Hæstiréttur íslands

Mál nr. 390/2003


Lykilorð

  • Dómari
  • Meðdómsmaður
  • Vanhæfi
  • Ómerking héraðsdóms


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. apríl 2004.

Nr. 390/2003.

Guðrún Valdís Eyvindsdóttir

Sigurður Jónas Baldursson og

Kristján Stefánsson

(Magnús Guðlaugsson hrl.

gegn

Grýtubakkahreppi

(Ólafur Björnsson hrl.)

og gagnsök

 

Dómarar. Meðdómendur. Vanhæfi. Ómerking héraðsdóms.

Héraðsdómur var ómerktur þar sem annar sérfróðra meðdómsmanna í héraði tengdist fyrirtæki sem starfað hafði í þágu G með þeim hætti að GVE, SJB og KS töldust með réttu geta dregið óhlutdrægni dómsins í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. október 2003. Þau krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins í héraði frá 10. júní 2003 verði ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara og þrautavara krefjast þau þess að viðurkennd verði nánar tilgreind landamerki jarðanna Grenivíkur annars vegar og Grýtubakka I og Grýtubakka II hins vegar. Í öllum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómi var gagnáfrýjað 17. desember 2003. Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega að landamerki framangreindra jarða verði ákveðin á nánar tilgreindan hátt, en til  vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjendur reisa aðalkröfu sína á því að annar hinna sérfróðu meðdómsmanna í héraði hafi verið vanhæfur til að fara með málið vegna tengsla sinna við gagnáfrýjanda. Meðdómsmenn hafi verið kallaðir til setu í dóminum við upphaf aðalmeðferðar án samráðs við aðilana. Annar meðdómsmannanna, Haraldur Sveinbjörnsson, sé einn af eigendum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. og hafi verið útibússtjóri hennar á Akureyri frá 1984. Sú verkfræðistofa sjái um alla verkfræðivinnu fyrir gagnáfrýjanda. Sé meðdómsmaðurinn því fjárhagslega háður honum.

Gagnáfrýjandi andmælir þessari kröfu með því að hún sé of seint fram komin, þar sem hennar var fyrst getið í greinargerð aðaláfrýjenda til Hæstaréttar. Þá mótmælir hann því að tengsl meðdómsmannsins við fyrrnefnt fyrirtæki eigi að valda vanhæfi hans, þar sem það hafi aðeins tekið að sér einstök verkefni fyrir gagnáfrýjanda á undanförnum árum og hafi þau verið alls óskyld deiluefni þessa máls, auk þess sem annar nafngreindur starfsmaður fyrirtækisins hafi annast þau verkefni, sem unnin hafi verið fyrir gagnáfrýjanda. Þá bendir gagnáfrýjandi á að aðaláfrýjendur hafi ekki í héraði borið brigður á hæfi meðdómsmannsins þótt þeim hafi verið það í lófa lagið.

Að ákvörðun Hæstaréttar var málið tekið til dóms um aðalkröfu aðaláfrýjenda án munnlegs flutnings.

Eins og að framan greinir halda aðaláfrýjendur því fram að annar meðdómsmaðurinn í héraði, Haraldur Sveinbjörnsson, hafi frá árinu 1984 veitt útibúi Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. á Akureyri forstöðu og sé hann jafnframt einn af eigendum fyrirtækisins. Þessu hefur gagnáfrýjandi ekki mótmælt. Þá hafa aðaláfrýjendur lagt fyrir Hæstarétt bréf gagnáfrýjanda til lögmanns þeirra 30. október 2003, þar sem fram kemur að nefnd verkfræðistofa hafi annast tækniþjónustu og ráðgjöf fyrir gagnáfrýjanda síðastliðin fimm ár. Þessi tengsl meðdómsmannsins við gagnáfrýjanda eru til þess fallin að aðaláfrýjendur megi með réttu draga óhlutdrægni héraðsdóms í efa. Var meðdómsmanninum því ekki rétt að taka sæti í dómi í máli þessu, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því að ómerkja héraðsdóm og málsmeðferð í héraði frá og með því að meðdómsmenn tóku sæti í dómi og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur og málsmeðferð í héraði frá og með því að sérfróðir meðdómsmenn tóku sæti í dómi er ómerkt og er málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júlí 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní s.l., hafa Guðrún Valdís Eyvindsdóttir og Sigurður Jónas Baldursson, Grýtubakka 1, Grýtubakkahreppi og Kristján Stefánsson Grýtubakka 2, Grýtubakkahreppi, höfðað hér fyrir dómi með stefnu þingfestri 27. júní 2002 á hendur Grýtubakkahreppi, Gamla skólanum Grenivík.  Með gagnstefnu þingfestri 19. september 2002 höfðuðu stefndu í aðalsök gagnsök á hendur aðalstefnendum.

Í aðalsök krefjast stefnendur þess aðallega að dæmt verði að landamerki jarðanna Grenivíkur annars vegar og Grýtubakka 1 og Grýtubakka 2 hins vegar, séu úr punkti nr. 1 við Stóraklettagil og Gljúfurárvað í punkt nr. 2, sem er varða við reiðgötu á Leirdalsheiði um punkta nr. 3, 4, 5, 6, 7 og 8, sem eru varðaðar reiðgötur á Leirdalsheiði og í punkt nr. 9, sem er við Fossvað, allt samkvæmt landamerkjalýsingu fyrir Grýtubakka frá 3. desember 1889 og sýnd er á uppdrætti á dskj. nr. 3 í málinu.  Til vara krefjast aðalstefnendur þess að landamerki jarðanna Grenivíkur annars vegar og Grýtubakka 1 og 2 hins vegar séu úr punkti nr. 1 við Stóraklettagil og Gljúfurárvað í punkt nr. 2, sem er varða við reiðgötu á Leirdalsheiði um punkta nr. 3, 4, 5, 6, 7 og 8, sem eru varðaðar reiðgötur á Leirdalsheiði, þaðan í punkt nr. 10, sem er reiðgata í sneiðingi við hól, þaðan í punkt nr. 11, sem er á krossgötum við Sauðabæli og þaðan í punkt nr. 12 sem er vað á Illagilsá, allt samkvæmt landamerkjalýsingu fyrir Grýtubakka frá 3. desember 1889 og sem sýnt er á dskj. nr. 3.

Aðalstefnda hefur undir rekstri málsins fallist á kröfu stefnenda eins og hún er fram sett á dskj. nr. 3, frá punkti 1 til punkts 6, sem nefnist Hávörður, og verður sú merkjalína færð, hnitsett í uppdrátt með dómsorði máls þessa, að öðru leyti krefst aðalstefnda sýknu af kröfum aðalstefnenda.

Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að frá punkti nr. 6 á dskj. nr. 3 (Hávörðum) verði þjóðvegur látinn ráða merkjum allt til vaðs á Illagili þar sem nú er akbrú yfir ána.

Gagnstefnandi hefur fært kröfur sínar, hnitsettar á dskj. nr. 55.

Í gagnsök krefjast gagnstefndu sýknu.

Báðir aðilar krefjast málskostnaðar bæði í aðalsök og gagnsök.

Eins og kröfur aðila bera með sér snýst ágreiningur aðila um það hvar merki jarðanna Grýtubakka 1 og Grýtubakka 2 annars vegar og Grenivíkur hins vegar liggi á Leirdalsheiði frá svonefndum Hávörðum og norður úr.  Verður hér fjallað um aðalsök og gagnsök í einu lagi og aðalstefnendur nefndir stefnendur og gagnstefnandi nefndur stefndi.

Hin umþrættu merki liggja um land sem nefnt er Grenivíkurtungur og afmarkast það af tveimur ám, kemur önnur úr suðaustri og nefnist Illagilsá eða Austurá, en hin kemur úr suðvestri og nefnist Gilsá eða Vesturá, koma ár þessar saman við svokallaðan Tungusporð sem er neðsti hluti framangreindra Grenivíkurtungna.  Renna árnar síðan sem ein á norður í Hvalvatnsfjörð og nefnist hún þá Fjarðará eða Hvalvatnsfjarðará.

Á Vesturá eða Gilsá eru nefnd þrjú vöð í gögnum málsins, hið neðsta er skammt sunnan ármótanna og nefnist Sauðabæli, nokkru sunnar er vað sem kallast Fossvað, þá nefnist syðsta og efsta vaðið Skeiðarvað.  Á Austurá er aðeins nefnt eitt vað í gögnum málsins og er það ýmist nefnt „vað á Illagili“ eða Illagilsvað.

Dómurinn hefur ásamt aðilum og lögmönnum aðila gengið á hin umþrættu merki og skoðað svæðið og kynnt sér örnefni.

Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Grýtubakka frá 3. desember 1889, þinglesið 17. júní 1890 er landamerkjum milli Grýtubakka og Grenivíkur lýst svo á Leirdalsheiði: „Allt þar til lækur úr Stóraklettagili fellur í hann við Gljúfurárvað.  Þá ráða þaðan móti Grenivík reiðgötur á Leirdalsheiði út að vaði á Illagilsá.“

Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Grenivík frá 14. maí 1890 er merkjum jarðanna lýst svo:  „Að vestan ræður Grenjá í fjall upp út Grenjárdal út undir Þröskuld og þaðan bein stefna í vestari Gilsárupptök á Trölladal rétt utan við Þröskuld og vestari Gilsáin út í Tungusporð.  Á móti Grýtubakka ráða reiðgötur á Leirdalsheiði inn að læk þeim er rennur í Gljúfurá úr Stóraklettagili.“

Eins og kröfugerð aðila er háttað snýst ágreiningur aðila um hvar „vað á Illagilsá” er svo og hvar „reiðgötur“ hafi legið á Leirdalsheiði.

Í aðalkröfu sinni telja stefnendur að vað þetta sé það sem nefnist Fossvað á Vesturá eða Gilsá og rökstyðja stefnendur þá staðhæfingu sína með því að leið að vaði þessu sé greinilega vörðuð frá framangreindum Hávörðum og síðan sé leið vestan árinnar áfram vörðuð áleiðis norður í Hvalvatnsfjörð.  Telja stefnendur einsýnt að leið þessi hafi verið aðalleiðin norður í Fjörður áður en brýr voru settar á árnar.  Benda þeir á að gögn séu til um að á þessi hafi einnig verið nefnd Vestari Illagilsá.

Varakröfu sína um að „vað á Illagilsá“ sé rétt fyrir ofan ármót við Tungusporðinn á Austurá (Illagilsá) rökstyðja stefnendur með því að þar hafi verið auðveldast að fara yfir ána þegar mikið var í henni.  Vísa þau m.a. í bréf Árna Arasonar sem fram er lagt í málinu, þar sem fram kemur hans skoðun á þessu, en hann átti Grýtubakka og bjó þar fyrr á árum.  Þá vísa stefnendur til vettvangskönnunar dómsins í þessu sambandi.

Stefndi telur að vaðið yfir Illagil hafi verið þar sem brú er nú á ánni, en brú þessi var sett á ána árið 1965.  Vísar hann til ýmissa gagna sem fram eru lögð í málinu, þar sem fram kemur að áin hafi verið brúuð þar sem vaðið var.  Þá vísar stefndi til lýsingar í Sýslu- og sóknarlýsingum í Þingeyjarsýslum 1839-1844 eftir Pál Halldórsson, þar sem vaði á Illagili sé lýst mjög nákvæmlega svo ekki verði um villst hvar það sé.  Vaðinu sé svo lýst í bókinni á bls. 62-63:  „Brött sniðgata (einstigur) liggur beggja vegna ofan hamarinn að vaði árinnar Illagils, þeir sem koma héðan úr Fjörðum til Höfðahverfis koma fast undir fjallið - vegurinn liggur frá norðri til hásuðurs - kemur þessi voðalega spræna ofan úr fjallinu til vinstri hliðar.  Þverhníft standbjörg halda beggja vegna (að) ánni, þegar komið er niður fyrir hamarinn er hesturinn þegar stiginn með framfæturna út í ána, ekki er áin breiðari en 2 til 3 hestlengdir.  Klettar beggja vegna við hestinn.  Standi þessir steinar ekki upp úr vatninu er áin ekki fær sökum vaxtar.  Foss eða flúð, hér um átta - tíu fóta, eða tæpar þrjár álnir fyrir neðan hestinn til hægri séð.  Slái hestinum meira í vaðinu heldur en skipi á brimboða lendir hann tvílaust annað hvort á klettinum eða fer utan við hann og þá tekur fossinn við.  Ekki er hesturinn kominn upp úr með afturfætur þegar þann tekur heima í hamarnum.  Liggur þá hins vegar upp einstigur.“

Telur stefnda ofangreinda lýsingu mjög greinargóða á „vað á Illagilsá“ sem nefnt sé í Grýtubakkabréfinu.  Ljóst sé að það sé bara ein Illagilsá og á henni sé aðeins eitt vað.

Óumdeilt er að Austurá hafi einnig borið nafnið Illagilsá svo lengi sem vitað er.  Er það nafn í samræmi við þau gögn er fram eru lögð í málinu, bæði forn og ný, þá bera gögn málsins með sér að Vesturá hafi gengið á undir ýmsum nöfnum, svo sem Gilsá, Trölladalsá, Heiðará.  Í sýslu- og sóknarlýsingum Hins íslenska bókmenntafélags (Þönglabakka-Flateyjarsókn) er Vesturá nefnd Vestri Illagilsá, en það nafn er ekki að finna á ánni í öðrum gögnum málsins.  Í gögnum málsins eru þrjú vöð nefnd á Vesturá (Gilsá) nefnist það neðsta Sauðabæli, það næsta Fossvað og hið þriðja og efsta Skeiðarvað.

Árið 1894 var byggð göngubrú á Vesturá rétt við vaðið Sauðabæli.  Í fundargerðum sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps frá þessum tíma er brú þessi nefnd brú á Gilsá, Gilsárbrú eða bara Gilsbrú.  Sama er að segja um fundargerðir sem færðar voru þegar ný göngubrú var byggð.

Landamerkjalýsing sú sem rakin er að framan er gerð mjög skömmu áður en fyrsta brúin var reist, þykir ljóst bæði af þessu svo og öðrum gögnum málsins að Vesturá hafi verið nefnd Gilsá á þessum tíma, þ.e. þeim tíma sem merkjalýsingin er gerð.  Þá bera gögn málsins með sér að nafnið Fossvað sé gamalt nafn og hafi a.m.k. verið til þegar umræddar merkjalýsingar voru samdar.  Má því telja víst að það vað hefði verið nefnt með nafni ef við það væri átt í merkjalýsingunni. Í merkjalýsingu fyrir Grenivík er vestari áin nefnd „vestari Gilsá”.  Að þeirri lýsingu stóðu m.a. sömu menn og að merkjalýsingu Grýtubakka og aðeins liðu nokkrir mánuðir á milli.

  Dómurinn telur því fullvíst að „vað yfir Illagil“ sem um getur í merkjalýsingunni sé vað á Austurá frá Tungusporði og norður á Jórunnarstaðaafrétt.

Dómurinn hefur grandskoðað svæðið frá ökubrúnni sem reist var 1965 og niður að ármótum, þ.e. á Tungusporðinum.  Telur dómurinn að lýsing Páls Halldórssonar, sem að framan er rakinn, geti átt við stað þann er undir brúnni liggur, þó eru þar ekki steinar þeir er getið er um í lýsingunni.  Dómurinn telur að fært kunni að hafa verið yfir ána á þessum stað ef lítið var í henni. Nú sjást hins vegar engin merki þess í árbökkunum að um þá hafi verið farið, enda hefur þeim verið spillt við gerð brúarinnar.  Telja má líklegt að bakkinn að norðanverðu hafi verið tiltölulega greiðfær, en hins vegar hafi bakkinn að sunnanverðu verið erfiður umferðar.

Nokkru neðar við brúna sunnan megin árinnar í Tungusporðinum er klettasnös nokkur, liggur girðing fram á snösina og endar hún í tunnu er þar stendur.  Neðan við snös þessa nær ármótunum er tiltölulega greiðfært að ánni að sunnanverðu og er áin þar sæmilega greiðfær yfirferðar.  Hins vegar er mjög torsótt að komast upp eða niður bakkann að norðanverðu, þótt ekki sé það útilokað.  Engin merki sjást nú um umferð á þessum stað.

Á milli framangreindra staða, þ.e. ofan við framangreinda klettasnös, er árbakkinn að sunnanverðu fær þótt brattur sé.  Þá er augsýnilega fært upp með ánni nokkurn spöl, þar til hægt er að komast yfir hana.  Er árbakkinn að norðanverðu gróinn og tiltölulega auðfarinn á þessum stað og er þá komið að gilinu og upp út því rétt neðan við brú þá er áður getur.  Sýnist dóminum að þessi leið yfir ána sé auðveldust þeirra þriggja leiða er þarna eru taldar vera yfir ána.

Í málinu hefur verið lagt fram bréf Árna Arasonar sem áður er nefndur, sem dagsett er 12. október 1997, sem hann skrifaði stefnanda Jónasi Baldurssyni, þar segir:  „Þú hefur beðið mig að segja hugmyndir mínar um hvar Illagilsvað hafi verið úr Tungusporði yfir í Jórunnarstaðaafrétt.  Þegar ég fór að fara þarna fyrst með föðurbræðrum mínum fórum við alltaf niður með kletti þeim sem nú stendur á tunna í girðingarenda og síðar upp þar sem rutt var yfir þegar lagður var vegur frá brúnni, þegar hún var byggð og enn sér fyrir götunni efst í brúninni utan í ruðningnum efst í gilsbrúninni.  Hins vegar fór Björn (Björnsson) í Móbergi einu sinni með okkur þarna um og hann sagði að þetta væri ekki hið rétta Illagilsvað, það væri neðar, og þegar ég fór að hugleiða þetta hallast ég að því að þetta sé rétt.  Enda mun þar vera eini staðurinn sem hugsanlegt væri að nota sem vað ef eitthvað vex í ánni.  Hins vegar er aðkoman að ánni svo slæm þarna að norðan að eðlilegt var að fara auðveldari leið þegar ekki þurfti að velja vað og í slíkum tilvikum hygg ég að gata sú sem ég get um hér að framan hafi myndast.“

Stefnandi, Kristján Stefánsson, skýrir svo frá að hann hafi farið með Árna Arasyni yfir ána á þessum stað áður en ökubrúin var sett á Illagilsá.  Lýsir hann leiðinni á sama veg og Árni, þ.e. að farið hafi verið niður í gilið að sunnanverðu, austan kletts sem þar er og tunnan stendur á og síðan upp ána og yfir og komið upp að norðanverðu skammt neðan brúarinnar. 

Í dómskj. nr. 24 vísar stefndi í ummæli Jóns í Kolgerði þar sem hann segist hafa riðið niður í gilið að sunnan neðar en brúin stendur núna, riðið upp með bakkanum að sunnan og yfir ána á vaði og komið upp að norðan skammt frá brúarsporðinum.  Þarna hlýtur að vera um sömu leið að ræða og lýst er af Árna og Kristjáni. 

Svo sem að framan greinir er dómurinn sammála því áliti Árna Arasonar að leið sú er hann fór yfir ána sé sú auðveldasta, a.m.k. ef ekki þurfti að velja vað vegna vatnavaxta í ánni.  Telur dómurinn ekki varhugavert að álykta að við það vað hafi verið átt í merkjalýsingunni með orðunum „vað á Illagilsá“.  Hefur dómurinn hnitsett merkjapunkt á stað þeim er farið var niður í gilið að sunnanverðu.

Um neðri leiðina, sem er varakrafa stefnenda, telur dómurinn að þótt hún hafi stöku sinnum verið farin þegar mikið var í ánni sé ólíklegt að frá henni hafi legið þær reiðgötur sem til er vísað í merkjalýsingu. 

Í landamerkjalýsingu beggja jarðanna eru reiðgötur á Leirdalsheiði sagðar ráða merkjum jarðanna.  Við vettvangskönnun verður nú eigi séð við hvaða götur er átt, en ýmis merki reiðgatna er á þessu svæði, m.a. beggja vegna vegar þess er nú liggur um það.  Dómurinn telur þó líklegt að frá Hávörðum hafi leið legið að punkti nr. 7 á dskj. nr. 3, eins og stefnendur halda fram.  Telur dómurinn rétt að miða við þann punkt en hann hefur verið hnitsettur í kröfugerð stefnenda.  Verður punktur þessi nefndur punktur A í dómsorði.  Rétt austur af Sauðabæli liggur lína samkvæmt varakröfu stefnenda um sama punkt og kröfulína stefndu.  Þykir því rétt að miða við punkt þennan og er hann merktur bókstafnum C í dómsorði.  En dómurinn hefur hnitsett hann.  Bein lína frá punkti A og í framangreindan punkt C mundi liggja í gil Vesturár, skammt ofan við Sauðabæli.  Telur dómurinn því rétt að færa línuna á þessum stað 30 m til austurs og hefur hnitsett punkt þar sem merktur er með bókstafnum B.  Frá punkti C þykir mega miða við beina línu í punkt merktan D sem liggur þá rétt austan við mannvirki þau sem stefndi hefur látið reisa á Tungusporðinum, þar mótar fyrir götuslóða sem er eðlileg leið að punkti E sem er á gilbarminum.

Er niðurstaða dómsins þá sú að merki jarðanna skuli liggja til norðurs frá Gljúfurárvaði, punkti nr. 1 á uppdrætti (hnit 542519,6-611307,9) þaðan í punkt nr. 2 (hnit 542490,1-611964,2) þaðan í punkt nr. 3 (hnit 542758,1-613135,5) þaðan í punkt nr. 4 (hnit 542739,7-614514,9) þaðan í punkt nr. 5 (hnit 542659,0-615498,9) þaðan í punkt nr. 6 Hávörður (hnit 542408,7-616572,8) þaðan í punkt merktan A (hnit 542234,8-617109,5) þaðan í punkt merktan B (hnit 541928,7-619760,8) þaðan í punkt merktan C (hnit 541876,1-619904,8), síðan í punkt merktan D (hnit 541856,4-620036,7) og að lokum í punkt merktan E við „vað á Illagili“ (hnit 541811,6-620135,3).  Er lína þessi færð inn á uppdrátt sem fylgir dómsorði.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri ásamt meðdómsmönnunum Haraldi Sveinbjörnssyni byggingaverkfræðingi og Bernharð Haraldssyni landfræðingi.

D Ó M S O R Ð :

Landamerki jarðanna, Grýtubakka 1 og Grýtubakka 2, í Grýtubakkahreppi, annars vegar og jarðarinnar Grenivíkur í sama hreppi, hins vegar á Leirdalsheiði skulu vera til norðurs frá Gljúfurárvaði, punkti nr. 1 á uppdrætti (hnit 542519,6-611307,9) þaðan í punkt nr. 2 (hnit 542490,1-611964,2) þaðan í punkt nr. 3 (hnit 542758,1-613135,5) þaðan í punkt nr. 4 (hnit 542739,7-614514,9) þaðan í punkt nr. 5 (hnit 542659,0-615498,9) þaðan í punkt nr. 6 Hávörður (hnit 542408,7-616572,8) þaðan í punkt merktan bókstafnum A (hnit 542234,8-617109,5) þaðan í punkt nr. bókstafnum B (hnit 541928,7-619760,8) þaðan í punkt merktan bókstafnum C (hnit 541876,1-619904,8) þaðan í punkt merktan bókstafnum D (hnit 541856,4-620036,7) þaðan í punkt merktan bókstafnum E við „vað á Illagilsá“ (hnit 541811,6-620135,3), allt í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt. 

Málskostnaður fellur niður.