Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-125

Magnús Ingberg Jónsson (Sigurður Jónsson lögmaður)
gegn
Jórunni Erlu Sigurjónsdóttur (Óskar Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignakaup
  • Kauptilboð
  • Fyrirvari
  • Samningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 17. nóvember 2023 leitar Magnús Ingberg Jónsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. október sama ár í máli nr. 373/2022: Magnús Ingberg Jónsson gegn Jórunni Erlu Sigurjónsdóttur. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennd verði skylda gagnaðila til að selja og afhenda leyfisbeiðanda fasteignina Stóru Borg lóð 16 í hennar eigu í samræmi við samþykkt kauptilboð milli aðila.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að sýkna gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Kauptilboð leyfisbeiðanda í spildu gagnaðila var háð tvenns konar fyrirvörum, annars vegar um að aðkoma að spildunni væri tryggð og hins vegar um fjármögnun kaupanna og giltu þeir í 20 daga frá samþykki tilboðsins. Landsréttur lagði til grundvallar að vitneskja um aðkomu að fasteigninni, miðað við þær forsendur sem leyfisbeiðandi lagði í fyrirvara þar að lútandi, hefðu ekki legið fyrir fyrr en eftir að frestur samkvæmt honum var liðinn. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi yrði að bera hallann af óvissu um hvort hann hefði tilkynnt að fjármögnun væri tryggð fyrir lok frests samkvæmt fyrirvaranum, enda stæði það honum nær en gagnaðila að færa sönnur á það. Ekki hefði því þýðingu fyrir úrlausn málsins að taka afstöðu til þess hvort almennt sé nægjanlegt að kaupandi tilkynni fasteignasala að skilyrðum samkvæmt fyrirvara í kauptilboði hafi verið fullnægt.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar hafi verulegt almennt gildi og vísar hann einkum til þess að niðurstaða héraðsdóms, sem staðfest hafi verið af Landsrétti, virðist byggja á því að leyfisbeiðandi hafi þurft að tilkynna gagnaðila sjálfur að hann teldi fyrirvara tilboðs síns uppfyllta. Niðurstaða Landsréttar mæli því fyrir um að gengið sé framhjá fasteignasölum í samskiptum kaupanda og seljanda í fasteignakaupum. Þá varði niðurstaðan mikla hagsmuni leyfisbeiðanda. Loks byggir hann á því að hún sé bersýnilega röng að efni til enda horft fram hjá því að fasteignasali hafi boðað til kaupsamningsfundar um eignina sem sýni að hann hafi talið alla fyrirvara uppfyllta.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.