Hæstiréttur íslands

Mál nr. 174/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 8

 

Mánudaginn 8. maí 2000.

Nr. 174/2000.

Þorkell Pétursson

(Jónas Haraldsson hdl.)

gegn

Guðmundi Haraldssyni

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Þ höfðaði mál til heimtu launa í uppsagnarfresti, þar sem G hefði vikið honum fyrirvaralaust úr starfi. Í héraði lagði G fram samning, sem hann kvað hafa komið í stað þess samnings, sem Þ vísaði til í málatilbúnaði sínum, en í áðurgreindum samningi var kveðið á um sjö daga gagnkvæman uppsagnarfrest. Talið var, að þótt fallist yrði á með Þ, að síðargreindi samningurinn ætti að ráða lögskiptum aðilanna, væru engin efni til að líta svo á, að krafa Þ væri af þeim sökum vanreifuð eða krafa Þ yrði af öðrum ástæðum háð annmarka, sem leitt gæti til frávísunar málsins. Var úrskurður héraðsdóms, þar sem málinu var vísað frá dómi, felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka það til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2000, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

Samkvæmt héraðsdómsstefnu höfðaði sóknaraðili málið til heimtu launa í uppsagnarfresti. Kvað hann atvik vera þau að varnaraðili hafi 12. september 1997 ráðið hann sem verktaka til starfa sem skipstjóri og vélgæslumaður á fiskiskipinu Sædísi RE 7. Gerður hafi verið skriflegur samningur, en einskis getið þar um uppsagnarfrest. Varnaraðili hafi vikið sér fyrirvaralaust úr starfi 1. júní 1999 og neitað að greiða laun í uppsagnarfresti. Sóknaraðili telur þau laun eiga að nema dómkröfu sinni, 1.437.599 krónum, sem séu þrefaldar meðaltekjur hans á mánuði í störfum fyrir varnaraðila á tímabilinu frá ársbyrjun til loka maí 1999 ásamt orlofsfé.

Varnaraðili lagði fram í héraði samning aðilanna, sem dagsettur var 20. september 1998 og hann kveður hafa komið í stað áðurnefnds samnings frá 12. september 1997. Í yngri samningnum, sem í flestum atriðum var samhljóða þeim eldri, var þó kveðið á um sjö daga gagnkvæman uppsagnarfrest. Telur varnaraðili að leggja eigi yngri samninginn til grundvallar um kröfu sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti ef varnaraðili verður ekki með öllu sýknaður af henni vegna ástæðna, sem hann hefur nánar fært fram í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi.

Þótt fallist yrði á með varnaraðila að ákvæði samnings aðilanna frá 20. september 1998 ætti að ráða lengd uppsagnarfrests í lögskiptum þeirra, eru engin efni til að líta svo á að krafa sóknaraðila sé af þeim sökum vanreifuð, enda liggja nægilega fyrir í gögnum málsins upplýsingar til að komast að niðurstöðu um fjárhæð hennar á þeim grundvelli. Geta þessi atvik heldur ekki valdið því að krafa sóknaraðila verði af öðrum ástæðum háð annmarka, sem leitt gæti til frávísunar málsins. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2000.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 4. þ.m., er höfðað með stefnu birtri 3. febrúar 2000.

                Stefnandi er Þorkell Pétursson, kt. 200853-3779, Samtúni 36, Reykjavík.

                Stefndi er Guðmundur Haraldsson, kt. 301145-2929, Hlíðarbyggð 53, Garðabæ.

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.437.599 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. febrúar 2000 til greiðsludags.  Til vara er krafa um lægri fjárhæð að mati dómsins. Í aðalkröfu er að auki krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi hefur aðallega krafist þess að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnanda, en til þrautavara að krafa stefnanda sæti verulegri lækkun. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Styðst málkskostnaðarkrafa stefnda í aðalkröfu við málskostnaðarreikning, sem lagður hefur verið fram í málinu.

                Stefnandi gerir þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda vegna þessa þáttar málsins.

I.

                Samkvæmt stefnu hefur stefnandi höfðað mál þetta til heimtu launa í uppsagnarfresti. Er á því byggt að hann hafi verið ráðinn í starf skipstjóra og vélgæslumanns á bát í eigu stefnda. Honum hafi fyrirvaralaust verið sagt upp störfum 1. júní 1999. Krefur hann stefnda um laun í þrjá mánuði þaðan í frá, en samkvæmt sjómannalögum nr. 35/1985 hafi honum borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Er launakrafa stefnanda byggð á meðaltekjum hans í starfi hjá stefnda mánuðina janúar til og með maí 1999, en þær námu að sögn stefnanda 434.964 krónum. Að auki nær krafa stefnanda til orlofs að fjárhæð 132.707 krónur.

                Kröfur sínar í málinu byggir stefnandi á ráðningarsamningi, sem aðilar gerðu sín á milli 12. september 1997. Ber hann yfirskriftina „ráðningarsamningur um ráðningu skipverja á bátum undir 10 brl.”. Í honum kemur fram að stefnandi sé ráðinn á bát stefnda, Sædísi RE 7, sem verktaki. Hvað sem því samningsákvæði líður lítur stefnandi svo á að vinnuréttarsamningur hafi stofnast á milli aðila. Þar af leiðandi fari um uppsagnarfrest stefnanda og rétt hans til launa í uppsagnarfresti eftir sjómannalögum. Í 1. gr. þeirra laga komi skýrt fram að ákvæði þeirri gildi um alla sjómenn á íslenskum skipum. Þá hafi undanþáguheimild 2. málsliðar sömu greinar ekki verið nýtt. Stefnandi hafi verið ráðinn sem skipstjóri og vélgæslumaður á bát stefnda og sinnt því starfi sínu þar til honum hafi fyrirvaralaust verið vikið úr því. Uppsagnarfrestur skipstjóra og vélgæslumanna samkvæmt 44. gr. sjómannalaga er 3 mánuðir. Við ákvörðun launa í uppsagnarfresti standi venja til að finna út meðallaunamánuð með því að leggja saman tekjur síðustu 6 mánaða eða frá áramótum, ef svo ber undir. Í tilviki stefnanda séu meðaltalslaun, sem þannig eru fundin, síðan margfölduð með þremur. Frá þeim tekjum beri síðan að draga tekjur skipstjóra, sem hann hefur aflað sér annars staðar á uppsagnartíma. Þessi frádráttarregla taki hins vegar ekki til vélstjórnarmanna. Stefnandi hafi samhliða skipstjórastarfi sínu hjá stefnda gegnt starfi vélgæslumanns. Þar með þurfi hann ekki að sæta því að laun til hans frá þriðja aðila í uppsagnarfresti gangi til lækkunar að launakröfu hans á hendur stefnda.  

II.

                Greinargerð stefnda fylgdi samningur, sem á að hafa verið undirritaður af aðilum málsins 20. september 1998. Ber hann sömu yfirskrift og samningur aðila frá 12. september 1997. Þar er jafnframt tiltekið að stefnandi sé ráðinn á Sædísi RE 7 sem verktaki frá 20. september 1998 um ótiltekinn tíma. Í niðurlagi samningsins er svohljóðandi ákvæði: „Sé ráðningartíminn ekki tilgreindur sérstaklega, gildir gagnkvæmur 7 (sjö) daga uppsagnarfrestur”.

                Í greinargerð stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi upphaflega hafið störf við sjómennsku hjá stefnda 9. febrúar 1996. Hann hafi hætt störfum í byrjun desember það ár og hafið eigin útgerð. Hún hafi gengið illa og hafi stefnandi því að nýju leitað eftir starfi hjá stefnda í febrúar 1997. Hafi stefnandi síðan unnið hjá stefnda með hléum til 1. júní 1999, en þá hafi hann í fússi og eftir orðaskipti við stefnda sagt það berum orðum að hann væri hættur og myndi ekki mæta að nýju til vinnu sinnar hjá stefnda. Stefndi hafi þannig aldrei sagt stefnanda upp störfum, heldur hafi hann sjálfur kosið að hætta fyrirvaralaust. Hið sama hafi verið uppi á teningnum við fyrri starfslok stefnanda hjá stefnda. Þannig hafi stefnandi fyrirvaralaust horfið úr skiprúmi hinn 12. júní 1998, en samningur aðila frá 12. september 1997, sem stefnandi byggir dómkröfu sína á, hafi þá gilt um lögskipti þeirra. Stefnandi hafi að nýju falast eftir starfi hjá stefnda haustið 1998. Hafi þá verið gerður nýr samningur á milli aðila og hann undirritaður 20. september það ár. Í ljósi fyrri reynslu stefnda af stefnanda hafi ákvæði um 7 daga uppsagnarfrest verið sett inn í þann samning.   

                Stefndi byggir kröfu sína um frávísun málsins á vanreifun á stefnukröfum og óskýrum málatilbúnaði stefnanda. Þannig sé af hálfu stefnanda byggt á samningi sem fallinn hafi verið úr gildi þá er stefnandi hætti störfum hjá stefnda 1. júní 1999. Um lögskipti aðila á þeim tíma hafi farið eftir samningnum frá 20. september 1998. Allt málið sé þannig byggt á röngum forsendum. Þetta leiði til þess að margt í málatilbúnaði stefnanda sé beinlínis rangt. Skipti þar mestu sú staðhæfing stefnanda að aðilar hafi ekki samið um gagnkvæman uppsagnarfrest. Þá sé kröfugerð stefnanda tölulega röng. Byrjað sé á því að reikna meðalþóknun stefnanda sem verktaka á árinu 1999 án virðisaukaskatts. Síðan sé fundin þóknun í meintum uppsagnarfresti með virðisaukaskatti og orlofi bætt ofan á mismuninn. Þá sé látið hjá líða að lækka kröfu stefnanda vegna launagreiðslna til hans frá þriðja aðila á tímabilinu 1. júní til 1. september 1999. 

III.

                Svo sem að framan er rakið reisir stefnandi kröfur sínar í málinu á samningi aðila frá 12. september 1997. Heldur hann því fram að samkvæmt þeim samningi og tilgreindum ákvæðum sjómannalaga nr. 35/1985 hafi honum borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Er kröfugerð stefnanda við þetta miðuð, svo og allur málatilbúnaður hans. Af hálfu stefnda er hins vegar á því byggt, að þá er stefnandi hætti störfum hjá honum hinn 1. júní 1999 hafi verið í gildi á milli þeirra samningur frá 20. september 1998. Stefnandi hefur ekki borið því við undir rekstri málsins að samningur þessi hafi ekki gildi gagnvart honum. Í ljósi þessa verður við það að miða að um lögskipti aðila við starfslok stefnanda hjá stefnda hinn tilgreinda dag fari eftir þessum samningi þeirra. Í því felst meðal annars að stefnanda bar einungis 7 daga uppsagnarfrestur, enda var ráðningartími hans samkvæmt samningnum ótímabundinn. Með þessu hefur grundvelli málsins samkvæmt stefnu og málatilbúnaði stefnanda að öðru leyti verið raskað verulega og svo mjög að ekki verður úr bætt undir rekstri þess, en engar tilraunir í þá átt hafa verið gerðar af hálfu stefnanda. Er óhjákvæmilegt þegar af þessari ástæðu að fallast á kröfu stefnda um frávísun málsins.

                Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

                Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Þorkell Pétursson, greiði stefnda, Guðmundi Haraldssyni, 150.000 krónur í málskostnað.