Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2016

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)
gegn
X (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson  og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. mars 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að öðru leyti en því að rétt þykir að nálgunarbannið standi í fimm mánuði svo sem nánar greinir í dómsorði.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að varnaraðili, X sæti nálgunarbanni í fimm mánuði frá 9. mars 2016.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Torfa Ragnars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. mars 2016.

                Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur, með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, farið fram á að héraðsdómur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi, sem tekin var þann 9. mars 2016, með vísan til 4. og 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.

                Samkvæmt framangreindri ákvörðun lögreglustjóra var X, kt. [...], gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 frá og með birtingu ákvörðunar í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...] í [...]og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

                Krafan barst dóminum 11. mars 2016 og var hún tekin fyrir á dómþingi 14. mars 2016. Kom þá kærði fyrir dóminn ásamt skipuðum verjanda sínum, Torfa R. Sigurðssyni hrl. Kærði hafnar kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá er krafist þóknunar skipaðs verjanda.

                Þá sótti þing Jónína Guðmundsdóttir hdl., skipaður réttargæslumaður brotaþola og gerði þá kröfu að fallist verði á kröfu lögreglustjóra. Þá er krafist þóknunar til handa skipuðum réttargæslumanni.

Málavextir

Í hinni umræddu ákvörðun lögreglustjóra segir að forsaga þessa máls sé sú að þann 31. október 2015 hafi verið óskað aðstoðar lögreglu fyrir brotaþola, vegna ofbeldis sem hún þá kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu kærða (mál [...]). Kærði hafi neitað alfarið sök. Í kjölfarið hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun um að kærða skyldi brottvísað af heimili hans og brotaþola og jafnframt sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola, hvort tveggja í þrjár vikur frá birtingu ákvörðunarinnar. Framangreind ákvörðun lögreglustjóra hafi verið staðfest af Héraðsdómi Suðurlands þann 5. nóvember 2015, sbr. mál nr. R-[...]/2015. Fáum dögum síðar hafi brotaþoli óskað eftir niðurfellingu á framangreindri ákvörðun lögreglustjóra. Hafi brotaþoli sagst vilja láta reyna á það á ný að láta hjónaband hennar og kærða ganga. Framangreind staðfest ákvörðun lögreglustjóra hafi verið felld úr gildi með vísan til beiðnar brotaþola, með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 10. nóvember 2015. Þann 30. nóvember sl. hafi ákæra verið gefin út í málinu á hendur kærða, þar sem honum sé gefin að sök líkamsárás gagnvart brotaþola. Málið sé nú rekið fyrir Héraðsdómi Suðurlands undir málsnúmerinu S-[...]/2015. Kærði hafi neitað sök fyrir dómi og hafi aðalmeðferð málsins hafist 8. febrúar 2016. Brotaþoli hafi komið fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins þann dag og upplýst að hún nýtti heimild sína til þess að gefa ekki skýrslu, og hafi því ekki verið tekin af henni skýrsla. Tekin hafi verið skýrsla af kærða og nokkrum vitnum en fresta hafi þurft framhaldi aðalmeðferðar, þar sem ekki hafi tekist að boða öll vitni fyrir dóminn til skýrslugjafar. Síðar þann sama dag og aðalmeðferðin fór fram, sbr. framangreint, hafi brotaþoli haft samband við síðar tilnefndan réttargæslumann sinn, sem jafnframt hafi sinnt réttargæslu fyrir hana í upphafi þess máls sem komið hafi upp í október sl. (mál nr. [...]), og óskað eftir aðstoð hennar og lögreglu vegna ótta við kærða, sem hafi brugðist reiður við eftir aðalmeðferðina. Í kjölfarið hafi farið fram skýrslutökur af brotaþola og kærða.

Í kjölfar framangreinds hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun dags. 10. febrúar sl. um að kærða yrði brottvísað af sameiginlegu heimili hans og brotaþola og jafnframt látinn sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. [...]/2016 hafi ákvörðun lögreglustjóra verið staðfest. Af hálfu kærða hafi úrskurður héraðsdóms verið kærður til Hæstaréttar, sem með dómi í máli nr. [...]/2016, hafi staðfest framangreindan úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna.

Í þessu máli liggi fyrir að brotaþoli hafi ásakað kærða um ítrekað ofbeldi, hótanir og ólögmæta nauðung vegna skýrslugjafar hennar hjá lögreglu og til þess að hafa áhrif á framburð hennar við skýrslugjöf fyrir dómi við aðalmeðferð í máli S-[...]/2015. Í framangreindu máli sé til meðferðar ákæra á hendur kærða fyrir að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi í október 2015 (mál lögreglu nr. [...]). Kærði hafi frá upphafi neitað sök í málinu. Aðalmeðferð í málinu sé ólokið og brotaþoli og vitni eigi ennþá eftir að gefa skýrslu fyrir dómi. Brotaþoli hafi komið fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins þann 8. febrúar sl. og upplýst að hún nýtti heimild sína til þess að gefa ekki skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferðina. Réttargæslumaður brotaþola hafi upplýst lögreglustjóra og dómara um að brotaþoli hafi breytt afstöðu sinni og vilji gefa vitnaskýrslu í málinu.

Eins og fram komi í ákvörðun lögreglustjóra dags. 10. febrúar sl., sé að hans mati fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi ítrekað beitt brotaþola ofbeldi, þannig að varði við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og ólögmætri nauðung/hótun, þannig að varðað geti við 108. gr. sömu laga. Þá sé í ljósi atvika málsins, þ.e. að brotaþoli hafi nú loks öðlast kjark til þess að gefa skýrslu við aðalmeðferð í máli sem nú sé til meðferðar fyrir Héraðsdómi Suðurlands (mál nr. S-[...]/2015) og því verið lýst yfir við dómara og sækjanda málsins, sérstök ástæða nú og rökstuddur grunur til þess að ætla að kærði muni beita brotaþola áfram og enn frekar ólögmætri nauðung/hótunum vegna fyrirhugaðrar skýrslugjafar hennar fyrir dómi, enda hafi kærði verulega og augljósa hagsmuni af því að brotaþoli gefi ekki skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferðina, sem leitt geti til sakfellingar hans í málinu.

Eftir að mál þetta ([...]) hafi komið upp og eftir að ákvörðun lögreglustjóra hafi verið staðfest í Héraðsdómi Suðurlands en áður en komið hafi til staðfestingar Hæstaréttar í málinu, hafi dregið til þónokkurra tíðinda í málefnum kærða í þessu máli. Umfangsmikil húsleit hafi farið fram á heimili kærða og brotaþola, á vinnustað og á dvalarstað kærða, þann 18. febrúar sl. vegna gruns um ólöglegt vinnuafl í þjónustu fyrirtækis í eigu og undir stjórn kærða, [...] ehf. kt. [...]. Umrætt mál nr. [...] sé í fullri rannsókn ennþá enda viðamikið og snúi að meintu mansali og broti á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Í kjölfar framangreindra húsleita og frumrannsóknar í málinu hafi lögregla farið fram á það við Héraðsdóm Suðurlands að kærði sætti gæsluvarðhaldi í fjórar vikur, allan tímann í einangrun, eða til föstudagsins 18. mars næstkomandi. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í máli R-[...]/2016, dags. 19. febrúar síðastliðinn, hafi verið fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún hafi verið sett fram. Framangreindur úrskurður héraðsdóms hafi af hálfu kærða verið kærður til Hæstaréttar, sem hafi með dómi nr. [...]/2016, staðfest úrskurð héraðsdóms en stytt tímalengd gæsluvarðhalds og sömuleiðis einangrunar til 4. mars sl. Þann 4. mars sl. hafi kærði verið úrskurðaður, skv. úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. R-[...]/2016, í áframhaldandi gæsluvarðhald, en þó ekki í einangrun, á grundvelli almannahagsmuna, til 1. apríl næstkomandi. Úrskurðurinn hafi verið kærður til Hæstaréttar af hálfu kærða, en niðurstaða Hæstaréttar liggi ekki fyrir þegar ákvörðun um nálgunarbann sé tekin.

Eins og er þá snúi rannsókn málsins ([...]) að ætluðu mansali og brotum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, þar sem kærði geti átt yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsi, eins og greini í 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brotaþoli sé ein þeirra sem gefa í skýrslu í málinu, og því megi ætla að hagsmunir kærða af því að reyna að hafa áhrif á skýrslugjöf hennar hjá lögreglu og eftir atvikum dómstólum, séu nú orðnir enn ríkari en áður og þ.a.l. ennþá meiri hætta á því nú en áður að kærði reyni að hafa áhrif á framburð hennar, eins og rökstudd ástæða sé til þess að ætla að hann hafi reynt áður ([...] (S-[...]/2015)/[...]). Þar að leiðandi standi ennþá sterkari rök, nú en áður, til þess að kærða verði brottvísað af heimilinu og hann látinn sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola.

Réttargæslumaður brotaþola hafi f.h. brotaþola gert kröfu um nálgunarbann að kærði sæti áframhaldandi nálgunarbanni, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.

Samkvæmt 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 sé heimilt að beita nálgunarbanni ef:

a.            rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða

b.            hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið.

 

Að mati lögreglustjóra sé framburður brotaþola trúverðugur, þ. á m. með vísan til fyrirliggjandi læknisvottorða, sem staðfest geti framburð brotaþola um ætlað ofbeldi af hálfu kærða a.m.k. í tvígang nú nýverið (mál nr. [...]). Þá sé til þess að líta að læknir hafi nú þegar gefið skýrslu við aðalmeðferð í máli S-[...]/2015, þar sem hann hafi staðfest læknisvottorð þar sem frá honum stafi í máli lögreglu nr. [...] og lýst því að brotaþoli hafi verið einkar trúverðug er læknisskoðunin hafi farið fram, þ. á m. vegna þess gríðarlega uppnáms sem hún hafi þá verið í, strax í kjölfar þess meinta ofbeldis sem hún hafi þá orðið fyrir af hálfu kærða umrætt sinn, og hafi læknirinn jafnframt staðfest að áverkar samræmdust frásögn hennar af atburðum og ofbeldi. Þá sé rannsókn lögreglu í meintu mansalsmáli ([...]) nokkuð á veg komin og ljóst að sakir þær sem bornar séu á kærða séu alvarlegar.

Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi beitt brotaþola ítrekuðu ofbeldi, þannig að varði við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og ólögmætri nauðung/hótun, þannig að varðað geti við 108. gr. sömu laga. Þá sé í ljósi atvika málsins, þ.e. að brotaþoli hafi nú loks öðlast kjark til þess að gefa skýrslu við aðalmeðferð í framangreindu máli og því verið lýst yfir við dómara og sækjanda málsins auk þess sem til rannsóknar hjá lögreglu séu ennfremur meint brot kærða á 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi og rökstudd ástæða sé til þess að ætla að hún búi yfir veigamiklum upplýsingum um, sérstök ástæða og rökstuddur grunur til þess að ætla að kærði muni beita brotaþola ennþá frekar ólögmætri nauðung/hótunum vegna fyrirhugaðrar skýrslugjafar hennar fyrir dómi og hjá lögreglu, enda hafi kærði verulega og augljósa hagsmuni af því að brotaþoli gefi ekki skýrslu, þ. á m. vegna þeirra brota sem hann nú sitji í gæsluvarðhaldi vegna.

Það sé mat lögreglustjórans á Suðurlandi að honum verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola muni ekki [sic.] vernda friðhelgi og tryggja öryggi og hagsmuni brotaþola, sbr. 1. gr. 6. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Með vísan til alls þess sem að framan hefur verið rakið hafi lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 frá birtingu ákvörðunar þessarar í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...] í [...], og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

Var ofangreind ákvörðun birt kærða 9. mars 2015 kl. 19:34.

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna vegna þeirra atvika sem urðu tilefni þess að framangreint nálgunarbann var ákveðið af lögreglustjóra.

Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja háttsemi samkvæmt framanlýstum a-lið gagnvart brotaþola.

Fallist er á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur leiki á því að kærði hafi beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi og liggja fyrir í málinu gögn því til stuðnings. Þá leikur grunur á því að kærði hafi reynt að hafa áhrif á afstöðu brotaþola að því er varðar skýrslugjöf hennar fyrir dómi í  máli þar sem kærði er ákærður fyrir líkamsárás gagnvart henni.

Þá liggur fyrir að þann 26. febrúar sl. staðfesti Hæstiréttur Íslands nálgunarbann og brottvísun af heimili gagnvart kærða sem staðfest hafði verið með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 23. febrúar sl., vegna gruns um að kærði hafi beitt brotaþola ofbeldi og reynt að hafa áhrif á afstöðu hennar til skýrslugjafar í framangreindu máli sem nú er rekið gegn honum hér við dómstólinn.

Með vísan til framangreindra gagna og háttsemi kærða gagnvart brotaþola er fallist á að fram sé komin rökstudd ástæða til að ætla að kærði hafi framið refsivert brot gegn brotaþola sem varðað geti við 108. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður ekki séð að vægari úrræði dugi í þessum efnum. Brýna nauðsyn ber til að vernda brotaþola fyrir þeirri háttsemi sem kærði er grunaður um. Þá liggur fyrir að kærði hefur áður sætt nálgunarbanni og brottvísun af heimili.

 Tímalengd nálgunarbanns þykir ekki úr hófi og eru ekki efni til að taka varakröfu kærða til greina.

                Verður þannig fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Þóknun skipaðs verjanda kærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar hrl., ákveðst kr. 200.000 að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., ákveðst kr. 200.000 að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Báðar þóknanirnar greiðist úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008. 

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi um að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 frá birtingu ákvörðunar þessarar í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...] í [...], og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Torfa R. Sigurðssonar hrl., kr. 200.000, sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., kr. 200.000, en báðar þóknanir eru að meðtöldum virðisaukaskatti.