Hæstiréttur íslands
Mál nr. 367/2013
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Forkaupsréttur
|
|
Fimmtudaginn 28. nóvember 2013. |
|
Nr. 367/2013. |
Aztiq Pharma Partners ehf. Árni Harðarson Vilhelm Róbert Wessman og Magnús Jaroslav Magnússon (Bjarki H. Diego hrl. Magnús H. Magnússon hdl.) gegn Matthíasi H. Johannessen (Reimar Pétursson hrl.) |
Einkahlutafélag. Forkaupsréttur.
Með framsalsamningi 31. mars 2009 sömdu L ehf. annars vegar og M, V, MJ og Á hins vegar um framsal allra eignarhluta í einkafélaginu D, en nafni þess var breytt í A ehf. sama dag, Samkvæmt samningnum skyldi eignarhluti V vera 94% en M, MJ og Á skyldu eiga 2% hver um sig. Gerður var sérstakur viðauki við framsalssamninginn, sem einnig var dagsettur 31. mars 2009, þar sem kom fram að með honum væri gerð sú breyting á samningnum að Á keypti 94% hlutafjár sem V hefði skráð sig fyrir og yrði V því ekki hluthafi í félaginu. Var viðaukinn undirritaður fyrir hönd L hf. sem framseljanda og af hálfu V og Á, auk þess sem MJ skrifaði undir sem vottur. Deildu aðilar um það hvort efni viðaukans hefði falið í sér framsal hlutafjár V til Á þannig að stofnast hefði til forkaupsréttar M á grundvelli tiltekins ákvæðis í samþykktum A ehf. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna, kom m.a. fram að telja yrði að með framsalssamningnum hefðu M, V, MJ og Á keypt félagið af L ehf. og hefði þeir því við undirritun samningsins orðið hluthafar í félaginu. Vísaði héraðsdómur til þess að viðaukinn gæti ekki talist hluti af framsalssamningnum eða breyting á honum, enda hefðu allir aðilar hans þurft að standa að breytingunni til þess að svo yrði. Var því fallist á með M að með viðaukanum hefði V framselt til Á þá 470.000 hluti eða 94% hlutafjár sem hann fékk framseld frá L ehf. með framsalssamningnum. Samkvæmt samþykktum A ehf. hefði stjórn félagsins forkaupsrétt að fölum hlutum fyrir félagsins hönd, en að félaginu frágengnu öðlaðist hluthafi slíkan rétt í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Hvorki var fallist á með M að stjórn félagsins hefði verið kunnugt um framsal hlutanna frá V til Á og kosið að neyta ekki forkaupsréttar né að MJ hefði með vottun viðaukans fallið frá forkaupsrétti. Þá þótti ekki sýnt fram á að M hefði verið kunnugt um framsalið á árinu 2009 og lagt til grundvallar að honum hefði fyrst orðið kunnugt um að V væri ekki hluthafi í félaginu á árinu 2011. Með vísan til þessa var fallist á kröfu M um að viðurkennt yrði að hann ásamt Á og MJ ættu forkaupsrétt, að A ehf. frágengnu, að 470.000 hlutum í A ehf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. maí 2013. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Aztiq Pharma Partners ehf., Árni Harðarson, Vilhelm Róbert Wessman og Magnús Jaroslav Magnússon, greiði óskipt stefnda, Matthíasi H. Johannessen, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 7. mars sl., er höfðað 13. desember 2011.
Stefnandi er Matthías H. Johannessen, Bollagörðum 49, Seltjarnarnesi.
Stefndu eru Aztiq Pharma Partners ehf., kt. [...], Smáratorgi 3, Kópavogi, Árni Harðarson, Bergstaðastræti 49, Reykjavík, Vilhelm Róbert Wessman, Lálandi 10, Reykjavík og Magnús Jaroslav Magnússon, Fjallalind 137, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Aðalkrafa: Að viðurkennt verði að stefnandi sé löglegur eigandi 470.000 hluta í stefnda Aztiq sem stefndi Vilhelm Róbert framseldi stefnda Árna með skjali sem ber titilinn „viðauki við framsalssamning um hlutabréf í Einkahlutafélaginu Dalasúlu ehf.“, enda standa 470.000 krónur til afhendingar til stefnda Árna á fjárvörslureikningi lögmanns stefnanda hjá Íslandsbanka nr. [...]-[...]-[...]07.
1. varakrafa: Að viðurkennt verði að stefnandi sé löglegur eigandi 235.000 hluta í stefnda Aztiq sem stefndi Vilhelm Róbert framseldi stefnda Árna með skjali sem ber titilinn „viðauki við framsalssamning um hlutabréf í Einkahlutafélaginu Dalasúlu ehf.“, enda standa 235.000 krónur til afhendingar stefnda Árna á fjárvörslureikningi lögmanns stefnanda hjá Íslandsbanka nr. [...]-[...]-[...]07.
2. varakrafa: Að viðurkennt verði að stefnandi, ásamt stefnda Árna og stefnda Magnúsi, eigi forkaupsrétt að 470.000 hlutum í stefnda Aztiq samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta stefnda Aztiq á verðinu ein króna á hlut vegna framsals umræddra hluta frá stefnda Vilhelm Róberti til stefnda Árna samkvæmt skjali sem ber titilinn „viðauki við framsalssamning um hlutabréf í Einkahlutafélaginu Dalasúlu ehf.“
3. varakrafa: Að viðurkennt verði að stefnandi, ásamt stefnda Árna og stefnda Magnúsi, eigi forkaupsrétt að stefnda Aztiq frágengnu að 470.000 hlutum í stefnda Aztiq samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta stefnda Aztiq á verðinu ein króna á hlut vegna framsals umræddra hluta frá stefnda Vilhelm Róberti til stefnda Árna samkvæmt skjali sem ber titilinn „viðauki við framsalssamning um hlutabréf í Einkahlutafélaginu Dalasúlu ehf.“
Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu að skaðlausu að teknu tilliti til þess að stefnandi hefur ekki með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi.
Dómkröfur stefndu eru eftirfarandi:
Aðalkrafa. Að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi.
1. varakrafa. Að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.
2. varakrafa. Að stefndu verði sýknaðir að svo stöddu af öllum kröfum stefnanda.
Þá krefjast allir stefndu þess að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, þ.m.t. vegna kostnaðar af virðisaukaskattskyldri lögmannsþjónustu og verði þá tekið tillit til þess að stefndu Árni Harðarson, Vilhelm Róbert Wessman og Magnús Jaroslav Magnússon eru ekki virðisaukaskattskyldir.
Þegar mál þetta var tekið fyrst fyrir af undirrituðum dómara, 12. júní 2012, ákvað dómari, með vísan til 2. ml. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að ekki skyldi fara fram sérstakur flutningur um frávísunarkröfu stefnda heldur yrði fjallað um hana samhliða efnismeðferð málsins.
I
Stefnandi er hluthafi í stefnda Aztiq Pharma Partners ehf, hér eftir nefnt Aztiq. Hann kveðst hafa eignast 10.000 hluti af 500.000 útgefnum hlutum eða sem svarar til 2% eignarhlutar í félaginu sem þá hét Dalasúla ehf. með framsalssamningi, sem er dagsettur 31. mars 2009. Samningurinn ber yfirskriftina „FRAMSAL HLUTABRÉFA Í EINKAHLUTAFÉLAGINU DALASÚLU EHF.“ og verður hér eftir kallaður framsalssamningurinn.
Aðilar að framsalssamningnum eru annars vegar Lögvit ehf., sem framseljandi og hins vegar „sameiginlega nefndir framsalshafi“ stefnandi, stefndi Vilhelm Róbert, hér eftir nefndur stefndi Róbert eins og í greinargerð stefndu, stefndi Magnús og stefndi Árni. Samkvæmt 1. gr. lofar framseljandi að framselja framsalshafa 100% eignarhlut í einkahlutafélaginu Dalasúlu ehf. að nafnverði 500.000 krónur. Í 2. gr. samningsins segir að við framsalið skuldbindi framsalshafi sig til að yfirtaka skuld seljanda kr. 500.000 við félagið og að greiða hana inn til félagsins. Yfirtaka skuldarinnar sé eina endurgjaldið fyrir hluti í félaginu. Innbyrðis skipting milli framsalshafa eftir framsalið muni vera sem hér segir:
|
Vilhelm Róbert Wessman |
470.000 kr. |
94,00% |
|
Matthías H. Johannessen |
10.000 kr. |
2,00% |
|
Magnús Jaroslav Magnússon |
10.000 kr. |
2,00% |
|
Árni Harðarson |
10.000 kr. |
2,00% |
|
Samtals |
500.000 kr. |
100,00% |
Í 3. gr. samningsins er kveðið á um að afhending hlutanna skuli fara fram við undirritun samningsins. Framsalshafi greiði öll gjöld og hirði allan arð af hinum framseldu hlutum eftir að afhending eignarhlutanna hafi farið fram. Þá segir m.a. að öll réttindi skuli fylgja hlutunum frá afhendingu samkvæmt samningnum, s.s. réttur til arðs, jöfnunarhlutur, áskrift að nýjum hlutum og að útborgun vegna lækkunar skuli renna óskipt til framsalshafa. Undirritun framsalssamnings skuli jafngilda tilkynningu til stjórnar félagsins um eigendaskipti. Þá er í 4. gr. kveðið á um að efni samningsins skuli vera trúnaðarmál á milli aðila. Í ótölusettri grein undir lok samningsins undir yfirskriftinni „Yfirlýsing framseljanda“ segir að Lögvit ehf. lýsi því yfir að Vilhelm Róbert Wessman, Matthías H. Johannessen, Magnús Jaroslav Magnússon og Árni Harðarson séu löglegir og réttmætir eigendur að öllum eignarhlutum í félaginu og séu bærir til að fara með öll réttindi og skyldur í tengslum við hina framseldu eignarhluti. Undir þennan samning rituðu Vala Valtýsdóttir hdl. fyrir hönd framseljanda Lögvits ehf. og f.h. framsalshafa rituðu stefnandi og stefndu Róbert, Árni og Magnús. Vottar eru Guðrún I. Torfadóttir og Guðbjörg Þorsteinsdóttir.
Stefnandi segir að svo virðist sem stefndu Róbert og Árni hafi, eftir að ritað hafi verið undir þennan framsalssamning, útbúið sérstakan samning um framsal stefnda Róberts til stefnda Árna á 470.000 hlutunum sem hafi verið í eigu stefnda Róberts samkvæmt framsalsamningnum. Stefnandi er hér að vísa til yfirlýsingar sem liggur fyrir í málinu og er dagsett sama dag og fyrrgreindur samningur, þ.e. 31. mars 2009, og sem ber fyrrgreinda yfirskrift „Viðauki við framsalssamning um hlutabréf í Einkahlutafélaginu Dalasúla ehf. Yfirlýsingin er undirrituð af stefndu Róberti og Árna og enn fremur undir yfirskriftinni „Staðfesting framseljanda“ af Völu Valtýsdóttur. Vottar eru Kristín Þórðardóttur og stefndi Magnús.
Í þessari yfirlýsingu, sem hér eftir verður nefnd viðaukinn, er því lýst yfir að með framsali dagsettu í dag hafi Lögvit ehf. framselt 94% af hlutafé í einkahlutafélaginu Dalasúla ehf. til Vilhelms Róberts Wessman og 2% af hlutafé Dalasúlu ehf. til Árna Harðarsonar. Aðrir hlutir í félaginu hafi verið framseldir til Magnúsar Jaroslav Magnússonar og Matthíasar H. Johannessen. Framsalið hafi verið gert gegn því að framsalshafar greiddu inn skuld framseljanda á hlutafé til félagsins. Enginn framseljanda hafi greitt inn hlutafé samkvæmt framsalssamningnum og með viðauka þessum sé gerð sú breyting að Árni Harðarson kaupi þau 94% hlutafjár sem Vilhelm Róbert Wessman skráði sig fyrir. Vilhelm Róbert Wessman verði því ekki hluthafi í félaginu. Árni Harðarson muni því samkvæmt framsalssamningnum eignast 96% af hlutafé Dalasúlu ehf. gegn því að hann greiði til félagsins 480.000 af heildarhlutafé þess. Verði hluthafaskrá félagsins skráð í samræmi við það. Viðauki þessi skuli vera hluti af framangreindum framsalssamningi um alla hluti í einkahlutafélaginu Dalasúlu ehf.
Samkvæmt gögnum málsins sendi stefnandi þann 22. júní 2009 tölvupóst til Önnu Lilju Pálsdóttur sem starfaði hjá Salt Investments þar sem hann spurði hvort hún hafi verið búin að fá afrit af gögnunum fyrir Aztiq Pharma partners ehf. frá Deloitte. Hún svaraði sama dag „Hér eru öll skjölin sem tilheyra félaginu. Þetta er eins og við töluðum um.“ Á því eintaki framsalssamningsins sem fylgdi þessum tölvupósti er ekki undirritun stefnda Magnúsar en á ljósriti eintaksins af framsalssamningnum sem stefndu lögðu fram í fyrrgreindu vitnamáli er að finna undirritun stefnda Magnúsar.
Meðal gagnanna er tilkynning um stofnun einkahlutafélagsins Dalasúlu þar sem fram kemur að stofnandi er Lögvit ehf., hlutafé sé 500.000 krónur og það hafi verið greitt í peningum og formaður stjórnar sé Vala Valtýsdóttir. Samkvæmt stimpli á þessari tilkynningu var hún móttekin hjá RSK Fyrirtækjaskrá 4. mars 2009. Einnig stofnskrá þar sem fram kemur að hlutafé sé að fjárhæð 500.000 krónur og „Allt hlutafé er þegar greitt“. Enn fremur fylgir stofnfundargerð, dagsett 20. febrúar 2009, og samþykktir fyrir félagið.
Þá fylgdi skjal sem ber yfirskriftina „Fundargerð Dalasúla ehf.“ og er stimplað móttekið hjá Fyrirtækjaskrá 1. apríl 2009. Samkvæmt þessari fundargerð fór fram hluthafafundur 31. mars 2009 vegna breyttrar eignaraðildar að félaginu eins og þar segir. Í fundargerðinni segir að viðstaddir hafi verið allir hluthafar félagsins en þeir eru ekki nánar tilgreindir. Fram kemur m.a. að samþykkt hafi verið með öllum atkvæðum að félagið skyldi heita AZTIQ Pharma Partners ehf. og að félagið skyldi hafa þann tilgang að fara með eignarhald og rekstur lyfjafyrirtækja. Í stjórn félagsins voru kosnir stefndi Róbert, sem formaður stjórnar, en meðstjórnendur stefnandi og stefndi Árni. Undir þessa fundargerð rituðu, f.h. fráfarandi stjórnar, Vala Valtýsdóttir og Guðrún Inga Torfadóttir en f.h. nýkjörinnar stjórnar stefndi Vilhelm Róbert, stefnandi og stefndi Árni. Loks fylgdu þessum gögnum frá Önnu til stefnanda nýjar samþykktir fyrir Aztiq Pharma Partner ehf., undirritaðar af stefnanda og stefndu Róberti og Árna undir yfirskriftinni „Þannig samþykkt þann 31. mars 2009“.
Stefnandi heldur því fram að honum hafi verið ókunnugt um tilvist viðaukans þar til árið 2011 þegar hann hafi kynnt sér stöðu stefnda Aztiq hjá Lánstrausti. Þar hafi m.a. verið að finna ársreikning félagsins fyrir árið 2009, sem hafi reyndar aldrei verið kynntur stefnanda sem hluthafa. Hann hafi séð í ársreikningnum að til viðbótar upprunalega 2% hlutnum væri stefndi Árni orðinn eigandi þeirra 94% sem stefndi Róbert hafi upphaflega átt. Þar segir í skýrslu stjórnar að í lok ársins hafi verið þrír hluthafar í félaginu, Árni Harðarson með 96%, Magnús Jaroslav Magnússonar með 2% og Matthías Johannessen með 2%.
Stefnandi kveðst þegar hafa hafist handa við að gæta réttar síns vegna þessa framsals sem þarna hafi mátt greina að hefði átt sér stað á milli stefnda Árna og stefnda Róberts. Í því skyni höfðaði hann vitnamál fyrir héraðsdómi með beiðni, dagsettri 27. júní 2011, þar sem hann krafðist þess að kvaddir yrðu fyrir dóminn til að gefa skýrslu stefndu, Róbert, Árni og Magnús, og enn fremur Lúðvík Þráinsson, endurskoðandi stefnda Aztiq, Vala Valtýsdóttir og Anna Lilja Pálsdóttir.
Stefndu Árni og Róbert mótmæltu kröfu stefnanda um vitnaleiðslur fyrir dómi með greinargerð sem lögð var fram í héraðsdómi 15. ágúst 2011. Þeir héldu því fram að engin viðskipti hefðu átt sér stað milli stefndu Róberts og Árna. Það hefði stefnanda verið fullkunnugt um. Af þeirra hálfu var m.a. fyrrgreindur viðauki lagður fram. Þeir gerðu grein fyrir því að í upphaflegum framsalssamningi um hluti í stefnda Aztiq, útbúnum af Lögviti ehf. og dagsettum 31. mars 2009, hefði verið gert ráð fyrir að eignarhaldið yrði með þeim hætti að stefndi Róbert ætti 94% í félaginu, stefndi Árni 2%, stefnandi 2% og stefndi Magnús 2%. Hins vegar, áður en stofnandi félagsins, Lögvit ehf., hefði afhent hluti í félaginu, hefði verið fallið frá því að hafa eignarhald á félaginu með þessum hætti og gerður viðauki við framsalssamninginn, dagsettur sama dag, þar sem fram kæmi að stefndi Róbert myndi ekki verða hluthafi í félaginu og stefndi Árni keypt þau 94% í félaginu sem stefndi Róbert hefði skráð sig fyrir samkvæmt upphaflegum framsalssamningi. Inngreitt hlutafé til félagsins hefði síðan verið greitt til samræmis við framangreind eignarhlutföll en stefndi Róbert hafi hins vegar ekkert greitt til félagsins þar sem hann hafi aldrei verið hluthafi í félaginu. Ljóst væri að engin viðskipti hefðu átt sér stað með hluti í félaginu á milli stefndu Róberts og Árna sem kynnu að hafa áhrif á forkaupsrétt stefnanda til hluta í félaginu.
Á grundvelli þessara gagna kveðst stefnandi hafa lýst því yfir með bréfi, dagsettu 18. ágúst 2011, að hann hefði í hyggju að nýta sér forkaupsrétt samkvæmt 7. gr. samþykkta félagsins að þeim hlutum sem stefndi Róbert hefði framselt stefnda Árna.
Í bréfi stefnanda frá 18. ágúst segir m.a. að með hliðsjón af forsögu málsins og aðdraganda líti hann svo á að aðrir hluthafar félagsins hafi afsalað sér forkaupsrétti vegna viðskiptanna. Stefndu Róbert og Árni mótmæltu þessu með bréfi, dagsettu 30. ágúst 2011. Í fyrsta lagi á þeim grundvelli að engin viðskipti hefðu átt sér stað milli stefndu Róberts og Árna. Viðskipti um hlutina hefðu átt sér stað milli Lögvits ehf. og stefnda Árna sem hefði keypt og greitt fyrir hlutina í félaginu og tekið þannig yfir skuld Lögvits ehf. við félagið samkvæmt viðaukanum, sem dagsettur væri sama dag og framsalssamningurinn og teldist hluti hans. Í öðru lagi á þeim grundvelli að ef viðskipti teldust hafa átt sér stað hefði stefnandi fallið frá forkaupsrétti vegna tómlætis og þriðja lagi að ef stefnandi teldist ekki hafa fallið frá forkaupsrétti gæti hann ekki neytt hans m.a. vegna forkaupsréttar félagsins sjálfs.
Stefnandi svaraði með bréfi með bréfi, dagsettu 16. sept. 2011, og tilkynnti að hann teldi ljóst að framsal hlutanna hefði átt sér stað milli stefndu Róberts og Árna. Því færi fjarri að stefnandi hefði sýnt af sér tómlæti enda hefði honum verið ókunnugt um framsalið, aldrei verið tilkynnt um það, og því ekki fengið tilefni til að tjá sig um hvort hann hygðist neyta forkaupsréttar. Stefnandi teldi að þar sem framsal hlutanna hefði átt sér stað á milli manna, sem teldust ályktunarbær meirihluti stjórnarmanna félagsins, með skjali sem væri vottað af þriðja stjórnarmanninum væri tæpast unnt að líta svo á að aðrir gætu gert tilkall til forkaupsréttar samkvæmt samþykktum félagsins eins og málum væri háttað. Með hliðsjón af því gæti stefnandi vænst þess að ganga einn inn í kaupin. Með bréfinu frá 18. ágúst s.á. vísaði stefnandi til fortakslausrar ákvörðunar sinnar um að ganga inn í kaupin og bauð fram greiðslu fyrir hlutina. Í því skyni lagði hann 470.000 krónur inn á fjárvörslureikning lögmanns síns. Í stefnu segir að þar hafi þessir fjármunir staðið síðan þá, stefnda Árna til reiðu.
Á grundvelli úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 4. nóvember 2011, fóru fram vitnaleiðslur fyrir dómi 24. nóvember 2011. Þar voru teknar skýrslur af stefnda Magnúsi og vitnunum Völu Valtýsdóttur og Önnu Lilju Pálsdóttur í því skyni að leita sönnunar um atvik sem tengdust viðskiptum með 470.000 hluti stefnda Aztiq. Með þeim úrskurði var hafnað kröfu stefnanda að stefndu Árni og Róbert yrðu kvaddir fyrir dóm til að gefa skýrslu. Vikið verður að framburði stefnda Magnúsar og vitnanna tveggja í niðurstöðukafla dómsins en við meðferð máls þessa voru hvorki aðilar né vitni leidd til skýrslugjafar fyrir dóminum.
II
Kröfur stefnanda eru byggðar á því að með framsalssamningnum frá 31. mars 2009 hafi stefndi Róbert eignast 470.000 hluti eða 94% í stefnda Aztiq. Seljandi hlutafjárins hafi verið Lögvit ehf. Stefnandi vísar til 3. gr. framsalssamningsins þar sem segi að afhending hlutanna teljist fara fram við undirritun samnings þessa. Jafnframt segi að öll réttindi skuli fylgja hlutunum frá afhendingunni. Í ótölusettri grein undir lok samningsins komi svo fram í sérstakri yfirlýsingu seljanda að stefnandi og stefndu Róbert, Árni og Magnús séu löglegir eigendur að öllum eignarhlutum í stefnda Aztiq og bærir til að fara með öll réttindi og skyldur í tengslum við hina framseldu eignarhluti.
Stefnandi telur fyrirliggjandi gögn taka af tvímæli um það að hann eigi forkaupsrétt samkvæmt 7. gr. samþykkta stefnda Aztiq vegna framsals stefnda Róberts á þeim 470.000 hlutum, sem hafi verið í hans eigu samkvæmt framsalssamningnum, til stefnda Árna. Fyrir gerð viðaukans hafði stefndi Róbert verið lýstur eigandi umræddra hluta og því felist óhjákvæmilega í viðaukanum framsal á hlutunum frá stefnda Róberti til stefnda Árna. Breytingarnar á eignarhaldi stefnda Róberts hefðu því kallað á annað hvort samþykki allra sem áttu aðild að upprunalega framsalssamningnum eða að fylgt væri ákvæðum 7. gr. samþykkta félagsins um forkaupsrétt og eigendaskipti að hlutunum.
Stefnandi hafi ekki samþykkt neinar breytingar á framsalssamningnum og kannist ekki við að hafa fengið vitneskju um gerð hans fyrr hann hafi verið lagður fram í tengslum við rekstur vitnamálsins. Af því leiði að stefnda Róberti og stefnda Árna hafi verið skylt að fylgja ákvæðum 2. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins um forkaupsrétt annarra hluthafa vegna framsalsins sem óhjákvæmilega fólst í viðaukanum.
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta stefnda Aztiq hafi stjórn félagsins forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafi hluthafi forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Af þessum ákvæðum leiði að kjósi einstakir hluthafar að nýta ekki forkaupsrétt sinn njóti aðrir hluthafar aukins réttar en beri jafnframt auknar skyldur, því þeir geti ekki gengið inn í kaupin að hluta. Þessu til frekari stuðnings má vísa til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 138/2004 um einkahlutafélög.
Enda þótt samningurinn sé dagsettur 31. mars 2009 telur stefnandi óvíst hvenær viðaukinn hafi verið undirritaður. Fullyrða megi þó að hann sé undirritaður eftir að upphaflegi framsalssamningurinn hafi verið gerður. Um það séu að vísu misvísandi frásagnir en framburður vitna bendi til þess að viðaukinn hafi ekki verið gerður fyrr en í júlí 2009. Þá liggi jafnframt fyrir skjöl sem bendi til að hann hafi jafnvel verið gerður enn síðar. Hvenær sem viðaukinn hafi verið undirritaður segir stefnandi í öllu falli ljóst að honum hafi verið ókunnugt um tilvist hans. Stefnanda hafi reyndar verið kunnugt um að bollaleggingar væru uppi um að stefndi Róbert kynni að framselja hluti sína í félaginu. Stefnanda hafi hins vegar verið með öllu ókunnugt um að þær bollaleggingar hefðu nokkru sinni komist á framkvæmdarstig.
Aðalkrafa stefnanda er byggð á eftirfarandi sjónarmiðum:
Í fyrsta lagi hafi meirihluti stjórnar stefnda Aztiq, stefndi Róbert og stefndi Árni, átt beina aðild að gerð viðaukans. Af því leiði að líta verði svo á að félaginu hafi verið kunnugt um framsalið og kosið að neyta ekki forkaupsréttar síns vegna þess. Í öðru lagi hafi öðrum hluthöfum, að undanskildum stefnanda, verið kunnugt um gerð viðaukans. Þannig hafi hluthafarnir, stefndu Róbert og stefndi Árni, átt beina aðild að gerð viðaukans. Þá hafi hluthafanum, stefnda Magnúsi, einnig verið kunnugt um viðaukann enda sé hann annar votta að gerð hans. Þrátt fyrir þetta hafi enginn þessara aðila kosið að nýta forkaupsrétt að þeim hlutum sem voru framseldir. Af þessu leiði að stefnandi eigi rétt til þess samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins að neyta forkaupsréttar að öllum hinum framseldu hlutum, 470.000 talsins, á því verði sem miðað hafi verið við í viðskiptunum eða 470.000 krónur í heild sinni. Stefnandi hafi nýtt þennan rétt sinn með bréfum, dagsettum 18. ágúst 2011 og 16. september 2011. Þá hafi stefnandi boðið fram greiðslu til Árna vegna þessa en líta verði svo á að Árni hafi þegar greitt Róberti kaupverðið samkvæmt viðaukanum. Framboðin greiðsla standi stefnda Árna til reiðu á fjárvörslureikningi lögmanns stefnanda.
1. varakrafa stefnanda er byggð á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa hans að því undanskildu að hér byggir stefnandi á því að Árni teljist hafa nýtt sér forkaupsrétt sinn með aðild sinni að viðaukanum og greiðslu kaupverðsins. Stefnandi tekur fram að stefnandi telji ekki ástæðu til að orða varakröfu vegna þess möguleika að stefndi Magnús teljist enn njóta forkaupsréttar. Það sé vegna þess að stefndi Magnús hafi ekki ráðist í neinar aðgerðir þrátt fyrir vitneskju um gerð viðaukans til að nýta sér forkaupsrétt sinn og engar greiðslur boðið vegna þess.
2. varakrafa stefnanda er byggð á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa og 1. varakrafa að því undanskildu að 2. varakrafa miðast við að bjóða verði forkaupsrétt til stefnanda og stefndu Árna og Magnúsar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins. Ekki sé unnt að gera beina kröfu um eignarrétt ákveðins fjölda hluta kjósi dómurinn að líta málið þessum augum vegna óvissu sem væri um afstöðu stefnda Árna og stefnda Magnúsar til nýtingar forkaupsréttarins ef þeir teldust ekki þegar hafa tekið afstöðu til hans eins og aðalkrafan og 1. varakrafan miðist við. Önnur varakrafa sé því orðuð sem viðurkenningarkrafa.
3. varakrafa stefnanda er byggð á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa, 1. varakrafa og 2. varakrafa, að því undanskildu að þessi krafa miðast við að bjóða verði forkaupsrétt til félagsins og að því frágengnu til stefnanda og stefndu Árna og Magnúsar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins. Ekki sé unnt að gera beina kröfu um eignarrétt ákveðins fjölda hluta kjósi dómurinn að líta málið þessum augum vegna óvissu sem væri um afstöðu félagsins ef það teldist ekki þegar hafa tekið afstöðu til hans. Þessi 3. varakrafa sé því orðuð sem viðurkenningarkrafa.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög auk meginreglna samninga- og kröfuréttar. Krafa hans um málskostnað er reist á XXI. kafla laganna, einkum 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Stefndu segja að sú forsenda dómkrafna stefnanda, að stefndi Róbert hafi framselt stefnda Árna 470.000 hluti í stefnda Aztiq, fái ekki staðist. Líkt og gögn málsins beri með sér hafa engin viðskipti átt sér stað á milli stefnda Árna og stefnda Róberts með hluti í Aztiq og því beri að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda.
Stefndu halda því fram að atvik málsins megi rekja til þess að í mars 2009 hafi stefndi Árni óskað eftir því við Lögvit ehf., dótturfélag endurskoðendafyrirtækisins Deloitte, að framselt yrði félag til starfsmanna Salt Investments ehf. Starfsmenn Lögvits ehf. hafi útbúið fyrrgreindan framsalssamning um hluti í Dalasúlu ehf. (nú stefndi Aztiq), dags. 31. mars 2009. Gert hafi verið ráð fyrir að eignarhlutföll væru þau sömu og hjá Salt Investments ehf., þ.e. að stefndi Róbert ætti 94% hlut, stefnandi 2% hlut, stefndi Magnús 2% hlut og stefndi Árni 2% hlut. Þar sem þessi tilgreining á hluthöfum og eignarhlutföllum hafi ekki verið rétt hafi stefndi Árni þegar gert athugasemd við 2. gr. framsalssamningsins. Í framhaldinu hafi verið útbúinn viðauki, dagsettur 31. mars 2009, þar sem gerð hafi verið sú breyting á framsalssamningnum að stefndi Árni kaupi þá 470.000 hluti (94% hlutafjár) sem gert hafði verið ráð fyrir að stefndi Róbert keypti samkvæmt framsalssamningnum. Jafnframt komi fram í viðaukanum að stefndi Róbert verði ekki hluthafi í félaginu og að stefndi Árni muni samkvæmt framsalssamningnum eignast 96% af hlutafé Dalasúlu ehf. gegn því að hann greiði til félagsins 480.000 krónur af heildarhlutafé félagsins, sem og að hlutaskrá félagsins verði skráð í samræmi við það.
Stefndu halda því fram að af vitnaskýrslum og öðrum gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að framsalssamningurinn og viðauki við hann hafi verið undirritaðir þann 31. mars 2009. Stefnandi beri í öllu falli sönnunarbyrði fyrir því að þeir hafi verið undirritaðir annan dag en samningarnir bera með sér. Sú staðhæfing stefnanda að fullyrða megi að viðaukinn sé „undirritaður eftir að upphaflegi framsalssamningurinn var gerður“ sé með öllu ósönnuð. Einnig sé rangt sem fram komi í stefnu að framburður vitna bendi til þess að það hafi ekki verið fyrr en í júlí 2009 sem viðaukinn hafi verið gerður. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem staðreyni að framsalssamningurinn og viðaukinn hafi ekki verið gerðir sama dag, þrátt fyrir að hafa lagt fram fjölda skjala sem hann komst yfir með því að taka með ólögmætum hætti afrit af öllum tölvupósti sem tilheyrði fyrrum vinnuveitanda hans, Salt Investments ehf., við starfslok sín þann 1. mars 2010.
Stefndu segja að staðreyndin sé sú að stefndi Róbert og stefndi Árni hafi samtímis ritað undir framsalssamninginn og viðauka við hann. Því sé ljóst að engin viðskipti eða framsal átti sér stað á milli þeirra, heldur hafi stefndi Árni, með samningnum, öðlast réttindi og og tekið á sig skyldur gagnvart framseljanda, Lögviti ehf., en ekki stefndi Róbert. Í framangreindu hafi falist að stefndi Árni hafi eignast 96% af hlutafé Aztiq gegn því að hann greiddi 480.000 krónur af heildarhlutafé félagsins. Stefndi Róbert hafi heldur aldrei orðið hluthafi í félaginu og aldrei verið skráður sem eigandi í hlutaskrá félagsins, heldur eingöngu stefndi Árni, með 96% hlut, ásamt stefnda Magnúsi og stefnanda, sem skráðir eru fyrir 2% hlut hvor og allir fengu þeir hluti sína framselda frá Lögviti ehf. Eðli máls samkvæmt hafi stefndi Róbert því ekki framselt til stefnda Árna neina hluti í félaginu. Þetta komi m.a. fram í tölvupósti hans 24. júlí 2009 til Önnu Lilju Pálsdóttur, fyrrum starfsmanns Salt Investments ehf., þar sem skýrt kemur fram að hann „fjárfesti ekki í Aztiq ...“.
Fyrir liggi að stefndi Róbert hafi aldrei greitt fyrir hluti í félaginu heldur hafi stefndi Árni greitt fyrir hlut sinn í stefnda Aztiq beint til félagsins 7. september 2009, 480.000 krónur, og stefnandi og stefndi Magnús hvor um sig 10.000 krónur, stefnandi 23. júlí 2009 og stefndi Magnúsar 13. ágúst 2009.
Í stefnu sé vísað til 3. greinar framsalssamningsins þar sem segi að afhending hinna framseldu hluta skuli fara fram þegar við undirritun framsalssamningsins og ótölusetts ákvæðis hans með yfirlýsingu framseljanda. Tilgreind ákvæði verði hins vegar að skýra með hliðsjón af efni viðaukans, sem undirritaður hafi verið samhliða framsalssamningnum og teljist því hluti hans. Þar komi skilmerkilega fram að stefndi Árni kaupi þá hluti sem starfsmenn Lögvits ehf. höfðu við gerð framsalssamningsins gert ráð fyrir að stefndi Róbert skráði sig fyrir. Stefndi Róbert hafi því aldrei fengið framselda hluti í stefnda Aztiq og þeir aldrei verið færðir á hans nafn í hlutaskrá félagsins. Í því tilliti skipti engu þótt stefnandi hafi ekki undirritað viðaukann þar sem undirritun viðaukans hafi lotið að viðskiptum á milli stefnda Árna og Lögvits ehf., en ekki innbyrðis viðskiptum hluthafa stefnda Aztiq, auk þess sem stefnanda hafi verið fullkunnugt um þá staðreynd að stefndi Árni skyldi vera eigandi samtals 96% hluta í Aztiq.
Þá vísa stefndu til framlagðrar hlutaskrár félagsins, sem er dagsett 1. október 2011 og undirrituð af stjórn stefnda Aztiq, stefndu Róberti, Árna og Magnúsi, sem tilgreini eingöngu sem hluthafa frá 31. mars 2009 stefnda Árna, sem skráður sé fyrir 96% eignarhlut, stefnanda fyrir 2% eignarhlut og stefnda Magnús fyrir 2% eignarhlut.
Stefndu halda því enn fremur fram að sú staðhæfing stefnanda að honum hafi verið ókunnugt um tilvist viðaukans eða þá staðreynd að stefndi Árni keypti beint af Lögviti ehf. 96% eignarhlut í Aztiq sé alröng og í hróplegu ósamræmi við gögn málsins. Í því samhengi er bent á að stefnandi hafi sem stjórnarmaður í stefnda Aztiq frá 31. mars 2009 til 2. mars 2010 mátt vera kunnugt um eignarhald í félaginu. Auk þess sem gögn málsins beri það glögglega með sér að stefnandi hafði eigi síðar en 31. ágúst 2009 fengið skýra vitneskju um kaup og greiðslu stefnda Árna fyrir 96% hlut sinn til félagsins. Það komi fram í endurriti vegna skýrslutöku yfir stefnda Magnúsi fyrir dómi 24. nóvember 2011. Auk þess komi það skýrlega fram í tölvupósti sem stefnandi hafi fengið sendan frá Önnu Lilju Pálsdóttur þann 31. ágúst 2009. Þar sé stefndi Árni beðinn um að ganga frá greiðslu 480.000 króna fyrir 96% eignarhlut hans til stefnda Aztiq, en stefnandi spyrji í tölvupósti til stefnda Árna, sem hann sendi í framhaldinu, hvort hann eigi að sjá um greiðsluna. Það fari því ekki á milli mála að stefnanda hafi um langt skeið verið fullkunnugt um kaup stefnda Árna á samtals 96% hlut í stefnda Aztiq. Réttur stefnanda til að krefjast nýtingar forkaupsréttar samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins sé því hvað sem öðru líði löngu liðinn. Þar sem stefnandi geri ekki kröfu um nýtingu forkaupsréttar fyrr en með bréfi, dagsettu 18. ágúst 2011, eða u.þ.b. tveimur árum eftir að honum var í síðasta lagi kunnugt um að stefndi Árni væri eigandi samtals 96% hlutar í stefnda Aztiq, hafi stefnandi í öllu falli afsalað sér meintum forkaupsrétti sínum.
Nú verður gerð grein fyrir umfjöllun stefndu í greinargerð um einstaka liði í kröfugerð stefnanda. Stefndu krefjast þess aðallega að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Frávísunarkrafan er á því byggð, að stjórn stefnda Aztiq eigi í öllu falli forkaupsrétt að hlutum í félaginu fyrir þess hönd og að því frágengnu hafi hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína, sbr. 7. gr. samþykkta félagsins. Stjórn Aztiq hafi ekki verið boðinn forkaupsréttur að hlutum í félaginu og ekki geti reynt á forkaupsrétt stefnanda fyrr en að honum frágengnum. Mótmælt er þeirri staðhæfingu í stefnu að líta verði svo á að félaginu hafi verið kunnugt um framsalið og kosið að neyta ekki forkaupsréttar síns. Félagið, hluthafar þess og stjórnarmenn hafa þvert á móti litið svo á engin eigendaskipti hafi átt sér stað á milli stefnda Árna og stefnda Róberts í skilningi 7. gr. samþykkta félagsins, við það að stefndi Árni keypti samtals 480.000 hluti í félaginu af Lögviti ehf. og greiddi fyrir til félagsins, til samræmis við ákvæði framsalssamningsins og viðauka við hann. Jafnframt sé rangt sem fram komi í stefnu þar sem segir „líta verður svo á að stefndi Árni hafi þegar greitt stefnda Róberti kaupverðið samkvæmt viðaukanum“. Það liggi fyrir í málinu að stefndi Árni hafi greitt fyrir hluti sína í stefnda Aztiq beint til félagsins, sbr. framlagða staðfestingu á greiðslu stefnda Árna á 480.000 krónum til félagsins, en ekki til stefnda Róberts. Ef fallist yrði á aðalkröfu stefnanda yrðu aðstæður með þeim hætti að ekki hefði enn verið greitt áskilið lágmarkshlutafé samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.
Þá hafi stefnanda einnig verið fullkunnugt um kaup stefnda Árna á umræddum hlutum og greiðslu fyrir þá til félagsins, líkt og berlega komi fram í tölvupósti frá stefnanda, dags. 31. ágúst 2009.
Þar sem félagið hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að ekkert framsal hefði átt sér stað á milli stefnda Árna og stefnda Róberts og að öllum hluthöfum væri jafnframt kunnugt um kaup Árna á samtals 96% hlut af Lögviti ehf. verði ekki með nokkru móti fallist á að félagið hafi kosið að neyta ekki forkaupsréttar síns vegna meintra eigendaskipta með hluti í félaginu.
Það sama eigi við um stefnda Magnús. Því er sérstaklega mótmælt að ekki skuli í aðalkröfu stefnanda tekið tillit til þess að stefndi Magnús skuli njóta forkaupsréttar, fyrir þær sakir að hafa vottað viðaukann. Með undirritun á framsalssamninginn og samhliða vottun viðaukans, að beiðni stefnanda, hafi stefndi Magnús þvert á móti haft réttmæta ástæðu til að ætla að ekki væru skilyrði til nýtingar forkaupsréttar, þar sem framsalssamningurinn og viðaukinn við hann bera það með sér að ekki sé um framsal að ræða á milli stefnda Árna og stefnda Róberts.
Þar sem réttur stefnanda til að krefjast þess að vera löglegur eigandi 470.000 hluta í stefnda Aztiq geti ekki orðið til fyrr en reynt sé hvort félagið eða að því frágengnu aðrir hluthafar kjósa að neyta forkaupsréttar fyrir sitt leyti verði að vísa aðalkröfu stefnanda frá dómi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um frávísun er af hálfu allra stefndu krafist sýknu af aðalkröfu stefnanda með vísan til þeirra málsástæðna sem fram koma hér að framan.
Sýknukrafa stefndu byggist jafnframt á því að stefnandi geti ekki talist löglegur eigandi hluta sem hann hafi aldrei fest kaup á og skipti engu máli þótt hann hafi lagt tilgreinda fjárhæð, með afturkræfum hætti, inn á vörslureikning hjá lögmanni sínum. Stefnandi geti því heldur ekki með nokkru móti talist löglegur eigandi að öllum þeim hlutum sem stefndi Árni keypti af Lögviti ehf.
Með vísan til framangreinds beri að sýkna stefndu af aðalkröfu stefnanda, en jafnframt er gerð krafa um sýknu að svo stöddu, með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, þar til stjórn Aztiq hefur tekið afstöðu til forkaupsréttar, verði ekki fallist á aðalkröfu (um frávísun) eða 1. varakröfu stefndu (um sýknu).
1. varakröfu stefnanda er mótmælt með vísan til sömu sjónarmiða og fram koma hér að framan, þar sem ekki séu skilyrði til að fallast á kröfu um að viðurkennt verði að stefnandi sé löglegur eigandi 235.000 hluta í Aztiq. Því séu gerðar sömu kröfur af hálfu allra stefndu gagnvart 1. varakröfu stefnanda og gerðar séu gagnvart aðalkröfu stefnanda. Því er sérstaklega mótmælt að líta megi svo á að stefndi Árni teljist hafa nýtt sér forkaupsrétt sinn með undirritun viðaukans, þar sem staðreyndin sé sú að stefndi Árni hafi greitt 480.000 krónur beint til stefnda Aztiq og eignast með því 96% hlut í félaginu, líkt og stefnanda sé fullkunnugt um. Sú staðhæfing að hann hafi „nýtt sér forkaupsrétt sinn með aðild sinni að viðaukanum og greiðslu kaupverðsins“ sé því algerlega úr lausi lofti gripin.
2. varakröfu stefnanda er einnig mótmælt með vísan til sömu sjónarmiða og fram koma hér að framan. Þar sem réttur stefnanda til að krefjast þess, ásamt stefnda Árna og stefnda Magnúsi, að stefnandi eigi forkaupsrétt að 470.000 hlutum í Aztiq, geti ekki orðið til fyrr en reynt sé hvort félagið og að því frágengnu aðrir hluthafar kjósi að neyta forkaupsréttar fyrir sitt leyti, verði að vísa 2. varakröfu stefnanda frá dómi, með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Verði fallist á 2. varakröfu stefnanda muni það einnig leiða til þeirra mótsagnarkenndu niðurstöðu að stefnandi eigi, án þess að stefnda Aztiq og öðrum hluthöfum félagsins hafi verið gefinn kostur á að nýta forkaupsrétt sinn, rétt til að kaupa hluti af stefnda Róberti, sem aldrei hafi átt eða greitt fyrir hluti í stefnda Aztiq.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um frávísun 2. varakröfu stefnanda er af hálfu allra stefndu krafist sýknu af aðalkröfu stefnanda með vísan til þeirra málsástæðna sem fram koma hér að framan.
Til vara er jafnframt gerð krafa um sýknu að svo stöddu, með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar til stjórn stefnda Aztiq hafi tekið afstöðu til forkaupsréttar, verði ekki fallist á aðalkröfu eða 1. varakröfu stefnanda.
Kröfugerð stefndu gegn 3. varakröfu stefnanda byggist á sömu málsástæðum og sjónarmiðum og fram koma hér að framan. Stefndu árétta að afstaða stjórnar stefnda Aztiq til meints forkaupsréttar stefnanda liggi ekki fyrir, sbr. 7. gr. samþykkta félagsins. Réttur stefnanda til að krefjast þess, ásamt stefnda Árna og stefnda Magnúsi, að stefnandi eigi forkaupsrétt að 470.000 hlutum í stefnda, geti því ekki orðið til fyrr en reynt er hvort félagið eða, að því frágengnu, aðrir hluthafar, kjósa að neyta forkaupsréttar fyrir sitt leyti. Því verði að vísa 3. varakröfu stefnanda frá dómi með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þar sem ekki liggi fyrir hvort félagið muni nýta sér að fullu forkaupsrétt til allra þeirra 470.000 hluta sem haldið sé fram af hálfu stefnanda að hafi verið framseldir frá stefnda Róberti til stefnda Árna, gildi einu þótt krafist sé viðurkenningar á forkaupsrétti að stefnda Aztiq frágengnu, þar sem félagið kunni að nýta sér forkaupsrétt sinn til allra umræddra hluta. Helgist það af því að ef stefndi Aztiq ákveður að nýta forkaupsrétt sinn til allra hluta í félaginu, samkvæmt 7. gr. samþykkta félagsins, hafi stefnandi ekki hagsmuni af því að fá dóm fyrir 3. varakröfu sinni.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um frávísun 3. varakröfu stefnanda er af hálfu allra stefndu krafist sýknu af aðalkröfu stefnanda með vísan til þeirra málsástæðna sem fram koma hér að framan.
Til vara er jafnframt gerð krafa um sýknu að svo stöddu, með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar til stjórn stefnda Aztiq hafi tekið afstöðu til forkaupsréttar, verði ekki fallist á aðalkröfu eða 1. varakröfu stefndu.
Loks er af hálfu stefndu Róberts, Magnúsar og Aztiq krafist sýknu vegna aðildarskorts. Krafan byggir á því að stefndi Róbert sé ekki hluthafi í stefnda Aztiq og hafi aldrei verið. Hann hafi því enga hagsmuni af úrlausn málsins enda geti hann enga hagsmuni látið af hendi. Hann verði því ekki dæmdur til að þola umkrafinn rétt stefnanda. Í raun séu engar kröfur gerðar á hendur stefnda Róberti í málinu. Hann eigi því augljóslega ekki samaðild með öðrum stefndu og enga aðild að málinu. Þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi Magnús sé eigandi 2% hlutar í Aztiq og ekki sé gerð krafa um eignarrétt að hlutum hans í félaginu. Hann eigi því ekki heldur samaðild með stefnda Árna, vegna aðalkröfu og 1. varakröfu stefnanda, þar sem stefnda Árna sé stefnt til að þola meintan eignarrétt stefnanda til hluta hans í Aztiq.
Önnur og þriðja varakrafa stefnanda lúti hins vegar að því m.a. að viðurkennt verði með dómi að stefndi Magnús eigi forkaupsrétt að hlutum í stefnda án þess þó að í raun séu gerðar kröfur á hendur honum þar sem ekki sé gerð krafa um viðurkenningu forkaupsréttar til hluta hans í félaginu. Þar sem úrslit málsins geti hins vegar skipt stefnda Magnús máli að lögum hefði stefnandi með réttu átt að stefna honum til réttargæslu og skora á hann að veita sér styrk í málinu eða gæta þar annars réttar síns, sbr. 21. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem stefnu sé hins vegar ranglega og að ósekju beint að stefnda Magnúsi, án þess að hann sé krafinn um að láta hagsmuni af hendi eða þola umkrafinn rétt stefnanda, verði að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sömu sjónarmið eigi við um stefnda Aztiq þar sem engar kröfur séu gerðar á hendur félaginu. Því beri jafnframt að sýkna hið stefnda félag af öllum kröfum stefnanda samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndu byggja kröfur sínar og málsástæður m.a. á lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög, ásamt almennum reglum samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. almennum reglum um tómlætisáhrif. Þá byggja stefndu kröfur sínar jafnframt á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 1. mgr. 26. gr. vegna frávísunarkröfu, 2. mgr. 16. gr. vegna sýknukröfu stefndu Róberts, Magnúsar og Aztiq á grundvelli aðildarskorts og 2. mgr. 26. gr. vegna kröfu um sýknu að svo stöddu.
Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er sérstaklega mótmælt kröfu stefnanda um málskostnað á hendur stefndu sameiginlega (in solidum) með vísan til framangreindra málsástæðna þar sem ekki séu skilyrði til dómkrafna á hendur stefndu Róberti, Magnúsi og Aztiq og þar með samaðild allra stefndu.
IV
Í máli þessu er aðallega deilt um það hvort forkaupsréttur að hlutum í stefnda Aztiq hafi orðið virkur með gerð hins svonefnda viðauka við framsalssamninginn, sem er dagsettur 31. mars 2009. Kröfur stefnanda eru byggðar á því að fyrir gerð viðaukans, þ.e. með framsalssamningnum hafi stefndi Róbert verið lýstur eigandi umræddra hluta. Í viðaukanum felist síðara tíma framsal á hlutum stefnda Róberts til stefnda Árna þrátt fyrir að hann sé dagsettur sama dag og framsalið. Krafa stefnanda er byggð á 7. gr. samþykkta stefnda Aztiq sem hljóðar svo:
Eigendaskipti að hlutum í félaginu öðlast ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hefur verið tilkynnt um það skriflega eða þau hafa verið færð í gerðabók einkahlutafélags eins aðila.
Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hefur hluthafi forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Verði ágreiningur um verð hluta, skal það ákveðið með mati tveggja óvilhallra manna sem dómkvaddir skulu til þess starfa. Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá megi eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt.
Eigendaskipti vegna erfða eða búskipta lúta ekki framangreindum forkaupsréttarreglum.
Stefndu halda því á hinn bóginn fram að engin viðskipti með hluti í stefnda Aztiq hafi átt sér stað á milli stefndu Árna og Róberts. Þeir hafi samtímis ritað undir framsalssamninginn og viðauka við hann. Ekkert framsal hafi átt sér stað á milli þeirra heldur hafi stefndi Árni með samningnum fengið réttindi og tekið á sig skyldur gagnvart framseljanda Lögviti ehf. en ekki stefndi Róbert. Hann hafi aldrei orðið hluthafi í félaginu enda aldrei greitt fyrir hluti í því, heldur stefndi Árni sem hafi greitt 480.000 krónur beint til félagsins þann 7. september 2009, sbr. framlagða staðfestingu frá banka.
Einnig liggja fyrir staðfestingar frá bönkum um að stefnandi greiddi 10.000 krónur inn á reiknings stefnda 23. júlí 2009 og stefndi Magnús 10.000 krónur 13. ágúst s.á. Anna Lilja Pálsdóttir, sem annaðist skjalaumsýslu fyrir stefnda Aztiq, sendi stefnanda og stefndu Árna, Róberti og Magnúsi skeyti 23. júlí 2009, ásamt upplýsingum um bankareiknings félagsins, þar sem m.a. segir: „Sælir félagar, Smá reminder. Það þarf að ganga frá innborgun á hlutafé og kostnað við stofnun félagsins samtals kr. 788.840 í þessum hlutföllum:
RW = 741.509
ÁH = 15.777
MHJ = 15.777
MJM = 15.777 ...“
Stefndi Árni svaraði sömu aðilum sama dag með skeyti er hljóðar svo: „borgar ekki félagið stofnkostnað af 500 þús kallinum?“ Stefnandi svaraði þá stefnda Árna og Önnu Lilju: „Þú segir til Árni en við hugsuðum þetta þannig að halda inni „hreinu“ hlutafé upp á 500þ. Ef þú vilt breyta því þá sendir Anna nýjan póst.“ Stefndi Árni svaraði þeim: „Það er hreint hlutafé uppá 500. Innborgaða hlutaféð er yfirleitt alltaf notað til að greiða stofnkostnaðinn þannig að ég tel rétt að greiða hlutaféð inn og nota það svo í tilfallandi kostnað. Eigið fé verður eitthvað minna í staðinn en það skiptir í raun ekki máli.“ Þá liggur fyrir að á eftir þessum skeytum sendi Anna Lilja sama dag nýjan tölvupóst til stefnanda, stefndu Árna, Róberts og Magnúsar sem hljóðar svo : „Leiðrétting: Einungis þarf að greiða hlutafé í félagið kr. 500.000 í þessum hlutföllum:
RW = 470.000
ÁH = 10.000
MHJ = 10.000
MJM = 10.000“
Þessu skeyti svaraði stefndi Róbert 24. júlí 2009 (í greinargerð stefndu sagt frá 13. ágúst 2009) til Önnu og stefnda Árna: „Sæl Anna MJM líklega ekki fjárfesta beint í Aztiq. Ég fjárfesti ekki í Aztiq, heldur skiptast hlutföllin á milli Árna og Matta. Heyrðu í Árna með hvernig þetta skiptist.“ Með skeyti þann 31. ágúst 2009 sendi Anna Lilja stefnda Árna og stefnanda skeyti þar sem segir: „Árni, það er orðið svolítið aðkallandi að klára greiðslu á stofnkostnaði. ... Ath. Matti og Jaró hafa greitt inn sinn hluta af stofnhlutafé, þ.e. 10.000 kr. hvor. Vantar greiðslu á restinni þ.e. 480.000 kr.“ Stefnandi sendi þá stefnda Árna skeyti sama dag og spurði: „viltu að ég sjái um þetta?“
Með viðaukanum, sem er dagsettur 31. mars 2009, lýstu stefndu Árni og Róbert því yfir að með framsali dagsettu í dag hafi Lögvit ehf. framselt 94% hlutafjár í Dalasúlu ehf. til stefnda Róberts. Framsalið hafi verið gert gegn því að framsalshafar greiddu skuld framseljanda á hlutafé til félagsins. Þá segir einnig að enginn framseljanda hafi greitt inn hlutafé samkvæmt framsalssamningnum og með viðauka þessum sé gerð sú breyting að stefndi Árni kaupi þau 94% hlutafjár sem stefndi Róbert „skráði sig fyrir“ og hann verði því ekki hluthafi í félaginu. Vala Valtýsdóttir undirritaði viðaukann undir yfirskriftinni „Staðfesting framseljanda“.
Undir rekstri fyrrgreinds vitnamáls þann 24. nóvember 2011 gaf stefndi Magnús skýrslu fyrir dóminum. Spurður um samband sitt við stefndu Árna og Róbert kvaðst hann vinna með þeim. Hann og stefndi Róbert væru góðir vinir. Hann sagði að ákveðið hefði verið að stofna stefnda Aztiq og kaupa fyrirtækið af Deloitte eða Lögviti. Honum hefðu verið boðin 2% í félaginu og þegið það. Hann hefði skrifað undir framsalssamninginn 31. mars 2009. Hann svaraði því játandi að viðaukinn hefði verið gerður samtímis og að hann vissi ekki betur en hann hefði verið gerður 31. mars Spurður um ástæðu þess að þetta hefði verið gert í tveimur skjölum bar stefndi Magnús að honum dytti í hug að það hefði verið þannig að Salt Investment hefði verið með sama strúktúr, en það hefði kannski verið misskilningurinn. Það væri þó alveg klárt að stefnandi hefði komið og sagt honum frá því, að Róbert myndi falla frá þessu og Árni tæki 96%, það væri alveg á kristaltæru. Spurður hvort það hefði gerst 31. mars svaraði stefndi Magnús að hann myndi ekki nákvæmlega dagsetninguna á því. Það hefði verið gerður viðauki og hvort það hefði verið seinna þann dag, hann bara myndi það ekki. Stefndi Magnús sagði að aldrei hefði átt að selja neina hluti á milli, þetta hefði bara staðið til í byrjun.
Vitnið Anna Lilja Pálsdóttir bar fyrir dómi undir rekstri vitnamálsins að hennar hlutverk í „utanumhaldi“ um málefni stefnda Aztiq hefði verið gjaldkeralegs eðlis, svona eins og fjárreiðustjórn. Hún hefði séð um skjalaumsýslu en ekki skjalagerð. Upphaflegur skilningur hennar hefði verið að hlutföllin á eignarhaldi félagsins ættu að vera með sama hætti og í Salt Investments. Hún hefði gengið út frá því þar til hún hefði kallað eftir því að menn greiddu inn hlutaféð. En þá hefði komið fram í tölvupóstsamskiptum milli hennar og stefnda Róberts, einhvern tímann í júlí, að hann hefði ekki ætlað sér að vera hluthafi í félaginu. Stefnandi hefði ekki verið í „cc“ á þessum tölvupósti sem hún hefði fengið frá stefnda Róberti en hins vegar stefndi Árni. Hún hefði fengið skýr fyrirmæli um að hann yrði ekki hluthafi í félaginu. Varðandi gögnin fyrir félagið sem hún hefði sent til stefnanda í júní kvaðst vitnið örugglega hafa kallað eftir þessum gögnum frá Deloitte og áframsent til stefnanda.
Vala Valtýsdóttir var spurð að því fyrir dómi í fyrrgreindu vitnamáli hvort viðaukinn hefðir verið undirritaður sama dag. Hún kvaðst gera ráð fyrir því af því að hann væri dagsettur sama dag. „Alla vega að minnsta kosti í kjölfarið. Þetta væri viðaukasamningur, það væri ljóst.“ Hún sagði að óskað hefði verið eftir breytingum á framsalinu, og að hún gerði ráð fyrir að viðaukasamningurinn hefði verið gerður af kaupendum. A.m.k. hefði hún ekki fundið hann nema í skönnuðu formi hjá sér. Hún kvaðst hafa farið upp til stefnda Árna og skrifað undir viðaukasamninginn en gæti ekki með nokkru móti munað hverjir hafi verið á staðnum aðrir en Árni, eða hverjir hefðu vottað þetta.
Með vísan til framanritaðs, þ.e. bæði orðalags viðaukans sjálfs, framburðar vitnisins Völu Valtýsdóttur, en ekki síður fyrrgreinds tölvuskeytis stefnda Róberts til stefnda Árna og Önnu Lilju Pálsdóttur, dags. 24. júlí 2009, sem gefur til kynna að endanlegt eignarhald í stefnda Aztiq og skipting þess hafi þá enn verið óákveðið, þykir ljóst að viðaukinn hafi ekki verið undirritaður samtímis eða í beinu framhaldi af undirritun framsalssamningsins. Því verður að líta á framsalssamninginn og viðaukann sem tvo aðskilda samninga.
Kemur þá til skoðunar ágreiningur aðila um það hvort stefndi Róbert hafi eignast hluti í stefnda Aztiq ehf. með framsalssamningnum. Eins og áður hefur komið liggur fyrir í málinu tilkynning um stofnun einkahlutafélagsins Dalasúlu (síðar stefnda Aztiq) þar sem fram kemur að stofnandi er Lögvit ehf., hlutafé sé 500.000 krónur og það hafi verið greitt í peningum og formaður stjórnar sé Vala Valtýsdóttir. Tilkynningin er stimpluð um móttöku hjá RSK Fyrirtækjaskrá 4. mars 2009. Einnig liggur fyrir stofnskrá þar sem fram kemur að hlutafé sé að fjárhæð 500.000 krónur og „Allt hlutafé er þegar greitt“. Enn fremur liggur fyrir stofnfundargerð, dagsett 20. febrúar 2009, og samþykktir fyrir félagið. Samkvæmt þessu hafði félagið við gerð framsalssamningsins bæði að formi til verið stofnað og tilkynnt til skráningar, sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 134/1994 um einkahlutafélög.
Eins og segir í 1. gr. framsalssamningsins framseldi Lögvit ehf. með honum stefnanda og stefndu Árna, Róberti og Magnúsi eignarhlut sinn í Dalasúlu ehf. Um var að ræða framsal á 100% eignarhlut í félaginu að nafnvirði 500.000 krónur. Samkvæmt 2. gr. samningsins er kveðið á um það að yfirtaka skuldar seljanda við félagið að fjárhæð 500.000 krónur sé eina endurgjaldið fyrir hluti í félaginu. Þá er skilyrðislaust kveðið á um það í 3. gr. samningsins að afhending hinna framseldu hluta skuli fara fram við undirritun samningsins. Enn fremur að öll réttindi skuli fylgja hlutunum frá afhendingu samkvæmt samningnum, svo sem réttur til arðs, jöfnunarhlutar, áskrift að nýjum hlutum, útborgun vegna lækkunar og skuli renna óskipt til framsalshafa. Þá er sérstaklega kveðið á um það að „Undirritun framsalssamnings þessa skuli jafngilda tilkynningu til stjórnar félagsins um eigendaskipti“. Þá er skýrlega kveðið á um það í lok samningsins að stefnandi og stefndu Róbert, Árni og Magnús séu löglegir eigendur að öllum eignarhlutum í félaginu og bærir til að fara með öll réttindi og skyldur í tengslum við hina framseldu eignarhluti.
Samkvæmt framangreindum ákvæðum framsalssamningsins er óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að svonefndir framsalshafar, þ.e. stefnandi og stefndu Róbert, Árni og Magnús, hafi með samningnum keypt félagið af stofnanda félagsins og eina hluthafa þess, þ.e. Lögviti ehf. Framsalshafar, þar með talinn stefndi Róbert, urðu því hluthafar í félaginu við undirritun samningsins. Stefndi Róbert eignaðist þá samkvæmt samningnum 470.000 hluti eða 94% í félaginu. Samkvæmt þessari niðurstöðu hefur það ekki þýðingu við úrlausn máls þessa að skera úr um það hvort stefndi Róbert hafi á einhverju tímamarki greitt hið svokallaða endurgjald fyrir hluti í félaginu samkvæmt framsalssamningnum, þ.e. sinn hluta af hinni yfirteknu skuld framseljanda Lögvits ehf. við félagið, eða 470.000 krónur.
Verður þá leyst úr því hvort forkaupsréttur að hlutum í stefnda Aztiq hafi orðið virkur við gerð hins svokallaða viðauka. Samkvæmt framsalssamningnum var eins og áður sagði skýrlega kveðið á um það að afhending hinna framseldu hluta skyldu fara fram við undirritun samningsins og undirritun hans jafngilti tilkynningu til stjórnar félagsins um eigendaskipti. Sú forsenda sem virðist lögð til grundvallar í viðaukanum, að enginn framsalshafa hafi greitt inn hlutafé samkvæmt framsalssamningnum og að stefndi Árni kaupi þá hluti sem stefndi Róbert hafi skráð fyrir sig, samræmist því ekki efni framsalssamningsins. Viðaukinn, sem eingöngu var undirritaður af stefndu Róberti og Árni ásamt Völu Valtýsdóttur f.h. framseljanda Lögvits ehf., getur því ekki talist hluti af framsalssamningnum eða breyting á honum, enda hefðu allir aðilar framsalssamningsins þurft að standa að breytingu á honum til þess að svo yrði. Er því fallist á það með stefnanda að með gerð viðaukans hafi stefndi Róbert framselt til stefnda Árna þá 470.000 hluti eða 94% hlutafjár sem hann fékk framselda frá Lögviti ehf. í Dalasúlu ehf., nú stefnda Aztiq, með framsalssamningnum.
Samkvæmt öllu framanrituðu er það niðurstaða dómsins að við gerð viðaukans hafi stefndi Róbert framselt stefnanda Árna hluti í félaginu og forkaupsréttur því orðið virkur í skilningi 7. gr. samþykkta stefnda Aztiq. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta stefnda Aztiq ehf. hefur stjórn félagsins forkaupsrétt að fölum hlutum fyrir félagsins hönd. Að félaginu frágengnu hefur hluthafi forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Frávísunarkrafa stefndu er á því byggð að stjórn stefnda Aztiq hafi ekki verið boðinn forkaupsréttur að hlutum í félaginu og því geti ekki reynt á forkaupsrétt stefnanda fyrr en að honum frágengnum. Stefnandi heldur því hins vegar fram að þar sem meirihluti stjórnarmanna stefnda Aztiq, þ.e. stefndi Róbert og stefndi Árni, hafi átt beina aðild að gerð viðaukans, beri að leggja til grundvallar að stjórn félagsins hafi verið kunnugt um framsalið og kosið að neyta ekki forkaupsréttar síns vegna þess. Þá hafi hluthafanum stefnda Magnúsi einnig verið kunnugt um viðaukann enda sé hann annar votta að gerð hans. Þannig sé ljóst að enginn þessara aðila hafi kosið að nýta forkaupsrétt að þeim hlutum sem hafi verið framseldir.
Hér ber til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 138/1994 er stjórn einkahlutafélags lögbundin stjórnareining sjálfstæðs lögaðila sem tekur ákvarðanir fyrir hönd félagsins á fundum í samræmi við lögin og samþykktir þess. Viðhorfum, vitneskju eða aðgerðum eins eða fleiri stjórnarmanna verður því almennt ekki samsamað við ákvarðanir eða vitneskju stjórnar einkahlutafélags. Engin gögn eru í málinu um það að stjórn hins stefnda félags Aztiq ehf. hafi borist formleg tilkynning um framsal hlutanna samkvæmt viðaukanum eða fjallað hafi verið um eigendaskipti að hlutum á grundvelli viðaukans á stjórnarfundi. Enda hefur ágreiningur aðila einmitt staðið um það hvort forkaupsréttur hafi orðið virkur með umdeildum viðauka. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að leggja beri til grundvallar að stjórn félagsins hafi verið kunnugt um framsal hlutanna frá stefnda Róberti til Árna og kosið að neyta ekki forkaupsréttar og heldur ekki að stefndi Magnús hafi með vottun viðaukans fallið frá forkaupsrétti.
Með aðalkröfu og 1. varakröfu krefst stefnandi viðurkenningar á því að hann sé löglegur eigandi nánar tilgreindra hluta í stefnda Aztiq og með 2. varakröfu leitar hann viðurkenningar á því að stefnandi eigi forkaupsrétt ásamt stefndu Árna og Magnúsi að nánar tilgreindum hlutum í stefnda Aztiq. Réttur stefnanda til að krefjast viðurkenningar, annars vegar á að hann sé löglegur eigandi nánar tilgreindra hluta eins og aðalkrafan og 1. varakrafan kveður á um, og hins vegar viðurkenningar á því að hann eigi ásamt stefndu Árna og Magnúsi forkaupsrétt hlutanna eins og 2. varakrafan lýtur, að gæti ekki orðið til fyrr en reynt yrði hvort félagið kysi að neyta forkaupsréttar fyrir sitt leyti. Með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 ber að vísa þessum kröfum frá dómi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 2. september 2011 í máli nr. 380/2011.
Á hinn bóginn verður ekki fallist á það með stefndu að vísa beri 3. varakröfu stefnanda frá þar sem sú dómkrafa felur í sér það skilyrði að forkaupsréttur stefnanda komi því aðeins til álita að stefnda Aztiq neytti ekki forkaupsréttar samkvæmt 7. gr. samþykkta félagsins, svo og að stefnandi yrði að þeim rétti frágengnum að sæta því að deila forkaupsrétti með öðrum hluthöfum sem hans kynnu að vilja neyta. Er þá einnig höfð hliðsjón af fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 380/2011. Samkvæmt þessu verður heldur ekki fallist á það að vísa beri 3. varakröfu frá þar sem stefnandi hafi ekki hagsmuni af því að fá dóm fyrir 3. varakröfu eins og stefndu halda fram. Að sama skapi er ekki fallist á kröfu stefndu um sýknu að svo stöddu með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.
Verður þá leyst úr þeirri málsástæðu að sýkna beri stefndu Róbert, Magnús og Aztiq vegna aðildarskorts. Eins og fram hefur komið snýst sakarefni máls þess um það hvort forkaupsréttarákvæði samþykkta félagsins hafi orðið virkt. Stefndi Aztiq er því réttur aðili mál þessa og verður ekki sýknaður vegna aðildarskorts. Vissulega eru ekki beinar kröfur gerðar á hendur stefnda Róberti í 3. varakröfu stefnanda en á hinn bóginn er ljóst að hann er bundinn af niðurstöðu máls þessa um sakarefni þess, þ. á m. um réttarlegar afleiðingar aðildar hans að umdeildum framsalssamningi og svokölluðum viðauka við hann. Hann verður því ekki sýknaður vegna aðildarskorts. Með 3. varakröfu krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði forkaupsréttur stefnanda ásamt stefndu Magnúsi og Árna. Enda þótt forkaupsréttur sé sjálfstæður réttur hvers hluthafa, sem eftir atvikum fær að njóta hans einn eða ásamt öðrum hluthöfum, og því ekki skylda til samaðildar allra hluthafa í máli þessu samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 380/2011, verður, með hliðsjón af því hvernig þessi krafa stefnanda er framsett og sakarefni málsins að öðru leyti, ekki fallist á að sýkna beri stefnda Magnús vegna aðildarskorts, sbr. enn fremur 19. gr. laga nr. 91/1991 um heimild til samlagsaðildar.
Loks kemur til álita sú málsástæða stefndu að stefnanda hafi um langt skeið verið kunnugt um kaup stefnda Árna og því sé réttur hans til að krefjast forkaupsréttar löngu liðinn, sbr. almennar reglur samninga- og kröfuréttar um tómlætisáhrif. Stefnandi hafi hafi ekki gert kröfu um nýtingu forkaupsréttar fyrr en með bréfinu frá 18. ágúst 2011, eða u.þ.b. tveimur árum eftir að honum hafi í síðasta lagi verið kunnugt um að stefndi Árni væri eigandi 96% hlutar í stefnda Aztiq. Þessu til stuðnings vísa stefndu til framangreinds tölvuskeytis frá Önnu Lilju Pálsdóttur til stefnanda og Árna þar sem stefndi Árni var beðinn um að ganga frá „greiðslu á restinni þ.e. 480.000 kr.“, hluthafaskrár, dagsettrar 1. október 2011, og ársreiknings vegna ársins 2009, sem er undirritaður af endurskoðanda 29. september 2010. Þarna komi alls staðar fram að stefndi Róbert sé ekki hluthafi heldur aðeins stefnandi og stefndu Magnús og Árni.
Fyrrgreindur tölvupóstur tilgreinir ekki hver skuldar 480.000 krónur og ekkert í honum bendir til þess að stefnanda hafi verið kunnugt um að stefndi Róbert væri eða yrði ekki hluthafi. Þá er hluthafaskráin staðfest af stjórn stefnda Aztiq, stefndu Róberti, Árna og Magnúsi, þann 1. október 2011, þ.e. eftir að ágreiningur aðila reis. Loks er ársreikningurinn undirritaður af endurskoðanda 29. september 2010 eða rúmum sex mánuðum eftir að stefnandi gekk úr stjórn stefnda Aztiq 2. mars 2010, sbr. tilkynningu þess efnis sem móttekin var hjá Fyrirtækjaskrá 5. mars 2010. Framangreind gögn geta því með engu móti talist sýna fram á vitneskju stefnanda um gerð hins umdeilda viðauka þegar árið 2009 og að stefndi Róbert væri þá ekki hluthafi í félaginu. Þá eru engin gögn í málinu um að stjórn stefnda Aztiq hafi á meðan stefnandi sat í stjórn félagsins eða síðar verið tilkynnt skriflega um eigendaskiptin á hlutum sem urðu við gerð viðaukans milli stefnda Róberts og Árna í samræmi við 7. gr. samþykkta félagsins. Með hliðsjón af framanrituðu og því að telja verður að stefnda Róberti hafi borið að tilkynna stjórn félagsins um gerð viðaukans og framsal hlutanna til stefnda Árna, til að gefa félaginu, og mögulega hluthöfum að því frágengnu, kost á að neyta forkaupsréttar, verða stefndu að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að stefnandi hafi verið búinn að fá vitneskju um framsal hlutanna árið 2009. Það verður því að teljast ósannað þrátt fyrir áðurgreindan framburð stefnda Magnúsar um að stefnandi hafi komið og sagt honum að stefndi Róbert myndi falla frá kaupum hlutanna og stefndi Árni tæki 96%, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991. Verður því að leggja til grundvallar þá staðhæfingu stefnanda að honum hafi fyrst árið 2011 orðið kunnugt um að stefndi Róbert væri ekki hluthafi og fyrst fengið áreiðanlega vitneskju um viðaukann þegar hann var lagður fram ásamt greinargerð stefndu Róberts og Árna í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. ágúst 2011 undir rekstri vitnamálsins. Með vísan til þess verður ekki fallist á það með stefndu að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til að neyta forkaupsréttar vegna tómlætis.
Samkvæmt öllu framanrituðu verður 3. varakrafa stefnanda tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði en aðilar deila ekki um verð hlutanna sem stefnandi leggur til grundvallar í kröfunni.
Í samræmi við niðurstöðu málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, ber að dæma stefndu Aztiq, Árna og Róbert til að greiða stefnanda óskipt málskostnað sem þykir eftir atvikum og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna. Samkvæmt meginreglu 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 eru ekki efni til að fallast á mótmæli stefndu Aztiq og Róberts gegn því að þeim verði gert að greiða málskostnað óskipt. Eftir atvikum þykir hins vegar rétt að málskostnaður milli stefnanda og stefnda Magnúsar falli niður.
Vegna anna dómara dróst uppkvaðning dómsins fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en hvorki dómari né aðilar töldu þörf á að flytja það að nýju.
Af hálfu stefnanda flutti málið Reimar Péturssonar hrl. og af hálfu stefndu flutti málið Bjarki H. Diego hrl.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ
Aðalkröfu, 1. varakröfu og 2. varakröfu stefnanda, Matthíasar H. Johannessen, er vísað frá dómi.
Viðurkennt er að stefnandi, ásamt stefnda Árna Harðarsyni og stefnda Magnúsi Jaroslav Magnússyni, eigi forkaupsrétt, að stefnda Aztiq Pharma Partners ehf. frágengnu, að 470.000 hlutum í stefnda Aztiq Pharma Partners ehf. samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta stefnda Aztiq Pharma Partners ehf. á verðinu ein króna á hlut vegna framsals umræddra hluta frá stefnda Vilhelm Róberti Wessman til stefnda Árna Harðarsonar samkvæmt skjali sem ber titilinn „viðauki við framsalssamning um hlutabréf í Einkahlutafélaginu Dalasúlu ehf.‟.
Stefndu Aztiq Pharma Partners ehf., Árni Harðarson og Vilhelm Róbert Wessman greiði sameiginlega stefnanda Matthíasi H. Johannessen 1.000.000 króna samtals í málskostnað.
Málskostnaður milli stefnanda Matthíasar H. Johannessen og stefnda Magnúsar Jaroslav Magnússonar fellur niður.