Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-122
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Manndráp af gáleysi
- Umferðarlagabrot
- Dómari
- Dómstóll
- Réttlát málsmeðferð
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 12. mars 2019 leitar Jóhann Freyr Frímannsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. febrúar sama ár í málinu nr. 321/2018: Ákæruvaldið gegn Jóhanni Frey Frímannssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur efni til að verða við beiðninni.
Í málinu er leyfisbeiðandi borinn sökum um að hafa brotið gegn 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk nánar tilgreindra ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerðar nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja, með því að hafa ekið bifreið sinni, sem ekki hafi verið í notkunarhæfu ástandi, ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu deyfandi lyfja, án nægilegrar aðgæslu og langt yfir leyfilegum hraða, aftan á aðra bifreið sem hafi kastast við það framan á smárútu, með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar hafi látist og farþegi í smárútunni slasast. Leyfisbeiðandi hefur játað sök og fyrir Landsrétti kom aðeins til endurskoðunar ákvæði héraðsdóms um refsingu hans sem var ákveðin fangelsi í níu mánuði, auk þess sem hann var sviptur ökurétti í eitt ár.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Byggir hann einkum á því að meðferð málsins í héraði og fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Annars vegar vísar hann til þess að í héraði hafi liðið rúmir þrír mánuðir frá því að málið var tekið til dóms og þar til dómur hafi gengið án þess að það hafi verið flutt á ný, svo sem skylt sé samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Úrslit um þetta atriði hafi jafnframt verulegt almennt gildi þar sem ekki hafi reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti þegar um játningarmál er að ræða. Hins vegar vísar leyfisbeiðandi til þess að ekki hafi verið farið að lögum við skipun eins af dómurunum sem fóru með málið fyrir Landsrétti. Af þeim sökum hafi málsmeðferðin þar ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, að skipan dómstóls skuli ákveðin með lögum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019 í máli nr. 26374/18.
Samkvæmt framansögðu háttar svo til í málinu að leyfisbeiðandi byggir á því að uppfyllt séu skilyrði til áfrýjunarleyfis annars vegar sökum þess að slíkir annmarkar hafi verið á skipun eins af dómurunum sem fóru með málið fyrir Landsrétti að efni séu til að ómerkja dóm þess réttar og hins vegar með því að sá dráttur sem varð á dómsuppsögu í héraði eigi að leiða til ómerkingar héraðsdóms. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að síðastgreint atriði eigi við þar sem ekki fór fram aðalmeðferð í málinu samkvæmt 166. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 164. gr. sömu laga. Að því er varðar atriði sem tengjast aðdraganda að skipun dómara sem sat í dómi í málinu fyrir Landsrétti er til þess að líta að Hæstiréttur tók afstöðu til hliðstæðra álitaefna í dómi 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018, þar sem hafnað var kröfu um ómerkingu dóms af þessum sökum. Að gengnum þeim dómi Hæstaréttar bar dómfelldi í því máli upp kvörtun við Mannréttindadómstól Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu í áðurnefndum dómi 12. mars 2019 að meðferð máls fyrir dómara í þeirri aðstöðu sem hér um ræðir væri andstæð ákvæðum 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Sá dómur mannréttindadómstólsins er ekki orðinn endanlegur og kann að geta sætt endurskoðun. Mun Hæstiréttur ekki taka afstöðu til afleiðinga dómsins að landsrétti nema hann verði annaðhvort endanlegur eða niðurstaða hans látin standa óröskuð við endurskoðun en alls er óvíst hvenær það gæti orðið. Ótækt er vegna þessa álitaefnis eins út af fyrir sig að heimila í þessu sakamáli áfrýjun sem fyrirsjáanlega hefði þá afleiðingu að hér fyrir dómi yrði að fresta því um ótiltekinn tíma án þess að nokkru verði nú slegið föstu um hvert vægi þessa álitaefnis kynni að verða. Kæmi á síðari stigum til þess að dómur Landsréttar í öðru máli yrði fyrir Hæstarétti ómerktur vegna atvika hliðstæðum þeim sem hér eru uppi gæti leyfisbeiðandi jafnframt eftir atvikum leitað endurupptöku málsins fyrir Landsrétti, sbr. 2. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu öllu gættu er hafnað beiðni um áfrýjunarleyfi í málinu.