlaus vegna mistaka stefnda. Hafi
stefnda viðurkennt ábyrgð sína á þeim mistökum og lagt fram nýtt veð, sbr.
skaðleysisyfirlýsingu þess 9. apríl 2010.
Samkvæmt henni komi nýja veðið að fullu í stað þeirra hlutabréfa sem
upphaflega hafi verið lögð fram sem trygging og skyldi stefnandi vera eins
settur og eiga sama rétt til að ganga að því veði og hann hafi haft til að
ganga að upphaflega veðinu. Á grundvelli sömu röksemda og komi fram hér að
framan eigi hann nú rétt á því að ganga að þeirri tryggingu og beri að fallast
á kröfur hans um það.
Stefnandi kveðst mótmæla
sem röngum og ósönnuðum öllum fullyrðingum stefnda um að réttur hans til að
ganga að veðinu hafi fallið niður. Hvað framsal bréfanna varði, þá liggi fyrir
að sérstaklega hafi verið samið um að hin umsamda veðsetning skyldi standa
óhögguð, þótt stefnandi framseldi skuldabréfin sem hann fékk sem greiðslu
samkvæmt kaupsamningi aðila frá 1998. Hafi það framsal því engin áhrif á rétt
stefnanda til þess að ganga að hinu veðsetta.
Hvað varði þau mótmæli
stefnda að hin veðsettu hlutabréf hafi aðeins verið til tryggingar á efndum
þess á greiðslu skuldabréfanna, en ekki annarra skuldara sem síðar tækju við og
að veðtryggingin hafi fallið niður við skuldskeytinguna þegar Kaldbakur hf. tók
við sem skuldari á bréfunum, þá sé þeim alfarið hafnað. Að skipta um skuldara
hafi í sumum tilvikum áhrif á ábyrgð ábyrgðarmanna og veðþola. Það sama eigi
hins vegar ekki við um greiðanda skuldabréfs. Í því tilviki sem hér um ræði
hafi verið um greiðanda skuldabréfs að ræða og upphaflegar tryggingar (og
tryggingar sem hafi verið lagðar fram í stað þeirra) sem stefnda sem kaupandi
hlutabréfanna og sem greiðandi skuldabréfanna, sem hafi verið notuð sem
greiðsla fyrir hin seldu bréf, hafi sett til tryggingar á fullum efndum á
viðkomandi kaupsamningi og á greiðslu viðkomandi skuldabréfa.
Samkvæmt íslenskum rétti
séu bæði greiðandi, ábyrgðarmenn og veðþolar áfram bundnir við skyldur sínar
samkvæmt skuldabréfum undir öllum kringumstæðum ef þeir samþykki
skilmálabreytingar sem séu gerðar á viðkomandi skuldabréfum, hvort sem um sé að
ræða skuldskeytingu eða aðrar skilmálabreytingar. Í því tilviki sem hér um ræði
liggi fyrir að stefnda hafi samþykkt þá skuldskeytingu sem hafi átt sér stað
þegar Kaldbakur hf. hafi tekið við sem skuldari að þeim skuldabréfum sem um
ræði. Þetta samþykki komi fram í því að Kaldbakur hf. hafi verið nátengt
stefnda eins og að framan sé lýst og sömu aðilar verið í fyrirsvari fyrir bæði
félögin. Jafnframt liggi fyrir að það
hafi verið Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri stefnda og aðstoðarframkvæmdastjóri
Kaldbaks hf., sem hafi haft samband við stefnda með tölvupósti 6. apríl 2004 og
óskað eftir því að skuldskeytingin færi fram. Þar hafi hann jafnframt upplýst
að fyrir lægi samningur milli stefnda og Kaldbaks hf. um að Kaldbakur hf.
yfirtæki allar eignir og allar skuldir stefnda samkvæmt yfirfærslusamningi 28.
desember 2001. Samkvæmt þessu liggi fyrir skýlaust samþykki stefnda fyrir því
að Kaldbakur hf. tæki við sem skuldari að viðkomandi skuldabréfum og því hafi
sú skuldskeyting engin áhrif á rétt stefnanda til að ganga að viðkomandi
tryggingum.
Jafnframt kveðst
stefnandi byggja á því að ef verði fallist á mótmæli stefnda megi vera ljóst að
það hafi auðgast með ólögmætum hætti á kostnað stefnanda. Fyrir liggi að
stefnda hafi ráðstafað hinum keyptu hlutabréfum og væntanlega fengið hátt verð
fyrir þau þar sem verðmæti kvóta Snæfells hf. hafi hækkað verulega. Ekki liggi
fyrir hvort bréfunum hafi verið ráðstafað af stefnda eða hvort þeim hafi fyrst
verið ráðstafað til Kaldbaks hf., en það breyti engu, þar sem stefnda hafi selt
hlut sinn í Kaldbaki hf. fyrir mjög hátt verð og innleyst þannig allan
eignarhlut sinn í því félagi, þar sem vafalaust hafi verið tekið fullt tillit
til verðmætis hlutabréfa í Snæfelli hf., eða þeirra verðmæta sem hafi komið í
staðinn. Það sé því ljóst að með því að mótmæla skyldum sínum nú samkvæmt
kaupsamningi varðandi það að halda stefnanda skaðlausum af greiðslu
skuldabréfanna með veðsetningu hlutabréfanna sé hann að auðgast á kostnað
stefnanda með ólögmætum hætti.
Stefnandi byggir
varakröfu sína á því að þó svo að fallist yrði á það með stefnda að með
samþykki stefnanda á skuldskeytingu bréfs nr. 300135 hafi hann misst rétt til
að ganga að hinum umsömdu tryggingum, missi stefnandi ekki undir nokkrum
kringumstæðum rétt til að ganga að veðtryggingum vegna þeirra bréfa sem hann
hafi ekki samþykkt skuldskeytingu á. Stefnandi hafi ekki samþykkt
skuldskeytingu bréfs nr. 2865 og bréfsins sem hafi verið framselt Landsbanka
Íslands og hann haldi því fullum rétti til þess að ganga að þeim veðum sem hann
hafi vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna bréfs nr. 2865 og kunni að
verða fyrir vegna sjálfskuldarábyrgðar sem hann hafi tekið á sig vegna þessara
skuldabréfa.
Stefnandi kveðst byggja á
því að hann hafi á engan hátt brotið gegn því skilyrði sem skaðleysisyfirlýsing
stefnda byggist á, þ.e. að halda uppi öllum mögulegum vörnum gegn
greiðsluskyldu sinni á skuldabréfi nr. 2865 og hann hafi engar ráðstafanir
gert, hvorki hvað varði það skuldabréf né hin tvö, sem gætu falið slíkt í sér,
auk þess sem hann hafi í einu og öllu upplýst stefnda um gang mála og leitað
samþykkis þess fyrir öllum ráðstöfunum sem gætu haft áhrif á stöðu stefnda sem
veðþola.
Stefnandi kveðst vísa til
almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og
almennra reglna eignaréttar um réttindi og skyldur veðsala og veðþola. Þá
kveðst hann vísa til almennra reglna um skaðabætur innan samninga.
III.
Stefnda kveðst byggja
sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Hafi stefnandi samþykkt að
Kaldbakur hf. kæmi í stað stefnda sem skuldari og samþykkt yfirfærslu á
réttindum og skyldum bæði í verki og með aðgerðarleysi sínu. Kröfu um
afhendingu hlutabréfa samkvæmt handveðsyfirlýsingu hafi með réttu borið að
beina að Kaldbaki hf., eða einhverjum sem leiði rétt af því félagi.
Skaðleysisyfirlýsing stefnda breyti engu um þetta. Aðdragandi hennar hafi verið
grímulaus hótun um að kæra fyrrum stjórnarmenn stefnda og höfða persónulega mál
gegn þeim og fleirum.
Í tölvupósti frá
þáverandi aðstoðarframkvæmdastjóra Kaldbaks hf., dagsettum 6. apríl 2004, komi
fram tilkynning til stefnanda um að Kaldbakur hf. hafi gert samning við stefnda
um yfirtöku allra eigna og skulda stefnda. Hafi Kaldbakur hf. frá árslokum 2001
verið greiðandi skuldabréfa og greitt af þeim. Með þessu sé engum vafa undirorpið
að stefnanda hafi verið tilkynnt um yfirfærsluna þegar þann 6. apríl 2004 og
hann þá um nokkurt skeið fengið greiðslur frá Kaldbaki hf. Liggi fyrir að
stefnandi hafi samþykkt skuldskeytingu skuldabréfs nr. 300135. Þegar af þeirri ástæðu liggi fyrir að
stefnandi eigi ekki kröfu á hendur stefnda. Við þetta bætist tómlæti af hans
hálfu við að tryggja réttindi sín og beina kröfu að Kaldbaki hf. vegna
handveðs, ef stefnandi hafi talið að handveðið ætti að halda gildi sínu eftir
skuldskeytinguna og vera til tryggingar greiðslum skuldabréfanna. Það hafi hann
ekki gert og verði ekki úr því bætt með því að beina kröfum að stefnda mörgum
árum eftir að stefnanda hafi formlega verið tilkynnt að Kaldbakur hf. hefði
tekið við öllum eignum og skuldum stefnda. Stefnda sé því ekki réttur aðili að
málinu, eins og fram komi í skaðleysisyfirlýsingu aðila.
Verði ekki á það fallist
að sýkna vegna aðildarskorts, kveðst stefnda byggja á því að í kaupsamningi
segi að þegar stefnda sýni fram á að hafa greitt upp skuld sína samkvæmt
skuldabréfunum, hvort sem sú uppgreiðsla hafi farið fram í samræmi við
upphaflegt efni skuldabréfanna eða fyrr af einhverjum ástæðum, þá skuldbindi
stefnandi sig til að láta hlutabréfin af hendi til stefnda. Stefnda hafi greitt
kaupverðið að fullu með afhendingu skuldabréfanna. Þá hafi stefnda greitt upp
skuld sína við stefnanda, með því að stefnandi hafi samþykkt Kaldbak hf. sem
nýjan skuldara að bréfunum í stað stefnda.
Þá vísar stefnda til þess
að handveðsyfirlýsingin frá 25. nóvember 1998 gildi um skuldir stefnda samkvæmt
tilgreindum skuldabréfum og texti hennar sé skýr um það að hann gildi meðan
stefnda sé skuldari bréfanna. Sé handveðssamningurinn bundinn við ,,persónu“
eða aðild stefnda sem aðalskuldara en vísi ekki til ábyrgðar stefnda á greiðslu
skuldabréfanna, óháð því hvort skuldskeyting hefði orðið á bréfunum. Með skuldskeytingunni
hafi stefnda greitt upp bréfin fyrir sitt leyti og sé skylda og ábyrgð stefnda
á greiðslu þeirra fallin niður og þar með þau réttindi sem handveðssamningurinn
hafi skapað. Hafi stefnandi samþykkt skuldskeytingu til Kaldbaks hf., án þess
að gera nokkurn fyrirvara um, eða hefjast handa um að aðilaskipti yrðu einnig
höfð að handveðssamningnum. Þá hafi stefnandi ekki beint kröfum í þessa veru að
Kaldbaki hf., eða þeim sem leiði rétt frá því félagi, þó fyrir liggi að árið
2004 hafi stefnanda verið tilkynnt formlega að Kaldbakur hf. hefði tekið yfir
eignir og skuldir stefnda.
Stefnda kveðst byggja á
því að augljóst hafi verið að hagsmunir stefnda lægju í því að losna undan
skuldbindingu sinni með því að annar skuldari kæmi að kröfunni í stað stefnda
og það yrði upp frá því laust undan henni. Séu þetta almenn réttaráhrif
skuldskeytingar. Hafi verið leitað samþykkis kröfuhafans vegna þessa, og hann
veitt það. Eigi stefnandi því enga kröfu nú á hendur stefnda samkvæmt handveðssamningnum,
eða öðrum heimildum.
Handveðsyfirlýsingin feli
ekki annað í sér en veðréttindi og sé ekki hluti skuldabréfanna. Skjöl sem
lúti einvörðungu að veðréttindum teljist ekki viðskiptabréf. Þau framseljist
ekki með skuldabréfi án þess að meira komi til, þ.e. sérstök yfirlýsing um það.
Framsal stefnanda á skuldabréfunum til fjármálastofnana, án þess að framsal eða
yfirfærsla réttinda samkvæmt handveðsyfirlýsingu staðfesti að
handveðsyfirlýsingin sé ekki hluti skuldabréfanna. Þegar stefnandi hafi samþykkt beiðni Kaldbaks
hf. um skuldskeytingu hafi það staðið stefnanda næst að tryggja sér skilríki
fyrir því að veðréttur samkvæmt handhafabréfi tæki einnig til þess að tryggja
greiðslur skuldabréfanna þrátt fyrir eigendaskiptin, og ganga úr skugga um það,
ef stefnandi taldi tilefni til að krefjast áfram veðtryggingar fyrir efndum
hins nýja greiðanda. Hafi stefnandi ekki gert svo. Með skuldskeytingunni hafi
verið skilið að fullu milli skuldabréfanna, sem hafi verið í eigu
fjármálastofnana, og handveðsyfirlýsingarinnar. Sé skýrt að stefnda hafi ekki
ætlað að ábyrgjast greiðslu annarra aðalskuldara að hinni nýju kröfu. Sé slík
skuldbinding áhættusamari og meira íþyngjandi en að setja veð fyrir efndum
eigin skuldar. Slík niðurstaða hefði falið í sér grundvallarbreytingu á eðli og
efni handveðsyfirlýsingarinnar. Kveðst stefnda vísa um þetta til meginreglna um
veðrétt og ábyrgðir, um að sérstaka yfirlýsingu þurfi ef veðsali eða
ábyrgðarmaður ætli að ábyrgjast skuldir eftir skuldskeytingu. Hafi það verið á
hendi Kaldbaks hf. að tryggja skuldskeytingu að kröfum sem stefnda hafi áður verið
skuldari að. Hafi það enda verið svo að Kaldbakur hf. hafi gerst greiðandi að
skuldum sem þetta mál sé risið af. Stefnda hafi aldrei samþykkt að ábyrgjast
skuldbindingar Kaldbaks hf. eða annarra aðila gagnvart stefnanda. Skuldari sem
losni undan skuldbindingu sinni við skuldskeytingu þurfi ekki að samþykkja
skuldskeytinguna. Ábyrgðaraðili þurfi hins vegar með sérstökum löggerningi og
yfirlýsingu til kröfuhafa að samþykkja ábyrgð fyrir þann sem taki við sem
aðalskuldari kröfu. Hafi stefnda ekki samþykkt slíka ábyrgð fyrir Kaldbak hf.
Sé lögð áhersla á það að skuldabréfin séu löggerningur séreðlis annars vegar og
handveðsamningur annars eðlis hins vegar. Með skuldskeytingunni hafi verið
skilið á milli og veðtryggingin hafi ekki raknað við.
Stefnda segir tengsl sín
og handveðssamningsins engin við skuldabréfin nú. Handveðið tryggi ekki
greiðslur þriðja aðila. Með skuldskeytingu á einu skuldabréfanna hafi
þáverandi skuldareigandi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, samþykkt skuldskeytingu.
Hana hafi stefnandi einnig samþykkt. Stefnda eigi þarna hvergi hlut að máli og
hvergi sé minnst á ábyrgð þess. Þá sé ekki minnst á handveð við þessa skuldskeytingu.
Með framsali stefnda á skuldabréfunum, án þess að handveðssamningurinn væri
jafnframt framseldur, hafi verið skilið á milli skuldabréfanna og veðsins.
Endanleg slit hafi síðan orðið við skuldskeytinguna til Kaldbaks hf.
Þá tekur stefnda fram að
stefnandi hafi ekki samþykkt skuldskeytingu á bréfi nr. 2865. Samkvæmt almennum
viðskiptabréfareglum hafi framsalsábyrgð stefnanda til Sparisjóðs vélstjóra
fallið sjálfkrafa niður við það að ekki var aflað samþykkis stefnanda fyrir
skuldskeytingu þessa bréfs. Sé á því byggt að á stefnanda hvíli engin
skuldbinding vegna þessa bréfs og þar af leiðandi geti engin skuldbinding hvílt
á stefnda gagnvart stefnanda vegna bréfsins. Þá kveðst stefnda mótmæla því að
tjón stefnanda vegna greiðslu á kröfu samkvæmt þessu bréfi þann 22. júlí 2009
sé á ábyrgð stefnda eða falli undir það að geta verið tryggt með
handveðssamningi.
Þá vísar stefnda til þess
að ekki sé vitað um afdrif eins bréfsins og engum kröfum hafi verið beint að
stefnanda vegna þess. Beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda hvað þetta bréf
varði, þar sem engra gagna njóti við um það. Þá telur stefnda að sýkna beri af
kröfum stefnanda hvað varði skuldabréf nr. 2865. Hafi stefnandi greitt af því
fyrir mistök, en framsalsábyrgð stefnanda á því hafi fallið niður, vegna skuldskeytingar
sem stefnandi hafi ekki samþykkt. Beri a.m.k. að sýkna af svo stöddu, meðan
ágreiningur kröfuhafans og stefnanda að þessu leyti verði leiddur til lykta.
Stefnda tekur fram að
skaðleysisyfirlýsing hafi verið sett fram undir fyrirætlunum stefnanda um að
höfða mál og jafnvel kæra til yfirvalda fyrrum stjórnarmenn og aðra sem vegna
starfa sinna hafi tekið þátt í vinnu við yfirtöku BGB hf. á Snæfelli hf. árið
2000. Verði ekki framhjá því litið að stefnandi beri nokkra ábyrgð á að gæta
ekki hagsmuna sinna. Samrunatilkynning hafi verið auglýst í Lögbirtingablaði.
Hafi þar komið fram að hlutabréfum í Snæfelli yrði skipt út fyrir hlutabréf í
yfirtökufélaginu. Tilgangur auglýsingar sem þessarar sé að þeir sem hagsmuna
eigi að gæta geti brugðist við. Stefnandi hafi sýnt af sér fullkomið tómlæti og
látið öll tækifæri til að gæta hagsmuna renna sér úr greipum. Kveðst stefnda
byggja á því að hugsanlegt tjón sem hafi orðið vegna þess að hlutabréf fóru
forgörðum verði ekki lagt á stefnda nú, heldur verði stefnandi að bera það
sjálfur, fyrir að hafa ekki gætt hagsmuna sinna og sýnt af sér tómlæti við það.
Með því hafi farið forgörðum öll tækifæri til að yfirvega réttarstöðu aðila og
fá afstöðu Kaldbaks hf. til þess að leggja fram tryggingar, ef stefnandi teldi
þörf á því, en tilkynningar um samruna hafi einmitt verið birtar af þessu
tilefni. Hafi öllum, sem hafi átt hagsmuna að gæta, mátt vera ljóst af almennri
umfjöllun að Snæfell hf. hafi sameinast BGB hf. og síðar Samherja hf. Stefnda
kveðst með þessu ekki bera fyrir sig fyrningu, heldur það að á árinu 2009 hafi
öll möguleg réttindi stefnanda á hendur stefnda verið fallin niður vegna
tómlætis. Hafi stefnda enga ástæðu haft til að ætla annað en að stefnandi hefði
á hartnær 10 árum gaumgæft réttindi sín og ekki getað vænst þess að árið 2009
eða síðar myndi stefnandi beina kröfum að stefnda vegna skuldar sem hafi löngu
verið niður fallin gagnvart stefnda. Standi líkur til að innri endurskoðun,
skjalaferlar eða önnur atvik hjá sveitarfélagi á borð við stefnanda hafi átt að
leiða í ljós, að minnsta kosti við skuldskeytinguna 2004, ef stefnandi hafi
talið veðtryggingu vera til staðar og hefði þá átt að hafa komið í ljós hvers
kyns væri með hlutabréf í Snæfelli hf. Hefði á þeim tíma verið hægur vandi
fyrir Kaldbak hf. að ná niðurstöðu með stefnanda, en það hafi ekki verið á
ábyrgð eða á valdi stefnda.
Stefnda kveðst að öðru
leyti mótmæla málsástæðum stefnanda. Meint eða ætlað samþykki stefnda á
skuldskeytingu Kaldbaks hf. og yfirtöku þess félags á eignum og skuldum stefnda
feli ekki í sér ábyrgð eða annað og meira en hefðbundin skuldskeyting á
skuldabréfi. Liggi hagsmunir stefnda í því að eignir og skuldir Kaldbaks hf.
verði því óviðkomandi, enda hefði samningur um annað ekkert gildi fyrir
stefnda. Stefnandi geti engar réttmætar væntingar haft um annað, hafandi fengið
tilkynningu um þetta og samþykkt skuldskeytingu. Þá sé því mótmælt sem röngu
og óviðkomandi að sami maður hafi áður verið starfsmaður Kaldbaks hf. og nú
starfi hjá stefnda. Hafi það ekkert að gera með þau lögskipti þegar Kaldbakur
hf. hafi yfirtekið eignir og skuldir stefnda.
Þá sé sjónarmiðum um auðgun mótmælt. Við yfirtöku á eignum og skuldum
jafnist báðar hliðar út og því rangt að stefnda hafi hagnast vegna verðmætis
hlutabréfa í Snæfelli hf. Sé þetta málinu óviðkomandi og óljóst hvað stefnandi
eigi við og hvernig sjónarmið um þetta byggi undir réttmæti krafna hans.
Stefnda kveðst vísa til
almennra reglna samninga- og kröfuréttar, sem og viðskiptabréfareglna um
gildi krafna, réttarreglna um framsal og aðilaskipti, almennra reglna
veðréttar, sbr. og lög um samningsveð nr. 75/1997, einkum 2. mgr. 20. gr. og
23. gr. laganna.
IV.
Fyrirsvarsmenn aðila,
Kristinn Jónasson bæjarstjóri og Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri, gáfu
skýrslur fyrir dómi.
Í framangreindri
skaðleysisyfirlýsingu frá 9. apríl 2010 segir, að við sameiningu Snæfells hf.
og BGB hf. hafi þess ekki verið gætt að afhenda stefnanda hlutabréf í hinu
sameinaða félagi í stað hlutabréfa í Snæfelli hf. Við það hafi handhöfn
bréfanna orðið haldlaus sem trygging fyrir efndum stefnda á skuldum ,,þess
félags“ við stefnanda. Stefnda axli ábyrgð á þessum mistökum og sé
skaðleysisyfirlýsingunni ætlað að gera stefnanda eins settan og og þessi mistök
hefðu ekki orðið.
Mál þetta er höfðað til
viðurkenningar á veðrétti stefnanda í fjármunum sem settir voru samkvæmt þessu
af stefnda til tryggingar því að stefnandi yrði eins settur og hann hefði
fengið hlutabréf í hinu sameinaða félagi afhent að handveði í stað hlutabréfa
í Snæfelli hf. Málsókninni er því réttilega beint að stefnda og verður það ekki
sýknað á grundvelli aðildarskorts.
Með vísan til framangreindrar
yfirlýsingar stefnda um að það axli ábyrgð á því að stefnandi fékk ekki ný
hlutabréf að handveði, verður þegar af þeirri ástæðu ekki á það fallist að
sýkna beri stefnda á grundvelli þess að tómlæti stefnanda verði um það kennt að
handhöfn hlutabréfanna varð haldlaus sem trygging.
Stefnandi samþykkti, eins
og áður segir, skuldskeytingu á skuldabréfi nr. 300135, þannig að Kaldbakur hf.
kæmi í stað stefnda sem greiðandi þess. Telur stefnda að með því hafi veðréttur
stefnanda samkvæmt handveðinu fallið niður, að því er varðaði þetta skuldabréf.
Stefnandi hafði hlutabréf
að handveði til tryggingar tjóni sem á hann félli vegna hugsanlegs
greiðslufalls á skuldabréfinu. Hélt hann vörslum hlutabréfanna. Þótt hann
leysti stefnda undan skyldu til greiðslu skuldabréfsins með því að samþykkja
skuldskeytingu, felur það ekki í sér að hann hafi með því samþykkt að taka
ekki fullnustu af veðinu ef greiðslufall yrði. Verður því ekki fallist á
sýknukröfu stefnda, að því leyti sem hún er byggð á þessu atriði. Því síður verður
á hana fallist með vísan til þess að skuldskeyting sem stefnandi samþykkti
ekki, hafi orðið á hinum bréfunum tveimur, en rétt er að taka fram að ekki
liggur fyrir að skuldskeyting hafi orðið á því bréfi sem var framselt
Landsbanka Íslands.
Sýknukrafa stefnda er einnig á því byggð hvað
varðar skuldabréf nr. 2865, að framsalsábyrgð stefnanda á því bréfi hafi
fallið niður er Sparisjóður vélstjóra samþykkti skuldskeytingu á því 2. mars
2004. Hafi stefnandi greitt af bréfinu fyrir mistök og beri stefnda ekki ábyrgð
á þeim.
Eins og fram kemur hér að
framan kveðst stefnandi sjálfur hafa mótmælt sjálfskuldarábyrgð sinni á þessu
bréfi. Hann vísar hins vegar til þess að eigandi bréfsins hafi ekki fengist til
að fallast á þá afstöðu, þótt hann hafi ekki hafist handa um að knýja stefnanda
til greiðslu bréfsins.
Samkvæmt þessu er uppi
ágreiningur um það milli stefnanda og eiganda bréfsins um það hvort stefnandi
beri ábyrgð á greiðslu skuldar samkvæmt bréfinu. Eigandi bréfsins er ekki aðili
þessa máls. Verður því ekki leyst úr ágreiningi um þetta atriði í þessu máli.
Af því leiðir að ekki er unnt að slá því föstu hér að stefnandi hafi losnað
undan ábyrgð á greiðslu þessa bréfs. Að þessu athuguðu er ekki unnt að útiloka
að hann verði fyrir tjóni sem veðrétturinn stendur til tryggingar fyrir. Verður
því að fallast á kröfu hans um viðurkenningu á að veðrétturinn standi til
tryggingar því tjóni. Er rétt að taka hér sérstaklega fram að ekki er hér til
umfjöllunar fjárhæð þess tjóns og að af sjálfu leiðir að veðrétturinn stendur
ekki til tryggingar tjóns sem stefnanda verður með réttu sjálfum um kennt.
Samkvæmt þessu verður
ekki fallist á sýknukröfu stefnda að því leyti sem hún er á þessu atriði byggð.
Þótt ekki liggi fyrir samkvæmt framansögðu hvort stefnandi verði fyrir tjóni
vegna þessa bréfs, sem honum verði ekki um kennt, eru ekki heldur efni til að
fallast á kröfu stefnda um sýknu að svo stöddu, þar sem málið er einungis
höfðað sem viðurkenningarmál.
Hvað varðar þriðja
bréfið, sem mun hafa verið framselt Landsbanka Íslands, þá liggur fyrir að
skuldareigandi hefur engar kröfur haft uppi á hendur stefnanda vegna þess og
samkvæmt framangreindum tölvupósti er líklegast að það hafi þegar verið greitt
upp. Á það verður hins vegar fallist með stefnanda að þetta liggi ekki fyrir
með óyggjandi hætti og að ekki verði útilokað með öllu, með sömu röksemdum og
koma fram í síðustu tveimur málsgreinum, að hann verði fyrir tjóni vegna
ábyrgðar sinnar vegna framsals þessa bréfs. Verður því ekki fallist á kröfu
stefnda um sýknu, eða sýknu að svo stöddu hvað þetta bréf varðar.
Samkvæmt framansögðu ber
að taka kröfur stefnanda til greina. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber að dæma
honum málskostnað, sem ákveðst 1.500.000 krónur.
Dóminn kveður upp
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr.
91/1991.
D Ó M S O R Ð :
Viðurkennt er að
stefnandi, Snæfellsbær, eigi veðrétt í 60.000.000 króna fjárhæð á reikningi
stefnda, KEA svf., nr. 1187-86-001550 í Sparisjóði
Höfðhverfinga og að veðrétturinn sé til tryggingar vegna tjóns stefnanda sem
ábyrgðarmaður á þremur skuldabréfum, útgefnum 4. apríl 1998, hverju að fjárhæð
60 milljónir króna, verðtryggðum miðað við vísitölu neysluverðs með
grunnvísitölunni 184 og 6% ársvöxtum, sem stefnda gaf út til stefnanda til
greiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningi sem aðilar gerðu á árinu 1998 um hluti
í Snæfelli hf.
Stefnda greiði stefnanda
1.500.000 krónur í málskostnað.