Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2008


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


                                     

Fimmtudaginn 6. nóvember 2008.

Nr. 55/2008.

Ástríður Sveinsdóttir

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Elísi Kjartanssyni og

Davíð Ómari Gunnarssyni

(Kristín Edwald hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón.

Á slasaðist við fall á stétt fyrir utan Hótel Geysi í Haukadal þar sem hún var stödd í veislu. E og D voru nærstaddir þegar Á féll á jörðina. Samkvæmt framburði þeirra höfðu þeir brugðið á leik, sem fólst í því að þeir ráku bumbur sínar hvor í annan. Hvorugur tók eftir Á fyrr en þeir sáu hana liggjandi á stéttinni. Á hafði fyrst eftir að skaðabótamál þetta var höfðað frumkvæði að því að fram færi rannsókn á atvikum á slysstað. Engin vitni komu fram sem lýst hefðu getað slysinu. Samkvæmt þessu var ekki talið að bein sönnun lægi fyrir um að E og D hefðu valdið því að Á hefði fallið í jörðina umrætt sinn. Fallist var á með Á að gáleysislegt kynni að hafa verið af E og D að fara í leik þann sem lýst er innan um veislugesti hótelsins en þó var ekki talið að um stórkostlegt gáleysi hefði verið að ræða af þeirra hálfu. Kom því ekki til álita málsástæða Á um að sönnunarbyrði um atvik að slysinu hefði færst yfir til E og D af þeirri ástæðu. Samkvæmt þessu voru E og D sýknaður af kröfu Á um skaðabætur.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2008. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða sér 14.827.556 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.366.684 krónum frá 6. apríl 2003 til 29. nóvember 2004, en af 14.761.797 krónum frá þeim degi til 2. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum af 14.827.556 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði dæmdir óskipt til greiðslu 14.417.465 króna, með 4,5% ársvöxtum af 1.366.684 krónum frá 6. apríl 2003 til 29. nóvember 2004, en af 14.351.706 krónum frá þeim degi til 2. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum af 14.417.465 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.  

Áfrýjandi slasaðist 5. apríl 2003 við fall er hún var stödd á árshátíð á Hótel Geysi í Haukadal. Atvikið átti sér stað utan dyra eftir borðhald. Svo virðist sem orðrómur hafi strax komið upp um að slys áfrýjanda hafi orðið með þeim hætti sem hún heldur fram. Henni mátti vera ljóst í lok janúar 2004, er henni bárust svör stefndu við tilkynningum hennar um að hún teldi þá bera skaðabótaábyrgð á tjóni sínu, að málsatvik væru ekki óumdeild. Þrátt fyrir það hafði hún, fyrst eftir að skaðabótamál hafði verið höfðað á hendur stefndu haustið 2006, frumkvæði að því að fram færi rannsókn á atvikum. Óumdeilt er að áfrýjandi varð fyrir verulegu tjóni. Meginreglur um sönnunarbyrði leiða til þess að það hvílir á henni að sanna orsök þess og sök tjónvalds. Þrátt fyrir framangreindan orðróm, hafa engin vitni komið fram sem lýst geta slysinu. Fallast má á að gáleysislegt kunni að hafa verið af stefndu að fara í leik þann sem lýst er, á litlu svæði innan um veislugesti. Sú hætta sem stafað gat af leiknum mátti þó vera öðrum viðstöddum ljós, án þess að sérstaklega væri varað við henni. Er ekki unnt að fallast á með áfrýjanda að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða af hálfu stefndu. Kemur því ekki til álita málsástæða áfrýjanda um að sönnunarbyrði um atvik að slysinu færist til stefndu af þeirri ástæðu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Eins og atvikum og aðdraganda máls þessa er háttað, og þá sérstaklega að lögreglurannsókn sú sem hófst að frumkvæði lögmanns annars stefnda eða tryggingafélags hans, kann að hafa haft þau áhrif að heildstæð rannsókn á orsökum slyssins dróst, þykir rétt að hvor aðili beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                          

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 8. nóvember 2007.

 Mál þetta var höfðað 11. og 15. september  2006 og dómtekið 19. október 2007. Stefnandi er Ástríður Sveinsdóttir. Stefndu eru Elís Kjartansson og Davíð Ómar Gunnarsson.

 Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda kr. 16.051.955 ásamt 4,5%  ársvöxtum af kr. 2.591.083 frá 6. apríl 2003 til 29. nóvember 2004, en af kr. 15.986.196 frá þeim degi til 2. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum af stefnufjárhæðinni skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda kr. 15.641.864 ásamt 4,5% ársvöxtum af kr. 2.591.083 frá 6. apríl 2003 til 29. nóvember 2004 en af kr. 15.576.105 frá þeim degi til 2. febrúar 2005 en dráttarvexti af stefnufjárhæðinni skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig krefst stefnandi í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefndu, in solidum, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti og að stefndu verði dæmdir til að bæta stefnanda þann kostnað sem hún hefur af greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþjónustu. Krafist er málskostnaðar eins og málið væri ekki rekið sem gjafsóknarmál.

 Stefndu krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikningi eða samkvæmt mati dómsins. Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

 Málsatvik.

Málsatvik má rekja til slyss sem stefnandi lenti í á árshátíð starfsmanna embættis Sýslumannsins á Selfossi þann 6. apríl 2003 að Hótel Geysi í Bláskógabyggð, en hún var þar stödd ásamt eiginmanni sínum, Hlöðveri Magnússyni, þáverandi starfsmanni embættisins. Af framburðum fyrir dómi og öðrum gögnum málsins verður ráðið að rétt eftir miðnætti hafi nokkrir af árshátíðargestunum safnast saman á stéttinni framan við innganginn að veislusal hótelsins. Voru bæði stefnandi og stefndu, sem báðir eru lögreglumenn, þeirra á meðal. Kveðast stefndu hafa ákveðið að bregða þarna á leik og fara í svokallaðan bumbuslag sem hafi falist í því að þeir hafi rekið bumbur sínar hvor í annan. Hafi þeir með þessu nánast verið að kasta kveðju hvor á annan. Hafi þeir rekið bumbur sínar í tvö til þrjú skipti og hafi stefndi Elís snúið að mestu baki í innganginn en stefndi Davíð staðið andspænis honum. Hafi hvorugur þeirra tekið eftir stefnanda fyrr en þeir sáu hana liggjandi í stéttinni og ekki hafi þeir heldur orðið þess varir að annar hvor þeirra hafi rekist í hana. Stefnandi kveðst hafa staðið nálægt innganginum og verið þar í samræðum við annan árshátíðargest en stefndu virðast hafa staðið nokkru fjær innganginum. Kvaðst stefnandi allt í einu hafa fundið þungt högg dynja á hægri síðu sinni, við mjöðm. Hafi hún skollið í jörðina og borið fyrir sig vinstri handlegginn í fallinu með þeim afleiðingum að úlnliðurinn brotnaði.

 Vegna slyssins var lögreglan kvödd á staðinn og lögregluskýrsla gerð. Stefnandi var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem Óskar Reykdalsson heilsugæslulæknir gerði að meiðslum hennar og liggur læknisvottorð vegna þessa fyrir í málinu. Morguninn eftir fór stefnandi til frekari meðferðar á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss og liggja fyrir vottorð vegna meðferðarinnar þar.

 Stefnandi fór í örorkumat vegna afleiðinga slyssins 29. nóvember 2004 og var hún metin til 85% varanlegrar örorku og 12% varanlegs miska vegna handleggsbrotsins.

 Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að stefndu beri skaðabótaábyrgð á tjóni hennar samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Telur stefnandi að um aðgæsluleysi og saknæma háttsemi hafi verið að ræða af hálfu beggja stefndu þegar þeir tókust á í bumbuslag með þeim afleiðingum að stefndi Elís hafi hrökklast undan höggum stefnda Davíðs og rekist í stefnanda þannig að stefnandi féll í jörðina. Báðum stefndu hafi mátt vera ljóst, sérstaklega með hliðsjón af þekkingu þeirra og reynslu í lögreglustarfi, að umtalsverð áhætta væri í því fólgin að þeir færu í bumbuslag á jafn lítilli stétt og raun bar vitni, þar sem fjöldi fólks hefði safnast saman.

 Samkvæmt rannsókn lögreglunnar, sem fram hafi farið án vitundar stefnanda, hafi engin vitni getað sagt ákveðið til um það hvort stefndi Elís hafi rekist utan í stefnanda eður ei. Af lögregluskýrslum og öðrum gögnum málsins megi þó ráða nokkur atriði sem liggi ljós fyrir. Þannig liggi fyrir að stefndu hafi verið í bumbuslag á lítilli stétt fyrir utan Hótel Geysi þegar slysið átti sér stað. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafi báðir stefndu þá verið ölvaðir en stefnandi hins vegar ekki. Beri vitni um að stefndi Elís hafi hrökklast undan höggum stefnda Davíðs í bumbuslagnum en stefnandi hafi staðið kyrr á stéttinni áður en hún datt. Þá liggi og fyrir að engin hálka hafi verið á slysstaðnum og að skyggni hafi verið gott. Kveður stefnandi öll læknisvottorð styðja málsatvikalýsingu sína. Samkvæmt læknisvottorði Jóhanns Róbertssonar, læknis á bæklunarskurðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, dags. 19. apríl 2004, megi rekja örorku stefnanda til þess að það „fettist verulega upp á úlnlið í extension stöðu“. Brot á báðum pípum framhandleggsins, strax ofan við úlnliðinn (distal  radius og ulna brot) eigi í langflestum tilfellum sér stað þegar dottið sé á útréttan handlegg. Ólíklegt sé að úlnliður stefnanda hefði fettst svo langt til hægri að hann mölbrotnaði nema stefndi Elís hafi rekist á hana. Áverkar stefnanda og niðurstaða örorkumatsgerðar um 85% varanlega örorku gefi til kynna að stefnandi hafi orðið fyrir talsverðu höggi og hafi fallið af miklum þunga á stéttina umrætt sinn. Verði að telja með miklum ólíkindum að stefnandi hafi dottið undir framangreindum kringumstæðum án þess að hafa orðið fyrir utanaðkomandi höggi.

 Þá gefi hegðun stefndu eftir slysið einnig til kynna að þeir hafi átt sök á slysinu. Hafi þeir báðir heimsótt stefnanda daginn eftir slysið, beðið hana afsökunar og gefið blómvönd, auk þess sem stefndi Elís hafi átt frumkvæði að því að stefnanda yrði veittur styrkur vegna slyssins að fjárhæð 200.000 krónur úr félagssjóði lögreglumanna í Árnessýslu.

 Þá bendir stefnandi á að stefndi Elís hafi ekki greint frá afstöðu sinni til atvika málsins strax eftir að hann hafi fengið kröfubréf í hendurnar, í janúar 2006, eins og eðlilegt hefði verið og stefndi Davíð hafi gert. Í beiðni lögmanns stefnda Elísar til sýslumannsins á Selfossi hafi verið farið fram á að skýrslur yrðu teknar af völdum vitnum en ekki farið fram á að skýrsla um málsatvik yrði tekin af honum sjálfum þótt fullt tilefni hefði verið til þess. Bendi framangreint ótvírætt til þess að stefndi Elís hafi ákveðið að lýsa ekki málsatvikum fyrr en aðrir árshátíðargestir hefðu gert það. Hafi stefnanda fyrst verið gerð ljós afstaða stefnda Elísar til málsatvika með bréfi Sjóvár-Almennra trygginga hf., dags. 2. febrúar 2005, rúmu ári eftir dagsetningu kröfubréfs stefnanda. Mótmæli stefnandi þeirri lýsingu á málsatvikum sem þar komi fram en þar sé meðal annars staðhæft að stefnandi hafi sjálf dottið vegna ölvunar og að hún hefði átt að gæta sín betur á bumbuslag stefndu.

 Stefnandi kveður bótafjárhæðir vegna örorku í aðal- og varakröfu miðast við útreikning tryggingastærðfræðings samkvæmt örorkumatsgerð Guðmundar Björnssonar læknis, dags. 29. nóvember 2004. Miðist aðalkrafa stefnanda við að verðmæti heimilisstarfa stefnanda sé lagt að jöfnu við verðmæti starfa hennar utan heimilisins skv. 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sundurliðist aðalkrafan með eftirgreindum hætti:

 Bótafjárhæð samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðings skv. skaðabótalögum nr. 50/1993 sé alls 17.616.959 krónur og sundurliðist svo:

1.            1.      Bætur vegna tekjumissis í starfi vegna varanlegrar örorku m.v. 50% starfshlutfall, kr. 7.512.938.

2.            2.      Bætur vegna varanlegrar örorku séu heimilisstörf í 50% hlutfalli metin til fjár, jafngild atvinnutekjum, kr. 7.512.938.

3.            3.      Bætur vegna tímabundinna þátta, kr. 1.951.303.

4.            4.      Bætur vegna varanlegs miska, kr. 639.780.

Annað almennt fjártjón stefnanda skv. 1. gr. laga nr. 50/1993 sé 65.759 krónur og sundurliðist með eftirfarandi hætti:

1.        1.      Ógreiddur kostnaður vegna sjúkraþjálfunar til loka árs 2004, kr. 34.059

                 (miðað við að helmingur hafi verið greiddur af Sjóvá-Almennum             tryggingum hf.)

2.        2.      Komugjald á heilsugæslu, kr. 6.500.

3.        3.      Lyfjakostnaður, kr. 2.781.

4.        4.      Kostnaður vegna rannsóknar á heilsugæslustöð kr. 1.800.

5.        5.      Kostnaður vegna skoðunar bæklunarlæknis, kr. 2.938.

6.        6.      Ógreiddur kostnaður vegna sjúkraþjálfunar árið 2005, kr. 12.047.

7.        7.      Ógreiddur kostnaður vegna sjúkraþjálfunar árið 2006, kr. 5.634.

 Fjárhæð aðalkröfu sé samtala þessara upphæða, 17.616.959 krónur + 65.759 krónur eða alls 17.682.718 krónur.

 Varakrafa stefnanda sé miðuð við að verðmæti heimilisstarfa stefnanda sé lagt að jöfnu við meðaltekjur ófaglærðra launþega árin 2000-2002, skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993, og sundurliðist hún með eftirfarandi hætti:

 Bótafjárhæð samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðings skv. lögum nr. 50/1993 sé 17.206.868 krónur og sundurliðist svo:

1.        1.      Bætur vegna tekjumissis í starfi vegna varanlegrar örorku m.v. 50% starfshlutfall, kr. 7.512.938.

2.        2.      Bætur vegna varanlegrar örorku séu heimilisstörf, í 50% hlutfalli, metin til fjár jafngild meðaltekjum ófaglærðra launþega, kr. 7.102.847.

3.        3.      Bætur vegna tímabundinna þátta, kr. 1.951.303.

4.        4.      Bætur vegna varanlegs miska, kr. 639.780.

 Annað almennt fjártjón stefnanda skv. 1. gr. laga nr. 50/1993 sé hið sama og í aðalkröfu eða 65.759 krónur og fjárhæð varakröfu samtala þessara upphæða eða 17.206.868 krónur + 65.759 krónur eða samtals 17.272.627 krónur.

 Upphafsdagur dráttarvaxta, bæði í aðalkröfu og varakröfu, sé 22. febrúar 2004, skv. reglu 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, sbr. kröfubréf til beggja stefndu, dags. 22. janúar 2004. Þá sé málskostnaðarkrafa stefnanda reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu styðja kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi við þá málsástæðu að stefnandi hafi með engu móti sannað að tjónið verði rakið til atvika sem stefndu beri ábyrgð á að lögum, en sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda um orsök tjóns síns og umfang þess. Þannig sé ósannað að meint högg í hægri síðu stefnanda megi rekja til stefndu fremur en annarra árshátíðargesta eða einhvers hlutar sem stefnandi hafi sjálf rekið sig í. Að auki hafi stefnandi heldur ekki sannað að hún hafi orðið fyrir höggi á hægri síðu við mjöðm, enda hafi ekki verið lögð fram nein gögn því til stuðnings. Kveðast stefndu vísa, hvað þetta varðar, til frásagnar vitna sem beri með sér að ekki hafi verið um neina snertingu að ræða og að ekkert vitnanna geti staðfest að annar stefndu hafi rekist í hægri síðu stefnanda. Þá sé staðhæfingum stefnanda í stefnu um að sum vitnin hafi sérstaklega verið valin af stefnda Elís harðlega mótmælt. Stefndu mótmæli því ennfremur sem röngu að vitnið Magnús Kolbeinsson, sé vinur stefnda Elísar og því hafi hann borið honum í vil. Raunin sé sú að umrætt vitni sé bæði starfsfélagi stefndu og Hlöðvers Magnússonar, eiginmanns stefnanda. Stefndi Elís og umrætt vitni hafi ekki átt nein samskipti í vinnunni sem séu frábrugðin samskiptum þeirra við aðra starfsfélaga. Hafi þeir heldur ekki átt nein samskipti utan vinnunnar. Hafi umrætt vitni hvorki verið né sé vinur stefnda í þeirri merkingu sem leggja beri í það hugtak. Þessum staðhæfingum stefnanda sé því harðlega mótmælt.

 Stefndu byggja sýknukröfu sína í öðru lagi á því að þeir beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda þar sem óhappið verði ekki rakið til atvika sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á að lögum.

Þannig megi ráða af gögnum málsins að orsök tjóns stefnanda hafi verið óhappatilviljun og óaðgæsla hennar sjálfrar þegar hún hugðist ganga út á veröndina. Vitnið Magnús Kolbeinsson hafi sagst hafa séð er stefnandi gekk út um dyrnar og telji hann sig hafa séð hana hrasa, missa jafnvægið og síðan falla. Telji vitnið að rekja megi óhappið og fall stefnanda í stéttina til lækkunar í þrepi frá dyraopi niður á stéttina. Í tilraun til þess að ná aftur jafnvægi hafi stefnandi tekið „hraðari skref“ í átt til stefndu og hafi síðan fallið nálægt þeim. Eins og fram komi í frumskýrslu lögreglu hafi stefnandi drukkið nokkurt áfengi þetta kvöld. Stefndu byggi á því að slys stefnanda hafi því verið óhappatilvik sem þeim verði ekki um kennt, enda hafi hvorki þeir né vitni, sem verið hafi á staðnum, tekið eftir því að stefndu hafi rekist utan í stefnanda áður en hún datt á stéttina. Virðist stefnandi ein til frásagnar um meintan árekstur við stefndu þrátt fyrir að allnokkrir gestir hafi verið viðstaddir. Verði því að meta frásögn hennar í ljósi stöðu hennar sem aðila máls. Þá hafi stefnandi margoft sagt að slys hennar hafi ekki verið stefndu að kenna. Þetta hafi verið óhapp sem þeir beri ekki ábyrgð á. Í þessu tilliti byggi stefndu og á því að þeir hafi ekki verið ölvaðir, enda séu ekki til staðar nein gögn sem leiði annað í ljós. Hins vegar staðfesti  frásagnir vitnanna Marianne Ósk B. Nielsen og Magnúsar Kolbeinssonar að þeir hafi ekki verið ölvaðir. Mótmæli stefndu því sem röngum og ósönnuðum staðhæfingum hvað þetta varði. Þá mótmæli stefndu harðlega staðhæfingum stefnanda um að leikur þeirra hafi verið hættulegur þeim sem nálægt hafi verið. Í þeim efnum skipti heldur engu máli þótt þeir hafi starfað sem lögreglumenn. Á sama hátt sé því mótmælt að stefnandi hafi staðið kyrr á stéttinni þegar umræddur leikur hafi átt sér stað. Því til stuðnings vísi þeir til framburðar vitna sem beri flest á annan veg. Samkvæmt þessu hafi háttsemi stefndu ekki verið þeim saknæm þar sem skilyrðum sakarreglunnar um saknæmi og ólögmæti hafi ekki verið fullnægt. Geti þeir því með engu móti orðið bótaskyldir á grundvelli þeirrar reglu og bótaábyrgð því hafnað.

 Stefndu kveðast í þriðja lagi byggja á því að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar umrætt óhapp átti sér stað og eigi sjálf sök á tjóni sínu. Ranglega sé farið með ástand stefnanda í málatilbúnaði hennar, en þar segi að hún hafi ekki verið undir áhrifum áfengis þegar óhappið átti sér stað, enda komi það hvergi fram í lögregluskýrslum. Þessari staðhæfingu sé harðlega mótmælt. Stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar óhappið átti sér stað og staðfesti hún það sjálf í frumskýrslu lögreglu, dags. 6. apríl 2003. Sé þar haft eftir henni að hún hafi drukkið fordrykk og þrjú glös af rósavíni. Það að slíkt sé haft eftir henni í frumskýrslu lögreglunnar, sem gerð hafi verið nokkrum tímum eftir slysið, staðfesti með óyggjandi hætti að hún hafi neytt áfengis. Þessu til stuðnings vísi stefndu og í skýrslur vitna hjá lögreglu.

 Í fjórða lagi mótmæli stefndu því sem röngu að hegðun þeirra eftir óhappið gefi tilefni til að draga þá ályktun að þeir hafi átt sök á því hvernig fór. Það að stefndu hafi heimsótt stefnanda nokkrum dögum eftir slysið og haft frumkvæði að því að hún fengi styrk úr félagssjóði lögreglumanna á Selfossi feli með engu móti í sér viðurkenningu á bótaskyldu. Það hafi verið mjög eðlilegt að stefndi Elís hafi haft frumkvæði að því að stefnandi fengi styrk úr félagssjóðnum. Þá sé því harðlega mótmælt að stefndi Elís hafi með vísvitandi hætti ákveðið að gefa ekki skýrslu um málsatvik og tjá sig um bótaskyldu áður en teknar yrðu skýrslur af vitnum. Það hafi verið þáverandi lögmaður hans sem farið hafi þess á leit við sýslumannsembættið á Selfossi, að beiðni vátryggingafélags stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., að teknar yrðu skýrslur af vitnum áður en afstaða yrði tekin til bótaskyldu og hvort greiða skyldi úr ábyrgðarlið fjölskyldutryggingar stefnda. Þessi málsmeðferð hafi hvorki verið óeðlileg né gefið tilefni til að draga þá ályktun að stefndi vildi haga málsatvikalýsingu með öðrum hætti en raunin hafi verið á umræddri árshátíð. Öllu heldur séu það góð og eðlileg vinnubrögð vátryggingarfélags að taka upplýsta ákvörðun í máli sem varði greiðsluskyldu félagsins vegna vátryggingar meints tjónvalds.

 Varakröfu sína kveðast stefndu byggja á því að bætur beri að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda. Um rökstuðning hvað það varði vísi þeir til sömu sjónarmiða og þeir setji fram  til stuðnings aðalkröfu sinni. Stefnandi eigi því að bera stærstan hluta tjóns síns sjálf.

 Þá kveðast stefndu mótmæla niðurstöðu matsgerðar sem of hárri og sömuleiðis útreikningum stefnanda á fjárhæð stefnukröfu. Beri því að lækka einstaka liði í kröfugerð stefnanda eftir því sem við eigi. Þá mótmæli þeir tímabundnu atvinnutjóni stefnanda sem ósönnuðu og því að verðmæti heimilisstarfa stefnanda sé lagt að jöfnu við verðmæti starfa hennar utan heimilisins.

 Stefndu mótmæla upphafsdegi dráttarvaxta og benda á að endanlegar upplýsingar, sem bótakrafa stefnanda byggist á, hafi fyrst legið fyrir þegar stefnandi, að undangenginni áskorun stefndu, lagði fram í þinghaldi 15. mars sl., gögn um greiðslur frá þriðja manni sem koma eigi til frádráttar skaðabótum, sbr. 2. mgr 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og lækkaði jafnframt stefnukröfu sína með vísan til þeirra.

 Eftir því sem við eigi sé, til stuðnings kröfu um verulega lækkun skaðabóta, að öðru leyti vísað til sömu málsástæðna og fram komi til rökstuðnings varakröfu.

 Niðurstaða.

Stefnandi byggir bótakröfur sínar á hendur stefndu á því að þeir beri sameiginlega ábyrgð á tjóni hennar á grundvelli almennu skaðabótareglunnar þar sem þeir hafi í umrætt sinn sýnt af sér aðgæsluleysi og saknæma háttsemi er þeir tókust á í svokölluðum bumbuslag. Hafi stefndi Elís hrökklast undan höggum stefnda Davíðs og við það rekist í stefnanda með þeim afleiðingum að hún féll í jörðina. Engum öðrum ástæðum sé til að dreifa fyrir falli stefnanda þar sem hún hafi staðið kyrr og verið ódrukkin í umrætt sinn, engin hálka hafi verið á slysstað og skyggni gott.

 Óumdeilt er að stefndu höfðu á þeim tíma sem stefnandi féll á stéttina fyrir utan Hótel Geysi gert sér að leik, þar sem þeir voru staddir á stéttinni, aðeins fjær inngangi hótelsins en stefnandi, að reka bumbur sínar hvor í annan. Hafa þeir, bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi, sagst ekki hafa orðið varir við að annar hvor þeirra hafi rekist á stefnanda í þessum leik sínum. Þá hafi þeir heldur ekki orðið varir við er stefnandi féll í stéttina. Hins vegar kvaðst stefnda Elís ráma í hugleiðingar einhvers þarna á staðnum um hvort annar hvor stefndu hefði rekist í stefnanda. Sjálf kvaðst stefnandi í umrætt sinn hafa snúið baki í stefndu þegar hún hafi allt í einu orðið fyrir höggi á hægri hliðina og fallið við það á stéttina. Kvaðst stefnandi fyrir dómi ekki hafa séð frá hverju höggið stafaði. Hins vegar kvaðst hún viss um að einhver hefði dottið á hana og taldi hún sig hafa heyrt út undan sér að það hefði verið stefndi Elís. Ekkert þeirra vitna sem komu fyrir dóminn, og voru stödd á stéttinni á þeim tíma sem slysið varð, gat heldur staðfest að hafa séð aðdraganda þess og þá hvort stefnandi hafi orðið fyrir höggi og þá frá hverjum. Samkvæmt því liggur engin bein sönnun fyrir um að stefndi Elís hafi rekist í stefnanda umrætt sinn eða að fall hennar megi með öðrum hætti rekja til bumbuslags stefndu. Stefnandi byggir eigi að síður á því að hegðun stefndu í kjölfar slyssins bendi eindregið til þess að þeir sjálfir hafi litið svo á að fall stefnanda á stéttina mætti rekja til bumbuslags þeirra og hljóti það að renna stoðum undir sök stefndu. Á þetta verður ekki fallist. Verður ekki talið, gegn eindregnum mótmælum stefndu, að heimsókn þeirra til stefnanda daginn eftir slysið, frumkvæði stefnda Elísar að því að stefnanda yrði veittur styrkur úr félagssjóði lögreglumanna í Árnessýslu eða hegðun stefndu að öðru leyti eftir slysið, feli í sér einhvers konar viðurkenningu af hálfu stefndu og þá óbeina sönnun fyrir því að slysið hafi orðið af þeirra völdum.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið sannað, gegn eindregnum mótmælum stefndu, að tjón stefnanda verði með einhverjum hætti rakið til athafna stefndu í greint sinn. Verða stefndu því, þegar af þeirri ástæðu, sýknaðir af kröfum stefnanda í máli þessu.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá sem tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Eftir atvikum málsins og málalokum er rétt að stefnandi greiði stefndu hvorum fyrir sig 200.000 krónur í málskostnað. 

 Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.404.381 króna, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Geirs Gestssonar héraðsdómslögmanns, 1.300.000 krónur.

 Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Elís Kjartansson og Davíð Ómar Gunnarsson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Ástríðar Sveinsdóttur.

Stefnandi greiði stefndu hvorum fyrir sig 200.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.404.381 króna, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Geirs Gestssonar héraðsdómslögmanns, 1.300.000 krónur.