Hæstiréttur íslands
Mál nr. 636/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
- Farbann
|
|
Þriðjudaginn 4. desember 2007. |
|
Nr. 636/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. 110 gr. laga nr. 19/1991. Farbann.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hins vegar var honum gert að sæta farbanni samkvæmt 110. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 7. desember 2007 kl. 14. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Af gögnum málsins má sjá að varnaraðili mun hafa breytt eftirnafni sínu með samþykki yfirvalda í heimalandi sínu, en hann mun áður hafa heitið Y. Gáfu hin erlendu yfirvöld út ný skilríki honum til handa.
Krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald er studd við b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili hefur ekki sýnt nægilega fram á að þörf sé gæsluvarðhalds varnaraðila til þess eins að tryggja návist hans í þágu meðferðar máls. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi, en varnaraðila verður bönnuð brottför af landinu samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðila, X, er bönnuð brottför frá Íslandi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til 7. desember 2007 klukkan 14.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2007.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til 7. desember 2007 kl. 14.00.
Málavextir eru þeir að með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2005 var ákærði dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni og 1. mgr. 221. gr. og 1. mgr. 124. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þann 12. október 2006 var ákærða veitt reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum refsingar sem voru 419 dagar.
Með ákvörðun Útlendingastofu 19. september 2006 var ákærða vísað á brott af Íslandi og bönnuð endurkoma til landsins í næstu 10 ár. Þessi ákvörðun var birt ákærða á Litla Hrauni 27. september 2006 og þann 12. október 2006 var ákærði fluttur úr landi í fylgd þriggja lögreglumanna til Vilnius í Litháen. Ákærði kærði úrskurð Útlendingastofu til dómsmálaráðuneytis sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði sínum 16. apríl 2007.
Þann 20. nóvember 2007 handtók lögreglan ákærða í bifreið í Hafnarfirði. Við leit á ákærða á lögreglustöð fundust 25,62 g af amfetamíni. Krafist var gæsluvarðhalds yfir ákærða og var hann úrskurðaður 21. nóvember sl. til þess að sæta gæsluvarðhaldi allt til dagsins í dag. Ákæra var gefin út 26. nóvember 2007 á hendur ákærða þar sem honum er gefið að sök fíkniefnalagabrot, fyrir að hafa í vörslum sínum 25,62 g af amfetamíni, svo og brot gegn lögum um útlendinga nr. 96/2002, a-lið 1. mgr. 57. gr., sbr. 43. gr. laganna, fyrir að virða ekki bann Útlendingastofu og dómsmálaráðuneytis um að koma ekki til landsins næstu 10 ár.
Aðalmeðferð fór fram í málinu í dag og var málið dómtekið. Dómur verður kveðinn upp 7. desember nk. kl. 14.00. Í lok aðalmeðferðar krafðist sækjandi þess að ákærða yrði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þangað til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til 7. desember 2007. Kröfu þessa styður sækjandi við b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Sem áður sagði var ákærði handtekinn 20. nóvember sl. og úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir. Rannsókn málsins hefur gengið hratt fyrir sig og aðalmeðferð hefur þegar farið fram. Dómsuppsaga hefur verið ákveðin 7. desember nk. Ákærði er erlendur ríkisborgari og að mati dómsins þykir rétt að tryggja nærveru hans við dómsuppsögu og verður því fallist á kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með vísan til b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Ákærði, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til 7. desember 2007 kl. 14:00.