Hæstiréttur íslands
Mál nr. 84/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 3. mars 1999. |
|
Nr. 84/1999. |
Ríkislögreglustjóri (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Halldór Jónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var grunaður um að hafa aðstoðað Y við brot gegn 248. gr. og 250. gr. almennra hegningarlaga. Var því haldið fram að þessi háttsemi gæti varðað við framangreind lagaákvæði eða 254. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997. Talið var að skilyrði væru fyrir hendi til að telja að rökstuddur grunur beindist að X um að hann hefði framið verknað sem fangelsisrefsing lægi við. Þar sem verulegs ósamræmis gætti milli framburðar X og Y var fallist á að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, væri fullnægt, til að hrinda úrskurði héraðsdómara, og verða við kröfu um að X sætti gæsluvarðahaldi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. mars nk. kl. 16.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði beinist grunur að varnaraðila um að hann hafi aðstoðað Y við stórfelld brot gegn 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Telur sóknaraðili þessa ætluðu háttsemi varnaraðila geta varðað við framangreind lagaákvæði eða 254. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997. Fyrir liggur að talsverðar fjárhæðir hafa gengið á milli varnaraðila og Y á því tímabili, sem sóknaraðili telur ætluð brot þess síðarnefnda hafa verið framin, auk þess að varnaraðili hefur borið að hann hafi átt ýmis samskipti við Y 22. febrúar 1999, en þann dag tók sá síðarnefndi verulega fjármuni af bankareikningum sínum hér á landi og var handtekinn við för úr landi. Má fallast á að með þessu sé fullnægt því skilyrði að rökstuddur grunur beinist að varnaraðila um að hann hafi framið verknað, sem fangelsisrefsing er lögð við.
Framburði varnaraðila og Y ber ekki saman um hvaða samskipti þeir hafi átt sín á milli, auk þess að verulegs ósamræmis gætir í frásögnum þeirra um hvort aðrir hafi verið með þeim í för 22. febrúar sl. Sóknaraðili kveðst nú leita tveggja erlendra manna, sem grunur sé um að hafi veitt varnaraðila og Y liðveislu við ætluð brot, en ekki sé vitað til þess að þeir hafi komist úr landi. Þótt varnaraðili hafi nú verið frjáls ferða sinna frá því að hinn kærði úrskurður gekk hinn 26. febrúar sl. verður í ljósi fyrirliggjandi gagna að telja skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 allt að einu vera fullnægt til að verða við kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald, eins og í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. mars nk. kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 1999.
Ár 1999, föstudaginn 26. febrúar er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Páli Þorsteinssyni héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að kærða, X, verði með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. mars nk. kl. 16.00.
[...]
Ekki verður séð af framlögðum gögnum að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins. Mál þetta fjallar um fjárhæðir sem hafa horfið. Ekkert bendir sérstaklega til þess að fjármunir þessir séu í vörslu eða yfirráðum kærða eða að hann geti ráðstafað þeim. Með vísan til þessa ber að synja kröfu ríkislögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu ríkislögreglustjóra um að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.