Hæstiréttur íslands
Mál nr. 91/2013
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2013. |
|
Nr. 91/2013.
|
M (Þyrí Steingrímsdóttir hrl.) gegn K (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Börn. Forsjá. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá dóttur sinnar og umgengni við hana. Áður höfðu þau farið sameiginlega með forsjá stúlkunnar sem dvaldi eina viku í senn hjá hvoru foreldri. Héraðsdómur taldi að það væri stúlkunni fyrir bestu að K færi með forsjá hennar og byggði sú niðurstaða á heildstæðu mati. Vísaði héraðsdómur m.a. til þess að líklegt væri að fyrirkomulag umgengni við stúlkuna hefði ekki hentað svo ungu barni sem hefði brugðist við með því að sýna streituviðbrögð í návist þess foreldris sem það hefði myndað mestu tilfinningalegu tengslin við, það er K. Báðir foreldrar væru hæfir til að fara með forsjá barnsins, en meta yrði aðstæður þannig að aðferð K við að nálgast stúlkuna væri líklegri til þess að höfða til hennar og bera jákvæðan árangur. Þá væru tengsl stúlkunnar við hálfsystur sína móðurmegin sterk og verðmæti fólgin í því fengju þær að alast upp saman. Hefðu þau tengsl sem þegar væru fyrir hendi meiri þýðingu fyrir stúlkuna en sú staðreynd að flutningur hennar til K kallaði á annan leiksóla og flutning af heimili M þar sem stúlkan hefði að miklu leyti dvalist frá fæðingu. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest í Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2013. Hann krefst þess að sér verði falin forsjá dóttur aðila, A, og að kveðið verði á um inntak umgengni stefndu við stúlkuna. Einnig krefst hann þess að stefndu verði gert að greiða einfalt meðlag með stúlkunni frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hennar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. desember síðastliðinn, var höfðað 8. mars 2012 af K, [...], [...], gegn M, [...], [...].
Stefnandi krefst þess að henni verði einni með dómi falin forsjá stúlkunnar, A, kt. [...], til 18 ára aldurs hennar. Stefnandi krefst þess einnig að með dómi verði kveðið á um að umgengni stefnda við stúlkuna verði í samræmi við tillögur stefnanda, þannig að stúlkan verði hjá stefnda aðra hverja helgi, fjórar vikur að sumri og um páska, jól og áramót til skiptis hjá stefnanda og stefnda. Jafnframt krefst stefnandi þess, verði henni falin forsjá stúlkunnar, að stefnda verði gert að greiða stefnanda meðlag til framfærslu stúlkunnar eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni frá uppsögu dóms til 18 ára aldurs hennar. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn 25. júní 2012.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að sameiginlegri forsjá aðila vegna stúlkunnar A verði slitið og að hann fari framvegis einn með forsjá hennar til 18 ára aldurs. Verði fallist á forsjárkröfu er þess krafist að dæmt verði að stefnanda beri að greiða stefnda einfalt meðlag með stúlkunni frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hennar. Stefndi krefst þess að ákveðið verði með dómi inntak umgengnisréttar stúlkunnar og þess foreldris sem ekki fær forsjá hennar. Jafnframt er þess krafist að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Sambúð málsaðila hófst í janúar 2010 þegar stefnandi flutti ásamt eldri dóttur sinni, sem er fædd á árinu 2007, til stefnda í íbúð hans að [...] í [...]. Málsaðilar höfðu kynnst á árinu 2008, hófu samband nokkru síðar og ákváðu að hefja sambúð á árinu 2010 þegar í ljós kom að stefnandi var ófrísk. Dóttir málsaðila, A, fæddist [...] 2010.
Málsaðilar slitu sambúðinni síðari hluta árs 2011. Þeir gerðu samkomulag um að dóttir þeirri byggi hjá hvoru þeirra eina viku í senn og að þeir færu sameiginlega með forsjá hennar. Stefnandi telur að þetta fyrirkomulag gangi ekki og það henti barninu illa. Stefnandi hefur því gert kröfu um að dæmt verði að hún fari ein með forsjá barnsins. Stefndi telur hins vegar fyrirkomulagið um sameiginlega forsjá henta barninu en þar sem stefnandi hafi krafist þess að fara ein með forsjána hafi hann ekki annað úrræði en krefjast hins sama.
Í málinu er deilt um það hvort foreldranna sé hæfara til að fara með forsjá barnsins. Veita þurfi barninu öryggi og stöðugleika en báðir foreldrar telja að það geti þeir gert betur en hitt foreldrið. Einnig deila þeir um hversu mikilvæg tengslin séu barninu við hvort foreldrið en báðir telja barninu mikilvægari tengslin við það sjálft. Þá telja málsaðilar mikilvægt að litið verði til þess hvort foreldrið muni tryggja barninu betur umgengni við það foreldri sem ekki fer með forsjá þess. Báðir telja sig geta betur en hitt foreldrið uppfyllt þær skyldur. Stefnandi telur enn fremur að það fyrirkomulag sem hafi verið, þannig að barnið búi hjá hvoru foreldri viku í senn en fari þá til hins foreldrisins, henti barninu mjög illa. Það hafi sýnt móður sinni merki um vanlíðan sem stefnandi kveðst hafa brugðist við með því að hafa barnið heima en ekki hjá dagmóður þá vikuna sem stúlkan er hjá móðurinni. Stefndi telur best fyrir barnið að vera viku í senn hjá hvoru foreldri.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hún hafi verið nýbyrjuð í [...]námi í [...] í [...] þegar í ljós kom að hún var þunguð. Hún hafi tekið ársfrí frá námi eftir að önninni lauk vorið 2010. Stefnandi kveðst hafa annast stúlkuna að mestu leyti ein fyrsta æviár hennar.
Málsaðilar hafi gert með sér samkomulag um að þegar stúlkan yrði sex mánaða myndi stefndi taka fæðingarorlof og vera heima með hana en við það hafi hann ekki staðið. Stefnandi hafi því verið heima með stúlkuna í eitt ár, eða þar til hún hóf nám að nýju við [...] í september 2011. Stúlkunni hafi þá verið komið fyrir hjá dagmóður.
Stefnandi segir að í sambúð málsaðila hafi gengið á ýmsu. Hún hafi meðal annars leitað til sálfræðings vegna vanlíðan sem hafi átt rætur sínar að rekja til sambandsins. Stefndi hafi stöðugt hótað stefnanda skilnaði þegar upp komu erfiðleikar. Í september 2011 hafi sambandið verið orðið slæmt og hafi stefndi þá sagst ekki treysta sér til að vera lengur í því. Stefnandi kveðst hafa óskað eftir að fá að dveljast áfram í húsinu þar til hún fengi húsaskjól fyrir sig og dætur sínar og hafi hún þá sofið í sófa í stofunni. Í [...] s.á. hafi stefndi vísað stefnanda og dætrum hennar út af heimilinu. Stefnandi hafi þá flust til foreldra sinna að [...] á [...]. Þar hafi hún búið þar til hún flutti á [...] í [...] í [...] 2012 þar sem hún búi í dag.
Stefnandi kveðst hafa samþykkt kröfu stefnda við sambúðarslit um að barnið dveldist að jöfnu hjá aðilum þannig að það væri viku hjá stefnanda og viku hjá stefnda. Hún hafi fallist á að reyna það fyrirkomulag en ekki hafi verið gerður sérstakur samningur um umgengni. Stefnandi telji þó ljóst að þetta fyrirkomulag henti stúlkunni afar illa sem hafi komið niður á líðan hennar til hins verra.
Krafa stefnanda um að henni verði einni dæmd forsjá stúlkunnar sé reist á því að hún sé mun tengdari móður sinni en föður. Stúlkan hafi verið mun meira með stefnanda en stefnda þegar á heildina sé litið. Stefnandi hafi alfarið annast stúlkuna fyrstu 13 mánuðina. Stefndi hafi þá aldrei vaknað með stúlkunni á nóttunni né heldur hefði hann séð um bleyjuskipti, matargjafir eða annað tengt umönnun hennar. Eftir að stefnandi hóf nám að nýju hafi stúlkan að jafnaði verið hjá dagmóður til klukkan 16:00 og hafi stefnandi sótt hana í flestum tilvikum. Málsaðilar hafi gert samkomulag um að stefndi myndi sækja stúlkuna tvisvar sinnum í viku um klukkan 17:00 þá daga er stefnandi þyrfti að vera lengur í skólanum. Stefndi hafi þó ekki talið sig geta staðið við það og fjórum vikum síðar hafi hann verið farinn að sækja stúlkuna einu sinni í viku. Í þau skipti sem stefndi sótti stúlkuna til dagmóður hafi hann verið með hana heima í um klukkustund, þangað til stefnandi kom heim. Að öðru leyti hafi stefnandi annast stúlkuna. Á meðan aðilar voru í sambúð hafi stefndi unnið mikið, hann hafi gjarnan komið heim eftir að stúlkan var sofnuð og hafi verið farinn til vinnu áður en hún vaknaði. Þannig hafi hann gjarnan ekki séð stúlkuna í nokkra daga. Það hafi ekki verið fyrr en málsaðilar slitu samvistir að stefndi hafi annast stúlkuna þegar hún var í hans umsjá aðra hverja viku.
Fljótlega eftir samvistarslitin hafi komið skýrt í ljós að stúlkan væri tengdari stefnanda en stefnda. Hegðun stúlkunnar fyrstu þrjá til fjóra daga þeirrar viku sem hún var hjá stefnanda hafi sýnt að hún hafi verið hrædd um að verða viðskila við móður sína. Hún svæfi illa fyrstu daga þeirrar viku þegar hún var komin til stefnanda. Hún gráti sárt ef stefnandi bregði sér frá henni og það taki hana langan tíma að jafna sig. Þetta hafi ekkert breyst og því sé ekki unnt að ætla að stúlkan venjist þessu. Stefnandi telji einnig nauðsynlegt fyrir svo ungt barn að njóta forsjár og umönnunar móður sinnar, fremur en föður síns. Tengsl stúlkunnar við móður sína séu henni mjög mikilvæg. Þau hafi myndast þegar stefnandi annaðist hana á sambúðartímanum. Það geti valdið barninu miklum erfiðleikum að rjúfa þau eða raska þeim á einhvern hátt. Hin djúpu tengsl sem myndast hafi á viðkvæmum aldri barnsins skipti miklu máli fyrir barnið og þroska þess. Stúlkan hafi sýnt móður sinni merki þess að henni hafi liðið illa en stefnandi telur vanlíðan stúlkunnar að rekja til þess að hún hafi verið í mikilli þörf fyrir stöðugri tengsl við móður sína sem hún hafi ekki fengið þar sem hún hafi verið aðra hverja viku hjá föður sínum. Stefnandi hafi brugðist við því en stefndi ekki sýnt því skilning. Hún geti því betur sett sig í spor barnsins og þar með betur mætt þörfum þess. Hún hafi tekið málið í sínar hendur og ákveðið að vera heima með barninu þegar það sýndi merki um vanlíðan. Mikil breyting hafi þá orðið á barninu til hins betra.
Stefnandi byggi kröfu sína einnig á því að persónulegar og félagslegar aðstæður hennar séu betri til að annast stúlkuna en stefnda. Stefnandi telji að stefndi eigi við áfengisvandamál að stríða, en á meðan sambúð þeirra stóð hafi hann drukkið áfengi á hverju kvöldi og stundum neytt fíkniefna. Stefndi sé skapstór og eigi erfitt með að hemja skap sitt og því verði hann gjarnan reiður og ógnandi. Stefndi eigi dóttur úr fyrra sambandi sem sæki lítið í að verja tíma með föður sínum. Ástæður þess kveður stefnandi vera skapsveiflur stefnda. Í sambúð aðila hafi stefndi átt það til að taka eins konar brjálæðisköst að því er virtist af engu tilefni. Skap stefnda hafi leitt til þess að eldri dóttir stefnanda hafi á tímabili orðið mjög óörugg, hrædd og taugaveikluð.
Stefnandi telji að vegna persónulegra eiginleika stefnda ásamt áfengisvandamáli hans sé það stúlkunni ekki fyrir bestu að umgengni verði þannig að stúlkan sé viku hjá stefnda og viku hjá stefnanda. Stefnandi njóti mikils stuðnings og aðstoðar foreldra og tveggja systra sinna. Fjölskylda stefnanda búi í stóru raðhúsi og sé samband hennar við dætur stefnanda mjög gott. Stefnandi hafi búið þar með dætur sínar þar til hún fékk íbúð þar sem þær búi nú. Það breyti þó ekki því góða baklandi sem hún hafi varðandi uppeldi dætra sinna.
Krafa stefnanda sé að auki byggð á því að hún sé hæfari til að fara með forsjá stúlkunnar en stefndi. Stefnandi haldi reglu á heimilinu sem sé mikilvægt við uppeldi ungra barna. Vegna ungs aldurs stúlkunnar sé mikilvægt að hún búi við reglu sem stuðli að eðlilegum, félagslegum, vitsmunalegum og persónulegum þroska stúlkunnar. Þegar stúlkan komi frá stefnda megi auðveldlega sjá af hegðun hennar að stefndi hafi ekki haldið reglu á mataræði, svefni eða öðru líkt og stefnandi geri. Stefnandi hafi rætt um reglu og mikilvægi hennar við stefnda, en hann hafi látið tilögur stefnanda sér í léttu rúmi liggja.
Stefnda virtist skorta innsýn í þarfir barnsins sem komi skýrt fram varðandi afstöðu hans til umgengni. Stefnandi hafi viljað prófa aðra tilhögun þegar í ljós kom að núverandi fyrirkomulag skapaði vanlíðan hjá stúlkunni. Stefndi hafi talið að best væri að halda umgengni til streitu og hafi hann farið að sækja barnið fyrr á daginn til að hindra stefnanda í að sækja stúlkuna á þeim tíma er hann taldi vera sína viku með stúlkunni.
Stefnandi telji að stúlkan þurfi, vegna ungs aldurs, á ró og stöðugleika að halda. Það fyrirkomulag sem nú sé við líði henti ekki best hag barnsins. Stefnandi hafi frá fæðingu stúlkunnar að samvistarslitum séð ein um umönnun hennar. Stefnandi telji það henta svo ungu barni illa að gerðar séu svo róttækar breytingar á högum þess í hverri viku. Þær breytingar sem orðið hafi á högum barnsins frá samvistarslitum hefðu neikvæð áhrif á félagslegan þroska og tilfinningalega og vitsmunalega hæfni stúlkunnar, þar sem hún þurfi stöðugt að nota orku og athygli til að aðlaga sig breyttu umhverfi, fólki, reglum og umönnun. Breytingar sem þessar valdi álagi sem komi fram í streituviðbrögðum hjá stúlkunni. Stúlkan sé farin að sýna merki um tengslavanda, t.d. vandræði með svefn og merki um ótta eða óöryggi. Stefnandi telji því nauðsynlegt, til að stúlkan nái eðlilegum þroska, að stefnandi fari ein með forsjána og að barnið verði að jafnaði hjá henni en aðra hverja helgi hjá stefnda, eins og fram komi í dómkröfum stefnanda.
Þar sem stefnanda sé ljóst að fyrirkomulag það sem nú sé við líði henti barninu illa vilji hún gera breytingar á því. Stefndi hafi sýnt að hann sé ekki tilbúinn að líta til þess sem barninu sé fyrir bestu. Hann skorti innsæi í þarfir barnsins og sé þannig ekki hæfur til að meta hvað henti best hag barnsins og hvað sé því fyrir bestu. Þrátt fyrir að stefnda skorti ekki innsæi í þarfir barnsins sé ljóst að hann láti sínar þarfir ganga framar þörfum þess. Stefnandi sé því augljóslega hæfari til að fara með forsjá stúlkunnar en stefndi.
Að lokum byggi stefnandi kröfu sína á því að verði stefnda dæmd forsjá barnsins muni það leiða til meiri breytinga á högum þess en æskilegt sé. Ljóst sé af hegðun stúlkunnar að jöfn umgengni eigi afar illa við hana. Stefnandi telji að aðlögunarerfiðleikum hjá stúlkunni verði haldið í lágmarki verði henni falin forsjáin og að umgengni verði með þeim hætti að stúlkan fari aðra hverja helgi til stefnda. Aðeins þrjú ár séu á milli stúlkunnar og systur hennar og megi því vel gera ráð fyrir að þær komi til með að vera nánar. Nauðsynlegt sé að stúlkan fái að halda sem mestum tengslum við systur sína, en aukin tengsl systranna ætti að stuðla að bættri líðan hennar, sem muni hafa í för með sér meiri ró og stöðugleika í lífi hennar.
Stefnandi leggi til að umgengni verði með þeim hætti að stefndi sæki stúlkuna aðra hverja viku til dagmóður á fimmtudegi og skili henni aftur til dagmóður á mánudegi. Þá verði stúlkan hjá aðilum til skiptis um jól, áramót og páska þannig að um páskana 2012 verði hún hjá stefnda, stefndi sæki hana miðvikudaginn fyrir páska til dagmóður og skili henni til dagmóður á þriðjudegi eftir páska. Páskana 2013 yrði stúlkan hjá stefnanda. Þá leggi stefnandi til að um jólin 2012 verði stúlkan hjá stefnanda en áramót hjá stefnda. Stefnandi leggi til að árið 2013 verði stúlkan hjá stefnda um jól, frá 23. desember 29. desember en um áramót hjá stefnanda og síðan koll af kolli. Þá leggi stefnandi til að stúlkan verði í fjórar vikur hjá stefnda á sumrin. Um sumarið 2012 og 2013 verði leyfinu skipt niður í tvisvar sinnum tvær vikur en eftir það verði stúlkan samfellt í fjórar vikur hjá stefnda á sumrin.
Krafan um forsjá sé reist á V. kafla barnalaga nr. 76/2003, einkum 34. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. ákveði dómari hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni sé fyrir bestu. Krafan um greiðslu meðlags sé reist á 4. mgr. 34. gr., sbr. 57. gr. barnalaga. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. sé gert ráð fyrir að meðlag skuli ákveðið með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Krafa um að dómari kveði á um inntak umgengnisréttar barns sé einnig reist á 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Krafan um málflutningsþóknun sé byggð á ákvæðum í XXII. kafla laga nr. 91/1991. Stefnandi hafi gjafsókn og beri henni að gera kröfu um greiðslu málskostnaðar án tillits til gjafsóknar. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili, því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er vísað til þess að aðilar hafi hafið samband sitt í maí 2009. Sambandi þeirra og sambúð hafi lokið í október 2011. Á sambúðartímanum hafi þau eignast stúlkuna sem mál þetta snúist um.
Stefndi hafi frá árinu 2008 starfað sem [...] hjá [...] ehf. og séð um daglegan rekstur þess að öllu leyti. [...] ehf. sé dótturfyrirtæki [...] og sérhæfi sig í [...] og starfsemi því tengdri. Verkefni fyrirtækisins séu umfangsmikil og starfi þar að jafnaði á annan tug starfsmanna. Stefndi hafi unnið sig upp í stöðu [...] og sjái hann um daglegan rekstur fyrirtækisins að öllu leyti.
Meðan á sambúð aðila stóð hafi stefnandi aldrei unnið úti og hafi stefndi því verið fyrirvinna hennar allan tímann og stúlkunnar eftir fæðingu hennar í [...] 2010. Þá hafi stefndi gengið eldri dóttur stefnanda í föðurstað og hafi hann sinnt henni sem eigin barni allan sambandstímann en lítil sem engin tengsl séu milli hennar og kynföður hennar. Þrátt fyrir góð tengsl stefnda og eldri stúlkunnar hafi stefnandi ekki leyft stúlkunni að hitta stefnda frá samvistarslitum þeirra.
Við fæðingu stúlkunnar hafi verið ljóst að stefndi hefði ekki möguleika á því að taka langt fæðingarorlof, enda tekjur hans einu tekjur heimilisins. Það sé því rangt sem stefnandi lýsi varðandi fæðingarorlofstöku stefnda. Svo virtist sem stefnandi hefði staðið í þeirri trú að stefndi gæti tekið fæðingarorlof sitt en samt unnið, og heimilið þannig notið tekna úr fæðingarorlofssjóði áfram eftir að greiðslum til hennar lauk. Stefndi hafi sinnt dagvinnu og alla eftirmiðdaga, kvöld og helgar hafi hann verið heima með fjölskyldu sinni og sinnt stúlkunni og heimilisverkum í það minnsta til jafns við stefnanda.
Stefndi geti tekið undir það sem fram komi í stefnu að gengið hafi á ýmsu í sambúð aðila. Stefnandi virtist í mikilli vanlíðan og hafi stefndi grunað hana um neyslu fíkniefna. Samskipti þeirra hafi verið í lamasessi og hafi stefndi leitað til móður stefnanda um aðstoð. Ekki hafi gengið að laga sambandið og hafi stefnandi að mati stefnda verið í algjörri afneitun varðandi fíknivanda sinn. Þannig hafi farið að aðilar slitu samvistum og hafi stefnandi flutt til foreldra sinna í [...] 2011.
Síðan þá hafi samvistir stúlkunnar við foreldra sína verið jafnar en hún hafi dvalist hjá þeim til skiptis í viku í senn. Lögheimili beggja aðila og stúlkunnar sé á fyrrum sameiginlegu heimili þeirra að [...], núverandi heimili stefnda. Stefnandi hafi ítrekað lýst sig andsnúna framangreindu fyrirkomulagi og hafi málsaðilar m.a. leitað til sýslumanns vegna þess og þegið ráðgjöf. Þeim hafi verið úthlutaðir tímar hjá sérfræðingi embættisins og hafi stefndi talið að markmiðið væri að ná samkomulagi um gott fyrirkomulag varðandi samvistir við stúlkuna. Stefnandi hafi á þessum tíma reynt að breyta einhliða viku/viku fyrirkomulaginu og hafi farið að sækja stúlkuna til dagmömmu í þeim vikum sem stúlkan átti að dvelja hjá stefnda. Það hafi þó ekki verið nema í örfá skipti og hafi stefnandi fallist á að hún gæti ekki einhliða breytt fyrirkomulagi samvista stúlkunnar. Eftir umræður í tveimur tímum hjá sérfræðingi hafi stefnandi svo ekki mætt í þriðja tímann og í þeim fjórða hafi hún tilkynnt að málið væri komið í dómsfarveg. Þar með hafi afskiptum sýslumannsins lokið.
Stefndi hafi ávallt lagt sig fram um að eiga góð samskipti við stefnanda og viljað hafa gott samkomulag við hana um stúlkuna. Hann telji stúlkunni fyrir bestu að lúta sameiginlegri forsjá beggja foreldra og vera í jöfnum samvistum við þau bæði. Það fyrirkomulag hafi haldist nánast frá samvistarslitum aðila og að mati stefnda gengið vel. Með vísan til þess og aðstæðna stefnda að öðru leyti telji stefndi að það yrði best fyrir stúlkuna að aðilar færu áfram sameiginlega með forsjá hennar, hún hefði lögheimili hjá honum en viðhaldið yrði jöfnum samvistum stúlkunnar hjá foreldrum sínum (viku/viku fyrirkomulagi) meðan aðstæður leyfðu.
Stefndi byggi sýknukröfu sína á þeirri meginreglu barnaréttar að foreldrar skuli fara sameiginlega með forsjá barns síns eftir slit óvígðrar sambúðar, sbr. 1. mgr. 31. gr. barnalaga.
Þó aðilar hafi ákveðið að slíta sambúð sinni geti það eitt ekki leitt til þess að annar aðilinn fái forsjá stúlkunnar. Stefndi telji ekkert því til fyrirstöðu að hann verði áfram forsjáraðili hennar eftir að sambúð hans og stefnanda lauk. Stefndi búi í íbúðinni þar sem aðilar hafi búið saman en hún sé í hans eigu og hafi verið það áður en sambúð þeirra hófst. Heimili stefnda sé því það heimili sem stúlkan þekki best.
Stefndi telji að það geti ekki verið stúlkunni fyrir bestu að taka hana úr umsjá hans og færa hana til stefnanda eins og hún krefjist. Engar málsástæður hefðu verið bornar fram af hálfu stefnanda sem gefi tilefni til að breyta búsetu eða sameiginlegri forsjá stúlkunnar. Þá hafi engar sönnur verið færðar á það að aðstæður stefnda séu á þann veg sem staðhæft sé. Jafnframt hafi enginn reki verið gerður að því að færa sönnur á það að aðstæður stefnanda séu á einhvern hátt betri en þær sem stefndi og stúlkan búi við nú. Öllum kröfum stefnanda og málatilbúnaði sé harðlega mótmælt.
Þar sem barnalög heimili dómara ekki að viðhalda sameiginlegri forsjá með dómi sé stefndi knúinn til að setja fram kröfu um að hann fari einn með forsjá stúlkunnar. Stefndi byggi kröfu sína á því að það sé stúlkunni fyrir bestu að hann fái forsjá hennar, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga, en stefnandi hafni því að forsjá barnsins verði sameiginleg, sbr. 1. mgr. 31. gr. sömu laga.
Stefndi byggi kröfur sínar meðal annars á því að hann hafi til að bera, umfram stefnanda, þá persónulegu eiginleika sem þurfi til að fara með umsjá og forsjá stúlkunnar til frambúðar. Hann geti boðið barninu stöðugleika og aðstæður sem barnið þurfi á að halda. Stefnandi sé ósjálfstæð og háð foreldrum sínum. Meiri röskun verði fyrir barnið ef stefnandi fær forsjá þess. Barnið þurfi þá að fara í annan leikskóla og búi þá ekki lengur í íbúðinni þar sem það hafi alltaf búið. Þá telji stefndi sterk og djúp tengsl vera á milli sín og barnsins. Hann setji barninu mörk og nauðsynlega ramma í daglegu lífi. Hann fylgi því eftir að reglum sé hlýtt í samskiptum við barnið. Stefnandi geti ekki sett barninu mörk.
Stefndi kannist í engu við þær lýsingar á hag hans og persónu sem fram komi í stefnu og sé þeim staðhæfingum harðlega mótmælt. Þær séu ósannar og ómálefnalegar. Stefndi sé reglusamur fjölskyldumaður og starfi sem [...]. Hann sé fjárhagslega sjálfstæður og búi í eigin íbúð. Hann hafi unnið hörðum höndum frá unglingsárum og komið ár sinni vel fyrir borð. Þá sé hann í miklum og góðum tengslum við fjölskyldu sína. Hann eigi einkar góð samskipti við fyrri barnsmóður sína, eins og fram komi í gögnum málsins, og hafi ávallt séð vel fyrir eldri dóttur sinni og sinnt henni af alúð. Þá gefi vinnuveitandi stefnda honum sín bestu meðmæli.
Stefnandi búi ekki við sama öryggi hvað varði húsnæði. Þá sé hún atvinnulaus og/eða í námi en hafi þannig engin ráð til að framfleyta sér og dóttur sinni svo viðunandi sé. Stefnandi hafi meðan á sambúð þeirra stóð átt við fíknivandamál að stríða og neytt fíkniefna og áfengis í óhófi. Það ástand vari enn að mati stefnda, a.m.k. að einhverju leyti. Stefnandi hafi ekki ökuréttindi en engu að síður hafi hún keyrt próflaus og með stúlkuna í bílnum. Stefndi viti að hún hafi verið stöðvuð fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna með stúlkuna í bílnum og að hún hafi ekki notað viðeigandi öryggisútbúnað fyrir hana, þ.e. ekki verið með hana í bílstól. Stefnandi sé með mikil tengsl við [...] enda hafi hún alist þar upp að miklu leyti. Stefndi hafi áhyggjur af því að hún hyggi á búsetu þar, fái hún forsjá stúlkunnar, enda hafi hún ekki atvinnu hér eða fast húsnæði.
Stefndi byggi kröfur sínar á því að aðstæður hans séu mjög góðar. Hann búi í rúmgóðri eigin íbúð. Hann sé í góðu starfi, reglusamur, heilsuhraustur og setji þarfir fjölskyldu sinnar ávallt ofar sínum eigin. Stefndi hyggi ekki á neinar breytingar á högum sínum. Stefndi geti því fremur en stefnandi boðið stúlkunni stöðugleika í líf sitt.
Stefndi byggi kröfur sínar jafnframt á því að hann og stúlkan séu nátengd. Stúlkan sé einnig mjög tengd eldri systur sinni samfeðra og allri fjölskyldu stefnda. Stefndi hafi ávallt notið góðs stuðnings frá fjölskyldu sinni. Þá hafi stefndi lagt sig fram um að vera þátttakandi í daglegu lífi dætra sinna beggja, hvort sem þær væru í samvistum við hann eða stefnanda. Stefndi hafi sinnt umönnun stúlkunnar A af alúð og samviskusemi allt frá fæðingu hennar og sinnt öllu því sem foreldrar sinni alla jafna varðandi börn sín. Þá hafi stefndi eytt frítíma sínum með stúlkunni og hagað vinnutíma sínum þannig að hann geti sótt hana sjálfur til dagmömmu og farið með hana þangað á morgnana. Því sé mótmælt að stefnandi sé aðalumönnunaraðili stúlkunnar og hafi ávallt verið. Það sé alrangt.
Stefndi mótmæli því sérstaklega að það sé stúlkunni fyrir bestu að vera í umsjá eða lúta forsjá stefnanda einnar og hann kannist alls ekki við óöryggi í stúlkunni eða erfiðleika með svefn, eins og stefnandi lýsi. Þvert á móti sé stúlkan ávallt sæl og glöð hjá honum og taki fagnandi á móti honum þegar hann komi að sækja hana til dagmömmu eftir vikuna hjá stefnanda. Hún sofi undantekningarlaust frá klukkan átta á kvöldin til að verða átta á morgnana og matartímar séu reglulegir. Stúlkan leiti til stefnda með allar sínar þarfir og langanir og leiki sér glöð á heimili sínu. Í frítímum og um helgar umgangist hún eldri hálfsystur sína og fjölskyldu stefnda, en systir hans eigi m.a. börn á hennar aldri sem hún leiki sér gjarnan við. Aldrei hafi stefndi orðið var við merki um óöryggi eða kvíða eins og stefnandi lýsi hjá stúlkunni þegar hún sé í hennar umsjá. Stefndi telji slíkt raunar merki um að stúlkunni líði ekki vel hjá stefnanda eða því umhverfi sem hún bjóði henni upp á. Stefndi telji það vera merki þess að stúlkunni sé fyrir bestu að vera áfram í hans umsjá, enda þau feðgin náin. Stúlkan hafi aldrei verið án föður síns til lengri tíma en viku í senn og telji stefndi að það myndi valda henni verulegri röskun að fara úr hans umsjá og flytjast til stefnanda.
Krafa um dóm um inntak umgengni byggist á 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Stefndi telji best fyrir stúlkuna að vera í jöfnum samvistum við báða foreldra sína. Stefndi vilji helst af öllu viðhalda núverandi fyrirkomulagi samvista og sameiginlegrar forsjár, en þó þannig að lögheimili stúlkunnar verði hjá honum enda hafi hann betri aðstæður fyrir stúlkuna.
Stefndi byggi kröfu sína um einfalt meðlag úr hendi stefnanda með stúlkunni á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga og lágmarksmeðlagsskyldu forsjárlauss foreldris samkvæmt 57. gr., sbr. 55. gr. laganna. Um heimild dómara til að kveða á um meðlagsskyldu í málinu vísi stefndi til 4. mgr. 34. gr. laganna.
Um allar kröfur varðandi forsjá, umgengni og meðlag sé vísað til barnalaga. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur vegna þessa málarekstrar og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnanda.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 ákveður dómurinn hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni er fyrir bestu þegar foreldrar deila um forsjá þess. Lagaákvæðinu var breytt með lögum nr. 61/2012 en samkvæmt 1. mgr. 37. gr. þeirra tóku þau gildi 1. janúar 2013. Dómsmál sem voru þingfest fyrir þann dag en var þá enn ólokið verða dæmd eftir ákvæðum eldri laga, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2012.
Þegar leyst er úr málinu verður að horfa til ákveðinna grundvallarþátta við mat á því hvað barni sé fyrir bestu. Þar skipta máli persónulegir eiginleikar foreldra og hæfni, tengsl barnsins við foreldra og hvort foreldranna er líklegra til að mæta þörfum barnsins. Þá ber samkvæmt 3. mgr. 34. gr. barnalaga að líta meðal annars til þess hvort foreldri, sem krefst forsjár barns síns, hafi verið tálmuð umgengni við barnið.
Barnið sem hér umræðir er mjög ungt en það varð tveggja ára [...] síðastliðinn. Þegar metið er hvernig tengsl barnsins við foreldrana skipta máli verður að líta til þess að almennar þarfir barna snúast um alúð og umhyggju, öryggi, stöðugleika og þroskavænleg samskipti við umönnunaraðila. Fyrstu æviár barna einkennast af miklum framförum og mikilvægum þroskaáföngum. Á fyrsta ári byrjar barnið að mynda geðtengsl við sína nánustu. Þau eru talin vera mikilvægasta verkefni fyrsta æviskeiðsins og nauðsynlegur grundvöllur fyrir áframhaldandi þroska barnsins. Mikilvægt er að stuðlað sé að því að þetta ferli fái að þróast án þess að rof verði þar á, því þá skapast hætta á margvíslegum misfellum í þroska. Við mat á tengslum ungs barns við foreldra sína er því mikilvægt að skoða hvort barnið hafi náð að þróa við þá jákvæð geðtengsl. Sá sem annast barnið mest og þekkir það best gegnir þar lykilhlutverki. Vegna aldurs barnsins, sem hér um ræðir, þykir rétt að líta sérstaklega til þessara mikilvægu þátta í þroskaferli þess.
Um er að ræða tveggja ára barn sem notið hefur umönnunar foreldra sinna á víxl eina viku í senn frá því að þau slitu samvistir fyrir ári síðan. Áður bjuggu foreldrarnir saman frá því fyrir fæðingu barnsins og önnuðust það sameiginlega. Óumdeilt er að stefnandi hafi á þeim tíma komið meira að umönnun þess, enda var hún í fæðingarorlofi og heimavinnandi. Stefndi var í fullri vinnu utan heimilis og tók ekki fæðingarorlof.
Samkvæmt því sem fram hefur komið myndaði barnið strax á fyrsta ári náin og eðlileg tengsl við stefnanda. Samkvæmt lýsingum stefnanda brást barnið við þeim breytingum sem fylgdu sambúðarslitunum með hegðun sem vitnaði um vansæld og stefnandi rakti til styttri samvista þeirra tveggja. Brást stefnandi við með því að hætta að hafa barnið hjá dagmóður þá vikuna sem það var í hennar umsjá. Við það rénuðu fyrrnefnd einkenni og barnið virtist sefast. Verður að draga þá ályktun að vanlíðan barnsins hafi tengst ófullnægjandi sambandi þess við móður sína og að hún hafi síðan komið til móts við þarfir þess með því að verja meiri tíma með því. Stefndi varð að eigin sögn aldrei var við einkennin.
Almennt er í sálfræði litið svo á að ró og stöðugleiki í umönnun og aðstæðum henti að jafnaði best börnum framan af forskólaaldri og að það hafi truflandi árif á þroskaferlið þurfi þau sífellt að aðlagast breytingum í nánasta umhverfi sínu. Því má ætla að jöfn umgengni henti ekki ungum börnum á sama hátt og hún geti hentað þeim sem orðin eru eldri. Hjá dómkvöddum matsmanni kom fram að jöfn umgengni við ólíka foreldra með vikulegum skiptum, eins og verið hefur í máli þessu, feli í sér breytingar sem líklegar séu til að valda álagi og streitu hjá barninu með viðbrögðum svipuðum þeim sem stefnandi lýsir. Dómurinn telur að fallast verði á þau rök stefnanda að líklegt sé að það fyrirkomulag á umgengni sem foreldrarnir ákváðu eftir skilnaðinn hafi ekki hentað svo ungu barni sem hér um ræðir. Dómurinn telur einnig rétt að líta svo á að barnið hafi brugðist við þessu fyrirkomulagi með því að sýna streituviðbrögð í návist þess foreldris sem það hafði myndað mestu tilfinningalegu tengslin við, það er stefnanda.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn að leggja verði til grundvallar við úrlausn málsins að það samrýmist best hagsmunum barnsins að það fái áfram að byggja þroska sinn á þeim grunni sem þær mæðgur hafa lagt saman.
Varðandi forsjárhæfni foreldranna ber að líta til þess að dómkvaddur matsmaður telur foreldrana báða hæfa til að fara með forsjá barnsins. Báðir tengist þeir barninu á náinn og ástríkan hátt og sýni því væntumþykju. Það sé stefnanda eiginlegt og stefndi geti það einnig. Báðir séu verndandi og veiti öryggi séu þeir ekki í neyslu þótt í tilviki stefnanda hafi stöðugleiki og ábyrgð stundum hvílt á foreldrum hennar. Báðir geri þeir vel við barnið varðandi líkamlega umönnun og atlæti þótt á ólíkan hátt sé. Þeir leggi svipaða áherslu á örvun og hvatningu barnsins og báðir veiti þeir barninu stuðning, þó þannig að stefnandi leggi áherslu á tilfinningalegan skilning og stefndi á sjálfstæði.
Dómurinn tekur undir það álit að foreldrarnir séu ólíkir að gerð. Stefnandi er 27 ára gömul og kemur úr fjölskyldu þar sem tengsl eru náin og áhersla á stuðning, skilning og blíðu. Matsmanni þótti hún sérstaklega meðvituð um að tjá ást sína og blíðu við barnið sem um er deilt. Hún leggur að hans mati höfuðáherslu á að skilja tilfinningar barnsins og að vera styðjandi gagnvart því fremur en að setja skýr mörk. Samkvæmt matsgerð skortir stefnanda einnig stundum sjálfstæði og skipulag í persónulegu lífi, hún er enn háð fjölskyldu sinni og þiggur þaðan styrk. Stefndi er 33 ára, alinn upp við meiri aga og formfestu en stefnandi og byrjaði ungur að axla ábyrgð. Hann er náinn barninu að áliti matsmanns, sýnir því væntumþykju og barnið leitar eðlilega til hans. Í stuðningi sínum við barnið leggur hann, samkvæmt matinu, höfuðáherslu á að efla sjálfstæði þess, setja reglur og leiðbeina. Hann sækir sjálfur í stöðugleika og reglufestu, er stjórnsamur og skortir stundum sveigjanleika.
Samkvæmt ofansögðu nálgast foreldrarnir barnið með ólíkum hætti og hafa ekki samskonar skilning á ýmsum þörfum þess. Báðir eru hæfir foreldrar og hafa ekki tálmað umgengni hins foreldrisins við barnið. Þegar litið er til þess sem fram hefur komið í málinu telur dómurinn að meta verði aðstæður þannig að aðferð stefnanda sé líklegri til að höfða til barnsins og bera jákvæðan árangur sökum þess að nálgun hennar er persónulegri og hlýrri. Því eigi hún að jafnaði auðveldara með að lesa í tilfinningalegar þarfir barnsins og bregðast við þeim, eins og reynslan sýnir að hún gerði gagnvart vanlíðan barnsins síðastliðið sumar.
Tengsl barnsins sem hér um ræðir við systkini skipta einnig máli við úrlausn á því hvað barninu sé fyrir bestu varðandi forsjá þess. Barnið á tvær hálfsystur; fimm ára systir er móðurmegin, búsett hjá stefnanda, og 13 ára systir föðurmegin, í umgengni hjá stefnda aðra hverja helgi. Að áliti matsmanns eru tengsl yngri systranna sterk enda eru þær nánar í aldri, voru samvistum að fullu fram að skilnaði og síðan að hálfu eftir skilnaðinn. Dómurinn telur að tengsl þeirra hálfsystra og þeir möguleikar sem í þeim felast, fái þær að alast upp saman, séu barninu verðmæti sem horfa verði til við úrlausn málsins.
Breyting á umhverfi barnsins er einnig þáttur sem horfa verður til og meta þarf á hvern hátt slík breyting gæti haft áhrif á úrlausn málsins. Eins og áður hefur komið fram leggur dómurinn áherslu á að stöðugleiki, umhyggja og önnur skilyrði eðlilegrar tengslamyndunar og þroska nái að ríkja í lífi barnsins næstu árin. Þar skiptir nánasta umhverfi og breytingar á því miklu. Það mikilvægasta í umhverfi barns á þeim aldri sem hér um ræðir er ekki hverfið sem það býr í, húsnæðið eða aðrir efnislegir hlutir, heldur návist þess og þeirra sem barnið er tengdast. Þegar þetta er haft í huga verður að telja að ekki geti haft úrslitaþýðingu við ákvörðun á því hvað barninu sé fyrir bestu þótt flutningur barnsins til stefnanda kalli á annan leikskóla og flutning af heimili stefnda þar sem barnið hefur að miklu leyti dvalist frá fæðingu. Dómurinn telur að í þessu tilliti skipti aðrir þættir meira máli fyrir barnið, sérstaklega að það fái áfram tækifæri til að byggja á þeim tengslagrunni sem þegar er fyrir hendi, eins og áður hefur komið fram.
Þegar virt eru öll þau atriði sem dómurinn telur samkvæmt framangreindu að leggja beri til grunvallar við ákvörðun á því hvað barninu sé fyrir bestu er það niðurstaða dómsins að stefnandi skuli framvegis fara með forsjá barnsins A.
Málsaðilar hafa báðir krafist þess að dómurinn kveði á um inntak umgengni þess foreldris sem ekki fer með forsjá barnsins. Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. barnalaga ber dóminum að kröfu annars foreldris eða beggja að kveða á um inntak umgengnisréttar barns og foreldris eftir því sem barni er fyrir bestu.
Fram kemur í matsgerð Guðrúnar Oddsdóttur sálfræðings að hún telji barnið mæta mjög ólíkum kröfum og viðmóti hjá foreldrunum. Því valdi það jafna fyrirkomulag umgengninnar sem ríkt hefur, barninu álagi, enda þurfi það vikulega að aðlagast miklum breytingum. Dómurinn telur mikilvægt að komið verði til móts við þessa hagsmuni barnsins með þeim hætti að það fari ekki oftar en verið hefur á milli heimilanna og sé styttri tíma hjá stefnda en verið hefur. Þegar tillit er tekið til þess verður að telja farsælast að barnið hafi umgengni við stefnda aðra hverja viku frá fimmtudagssíðdegi til mánudagsmorguns. Þá þykir rétt að barnið dveljist hjá foreldrum á víxl um stórhátíðir, fyrst hjá stefnda um næstu páska, hjá stefnanda á næstu jólum, hjá stefnda um næstu áramót og síðan hjá stefnanda páska 2014 og eftir það koll af kolli á víxl. Í sumarleyfum skal barnið hafa umgengni við stefnda samfellt tvisvar sinnum í tvær vikur og líði að minnsta kosti tvær vikur á milli. Skal miða við að foreldrar ákveði upphaf þessa tímabils fyrir 1. maí ár hvert.
Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. barnalaga ber dóminum að kveða á um meðlag eins og stefnandi krefst og í samræmi við 57. gr. sömu laga. Ber stefnda með vísan til þeirra lagaákvæða að greiða stefnanda meðlag til framfærslu stúlkunnar eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hennar.
Rétt þykir, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Katrínar Theodórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 950.000 krónur án virðisaukaskatts en kostnaður vegna matsgerðar er 988.000 krónur.
Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Valgerði Magnúsdóttur og Þorgeiri Magnússyni sálfræðingum.
D ó m s o r ð:
Stefnandi, K, skal fara með forsjá A, kt. [...], til 18 ára aldurs hennar.
Umgengni stefnda, M, við stúlkuna skal vera aðra hverja viku frá fimmtudagssíðdegi til mánudagsmorguns. Barnið skal síðan dveljast hjá foreldrum á víxl um stórhátíðir, fyrst hjá stefnda um næstu páska, hjá stefnanda á næstu jólum, hjá stefnda um næstu áramót og síðan hjá stefnanda páska 2014 og eftir það koll af kolli á víxl. Í sumarleyfum skal barnið hafa umgengni við stefnda samfellt tvisvar sinnum í tvær vikur og líði að minnsta kosti tvær vikur á milli. Skal miða við að foreldrar ákveði upphaf þessa tímabils fyrir 1. maí ár hvert.
Stefnda ber að greiða stefnanda meðlag til framfærslu stúlkunnar eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hennar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Katrínar Theodórsdóttur hdl., 950.000 krónur án virðisaukaskatts.