Hæstiréttur íslands

Mál nr. 544/2016

A (Ragnar Aðalsteinsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.)

Lykilorð

  • Ólögmæt meingerð
  • Miskabætur
  • Sjúkraskrá
  • Persónuupplýsingar
  • Friðhelgi einkalífs

Reifun

A krafðist miskabóta vegna ólögmætrar meingerðar samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. A byggði kröfu sína í fyrsta lagi á því að hann hefði orðið fyrir miska vegna ólögmætrar meðferðar og notkunar á persónuupplýsingum í sjúkraskrá hans af hálfu læknisins B. Í öðru lagi að Heilbrigðisstofnun C hefði ekki viðhaft grunnkröfur við vinnslu persónuupplýsinga skv. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og í þriðja lagi að málsmeðferð og svör landlæknis meðan mál hans hefði verið til umfjöllunar hjá embættinu hefði ekki falið í sér góða stjórnsýsluhætti. Var talið að þótt stefndi hefði viðurkennt bótaskylda gagnvart A á framangreindum grundvelli yrði með sjálfstæðum hætti að færa sönnur á það ófjárhagslega tjón sem aðili teldi sig hafa orðið fyrir vegna hinnar bótaskyldu háttsemi. Var talið að ekkert slíkt tjón hefði verið staðreynt í málinu ef frá væri talin meðferð læknisins B á persónuupplýsingum um A. Við ákvörðun miskabóta vegna þess þáttar var meðal annars litið til þess að engin viðhlítandi sönnunarfærsla hefði farið fram af hálfu A um það ófjárhagslega tjón sem hann taldi sig hafa orðið fyrir en ekki væri hægt að byggja á einhliða frásögn hans þar að lútandi og að A hefði þegar verið dæmdar bætur fyrir miska sem líta yrði á sem afleiðingar hinnar ólögmætu notkunar B á umræddum upplýsingum. Þá var talið að fjölmiðlaumfjöllun sem hann hefði sjálfur átt aðild að gæti ekki haft áhrif til lækunnar miskabóta en á hinn bóginn gæti slík umfjöllun ekki aukið það tjón sem bætt yrði. Var Í gert að greiða A 200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 35.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. ágúst 2011 til 1. september 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og í báðum tilvikum krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður.

I

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi á mál þetta sér rætur að rekja til notkunar læknisins B á gögnum úr sjúkraskrá áfrýjanda þegar B tók til andsvara hjá siðanefnd Læknafélags Íslands vegna deilna við annan lækni. Úrskurður nefndarinnar 9. júní 2011 var í september sama ár birtur í Læknablaðinu sem og á heimasíðu þess. Í úrskurðinum komu fram upplýsingar úr sjúkraskrá áfrýjanda, meðal annars sjúkdómsgreining hans við útskrift af tiltekinni sjúkrastofnun, án þess að áfrýjandi væri nafngreindur. Samkvæmt gögnum málsins birtist frétt um málið á fréttavefmiðli Pressunar 3. september 2011 og var sjúkdómsgreining áfrýjanda þar tiltekin, en áfrýjandi ekki nafngreindur. Tveimur dögum eftir birtingu umræddrar fréttar birtist opnuviðtal í DV við áfrýjanda þar sem hann sjálfur tengdi nafn sitt við úrskurðinn. Í framhaldinu varð nokkur fjölmiðlaumfjöllun um málið, í flestum tilvikum með aðkomu áfrýjanda. 

 Með héraðsdómi 17. janúar 2013 voru áfrýjanda dæmdar miskabætur að fjárhæð 300.000 krónur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sameiginlega úr hendi Læknafélags Íslands og ritstjóra Læknablaðsins. Var birting siðanefndarinnar á upplýsingum úr sjúkraskrá áfrýjanda talin hafa falið í sér birtingu persónugreinanlegra upplýsinga um áfrýjanda, sbr. 1. tölulið 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og að hvorki hefði verið nauðsynlegt né sanngjarnt að fjalla um áfrýjanda í úrskurðinum með þeim hætti sem gert var. Var miski áfrýjanda talinn bundinn við þau atvik, sem rekja mátti til birtingar úrskurðarins í Læknablaðinu og leiddu til umfjöllunar á fréttavefmiðli, en ekki til þeirra atvika er síðar komu til „þegar áfrýjandi steig sjálfur fram í fjölmiðlum og tengdi nafn sitt við úrskurð siðanefndar“ svo sem segir í forsendum dómsins. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Áfrýjandi kvartaði einnig vegna málsins til stjórnvalda, þar á meðal Persónuverndar, embættis landlæknis og umboðsmanns Alþingis. Í ákvörðun Persónuverndar 30. maí 2012 var komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið fyrir starfsmenn á Heilbrigðisstofnun C að nota aðgang að sjúkraskrám vegna ágreiningsmála sem þeir ættu sjálfir aðild að og vörðuðu ekki starfsemi stofnunarinnar, sbr. 9. gr. laga nr. 77/2000 og 12. og 13. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Þá taldi Persónuvernd að ekki lægi fyrir að sú framkvæmd Heilbrigðisstofnunar C, er varðaði málið, hefði samrýmst 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði vinnslu, 8. og 9. gr. laganna um heimila vinnslu, eða 11. gr. þeirra um öryggi við vinnslu upplýsinga. Var því beint til stofnunarinnar að beita þeim ráðstöfunum sem til þyrfti er vörðuðu tækni, öryggi og skipulag vinnslu sjúkraskráa svo að fyrrnefndum ákvæðum persónuverndarlaga yrði fylgt. Í tilefni af kvörtun áfrýjanda beindi embætti landlæknis með bréfi 3. júlí 2012 þeim tilmælum til fyrrnefnds læknis að gæta framvegis vel að ákvæðum 13. gr. laga um nr. 55/2009, 15. gr. læknalaga nr. 53/1988 og 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Í framhaldinu beindi áfrýjandi með bréfi 19. júlí 2012 kvörtun til umboðsmanns Alþingis sem laut meðal annars að meintu athafnaleysi velferðarráðuneytisins í tilefni af framangreindri niðurstöðu landlæknis. Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu 5. maí 2014 að þau svör, sem áfrýjandi hefði fengið frá embætti landlæknis, hefðu ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

II

Áfrýjandi krefst miskabóta vegna ólögmætrar meingerðar samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, en grundvöll málsins lagði áfrýjandi með bréfi lögmanns síns til embættis ríkislögmanns 1. júlí 2014. Áfrýjandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að hann hafi orðið fyrir miska vegna ólögmætrar meðferðar og notkunar á persónuupplýsingum um sig af hálfu B læknis sem stefndi beri ábyrgð á sem vinnuveitandi hans. Í öðru lagi að Heilbrigðisstofnun C hafi ekki viðhaft grunnkröfur við vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laga nr. 77/2000 og í þriðja lagi að málsmeðferð og svör landlæknis meðan málið var til umfjöllunar hjá embættinu hafi ekki falið í sér góða stjórnsýsluhætti, en áfrýjandi sendi kvörtun til embættis landlæknis í september 2011. Með bréfi 18. september 2014 viðurkenndi stefndi bótaskyldu gagnvart áfrýjanda á framangreindum grundvelli.

III

Svo sem fram er komið er mál þetta af áfrýjanda hálfu rekið á grundvelli kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Réttarfarsreglur standa því í vegi að dómur í málinu geti falið í sér víðtækari úrlausn um þau réttindi sem áfrýjandi telur að á sér hafi verið brotin að lögum en grundvöllur þeirrar lagagreinar markar.

Af málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti verður ráðið að ekki sé gerður um það ágreiningur að viðurkenning stefnda á bótaskyldu samkvæmt tilvitnuðu bréfi ríkislögmanns 18. september 2014 taki til þeirra þriggja þátta sem að framan er getið og snúa í fyrsta lagi að meðferð og notkun á persónuupplýsingum áfrýjanda af hálfu læknisins, í öðru lagi að Heilbrigðisstofnun C vegna skorts á því að viðhafðar væru grunnkröfur við vinnslu persónuupplýsinga og í þriðja lagi að ágöllum á stjórnsýslu embættis landlæknis. Hvað sem viðurkenningu stefnda á bótaskyldu líður verður sem endranær að færa með sjálfstæðum hætti sönnur á það ófjárhagslega tjón sem viðkomandi aðili telur sig hafa orðið fyrir vegna hinnar bótaskyldu háttsemi. Að því sérstaklega gættu verður fallist á það með héraðsdómi að ekkert slíkt tjón sé staðreynt í málinu, ef frá er talin meðferð læknisins á persónuupplýsingum um heilsufar áfrýjanda.

Óumdeilt er í málinu að meðferð og notkun B læknis á persónuupplýsingum áfrýjanda úr sjúkraskrá hans hafi haft í för með sér ófjárhagslegt tjón í skilningi 26. gr. skaðabótalaga, sem ber að bæta honum fébótum. Við ákvörðun miskabóta er til þess að líta að engin viðhlítandi sönnunarfærsla hefur farið fram af hálfu áfrýjanda um það ófjárhagslega tjón sem hann heldur fram að hann hafi orðið fyrir, en ekki verður byggt á einhliða frásögn hans þar að lútandi. Þá verður við ákvörðun bóta að taka tillit til þess að áfrýjanda hafa þegar verið dæmdar bætur fyrir miska sem líta verður á sem afleiðingar hinnar ólögmætu meðferðar og notkunar læknisins á umræddum upplýsingum um hann, sbr. áðurnefndan héraðsdóm, en á þeirri málsástæðu byggði stefndi þegar í greinargerð til héraðsdóms í máli þessu. Ekki er unnt, svo sem áfrýjandi byggir á, að flokka þann miska, sem ólögmæt meingerð læknisins hefur haft í för með sér fyrir áfrýjanda, niður í sjálfstæð og óskyld tjónstilvik, enda á málið í heild sinni rætur að rekja til hennar. Við ákvörðun miskabóta til handa áfrýjanda er ekki heimilt að láta fjölmiðlaumfjöllun, sem hann sjálfur hefur átt aðild að, hafa áhrif til lækkunar miskabóta, en á hinn bóginn getur slík umfjöllun ekki aukið það tjón sem bætt verður. Að þessu virtu eru miskabætur til áfrýjanda úr hendi stefnda ákveðnar 200.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði segir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda verða staðfest.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, A, 200.000 krónur með  vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. ágúst 2011 til 5. ágúst 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Stefndi greiði áfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.      

                                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2016.

Mál þetta, sem var dómtekið 11. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, [...], Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu birtri 5. ágúst 2015.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 35.000.000 kr., auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. maí 2011 til 20. desember 2014 og með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess að stefnukrafa verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

I

Hinn 23. janúar 2011 meiddist stefnandi á hendi í vinnuslysi. Leitaði hann læknisaðstoðar á D þar sem hann gekkst undir læknisskoðun með þeirri niðurstöðu að ekki væri um beinbrot að ræða. Í kjölfarið fann stefnandi fyrir vaxandi eymslum í hendinni og leitaði því á bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) í Reykjavík hinn 31. janúar 2011. Athugun sérfræðilæknis á LSH leiddi í ljós beinbrot á hendi stefnanda. Búið var um beinbrotið og stefnanda gert að mæta að tíu dögum liðnum til að fjarlægja umbúðirnar. Hinn 12. febrúar 2011 fór stefnandi á D og hitti sama lækni og í fyrstu heimsókn sinni. Læknirinn tjáði honum að hann væri ekki brotinn. Stefnandi kveðst hafa lýst því yfir að sérfræðilæknir á LSH hefði greint beinbrot og ráðlagt að fjarlægja skyldi umbúðirnar. Af hálfu læknisins hafi því verið hafnað og kveður stefnandi að hann hafi haft óviðveigandi ummæli um téðan sérfræðilækni á LSH.

Hinn 14. febrúar 2011 kom stefnandi á bráðamóttöku LSH og óskaði eftir að umbúðir yrðu fjarlægðar. Aðspurður hvers vegna þær hefðu ekki verið fjarlægðar á D tjáði stefnandi sérfræðilækninum að því hefði verið neitað og gerði lækninum jafnframt grein fyrir framangreindum ummælum læknisins á D. Sökum þessa upphófst deila milli læknanna tveggja og fór sá ágreiningur fyrir siðanefnd Læknafélags Íslands. Undir rekstri málsins hjá siðanefnd, notaði annar læknanna gögn úr sjúkraskrá stefnanda til að halda uppi vörnum fyrir nefndinni. Þessar upplýsingar voru teknar upp í úrskurð siðanefndarinnar. Siðanefndin birti síðar úrskurð sinn á heimasíðu læknafélagsins og í útgefnu riti, samanber nánar dóm Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. [...], þar sem stefnanda voru dæmdar bætur vegna þessa þáttar málsins.

Ágreiningsefni þessa máls lýtur að því að stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns er stefnandi varð fyrir vegna ólögmætrar meðferðar og notkunar á viðkæmum persónuupplýsingum úr sjúkraskrá hans. Stefndi hefur viðurkennt bótaábyrgð og snýr ágreiningurinn því að fjárhæð skaðabótanna.

II

Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir miska vegna ólögmætrar meðferðar og notkunar á persónuupplýsingum hans af hálfu B læknis sem íslenska ríkið beri ábyrgð á, enda sé D og Heilbrigðisstofnun C vinnuveitandi umrædds læknis. Þá hafi C ekki viðhaft viðhlítandi grunnkröfur 1. mgr. 7. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um persónuvernd nr. 77/2000. Einnig byggir stefnandi miska sinn á því að í áliti Umboðsmanns Alþingis komi fram að meðferð Embættis landlæknis hafi verið ábótavant þar sem svör sem stefnandi fékk í tilefni af erindi hans til embættisins hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu skuli sá sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Stefndi beri ábyrgð á hinni bótaskyldu háttsemi, sem rekja megi til annað hvort ásetnings starfsmanna stefnda eða stórfellds gáleysis, en slíkt eigi við um bæði lækninn B og starfsmenn C.

Þó svo B, læknir C og D hafi ekki gert hinar viðkvæmu persónuupplýsingar opinberar hafi tilgreindir aðilar borið ábyrgð á sjúkraskrá stefnanda og gert þær aðgengilegar fyrir óviðkomandi og ótengda aðila. Skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé því fullnægt.

Stefnandi telur að í framangreindri háttsemi heilbrigðisstarfsmanna hafi falist brot gegn 1. mgr. 2. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009, 12. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. MSE. Stefnandi hafi í kjölfar háttsemi læknisins, B, orðið fyrir aðkasti af hálfu þeirra sem hann hitti eða umgekkst á [...] sem olli því að honum var ekki lengur vært í bænum. Hafi hann því flutt í burtu. Stefnandi eigi lögheimili í Reykjavík en hafi mikið dvalist erlendis og reynt að byggja þar upp líf sitt. Upplifun stefnanda sé álitsmissir fólks auk þess sem hann njóti minni virðingar en áður. Þá hafi háttsemi starfsmanna stefnda haft mikil sálræn áhrif á sálarlíf hans. Stefnandi hafi þannig ekki treyst sér til læknis sökum ótta við að brotinn yrði trúnaður gegn sér að nýju og þannig ekki hagnýtt sér þá þjónustu sem hann hefur stundum þurft á að halda. Erfiðleika í einkalífi, s.s. sambúðarslit við fyrrverandi sambýliskonu, megi rekja með beinum hætti til framangreindra nota á viðkvæmum persónuupplýsingum stefnanda. Þá hafi reynst erfiðara að fá atvinnu við hæfi sökum þessa og þannig dregið verulega úr atvinnumöguleikum stefnanda.

Að mati stefnanda sé í lögum ekki að finna leiðbeiningar eða viðmið um hvernig ákvarða skuli fjárhæð miskabóta og verði ekki lesin gagnleg viðmið úr dómafordæmum, að virtum þeim atvikum sem varða mál hans. Stefnandi vísar til undirbúningsgagna 26. gr. skaðabótalaga þar sem fram komi að við ákvörðun miskabóta skuli líta til þess sem sanngjarnt þykir hverju sinni. Sem dæmi sé nefnt, umfang tjóns, sök tjónvalds og fjárhagsstaða hans. Í dómaframkvæmd sé litið á hvort brot skaði sjálfsmynd þess sem fyrir verður, valdi andlegum erfiðleikum, hvort sá sem ábyrgð beri á tjóni hafi gengið fram af stórfelldu gáleysi og hvort framkoma hafi verið niðrandi, særandi og lítillækkandi og til þess fallin að varpa rýrð á þann sem fyrir verður. Litið sé til þess hvort tjónþoli verði fyrir álitshnekki, til hagsmuna hans af einkalífsvernd og æru, hvort brotið hafi verið gegn fleiri ákvæðum laga en 26. gr. skaðabótalaganna, hvort ummæli hafi birst í ítrekað í fjölmiðlum sem og til annarra viðmiða sem áhrif geta haft við mat á fjárhæð miskabóta og bótaskyldu.

Stefnandi telur framangreind sjónarmið eiga við um fjárhæð miskabóta enda hafi einkalíf  stefnanda, fjölskyldulíf og æra beðið tjón. Hann hafi verið niðurlægður og virðing hans beðið varanlega hnekki. Stefnandi telur brotin sérlega varhugaverð í ljósi siðareglna lækna og þess trúnaðar sem á að ríkja milli sjúklings og heilbrigðisstarfsmanns.

Seinagangur í stjórnsýslunni hafi valdið því að mál stefnanda hafi velkst um í stjórnsýslunni í áraraðir, komið inn á borð fjölda aðila án þess að ábyrgðaraðilar hafi tekið á málinu af festu. Þetta hafi aukið tjón stefnanda.

Þar sem ekki séu dómafordæmi fyrir viðlíka máli í íslenskri dómaframkvæmd telur stefnandi ómögulegt að styðjast við kunn dómafordæmi við mat á hæfilegum miskabótum. Meta verði málið í heild sinni, skoða þurfi allar aðstæður stefnanda, áhrif brotsins á líf hans, vávæni háttseminnar, fyrirsjáanleika og sök stefnda, auk afleiðinga fyrir stefnanda.

Kröfu um vexti styður stefnandi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og miðar upphafstíma dráttarvaxta við 20. desember 2014 þegar 30 dagar voru liðnir frá því stefnandi gerði stefnda grein fyrir fjárhæð bótakröfu með tölvupósti til ríkislögmanns, 20. nóvember 2014.

Stefnandi vísar til þess að mál sitt sé umfangsmikið og telur rétt að tekið sé tillit til meðferðar málsins á stjórnsýslustigi við ákvörðun málskostnaðar. Að öðru leyti vísar stefnandi um lagarök til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000, laga um sjúkraskrár nr. 55/2009, 8. gr. MSE, sbr. lög nr. 62/1994, laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, 71. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944, 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr. laganna. Um fyrrgreindan málskostnað vísar stefnandi laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um vexti til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

III

Stefndi hafnar kröfum stefnanda sé átt við önnur tilvik en þau er snúa að lækninum B, C og Embætti landlæknis enda geti stefndi ekki tekið ábyrgð á siðanefnd Læknafélags Íslands og Læknablaðsins. Fjallað hafi verið sérstaklega um mál stefnanda gegn Læknafélagi Íslands o.fl. í máli nr. [...] frá [...] og stefnandi fengið 300.000 kr. í bætur auk vaxta. Líta þurfi til þess að stefnandi hafi þegar fengið bætur vegna umfjöllunar um málið skv. þeim dómi.

Stefndi vísar til þess að málið hafi verið rekið fyrir Umboðsmanni Alþingis og Persónuvernd af hálfu C, B og D og vísist til málatilbúnaðar þeirra á stjórnsýslustigi.

Þá hafi stefnandi ekki verið nafngreindur í úrskurði siðanefndarinnar og Læknablaðið hafi ekki mikla almenna útbreiðslu og því erfitt að tengja nafn stefnanda við úrskurðinn. Læknirinn, B, hafi ekki gert persónuupplýsingar um stefnanda opinberar.

Stefndi telur að lækka beri kröfu stefnanda stórkostlega og byggir á því að B, C og Embætti landlæknis hafi ekki sýnt af sér ásetning og að C og Embætti landlæknis hafi ekki sýnt af sér verulegt eða stórkostlegt gáleysi með hliðsjón af 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Tjónið hafi orðið við birtingu í Læknablaði og erfitt hafi reynst að sjá það fyrir.

Ósannaðar séu fullyrðingar stefnanda um að hann hafi þurft að þola, í kjölfar háttsemi B, að verða fyrir aðkasti af hálfu þeirra sem hann hitti eða umgekkst á [...], sem hafi valdið því að stefnandi sá sér ekki fært að vera þar lengur og hafi þannig neyðst til að flytja í burtu. Þá sé mótmælt staðhæfingu um að stefnandi hafi þurft að flytja utan til að byggja upp líf sitt að nýju. Ósannað sé að margir hafi misst álit á stefnanda og að hann njóti minni virðingar en áður frá fólki í kringum sig. Einnig sé ósannað að háttsemi starfsmanna stefnda hafi haft gríðarleg áhrif á sálarlíf stefnanda. Ósannað sé að stefnandi hafi ekki treyst sér til að leita læknisaðstoðar þegar hann hafi þurft þess. Ósannað sé að stefnandi hafi strítt við erfiðleika í einkalífi sem leitt hafi m.a. til sambúðarslita við fyrrverandi sambýliskonu hans. Stefndi mótmælir sem ósönnuðu að stefnandi eigi erfiðara með að fá atvinnu við sitt hæfi eða að málið hafi dregið verulega úr atvinnumöguleikum hans. Ekki sé fullnægt skilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu um þau atriði sem talin séu upp af hálfu stefnanda.

Sérstaklega sé mótmælt fullyrðingu stefnanda um að einkalíf hans, fjölskyldulíf og æra hafi verið andlag stórfelldra brota af hálfu starfsmanna stefnda og að stefnandi hafi verið niðurlægður og virðing hans borið hnekki. Þá sé einnig mótmælt sérstaklega að brot hafi valdið stefnanda andlegum erfiðleikum og að sök stefnda hafi verið stórfelld með tilliti til þess valds sem starfsmenn stefnda færu með gagnvart stefnanda samkvæmt lögum og reglum um persónuupplýsingar um sjúklinga.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að ekki sé unnt að styðjast við fordæmi í íslenskri dómiðkun í tilviki aðila auk þess sem mótmælt sé því að fjárhæð miskabóta sé hæfileg og sanngjörn.

Miski stefnanda sé bundinn við mun þrengri tilvik en byggt sé á af hálfu stefnanda og verði stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir fjölmiðlaumfjöllun um málið. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sjálfur stigið fram í fjölmiðlum og tengt nafn sitt við úrskurðinn. Sé þar um eigin sök stefnanda að ræða sem leiði til verulegrar lækkunar á kröfu hans.

Stefndi byggir á því að upphafstími vaxtakröfu stefnanda sé vanreifaður og honum sé mótmælt. Krafist sé dráttarvaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. maí 2011 og dráttarvaxta frá síðari tíma sem tilgreindur sé í stefnu. Vextir sem séu eldri en 4 ára frá birtingardegi stefnu séu fyrndir sbr. lög nr. 150/2007, aðallega 3. gr. laganna. Stefnan hafi verið birt 5. ágúst 2015. Ekkert eiginlegt kröfubréf liggi fyrir og því sé hafnað að bréf stefnanda eða tillaga hans að bótum geti talist kröfubréf. Telur stefndi dráttarvexti fyrst geta reiknast frá því mánuður sé liðinn frá birtingu stefnu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi byggir á almennum sjónarmiðum skaðabótaréttar auk framangreindra lagasjónarmiða.

IV

Í máli [...], en dómur var kveðinn upp [...] 2013 og varðaði stefnanda máls þessa, var fallist á að birting siðanefndar á úrskurði er nefndin kvað upp 9. júní 2011 hefði falið í sér brot gegn ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga auk brots gegn lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009. Í málinu var nokkuð um það fjallað að stefnandi hefði sjálfur komið máli sínu á framfæri við fjölmiðla. Var það álit héraðsdóms að aðilar þess máls gætu ekki tekið ábyrgð á þeirri háttsemi og afleiðingum hennar, að undanskilinni umfjöllun Pressunar.is hinn 3. september 2011. Þar hefði verið fjallað um málið með þeim hætti að atburðarás þess var rakin, greint frá sjúkdómsgreiningu stefnanda auk þess sem vefslóð á sjálfan úrskurð siðanefndar Læknafélags Íslands fylgdi fréttinni – enda hefði sú umfjöllun ekki komið til með atbeina stefnanda. Talið var að bætur skyldu taka mið af umfangi málsins óháð upplýsingum sem stefnandi hefði sjálfur komið til fjölmiðla. Var stefnanda í samræmi við það dæmdar 300.000 krónur í bætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Niðurstöðu dómsins var ekki áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Eftir dóm Héraðsdóms veitti stefnandi viðtal við DV sem birtist 23. október 2013. Stefnandi lýsir í téðu viðtali hversu ósáttur hann sé við þá niðurstöðu ríkissaksóknara að ákæra ekki lækninn B þrátt fyrir brot hans á hegningarlögum. Hinn 27. september 2014 birtist á heimasíðu RÚV frétt þar sem farið var yfir sögu málsins og fjallað um að stefndi hefði viðurkennt bótaskyldu í máli stefnanda. Önnur frétt birtist 2. október 2014 þar sem fjallað var um að samningaviðræður væru milli málsaðila um bótafjárhæð og hinn 10. ágúst 2015 birtist frétt á vefsvæði RÚV um að stefnandi væri búinn að stefna ríkinu til greiðslu skaðabóta án þess að getið væri um fjárhæð bótakröfunnar. Á vefsvæði Stundarinnar birtist frétt 3. september 2015 þar sem kunngjört var um fjárhæð bótakröfunnar auk umfjöllunar um málið sjálft og feril þess. Þá var strax eftir fyrstu fyrirtöku máls þessa, 30. nóvember sl., birt frétt á Vísir.is um það sem gerðist í fyrirtökunni. Dómurinn hafnar þeim málflutningi stefnanda að fjölmiðlar hefðu að fyrra bragði leitað til stefnanda um fréttir af máli hans, heldur telur hann augljóst að stefnandi hafi sjálfur átt frumkvæði að því að mál hans fékk opinbera umfjöllun. Með þessari háttsemi hefur stefnandi sjálfur aukið við miska sinn, sem hann einn ber ábyrgð á.

Stefnandi krefst skaðabóta skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hinir bótaskyldu atburðir eru, að mati stefnanda, í fyrsta lagi að B læknir hafi notað persónulegar upplýsingar um hann í vörn fyrir siðanefnd Læknafélagsins. Í öðru lagi að C hafi ekki viðhaft grunnkröfur um vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 og í þriðja lagi að málsmeðferð og svör landlæknis meðan málið var til umfjöllunar hjá embættinu, hafi ekki falið í sér góða stjórnsýsluhætti, sbr. niðurstaða Umboðsmanns Alþingis sem liggur fyrir í gögnum málsins.

Það er grundvallarregla í skaðabótarétti að sá sem krefst bóta vegna ólögmætrar meingerðar samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum verði að sanna tilvist og umfang tjóns síns og einnig að um ásetning eða verulegt gáleysi hafi verið að ræða og að tjónið verði rakið til þeirrar háttsemi.

Stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu í málinu vegna þeirra þriggja málsástæðna sem byggt er á. Hins vegar er ágreiningur um fjárhæð tjónsins.

Tekið er undir með málsaðilum að sú háttsemi B læknis að nota upplýsingar úr sjúkraskrá stefnanda með þeim hætti er hann gerði, brjóti í bága við 12. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og 2. mgr. 13. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009.

Stefnandi hefur sönnunarbyrðina fyrir því tjóni sem hann varð fyrir. Hvorki hafa gögn verið lögð fram né vitni leidd til sönnunar á tjóni hans. Því er ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir aðkasti af hálfu bæjarbúa á [...], hann hafi orðið fyrir álitsmissi og virðingarmissi, atvinnuskerðingu, einkalífsbresti, sálarmeini eða nokkru öðru sem stefnandi vísar til í málflutningi sínum. Hins vegar má ljóst vera að traust stefnanda til lækna hefur beðið hnekki og að trúnaður sá er gildir um sjúkraskrár hafi ekki verið virtur. Því er fallist á með stefnanda að hann eigi rétt á miskabótum og þykja þær hæfilega ákveðnar 100.000 krónur.

Hins vegar er hvorki fallist á að meðferð sjúkraskrár af hálfu starfsmanna C hafi aukið tjón stefnanda né að ætlaðir óvandaðir stjórnsýsluhættir Embættis landlæknis hafi áhrif á fjárhæð bóta enda var stefnandi fyrst og fremst ósáttur við ógagnsæi við meðferð málsins hjá stofnuninni.

Hvað varðar vexti skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 eru vextir frá tímabilinu 9. maí 2011 til 4. ágúst 2011 fyrndir, sbr. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga er upphafstíma dráttarvaxta þingfestingardagur málsins, það er 5. ágúst 2015.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns hans sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 kr.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnda, A, 100.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. ágúst 2011 til 5. ágúst 2015, og með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ragnars Aðalsteinssonar hrl., 400.000 krónur.