Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
Föstudaginn 31. maí 2002. |
|
|
Nr. 252/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 4. júní 2002, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að kl. 05.48 aðfaranótt laugardagsins 25. maí 2002 hafi lögreglunni í Reykjavík borist tilkynning um að ráðist hefði verið á mann fyrir utan Hafnarstræti 15 í Reykjavík og lægi maðurinn slasaður í götunni. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi maðurinn verið meðvitundarlaus og hafi virst mikið slasaður. Meintir árásarmenn hafi verið farnir af vettvangi. Hafi slasaði maðurinn, sem hafi reynst vera Y fluttur á slysadeild.
Lögreglan í Reykjavík hafi yfirheyrt þrjú vitni sem hafi gefið greinargóðar og nokkuð samhljóða skýrslur af atburðinum. Í skýrslunum komi fram að [...].
Samkvæmt frumlæknisvottorði Arons Björnssonar læknis á Landspítalanum í Fossvogi frá því í gær sé Y djúpt meðvitundarlaus og höfuðkúpubrotinn. Fram komi í vottorðinu að áverkarnir samræmist miklu höfuðhöggi eða höggum. Y hafi þegar í stað gengist undir aðgerð á spítalanum en samkvæmt því sem fram komi í vottorðinu sé hann í mikilli lífshættu og muni næstu klukkustundir eða dagar skera úr um framhaldið. Samkvæmt upplýsingum sem lögreglan hafi fengið hjá lækni í morgun sé líðan hans enn óbreytt.
Rannsókn máls þessa sé enn á frumstigi og ljóst að mikla vinnu þurfi að inna af hendi í þágu rannsóknar þess. Eftir sé að taka ítarlegri skýrslu af kærða X. Þá þurfi að yfirheyra kærða Z frekar, svo og vitni málsins og kanna hvort hugsanlega hafi verið fleiri sjónarvottar að atburði þessum. Þá sé á þessu stigi málsins ekki vitað hvernig Y reiði af.
Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa ráðist á Y og sparkað í hann með þeim afleiðingum að hann hafi fallið við og skollið í götuna. Ef hann haldi frelsi sínu hafi hann tök á því að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni í málinu og hugsanlega samseka. Beri því brýna nauðsyn til að þess að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn málsins fari fram.
Samkvæmt framangreindu liggur kærði undir grun, sem telja verður á grundvelli framlagðra gagna rökstuddan, um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðar fangelsisrefsingu sannist sök. Rannsókn málsins er á frumstigi og er eftir að yfirheyra kærða ítarlegar svo og aðra, bæði hugsanlega samseka og vitni.
Samkvæmt þessu og með vísun til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er rétt að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir kærða eins og krafist er.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði X sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. júní 2002 kl. 16.00.