Hæstiréttur íslands

Mál nr. 330/2004


Lykilorð

  • Lögreglumaður
  • Kjarasamningur


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. janúar 2005.

Nr. 330/2004.

Hinrik Pálsson

(Gylfi Thorlacius hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Lögreglumenn. Kjarasamningur.

Lögreglumaðurinn H slasaðist á skipulögðu handboltamóti milli lögreglufélaga á Norðurlöndum. Í máli sem H höfðaði á hendur Í krafðist hann greiðslu skaðabóta á þeim grundvelli að hann hafi ekki fengið greiddar slysabætur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í málinu var óumdeilt að H hafi verið að störfum í þágu Í, enda þótt slysið hafi borið að með framangreindum hætti. Því var hins vegar hafnað að Í hafi með kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna skuldbundið sig til greiðslu slysabóta samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá var H ekki talinn hafa sýnt fram á samningsbundinn rétt sinn til frekari greiðslna frá Í en hann hafði fengið úr launþegatryggingu og tryggingu sem Landssamband lögreglumanna hafði tekið hjá vátryggingarfélaginu V hf., en íslenska ríkið greiddi helming iðgjalds hennar. Var Í því sýknað af kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen,  Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. ágúst 2004. Hann krefst greiðslu 507.792 króna með ársvöxtum samkvæmt 2. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2003 til 22. maí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og  fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Áfrýjandi slasaðist á skipulögðu handboltamóti milli lögreglufélaga á Norðurlöndum 1. desember 2000. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi fallist á að áfrýjandi hafi verið að störfum í hans þágu, enda þótt slysið hafi borið að með þessum hætti. Hafa honum verið greiddar bætur úr launþegatryggingu, sbr. grein 7.1.11 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna, svo og bætur úr tryggingu sem sambandið tók hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., en stefndi greiddi helming iðgjalds hennar. Tryggingastofnun ríkisins hafnaði því hins vegar að greiða honum bætur vegna slyssins þar sem talið var að þátttaka í íþróttakappleik félli ekki undir almenn skilyrði 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar um að slys hafi orðið við vinnu eða í beinum tengslum við vinnu. Með dómi Hæstaréttar Íslands 20. febrúar 2003 í máli nr. 421/2002 var fallist á þennan skilning Tryggingastofnunar. Áfrýjandi heldur því fram að vegna þessarar höfnunar stofnunarinnar á greiðsluskyldu verði hann að sækja stefnda um efndir á áður tilvitnuðum kjarasamningi, en með grein 7.5.2 sé mælt fyrir um að lögreglumenn skuli teljast við vinnu þegar þeir slasast við þátttöku í íþróttum og kappleikum á vegum félaga lögreglumanna. Byggir hann rétt sinn á því að með kjarasamningnum hafi meðal annars verið samið um rétt til slysabóta samkvæmt almannatryggingalögum.

Af hálfu stefnda er ekki fallist á skilning áfrýjanda á kjarasamningnum. Samningsaðilar hafi ekki verið að semja um hvað þriðji aðili ætti eða ætti ekki að greiða í slysatilvikum heldur einungis að ríkisjóður skuli greiða bætur fyrir það tjón, sem hinn slasaði hafi orðið fyrir. Er því haldið fram að það tjón hafi stefndi þegar bætt, sbr. það sem áður greinir um greiðslu tryggingabóta.

Af þeim ákvæðum kjarasamninga, sem áfrýjandi vitnar til, verður ekki ráðið að stefndi hafi skuldbundið sig til greiðslu slysabóta samkvæmt lögum nr. 117/1993. Þá hefur áfrýjandi ekki með öðrum hætti sýnt fram á að hann eigi samningsbundinn rétt til frekari greiðslna frá stefnda en þegar hafa verið inntar af hendi. Verður héraðsdómur því staðfestur.

Hvor aðili beri sinn kostnað af áfrýjun málsins.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2004.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 20. apríl sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Hinrik Pálssyni, Asparási 12, Garðabæ, á hendur íslenska ríkinu með stefnu áritaðri um birtingu hinn 13. júní 2003.

Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda 507.792 krónur, með vöxtum samkvæmt 2. mgr. 8. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. mars 2003 til 22. maí 2003, og dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að mati dómsins, auk útlagðs kostnaðar og virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara krafðist stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, að skaðlausu.

Með úrskurði, dagsettum 5. febrúar sl., var frávísunarkröfu stefnda hrundið.     

II

Hinn 1. desember 2000 var stefnandi að keppa á norrænu handboltamóti lögreglumanna í Sandefjöd í Noregi.  Í keppninni slasaðist stefnandi er hann lenti í samstuði við annan leikmann.  Við það fékk hann snúning á hægra hné, heyrði smell og gat ekki leikið áfram.  Leitaði hann á slysadeild Landspítalans í Fossvogi hinn 3. desember 2000.  Við skoðun voru eymsli og bólga innanvert í hnénu og liðbönd voru óstöðug.  Vökvi var í lið og skert hreyfigeta.  Röntgenmyndir greindu þó ekki brotáverka og var stefnandi talinn hafa hlotið tognunaráverka.

Hinn 8. desember 2000 leitaði stefnandi til Stefáns Carlssonar, bæklunarlæknis, og var gerð liðspeglun á stefnanda hinn 21. desember 2000.  Kom þá í ljós slit á fremra krossbandi en ekki liðþófaáverki. 

Hinn 25. janúar 2001 var gerð krossbandaaðgerð á stefnanda.  Tókst aðgerðin ágætlega, en stefnandi hefur enn verki í hægra hné og jafnvel er minni hreyfing í hnénu.            Hinn 2. janúar 2002 skilaði Atli Þór Ólason, dr. med. örorkumati stefnanda vegna slyss þessa.  Niðurstaða læknisins var að stefnandi hefði hlotið 12% varanlega örorku vegna slyssins.

Slysið var tilkynnt til Tryggingastofnunar ríkisins hinn 5. desember 2000.  Með bréfi, dagsettu 24. október 2001, var umsókn stefnanda um slysabætur hafnað á þeirri forsendu að slysatrygging almannatryggingalaga tækju aðeins til slysa við íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni á vegum viðurkennds íþróttafélags og undir stjórn þjálfara, en íþróttafélag lögreglumanna væri ekki hefðbundið íþróttafélag í skilningi almannatryggingalaga.

Mál var höfðað á hendur Tryggingastofnun ríkisins í sambærilegu máli, til viðurkenningar á rétti til bóta úr almannatryggingum.  Með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 20. febrúar 2003, í málinu nr. 421/2002, var kröfum hafnað og Tryggingastofnun sýknuð.

Hinn 1. desember 2002 var stefnanda greitt úr slysatryggingum launþega, sem Landssamband lögreglumanna tók hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. hinn 19. febrúar s.á.  Einnig fékk stefnandi greiddar bætur úr launþegatryggingu frá stefnda.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 22. apríl 2003, var stefndi krafinn um greiðslu bóta. samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga.

Með bréfi, dagsettu 3. júní 2003, hafnaði stefndi kröfu stefnanda.

III

Krafa stefnanda er um bætur úr hendi stefnda vegna líkamstjóns, sem hann varð fyrir sem lögreglumaður, á íþróttamóti á vegum Landssambands lögreglumanna hinn 1. desember 2000.  Byggir hann á því, að samkvæmt kjarasamningi beri stefnda að fá bætur vegna þessa tjóns síns.  Byggir hann á því, að samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna, sem undirritaður var hinn 19. október 1995, beri stefnanda að fá bætur vegna þessa tjóns.  Samkvæmt ákvæðum kjarasamnings hafi stefnandi átt að vera slysatryggður og beri stefnda að uppfylla þær skyldur sem hann hafi tekið á sig með umræddum kjarasamningi, sbr. grein 7.1.11., gr. 7.4.1., 7.5.1. og 7.5.2., í kjarasamningnum.

Stefnandi byggir á því, að með þátttöku í umræddum kappleik teljist hann hafa verið við vinnu, þar sem hann hafi verið að sinna skyldu sinni sem á honum hvíli sem lögreglumanni, til að stunda líkamsæfingar.  Sé það í fullu samræmi við ákvæði kjarasamningsins.  Þegar lögreglumaður slasist við íþróttaiðkun á vegum Landssambands lögreglumanna verði að líta til þeirrar sérstöðu sem starf hans hafi og einnig þeirrar sérstöku tengsla sem séu á milli líkamsþjálfunar og starfs hans.  Þessi tengsl séu frábrugðin því sem gerist hjá flestum öðrum starfsstéttum, enda sé það hluti af starfsskyldum lögreglumanna að halda sér í góðu líkamlegu formi.  Ástæðu fyrir þessum sérstöku skyldum lögreglumanna, að halda sér í góðu líkamlegu formi, megi rekja til eðlis starfs þeirra.  Til þess að gera lögreglumönnum mögulegt að uppfylla starfsskyldur sínar hafi þeim verið uppálagt að stunda líkamsæfingar sem hluta af starfi sínu.  Einnig hafi verið sett áðurgreind ákvæði í kjarasamninga sem eigi að auðvelda lögreglumönnum að uppfylla þessa starfsskyldu.

Þær sérstöku reglur sem gildi um réttindi lögreglumanna vegna slysa við íþróttaæfingar byggist á því mati ríkisvaldsins að mikilvægt sé að þeir sem gegni almennum löggæslustörfum séu í góðu líkamlegu ástandi.  Lögreglumenn hafi því verið hvattir af vinnuveitanda sínum til að stunda reglulega líkamsæfingar og ákvæði hafi verið sett í kjarasamninga sem eigi að auðvelda lögreglumönnum að uppfylla þessa starfsskyldu. 

Vegna þeirrar sérstöku skyldu sem vinnuveitandi lögreglumanna, íslenska ríkið, hafi lagt á þá til líkamsæfinga, umfram aðra starfsmenn, sé það eðlileg krafa að þeir séu tryggðir við framkvæmd þeirra skylduverka eins og annarra verkefna, sem þeim sé gert að fást við.

Í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna sé kveðið á um starfsskyldur lögreglumanna og komi þar skýrt fram að lögreglumenn skuli teljast að störfum þegar þeir stundi lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna, sbr. grein 7.5.2 í samningnum.  Stefnandi hafi slasast á skipulögðu íþróttamóti á vegum Landssambands lögreglumanna og annarra svipaðra félaga á Norðurlöndunum.  Sú staðreynd að það sé sérstaklega tekið fram í kjarasamningi við íslenska ríkið að lögreglumenn skuli teljast að störfum við áðurgreindar athafnir eigi sér þá einföldu skýringu að með því hafi verið ætlað að tryggja lögreglumönnum rétt til bóta ef þeir slasist við þessar aðstæður.  Ljóst sé af þessum ákvæðum að gert sé ráð fyrir að lögreglumaður sé að störfum þegar hann stundi íþróttakappleiki og einnig að hann sé að fullu slysatryggður.  Þessi kjarasamningsbundna slysatrygging komi fram í samningi Landssambands lögreglumanna við stefnda.  Samkvæmt almennum meginreglum samningaréttar um að samninga skuli halda beri stefnda nú að uppfylla þær skyldur sem hann hafi tekið á sig með umræddum kjarasamningi.

Stefndi hafi ætlað Tryggingastofnun ríkisins að annast um greiðslu bóta fyrir slys sem verði við fyrrgreindar aðstæður.  Þar sem Hæstiréttur Íslands hafi fallist á það að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að hafna kröfu eins og stefnandi eigi um greiðslu samkvæmt almannatryggingalögum verði stefndi sjálfur að efna þær skuldbindingar sem hann hafi gengist undir með gerð kjarasamnings við Landssamband lögreglumanna.

Stefnandi hefur sundurliðað kröfur sínar með eftirgreindum hætti í stefndu:

Bætur fyrir 10% varanlega örorku skv.

ákvæðum almannatryggingalaga                                                        kr.                                 507.792

Lögmannsþóknun                                                                                 kr.                                   60.390

25,5% virðisaukaskattur                                                                       kr.                                   14.795

Útlagður kostnaður vegna útreiknings                                              kr.                                   14.940

Samtals                                                                                                    kr.                                 597.917

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttarins.  Einnig vísar stefnandi til kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna, sem undirritaður var hinn 19. október 1995.

Þá vísar stefnandi til lögreglulaga nr. 90/1996.

Kröfu um vexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að engin slík tengsl séu á milli kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna og laga nr. 117/1993, að það veiti stefnanda rétt til bóta úr hendi stefnda, eins og krafist sé.  Í máli nr. 421/2002 hafi Hæstiréttur hafnað kröfu lögreglumanns, sem slasaðist á íþróttaæfingu, til bóta úr hendi Tryggingastofnunar ríkisins.  Hafi Hæstiréttur í því máli þegar leyst úr því ágreiningsefni hvort lögreglumaður eigi rétt til bóta úr hendi Tryggingastofnunar ríkisins.  Engin rök séu til þess að stefnandi geti krafið stefnda um það sem honum hafi verið synjað um af Tryggingastofnun ríkisins.  Það að stefnandi hafi ekki náð fram kröfum sínum í málinu leiði ekki til þess að hann hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum.

Mál stefnanda sé höfðað sem skaðabótamál, en stefndi hafi ekki valdið stefnanda tjóni og beri því ekki ábyrgð að neinu leyti á kröfu stefnanda.

Stefnandi hafi þegar fengið greitt úr slysatryggingu launþega, samkvæmt kjarasamningi, en greiðslan hafi numið 339.168 krónum og verið innt af hendi í febrúar árið 2002, en einnig muni stefnandi hafa fengið greitt um 679.746 krónur til viðbótar frá tryggingafélagi vegna umrædds slyss. 

Að mati stefnda séu ekki skilyrði til greiðslu frekari bóta en stefndi hafi þegar innt af hendi vegna slysatryggingar launþega.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt til frekari bóta á grundvelli kjarasamnings eða annarra reglna. 

Bótagrundvöllur sem stefnandi byggi á sé mjög óljós og málið að auki verulega vanreifað.  Ekki liggi fyrir hvort stefnandi hafi reynt að sækja bætur úr hendi þess sem hann hafi lent í samstuði við.  Stefnandi vísi og til kafla 7.1.11., 7.4.1., 7.5.1. og 7.5.2., í kjarasamningi máli sínu til stuðnings.  Fyrir liggi að stefnandi hafi þegar fengið fullar bætur samkvæmt lið 7.1. úr slysatryggingu launþega.  Þá mótmælir stefndi því sem röngu að stefnandi eigi rétt samkvæmt gr. 7.4.1., 7.5.1. og 7.5.2. í kjarasamningi.

Stefndi hafnar því og sem röngu, að hann hafi ætlað Tryggingastofnun ríkisins að annast greiðslu bóta fyrir slys sem verði við fyrrgreindar aðstæður.

Einnig vísar stefndi til meginreglna skaðabótaréttar um niðurfellingu skaðabótakröfu vegna eigin sakar og áhættutöku með þátttöku í umræddum íþróttaleik.

Stefndi kveðst og hafna þeirri lögskýringu stefnanda, að íþróttaiðkun í frítíma baki stefnda bótaskyldu og byggir á því, að í umrætt sinn, er stefnandi hafi slasast, hafi hann hvorki verið við vinnu eða að störfum og stefnandi hafi ekki orðið fyrir meiðslum eða tjóni starfs síns vegna.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu útlagðs kostnaðar og byggir á því, að ekki séu lagaskilyrði til að taka hana til greina.

Þrautavarakröfu sína byggir stefndi á því, að taka beri tillit til eigin sakar stefnda og áhættutöku í þátttöku í umræddum íþróttaleik.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um bætur vegna slyss, sem hann varð fyrir á handboltamóti hinn 1. desember 2000.  Byggir stefnandi á því að hann eigi samnings-bundinn rétt til bóta vegna umrædds slyss, úr hendi stefnda.  Stefndi hafi ætlað Tryggingastofnun ríkisins að annast greiðslu bóta fyrir slys sem verði við þær aðstæður sem voru þegar stefnandi hafi slasast.  Þar sem Hæstiréttur Íslands hafi í sambærilegu máli fallist á það að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að hafna kröfu stefnanda um greiðslu samkvæmt almannatryggingalögum verði stefndi sjálfur að efna þær skuldbindingar sem hann hafi gengist undir með kjarasamningi Landssambands lögreglumanna.

Í ákvæði 7.1.11. segir svo: „Lögreglumenn sem starfa í þjónustu ríkissjóðs, skulu slysatryggðir samkvæmt almennum slysatryggingaskilmálum og í samræmi við slysatryggingu ríkisstarfsmanna með eftirfarandi viðbótarréttindum:

1.               9.gr.- aðrar takmarkanir á bótaskyldu-, a) og f) liður eru ekki undanþegnir bótaskyldu þegar lögreglumaður gegnir störfum.

2.               5.gr. –íþróttir og flugferðir-, verði ekki undanþegin bótaskyldu vegna íþróttaæfinga á vegum lögreglumanna svo og vegna íþróttakappleikja á vegum samtaka lögreglumanna.

Ábyrgð þessi er í gildi meðan lögreglumaður er á launaskrá ríkisins og skal ríkissjóði frjálst að kaupa slíka tryggingu eða hafa ábyrgð í eigin hættu.”

Í ákvæði 7.4.1. er kveðið á um að ríkið bæti lögreglumanni þau útgjöld sem hann kunni að verða fyrir af völdum slyss á vinnustað og slysatryggingar almannatrygginga bæti ekki samkvæmt 27. gr. laga nr. 117/1993.

Í kjarasamningi þar sem fjallað er um skaðabótaskyldu ríkissjóðs segir svo að lögreglumenn skuli teljast að störfum auk venjulegrar vinnuskyldu þegar þeir eru á leið í eða úr vinnu, sitji lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stunda lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna.

Fyrir liggur, að stefnandi fékk greiddar bætur frá stefnda vegna umrædds slyss, úr launþegatryggingu , samkvæmt bótarétti opinberra starfsmanna, og bætur úr tryggingu, sem Landssamband lögreglumanna tók hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. 

Þó svo að fallast megi á að samkvæmt ákvæði 7.5.2. í kjarasamningi hafi stefnandi talist að störfum er umrætt slys varð, verður ekki séð af fyrrgreindum ákvæðum, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, að samið hafi verið um rétt til slysabóta samkvæmt almannatryggingalögum nr. 117/1993, eða að stefnandi eigi samningsbundinn rétt til frekari bóta frá stefnda vegna slyssins.  Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.      

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Hinriks Pálssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.