Hæstiréttur íslands

Mál nr. 813/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                            

Mánudaginn 14. desember 2015.

Nr. 813/2015.

A

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.)

gegn

Velferðarsviði B

(Stefán Ólafsson hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 11. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. nóvember 2015 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Jónínu Guðmundsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 148.800 krónur til hvorrar þeirra, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. nóvember 2015.

Með beiðni, sem móttekin var 5. nóvember sl., hefur velferðarsvið B krafist þess að A[...], til heimilis að [...], [...], nú nauðungarvistuð frá 16. október 2015 á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, verði svipt sjálfræði í sex mánuði, á grundvelli 1. mgr. 5. gr., sbr. 4. gr., lögræðislaga nr. 71/1997.

Fram kemur í kröfu að sóknaraðili hafi með bréfi, dags. 16. október sl., óskað eftir því við innanríkisráðuneytið að varnaraðili yrði nauðungarvistuð á sjúkrahúsi á grundvelli 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Fallist hafi verið á beiðnina með bréfi ráðuneytisins sama dag. Varnaraðili hafi krafist niðurfellingar á ákvörðun þessari fyrir Héraðsdómi Vesturland, en dómurinn hafi hafnað þeirri kröfu með úrskurði í máli nr. [...]/2015, hinn 26. október sl.

Varnaraðili sé með þekktan geðhvarfasjúkdóm og sé núverandi innlögn sú þriðja vegna örlyndisástands. Við innlögn varnaraðila hinn 13. október sl. hafi hún komið í lögreglufylgd frá [...] eftir að hafa verið metin í geðrofi af heimilislækni sínum. Varnaraðili hafi verið mjög ör í byrjun legu og hafi þurft að nauðungarsprauta hana í tvígang vegna ógnandi hegðunar, en hún hafi þá veist að starfsfólki.

Á þeim tíma sem liðið hafi frá innlögn hafi varnaraðili verið ádeilugjörn, hvassyrt og stjórnsöm, en hún hafi nánast daglega komið með kröfugerð handa starfsfólki. Borið hafi á aðsóknarranghugmyndum þar sem hún telji starfsfólk spítalans vera að ljúga upp á sig til þess að geta haldið henni í lengri innlögn. Hafi varnaraðili og sýnt af sér undarlegt háttalag í hegðun og tali. Samkvæmt læknisvottorði C, sérfræðings á bráðageðdeild 32C á Landspítala, dags. 26. október 2015, hafi varnaraðili lítið innsæi í sín veikindi og hafi ekki verið í samvinnu með lyfjameðferð. Þannig hafi hún ekki viljað þiggja þau lyf sem henni séu ráðlögð og/eða ekki vilja þiggja þau í ráðlögðum skömmtum. Af þeim sökum hafi þurft að grípa til þess úrræðis að gefa henni forðalyf í sprautuformi í tvígang á meðan að innlögn hafi staðið. Á undanförnum dögum hafi varnaraðili þó tekið lyf í töfluformi, en hafi nýlega viðurkennt fyrir meðferðarlækni sínum að hafa ekki tekið lyfin sem skyldi.

Það sé mat sóknaraðila, sem og meðferðarlæknis varnaraðila, að hún þjáist af alvarlegum geðsjúkdómi og að varnaraðili muni ekki þiggja frekari lyfjameðferð, sem þó sé henni nauðsynleg eftir nauðungarvistunina. Áframhaldandi meðferð sé varnaraðila nauðsynleg og sé ekki hægt að koma henni að með öðrum hætti en með sjálfræðissviptingu. Að mati framangreinds læknis muni varnaraðili stefna heilsu sinni í hættu, sem og möguleikum sínum á bata, fái hún ekki áframhaldandi meðferð.

                Um kröfu sóknaraðila sé vísað til a-liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga og um tímalengd sjálfræðissviptingar sé vísað til 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 12. gr., sömu laga. Þá er um aðild sóknaraðila vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, en B stendur að beiðni um sjálfræðissviptingu varnaraðila. 

   Í málinu liggur fyrir framangreint læknisvottorð C.  Þar kemur fram að varnaraðili hafi lítið innsæi í sín veikindi og hafi ekki verið til samvinnu með lyfjameðferð meðan hún hafi sætt nauðungarvistun. Þá segir svo: „Það er mat undirritaðrar að áframhaldandi meðferð sé A bráðnauðsynleg og að henni verði ekki komið við án sjálfræðissviptingar. Það verður að tryggja að A fái viðeigandi meðferð vegna síns alvarlega geðsjúkdóms. Sú meðferð mun væntanlega leiða til aukins sjúkdómsinnsæis, tryggja árangur lyfjagjafar og koma í veg fyrir versnun einkenna og frekara heilsutjón af völdum alvarlegs geðsjúkdóms. Áframhaldandi meðferð er A nauðsynleg og án hennar stefnir heilsu sinni í voða og spillir möguleikum á bata. Því styðja meðferðaraðila eindregið framkomna beiðni um sjálfræðissviptingu til hálfs árs.“ Í símaskýrslu sem tekin var af lækninum staðfesti hún vottorð sitt og skýrði frekar sjúkdómsástand varnaraðila.

Við þingfestingu máls þessa hinn 6. nóvember sl. var málinu frestað að ósk verjanda varnaraðila því varnaraðili hefði óskað eftir því að aflað yrði vottorðs annars geðlæknis um ástand sitt. Leitaði verjandinn til D, [...] geðdeildar Landspítalans, í þessu skyni og liggur fyrir vottorð hans, dags. 14. nóvember 2015. Þar segir svo í samantektarkafla: „1) A er í dag enn í geðhæð sem er partur af geðhvarfa sjúkdómi. 2) Geðhvarfa sjúkdómur hennar er alvarlegur því hún hefur einnig fengið geðrof með ranghugmyndum. Ranghugmyndir eru enn til staðar. 3) Innsæi A fyrir aðstæðum sínum, getu og sjúkdómi er enn skert. 4) A er ekki enn búin að mynda meðferðarsamband við lækna sína og ljóst er að hún skilur ekki þörf og mikilvægi réttrar geðlyfjameðferðar. 5) A er í ótvíræðri þörf fyrir vistun á geðdeild enn um sinn. Verði hún útskrifuð munu einkenni aukast á ný því hún telur sig sjálfa geta metið þörfina á geðlyfjameðferð. Hætt er við að hún muni valda sér sjálfri skaða með taktlausri hegðun og framkomu. Sé saga hennar metin eftir á er sterkur grunur um að geðhvarfasjúkdómur hennar hafi þróast á síðasta áratug og hann hafi þegar stuðlað að hrapi í félagslegri stöðu sem hún þegar hefur liðið fyrir. Mikilvægt er því að hún nái bata sem hún geti byrjað að byggja líf sitt upp á ný. Fyrst verður hún að komast úr ástandi geðhæðar og ranghugmynda. A er nefnilega ágætlega gefin og hefur þegar góða menntun.“ Yfirlæknirinn gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð sitt.

 Dómari ásamt verjanda varnaraðila og talsmanni sóknaraðila ræddu við varnaraðila þar sem hann var á deild 32C á geðdeild LSH hinn 6. nóvember sl. Þá kom varnaraðili einnig fyrir dóminn í dag og skýrði mótmæli sín við kröfu sóknaraðila jafnframt því að gera athugasemdir við einstök atriði í fyrirliggjandi læknisvottorðum.

Verjandi varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og krefst hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa sinna, sbr. 17. gr. lögræðislaga.  

Niðurstaða

Með vottorði og skýrslu geðlæknanna C og D er í ljós leitt að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Með hliðsjón af þessu verður að telja að tímabundin sjálfræðissvipting til sex mánaða sé nauðsynlegt til að vernda líf hennar og heilsu. Reynslan sýnir að nauðsynleg læknishjálp og meðferðarúrræðum verður ekki við komið þar sem varnaraðili hefur, samkvæmt vottorði læknisins, hvorki innsæi í veikindi sín né í það sem þarf til þess að ná og síðan viðhalda bata. Vægari úrræði komi því ekki að haldi og telja verður að meðalhófs sé gætt með mörkum sjálfræðissviptingar til sex mánaða.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila, eins og hún er fram sett.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist allur kostnaður málsins úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og talmanns sóknaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði, og er þóknunin ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Varnaraðili, A, kt. [...], er  svipt sjálfræði í sex mánuði.

Allur kostnaður málsins, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 170.000 krónur, og þóknun talsmanns sóknaraðila, Jónínu Guðmundsdóttur hdl.,  300.000 krónur, auk aksturskostnaðar 27.846 krónur, greiðist úr ríkissjóði.