Hæstiréttur íslands
Mál nr. 176/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 16. mars 2015. |
|
Nr. 176/2015.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Á á hendur X var vísað frá dómi. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að í kæru Á segði það eitt um ástæður, sem kæran væri reist á, að vísað væri til sjónarmiða Á sem reifuð væru í hinum kærða úrskurði. Taldi dómurinn, með vísan til 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ófullnægjandi væri að láta við það sitja að vísa til þess sem fram hefði komið við meðferð málsins í héraði fyrir uppkvaðningu úrskurðarins. Þá var ekki talið að hægt væri að bæta úr þeim annmarka á kærunni með því að skila greinargerð til Hæstaréttar sem hefði að geyma röksemdir Á fyrir kröfu hans. Samkvæmt þessu var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. febrúar 2015 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal í skriflegri kæru til héraðsdóms greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í kæru sóknaraðila sagði það eitt um ástæður sem kæran væri reist á að vísað væri til sjónarmiða sóknaraðila sem reifuð væru í hinum kærða úrskurði. Í þessu tilliti var ófullnægjandi að láta við það sitja að vísa til þess sem fram kom við meðferð málsins í héraði fyrir uppkvaðningu úrskurðarins. Þá verður ekki bætt úr þessum annmarka á kærunni með því að skila greinargerð til Hæstaréttar sem hefur að geyma röksemdir sóknaraðila fyrir kröfu hans. Samkvæmt þessu verður að vísa málinu frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. febrúar 2015.
Mál þetta, sem þingfest var þann 18. desember 2014, var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu ákærða þann 28. janúar sl. Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 24. nóvember 2014, á hendur X, kennitala [...], til heimils að [...], „fyrir almannahættubrot, líkamsmeiðingar af gáleysi, brot gegn loftferðalögum og reglum settum samkvæmt þeim, með því að hafa, á skírdag 1. apríl 2010, ekki gætt nægrar aðgæslu við undirbúning og flugstjórn flugvélarinnar TF-[...] af tegundinni Cessna 117 yfir sumarhúsabyggð í hlíðum Langholtsfjalls í Árnessýslu, með 3 farþega innan borðs, en ákærði, sem hafði enga reynslu af að fljúga slíkri flugvél, framkvæmdi ekki massa- og jafnvægisútreikninga og flaug vélinni yfirhlaðinni, í lítilli hæð yfir sumarhúsabyggðinni, á eða við ofrishraða, í krappri beygju í sterkum hviðóttum vindi svo flugvélin missti hraða og hæð og skall í jörðina með þeim afleiðingum að farþegarnir 3 slösuðust og flugvélin eyðilagðist. A, kennitala [...], hlaut brot á lendhryggjarlið, B, kennitala [...], hlaut brot í brjóstlið og bringubeini og tognun í brjósthrygg og hálshrygg og C, kt. [...], hlaut tognun í hálshrygg, brjósthrygg og brjóstkassa.
Telst háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 165. gr., sbr. 167. gr., og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir, d. lið 2.4.1. gr., 2.21. gr. og 2.22. gr. í I viðauka reglugerðar nr. 694/2010 um almannaflug flugvéla, sbr. 7. gr., sbr. 6. gr. sömu reglugerðar, sbr. 28. gr. e., 141. gr. og 145. gr. laga nr. 60/1989 um loftferðir, áður d. lið 4.4.1. gr., sbr. 10.2. gr. reglugerðar nr. 488/1997 um almannaflug, sbr. 28. gr. e., 141. gr. og 145. gr. laga um loftferðir, og 2.3.1. gr., 2.3.2., 3.1.1. gr., 3.1.2. gr. og 4. 6. gr. í I viðauka reglugerðar nr. 770/2010 um flugreglur, sbr. 5. gr., sbr. 6. gr. sömu reglugerðar, sbr. a. lið 3. mgr. 76. gr. og 141. gr. gr. [sic] laga nr. [sic] um loftferðir, áður 2.3.1. gr., 2.3.2. gr., 3.1.1. gr., 3.1.2. gr. og 4.5. gr. flugreglna, sbr. auglýsingu nr. 55/1992 um setningu flugreglna, sbr. 1. gr., 3. mgr. 76. gr. og 141. gr. laga um loftferðir.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru og framhaldsákæru er gerð grein fyrir einkaréttarkröfum A og B.
Ákærði mætti við þingfestingu málsins þann 18. desember sl., og var Jóhannes Ásgeirsson hrl., skipaður verjandi að ósk ákærða. Ákærði neitaði sök og hafnaði framkomnum einkaréttarkröfum. Málinu var frestað til 4. febrúar sl., til framlagningar greinargerðar af hálfu ákærða. Með tölvupósti til dómara þann 23. desember sl., óskaði ákærði eftir að skipun Jóhannesar Ásgeirssonar hrl., yrði afturkölluð og Sigurður G. Guðjónsson hrl., skipaður verjandi og féllst dómurinn á það í þinghaldi þann 22. janúar sl.
Í framangreindu þinghaldi krafðist ákærði að máli þessu verði vísað frá dómi og allur kostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda. Málið var tekið fyrir þann 28. janúar sl., og í þinghaldi þann dag krafðist ákæruvaldið þess að frávísunarkröfu ákærða yrði hrundið og málið tekið til efnismeðferðar. Að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu ákærða í áðurgreindu þinghaldi var krafa ákærða tekin til úrskurðar.
I.
Tilkynning um flugslys það sem mál þetta fjallar um barst lögreglunni á Selfossi klukkan 16:09 fimmtudaginn 1. apríl 2010. Lögregla fór á vettvang og í frumskýrslu lögreglu kemur fram að rannsóknarlögreglumaður embættisins hafi séð um vettvangsrannsókn. Einnig hafi sjúkraflutningamenn, björgunarsveit og slökkvilið verið kallað út, slysið tilkynnt til rannsóknarnefndar flugslysa og fulltrúi nefndarinnar komið á vettvang.
Meðal rannsóknargagna málsins eru ljósmyndir sem lögregla tók af vettvangi áðurgreindan dag, niðurstöður blóðrannsókna, læknisvottorð varðandi farþegana þrjá sem í vélinni voru, vottorð um veður, ýmis gögn frá flugmálastjórn varðandi flugvélina og flugréttindi ákærða. Í málinu liggur frammi yfirlit lögreglu um gang rannsóknarinnar. Af því og framlögðum rannsóknargögnum má ráða að teknar voru skýrslur af ákærða og farþegum vélarinnar þann 12. maí 2010 og að í lok júnímánaðar sama ár lágu fyrir gögn frá tryggingafélagi, Veðurstofu og áverkavottorð. Svo virðist sem rannsókn málsins hafi legið niðri frá því lögreglu bárust gögn frá flugmálastjórn um miðjan júlí 2010 allt þar til málið var sent ríkissaksóknara þann 12. ágúst 2013. Ríkissaksóknari endursendi lögreglu málið rúmum mánuði síðar. Í framhaldi af því tók lögregla, á tímabilinu frá 10. október til 1. nóvember 2013, skýrslur af níu vitnum, sem voru stödd í sumarbústaðahverfi umræddan dag.
Fyrir liggur að rannsókn fór fram á umræddu slysi af hálfu rannsóknarnefndar flugslysa, nú rannsóknarnefnd samgönguslysa. Við þingfestingu málsins lagði ákærði fram andmæli, dagsett 7. júní 2013, þar sem gerðar eru fjölmargar athugasemdir við drög að lokaskýrslu nefndarinnar Meðal rannsóknargagna málsins er óundirrituð lokaskýrsla rannsóknarnefndar samgönguslysa, dagsett 31. október 2013, samtals 26 blaðsíður að fjórum viðaukum meðtöldum. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 32. gr. laga nr. 18/2013, er markmiðs slysarannsókna getið á forsíðu skýrslunnar sem og að ekki sé með rannsókn leitast við að skipta sök eða ábyrgð, sbr. 5. mgr. 4. gr. laganna. Upplýsingar um samskipti lögreglu og framangreindra rannsóknarnefndar vegna þessa máls eru eftirfarandi: Í yfirliti lögreglu um gang rannsóknarinnar, sem áður er vikið að, segir: „28. júní 2010 eru gögn send til RNF“. Í tölvupósti lögreglu til rannsóknarnefndar samgönguslysa þann 9. október 2013 er í upphafi tekið fram að rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi hafi umrætt flugslys til rannsóknar. Síðan segir: „Nauðsynlegt er að afla upplýsinga um afstöðu rannsóknarnefndarinnar varðandi fyrrgreint flugslys. Athygli er vakin á því að á fundi með starfsmönnum rannsóknarnefndarinnar á vormánuðum 2013 á lögreglustöðinni á Selfossi kom fram að niðurstaða nefndarinnar væri væntanleg innan fárra daga í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa. Þar sem engar fregnir hafa borist um niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar á flugslysinu er þess farið á leit við rannsóknarnefnd samgönguslysa að niðurstaða hennar verði kunngerð embætti lögreglustjórans á Selfossi, bréflega, fyrir kl. 15:00 föstudaginn 11. október 2013. Verði ekki orðið við þeirri beiðni þá er þeim starfsmönnum rannsóknarnefndarinnar er höfðu með fyrrgreinda rannsókn að gera boðaðir til skýrslutöku á lögreglustöðinni [sic] á Selfossi þriðjudaginn 15. október 2013 kl. 14:00.“
Síðasta framlagða rannsóknargagn málsins er minnisblað Verkfræðistofu Suðurlands, dagsett 18. nóvember 2013. Í skýrslu lögreglu segir að verkfræðistofunni hafi verið afhentar tvær ljósmyndir, sem vitni hafi tekið af flugi vélarinnar, með beiðni um að reiknuð yrði flughæð vélarinnar. Ríkissaksóknari gaf síðan út ákæru í máli þessu þann 24. nóvember 2014.
II.
Frávísunarkröfu sína byggir ákærði á því að rannsókn lögreglu og ákvörðun um útgáfa ákæru í máli þessu hafi hvorki samrýmst reglum um rannsókn flugslysa né sakamála. Í framlagðri bókun ákærða og munnlegum málflutningi vísaði ákærði til þess að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um rannsókn flugslysa nr. 35/2004, sem í gildi voru þegar umrætt flugslys varð, skyldi rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við flugslys fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála og vera óháð rannsókn flugslysanefndar, sbr. 8. gr. laganna. Þá skuli rannsóknarnefnd flugslysa samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laganna, ekki leitast við að skipta sök eða ábyrgð og skýrslum nefndarinnar skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í sakamálum, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Þá vísaði ákærði til ákvæða 1. mgr. 13. gr., og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 35/2004.
Ákærði vísar til þess að núgildandi lög um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013, sem tóku gildi 1. júní 2013, kveði á um að rannsókn samkvæmt lögunum skuli eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa- og atvika, en ekki skipta sök eða ábyrgð, sbr. 1. gr. laganna. Í lögum sé kveðið á um að rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við samgönguslys skuli fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála og vera óháð rannsókn áðurnefndrar rannsóknarnefndar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Einnig sé kveðið á um það í 5. mgr. 4. gr. laganna að skýrslum rannsóknarnefndar um rannsókn einstakra slysa og atvika skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum. Þá vísar ákærði til þess að verði slys, sem rannsóknarnefnd rannsaki, tilefni lögreglurannsóknar sé nefndinni heimilt að veita lögreglu almennar upplýsingar um rannsókn vettvangs ef við á, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 18/2013, sbr. þó 27. gr. laganna. Einnig sé rannsóknarnefnd heimilt að veita lögreglu aðstoð við úrlausn tæknilegra álitaefna.
Telur ákærði að við rannsókn máls þessa hafi framangreindar reglur laga nr. 35/2004 og 18/2013 verið þverbrotnar. Engin sjálfstæð rannsókn hafi farið fram á meintri sök eða sakleysi ákærða af hálfu lögreglu. Vísar ákærði til tölvupósts frá lögreglu til rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem er meðal gagna málsins, en af honum megi ráða að lögregla hafi ekki leitað aðstoðar rannsóknarnefndarinnar um úrlausn tæknilegra atriða, eins og lög gera ráð fyrir, heldur krafið nefndina um rannsóknarskýrsluna og á henni sé saksókn í máli þessu byggð en ekki hlutlægri rannsókn lögreglu. Þá sé óljóst hvernig rannsóknarskýrslan, sem sé helsta sönnunargagn ákæruvaldsins í máli þessu, hafi borist lögreglu.
Máli sínu til stuðnings vísar ákærði til þess að ekki verði annað ráðið af efni ákæru en að hún sé að mestu leyti byggð á niðurstöðum rannsóknarskýrslunnar. Meint háttsemislýsing í ákæru sé tekin beint upp úr rannsóknarskýrslunni, þ.e. að ákærði hafi ekki haft neina reynslu af því að fljúga flugvél af umræddri gerð, hann hafi ekki framkvæmt massa- og jafnvægisútreikninga og flogið vélinni yfirhlaðinni í lítilli hæð yfir sumarhúsabyggð, á eða við ofrishraða í krappri beygju og sterkum hviðóttum vindi, með þeim afleiðingum að flugvélin hafi misst hraða og hæð og skollið í jörðina með tilgreindum afleiðingum. Við rannsókn lögreglu hafi ákærði ekki verið spurður um framangreinda þætti. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar, sem starfi sem stjórnvald, byggi á framburði ákærða fyrir nefndinni þar sem ekki hafi verið gætt þeirra reglna sem grunaðir menn skuli njóta við skýrslugjöf samkvæmt lögum nr. 88/2008, enda framburður gefinn við aðrar aðstæður. Þá hafi ákærði afhent nefndinni GPS-staðsetningartæki sitt en rannsókn á því hafi gefið nefndinni mikilvægar upplýsingar. Lögregla hafi hvorki leitað eftir því að fá áðurnefnt staðsetningartæki né óskað eftir tæknilegri aðstoð frá flugslysanefnd. Ákæran sé byggð á sérfræðilegri niðurstöðu stjórnvalds, m.a. framburði ákærða þar sem ekki hafi verið gætt að réttindum hans samkvæmt VIII. kafla laga nr. 88/2008, en umrætt stjórnvald hafi tiltekið lögbundið hlutverk á grundvelli sérlaga og vísaði ákærði í því sambandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 92/2007. Því beri að vísa máli þessu frá dómi.
III.
Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að frávísunarkröfu ákærða verði hrundið og málið tekið til efnismeðferðar. Í munnlegum málflutningi vísaði ákæruvaldið til meginreglna um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi og þess að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Sönnunarbyrði hvíli á ákæruvaldinu sem beri hallann af því ef sönnun takist ekki fyrir dómi. Vísaði ákæruvaldið til dómafordæma Hæstaréttar sem hafi undanfarin ár hafnað því að annmarkar á rannsókn máls leiði til frávísunar, sbr. dóm réttarins nr. 583/2010.
Hvað rannsókn máls þessa varði sé það rétt hjá ákærða að lög nr. 35/2004 banni að skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa sé beitt sem sönnunargögnum í sakamálum, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Þrátt fyrir það sé skýrsla rannsóknarnefndar samgöngumála lögð fram í máli þessu, enda verði ekki ráðið af lögum nr. 35/2004 og lögum nr. 18/2013, sem tóku við af fyrrnefndu lögunum, að útilokunarreglan gildi að þessu leyti og vísar ákæruvaldið í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 619/2013. Þá geri lögin ráð fyrir aðkomu lögreglu að málinu og skyldu rannsóknarnefndar flugslysa til að veita lögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefna, sbr. 2. mgr. 2. gr., 12. gr., 13. gr. og 20. gr. laga nr. 35/2004.
Ákæruvaldið hafnaði því að ákæran sé alfarið byggð á niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa. Rétt sé hjá ákærða að lýsing í ákæru á skorti á massa- og jafnvægisútreikningum, að vélinni hafi verið flogið yfirhlaðinni og í krappri beygju sé byggð á niðurstöðu skýrslunnar, en þar sé um að ræða tæknileg atriði. Sú fullyrðing að vélinni hafi verið flogið í lítilli hæð, á eða við ofrishraða, í sterkum hviðóttum vindi og vélin hafi misst hraða sé byggt á því sem fram hafi komið í lögreglurannsókninni, m.a. í framburði sjónarvotta og þeirra vitna sem í vélinni voru. Þá kom fram hjá ákæruvaldinu að hafni ákærði niðurstöðum hinnar sérfræðilegu rannsóknar rannsóknarnefndar samgönguslysa um tæknileg atriði verði óskað eftir dómkvaðningu matsmanna. Þá hafnaði ákæruvaldið fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í málinu nr. 92/2007.
IV.
Ákærði byggir frávísunarkröfuna á því að rannsókn lögreglu á flugslysi því sem hér um ræðir hafi verið andstæð lögum. Ákæra ríkissaksóknara sé að meginhluta byggð á skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa þrátt fyrir fyrirmæli laga nr. 35/2004, sem í gildi voru þegar slysið átti sér stað, og laga nr. 18/2013, sem tóku gildi 1. júní 2013, sem kveði í fyrsta lagi á um að lögreglurannsókn eigi að vera óháð rannsókn samkvæmt áðurgreindum lögum og í öðru lagi að skýrslum rannsóknarnefnda samkvæmt áðurgreindum lögum skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í sakamálum.
Þessu hafnar ákæruvaldið og vísar til þess annars vegar að annmarkar á rannsókn máls leiði ekki til frávísunar og hins vegar að ekki verði ráðið af lögunum nr. 35/2004 og 18/2013 að útilokunarreglan gildi um skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa enda geri lögin ráð fyrir að nefndin veiti lögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefni.
Með lögum nr. 59/1996, sem leystu af hólmi ákvæði 141.-145. gr. laga nr. 34/1964 um loftferðir og starfsreglur nr. 324/1983, var komið á fót sjálfstæðri og óháðri rannsóknarnefnd flugslysa sem falið var að rannsaka flugslys og flugatvik með það að markmiði að koma í veg fyrir að flugslys endurtaki sig og til að auka öryggi í flugi. Þá var kveðið á um það í lögunum að sönnun í opinberum málum verði ekki byggð á skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 59/1966, enda sé tilgangur rannsóknar samkvæmt lögunum að greina orsakaþætti flugslysa í því skyni að koma í veg fyrir frekari slys. Segir í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 59/1996, að ástæða ákvæðisins sé ekki síst sú að trúnaður megi haldast milli rannsakanda og þeirra sem rannsókn beinist að. Önnur ástæða sé tillit til réttaröryggis þeirra sem skýrslur gefa. Í 3. mgr. 14. gr. laganna er kveðið á um að ef flugslys verði tilefni sakamálarannsóknar skuli rannsóknarnefndin veita lögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefna.
Framangreind lög voru felld úr gildi með lögum nr. 35/2004 um rannsókn flugslysa. Lögin tóku gildi 1. september 2004 og giltu allt til 1. júní 2013 er lög nr. 18/2013 um rannsókn samgönguslysa leystu þau af hólmi. Um rannsókn flugslysa fór því samkvæmt lögunum nr. 35/2004 þegar slys það sem mál þetta fjallar um átti sér stað. Eins og í lögum nr. 59/1996 kveða lögin nr. 35/2004 á um sjálfstæða og óháða rannsóknasóknarnefnd flugslysa á stjórnsýslustigi með skýrt afmarkað hlutverk, þ.e. að auka öryggi í flugi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga 35/2004. Tekið er fram í 2. mgr. 2. gr. að um rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi fari fram samkvæmt lögum um meðferð sakamála, áður lögum nr. 19/1991, og sé slík rannsókn óháð rannsókn flugslysa samkvæmt lögunum nr. 35/2004. Í lögunum eru ítarleg ákvæði um framkvæmd rannsóknar og skýrslugerð, sbr. III. og IV. kafla laganna. Eins og í lögum nr. 59/1996 er kveðið á um að skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í sakamálum, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Verði flugslys tilefni sakamálarannsóknar segir í 2. mgr. 20. gr. laganna að rannsóknarnefnd flugslysa skuli veita lögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefna með þeim undantekningum að gögn sem tilgreind eru í 1. mgr. 19. gr. laganna, sbr. þó fyrirmæli 21. gr. Í niðurlagi greinarinnar er lagt bann við því að afhenda gögn sem geyma framburð aðila og vitna fyrir nefndinni.
Lögin nr. 35/2004 voru felld úr gildi með lögum nr. 18/2013 um rannsókn samgönguslysa, sem tóku gildi þann 1. júní 2013, en þá var mál þetta enn til meðferðar hjá lögreglu. Markmið laganna er óbreytt frá fyrri lögum. Kveðið er á um að lögreglurannsókn í tengslum við flugslys skuli vera óháð rannsókn samkvæmt lögunum nr. 18/2013 og að skýrslum nefndarinnar skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum, þ.e. bæði saka- og einkamálum. Í 6. mgr. 4. gr. laganna þar sem fjallað er um þá stöðu þegar jafnhliða rannsókn samkvæmt lögunum fer fram lögreglurannsókn er hins vegar gerð sú breyting að rannsóknarnefnd er heimilt en ekki skylt að veita lögreglu almennar upplýsingar um rannsókn vettvangs ef við á, að undanskildum þeim sem kveðið er á um í 27. gr. Þá er rannsóknarnefnd einnig heimilt að veita lögreglu aðstoð við úrlausn tæknilegra álitaefna.
Samkvæmt framangreindu er rannsókn sérstakrar rannsóknarnefndar samkvæmt lögum nr. 35/2004 og 18/2013 á flugslysum eða flugatvikum ekki ætlað að ganga úr skugga um hvort refsiverð háttsemi hafi á sér stað í tengslum slys eða flugatvik. Í lögunum er einnig skýrt kveðið á um að rannsókn nefndarinnar skuli vera aðgreind frá rannsókn lögreglu, m. a. í þeim tilgangi að tryggja að þeir sem tengjast slíkum atvikum felli ekki á sig sök við skýrslugjöf fyrir nefndinni. Sama gildir um gögn eða önnur rannsóknargögn sem þeir sem tengjast flugslysum afhenda rannsóknarnefnd. Má í því sambandi vísa til athugasemda við 6. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 18/2013, en þar kemur fram að ef rannsóknarnefnd og lögregla deili tilteknum rannsóknargögnum, svo sem vettvangi, flaki, flugrita, siglingarita og ökurita og veiti tiltekna aðstoð eftir því sem við á vegna úrlausnar tæknilegra álitaefna eigi úrvinnsla rannsóknargagna hins vegar að vera aðgreind. Þá er í lögum nr. 18/2013, eins og lögum nr. 35/2004, gert ráð fyrir að ekki sé öllum rannsóknargögnum deilt, sbr. 27. gr. laganna.
Ákæruvaldið heldur því fram að rannsóknarnefnd flugslysa og síðar rannsóknarnefnd samgönguslysa hafi í máli þessu veitt lögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefna samkvæmt því sem framangreind lög mæli fyrir um. Meðal rannsóknargagna er hvorki að finna almennar upplýsingar frá rannsóknarnefnd til lögreglu um rannsókn vettvangs né gögn er varða aðstoð við úrlausn tæknilegra álitaefna. Verður málflutningur ákæruvaldsins ekki skilinn á annan hátt en þann að ákæruvaldið sé í málflutningi sínum að vísa til lokaskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa frá 31. október 2013 sem liggur frammi í málinu. Í skýrslunni er gerð grein fyrir upplýsingum sem fengust úr GPS-staðsetningartæki, sem ákærði hafði meðferðis í umræddu flugi, m.a. um feril flugvélarinnar yfir sumarhúsahverfinu, þ.m.t. beygjuradíus og hraða flugvélarinnar. Þar er að finna upplýsingar, útreikninga og niðurstöður um þyngd flugvélarinnar, ofrishraða, flughæð, vindhraða á vettvangi rúmum tveimur tímum eftir slysið og prófanir og rannsóknir á vélabúnaði flugvélarinnar, s.s. stýris- og stjórnbúnaði og hreyfli. Lokaskýrslunni fylgdu eins og áður segir fjórir viðaukar þar sem gerð er grein fyrir tæknilegum atriðum varðandi vélina og umrætt flug, s.s. þyngdar- og hraðaútreikningum, álagsstuðli og beygjuhalla og ofrishraða. Einu framlögðu gögnin um samskipti lögreglu og rannsóknarnefndar er tölvupóstur lögreglu til rannsóknarnefndarinnar frá 9. október 2013 þar sem lögregla vísar til þess að nauðsynlegt sé að afla upplýsinga um afstöðu nefndarinnar um flugslysið og þess farið á leit við nefndina að niðurstaða hennar verði kunngerð lögreglu bréflega, eins og segir í framangreindum tölvupósti. Þá liggur ekki fyrir með hvaða hætti lögregla aflaði umræddrar lokaskýrslu en skýrslan er aðgengileg á heimasíðu rannsóknarnefndar samgönguslysa í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 32. gr. laga nr. 18/2013.
Ákærði vísar til þess eins og áður segir að háttsemislýsing í ákæru sé að mestu leyti byggð á niðurstöðu lokaskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa og tekur ákæruvaldið undir það að hluta. Þá er til þess að líta að ekki verður ráðið af gögnum málsins að lögregla hafi leitað eftir tæknilegri aðstoð rannsóknarnefndarinnar eins og lög nr. 35/2004 og lög nr. 18/2013 kveða á um. Þá bera gögn málsins ekki með sér að lögregla hafi leitað aðstoðar kunnáttumanna eða unnið sjálfstætt úr tæknilegum álitaefnum í tengslum við rannsóknina að því undanskildu að Verkfræðistofu Suðurlands var falið að áætla flughæð vélarinnar út frá myndum sem vitni, að sögn lögreglu, tók af flugi vélarinnar skömmu fyrir slysið. Umrædd skýrsla eða álitsgerð beindist hins vegar aðeins að litlu leyti að ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða eins og henni er lýst í ákæru. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að lögregla hafi gert reka að því að fá til rannsóknar GPS-staðsetningartæki ákærða. Eins og rannsókn lögreglu var hagað í máli þessu skorti verulega á að um hafi verið að ræða óháða rannsókn lögreglu á umræddu flugslysi og að rannsóknin hafi náð því markmiði sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Fallist er á það með ákærða að lýsing í ákæru á hinni ætluðu refsiverðu háttsemi ákærða við undirbúning og flugstjórn flugvélarinnar umræddan dag byggi í öllum meginatriðum á rannsókn sjálfstæðs og óháðs stjórnvalds sem samkvæmt lögum nr. 35/2004 og lögum nr. 18/2013, skal rannsaka flugslys sem þetta í þeim tilgangi að leiða í ljós orsakir þess með það að markmiði að draga úr hættu á samskonar slysum, auk þess sem skýrt er mælt fyrir um það í framangreindum lögum að skýrslum rannsóknarnefnda skuli ekki beitt sem sönnunargögnum í sakamálum.
Eins og áður er rakið hófst rannsókn lögreglu þann 1. apríl 2010, en rannsóknin virðist hafa legið niðri frá því lögreglu bárust gögn frá flugmálastjórn um miðjan júlí 2010 allt þar til málið var sent ríkissaksóknara þann 12. ágúst 2013, eða í rúm þrjú ár. Þá leið ár frá dagsetningu síðasta framlagða rannsóknargagns málsins þar til ríkissaksóknari, rúmum fjórum og hálfu ári eftir umrætt flugslys, gaf út ákæru í máli þessu. Ekkert bendir til að þessi dráttur hafi ákærða um að kenna, en ætla má af gögnum málsins að skýringa megi að hluta til rekja til þess að beðið hafi verið eftir niðurstöðu rannsóknar hins sjálfstæða stjórnvalds.
Í 70. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að öllum beri réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma og á ákvæðið sér hliðstæðu í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Framangreind ákvæði hafa verið túlkuð þannig að það sé þáttur í réttlátri málsmeðferð að þeim sem sakaður er um refsiverða háttsemi í skilningi þess ákvæðis sé óskylt að tjá sig eða láta í té upplýsingar sem leitt geti til sakfellingar hans.
Að öllu framansögðu virtu og með vísan til meginreglu íslenskt réttarfars um milliliðalausa málsmeðferð fyrir dómi, er að mati dómsins svo bersýnilegir annmarkar á lögreglurannsókn máls þessa sem ekki verði bætt úr undir rekstri þess. Með vísan til 2. mgr. 159. gr. áðurnefndra laga er fallist á frávísunarkröfu ákærða og er máli þessu, að meðtöldum einkaréttarkröfur, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, vísað frá dómi.
Samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að ákveða að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn sakarkostnaður að fjárhæð 462.966 krónur samkvæmt framlögðu sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðinn 327.360 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., 327.360 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.