Hæstiréttur íslands
Mál nr. 676/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2014. |
|
Nr. 676/2014.
|
Íslandsbanki hf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) gegn Helgu Laufeyju Guðmundsdóttur (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Í hf. gegn H var vísað frá dómi þar sem Í hefði hvorki lagt fram endurútreikning á láni, sem lá til grundvallar kröfu hans né vísað til dóma sem slíkur endurútreikningur byggði á. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að í stefnu og gögnum sem Í hefði lagt fram við þingfestingu málsins í héraði hefði verið gerð grein fyrir tölulegum forsendnum dómkrafna hans auk þess sem tekið hefði verið fram að við endurútreikning lánsins hefði verið tekið tillit til dóma Hæstaréttar um ólögmæti þess að tengja lánsfjárhæðir lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Af þessu yrði nægilega ráðið hver væri grundvöllur dómkröfu Í og töluleg útfærsla. Þá taldi Hæstiréttur að skortur á tilvísun til dómafordæma í stefnu gæti ekki varðað frávísun málsins. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2014 þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 sætir kæru til Hæstaréttar úrskurður héraðsdóms um að máli sé vísað frá dómi. Samkvæmt gagnályktun frá þessu ákvæði verður ekki skotið til réttarins með kæru úrlausn héraðsdóms þar sem kröfu um frávísun er hrundið. Af þessu leiðir að hér fyrir dómi koma eingöngu til endurskoðunar þær ástæður sem héraðsdómur taldi varða frávísun málsins. Aðrar ástæður koma því ekki til úrlausnar nema því aðeins að þær leiði til frávísunar málsins án kröfu.
Í hinum kærða úrskurði var fallist á frávísunarkröfu varnaraðila á þeim grundvelli að sóknaraðili hefði hvorki lagt fram endurútreikning á láni því, sem liggur til grundvallar kröfu hans þess efnis að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í nánar tilgreindri fasteign varnaraðila, né vísað til dóma sem slíkur endurútreikningur byggði á.
Í stefnu málsins og þeim gögnum sem sóknaraðili lagði fram við þingfestingu þess í héraði er gerð grein fyrir tölulegum forsendum dómkrafna hans. Þar kemur auk þess fram að sóknaraðili hafi með endurútreikningi tekið tillit til dóma Hæstaréttar þar sem dæmt hefur verið ólögmætt að tengja fjárhæðir lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Af þessu verður nægilega ráðið hver er grundvöllur dómkröfu sóknaraðila og hver sé töluleg útfærsla hennar. Getur varnaraðila því ekki dulist hver krafan er, hvernig hún er til komin og hvernig sóknaraðili rökstyður hana. Þá getur skortur á tilvísun til dómafordæma í stefnu ekki varðað frávísun málsins. Ágreiningur um endanlega fjárhæð eftirstöðva þeirrar kröfu sem sóknaraðili telur sig eiga á hendur varnaraðila heyrir til úrlausnar um efnishlið málsins.
Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Helga Laufey Guðmundsdóttir, greiði sóknaraðila, Íslandsbanka hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2014.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 2. september 2014, er höfðað 7. maí 2014. Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, vegna útibús 0544. Stefnda er Helga Laufey Guðmundsdóttir, Spóaási 22, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að fyrir dóminum muni stefnandi gera þær kröfur að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefndu að Spóaási 22, Hafnarfirði, fastanúmer 224-5260, á grundvelli veðtryggingarbréfs, útgefnu 7. mars 2000, allsherjarveðs tryggðu með 1. veðrétti í eigninni, að höfuðstól 6.000.000 kr. til tryggingar skuld Ocean Direct ehf., kt. [...], við stefnanda að fjárhæð 102.481.096 kr. Þá er gerð krafa um málskostnað.
Stefnda krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að stefnda verði sýknuð af kröfum stefnanda. Einnig er gerð krafa um málskostnað.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu.
I.
Í stefnu segir að umrætt tryggingarbréf standi samkvæmt efni sínu til tryggingar efndum á skuldbindingum Ocean Direct ehf. gagnvart stefnanda. Bú félagsins hafi verið tekið til skipta sem gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2011. Skiptum á búinu sé lokið.
Ocean Direct ehf. hafi m.a. verið skuldari samkvæmt lánssamningi útgefnum 18. september 2007 við stefnanda. Höfuðstóll skuldarinnar hafi upphaflega verið að jafnvirði 118.057.799 kr. Samkvæmt lánssamningnum hafi krafa stefnanda verið verðtryggð með því að hún hafi verið tengd við þróun á gengi erlendra gjaldmiðla. Vegna óvissu um lögmæti lánssamningsins hafi stefnandi endurreiknað kröfu sína með hliðsjón af dómum Hæstaréttar.
Af skuld sinni hafi félagið greitt afborganir samtals að fjárhæð 9.136.848 kr. Umsamda vexti hafi félagið greitt til 12. maí 2009. Hafi stefnandi því reiknað almenna óverðtryggða vexti á kröfu sína frá þeim degi til 3. júní 2009. Þann dag hafi orðið greiðslufall á skuldinni og hún þá öll fallið í gjalddaga í samræmi við skilmála lánssamningsins. Hafi skuldin borið dráttarvexti upp frá því. Við úthlutun úr þrotabúinu hafi verið greiddar samtals 88.431.726 kr. upp í kröfuna og nemi eftirstöðvar hennar nú 102.481.096 kr.
Stefnandi krefst þess að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefndu, til tryggingar umræddri skuld samkvæmt tryggingarbréfinu. Stefnandi kveðst setja kröfuna fram til þess að geta fullnustað kröfu sína sem tryggð sé með veði í umræddri fasteign á grundvelli tryggingarbréfs sem eiginmaður stefndu gaf út til handa stefnanda 7. mars 2000. Um sé að ræða bréf sem hafi tryggt allar skuldbindingar útgefandans við stefnanda, hverju nafni sem nefndust, svokallað allsherjarveð. Stefnda hafi samþykkt veðsetningu eignar sinnar með áritun á bréfið. Með yfirlýsingu 3. febrúar 2005 hafi ákvæðum tryggingarbréfsins verið breytt á þann veg að upp frá því hafi bréfið einnig staðið til tryggingar öllum skuldum einkahlutafélagsins Ocean Direct ehf. sem hafi verið í eigu eiginmanns stefndu.
II.
Frávísunarkrafa stefndu er byggð á því að orðalag dómkröfu í stefnu sé mjög óljóst þar sem þar segi að stefnandi „muni“ gera kröfur um að honum verði dæmdur réttur, en slík framsetning sé ekki í anda reglunnar um ákveðna og ljósa kröfugerð. Þá segir stefnda að orðalag dómkröfu í stefnu sé breytt miðað við annað orðalag dómkrafna í fyrri stefnum stefnanda um sams konar málefni. Ekki sé skýrt hvað vaki fyrir stefnanda, hvort hann ætli að gera fjárnám í fasteigninni á eftir áhvílandi skuldum eða gera fjárnám inn í tryggingarbréfið. Þá verði stefnandi fyrst að fá dóm um kröfu sína samkvæmt lánssamningnum áður en honum verði dæmdur réttur til að gera fjárnám í fasteign stefndu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Stefnda telur málatilbúnað stefnanda óljósan og vanreifaðan. Útlistun stefnanda um stöðu kröfunnar sé alls óljós og í stefnu hafi ekki verið getið skilmálabreytinga sem hafi verið gerðar á lánssamningnum og greiðslum samkvæmt þeim og úthlutun úr þrotabúi félagsins. Þá liggi ekki fyrir endurútreikningur á lánssamningnum og því alls óljóst að Ocean Direct ehf. skuldi stefnanda, því að allir lánssamningar félagsins við stefnanda hafi verið ólögmætir gengislánasamningar sem hafi ekki verið endurútreiknaðir. Úthlutunin úr þrotabúi félagsins sem varði sölu á heildareignum félagsins sé því marki brennd að hún byggist öll á röngum kröfulýsingum um stöðu krafna stefnanda á hendur Ocean Direct ehf. samkvæmt ólögmætum lánssamningum sem hafi ekki verið endurútreiknaðir og sé því nauðsyn á að allir samningar félagsins við stefnanda verði endurútreiknaðir og fengin rétt staða á þeim til að hægt sé að sjá hver raunveruleg staða félagsins hafi verið eftir sölu heildareigna félagsins í þrotabúinu.
Enginn endurútreikningur hafi verið kynntur skiptastjóra, stefndu eða fyrrverandi forsvarsmönnum félagsins. Stefnandi geti ekki gert kröfu á hendur stefndu nema krafa hans sé hafin yfir vafa um rétta fjárhæð vegna sölu allra eigna félagsins og þá um leið endurútreikningur allra ólögmætra gengislánasamninga félagsins og þar sem enginn endurútreikningur liggi fyrir eða hafi verið lagður fram í málinu sé slíkt ekki fyrir hendi. Stefnandi geti einfaldlega ekki tekið einn samning út úr við þessar aðstæður. Þá bendir stefnda á að stefnandi hafi rekið sams konar mál vegna sama lánssamnings fyrir dómi á hendur stefndu, sem þingfest var 20. mars 2013, en þar hafi staða lánssamnings verið sögð 86.443.776 kr.
Þá segir stefnda að dráttarvaxtakrafa stefnanda sem myndi höfuðstól í dómkröfu sé röng og vanreifuð og ekki verði séð að hún hafi lagastoð með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en þar segi: „Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum.“ Samkvæmt framansögðu sé alls óheimilt að reikna dráttarvexti á ólögmætt lán sem endurútreikningur liggi ekki fyrir um og teljist heildarkrafa stefnanda sem getið sé í dómkröfu því verulega vanreifuð.
Þannig fáist ekki séð að kröfur stefnanda séu dómhæfar sökum óljósrar kröfugerðar og vanreifunar og beri því að vísa máli þessu frá dómi með vísan til d-, e- og g-liðar 1. mgr. 80 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í greinargerð stefndu er einnig á því byggt að vísa beri máli þessu frá dómi skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, þar sem stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni.
III.
Stefnandi hefur áður höfðað mál á hendur stefndu á grundvelli veðtryggingarbréfs útgefnu 7. mars 2000 til tryggingar skuld Ocean Direct ehf., sbr. dóm Hæstaréttar frá 20. mars 2014 í máli nr. 673/2013. Í því máli var meint skuld Ocean Direct ehf. 30.301.053 kr. og var hún reist á lánssamningi félagsins við Sparisjóð Hafnarfjarðar, dags. 1. nóvember 2007, upphaflega að höfuðstól 42.600.000 kr. Í héraði var staðfestur 1. veðréttur í fasteign stefndu samkvæmt veðtryggingarbréfinu útgefnu 7. mars 2000 til tryggingar skuldum Ocean Direct ehf. við stefnanda að fjárhæð allt að 6.000.000 kr. Stefnda áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að dómur um viðurkenningu á veðrétti samkvæmt tryggingarbréfinu gæti hvorki veitt stefnanda heimild til aðfarar né til að krefjast nauðungarsölu á eign nema m.a. að uppfylltu því skilyrði að um væri að ræða tryggingu fyrir tiltekinni peningakröfu. Taldi Hæstiréttur á hinn bóginn að stefnandi hefði lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hvort fjárkrafa hans væri fyrir hendi og hún væri tryggð með veði í fasteigninni samkvæmt tryggingarbréfinu. Þar sem ekki hefði verið tekin rökstudd afstaða til þessa atriðis í dómi héraðsdóms, en jafnframt veittur dómur um atriði sem stefnandi gerði ekki kröfur um, var hinn áfrýjaði dómur ómerktur án kröfu og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Þegar málið var tekið fyrir í héraði 18. mars 2014 lýsti stefnandi því yfir að hann felldi málið niður. Hinn 8. apríl 2014 var kveðinn upp úrskurður um niðurfellingu málsins og var stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað.
Stefnandi höfðaði mál að nýju á hendur stefndu 7. maí 2014, sem hér er til úrlausnar, þar sem hann krefst þess að honum verði dæmdur réttur til að gera fjárnám í fasteign stefndu á grundvelli veðtryggingarbréfs, útgefnu 7. mars 2000, allsherjarveðs tryggðu með 1. veðrétti á eigninni, að höfuðstól 6.000.000 kr., til tryggingar skuld Ocean Direct ehf. að fjárhæð 102.481.096 kr. Um er að ræða meinta skuld samkvæmt lánssamningi, milli Ocean Direct ehf. og Byrs sparisjóðs, útgefnum 18. september 2009 að jafnvirði 118.057.799 kr. Skilmálabreytingar voru þrisvar gerðar á lánssamningnum en þeirra er ekki getið í stefnu málsins. Ágreiningslaust er að krafa Byrs sparisjóðs var framseld stefnanda.
Ekki er ástæða til að vísa máli þessu frá dómi vegna þess að dómkrafa stefnanda sé orðuð þannig að hann „muni“ gera kröfu um að honum verði dæmdur réttur til þess að gera fjárnám í fasteign stefndu. Af greinargerð stefndu verður ekki annað ráðið en að henni sé fullljóst hvað vaki fyrir stefnanda. Þá verður með hliðsjón af framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 673/2013 að hafna því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni og því að hann þurfi fyrst að fá dóm fyrir meintri skuld. Einnig verður að hafna því að í máli þessu verði að fjalla um alla lánssamninga aðila í einu lagi og heildarskuld Ocean Direct ehf., enda er krafa stefnanda grundvölluð á meintri skuld samkvæmt sjálfstæðum lánssamningi. Sjónarmið stefndu hvað varðar dráttarvexti á meintri skuld varða efni máls og geta ekki leitt til frávísunar málsins. Hins vegar verður að fallast á með stefndu að málið sé vanreifað þar sem enginn endurútreikningur hefur verið lagður fram. Í stefnu málsins segir að samkvæmt lánssamningnum 18. september 2007 hafi krafa stefnanda verið verðtryggð með því að hún hafi verið tengd þróun á gengi erlendra gjaldmiðla og að vegna óvissu um lögmæti samningsins að þessu leyti hafi stefnandi endurreiknað kröfu sína með hliðsjón af dómum Hæstaréttar. Í stefnu kemur hins vegar ekki fram um hvaða dóma er að ræða og stefnandi lagði ekki fram þann endurútreikning sem hann segir að hafi verið gerður á láninu. Stefnda hefur því ekki getað tekið afstöðu til þess í greinargerð sinni hvort fjárkrafa stefnanda samkvæmt téðum lánssamningi sé fyrir hendi. Með vísan til framangreinds og með hliðsjón af e- og g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður fallist á frávísunarkröfu stefndu.
Eftir þessum úrslitum verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 kr.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Íslandsbanki hf., greiði stefndu, Helgu Laufeyju Guðmundsdóttur, 150.000 krónur í málskostnað.