Hæstiréttur íslands

Mál nr. 158/2014


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Dráttur á máli
  • Aðfinnslur


                                     

Fimmtudaginn 18. desember 2014.

Nr. 158/2014.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Arnari Inga Sævarssyni

(Árni Pálsson hrl.)

Líkamsárás. Dráttur á máli. Aðfinnslur.

X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa sparkað eða trampað á höfði Y. Var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Þá var honum gert að greiða Y 50.000 krónur í miskabætur. Átalinn var sá dráttur sem varð á meðferð málsins fyrir útgáfu ákæru hjá ákæruvaldinu. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að refsing verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á þá niðurstöðu að sök ákærða sé sönnuð svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa. Verður hann því sakfelldur fyrir það brot sem honum er gefið að sök. Að öllu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga bundið því skilorði sem í dómsorði segir.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað skulu óröskuð.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði verjandans, eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að rannsókn málsins lauk þegar eftir atburði 11. september 2011 en ákæra var ekki gefin út fyrr en 19. apríl 2013. Þessi dráttur á meðferð málsins hjá ákæruvaldinu er aðfinnsluverður.

Dómsorð:

            Ákærði, Arnar Ingi Sævarsson, sæti fangelsi í 30 daga. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

            Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 693.071 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur, og útlagðan kostnaðar verjandans, 42.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. desember 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð mánudaginn 4. nóvember, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akureyri, útgefinni 19. apríl 2013, á hendur Arnari Inga Sævarssyni, kt. […],[…],[…], X, kt. […],[…],[…] og Y, kt. […],[…],[…]

fyrir líkamsárásir, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 11. September 2011, inni í afgreiðslu Nætursölunnar við Strandgötu á Akureyri, sýnt af sér þá háttsemi sem lýst verður hér á eftir og með þeim afleiðingum sem einnig er lýst:

A.

Gegn ákærða Y fyrir að hafa skallað í andlit og síðan slegið, A, kt. […], með þeim afleiðingum að hún hlaut blóðnasir. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

B.

Gegn ákærða X, fyrir að hafa sparkað í bak meðákærða Y, þar sem hann lá óvígur í gólfinu í afgreiðslusal Nætursölunnar, eftir átök sem ákærðu höfðu allir tekið þátt í, með þeim afleiðingum að brotaþoli fékk hluta af þeim áverkum sem lýst er í C lið ákærunnar. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

C.

Gegn ákærða Arnari Inga, fyrir að hafa sömuleiðis eftir að meðákærði Y lá óvígur í gólfinu eftir nefnd átök, sparkað eða trampað á höfði hans.

Afleiðingar þessara árása sem lýst er í B og C lið ákærunnar fyrir brotaþola Y voru þær að hann hlaut skrámur á baki og mar á hægra herðablaði og á bringu undir vinstra brjósti, mar yfir hægra auga og hægra kinnbeini og eftir coronal suturu og aftur að lambdoid suturu að neðanverðu vinstra pariet beini var bólga og eymsli. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa

Í málinu gerir Y, kt. […], […],[…], bótakröfu á hendur ákærða Arnari Inga Sævarssyni, kt. […], að fjárhæð kr. 500.000- auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38, 2001, um vexti og verðtryggingu. frá 11. september 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafa þessi er kynnt ákærða, en síðan dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Einnig er gerð krafa um lögmannskostnað að mati dómsins.“

Ákærði Y játar sök samkvæmt ákæru.

Ákærði X játar þá háttsemi sem honum er gefin að sök, en kveðst enga afstöðu taka til þess hvort hann hafi valdið þeim áverkum sem tilgreindir séu í ákærunni.

Ákærði Arnar Ingi neitar sök og hafnar bótakröfu.

Málavextir

Samkvæmt lögregluskýrslu barst lögreglu tilkynning kl. 04:01, aðfaranótt sunnudagsins 11. september 2011, um slagsmál í söluturninum Nætursölunni við Strandgötu.  Er lögregla hafi komið á vettvang hafi Arnar Ingi Sævarsson borið að Y hefði ráðizt á vinkonu Arnars Inga. Segir í skýrslunni að Y hafi verið „frekar æstur og reiður“ en þó samþykkt að koma með lögregluþjónum til viðræðna í lögreglubifreið. Þar hefði Ykvartað um svima og ógleði og hafi lögregluþjónar í fyrstu haldið að ölvun hans ætti þátt í þessu, en Y hefði verið „áberandi ölvaður“.  En eftir að upplýsingar hefðu borizt úr viðræðum annarra lögregluþjóna við vitni á staðnum hefði höfuð hans verið skoðað og þá komið í ljós áverkar, roði, á báðum kinnbeinum, en einnig mikill roði aftan við vinstra eyra og áverki frá eyranu og upp á hvirfil.  Hafi honum þá verið ekið á sjúkrahús.

Samkvæmt bráðasjúkraskrá Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri kom Y þangað kl. 04:19 þessa nótt.  Hafi hann þá verið „verulega ölvaður og litla sem enga sögu hægt að fá upp úr honum.“  Niðurstöður skoðunar eru sagðar þessar: „Við skoðun eru mar og skrámur víðsvegar um líkama, á aftanverðum upphandlegg hægri handar sem og framanverðum handlegg vinstri handar.  Skrámur eru einnig á baki þar sem mar er að koma fram á hægra herðablaði, medial hlið og einnig á bringu undir vinstra brjósti.  Það er einnig mar yfir hægra auga og hægra kinnbeini og eftir coronal suturu og aftur að lambdoid suturu á neðanverðu vinstra pariet beini er bólga þar sem sjúklingur er aumur en ekki klár grunur eftir klíníska skoðun um brot þar undir.“

Ákærði Arnar Ingi gaf skýrslu hjá lögreglu sunnudaginn 11. september og liggur fyrir upptaka af yfirheyrslunni.  Lýsti ákærði því meðal annars að hann hefði dregið meðákærða Y og ætlað að koma honum út af staðnum.  Hefði ákærði hálfvegis haldið á honum en meðákærði verið „frekar leiðinlegur að halda á“.  Á leiðinni út hefði meðákærði slegið A aftur, og þá hefði fokið í ákærða, sem hefði fellt meðákærða og lagzt ofan á hann. Í framhaldi af þessu hefði verið rifið í ákærða og bolur hans hefði rifnað við það að einhver reyndi að losa hann af meðákærða.  Meðákærði hefði legið með hendur yfir andliti og hefði ákærði tekið þær í sundur og öskrað á hann spurningar um hvers vegna meðákærði hefði ráðizt að A, en meðákærði hefði engu svarað heldur leikið sig áfengisdauðan að því er ákærði hefði talið.  Einhverjir hefðu svo reist ákærða á fætur og hann ekki barizt um gegn því. Hefði ákærða þá sýnzt sem meðákærði væri „á einhverri hreyfingu. [Ákærða] langaði þá svo agalega til að bara hrinda honum aftur í jörðina, eða sem sagt stapp‘onum, og það fer í hausinn á honum, skildist mér, eða hausinn eiginlega einhvers staðar hérna“ – og hér strauk ákærði hægri hluta andlits síns frá gagnauga að eyra – „ég veit ekki hvar ég náði, en ég gerði bara svona“ – og þá sýndi ákærði með látbragði hvernig hægri fæti er þrýst lóðrétt niður – „þetta var ekkert, án þess að ég viti það eitthvað, fast frá mér. En engu að síður, ég gerði þetta. Og svo sé ég þennan strák ekkert meir.“ Kvaðst ákærði hafa misst stjórn á sér þarna.

Sunnudaginn 11. september gaf B skýrslu hjá lögreglu.  Er haft eftir henni í samantekt um skýrsluna að hún hafi um nóttina gengið fram hjá Nætursölunni ásamt vinkonu sinni „og að hún hafi séð strák sem lá þarna í gólfinu.  B sagði að það hefðu verið þarna strákar og þeir hafi verið upptjúnaðir og hún hafi bara staðið þarna og þá hafi hún séð ljóshærðan strák í svörtum bol sparka svona ofan á hausnum á honum, traðkar ofan á hausnum á honum.“  Að öðru leyti þykir ekki ástæða til að rekja hér efni lögregluskýrslna.

Í málinu liggja fyrir upptökur úr öryggismyndavélum á Nætursölunni.  Verður nánar fjallað um þær í niðurstöðukafla dómsins.

Skýrslur ákærðu og framburður vitna fyrir dómi

Ákærði Arnar Ingi sagðist hafa verið á Nætursölunni ásamt vini sínum, meðákærða X, og A. Skyndilega hefði hann séð slagsmál brjótast út milli meðákærðu Y og X.  Meðákærði Y hefði snúið baki í ákærða, sem hefði hlaupið að honum og tekið um hann aftan frá.  Ákærði hefði því næst hrópað til meðákærða X spurningu um hvað meðákærði Y hefði gert, og fengið það svar að hann hefði „skallað A“. Ákærði hefði þá tekið um meðákærða Y aftan frá, undir hendur, og dregið hann í burtu, en á leiðinni út hefði meðákærði kýlt A í andlitið.  Ákærði hefði þá reynt að draga hann frekar í burtu frá A, „sem sagt bara tek aðeins meira á hann“, og við það hefðu báðir dottið. Meðákærði Y hefði dottið á hurð, „með andlitið eiginlega á undan“ og ákærði hefði snúið honum við og hefði svo setzt ofan á hann og setið þar í hálfa til eina mínútu. Eftir það hefðu einhverjir drengir dregið ákærða upp og rifið í hann. Við það hefði meðákærði Y ætlað að reisa sig upp en ákærði þá reynt að „ýta honum bara aftur niður í rauninni með löppinni“, en hvorki sparkað í hann né trampað á honum.

Þegar ákærði var spurður nánar um hvort meðákærði hefði dottið á hurð kvaðst hann ekki geta fullyrt það. Hann hefði verið mjög drukkinn, þetta gerzt mjög hratt og langt síðan.

Ákærði sagðist hafa séð meðákærða X sparka einu sinni í meðákærða Y þegar Y hefði legið.  Sparkið hefði komið í síðuna, bakið eða öxlina, ákærði hefði ekki séð það nákvæmlega.

Ákærði sagði tilgang aðgerða sinna gagnvart meðákærða Y hafa verið að koma í veg fyrir að hann kýldi meðákærða X eða réðist aftur á A. Hann hefði ekki ætlað að meiða meðákærða Y.

Ákærði var spurður út í frásögn sína í yfirheyrslu hjá lögreglu. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað hann hefði sagt í yfirheyrslunni, en hann hefði verið illa fyrir kallaður eftir drykkju næturinnar áður.  Spurður hvort eitthvað sérstakt væri rangt við þá frásögn sem eftir honum er höfð, sagðist hann ekki hafa sparkað í meðákærða Y.  „Ég er harður á því, þó svo ég hafi viðurkennt það við lögregluna þá bara með því að fá að hugsa þetta og fá að sjá vídeóið og svona, þá finnst mér ég ekki hafa sparkað í hann“, bætti hann við. Lögreglan hefði fullvissað sig um að hann hefði sparkað í meðákærða.  „Hún sagði alltaf við mig, þú sparkaðir í hann, þú veizt það eru þessi tvö vitni sem sáu þig að minnsta kosti sparka í hann einu sinni ef ekki tvisvar eða þrisvar. Það sést hvergi á vídeóinu að ég sparkaði tvisvar eða þrisvar í hann.  Og ég sparkaði ekki í hann“, bætti ákærði við. Hann kvaðst ekki muna hvaða lögregluþjónn hefði sagt sér þetta, en það hefði ekki verið sá sami og yfirheyrði.

Ákærði X sagði tildrög átakanna hafa verið að þau A hefðu setið og spjallað saman en hún svo staðið upp og farið að ræða við meðákærða Y.  Ákærði hefði ekki heyrt hvað þeim hefði farið á milli, en séð að meðákærði hefði svo skallað hana í andlitið.  Ákærði hefði þá haldið á samloku og hefði þegar í stað kastað henni í meðákærða og farið svo og ætlað að ganga á milli.  Ákærði kvaðst halda að hann hefði rifið í meðákærða, sem hefði þá kýlt sig. Eftir þetta hefði meðákærði Arnar Ingi komið að þeim „og tekið eitthvað í hann“, en ákærði kvaðst ekki muna neitt frá þeirri stundu og þar til ákærði hefði sparkað í meðákærða Y þar sem meðákærði hefði legið á gólfinu.  Sparkið hefði líklega komið á bakið mitt og kvaðst ákærði ekki muna til þess að það hefði verið fast.  Aðspurður kvað hann hugsanlegt að skrámur á baki og mar á herðablaði meðákærða væru komin til af sparkinu, en hann væri ekki í aðstöðu til að dæma um það.

Ákærði kvaðst hafa verið „frekar mikið ölvaður“.  Hann myndi atburði „bara svona í flössum“. Hann sagðist ekki hafa séð meðákærða Arnar Inga sparka í meðákærða Y. Hann sagðist „hugsa að það hefðu nú örugglega orðið einhver meiri áflog milli mín og [meðákærða Y]“ og meðákærði Y jafnvel ráðizt frekar á A ef meðákærði Arnar Ingi hefði ekki dregið meðákærða Y burtu.

Ákærði Y kvaðst muna sáralítið eftir því sem hefði gerzt á Nætursölunni þessa nótt. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa skallað og slegið A en játa sök þar sem þetta sé til á mynd.  Þegar hann var spurður hvort hann myndi eftir að traðki eða sparki í höfuð sitt sagði ákærði að sig „[rámaði] eitthvað í skósóla fyrir ofan mig, þegar ég ranka við mér smá“.  Hann hefði hvorki þekkt meðákærðu né A og ekki hafa hugmynd um hvers vegna hann hefði ráðizt að henni.

Ákærði kvaðst hafa fengið mar og marblett eftir átökin, bakið hefði verið mjög marið, hann allur verið aumur og ekki getað stigið í fætur í heilan dag.  Hann hefði hins vegar orðið alheill á tíu dögum eða svo.

Vitnið A kvaðst hafa verið unnusta ákærða X en því sambandi hefði lokið nokkurum mánuðum fyrir atvik málsins.  Vitnið kvaðst muna „rosalega lítið“ eftir atvikinu, en þó muna að það hefði orðið mjög undrandi þegar ákærði Y hefði skallað það, og ekki trúað eigin augum. Ákærði X hefði þá komið og gengið á milli, en meira myndi vitnið ekki, vegna uppnáms og ölvunar á þessari stundu.

Vitnið lýsti afleiðingum atviksins fyrir sig þannig, að „í marga mánuði eftir það, þá bara small og klikkaði í nefinu“ á vitninu, en síðar hefði komið í ljós að skaðinn væri ekki varanlegur og vitnið kenndi sér einskis meins lengur.

Vitnið B hjúkrunarfræðinemi kvaðst hafa verið á gangi fyrir utan Nætursöluna með annarri stúlku, litið inn um glugga og þá séð dökkhærðan mann á gólfinu en annan „vera að sparka í hann“.  Þær hefðu hlaupið inn og félagi vitnisins „hún svona setur hendina fyrir þannig að hann bakkar, sá sem var að sparka.“  Vitnið hefði lagzt niður og hlúð að þeim sem var í gólfinu, en hann hefði andað mjög grunnt.  Sá sem hefði sparkað hefði svo reynt að „koma aftur“ en fólk hefði verið fyrir og borið hönd fyrir.

Vitnið sagði að maðurinn hefði verið standandi þegar hann sparkaði, og um spark en ekki óhapp hefði verið að ræða.  Vitnið var spurt hvar á líkamann sparkið hefði komið, og þá svaraði það: „...mig minnti nefnilega að ég hafi séð hann sparka í hausinn eða svona trampa ofan á hausinn, en svo það er í minningunni á þeim tímapunkti þegar ég sá það utan Nætursölunnar, svo man ég að lögreglustjórinn sýndi mér myndbandið og hann gerði það minnir mig ekki.“  Vitnið var spurt áfram um þetta atriði og svaraði því til, að ef það ætti aðeins að svara eftir því sem það teldi sig muna sjálft, þá myndi það segja að „hann hefði sett sagt fótinn ofan á hausinn og sparkað í búkinn.“ Ef vitnið hugsaði ekki um það sem því hefði verið sýnt á myndbandi þá hefði það sagt að „fótur [hefði] farið ofan á höfuð“. Sé væri „minnisstætt í minningunni að hafa séð hann, en svo var [vitninu] sýnt myndbandið, og það sást ekki, þannig að auðvitað hef ég dregið það náttúrulega til baka.“

Vitnið var spurt hvort verið gæti að fótur hefði farið í höfuð mannsins við það að hinum manninum hefði verið kippt í burtu.  Því svaraði vitnið þannig að það væri hugsanlegt, en vitnið hefði einblínt á manninn sem hefði legið í gólfinu og ekki séð það sem verið hefði í gangi í kring um hann.

Fyrir dómi benti vitnið á ákærða Arnar Inga sem manninn sem hefði sparkað.

Vitnið C hjúkrunarfræðingur sagðist hafa verið með stöllu sinni, Margréti, á gangi fyrir utan Nætursöluna þegar B hefði sagt að þar væri verið að sparka í dreng sem lægi í gólfinu.  Vitnið hefði þá horft þangað og séð dreng liggja í gólfinu en tvo menn standa yfir honum og annar hefði sparkað í höfuð honum.  Mennirnir tveir hefðu verið þeir ákærðu X og Arnar Ingi, en vitnið kvaðst ekki muna hvor hefði sparkað.  Lýsti vitnið sparkinu „eins og hann væri að gera í bolta“, ekki hefði verið „traðkað“.  Spörkin hefðu verið fleiri en eitt, í höfuðið á manninum sem hefði, að því er vitnið minnti, legið á bakinu.

Vitnið sagði að þær hefðu hlaupið inn til að hjálpa manninum sem sparkað hefði verið í. Hann hefði legið í gólfinu, hálfrænulaus.

Vitnið las samantekt af skýrslugjöf sinni fyrir lögreglu og kvað rétt eftir sér haft.

Vitnið D kvaðst hafa verið stödd í Nætursölunni þessa nótt, en það hefði áður rekið fyrirtækið í nokkur ár og kæmi núverandi rekanda til aðstoðar af og til.  Þessa nótt hefði vitnið verið úti að skemmta sér og séð að mikið var að gera á Nætursölunni og hefði því farið til aðstoðar, þótt það hefði verið undir áfengisáhrifum.

Slagsmál hefðu brotizt út á staðnum, en við þær aðstæður hefði vitnið oft stokkið til og reynt að stöðva þau.  Hér hefði vitnið tekið ákærða X  úr aðstæðum“, en á meðan hefðu slagsmálin haldið áfram fyrir aftan þau.  Vitnið kvaðst ekki gera sér grein fyrir hvað þar hefði gerzt, þar sem það hefði verið upptekið við að halda ákærða X í burtu.  Eftir slagsmálin hefði einn maður legið.

Vitnið sagði að í Nætursölunni væru eftirlitsmyndavélar sem tækju myndir með stuttu bili.  Væru tvær sekúndur eða svo á milli mynda.  „Þetta tekur með ákveðnu millibili, en þú færð samt svona eins og lifandi mynd.“

Niðurstaða

Með játningu sinni, sem fær stoð í gögnum málsins og engin ástæða sýnist vera til að draga í efa, er ákærði Y sannur að sök samkvæmt ákæru og hefur unnið sér til refsingar.  Háttsemi hans er rétt færð til refsiheimildar í ákæru.

Með vottorði úr bráðasjúkraskrá, sem fær að hluta stuðning af ljósmyndum sem teknar voru af ákærða Y, er sannað að hann fékk í átökunum þá áverka sem getið er í ákæru.

Ákærði X játar þá háttsemi sem honum er gefin að sök, en ekki þær afleiðingar sem hún er sögð hafa haft. Játningin fær stoð í gögnum málsins og engin ástæða virðist vera til að draga hana í efa. Er sannað að hann hafi viðhaft þá háttsemi sem honum er gefin að sök og rétt er færð til refsiheimildar í ákærunni.  Háttsemi ákærða X var til þess fallin að veita hluta þeirra áverka sem ákærði Y fékk, þó ekki verði með fullri vissu greint í sundur hvort og þá hvaða áverka hann fékk beinlínis af völdum sparks ákærða X og hvaða áverka hann hefur fengið á annan hátt.

Í málinu liggja fyrir myndir úr fjórum myndavélum á Nætursölunni.  Hver vél tekur kyrrmynd á stuttum fresti og taldi vitnið D, sem rak Nætursöluna í nokkur ár, að fresturinn væri um tvær sekúndur eða svo.  Gefa myndirnar þannig ekki eins fulla yfirsýn yfir atburðarásina og væri ef um hefðbundna myndbandsupptöku væri að ræða.  Þá er allnokkur hópur fólks staddur í Nætursölunni þegar atvik verða, og þar sem ryskingarnar berast nokkuð um svæðið, skyggja aðrir viðstaddir af og til á þær.  Allt að einu má þó telja að myndirnar sýni atburðarásina í allstórum dráttum, frá því ákærði Y skallar A og þar til hann liggur í gólfinu og ákærði Arnar Ingi er farinn ofan af honum. Sést meðal annars er ákærði Arnar Ingi situr klofvega á ákærða Y, sem liggur á bakinu á gólfinu, og ákærði Arnar Ingi færir hendur hans í sundur frá andliti hans, svo sem hann lýsti í lögregluskýrslu. Þá sést er ákærði Arnar Ingi fer ofan af ákærða Y og virðist sem í framhaldi af því setji hann fót á höfuð hans. Skömmu síðar koma vitnin B og C að og krjúpa hjá ákærða Y.  Myndir eru þó ekki mjög skýrar af því atviki þegar svo virðist sem fótur ákærða Arnars Inga fari á höfuð ákærða Y og þykir verða að skýra allan vafa um það ákærða Arnari Inga í hag.  Verður því ekki dregin sú afdráttarlausa ályktun af upptökunum að ákærði hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök, en upptökurnar þykja á hinn bóginn alls ekki útiloka það.

Hluti þeirra áverka sem sannað er að ákærði Y fékk getur komið heim og saman við þá háttsemi sem ákærða Arnari Inga er gefin að sök.

Allir ákærðu voru drukknir þegar atburðirnir urðu og hafa allir borið um gloppur í minni sínu frá þeim.  Á hinn bóginn voru vitnin B og C allsgáð og eru þau einnig ótengd aðilum málsins.

Vitnið C var eindregið í þeirri frásögn sinni að það hefði séð sparkað í höfuð þess manns sem legið hefði í gólfinu.

Vitnið B kvaðst einnig hafa talið sig muna atvik þannig, en kvaðst hafa dregið það til baka þar sem slíkt sæist ekki á myndum.

Rakin hafa verið orð ákærða Arnars Inga úr lögregluskýrslu og skýring hans fyrir dómi á þeim orðum.  Í lögregluskýrslunni lýsir hann ekki aðeins því sem hann kveðst hafa gert, þar með talið að hafa sett fót í höfuð ákærða Y, heldur einnig hvað hafi farið um huga hans í aðdraganda þess.  Er frásögn hans í yfirheyrslunni löng, samfelld og ótrufluð af lögregluþjóninum sem annast hana.

Þegar horft er á eindreginn vitnisburð vitnisins C, sem að mati dómsins fær stuðning af vitnisburði vitnisins B, það að upptökur úr eftirlitsmyndakerfi Nætursölunnar þykja alls ekki hnekkja frásögn vitnanna C og B og það að áverkar á ákærða Y fá samrýmzt því sem ákærða Arnari Inga er gefið að sök, þykja mjög verulegar líkur hafa verið færðar að sök ákærða Arnars Inga samkvæmt ákærunni.  Þykir ekkert nema neitun hans mæla gegn þeirri niðurstöðu.  Við munnlegan málflutning var af hálfu ákærða Arnars Inga byggt á því að háttsemi hans hefði verið refsilaus neyðarvörn, en hann hefði komið til varnar stúlku sem ráðizt hefði verið á.  Ákærði skarst vissulega í leikinn eftir að ráðizt hafði verið á A. Áður en kom að því að ákærði Arnar Ingi setti fót í höfuð ákærða Y, hafði hann hins vegar dregið ákærða Y í burtu frá A og auk þess haldið honum í gólfinu um stund. Fyrri gjörðir ákærða Y á hlut Hildar Ingu gera háttsemi ákærða Arnars Inga ekki refsilausa, en hann mátti ekki ætla slíkar aðgerðir nauðsynlegar til að tryggja öryggi A eða annarra á staðnum. Verður að telja að færð hafi verið fram sönnun að sekt hans sem ekki verði vefengd með skynsamlegum hætti.  Er hann sannur að sök samkvæmt ákæru en háttsemi hans er þar rétt færð til refsiheimildar.

Atvik málsins urðu haustið 2011 en ákæra er gefin út í apríl 2013.  Hafa engar skýringar komið fram á þeim drætti.

Ákærði Y var í desember 2008 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. almennra hegningarlaga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Stóðst hann það skilorð.  Ákærði X gerði á árinu 2010 sátt sem fól í sér greiðslu 34.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot.  Ákærða Arnari Inga hefur ekki verið gerð refsing áður.

Sannað er í málinu að ákærði Y réðst að A með því að skalla hana í andlit. Síðar sló hann hana.  Virðist ljóst að þetta hafi hann gert fullkomlega að tilefnislausu.  Alvarlegt er að ráðast að höfði fólks, en A kvaðst fyrir dómi hafa fundið fyrir afleiðingum árásarinnar um nokkurra mánaða skeið, en taldi sig alheila nú.  Ákærði játar sök að fullu.  Þegar á allt er horft verður hann dæmdur til þriggja mánaða fangelsis en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði X er sakfelldur fyrir eitt spark í bak ákærða Y, þegar ákærði Y lá óvígur á gólfi. Hann játar háttsemi sína sem var viðhöfð skömmu eftir að brotaþoli réðst fyrirvaralaust á A, fyrrverandi unnustu ákærða.  Verður ákærði dæmdur í eins mánaðar fangelsi en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði Arnar Ingi er sakfelldur fyrir að hafa sparkað eða trampað á höfuð ákærða Y þegar hann lá óvígur á gólfi.  Alvarlegt er að ráðast að höfði annars manns, en ákærði Y varð að eigin sögn alheill á um tíu dögum.  Ákærði Arnar Ingi fremur brot sitt skömmu eftir að ákærði Y hafði ráðizt á A, fyrst með skalla en svo með höggi.  Þegar á allt er horft verður ákærði dæmdur til tveggja mánaða fangelsis en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð.

Í málinu er bótakrafa ákærða Y á hendur ákærða Arnari Inga. Er gerð krafa um hálfa milljón króna í miskabætur auk vaxta og málskostnaðar.  Í kröfunni er því haldið fram að málavextir séu þeir helztir að ákærði Y hafi verið staddur á Nætursölunni þegar „aðili“ hafi undið sér „upp að honum og án frekari málalenginga hafi brotist út slagsmál.“  Segir í kröfunni að árás af þessu tagi sé „til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður miklum óþægindum og ótta um eigin velferð en brotaþoli þekkti árásarmanninn ekkert fyrir árásina og átti ekki upptök að þeirri atburðarás sem varð þess valdandi að hann hlaut áverka af ýmsu tagi.“  Í málinu er sannað, einkum með játningu ákærða Y sjálfs, að hann réðst að fyrrabragði að stúlku sem var stödd á Nætursölunni með þeim mönnum ákærðir eru með honum í málinu, þar á meðal þeim sem hann beinir bótakröfu sinni að.  Er ljóst að þeir áverkar, sem ákærði Y hlaut, komu í þeim ryskingum sem hófust í beinu framhaldi af árás hans á stúlkuna. Ákærði Y var staddur ölvaður í söluturni og réðst þar fyrirvaralaust á stúlku og upp úr því urðu ryskingar. Verður að telja þennan aðdraganda hafa töluverð áhrif á bótarétt ákærða Y vegna þess tjóns sem hann hlýtur af ryskingunum. Allt að einu er sannað í málinu að ákærði Arnar Ingi framdi ólögmæta meingerð gegn ákærða Y. Verður miski ákærða Y metinn til 150.000 króna en tvo þriðju hluta miska síns verður hann að bera sjálfur. Verður ákærði Arnar Ingi dæmdur til að greiða ákærða Y 50.000 krónur í miskabætur og 25.100 krónur í málskostnað. Krafa mun hafa verið birt fyrir ákærða Arnari Inga 22. maí 2013. Ákærði Arnar Ingi verður dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Andrésar Más Magnússonar, 251.000 króna, ákærði X til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Jóns Stefáns Hjaltalíns Einarssonar, 188.250 króna og ákærði Y verður dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Arnar Blöndal Jóhannssonar, 188.250 króna.  Virðisaukaskattur er innifalinn í dæmdum fjárhæðum.  Gögn málsins greina ekki frá öðrum sakarkostnaði.  Gætt var ákv. 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Eyþór Þorbergsson fór með málið af hálfu ákæruvaldsins.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Ákærði Arnar Ingi Sævarsson sæti fangelsi í tvo mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði X sæti fangelsi í einn mánuð. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Y sæti fangelsi í þrjá mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Arnar Ingi Sævarsson greiði ákærða Y 50.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. september 2011 til 22. júní 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 25.100 krónur í málskostnað.

Ákærði Arnar Ingi greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Andrésar Más Magnússonar, 251.000 krónur, ákærði X greiði málsvarnarlaun veranda síns, Jóns Stefáns Hjaltalíns Einarssonar, 188.250 krónur, og ákærði X greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Ásgeirs Arnar Blöndal Jóhannssonar, 188.250 krónur.