Hæstiréttur íslands

Mál nr. 698/2012


Lykilorð

  • Hótanir


Þriðjudaginn 26. mars 2013.

Nr. 698/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Hótanir.

X var ákærður fyrir hótun með því að hafa sent A sms-skeyti sem talið var til þess fallið að vekja hjá honum ótta um líf sitt og velferð. Var háttsemin álitin varða við 233. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt ákvæðinu væri hótun því aðeins refsiverð að ljóst væri, hlutlægt séð, að sá sem hana hefði í frammi hótaði því að gripið yrði til verknaðar sem myndi hafa jafn alvarlegar afleiðingar í för með sér og þar væru greindar. Ummælin í skeytinu hafi verið ósæmileg og yrðu ekki réttlætt. Þegar efni þess væri virt í heild sinni yrði hins vegar ekki talið að í því hafi falist hótun sem lýst væri refsiverð í 233. gr. laga nr. 19/1940. Var X því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. nóvember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Til viðbótar því sem þar greinir sést á gögnum málsins og kom einnig fram í skýrslu A fyrir héraðsdómi að einkahlutafélag í eigu hans hafi skuldað ákærða töluvert fé vegna vinnu sem hann hafði innt af hendi fyrir félagið.

Samkvæmt ákæru er ákærða gefið að sök að hafa hótað A ofbeldi í sms-skeyti sem ákærði sendi í farsíma hans 21. júní 2011 og hafi efni þess verið til þess fallið að vekja hjá A ótta um líf sitt og velferð. Teljist brotið varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Efni skeytisins var svohljóðandi: „Ertu búin að nauðga einhverri 13 ára nýlega gerpið thitt? Mundu bara að thú sleppur aldrei undan skuldinni. Thad er bedid eftir thér I steininum ef ég næ thér ekki ádur barnaperrinn thinn“.

Í 233. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, skuli sæta refsingu. Samkvæmt þessu ákvæði er hótun því aðeins refsiverð að ljóst sé, hlutlægt séð, að sá sem hana hefur í frammi hóti því að gripið verði til verknaðar sem muni hafa jafn alvarlegar afleiðingar í för með sér og þar eru greindar.

Ummælin í skeytinu sem ákærði sendi A eru ósæmileg og verða ekki réttlætt. Sé efni skeytisins virt í heild verður hins vegar ekki talið, samkvæmt því sem að framan greinir og að teknu tilliti til atvika málsins, að í því hafi falist hótun sem lýst er refsiverð í 233. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, eins og þau voru þar ákveðin, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Óskars Sigurðssonar, hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. nóvember 2012.

Mál þetta, sem þingfest var þann 30. ágúst. sl., og dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 17. október sama ár, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á [...], dagsettri 12. júlí 2012, á hendur X kt [...], til heimilis að [...], [...];

„fyrir hótanir

með því að hafa, þriðjudaginn 21. júní 2011, hótað A, kt. [...], ofbeldi í neðangreindu SMS – skeyti, sem ákærði sendi í farsíma A, en efni umrædds SMS-skeytis var til þess fallið að vekja hjá A ótta um líf hans og velferð. (033-2011-960)

„Ertu búin að nauðga einhverri 13 ára nýlega gerpið thitt? Mundu bara að thú sleppur aldrei undan skuldinni. Thað er bedid eftir thér I steininum ef ég næ thér ekki ádur barnaperrinn thinn“

Telst brot ákærða varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði mætti við þingfestingu málsins ásamt Óskari Sigurðssyni hæstaréttarlögmanni sem var skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði óskaði eftir fresti til að taka afstöðu til sakarefnisins og var málinu frestað til 6. september sl. Þann dag mætti ákærði fyrir dómi og neitaði sök. Aðalmeðferð málsins fór fram, eins og áður segir þann 17. október sl.

Ákærði neitaði sök og krafðist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

Málsatvik

Í máli þessu er ákært fyrir ein sms skilaboð sem ákærði hefur viðurkennt að hafa sent brotaþola þann 21. júní 2011. Upphaf málsins má rekja til þess að A, brotaþoli í máli þessu, lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir hótanir hjá lögreglunni á [...] fimmtudaginn 23. júní 2011. Brotaþoli kvaðst hafa orðið fyrir síendurteknum hótunum frá ákærða allt frá haustinu 2008 og framvísaði gögnum allt frá árinu 2009 máli sínu til stuðnings eins og fram kemur í skýrslu hans hjá lögreglu.

Brotaþoli kvað áreitni ákærða hafa haft mjög mikil áhrif á sig og fjölskyldu sína og hafi fjölskyldan þurft að breyta mörgu í sínum háttum, ekki síst hvað varðar líf og framgang [...]. Ráða má af skýrslunni að brotaþoli hafi afhent lögreglu greinargerð, dagsetta 9. júní 2011, þar sem brotaþoli reifar ætlaða atburðarás í grófum dráttum. Einnig hafi brotaþoli afhent lögreglu upplýsingar um sms skilaboð frá ákærða. 

Í málinu liggja frammi ljósmyndir af símtæki sem sýna nokkur sms skilaboð send annars vegar úr símanúmeri ákærða og hins vegar af síðunni ja.is. Hluti skilaboðanna er frá árinu 2009. Meðal gagna málsins eru einnig útprentanir af umræðum á fésbókarsíðum og bloggi. Þá eru gögn um samskipti brotaþola við Persónuvernd og Umboðsmann Alþingis, ítarleg gögn um heilsufar brotaþola, upplýsingar um ætlaða skuld fyrirtækis brotaþola við ákærða o. fl.

Skýrslutökur fyrir dómi.

Ákærði, sem neitaði sök, hefur viðurkennt að hafa sent brotaþola sms - skeyti það sem ákært er fyrir í máli þessu. Ákærði neitar því hins vegar að hótun hafi falist í skeytinu. Hann og brotaþoli hafi verið [...]. [...]. Tilgangur með sendingu sms skeytis, sem ákært er fyrir í máli þessu, kveður ákærði hafa verið að hreyfa við brotaþola út af skuld hans við ákærða og höfða til samvisku hans.  Ákærði var spurður hvað hann hafi átt við með framangreindum skilaboðum. Með setningunni „Ertu búin að nauðga einhverri 13 ára nýlega gerpið thitt?“ taldi ákærði það vera ljóst. Brotaþoli sé dæmdur „[...]“ og yfirleitt séu slík mál bara toppurinn af ísjakanum og kvaðst ákærði hafa verið að vísa til þess. Með setningunni „Mundu bara að thú sleppur aldrei undan skuldinni.“ kvaðst ákærði hafa verið að vísa til þess að hann hafi ekki getað sætt sig við að með því að loka kennitölu fyrirtækisins gæti brotaþoli skilið alla eftir í skítnum. Þrátt fyrir gjaldþrot fyrirtækis brotaþola þá skuldi hann ákærða enn [...]. Skuldin sé nú líklega um fimm milljónir króna. Brotaþoli hafi haldið ákærða góðum og meðal annars borið því við að hafa ekki fengið greitt frá sínum kröfuhöfum. Þetta hafi leitt til þess að ákærði missti [...] sem hann hafði verið með í vinnu fyrir brotaþola. Um setninguna „Thað er beðið eftir thér I steininum ef ég næ thér ekki ádur barnaperrinn thinn“ sagði ákærði að það viti allir menn og sé alkunna í þjóðfélaginu  að litið sé niður á svona karla í fangelsum, þeir séu þar ekki vinsælir. Þeir séu hafðir á sérgangi í fangelsum til að vernda þá fyrir öðrum föngum. Aðspurður hver hafi beðið eftir brotaþola í steininum, vísað ákærði til allra sem í fangelsum dvelji, en tók fram að þeir menn hafi ekki verið á hans vegum. Aðspurður kvaðst ákærði án efa hafa þekkt einhvern sem setið hafi inni á þessum tíma en hann hafi hins vegar ekki rætt við þá menn um málefni brotaþola. Nánar aðspurður hvað ákærði hafi átt við með „ef ég næ thér ekki ádur barnaperrinn thinn“ sagðist ákærði hafa verið að vísa til þess að hann þyrfti að ná í brotaþola til að ræða við hann um skuldina en erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við brotaþola. Ákærði kvaðst oft hafa rætt við brotaþola um margnefnda skuld og þá hafi brotaþoli lofað öllu góðu. Ákærði kvaðst vilja taka fram að hann sé með [...] og sé [...] og það geti haft áhrif á það sem hann segi og skrifi. Nánar aðspurður um hver hafi verið tilganginn með sendingu sms – skeytisins sagði ákærði að hann hafi verið pirraður og gramur út í brotaþola og viljað „benda honum á, byggja upp kvíða hjá honum áður en hann færi í fangelsi“. Þetta hafi verið hans leið til að ná einhverju fram og fá brotaþola til að hugsa, en um hótun af sinni hálfu hafi ekki verið að ræða.

Ákærði var spurður út í tvö sms- skilaboð sem hann kannaðist við að hafa sent brotaþola í maí og ágúst 2009 og kvað hann þau bæði hafa verið send til að ýta eftir því að brotaþoli gerði upp margnefnda skuld. Þá upplýsti ákærði að brotaþoli hafi farið að væla í eitt skiptið sem þeir hafi rætt um skuldina og kvaðst ákærði hafa verið að vísa til þess í sms skilaboði til brotaþola í maí 2011. Um önnur skilaboð eða ummæli sem liggja frammi í málinu vildi ákærði ekki tjá sig nánar.

Vitnið A, brotaþoli í máli þessu, bar fyrir dómi að ákærði hafi unnið fyrir [...] vitnisins sem varð gjaldþrota árið [...] en fyrirtækið hafi ekki getað staðið í skilum við ákærða. Vegna þess, eða allt frá árinu 2008, hafi vitnið orðið fyrir hótunum af hálfu ákærða. Vitnið kvaðst hafa snúið sér til lögreglu í júní 2011 í tilefni nýrra hótana og staðfesti vitnið að hafa fengið sms skeyti það sem ákært er fyrir í máli þessu. Vitnið kvað skeytið hafa valdið sér og fjölskyldu sinni ótta og mikilli vanlíðan, en í því hafi verið bornar á hann rangar sakir, [...]. Vitnið tók fram að umrætt sms–skeyti hafi verið eitt af mörgum sem ákærði sendi honum. Nánar aðspurt ítrekaði vitnið að það hafi verið þær röngu sakir sem á hann voru þar bornar sem hafi valdið honum og fjölskyldu hans ótta, en vitnið tók fram að skeytið hafi verið hluti af miklu stærri „pakka“ frá sama aðila, eins og vitnið orðaði það.

Fram kom hjá vitninu að þegar honum barst umrætt sms - skeyti hafi verið nýfallinn dómur í Hæstarétti þar sem vitnið var sakfellt fyrir kynferðisbrot, [...] og hann hafið afplánun dómsins í upphafi árs 2012. Meðan á afplánun stóð, nánar tilgreint á tímabilinu apríl til júní, hafi menn gengið að honum og sagt honum að borga [...] 4 -5 milljónir og ef hann myndi ekki hitta ákveðinn mann, sem sent hefði umrædda menn á hann, þá yrði gert mikið mál úr þessu. Í framhaldi af því hafi hann í samráði við fangaverði haldið sig inni á sínum gangi í fangelsinu. Vitnið kvaðst hafa óttast að eitthvað yrði gert á hlut hans innan fangelsisins enda hafi það komið fram í öðrum skilaboðum frá ákærða að hann hefði sambönd innan fangelsa og að búið væri að senda mynd af vitninu inn í öll fangelsi. Vitnið kvaðst hafa tekið hótanirnar alvarlega og búist við að á hann yrði ráðist eða hann beittur „handrukkun“ eða slíku, enda hafi hótanir af hálfu ákærða staðið allt frá árinu 2008.

Aðspurður af verjanda ákærða, í tilefni ítarlegra upplýsinga um heilsufar vitnisins sem liggja frammi í málinu, kvaðst vitnið hafa lent í [...] og fengið [...] ári síðar. Hann hafi verið í [...]. Vitnið kvaðst hafa fundið fyrir [...] og [...] í kjölfar dómsins og hafi hótanir ákærða magnað vanlíðan hans.

Niðurstaða

Ákæra í máli þessu lýtur að sms skeyti sem sent var þann 21. júní 2011 og hljóðaði þannig:  „Ertu búin að nauðga einhverri 13 ára nýlega gerpið thitt? Mundu bara að thú sleppur aldrei undan skuldinni. Thað er bedid eftir thér I steininum ef ég næ thér ekki ádur barnaperrinn thinn“. Ákærði hefur viðurkennt að hafa sent brotaþola umrætt skeyti, en neitaði að í efni þess hafi falist ólögmæt hótun. Fyrir liggur að fyrirtæki brotaþola skuldaði ákærða fjármuni á þeim tíma sem um ræðir. Þá liggur einnig fyrir að rúmum [...] áður en ákærði sendi sms skeytið var brotaþoli dæmdur í Hæstarétti Íslands í fangelsi fyrir kynferðisbrot. 

Samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra.

Að mati dómsins felst ekki hótun um að fremja refsiverðan verknað sem sé til þess fallinn að vekja hjá brotaþola ótta um líf, heilbrigði eða velferð sina eða annarra, í spurnarsetningunni „Ertu búin að nauðga einhverri 13 ára nýlega gerpið thitt?, eins og áskilið er í 233. gr. almennra hegningarlaga.

Kemur þá til skoðunar hvort setningin „Mundu bara að thú sleppur aldrei undan skuldinni“ og setningin „Thað er bedid eftir thér I steininum ef ég næ thér ekki ádur barnaperrinn thinn“, telst hótun í skilningi  233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Ákveðin tengsl eru að mati dómsins milli framangreindu setninganna og bar ákærði fyrir dómi að hann hafi með orðatiltækinu „ef ég næ thér ekki ádur“, verið að vísa til þess að hann hafi ætlað að ná tali af brotaþola vegna umræddrar skuldar. Fyrir dómi bar ákærði að tilgangur með sendingu sms skeytisins hafi verið að byggja upp kvíða hjá brotaþola fyrir fangavistinni. Skýringar ákærða á orðalagi skeytisins voru efnislega þær sömu hjá lögreglu og fyrir dómi. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði ákærði það almenna vitneskju að beðið sé í fangelsum eftir mönnum sem hafi gerst sekir um kynferðisbrot. Fyrir dómi kvað ákærði það alkunna í þjóðfélaginu að litið sé niður á dæmda kynferðisafbrotamenn í fangelsum, þeir séu ekki vinsælir, og hafðir á sérgangi til að vernda þá fyrir öðrum föngum. Skýringar ákærða fyrir dómi verða ekki skildar á annan veg en þann að ákærði hafi ætlað að vekja hjá brotaþola ótta. Með hliðsjón af framanrituðu og atvikum að öðru leyti verður að telja að með orðunum „Mundu bara að thú sleppur aldrei undan skuldinni. Thað er bedid eftir thér I steininum ef ég næ thér ekki ádur barnaperrinn thinn“, hafi falist hótun um að brotaþola biði ofbeldi eða önnur refsiverð háttsemi í fangelsi og þykir hótunin hafa verið til þess fallin að vekja hjá brotaþola ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína. Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann í október 2002 dæmur í sekt og sviptingu ökuréttar fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Með dómi í september 2003 var ákærði dæmdur hegningarauki, 10 mánaða fangelsi, þar af 8 mánuðir skilorðsbundnir í tvö ár, fyrir brot gegn 73. gr. tékkalaga, nr. 94/1933, fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot og brot gegn 146. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar framangreint er virt, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en rétt þykir að fresta ákvörðun refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskar Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 200.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt gögnum málsins féll enginn annar sakarkostnaður til við rannsókn málsins.

Margrét Harpa Garðarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á [...], flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 200.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.