Hæstiréttur íslands

Mál nr. 570/2014

A (Karl Ó. Karlsson hrl.)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorkubætur
  • Miskabætur
  • Gjafsókn


A höfðaði mál á hendur ábyrgðartryggjandanum V hf. til bótauppgjörs vegna líkamstjóns sem hann hlaut í starfi sínu við nýbyggingu húss að […] í Reykjavík árið 2006. Fyrir Hæstarétti greindi aðila einungis á um við hvaða árslaun skyldi miða ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, sbr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. A taldi að miða ætti við meðallaun verkamanna  árið 2007 en til vara við uppreiknuð laun sín þann eina og hálfa mánuð sem hann starfaði á Íslandi árið 2006. V hf. taldi á hinn bóginn að miða skyldi við lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. A var ekki talinn hafa sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hefðu verið fyrir hendi að annar mælikvarði en lágmarksárslaunaviðmiðið væri réttari á líklegar framtíðartekjur hans, en samkvæmt upplýsingum sem lögð voru fyrir Hæstarétt um laun hans fyrir byggingarvinnu í […] árin 2004 og 2005 námu þau aðeins broti af lágmarksárslaunum og ekkert lá fyrir um að A hefði á slysdegi markað sér ákveðinn starfsvettvang á Íslandi. Var V hf. því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 2014. Hann krefst þess að stefnda verði aðallega gert að greiða sér 35.562.189 krónur, en til vara 29.142.060 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júní 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að ákvæði héraðsdóms um málskostnað verði staðfest, en stefnda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppsögu héraðsdóms í málinu greiddi stefndi áfrýjanda 31. október 2014 í samræmi við dómsorð 6.965.740 krónur auk dráttarvaxta að fjárhæð 6.349.775 krónur. Krafa áfrýjanda hér fyrir réttinum er um það sem eftir stendur af kröfu hans fyrir héraðsdómi en sýknukrafa stefnda byggist á því að hann hafi þegar greitt áfrýjanda í samræmi við hinn áfrýjaða dóm.

Ágreiningsefni málsins hér fyrir dómi lýtur einvörðungu að því hvaða árslaunaviðmið skuli leggja til grundvallar við útreikning skaðabóta til áfrýjanda fyrir varanlega örorku, en hann telur að miða eigi við meðallaun verkamanna árið 2007 og til vara við uppreiknuð laun sín í þann eina og hálfa mánuð sem hann starfaði hér á landi á árinu 2006. Stefndi telur að miða eigi við lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi komið til Íslands í apríl 2006 til þess að vinna í byggingariðnaði og safna sér fyrir frekari námi. Á slysdegi 6. júní 2006 hafði hann unnið í um einn og hálfan mánuð við byggingarvinnu og hafði áður unnið við slík störf í […]. Hann hefur í málinu lagt fram gögn er sýna fram á að laun hans þar fyrir árin 2004 og 2005 hafi aðeins numið broti af lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7.gr. skaðabótalaga. Hann hefur ekki sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en lagt er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi, enda liggur ekkert fyrir um að hann hafi á slysdegi markað sér ákveðinn starfsvettvang á Íslandi.

Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans en þó þannig að stefndi verður vegna þess sem að framan greinir sýknaður af kröfu áfrýjanda.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu áfrýjanda, A.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2014.

                Mál þetta höfðaði A, kt. [...], […], með stefnu birtri 10. júní 2013 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík.  Málið var dómtekið 7. maí sl., en endurupptekið og dómtekið á ný fyrr í dag. 

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 43.367.422 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. júní 2009 til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi skaðabóta að fjárhæð 36.947.293 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001frá 10. júní 2009 til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. 

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins, til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður falli niður. 

                Stefnandi vann við nýbyggingu húss að […] í Reykjavík.  Hann var starfsmaður Byggingafélagsins B ehf.  Þann 6. júní 2006 var verið að undirbúa að steypa plötu yfir bílakjallara hússins.  Stefnandi mun hafa stigið á lausan þverbita sem sporðreistist, þannig að stefnandi féll niður á steypt gólf tæplega sex metra fall.  Hlaut hann margvíslega og alvarlega áverka. 

                Stefnandi var fluttur á Landspítalann í Fossvogi.  Þar gekkst hann undir fjöl­margar aðgerðir og dvaldi ýmist á gjörgæsludeild eða legudeild til 23. október 2006, er hann var fluttur á Grensásdeild.  Endurhæfingarmeðferð hans þar stóð allt til 15. júní 2007.  Stefnandi flutti aftur til […] 19. júní 2007 og hefur meðferð hans verið haldið áfram þar.  Stefnandi hefur upp frá því búið í […] ásamt móður sinni, en faðir hans er nú látinn. 

                Byggingafélagið B var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátrygginga­félagi Íslands.  Viðurkennir stefndi bótaskyldu, en ágreiningur er um nokkra þætti bótaákvörðunar. 

                Aðilar sammæltust um að fela C bæklunarskurðlækni og D hæstaréttarlögmanni að meta afleiðingar slyssins.  Matsgerð þeirra er dagsett 20. október 2008.  Varanlegur miski stefnanda var metinn 90 stig og varanleg örorka 100%.  Tímabil þjáningabóta var talið hafa staðið frá 6. júní 2006 til 30. ágúst 2007, var stefnandi rúmfastur allan þann tíma.  Tímabundið atvinnutjón var metið 100% frá 6. júní 2006 til 30. ágúst 2007.  Heilsufar stefnanda var talið hafa verið orðið stöðugt þann 30. ágúst 2007. 

                Í matsgerð segir m.a. að stefnandi hafi við slysið hlotið lífshættulega fjöl­áverka.  Alvarlegastur hafi verið höfuðáverki, sem hafi leitt til verulegra heila­skemmda með mikilli skerðingu á andlegu atgervi og áhrif á hreyfifærni, sérstaklega í vinstri helmingi líkamans.  Telja matsmenn að heyrn á hægra eyra hafi skerst svo og sjón á hægra auga.  Hægri augntóft hafi brotnað og andlit aflagast.  Stefnandi sé með dofa vinstra megin í andliti og skekkju á nefi.  Hann hafi fjölmörg ör eftir barkaskurð með inndrætti, ventilaðgerð á höfði, höfuðaðgerð og vegna aðgerðar á vinstri fæti.  Vinstra hné sé kreppt og einnig vinstri mjöðm að hluta til vegna afleiðinga brots á lærlegg, heilaáverka og brots á vinstri hnéskel. 

                Aðilar hófu umræður um bótauppgjör í kjölfar kröfubréfs lögmanns stefnanda í desember 2008.  Kom fram að ágreiningur stóð einkum um þrjú atriði, álag á miska­bótagreiðslu, árslaun til viðmiðunar um ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku og loks um frádrátt reiknaðs eingreiðsluverðmætis bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. 

                Þann 4. desember 2009 var gengið frá uppgjöri og greiðslu bóta, en stefnandi samþykkti þó ekki að allir liðir bótakröfu hans væru greiddir að fullu.  Hann fékk greiddar bætur fyrir tímabundið vinnutap og er ekki ágreiningur um þann lið.  Þá voru greiddar miskabætur með 15% álagi, sbr. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, en stefnandi krafðist 50% álags.  Bætur fyrir varanlega örorku voru reiknaðar eftir lágmarks­viðmiðun um tekjur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en stefnandi vildi miða við meðallaun verkamanna.  Þá var dregin frá bótum fjárhæð sem svaraði til eingreiðsluverðmætis bóta frá Tryggingastofnun ríkisins í samræmi við útreikning tryggingastærðfræðings stefnda.  Í útreikningnum kemur fram að eingreiðslu­verðmætið sé reiknað miðað við stöðugleikadag 30. ágúst 2007.  Gert væri ráð fyrir að stefnandi ætti rétt á örorkulífeyri, aldurstengdum örorkulífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót.  Mat tryggingastærðfræðingurinn þannig eingreiðsluverðmæti bótanna samtals 36.568.046 krónur  Frádráttur næmi 67% af þeirri fjárhæð, 24.500.591 krónum, að teknu tilliti til eingreiðslu- og skatthagræðis.  Ekki var deilt um frádrátt vegna innborgunar að fjárhæð 500.000 krónur og bóta úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 13.648.489 krónur. 

                Frádráttur vegna bóta frá Tryggingastofnun var endurskoðaður í nóvember 2011 og frádrátturinn þá lækkaður um 675.080 krónur.  Komið hafði í ljós að stefnandi fengi ekki allar þær bætur sem reiknað hafði verið með. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að ekki skuli reikna bætur fyrir varanlega örorku eftir lágmarksviðmiðun 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, heldur verði að ákveða viðmiðunina sérstaklega, sbr. 2. mgr. 

                Hann vísar til þess að hann hafi starfaði í um einn og hálfan mánuð hér á landi sem ófaglærður byggingaverkamaður.  Hann hafi haft reynslu á þessu sviði í heima­landi sínu.  Hann hafi lært bifvélavirkjun, en ekki starfað við þá iðn.  Hann hafi haft væntingar um frekara nám, en óvíst hafi verið hvað hann vildi leggja fyrir sig.  Hann hafi á slysdegi verið fullfrískur við störf í byggingariðnaði, sem hann hafi haft reynslu af.  Ekkert annað hafi legið fyrir en að hann myndi halda áfram á þeirri braut.  Aðstæður sínar hafi verið óvenjulegar.  Hann hafi verið nýkominn hingað til starfa sem verkamaður.  Því séu meðaltekjur verkamanna réttari mælikvarði um líklegar framtíðartekjur heldur en lágmarkslaun.  Því krefjist hann þess að bætur verði reiknaðar eftir meðallaunum verkamanna árið 2007.  Miðar hann því við árslaunin 4.367.520 krónur. 

                Í stefnu voru hafðar uppi ýmsar röksemdir um frádrátt frá bótum vegna greiðslna Tryggingastofnunar.  Undir rekstri málsins jafnaðist ágreiningur aðila um þennan þátt, en uppi er ágreiningur um hvernig fara skuli með félagslegar bætur sem stefnandi fær greiddar í […].  Stefndi telur að ekki skuli draga þær frá bóta­kröfunni, en þær verði ekki felldar undir ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Segir hann að með hugtakinu almannatryggingar sé átt við bætur samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar og eldri lögum um sama efni.  Ef ætlun löggjafans hefði verið sú að horfa bæri til réttinda utan Íslands hefði borið að víkja að slíku berum orðum í ákvæðinu.  Hér skipti einnig máli það mat löggjafans að með setningu laga nr. 53/2009 hafi alfarið verið horfið frá því að beita frádrætti frá skaðabótakröfu vegna réttinda tjónþola úr almannatryggingum samkvæmt lögum nr. 100/2007 í alvarlegri slysum líkt og slysi stefnanda.  Þó svo að Hæstiréttur hafi kveðið úr um að lögum nr. 53/2009 verði ekki beitt með afturvirkum hætti um slys sem áttu sér stað fyrir gildistöku laganna þann 1. maí 2009, þá verki lögin til skýringar 4. mgr. 5. gr. laganna í eldri gerð. 

                Þá krefst stefnandi 50% álags á varanlegan miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.  Hann hafi við slysið hlotið alvarlega fjöláverka, sem leitt hafi til verulegrar andlegrar og líkamlegrar skerðingar.  Stefnandi búi þannig við mikla líkamlega og andlega fötlun eftir slysið.  Hann sé öðrum háður um flestar daglegar athafnir og ófær um að búa einn.  Þá hafi hann á árinu 2012 greinst með flogaveiki. 

                Grunnfjárhæð miska að teknu tilliti til hækkunar lánskjaravísitölu frá gildistöku skaðabótalaga fram til 18. apríl 2009, sem marki upphafsdag dráttarvaxta samkvæmt uppgjöri aðila þann 4. desember 2009, nemi 8.097.500 krónum.  Að viðbættu 50% álagi nemi grunnmiski 12.146.250 kr., eða 10.931.625 kr. miðað við 90 stiga miska. 

                Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína þannig:

Eftirst. þjáningarbóta                                                            617.337 kr.

Bætur vegna varanlegrar örorku:

  4.367.520 kr. * 14,836 * 100%                                     64.796.527 kr.

Bætur vegna varanlegs miska:

  12.146.250 kr. * 90%                                                     10.931.625 kr.

                                                                               Samtals                 76.345.489 kr.

Frádráttur:

Eingreiðsluverðmæti bóta SÍ/TR                                      -4.371.362 kr.

Bætur úr slysatryggingu launþega                                  -13.731.884 kr.

Innborgun stefnda VÍS 4.10.2013                                  -14.874.821 kr.

                                                                               Samtals                 -32.978.067 kr.

                                                               Aðalkrafa samtals                43.367.422 kr.

                Varakrafa stefnanda byggir á því, fallist héraðsdómur ekki á forsendur aðal­kröfu varðandi árslaunaviðmið, að við ákvörðun árslaunaviðmiðs beri með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og nýlegra dóma Hæstaréttar að leggja til grundvallar upp­reiknuð laun stefnanda þann tíma sem hann starfaði hjá hjá Byggingafélaginu B ehf. á árinu 2006.  Fyrir liggi að meðal mánaðarlaun stefanda með orlofi fyrir slys hafi numið 305.333 kr. Sú fjárhæð hafi verið lögð til grundvallar uppgjöri tímabundins tekjutaps.  Meðal mánaðarlaun stefnanda árið 2006 án orlofs hafi numið 277.148 krónum.  Samkvæmt því hafi árslaun numið 3.591.838 krónum að teknu tilliti til mót­framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð.  Verðbætt til stöðugleikadags þann 30. ágúst 2007 nemi árslaunaviðmið 3.971.554 krónum.  Varakröfu sína sundurliðar stefnandi svo:

Eftirst. þjáningarbóta                                                             617.337

Bætur vegna varanlegrar örorku:

    3.934.780 * 14,836 * 100%                                        58.376.398

Bætur vegna varanlegs miska:                                       

                   12.146.250 * 90%                                                           10.931.625 .

                                                                                              Samtals 69.925.360

Frádráttur:

Eingreiðsluverðmæti bóta SÍ/TR                                    -4.371.362

Bætur úr slysatryggingu launþega                                  -13-731.884

Innborgun stefnda VÍS 4.10.2013                                  -14.874.821

                                                                                              Samtals -32.978.067

Varakrafa samtals 36.947.293 krónur. 

                Stefnandi vísar til almennu skaðabótareglunnar og þeirrar meginreglu að skaðabætur eigi að gera tjónþola eins settan og ef slys hefði ekki orðið.  Um forsendur og útreikning bótakröfunnar vísar hann til skaðabótalaga, einkum 1. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr., og 15. gr.  Þá vitnar hann til laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, einkum I. til IV. kafla, svo og ákvæða eldri laga um sama efni nr. 119/1993, laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, einkum 1., 8. og 9. gr., svo og eldri laga um sama efni nr. 118/1993.

                Stefnandi krefst nú dráttarvaxta frá 10. júní 2009.  Vextir sem féllu á fyrir þann dag séu fyrndir, en mál þetta var höfðað 10. júní 2013.  Hann mótmælir því sérstaklega að málshöfðun hafi verið dregin til að afla dráttarvaxta fyrir langt tímabil, eins og stefndi heldur fram. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fengið greiddar að fullu þær bætur sem hann eigi rétt á úr hendi stefnda. 

                Stefndi mótmælir því að unnt sé að miða við meðallaun verkamanna hér á landi á árinu 2007 við útreikning bóta fyrir varanlega örorku stefnanda.  Stefnandi hafi verið 24 ára gamall á slysdegi.  Hann hafi lokið námi í grunn- og framhaldsskóla í […] og lært bifvélavirkjun, en aldrei starfað í faginu.  Hann hafi verið í bygginga­vinnu í […]. 

                Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki ætlað sér að vinna hér á landi til fram­búðar, heldur ætlað að vinna hér um tíma til að safna peningum fyrir frekara námi.  Því geti meðalárslaun verkamanna hér á landi ekki endurspeglað líklegar framtíðar­tekjur stefnanda.  Ekkert bendi til þess að stefnandi hafi ætlað sér að starfa hér á landi í framtíðinni, heldur þvert á móti. 

                Þar sem stefnandi hafi áður en hann kom hingað til lands verið í bygginga­vinnu í […] væri nærtækast að miða við vinnutekjur stefnanda í […] síðustu þrjú ár fyrir slysið í samræmi við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi hafi ekki upplýst hvaða tekjur hann hafi haft og því ekki sýnt að þær tekjur séu umfram lágmarksárslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Því séu ekki efni til annars en að miða við lágmarksárslaun 3. mgr. 7. gr.  

                Stefndi mótmælir því einnig að unnt sé að reikna framtíðartekjur eftir launum stefnanda í það stutta tímabil, einn og hálfan mánuð, sem hann vann hér fyrir slysið, en á því er varakrafa stefnanda byggð.  Almennt sé einn og hálfur mánuður allt of skammur tími til að byggja á sem viðmiðun um framtíðartekjur, a.m.k. þegar ekki liggi fyrir að um framtíðarstarf sé að ræða.  Þá hafi þessi vinna stefnanda ekki verið hugsuð sem framtíðarstarf, heldur starf til bráðabirgða til fjáröflunar til frekara náms annars staðar.  Það geti því ekki orðið marktækur mælikvarði á framtíðartekjur. 

                Stefndi segir að við bótauppgjörið 4. desember 2009 hafi verið dregið frá bótum fyrir varanlega örorku eingreiðsluverðmæti félagslegra bóta frá Trygginga­stofnun.  Gert hafi verið ráð fyrir því að stefnandi nyti örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar og heimilisuppbótar.  Þetta hafi verið byggt á þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Hins vegar hafi komið í ljós að stefnandi nyti aðeins örorkulífeyris.  Þá hafi stefnandi átt rétt til félagslegra bóta í […] vegna slyssins frá 1. júlí 2010 til 31. des. 2015. 

                Stefndi byggir á því að draga beri félagslegar bætur stefnanda í […] frá skaðabótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Sama eigi við um greiðslur úr lífeyrissjóðum.  Þá sé það meginregla að bætur sem tjónþoli fái frá þriðjamanni skuli koma til frádráttar skaðabótum úr hendi tjónvalds.  Undantekningar frá þeirri reglu verði því að skýra þröngt.  Þá sé það andstætt jafnræðissjónarmiðum, að mismunandi reglur gildi um frádrátt við uppgjör skaðabóta eftir því hvort tjónþoli er erlendur eða íslenskur og fái félagslegar bætur frá erlendum eða innlendum almannatryggingum og lífeyrissjóðum. 

                Stefndi byggir á því að 15% álag á varanlegan miska sé hæfilegt í tilviki stefnanda, en mótmælir því að álagið verði hærra.  Skilyrði þess að heimilt sé að bæta álagi við miskabætur sé að „sérstaklega standi á“, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.  Fram komi í athugasemdum í frumvarpi til skaðabótalaga að heimilt skuli vera í undantekningartilvikum að veita hærri bætur, einkum þegar tjónþoli hafi orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, t.d. bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og jafnframt misst sjón á báðum augum. 

                Ekki sé um það að ræða að stefnandi hafi tapað sjón á báðum augum og orðið jafnframt fyrir lömun líkamans eða missi útlima.  Þá sé hann ekki ófær um að sinna frumþörfum daglegs lífs.  Því sé álitamál hvort yfirleitt hafi verið tilefni til þess að hækka miskabætur til stefnanda.  Það hafi þó verið gert með 15% álagi.  Krafa um hámarksálag sé hins vegar úr öllu hófi og ekki í samræmi við dómvenju.  Það sé rétt að stefnandi hafi orðið fyrir mikilli andlegri skerðingu auk þess sem vinstri fótur sé krepptur og nýtist lítið.  Hann geti ekki búið einn eða haldið heimili án aðstoðar.  Á móti komi að stefnandi sé sjálfbjarga með frumþarfir daglegs lífs (hreinlæti, klæðnað, borðhald), hann hafi ekki lamast og ekki misst útlimi.  Hann geti gengið við hækjur. Sjón hafi skerst aðeins að hluta á öðru auga og heyrn að hluta á öðru eyra.  Í örorku­mati sé tekið fullt tillit til andlegrar og líkamlegrar skerðingar stefnanda og félagslegra aðstæðna hans við mat á varanlegum miska. 

                Stefndi mótmælir því að dráttarvextir verði reiknaðir fyrr en að liðnum mánuði frá birtingu stefnu, en þrjú og hálft ár hafi liðið frá því að bætur voru gerðar upp og þar til stefna var birt.  Ekki sé rétt að tjónþoli geti ávaxtað kröfur sínar með dráttar­vöxtum með því að draga málshöfðun um árabil.  Með birtingu stefnunnar hafi stefndi fyrst séð endanlega kröfugerð stefnanda.

                Í greinargerð stefnda er vísað til meginreglna skaðabótaréttar, 4. og 7. gr. skaðabótalaga og lögskýringargagna með þeim, 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 og lokamálsgreinar 9. gr. laga nr. 38/2001. 

                Í munnlegum málflutningi mótmælti stefndi því að tekið yrði tillit til frásagna um flogaveiki stefnanda.  Taldi hann að ósannað væri samband milli þess og slyssins.  Stefnandi mótmælti þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. 

                Niðurstaða

                Áður en fjallað verður um þau þrjú ágreiningsefni sem enn eru uppi milli aðila verður að fjalla um frásagnir af flogaveiki sem greinst hafi hjá stefnanda.  Þetta atriði getur eins og kröfugerð er háttað eingöngu komið til skoðunar ásamt öðru varðandi hækkun miskabóta.  Frásögn af þessu kom fram í stefnu og er vikið að því í greinar­gerð stefnda, án þess að mótmælum sé hreyft sérstaklega, en svo sem venja er þá er öllum kröfum og málsástæðum mótmælt með almennri yfirlýsingu.  Að þessu virtu verður að hafa hliðsjón af þessum upplýsingum um flogaveiki við ákvörðun um miskabótakröfu stefnanda. 

                Stefnandi krefst þess að miskabætur verði reiknaðar í samræmi við 4. gr. skaðabótalaga og að þær verði hækkaðar um helming samkvæmt 3. mgr.  Við uppgjör það sem stefndi vill telja endanlegt voru miskabætur hækkaðar um 15%.  Nokkur dæmi eru um það í dómaframkvæmd að fallist er á hækkun miskabóta, en almennt skal hækkun einungis beitt þegar um fjölþætta áverka er að ræða, sem hver um sig veldur verulegum miska sem heildarmiskastig nær ekki að sýna með réttu.  Er gjarnan tekið dæmi um að viðkomandi sé ósjálfbjarga um flestar athafnir daglegs lífs. 

                Stefnandi er samkvæmt gögnum málsins ekki ósjálfbjarga um hreinlæti, mat og klæði.  Hann hefur hins vegar hlotið verulega bæði líkamlega og andlega skerðingu.  Verður einnig að líta til þess að hann hefur fengið flogaveikikast.  Er að þessu virtu rétt að hækka miskabætur til hans samtals um 30%.  Verða honum því dæmdar 1.093.995 krónur undir þessum lið. 

                Stefndi hefur greitt stefnanda bætur fyrir varanlega örorku sem hann reiknaði eftir lágmarksviðmiðun 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Í þessu ákvæði er fjallað um það sem nefnt er í upphafsorðum 1. mgr. árslaun til ákvörðunar bóta.  Bætur eru reiknaðar eftir tilteknum árslaunum.  Þegar þessi viðmiðun er ákveðin á að leita eftir því sem í lok 2. mgr. er kallað líklegar framtíðartekjur tjónþola.  Skaðabótum vegna varanlegrar örorku er ætlað að bæta tekjutap sem vænta má vegna minni starfsorku, í þessu tilviki engrar starfsorku.  Meta verður hvaða laun stefnandi hefði að óbreyttu haft.  Þannig er fundin sú fjárhæð sem bætt skal. 

                Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skulu líklegar framtíðartekjur reiknaðar sem meðaltal atvinnutekna tjónþola síðustu þrjú almanaksárin áður en hann slasaðist, framreiknað með tilteknum hætti.  Á þessi regla ágætlega við um þorra fólks, en gert er ráð fyrir því að tekjur séu tiltölulega jafnar milli ára.  Í 2. mgr. segir að árslaun skuli metin sérstaklega þegar aðstæður eru óvenjulegar og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari.  Ágreiningur aðila þessa máls snýst um það hvort unnt er að miða við laun sem vænta má að stefnandi hefði fengið hér á landi, eða hvort miða beri við laun sem hann hafði síðustu árin fyrir slysið, í […].  Stefnandi hefur kosið að segja ekki hvaða laun hann hafði í […]. 

                Engin haldbær gögn eru til um framtíðaráform stefnanda er hann slasaðist.  Hann hefur sennilega velt ýmsu fyrir sér, eins og títt er um unga menn, en ekki er augljóst hvert hugur hans stefndi.  Þá er hann ekki til frásagnar um hugmyndir þær sem hann gerði sér.  Ekki er hægt að útiloka að stefnandi hefði sest að hér á landi og unnið í byggingavinnu eða öðrum störfum ófaglærðra.  Hann hafði alla möguleika til þess og ekki hægt að búast við öðru en að hann hefði fljótt náð þeim tökum á tungu­málinu að hann gæti bjargað sér vel.  Hann átti hins vegar ekki fjölskyldu hér á landi, foreldrar hans voru búsettir í […].  Fjölskylduaðstæður ungs fólks geta þó breyst með skömmum fyrirvara. 

                Þegar haft er í huga að stefnandi hafði einungis verið hér á landi í um sex vikur er ekki hægt að miða áætlun um árslaun við þau laun sem hann hafði fengið hér eða meðallaun verkamanna annars.  Verður stefnandi að bera hallann af því að ekki eru fram komnar nægilega skýrar vísbendingar til að draga af ályktanir.  Verður ekki hjá því komist að notast við lágmarksviðmiðun 3. mgr. 7. gr.  Stefndi hefur þegar greitt bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt þeirri viðmiðun og verður því hafnað kröfu um frekari bætur samkvæmt þessum lið. 

                Loks deila aðilar um frádrátt vegna bóta er stefnandi fær frá félagsmála­yfirvöldum í […].  Um þetta gildir 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Það er ekki alveg nákvæmt þegar stefndi heldur því fram að það sé meginreglan að draga bætur frá þriðjamanni frá skaðabótakröfu.  Það er meginreglan um tjón á munum, en ekki um bætur vegna líkamstjóns.  Ákvæði 4. mgr. 5. gr. er tæmandi og í lokamálsliðnum segir að aðrar greiðslur en þar eru taldar upp verði ekki dregnar frá.  Frádráttarliðirnir eru að sönnu víðtækir, en til þess að draga frá þær bætur er stefnandi fær frá félagsmála­yfirvöldum í […] yrði að beita hér lögjöfnun.  Þegar ákvæðið er skoðað tiltekur það mjög nákvæmlega hvaða bætur skuli dragast frá og er frádráttur að forminu til undantekning, þ.e. ekki er annað dregið frá en það sem talið er upp.  Í því ljósi er ótækt að beita hér lögjöfnun eða rýmkandi lögskýringu.  Verður að skýra ákvæðið eftir orðanna hljóðan og fallast á kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið.  Sjónarmið um jafnræði hagga ekki þessari niðurstöðu. 

                Í endanlegri kröfugerð stefnanda er krafist eftirstöðva þjáningabóta að fjárhæð 617.337 krónur.  Þessa kröfuliðar er ekki getið í stefnu, en stefndi samþykkti að kröfu­liðurinn kæmist að og mótmælir hann honum ekki.  Verður þessi krafa því tekin til greina. 

                Samkvæmt framansögðu verða stefnanda dæmdar hærri miskabætur en hann hefur þegar fengið greiddar, 1.093.995 krónur til viðbótar.  Þá verða bætur hækkaðar um 5.254.408 krónur frá fyrra uppgjöri stefnda, þar sem ekki er fallist á að draga skuli frá bætur frá […] félagsmálayfirvöldum.  Þá eru þjáningabætur hækkaðar eins og áður segir um 617.337 krónur. 

                Krafan ber dráttarvexti eins og stefnandi krefst, þó þannig að dráttarvextir af þjáningabótum reiknast frá 16. desember 2013, er sú krafa var fyrst höfð uppi fyrir dómi.  Ekki verður fallist á andmæli stefnda sem byggjast á því að málið hafi legið óhreyft um langt skeið, en stefnandi hefur skýrt frá því að óformlegar viðræður hafi verið í gangi mikinn hluta þess tíma sem leið frá uppgjörinu þar til stefna var birt. 

                Fallist er á hluta af kröfum stefnanda, en þeirri sem er hæst er hafnað.  Verður litið til þessa við ákvörðun málskostnaðar.  Stefnandi hefur gjafsókn og er þóknun lögmanns hans ákveðin með virðisaukaskatti 1.500.000 krónur.  Stefndi verður dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 6.965.740 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 6.348.403 krónum frá frá 10. júní 2009 til 16. desember 2013, en af 6.965.740 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

                Þóknun lögmanns stefnanda, 1.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

                Stefndi greiði 500.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.