Hæstiréttur íslands
Mál nr. 267E/2001
Lykilorð
- Vanreifun
- Kærumál
- Fjárnám
- Endurupptaka
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 29. október 2001. |
|
Nr. 267/2001. |
Heiðar Ragnarsson(Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu (Ásta Stefánsdóttir fulltrúi) |
Kærumál. Fjárnám. Endurupptaka. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
H krafðist
ógildingar á fjárnámi sem sýslumaður hafði gert hjá honum að kröfu Í. Þeir
annmarkar þóttu vera á reifun málsins af hendi H og röksemdir hans með þeim
hætti, að ekki væri hægt að taka efnislega afstöðu til krafna hans. Staðfest
var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins af þessum sökum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. júní 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila gegn varnaraðila til ógildingar á fjárnámi, sem sýslumaðurinn á Selfossi gerði hjá sóknaraðila 9. janúar sama árs fyrir kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Með dómi 27. ágúst 2001 var máli þessu vísað frá Hæstarétti á þeirri forsendu að kæra sóknaraðila hefði ekki borist héraðsdómi fyrr en 3. júlí sama árs, en þá hafi verið liðinn kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 með áorðnum breytingum, sem hér hafi byrjað að líða við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Sóknaraðili leitaði 28. ágúst 2001 eftir endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti. Með gögnum, sem hann lagði fram í tengslum við þá beiðni, þótti sýnt að kæra hans hefði í raun borist Héraðsdómi Suðurlands í tæka tíð, eða 29. júní 2001 en ekki 3. júlí sama árs, svo sem tekið var þó fram í bréfi héraðsdómara 11. júlí 2001, sem fylgdi kærumálinu. Var endurupptaka málsins heimiluð 9. október 2001 af þessum sökum.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað, enda hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. júní 2001.
Mál
þetta var tekið til úrskurðar 21. maí 2001 að loknum munnlegum málflutningi
aðila.
Sóknaraðili
er Heiðar Ragnarsson, kt. 270153-4969, Suðurengi 14, Selfossi.
Varnaraðili
er Sýslumaðurinn á Selfossi, kt. 461278-0279, Hörðuvöllum 1, Selfossi.
Sóknaraðili krefst þess að
aðfarargerð Sýslumannsins á Selfossi, sem fram fór 9. janúar sl., hjá Heiðari
Ragnarssyni verði felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati
dómsins.
Varnaraðili
krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara er
þess krafist að aðfarargerðin verði staðfest.
Málsatvik
Með
úrskurði Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 6. maí 1998 var bú H.R. ehf. tekið
til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili sat í stjórn H.R. ehf. og var framkvæmdastjóri
félagsins og prókúruhafi. Með bréfi skattrannsóknarstjóra, dags. 4. september
1998 til skiptastjóra þrotabús H.R. ehf. hófst rannsókn á skattskilum
sóknaraðila.
Rannsóknin
beindist að staðgreiðsluskilum skattaðilans vegna greiðslutímabila 1997 og
virðisaukaskattskilum vegna uppgjörstímabila 1997. Niðurstöður rannsóknarinnar
voru teknar saman í skýrslu skattrannsóknarstjóra dags. 28. september 1998. Þar
kemur fram að fyrirsvarsmenn H.R. ehf. hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti
uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 1997,
samtals að fjárhæð 3.832.631 krónur. Þá hafi þeir ekki staðið skil á
skilaskyldri staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins
greiðslutímabilin október, nóvember og desember 1997, samtals að fjárhæð
789.239 krónur. Með bréfi, dags. 30. september 1998, gaf skattrannsóknarstjóri
sóknaraðila kost á að andmæla skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með
bréfi, dags. 20. október 1998, bar sóknaraðili fram andmæli sín og fór m.a.
fram á að ákveðnir þættir málsins yrðu rannsakaðir frekar áður en endanlegri
skýrslu yrði lokið. Skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynnti sóknaraðila um
fyrirhugaða ákvarðanatöku um refsimeðferð og gaf sóknaraðila tækifæri til að
tjá sig um þá meðferð máls og framhald þess. Með bréfi dags. 16. desember 1998
komu fram andmæli sóknaraðila og gerði hann þær kröfur að málið yrði fellt
niður, en til vara var þess óskað að málið yrði sent yfirskattanefnd til
umfjöllunar. Í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar,
dags. 18. febrúar 1999, kom fram að mál H.R. ehf. væri sent yfirskattanefnd til
ákvörðunar um sektargreiðslu vegna brota á lögum nr. 50/1988, um
virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, framin
vegna tekjuársins 1997. Sóknaraðili skilaði inn vörn í málinu með bréfi dags.
13. apríl 1999. Þar var gerð sú krafa að kröfum skattrannsóknarstjóra yrði
hafnað, en til vara að ákvörðuð refsing yrði færð niður úr lágmarki.
Sóknaraðili reifaði kröfur sínar og málsástæður í bréfi sínu og kvað m.a. málið
ekki hafa verið nægjanlega rannsakað af hálfu skattrannsóknarstjóra. Úrskurður
yfirskattanefndar var kveðinn upp 10. september 1999, en með honum var
sóknaraðila gert að greiða 8.000.000 króna sekt til ríkissjóðs. Í úrskurðinum segir
m.a. að eftir 5. október 1997 hafi innheimtumanni ríkissjóðs verið greiddar
700.000 krónur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda H.R. ehf. og 919.932 krónur
vegna virðisaukaskatts. Sé gerð grein fyrir ráðstöfun þeirra greiðslna í
fylgiskjali með skýrslunni.
Með bréfi sóknaraðila til yfirskattanefndar, dags. 7.
október 1999, óskaði hann eftir endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 10.
september 1999. Í endurupptökubeiðni sóknaraðila til yfirskattanefndar kemur
fram að greiðslur vegna virðisaukaskatts H.R. ehf. ,,eftir að skila bar
virðisaukaskattskýrslu tímabilsins júlí- ágúst 1997”, voru 2.824.675 krónur, en
ekki 919.932 krónur.
Yfirskattanefnd kvað upp úrskurð sinn 27. september 2000. Í
úrskurðinum segir að ljóst sé að í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi
ekki verið gerð tæmandi grein fyrir innborgunum vegna virðisaukaskatts H.R.
ehf. á því tímabili sem hér um ræði. Verði að átelja þessi vinnubrögð
skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá segir þar að við athugun á ráðstöfun
innborgana að fjárhæð 2.824.675 króna komi í ljós að 2.423.837 krónur hafi
gengið til greiðslu á höfuðstól virðisaukaskatts, nánar tiltekið 562.303 krónur
vegna uppgjörstímabilsins mars-apríl 1997, 1.271.826 krónur vegna tímabilsins
maí-júní 1997 og 589.708 krónur vegna tímabilsins júlíágúst 1997.
Yfirskattanefnd féllst ekki á að þessar fjárhæðir hafi átt að koma til
frádráttar fjárhæðum við sektarákvörðun í máli sóknaraðila og vísaði um það
m.a. til dóms Hæstaréttar frá 22. júní 2000. Með úrskurði sínum hafnaði
yfirskattanefnd beiðni sóknaraðila um endurupptöku. Árangurslaust fjárnám var
gert hjá sóknaraðila 9. janúar sl., en sóknaraðili lýsti því yfir við
fjárnámsgerðina að hann hygðist bera gildi aðfarargerðar undir héraðsdóm. Með
bréfi sóknaraðila til dómsins, dags. 6. mars 2000, var þess farið á leit að
aðfarargerðin yrði felld úr gildi.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili
kveður kröfu varnaraðila byggja á skattsekt sem yfirskattanefnd hafi ákveðið í
úrskurði nr. 488/1999. Kröfu sína reisir sóknaraðili á því að yfirskattanefnd
hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum þegar sektarfjárhæð hafi verið ákveðin með
því að líta ekki til allra greiðslna inn á skuldir H.R. ehf. eftir gjalddaga
kröfunnar, eins og Hæstiréttur hafi skýrt hann í dómum frá 25. mars 1999 og nú
síðast 1. mars 2001. Sé sektin þar með allt of há, eins og endurupptökubeiðni
sóknaraðila dags. 7. október 1999 beri með sér. Þá sé og byggt á því að
yfirskattanefnd hafi misskilið kröfugerð sóknaraðila í meðförum sektarmálsins
og í endurupptöku sinni ranglega byggt á lagatúlkun sem var síðar til komin, í
útreikningi sínum. Vísar sóknaraðili um þetta til úrskurðar nr. 484/1999.
Byggir sóknaraðili á því að jafnræðisregla leiði til þeirrar niðurstöðu að
fella beri úrskurð yfirskattanefndar úr gildi og þar með sé innheimtan byggð á
röngum grundvelli.
Í öðru
lagi byggir sóknaraðili á sömu sjónarmiðum og komi fram undir rekstri máls síns
fyrir skattyfirvöldum.
Málsástæður
og lagarök varnaraðila
Varnaraðili
bendir á að samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd skuli
yfirskattanefnd úrskurða um sektir m.a. vegna brota á lögum nr. 50/1998 um
virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. og
1. mgr. 22. gr. s.l., nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og
dómsmeðferðar. Við meðferð sektarmála hjá yfirskattanefnd skuli gæta ákvæða
laga um meðferð opinberra mála að því er varði rétt sökunautar og varnir hans,
sbr. 22. gr. laga nr. 30/1992. Skattrannsóknarstjóri ríkisins komi fram af
hálfu hins opinbera fyrir nefndinni við ákvörðun sekta og annist kröfugerð í
sektarmálum. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 30/1992 séu úrskurðir yfirskattanefndar
um sektarfjárhæð fullnaðarúrskurðir sbr. einnig 1. mgr. 41. gr. laga nr.
50/1998 um virðisaukaskatt og 1. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu
opinberra gjalda. Samkvæmt framangreindu verði því að líta svo á að úrskurðir
yfirskattanefndar um sektarfjárhæð séu fullnaðarúrskurðir og verði þeim ekki
skotið til annars stjórnvalds né heldur til dómstóla hvað varði niðurstöðu
máls.
Til
stuðnings varakröfu sinni bendir varnaraðili á að úrskurðir yfirskattanefndar
frá 10.september 1999 og 27. september 2000 séu ítarlega rökstuddir og þar sé
tekin afstaða til allra málsástæðna sóknaraðila með einum eða öðrum hætti og
dyljist engum hvernig niðurstaða sé fengin. Með úrskurðum sínum taki
yfirskattanefnd afstöðu til krafna aðila og þar með um leið til þeirra
málsástæðna sem færðar séu fram kröfunum til stuðnings. Úrskurðirnir séu í
fullu samræmi við ákvæði laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd, sbr. einnig 31.
gr., 21. gr., og 22.gr., stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Niðurstaða
Í
úrskurði yfirskattanefndar nr. 403/2000, uppkveðnum 27. september 2000, vegna
beiðni sóknaraðila um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar, segir að í
skýrslu skattrannsóknarstjóra hafi ekki verið gerð tæmandi grein fyrir
innborgunum virðisaukaskatts H.R. ehf. á því tímabili sem um ræði.
Yfirskattanefnd hafi í fyrri úrskurði sínum frá 10. september 1999, byggt á því
að innheimtumanni ríkissjóðs hafi verið greiddar 919.932 krónur vegna
virðisaukaskatts, á umræddu tímabili, þegar honum hafi í raun verið greiddar
2.824.675 krónur. Vinnubrögð skattrannsóknarstjóra eru átalin í úrskurði
yfirskattanefndar frá 27. september 2000 og er þar grein gerð fyrir innborgunum
sóknaraðila á árinu 1997 og hvernig þeim var ráðstafað inn á höfuðstól, vexti
og álag.
Sóknaraðili
byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að ,,yfirskattanefnd hafi byggt á
ólögmætum sjónarmiðum þegar sektarfjárhæð var ákveðin með því að líta ekki til
allra greiðslna inn á skuldir H.R. ehf. eftir gjalddaga kröfunnar, eins og
Hæstiréttur hefur skýrt hann í dómum frá 25. mars 1999 og nú síðast 1. mars
2001. Sé sektin þar með allt of há...”
Ekki
verður ráðið af framangreindu orðalagi hvað sóknaraðili á við með því að segja
að yfirskattanefnd líti ekki til allra greiðslna inn á skuldir H.R. ehf. eftir
gjalddaga kröfunnar. Þannig verður ekki séð hvort sóknaraðili á við það sem
fram kemur í framangreindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 403/2000, að ekki
hafi verið gerð tæmandi grein fyrir innborgunum virðisaukaskatts sóknaraðila,
eða hvort hann á við að einhverjar greiðslur sóknaraðila til innheimtumanns
ríkissjóðs eftir gjalddaga kröfunnar hafi skipt sköpum og þá ráði einnig
úrslitum hver gjalddaginn sé. Einnig skortir útlistun sóknaraðila á því um
hvaða greiðslur sé þá um að ræða. Vegna þessa brestur alveg á rökstuðning
sóknaraðila fyrir því að sektarfjárhæð hafi af þessum sökum verið ákvörðuð of
há
Í öðru
lagi byggir sóknaraðili á því að yfirskattanefnd hafi misskilið kröfugerð sína
í meðförum sektarmálsins og svo í endurupptöku sinni ranglega byggt á
lagatúlkun sem sé síðar til komin. Um þetta vísar sóknaraðili til úrskurðar
yfirskattanefndar nr. 484/1999, án þess að grein sé fyrir því gerð með hvaða
hætti úrskurður þessi tengist því að yfirskattanefnd hafi ,,ranglega byggt á
lagatúlkun sem er síðar til komin”, og án rökstuðnings fullyrðingar þessarar.
Í þriðja
lagi byggir sóknaraðili á því að jafnræðisregla leiði til þeirrar niðurstöðu að
fella beri úr gildi úrskurð yfirskattanefndar. Þessi fullyrðing sóknaraðila er
alveg órökstudd, þótt leiða megi líkur að því að með henni sé sóknaraðili að
vísa til úrskurðar nr. 484/1999, en þann úrskurð nefndi sóknaraðili sem dæmi
þess að yfirskattanefnd hefði misskilið kröfugerð sína.
Sóknaraðili
byggir að endingu kröfu sína á sömu sjónarmiðum og fram komu undir rekstri máls
síns hjá yfirskattanefnd, án þess að tilgreint sé til hvaða málsástæðna eða
sjónarmiða hann vísi. Verður af þeim sökum ekki unnt að byggja niðurstöðu máls
á þeim.
Þegar
framangreint er virt þykja þeir annmarkar vera á reifun málsins af hendi
sóknaraðila og röksemdir hans fyrir kröfum sínum með þeim hætti að ekki er unnt
að taka efnislega afstöðu til krafna hans. Er því óhjákæmilegt að vísa málinu
sjálfkrafa frá dómi, en rétt þykir í ljósi atvika málsins að hvor aðila beri
sinn kostnað af málinu.
Ingveldur
Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o
r ð:
Máli þessu er vísað frá
dómi. Hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.