Hæstiréttur íslands

Mál nr. 505/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Málskostnaðartrygging


Þriðjudaginn 23

 

Þriðjudaginn 23. október 2007.

Nr. 505/2007.

Þrotabú Sigurbrautar ehf.

(Vilhjálmur Bergs hdl.)

gegn

Smáu og smáu ehf.

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur. Málskostnaðartrygging.

 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að vísa máli Þ gegn S frá dómi, þar sem málatilbúnaður Þ fullnægði ekki ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. S krafðist þess í greinargerð sinni 3. október 2007, með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að Þ yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu fyrir Hæstarétti. Með bréfi 26. september tilkynnti héraðsdómur S að Þ hefði kært framangreindan úrskurð til Hæstaréttar. Bar S þá þegar að setja fram kröfu sína um tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, sbr. b. liður 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem það var ekki gert var krafa S um málskostnaðartryggingu of seint fram komin og var henni því hafnað. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 

Varnaraðili tók til varna í málinu með greinargerð 3. október 2007, sem barst réttinum 4. sama mánaðar. Í greinargerðinni krafðist varnaraðili staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Jafnframt var þess krafist með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 að sóknaraðila yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu fyrir Hæstarétti Íslands, allt að 300.000 krónum eða hæfilega fjárhæð að mati réttarins.

Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu. Með bréfi 11. október 2007 mótmælti hann kröfunni. Byggði hann meðal annars á því að engar forsendur væru fyrir að krefjast málskostnaðartryggingar vegna meðferðar kæru sóknaraðila fyrir Hæstarétti þar sem málsmeðferðinni væri lokið fyrir réttinum og allur kostnaður varnaraðila þegar til fallinn með greinargerð hans 3. október 2007.

Varnaraðili vísar um kröfu sína um málskostnaðartryggingu til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því ákvæði getur stefndi í héraði krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu ef leiða má að því líkum að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Samkvæmt athugasemdum með ákvæðinu „verður að ganga út frá því, að þessi orð feli í sér að stefndi geti ekki komið fram kröfu sem þessari á síðari stigum máls ef honum var eða mátti vera kunnugt um tilefni til hennar við þingfestingu.” Með bréfi 26. september 2007 tilkynnti héraðsdómur varnaraðila að sóknaraðili hefði kært framangreindan úrskurð til Hæstaréttar. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 bar varnaraðila þá þegar að setja fram kröfu sína um tryggingu fyrir greiðslu kærumálskostnaðar, en það gerði hann fyrst í greinargerð sinni 3. október 2007. Með henni tók hann til varna og stofnaði þannig til þess kostnaðar sem málskostnaðartrygging á að standa fyrir. Var krafa varnaraðila um málskostnaðartryggingu því of seint fram komin og verður henni hafnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Sigurbrautar ehf., greiði varnaraðila, Smáu og smáu ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnaðar-tryggingu fyrir Hæstarétti er hafnað.

 

 

                     Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2007.

             Mál þetta, sem höfðað var 9. mars 2007, var tekið til úrskurðar 4. september sl.

Stefnandi er þb. Sigurbrautar ehf., Kringlunni 4-12, Reykjavík.

Stefndi er Smátt og smátt ehf., Laugavegi 3, Reykjavík.

Dómkröfur

             Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Í aðalkröfu er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér (sic) 26.203.005 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. október 2006 til greiðsludags.

             Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér (sic) 13.410.048 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. október 2006 til greiðsludags.

             Þá er þess krafist að staðfest verði með dómi kyrrsetning fyrir kröfu að fjárhæð 26.706.905 krónur, sem fram fór hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 28. febrúar 2007 á 6 stk. leðursófasettum, 5 stk. viðarborðum með mosaikflísum, glymskratta af Murlitzer gerð, 2 stk. kristalljósakrónum, viðarskáp, 8 stk. veggbekkjum, 72 stk. stólum, þar af 22 stk. með háu baki, 43 stk. borð, hljómkerfí tengdu við Ipod spilara, 5 stk. málverk, 8 stk. glerlistaverk, stórri venusarstyttu úr marmara, 2 stk. Olis gaseldavélum, Olis gas steikarpönnu, hitavatnsbaði, örbylgjuofn, Zanussi steikarofni, djúpsteikningarpotti, sharp afgreiðslukassa og prentara, 1 stk stórri kaffí- og tevél, Electrolux frystikistu og Ariston frystiskáp, Whirlpool þvottavél, áleggsskurðarvél, Scotsman klakavél og öðru lausafé sbr. tækjalista, staðsettu á veitingastaðnum Tivoli að Laugavegi 3, öllum kröfum sem stefndi kann að eiga á hendur Kreditkortum vegna notkunar debet- og kreditkorta á grundvelli seljendasamninga stefnda og Kreditkorta nr. 9713388 og 9714084, öllum kröfum sem stefndi kann að eiga á hendur Visa Ísland - Greiðslumiðlun hf. vegna notkunar debet- og kreditkorta á grundvelli seljendasamninga stefnda og Visa Ísland - Greiðslumiðlunar hf. nr. 37421 og 37422, og í tryggingafé 500.000 krónur vegna vínveitingaleyfis sem varðveitt er inná reikningi hjá Tollstjóranum í Reykjavík merkt stefnda.

             Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

             Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.  Til vara er gerð sú krafa að stefndi verði algjörlega sýknaður af kröfum stefnanda.  Þá er þess krafist að kröfum stefnanda um staðfestingu með dómi á kyrrsetningargerð fyrir kröfu að fjárhæð 26.706.905 krónur, sem fram fór hjá sýslumanninum í Reykjavík 28. febrúar 2007, verði hafnað.  Þá er þess krafist að stefnandi verði í báðum tilvikum dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins en áskilinn réttur til að leggja fram málskostnaðarreikning fyrir munnlegan flutning málsins.

             Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram 4. september sl. og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Kröfur stefnda eru þær að málinu verði vísað frá dómi og stefnda verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda.  Kröfur stefnanda eru þær að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og tekið verði tillit til flutnings um frávísunarkröfu í endanlegum dómi í málinu.

Málsástæður stefnanda og önnur atvik

             Stefnandi lýsir málavöxtum og málsástæðum sínum með eftirfarandi hætti:

             1. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 6. nóvember 2006 hafi þb. stefnanda verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Skipaður hafi verið skiptastjóri.  Þegar stefnandi var úrskurðaður gjaldþrota hafi félagið rekið veitingastaðinn Enricos að Laugavegi 3, Reykjavík.  Þegar skiptastjóri hafi farið að kanna málefni búsins, m.a. með viðtölum við forsvarsmenn félagsins, hafi komið fram misvísandi upplýsingar um stöðu þessa veitingarekstrar.  Skiptastjóri hafi haft samband við Guðjón S. Jónsson, framkvæmdastjóra félagsins, sem hafi tjáð honum að reksturinn ásamt lausafé hefði verið seldur fyrir nokkru.  Þegar Guðjón hafi verið inntur eftir því hvenær reksturinn hafi verið seldur þá hafi hann ekki getað svarað því.  Inntur eftir því hvert kaupverðið hafi verið þá kvaðst hann ekki muna það og ekki hafi hann heldur getað tilgreint hver kaupandi hafi verið. Tveimur dögum síðar, föstudaginn 10. nóvember, hafi skiptastjóri fengið afhent afrit af meintum kaupsamningi, dags. 20. október 2006, þar sem stefndi kaupir rekstur veitingastaðarins ásamt lausafé á 26.203.005 krónur.  Kaupsamningnum fylgdi „tækjalisti“ sem vísað sé til í kaupsamningi sem fylgiskjals nr. 1.  Kaupverð hafi verið greitt með yfirtöku nánar tilgreindra skulda að sömu fjárhæð.

             Skiptastjóri telji að umræddur kaupsamningur hafi ekki verið gerður þann 20. október heldur síðar, líklega eftir að úrskurður gekk, og telji hann margt benda til þess.  Þannig muni nýr rekstraraðili ekki hafa fengið vínveitingaleyfi fyrr en 15. nóvember 2006 en fram til þess tíma virðist sem staðurinn hafi verið rekinn út á leyfi stefnanda.  Einnig muni posasamningar stefnanda við Visa og Mastercard hafa verið í notkun fram í byrjun nóvembermánaðar.  Að auki bendi stefnandi á að kennitala stefnda sé ekki stofnuð fyrr en þann 31. október 2006, en samt sem áður sé hún tilgreind í umræddum kaupsamningi, dags. 20. október 2006. Skiptastjóri hafi talið að um riftanlegan gerning væri að ræða og kveðst hafa lýst þeirri skoðun sinni við forsvarsmenn stefnda.

             Með símskeyti, dags. 1. febrúar 2007, hafi forsvarsmönnum stefnda verið tilkynnt um riftun á hluta umrædds kaupsamnings og þeim gefinn 7 daga frestur til viðbragða. Stefndi hafi ekki brugðist við efni bréfsins á neinn hátt.  Riftunin samkvæmt skeytinu hafi tekið til þeirrar greiðslu sem fólst í yfirtöku á skuld samkvæmt skuldabréfi hjá Landsbanka Íslands hf., Securitas og Orkuveitu Reykjavíkur, samtals 13.410.048 krónur sem krafist var í skeytinu að stefndi greiddi.

             2. Stefnandi telur umræddan kaupsamning ólögmætan og riftanlegan samkvæmt riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991.  Hann hafi langlíklegast verið gerður í þeim eina tilgangi að koma eignum undan gjaldþroti.  Stefndi, sem muni vera nýr rekstraraðili veitingastaðarins, sé í eigu sömu aðila og stóðu að rekstri veitingastaðarins áður.  Ekkert hafi í raun breyst nema nafn veitingastaðarins, en hann heiti nú Tivoli.  Veitingastaðurinn hafi reyndar heitið Enricos áfram, til að byrja með, en nafninu hafi verið breytt í kringum miðjan desember.  Allir þeir sem tilgreindir séu í hlutafélagaskrá sem stjórnarmenn, framkvæmdastjóri eða prókúruhafar stefnda hafi verið stjórnendur eða starfsmenn hjá stefnanda fram að gjaldþroti.  Guðjón Smári Jónsson hafi verið prókúruhafi hjá stefnanda og sé nú prókúruhafi og framkvæmdastjóri hjá stefnda.  Márus Jóhannesson, sem tilgreindur sé annar prókúruhafa stefnda, hafi verið starfsmaður stefnanda auk þess að vera sambýlismaður Sigurleifar Kr. Sigurþórsdóttur sem tilgreind hafi verið sem stjórnarformaður stefnanda.  Patrekur H. Sigurgeirsson, sem tilgreindur sé stjórnarmaður stefnda, hafi verið starfsmaður stefnanda fram að gjaldþroti.

             Stefnandi telur þar að auki ljóst að stefndi hafi vanefnt umræddan kaupsamning þar sem yfirtaka á þeim skuldum sem yfirtaka skyldi samkvæmt honum hafi ekki farið fram og muni ekki fara fram.  Landsbanki Íslands hafi lýst kröfu í stefnanda vegna skuldabréfs sem yfirtaka átti samkvæmt kaupsamningnum og hafi þeir einnig lýst því yfir að þeir muni ekki samþykkja umrædda yfirtöku, verði eftir því leitað.  Tilgreind skuld við Securitas, sem yfirtaka átti samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins, virðist ekki heldur hafa átt sér stað enda hefur félagið lýst kröfu sinni í þrotabúið.  Aðrar skuldir sem tilgreindar séu í kaupsamningi kannist skiptastjóri ekki við og ekki sé vitað hvort þar sé um skuldir að ræða sem stefnandi beri ábyrgð á, en það virðist vera sameiginlegt með þeim skuldum sem yfirtaka skyldi að þær séu tryggðar með sjálfskuldarábyrgð forsvarsmanna stefnanda og stefnda, hugsanlega þó að undanskyldum skuldum við Securitas og Orkuveitu Reykjavíkur.

             Þau verðmæti sem fólust í umræddum kaupsamningi og stefndi tók við frá stefnanda séu samkvæmt kaupsamningnum talin nema 26.203.005 krónum sem séu stefnukröfur máls þessa í aðalkröfu.  Samkvæmt kaupsamningnum virðist verðmætin einkum felast í lausafé, þ.e. húsgögnum og tækjum til veitingarekstursins, viðskiptavild og húsaleiguréttindum að Laugavegi 3.

             Stefnandi byggir á þeirri málsástæðu að með ráðstöfun þeirri, sem fólst í hinum riftanlega gerningi, hafi stefndi valdið honum tjóni sem nemi stefnukröfum málsins í aðalkröfu.  Með ráðstöfuninni hafi stefndi komið eignum stefnanda undan þannig að þær rynnu ekki til þrotabúsins, en engin greiðsla hafi runnið þangað vegna þessa.  Ekki sé öðru mati á verðmætum þessara eigna til að dreifa en því verði sem tilgreint sé í kaupsamningnum. Er  á því byggt af hálfu stefnanda að þar sé vart um ofmat að ræða.

             Stefnandi telur ljóst að kaupverð það sem tilgreint sé í umræddum kaupsamningi hafi ekki verið greitt, enda hefði verið óheimilt að greiða það með þeim hætti að sumar skuldir búsins hefðu verið yfirteknar með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í samningnum.  Sú greiðsla, sem í því hefði falist, hljóti í öllu falli að vera riftanleg ráðstöfun samkvæmt riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaga.

             Stefnandi fullyrðir að það liggi fyrir að hluta þeirra skulda sem yfirtaka átti samkvæmt kaupsamningnum hafi verið lýst í búið.  Þetta eigi við um skuld við Landsbanka Íslands samkvæmt skuldabréfi og skuld við Securitas.  Stefnandi kveðst ekki vita um aðrar skuldir sem tilgreindar séu í kaupsamningnum, hvort þar sé um raunverulega skuld að ræða og hvort yfirtaka hafi farið fram.  Hugsanlegt sé að hluti skuldanna hvíli á húsaleiguréttindum og það sé forsenda yfirtöku þeirra að þær skuldir séu einnig yfirteknar.  Þetta eigi við um þær skuldir sem tilgreindar séu í 1. og 2. mgr. 1. tl. 2. gr. kaupsamningsins.  Sé svo komi varakrafan til skoðunar en sú krafa samsvari kaupverðinu að frádregnum þeim skuldum sem kunni að fylgja umræddum húsaleiguréttindum.

             3. Stefnandi kveður kyrrsetningarbeiðni sína hafa verið tekna fyrir á lögheimili stefnda og fyrrum lögheimili stefnanda að Laugavegi 3, Reykjavík.  Eins og rakið sé í endurriti úr gerðabók hittist þar fyrir Márus Jóhannesson, einn forsvarsmanna stefnanda. Áður en gerðin fór fram muni Márus hafa rætt við lögmann sinn.  Athygli hafi vakið að að því loknu hafi Márus mótmælt gerðinni á þeim forsendum að stefndi ætti ekkert þar inni þar sem ætlunin væri að rifta kaupsamningi við stefnanda.  Hafi Márus haldið því fram að allar eignir á veitingastaðnum væru í raun eign stefnanda, utan nokkrir stólar og borð í sal, sem væru sín eign.  Stefnandi telji rétt að vekja athygli á þessum ummælum.

             Sýslumaður hafi ákveðið, þrátt fyrir mótmæli forsvarsmanns stefnda, að halda gerðinni áfram og kyrrsetti hann að ábendingu stefnanda muni, kröfur og fjármuni þá sem tilgreindir eru í endurriti sýslumanns af umræddri gerð, dags. 28. febrúar.

             Stefnandi telur að skilyrði 5. gr. laga nr. 31 /1990, um kyrrsetningu o.fl., séu fyrir hendi og hafi sýslumaður fallist á það.  Stefnandi fullyrðir að hann hafi ekki getað fullnægt kröfu sinni með aðför, enda skilyrði ekki til slíks, þar sem dómur sé ekki genginn um kröfuna.  Einnig telur stefnandi ljóst að ef kyrrsetning nái ekki fram að ganga muni það draga verulega úr líkindum á að fullnusta kröfunnar takist, enda engum öðrum eignum til að dreifa og miklar líkur á því, í ljósi fyrri reynslu, að reynt verði að koma eignum undan og færa þær á nafn einhvers annars meðan dómsniðurstöðu er beðið.

             Með vísan til alls ofangreinds kveðst stefnandi telja að öll lagaskilyrði séu fyrir hendi svo staðfesta megi kyrrsetningu á framangreindum munum í eigu stefnda.

             Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttarins um efndir og stofnun fjárskuldbindinga.  Vísað er til almennu skaðabótareglunnar.  Vísað er til laga um lausafjárkaup.  Þá er vísað til riftunarreglna XX. kafla gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.  Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum.  Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

             Þá vísar stefnandi til laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu o.fl., einkum 5. gr. laganna og 4. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.  Þá er vísað til 22. gr. laga nr. 31/1990, auk þess sem vísað er til VI. kafla laganna, einkum 2. mgr. 36. gr. þeirra.

Málsástæður og lagarök stefnda varðandi frávísunarkröfu

             Af hálfu stefnda er aðallega krafist frávísunar málsins.  Frávísunarkrafa er studd þeim rökum að dómkröfur séu settar fram með þeim hætti að þær falli um sjálfar sig og leiði til sýknu.  Eins og sjá megi í stefnu geri stefnandi þá kröfu á hendur stefnda, að stefndi greiði sjálfum sér 26.203.205 krónur auk dráttarvaxta eins og tilgreint sé.  Krafan sé í sjálfu sér marklaus og beri að vísa henni frá dómi, þegar af þeirri ástæðu.

 Þá sé enn fremur gerð krafa um frávísun á þeirri forsendu að mál þetta sé vanreifað og uppfylli ekki þau skilyrði, sem sett séu í 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. d. lið og e. lið, sbr. 100. gr. 2. mgr. sömu laga varðandi skýrleika og framsetningu, tilvitnun í lagarök og málsástæður og að kröfuútlistun sé stórlega áfátt.  Í stefnu segi að málið sé höfðað „til innheimtu skuldar og til staðfestingar á kyrrsetningu sem fram fór hjá stefnda. Með engum hætti verði ráðið af málabúnaði, hvort um skuldamál eða skaðabótamál sé að tefla.

Niðurstaða

             Fallast má á að dómkrafa í málinu sé klaufalega orðuð.  Telja verður þó, sé stefna lesin í samhengi, að túlka megi dómkröfur stefnanda í málinu þannig að hann sé að gera kröfurnar sér til handa.

             Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að málið sé vanreifað og uppfylli ekki ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d. og e. liði 1. mgr. greinarinnar.  Þá sé kröfuútlistun stórlega áfátt.

             Fyrir liggur í málinu kaupsamningur milli Sigurbrautar ehf. og stefnda, Smátt og smátt ehf., þar sem Sigurbraut ehf. selur stefnda rekstur veitingastaðarins Enricos, Laugavegi 3.  Kaupverð skyldi greiðast með yfirtöku nánar tilgreindra skulda.  Í stefnu segir að stefnandi telji að umræddur kaupsamningur sé ólögmætur og riftanlegur samkvæmt riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991.  Hins vegar liggur ekki fyrir að stefnandi hafi rift kaupsamningnum en í málinu liggur frammi afrit símskeytis frá skiptastjóra þar sem rift er því greiðslufyrirkomulagi sem fólst í yfirtöku stefnda á nánar tilgreindum skuldum.  Samt sem áður virðist af hálfu stefnanda byggt á umræddum reglum gjaldþrotaskiptalaganna. 

             Sé stefnan lesin áfram virðist stefnandi jafnframt byggja á því að stefndi hafi vanefnt kaupsamninginn þar sem yfirtaka skuldanna hafi ekki farið fram.  Þau verðmæti sem stefndi hafi tekið frá stefnanda hafi numið stefnufjárhæð.  Þá er einnig á því byggt að stefndi hafi með ráðstöfun þeirri sem falist hafi í hinum riftanlega gerningi valdið stefnanda tjóni sem nemi stefnufjárhæð en ekki er gerð nánari grein fyrir bótagrundvellinum eða fjárhæðinni sem slíkri.  Í upphafi stefnu segir hins vegar að mál þetta sé höfðað til innheimtu skuldar.

             Engar leiðbeiningar varðandi málsgrundvöll er að finna í þeim kafla stefnunnar þar sem vísað er til lagaákvæða og réttarreglna en þar er vísað til meginreglna kröfu- og samningaréttarins um efndir og stofnun fjárskuldbindinga.  Vísað er til almennu skaðabótareglunnar og laga um lausafjárkaup, auk þess sem vísað er til riftunarreglna XX. kafla gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.  Virðist stefnandi byggja kröfur sínar á því að málið sé í senn skuldamál, riftunarmál, tilkomið vegna vanefnda á kaupsamningi, og skaðabótamál.

             Málatilbúnaður stefnanda er ruglingslegur og með engu móti verður af honum ráðið á hvaða grunni málssókn þessi byggist.  Samhengi milli krafna, málsatvika og málsástæða er ekki að finna.  Telst málið ódómhæft í þeim búningi sem það er.  Er fallist á það með stefnda að málatilbúnaður stefnanda fullnægi ekki ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991 og er málinu vísað frá dómi.

             Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.

             Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

                                                   Ú R S K U R Ð A R O R Ð

             Máli þessu er vísað frá dómi.

             Stefnandi, þrotabú Sigurbrautar ehf., greiði stefnda, Smátt og smátt ehf., 150.000 krónur í málskostnað.