Hæstiréttur íslands

Mál nr. 130/2005


Lykilorð

  • Manndráp
  • Tilraun
  • Líkamsárás
  • Ómerking héraðsdóms


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. október 2005.

Nr. 130/2005.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Manndráp. Tilraun. Líkamsárás. Ómerking héraðsdóms.

X var ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa lagt til A með eggvopni þar sem sá síðarnefndi sat við opinn glugga í ökumannssæti leigubifreiðar við Y og beið greiðslu á ökugjaldi frá X. Hlaut A 18 cm langan skurð vinstra megin á hálsi við atlöguna. Í dómi meirihluta í héraði var komist að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri X af ákærunni þar sem enginn hafði séð hver veitti A áverkann auk þess sem annmarkar voru taldir vera á rannsókn lögreglu í málinu og vitnið, E, sem bjó á efstu hæð að Y, hafði borið fyrir dómi að hann hefði séð tvo menn hlaupa af vettvangi. Ekki var fallist á það með meirihluta héraðsdóms að ákveðnir þættir í rannsókn lögreglu á málinu gæfu tilefni til að álykta að hún hefði verið haldin annmörkum. Enn fremur var talið að ástæða hefði verið  til að fylgja tilteknum atriðum nánar eftir við meðferð málsins í héraði auk þess sem í niðurstöðu meirihluta í héraði hefði ekki verið tekið tillit til framburðar B í heild fyrir dómi en hann hafði setið í farþegasæti við hlið A þegar atlagan átti sér stað. Af þessum sökum þótti óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2005 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

Með ákæru í máli þessu 30. nóvember 2004 er ákærða aðallega gefin að sök tilraun til manndráps, en til vara sérstaklega hættuleg líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt 27. júlí 2004 við Y [...] í Reykjavík fyrirvaralaust lagt til A með óþekktu eggvopni, þar sem A hafi setið við opinn glugga í ökumannssæti leigubifreiðar og beðið greiðslu á ökugjaldi frá ákærða, sem hafi staðið fyrir utan bifreiðina, en af þessu hafi A hlotið 18 cm langan skurð vinstra megin á hálsi. Af hálfu ákæruvaldsins er þessi verknaður talinn varða aðallega við 211. gr., sbr. 20. gr., en til vara 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Samkvæmt gögnum málsins átti atvikið, sem ákærði er sakaður um, þann aðdraganda að A sinnti kalli eftir leigubifreið að Ingólfstorgi í Reykjavík um kl. 1.15 fyrrnefnda nótt. Komu þar upp í bifreiðina ákærði ásamt B, C og D, sem verið höfðu saman á veitingahúsi og voru allir verulega ölvaðir. Fyrir liggur að B settist í farþegasæti frammi í bifreiðinni, en hinir þrír í aftursæti og mun ákærði hafa verið beint fyrir aftan ökumanninn. A ók með farþegana að heimili B að Z við Ægisíðu, þar sem B fór inn stutta stund, en síðan á Y, þar sem A var beðinn um að stöðva bifreiðina á móts við hús númer [...].

Fyrir dómi lýsti A atburðum eftir þetta á þann veg að C og D hafi farið strax út úr bifreiðinni og horfið sjónum sínum. Taldi hann þá hafa farið að yfirgefnu húsi andspænis Y [...]. Ákærði hafi síðan farið út úr bifreiðinni, en B enn verið í farþegasætinu frammi í henni. Hafi ákærði og B átt einhver orðaskipti um að sá fyrrnefndi ætti að greiða fyrir aksturinn. A hafi opnað glugga á hurðinni við ökumannssætið til að taka við greiðslu og litið svo í átt að B, en fundið skyndilega eitthvað heitt leka niður eftir hálsinum. Hann hafi lagt hönd upp að hálsinum og um leið orðið þess var að hann hafi verið skorinn þar. Kvaðst hann hafa flýtt sér út úr bifreiðinni í átt að Y [...] til að leita skjóls og hringt í neyðarlínuna. B hafi enn verið inni í bifreiðinni, en ákærði hlaupið í burtu í átt að gatnamótum Y og Ánanausts. A kvaðst hafa komist að inngangi fyrrnefnds húss, hringt á dyrabjöllu og farið þar inn í stigagang, en séð að B hafi verið kominn út úr bifreiðinni, gengið á eftir sér og virst vera að tala í síma. Fyrir liggur í gögnum málsins að A fékk samband við neyðarlínuna kl. 1.35, en B um hálfri annarri mínútu síðar. Samkvæmt endurritum af hljóðritun þessara símtala lýstu þeir báðir árásarmanninum, en B þó mun nánar, auk þess sem hann greindi frá því að hann væri nefndur X. Á grundvelli þessarar lýsingar var ákærði handtekinn, þar sem hann var á gangi í Austurstræti kl. 1.59. Lögreglan kom á vettvang við Y kl. 1.39, en þar var B handtekinn, síðan C þar sem komið var að honum sofandi í áðurnefndu yfirgefnu húsi um hálfri klukkustund síðar, og loks D, sem kom gangandi að vettvangi fáum mínútum síðar. Þessum þremur síðastnefndu var sleppt úr haldi síðdegis 27. júlí 2004. Ákærða, sem borið hefur við minnisleysi um atburði næturinnar, var á hinn bóginn sama dag gert að sæta gæsluvarðhaldi, sem stóð samfleytt allt til þess að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp í fjölskipuðum dómi 23. febrúar 2005. Með honum var ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins með atkvæði meiri hluta dómenda.

II.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi var þar talið sannað með vitnisburði A og B að ákærði hafi verið fyrir utan leigubifreiðina þegar A var veittur áðurgreindur áverki. Hvorugt þessara vitna hafi á hinn bóginn séð hver drýgði verknaðinn og B borið að alls ekki væri útilokað að aðrir en ákærði hafi verið fyrir utan bifreiðina. Vitnið E, sem bjó að Y [...] og vaknaði um nóttina við háreysti fyrir utan húsið, hafi borið að þrír menn hafi farið frá bifreiðinni, sem bendi til að fleiri en ákærði hafi verið fyrir utan hana á þessum tíma. Að auki lægi fyrir í lögregluskýrslu um handtöku C að hann hafi haft hníf meðferðis þegar hann var færður í fangageymslu, en sá hnífur hafi ekki verið rannsakaður. Sakbending hafi ekki farið fram til að ganga úr skugga um hvort A bæri kennsl á ákærða. Fatnaður samferðarmanna ákærða hafi ekki verið rannsakaður á sama hátt og fatnaður hans, en nafngreindur læknir, sem bar vitni fyrir héraðsdómi, hafi talið líklegast að blóð hefði fundist í fötum þess, sem bar árásarvopnið eftir atlöguna, þótt alls ekki væri víst að sá hafi fengið á sig blóð. Þótti einsýnt að rannsókn á hnífnum, sem C hafði í fórum sínum, rannsókn á fatnaði samferðarmanna ákærða, vettvangsrannsókn í yfirgefna húsinu andspænis Y [...] og sakbending hefðu getað skipt miklu. Ekkert af þessu hafi verið gert, en ljóst þótti að rannsóknir þessar, ein eða fleiri, hefðu getað haft úrslitaáhrif um niðurstöðu málsins. Með því að rannsókn þess hafi samkvæmt þessu verið stórlega ábótavant og enginn hafi séð hver veitti A áverkann þótti óupplýst hver hafi átt þar í hlut. Var ákærði því sýknaður.

Engin efni eru til annars en að fallast á það mat héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi verið fyrir utan leigubifreiðina þegar A var veittur áverkinn, en samkvæmt samhljóða vitnisburði hans og B hafði ákærði þá rétt áður stigið út um dyr hennar fyrir aftan ökumanninn og síðan átt í orðaskiptum við B, þar sem ákærði stóð fyrir utan bifreiðina. Að því virtu hefði með öllu verið þarflaust að láta sakbendingu fara fram til að kanna hvort A bæri kennsl á ákærða, en þess er jafnframt að gæta að samkvæmt lögregluskýrslu voru A 4. ágúst 2004 sýndar ljósmyndir af 43 mönnum úr myndasafni lögreglunnar og vísaði hann þá á mynd af ákærða, sem hann kvað vera manninn, sem hafi veitt sér áverkann.

Samkvæmt framburði A og B fyrir dómi horfði hvorugur þeirra í átt að opnum glugga við hlið ökumanns bifreiðarinnar í þeirri andrá, sem lagt var til þess fyrrnefnda með hnífi inn um gluggann. A bar á hinn bóginn að hann væri viss um að það hafi verið ákærði, sem hafi staðið fyrir utan bifreiðina og átt að greiða fyrir aksturinn, svo og að hann hafi litið upp eftir að hann var skorinn og þá horft framan í ákærða, þar sem hann dró að sér höndina. Ekki hafi A þó séð hníf í hönd ákærða. Fyrir dómi var B spurður tvívegis í röð að því hvort aðrir en ákærði hafi verið fyrir utan bifreiðina þegar A varð fyrir árásinni og svaraði hann því bæði skiptin neitandi. Síðar við skýrslugjöfina var hann enn spurður sömu spurningar og sagðist hann engan annan hafa séð. Aðspurður um hvort hann væri „handviss um það” svaraði hann því til að hann hafi ekki getað séð annað, en þetta hafi gerst í dimmu. Í framhaldi af því bar verjandi ákærða upp svofellda spurningu: „Þú segist bara hafa séð ákærða fyrir utan bílinn, en er útilokað að það hafi verið einhver annar fyrir utan bílinn?” Svaraði B því til að það væri alls ekki útilokað. Eins og að framan greinir vísaði héraðsdómur í röksemdum fyrir niðurstöðu sinni eingöngu til þessa síðastnefnda svars B, en tók þar á hinn bóginn ekkert tillit til þess hvernig spurningin hljóðaði eða til ítrekaðrar frásagnar hans um að hann hafi engan annan séð en ákærða fyrir utan bifreiðina á þeirri stundu, sem atlagan var gerð að A.

Fyrrnefndur E bar fyrir dómi að hann hafi vaknað aðfaranótt 27. júlí 2004 við einhver læti fyrir utan heimili sitt að Y [...] og litið út um glugga, en hann var búsettur þar á efstu hæð. Hann hafi séð mannlausa leigubifreið á miðri götunni með opnar hurðir og „einhverja menn hlaupa í burtu.” Nánar tiltekið hafi hann séð „tvo menn, eða tvo eða einn labba” í átt að Y [...], einn hlaupa í átt að Ánanausti og hverfa þar fyrir horn og einn hlaupa bak við yfirgefið hús hinum megin götunnar. Þar á eftir hafi verið hringt á dyrabjöllu hjá honum, en hann ekki svarað. Nánar aðspurður sagðist E aðeins hafa séð í bakið á manninum, sem hljóp fyrir horn á Ánanausti, en auk þess manns hafi hann séð annan hlaupa bak við yfirgefna húsið og loks hafi „einn eða tveir, nei það er líklega einn maður sem fer í átt að húsinu mínu.” Ítrekað aðspurður kvaðst hann vera viss um að bifreiðarstjórinn hafi ekki verið einn þeirra, sem hann sá. Þá bar hann einnig að þegar lögregla var komin á vettvang hafi hann heyrt manninn, sem hafði gengið í átt að húsi hans, verið nefndan B. Í þessum framburði verður ekki á viðhlítandi hátt fundin stoð fyrir því að fleiri en ákærði hafi verið fyrir utan bifreiðina á þeirri stund, sem A var veittur áverkinn, svo sem ályktað er í héraðsdómi. Þá er til þess að líta að í lögregluskýrslu 29. júlí 2004 greindi E frá því að þegar hann leit út um glugga hafi hann séð einn mann standa við leigubifreiðina, en þann hafi hann síðar heyrt lögregluna kalla B. Hann hafi séð annan mann, frekar þrekvaxinn, hlaupa norður með húsagötu, sem liggi samhliða Ánanausti. Loks hafi hann séð mann „ganga bak við” yfirgefið og hrörlegt hús andspænis Y [...]. Af öðru, sem fram kom í lögregluskýrslunni, er ljóst að E hafi lýst síðastnefnda manninum þannig að átt gæti við D. Fyrir héraðsdómi voru þessi atriði í lögregluskýrslunni ekki borin sérstaklega undir E til að fá skýrlega fram hvort umræddur maður hafi verið að ganga bak við yfirgefna húsið, svo sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu, eða að hlaupa, eins og hann hafði borið fyrir dómi.

Eftir að málið hafði verið dómtekið í héraði beindi dómurinn því til ríkissaksóknara að aflað yrði gagna til að upplýsa hvað orðið hafi af vasahnífi, sem C var sagður hafa borið á sér við handtöku. Af þessu tilefni var lögð fram í málinu skýrsla rannsóknarlögreglumanns frá 6. febrúar 2005, þar sem greint var frá samtölum, sem hann hafi átt við nokkra nafngreinda lögreglumenn og fangaverði til að bregða ljósi á þetta. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð nokkur grein fyrir efni þessarar skýrslu, sem leiddi engar teljandi upplýsingar í ljós. Var því tilefni fyrir dóminn til að fylgja þessu frekar eftir með því að beina til ákæruvaldsins samkvæmt 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að leiða þá menn fyrir dóm, sem hér áttu hlut að máli, fyrst þetta atriði þótti hafa það vægi við úrlausn málsins, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi.

Við rannsókn málsins gerði lögregla ítarlega athugun á fatnaði ákærða, en fann þar ekkert blóð úr A. Sérstök rannsókn virðist á hinn bóginn ekki hafa verið gerð með tilliti til þessa á fatnaði þeirra þriggja manna, sem voru í för með ákærða. Meðal gagna málsins eru þó ljósmyndir, sem teknar voru af mönnunum þremur í framhaldi af handtöku þeirra, en af myndunum verður ráðið að hugað hafi verið að klæðaburði þeirra á frumstigi rannsóknar. Ekkert hefur komið fram um að blóðs hafi orðið vart á fatnaðinum við þá athugun. Fyrir héraðsdómi var leiddur til vættis læknir, sem annaðist A á sjúkrahúsi. Var hann meðal annars spurður að því hvort líkur væru á að sá, sem var með árásarvopnið, hafi fengið á sig blóð. Svaraði hann því til að það væri ekki endilega víst, því engar stórar æðar hafi farið í sundur við árásina. Aðspurður um hvort blóð hlyti ekki að hafa komið á vopnið sagði læknirinn að væntanlega hafi það að minnsta kosti komið á blaðið. Hvergi verður séð af vitnisburði þessa læknis að hann hafi látið í ljós þá skoðun að líklegast væri að blóð hefði fundist í fötum þess, sem borið hafi vopnið eftir árásina, svo sem haft er eftir honum í röksemdum héraðsdóms fyrir niðurstöðu sinni. Að auki verður að líta til þess að af framlögðum ljósmyndum af leigubifreiðinni, sem teknar voru á vettvangi, og gangstétt á leiðinni, sem A fór eftir árásina, er afar lítið blóð að sjá. Eru því ekki efni til að líta svo á að alvarlegir annmarkar hafi verið á rannsókn málsins vegna þess að nákvæm rannsókn hafi ekki verið gerð á fatnaði samferðarmanna ákærða.

Samkvæmt útskrift úr dagbók lögreglu, sem liggur fyrir í málinu, gengu fjórir lögreglumenn aðfaranótt 27. júlí 2004 „um [...], Y, Ánanaust að Sorpu, Nýlendugötu og miðbæinn” til að leita að vopninu, sem beitt var við árásina á A, en sú leit bar ekki árangur. Segir þar meðal annars að leitað hafi verið í „húsinu gegnt húsinu nr. [...] við [Y].” Ekki verður séð að tilefni hafi verið til að rannsaka umrætt hús í öðru skyni en að leita þar að vopninu, sem notað var við árásina, en samkvæmt framansögðu var það gert. Er því ekki unnt að fallast á með héraðsdómi að annmarki hafi verið á rannsókn málsins vegna þess að vettvangsathugun hafi ekki verið gerð í húsi þessu.

Þegar allt framangreint er virt er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar á ný, en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2005.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 30. nóvember 2004  á hendur: ,,X, [...], fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt þriðjudagsins 27. júlí 2004, við Y[...], Reykjavík, fyrirvaralaust lagt til A, með óþekktu eggvopni, þar sem A sat við opinn glugga í ökumannssæti leigubifreiðar sinnar og beið greiðslu á ökugjaldi frá ákærða sem stóð fyrir utan bifreiðina.  Hlaut A 18 sentimetra langan skurð vinstra megin á hálsi.

Telst þetta aðallega varða við 21., gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A, [...], er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 2.863.300 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. júlí til 11. september 2004 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.“

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafa sæti verulegri lækkun. Þess er krafist að meint brot ákærða verði talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist, ef dæmd verður. Þess er krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun að mati dómsins.

Málavextir eru þeir að kl. 01.36, þriðjudaginn 27. júlí sl., var lögreglan send að Y [...] hér í borg eftir að A leigubílstjóri hringdi í lögregluna og kvaðst hafa verið skorinn á háls.  Símtal A við neyðarlínuna og símtal B við neyðarlínu í sama skyni verður rakið síðar.

Í lögregluskýrslu, dagsettri ofangreindan dag, er lýst aðkomu lögreglu á vettvang.  Þar segir að lögreglan hafi hitt fyrir B, sem hafi verið fyrir utan leigubifreið A sem hafi komið gangandi frá húsinu nr. [...] við Y. Í skýrslunni er lýst skurði á hálsi A og ráðstöfunum löreglu og sjúkraliðs, en A var skömmu síðar fluttur á slysadeild.  Segir í skýrslunni að A hafi allan tímann verið með fulla meðvitund. Á leið á slysadeild hafi hann greint svo frá málavöxtum að hann hafi verið sendur á bíl sínum að Hlöllabátum við Ingólfstorg fyrr um kvöldið. Þar hafi hann tekið upp í bifreið sína fjóra menn.  Kom fram hjá A að hann þekkti tvo mannanna, þá B og C.  Hina tvo mennina þekkti A ekki, en annar þeirra var Spánverji, en hinn Íslendingur.  Lýsti A akstri sínum með mennina, fyrst að Z, og þaðan, að ósk mannanna, vestast á Y.  Er þangað kom hafi allir mennirnir farið út úr bílnum nema B, sem hafi setið í farþegasæti við hlið A.  Kvaðst A hafa séð C og Spánverjann fara inn í hús hægra megin við götuna, en fjórði maðurinn hafi staðið fyrir utan bílinn vinstra megin.  Hafi B kallað á þann mann og sagt að hann ætti að greiða bílinn og kvað A rúðuna hafa verið skrúfaða alveg niður í þessu skyni.  Kvaðst A hafa litið af manninum, en séð hann fyrir utan bílinn fara með hendur í vasa, og hafa talið að hann væri að sækja peninga.  Lýsti A því að hann hafi skyndilega fundið hita leggja niður háls sér og niður á brjóstkassa og hafi hann séð að B hafi verið undrandi á svip.  Þessu næst kvaðst A hafa lagt hendina á háls sér og er hann sá að sér blæddi hafi hann rokið út úr bílnum og hraðað sér að stigagangi hússins nr. [...] við Y, þar sem hann hafi hringt á lögreglu og einnig á dyrabjöllum í anddyri hússins.  A kvað lögregluna hafa komið stuttu síðar og lýsti hann því er hann fann mátt sinn minnka og hafi hann lagst á götuna, þar sem lögreglan hlúði að honum.  A kvað manninn sem skar hann hafa, til að byrja með, staðið kyrran við bílinn, en síðan hafi hann hlaupið í norðurátt að Ánanaustum.  Kvaðst A viss um að sá Íslendinganna í bílnum, sem hann þekkti ekki, hafi skorið sig og lýsti hann manninum þannig að hann væri um fimmtugt, feitlaginn með yfirskegg og hárið dökkt, en farið að þynnast á hvirfli.  Hann hafi verið klæddur dökkum buxum og ljósri skyrtu, hugsanlega með mynstri, en ekki hafi hann verið í yfirhöfn. 

Þá er í skýrslunni greint frá frásögn B af atburðum.  Kvaðst B hafa verið í leigbílnum ásamt þremur öðrum mönnum, þeim C, X, sem er ákærði, og spænskum manni. Allir hafi verið farnir úr bílnum við Y [...], þar sem til stóð að hleypa þeim út.  Kvaðst B síðan ekki hafa vitað fyrr en búið var að skera leigubílstjórann á háls og sá sem það gerði sé kallaður X, um fjörutíu ára gamall, dökkhærður, klæddur bláum fötum.  Hafi X hlaupið á brott í áttina að Grandanum. 

B, C og D, sem allir voru í bílnum, voru handteknir á vettvangi, C í yfirgefnu húsi gegnt Y [...]. Fram kemur í skýrslu lögreglu að hann hafi verið mjög ölvaður og ekki hægt að ræða við hann um málið. D hafi stuttu síðar komið gangandi eftir Y, ofurölvi og óviðræðuhæfur. 

Í skýrslunni er síðan lýst aðgerðum lögreglu til að hafa uppi á ákærða X.  Var hann handtekinn í Austurstræti kl. 01.59 um nóttina, en í skýrslunni segir að útlit og klæðnaður hans hafi komið heim og saman við lýsingu, sem gefin hafi verið á árásarmanni. 

Leit lögreglu af árásarvopni bar ekki árangur, en leitað var í nálægum götum, í ruslatunnum og á opnum svæðum og í yfirgefnum húsum. 

Ákærði mundi lítið frá atburðum þann tíma, sem í ákæru greinir, er teknar voru skýrslur af honum hjá lögreglunni. 

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir.

Ákærði neitar sök.  Fram kom hjá honum að hann man lítið eftir atburðum þessa nótt og kvað hann mjög algengt að minnisleysi fylgi áfengisdrykkju sinni, en ákærði var ölvaður þessa nótt.  Lýsti hann því að hann muni brot, þar sem hann hafi verið staddur við fjölbýlishús við Y þessa nótt.  Hann hafi áttað sig á því að hann væri ekki við heimili sitt og hafi hann þá gengið í burtu og muni hann er maður kom gangandi að ákærða haldandi um háls sér og hafi hann sagt ,,þeir skáru mig.“  Ákærði kvaðst muna að hafa spurt „hvað segirðu?“ og maðurinn hafi þá svarað ,,einhver skar mig“ og hafi hann haldið um blóðugan hálsinn uns maðurinn gekk í áttina að fjölbýlishúsinu og reyndi að ná síma úr vasa sínum.  Ákærði kvaðst viss um að eiga ekki sök á áverkunum sem maðurinn bar þar sem ákærði hafi komið á móti manninum, sem þá þegar hafði hlotið áverkann á háls.  Kvaðst ákærði hafa hugsað að til stæði að drepa sig einnig og eina hugsunin sem skotið hafi upp í huga sér hafi verið sú að flýja, en hann kvaðst ekki muna hvert hann fór.

Næst kvaðst ákærði muna eftir sér á lögreglustöðinni.  Hann kvaðst ekki muna hverjir voru með honum í för á þessum tíma. Gögn málsins og annar framburður hjá lögreglu var kynntur ákærða um þetta, en ákærði mundi ekkert.  Ákærði mundi hins vegar eftir því að hafa hitt B og C að kvöldi 26. júlí sl., er hann kom að Kaffi Austurstræti um kl. 20.00 það kvöld, þar sem þeir drukku saman áfengi.

Vitnið A kvaðst hafa verið sendur að Hlöllabátum laust fyrir kl. 01.00 þessa nótt.  Inn í leigubílinn hafi komið fjórir menn, en það voru mennirnir sem A greindi lögreglunni frá í upphafi á vettvangi og lýst var í frumskýrslu lögreglu, sem rakin var að framan.  Lýsti A því er hann ók með mennina að Z að heimili B, sem hafi farið þar inn.  A lýsti því að ákærði hafi gengið heimreiðina frá Z áleiðis út á Ægisíðu, en A kvaðst hafa spurt ákærða hvort hann vildi ekki koma aftur inn í bílinn, sem hann hafi gert.  Þessu næst var A beðinn um að aka með mennina vestast á Y, sem hann gerði.  A skýrði útprentun úr tölvu, þar sem fram kemur akstursleið bifreiðarinnar þann tíma, sem hér um ræðir en ökuferðinni lauk á Y kl. 01.36 samkvæmt framangreindri tölvuútskrift. Er þangað var komið hafi C og Spánverjinn, sem var í för með þeim, farið út úr bílnum og hafi þeir horfið sjónum A.  Lýsti A því að ákærði og B hafi átt orðastað um það að ákærði ætti að greiða fyrir bílinn, en ákærði hafi þá verið farinn út úr bílnum.  A kvaðst þá hafa skrúfað rúðuna á bíl sínum niður, en B hafi setið mjög ölvaður við hlið sér í framsæti og ákærði staðið fyrir utan bílinn.  Lýsti A því er hann leit til hægri og fann þá eitthvað heitt leka niður hálsinn á sér. Er hann athugaði hvers kyns var hafi hann rekið fingur á vinstri hendi inn í hálsinn og orðið alblóðugur.  Kvaðst A hafa litið upp og séð ákærða yggldan á svip vera að draga höndina að sér.  Kvaðst A viss um að ákærði hefði veitt honum áverkann, sem lýst er í ákærunni, en ákærði hafi verið einn fyrir utan bifreiðina.  Kvaðst A hafa reynt að rifja atburðinn upp og þá hvort hann hafi séð ákærða halda á einhverju, en hann sé ekki viss um það.  A lýsti viðbrögðum sínum eftir þetta og hvað hann hafi gert til að stöðva blæðinguna. Þá hafi hann losað öryggisbeltið, farið út úr bílnum og að húsinu Y. Hann hafi strax hringt í Neyðarlínuna og enn verið í símanum er lögreglan kom á vettvang. 

Að sögn A var B enn inni í leigubílnum, en ákærði hafi hlaupið á brott í norðurátt. 

A lýsti ákærða hjá lögreglu, bæði klæðaburði hans og útliti. Hann greindi þá svo frá að ákærði væri með skalla eða þunnhærður.  Fyrir dóminum kvað A sér hafa virst að hár ákærða væri tekið að þynnast efst á hvirflinum. 

A staðfesti lýsinguna, sem hann gaf lögreglunni af ákærða, en hún hafi verið gefin eftir bestu samvisku. Þá staðfesti A að hafa við myndsakbendingu hjá lögreglu tekið út ljósmynd af ákærða, en lagðar voru fyrir hann ljósmyndir af 43 einstaklingum. 

A lýsti afleiðingum þessa atburðar á líf sitt, sem hann kvað hafa verið miklar.

Eins og rakið var hringdi A í Neyðarlínuna. Samkvæmt gögnum Neyðarlínunnar hringdi A kl. 01.35.01 og tilkynnti árásina. Í símtali A við Neyðarlínuna skýrði hann svo frá í upphafi samtalsins að hann hafi verið skorinn á háls af „einhverjum rónum“. Síðar kemur fram hjá A að hann telji sig vita hver árásarmaðurinn sé. A greindi frá fjórum farþegum sem voru í leigubifreið hans og að B væri einn eftir og hann væri að tala í síma. A lýsti því sem gerðist svo: ,,Og svo átti náttúrulega að borga bílinn og þeir stóðu fyrir utan og ég var búinn að skrúfa niður rúðuna og hann bara dró upp hníf og stakk inn í hálsinn á mér svona einhvern veginn“. Fram kom hjá A að C og annar maður hafi verið farnir inn í nálægt hús á þessum tíma en tveir hefðu verið eftir, annar þeirra var B, og hinn manninn kvað A hafa verið með skalla og yfirskegg. Nokkrum andartökum síðar kom lögreglan á vettvang.

Vitnið B kvaðst hafa verið staddur á Kaffi Austurstræti þetta kvöld og til hafi staðið að hann, C, spænskur maður og ákærði færu saman vestur í bæ.  Hafi þeir farið saman í leigubíl, fyrst að heimili B að Z við Ægisíðu, þar sem B kvaðst hafa ætlað að sækja eitthvað.  Þar hafi hann farið inn, en komið út að vörmu spori.  Ákærði hafi einnig farið þar út úr bílnum, en hann hafi drukkið svolítið, þannig að nokkur læti hafi verið í ákærða, en hann sé ekki húsum hæfur undir áhrifum áfengis að sögn B.  B mundi ekki hvort ákærði hafi komið upp í leigubílinn á heimreiðinni að Z, eða eftir að leigubílstjórinn bauð honum far með þeim félögum þar sem ákærði var á gangi eftir Ægisíðu. Eftir þetta hafi allir fjórir farið í leigubílnum, sem nam staðar vestast á Yi.  Þar hafi C og Spánverjinn farið út úr bílnum en þeir hafi ætlað í mannlaust hús hægra megin götunnar, eða í gagnstæða átt frá vinstri hlið leigubílsins, þar sem bílstjórinn sat inni.  B og ákærði hafi orðið eftir og þjarkað um það hvor ætti að borga bílinn.  Kvaðst B hafa setið fram í við hlið bílstjórans og ætlað að sitja þar uns greitt hefði verið fyrir bílinn, en ákærði hafi staðið fyrir utan bílinn bílstjóramegin og hafi verið eitthvert ,,fyllirísröfl“ í ákærða, mest út í sjálfan sig, en hann hafi ekki orðið var við neitt rifrildi milli ákærða og leigubílstjórans.  Kvaðst B hafa verið að leita í vasa sínum að peningum fyrir bílnum er bílstjórinn hafi skyndilega sagt að búið væri að skera sig á háls. Hann hafi þá litið á bílstjórann, en ákærði hafi þá verið einn fyrir utan bílstjóradyrnar, en bílstjórinn hafði áður skrúfað niður rúðuna. Síðar í skýrslutökunni greindi B svo frá að þótt hann hafi séð ákærða fyrir utan bílinn útiloki það alls ekki að aðrir hafi verið þar einnig. Kvaðst B ekki hafa séð hver skar bílstjórann, en hann hafi hvorki séð eggvopn í höndum ákærða né annarra, sem í bílnum voru í þetta sinn. Eftir þetta hafi ákærði gengið niður Y. Leigubílstjórinn hafi farið út og inn í anddyri nálægrar íbúðarblokkar.  Kvaðst B þessu næst hafa hringt í Neyðarlínuna og lögreglan komið stuttu síðar. Aðspurður um ástand sitt á þessum tíma kvaðst B hafa verið ,,blindfullur“ og langdrukkinn. 

Í skýrslu hjá lögreglunni 27. júlí sl. greindi B frá atburðum efnislega á sama veg og fyrir dóminum, eins og rakið hefur verið.  Í skýrslunni greindi B meðal annars svo frá, að hann sé ekki í neinum vafa um að X hafi skorið bílstjórann. Aðspurður um þetta fyrir dómi kvaðst B hafa gert ráð fyrir þessu, en hann hafi verið afar illa fyrir kallaður er lögregluskýrslan var tekin af honum og verið vís til að skrifa undir hvað sem var.

Samkvæmt gögnum frá Neyðarlínunni hringdi B þangað kl. 01.36.31 nóttina sem hér um ræðir. Í samtali við starfsmann Neyðarlínu greindi B svo frá að vinur hans hafi skorið leigubílstjóra. Eftir það var B gefið samband við lögregluna. Þar greinir B frá því að leigubílstjórinn væri alblóðugur og að þeir væru staddir vestast á Y. Aðspurður um það hver hefði veitt bílstjóranum áverkann svaraði B, að X hefði gert það og kvaðst B hafa þekkt X í nokkur ár. Aðspurður um útlit X lýsti B honum svo að hann væri dökkhærður með yfirvaraskegg, um 178 sm á hærð, þrekinn. Er B greindi frá þessu kom lögreglan á vettvang og kemur fram að B ræðir þá við lögreglumann sem kom á vettvang meðan sími hans er enn opinn. Heyrist B segja: ,,Hann labbaði þangað, hann labbaði þangað.“ Lögreglumaðurinn sem kominn var á vettvang spurði þá hver hefði labbað þangað. B svaraði þá: ,,Þessi sem skar hann.“ Þá spyr lögrelumaðurin hver það sé og B svarar: ,,Hann heitir [X].“ Eftir þetta rofnar símalið.

Vitnið, C, mundi lítið eftir atburðum þetta kvöld.  Hann kvaðst hafa farið ásamt fleirum í leigubíl að Z, en þaðan vestur í bæ.  B hafi setið við hlið bílstjórans, en ákærði fyrir aftan bílstjórann, en auk þeirra hafi Spánverji verið með þeim í för.  Er numið var staðar á Y hafi vitnið og Spánverjinn farið inn í hús, sem þeir ætluðu í. C kvaðst hafa talið að ákærði ætlaði að greiða fyrir bílinn en hann kvaðst ekki vita hvað átti sér stað eftir að hann yfirgaf bílinn.  Hann kvaðst næst hafa vitað af sér er lögreglan kom að honum í húsinu, þar sem hann hafði lagst til svefns. C kvaðst ekkert eggvopn hafa séð í fórum ákærða um kvöldið. 

Fram kom í handtökuskýrslu að C hafi verið með vasahníf á sér við handtöku.  Kvaðst C ekki vanur að ganga með hníf á sér og ekkert vita hvað varð af hnífnum. 

Vitnið, E, íbúi á efstu hæð í húsinu að Y [...], kvaðst hafa vaknað upp við læti og köll utan dyra á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann kvað köllin vera efnislega á þá leið að kallað hafi verið ,,hvað ertu búinn að gera mér“ eða álíka ummæli verið við höfð. Kvaðst hann hafa séð mannlausa leigubifreið á miðri götu og dyrnar opnar. Hafi  menn verið að hlaupa frá bifreiðinni í þann mund, sem hann leit út um gluggann. Hann kvaðst ekki hafa séð neitt gerast við leigubílinn.  Nánar aðspurður kvaðst hann hafa séð einn mann ganga að húsi vitnisins og kvaðst hann eftir á hafa dregið þá ályktun að það hafi verið B, sem lögreglan þekkti og hafi hann dregið þá ályktun að hann hafi kallað upp ummælin, sem áður voru rakin, en hann kvaðst þó ekki alveg öruggur á því.  Annar maður hafi hlaupið í norðurátt að Ánanaustum og þriðja manninn kvaðst vitnið hafa séð hlaupa bak við hús handan götunnar, sem nú sé búið að rífa.  Leigubílstjórinn hafi ekki verið einn þessara manna.  Eftir þetta hafi dyrabjöllu verið hringt. E kvaðst hafa ákveðið að svara ekki, þar sem hann hafi ekki vitað hvað var að gerast, en lögreglan hafi komið stuttu síðar.

Vitnið, Bylgja Baldursdóttir lögreglumaður, lýsti því er gefin var út lýsing á manni vegna atburðarins sem í ákæru greinir, en hún hafi lítið vitað um málavexti.  Lýsti Bylgja því er maður var stöðvaður á móts við Kaffi París á gatnamótum Austurstrætis og Pósthússtrætis og svaraði útlit hans til lýsingarinnar, sem borist hafði.  Kvaðst maðurinn heita X, en það var nafn mannsins, sem tilkynningin barst um.  Var ákærði handtekinn og honum tilkynnt að handtakan væri í þágu rannsóknar máls, sem átti sér stað vestur í bæ.  Ákærða hafi ekki verið greint nánar frá málavöxtum.  Ákærði hafi verið ölvaður og í annarlegu ástandi, en hann hafi greint frá því á leiðinni á lögreglustöð að hann hafi verið í leigubíl með þeim B, C og manni, sem hann þekkti ekki.  Þeir hafi farið að Z og þaðan eitthvert vestur í bæ uns bíllinn hafði stöðvað, þar sem B hafi ætlað að kaupa fíkniefni.  Bylgja greindi frá því að ákærði hafi bent á samstarfsmann hennar og sagt ,,þið tveir eigið eftir að vera skornir á háls“ og einnig talað um að þau ættu eftir að sjá hann sjálfan skorinn á háls.  Við komu á lögreglustöð hafi ákærði verið vistaður í fangageymslu.

Vitnið, Grétar Helgi Geirsson lögreglumaður, lýsti aðdraganda handtöku ákærða efnislega á sama veg og vitnið Bylgja Baldursdóttir, en vitnisburður hennar var rakinn að framan.  Kvað Grétar ákærða hafa greint frá því að hann hafi verið með B, C og spænskum manni.  Á leið á lögreglustöð hafi ákærði bent á vitnið og sagt ,,þið glæpamennirnir eigið eftir að vera skornir á háls.“  Á þessari stundu hafi ákærða ekki verið greint frá málavöxtum málsins sem til rannsóknar var.  Vitnið lýsti því að hann hafi aðstoðað er farið var með ákærða á slysadeild til töku blóðsýnis. Þá og síðar um nóttina hafi ákærði ítrekað spurt að því fyrir hvað hann væri handtekinn.  Honum hafi verið greint frá því, en hann hafi spurt ítrekað að hinu sama.

Vitnið, F, kvaðst hafa búið á Z á þeim tíma, sem í ákæru greinir.  Lýsti hún því er leigubifreið kom þar að þessa nótt með B og fleiri.  Kvaðst hún hafa talið að til stæði að gleðskapur yrði hjá B, en hún kvaðst hafa orðið fyrir miklu áreiti fólks á hans vegum.  Hún hafi því gefið sig á tal við B vegna þessa. Hún lýsti því að maður, sem sat fyrir aftan leigubílstjórann hafi farið út úr bílnum og hafi hann verið mjög æstur.  Kvaðst hún hafa þekkt ákærða á ljósmynd, sem hún skoðaði hjá lögreglu.

Vitnið, G, systir vitnisins F, kvaðst hafa séð til ferða leigubíls þegar honum var ekið frá Z þessa nótt.  Maður, æstur í skapi, hafi gengið með eða á eftir bílnum heimreiðina uns hann fór inn í bílinn og settist fyrir aftan leigubílstjórann.

Vitnið, Garðar Helgi Markússon rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa óskað eftir því við tæknideild lögreglunnar í Reykjavík að sakbending færi fram í þágu rannsóknar málsins.  Sagði hann tímann hafa verið knappan og ákveðið hafi verið að láta myndsakbendingu fara fram.  Hann geti ekki svarað því hvernig hún fór fram og hvers vegna réttargæslumaður var ekki viðstaddur.

Vitnið, Þröstur Eyvinds lögreglufulltrúi, kvað beiðni um sakbendingu hafa borist tæknideild lögreglunnar um miðjan dag 3. ágúst sl. og átti sakbendingin að fara fram fyrir lok vinnu daginn eftir.  Garðari Helgi Markússyni rannsóknarlögreglumanni hafi verið greint frá því að þetta væri nánast ógerningur af ástæðum sem raktar voru, meðal annars til tímaskorts og erfiðleika við að finna menn til sakbendingar.  Hafi þá verið ákveðið að fram færi myndfletting, þar sem vitni var látið þekkja hinn grunaða úr hópi 43 einstaklinga, sem valdir voru af handahófi af tölvu eftir aldri og lýsingu.  Þröstur kvað starfsreglur lögreglunnar í Reykjavík ekki gera ráð fyrir því að verjandi sé viðstaddur er myndfletting, eins og sú sem hér um ræðir, fari fram.

Vitnið, Svanur Elísson rannsóknarlögreglumaður, staðfesti vinnu sína við myndsakbendingu, sem fram fór, en ekki þykir þörf á að rekja hana hér.

Hlynur Þorsteinsson, sérfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi, ritaði læknisvottorð A.  Vottorðið er dags. 11. ágúst sl. og þar segir meðal annars svo:

,,Þessi maður kemur á slysa- og bráðadeild LSH í Fossvogi þ. 27.07.2004 og er skráður inn kl. 01:55.  Sjúklingur kemur með sjúkrabíl og í lögreglufylgd.  Hann hafi verið við vinnu sína sem leigubílstjólri og hafði verið að aka 4 mönnum vestur í bæ en einn þeirra sem hafði farið út úr bílnum teygði sig inn um gluggann á bílhurð hans og brá hnífi á hálsinn á honum.  Sjúklingur fór út úr bílnum og komst í hús þar í grennd og hringdi á Neyðarlínu.  Við komu á slysadeild er hann með umbúðir á hálsinum.

Við skoðun þá er hann með langan skurð sem er aðallega vinstra megin á hálsinum en fer þó aðeins fram fyrir barka og eru 3 cm af skurðinum hægra megin við miðlínu ef miðað er við að miðlína sé beint framan á hálsinum miðjum.  Alls er því skurðurinn um 18 cm langur.  Þegar þessi skurður endar niður að eyra, tekur við 2-3 cm löng rispa og liggur hún eins og 1 ½ cm neðan við skurðinn.  Þegar skoðað er ofan í sárið, þá er í sjálfu sér ekki mikil blæðing úr því þegar skoðun fer fram.  Skurðurinn virðist vera svolítið skáskorinn niður á við.  Þannig að skurðurinn gengur inn og niður og er dýpstur fremst á hálsinum.  Dýpt á skurðinum ef að mælt er beint inn frá húð og niður er á bilinu 1-2 cm sem sé mælt niður eftir skurðfarinu og í skurðáttina þá er dýptin alveg niður í 4-5 cm.  Þegar skoðað er ofan í sárið má sjá móta fyrir barka framanvert og í miðlínu.  Örlítið sést móta fyrir munnvatnskirtli og sömuleiðis sést móta fyrir vövða sem liggur hliðlægt skáhalt í hálsinum og heitir sternocleidomasteoid vöðvi.  Það er ekki að sjá að sárið hafi lent í neinum af þessum líffærum og hann er ekki með hósta eða erfiðleika við öndun það skal tekið fram að það sást ekki í skjaldkirtil.  Sjúklingur er með meðvitund og eðililegan litarhátt og blóðrþýstingur er eðlilelgur.  Hann hreyfir sig í sjálfu sér eðlilega líka.  Teknar voru myndir af þessu og hafður mælikvaðri við.

Það eru teknar blóðprufur til að athuga með blóðmagn og skjaldkirtispróf sömuleiðis og steinefni og annað og þetta var allt saman eðlilegt.  Sett var upp nál og hann fékk vökva í æð.

Meðferð:  Sárið er deyft og síðan er byrjað að sauma, fyrst ofan í djúpið eða þ.e.a.s undir húðinni og er saumað í þremur lögum undir húð og alls sett 28 spor með 4/0 Vicryl þræði en það er efni sem að leysist upp með tímanum.  Síðan er húðin yfir þessu saumuð með 26 sporum og 4/0 Ethilon en það er þráður sem þarf að fjarlægja ca viku eftir að saumað er.  Síðan voru settar umbúðir og léttur þrýstingu á.  Sjúklingur var hafður í hálegu þ.e.a.s. hátt undir baki og höfði og átti að vera hafður þannig um nótt.  Hann fékk síðan 2 gr. af Ekvacillini eða sýklalyf í æð til að varna sýkingu því að ekki þótti nú öruggt að hnífur hefði verið hreinn þegar þetta atvik varð.  Hann var síðan hafður á gæsludeild til morguns.

Útskrifast síðan að morgni.

Þann 30.07.2004 hitti ég sjúkling og við skoðun þá leit skurðurinn ágætlega út.

Hann var svolítið stirður og hafði lítið þorað að hreyfa sig en hann fær leiðbeiningar um það hvernig hann getur byrjað að mjaka sér aðeins til til þess að eiga ekki í óþarfa basli með vöðvana síðar meir.  Það er skrifað upp á verkjalyf Parkodin forte 30 stk.  Þannig að hann getur tekið 1-2 tbl. í senn á móti Ibufeni sem hann segist eiga til.  Síðan er skrifað upp á sýklalyf 500 mg 20 stk. taka 1 hylki x 4.

Það má nú alveg reikna með að þessi maður verði ca 3 vikur frá vinnu eða þangað til að þetta ætti að vera bærilega gróið undir húðinni.

Hann átti síðan endurkomutíma og kom á endurkomu þ. 03.08.2004 og voru saumar teknir úr sári og leit það vel út.  Þá kemur það einnig fram að honum leið betur eftir að hann fékk verkjalyf og var nú farinn að geta sofið en það hafði hann átt erfitt með við komu.  þ. 30.07.2004.

Eftir komuna þ. 03.08.2004 var hann útskrifaður og endurkoma þá eftir þörfum.“

 

Hlynur Þorsteinsson staðfesti og skýrði vottorðið fyrir dómi. Kvað hann málið sér í fersku minni.  Sér hafi brugðið við að sjá jafn stóran áverka á hálsi, en háls sé mjög alvarlegur áverkastaður.  Þar séu mörg líffæri sem gætu skaddast og ekki langt í stórar æðar.  Taugar geti skaddast og auk þess barkinn. Áverki eins og sá, sem A hlaut hefði getað orðið lífshættulegur og miðað við líffæri, sem séu skammt frá áverkanum, megi segja að lítið hafi þurft að koma til viðbótar til að hlotist hafi lífshættulegur áverki, en um 1 cm hafi vantað upp á til að æðar sködduðust og 2 – 3 mm í barkann. Hlynur kvað áverkann eftir beitt eggvopn, eitt lag, langur skurður tiltölulega beinn.  Lega skurðarins gæti bent til þess að sá sem olli áverkanum hafi staðið hærra heldur en A og skýrði það legu áverkans.  Hlynur kvað engar stórar slagæðar hafa farið í sundur og því væri ekki víst að sá sem valdur var að áverkanum hafi fengið á sig blóð, þótt líklegt séð að blóð hafi orðið eftir á blaði eggvopnsins sem notað hafi verið.

Tómas Zoëga geðlæknir vann geðrannsókn á ákærða. Í geðrannsókninni eru meðal annars svofelldur kafli:

,,V. Samantekt.

X liggur undir grun um að hafa, hinn 27. júí sl., veitt leigubílstjóra alvarlegan og hættulegan skurðáverka á háls frekari lýsingar eru í rannsóknum lögreglu.

X man lítð eftir atburðum kvöldsins og aðfaranætur 27. júlí sl. og frásögn óljós.  Minningarnar eru samhengislausar og persónur án andlits.  X hefur fengið slík gleymskuköst í tengslum við áfengisneyslu allt frá unglingsárum.  Þrátt fyrir endurteknar spurningar man hann ekki eftir því að hafa verið með hníf umrætt kvöld og nótt.  Í sögu hans kemur hins vegar fram að hann hafi stundum hótað með hnífi, þegar hann hefur verið undir áhrifum áfengis.

Hann lýsir hins vegar miklum kvíða og tortryggni umrætt kvöld og vitni bera að hegðun hans hafi verið sérkennileg.  Mjög ólíklegt er að sýklalyfjanotkun X hafið stuðlað að minnisleysi hans umrætt kvöld.

Miklar hegðunarbreytingar verða á X samfara áfengisneyslu. Hann verður orðljótur, árásargjarn og stundum ógnandi.  Oftast man hann ekkert lítið eftir því hvað gerist, þegar hann er drukkinn.  X gerir sér skýra grein fyrir því að hann á við  að stríða alvarlegan áfengisvanda.

Hann talar um innbyrgða reiði og heift sem hann rekur til reynslu á barnsárum.  Reiðin kemur síðan iðulega upp á yfirborðið þegar hann drekkur.

Engin merki eru geðrofssjúkdóm og engin saga er um lyfjamisnotkun.

Í viðtölum við undirritaðan er X fullur iðrunar. Hann segist reyndar ekki trúa því að hann sé sekur.  Í viðtölum kemur hann eðlilega fyrir og talar um að áfengið hafi verið sitt böl alla ævi.“

 

Tómas staðfesti og skýrði rannsókn sína fyrir dóminum.  Kvað Tómas ekki ástæðu til að efast um það að ákærði muni ekki eftir atburðum þann tíma, sem í ákæru greinir.

Margrét Sigríður Blöndal, hjúkrunarfræðingur á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, kvaðst hafa hitt A á sama sólarhring og atburðurinn átti sér stað.  Lýsti hún viðbrögðum A og afleiðingum verknaðarins á hann. 

 

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök, en eins og rakið var man hann lítið frá þeim tíma sem í ákæru greinir, en minnisleysi er algengt samhliða áfengisdrykkju hjá ákærða, svo sem kom fram í rannsókn Tómasar Zoëga geðlæknis.  Gegn neitun ákærða yrði sakfelling í máli þessu að byggjast á vitnisburði A og B.  Síðar verður vikið að gildi vitnisburðar þeirra eins og á stendur. 

  Eins og rakið var leitaði lögreglan árásarvopns án árangurs.  Var sérstaklega leitað á svæði, þar sem talið var hugsanlegt að ákærði hefði farið um frá því að árásin var gerð kl. 01.36 framangreinda nótt uns ákærði var handtekinn kl. 01.59.  Samkvæmt skýrslu lögreglu 27. júlí 2004 liggur fyrir að C var með hníf í fórum sínum við handtöku. Ekkert er að finna í upphaflegum rannsóknargögnum hvað varð af hnífnum og ekkert er að finna um það hvort C fékk hnífinn afhentan að nýju þegar hann var látinn laus.  C, sem var ölvaður, man ekkert eftir þessu. 

Að beiðni dómsins, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991, lét ákæruvaldið kanna hvað orðið hefði um hnífinn.  Garðar H. Magnússon rannsóknarlögreglumaður ritaði skýrslu, sem dags. er 6. þ.m. um athugun sína á meðferð og afdrifum hnífsins.  Ræddi hann bæði við fangaverði og lögreglumenn af þessu tilefni.  Samkvæmt skýrslunni mundi varðstjóri í fangageymslu þessa nótt eftir rauðum vasahníf í fórum C.  Meira mundi hann ekki.  Fangavörður, sem tók á móti C og B í fangageymslu þessa nótt kvað annan hvorn þeirra hafa verið með lítinn, rauðan vasahníf.  Kvaðst fangavörðurinn telja, án þess að geta fullyrt það, að það hafi fremur verið B en C, sem hafði hnífinn meðferðis.  Síðan er ritað í skýrsluna eftir fangaverðinum svofelldur kafli:  ,,Hún kvaðst muna eftir að hún hafi spurt lögreglumennina, sem komu með aðilann, hvort þeir þyrftu ekki að hafa hnífinn, en þeir hafi svarað að svo væri ekki, þar sem þeir hefðu skoðað þennan vasahníf og sögðu að útilokað væri að þessi hnífur hafi verið notaður við að skera leigubílstjórann.  Hún mundi að þeir sögðu að hnífurinn hafi verið frekar lítill miðað við áverka bílstjórans og virtist nánast ónotaður.  Einnig hefðu þeir sagt að leitað hefði verið eftir blóði eða blóðleyfum á hnífnum og ekkert slíkt fundist.“

Samkvæmt skýrslunni ræddi Garðar við fangavörð, sem útskrifaði hina handteknu, utan ákærða, og kvaðst hann ráma í hnífinn.  Taldi hann sig muna, er verið var að færa einhvern hinna handteknu, hafi hann spurt lögreglumann að því hvort viðkomandi mætti hafa hnífinn meðferðis. Ekkert liggur fyrir meira um þetta.  Fangaverðir mundu ekki við hvaða lögreglumenn þeir ræddu í þeim tilvikum, sem rakin voru að ofan. 

Lögreglumaður, sem annaðist flutning B og D á lögreglustöð kvað sig ráma í hnífinn.  Ekki er að sjá að þessi lögreglumaður hafi annast flutning  C á lögreglustöð og liggur því beint við að álykta að annar hvor hinna handteknu, B eða D, hafi haft hnífinn meðferðis og er það í samræmi við frásögn fangavarðar, sem kvaðst fremur telja B hafa verið með hnífinn en C, þótt hann gæti ekki staðfest þetta.  Annar lögreglumaður kvaðst muna eftir hnífnum án þess að geta greint frekar frá því atriði.

Lögreglumaður, sem annaðist flutning hinna handteknu á lögreglustöð og rætt var við, mundi eftir hnífnum, en mundi ekki atvik þannig að þeir gætu greint frekar frá málavöxtum.

Einn fangavarðanna greindi frá því að lögreglumaður hafi sagt sér að hnífurinn hefði verið skoðaður með tilliti til blóðs, en ekkert fundist.  Hafi það verið gert liggja engin gögn fyrir um það, en rannsóknarlögreglumaður í tæknideild, sem rætt var við og greint er frá í skýrslunni og kallaður var á vettvang vegna málsins framangreinda nótt, kvaðst aldrei hafa séð umræddan hníf.

Ekki var við framhaldsmeðferð málsins óskað eftir því af hálfu ákæruvaldsins að frekari vitnaleiðslur færu fram. 

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið liggur ekkert fyrir í málinu um hvað varð af hnífi þessum og ekki verður séð að nokkur rannsókn hafi farið fram á honum.

Í frumskýrslu lögreglunnar segir að C hafi verið handtekinn kl. 02.10 í mannlausu húsi gegnt Y [...].  Hafi hann verið mjög ölvaður og ekki unnt að ræða við hann um málið. Var hann fluttur á lögreglustöð.  Þá segir í skýrslunni að D hafi verið handtekinn kl. 02.15, þar sem hann kom gangandi að vettvangi að Y [...]. Hann hafi verið ofurölvi og óviðræðuhæfur. Í handtökuskýrslu beggja þessara manna segir hins vegar að þeir hafi verið handteknir á ofangreindum tíma fyrir framan Y [...]. 

Samkvæmt vitnisburði E sá hann þrjá menn hlaupa frá leigubifreiðinni er hann leit út um gluggann á heimili sínu og var leigubílstjórinn ekki í hópi þessara manna.  Hann kvað einn mannanna hafa hlaupið bak við hús gegnt Y [...].

Hafi C verið handtekinn í þessu húsi, eins og hann bar hjá lögreglu, og fram kemur í frumskýrslu lögreglunnar var ástæða til að rannsaka þann vettvang, einkum í ljósi þess að C var sá eini hinna handteknu sem var með hníf í fórum sínum við handtöku, svo sem fyrr greinir. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að sá vettvangur hafi verið rannsakaður og manns leitað þar, en vitnið E sá mann hlaupa þangað frá leigubílnum.

Áður var greint frá því hvernig vitnið A lýsti árásarmanninum, en meðal annars kom fram hjá honum að hár árásarmanns væri farið að þynnast á hvirfli.  Þá kemur fram hjá A að árásarmaðurinn hafi verið í dökkum buxum, ljósri skyrtu, hugsanlega með mynstri, en ekki í yfirhöfn.  Síðar lýsti A því svo að árásarmaður hafi verið í ljósblárri eða blárri skyrtu með einhvers konar röndum.  Við handtöku var ákærði klæddur bláum gallabuxum, ljósri köflóttri skyrtu, í svartri peysu utan yfir. Lýsing A á klæðnaði og hári árásarmanns gæti samkvæmt þessu átt við um annan mann en ákærða. 

Ráða má af gögnum málsins og af vitnisburði A að hann sneri sér undan er hann hlaut áverkann. Hvorki hann né B sáu hver veitti honum áverkann. Ákærði hefur hvorki játað því né neitað að hafa veitt A áverkann, en borið við minnisleysi. Þegar litið er til ölvunarástands hans umrædda nótt verður sá framburður ekki dreginn í efa. Nauðsynlegt var eins og á stóð að fram færi sakbending, enda ljóst að lýsing A á árásarmanni kemur ekki að öllu leyti heim og saman við útlit ákærða eins og rakið var. Stjórnendur rannsóknarinnar óskuðu eftir því við tæknideild lögreglunnar að sakbending færi fram. Fram kom í vitnisburði Garðars Helga Magnússonar rannsóknarlögreglumanns og Þrastar Eyvinds lögreglufulltrúa að ekki hafi unnist tími til að láta sakbendingu fara fram.

Hinn 4. ágúst sl. fór fram svokölluð ,,myndfletting“, sem áður er lýst.  Í lögregluskýrslu þar um segir, að A hafi tekið þar út eina ljósmynd, sem hann ,,kveðst álíta“ að sé af manni þeim, sem skar hann á háls.  Ekki fékkst svar við því undir aðalmeðferð málsins hvort ljósmynd af ákærða, sem fylgir gögnum málsins sé sama myndin og A valdi eða hvort um einhverja aðra mynd er að ræða. Ljósmyndirnar sem A skoðaði fylgja ekki gögnum málsins og því er ekki unnt að leggja mat á þær.

Þessi aðgerð lögreglunnar sem nú var lýst, átti sér stað án þess að verjandi ákærða væri viðstaddur. Rétt hefði verið að gefa verjandanum kost á því að vera viðstaddur eins og á stóð, einkum í ljósi þess að ,,myndflettingin” var látin koma í stað sakbendingar. Nauðsynlegt var að sakbending færi fram einkum í ljósi þess að lýsingar A á árásarmanni koma að sumu leyti ekki heim og saman við útlit og/eða klæðaburð ákærða á þessum tíma.  Skýringar lögreglu á því hvers vegna sakbendin fór ekki fram eru ófullnægjandi.

Allt er þetta til þess til þess fallið að rýra sönnunargildi þessarar ráðstöfunar lögreglu.

Rannsókn fór fram á fatnaði ákærða í því skyni að kanna hvort þar væri að finna blóð úr A. Niðurstaða þeirrar rannsóknar, sem gerð var í Noregi, er sú að ekkert fannst, sem tengdi ákærða við mál þetta.  Fatnaður annarra grunaðra í upphafi rannsóknarinnar var ekki rannsakaður. Það var hins vegar nauðsynlegt að mati dómsins, einkum í ljósi þess að annar maður sem handtekinn var á vettvangi, var með hníf á sér við handtökuna. Ekkert er upplýst um það hvort sá hnífur kom við sögu máls þessa. Hins vegar er ekki unnt að útiloka að svo geti verið. 

Ákærði var ölvaður þessa nótt, sem og allir meðreiðarmenn hans.  Vitni hafa borið að ákærði hafi verið æstur og fram kom í rannsókn Tómasar Zoëga geðlæknis að ákærði ætti við hegðunarbreytingar að stríða samfara áfengisneyslu og hann væri þá orðljótur, árásargjarn og ógnandi.  Framkoma ákærða í lögreglubílnum á leið á lögreglustöð og ummæli hans þar um lögreglumennina og sjálfan sig fá stoð í þessu áliti geðlæknisins. 

Með hliðsjón af framburði ákærða, heildstætt virtum, telur dómurinn ógerlegt að draga ályktanir um sakarefni málsins af ummælum ákærða í lögreglubílnum.

Eins og rakið var sáu hvorki A né B hver veitti A áverkann.  Blóð- og þvagsýni úr B, sem tekið var eftir handtöku þessa nótt var rannsakað.  Í matsgerð á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði segir meðal annars svo:  ,,Rannsóknin bendir til að hlutaðeigandi hafi verið undir örvandi áhrifum amfetamíns og metamfetamíns.  Hann hafi verið undir verulegum áhrifum áfengis og undir vægum, slævandi áhrifum díazepams og nordíazepams.  Díazepam eykur að einhverju leyti á ölvunaráhrif af völdum áfengis.“

Samkvæmt þessu var B undir miklum áhrifum áfengis og annarra efna á þessum tíma og sjálfur bar hann um langavarandi óreglu sína og hann mundi atburði ekki vel.

Dómurinn telur hins vegar sannað með vitnisburði A og B og með öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi verið fyrir utan leigubílinn er A hlaut áverkann.  Hins vegar sá hvorugt þessara vitna hver veitti A áverkann og B bar að alls ekki væri útilokað að aðrir en ákærði hafi verið fyrir utan leigubílinn. Þá bar vitnið E að þrír menn hefðu farið frá leigubílnum og bendir það til þess að fleiri en ákærði hafi verið fyrir utan bílinn á þessum tíma.  Auk þessa liggur fyrir að einn hinna handteknu og grunuðu einstaklinga hafði hníf meðferðis, sem ekki var rannsakaður.  Sakbending fór ekki fram.  Fatnaður annarra grunaðra var ekki rannsakaður á sama hátt og fatnaður ákærða, en eins og vitnið Hlynur Þorsteinsson læknir bar er líklegast að blóð hefði fundist í fötum þess einstaklings, sem bar árásarvopnið eftir á, þótt alls ekki væri víst að árásarmaður hefði fengið á sig blóð frá A. 

Einsýnt er að rannsókn á hnífnum, sem C hafði í fórum sínum, rannsókn á fatnaði þeirra, sem handteknir voru, og vettvangsrannsókn á húsnæði því sem fjórmenningarnir voru á leið í, sem maður sást hlaupa í áttina að og sakbending hefði getað haft mikla þýðingu. Ekkert af þessu var gert, en ljóst er að rannsóknir þessar, ein eða fleiri saman, hefðu getað haft úrslitaáhrif um niðurstöðu málsins.

 Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið var rannsókn máls þessa stórlega ábótavant. 

Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af því að enginn sá hver veitti A áverkann, svo og með vísan til alvarlegra annmarka á rannsókn málsins sem raktir hafa verið, er það mat dómsins að óupplýst sé hver hafi veitt honum þá áverka og um málavexti að öðru leyti á þessum tíma. Samkvæmt meginreglu um sönnun í opinberum málum ber að skýra þennan vafa ákærða í hag.

Samkvæmt öllu ofanrituðu og gegn eindreginni neitun ákærða verður, með tilliti til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991,  að teljast ósannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem í ákæru greinir. Ber því að sýkna hann af ákæruatriðum.

Eftir þessum úrslitum verður bótakröfu A vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A, og 650.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

Kolbrún Sævarsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, flutti málið fyrir ákæruvaldið.Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Helgi I. Jónsson dómstjóri og Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Skaðabótakröfu A er vísað frá dómi. 

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Guðbjarna Eggertssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A, og 650.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

 

 

Sératkvæði Helga I. Jónssonar dómstjóra

Niðurstaða

Samkvæmt gögnum málsins hringdi vitnið A í lögreglu kl. 01.36 umrædda nótt og tilkynnti að hann hefði verið skorinn á háls við starf sitt sem leigubifreiðarstjóri á móts við hús nr [...] við Y hér í borg. Var brugðist skjótt við af hálfu lögreglu og fjórar lögreglubifreiðar sendar þegar í stað á vettvang. Hefur A skýrt svo frá að hann hafi verið með þrjá farþega í bifreiðinni og verið að koma frá Z við Ægisíðu. Um var að ræða ákærða, B, C og D. Þekkti A þá B og C en hvorki ákærða né D. Er A hafi stöðvað leigubifreiðina á ofangreindum stað á Y, að ósk farþega, hafi C og D farið út úr bifreiðinni og gengið í átt að húsi hægra megin við leigubifreiðina, en B, sem setið hafi við hlið A í bifreiðinni, beðið ákærða að greiða fargjaldið. Ákærði hafi farið út bifreiðinni og að bílstjórahurðinni og hafi rúða hennar verið skrúfuð alveg niður. Kveðst A hafa séð ákærða fara með hendurnar í hægri buxnavasa og dregið þá ályktun að hann væri að sækja þangað peninga eða kortaveski. Kveðst A hafa litið sem snöggvast til hægri en þá skyndilega fundið hita leggja niður háls sér og niður á brjóstkassa. Hafi hann lagt hönd að hálsinum og séð að hún var útötuð blóði. Er hann hafi litið upp hafi ákærði „ennþá [verið] með svipinn, svona yggldur, og handarhreyfingin er svona frá”. Vitnið kveðst hafa ruðst út úr bifreiðinni og hraðað sér að stigagangi hússins nr. [...] við Y. Ákærði hafi í fyrstu staðið kyrr við leigubifreiðina í nokkrar sekúndur en síðan hlaupið í norður í átt að móttökustöð Sorpu við Ánanaust. A kveðst ekki hafa séð hníf í höndum ákærða eða annað vopn.

Ákærði var handtekinn eftir lýsingu A kl. 01.59 í Austurstræti við Pósthússtræti, en C, sem var mjög ölvaður, kl. 02.10 í húsi við Y og D kl. 02.15 er hann kom gangandi frá sama húsi að brotavettvangi. Var hann ofurölvi og ekki viðræðuhæfur.

Framburður vitnisins B er í meginatriðum á sama veg og vætti A um atburðarásina við Y [...] eftir að leigubifreiðin hafði verið stöðvuð þar. Hafi þeir C og D yfirgefið bifreiðina og vitnið og ákærði orðið þar eftir. Hafi vitnið spurt ákærða hvort hann ætlaði ekki að „greiða bílinn” og ákærði talað um að hann þyrfti að standa upp til að ná í peningana. Við svo búið hafi ákærði farið út úr bifreiðinni og staðið fyrir utan hana við bílstjórahurðina og hafi rúða hennar verið opin. Er haft eftir vitninu í lögregluskýrslu að ákærði hafi verið með einhverjar svívirðingar gagnvart leigubifreiðarstjóranum sem staðið hafi yfir í smátíma. Hafi vitnið orðið leitt á þessu og farið að huga að peningum í vasa sínum.  Er vitnið hafi litið niður í því skyni hafi það skyndilega heyrt bifreiðarstjórann æpa upp eitthvað á þessa leið: „Æ, ég hef verið skorinn á háls” og hafi hann haldið um háls sér. Vitnið kveðst ekki hafa þekkt ákærða af neinu ofbeldi og því hafi þetta komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Aðspurt fyrir dómi kvað vitnið að aðrir en ákærði hafi ekki verið fyrir utan leigubifreiðina er A var skorinn á háls. Eftir þetta hafi ákærði í fyrstu staðið fyrir utan bifreiðina en síðan farið að ganga niður Y í áttina að Ánanaustum og greikkað sporið. Við svo búið hafi vitnið tilkynnt að maður hefði verið skorinn á háls. Vitnið kveðst ekki hafa séð það og heldur ekki hníf eða annað áhald sem notað hafi verið við verknaðinn. Var haft eftir vitninu í lögregluskýrslu að það væri ekki í nokkrum vafa um að ákærði hafi skorið bifreiðarstjórann.

Svo sem áður greinir hringdi umræddur B í Neyðarlínuna kl. 01.36.31 um nóttina og tilkynnti um atburðinn. Í upphafi ræðir B við starfsmann Neyðarlínunnar og segir: „Það er leigubílstjóri hjá, hérna, og vinur minn, hann skar hann ...” Í framhaldi af því er gefið samband við lögreglu og segist B þá hafa verið að koma með leigubifreið og síðan: ” ... og svo var félagi sem var, hérna, með, og hann skar leigubílstjórann ...” B er þá spurður hver það sé, sem hafi skorið bílstjórann, og svarar hann þá svo: „ ... hann heitir ... [X].” Í sama mund kom lögregla á vettvang og er sími B þá opinn. Heyrist B segja: „Hann labbaði þangað, hann labbaði þangað.” Spyr þá lögreglumaðurinn, sem kominn var á vettvang, hver hafi „labbað þangað”. Því svarar B svo: „Þessi sem skar hann.” Lögreglumaðurinn spyr þá hver það sé og svarar B: „Hann heitir [X].” Upplýst er í málinu að ákærði er kallaður X.

Lögreglumennirnir Bylgja Hrönn Baldursdóttir og Grétar Helgi Geirsson stóðu að handtöku ákærða greint sinn. Vitnið Bylgja Hrönn kveður að í lögreglubifreiðinni hafi ákærði, án þess að lögreglumennirnir hefðu rætt á nokkurn hátt um árás þá er hér um ræðir, sagt, um leið og hann benti á Grétar Helga: „Þið tveir eigið eftir að verða skornir á háls” og þá hafi hann talað um að lögreglumennirnir ættu eftir að sjá hann sjálfan skorinn á háls. Hafi það verið er komið var niður á lögreglustöð. Vitnið Grétar Helgi kveður ákærða hafa sagt að lögreglumennirnir ættu eftir að sjá vitnið vera skorið á háls og seinna hafi ákærði sagt: „Þið glæpamennirnir eigið eftir að verða skornir á háls” og hafi ákærði um leið bent á vitnið. Hafi ákærði sagt þetta upp úr þurru.

Enda þótt ekki verði dregin bein ályktun af þessum ummælum ákærða, sem hann viðhafði upp úr þurru, verða framangreind hugrenningatengsl hans að teljast afar grunsamleg í ljósi þess atburðar er átt hafði sér stað skömmu áður.

Fram er komið í málinu að áður en haldið var á Y hafi árásarþoli ekið umræddum mönnum að Z við Ægisíðu. Þar voru þá staddar systurnar F, er þar bjó á þeim tíma, og G. Ber þeim saman um að ákærði hafi farið út úr leigubifreiðinni við húsið og verið mjög æstur. Kveður vitnið F hann hafa barið á útidyrahurð og hrópað einhver ókvæðisorð. Vitnið G kveðst hafa heyrt að barið var á útidyrahurðina en ekki séð hver þar var á ferð.

Þessi framburður vitnanna er í samræmi við það sem fram kemur í skýrslu Tómasar Zoëga geðlæknis, um geðrannsókn á ákærða, en þar segir m.a. að miklar hegðunarbreytingar verði á ákærða samfara áfengisneyslu. Verði hann þá orðljótur, árásargjarn og stundum ógnandi.

Við myndsakbendingu hjá lögreglu fletti vitnið A 43 myndum úr myndasafni lögreglunnar og þekkti ákærða fyrir þann mann er staðið hafi við opinn glugga leigubifreiðarinnar í sama mund og A var skorinn á háls. Hefur A borið fyrir dómi, þar sem ákærði var staddur, að vitnið sé handvisst um að ákærði sé sá maður er stóð við glugga bifreiðarinnar er vitnið var skorið á háls.

Ákærði hefur neitað sök en jafnframt borið við minnisleysi um atburði næturinnar. Samræmist það því, sem segir í ofangreindri skýrslu Tómasar Zoëga geðlæknis að ákærði muni oftast ekkert eða lítið eftir því sem gerist þegar hann er drukkinn.

Framburður vitnisins A er afdráttarlaus um að ákærði hafi, einn og sér, staðið fyrir utan glugga leigubifreiðar vitnisins, í sama mund og vitnið var skorið á háls. Jafnframt hefur vitnið fullyrt að þeir C og D hafi þá verið farnir út úr bifreiðinni og gengið í átt að húsi beint á móti húsi nr. [...] við Y en B setið við hlið vitnisins. Hefur framburður vitnisins frá upphafi verið einarður og stöðugur og verður að teljast mjög trúverðugur.

Svo sem áður greinir er framburður vitnisins B mjög á sama veg og vætti A um atburðarás eftir að leigubifreiðin hafði verið stöðvuð á Y. Voru viðbrögð vitnisins í rökréttu samhengi við upplifun þess af atburðum á vettvangi og hringdi vitnið þegar í stað á aðstoð eftir að A var skorinn á háls. Var þá ekki nokkur í vafi í huga vitnisins um að ákærði hefði verið þar að verki. Þykir magn áfengis og annarra vímuefna í blóði vitnisins ekki geta leitt til þess að vitnisburðurinn sé ekki trúverðugur. Verður að hafa í huga í því sambandi að þrátt fyrir að ólíkt hafi farið ástandi A og B umrædda nótt ber þeim í meginatriðum saman um atburðarás frá upphafi ökuferðarinnar  þar til árás sú átti sér stað sem er tilefni ákæru í máli þessu.

Vitnin C og D eru samsaga um að þeir hafi yfirgefið bifreiðina í beinu framhaldi af því að hún var stöðvuð á Y og farið í yfirgefið hús norðan megin við götuna. Er sá framburður þeirra í fullu samræmi við vætti A og B. Voru þeir því horfnir á braut er árásin átti sér stað.

Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er með órækum hætti unnt að slá því föstu að einu mennirnir, sem voru í návígi við árásarþola á verknaðarstundu, hafi verið ákærði og B. Breytir þar engu framburður vitnisins E enda hafði atlagan að A átt sér stað er vitninu varð litið út um glugga á heimili sínu og var leigubifreiðin þá mannlaus samkvæmt framburði vitnisins.

Samkvæmt framansögðu er sannað með framburði A og B að ákærði hafi greint sinn lagt fyrirvaralaust til A með óþekktu eggvopni þar sem A sat við opinn gluggann í ökumannssæti leigubifreiðar sinnar og beið greiðslu á ökugjaldi. Er það mat mitt að  engum öðrum sé til að dreifa en ákærða sem þar gæti hafa verið að verki. Enda þótt ámælisvert sé að ekki hafi af hálfu lögreglu verið lagt hald á hníf þann, er C er talinn hafa verið með á sér við handtöku, og hnífurinn rannsakaður, fær sá annmarki á rannsókninni ekki haggað framangreindri niðurstöðu um sekt ákærða. Er því hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir.

Heimfærsla brots

Samkvæmt vottorði Hlyns Þorsteinssonar, sérfræðings á slysa- og bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi, frá 11. ágúst 2004, var um að ræða 18 sm langan skurð á hálsi A. Var skurðurinn aðallega vinstra megin á hálsinum en fór þó aðeins fram fyrir barka og voru 3 sm hans hægra megin við miðlínu. Endaði skurðurinn niður við eyra og tók þá við 2-3 sm löng rispa og lá hún um 1,5 sm neðan við skurðinn. Við skoðun var ekki mikil blæðing í sárinu. Virtist skurðurinn vera svolítið skáskorinn niður á við. Gekk skurðurinn inn og niður og var dýpstur fremst á hálsinum. Var dýpt hans, mæld beint inn frá húð og niður, á bilinu 1-2 sm en mælt niður eftir skurðfarinu og í skurðáttina var dýptin alveg niður í 4-5 sm. Þegar skoðað var ofan í sárið mátti sjá móta fyrir barka framanvert og í miðlínu. Þá sást örlítið móta fyrir munnvatnskirtli og sömuleiðis sást móta fyrir tilteknum vöðva sem liggur hliðlægt, skáhallt í hálsinum. Ekki var að sjá að sárið hefði lent í neinum af þessum líffærum .

Í vætti læknisins kom fram að háls sé mjög alvarlegur áverkastaður því þar séu mörg líffæri sem geti skaðast og til dæmis ekki langt í stórar æðar. Þá séu þar taugar sem geti laskast. Einnig sé barki skammt frá yfirborði háls. Vitnið kvað áverkann hafa verið veittan með beittu eggvopni en um hafi verið að ræða langan skurð og tiltölulega beinan. Hafi skurðurinn virst vera alveg samhangandi eins og um eitt lag hafi verið að ræða. Hefði lítið þurft að koma til viðbótar til þess að af hlytist lífshættulegur áverki miðað við þau líffæri sem hafi verið skammt undan áverkanum. Gæti hafa munað 1 sm að áverkinn næði inn í æðar og 2-3 mm að hann næði í barkann. Ekki sé endilega víst að árásarmaður hafi fengið á sig blóð við lagið því stórar æðar hafi ekki farið í sundur og ekki heldur neinar stærri slagæðar.

Ljóst er af vottorðinu og vætti læknisins að áverki sá, er hér um ræðir, var veittur með beittu eggvopni og þá eru allar líkur á að um hafi verið að ræða eina atlögu. Jafnframt verður ráðið af gögnunum að skorið hafi verið niður á við. Fær það fyllilega samræmst þeirri niðurstöðu að ákærði hafi verið að verki þar sem hann stóð fyrir utan glugga leigubifreiðarinnar. Sáralitlu mátti muna til að áverkinn yrði lífshættulegur og réð þar hending ein. Gat ákærða ekki dulist að atlagan var stórhættuleg og að bani gæti hæglega hlotist af henni. Þykir háttsemi ákærða varða við 211. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. sömu laga.

Sakhæfi

Svo sem áður greinir gerði Tómas Zoëga geðlæknir rannsókn á geðheilbrigði ákærða að beiðni lögreglustjórans í Reykjavík. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar hans frá 10. september 2004 verða, sem fyrr segir, miklar hegðunarbreytingar á ákærða samfara áfengisneyslu og verður hann þá orðljótur, árásargjarn og stundum ógnandi. Að mati læknisins bar ákærði engin merki um geðrofssjúkdóm og þá hefur hann enga sögu um lyfjamisnotkun. Ákærði kom eðlilega fyrir í viðtölum og talaði um að áfengið hefði verið sitt böl alla ævi. Er það mat læknisins að ákærði hafi umrætt kvöld og nótt ekki verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnum sem komið hafi í veg fyrir að hann gæti stjórnað gerðum sínum. Hins vegar sé ljóst að hann hafi verið með rænuskerðingu vegna mikillar áfengisneyslu og sé minnisleysi alvarlegur fylgikvilli áfengisneyslunnar. Sé slíkur fylgikvilli vel þekktur og ekki ástæða til að draga frásögn ákærða um minnisleysi í efa. Er það álit geðlæknisins að engar læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því að refsing geti borið árangur. Þá er það sömuleiðis mat hans að ákærði sé sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga.

Fallist er á það mat geðlæknisins að ákærði sé sakhæfur samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga og að refsing geti borið árangur samkvæmt 16. gr. sömu laga.

Sakaferill

Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ekki sætt neinum refsingum sem hér geta skipt máli.

Ákvörðun refsingar

Árás ákærða var fólskuleg og algerlega tilefnislaus. Beindist brot ákærða að því, sem hverjum manni er mikilvægast, lífi og heilsu. Var árásin stórhættuleg og hefur samkvæmt gögnum málsins valdið árásarþola verulegu tjóni, sérstaklega á sál, en einnig líkama. Ekki er neitt vitað hvað ákærða gekk til með verknaði sínum en ljóst er að hann átti ekkert sökótt við árásarþola. Ráða má af rannsókn á geðheilbrigði ákærða að miklar hegðunarbreytingar verða á honum samfara áfengisneyslu. Verður háttsemi ákærða því eingöngu rakin til þeirra breytinga sem verða á skapgerð og atferli ákærða þegar hann neytir áfengis. Þegar allt framangreint er virt og með vísan til 1., 2., 3. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi 5 ár. Til frádráttar refsingu kemur, með fullri dagatölu, óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 27. júlí 2004 til uppkvaðningar dóms þessa, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

Bætur

Af hálfu A er gerð krafa um bætur úr hendi ákærða samkvæmt XX. kafla laga nr. 19/1991. Er krafist 2.500.000 króna í miskabætur, 14.700 króna í þjáningabætur og 280.000 króna, auk 68.600 króna í virðisaukaskatt, vegna kostnaðar lögmanns við að halda kröfunni fram. Nemur bótakrafan því samtals 2.863.300 krónum. Þá er krafist vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. 

Krafa um miskabætur styðst við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og krafa um þjáningabætur í 21 dag við 3. gr. sömu laga. Krafa um lögmannsþóknun er sett fram með stoð í 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 og þá er vísað til gjaldskrár viðkomandi lögmanns sem jafnframt er skipaður réttargæslumaður bótakrefjanda.

Ákærði hefur mótmælt kröfunni.

Ákærði hefur orðið uppvís að ólögmætri og alvarlegri meingerð gagnvart A sem hefur samkvæmt gögnum málsins haft veruleg áhrif á líf hans. Er ekki séð fyrir endann á afleiðingum verknaðarins á þessari stundu en með réttri meðferð standa vonir þó til að úr áhrifunum dragi eftir því sem lengra líður frá atburðinum. Samkvæmt því eru miskabætur hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Taka ber kröfu um þjáningabætur til greina eins og hún er fram sett. Þá þykir kostnaður við að halda bótakröfunni fram hæfilega ákveðinn 75.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ber því að dæma ákærða til greiðslu 1.089.700 króna ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. júlí 2004 og dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá 8. janúar 2005 til greiðsludags.

Ég er sammála meirihluta dómsins um ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar til handa réttargæslumanni brotaþola en í samræmi við niðurstöðu mína ber að fella þann kostnað, ásamt öðrum sakarkostnaði, á ákærða, sbr. fyrri málsl. 165. gr. laga nr. 19/1991.