Hæstiréttur íslands
Mál nr. 532/2005
Lykilorð
- Fjárdráttur
- Opinberir starfsmenn
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2006. |
|
Nr. 532/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Ingimar Halldórssyni (Björn Jóhannesson hdl.) |
Fjárdráttur. Opinberir starfmenn. Skilorð.
I var ákærður fyrir fjárdrátt í opinberu starfi með því að hafa sem framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga dregið sér samtals rúmlega 17 milljónir króna af bankareikningi sambandsins. I viðurkenndi fjárdráttarbrot en mótmælti því að hafa verið í opinberu starfi. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms að I hefði í fyrrnefndu starfi sínu verið opinber starfsmaður, meðal annars með vísan til 86. gr. sveitarstjórnarlaga. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi. Þar af voru níu mánuðir skilorðsbundnir, en I hafði játað brot sitt og bætt það tjón er af hlaust, auk þess sem hann hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 1. desember 2005. Hann krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að refsiákvörðun héraðsdóms verði staðfest, en til vara að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 247. gr., sbr. 138. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa sem framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga á tímabilinu frá 8. janúar 2002 til og með 17. september 2003 dregið sér í 135 tilvikum samtals 17.189.294 krónur af bankareikningi Fjórðungssambandsins.
Samkvæmt 86. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 geta sveitarfélög stofnað til staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að hagsmunamálum íbúa í hverjum landshluta. Fjórðungssamband Vestfirðinga er slík landshlutasamtök. Að þessu gættu verður fallist á það með vísan til forsendna héraðsdóms að ákærði hafi í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Fjórðungssambandsins talist opinber starfsmaður í skilningi 138. gr. og 141. gr. a. laga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 54/2003.
Með vísan til forsendna héraðsdóms og þess að brot ákærða var stórfellt þar sem hann dró sér samtals rúmlega 17 milljónir króna í 135 tilvikum á greindu tímabili þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði hefur játað brot sitt, hann hefur að fullu bætt það tjón er af hlaust og ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Að þessu virtu verður hluti refsingar hans bundinn skilorði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ingimar Halldórsson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af þeirri refsivist og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 273.452 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björns Jóhannessonar héraðsdómslögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 13. október 2005.
Mál þetta, sem var dómtekið 11. þessa mánaðar, höfðaði ríkissaksóknari 22. júlí sl. gegn Ingimar Halldórssyni, f. 1. apríl 1949, Sunnuholti 4, Ísafirði,
„fyrir fjárdrátt í opinberu starfi;
með því að hafa sem framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, Árnagötu 2-4, Ísafirði, á tímabilinu frá 8. janúar 2002 til og með 17. september 2003, dregið sér kr. 17.189.294 af bankareikningi númer 0556-26-10849 í eigu Fjórðungssambandsins, sem hér greinir:
a) Ákærði millifærði í 106 skipti samtals kr. 16.020.675 af reikningnum yfir á eigin reikning og reikninga í eigu annarra en Fjórðungssambandsins og nýtti í eigin þágu.
b) Ákærði lét í 29 tilvikum greiða vörur og þjónustu til eigin nota með fjármunum af reikningnum, samtals kr. 1.168.619.
Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Ákærði kannast við að hafa framið fjárdráttarbrot sem honum eru gefin að sök, en mótmælir því að hafa verið í opinberu starfi. Hann krefst þess að sér verði dæmd vægasta refsing sem lög heimila og að hún verði bundin skilorði.
Í ákæru er ekki sundurliðað hvenær og hvernig ákærði tók í einstökum tilvikum fé af bankareikningi Fjórðungssambands Vestfirðinga, hvaða fjárhæð hann tók hverju sinni og hvert féð rann í hverju tilviki. Þá er endurgreiðslna ákærða að engu getið í ákæru. Eins og málið liggur fyrir verður þó ekki talið að vörnum ákærða hafi verið áfátt af þessum sökum.
Ákærði færði fjárhæðir sem hann tók á greindu tímabili sér til skuldar á viðskiptareikning í bókhaldi Fjórðungssambands Vestfirðinga. Á sama tímabili endurgreiddi hann sambandinu féð að verulegu leyti með mörgum greiðslum, sem hann færði á sama reikning. Samkvæmt framlögðum yfirlitum um færslur á þennan reikning varð skuld ákærða á honum hæst rúmar fimm milljónir króna. Upplýst var af hálfu sækjanda við meðferð málsins að ákærði hafi endurgreitt féð að fullu.
Með játningu ákærða og rannsóknargögnum lögreglu er nægilega sannað að hann hafi dregið sér fé eins og honum er gefið að sök í ákæru. Varðar sú háttsemi við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt lögum Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem voru samþykkt á 41. fjórðungsþingi árið 1996, starfar sambandið á Vestfjörðum frá Brekkuá að vestan til Hrútafjarðarár að austan. Markmið þess eru að vinna að hagsmunum sveitarfélaganna og kjördæmisins alls, efla samvinnu sveitarfélaga, kynningu sveitarstjórnarmanna og vinna að verkefnum sem aðildarsveitarfélög og löggjafinn kunna að fela því, til styrkingar byggðar og mannlífs í kjördæminu, atvinnu-, félags- og menningarlega. Sveitarstjórnir kjósa fulltrúa á fjórðungsþing eftir nánar greindum reglum. Þingið ákveður árstillag sveitarfélaganna til sambandsins, sem þeim ber að greiða á nánar tilteknum gjalddögum. Greiðist kostnaður við stjórn sambandsins, fundarhöld, ferðalög stjórnar og annar sameiginlegur kostnaður úr sameiginlegum sjóði.
Samkvæmt ráðningarsamningi ákærða var hann ráðinn framkvæmdastjóri sambandsins frá og með 1. janúar 2001. Skyldi hann starfa með stjórn þess að framgangi mála sem ákveðin væru af stjórn og fjórðungsþingum og til féllu hverju sinni. Þá skyldi hann sjá um rekstur skrifstofu þess, innheimtu gjalda og bókhald. Um laun og önnur kjaraákvæði skyldi fara eftir kjarasamningi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisins eins og hann væri hverju sinni. Tekið er fram í launa- og kjaraákvæði samningsins að að öðru leyti en að ofan greindi skyldu gilda þau lög og reglur er varði ríkisstarfsmenn eins og þau væru hverju sinni.
Í erindisbréfi fyrir framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga sem vísað er til í framangreindum ráðningarsamningi er auk annars tekið fram að framkvæmdastjóri fari með prókúru sambandsins, sjái um bréfaskriftir fyrir það og dagleg fjármál. Þá er tekið fram að hann skuli hafa umsjón með störfum þeirra sem starfi á vegum sambandsins samkvæmt ákvörðun stjórnar og fjórðungsþings, beri ábyrgð á störfum annarra starfsmanna gagnvart stjórn sambandsins og annist launagreiðslur til þeirra. Einnig kemur fram í erindisbréfinu að hann skuli taka þátt í samstarfi framkvæmdastjóra annarra landshlutasamtaka sveitarfélaga, sitja sameiginlega fundi þeirra, taka þátt í undirbúningi mála fyrir fundi þeirra og túlka þar sjónarmið fjórðungssambands Vestfirðinga.
Ákærði lét af framangreindu starfi að eigin ósk 2. september 2003. Þremur dögum seinna greiddi hann sambandinu 1.700.000 krónur til að jafna viðskiptareikning sinn, sem endurskoðandi taldi standa í 1.657.872 krónum með fyrirvara um að bókhald ársins 2003 hefði ekki verið fært.
Samkvæmt framansögðu var ákærði framkvæmdastjóri landshlutasamtaka sveitarfélaga á Vestfjörðum, sem eru kostuð af opinberu fé, fór með prókúru þeirra, sá um bréfaskriftir þeirra og dagleg fjármál, bar ábyrgð á störfum annarra starfsmanna gagnvart stjórn samtakanna og kom fram út á við fyrir þeirra hönd. Var hann þannig í stöðu til að ráðstafa eða hafa áhrif á ráðstöfun opinberra hagsmuna. Verður ekki litið öðruvísi á en að hann hafi verið opinber starfsmaður í skilningi 138. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 141. gr. a sömu laga, sbr. 6. gr. laga nr. 54/2003. Ber því að beita refsiþyngingarákvæði nefndrar 138. greinar almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur ekki sætt refsingum. Auk þess sem gera verður honum þyngri refsingu en ella vegna þess að hann framdi brot sitt í opinberu starfi, verður að líta til þess hve hann dró sér mikið fé samtals á því tímabili sem ákæran greinir. Á hinn bóginn verður litið til þess að ákærði gerði enga tilraun til að leyna fjárdrættinum, sem virðist hafa verið auðséður í bókhaldi sambandsins og kom í ljós við endurskoðun reikninga þess. Ákærði hefur játað brot sitt hreinskilnislega og lét af starfi vegna þess. Þá verður litið til þess að ákærði endurgreiddi féð að verulegu leyti á sama tímabili og ákæra greinir og hefur endurgreitt það allt. Refsing hans ákveðst með tilliti til þessa fangelsi í tíu mánuði, sem þykir mega skilorðsbinda að fullu eins og nánar greinir í dómsorði, þegar litið er til sakaferils ákærða og þess að hann hefur endurgreitt féð.
Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Jóhannessonar hdl., sem ákveðast 160.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.
Dómsorð:
Ákærði, Ingimar Halldórsson, sæti fangelsi í tíu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Jóhannessonar hdl., 160.000 krónur.