Hæstiréttur íslands
Mál nr. 133/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Bifreið
- Umferðarlög
- Sektarákvörðun
- Endurupptaka
|
|
Föstudaginn 23. mars 2007. |
|
Nr. 133/2007. |
Ákæruvaldið(enginn) gegn Birni Rúnari Guðmundssyni (Grímur Sigurðarson hdl.) |
Kærumál. Bifreiðir. Umferðarlög. Sektarákvörðun. Endurupptaka.
B krafðist endurupptöku á máli, sem hafði verið lokið með áritun dómara á sektarboð samkvæmt 3. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ekki var talið að B hefði, er hann krafðist endurupptöku málsins, fært fram varnir, sem gætu hafa haft áhrif á úrslit þess, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Kröfu B var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2007, sem barst réttinum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. febrúar 2007, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um endurupptöku á máli sóknaraðila gegn varnaraðila, er lokið var 11. apríl 2006 með áritun héraðsdómara á sektarboð um ákvörðun viðurlaga. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að endurupptaka framangreint mál. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 16. nóvember 2000 í máli nr. 297/2000 er á það fallist að varnaraðili hafi ekki fært fram fyrir héraðsdómi varnir, sem gætu hafa haft áhrif á úrslit málsins, sbr. 5. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. febrúar 2007.
Ítrekað sektarboð vegna ofangreinds máls var áritað í Héraðsdómi Suðurlands þann 11. apríl 2006. Samkvæmt upplýsingum sakbornings var það tilkynnt honum í gegnum síma „nokkrum dögum“ fyrir 11. febrúar 2007 en í sektarboðinu er kveðið svo á að kærði skyldi greiða 20.000 krónur í sekt til ríkissjóðs vegna brots gegn 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þann 24. ágúst 2005 á Suðurlandsvegi, móts við Nýjabæ í Skaftárhreppi. Þá var ákveðið að ef sektin greiddist eigi innan fjögurra vikna frá birtingu áritunarinnar skyldi kærði sæta fangelsi í tvo daga. Dóminum barst hinn 13. febrúar sl. krafa Björns Rúnars Guðmundssonar um að málið yrði endurupptekið.
Í endurupptökukröfunni mótmælir sakborningur sektarákvörðuninni. Kveðst sakborningur ætíð hafa mótmælt sektinni en einhverra hluta vegna virðist sem svo að að mótmælin hafi ekki komist til skila og því hafi málið farið í þann farveg sem 115. gr. a. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, kveði á um. Jafnframt kveðst sakborningur ekki hafa verið kunnugt um sektarákvörðunina fyrr en fyrir „nokkrum dögum“, áður en endurupptökubeiðnin er gerð, er lögreglumaður hafi hringt í hann og tilkynnt um viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Suðurlands, dagsetta 11. apríl 2006 en sakborningur kveðst vera búsettur í Danmörku þar sem hann stundi nám.
Niðurstaða
Samkvæmt 5. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála getur sakborningur krafist þess að mál verði tekið upp á ný, enda færi hann þá fram varnir sem gætu haft áhrif á úrslit þess. Beina skal kröfu um endurupptöku til þess dómstóls, þar sem máli var lokið, innan fjögurra vikna frá því að sakborningi varð kunnugt um sektarákvörðunina. Ekki liggur fyrir dagsetning um hvenær sakborningi varð kunnugt um áritun sektarboðsins. Í kröfu um endurupptöku málsins kveðst sakborningur fyrst hafa orðið kunnugt um sektarákvörðunina „nokkrum dögum“ áður en krafa hans, dagsett 11. febrúar 2007, var sett fram um endurupptöku málsins er lögreglumaður tilkynnti honum um sektarákvörðunina símleiðis. Telst krafa sakbornings um endurupptöku málsins því hafa borist dómstólnum innan tilskilins frests, sbr. 5. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála og er hann látinn njóta þess vafa að honum hafi ekki verið kunnugt um áritun dómsins fyrr.
Í skýringum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 31/1998, um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, segir að með frumvarpinu sé miðað að því að gera meðferð minni háttar sakamála markvissari og ná bættum árangri í sektarinnheimtu. Þannig sé lagt upp með að ef sakborningur sinni ekki sektarboði lögreglustjóra og hafi þar með ekki uppi andmæli ef einhver séu, feli það athafnaleysi almennt í sér líkur fyrir sekt sakbornings ef gögn málsins hnígi einnig að þeirri niðurstöðu. Verði því ekki talið varhugavert að slík mál hljóti afgreiðslu með einfaldari hætti en almennt sé gert ráð fyrir við meðferð opinberra mála.
Ennfremur segir í skýringum við 5. mgr. 115. gr. a. að sakborningur geti krafist þess að mál verði tekið upp á ný, enda færi hann fram varnir sem gætu hafa haft áhrif á úrslit málsins. Gert sé ráð fyrir rúmri heimild sakbornings til að fá mál endurupptekið þannig að slíkri kröfu verði ekki hafnað nema varnir séu með öllu haldlausar. Dómari ákveði með úrskurði hvort krafa verði tekin til greina. Tekið sé fram í ákvæðinu að verði krafa um endurupptöku tekin til greina falli ákvörðun um viðurlög úr gildi. Verði málið þá í beinu framhaldi rekið áfram fyrir dómi eftir almennum reglum.
Sakborningur í máli þessu lét málið ekki til sín taka á fyrri stigum þess þrátt fyrir ítrekaðar boðanir og færði því ekki fram neinar varnir af sinni hálfu en ítrekun sektarboðs var löglega birt á lögheimili sakbornings fyrir stjúpföður hans, Páli Elíassyni, þann 25. október 2005. Í 5. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991 eru einungis gerðar þær kröfur að sakborningur færi fram varnir sem gætu haft áhrif á úrslit málsins, enda séu þær ekki með öllu haldlausar. Eins og orðalagi ákvæðisins er háttað, verður að telja að gerðar séu afar litlar kröfur til sakbornings um framsetningu varna sér til handa, svo fallist verði á endurupptöku máls. Samræmist sú skýring og markmiðum lagagreinarinnar en samkvæmt þeim er málsmeðferð einfölduð til muna á móti því að litlar kröfur eru gerðar til endurupptöku málsins að beiðni sakbornings.
Í kröfu um endurupptöku málsins leggur sakborningur ekki fram neinar nýjar varnir, heldur vísar til þess að svo virðist sem fyrri mótmæli hans hafi ekki komist til skila og verður því að miða við þær varnir sakbornings sem fram koma í lögregluskýrslum er gerðar voru vegna málsins og sakborningur ritar undir. Í vettvangsskýrslu, dagsettri 24. ágúst 2005, mótmælti sakborningur mældum hraða og sagði „að það þurfi tvo lögreglumenn eða myndavél“, til þess að mældur hraði teljist sannaður. Ennfremur segir að bifreið sakbornings hafi verið mæld með ratsjá úr lögreglubifreiðinni nr. 131, sem ekið hafi verið í gagnstæða átt og hafi talan verið læst inn á ratarskjánum. Aðstæður hafi verið góðar, sólskin og þurrt. Ratsjá hafi verið prófuð fyrir mælingu, kl. 19:15, og aftur eftir mælingu, kl. 20:05, en mæling á hraða sakbornings hafi farið fram kl. 19:34. Þá kemur fram að lögreglumaður á vettvangi hafi kallað til varðstjóra sem kom á vettvang og staðfest læsta tölu á ratsjá lögreglubifreiðarinnar. Á grundvelli framanritaðs áritaði dómari sektarboð þann 11. apríl 2006. Sakborningur hefur ekki lagt fram neinar nýjar varnir sem gætu haft áhrif á framangreinda niðurstöðu dómara þann 11. apríl 2006 og eru því skilyrði 5. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, ekki uppfyllt. Þegar af þeirri ástæðu er kröfu Björns Rúnars Guðmundssonar um endurupptöku á máli nr. S-122/2006 hafnað og stendur því fyrri ákvörðun dagsett 11. apríl 2006.
Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu Björns Rúnars Guðmundssonar, [kt.], um endurupptöku á máli nr. S-122/2006 er hafnað. Ákvörðun dómara frá 11. apríl 2006 um sekt og vararefsingu í ofangreindu máli stendur.