Hæstiréttur íslands
Mál nr. 173/2006
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Óvenjulegur greiðslueyrir
- Ómerking héraðsdóms að hluta
|
|
Fimmtudaginn 2. nóvember 2006. |
|
Nr. 173/2006. |
Glitnir banki hf. (Bjarni S. Ásgeirsson hrl.) gegn þrotabúi Kaldabergs ehf. (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Óvenjulegur greiðslueyrir. Ómerking héraðsdóms að hluta.
Þrotabú K krafðist riftunar á greiðslu félagsins á nokkrum skuldum til G og endurgreiðslu á þeirri fjárhæð. Með héraðsdómi voru þær kröfur teknar til greina. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að um væri að ræða óvenjulegan greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og staðfest niðurstaða héraðsdóms um riftun á greiðslu á umræddum skuldum. Hvað varðar endurheimtukröfu þrotabús K var tekið fram að héraðsdómur hefði ekki rökstutt með hvaða hætti greiðslan hefði komið G að notum í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess þótti skorta á að héraðsdómur tæki afstöðu til varakröfu G um lækkun endurheimtukröfunnar. Varð því ekki komist hjá því að ómerkja héraðsdóm að þessu leyti og vísa þeim þætti málsins heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. mars 2006. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Krafa stefnda um riftun á greiðslu Kaldabergs ehf. á nokkrum skuldum til áfrýjanda 3. nóvember 2003 var tekin til greina í héraðsdómi, en bú félagsins var tekið til gjaldaþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 2004. Var úrskurðurinn reistur á yfirlýsingu Bjarka Ágústssonar fyrrum forsvarsmanns félagsins fyrir sýslumanni 18. febrúar 2004 um eignaleysi þess. Frestdagur við skiptin var 26. febrúar 2004. Þær greiðslur sem krafa stefnda um riftun tók til eru vegna skuldar samkvæmt skuldabréfi nr. 545-74-964188 að fjárhæð 1.550.134 krónur, skuldar samkvæmt skuldabréfi nr. 545-74-961873 að fjárhæð 479.238 krónur, skuldar samkvæmt víxli nr. 545-70-912909 að fjárhæð 211.419 krónur, skuldar samkvæmt víxli nr. 545-70-912882 að fjárhæð 214.363 krónur, skuldar samkvæmt víxli nr. 545-70-912881 að fjárhæð 268.523 krónur og yfirdráttarskuldar á tékkareikningi nr. 545-26-56516 að fjárhæð 1.795.401 króna. Samtals námu greiðslurnar 4.519.078 krónum. Héraðsdómur reisti riftun greiðslnanna á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og dæmdi áfrýjanda til að greiða stefnda alla dómkröfuna sem hann taldi vera þá fjárhæð sem stefndi hefði nýtt til greiðslu skulda við áfrýjanda.
Kaldaberg ehf. annaðist rekstur tannlæknastofu í eigu Bjarka Ágústssonar og sambúðarkonu hans, en Bjarki er menntaður tannlæknir. Með kaupsamningi 30. september 2003 seldi Kaldaberg ehf. Turnhamri ehf., sem er í eigu Ágústs Hreggviðssonar föður Bjarka, fasteignar að Staðarbergi 2-4 í Hafnarfirði. Kaupverðið var nær allt greitt með yfirtöku og uppgreiðslu áhvílandi veðskulda og vanskilaskulda. Að fasteigninni seldri nam eign félagsins samkvæmt gögnum málsins 6.126.947 krónum í lausafjármunum. Með kaupsamningi degi síðar seldi félagið Turnhamri ehf. tæki, tól og lager tannlæknastofunnar fyrir 9.350.000 krónur. Skyldi kaupverðið greitt með yfirtöku tveggja lána hjá áfrýjanda samtals að fjárhæð 3.223.053 krónur, með greiðslu þeirra skulda við áfrýjanda sem um getur í þessu máli og með 1.607.869 krónum, sem að mestu mun hafa verið varið til greiðslu annarra skulda þessu máli óviðkomandi.
Stefndi reisir kröfu sína um riftun á því að greiðslur þær sem um getur í málinu hafi verið óeðlilegar þegar þær voru inntar af hendi og brotið gegn jafnræði kröfuhafa, en það eigi sér stoð í lögum nr. 21/1991 að þess verði að gæta við greiðslur svo skömmu fyrir gjaldþrot. Fyrir liggi að 71% af ráðstafanlegum eignum búsins hafi verið afhentar áfrýjanda til greiðslu á skuldum og það leitt til þess að hann hafi engum fjármunum hafa tapað við gjaldþrotið, þótt félagið hafi skuldað honum vel á fimmtu milljón króna rúmum fjórum mánuðum fyrir frestdag. Byggir stefndi á því að greiðslurnar hafi brotið gegn 134. gr. laga nr. 21/1991. Þær hafi farið fram fyrr en eðlilegt var samkvæmt skilmálum skuldbindingarskjala, en flest bendi til að þau hafi að öllu leyti verið í skilum þegar þau voru greidd upp. Skoraði hann á áfrýjanda að upplýsa nánar hvernig staða skuldbindinganna hefði verið á þessum tíma. Greiðslurnar hafi skert greiðslugetu Kaldabergs ehf. verulega á tíma þegar öllum mátti vera ljóst að það stefndi í gjaldþrot félagsins. Krafa um riftun er einnig reist sjálfstætt á 141. gr. laga nr. 21/1991 og því haldið fram að umræddar ráðstafanir hafi verið ótilhlýðilegar, enda áfrýjanda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Greiðslurnar hafi leitt til þess að eignir þrotabúsins voru ekki til reiðu fyrir aðra kröfuhafa, en Kaldaberg ehf. hafi ótvírætt verið ógjaldfært á þessum tíma og áfrýjanda fullkunnugt um það.
Endurheimtukrafa stefnda er byggð á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, verði fallist á riftun samkvæmt 134. gr. sömu laga en ella á 3. mgr. þeirrar greinar. Heldur hann því fram að fjárkrafa hans sé sú sama hvort sem notast sé við endurheimtukröfu samkvæmt 1. mgr. eða skaðabætur samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins.
Áfrýjandi heldur því fram að veigamiklum málsástæðum, sem hann hafi haft uppi sé ekki getið í héraðsdómi. Vísar hann til greinargerðar sinnar í héraði því til sönnunar. Þar er því haldið fram að það hafi ekki verið Kaldaberg ehf. sem hafi innt greiðslur þessar af hendi heldur Turnhamar ehf., en félagið hafi keypt lausafé af Kaldabergi ehf. og meðal annars greitt fyrir það með uppgreiðslu þessara skulda, sem ekki hafi tengst lausafénu. Stefndi verði því að beina kröfum sínum að því félagi. Þá er því haldið fram að í stefnu í héraði sé ekki á því byggt að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða, en það sé eitt þriggja skilyrða fyrir beitingu 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá telji stefndi að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum án þess að rökstyðja það frekar í sóknargögnum í héraði. Áfrýjandi heldur því fram að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslnanna séu ekki uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi greiðslurnar ekki farið fram fyrr en eðlilegt var og í öðru lagi hafi þær ekki skert greiðslugetu Kaldabergs ehf. verulega. Þá hafi ekki verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri og greiðslurnar virst eðlilegar eftir atvikum. Jafnframt mótmælir hann því að riftunarskilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt.
Verði krafa stefnda um riftun tekin til greina er þess krafist að endurheimtukrafa hans verði að minnsta kosti lækkuð um 1.800.000 krónur, en hann hafi í sambandi við greiðsluna aflétt tveimur tryggingarbréfum útgefnum 12. mars 2003 þess efnis að tvær fasteignir Ágústs Hreggviðssonar yrðu framvegis til tryggingar öllum skuldbindingum Kaldabergs ehf. við áfrýjanda. Reisir hann kröfuna á því að stefndi eigi eingöngu endurheimtukröfu um það fé sem hefði komið áfrýjanda að notum, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.
Áfrýjandi heldur því að lokum fram að hvergi í héraðsdómi sé minnst á það að hann hafi byggt á því að krafa stefnda um riftun vegna óvenjulegs greiðslueyris sé of seint fram komin. Hvergi sé rökstutt að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum. Þá sé ekki í dóminum fjallað um kröfu áfrýjanda um lækkun endurheimtukröfu vegna þeirra veðtrygginga eiganda Turnhamars ehf., sem aflétt var við uppgjör greiðslu þess fyrirtækis við áfrýjanda.
II.
Héraðsdómur er á því reistur að Kaldaberg ehf. hafi með kaupsamningi við Turnberg ehf. 3. október 2003 látið frá sér lausafé sitt til greiðslu á skuld við áfrýjanda svo sem að framan er lýst. Breyti milliganga þriðja manns, Turnbergs ehf., engu við mat á því hvort um sé að ræða óvenjulega greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Fallast má á það með áfrýjanda að stefndi hafi mátt leggja skýrari grunn að málsókninni að þessu leyti með stefnu í héraði. Hins vegar kom þessi greiðslutilhögun skýrt fram í öðrum sóknargögnum og er ómótmælt að málið var í héraði sótt og varið á þessum grunni. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Með þessari athugasemd en annars með skírskotun til raka héraðsdóms verður hann staðfestur um riftun á greiðslum Kaldbergs ehf. til áfrýjanda þar sem þær fóru fram með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Að framan er því lýst að héraðsdómur dæmir áfrýjanda til að greiða alla stefnukröfuna þar sem hann hafi nýtt sér hana til greiðslu skulda Kaldabergs ehf. við sig. Dómurinn rökstyður ekki nánar með hvaða hætti greiðslan kom áfrýjanda að notum í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Áfrýjandi gerði varakröfu í héraði um lækkun endurheimtukröfunnar og færði fram sérstakar málsástæður fyrir henni. Á skortir að héraðsdómur taki afstöðu til þessarar varakröfu. Verður því ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóm að þessu leyti og vísa þeim þætti málsins heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður endanlegs dóms, en rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um riftun greiðslna skal vera óraskað.
Niðurstaða héraðsdóms um endurheimtukröfu stefnda, þrotabús Kaldabergs ehf., að fjárhæð 4.519.078 krónur frá áfrýjanda, Glitni banka hf., er ómerkt og þeim þætti málsins vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður endanlegs dóms.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. janúar 2006.
I.
Mál þetta sem dómtekið var 9. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi var höfðað af þrotabúi Kaldabergs ehf., kt. 620598-2759, Hafnargötu 29, Keflavík, á hendur Íslandsbanka hf., kt. 421289-5069, Kirkjusandi, Reykjavík, með stefnu birtri 13. desember 2004 og þingfestri 12. janúar 2005.
Stefnandi gerir þá kröfu að rift verði með dómi greiðslu hins gjaldþrota félags Kaldabergs ehf. á eftirtöldum skuldum við stefnda 3. nóvember 2003. Skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 545-74-964188 að fjárhæð 1.550.134 krónur, skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 545-74-961873 að fjárhæð 479.238 krónur, skuld samkvæmt víxli nr. 545-70-912909 að fjárhæð 211.419 krónur, skuld samkvæmt víxli nr. 545-70-912882 að fjárhæð 214.363 krónur, skuld samkvæmt víxli nr. 545-70-912881 að fjárhæð 268.523 krónur og yfirdráttarskuld á tékkareikningi nr. 545-26-56516 með 1.795.401 krónum.
Stefnandi krefst þess og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.519.078 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 3. nóvember 2003 allt til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefnandi hefur komið fram leiðréttingu á númeri skuldabréfs að fjárhæð 1.550.134 krónur án athugasemda af hálfu stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
II.
Bú Kaldabergs ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 25. mars 2004 að kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði. Var úrskurðurinn byggður á yfirlýsingu Bjarka Ágústssonar fyrrum forsvarsmanns félagsins fyrir sýslumanni þann 18. febrúar 2004 um eignaleysi þess. Frestdagur við skiptin var 26. febrúar 2004 og lauk kröfulýsingarfresti að kveldi 14. júní 2004.
Í skýrslu Bjarka hjá skiptastjóra, kemur fram, að Kaldaberg ehf. hafi verið stofnað af honum og fyrrum sambýliskonu hans Elísabetar Sigurðardóttur og að þau áttu hvort um sig 50% í félaginu. Hafi Elísabet í fyrstu annast framkvæmdastjórn en hætt því þegar þau slitu samvistum 3. september 2002 og hún sent tilkynningu um það til hlutafélagaskrár. Kvaðst Bjarki hafa fengið Ólaf Harðarson viðskiptafræðing til þess að yfirfara fjármál Kaldabergs ehf. um svipað leyti en þá hafi verið yfirvofandi nauðungarsala á eign félagsins. Hafi niðurstaðan orðið sú að allar eignir Kaldabergs ehf. voru seldar til Turnhamars ehf. sem hafi orðið til þess að bjarga miklum verðmætum og þess gætt í hvívetna að mismuna ekki kröfuhöfum.
Samkvæmt kaupsamningi dagsettum 1. október 2003 sem liggur fyrir í dóminum sem dómskjal nr. 14 og er undirritaður af Bjarka Ágústssyni pr.pr. Kaldaberg ehf. og Ágústi Hreggviðssyni pr.pr. Turnhamar ehf. seldi Kaldaberg ehf. Turnhamri ehf. tæki sín tól og lager fyrir 9.350.000 krónur. Skyldi kaupverðið greitt þannig að yfirtekin skyldu tvö lán við Glitni samtals að fjárhæð 3.223.053 krónur, greiddar upp skuldir við stefnda í þessu máli samkvæmt sundurliðun á kaupsamningi að fjárhæð samtals 2.723.677 krónur en eftirstöðvar kaupverðsins skyldu greiddar í peningum þann 3. nóvember 2003 1.795.401 krónur og þann 11. sama mánaðar 1.607.869 krónur.
Í greinargerð stefnanda segir, að samkvæmt kaupsamningi sömu aðila dags. 30. september 2003 þar sem seld var hin megineign félagsins, þ.e. fasteignin við Staðarberg 2-4 í Hafnarfirði, eignarhluti 0202,var kaupverðið að undanskildum. 53.258 krónum að fullu greitt með yfirtöku eða uppgreiðslu áhvílandi veðskulda og greiðslu á vanskilum veðskulda. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var því eina óumdeilda eign búsins þegar þessar ráðstafanir fóru fram hrein eign í lausafjármunum að fjárhæð 6.126.947 krónur. Af þeirri fjárhæð var 4.519.078 krónum varið til greiðslu skulda við stefnda sem er fjárkrafa stefnanda í máli þessu. Síðasta greiðslan að fjárhæð 1.607.869 krónur var innt af hendi til félagsins 11. nóvember 2003 og er máli þessu óviðkomandi enda þá Kaldaberg ehf. skuldlaust við stefnanda og þetta fé að mestu notað samkvæmt framkomnum upplýsingum, óstaðfestum þó, frá fyrrum forsvarsmanni félagsins og Ólafi Harðarsyni til greiðslu annarra skulda einkum á opinberum gjöldum.
Í greinargerð stefnda segir að í seinni hluta októbermánaðar árið 2003 hafi Ágúst Hreggviðsson, faðir Bjarka Ágústssonar, fyrirsvarsmanns Kaldabergs ehf., haft samband við útibú stefnda. Óskaði hann eftir því að tryggingarbréf nr. 2383 og 2384, bæði útgefin þann 12. mars 2003 að fjárhæð 800.000 krónur hvort, myndi framvegis vera til tryggingar skuldbindingum Turnhamars ehf., kt. 650903-2930, félags í hans eigu, en bréfin voru áður til tryggingar skuldbindingum Kaldabergs ehf., sbr. dskj. nr. 23-24. Veðandlag tryggingarbréfsins var fasteign Ágústar að Búhömrum 4, Vestmannaeyjum. Óskaði Ágúst, f.h. Turnhamars ehf., eftir því að fá lán hjá stefnda að fjárhæð 9.500.000 krónur sbr. dskj. nr. 25, sem hann ætlaði að ráðstafa á þann máta að hann myndi greiða allar lausaskuldir Kaldabergs ehf., félags í eigu sonar hans, auk þess sem eftirstöðvar bréfsins áttu að fara inn á tékkareikning Turnhamars ehf. Var Ágústi tjáð, eftir rannsókn á hans högum, að það væri í lagi, enda taldi stefndi Ágúst vera góðan viðskiptamann. Í framhaldi af þessu voru fyrrgreind tryggingarbréf árituð um skuldaraskipti þann 23. október 2003. Var Turnhamri ehf., félagi í eigu Ágústar, lánaðar 9.500.000 krónur með skuldabréfi dags. 27. október 2003. Var skuldabréfið keypt af stefnda og því ráðstafað til greiðslu á lausaskuldbindingum Kaldabergs ehf. hjá stefnda, auk þess sem eftirstöðvum lánsins var ráðstafað inn á tékkareikning Ágústar, allt samanber sundurliðun á dskj. nr. 26. Var þetta allt gert að ósk Ágústar án nokkurs atbeina stefnda. Þess beri að geta til útskýringar á dskj. nr. 26, að ástæða þess að fjárhæð sú er Turnhamar ehf. hafði til ráðstöfunar var rúmlega 9.300.000 í stað 9.500.000 krónur er sú að stefndi tók 2% lántökugjald af 9.500.000 krónum. Líkt og sjáist af dskj. nr. 26 þá hafi 1.550.134 krónur verið notaðar til að greiða skuldabréf nr. 964188; 211.419 krónur til að greiða víxil nr. 912909; 214.363 krónur til að greiða víxil nr. 912882; 268.523 krónur til að greiða víxil nr. 912881; 479.238 krónur til að greiða skuldabréf nr. 961873 og að lokum 1.795.401 krónur til greiðslu inn á tékkareikning Kaldabergs ehf. nr. 56516. Samtals eru þetta greiðslur Turnhamars ehf., fyrirtækis Ágústar Hreggviðssonar, á skuldum Kaldabergs ehf. að fjárhæð kr. 4.519.078,-, sem er stefnufjárhæð máls þessa. Eftirstöðvar af andvirði lánsins, þ.e. 4.707.247 krónur voru greiddar inn á tékkareikning Turnhamars ehf. nr. 0545-26-3911, sbr. sama dómskjal. Á þessu sjáist að það var Turnhamar ehf. sem greiddi umræddar skuldir Kaldabergs ehf. hjá stefnda með láni er Turnhamar ehf. tók hjá stefnda. Að gefnu tilefni er það tekið fram að aldrei hafi verið minnst á það við stefnda að verið væri að selja lausafjármuni í eigu Kaldabergs ehf. og/eða að lán það sem Turnhamar ehf. tók hjá stefnda hafi að hluta til verið kaupverð þeirra lausafjármuna. Stefndi hafi í raun ekki haft hugmynd um hvers vegna fyrirtæki í eigu föður eiganda Kaldabergs ehf. væri að greiða upp skuldbindingar Kaldabergs ehf. og taldi það í raun ekki vera sitt hlutverk að grennslast fyrir um það. Stefndi hafi ekki haft hugmynd um meinta slæma stöðu Kaldabergs ehf. á greiðsludegi, enda megi nefna að Kaldaberg ehf. var ekki skráð á vanskilskrá Lánstrausts hf. á greiðsludegi þann 3. nóvember 2003.
Í framburði Bjarka Ágústssonar fyrir dóminum kom fram að ljóst hafi verið að við vandamál hafi verið að stríða í rekstri Kaldabergs ehf. í byrjun september 2002 og að svo hafi verið í talsverðan tíma fram að því. Hafi hann reynt að kalla til hina aðilana sem stóðu að fyrirtækinu, þáverandi sambýliskonu sína og foreldra hennar, en án árangurs. Hafi enginn vilji verið hjá þeim til þess að leggja fyrirtækinu til nauðsynlegt fé svo forða mætti sem flestum frá tjóni. Við blasti að það átti að fara að bjóða upp húsnæðið sem fyrirtækið átti og hafi hann leitað sér aðstoðar til þess að fá heildaryfirsýn á fyrirtækið og meta hvað hægt væri að gera til þess að bjarga því sem bjargað yrði. Hafi því verið leitast við að selja eignirnar út úr Kaldabergi ehf. og reynt að fá sem mest út úr því þannig að eftir yrðu aðeins skuldir sem eigendurnir yrðu að takast á við. Þegar búið hafi verið að selja eignirnar hafi eina raunverulega verðmætið sem eftir var verið skattalegt tap sem nam 10.000.000 króna sem hægt hafi verið að selja fyrir 2 milljónir króna. Eftir að víxlar höfðu lent í vanskilum þýddi ekkert að tala við Búnaðarbankann eða Landsbankann þar sem einnig voru skuldir sem hann hafði verið að reyna að koma í ákveðinn farveg og greiða inná. Vildu þessir bankar ekkert gera. Hann upplýsti að Íslandsbanki hefði verið sinn persónulegi viðskiptabanki en einnig hafi hluti af reksri Kaldabergs ehf. farið um hendur bankans. Kvaðst Bjarki ekki hafa viljað mismuna kröfuhöfum en þrátt fyrir það hafi það verið hans ákvörðun að greiða Íslandsbanka hf. vegna þess að honum fannst eðlilegra að hreinsa upp hjá einni bankastofnun í stað þess að vera með þrjár til þess að fást við í Kaldabergsmálinu þegar eigendurnir færu að leysa úr því. Tengdist þessi ákvörðun því einnig að eigendur Kaldabergs ehf. voru í ábyrgðum sem fallið hefðu á þá og nefndi Bjarki í því sambandi bæði sjálfan sig Elísabet, fyrrum sambýliskonu sína, og foreldra hennar. Eftir að eignirnar voru seldar Turnhamri ehf. hafi engar eignir verið eftir þegar búið var að ráðstafa andvirðinu m.a. til þess að greiða upp skuldir Kaldabergs ehf. við Íslandsbanka hf. eins og fram er komið.
Ágúst Hreggviðsson sagðist hafa komið að málum Kaldabergs ehf. og hefði stofnun Turnhamars ehf. verið í þeim tilgangi að bjarga því sem bjargað varð hjá syni sínum Bjarka og hefði rekstur Kaldabergs ehf. þá ekki átt neina framtíð fyrir sér að sínu mati. Hefði Íslandsbanki ekki gert neinar kröfur á hendur honum vegna Kaldabergs ehf. og hann hafi ekki komið sjálfur að því að ákveða sérstaklega greiða að skuldir þess við Íslandsbanka. Ólafur Harðarson hafi séð um samninga við bankann.
Vitnið Ólafur Harðarson sagðist hafa komið að málum Kaldabergs ehf. í ágústmánuði 2003 og hafi þá allt verið rauðglóandi hjá fyrirtækinu vegna átaka milli eigenda. Sjálfur hafi hann á þeim tíma talið að fyrirtækið ætti framtíð fyrir sér en til þess hafi þurft nýtt fé. Hann hafi setið fundi með öllum kröfuhöfum og skoðað bókhald og ársreikninga. Sagði Ólafur að Turnhamar hafi keypt eignir Kaldabergs ehf. á yfirverði vegna þess að hægt var að nýta þær í þeim rekstri sem Turnhamar ehf. hugðist taka við.
III.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umræddar greiðslur til stefnda hafi verið óeðlilegar þegar þær fóru fram og brjót gegn meginreglunni um jafnræði kröfuhafa sem eigi sér stoð víð í lögum um nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Fyrir liggji að u.þ.b. 71% af ráðstafanlegum eignum búsins voru afhentar stefnda til greiðslu á skuldum við hann sem síðan leiddu til þess að stefndi tapar engum fjármunum á gjaldþrotinu að því er virðist þrátt fyrir að hafa átt á félagið kröfur vel á fimmtu milljón króna einungis rúmum fjórum mánuðum fyrir frestdag.
Stefnandi byggir á því að umræddar greiðslur til stefnda hafi brotið gegn 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Þær hafi þannig farið fram fyrr en eðlilegt var. Í því sambandi er bent á að skuldabréf þau sem um ræðir höfðu ekki runnið sitt skeið í þeim skilningi að lánstímabilið sem ráðgert var við útgáfu bréfanna hafi verið ólokið við uppgreiðslu bréfanna og flest bendi reyndar til að umrædd bréf hafi að öllu leyti verið í skilum þegar þau voru greidd upp. Skoraði stefnandi á stefnda í stefnu að upplýsa nánar hvernig staða á þessum skuldum var þ.e. eftir atvikum hversu vanskil höfðu staðið lengi ef um vanskil var að ræða, hvort greiddar hafi verið umrætt sinn upp allar skuldir Kaldabergs ehf. við stefnda, hvort kröfurnar hafi verið farnar í lögfræðilega innheimtu og að ljósrit af umræddum skjölum yrðu lögð fram í dóm. Í þessu sambandi áréttaði stefnandi að þegar lagt væri mat á hvort skilyrðum 134. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt beri að meta kröfur þær sem greiddar voru til samans, þ.e. hver heildarfjárhæðin var. Þá er á því byggt sjálfstætt varðandi alla kröfu stefnanda að fjárhæð sú sem greidd var hafi skert greiðslugetu Kaldabergs ehf. verulega samanber framangreint. Hitt blasir enda við að félagið varð gjaldþrota skömmu síðar og öllum mátti vera á þeim tíma sú framtíð félagsins ljós þótt það skipti í sjálfu sér ekki grundvallarmáli varðandi kröfur stefnanda. Um leið og einu umtalsverðu eignir búsins voru því sem næst allar afhentar viðskiptabanka félagsins lá fyrir að starfsemi félagsins átti að leggja niður og að engar tekjur yrðu í starfseminni í kjölfarið og því ekkert til að greiða öðrum kröfuhöfum.
Krafa um riftun er einnig byggð sjálfstætt á 141. gr. laga nr. 21/1991, enda ljóst að mati stefnanda að ráðstafanirnar voru ótilhlýðilegar, stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leiddu til þess að eignir þrotabúsins voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Ótvírætt er að mati stefnanda að Kaldaberg ehf. var á þessum tíma ógjaldfært félag eða varð það a.m.k. við þessar ráðstafanir og stefnda hafi verið eða mátt vera það fullkunnugt enda stefndi viðskiptabanki félagsins.
Endurgreiðslukrafa stefnanda byggir á 142. gr. laga nr. 21/1991, 1. mgr. ef fallist verður á riftun með skírskotun til 134. gr. en ella á 3. mgr. Stefnandi telur að fjárkrafa hans sé sú sama hvort sem notast er við endurgreiðslureglu 1. mgr. eða skaðabætur skv. 3. mgr.
IV.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að það hafi ekki verið Kaldaberg ehf. sem greiddi skuldir sínar, heldur Turnhamar ehf., félag í eigu Ágústs Hreggviðssonar, sem er faðir Bjarka Ágústssonar, fyrirsvarsmanns og eiganda Kaldabergs ehf. Það hafi verið Turnhamar ehf. sem keypti lausaféð en ekki stefndi og greiddi fyrir lausaféð með m.a. uppgreiðslu skulda er tengdust lausafénu ekki. Stefnandi hefði því átt að beina kröfu á hendur Turnhamri, mögulega með vísan í 134. gr. gþl. og að lausaféð hefði verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri. Atferli og ráðstafanir stefnda séu algjörlega í samræmi við vandaða viðskiptahætti og brjóti á engan hátt í bága við skilyrði XX. kafla laga nr. 21/1991.
Svo er að sjá að stefndi byggi á því að greiðsla skulda Kaldabergs ehf. hafi verið innt af hendi á eðlilegum tíma og að greiðsla frá þriðja manni geti ekki skert greiðslugetu þrotabúsins, í það minnsta ekki verulega, enda hafi Kaldaberg ehf. ekki verið á vanskilaskrá er greiðsla átti sér stað. Þá telur stefndi að greiðsla Kaldabergs ehf. hafi eftir atvikum verið venjuleg. Stefndi leggur á það áherslu að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt.
Taki dómurinn ekki til greina kröfu stefnda um sýknu, þá krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfum með vísan til sömu raka og koma fram í aðalkröfu um sýknu. Stefndi telur að upphafstími dráttarvaxta geti í fyrsta lagi verið einum mánuð frá þeim degi er stefnandi sannanlega kemur fram með kröfu á hendur stefnda, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og fjölda dómafordæma þess efnis. Verður því að telja að dráttarvexti skuli í fyrsta lagi reikna frá 13. janúar 2005, eða mánuði eftir birtingu stefnu, sbr. dskj. nr. 1.
Niðurstaða.
VI.
Byggir stefnandi kröfu sína aðallega á 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt greininni má rifta greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, ef greitt er með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð, sem hefur skert greiðslugetu þrotamanns verulega nema greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum. Til vara byggir stefnandi á 141. gr. sömu laga.
Ekki er um það deilt í málinu að um greiðslu skuldar Kaldabergs ehf. við Íslandsbanka hf. var að tefla þegar Turnhamar ehf. greiddi þær skuldir sem dómkrafa stefnanda byggist á. Sagði fyrrverandi forsvarsvarsmaður Kaldabergs ehf. í skýrslu sinni fyrir dóminum að það hafi verið hans ákvörðun að greiða Íslandsbanka hf. vegna þess að honum fannst eðlilegra að hreinsa upp hjá einni bankastofnun í stað þess að vera með þrjár í takinu til þess að fást við í Kaldabergsmálinu þegar eigendurnir færu að leysa úr því. Eftir að eignirnar voru seldar Turnhamri ehf. hafi engar eignir verið eftir þegar búið var að ráðstafa andvirði þeirra m.a. til þess að greiða upp skuldir Kaldabergs ehf. við Íslandsbanka hf., eins og fram er komið. Styðst þessi niðurstaða einnig við það að í framburði stofnanda Turnhamars ehf., Ágústs Hreggviðssonar, fyrir dóminum að stefndi hafi ekki gert neinar kröfur á hann í þessu sambandi.
Í 134. gr. laga nr. 21/1991 eru orðuð þrjú skilyrði sem leiða til þess að rifta megi óvenjulegum greiðslum á skuld síðustu sex mánuði fyrir frestdag. Eru þessi skilyrði sjálfstæð að því leyti að aðeins eitt af þeim þarf að vera til staðar svo riftun fái framgang, allt að því gefnu, að greiðslan sé ekki þrátt fyrir allt, venjuleg eftir atvikum. Ekki er það skilyrði fyrir beitingu riftunar eftir greininni að riftunarþoli hafi verið grandsamur. Eins og áður greinir, var frestdagur 26. febrúar 2004 og skuldirnar við stefnda greiddar 3. nóvember 2003 þannig að fyrir liggur að þær voru greiddar innan sex mánaða fyrir frestdag.
Er það álit dómsins að með því að ráðstafa 4.519.078 krónum af andvirði lausafjárins sem Kaldaberg ehf. seldi Turnhamri ehf. með þeim hætti sem áður greinir til greiðslu á skuld við stefnda hafi verið um óvenjulegar greiðslur að ræða í skilningi ákvæðisins enda verði að taka mið af því hvernig greiðslan fór frá skuldaranum, en ekki hvernig hún var reidd af hendi til stefnda. Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að Kaldaberg ehf. lét frá sér lausafé sitt til þess að greiða skuldir sínar við stefnda. Milliganga þriðja manns í þessu tilfelli Turnhamars ehf. sem síðan greiddi stefnda í formi peninga breytir hér engu við mat á því hvort um sé að ræða óvenjulegan greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Þykir dómara einsýnt í ljósi þess sem að ofan er rakið að þessar ráðstafanir eigi rót sína að rekja til þeirrar slæmu fjárhagsstöðu sem Kaldaberg ehf. var komið í er greiðsla skuldarinnar við stefnda fór fram. Ekkert hefur komið fram af hálfu stefnda sem gefur tilefni til þess að álykta að þessi greiðslumáti geti virst venjulegur eða fyrirséður eftir atvikum, annað en að greitt hafi verið með peningum sem áður er fjallað um í dóminum. Sönnunarbyrðin fyrir því að greiðslan hafi eftir atvikum verið venjuleg hvílir á stefnda, sem riftunarkrafan beinist gegn, og verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Af þessum sökum verður fallist á að greiðsla þessi hafi farið fram með svo óvenjulegum hætti að henni megi rifta með vísan til ákvæða 134. gr. laga nr. 21/1991. Í samræmi við ákvæðið skal stefndi því dæmdur til þess að greiða stefnanda dómkröfuna 4.519.078 krónur sem hann nýtti sér til greiðslu skulda stefnanda við sig.
Stefndi hefur mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda og sérstaklega upphafstíma þeirra. Telur dómari að miða beri upphafstíma dráttarvaxta við þann dag sem málið var höfðað eða 13. desember 2004, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Rift er greiðslu á skuld stefnanda, þrotabús Kaldabergs ehf., við stefnda Íslandsbanka hf. að fjárhæð 4.519.078 krónur.
Stefndi greiði stefnanda 4.519.078 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. desember 2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostað.