Hæstiréttur íslands
Mál nr. 714/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun barns
|
|
Föstudaginn 14. nóvember 2014. |
|
Nr. 714/2014. |
A og B (Helga Vala Helgadóttir hdl.) gegn Barnaverndarnefnd
C (Einar Hugi Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Vistun barns.
Staðfestur var
úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Barnaverndarnefndar C um að
dætur A og B skyldu vistaðar utan heimilis í sex mánuði.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar
með ódagsettri kæru sem móttekin var í héraðsdómi 3. nóvember 2014 og barst Hæstarétti
ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness
20. október 2014, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dætur
sóknaraðila skyldu vistaðar utan heimilis í sex mánuði frá 25. águst 2014. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðilar
krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til
vara að vistun stúlknanna utan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá
krefjast þau kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið
veitt hér fyrir dómi.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða
úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A og B, fyrir Hæstarétti greiðist úr
ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 250.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20.
október 2014.
Mál
þetta var þingfest 16. september síðastliðinn og tekið til úrskurðar að loknum
munnlegum málflutningi 13. október síðastliðinn. Sóknaraðili er
Barnaverndarnefnd C, [...], [...]. Varðaraðilar eru A og B, bæði til heimilis
að [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að D, kennitala [...], og E,
kennitala [...], sem lúta forsjá varnaraðila, verði vistaðar utan heimilis
varnaraðila í sex mánuði frá 25. ágúst 2014 að telja samkvæmt 28. gr.
barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Varnaraðilar krefjast
þess að kröfu
sóknaraðila verði hafnað. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar.
I
Samkvæmt málsgögnum hóf sóknaraðili í marsmánuði
2013 afskipti af málefnum dætra varnaraðila, tvíburanna E og D, þegar
tilkynning barst frá lögreglu um heimilisofbeldi varnaraðilans B gagnvart
varnaraðilanum A. Þann 23. mars 2013 lagði A fram beiðni um nálgunarbann og
brottvísun B af heimili þeirra. Var honum með ákvörðun lögreglustjórans á [...]
sama dag gert að sæta brottvísun af lögheimili sínu til 20. apríl 2013 og
nálgunarbanni gagnvart varnaraðilanum A til 23. september 2013.
Hinn 26. mars 2013 barst sóknaraðila nafnlaus
tilkynning þar sem fram kemur að tilkynnandi hefði miklar áhyggjur af dætrum
varnaraðila vegna mikillar drykkju móður þeirra og því að heimilið væri í
óreiðu. Einnig segir að dæturnar séu ekki hjá dagmóður og því alltaf hjá móður
sinni. Þær fari ekki út að leika eða fái eðlilegt atlæti. Þær séu látnar sofa
fyrir framan sjónvarpið á næturnar. Í samantekt starfsmanns sóknaraðila 19.
ágúst 2014 segir að tveimur dögum eftir ákvörðun um fyrrnefnt nálgunarbann hafi
lögregla haft samband við sóknaraðila um miðjan dag og sagt að A væri mjög
ölvuð og illa áttuð fyrir utan heimili sitt. Dætur hennar hafi þá verið komnar
í umsjá móðurömmu sinnar. Hún hafi greint frá því að B hefði beitt hana ofbeldi
í mörg ár. Á fundi hjá sóknaraðila 27. mars 2013 samþykkti A að fara í
áfengismeðferð á Vogi eftir páskana 2013 og í eftirmeðferð í framhaldi af því.
Þá samþykkti A að sóknaraðili vistaði dæturnar utan heimilis tímabundið. A mun
ekki hafa lokið meðferðinni á Vogi heldur farið þaðan eftir um viku dvöl.
Önnur nafnlaus tilkynning barst sóknaraðila 12.
ágúst 2013. Tilkynnandi lýsir áhyggjum af drykkju A þar sem hún hafi sofið
áfengisdauða og dætur hennar verið í reiðileysi og án eftirlits og umönnunar.
Tekið er fram að tilkynnandi hafi miklar áhyggjur af velferð barnanna þar sem
móðir sé í stjórnlausri drykkju. Þá barst sóknaraðila nafnlaus tilkynning 23.
september 2013 þar sem tilkynnandi lýsti yfir áhyggjum af dætrunum í umsjá A
sem sé enn að drekka og hafi verið drukkinn um miðjan dag um helgi. Þá kveðst
tilkynnandi hafa séð A um klukkan 14 á laugardegi fyrir um tveimur vikum og
hafi hún þá greinilega verið undir áhrifum áfengis. Gruni tilkynnanda að A
misnoti bæði áfengi og lyf.
Hinn 9. október 2013 undirrituðu starfsmaður
sóknaraðila og A áætlanir um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr.
80/2002, sem ætlað var að gilda frá þeim degi til 1. mars 2014. Tekið er fram
að markmiðið væri að styrkja A í uppeldishlutverkinu og aðstoða hana eins og
best verði á kosið við að vera edrú. Væri það gert með því að hún samþykki að
fara á svonefnt HAM námskeið 29. október 2013, samþykki óboðað eftirlit á
heimili næstu sex mánuði þannig að unnt væri að fylgjast með því hvernig henni
gengi, samþykki að fara í foreldrahæfnismat hjá sálfræðingi, samþykkti að
starfsmaður barnaverndar yrði í samskiptum við leikskóla til að fylgjast með
umhirðu og líðan dætra hennar, samþykkti að leita sér aðstoðar vegna
áfengisdrykkju eða stundi AA fundi og að dæturnar yrðu í leikskólanum til
klukkan 16 á daginn svo að móðir hafi tíma til að vinna í sínum málum.
Í málinu liggur fyrir sálfræðilegt foreldrahæfnismat
á varnaraðilanum A. Í niðurstöðu matsins, sem dagsett er 12. desember 2013,
kemur meðal annars fram að foreldrahæfni hennar teljist mjög góð. Hún mælist á
sálfræðilegum prófum heilbrigður einstaklingur sem tengist dætrum sínum á
eðlilegan máta. Hún búi yfir jafnaðargeði og góðri greind. Hún hafi gott innsæi
í þarfir ungra dætra sinna og mæti þeim vel. Þá segir að móðir hafi átt í
tímabundnum erfiðleikum sem leitt hafi til afskipta barnaverndarnefndar.
Gangist móðirin við því að hafa um tíma misnotað áfengi og sé það mat
sálfræðings að hún hafi unnið vel úr þeim erfiðleikum og að áfengisvandi sé
ekki lengur til staðar. Er í því sambandi vísað til orða A sjálfrar, sögu
hennar, móður hennar og hversu vel dætur hennar þrífast hjá henni. Einnig kemur
fram að varnaraðili A sýni staðfestu og ábyrgð í sínu daglega lífi og hafi
hagsmuni dætra sinna að leiðarljósi Á heimili hennar sé skipulag og umgjörð sem
tryggi öryggi dætranna. Líkamleg umönnun á dætrunum sé góð, heimilið sé
barnvænlegt og hún hafi hollustu að leiðarljósi í mataræði dætranna. Fram er
tekið að athugun vegna matsins hafi farið fram á tímabilinu frá 16. nóvember
2013 til 2. desember sama ár.
Frá því er greint í fyrrnefndri samantekt
sóknaraðila 19. ágúst 2014 að sóknaraðila hafi ekki borist tilkynningar vegna A
frá september mánuði 2013 fram til 5. maí 2014. Þann dag hafi sóknaraðila
borist nafnlaus tilkynning um miklar áhyggjur af dætrum varnaraðila og því að A
væri í mikilli drykkju og væri búin að sitja að drykkju í þrjá daga. Starfsmenn
barnaverndar hafi sama dag farið á heimili A en ekki hafi verið svarað. Hafi
lögregla verið kölluð til í því skyni að komast inn í íbúðina. Opnað hafi verið
þegar A hafi vitað hvað til stóð og hafi hún viðurkennt að hafa drukkið deginum áður en neitað því að
hafa drukkið þann daginn. Hún hafi samþykkt að stúlkurnar færu til móður hennar
og sagst vera reiðubúinn til að fara í meðferð og vera í samvinnu við
sóknaraðila. Svo hafi farið að móðir hennar hafi ekki treyst sér til að hafa
dæturnar og hafi A fengið samþykki fyrir því að fara með þær í Kvennaathvarfið
og að mæðgurnar yrðu þar þangað til hún kæmist í meðferð á Vog. Hafi A verið í
Kvennaathvarfinu í átta daga en þá horfið á braut án þess að láta neinn vita og
ekki svarað síma næstu daga.
Hinn 26. maí 2014 barst sóknaraðila tilkynning undir
nafnleynd sem dagsett er degi fyrr. Þar segir að tilkynnanda gruni að A væri
drukkin heima hjá föður dætranna sem hún væri búin að ásaka um ofbeldi gagnvart
sér. Vegna alvarleika málsins hafi starfsmaður sóknaraðila farið á heimilið
ásamt lögreglu. Þar hafi A verið hálf sofandi í sófa og önnur dóttirin sofandi
hjá henni. Hin hafi verið að horfa á sjónvarp. Fram kemur að varnaraðili B hafi
einnig verið undir áhrifum áfengis. Hann hafi greint frá því að A hefði verið
hjá honum í nokkra daga og verið drukkin allan tímann. Óreiða og óhreinindi
hafi verið í íbúðinni. Önnur dóttirin hafi einungis verið á bleyjunni en hin í
bol og bleyju sem hafi þurft að skipta um. Tekin hafi verið ákvörðun um að
neyðarvista stúlkurnar þá þegar og hafi verið farið með þær á heimili á vegum
sóknaraðila. Hinn 28. maí 2014 hafi A samþykkt að dætur hennar yrðu vistaðar
utan heimilis hennar til 1. september 2014.
Hinn 4. júní 2014 voru á ný undirritaðir áætlanir um
meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga sem ætlað var að gilda frá 28.
maí til 1. september 2014. Tekið er fram að markmiðið með áætlunum væri að
aðstoða móður við að fara í meðferð og vera edrú fram að þeim tíma sem
stúlkurnar kæmu aftur á heimilið. Skuli það gert með því að A samþykki að dætur
hennar fari í vistun utan heimilis í þrjá mánuði, að hún samþykki að fara í
meðferð á Vog eða meðferðardeild 33A á LSH, að hún samþykki óboðað eftirlit á
heimili næstu þrjá mánuði og að fara í viðtalstíma hjá sálfræðing, að móðir
leiti sér aðstoðar vegna áfengisdrykkju og að sóknaraðili fylgist með dætrunum
á meðan þær séu í vistun og veiti fósturforeldrum ráðgjöf ef þörf sé á. Sama
dag undirritaði A einnig samninga um umgengni samkvæmt 74. gr.
barnaverndarlaga.
Hinn 14. ágúst 2014 barst sóknaraðila tilkynning frá
elstu dóttur A, F. Í tilkynningunni segir að F hafi miklar áhyggjur af því að
systur hennar fari aftur á heimili varnaraðila sem hún segi vera algjöran
hrylling. Haft er eftir henni að eftir að foreldrar hennar hafi skilið árið
2006 hafi móðir hennar byrjað að drekka mikið og illa og að varnaraðili B hafi
drukkið mikið í mörg ár. Hann drekki á hverjum degi eftir vinnu og um helgar.
Þegar hann sé fullur sé auðvelt að æsa hann upp. Þá er fullyrt í tilkynningunni
að B sinni dætrum sínum lítið og að hann hafi mjög takmarkaðan áhuga á því. A
sé mjög veik andlega og líkamlega og það hafi komið tímar þar sem hún hafi
varla getað hugsað um sig. Í tilkynningunni segir einnig að F hafi búið við
algjöran hrylling þann tíma sem hún hafi búið hjá móður sinni síðan 2006 og
geti ekki hugsað sér að systur hennar þyrftu að horfa upp á það sem hún hafi
gert. Hún hafi búið við aðstæður sem ekkert barn eigi að þurfa að búa við og
hafi hún oft komið að móður sinni í hræðilegu ástandi, hún taki lyf og sofni
oft brennivínsdauða. Þá segir að varnaraðilar séu enn að drekka og hafi drukkið
mikið í sumar. F sé að vinna á skemmtistað í [...] um helgar og hún hafi oft
séð þau mjög drukkin í sumar og síðast helgina 8.-10. ágúst. Hefði ástandið
lagast aðeins síðasta vetur en í vor hefði það versnað mikið.
Varnaraðilar lýsa atvikum að nokkru leyti á annan
veg en að framan greinir. Þannig fullyrðir varnaraðili A að hún hafi verið edrú allt frá því hún fór á Vog eftir
páska 2013 og þar til hún féll í maí 2014. Segir hún tilkynningar um meinta
drykkju sína í ágúst og september 2013 ekki réttar og að sóknaraðili hafi engan
reka gert að því að mæla hvort áfengismagn væri í blóði hennar í umrædd skipti.
Sé sú meinta drykkja því ósönnuð með öllu og verði sóknaraðili að bera hallann
af því. Kveðst A hafa verið edrú þar til hún hafi fallið í maí 2014 en þá hafi
hún drukkið illa í tvo daga. Hafi það strax verið tilkynnt sóknaraðila sem hafi
komið á heimilið. Hafi A farið ásamt dætrunum í Kvennaathvarfið þar sem þær
hafi dvalið dagana 12. 21. maí. Hafi varnaraðili þurft að fara úr athvarfinu
vegna mikils ónæðis frá erlendum konum sem hafi verið þar. Kveðst A hafa þurft
að aðstoða þær vegna mikilla og víðtækra vandamála sem starfsfólk athvarfsins
hafi ekki náð að sinna svo vel væri. Því hafi konurnar, m.a. vegna
tungumálaörðugleika, leitað til sín. Kveðst A ekki hafa haft fulla orku til að
sinna málum sínum og dætranna auk þess að koma öðrum konum í athvarfinu til
aðstoðar. Hafi hún því farið úr athvarfinu og heim til B sem hafi boðið henni
og dætrunum húsaskjól. Hún hafi samþykkt vistun dætranna utan heimilis á meðan
hún tæki til í sínu lífi og kæmist í stöðugra ástand. Þegar því hafi verið náð
að hennar mati vilji hún vinna að því að stúlkurnar kæmu heim.
Með úrskurði sóknaraðila 25. ágúst 2014 var
ákveðið að vista E og D áfram utan heimilis varnaraðila í tvo mánuði samkvæmt
b. lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002. Í úrskurðarorði kemur fram að
sóknaraðili óski eftir framlengingu á vistun í sex mánuði samkvæmt 1. mgr. 28.
gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, á meðan frekari könnun verði gerð á högum
fjölskyldunnar.
II
Sóknaraðili kveður kröfu sína um að dætur
varnaraðila verði vistaðar utan heimilis varnaraðila í sex mánuði byggða á 1.
mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002, enda þyki sóknaraðila nauðsynlegt að vistun
telpnanna standi lengur en í tvo mánuði líkt og nánar sé rakið í úrskurði
sóknaraðila. Á því sé byggt af hálfu sóknaraðila að meðalhófsreglunnar hafi
verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki verið gripið til
viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist. Nú sé hins vegar þannig komið
að vægari úrræði en vistun utan heimilis dugi ekki til og því nauðsynlegt að
vistun standi lengur en þá tvo mánuði sem sóknaraðili hafi úrskurðað um. Því sé
krafist að dómurinn úrskurði að vistun utan heimilis standi í sex mánuði. Á
þeim tíma verði gerð frekari könnun á högum fjölskyldunnar og þess freistað að
aðstoða varnaraðila við að ná tökum á áfengisvanda sínum sé raunverulegur vilji
til staðar hjá varnaraðilum til að ná bata.
Krafa sóknaraðila sé byggð á því að varnaraðilar
eigi við fjölþættan vanda að stríða sem þau hafi ekki náð tökum á með
viðeigandi hætti. Líkt og rakið hafi verið að framan hafi B lagt hendur á A í
mars 2013 sem hafi í kjölfarið lagt fram fram beiðni um nálgunarbann og
brottvísun af heimili. Þá liggi fyrir að A hafi ekki viljað nýta sér þá
fjölbreyttu aðstoð sem henni hafi staðið til boða.
Að beiðni sóknaraðila hafi G, sálfræðingur, unnið
foreldrahæfnismat á varnaraðilanum A. Niðurstaða matsins, sem sé dagsett 12.
desember 2013, sé að foreldrahæfni varnaraðila A teljist mjög góð. Þá komi
meðal annars fram að A hafi gengist við því að hafa um tíma misnotað áfengi og
það sé mat sálfræðings að hún hafi unnið vel úr þeim erfiðleikum og að
áfengisvandi sé ekki lengur til staðar. Eins og gögn málsins beri með sér hafi
það ekki ræst sem sálfræðingurinn nefni í matinu um að áfengisvandi A sé ekki
lengur til staðar. Líkt og rakið hafi verið hafi sóknaraðila borist
tilkynningar 5. og 28. maí 2014 um áfengisdrykkju varnaraðilans A. Í kjölfar
síðari tilkynningarinnar hafi hún samþykkt vistun telpnanna utan heimilis til
1. september 2014.
Varnaraðili A hafi ekki nýtt þann tíma sem dætur
hennar hafi verið vistaðar utan heimilis til að ná tökum á áfengisvanda sínum.
Í tilkynningu 14. ágúst 2014 frá elstu dóttur A sé að finna nöturlegar lýsingar
á heimilisaðstæðum og aðbúnaði dætranna. Þá sé því lýst að varnaraðilar hafi
oft verið mjög drukkinn sumarið 2014. Þegar gögn málsins séu skoðuð sé ljóst að
varnaraðilum hafi ekki tekist að vinna bug á alvarlegum áfengisvanda sínum sem
varað hafi um árabil. Þetta hafi bitnað harkalega á dætrum varnaraðila sem hafi
búið við aðstæður sem ekki séu boðlegar fyrir börn, hvað þá svona ung börn eins
og dætur varnaraðila séu. Þannig mæli brýnir hagsmunir þeirra með því að þær
verði vistaðar utan heimilis í sex mánuði líkt og krafist sé.
Í ákvörðun sóknaraðila um vistun dætra varnaraðila
felist jafnframt ályktun um hvar hagsmunum og velferð þeirra sé best borgið. Af
hálfu sóknaraðila sé á því byggt að það þjóni hagsmunum þeirra best að vistast
utan heimils um takmarkaðan tíma, enda ljóst að ekki sé unnt að vinna á
vandanum á heimili varnaraðila. Að mati sóknaraðila sé lágmarkstími til að
þetta úrræði gagnist dætrunum sex mánuðir, enda hafi vandi varnaraðila varað í
mörg ár. Nauðsynlegt sé að veita dætrunum tækifæri til að dafna og þroskast við
viðunandi uppeldisskilyrði, fjarri óreglusömu líferni varnaraðila.
Að öllu framangreindu virtu telji sóknaraðili
fullljóst að varnaraðilar séu í dag óhæf til að bera ábyrgð á og sinna
uppeldisskyldum gagnvart dætrum sínum. Af þessum sökum geri sóknaraðili þá
kröfu að úrskurðað verði að E og D skuli vistaðar utan heimilis varnaraðila í
sex mánuði.
Sóknaraðili
styður kröfu sína við reglur barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 27. gr. og 28. gr. þeirra laga.
III
Varnaraðilar
byggja á því að kröfu sóknaraðila um vistun stúlknanna utan heimilis í sex
mánuði skorti lagastoð í 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Engin nauðsyn sé
fyrir hendi í málinu sem kalli á svo íþyngjandi aðgerðir fyrir stúlkurnar sem
séu einungis þriggja ára gamlar. Hafi þær nú þegar verið vistaðar utan heimilis
frá því í maí 2014 og megi sjá í umgengnisstundum að þær sakni foreldra sinna
mjög mikið. Það sé staðfest af þeim sem komi að málefnum stúlknanna enda gráti
þær þegar komi að lokum umgengnistíma við varnaraðila og vilji alls ekki fara
út af heimili sínu. Varnaraðilar telji þessa aðgerð sóknaraðila afar íþyngjandi
og telji þau víst að verði fallist á kröfur sóknaraðila komi það verulega niður
á hagsmunum stúlknanna sem þarfnist foreldra sinna mikið.
Varnaraðilar
kveða tillögur starfsmanna sóknaraðila ganga gegn hagsmunum dætra sinna. Svo
ung börn þarfnist móður sinnar fyrst og fremst en einnig föður síns og kveðst A
hafa sýnt starfsmönnum sóknaraðila fulla samvinnu í einu og öllu þegar hún hafi
samþykkt vistun dætranna tímabundið í þrjá mánuði, þó að vissulega hafi henni
mislíkað þegar umgengnissamningi var breytt einhliða af hálfu starfsmanna
sóknaraðila. Sé það mat varnaraðila að svo harkalegar aðgerðir sem nú séu í
bígerð gangi gegn meginreglum barnaréttar um að stjórnvöld skuli ávallt við
meðferð mála hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi. Fái það stoð í 2. mgr. 1. gr.
barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Sálfræðingur hafi framkvæmt hæfnismat, þar sem ótvírætt komi fram að A sé í
góðum tengslum við dæturnar og meti matsmaður foreldrahæfni móður mjög góða.
Mælist móðir sem heilbrigður einstaklingur og sé á persónuleikaprófi ekki með
mælanlega geðræna sjúkdóma eða raskanir. Hafi það verið mat sálfræðings að tengsl móður og dætra væru
ástrík, að hún tryggði öryggi dætranna og að líkamleg umönnun þeirra væri góð.
Sé ljóst af matinu að dæturnar hafi búið við gott atlæti hjá móður sinni.
Hagsmunir dætranna séu því ótvírætt þeir að þær fái að fara aftur heim til
varnaraðila án tafar, enda ljóst að þar séu tengslin ríkust. Eftir því sem
lengri tími líði frá samveru móður og dætra verði þær óöruggari. Tengsl
stúlknanna við varnaraðila dofni enda fá þær einungis að hitta foreldra sína
einu sinni í viku eftir leikskóla.
Hvað
varði umsögn elstu dóttur A, F, þá vilji varnaraðilar koma því á framfæri að
því miður sé þar um að ræða konu með illan hug til fjölskyldunnar. Hún hafi um
tíma búið hjá föður sínum en komið sér þar út úr húsi vegna samskiptaörðugleika
við stjúpmóður sína. Þá hafi hún hvorki samskipti við varnaraðila né eldri
bræður sína sem hafi áður verið í ágætum samskiptum við hana. Þannig hafi hún
komið sér upp á kant við alla fjölskyldumeðlimi og séu samskipti hennar og
tilkynningar til sóknaraðila hluti af þeirri starfsemi að skaða fjölskylduna
sem mest. Vakin sé athygli á því að umsögnin sé í fullkominni mótsögn við
umsögn starfsmanna leikskóla og foreldrahæfnismatið.
Samkvæmt
7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 beri barnavernd að beita vægustu
ráðstöfunum sem mögulegt sé til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að og grípa
aðeins til íþyngjandi ráðstafana verði lögmæltum markmiðum ekki náð með öðru og
vægara móti. Skuli barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði
til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Sama
gildi um dómstóla sem fá málefni barna í hendur. Varnaraðilar telji að
sóknaraðili hafi ekki reynt nein þau almennu úrræði sem til staðar séu áður en
gripið hafi verið til þess mjög svo íþyngjandi úrræðis að vista dæturnar utan
heimilis mánuðum saman. Hafi varnaraðilar verið til fullrar samvinnu og
samþykkt tímabundna vistun á meðan lag hafi komist á málin heima fyrir en í dag
sé staðan sú að engin þörf sé fyrir hendi. Hafi þau áfram verið tilbúin til fullrar
samvinnu við sóknaraðila og hafi varnaraðili A sjálf lagt til að hún sækti
dagdeildarmeðferð vegna áfengissýki sinnar. Þá hafi varnaraðilar bæði verið
tilbúin til að fá óundirbúið eftirlit með heimilinu og hafi fallist á slíkt
eftirlit þegar dæturnar séu í umgengni hjá þeim. Hafi ekkert bjátað á hvað
þetta varði og samstarfið hafi verið með öllu hnökralaust.
Varnaraðilar
bendi á að dætur þeirra hafi alltaf sótt leikskóla og þar sé auðvelt að
fylgjast með hvort þeim vegni vel. Sóknaraðila sé skylt að reyna til hlítar
almenn úrræði sé möguleiki á slíku. Íþyngjandi ákvæði barnaverndarlaga verði að
skýra þröngt og megi því ætla að kröfur sóknaraðila um vistun utan heimilis í
svo langan tíma gangi þvert á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar auk áðurnefnds
ákvæðis barnaverndarlaga. Einfalt sé að fylgjast með ástandi og umönnun með
dætrunum án þess að svipta þær foreldrum sínum í svo langan tíma.
Krafa
varnaraðila um að kröfum sóknaraðila verði hafnað er byggð á því að skilyrðum
28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé ekki uppfyllt og því beri að hafna
kröfum sóknaraðila. Þá sé byggt á því að meðalhófsregla barnaverndarlaga, sbr.
7. mgr. 4. gr. mæli gegn því að fallist verði á kröfur sóknaraðila. Loks er
byggt á barnalögum í heild svo og meginreglum þeirra og undirstöðurökum. Krafa
um málskostnað úr ríkissjóði er byggð á 60. gr. laga nr. 80/2002.
IV
Við
meðferð málsins fyrir dómi gáfu varnaraðilar skýrslur. Auk þess vitnið H,
eftirlitsmaður sóknaraðila.
Mál
þetta varðar gildi úrskurðar sóknaraðila um hvort vista skuli dætur
varnaraðila, þær D, kennitala [...] og E, kennitala [...] í tvo mánuði, sbr. b.
lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og hvort fallast beri á kröfu
sóknaraðila um að dæturnar verði vistaðar utan heimilisins alls í sex mánuði
frá 25. ágúst 2014 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga.
Eins
og rakið er í I. kafla hér að framan hafa málefni varnaraðila og dætra þeirra
verið til meðferðar hjá sóknaraðila frá því í marsmánuði 2013. Upphaf málsins
er rakið til tilkynningar lögreglunnar á [...] um heimilisofbeldi varnaraðila B
gagnvart varnaraðilanum A. Var lögregla kölluð að heimilinu og starfsmaður
sóknaraðila sem kom dætrum varnaraðila í tímabundið fóstur hjá móðurömmu
þeirra. Í kjölfarið krafðist A þess að B yrði fjarlægður af heimilinu og hann
settur í nálgunarbann. Var orðið við kröfu A með ákvörðun lögreglustjórans á [...]
og gilti nálgunarbannið til 23. september 2013. Varnaraðilar hófu sambúð á ný á
vormánuðum 2014.
Fyrir
liggur að dætur varnaraðila voru í mars 2013 vistaðar tímabundið utan heimilis
hjá móðurömmu þeirra en hafa samfellt frá því í maí 2014 verið vistaðar á
fósturheimili á vegum sóknaraðila, fyrst með samþykki varnaraðila A samkvæmt
yfirlýsingu hennar 28. maí 2014. Skyldi sú vistun standa til 1. september 2014.
Eins og fram er komið kvað sóknaraðili upp úrskurð um vistun dætra varnaraðila
í tvo mánuði frá 25. ágúst 2014 og gera nú kröfu um það fyrir dóminum að
vistunin verði í sex mánuði, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002
og er sú krafa til úrlausnar í málinu.
Í
forsendum úrskurðar sóknaraðila er meðal annars vísað til þess að stuttu eftir
að B hafi verið fjarlægður af heimilinu hafi borist tilkynningar um vanrækslu
vegna þess að A væri í mikilli drykkju og sinnti ekki þörfum dætra sinna. Hún
hafi samþykkt að fara í meðferð og að vera í samvinnu við sóknaraðila. Á þessum
tíma hafi gengið erfiðlega að ná í A í síma eða á heimili hennar og því hafi
ekki náðst sú samvinna sem lagt hafi verið upp með. Haustið 2013 hafi ekki
verið annað að sjá en að A væri að standa sig vel og næði að halda sig frá
áfengisdrykkju. Í maí 2014 hafi borist tilkynning um að varnaraðili A hefði
verið við drykkju í tvo til þrjá daga. Þá hafi A sagst vera tilbúin til að fara
í meðferð á ný en af því hafi ekki orðið heldur hafi hún farið í
Kvennaathvarfið með dæturnar, en farið þaðan án þess að láta sóknaraðila vita.
Einnig segir að starfsmenn sóknaraðila telji að varnaraðili A hafi lítið gert
til til að vera edrú og telja að hún eigi við áfengisvanda að glíma. Hún hafi
ekki staðið við samkomulag sitt varðandi umgengni við dæturnar en segi að
sóknaraðili hafi brotið á sér hvað það varði. Þá virðist B eiga við
áfengisvanda að stríða og hafi ekki fengist til að koma á fund hjá sóknaraðila
til að fara yfir stöðu málsins.
Í
bréfi leikskólastjóra og kjarnastjóra leikskólans [...] 18. ágúst 2014, sem
varðar dætur varnaraðila, segir að sú breyting sem hafi orðið á dætrunum sé að
þær séu farnar að borða mun betur og sé ótrúlegt hvað þær geti borðað mikið.
Áður en þær hafi farið í fóstur hafi þær borðað mjög lítið og hafi þær sjaldan
lokið við einn disk af mat en nú borði þær oft tvo til þrjá diska og gætu
borðað meira. Orðaforði þeirra sé orðinn mun meiri og þær séu farnar að tala
mun meira en þær hafi gert og séu mun skiljanlegri. Þá séu samskipti við
jafnaldra eðlileg. Samskipti leikskóla við móður og fósturforeldra hafi alltaf
verið mjög góð.
Samkvæmt
því sem nú hefur verið rakið og gögnum málsins liggur fyrir að sóknaraðila hafa
borist ítrekaðar tilkynningar um vanrækslu dætra varnaraðila vegna
áfengisneyslu. Þá liggur fyrir að úrræði samkvæmt 23. - 26. gr.
barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafa verið reynd um nokkurt skeið. Slík úrræði í
samvinnu við sóknaraðila, sem varnaraðili A hefur samþykkt, hafa ekki skilað
viðhlítandi árangri. Hefur A ekki uppfyllt það
skilyrði að leita sér aðstoðar við vanda af völdum óhóflegrar áfengisneyslu svo
dæmi sé tekið. Liggur þannig
fyrir að þau úrræði sem sóknaraðili leggur áherslu á til hagsbóta fyrir A hafa
ekki skilað tilætluðum árangri vegna erfiðleika hennar við að öðlast innsæi í
eigin aðstæður til að megna að takast á við áfengisvanda sinn. Hefur hún þannig ekki til samstarfs við sóknaraðila um aðstoð
sem er til þess fallin að tryggja dætrum hennar fullnægjandi heimilisaðstæður
til framtíðar. Má ætla
að það taki varnaraðila nokkurn tíma að koma á viðunandi aðstæðum fyrir
dæturnar. Í húfi eru brýnir hagsmunir tveggja ungra dætra varnaraðila sem án
nokkurs vafa hafa búið við óöryggi, vanlíðan og vanrækslu sem er til þess
fallin að hamla þroska þeirra. Um þetta vitnar meðal annars bréf leikskólans [...]
18. ágúst 2014. Engu breytir í þessu sambandi þótt A hafi undirgengist
foreldrahæfnismat hjá sálfræðingi þar sem meðal annars er komist að þeirri
niðurstöðu að foreldrahæfni A teljist mjög góð og að mat sálfræðings sé að hún
hafi unnið vel úr þeim erfiðleikum sem leiddu til afskipta sóknaraðila. Til
stuðnings þessari ályktun er vísað til orða varnaraðila, sögu hennar, móður
hennar og hversu vel dæturnar þrífast hjá sóknaraðila. Matsvinnan fór fram á
rúmum hálfum mánuði í nóvember 2013, en eins og fram er komið féll A á
áfengisbindindi í maí 2014 þegar hún drakk illa í tvo daga.
Að
mati dómsins þykir hafi verið sýnt fram á það í málinu að vægari úrræði sem
reynt hefur verið að beita séu fullreynd í samskiptum málsaðila. Það er mat
dómsins að sóknaraðili hafi sýnt fram á það að vistun dætra varnaraðila var
nauðsynleg eins og á stóð. Verður því ekki fallist á það með varnaraðilum að
sóknaraðili hafi gengið á svig við 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Að öllu framangreindu virtu
og þegar haft er í huga hvað ætla má að sé dætrum varnaraðila fyrir bestu, sbr.
1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, er fallist á kröfu sóknaraðila um að
stúlkurnar D, kennitala [...] og E, kennitala [...], verði vistaðar utan
heimilis varnaraðila samkvæmt heimild í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr.
80/2002. Er fallist á kröfu sóknaraðila um að vistunin standi í sex mánuði frá
25. ágúst 2014 að telja eins og krafist er af sóknaraðila og heimilt er
samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Sóknaraðili gerir ekki
kröfu um málskostnað. Varnaraðilar gera kröfu um málskostnað óháð
gjafsóknarleyfi. Varnaraðilar fengu gjafsókn 7. október síðastliðinn.
Rétt þykir að
málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, sem er þóknun
lögmanns þeirra, Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, greiðist úr
ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þykir þóknunin
hæfilega ákveðin 640.050 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Jón Höskuldsson
héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Fallist er á kröfu
sóknaraðila, Barnaverndarnefndar C, um að stúlkurnar D, kennitala [...] og E,
kennitala [...], sem lúta forsjá varnaraðila, verði vistaðar utan heimilis í
sex mánuði frá 25. ágúst 2014 að telja.
Málskostnaður fellur
niður.
Gjafsóknarkostnaður
varnaraðila, sem er þóknun lögmanns þeirra, Helgu Völu Helgadóttur hdl.,
640.050 krónur, greiðist úr ríkissjóði.