Hæstiréttur íslands
Mál nr. 356/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn
- Gjaldeyrismál
- Húsleit
- Haldlagning
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Aðfinnslur
|
Miðvikudaginn 30. maí 2012. |
|
|
Nr. 356/2012. |
Seðlabanki Íslands (Gizur Bergsteinsson hrl.) gegn X hf. A ehf. Á ehf. B ehf. C hf. D ehf. Ð ehf. E ehf. É ehf. F ehf. G ehf. H ehf. I ehf. Í ehf. J ehf. K ehf. L ehf. M N O Ó P Q R S og T ehf. (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Rannsókn. Gjaldeyrismál. Húsleit. Haldlagning. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Aðfinnslur.
Í tengslum við rannsókn SÍ á ætluðum brotum X hf. o.fl., gegn lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim, fór fram húsleit og haldlagning muna hjá X hf. o.fl. á grundvelli tveggja dómsúrskurða þess efnis. Í tilefni af áðurgreindum rannsóknaraðgerðum kröfðust X hf. o.fl. þess að aðgerðirnar yrðu dæmdar ólögmætar og SÍ gert að hætta rannsókn sinni. Hæstiréttur taldi að álitaefni um það hvort sú háttsemi X hf. o.fl., sem til rannsóknar var, væri refsiverð og ólögmæt, gæti ekki sætt úrlausn dómstóla fyrr en tekin hefði verið ákvörðun um að beita X hf. o.fl. stjórnvaldssektum eða höfðað væri á hendur þeim sakamál og vísaði kröfunni frá héraðsdómi. Þá kröfðust X hf. o.fl. þess að húsleit og haldlagning á tveimur starfstöðvum X hf. yrðu dæmdar ólögmætar og SÍ gert að afhenda öll haldlögð og afrituð gögn og eyða öllum afritum haldlagðra gagna, en að því frágengnu að SÍ yrði gert að skila tilteknum gögnum sem hald var lagt á við húsleitina. Hæstiréttur vísaði frá kröfu X hf. o.fl. er laut að lögmæti og framkvæmd rannsóknaraðgerðanna þar sem þær væru afstaðnar. Þá hafnaði rétturinn kröfu X hf. o.fl. um að haldi yrði aflétt, einkum með vísan til þess að vegna mikils umfangs hinna haldlögðu gagna yrði að játa SÍ nokkru svigrúmi við rannsókn þeirra, áður en þau yrði afhent X hf. o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2012, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila. Um kæruheimild er vísað til d., g. og h. liða 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar gera kröfu um að rannsóknaraðgerðir sóknaraðila verði dæmdar ólögmætar og að honum verði gert að hætta rannsókn sinni án tafar. Þá krefjast varnaraðilar þess að húsleit og haldlagning gagna að [...] á [...] og [...] í [...] á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012, verði dæmdar ólögmætar og að sóknaraðila verði gert að afhenda þeim öll haldlögð og afrituð gögn sem þeim tilheyra og eyða öllum afritum af haldlögðum gögnum, þar á meðal rafrænum gögnum sem kunni að hafa verið vistuð á tölvum sóknaraðila. Að því frágengnu krefjast varnaraðilar að sóknaraðila skuli gert að skila nánar tilteknum gögnum sem haldlögð voru í áðurgreindri húsleit. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili til rannsóknar ætluð brot varnaraðilans X hf. og tengdra aðila á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum, settum samkvæmt þeim. Að kröfu sóknaraðila kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurð 24. mars 2012 þar sem heimiluð var húsleit og haldlagning muna hjá X hf. og nafngreindum aðilum, tengdum því félagi. Hinn 27. mars 2012, þegar húsleit hófst á grundvelli fyrirliggjandi úrskurðar, komu fram mótmæli af hálfu fyrirvarsmanna X hf. við lögmæti úrskurðarins og framgangi aðgerðanna. Varð það til þess að sóknaraðili krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann sama dag að honum yrði heimiluð húsleit og haldlagning gagna hjá fleiri aðilum en samkvæmt fyrri úrskurðinum. Samdægurs var síðan kveðinn upp nýr dómsúrskurður þar sem sóknaraðila var heimiluð húsleit og haldlagning muna hjá X hf. að [...], og [...], sem og hjá öðrum varnaraðilum, auk U ehf., Ú, V og Y. Samkvæmt þessum síðari úrskurði náði heimildin einnig til leitar í skjalageymslu X hf. og tengdra félaga að [...]. Ennfremur til þess að haldlagðir yrðu símar nafngreindra stjórnenda og starfsmanna X hf. „enda hittist þeir fyrir á ofangreindum starfsstöðvum, í því skyni að taka afrit af gögnum sem þeir hafa að geyma.“ Í þinghaldi 27. mars 2012 þar sem krafa sóknaraðila var tekin fyrir var bókað að í samræmi við 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 hafi þess verið krafist að beiðnin um húsleitarheimild sætti málsmeðferð fyrir dómi án þess að þeir, er hún beindist að, yrðu kvaddir á dómþing. Hafi dómari fallist á að taka kröfuna fyrir á þann hátt, sbr. 1. mgr. 104. gr. laganna.
Hinn 27. mars 2012 fór svo fram húsleit í húsnæði X hf. á [...] og í [...] og einnig í skjalageymslu félagsins sem mun vera staðsett á [...]. Var framkvæmdastjóri félagsins, aðrir starfsmenn þess og lögmenn viðstaddir leitina á [...], en starfsmenn þess og lögmaður í [...]. Við leitina var lagt hald á mikinn fjölda gagna sem sóknaraðili hefur enn í vörslum sínum og kveðst þurfa að rannsaka, en honum hafi enn ekki gefist ráðrúm til að fara yfir nema lítið brot þeirra. Sóknaraðili staðhæfir að hann hafi tjáð varnaraðilum að þeir geti hvenær sem er fengið afhent afrit skjala og annarra gagna og hafi hann orðið við öllum slíkum beiðnum þeirra. Þá hafa varnaraðilar til stuðnings kröfu sinni um að sóknaraðila verði gert að skila þeim nánar tilgreindum gögnum lagt fram lista yfir þau. Flest þau gögn virðist vera unnt að afrita, en þó eru þar greindar tvær Ipad tölvur sem enn munu vera í vörslum sóknaraðila. Kveður hann ástæðu þess að haldi á þeim tækjum hafi ekki enn verið aflétt vera þá að X hf. hafi neitað að afhenda lykilorð póstforrits og því hafi ekki tekist að afrita gögn sem tölvurnar hafi að geyma.
II
Samkvæmt lögum nr. 87/1992 er sóknaraðila falið að hafa eftirlit með því að farið sé að lögunum og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett hafa verið á grundvelli þeirra. Eftir 15. gr. a. laganna er sóknaraðila heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn nánar tilgreindum ákvæðum þeirra eða reglna, settum samkvæmt þeim. Í 1. mgr. 16. gr. b. segir að brot gegn lögunum og reglum settum á grundvelli þeirra sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru sóknaraðila til lögreglu. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. e. er sóknaraðila heimilt að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að einstaklingar og lögaðilar hafi brotið gegn lögunum eða reglum, settum á grundvelli þeirra, eða ástæða sé til að ætla að athuganir eða aðgerðir sóknaraðila nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri. Skal ákvæðum laga um meðferð sakamála beitt við framkvæmd slíkra aðgerða.
Í samræmi við ákvæði síðastgreindrar málsgreinar krafðist sóknaraðili þess, með vísan til 68. gr., 74. gr. og 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008, að kveðinn yrði upp sá dómsúrskurður um húsleit og haldlagningu hjá varnaraðilum sem um er deilt í máli þessu. Í því skyni að tryggja réttaröryggi þeirra, sem slíkar þvingunarráðstafanir beinast að, hefur verið talið að þeir eigi rétt á að bera lögmæti þeirra undir dómstóla á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, óháð því hvort mælt sé sérstaklega fyrir um þann rétt í lögum, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 26. nóvember 2009 í máli nr. 633/2009.
Þrátt fyrir að 2. mgr. 102. gr. sé orðuð svo að heimilt sé að leggja fyrir dómstóla ágreining um lögmæti rannsóknarathafna var sama orðalag í 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skýrt á þann veg að unnt væri að bera undir þá ágreining um lögmæti rannsóknar í heild sinni, sbr. dóma Hæstaréttar 15. desember 2006 í máli nr. 637/2006 og 23. janúar 2007 í máli nr. 661/2006. Í báðum þeim tilvikum var deilt um hvort rannsókn væri ólögmæt af formástæðum. Sú krafa varnaraðila að fyrrgreindar rannsóknaraðgerðir sóknaraðila verði dæmdar ólögmætar og að honum skuli af þeirri ástæðu vera gert að hætta rannsókn sinni án tafar er aftur á móti á því byggð að sú háttsemi varnaraðila, sem til rannsóknar er, sé hvorki refsiverð né ólögmæt. Sökum þess að rannsókn ætlaðra brota á lögum nr. 87/1992 er í höndum sóknaraðila sem stjórnvalds getur þetta álitaefni ekki sætt úrlausn dómstóla eðli máls samkvæmt fyrr en tekin hefur verið ákvörðun um að beita varnaraðila stjórnvaldssektum eða eftir að höfðað hefur verið sakamál á hendum þeim vegna þeirra brota. Samkvæmt því bar að vísa þessari kröfu frá héraðsdómi.
Eins og segir í 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 verður úrskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem þar er kveðið á um, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af úrskurðinum, er þegar um garð gengið. Með þessu er tekið af skarið um að ekki verður leyst úr lögmæti dómsúrskurðar fyrir æðra dómi ef athöfn eða ástand á grundvelli hans er lokið. Á sama hátt verður lögmæti athafnar, sem farið hefur fram, eða ástands, sem liðið er undir lok, ekki borið undir héraðsdóm samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, heldur getur eftir atvikum reynt á það í sakamáli, sem kann að verða höfðað um sakarefnið, eða í einkamáli til heimtu skaðabóta eftir XXXVII. kafla laganna. Sem fyrr greinir fór sú húsleit og haldlagning, sem mál þetta snýst um, fram hjá varnaraðilum 27. mars 2012 og voru aðgerðirnar því afstaðnar þegar málið kom til kasta dómstóla. Samkvæmt framansögðu bar þegar af þeirri ástæðu að vísa frá héraðsdómi þeirri kröfu varnaraðila sem lýtur að lögmæti og framkvæmd aðgerðanna.
Sökum þess að haldi á munum varnaraðila hefur ekki verið aflétt eiga þeir á hinn bóginn rétt á að krefjast þess á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 að gögnin verði afhent þeim og afritum af gögnunum eytt, sbr. og 3. mgr. 69. gr. þeirra laga. Við úrlausn á þeirri kröfu verður að líta til þess að samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er heimilt að leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í sakamáli. Í samræmi við meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. sömu laga og með hliðsjón af 2. mgr. 68. gr. hvílir sú skylda á sóknaraðila að hraða eftir því sem kostur er rannsókn á hinum haldlögðu gögnum og taka afrit af þeim gögnum, sem hann telur að kunni að hafa sönnunargildi í því máli sem til rannsóknar er, svo að unnt sé að afhenda þau varnaraðilum sem allra fyrst. Vegna hins mikla umfangs gagnanna verður aftur á móti að játa sóknaraðila nokkru svigrúmi til þessa. Þar sem varnaraðilar hafa ekki sýnt fram á að einstök skjöl eða önnur gögn séu þýðingarlaus fyrir rannsóknina verður ekki fallist á þá kröfu þeirra að hin haldlögðu gögn verði afhent þeim þegar í stað og afritum þeirra jafnframt eytt. Á meðan varnaraðilinn X hf. hefur ekki veitt umbeðið lykilorð póstforrits eru heldur ekki efni til að gera sóknaraðila skylt að láta af hendi Ipad tölvurnar tvær sem áður eru nefndar.
Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að hafna kröfum varnaraðila um afhendingu og eyðingu þeirra gagna sem sóknaraðili hefur lagt hald á.
Það athugist að eftir 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 skal héraðsdómari að jafnaði ekki fallast á kröfu um að beiðni um rannsóknaraðgerð samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laganna hljóti meðferð fyrir dómi án þess að sá, sem hún beinist að, verði kvaddur á dómþing nema dómari telji það nægilega rökstutt að vitneskja um aðgerðina fyrir fram hjá honum geti spillt fyrir rannsókn. Þegar krafist var nýs dómsúrskurðar um húsleit og haldlagningu hjá varnaraðilum 27. mars 2012 var hafin leit samkvæmt úrskurðinum 24. þess mánaðar. Af þeim sökum var ljóst að fyrirsvarsmönnum X hf. og fleiri varnaraðila var þá þegar kunnugt um aðgerðirnar. Þótt fyrir lægi að það hefði óhjákvæmilega valdið drætti á að nýr úrskurður yrði upp kveðinn, ef þeir hefðu verið boðaðir til þinghalds og veittur kostur á að tjá sig um fram komna kröfu, réttlætti það ekki að víkja frá meginreglunni um andmælarétt þess sem krafa beinist að og kveðið er á um í 105. gr., sbr. 2. mgr. 104. gr., laga nr. 88/2008. Er aðfinnsluvert að svo hafi verið gert, en haggar sem fyrr segir ekki gildi úrskurðarins.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu um að sóknaraðila, Seðlabanka Íslands, verði gert að hætta rannsókn sinni á ætluðum brotum varnaraðilans X hf. og aðila, tengdum honum, á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Ennfremur kröfu um að húsleit og haldlagning í húsakynnum þessa varnaraðila 27. mars 2012 á grundvelli dómsúrskurðar þann sama dag verði dæmdar ólögmætar.
Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2012.
I.
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur 4. apríl sl., með bréfi sóknaraðila, dags. sama dag, þar sem farið er fram á úrskurð héraðsdóms á grundvelli 3. mgr. 69. gr. og 4. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Viðbótarkröfugerð sóknaraðila um úrskurð á grundvelli 2. mgr. 102. gr. sömu laga var síðan lögð fram í málinu 18. apríl sl.
Sóknaraðilar eru eftirfarandi félög: X hf., kt. [...], A ehf., kt. [...], Á ehf., kt. [...], B ehf., kt. [...], C hf., kt. [...], D ehf., kt. [...], Ð ehf., kt. [...], E ehf. kt. [...], É ehf., kt. [...], F ehf., kt. [...], G ehf., kt. [...], H ehf., kt. [...], I ehf., kt. [...], Í ehf., kt. [...], J ehf., kt. [...], K ehf., kt. [...], öll til heimilis að [...], L ehf., kt. [...],[...], M, [...], N, [...], O, kt. [...],[...], Ó, kt. [...],[...], P, [...], Q, kt. [...],[...], R, [...], S, kt. [...],[...], og T ehf. kt. [...], Kringlunni 7, [...].
Varnaraðili er Seðlabanki Íslands, Kalkofnsvegi 1 í Reykjavík.
Í kröfu sóknaraðila, sem barst héraðsdómi 4. apríl sl., er þess aðallega krafist að úrskurðað verði að rannsóknaraðgerðir varnaraðila, sem fólust í húsleit og haldlagningu gagna 27. mars 2012 að [...] og [...], á grundvelli úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 27. mars 2012, í málinu nr. R-166/2012, hafi verið ólögmætar og að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðilum öll haldlögð og afrituð gögn sem þeim tilheyra. Þá er þess jafnframt krafist að varnaraðila verði gert að eyða öllum afritum af haldlögðum gögnum, þ.m.t. rafrænum sem kunna að hafa verið vistuð á tölvum varnaraðila. Til vara er þess krafist að varnaraðila verði gert að skila aftur öllum gögnum, sem tilgreind eru í fskj. nr. 2 og 3, og haldlögð voru í húsleit á starfsstöðvum varnaraðila X hf. að [...] og [...] 27. mars sl. á grundvelli úrskurðar í málinu nr. R-166/2012. Þá er þess einnig krafist að varnaraðili skili aftur öllum gögnum eftirtalinna aðila sem haldlögð voru á grundvelli sama úrskurðar á áðurnefndum starfsstöðvum:
i. A ehf.
ii. Ð ehf.
iii. E ehf.
iv. É ehf.
v. F ehf.
vi. I ehf.
vii. Í ehf.
viii. K ehf.
Í báðum tilvikum er gerð krafa um að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili afhenti sóknaraðilum ýmis gögn málsins 16. og 17. apríl sl. Í þinghaldi í málinu 18. apríl sl. lagði sóknaraðili fram viðbótarkröfugerð af því tilefni á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, eins og vikið hefur verið að. Þar er þess krafist að rannsóknaraðgerðir varnaraðila í heild sinni verði úrskurðaðar ólögmætar og að rannsókninni verði hætt án tafar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar. Kröfugerð þessi var sameinuð fyrri kröfugerð og málin rekin sem eitt mál. Í þinghaldi 25. apríl sl. lagði varnaraðili fram viðbótarathugasemdir í tilefni af þessari kröfugerð sóknaraðila.
Varnaraðili krefst þess að aðalkröfu sóknaraðila samkvæmt kröfugerð 4. apríl sl. verði vísað frá héraðsdómi að því leyti sem hún snýr að því að rannsóknaraðgerðir varnaraðila verði lýstar ólögmætar, en að aðalkröfunni verði að öðru leyti hafnað sem og varakröfu sóknaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Hvað varðar viðbótarkröfugerð sóknaraðila frá 18. apríl sl. krefst varnaraðili þess aðallega að henni verði vísað frá héraðsdómi en til vara að henni verði hafnað auk þess sem hann krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Ágreiningsmál þetta var munnlega flutt og tekið til úrskurðar 30. apríl sl.
II.
Helstu málsatvik
Varnaraðili rannsakar um þessar mundir hvort sóknaraðili X hf. og tengdir aðilar hafi gerst brotlegir við lög nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Af hálfu varnaraðila kemur fram að grunur beinist að því að sóknaraðilar hafi brotið 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis II laga nr. 87/1992, sbr. 3. gr. laga nr. 27/2009, sem kveði á um að útflutningsviðskipti milli tengdra aðila skuli gerð á grundvelli almennra kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila, og 13. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 127/2011, þar sem kveðið sé á um að öllum erlendum gjaldeyri, sem innlendir aðilar eignast, skuli skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan þriggja vikna frá því gjaldeyririnn komst eða gat komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans. Í þessu sambandi vísar varnaraðili til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/1992 séu innlendir aðilar meðal annars sérhverjir lögaðilar sem skráðir eru til heimilis hér á landi á lögmætan hátt, telja heimili sitt vera hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þeirra er hér á landi.
Með kröfu, dags. 23. mars 2012, fór sóknaraðili fram á að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að heimiluð yrði húsleit og haldlagning gagna hjá varnaraðila X hf. ásamt nánar tilgreindum 19 félögum, sem væru tengd X hf. Beiðnin var rökstudd með því að gögn sem varnaraðili hefði aflað styddu grun um brot félaganna. Þar var sérstaklega vísað til bréfs X hf. til Verðlagsstofu skiptaverðs, þar sem fram hafi komið að félagið hefði gert útflutningsreikninga á dótturfélag sitt í [...] sem hefði samanstaðið af uppgjörsverði til áhafnar ásamt flutningskostnaði og öðrum kostnaði sem til félli við flutning á fiskinum til áfangastaðar. Enn fremur var vísað til upplýsinga samkvæmt tollskýrslum um verð á útfluttum heilum karfa fyrir október, nóvember og desember 2011. Þar var talið að almennt verð á þessum fiski í október hefði verið 68% hærra en verð X hf. til tengdra aðila. Þá hefði almenna verðið í nóvember verið 25% hærra en verð félagsins á sama tíma til tengdra aðila og 73% hærra í desember. Einnig var í kröfu varnaraðila vísað til frumniðurstaðna athugunar á skilaskyldu útflutningsfyrirtækja, þar á meðal sóknaraðila X hf. Hefðu þær bent til nokkurs ósamræmis í skilum félagsins á erlendum gjaldeyri. Hefði bæði verið um að ræða að erlendum gjaldeyri hefði verið skilað utan tilskilins tímafrests og að honum hefði alls ekki verið skilað, eins og þar kom fram.
Auk framangreindrar kröfu fór varnaraðili einnig fram á það að tölvufyrirtækinu Ý hf. yrði gert skylt að afhenda varnaraðila „til haldlagningar og afrita“ öll gögn af sameiginlegum svæðum sóknaraðila X hf., heimasvæðum og öllum tölvupósti, ásamt viðhengjum, sem sendur hefði verið til eða frá netföngum starfsmanna sóknaraðila frá og með 1. mars 2008 til og með 27. mars 2012.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-162/2012 frá 24. mars 2012 var fallist á að umkrafin húsleit og haldlagning færi fram á starfsstöðvum sóknaraðila. Var á það fallist að ríkar ástæður væru til að ætla að þeir lögaðilar og einstaklingar sem krafan beindist að hefðu brotið gegn fyrirmælum laga um skilaskyldu erlends gjaldeyris. Gætu slík brot varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, lægi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum. Miðaði krafa varnaraðila að því að afla sem gleggstra upplýsinga og gagna svo unnt væri að taka afstöðu til frekari rannsóknar. Þóttu augljósir rannsóknarhagsmunir vera í húfi og talið að skilyrði 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væri fullnægt. Með úrskurði sama dag í máli nr. R-163/2012 var einnig fallist á þær kröfur er lutu að gögnum í vörslu tölvufyrirtækisins Ý hf.
Umrædd húsleit og haldlagning á skrifstofum X hf. að [...] á [...] og [...] í [...] fór fram þriðjudaginn 27. mars 2012. Sama dag var krafist afhendingar á tölvutækum gögnum frá fyrirtækinu Ý hf. Samkvæmt húsleitarskýrslu komu fram mótmæli af hálfu fyrirsvarsmanna X hf. við framgangi húsleitarinnar og umfangi haldlagðra muna. Í kjölfarið óskaði varnaraðili eftir nýjum úrskurðum frá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem þess var krafist að haldlagningarheimildin tæki til fleiri félaga og til að tryggja að húsleit gæti farið fram í skjalageymslu á [...]. Enn fremur að afrita mætti bókhaldsgögn í vörslu Ý hf. Með úrskurðum héraðsdóms sama dag í málum nr. R-166/2012 og R-167/2012 var fallist á þessar kröfur. Sóknaraðili X hf. kærði úrskurðinn er laut að haldlagningu gagna hjá Ý hf. til Hæstaréttar Íslands 28. mars 2012 og krafðist þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 2. apríl 2012 var málinu vísað frá réttinum á þeim grundvelli að sú rannsóknarathöfn sem heimiluð hefði verið með hinum kærða úrskurði hefði þegar farið fram.
Eins og fram hefur komið fengu sóknaraðilar afhent 16. apríl sl. gögn sem lágu til grundvallar húsleitarheimildinni. Samkvæmt beiðni sóknaraðila var óskað eftir frekari gögnum og var orðið við því 17. apríl sl. Í kjölfarið lögðu sóknaraðilar fram viðbótarkröfugerð í málinu eins og rakið er í kafla I.
III.
1. Meginmálsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðilar byggja aðalkröfu sína samkvæmt kröfunni frá 4. apríl sl. á því að skilyrði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, hafi ekki verið uppfyllt. Ekki hafi komið fram á hvaða grunni krafan sé reist, að hverjum hún beindist og við hvaða gögn hún hafi stuðst. Sóknaraðilar byggja enn fremur á því að skilyrði laganna um að rökstuddur grunur hafi leikið á því að framið hafi verið brot og að sóknaraðilar hafi verið þar að verki hafi ekki legið fyrir, sbr. 68. gr., 69. gr. og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008. Þá telja sóknaraðilar að varnaraðili hafi ekki haft augljósa rannsóknarhagsmuni af húsleitinni og að hæglega hefði mátt beita vægari rannsóknarúrræðum, t.d. afla gagna með samþykki sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 68. gr. laganna. Þá hafi ekki verið gætt að því að framkvæma umrædda þvingunarráðstöfun með eins vægu móti og mögulegt var. Hafi framkvæmdin því farið í bága við hina lögbundnu meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Sóknaraðilar telja enn fremur að eins og málum hafi verið háttað hafi ekki átt að heimila að taka málið fyrir í héraðsdómi 27. mars 2012 án þess að fulltrúa sóknaraðila væri gefinn kostur á að vera þar viðstaddur, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008.
Til stuðnings kröfum sínum benda sóknaraðilar á fimm nánar tilgreind atriði.
Í fyrsta lagi telja þeir að ómögulegt hafi verið á svo stuttum tíma sem raun beri vitni að afla gagna og útbúa rökstudda kröfu um nauðsyn þess að haldleggja þau gögn sem til viðbótar hafi verið tilgreind í úrskurðinum í málinu nr. R-166/2012 auk þess sem í þeim úrskurði hafi verið bætt við tíu lögaðilum sem ekki hafi verið nefndir í fyrri úrskurði.
Í öðru lagi hljóti héraðsdómari að þurfa að yfirfara og meta hvort krafan og rökstuðningurinn sé fullnægjandi. Allt hafi þetta átt sér stað á tveimur klukkustundum 27. mars sl. Að mati sóknaraðila sé óhugsandi að héraðsdómari hafi getað fullnægt þeim skyldum sem á honum hafi hvílt og gengið úr skugga um að öll skilyrði laga í málinu hafi verið uppfyllt. Þessu til enn frekari stuðnings benda sóknaraðilar á nokkur atriði sem þeir telja vera til marks um að fljótaskrift hafi verið á afgreiðslu málsins fyrir héraðsdómi. Þannig hafi verið heimiluð haldlagning gagna fyrirtækjanna Ú, V og Y, en þau tengist hvorki sóknaraðila X hf. né nokkrum hinna sóknaraðilanna með neinum hætti. Þá hafi úrskurðurinn í máli nr. R-166/2012 veitt heimild til að haldleggja gögn sóknaraðilanna A ehf., Ð ehf., E ehf., É ehf., F ehf., I ehf., Í ehf. og K ehf., en þau starfi eingöngu á innlendum vettvangi og eigi hvorki í vöruviðskiptum við útlönd né eigi þau í viðskiptum með erlendan gjaldeyri. Því fái sóknaraðilar ekki séð hvernig þessi félög geti mögulega komið að meintum brotum á lögum nr. 87/1992. Úrskurðurinn veiti einnig heimild til að haldleggja gögn félagsins U ehf. Það félag sé ekki lengur til, en það hafi verið sameinað T ehf. Einnig séu ýmsar rangfærslur í úrskurðinum um kennitölur félaganna.
Í þriðja lagi vekja sóknaraðilar athygli á því að heimild varnaraðila samkvæmt úrskurðinum sé víðtækari en heimildir hans samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, en úrræði bankans til öflunar upplýsinga og gagna byggist á og séu takmörkuð við þau lög. Telja sóknaraðilar að krafa um haldlagningu ótilgreindra og að öllu leyti ótakmarkaðs fjölda gagna geti ekki samrýmst ákvæðum laganna, enda hafi varnaraðili ekki fært sönnur á nauðsyn svo víðtækrar haldlagningar.
Í fjórða lagi er á því byggt að varnaraðili hafi farið langt út fyrir heimildir sínar samkvæmt 15. gr. e laga nr. 87/1992. Hafi héraðsdómari ekki gætt meðalhófs og viðeigandi öryggissjónarmiða. Í þessu sambandi vísa sóknaraðilar til lögskýringargagna og draga þá ályktun af þeim að beita verði þeirri heimild sem komi fram í 15. gr. e í lögum nr. 87/1992 af varfærni og ekki nema að rík ástæða sé til að ætla að ákvæði laganna hafi verið brotin eða að ætla megi að aðgerðir varnaraðila nái ekki tilætluðum árangri með öðrum hætti.
Í fimmta lagi hafi ekki verið réttlætanlegt að útiloka málsvara sóknaraðila frá því að vera viðstaddir meðferð kröfu varnaraðila hjá héraðsdómi 27. mars sl., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008. Hafi starfsmenn X hf. og annarra sóknaraðila vitað á þeim tíma af aðgerðinni og ekki verði séð hvernig þeir hefðu átt að geta spillt fyrir rannsókninni þegar starfsmenn varnaraðila hafi verið komnir á staðina til leitar. Engan rökstuðning sé að finna í úrskurðunum fyrir því að kalla málsvara sóknaraðila ekki fyrir dóm.
Sóknaraðilar taka fram að haldlagning sé mjög íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð og þvingunarráðstöfun. Stjórnvöldum sé skylt að gæta meðalhófs að þessu leyti og vísa sóknaraðilar þar til 3. mgr. 53. gr.. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. Fram komi í athugasemdum við 68. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum að meðal annars komi til greina að beita vægara úrræði en haldlagningu við leit í starfsstöðvum fyrirtækja í stað þess að fjarlægja frumskjöl og tölvur sem þar sé að finna. Þá komi enn fremur fram að ef talið sé að haldlagning sé nauðsynleg beri að framkvæma hana með eins vægu móti og mögulegt sé, meðal annars með því að skora á þann sem hafi mun í vörslum sínum að afhenda hann af fúsum og frjálsum vilja.
Sóknaraðilar benda enn fremur á að þeir hafi haft af því gríðarlega hagsmuni, sem stórt útgerðarfyrirtæki á alþjóðamarkaði, að ekki yrði gert opinbert að dómstólar landsins hefðu samþykkt þvingunarráðstafanir á hendur þeim vegna ætlaðra brota. Halda sóknaraðilar því fram að þeir hafi reynt eftir fremsta megni að eiga gott samstarf við varnaraðila og aðra opinbera aðila. Hafi sóknaraðili X hf. þegar átt nokkra fundi með varnaraðila vegna gjaldeyrismála og telur sig hafa á þeim fundum sýnt samstarfsvilja og veitt allar umbeðnar upplýsingar um rekstur félagsins. Þá hafi viðbrögð varnaraðila við svörum félagsins verið jákvæð og engar athugasemdir hafi verið gerðar. Sóknaraðilar hefðu því afhent þau gögn sem varnaraðili hefði farið fram á af fúsum og frjálsum vilja hefði þeim verið gefinn kostur á því. En jafnvel þó að varnaraðili hafi metið það svo að þörf væri á úrskurði þá hafi honum borið að framkvæma þvingunarráðstöfunina með þeim hætti að sóknaraðilum yrði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt hafi verið. Hafi varnaraðila því borið að tryggja að rannsóknaraðgerðin vekti eins litla eftirtekt og kostur var á. Raunin hafi verið önnur. Fréttir af rannsóknaraðgerðinni hafi verið komnar á helstu vefmiðla áður en aðgerðin hafi hafist. Þá hafi varnaraðili sett frétt á heimasíðu sína um húsleitina strax klukkan 10:48. Þá hafi sambærileg frétt á ensku verið birt á sömu heimasíðu klukkan 10:54. Fréttin hafi einnig verið send á ensku til allra sem voru áskrifendur að svokölluðu RSS-feedi hjá varnaraðila.
Samkvæmt öllu framansögðu telja sóknaraðilar að skilyrði fyrir húsleit og haldlagningu gagna á starfsstöðvum X hf. hafi ekki verið fyrir hendi og framkvæmdin ekki samrýmst lögum. Því beri að úrskurða rannsóknaraðgerðir varnaraðila ólögmætar og gera honum að afhenda sóknaraðilum þegar í stað öll þegar haldlögð og afrituð gögn sem þeim tilheyri.
Varakrafa sóknaraðila samkvæmt kröfugerð hans 4. apríl sl. byggir á því að varnaraðili hafi farið offari við húsleitina og við haldlagningu gagna. Hafi hann tekið mun fleiri gögn en tilefni hafi verið til og grundvöllur húsleitarheimildarinnar hafi byggst á. Í því sambandi vísa sóknaraðilar til 1. mgr. 15. gr. e laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, þar sem fram komi að varnaraðili geti í tengslum við rannsókn mála krafist þess að einstaklingur og lögaðili leggi fram allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg. Af síðari málsgreinum ákvæðisins megi ráða að hinar víðtæku heimildir bankans takmarkist þó við rannsókn á brotum gegn lögum nr. 87/1992 eða reglum sem settar hafi verið á grundvelli þeirra. Þrátt fyrir það hafi starfsmenn varnaraðila lagt hald á fjölmörg gögn sem ekki geti á neinn hátt talist tengjast gjaldeyrismálum, sbr. upptalningu á fskj. nr. 2 og 3. Einnig hafi verið haldlögð gögn aðila sem hafi hvorki átt í viðskiptum yfir landamæri né viðskiptum með gjaldeyri, sbr. upptalningu í varakröfu sóknaraðila. Því falli starfsemi þeirra ekki undir eftirlitsheimildir varnaraðila eða lög nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Telja sóknaraðilar að með afritun gagnanna hafi varnaraðili farið með ótvíræðum hætti út fyrir heimildir sínar samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og þar með einnig brotið gegn 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
Í þessu sambandi taka sóknaraðilar fram að þar sem heimildir varnaraðila séu eins víðtækar og raun beri vitni verði að gera ríkar kröfur til bankans um að gæta meðalhófs þegar hann nýti þær. Í ljósi þess beri einnig að túlka allan vafa sóknaraðila í hag. Varnaraðila beri að gæta þess að misbeita ekki heimildum sínum þegar hann krefjist afhendingar gagna á grundvelli þeirra. Varnaraðili verði að ganga úr skugga um að gögn tengist í raun og veru gjaldeyrismálum áður en hann afritar þau og/eða haldleggur. Í máli þessu hafi bankinn haft sérstakt tilefni til þess þar sem ágreiningur hafi risið um lögmæti aðgerða hans. Þrátt fyrir það hafi fulltrúar varnaraðila ákveðið að afrita og haldleggja nánast öll gögn sem þeir hafi náð til óháð því hvort fyrir hafi legið að þau tengdust gjaldeyrismálum eða ekki og jafnvel þó að augljóst hafi verið að þau gætu á engan hátt tengst gjaldeyrismálum.
Um lagarök vísa sóknaraðilar til laga nr. 88/2008 um meðferða sakamála, laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eftir því sem nánar er fjallað um hér að framan.
Sóknaraðilar færa þau rök fyrir viðbótarkröfugerð sinni frá 18. apríl sl., þar sem farið er fram á að rannsókn málsins verði hætt án tafar, að efnislegur grundvöllur rannsóknarinnar sé í fyrsta lagi reistur á misskilningi og rangfærslum af hálfu varnaraðila. Er því haldið fram að varnaraðili hafi veitt rangar upplýsingar um þann verðmun sem hafi verið á karfa í viðskiptum sóknaraðila og tengdra aðila annars vegar og almennum viðskiptum hins vegar í október, nóvember og desember 2011. Ógerlegt sé að átta sig á því hvernig varnaraðili hafi komist að þeirri niðurstöðu af athugun á framlögðum upplýsingum úr útflutningsskýrslum að söluverð sóknaraðila X hf. væri 68% lægra en söluverð annarra aðila. Það sé alrangt. Meðaltollverð útflutts afla X hf. hafi verið 263 krónur á kg meðan meðalverð annarra útflytjenda hafi á sama tíma verið 266 krónur á kg. Um þennan útreikning vísa varnaraðilar til framlagðs skjals með útskýringum og leiðréttingum sóknaraðila X hf., en þessi útreikningur sé reistur á þeim tölulegu upplýsingum úr tollskýrslum sem varnaraðili hafi lagt fyrir héraðsdóm þegar aflað var heimildar til húsleitar. Þá sé á það bent að hluti þess karfa sem X hf. hafi flutt út á viðmiðunartímabilinu hafi verið keyptur á fiskmörkuðum á frjálsum markaði, en ekki verið veiddur af skipum X hf. Hafi láðst að geta þess í málatilbúnaði varnaraðila. Einnig liggi fyrir að meðalverð afla, sem skip X hf. hafi veitt af þeim afla sem um ræði, sé örlítið lægra en verð á fiskmarkaði. Það sé fullkomlega eðlilegt þar sem um sé að ræða meðafla. Það valdi því að gæði karfans sé ekki sambærilegt við gæði karfans sem keyptur sé á markaði. Allt þetta sýni að sá verðmunur sem varnaraðili hafi í málatilbúnaði sínum haldið fram að sé á almennu markaðsverði karfa og því verði sem X hf. hafi selt karfa á (68% lægra) sé rangur og beinlínis til þess fallinn að gera viðskipti X hf. tortryggileg. Enn fremur gefi framlagðar upplýsingar um verð á karfa á viðmiðunartímabilinu til kynna að þetta verð sé enginn fasti, það sé breytilegt eftir markaðsaðstæðum, svæðum o.fl. Sóknaraðilar byggi á því að unnt hefði verið að upplýsa um þessi atriði með hefðbundinni stjórnsýslufyrirspurn og aldrei hefði þurft að koma til svo alvarlegra og íþyngjandi aðgerða sem húsleit og haldlagning sé. Liggi fyrir að þessi aðgerð hafi valdið sóknaraðila stórtjóni.
Varðandi ætlað brot á skilaskyldu erlends gjaldeyris taka sóknaraðilar fram að það sé rangt að X hf. hafi ekki skilað samtals 75.212.554 krónum samkvæmt reglum nr. 1082/2008 og nr. 1130/2008, en það hafi komið fram í gagni sem beri heitið „Frumniðurstöður á athugun á skilaskyldu X hf.“. Samkvæmt sama skjali eigi gjaldeyri að jafnvirði 414.304.089 krónum að hafa verið skilað of seint. Sóknaraðilar taka fram að samkvæmt öðrum gögnum frá varnaraðila hafi komið fram að heildarsamantekt brota á skilaskyldu hjá X hafi numið samtals að jafnvirði 181.412.578 krónum. Þeirri fjárhæð megi skipta í þrennt og hafi varnaraðila verið veittar skýringar á þessum atvikum í lok nóvember 2010. Hluti þeirra séu tilvik þar sem verið sé að greiða kostnað erlendis með gjaldeyri sem félagið hafi átt erlendis fyrir gildistöku skilaskyldu (73.968.875 krónur). Þá hafi jafnframt verið um að ræða lánveitingar félagsins til erlendra dótturfélaga X hf. sem séu heimilar samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglna nr. 370/2010 (69.919.937 krónur). Einnig sé um að ræða gjaldeyri að jafnvirði 37.523.766 krónur sem hafi í langflestum tilvikum verið skilað einum degi of seint. Eftir standi þá um 300 milljónir króna sem ekki hafi fengist skýringar á og sóknaraðilar kannist ekki við. Veki það furðu að varnaraðili hafi ekki leitað skýringa á þeim fjárhæðum líkt og hann hafi margsinnis áður gert um aðrar fjárhæðir.
Sóknaraðilar benda einnig á að varnaraðili haldi því fram í málatilbúnaði sínum að raunveruleg stjórnun tveggja dótturfélaga X hf. sé á Íslandi. Um sé að ræða félögin N og M. Í því sambandi er bent á að skrifstofa N, sem hafi verið stofnað 1. maí 1996, hafi ætíð verið á [...]. Z, meðeigandi og framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi hafi búið ytra frá árinu 1986. Framkvæmdastjóri M, Þ, búi í [...] í [...]. Hann hafi búið í [...] í 9 ár og hafi tvöfalt ríkisfang, [...] og íslenskt. Halda sóknaraðilar því fram að þessar fullyrðingar varnaraðila séu ekkert annað en enn ein rangfærslan í málatilbúnaði varnaraðila.
Sóknaraðilar byggja kröfu sína í öðru lagi á því að varnaraðili hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að kanna ekki réttmæti þeirra upplýsinga sem rannsókn varnaraðila hafi verið reist á. Hafi borið að gera það áður en ákvörðun hafi verið tekin um beitingu hinna íþyngjandi rannsóknaraðgerða. Telja sóknaraðilar að þá hefði þegar komið í ljós að ekki hefði verið ástæða til að rannsaka starfsemi sóknaraðila.
Í þriðja lagi byggja sóknaraðilar á því að varnaraðili hafi brotið gegn meðalhófsreglum með því að grípa til þeirra íþyngjandi úrræða sem húsleit og haldlagning sé í stað þess að neyta annarra og vægari úrræða sem náð hefðu sama markmiði. Þá hafi varnaraðili brotið meðalhófsregluna með því að takmarka ekki haldlagningu gagna við þau gögn sem rannsóknin varðaði. Það sé með öllu óskiljanlegt af hverju varnaraðili hafi ekki takmarkað haldlagningarkröfu sína við gögn sem hafi getað upplýst hvort verð afurða X hf. í útflutningi til tengdra aðila væri í samræmi við það sem almennt tíðkaðist og upplýsa hugsanleg brot á skilaskyldu erlends gjaldeyris. Um meðalhófsregluna vísa sóknaraðilar til 2. mgr. 68. gr. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Þá hafi varnaraðili farið langt út fyrir heimildir sínar samkvæmt 15. gr. e laga nr. 87/1992.
Í fjórða lagi árétta sóknaraðilar þá afstöðu sína til stuðnings þessari kröfu að ekki hafi átt að heimila, eins og málum var háttað, að taka málið fyrir í héraðsdómi 27. mars 2012, án þess að fulltrúa rannsóknarþola væri gefinn kostur á að vera viðstaddur. Þá hafi héraðsdómur ekki gengið úr skugga um réttmæti kröfunnar.
Samkvæmt öllu framansögðu telja sóknaraðilar að efnislegan grundvöll fyrir rannsókn skorti auk þess sem varnaraðili hafi brotið rannsóknar- og meðalhófsreglu í rannsókn á starfsemi sóknaraðila. Með vísan til þessa sem og rökstuðnings í kröfum sóknaraðila, dags. 4. apríl 2012, beri að úrskurða rannsóknaraðgerðir varnaraðila í heild ólögmætar og bankanum gert að hætta rannsókn á starfsemi sóknaraðila án tafar.
Um lagarök vísa sóknaraðilar til laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eftir því sem nánar er fjallað um hér að framan.
2. Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila
Í greinargerð varnaraðila er fjallað með nokkuð ítarlegum hætti um þá rannsókn sem nú stendur yfir á vegum varnaraðila á ætluðum brotum sóknaraðila á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Eins og áður er lýst kemur þar fram að rannsóknin beinist annars vegar að ætluðu broti á ákvæði laganna, sem mælir fyrir um að útflutningsviðskipti milli tengdra aðila skuli gerð á grundvelli almennra kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila, sem og á ákvæði um skyldu innlendra aðila til að skila til fjármálafyrirtækja hér á landi öllum erlendum gjaldeyri sem þeir eignast innan þriggja vikna.
Í greinargerðinni er því haldið fram að við húsleitina að [...] á [...] hafi starfsmenn varnaraðila reynt að hindra leitina með nánar tilgreindum hætti. Þá hafi við húsleitina að [...] í [...] fundist vísbendingar um að tilteknir sóknaraðilar sem hafi skráð lögheimili erlendis séu með raunverulega framkvæmdastjórn hér á landi. Þannig hafi umtalsvert magn gagna fundist sem varði erlenda starfsemi þessara félaga, s.s. bréfsefni, samskipti, reikningar og tölvugögn. Meiri hluti sölureikninga umræddra aðila hafi borið undirskriftir sama starfsmanns sóknaraðilans X hf., sem starfi á starfsstöð félagsins í [...], en hafi verið með stimplum mismunandi tengdra lögaðila sem hafi lögheimili sín skráð erlendis. Þá hafi við húsleitina fundist stimplar sem séu notaðir til að skuldbinda umrædd félög. Þessi gögn gefi mynd af umfangi starfsemi félaganna sem fram fari hér á landi og geti veitt upplýsingar um hvar raunveruleg framkvæmdastjórn þeirra sé. Telur varnaraðili ljóst að vísbendingar af þessum toga hefðu ekki fundist nema við húsleit.
Tekið er fram af hálfu varnaraðila að rannsóknin sé á byrjunarstigi. Þrátt fyrir stutta töf á því að unnt væri að hefja yfirferð á tölvupóstsendingum starfsmanna sóknaraðila hafi þegar fundist gögn sem gefi vísbendingu um að fleiri félög en áður hafi verið talið séu í raun innlendir aðilar í merkingu laga nr. 87/1992. Jafnframt hafi fundist gögn sem veiti vísbendingar um að innlendir aðilar hafi átt frekari útflutningsviðskipti við tengda aðila á grundvelli verulega lakari kjara en tíðkist í viðskiptum óskyldra aðila. Þá hafi einnig vaknað grunsemdir um víðtækari brot gegn ákvæðum laga nr. 87/1992. Í greinargerðinni eru tekin nokkur dæmi um það og m.a. gerð grein fyrir ákveðnum vísbendingum um að félagið Ó, sem sé skráð á [...], sé í raun innlendur aðili í skilningi 1. gr. laga nr. 87/1992.
Krafa varnaraðila um að aðalkröfu sóknaraðila samkvæmt kröfugerð hans 4. apríl sl. verði vísað frá héraðsdómi, að því leyti sem hún snúi að því að rannsóknaraðgerðir varnaraðila verði lýstar ólögmætar, er á því reist að það sé ekki hlutverk dómstóla að lýsa rannsóknaraðgerðir ólögmætar. Enda þótt sóknaraðilar geti krafist þess að varnaraðila verði gert að skila og/eða eyða nánar tilteknum gögnum geti þeir ekki krafist þess að rannsóknaraðgerðir hans verði lýstar ólögmætar. Aðalkrafa sóknaraðila feli að þessu leyti í sér kröfu um að héraðsdómur svari lögspurningu en það sé ekki hlutverk dómstóla.
Krafa varnaraðila um að aðalkröfu sóknaraðila frá 4. apríl sl. verði að þessu leyti vísað frá héraðsdómi er jafnframt reist á því að héraðsdómur hafi þegar tekið afstöðu til framangreindra álitaefna með þeim úrskurðum sem hafi verið kveðnir upp 27. mars 2012, en auk þess hafi Hæstiréttur Íslands vísað frá kæru sóknaraðila á þeim grundvelli að varnaraðili hafi lokið við að leggja hald á þau gögn sem krafa sóknaraðila taki til. Héraðsdómur geti því ekki frekar en Hæstiréttur fjallað um þær rannsóknaraðgerðir varnaraðila sem séu yfirstaðnar.
Krafa varnaraðila um að aðalkröfu sóknaraðila samkvæmt kröfugerð hans 4. apríl sl., að því leyti sem hún snúi að því að varnaraðila verði gert að afhenda haldlögð gögn og eyða afritum gagna, verði hafnað er reist á því að krafan feli í sér að héraðsdómur taki á nýjan leik afstöðu til þess hvort lög hafi staðið til þess að dómurinn heimilaði haldlagningu gagnanna með úrskurðum 27. mars 2012.
Varnaraðili mótmælir þeim meginmálsástæðum sóknaraðila sem og öðrum málsástæðum sem raktar séu í kröfu hans frá 4. apríl 2012 fyrir héraðsdómi. Tekur hann fram að aðalkrafa sóknaraðila að þessu leyti sé á því reist að ekki hafi verið skilyrði til að heimila hinar yfirstöðnu rannsóknaraðgerðir með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012. Sá úrskurður sem hafi fjallað um haldlagningu gagna hjá fyrirtækinu Ý ehf. hafi verið kærður til Hæstaréttar Íslands sem hafi vísað kærunni frá á þeim grundvelli að haldlagning hefði þegar farið fram. Af sömu ástæðum geti héraðsdómur ekki tekið afstöðu til þess nú hvort rétt hafi verið af héraðsdómara að heimila umrædda leit og haldlagningu. Héraðsdómur geti því ekki á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 úrskurðað um lögmæti rannsóknarathafna sem hafi bæði verið heimilaðar og framkvæmdar.
Verði ekki á þetta fallist kveðst varnaraðili byggja á því að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að sóknaraðilinn X hf. hafi brotið gegn lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum sem hafi verið settar á grundvelli þeirra laga og ætla megi að þau gögn sem varnaraðili hafi lagt hald á muni hafa sönnunargildi í sakamáli, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. Krafa varnaraðila sé einnig reist á því að án hinna haldlögðu gagna nái rannsókn hans ekki tilætluðum árangri, sbr. 4. mgr. 15. gr. e laga nr. 87/1992.
Varnaraðili telur sig ekki hafa getað aflað fullnægjandi upplýsinga með því að beina fyrirspurnum til sóknaraðila. Þá byggir hann á því að gætt hafi verið hófs við framkvæmd húsleitarinnar og haldlagningu gagna. Í þessu sambandi vísar hann til þess að almennt hafi verið tekið afrit af gögnum á tölvutæku formi í stað þess að leggja hald á þau með beinum hætti. Þá hafi önnur gögn verið haldlögð til að komast hjá þeirri röskun sem ella hefði hlotist af því ef varnaraðili hefði setið vikum saman við yfirferð gagna á starfsstöð sóknaraðila.
Varnaraðili kveðst hafa leiðbeint sóknaraðilanum X hf. um það á leitarvettvangi að hann gæti hvenær sem er óskað eftir því að fá afhent afrit af skjölum eða öðrum sönnunargögnum sem hald hafi verið lagt á. Óskir um slíka afritun hafi þegar borist varnaraðila frá lögmanni sóknaraðila og hafi verið orðið við þeim beiðnum.
Krafa varnaraðila um að varakröfu sóknaraðila samkvæmt kröfugerð hans 4. apríl 2012 verði hafnað er á því reist að varnaraðili hafi ekki fengið tækifæri til að fara yfir þann gríðarlega fjölda gagna sem tilgreind séu á dómskjali nr. 2 og 3 enda hafi sóknaraðilar ekki áður óskað eftir því við varnaraðila að hann skili umræddum gögnum. Varnaraðili byggir á því að rannsóknarnauðsyn hafi krafist þess að hald væri lagt á gögnin og að hann verði að fá ráðrúm til að fara yfir þau, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 26. nóvember 2009 í máli nr. 633/2009, Samkeppnisyfirlitið gegn Valitor hf. Varnaraðili byggir á því að allt önnur staða sé uppi í þessu máli. Í fyrsta lagi hafi sóknaraðilar ekki áður beint kröfu um afhendingu gagnanna til varnaraðila. Varnaraðili hafi því ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til kröfunnar. Í öðru lagi sé um að ræða slíkan fjölda gagna að það taki varnaraðila a.m.k. nokkrar vikur eða mánuði að fara yfir efni þeirra. Í þriðja lagi sé krafan um afhendingu einstakra gagna eingöngu byggð á einhliða staðhæfingum en ekki rökstuddum fullyrðingum um að gögnin séu ótengd rannsókn málsins. Óháð fresti varnaraðila til að taka afstöðu til gagnanna sé þess vegna ljóst að sóknaraðilar hafi ekki rökstutt kröfu sína með fullnægjandi hætti.
Varðandi gögn af heimasvæðum einstakra starfsmanna, sem sóknaraðilar staðhæfi að tengist ekki gjaldeyrisviðskiptum, þá hafi útprentanir skjala af sumum þessara heimasvæða þegar komið fram í málinu og hafi verulega þýðingu fyrir rannsókn málsins. Staðhæfingar sóknaraðila um að þessi gögn tengist ekki gjaldeyrisviðskiptum eigi því ekki við rök að styðjast og ekki sé hægt að leggja þær til grundvallar í málinu. Varnaraðili þurfi því að fara í gegnum öll gögnin til að sannreyna hvort hvert og eitt þeirra hafi þýðingu fyrir rannsókn málsins.
Á dómskjali nr. 2 sé getið um ýmiss konar muni og skjalleg gögn sem varnaraðili hafi lagt hald á. Meðal þeirra séu gögn sem tengist Ó en rannsóknin hafi eins og áður segi beinst að því félagi. Þá séu nefndar tvær Ipad tölvur en afritun gagna á þeim sé ekki lokið. Ástæða þess að sóknaraðili hafi ekki fengið þessi tæki í hendur sé sú að sóknaraðilinn X hf. hafi neitað að afhenda lykilorð póstforrits og því hafi ekki tekist að afrita gögn af þeim.
Á fylgiskjali nr. 3 frá sóknaraðila sé getið ýmissa gagna sem varnaraðili hafi lagt hald á. Sóknaraðili staðhæfi að þessi gögn tengist ekki því sem varnaraðili hafi til rannsóknar. Varnaraðili mótmælir þessu sem röngu þar sem það sem komið sé fram nú þegar bendi til brota á ákvæðum laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, umfram það sem hafi legið fyrir við upphaf rannsóknar og því verði að fara yfir öll gögnin til að sannreyna hvort þau tengist þeim brotum sem nú séu til rannsóknar eða geti varpað frekara ljósi á málavexti.
Varðandi viðbótarkröfugerð sóknaraðila frá 18. apríl sl. er á því byggt af hálfu varnaraðila að það sé ekki hlutverk héraðsdóms að lýsa rannsóknaraðgerðir varnaraðila ólögmætar eða kveða á um að varnaraðili skuli hætta rannsókn á ætluðum brotum sóknaraðila. Enda þótt sóknaraðilum sé á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála heimilt að leggja fyrir héraðsdómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna, sem fari fram á grundvelli laganna, geti þeir ekki krafist þess að slíkar rannsóknarathafnir verði lýstar ólögmætar. Slík krafa feli í sér að dómstólar svari lögspurningu en það sé ekki hlutverk þeirra. Tilvitnað lagaákvæði feli í sér heimild þess sem rannsóknarathöfn beinist gegn til að bera ágreining um lögmæti hennar undir héraðsdómara. Heimildin takmarkist hins vegar við rannsóknarathafnir samkvæmt lögum nr. 88/2008. Á grundvelli þessarar heimildar gæti slík krafa beinst að því að fá breytt ástandi sem leiði af viðkomandi rannsóknarathöfn, svo sem að haldi verði aflétt af gögnum. Enda þótt varnaraðili hafi lagt hald á gögn sóknaraðila og þeim sé samkvæmt framansögðu heimilt að krefjast þess að haldi á þeim verði aflétt geti sóknaraðilar ekki gert kröfu um að rannsókn á ætluðum brotum þeirra verði hætt. Með því að fjalla efnislega um slíka kröfu væri rannsókn málsins í raun færð í hendur héraðsdómara en hvorki lög nr. 88/2008 né lög nr. 87/1992 um gjaldeyrismál geri ráð fyrir slíkri skipan. Af þessum sökum beri að vísa kröfu sóknaraðila frá héraðsdómi að mati varnaraðila.
Varnaraðili kveður aðalkröfu sína um að viðbótarkröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi jafnframt reista á því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi með tveimur úrskurðum 27. mars 2012 þegar tekið afstöðu til þeirra rannsóknarathafna sem séu liður í rannsókn varnaraðila á ætluðum brotum sóknaraðila. Þau gögn sem héraðsdómur hafi lagt til grundvallar í umræddum málum séu sömu gögn og sóknaraðilar styðji kröfu sína við í þessu máli. Vegna þessa telur varnaraðili að vísa beri kröfu sóknaraðila frá héraðsdómi.
Varakröfu varnaraðila um að kröfu sóknaraðila verði hafnað kveður hann reista á því að rannsókn á ætluðum brotum sóknaraðila sé ekki lokið og að varnaraðila verði ekki í máli sem sé rekið á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 gert að færa sönnur á það hvort tilefni hafi verið til rannsóknarinnar í upphafi eða hvort tilefni sé til að halda rannsókninni áfram.
Verði ekki á þetta fallist mótmælir varnaraðili öllum málsástæðum sóknaraðila.
Vegna umfjöllunar sóknaraðila um ætluð brot þeirra á lögum nr. 87/1992 og reglum sem sett hafi verið á grundvelli þeirra vísar varnaraðili til þess að sóknaraðilum sé heimilt að koma að öllum sjónarmiðum sínum um þetta við meðferð stjórnsýslumálsins. Héraðsdómur sé því hvorki réttur vettvangur fyrir sóknaraðila til að koma að athugasemdum sínum né fyrir varnaraðila til að svara þeim. Í því sambandi beri að hafa í huga þá rannsóknarhagsmuni sem séu til staðar vegna frekari rannsóknar á málinu.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri málsástæðu sóknaraðila að rannsókn hans hafi brotið gegn meðalhófsreglu þar sem ekki hafi verið beint fyrirspurn til X hf. í stað þess að fara í húsleit. Í því sambandi tekur varnaraðili ekki undir með sóknaraðilum að reynslan sýni að sóknaraðili X hf. hafi afhent gögn á grundvelli beiðna frá varnaraðila fljótt og vel. Í því sambandi bendir varnaraðili á tiltekið misræmi í upplýsingagjöf fyrirtækisins um inneign á gjaldeyrisreikningum X hf. þegar gjaldeyrishöft hafi verið tekin upp. Þá hafi forstjóri X hf. ekki lýst neinum vilja til samvinnu þegar óskað hafi verið eftir því við upphaf húsleitar. Þá mótmælir varnaraðili því að fjölmiðlaumræða um húsleitina 27. mars sl. hafi verið á ábyrgð varnaraðila. Telur varnaraðili raunar að sóknaraðili X hf. beri sjálfur verulega ábyrgð á þeirri fjölmiðlaumræðu sem hafi orðið í kjölfar aðgerða varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir því enn fremur að hann hafi ekki gætt meðalhófs við aðgerðir sínar. Í fyrsta lagi hafi verið reynt að komast hjá aðgerðunum með því að skora á sóknaraðila að sýna samvinnu og afhenda varnaraðila þau gögn sem hann hafi óskað eftir. Því hafi verið hafnað. Í öðru lagi hafi sóknaraðilum verið boðið að benda á þá staði sem væru mikilvægastir á starfsstöðinni svo starfsemin yrði fyrir sem minnstri röskun af aðgerðinni. Í þriðja lagi hafi sóknaraðilum verið gefinn kostur á að afrita öll skjöl sem hald hafi verið lagt á. Þá hafi þeim verið kynnt að þeir gætu fengið afrit af gögnum sem þeir síðar teldu nauðsynleg. Í fjórða lagi hafi varnaraðili tekið þá ákvörðun að leggja frekar hald á gögn og afrita rafræn gögn á staðnum í stað þess að setjast að á starfsstöð sóknaraðila svo dögum eða vikum skipti til að fara í gegnum tölvur. Í fimmta lagi hafi varnaraðili létt haldi af munum sem hald hafi verið lagt á til afritunar, jafnskjótt og lokið hafi verið við að afrita þá hafi samvinna við sóknaraðila á annað borð fengist til að framkvæma afritun. Í einhverjum tilvikum hafi sóknaraðili ekki orðið við tilmælum um að afhenda lykilorð sem nauðsynleg séu til afritunar.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál með síðari breytingum eru lögð margháttuð höft á meðhöndlun innlendra aðila á erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisviðskipti. Í lögunum er varnaraðila, Seðlabanka Íslands, falið að hafa eftirlit með því að farið sé að lögunum og þeim stjórnvaldsfyrirmælum sem sett hafa verið með stoð í þeim. Varnaraðila er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ýmsum ákvæðum laganna, þar á meðal 13. gr. a til 13. gr. n um bann við fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum, sem og ákvæði II til bráðabirgða í lögunum. Einnig varða þessi brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 16. gr. laganna. Slík brot skulu aðeins sæta opinberri rannsókn að undangenginni kæru varnaraðila til lögreglu og metur varnaraðili hvort mál sæti lögreglurannsókn eða hvort því skuli lokið með stjórnvaldssekt, sbr. 16. gr. b laganna. Varnaraðila ber þó að vísa öllum meiri háttar brotum til lögreglurannsóknar. Brot telst meiri háttar þegar það lýtur að verulegum fjárhæðum, verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins.
Mælt er fyrir um það í 15. gr. e í lögum nr. 87/1992 að varnaraðila sé í tengslum við rannsókn mála heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg. Í ákvæðinu er varnaraðila meðal annars veitt heimild til að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að einstaklingar eða lögaðilar hafi brotið gegn lögunum eða reglum sem hafi verið settar á grundvelli þeirra eða að ástæða sé til að ætla að athuganir eða aðgerðir varnaraðila nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri. Við framkvæmd slíkra aðgerða skal beita ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Á þessum lagagrundvelli fór varnaraðili fram á það að Héraðsdómur Reykjavíkur veitti heimild til húsleitar og til að leggja hald á gögn í þágu rannsóknar varnaraðila á ætluðum brotum sóknaraðila X hf. og tengdra félaga á fyrrgreindum lögum nr. 87/1992. Röksemdir varnaraðila fyrir því að skilyrðum væri fullnægt til að heimila umbeðnar rannsóknaraðgerðir eru reifaðar í kafla II. Fallist var á það með úrskurðum héraðsdóms 24. og 27. mars sl. að leitin færi fram. Aðalkrafa sóknaraðila samkvæmt kröfugerð 4. apríl sl. lýtur að þessum tilteknu rannsóknaraðgerðum. Í meginatriðum telja þeir að ekki hafi verið rétt af héraðsdómi að heimila þessar rannsóknaraðgerðir. Þá hafi verið brotið gegn rétti sóknaraðila við meðferð kröfunnar 27. mars sl., sbr. 104. gr. laga nr. 88/2008. Um heimild sína til að leita úrskurðar héraðsdóms um framangreind atriði vísa sóknaraðilar í kröfu sinni 4. apríl sl. til 3. mgr. 69. gr. og 4. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008. Þá er viðbótarkrafa sóknaraðila frá 18. apríl sl. að nokkru leyti studd sömu röksemdum og um hana vísað til 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008.
Í 69. gr. laganna er fjallað um heimild til að leggja hald á muni án dómsúrskurðar. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að vilji eigandi eða vörsluhafi munar, sem hald er lagt á, ekki hlíta þeirri ákvörðun geti hann borið ágreiningsefnið undir dómara, en jafnframt er tekið fram að krafa um að aflétta haldi fresti þó ekki haldlagningu. Ákvæði þetta veitir samkvæmt efni sínu ekki heimild til að bera undir héraðsdóm úrlausn héraðsdóms um að heimila haldlagningu. Því er útilokað að héraðsdómur fjalli á þessum grundvelli um réttmæti framangreindra úrskurða frá 24. og 27. mars sl. og þeirra ákvarðana dómara sem teknar voru við meðferð málanna.
Í 75. gr. sömu laga er í 1. mgr. mælt fyrir um þá almennu meginreglu að leit samkvæmt 74. gr. laganna skuli ákveðin með úrskurði dómara nema að fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða umráðamanns viðkomandi húseignar eða farartækis þar sem leit á að fara fram. Frá þeirri meginreglu eru undantekningar sem fjallað er um í 2. og 3. mgr. sömu greinar. Í 4. mgr. 75. gr., sem sóknaraðilar skírskota til, segir að ef sá sem hagsmuna á að gæta vill ekki hlíta ákvörðun lögreglu um húsleit samkvæmt 2. eða 3. mgr. verði að benda honum á að hann geti borið ágreiningsefnið undir dómara. Það fresti þó ekki húsleitinni. Augljóst er af efni greinarinnar og ummælum í lögskýringargögnum að ekki er unnt með vísan til hennar að leita úrskurðar héraðsdóms um réttmæti niðurstöðu héraðsdóms 24. og 27. mars sl. um að heimila umræddar rannsóknaraðgerðir eða þeirra ákvarðana sem teknar voru við meðferð málanna.
Í XV. kafla laga nr. 88/2008 er fjallað um meðferð rannsóknarmála fyrir dómi. Þar er í 102. gr. vikið að því með hvaða hætti ýmis atriði í tengslum við rannsókn sakamála geta komið til úrlausnar héraðsdóms. Í 1. mgr. greinarinnar er fjallað um þau mál eða aðgerðir sem kalla á atbeina dómara samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Í 2. mgr. greinarinnar segir eftirfarandi: „Auk þess sem í 1. mgr. segir má leggja fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Enn fremur ágreining um réttindi sakbornings, verjanda hans eða lögmanns, þar á meðal kröfu þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir, ellegar réttindi brotaþola, réttargæslumanns hans eða lögmanns.“ Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að samsvarandi regla hafi verið í 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Bent er á að um sum atriði, sem eigi undir þessa reglu, séu sérákvæði annars staðar í frumvarpinu, þ. á m. í 69. gr. og 75. gr. þess. Að öðru leyti væri í 2. mgr. 102. gr. að finna almenna heimild til þess að bera undir dóm þau ágreiningsatriði sem ekki eru sérstök fyrirmæli um annars staðar í frumvarpinu, t.d. varðandi ýmis réttindi sakbornings, verjanda eða lögmanns hans o.s.frv. Ekki þótti þörf á frekari skýringum á því hvers konar ágreiningsefni gætu átt hér undir þar sem ákvæðið ætti samsvörun í þágildandi lögum.
Þegar litið er til orðalags 2. mgr. 102. gr. laganna verður að telja að sú heimild sem þar er að finna taki til þess að leita úrskurðar dómara um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu, ákæranda eða annarra sem fara með rannsókn mála samkvæmt lögunum, en ekki réttmætis niðurstöðu dómara um að heimila slíkar aðgerðir. Á grundvelli ákvæðisins má því meðal annars leita úrlausnar héraðsdóms um hvort aðgerðir varnaraðila, sem dómstólar hafa heimilað, hafi gengið of langt, en varakrafa sóknaraðila lýtur að því. Ekki verður hins vegar borin undir héraðsdóm krafa um að rannsóknaraðgerð, sem héraðsdómur hefur heimilað, verði úrskurðuð ólögmæt. Telji viðkomandi sig hafa verið órétti beittan með því að slíkar rannsóknaraðgerðir hafi verið heimilaðar, getur hann hins vegar átt bótarétt samkvæmt XXXVII. kafla laganna. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður aðalkröfu sóknaraðila samkvæmt kröfugerðinni 4. apríl sl. hafnað.
Með viðbótarkröfugerð sóknaraðila 25. apríl sl. er farið fram á að rannsókn varnaraðila verði í heild úrskurðuð ólögmæt og að henni verði hætt. Kröfugerð þessi beinist því ekki að þeim tilteknu rannsóknaraðgerðum sem héraðsdómur heimilaði með úrskurðunum 24. og 27. mars sl. heldur að allri rannsókn varnaraðila á ætluðum brotum sóknaraðila á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Um heimild til að bera þetta atriði undir héraðsdóm vísa sóknaraðilar til fyrrgreindrar 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir var í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna ekki talin þörf á að lýsa nánar hvers konar ágreiningsefni geti átt hér undir þar sem ákvæðið ætti samsvörun í gildandi lögum. Þar er vísað til 75. gr. laga nr. 19/1991 og ljóst að með nýju sakamálalögunum var ekki ætlunin að gera breytingu á því hvaða atriði verða borin undir héraðsdóm samkvæmt þessari heimild. Í gildistíð laga nr. 19/1991 var talið heimilt að bera undir dómstóla lögmæti rannsóknar sakamála í heild sinni á grundvelli 75. gr. laganna, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 8. júní 2006 í málinu nr. 248/2006 og frá 23. janúar 2007 í málinu nr. 661/2006. Rannsókn varnaraðila gagnvart sóknaraðilum getur lokið með álagningu stjórnvaldssektar, eins og fram hefur komið, nema að varnaraðili telji að fyrir liggi að alvarlegt brot hafi verið framið á lögum nr. 87/1992. Er þá skylt að vísa málinu til lögreglurannsóknar. Við rannsóknaraðgerðir varnaraðila ber að fylgja lögum nr. 88/2008. Í þessu ljósi verður að fallast á að sóknaraðilar geti leitað úrlausnar héraðsdóms á því hvort rannsókn varnaraðila í heild sé ólögmæt.
Röksemdir sóknaraðila fyrir því að rannsóknin sé ólögmæt lúta í stórum dráttum að því að ekki sé efnislegur grundvöllur fyrir henni. Um það vísa sóknaraðilar til þeirra ástæðna sem varnaraðili tefldi fram til rökstuðnings fyrir því að heimila ætti húsleit og haldlagningu gagna. Telja sóknaraðilar að þær séu reistar á rangfærslum bæði um viðskipti sóknaraðila með karfa í þrjá mánuði á árinu 2011 og um stjórn tveggja erlendra dótturfélaga X hf. Einnig hafi í nóvember 2010 verið gefnar skýringar á notkun sóknaraðila X hf. á tilteknum erlendum gjaldeyri, sem varnaraðili hafi tekið gildar, enda hafi sú notkun ekki verið óheimil að lögum. Þá byggja sóknaraðilar á því að rannsókn varnaraðila fari í bága við rannsóknarreglu og meðalhófsreglu.
Við úrlausn á fyrrgreindri kröfu sóknaraðila verður að líta til þess að samkvæmt fyrirmælum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál með síðari breytingum er það hlutverk varnaraðila, Seðlabanka Íslands, að rannsaka hvort innlendir aðilar kunni að hafa gerst brotlegir við umrædd lög og reglur sem á þeim byggjast. Rannsókn á ætluðum brotum sóknaraðila á lögunum er því á forræði varnaraðila. Verður að játa honum ákvörðunarvald um það hvort tilefni sé til að hefja rannsókn, afla upplýsinga í tilefni af henni og draga ályktanir af þeim. Varnaraðili ákveður síðan hvort efni sé til að hætta rannsókn eða að öðrum kosti að ljúka henni með stjórnvaldssekt ellegar vísa málinu til lögreglurannsóknar. Efnislegar athugasemdir þess sem sætir rannsókn, skýringar hans og frekari upplýsingar geta haft mikla þýðingu fyrir framvindu rannsóknarinnar og efnislega niðurstöðu. Sóknaraðilar eiga rétt til þess að koma öllum þeim sjónarmiðum að gagnvart varnaraðila, sbr. meginreglur IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi lögbundinnar hlutverkaskiptingar varnaraðila og dómstóla samkvæmt lögum nr. 87/1992, sbr. enn fremur 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, geta slíkar efnislegar athugasemdir við tilefni rannsóknar hins vegar ekki nema í algerum undantekningatilvikum leitt til þess að dómstólar úrskurði að rannsókn varnaraðila sé beinlínis ólögmæt og að henni beri að hætta.
Í málinu liggur fyrir listi með upplýsingum úr útflutningsskýrslum fyrir heilan karfa frá október til desember 2011, annars vegar vegna útflutnings X hf. og hins vegar vegna útflutnings annarra útflytjenda. Á listanum eru veittar upplýsingar um útflytjanda og viðtakanda í hvert sinn, magn útflutts karfa í einstökum viðskiptum og tollverð vörunnar annars vegar í íslenskum krónum og hins vegar þeirri mynt sem viðskiptin fóru fram í. Eins og rakið hefur verið var krafa varnaraðila um húsleit hjá sóknaraðilum meðal annars reist á útreikningum sem byggðust á þessum upplýsingum. Þóttu þær gefa til kynna að verð karfans, sem sóknaraðili X hf. flutti út til sóknaraðilans M, sem er dótturfélag X hf., hafi verið umtalsvert lægra en verð annarra útflytjenda til sinna viðskiptavina, eins og gerð er nánari grein fyrir í kafla II. Sóknaraðilar hafa lagt fram aðrar niðurstöður sem reistar eru á sömu gögnum. Þær niðurstöður telja þeir að gefi til kynna að verð í viðskiptum sóknaraðila með karfa hafi verið sambærilegt við verð í öðrum viðskiptum.
Forsendur fyrir útreikningi varnaraðila liggja ekki ljósar fyrir. Af athugun á fyrirliggjandi upplýsingum virðist þó sem þeir grundvallist á kílóverði í evrum í hvert einstakt skipti. Meðaltalskílóverð viðskiptanna í hverjum mánuði er síðan fundið út. Aðferð sóknaraðila X hf. við að reikna út kílóverðið er önnur. Hann leggur saman magn útflutts karfa í hverjum viðskiptum. Jafnframt leggur hann saman verð í þessum sömu viðskiptum í íslenskum krónum. Á þessum grundvelli finnur hann út heildarkílóverð yfir tiltekið tímabil.
Þegar upplýsingar um einstök viðskipti eru skoðaðar kemur í ljós að magn í hvert sinn er afar breytilegt, allt frá fimm kílógrömmum upp í rúmlega 30 tonn. Kílóverð í viðskiptum með lítið magn er almennt verulega hærra en þegar mikið magn er flutt út, jafnvel margfalt hærra. Líklega skýrist þessi verðmunur af ólíku eðli viðskiptanna. Ljóst er af framlögðum gögnum að sóknaraðilar leggja stund á magnútflutning á karfa en ekki útflutning á litlu magni.
Með þeirri aðferð, sem varnaraðili virðist reisa fyrrgreindar ályktanir sínar á um á útflutningsviðskipti sóknaraðila með karfa í samanburði við viðskipti annarra, hefur kílóverð í hverjum viðskiptum jafnt vægi óháð því magni sem flutt var út. Orkar það tvímælis í ljósi þess hvaða áhrif magn hefur á verðið. Nærtækara hefði verið að bera saman heildarkílóverð í viðskiptunum eða meðaltalskílóverð í viðskiptum með sambærilegt magn hjá sóknaraðila annars vegar og öðrum útflytjendum hins vegar. Með því hefðu fengist samanburðarhæfar tölur.
Rétt er að árétta að efnislegar athugasemdir við tilefni rannsóknar getur þó ekki nema í algerum undantekningatilvikum leitt til þess að dómstólar úrskurði að rannsókn sé beinlínis ólögmæt og að henni beri að hætta. Þrátt fyrir framangreinda veikleika í röksemdafærslu varnaraðila við upphaf rannsóknarinnar er ekki hægt að útiloka að þær upplýsingar sem aflað hefur verið síðan þá geti rennt stoðum undir grunsemdir um brot sóknaraðila á lögum nr. 87/1992, eins og varnaraðili vísar til. Þá var tilefni rannsóknarinnar ekki aðeins reist á samanburði á verðlagi við útflutning á karfa. Athugasemdir sóknaraðila við tilefni rannsóknarinnar geta að mati dómsins ekki leitt til þess að hún verði talin ólögmæt. Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um skyldu stjórnvalda til að sjá til þess að mál sé upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Starfsemi sóknaraðila er enn þá til rannsóknar og engin stjórnvaldsákvörðun, er bindur enda á málið, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, hefur verið tekin. Ekki er því grundvöllur til að fjalla um hér hvort málsmeðferð varnaraðila stangist á við rannsóknarregluna, en í húsleitarúrskurðum sínum komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að skilyrðum væri fullnægt til þess að heimila umbeðnar rannsóknaraðgerðir. Þá er ekki efni til að fallast á að mögulegt brot á meðalhófsreglu við töku ákvörðunar um einstakar rannsóknaraðgerðir varnaraðila geti valdið því að rannsóknin í heild verði úrskurðuð ólögmæt og að henni verði hætt. Aðrar málsástæður sóknaraðila verða heldur ekki taldar leiða til þess að unnt sé að fallast á kröfu þeirra að þessu leyti. Með skírskotun til þess sem að framan er rakið verður krafa sóknaraðila samkvæmt viðbótarkröfugerð þeirra 18. apríl sl. ekki tekin til greina.
Í kröfugerð sóknaraðila 4. apríl sl. er til vara farið fram á að gögnum, sem talin eru upp í tveimur fylgiskjölum nr. 2. og 3 og voru haldlögð í húsleitum varnaraðila 27. mars sl., verði skilað. Byggist krafan á því að þessi gögn varði á engan hátt gjaldeyrismál. Einnig er þess krafist að öllum gögnum nánar tilgreindra átta félaga verði skilað aftur, enda hafi þessi félög hvorki átt í viðskiptum yfir landamæri né í viðskiptum með gjaldeyri.
Á fylgiskjali sem merkt er nr. 2 eru tilgreindir samtals 81 hlutur og gögn (möppur og plastvasar með gögnum, usb-lyklar, tölvur og iPad). Fylgiskjali sem merkt er nr. 3 er listi með 393 gögnum af ýmsu tagi er lúta að rekstri sóknaraðila. Fullyrt er af þeirra hálfu að þessi gögn varði ekki gjaldeyrismál. Umræddir listar eru reistir á skýrslum um haldlagningu varnaraðila og á þeim eru meðal annars færslur er lúta að þeim átta félögum sem sóknaraðilar halda fram að hafi ekki átt í neinum viðskiptum með gjaldeyri.
Skammt er síðan hald var lagt á þessi gögn og ljóst að yfirferð þeirra er ekki lokið. Játa verður varnaraðila svigrúm til að fara yfir þau til að leggja mat á þýðingu þeirra fyrir rannsókn málsins. Af þeirri takmörkuðu lýsingu sem liggur fyrir í málinu á innihaldi þessara gagna, þar á meðal gagna þeirra átta félaga sem sérstaklega eru tilgreind í kröfugerð sóknaraðila, verður heldur ekkert fullyrt um hvort þau skipti máli fyrir athugun varnaraðila. Jafnframt hefur varnaraðili lýst því yfir að sóknaraðilar geti fengið afrit af haldlögðum gögnum telji sóknaraðila þörf á þeim fyrir rekstur félaganna. Samkvæmt 72. gr. laga nr. 88/2008 bar að aflétta haldi af þeim gögnum sem athugun varnaraðila leiðir í ljós að ekki hafa þýðingu fyrir rannsóknina. Með hliðsjón af framangreindu er ekki fallist á að efni sé til þess á þessu stigi að verða við kröfu sóknaraðila um að gögnum á fyrrgreindum fylgiskjölum verði skilað. Þá er á þessu stigi ekki ástæða til að fallast á kröfu um að haldlagningu á gögnum átta nánar tilgreindra sóknaraðila verði aflétt. Varakröfur sóknaraðila verða því ekki teknar til greina.
Rétt þykir að hver aðili beri hvor sinn kostnað af rekstri þessa máls.
Úrskurðurinn er kveðinn upp af Ásmundi Helgasyni héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfum sóknaraðila, X hf. o.fl., ef hafnað.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.