Hæstiréttur íslands

Mál nr. 611/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnsök
  • Sakarefni
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Föstudaginn 13

 

Föstudaginn 13. nóvember 2009.

Nr. 611/2009.

Sveinbjörn Sigurðsson hf.

(Garðar Briem hrl.)

gegn

Glym fasteignum ehf.

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

 

Kærumál. Gagnsök. Sakarefni. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

S hf. kærði frávísun héraðsdóms á hluta gagnsakar sem hann höfðaði á hendur G ehf. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að krafa G ehf. í aðalsök og krafa S hf. í gagnsök væru báðar um greiðslu skuldar og yrðu báðar efndar með peningagreiðslu. Þær væru því samkynja í skilningi 28. gr. laga nr. 91/1991 og mætti af þeim sökum hafa þær uppi í einu og sama máli án tillits til þess hvort þær væru af sömu rót runnar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka gagnsökina í heild til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2009, þar sem gagnsök, sem sóknaraðili höfðaði í máli varnaraðila á hendur honum, var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka gagnsök hans í heild til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemst því krafa hans um breytingu á ákvæði úrskurðarins um málskostnað ekki að fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál þetta til heimtu skuldar úr hendi sóknaraðila að fjárhæð 1.238.924 krónur og var það þingfest 8. apríl 2009. Skuld þessa kvað varnaraðili eiga rætur að rekja til reiknings, sem hann hafi gefið út 19. desember 2008 fyrir hluta verklauna samkvæmt verksamningi aðilanna frá 30. október sama ár. Sóknaraðili höfðaði gagnsök í málinu 5. maí 2009 og krafðist að varnaraðila yrði gert að greiða sér 3.408.336 krónur. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila andmælti hann ekki kröfu varnaraðila í aðalsök með öðru en því að hann taldi hana greidda á þann hátt að hann hafi veitt varnaraðila peningalán að fjárhæð 4.000.000 krónur með innborgun á bankareikning hans 24. nóvember 2008, sem að hluta hafi átt að mæta áðurnefndri reikningskröfu. Að greiddum reikningnum, sem sóknaraðili miðar ranglega við að hafi numið 1.238.294 krónum, hafi staðið eftir af fjárhæð lánsins 2.761.706 krónur. Þá hafi varnaraðili horfið frá verki samkvæmt samningi þeirra frá 30. október 2008 og kostnaður sóknaraðila af því að ljúka verkinu orðið 646.630 krónum hærri en umsamin verklaun til varnaraðila hafi átt að verða. Samanlagðar nema síðastgreindar tvær fjárhæðir kröfu sóknaraðila í gagnsök. Með hinum kærða úrskurði var vísað frá héraðsdómi þeim hluta kröfu sóknaraðila, sem sneri að greiðslu á 2.761.706 krónum, en hafnað á hinn bóginn kröfu varnaraðila um frávísun kröfunnar að öðru leyti.

Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 er stefnda fyrir héraðsdómi heimilt að höfða gagnsök í máli til að hafa uppi gagnkröfu til sjálfstæðs dóms og eftir atvikum skuldajafnaðar við kröfu í aðalsök. Þessi heimild er háð því að krafa í gagnsök sé annaðhvort samkynja kröfu í aðalsök eða þær eigi báðar rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, nema samið hafi verið um að sækja mætti gagnkröfuna í sama máli og aðalkröfuna. Í máli þessu eru krafa varnaraðila í aðalsök og krafa sóknaraðila í gagnsök um greiðslu skuldar og yrðu þær báðar efndar með peningagreiðslu. Þessar kröfur eru því samkynja í skilningi 28. gr. laga nr. 91/1991 og má af þeim sökum hafa þær uppi í einu og sama máli án tillits til þess hvort þær séu af sömu rót runnar. Eru því ekki efni til að vísa gagnsök sóknaraðila frá dómi að hluta með þeim rökum, sem færð eru í hinum kærða úrskurði. Hann verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka gagnsökina í heild til efnismeðferðar.

Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði bíði efnisdóms í málinu, en varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu sóknaraðila, Sveinbjörns Sigurðssonar hf., í gagnsök í heild til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Glymur fasteignir ehf., greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2009.

I.

Mál þetta er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 31. mars 2009 af Glymi fasteignum ehf., Öldugötu 18, Hafnarfirði, á hendur Sveinbirni Sigurðssyni hf., Smiðshöfða 7, Reykjavík. Málið var þingfest 8. apríl sl. Með gagnstefnu áritaðri um birtingu 5. maí sl. höfðaði aðalstefndi gagnsakarmál á hendur aðalstefnanda. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu gagnstefnda 17. september sl.

Dómkröfur aðalstefnanda eru þær að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða reikningsskuld að fjárhæð 1.238.924 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 19. desember 2008 til greiðsludags. Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar.

Aðalstefndi krefst sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.

Í gagnsök gerir gagnstefnandi þær kröfur að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda kröfu að fjárhæð 3.408.336 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 2.761.706 krónum frá 2. apríl 2009 til birtingardags gagnstefnunnar og af 3.408.336 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefnda.

Gagnstefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að gagnstefndi verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda og að gagnstefnandi verði dæmdur til að greiða gagnstefnda málskostnað að skaðlausu.

II.

Helstu málavextir eru þeir, að aðalstefnandi og gagnstefnandi gerðu með sér verksamning dagsettan 30. október 2008. Aðalstefnandi tók að sér járnavinnu sem undirverktaki gagnstefnanda við íþróttamannvirki á Seltjarnarnesi. Innifalið í verkinu skyldi vera allt efni, sem þarf til verksins, stál, zinkhúðun, smíði, flutningur, uppsetning og afrétting ásamt öllum tækjum og tólum. Ekki er ágreiningur milli aðila um ákvæði samningsins. Verklaun gagnstefnanda samkvæmt verksamningnum skyldu vera  3.570.000 krónur með virðisaukaskatti. Aðalstefnandi gaf út reikning þann 19. desember 2008 á hendur gagnstefnanda að fjárhæð 1.238.924 krónur vegna umsaminnar vinnu. Gagnstefnandi mótmælir ekki reikningnum en telur hann greiddan.

Þann 30. desember 2008 var gagnstefnanda sent innheimtubréf vegna umstefndrar skuldar. Lögmaður gagnstefnanda svaraði innheimtubréfinu í bréfi, sem dagsett er 7. mars 2008 en ljóst þykir að það hafi verið samið í ársbyrjun 2009. Þar koma fram þau sjónarmið gagnstefnanda að umstefndur reikningur aðalstefnanda hafi verið greiddur með innborgun gagnstefnanda inn á reikning aðalstefnanda þann 24. nóvember 2008 að fjárhæð 4.000.000 krónur. Hafi verið um að ræða lánsfé sem hafi átt að skuldajafna á móti umstefndri skuld við verklok.

Í greinargerð gagnstefnanda í aðalsök lýsir gagnstefnandi aðdraganda lánveitingarinnar þannig, að framkvæmdastjóri aðalstefnanda hafi komið að máli við fjármálastjóra gagnstefnanda og óskað eftir greiðslu frá gagnstefnanda vegna verka fyrir hann en auk þess verks, sem mál þetta snýst um, hafi aðalstefnandi verið með verk í gangi á Akranesi fyrir gagnstefnanda, sem unnið var í nafni annars félags, þ.e. Stáls í stál slf. Hafi framkvæmdastjóri aðalstefnanda verið í öngum sínum þennan dag þar sem hann gat ekki staðið skil á launum til erlendra starfsmanna sinna, sem voru í vinnu í verkum fyrirtækja í rekstri hans. Hefði orðið að samkomulagi milli framkvæmdastjóra aðalstefnanda og fjármálastjóra gagnstefnanda að aðalstefnanda skyldi greidd umrædd fjárhæð, 4.000.000 krónur. Segir í greinargerðinni að með greiðslunni hafi framkvæmdastjóra aðalstefnanda verið gerður greiði með þeim hætti að lána aðalstefnanda peningana, sem eftir atvikum gat lánað þá eða ráðstafað þeim milli fyrirtækja sinna með þeim hætti, sem hann kysi, en uppgjör myndi síðan fara fram við verklok verksins á Seltjarnarnesi.

Af hálfu aðalstefnanda er því mótmælt að umrætt lán hafi verið greiðsla inn á verk samkvæmt framlögðum verksamningi aðila, heldur hafi verið um að ræða greiðslu til Stáls í stál slf. Lögmaður aðalstefnanda ritaði lögmanni gagnstefnanda bréf 8. janúar 2009 þar sem hann áréttar þetta og kveður lögmann gagnstefnanda hafa, í bréfi sínu frá 7. sama mánaðar, hafa ruglað saman óskyldum málum og aðilum.

Í bréfi lögmanns gagnstefnanda til lögmanns aðalstefnanda dagsettu 26. mars sl. kemur fram að sérfræðingur, sem skipaður hafi verið af báðum aðilum, hafi skilað stöðuúttekt vegna verksins og starfsmenn gagnstefnanda hafi hafist handa við að ljúka því. Segir síðan að aðalstefnandi hafi ekki haft bolmagn til þess að fjármagna verkið og að gagnstefnandi hafi því greitt eftirfarandi:

Guðmundur Arason smíðajárn

kr. 630.618

Ferro Zink

    807.722

Zinkstöðin

    452.831

Samtals                                                             

kr. 1.891.171

Síðan segir að útgefinn reikningur að fjárhæð 1.238.294 krónur hafi verið yfirfarinn af gagnstefnanda og samþykktur. Nemi sú fjárhæð að viðbættum 1.891.171 krónum samtals 3.129.465 krónum. Heildar samningsfjárhæðin hafi numið 3.570.000 krónum og því nemi eftirstöðvar til framkvæmda við að ljúka verkinu 440.535 krónum. Loks er vísað til þess að gagnstefnandi hafi veitt aðalstefnanda lán að fjárhæð 4.000.000 krónur og viðurkennt reikning aðalstefnanda að fjárhæð 1.238.294 krónur. Nemi skuld aðalstefnanda við gagnstefnanda því 2.761.706 krónum og þess krafist að skuldin verði greidd innan 7 daga frá dagsetningu bréfsins.

Í gagnstefnu sundurliðar gagnstefnandi kröfu sína í fyrsta lagi þannig að 2.761.706 krónur séu mismunur á láni gagnstefnanda til aðalstefnanda að fjárhæð 4.000.000 krónur og samþykktum reikningi aðalstefnanda að fjárhæð 1.238.294 krónur. Því til viðbótar krefst gagnstefnandi greiðslu á 646.630 krónum. Síðastgreind fjárhæð sé fundin þannig að um sé að ræða greiðslu gagnstefnanda á reikningum vegna verksins að fjárhæð 1.891.171 krónur og umstefndan reikning að fjárhæð 1.238.294 krónur, sem gagnstefnandi hafi þegar greitt með hluta lánsins að fjárhæð 4.000.000 krónur. Þessar tölur, samtals 3.129.465 krónur, séu hluti af samningsfjárhæðinni 3.570.000 krónur og hafi því staðið eftir af þeirri fjárhæð 440.535 krónur. Hins vegar hafi sú fjárhæð ekki dugað til þess að ljúka verkinu og raunverulegur kostnaður gagnstefnanda við það verk hafi numið 1.087.165 krónum. Þegar eftirstöðvar upphaflegs samningsverðs að fjárhæð 440.535 krónur séu dregnar frá raunverulegum kostnaði gagnstefnanda, standi eftir 646.630 krónur sem gagnstefnandi geri kröfu um úr hendi aðalstefnanda. Nemi höfuðstóll heildarkröfu gagnstefnanda því 3.408.336 krónum.

Í greinargerð í gagnsök hefur aðalstefnandi mótmælt gagnkröfunni. Þá mótmælir hann því að greiðsla gagnstefnanda að fjárhæð 4.000.000 krónur inn á reikning aðalstefnanda hafi verið samkvæmt framlögðum verksamningi aðila vegna umsamins verks á Seltjarnarnesi. Umrædd innborgun hafi verið vegna verksamnings gagnstefnanda við Stál í stál slf. vegna verks á Akranesi sem það fyrirtæki hafi gert gagnstefnanda reikning fyrir, sem dagsettur er 23. nóvember 2008 að fjárhæð 5.248.680.

III.

Aðalstefnandi byggir aðalkröfu sína um frávísun gagnsakarmálsins á því að gagnkröfur gagnstefnanda eigi ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og krafa aðalstefnanda í aðalsök er byggð á. Þá hafi ekki verið samið um að sækja mætti gagnkröfuna í máli um aðalkröfuna.

Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna vísaði gagnstefnandi til þess að í gagnstefnu væri krafist greiðslu á því, sem gagnstefnandi greiddi aðalstefnanda og var umfram umstefnda skuld, auk þess sem hann krefðist greiðslu á kostnaði þeim, sem hann hafði af því að ljúka verkinu samkvæmt framlögðum verksamningi aðila. Kröfur þessar séu samrættar og eigi sér báðar stoð framlögðum verksamningi. Þá tók gagnstefnandi fram að aldrei hefði staðið til að greiða umræddar 4.000.000 krónur til Stáls í stál slf., enda hefði innborgunin verið greidd inn á reikning aðalstefnanda.

IV.

Í þessum þætti málsins er eingöngu til úrlausnar krafa aðalstefnanda um frávísun á kröfum gagnstefnanda í gagnsök.

Samkvæmt framlögðu dómskjali nr. 10 voru 4.000.000 krónur greiddar inn á reikning aðalstefnanda og er óumdeilt að sú greiðsla var innt af hendi af hálfu gagnstefnanda þann 24. nóvember 2008. Engar skýringar á greiðslunni er hins vegar að finna í umræddu skjali. Aðalstefnandi heldur því fram að þetta hafi verið greiðsla vegna reiknings útgefnum af Stáli í stál slf. á hendur gagnstefnanda, dagsettum 23. nóvember sama ár, að fjárhæð 5.248.680 krónur en gagnstefnandi heldur því fram að um hafi verið að ræða lán til aðalstefnanda, sem skuldajafnað skyldi á móti við uppgjör við verklok samkvæmt verksamningi aðila. Að þessu virtu verður ekki séð að sá hluti kröfugerðar gagnstefnanda í gagnstefnu, sem reistur er á ætlaðri lánveitingu gagnstefnanda til aðalstefnanda, eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og verksamningur sá, sem krafa aðalstefnanda er sprottin af. Verður þeim hluta kröfugerðar gagnstefnanda, sem lýtur að lánveitingu gagnstefnanda til aðalstefnanda, því vísað frá dómi.

Öðru máli gegnir hins vegar um þann hluta kröfugerðar gagnstefnanda, sem lýtur að því að verkið, sem aðilar sömdu um í umstefndum verksamningi, hafi haft í för með sér hærri kostnað fyrir hann. Ljóst er að þessi kröfuliður á rætur að rekja til sama verksamnings og kröfugerð aðalstefnanda byggist á. Verður því að hafna kröfu aðalstefnanda um frávísun að því er þennan kröfulið varðar.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í málinu.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfu gagnstefnanda, Sveinbjörns Sigurðssonar hf., að höfuðstól 2.761.706 krónur er vísað frá dómi.

Hafnað er frávísunarkröfu aðalstefnanda, Glyms fasteigna ehf., að því er varðar kröfu gagnstefnanda, Sveinbjörns Sigurðssonar hf., að höfuðstól 646.630 krónur.

Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.