Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/2015

Aurláki ehf. (Ólafur Eiríksson hrl.)
gegn
þrotabúi Milestone ehf. , og þrotabú Milestone ehf.   (Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)gegn Karli Emil Wernersyni  (Ólafur Eiríksson hrl.)Steingrími Wernerssyni (Sigmundur Hannesson hrl.) og Friðriki Arnari Bjarnasyni (Heiðar Örn Stefánsson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Ómerking héraðsdóms
  • Málskostnaður

Reifun

Héraðsdómur var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný þar sem í dóminum hafði ekki verið tekin afstaða til málskostnaðarkröfu K, S og F, varastefndu í héraði, svo sem skylt hefði verið samkvæmt h. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2015. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda í aðalsök. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi í aðalsök krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Hann áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 22. september 2015 gagnvart varastefndu í héraði, sem eru gagnáfrýjendur hér fyrir dómi, og gerir þá kröfu, verði ekki fallist á kröfu sína í aðalsök, að gagnáfrýjendum verði gert að greiða sér óskipt 970.103.914 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. mars 2012 til greiðsludags. Hann krefst þess, verði fallist á kröfu hans í aðalsök, að málskostnaður í varasök falli niður, en komi krafa í varasök til úrlausnar verði gagnáfrýjendum gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti og að málskostnaður í aðalsök falli þá niður.

Gagnáfrýjandinn Karl Emil skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 17. nóvember 2015. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að héraðsdómur verði ómerktur en að því frágengnu að hann verði sýknaður af kröfu áfrýjanda í varasök. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda í varasök.

Gagnáfrýjandinn Steingrímur skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 18. nóvember 2015. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að héraðsdómur verði ómerktur, að þessu frágengnu að hann verði sýknaður af kröfu áfrýjanda í varasök en að því frágengnu að krafan verði felld niður eða fjárhæð hennar lækkuð. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda í varasök.

Gagnáfrýjandinn Friðrik Arnar skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 18. nóvember 2015. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að héraðsdómur verði ómerktur, að þessu frágengnu að hann verði sýknaður af kröfu áfrýjanda í varasök en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda í varasök.

I

Áfrýjandinn í aðalsök, Aurláki ehf., og gagnáfrýjendur krefjast allir frávísunar málsins frá héraðsdómi. Reisa þeir frávísunarkröfuna á því að málið hafi verið höfðað um ætlaða skyldu, sem sýnt sé að ekki sé enn til orðin, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi í aðalsök, áfrýjandi í varasök, hafi höfðað málið án þess að hafa fengið kröfuna réttilega framselda frá Leiftra Ltd., en það hafi verið nauðsynlegt þar sem dómur, sem reistur var á 144. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., hafi kveðið á um skyldu Leiftra Ltd. til þess að skila kröfuréttindunum í hendur stefnda. Hafi stefndi hvorki fengið kröfuna framselda, né hafi hann samkvæmt 74. gr. laga nr. 90/1989 um aðför orðið kröfuhafi með atbeina sýslumanns. Enginn vafi leikur á tilvist kröfu þeirrar, sem dæmd var í útivistarmáli stefnda gegn Leiftra Ltd. 10. febrúar 2012. Með dóminum var mælt fyrir um skil Leiftra Ltd. á kröfunni, gegn því að stefndi felldi niður tilgreinda kröfu á hendur Leiftra Ltd. Stefndi hlutaðist til um birtingu dómsins og lýsti bréflega yfir niðurfellingu hinnar tilgreindu kröfu. Með því var fullnægt skilyrðum dómsins og fór hann með kröfuna að svo búnu. Verður hafnað að vísa málinu frá héraðsdómi af þessum ástæðum.

Þá krefst gagnáfrýjandinn Steingrímur frávísunar málsins þar sem málið sé höfðað um kröfu sem sé niður fallin, en það hafi gerst með lögmætri ákvörðun Leiftra Ltd. 23. desember 2011 þegar félagið gerði ásamt Íslandsbanka hf., áfrýjanda í aðalsök og félaginu AMK ehf. samkomulag um endurskipulagningu á fjárhag áfrýjandans. Niðurfelling kröfunnar af hálfu Leiftra Ltd. á þann hátt sem um ræðir leiðir ekki til þess að vísa beri þessu máli frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjendur reisa frávísunarkröfuna einnig á því að málið sé verulega vanreifað í varasök. Ekki komi skýrlega fram hvort hin bótaskylda háttsemi hafi átt sér stað 31. mars 2008 eða 23. desember 2011, ekki sé lýst hvaða háttsemi hafi valdið tjóninu og hvernig þeir geti borið ábyrgð á því. Þá er einnig á því byggt að ekki sé gerð grein fyrir því hvernig stefndi hafi orðið fyrir tjóni við það að krafan, sem stofnaðist vegna sölu á hlutum í Lyfjum og heilsu hf., fluttist frá hinu gjaldþrota félagi til áfrýjanda í aðalsök og var síðan framseld til Leiftra Ltd. Ekki sé heldur gerð grein fyrir því hvernig tjón kunni að hafa orðið þegar krafa Leiftra Ltd. á hendur áfrýjandanum var felld niður með samkomulaginu 23. desember 2011.

Í málatilbúnaði stefnda kemur fram að hann telji að gagnáfrýjendur hafi bakað sér tjón þegar hlutur félagsins í Lyfjum og heilsu hf., sem það átti í gegnum dótturfélög, var seldur áfrýjanda í aðalsök 31. mars 2008 og krafan um greiðslu hluta kaupverðsins svo framseld til Leiftra Ltd. sama dag. Krafa stefnda á hendur gagnáfrýjendum er um tiltekna fjárhæð í skaðabætur. Þegar stefnda var kynnt að Leiftri Ltd. hefði fellt kröfuna niður höfðaði stefndi sakaukamál á hendur gagnáfrýjendum og hafði uppi sömu fjárkröfu í skaðabætur. Í sakaukamálinu er krafan á því reist að niðurfelling kröfu Leiftra Ltd. á hendur áfrýjanda í aðalsök hafi valdið stefnda tjóni og það hafi verið gert með saknæmum og ólögmætum hætti. Ekki er fallist á að þeir annmarkar séu á málatilbúnaði stefnda að þessu leyti að frávísun varði, enda verður ekki séð að gagnáfrýjendur hafi verið hindraðir í því að tefla fram nauðsynlegum vörnum í málinu.

Þá verður ekki á það fallist með gagnáfrýjandanum Friðriki Arnari að það eigi að leiða til frávísunar málsins, þótt í sakaukastefnu sé með heildstæðum hætti gerð grein fyrir málinu.

II

Gagnáfrýjendur krefjast til vara ómerkingar hins áfrýjaða dóms og heimvísunar málsins. Krafan er reist á því að í dóminum sé hvorki tekin afstaða til kröfu þeirra um sýknu í varasök, né til málskostnaðarkröfu þeirra.

Stefndi höfðaði málið í héraði aðallega á hendur áfrýjanda í aðalsök. Af málatilbúnaði hans kemur skýrlega fram að verði fallist á þá kröfu hans komi krafan á hendur gagnáfrýjendum ekki til athugunar. Þetta kemur einnig skýrlega fram í reifun héraðsdóms. Það veldur því ekki ómerkingu héraðsdóms þótt þar komi ekki skýrt fram að með því að fallast á kröfu stefnda á hendur áfrýjandanum, sé ekki tilefni til þess að taka afstöðu til sýknukrafna í varasök.

Gagnáfrýjendur gerðu á hinn bóginn málskostnaðarkröfu í héraði. Þeir skiluðu allir greinargerð og tóku þátt í rekstri málsins. Í hinum áfrýjaða dómi er ekki tekin afstaða til málskostnaðarkröfu þeirra svo sem skylt var samkvæmt h. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Er þetta slíkur annmarki á dóminum að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsuppkvaðningar á ný, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 9. nóvember 1995, í máli nr. 133/1994, sem birtur er í dómasafni réttarins 1995 á bls. 2580, 20. desember 2011 í máli nr. 383/2011 og 24. febrúar 2014 í máli nr. 761/2013.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Frávísunarkröfu áfrýjanda í aðalsök, Aurláka ehf., og gagnáfrýjenda, Karls Emils Wernerssonar, Steingríms Wernerssonar og Friðriks Arnars Bjarnasonar, er hafnað.

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2015. 

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 1. ágúst 2012 og sakaukastefnu 25. janúar 2013. Það var dómtekið 25. mars 2015.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að aðalstefndi Aurláki ehf. greiði stefnanda 970.103.914 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. mars 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefnandi gerir þær endanlegu dómkröfur í varasök að varastefndu Karl Emil Wernersson, Steingrímur Wernersson og Friðrik Arnar Bjarnason greiði stefnanda óskipt 970.103.914 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. mars 2012 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varastefndu sameiginlega.

Aðalstefndi og varastefndi Karl Emil Wernersson krefjast sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefjast þeir málskostnaðar.

Varastefndi Steingrímur Wernersson krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur á hendur honum verði felldar niður eða lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar.

Varastefndi Friðrik Arnar Bjarnason krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara sýknu að svo stöddu. Til þrautavara krefst hann þess að kröfur á hendur honum verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar.

I.

Málavextir

Málavextir eru þeir helstir að Milestone ehf., sem var í eigu varastefndu Karls Emils og Steingríms Wernerssona og Leiftra Ltd., félags á Tortola, bresku Jómfrúaeyjunum, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. september 2009. Frestdagur var 22. júní 2009.

Varastefndu Karl Emil og Steingrímur voru einnig eigendur aðalstefnda Aurláka ehf. og Leiftra Ltd. en báðir sátu í stjórn fyrrnefnds félags, og varastefndi Karl Emil í því síðarnefnda, allt til 19. desember 2011 en þá var allt hlutafé keypt af Friðriki Arnari Bjarnasyni af Leiftra Ltd. Var honum sakaukastefnt til varaaðildar undir rekstri málsins og teljast skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála uppfyllt.

Þann 31. mars 2008 áttu sér stað þrír gerningar. Sá fyrsti með kaupsamningi á milli aðalstefnda Aurláka ehf. og L&H eignarhaldsfélag ehf. þar sem aðalstefndi keypti alla hluti félagsins, samtals 99,9% í Lyfjum og heilsu hf. Í samningnum segir að kaupverðið sé 3.441.622.800 kr. og hinir seldu hlutir veðbanda- og kvaðalausir. Kaupverðið skyldi greitt annars vegar með yfirteknum skuldum að fjárhæð 2.545.542.592 kr. og hins vegar fært sem viðskiptaskuld milli kaupanda og seljanda að fjárhæð 896.457.408 kr. „og greiðast við fyrsta hentugleika“. Þá keypti aðalstefndi 0,01 % eignahlut Racon Holdings II. AB í félaginu. L&H eignarhaldsfélag ehf. og Racon Holdings II AB voru í eigu Milestone ehf. á þessum tíma.

Þá tók stefndi Aurláki ehf. einnig að sér greiðslu vegna lána til Glitnis banka hf. að upphæð 73.646.506 kr. Eftir þessi viðskipti átti L&H eignarhaldsfélag ehf. kröfu á hendur stefnda Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 kr.

Næsti gerningur fólst í kaupsamningi Milestone ehf. og Moderna ehf. (áður L&H með sömu kt.) þar sem félagið seldi Milestone ehf. viðskiptakröfu á hendur Aurláka ehf. upp á 970.103.914 kr. Milestone ehf. greiddi kröfuna að fullu annars vegar með niðurfellingu á viðskiptakröfu sem félagið átti á hendur Moderna ehf. að fjárhæð 780.105.266 kr. og hins vegar með því að stofna til viðskiptaskuldar við það félag að fjárhæð 189.998.648 kr.

Síðasti gerningurinn fólst í kaupsamningi Milestone ehf. og Leiftra Ltd. þar sem félagið keypti viðskiptakröfu Milestone ehf. á hendur stefnda Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 kr. Kaupverðið var greitt með niðurfellingu á viðskiptakröfu sem Leiftri Ltd. átti á hendur Milestone ehf. Segir í kaupsamningnum að eftir þessi viðskipti eigi Milestone ehf. viðskiptakröfu á hendur Leiftra Ltd. að fjárhæð 36.725.306 kr.

Með bréfi dagsettu 12. júlí 2010 til varastefndu Karls Emils og Steingríms, f.h. Leiftra Ltd. lýsti stefnandi yfir riftun á gjöf Milestone ehf. frá 31. mars 2008 og krafðist greiðslu 970.103.914 kr. Í bréfinu segir að Leiftri Ltd. hafi greitt kröfuna að hluta til með skuldajöfnun að upphæð 462.977.430 kr. en afgangur kaupverðsins hafi verið færður til skuldar á viðskiptareikningi Leiftra Ltd. að upphæð 507.126.484 kr. Sú krafa hafi svo lækkað þegar arðgreiðsla félagsins fyrir árið 2007, sem mun hafa numið 220.836.000 kr., var færð til lækkunar skuldinni. Samkvæmt þessu hafi skuld Leiftra Ltd. við Milestone ehf. vegna viðskiptanna verið 286.290.484 kr. við gjaldþrot félagsins. Í málinu er ekki ágreiningur um að ofangreindir gerningar hafi átt sér stað og eru fjárhæðir óumdeildar.

Þá var aðalstefnda sent bréf, dagsett 15. október 2010, þar sem lýst var yfir riftun ofangreindrar skuldajöfnunar og arðgreiðslu og krafist greiðslu 970.103.914 kr. Í bréfinu er því lýst að sú ráðstöfun að losa aðalstefnda undan skuld félagsins við stefnanda hafi falið í sér gjafagerning í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Bréfi þessu var svarað af hálfu lögmanns aðalstefnda þann 26. október 2010 og því hafnað að þrotabúið ætti kröfu á aðalstefna. Þá segir í bréfinu um greiðslu 970.103.914 kr.: „Umrædd krafa fellur í gjalddaga í desember 2010 og mun umbjóðandi okkar efna skuldbindingu sína samkvæmt kröfunni á gjalddaga hennar.“

Með stefnubirtingum dagana 9.-19. nóvember 2010 höfðaði stefnandi riftunarmál á hendur Aurláka ehf., Karli Emil og Steingrími Wernerssonum og Leiftra Ltd. Mál nr. E-121/2011 var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. janúar 2011 og féll dómur í málinu 10. febrúar 2012. Nánari grein er gerð fyrir þessum þætti í niðurstöðukafla.

Áður en ofangreindur dómur féll eða þann 19. desember 2011 seldu varastefndu Karl Emil og Steingrímur varastefnda Friðriki Arnari Bjarnasyni allt hlutafé sitt í Leiftra Ltd. Í kjölfarið, eða þann 23. desember 2012, var gert samkomulag um „fjárhagslega endurskipulagningu Aurláka ehf.“ en aðilar þess auk ofangreindra voru Leiftri Ltd., Íslandsbanki hf. og AMK ehf., en annar stjórnarmaður þess félags var varastefndi Karl Emil. Samkomulagið var viðauki við samkomulag á milli bankans, aðalstefnda og Lyfja og heilsu ehf. frá 8. desember 2011 vegna „mögulegrar fjárhagslegrar endurskipulagningar Auláka og Lyfja og heilsu“. Í samkomulaginu frá 23. desember 2012 kemur eftirfarandi fram í lið 1.2: „Í samkomulaginu felst að Íslandsbanki sem er helsti kröfuhafi Aurláka mun, að uppfylltum skilyrðum samkomulagsins, lækka kröfur sínar á hendur félaginu í 1200 milljónir kr. Kröfur bankans eru tryggðar með veði í öllum hlutum Aurláka í Lyfjum og heilsu. Hlutafjáreignin í Lyfjum og heilsu er eina eign Aurláka. Samkvæmt óháðu verðmati er eignahlutur Aurláka í Lyfjum og heilsu mun minna virði en sem nemur hinni veðsettu kröfu Íslandsbanka“. Þá segir í lið 2.2 í 2. kafla samkomulagsins um uppgjör: „Leiftri á einnig kröfu á hendur Aurláka. Þar sem eina eign félagsins er veðsett Íslandsbanka til tryggingar mun hærri kröfu en sem nemur verðmæti hennar er ljóst að krafa Leiftra er verðlaus. Er það forsenda fjárhagslegrar endurskipulagningar Aurláka að aðrir óverðtryggðir kröfuhafar felli niður kröfur sínar á hendur félaginu.“ Jafnframt segir í lið 2.3: „Í því ljósi samþykkir Leiftri með undirritun samkomulags þessa að fella kröfu sína niður að fullu með undirritun samkomulags þessa. Sem endurgjald fyrir niðurfellingu fær Leiftri 2% hlutafjár í félaginu þegar eigið fé félagsins er orðið jákvætt, þó í síðasta lagi þann 3. janúar 2018. Er heimilt að inna endurgjaldið af hendi hvort sem er með útgáfu nýrra hluta eða með framsali frá AMK.“ Eins og hér er lýst felldi Leiftri Ltd. niður kröfu sína á hendur aðalstefnda á grundvelli ofangreinds samkomulags en aðilar málsins deila m.a. um gildi þess.

Með bréfi til aðalstefnda dags. 11. apríl 2012, var þess krafist með vísan til ofangreinds dóms að félagið greiddi stefnanda 970.103.914 kr., auk dráttarvaxta. Því hafnaði aðalstefndi með bréfi dagsettu 27. apríl 2012. Í bréfinu kemur fram að félagið hafni greiðsluskyldu á þeim grunni að dómsorðið lúti að lögskiptum á milli stefnanda og aðalstefnda. Stefnandi verði að fullnusta kröfuna um skil viðskiptakröfu sinnar á hendur Leiftra Ltd., fyrr geti hann ekki öðlast kröfu á hendur aðalstefnda. Þá segir í bréfinu: „Allt að einu er sú krafa sem um ræðir ekki lengur til og umbjóðandi okkar því eðli máls samkvæmt ekki lengur skuldari hennar. Réttast er þó að Leiftri Ltd. upplýsi þrotabúið um það [...]

Með bréfi til Leiftra Ltd., dagsettu 31. júlí 2012, tilkynnti stefnandi félaginu um niðurfellingu viðskiptaskuldar og framsal kröfu á hendur aðalstefnda til stefnanda. Í bréfinu er vísað til þess að dómur í máli E-121/2011 hafi verið birtur Leiftra Ltd. með stefnuvotti þann 9. mars 2012 og hafi ofangreind viðskiptaskuld félagsins við stefnanda að fjárhæð 286.290.484 kr. verið felld niður samdægurs. Þá segir að frá og með uppkvaðningu hafi stefnandi verið réttur eigandi og framsalshafi á hendur aðalstefnda að fjárhæð 970.103.914 kr. Hafi búið þegar hafið innheimtuaðgerðir gagnvart honum. Óskað er eftir því að Leiftri Ltd. upplýsi um hvenær og hvernig skuld aðalstefnda hafi verið felld niður eins og fram hafi komið í bréfasamskiptum við aðalstefnda.

Mál þetta var höfðað í kjölfar þessara samskipta eða í ágúst 2012.

Aðalstefndi Karl Emil gaf aðilaskýrslu fyrir dóminum þann 11. mars sl. Jafnframt gáfu Steingrímur og Friðrik Örn aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að hinn 31. mars 2008 hafi aðalstefndi stofnað til skuldar sem var að fjárhæð 970.103.914 kr. Krafan hafi myndast við kaup aðalstefnda á Lyfjum og heilsu ehf. Óumdeilt sé einnig að aðalstefnda beri að standa skil á greiðslu skuldarinnar, á grundvelli almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Deilt sé um hver sé réttur kröfuhafi að skuldinni, stefnandi eða Leiftri Ltd. Gjalddagi kröfunnar sé fyrir löngu kominn, án þess að stefnandi hafi fengið neinar greiðslur á grundvelli hennar.

Krafa stefnanda á hendur aðalstefnda byggi á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-121/2011, upp kveðnum 10. febrúar 2012. Samkvæmt dómnum sé stefnandi eigandi 970.103.914 kr. kröfu á hendur aðalstefnda en framsali kröfunnar frá Milestone ehf. til Leiftra Ltd. hafi verið rift með dóminum.

Með dómsorði héraðsdóms hafi verið mælt fyrir um aðilaskipti að kröfunni á hendur aðalstefnda þannig að stefnandi varð kröfuhafi í stað Leiftra Ltd. Þar sem dómurinn hafi bundið Leiftra Ltd., aðalstefnda og stefnanda hafi aðilaskiptin verið fullkomnuð með dóminum. Kröfuhafaskipti fari fram með bindandi yfirlýsingum, oftast af hálfu kröfuhafa, en í þessu tilviki með dómi sem bindi bæði kröfuhafa og skuldara.

Aðalstefndi hafi haldið því fram að krafan væri „ekki lengur til“ án þess þó að upplýsa með hvaða hætti krafan hafi verið greidd eða hún felld niður. Það hafi ekki verið fyrr en stefndu lögðu fram greinargerð sína í Héraðsdómi Reykjavíkur sem í ljós hafi komið hver örlög kröfunnar höfðu orðið.

Aðalstefndi hafi verið aðili að dómsmáli nr. E-121/2011 og þannig grandsamur um kröfuhafaskiptin. Hafi honum þannig verið kunnugt um að stefnandi teldi sig vera réttan kröfuhafa frá því í júlí 2010, er fyrsta kröfubréf vegna viðskiptanna hafi verið sent stefnda. Stefnandi byggir á því að allt frá því að aðalstefndi hafi vitað um höfðun dómsmálsins nr. E-121/2011 hafi félaginu verið óheimilt að líta á Leiftra Ltd. sem kröfuhafa sinn. 

Kveður stefnandi greiðslur, löggerninga og aðrar aðgerðir skuldara sem beinist að öðrum en kröfuhafa ekki lækka skuld þeirra við raunverulegan kröfuhafa. Eftir málshöfðun riftunarmálsins hafi allar aðgerðir aðalstefnda, þar sem hann hafi komið fram eins og skuldari kröfu gagnvart Leiftra Ltd., verið ólögmætar og markleysa. Slíkar aðgerðir leiði ekki til lækkunar á skuldinni gagnvart stefnanda enda hafi aðalstefndi vitað að Leiftri Ltd. væri ekki lengur réttur kröfuhafi. Frá og með málshöfðun hafi aðalstefndi verið grandsamur um betri rétt stefnanda.

Eftir höfðun dómsmálsins nr. E-121/2011 hafi Leiftra Ltd. sömuleiðis verið óheimilt að taka á móti greiðslum kröfunnar frá aðalstefnda eða að taka þátt í löggerningum eða öðrum aðgerðum sem hafi falið í sér niðurfellingu kröfunnar, að hluta eða í heild.

Gangi dómur ekki á hendur aðalstefnda byggir stefnandi kröfu sína á hendur varastefndu á því að ljóst megi vera að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem felist í því að hann fái ekki fullnustu kröfunnar hjá skuldara. Upphæð tjónsins sé hin sama og upphæð kröfunnar og því sé gerð sama krafa á hendur varastefndu og aðalstefnda.

Stefnandi telur að allt frá 31. mars 2008 hafi allar athafnir varastefndu, Karls og Steingríms, miðað að því að valda stefnanda tjóni. Eigi það jafnt við um upphaflegu gerningana hinn 31. mars 2008 og aðrar ráðstafanir allt til dagsins í dag. Gerningarnir frá 31. mars 2008 hafi fært hluti í Lyfjum og Heilsu hf. út úr Milestone ehf. samstæðunni og til stefnda Aurláka ehf., sem var félag utan samstæðunnar en í eigu varastefndu Karls og Steingríms. Verðmætin hafi farið út úr Milestone ehf. til aðalstefnda án þess að nokkuð kæmi í staðinn til Milestone ehf. Tjón Milestone ehf. nemi eftirstöðvum á söluverði hlutanna í Lyfjum og Heilsu hf., 970.103.914 kr., en Milestone ehf. hafi átt kröfu á hendur Aurláka ehf. fyrir eftirstöðvunum. Varastefndu Karl og Steingrímur hafi verið aðaleigendur og stjórnarmenn þeirra félaga sem voru aðilar að gerningunum hinn 31. mars 2008 og allir stjórnunar­þræðir félaganna hafi verið í þeirra höndum. Þá hafi sakaukastefndi verið aðaleigandi Leiftra Ltd. þegar hann ritaði undir samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu Aurláka ehf., dags. 23. desember 2011, sem hafi falið í sér eftirgjöf kröfunnar á hendur Aurláka ehf.

Stefnandi hafi reynt að endurheimta þau verðmæti sem hafi glatast við þessa gerninga. Strax á árinu 2010 hafi stefnandi upplýst aðalstefnda, varastefndu Karl og Steingrím og félög í þeirra eigu um það að gerningarnir frá 31. mars 2008 væru riftanlegir og að stefnandi teldi sig réttan kröfuhafa að skuld Aurláka ehf.

Varastefndu Karl og Steingrímur séu ennþá eigendur og stjórnendur stefnda Aurláka ehf. Þá hafi þeir verið eigendur og stjórnendur Leiftra Ltd. til 19. desember 2011 þegar sakaukastefndi keypti allt hlutafé í félaginu. Hafi þeir haft alla þræði í hendi sér þegar löggerningarnir hafi farið fram 31. mars 2008. Það hafi þeir einnig haft ásamt meðstefnda Friðriki í lok árs 2011. Komi í ljós að ómögulegt sé að endurheimta kröfuna beri varastefndu sameiginlega skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem hljótist af því. Kröfurnar séu jafnháar peningakröfur á hendur öllum stefndu og eigi allar rætur að rekja til sama löggernings eins og fram hafi komið, þ.e. stofnunar kröfu á hendur aðalstefnda. Kröfur á hendur öllum séu reistar á þeirri kröfu sem hafi stofnast á hendur aðalstefnda 31. mars 2008 og afdrifum hennar. Sömu málsatvik séu að baki kröfunum, sami löggerningur og sama aðstaða.

Krafan á hendur varastefndu byggir á almennum reglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni og 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en báðir varastefndu Karl og Steingrímur hafi setið í stjórn Milestone ehf. þegar upphaflegu viðskiptin áttu sér stað hinn 31. mars 2008.

Sakaukastefndi hafi verið aðaleigandi Leiftra Ltd. þegar krafa félagsins á hendur aðalstefnda hafi verið felld niður þrátt fyrir að honum hafi verið fyllilega ljóst að félagið stæði í rekstri dómsmáls gegn stefnanda og beri því ábyrgð með vísan til almennu skaðabótareglunnar.

Þá byggir krafan á réttarreglum um ábyrgð skuggastjórnenda, þ.e. raunverulegra stjórnenda félaga eða samstæðu félaga, sem hafa alla þræði félaganna í hendi sér.

Stefnandi telur skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð varastefndu, sem lúti að huglægri afstöðu, uppfyllt, en telja verði háttsemi þeirra fela í sér ásetning eða í það minnsta stórkostlegt gáleysi. Háttsemi þeirra sé ólögmæt enda hafi tilgangurinn með upphaflegu gerningunum, hinn 31. mars 2008, verið beinlínis sá að færa verðmæti til félaga í eigu Karls og Steingríms án þess að nokkur verðmæti kæmu í staðinn til stefnanda. Þá hafi tilgangurinn með gerningunum 19. og 23. desember 2011 verið að fella niður kröfu til þess að stefnandi gæti ekki innheimt hana. Orsakatengsl séu á milli tjóns Milestone ehf. og ólögmætra athafna varastefndu. Þá sé tjón stefnanda einnig sennileg afleiðing háttseminnar.

Stefnandi telur að gerningarnir frá 31. mars 2008, 19. desember 2011 og 23. desember 2011, hafi einir og sér eða fleiri saman, leitt til þess að stefnanda hafi í kjölfar þeirra reynst ómögulegt að endurheimta verðmætin, sem þá hafi runnið út úr Milestone ehf., og beri varastefndu ábyrgð á því. Löggerningarnir hafi allir verið gerðir til málamynda í þeim eina tilgangi að færa verðmæti úr Milestone ehf. samstæðunni. Sú háttsemi stjórnenda og hluthafa að nýta félög með þessum hætti í eigin þágu sé ólögmæt. Eigi það sérstaklega við í þessu tilviki þegar gjaldþrot Milestone ehf. hafi verið óumflýjanlegt og verðmætin því tekin undan sameiginlegri fullnustugerð kröfuhafa félagsins. 

Stefnandi telur ljóst að hinn 31. mars 2008 hafi varastefndu Karl og Steingrímur brotið gegn skyldum sínum sem stjórnendur og hluthafar Milestone ehf. Þeir hafi m.a. brotið gegn skyldum sínum sem fram koma í lögum um einkahlutafélög, einkum í IX., X. og XI. kafla laganna, en einnig hafi varastefndu Karl og Steingrímur brotið gegn óskráðum reglum félagaréttar og skaðabótaréttar.

Í aðal- og varasök er krafist dráttarvaxta frá 10. mars 2012, þ.e. mánuði eftir að dómur í málinu nr. E-121/2011 var kveðinn upp. Er krafan byggð á 3 mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi vísar til almennra reglna samningaréttar, m.a. um skuldbindingargildi samninga, og almennra reglna kröfuréttar, m.a. um efndir kröfuréttinda og kröfuhafaskipti. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, einkum IX. kafla um ákvarðanatöku félagsstjórnar og XII. kafla um arðsúthlutun, lánveitingar o.fl. Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

III.

Málsástæður og lagarök aðalstefnda

Aðalstefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að „sú tiltekna ætlaða krafa“ sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á sé niður fallin. Sú krafa, sem hafi verið í eigu félagsins Leiftra Ltd., hafði hins vegar verið felld niður með samkomulagi Íslandsbanka hf., Leiftra Ltd., Aurláka ehf. og félagsins AMK ehf., þann 23. desember 2011.               

Aðalstefndi byggir á því að það sé meginregla að við aðilaskipti að kröfuréttindum geti framsalshafi aldrei eignast meiri rétt en framseljandi hafi átt við aðilaskiptin. Jafnvel þótt fallist yrði á þann málatilbúnað stefnanda að aðilaskipti hafi orðið að kröfunni þann 12. febrúar 2012, hafi efni kröfunnar þann dag ekki verið á þann veg sem lýst sé í stefnu. Hafi stefnandi þann dag ekki öðlast kröfu á hendur aðalstefnda sem nemi stefnufjárhæðinni, enda hafi ætlaður framseljandi, Leiftri Ltd., ekki átt þann rétt þann dag. Þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna aðalstefnda af kröfu stefnanda.

Aðalstefndi byggir jafnframt á því að sýkna beri hann af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. eml. Þannig hafi stefnandi, með vísan til þess sem hefur verið rakið, enga kröfu átt á hendur honum við höfðun málsins.

Verði ekki fallist á framangreint byggir aðalstefndi á því að í öllu falli verði að sýkna hann að svo stöddu af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála. Byggir sú málsástæða á því að aðilaskipti hafi ekki orðið að ætlaðri kröfu með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 12. febrúar 2012, eins og rakið hefur verið. Þannig sé stefnandi ekki orðin kröfuhafi þeirrar tilgreindu kröfu sem mál þetta er höfðað til greiðslu á. Dómsorð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-121/2011 hafi kveðið á um að Leiftri Ltd. skilaði stefnanda umræddri kröfu. Séu stefnanda ýmis úrræði fær til að fullnusta þá skyldu á hendur Leiftra Ltd. 

Aðalstefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta sem röngum. Um lagarök vísar aðalstefndi til umfjöllunar varastefnda Karls Emils.

IV.

Málsástæður og lagarök varastefnda Karls Emils

Verði fallist á málsástæður fyrir sýknukröfu byggir varastefndi hana í fyrsta lagi á því að sýkna beri hann af kröfum stefnanda þar sem grundvöllur málatilbúnaðar hans á hendur varastefnda sé brostinn. Vísar varastefndi til þess að krafa stefnanda á hendur varastefnda sé grundvölluð á því að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem felist í því að fá ekki fullnustu kröfunnar hjá aðalstefnda.

Verði aðalstefndi sýknaður að svo stöddu á þeim grundvelli að aðilaskipti að ætlaðri kröfu hafi ekki farið fram og stefnandi sé þannig ekki orðinn kröfuhafi telur aðalstefndi að sýkna verði varastefnda, í það minnsta að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála. Að mati varastefnda sé þá ljóst að ekkert liggi fyrir um hvort dómur muni ganga á hendur aðalstefnda, eða hvort mögulegt verði að endurheimta kröfuna. Þar með sé allur málatilbúnaður stefnanda á hendur varastefnda brostinn.

Verði ekki fallist á framangreint, byggir varastefndi sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki uppfyllt í málinu. Varastefndi hafnar því að Milestone ehf. hafi verið ógjaldfært þann 31. mars 2008 og að tilteknar ráðstafanir þann dag hafi þar með verið riftanlegar enda leitt til tjóns stefnanda. Rekur hann ástæður þess í stefnu. Þá vísaði varastefndi í málflutningi sínum til matsgerðar sem lögð var fram af stefnanda sem hann telur styðja mál hans. Telur hann það skipta máli við mat á ætlaðri saknæmri háttsemi varastefnda.

Varastefndi rekur jafnframt og telur ljóst af umfjöllun sinni að skuldari hafi visst svigrúm til þess að ráða bót á fjárhagslegum erfiðleikum sínum. Telur hann að með vísan til orðalags 2. mgr., sbr. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti ofl. megi ráða að fjárhagsleg endurskipulagning, sem felist í því að skuldarinn taki fé að láni og/eða gangi á eignir sínar, falli þar undir.

Varastefndi telur ljóst að Milestone ehf. hafi augljóslega staðið við skuldbindingar sínar allt fram að hruni íslenska fjármálakerfisins í lok ársins 2008, m.a. með því að ganga á eignir sínar eða taka fé að láni. Ekki hafi verið fyrirséð að fjármögnunarþörf Milestone ehf. myndi aukast og ekki útlit fyrir annað en að félagið hefði trausta fjármögnun hjá aðalviðskiptabanka samstæðunnar, Glitni banka hf. Þar sem Milestone ehf. hafi getað endurfjármagnað sig og komið í veg fyrir að skuldir þess féllu í gjalddaga hafi félagið ekki verið ógreiðslufært fyrr en eftir fall bankakerfisins. Sé því mótmælt að það hafi verið orðið fyrirsjáanlegt að Milestone ehf. hafi ekki getað staðið í skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga.

Varastefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni, sem rekja megi til sölu á hlutabréfum í Lyfjum og heilsu hf. til aðalstefnda þann 31. mars 2008 eða eftirfarandi atburða. Byggir varastefndi á því að hin seldu hlutabréf hafi verið að fullu veðsett til tryggingar á skuldbindingum L&H eignarhaldsfélags ehf. við Íslandsbanka hf. Þær skuldbindingar hafi þegar í kjölfar sölunnar orðið hærri en sem nemi verðmæti Lyfja og heilsu hf. og eru ástæður þess ítarlega raktar í greinargerð.

Hvað varði ætlað tjón stefnanda vegna ráðstafana þann 31. mars 2008 sem að hans mati leiddu til þess að verðmæti hafi runnið út úr félaginu, án þess að endurgjald hafi komið í staðinn, benti varastefndi á að dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. febrúar 2012 hafi ekki verið bindandi fyrir hann. Jafnvel þó að um riftanlega gerninga hefði verið að ræða, breyti það því ekki að verðmæti hafi sannanlega komið í stað þeirra verðmæta sem runnið hafi úr félaginu. Þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna varastefnda af skaðabótakröfu stefnanda enda ekkert tjón fyrir hendi. Varastefndi byggir jafnframt á því að önnur skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki fyrir hendi.

Varastefndi byggir á því að þeir gerningar sem um ræðir hafi verið fyllilega lögmætir og framkvæmdir í eðlilegum viðskiptalegum tilgangi. Allar ákvarðanir hans hafi því verið teknar á viðskiptalegum forsendum en ekki með annarlega hagsmuni í huga. Til þess sé að líta að varastefndi hafi ekki getað upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun innan stjórnar. Þá hafi varastefndi hvorki haft prókúruumboð fyrir félagið né umsjón með daglegum rekstri. Bendir varastefndi á að það sé framkvæmdastjóri L&H eignarhaldsfélags ehf. sem undirriti umræddan kaupsamning fyrir hönd félagsins en ekki varastefndi. Hafi ráðgjafar talið það þjóna hagsmunum Milestone ehf. best að selja Lyf og Heilsu og eyða áhættu Milestone ehf. gagnvart félaginu. Aðalstefndi  hafi viljað kaupa félagið á því virði sem KPMG ráðgjöf hafði verðmetið það. Hafi félagið því verið selt á eðlilegum markaðskjörum án þess að ráðast þyrfti í kostnaðar- og tímafrekt söluferli. Að sama skapi hafi það að mati varastefnda verið eðlileg viðskiptaleg ákvörðun að framselja kröfuna á hendur aðalstefnda og þjónað vel hagsmunum félagsins að greiða með þeim hætti.

Varastefndi telur að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni við það eitt að krafa Leiftra Ltd. á hendur aðalstefnda hafi verið felld niður, enda hafi hann þegar fengið verðmæti sem svöruðu til virðis Lyfja og heilsu hf. í sínar hendur. Þá sé því mótmælt að varastefndi hafi hagnast á þessum viðskiptum enda órökstutt með öllu. Einnig mótmælir varastefndi upphafstíma dráttarvaxtakröfu sem röngum.

Stefndu vísa málatilbúnaði sínum til stuðnings m.a. til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum XX. kafla laganna. Þá vísa stefndu til almennra reglna kröfu- og skaðabótaréttar. Vísað er til 16. og 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og 80. gr. laganna. Um málskostnað vísa stefndu til 1. mgr. 130. gr. laganna. Krafa varastefnda um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Varastefndi er ekki virðisaukaskattskyldur og því ber honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

V.

Málsástæður og lagarök varastefnda Steingríms Wernerssonar

                Varastefndi byggir á því, verði það niðurstaða dómsins að sýkna beri aðalstefnda, alfarið eða að svo stöddu, að þá þegar séu allar forsendur brostnar fyrir málatilbúnaði stefnanda á hendur varastefnda Steingrími. Því beri að sýkna hann alfarið eða að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Verði ekki fallist á framangreind rök varastefnda Steingríms, byggir hann sýknukröfu sína á því að skilyrði fyrir skaðabótaskyldu hans séu ekki uppfyllt í málinu. Varastefndi Steingrímur hafnar því jafnframt að hafa sýnt af sér saknæma háttsemi.

                Varastefndi tekur undir sjónarmið og rök aðalstefnda og varastefnda Karls að Milestone ehf., hafi verið orðið ógjaldfært í lagalegum skilningi þess orðs í kjölfar bankahrunsins í lok árs 2008. Varastefndi dragi sérstaklega fram það sem fram komi í greinargerð aðalstefndu og varastefnda Karls Emils um að framsal kröfunnar til stefnda Leiftra Ltd. geti augljóslega ekki talist gjafagerningur í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti ofl., enda hafi verið um að ræða greiðslu á skuld annars vegar og hins vegar greiðslu upp í arð. Það sama gildi um að framsali kröfunnar verði ekki rift á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 þar sem skilyrði greinarinnar hafi ekki verið uppfyllt. Annars vegar hafi verið um að ræða greiðslu skuldar á sama tíma og aðrar gjaldfallnar skuldir hafi verið greiddar og hins vegar greiðslu upp í arð á grundvelli lögmætrar ákvörðunar aðalfundar. Þá hafi félagið verið gjaldfært á þessum tíma og útilokað að stefndi Steingrímur hafi verið grandsamur um meinta ógjaldfærni Milestone ehf. Leggur varastefndi áherslu á að vegna stöðu varastefnda innan Milestone ehf., hafi hann hvergi komið nálægt þeim fjármálagerningum sem mál þetta lúti að. Þá liggi ekkert fyrir, á þessu stigi máls, hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og þá hvert tjónið hafi verið. Vísar varastefndi í þessu sambandi til umfjöllunar í greinargerð aðalstefnda og varastefnda Karls Emils.

                Varastefndi byggir á því að önnur skilyrði skaðabótaskyldu varastefnda séu ekki fyrir hendi, þ.e. með því að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið. Varastefndi hafi hvergi komið nærri því að fella niður hina umdeildu kröfu og geti þegar af þeirri ástæðu ekki borið skaðabótaábyrgð á niðurfellingu hennar. Þá sé því mótmælt að varastefndi hafi hagnast á viðskiptum þessum. Staðhæfingar um það hafi verið settar fram án haldbærs rökstuðnings.

Varastefndi kveðst ekki hafa komið nærri hinum umdeildu fjármálagerningum f.h. Milestone ehf. eða haft milligöngu um að koma þeim á. Telur hann að þegar af þeirri ástæðu verði hann ekki gerður ábyrgur fyrir meintu tjóni stefnanda. Þá áréttar varastefndi að hann hafi verið í góðri trú um sterka fjárhagslega stöðu Milestone ehf., allt fram til þess tíma að íslensku bankarnir féllu, haustið 2008. Á því er byggt af hálfu stefnda að stefnanda hafi ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun fyrir ógjaldfærni Milestone ehf., fram til þess tíma. 

Á því er byggt af hálfu varastefnda, að öll skilyrði, m.a. skv. XII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, til greiðslu arðs til hluthafa í greint sinn hafi verið fyrir hendi. Varastefndi byggir á því að arðsúthlutun úr Milestone ehf. til hluthafa hafi verið lögmæt og eðlileg og ákvörðun þar að lútandi tekin á lögformlegan og réttan hátt. Sé því hafnað að varastefndi beri persónulega ábyrgð á meintu tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna hinnar meintu ólögmætu arðsúthlutunar. Í þessu vísar varastefndi til 77. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Á því er byggt af hálfu varastefnda að skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð hans séu ekki fyrir hendi eins og málið liggi fyrir og eigi það við um huglæga afstöðu hans, auk þess sem stefnandi hafi hvorki sýnt fram á né fært lögfulla sönnun fyrir þeim staðhæfingum sínum að orsakatengsl séu milli meintrar háttsemi varastefnda og/eða athafnaleysis hans sem og að meint tjón félagsins verði talið sennileg afleiðing háttseminnar.

Varastefndi mótmælir upphafstíma vaxtakröfu af bótakröfu stefnanda og gerir þá kröfu, verði hún tekin til greina að öllu leyti eða að hluta, að dæmdar bætur beri dráttarvexti frá dómsuppsögu sbr. lokamálslið 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

IV.

Málsástæður og lagarök sakaukastefnda Friðriks Arnars Bjarnasonar

Varastefndi byggir í fyrsta lagi á því að verði fallist á málsástæður aðalstefnda fyrir sýknu eða sýknu að svo stöddu, beri jafnframt að sýkna hann af kröfum stefnanda þar sem grundvöllur málatilbúnaðar hans á hendur sakaukastefnda sé brostinn. Eftir atvikum beri að sýkna hann að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varastefndi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til undirritunar samkomulags Íslandsbanka hf., aðalstefnda, Leiftra Ltd. og AMK ehf. þann 23. desember 2011, þá séu tjónvaldar og réttir aðilar máls þessa þeir aðilar sem staðið hafi að samkomulaginu. Varastefndi beri ekki persónulega ábyrgð á gjörðum Leiftra Ltd. sem sé sjálfstæður lögaðili og eigi því ekki aðild að máli þessu. Verði tjónið rakið til atburða fyrir desembermánuð árið 2011 eigi varastefndi enn síður aðild að málinu enda hafi hann hvergi komið nálægt þeim atburðum sem þá gerðust. 

Varastefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að ósannað sé að skilyrði skaðabótaskyldu séu uppfyllt. Þá hafi varastefndi engan þátt átt í þeim atburðum sem áttu sér stað fyrir desembermánuð árið 2011 og getur ekki borið skaðabótaábyrgð á þeim. Þar fyrir utan hafnar sakaukastefndi því að hafa sýnt af sér saknæma háttsemi með undirritun samkomulags 23. desember 2011 þar sem krafa Leiftra Ltd. á hendur aðalstefnda var felld niður. Varastefndi hafi ritaði undir samkomulagið fyrir hönd Leiftra Ltd. Sé efni þess saknæmt þá sé hin saknæma háttsemi félagsins en ekki hans.

Fyrir liggi að eina eign aðalstefnda hafi verið veðsett Íslandsbanka til tryggingar kröfu sem hafi verið hærri en verðmæti eignanna. Krafa Leiftra Ltd. hafi því verið verðlaus. Telur varastefndi það ekki geta talist saknæma háttsemi að fella niður verðlausa kröfu fáist endurgjald fyrir, líkt og raun hafi verið í þessu tilviki. Í því ljósi hafi beinlínis verið um eðlilega og skynsamlega ráðstöfun að ræða fyrir Leiftra Ltd.

Þá hafi varastefndi ekki vitað af því að stefnandi teldi sig réttan kröfuhafa kröfunnar og hafi ekki verið upplýstur um að krafa hefði verið gerð fyrir dómstólum um að Leiftra Ltd. væri skylt að afhenda stefnanda kröfuna. Þegar varastefndi keypti félagið þann 19. nóvember 2011 hafi samningaviðræður við Íslandsbanka þegar verið langt á veg komnar og varastefndi talið sig fyrst og fremst vera að kaupa félag sem myndi verða hluthafi í aðalstefnda. Varastefndi hafi því ekki aðhafst í slæmri trú og ekki vitað að undirritun samkomulagsins gæti haft áhrif á hagsmuni annarra en aðila þess. Sé því mótmælt að varastefndi hafi hagnast á þessum viðskiptum eða að það hafi á nokkurn hátt þjónað hagsmunum hans að svipta stefnanda kröfum. Skilyrði sakarreglunnar séu því ekki uppfyllt og verði að sýkna sakaukastefnda af öllum kröfum í málinu. Varastefndi byggir sýknukröfu að auki á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni sem rekja megi til háttsemi hans.

Verði talið að meint tjón stefnanda megi rekja til atvika sem gerðust fyrir desembermánuð árið 2011 beri sakaukastefndi bersýnilega ekki skaðabótaábyrgð á því. Verði talið sannað að hann hafi valdið stefnanda tjóni krefst hann lækkunar enda geti tjónið aldrei numið fjárhæð stefnukröfu. Lækkunarkrafa sakaukastefnda byggir á því að stefnandi hefði í öllu falli aldrei getað innheimt nema lítinn hluta kröfunnar og tjón stefnanda jafngildi eingöngu þeim hluta kröfunnar sem hann hefði fengið greiddan ef ekki hefði verið fyrir meinta saknæma háttsemi sakaukastefnda. Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt enda sé hún órökstudd með öllu og upphafsdagur dráttarvaxta rangur.

Um málskostnað vísar sakaukastefndi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa varastefnda um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Varastefndi er ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

IV.

Niðurstaða

                Þann 31. mars 2008 keypti aðalstefndi Lyf og heilsu hf. af Racon Holdings II AB og L&H eignarhaldsfélagi ehf. Kaupverðið var eins og áður er lýst í kaupsamningi við síðargreinda félagið 3.441.622.800 kr. en greiðsla fyrir félagið fólst í yfirtöku skulda L&H eignarhaldsfélags ehf. við Glitni banka hf. að fjárhæð 2.545.542.592 kr. og með stofnun kröfu L&H eignarhaldsfélags ehf. á aðalstefnda í formi viðskiptaskuldar að fjárhæð 896.457.408 kr. auk greiðslu aðalstefnda á lánum við bankann að fjárhæð 73.646.506 kr. Varð þannig til fjárkrafa félagsins á hendur aðalstefnda samtals að fjárhæð 970.103.914 kr.

Sama dag og þessi viðskipti áttu sér stað voru undirritaðir tveir aðrir gerningar þar sem umrædd krafa á hendur aðalstefnda var framseld fyrst frá L&H. ehf. til Milestone ehf. og þaðan til Leiftra Ltd., sem greiddi með skuldajöfnun við Milestone ehf. að fjárhæð 462.977.430 kr. en afgangurinn var færður til skuldar við félagið. Til frádráttar þeirri skuld kom arðgreiðsla Milestone ehf. til félagsins fyrir árið 2007, samtals 220.836.000 kr. Eftirstandandi skuld Leiftra Ltd. við Milestone ehf. var þannig 286.290.484 kr. og var hún færð á viðskiptareikning.

                Milestone ehf. og Leiftri Ltd. voru á þessum tíma í eigu varastefndu Karls Emils og Steingríms Wernerssona. Félögin Racon Holdings II AB og L&H eignarhaldsfélög voru dótturfélög Milestone ehf. og í 100% eigu þess. Aðalstefndi var og er enn í eigu varstefndu Karls Emils og Steingríms en félagið stendur utan svokallaðrar Milestone ehf. samsteypu. Þann  19. desember 2011 var Leiftri Ltd. selt varastefnda Friðriki Arnari.

                Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta eins og áður segir með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2009 en frestdagur var 22. júní 2009.

Með stefnubirtingum dagana 9.-19. nóvember 2010 höfðaði stefnandi mál á hendur aðalstefnda og varastefndu Karli Emil og Steingrími og Leiftra Ltd. Málið  sem var nr. E-121/2011 var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. janúar 2011.

Í málinu var á því byggt af hálfu stefnanda að með framsali Milestone ehf. á kröfu félagsins á hendur Aurláka ehf. til Leiftra Ltd. hafi orðið til riftanlegur gerningur, en félagið hafi ekki getað krafið félagið um greiðslu kröfunnar, þar sem Leiftri Ltd. hafi verið orðinn eigandi hennar. Með úrskurði dómsins þann 7. febrúar 2012 var kröfum stefnanda á hendur aðalstefnda og varastefndu Karli Emil og Steingrími vísað frá dómi þar sem talið var, með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að stefnandi ætti ekki kröfu á hendur þeim.

Með dómi í málinu frá 10. febrúar 2012 var fallist á riftunarkröfur stefnanda með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 en málið var dæmt sem útivistarmál þar sem þingsókn Leiftra Ltd. féll niður frá 20. október 2011. Dómsorð var svohljóðandi:

Rift er gjöf Milestone ehf. til stefnda Leiftra Ltd., dags. 31. mars 2008, sem fólst í afhendingu kröfu á hendur stefnda Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 kr.

Rift er greiðslu Milestone ehf. til stefnda Leiftra Ltd., dags. 31. mars 2008, að fjárhæð 462.977.430 kr.

Rift er greiðslu Milestone ehf. til stefnda Leiftra Ltd, dags. 31. desember 2008, að fjárhæð 220.836.000 kr.

Stefndi Leiftri Ltd. skili stefnanda kröfu á hendur stefnda Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 kr. gegn því að stefnandi felli niður skuld á viðskiptareikningi stefnda Leiftra Ltd. að fjárhæð 286.290.484 kr.

Stefndi Leiftri Ltd. greiði stefnanda þb. Milestone ehf. 700.000 kr. í málskostnað.“

                Í kafla um helstu málsástæður og lagarök stefnanda sem vísað er til í dóminum segir: „Stefnandi krefst þess, með stoð í 144. gr. gþl., að stefndi Leiftri Ltd. skili stefnanda aftur kröfunni á hendur stefnanda Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 krónur. Verði stefnda Leiftra Ltd. gert að skila stefnanda kröfunni muni stefnandi ekki gera neina fjárkröfu í kjölfar hinna riftanlegu ráðstafana. Þá muni stefnandi einnig fella niður eftirstöðvar skuldar stefnda Leiftra Ltd. vegna kröfunnar að fjárhæð 286.290.484 krónur.“

Í forsendum dómsins segir m.a.: „Fallist er á að rifta beri framsali kröfu Milestone ehf. á hendur Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 kr. til stefnda Leiftra Ltd. með vísan til 131. gr. laga nr. 21/1991 þar sem stefndi hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á kröfunni. Er því fallist á að hún sé gjafagerningur í skilningi 131. gr. laganna.“ Greiðslum að baki þeirri ráðstöfun, 220.836.000 kr. og 462.977.430 kr., var jafnframt rift og stefnanda gert að fella niður skuld á viðskiptareikningi stefnda Leiftra Ltd. að fjárhæð 286.290.484 kr. 

Samkvæmt ofangreindu dómsorði var þannig afdráttarlaust kveðið á um að kröfunni skyldi skilað til stefnanda gegn niðurfellingu skuldar Leiftra Ltd. á viðskiptareikningi hans hjá stefnanda. Þá voru með riftuninni ónýttar ofangreindar ráðstafanir með afturvirkum hætti en þær fólust í fyrrgreindum gerningum, annars vegar greiðslu með skuldajöfnuði og hins vegar arðgreiðslu.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu seldu varastefndu Karl Emil og Steingrímur varastefnda Friðriki Arnari allt hlutafé sitt í Leiftra Ltd. þann 19. desember 2011.  Þann 23. desember 2012 gerðist Leiftri Ltd. aðili að samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu aðalstefnda og felldi niður 970.103.914 kr. kröfu félagsins á hendur aðalstefnda.

Fram kom í skýrslu varastefnda Karls Emils fyrir dómi að Leiftri Ltd. hefði verið selt til þess að „gera það formlegra að krafan yrði felld niður“. Nánast ekkert endurgjald hafi komið í staðinn fyrir félagið. Þá mundi hann ekki hvort Íslandsbanka og Friðriki Arnari hefði verið kunnugt um málaferli vegna riftunar. Að mati dómsins hefur það enga þýðingu að Leiftri Ltd. hafi með áðurgreindu samkomulagi við Íslandsbanka hf. fellt niður kröfu sína á hendur aðalstefnda áður en dómur í máli nr. E-121/2011 var kveðinn upp. Þær aðgerðir breyta engu um kröfu stefnanda sem hana á með réttu og verður því ekki fallist á það með aðalstefnda að niðurfelling kröfunnar eigi að leiða til sýknu.

Aðalstefndi byggir einnig á því að stefnandi geti ekki beint kröfu að honum fyrr en reynt hafi á fullnustu ofngreindrar kröfu, eftir atvikum með atbeina sýslumanns. Beri því að sýkna hann að svo stöddu með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi reisir kröfu sína á hinn bóginn á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um efndir á fjárskuldbindingum. Heldur stefnandi því fram að þar sem um almenna kröfu hafi verið að ræða hafi í reynd verið óþarft að fullnusta hana með öðrum hætti en gert var, þ.e. með formlegri kröfu um efndir. Dómurinn hafi nægt í þessu sambandi sem fullgild skilríki og hafi stefnanda því verið rétt að beina fjárkröfu að aðalstefnda.

Óumdeilt er að Milestone ehf. átti kröfu á hendur aðalstefnda að fjárhæð 970.103.914 kr. áður en hún var framseld Leiftra Ltd. Með dómi í ofangreindu máli fóru fram aðilaskipti að kröfunni. Þá var greiðslu með skuldajöfnuði að fjárhæð 462.977.430 kr. rift og sömuleiðis arðgreiðslu að fjárhæð 220.836.000 kr. Enn fremur var stefnanda gert að fella niður skuld á viðskiptareikningi Leiftra Ltd. að fjárhæð 286.290.484 kr. en fyrir liggur að félaginu var tilkynnt um það í kjölfar dómsins. Jafnframt liggur fyrir málflutningsyfirlýsing lögmanns stefnanda við aðalmeðferð málsins um niðurfellingu kröfunnar.

 Þar sem stefnandi hefur sýnt nægilega fram á að hann sé réttur aðili að kröfunni er honum heimilt að beina henni að skuldara kröfunnar, þ.e.  aðalstefnda. Var ekki nauðsyn á því, eins og hér háttar til, að grípa til frekari aðgerða en gert var af hálfu stefnanda til að hann öðlaðist full yfirráð hennar. Að þessu virtu verður fallist á fjárkröfu stefnanda á hendur aðalstefnda.

Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. mars 2012 til greiðsludags. Upphafstími dráttarvaxta er þannig mánuði eftir dómsuppsögu í máli nr. E-121/2011. Fyrir liggur að með bréfi stefnanda, dagsettu 11. apríl 2012, var aðalstefndi krafinn um greiðslu kröfunnar. Rétt þykir að upphafstími dráttarvaxta verði mánuði síðar. Verður því fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda eins og í dómsorði greinir.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber aðalstefnda að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem þykir hæfilegur 1.080.000 kr. og er þá tekið tilliti til þóknunar vegna flutnings um frávísunarkröfu.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

Aðalstefndi, Aurláki ehf., greiði stefnanda, þrotabúi Milestone ehf., 970.103.914 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 11. maí 2012 til greiðsludags.

Aðalstefndi greiði stefnanda 1.080.000 krónur í málskostnað.