Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Matsgerð
  • Skýrslugjöf


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 29. janúar 2015

Nr. 45/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Magnús Hrafn Magnússon hrl.)

Kynferðisbrot. Börn. Matsgerð. Skýrslugjöf.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft í vörslum sínum á hörðum diski 11 hreyfimyndir sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. X neitaði sök og bar því við að myndskeiðin hefðu slæðst þar inn með öðru myndefni sem hann hefði hlaðið niður án þess að hann hafi orðið þess var. Í dómi héraðsdóms kom fram að þegar litið væri til fyrirliggjandi sönnunargagna og þess að einungis væri um 11 myndskeið að ræða, sem vistuð væru í einni og sömu möppunni, innan um mikið magn annars efnis, þætti gegn eindreginni neitun X ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að skilyrði 1. mgr. 210. gr. a. um ásetning væru uppfyllt. Var X því sýknaður. Fyrir Hæstarétti var því meðal annars haldið fram af hálfu ákæruvaldsins að það mat héraðsdóms, að framburður X hefði verið trúverðugur, væri rangt þar sem skilja yrði framburð hans hjá lögreglu þannig að hann hefði viðurkennt að hafa afritað myndefni sem varðaði börn og sett í möppu á fyrrgreindum diski. Hæstiréttur taldi að þar sem X hefðu ekki verið kynntar þær sakargiftir, sem honum væru gefnar að sök, meðan á skýrslutöku hjá lögreglu stóð hefði skýrsla hans þar um sakarefnið takmarkað gildi, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Meðal annars af þeim sökum væri ekki ástæða til að ætla að mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar X væri rangt svo einhverju skipti um úrslit málsins. Þá var talið að niðurstöður matsmanns, sem var dómkvaddur eftir uppkvaðningu héraðsdóms, væru ekki svo afgerandi að því yrði slegið föstu á grundvelli þeirra að X hefði gerst sekur um að hafa brotið af ásetningi gegn 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga. Með vísan til þessa og forsendna héraðsdóms að öðru leyti var niðurstaða hans staðfest. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari, Karl Axelsson settur hæstaréttardómari og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2014. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málsmeðferðar að nýju. Þá er þess krafist að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um upptöku á nánar tilgreindum eignum.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og hún bundin skilorði.

I

Í máli þessu er ákærða gefið að sök brot á 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft í vörslum sínum á „utanáliggjandi“ hörðum diski ellefu hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að framburður ákærða í skýrslu hans hjá lögreglu 19. desember 2012 verði vart skilinn á annan hátt en þann að hann hafi þar viðurkennt að hafa tekið frá myndefni, sem varðaði börn, og sett í sérstaka möppu á framangreindum diski. Því geti framburður ákærða fyrir dómi ekki talist trúverðugur eins og talið hafi verið í hinum áfrýjaða dómi.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á sakborningur rétt á að fá upplýsingar um sakarefni áður en skýrsla er tekin af honum út af því og í samræmi við það er lögreglu skylt að gera honum grein fyrir því við upphaf skýrslutöku, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna. Vegna þess að ákærða voru ekki kynntar þær sakargiftir sem honum eru gefnar að sök í máli þessu, meðan á áðurnefndri skýrslutöku lögreglu stóð, hefur skýrsla hans sem þar var gefin um sakarefnið takmarkað gildi. Meðal annars af þeim sökum er ekki ástæða til að ætla að mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar ákærða fyrir dómi hafi verið rangt svo að einhverju skipti um úrslit þessa máls og verður því ekki fallist á kröfu ákæruvaldsins um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á grundvelli 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.

II

Eftir að héraðsdómur var kveðinn upp var þess krafist af hálfu ákæruvaldsins 23. september 2014 að dómkvaddur yrði sérfróður maður til að svara sjö spurningum um þær ellefu hreyfimyndir sem greinir í ákæru. Eins og þar kemur fram fundust myndirnar á hörðum diski sem fannst við húsleit á heimili ákærða 31. október 2012, en við það tækifæri fundust einnig þrjár tölvur sem hald var lagt á.

Meðal þeirra spurninga sem hinum dómkvadda matsmanni var ætlað að svara var „hvort skrárnar ellefu, sem málið varðar, hafi einhvern tíma verið opnaðar á framangreindum ... diski“. Ef svo væri hvenær þær hafi verið opnaðar. Í svari matsmannsins við spurningunni í ódagsettri matsgerð sinni, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, var meðal annars tekið fram að ekki hafi fundist vísbendingar á diskinum sjálfum hvort tiltekin skrá hafi verið opnuð þar. Í lok svarsins sagði síðan: „Allar þrjár tölvurnar sem málið varðar voru skoðaðar og fundust engar vísbendingar um að nein af þeim ellefu skrám sem málið varðar hafi verið opnaðar á þessum tölvum né á ... disknum.“ Í ljósi þessa eru niðurstöður í matsgerð hins dómkvadda manns ekki svo afgerandi að því verði slegið föstu á grundvelli þeirra að ákærði hafi gerst sekur um að hafa brotið af ásetningi gegn 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 18. gr. sömu laga. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 20. desember 2013 og honum áfrýjað sem fyrr segir 3. janúar 2014. Hinn 16. sama mánaðar staðfesti héraðsdómur endurrit úr þingbók vegna allra þinghalda í málinu, þar á meðal af skýrslum sem gefnar voru við aðalmeðferð þess. Eins og áður greinir var þess fyrst krafist af hálfu ákæruvaldsins 23. september 2014 að dómkvaddur yrði matsmaður og hefur sú töf sem á því varð ekki verið skýrð. Þessi óþarfa  dráttur á meðferð málsins fyrir Hæstarétti er aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Magnúsar Hrafns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 930.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 20. desember 2013.

                Mál þetta, sem dómtekið var 18. nóvember 2013, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 19. júní 2013, á hendur X, kt. [...], [...], [...] „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa miðvikudaginn 31. október 2012, og um nokkurt skeið fram til þess dags, á heimili sínu að [...], [...], haft í vörslum sínum á Hardoox utanáliggjandi hörðum diski 11 hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en tölvubúnaðurinn með myndefninu fannst í læstum peningaskáp við húsleit á heimili hans og var haldlagður þann sama dag.“

                Í ákæruskjali er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012. Er þess þar krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Jafnframt er í ákæruskjali krafist upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á framangreindu myndefni og á Hardoox utanáliggjandi hörðum diski. Við aðalmeðferð málsins leiðrétti sækjandi framangreinda lagatilvísun og vísaði til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. sömu laga. Þá er einnig krafist upptöku á 10 ml af Nandrolon stungulyfi og 10 ml af Sustanon stungulyfi, sem fundust við sömu húsleit og haldlögð voru af lögreglu, með vísan til 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.

                Af hálfu ákærða er krafist sýknu af refsikröfu ákæruvalds en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Upptökukröfum ákæruvaldsins er ekki mótmælt. Þá krefst skipaður verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna.

I

                Samkvæmt því sem greinir í skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 27. febrúar 2013, fór þann 31. október 2012 fram húsleit á heimili ákærða að [...], [...]. Hafi við leitina verið lagt hald á ýmsan tölvubúnað, m.a. utanáliggjandi harðan disk af gerðinni Hardoox, sem fundist hafi í læstum peningaskáp í svefnherbergi. Þar hafi einnig fundis tvö glös af stungulyfjum, ætluðum sterum.

                Tilefni húsleitarinnar, sem fram fór með heimild og samþykki ákærða, mun hafa verið rannsókn lögreglu á hendur honum vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni. Upplýst er að rannsókn þess sakarefnis leiddi ekki til ákæru.

                Samkvæmt skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um „myndskoðun“, dags. 26. febrúar 2013, voru teknir til rannsóknar haldlagðir munir, þ.e. turntölva, tvær fartölvur, 28 geisladiskar og þrír utanáliggjandi harðir diskar, þar á meðal sá 500 GB diskur af gerðinni Hardoox sem fyrr var nefndur. Hafi tölvurannsókna- og rafeindadeild embættisins séð um að afrita eða „spegla“ tölvubúnaðinn og munirnir verið rannsakaðir með „Encase rannsóknartólinu“. Á Hardoox disknum hafi fundist „gríðarlega mikið magn af klámefni, þar með talið klám sem sakborningur virðist hafa framleitt sjálfur af sér og konum“. Í möppu á disknum sem beri heitið „Young“ hafi fundist myndskeið sem sýni ungar stúlkur og hafi 11 af þessum myndskeiðum sýnt börn undir 18 ára aldri í kynferðislegum athöfnum. Er efni hvers og eins þessarra 11 myndskeiða nánar lýst, sem og heiti þeirra og tímalengd, auk þess sem myndskeiðin sjálf eru meðal málsgagna.

                Með skýrslunni fylgir tveggja blaðsíðna skjal með tæknilegum upplýsingum um myndskeiðin 11, þ.e. heiti skránna, dag- og tímasetningar þegar skrá hafi verið „búin til“, „síðast breytt“ og „síðast opnuð“, og loks slóð á skrá. Sést af slóðunum að mappan „Young“ er vistuð í rót disksins (C:\Young\skráarheiti). Er heiti sumra skránna lýsandi fyrir innihald þeirra. Kemur þar fram að engri þessara skráa hafi verið eytt. Tímasetningar á liðunum skrá „búin til“ og „síðast opnuð“ er nákvæmlega sú sama fyrir hverja og eina skrá og taka þær til ríflega 6 mínútna tímabils 28. ágúst 2011, frá kl. 11:04:27 til kl. 11:10:43. Tímasetningar undir liðnum „síðast breytt“ eru hins vegar mismunandi eftir skrám og eru dagsettar á tímabili frá 13. mars 2009 til 17. janúar 2011.

                Í skýrslunni kemur ennfremur fram að á tveimur geisladiskanna hafi fundist svokölluð „naturistamyndskeið“, sem sýni nakið fólk á öllum aldri, allt frá ungabörnum upp í fullorðið fólk, en enga kynferðislega misnotkun. Annað efni sem talist geti ólögmætt hafi ekki fundist við skoðun framangreindra muna.

                Samkvæmt skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 29. nóvember 2012, var ennfremur tekin til rannsóknar ein myndavél, einn geisladiskur, einn USB minnislykill og tvö minniskort sem hald var lagt á við húsleitina, en fram kemur að þar hafi heldur ekkert ólögmætt fundist.

II

                Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann eiga umræddan utanáliggjandi harðan disk af gerðinni Hardoox, svokallaðan „flakkara“, sem myndskeiðin 11 fundust á. Diskinn megi tengja tölvum til að auka minnisrými þeirra, en ekki sé hægt að spila efni beint af honum. Diskurinn hafi innihaldið viðkvæmt og persónulegt myndefni, þar á meðal klámefni. Af þeim sökum hafi hann verið geymdur á öruggum stað, í læstum peningskáp, þar sem hann fannst. Diskurinn hafi legið þar lengi og kvaðst ákærði telja að hann hafi ekkert verið notaður „síðasta árið, 2012“. Kvaðst ákærði almennt hafa hlaðið efni beint niður á diskinn, sem sé með töluvert minnisrými, 500 GB. Hann hafi ekki náð að kynna sér allt það efni sem hann hafi hlaðið niður.

                Ákærði kvaðst ekki draga í efa að myndskeiðin 11 sýni börn undir 18 ára aldri á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Honum hafi ekki rennt í grun að slíkt efni leyndist á disknum og kvaðst fyrst hafa séð myndskeiðin er hluti þeirra var kynntur honum við yfirheyrslu hjá lögreglu. Neitaði hann því að hafa vísvitandi sótt sér þessi myndskeið og kvaðst helst gruna að þau hafi borist á diskinn með öðru efni sem hann hafi hlaðið niður af vefsíðunni „pirate bay“, þangað sem hann hafi sótt sér mikið magn af ýmiss konar myndefni.  Hann hafi staðið í þeirri trú að öruggt væri að nota vefsíðuna og að efni af því tagi sem hér um ræðir væri ekki leyft þar. Ekki sé hægt að „streyma“ á vefsíðunni heldur þurfi að hlaða niður efni til að geta skoðað það. Kvaðst hann hvorki kannast við að hafa áður séð skráarheiti myndskeiðanna né möppuna „Young“ og ekki hafa búið þá möppu til. Kvaðst ákærði álíta að mappan hljóti að hafa orðið til sjálfkrafa um leið og efni hennar hafi verið hlaðið niður. Lýsti ákærði reynslu sinni af niðurhali efnis af vefsíðum og kvað það reynslu sína að við niðurhal verði sjálfkrafa til möppur sem efninu sé hlaðið niður í. Heiti þeirra þurfi ekki endilega að samsvara heiti þess efnis sem þær innihaldi. Þá geti möppurnar innihaldið margar skrár með mismunandi skráarheitum og skráarheitin sjáist ekki alltaf fyrir niðurhal. Skrárnar opnist ekki sjálfkrafa eftir að niðurhali sé lokið.

                 Ákærði gaf tvívegis skýrslu hjá lögreglu, 31. október og 19. desember 2012, og liggja fyrir endurrit þeirra skýrslna, auk upptöku í hljóði og mynd af framburði hans við síðarnefnda skýrslutöku. Var honum í báðum tilvikum kynnt við upphaf skýrslutöku að hann væri grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn tilteknu barni. Var það fyrst við síðari skýrslutökuna sem ákærði var spurður út í það sakarefni sem hér er til umfjöllunar, án þess að honum væri kynnt það sakarefni sérstaklega við upphaf hennar. Bar ákærði þar, eftir að honum hafði verið kynntur hluti þeirra myndskeiða sem um ræðir, að þau hlytu að vera komin inn á diskinn fyrir mistök þegar hann hafi verið að hlaða niður efni af „torrent“ vefsíðu. Ítrekaði ákærði að hann hafi ekki verið að sækjast eftir slíku efni og ekki skoðað allt það myndefni sem hann hafi hlaðið niður „neitt gaumgæfilega“. Er borið var á hann að búið væri að flokka umrætt myndefni í sérstaka möppu með heitinu „Young“, var á framburði ákærða að skilja að hann giskaði á að hafa „hlaupið yfir þetta“ og séð að þetta væri „of ungt“. Margítrekaði ákærði að hann hefði ekki skoðað efnið.

                Fyrir dómi var framangreindur framburður ákærða hjá lögreglu borinn undir hann. Gaf ákærði þá skýringu að framburður hans hjá lögreglu hafi litast af misskilningi, en hann hafi við yfirheyrsluna staðið í þeirri trú að verið væri að spyrja hann út í svokallað „naturistaefni“, sem  hann vissi að hann ætti í fórum sínum, sem sýni bæði börn og fullorðna í nektarnýlendu. Hafi hann ekki vitað til þess að hann ætti annað efni sem mögulega gæti talist barnaklám. Tók ákærði fram að á meðan á yfirheyrslunni stóð hafi diskur með þessu „naturistaefni“ legið á skrifborði lögreglumannsins. Þá kvaðst ákærði ekki hafa „kveikt neitt“ á möppuheitinu „Young“ sem undir hann var borið og alls ekki verið undir það búinn að svara spurningum um uppsetningu skráa á tölvubúnaði sínum, enda mætt til skýrslutökunar í þeirri trú að yfirheyra ætti hann um það sakarefni sem honum hafði verið kynnt við upphaf skýrslutökunnar og við fyrri skýrslutöku.

                A lögreglumaður staðfesti fyrir dómi skýrslugerð sína í málinu og lýsti stuttlega aðkomu sinni að húsleit á heimili ákærða. Staðfesti hann m.a. að hluti haldlagðra muna hafi fundist í læstum peningaskáp, þar á meðal umræddur harður diskur og glerglös með stungulyfjum. 

                B, rannsóknarlögreglumaður í ofbeldis- og kynferðisbrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti fyrir dómi skýrslu sína um „myndskoðun“, dags. 26. febrúar 2013, og gerði nánari grein fyrir athugun sinni á innihaldi haldlagðra tölvugagna, meðal annars á Hardoox utanáliggjandi hörðum diski. Vitnið staðfesti að á disknum hafi fundist gríðarlega mikið magn af „venjulegu“ klámefni, auk þeirra 11 myndskeiða sem fundist hafi í möppunni „Young“. Efni disksins hafi verið á nokkuð mörgum skrám en aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hve margar möppurnar hafi verið sem mappan „Young“ hafi verið innan um. Möppurnar hafi raðast í stafrófsröð, þannig að sú mappa hafi verið neðarlega. Staðfesti vitnið einnig að fleiri skrár hafi verið í möppunni „Young“ en umræddar 11 skrár. 

                Fram kom að greining vitnisins á aldri þeirra sem fram komi á myndskeiðunum byggi á þekkingu og reynslu sem vitnið hafi öðlast á námskeiðum hjá Europol og Interpol, sem og á upplýsingum úr skráarheitum myndskeiðanna. Kvað vitnið engan vafa leika á um það í sínum huga að myndskeiðin 11 sýni börn undir 18 ára aldri á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Aðspurt kvaðst vitnið minnast „naturista“-myndskeiða á geisladiskum, en ekki þess að mappan „Young“ hafi innihaldið slík myndskeið. Engin vandkvæði hafi verið við það að opna og skoða efni myndskeiðanna sem ákæran tekur til.

                Vitnið skýrði nánar upplýsingar sem fram koma í fylgiskjali með skýrslu þess um tæknileg atriði varðandi hverja og eina af skránum 11. Borið var undir vitnið að við hverja skrá kæmi fram að nákvæmlega sömu dag- og tímasetningar væru á liðunum „skrá búin til“ og „skrá síðast opnuð“. Kvaðst vitnið telja þessar dag- og tímasetningar gefa til kynna hvenær skrárnar hafi verið annað hvort afritaðar á þennan tiltekna disk eða þeim hlaðið niður á hann af vefsíðu, en kvaðst þó ekki geta fullyrt um það. Þá var borið undir vitnið að liðurinn „Skrá síðast breytt“ sýndi eldri dag- og tímasetningar en fyrrnefndu liðirnir. Vitnið kvað þennan lið sýna að átt hafi verið við skrárnar með einhverjum hætti á þeim tíma sem þar greindi og það gæti þýtt ýmislegt, t.d. nafnbreytingu skrár, afritun hennar eða niðurhal. Aðspurt af verjanda kvað vitnið mögulegt að skránum hafi verið breytt áður en þeim hafi verið hlaðið niður á umræddan Hardoox disk en þær gætu líka hafa verið fluttar á diskinn á því tímamarki sem þar greindi. Kvaðst vitnið ekki getað svarað nánari spurningum um tæknileg málefni varðandi afritun tölvugagna, enda hefði hann ekki sérþekkingu á því sviði. Þá kvaðst vitnið ekki þekkja til þess hvort efni af þessu tagi geti slæðst aukalega með öðru efni við niðurhal af svokölluðum „torrent“ síðum, t.d vefsíðunni „pirate bay“, og kvaðst ekki geta útilokað það.

III

                Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot, með því að hafa haft í vörslum sínum á Hardoox utanáliggjandi hörðum diski 11 hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, eins og nánar greinir í ákæru og er brot hans talið varða við 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012. 

                Ákærði ber því ekki við að aðrir en hann sjálfur hafi haft aðgang að umræddum diski og vistað myndskeiðin þar. Vörn ákærða byggir hins vegar á því að þessi myndskeið hljóti að hafa fyrir mistök slæðst þar inn með öðru myndefni sem hann hafi hlaðið niður af „torrent“ vefsíðum, t.d. vefsíðunni „pirate bay“, án þess að hann hafi orðið þess var, þá eða síðar, en diskurinn hafi lítið eða ekkert verið notaður í seinni tíð og líklega ekki verið ræstur síðasta árið áður en hann var haldlagður. Því skorti á að saknæmisskilyrði séu uppfyllt til að refsa megi honum fyrir brot gegn nefndu ákvæði almennra hegningarlaga, en ekki standi heimild samkvæmt því ákvæði til að refsa fyrir gáleysisbrot, sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga.

                Þótt framburður ákærða hjá lögreglu hafi ekki að öllu leyti verið svo skýr sem skildi, verður ekki séð að hann hafi þar játað á sig þær sakir sem honum eru gefnar í málinu. Þykir framburður hans fyrir dómi ekki svo breyttur í þeim atriðum sem máli skipta og skýringar hans á þeim breytingum ekki svo ófullnægjandi eða ósennilegar að þeim verði vísað á bug. Þvert á móti verður ekki annað séð en að ákærði hafi fyrir dómi leitast eftir fremsta megni að svara spurningum ákæruvaldsins, m.a. um tæknileg málefni, og gefa skýringar á sakarneitun sinni. Verður framburður ákærða fyrir dómi hvorki metinn ótrúverðugur né óstöðugur.

                Óumdeilt er og sannað að myndskeiðin sem ákæran tekur til sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Jafnframt er óumdeilt og sannað að myndskeiðin fundust á hörðum diski sem geymdur var í læstum peningaskáp á heimili ákærða og voru þau þannig hlutlægt séð í vörslum hans.

                Þegar litið er til þeirra sönnunargagna sem ákæruvaldið hefur fært fram í málinu og sérstaklega til þess að einungis er um 11 myndskeið að ræða, sem vistuð voru í einni og sömu möppunni, innan um „gríðarlega mikið magn“ annars efnis á disknum, þykir með vísan til alls framanritaðs og gegn eindreginni sakarneitun ákærða, ekki hafið yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að saknæmisskilyrði 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 18. gr. sömu laga, séu uppfyllt. Af því leiðir að sýkna ber ákærða af refsikröfu ákæruvaldsins.

                Ákærði hefur ekki mótmælt upptökukröfum ákæruvaldsins. Í ljósi þess að umræddur utanáliggjandi harður diskur af gerðinni Hardoox inniheldur myndefni sem hlutlægt séð brýtur ótvírætt í bága við nefnt ákvæði almennra hegningarlaga þykja skilyrði uppfyllt til þess að taka megi til greina kröfu ákæruvaldsins um upptöku hans, sbr. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. sömu laga. Ekki þykir þörf á að kveða jafnframt sérstaklega á um upptöku framangreinds myndefnis sem á disknum fannst. Þá verður, með vísan til 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku á 10 ml af Nandrolon stungulyfi og 10 ml af Sustanon stungulyfi.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins um refsiþátt þess skal allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., þykja hæfilega ákveðin 376.500 krónur. Taka þau mið af störfum verjandans á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi og hefur jafnframt verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Auk þess ber verjandanum greiðsla vegna flugfars og kostnaðar af mætingu annars lögmanns fyrir dómi, samtals 58.139 krónur. Þá bera gögn málsins með sér að ákærði hafi við upphaf rannsóknar málsins notið aðstoðar tilnefnds verjanda, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem ekki verður séð að hann hafi fengið greitt fyrir og þykir þóknun hans vegna þeirra starfa hæfilega ákveðin 25.100 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum, klukkan 11:30 föstudaginn 20. desember 2013. Við dómsuppsögu var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en dómsuppsaga dróst lítillega framyfir lögbundinn frest vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.

Ákærði sæti upptöku á utanáliggjandi hörðum diski af gerðinni Hardoox, 10 ml af Nandrolon stungulyfi og 10 ml af Sustanon stungulyfi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 376.500 krónur og kostnaður verjandans, 58.139 krónur. Einnig er þar meðtalin þóknun Brynjólfs Eyvindssonar hdl., tilnefnds verjanda ákærða við upphaf rannsóknar málsins, 25.100 krónur.