Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 25. mars 2008. |
|
Nr. 159/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X(Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 27. mars 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. mars 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjanesbæ, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 27. mars 2008. kl.16:00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess til vara að henni verði markaður skemmri tími.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að við eftirlit lögreglu í Reykjanesbæ síðastliðna nótt haf lögregla haft afskipti af kærða og A er þeir hafi verið að setjast upp í leigubifreið við Suðurgötu í Reykjanesbæ. Líkamsleit hafi farið fram á kærða og kærði þá afhent lögreglu rúllu með sellófani og lítið glas með meintu marihújana. Við leit í bifreiðinni hafi fundist um 400 ecstscy töflur í hólfi aftan á sæti ökumanns. Við húsleit hjá kærða A hafi fundist umbúðir sem lögreglan teldi vera umbúðir utan af töflunum.
Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og m.a. þurfi að yfirheyra kærðu frekar en þeir hafi alfarið neitað sök og kannist ekki við að eiga umræddar töflur. Þá þurfi að rannsaka fingraför á umbúðunum, hverskonar efni þetta séu og fleiri atriði er tengist rannsókninni. Magn fíkniefnanna þyki benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Háttsemi ákærða kunni því að varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögreglan telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Af öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er á frumstigi og eftir að yfirheyra kærða og hugsanlega vitorðsmenn. Verður talið að uppfyllt sé skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 27. mars 2008, kl. 16.00.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 27. mars 2008, kl. 16:00.