Hæstiréttur íslands

Mál nr. 553/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann


Dómsatkvæði

 

Föstudaginn 10. janúar 2003.

Nr. 553/2002.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf.

(Birgir Tjörvi Pétursson hdl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Eiríkur S. Svavarsson hdl.)

 

Kærumál. Lögbann.

S krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að hafna því að leggja lögbann við framkvæmd 3. gr. samkomulags milli R og fyrirtækisins D. Taldi S að samningurinn fæli í sér ólögmætan styrk til D og raskaði hagsmunum S sem keppinautar D. Talið var að S hafi ekki sýnt fram á að hann myndi verða fyrir réttarspjöllum af því að bíða dóms í skaðabótamáli vegna framkvæmdar á umræddu ákvæði samningsins. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur um höfnun lögbannskröfu.

 

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 7. október sama árs um að hafna því að leggja lögbann við framkvæmd 3. gr. samkomulags frá 18. júní 2002 milli varnaraðila og Daníels Þorsteinssonar & Co. ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri ákvörðun sýslumanns verði hnekkt og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara krefst hann „sýknu“ af kröfu sóknaraðila, til þrautavara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og að því frágengnu að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu að fjárhæð 10.100.000 krónur til þess að lögbann verði lagt á. Í öllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þar með talið ákvæði hans um málskostnað, enda hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti til endurskoðunar niðurstöðu um það efni.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf., greiði varnaraðila, Reykjavíkurborg, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2002.

                Mál þetta var þingfest 22. október 2002 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 13. þ.m.

                Sóknaraðili er Skipasmíðastöð Njarðvíkur ehf., kt. 490269-4099, Sjávargötu 6-12, Njarðvík.

                Varnaraðili er Reykjavíkurhöfn, kt. 530269-7529, Hafnarhúsinu v/Tryggva-götu, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 7. október 2002 um að synja beiðni um lögbann verði hnekkt og að lögbann nái fram að ganga.  Þá er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi.  Til vara að varnaraðili verði sýknaður á grundvelli aðildarskorts.  Til þrautavara að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 7. október 2002 um að synja beiðni sóknaraðila um lögbann verði staðfest.  Til þrautaþrautavara að verði fallist á kröfur sóknaraðila um lögbann þá verði sóknaraðila gert að leggja fram tryggingu fyrir skaðleysi varnaraðila vegna lögbannsins að fjárhæð 10.100.000 kr.  Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Helstu málavextir eru að með kaupsamningi 16. mars 1999 seldi Daníel Þorsteinsson & Co ehf. Reykjavíkurhöfn eftirtaldar eignir:

         A.  Dráttarbraut seljanda við Mýrargötu í Reykjavík ásamt öllum fylgibúnaði þ.m.t. upptökubrautir í sjó og á landi, slippvagn, vindubúnað, skorðubúnað og tilheyrandi hliðarfærslubrautir.

         B.   Allar fasteignir félagsins á leigulóð félagsins við Mýrargötu.

         C.   Þá lofar seljandi að afsala til kaupanda öllum réttindum til lóða sem hann hefur á leigu frá kaupanda við Reykjavíkurhöfn.

Þann 18. júní 2002 gerðu kaupandi og seljandi með sér svohljóðandi samkomulag:

1.        Reykjavíkurhöfn greiði Daníel Þorsteinssyni & Co ehf. 17,5 milljónir króna vegna styttingar á leigutíma og ágreiningsatriða í kaupsamningi frá 16. mars 1999.

2.        Daníel Þorsteinsson & Co ehf. hefur heimild til að ráðstafa öllum lausum búnaði svo sem sleða, spilum o.fl. án aðkomu Reykjavíkurhafnar.

3.        Reykjavíkurhöfn og Daníel Þorsteinsson & Co ehf. gera með sér samning um leigu á aðstöðu til 30. september 2003.  Leigugjald frá ársbyrjun 2002 til leiguloka er 100.000 krónur á mánuði.  ( Sjá að öðru leyti 4. gr. kaupsamnings).

4.        Daníel Þorsteinsson & Co ehf. skal ljúka rifi mannvirkja og hafa fjarlægt þau ásamt búnaði, skv. 2. og 3. gr. þessa samnings fyrir árslok 2003.

5.        Með þessum samningi og framgangi hans hafa báðir aðilar að fullu staðið við kaupsamning frá 16. mars 1999 og aðra samninga milli aðila og eiga ekki frekari kröfur hvor á annan.

Þann 2. október 2002 var móttekin hjá sýslumanninum í Reykjavík lögbannsbeiðni sem hér er deilt um.  Þar var þess krafist að lögbann yrði lagt á framkvæmd 3. gr. samkomulagsins frá 18. júní 2002 milli Daníels Þorsteinssonar & Co ehf. og Reykjavíkurhafnar.  Á því var byggt m.a. að samningur þessi fæli í sér ólögmætan rekstrarstyrk til Daníels Þorsteinssonar & Co ehf.  Taldi sóknaraðili að samningurinn raskaði hagsmunum hans sem samkeppnisaðila Daníels Þorsteinssonar & Co ehf.  Sýslumaður taldi hins vegar að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann væri ekki fullnægt.  Og í bréfi til sóknaraðila, dags. 7. október 2002, lýsti sýslumaður yfir að beiðni um lögbann væri synjað.

Með símbréfi til héraðsdóms 14. sama mánaðar krafðist sóknaraðili úrlausnar dómsins um þennan ágreining.

Svo sem áður sagði byggir sóknaraðili á því að varnaraðili styrki Daníel Þorsteinsson & Co ehf. með ólögmætum hætti.  Einnig er byggt á því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi ekki verið tilkynnt um ráðstafanir, er felist í samningi varnaraðila og Daníels Þorsteinssonar & Co ehf., áður en í þær var  ráðist.  Sóknaraðili sé í samkeppni við Daníel Þorsteinsson & Co ehf.  Ólögmætur rekstrarstyrkur eins og hér um ræðir skaði að sjálfsögðu sóknaraðila.

Aðalkröfu sína byggir varnaraðili á því að Reykjavíkurhöfn sé aðeins annar aðili þess samnings sem lögbannsbeiðni sóknaraðila beinist að.  Augljóst sé að Daníel Þorsteinsson & Co ehf. hafi verulega hagsmuni af niðurstöðu málsins og réttarfarsnauðsyn sé á því að félaginu sé gert kleift að gæta þar hagsmuna sinna.

                Varakröfu byggir varnaraðili á því að í kröfu sóknaraðila um lögbann felist að framkvæmd leigusamnings milli varnaraðila og Daníels Þorsteinssonar & Co ehf. verði stöðvuð.  Lögbannskrafan snúi fyrst og fremst að hagsmunum Daníels Þorsteinssonar & Co ehf., þar sem félagið sé leigutakinn, og með lögbanni á framkvæmd 3. gr. samkomulagsins frá 18. júní 2002 sé verið að skerða ríka hagsmuni félagsins, en samkomulagið um lok starfsemi félagsins og frágangur kaupsamningsins frá 16. mars 1999 hafi verið reist á þeim forsendum að rekstur félagsins yrði á núverandi svæði til 30. september 2003.

                Þrautavarakröfu styður varnaraðili við röksemdir sýslumannsins í Reykjavík um að synja beiðni sóknaraðila um lögbann.

                Þrautaþrautavarkröfu byggir varnaraðili á því að verði framkvæmd leigusamnings milli hans og Daníels Þorsteinssonar & Co ehf stöðvuð þá verði varnaraðila óheimilt að innheimta leigutekjur. Verði að ganga út frá því að tjón hans vegna lögbannsins nemi þá leigu út fyrirhugað leigutímabil samtals að fjárhæð 1.100.000 kr.  Í öðru lagi hljóti hann að verða fyrir kostnaði við að koma leigutaka út en slíkrar aðgerðar yrði óhjákvæmilega þörf nái lögbannið fram að ganga.  Krefst hann því 2.000.000 kr. tryggingar vegna þess þáttar.  Í þriðja lagi muni lögbann á framkvæmd 3. gr. samkomulags varnaraðila og Daníels Þorsteinssonar & Co ehf. valda því að allur kostnaður við rekstur og viðhald mannvirkja og lóðar til 30. september falli á varnaraðila í stað þess að Daníel Þorsteinsson & Co ehf. greiði hann.  Krefst varnaraðili 2.000.000 kr. tryggingu af þessum sökum.  Þá krefst varnaraðili að sóknaraðili leggi fram 5.000.000 kr. tryggingu vegna útgjalda sem lögbann muni valda varnaraðila við að rífa þau mannvirki og þann búnað sem Daníel Þorsteinsson & Co ehf. hefur til leigu.

                Niðurstaða:  Í bréfi sýslumannsins í Reykjavík til lögmanns sóknaraðila 7. október 2002 er synjað kröfu sóknaraðila um lögbann.  Sýslumaðurinn byggði niðurstöðu sína á því að krafa sóknaraðila uppfyllti ekki skilyrði er 24. gr. laga nr. 31/1990 setur til að lögbann sé heimilt.  Niðurstaða sýslumannsins er því ekki efnislega í andstöðu við aðalkröfu eða varakröfu varnaraðila. 

                Samkvæmt upphafsorðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum.  Megi álykta að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi nægilega hagsmuni gerðarbeiðanda fyrir ætlaðri ólögmætri röskun, verður lögbann ekki lagt við athöfninni samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laganna.

Sóknaraðili hefur hvorki sannað né gert sennilegt að hann muni verða fyrir réttarspjöllum af því að bíða dóms í skaðabótamáli út af röskun á hagsmunum - sem hann telur sig eiga og fari forgörðum - vegna framkvæmdar á ákvæðum 3. gr. samnings milli varnaraðila og Daníels Þorsteinssonar & Co ehf., dags. 18. júní 2002.

Samkvæmt framangreindu verður hafnað kröfu sóknaraðila um lögbann.  Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 7. október 2002 um að synja kröfu sóknaraðila, Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur ehf., um lögbann er staðfest.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, Reykjavíkurhöfn, 40.000 kr. í málskostnað.