Hæstiréttur íslands

Mál nr. 646/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                              

Mánudaginn 5. desember 2011.

Nr. 646/2011.

Sýslumaðurinn á Akranesi

(Halla Bergþóra Björnsdóttir settur sýslumaður)

gegn

X

(Einar Hugi Bjarnason hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. desember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 10. desember 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tíma og einangrun aflétt.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. desember 2011.

Lögreglustjórinn á Akranesi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], [...], með dvalarstað að [...], sama stað, verði úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til laugardagsins 10. desember nk. kl. 16:00 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá er þess krafist að kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður styttri tími.

Í kröfunni kemur fram að lögreglan á Akranesi rannsaki nú ætluð kynferðisbrot kærða gegn 11 ára dóttur sinni, A. Í framburði brotaþola fyrir dómi í gær hafi komið fram að faðir hennar hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi og hafi hún sagt jafnöldrum sínum frá því. Telur lögreglan rökstuddan grun fyrir hendi um að kærði hafi brotið gegn ákvæðum 1. og 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn 1. mgr. varði fangelsi allt að 12 árum sé barnið yngra en 16 ára. Um sé að ræða grun um mjög grófa kynferðismisnotkun kærða gegn dóttur sinni. Rannsókn málsins sé mjög skammt á veg komin, eftir eigi að yfirheyra vitni og leita þeirra og megi ætla að kærði geti torveldað rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot eða hafa áhrif á vitni. Fram kemur í greinargerðinni að lögregla hafi í fyrradag reynt að hafa upp á kærða en hann hafi falið sig og hafi lögmaður hans komið þeim skilaboðum til lögreglu að hann ætlaði ekki að gefa sig fram eða tala við lögreglu fyrr en í gær og þá með lögmanni sínum. Hafi lögmanninum verið gerð grein fyrir því að lögreglan hafi viljað fá kærða til viðtals strax vegna rannsóknar málsins og kynna honum framkomna kæru. Telur lögreglan það skipta gríðarlega miklu máli að geta borið kæruefni undir sakborninga eins fljótt og unnt sé. Hafi kærði því með þessari háttsemi sinni þegar torveldað rannsókn málsins.

Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur 11 ára dóttir kærða borið fyrir dómi að hún hafi sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns. Verður því að telja að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðað getur við 1. og 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn 1. mgr. þeirrar lagagreinar getur varðað fangelsi allt að 12 árum sé barnið yngra en 16 ára. Rannsókn málins er á frumstigi og ber að fallast á að kærði kunni að spilla eða torvelda rannsókn málsins haldi hann óskertu frelsi sínu. Með hliðsjón af framansögðu og allra gagna málsins þykja uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að fallast megi á kröfu lögreglustjóra og verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður fallist á kröfu lögreglustjóra þess efnis að kærði skuli sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 10. desember 2011 kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.