Hæstiréttur íslands
Mál nr. 425/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
|
|
Fimmtudaginn 20. nóvember 2003. |
|
Nr. 425/2003. |
Sýslumaðurinn í Reykjavík (Eyrún Guðmundsdóttir deildarstjóri) gegn A og B (enginn) |
Kærumál. Dánarbússkipti.
S krafðist þess að dánarbú X yrði tekið til opinberra skipta þar sem vafi væri um hverjir gætu kallað til arfs úr búinu, sbr. 3. tölulið 37. gr. laga nr. 20/1991. Taldi S að ákvæði erfðaskrár X og eiginmanns hennar væri óljóst og því óvíst hvort hjónin hefðu verið að mæla fyrir um að beita skyldi ákvæði 1. mgr. 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962 eftir lát beggja eða hafna þeirri reglu. Í Hæstarétti var tekið fram að ekki væri berum orðum tekið fram í hvaða tilgangi erfðaskráin væri gerð. Þá væri ekki heldur vísað til ákvæðis 1. mgr. 6. gr. erfðalaga varðandi ráðstöfun arfs eftir daga þess langlífara. Þrátt fyrir það yrði ekki fram hjá því litið að í erfðaskránni væri með almennri tilvísun til ákvæða erfðalaga, kveðið á um slíka ráðstöfun. Með vísan til þessa var fallist á að dánarbú X yrði tekið til opinberra skipta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú X yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og að umrætt dánarbú verði tekið til opinberra skipta.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort dánarbú X skuli tekið til opinberra skipta á þeim grundvelli að vafi sé um hverjir geti kallað til arfs úr búinu.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lést X [...] febrúar 2002, en hún fæddist [...] 1921 og var síðast til heimils að [...] í Reykjavík. Eiginmaður hennar var Z, fæddur [...] 1914. Hann lést [...] 1992. Þau undirrituðu 1. febrúar 1965 sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá, sem var svohljóðandi:
„Hvort okkar, sem lengur lifir, skal erfa allar eigur hins að því látnu. Um arf eftir það okkar, sem lengur lifir, fer að ákvæðum erfðalaganna nr. 8 frá 14. marz 1962. Erfðaskrá þessi skal færð inn í notarialbók og endurrit úr henni hafa sama gildi sem frumrit þetta. Til staðfestu ritum við nöfn okkar hér undir í viðurvist notarii publici í Reykjavík.“
Á erfðaskrána var ritað vottorð lögbókanda í Reykjavík með þeim efnisatriðum sem greinir í 1. mgr. 43. gr., sbr. 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Sóknaraðili heldur því fram með vísan til framangreinds ákvæðis erfðaskrárinnar að vafi leiki á um hvort arfur eftir X eigi alfarið að ganga til erfingja hennar eða skiptast milli þeirra og erfingja Z. Telur hann að umrætt ákvæði erfðaskrárinnar sé óljóst og því óvíst hvort hjónin hafi verið að mæla fyrir um að beita skyldi ákvæði 1. mgr. 6. gr. erfðalaga eftir lát beggja eða hafna þeirri reglu sem þar kemur fram. Sé þannig vafi á hvort skipting arfs eftir X sé sambærileg því tilviki, sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar 4. mars 2002 í máli nr. 30/2002. Verði ekki leyst úr þessum vafa með öðrum hætti en að taka bú X til opinberra skipta.
II.
Ákvæði 1. mgr. 6. gr. erfðalaga tekur til skipta eftir það hjóna, sem lengur lifir, ef það var einkalögerfingi þess skammlífara, það andast án þess að hafa gengið aftur í hjúskap, lætur ekki eftir sig niðja og hefur ekki með erfðaskrá ráðstafað eignum sínum á annan hátt. Við þær aðstæður standa til lögerfða eftir langlífari makann skyldmenni hans sjálfs og þess skammlífara, en hvor hópur á þá tilkall til helmings arfs. Eins og fram kemur í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar er ákvæði þetta reist á því að almennt megi ætla að hjón, sem láta ekki eftir sig niðja, hafi hug á að það langlífara sitji eitt að eigum þeirra svo lengi, sem það lifi, en eftir lát beggja falli arfur að jöfnu til ættingja hvors um sig. Þegar þannig standi á geti hjón látið hjá líða að gera erfðaskrá, því lögerfðareglur í I. kafla erfðalaga leiði til þessarar niðurstöðu. Vilji hjón á hinn bóginn hafa aðra skipan á, geta þau gert erfðaskrá. Verði því að öðru jöfnu að líta svo á að hjón, sem gera erfðaskrá þótt ákvæði 1. mgr. 6. gr. erfðalaga geti annars átt við um ráðstöfun arfs eftir þau, séu þannig að hafna því að arfur falli að þeim báðum látnum eftir reglu ákvæðisins. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar var með vísan til erfðaskrár þeirra hjóna sem um ræddi í málinu talið að þau hefðu hafnað því að um arf eftir daga þeirra beggja færi samkvæmt reglu 1. mgr. 6. gr. erfðalaga.
Þegar X og Z gerðu erfðaskrá þá, sem um ræðir í máli þessu, í febrúar 1965 voru aðrar reglur í gildi varðandi lögerfðir en kveðið er á um í núgildandi lögum. Samkvæmt þeim hefðu foreldrar þess skammlífara notið lögerfðaréttar eftir það, ef ekki yrði kveðið á um annað með erfðaskrá. Í umræddri erfðaskrá er ekki berum orðum tekið fram í hvaða tilgangi hún sé gerð. Þá er ekki heldur vísað til ákvæðis 1. mgr. 6. gr. erfðalaga varðandi ráðstöfun arfs eftir daga þess langlífara. Þrátt fyrir það verður ekki fram hjá því litið að í erfðaskránni er með almennri tilvísun til ákvæða erfðalaga, kveðið á um slíka ráðstöfun. Eru málsatvik í þessu máli því ekki að öllu sambærileg og í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 4. mars 2002. Með vísan til þessa er fallist á með sóknaraðila að vafi sé um hverjir geti kallað til arfs úr dánarbúi X, sbr. 3. tölulið 37. gr. laga nr. 20/1991. Að þessu virtu verður fallist á kröfu sóknaraðila um að dánarbú X verði tekið til opinberra skipta. Með þessari niðurstöðu er hins vegar ekki tekin afstaða til þeirra atriða er lúta að efnishlið málsins.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest.
Dómsorð:
Fallist er á kröfu sóknaraðila, sýslumannsins í Reykjavík, um að dánarbú X verði tekið til opinberra skipta.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2003.
Með bréfi, dagsettu 16. apríl 2003, krafðist sýslumaðurinn í Reykjavík, kt. 640692-2199, þess að dánarbú X [...] er síðast var til heimilis að [...] í Reykjavík og [...] febrúar 2002, verði tekið til opinberra skipta. Er sýslumaður sóknaraðili í þessu ágreiningsmáli.
Varnaraðilar eru A og B. Þau krefjast þess að hafnað verði kröfu um að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta. Þá krefjast þau viðurkenningar á því að við skipti á dánarbúi X standi systkinabörn hennar ein til erfða. Loks krefjast varnaraðilar málskostnaðar.
Hjónin Z og X gerðu sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá 1. febrúar 1965. Var skráin undirrituð hjá lögbókanda í Reykjavík. Texti erfðaskrárinnar er svohljóðandi:
“Hvort okkar, sem lengur lifir, skal erfa allar eigur hins að því látnu.
Um arf eftir það okkar, sem lengur lifir, fer að ákvæðum erfðalaganna nr. 8 frá 14. marz 1962.
Erfðaskrá þessi skal færð í nótarialbók...”
Z lést [...] 1992. Verður ekki annað séð en að X hafi ein tekið arf eftir mann sinn.
X lést eins og áður segir [...] febrúar 2002. Ekki var aðhafst um skipti á búinu fyrr en systkinabörn hinnar látnu, þ. á m. varnaraðilar, vildu skila erfðafjárskýrslu og skiptagerð í febrúar á þessu ári. Af því tilefni ritaði sýslumaður bréf til lögerfingja Z heitins og kynnti þeim málavexti. Þetta bréf leiddi ekki til formlegra viðbragða af hálfu þessara aðila, en nokkrir höfðu samband við sýslumann vegna málsins.
Er sýslumaður krafðist opinberra skipta voru allir þekktir lögerfingjar Z og X boðaðir til fyrirtöku í dóminum. Var mætt af hálfu hluta þeirra, en enginn óskaði eftir því að gerast aðili að ágreiningsmáli þessu. Var ákveðið að málið skyldi rekið sem ágreiningur um kröfu sýslumanns um að búið skyldi tekið til opinberra skipta.
Sýslumaður vísar í beiðni sinni til 3. tl. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 20/1991. Nánar segir að ekki sé ótvírætt hvort erfingjar X skuli einir erfa eignir hennar, eða hvort eignir skuli skiptast jafnt á milli erfingja hennar og erfingja Z. Vísar sýslumaður hér til 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og til hliðsjónar á niðurstöðu í dómi Hæstaréttar 4. mars 2002, í málinu nr. 30/2002.
Varnaraðilar telja að 1. mgr. 6. gr. erfðalaga gildi ekki um skipti á þessu dánarbúi. Í erfðaskránni sé ekki vísað til ákvæðisins, hvorki beint né með fyrirmælum um aðferð við skipti. Þá séu ekki gögn í málinu er bendi til þess að þau hjónin hafi ætlast til þess að arfur eftir hið langlífara þeirra skiptist á milli lögerfingja beggja.
Varnaraðilar segja að túlkun fræðimanna og dómstóla hafi verið sú að 1. mgr. 6. gr. eigi aðeins við ef hið langlífara tekur arf sem lögerfingi. Svo hafi ekki verið í þessu tilviki.
Varnaraðili telur að ekki komi skýrt fram í erfðaskránni að beitt skuli reglu 6. gr. erfðalaga. Einungis sé vísað til laganna. Hafi vilji hjónanna staðið til þess að erfingjar beggja tækju arf hefði verið óþarfi að gera erfðaskrána. Ekki er upplýst hvort foreldrar þeirra voru á lífi er erfðaskráin var gerð. Þá telja varnaraðilar að þeim hefði verið í lófa lagið að afturkalla erfðaskrána eftir að erfðalögum var breytt með lögum nr. 48/1989.
Loks vísa varnaraðilar til þess að erfingjar Z hafi ekki gert kröfur í máli þessu. Verði því að líta svo á að þeir séu sammála túlkun varnaraðila á erfðaskránni, ellegar að þeim hafi verið kunnugt um vilja hinna látnu.
Niðurstaða.
Í málinu hafa ekki verið lögð fram nein gögn sem geta verið til skýringar á vilja þeirra Z og X og styrkt þannig skýringu á ákvæðum erfðaskrárinnar. Þá er ekki fram komið neitt um hversu náið samband þau höfðu við ættingja sína. Leiðir þetta til þess að erfðaskrá þeirra verður að skýra eftir orðanna hljóðan og í samræmi við viðurkenndar skýringaraðferðir.
Í þeim hæstaréttardómi sem bæði sýslumaður og varnaraðilar vísa til var fjallað um keimlíkt tilvik og er til úrlausnar hér. Þar segir Hæstiréttur m.a.:
“Að þessu virtu verður að öðru jöfnu að líta svo á að hjón, sem gera erfðaskrá þótt ákvæði 1. mgr. 6. gr. erfðalaga gæti annars átt við um ráðstöfun arfs eftir þau, séu þannig að hafna því að arfur falli að þeim báðum látnum eftir reglu ákvæðisins.”
Eftir orðanna hljóðan var X heitin erfingi samkvæmt erfðaskrá er hún tók arf eftir eiginmann sinn. Breytir engu í því efni þó hún hefði tekið arfinn sem einkalögerfingi í samræmi við þau lög er í gildi voru eftir lagabreytingu 1989, hefði erfðaskráin ekki verið gerð. Samkvæmt þessu gildir 1. mgr. 6. gr. erfðalaganna ekki um arf eftir X. Verður arfinum skipt á milli ættingja hennar samkvæmt 3. mgr. 3. gr. erfðalaga.
Upplýst er að allir þeir sem teljast erfingjar í búinu samkvæmt framansögðu hafa í sameiningu óskað eftir leyfi til einkaskipta. Þar sem skilyrði eru til að sýslumaður veiti slíkt leyfi ber að hafna kröfu hans um opinber skipti.
Í úrskurðarorði verður ekki kveðið á um annað en höfnun á kröfu sýslumanns. Af forsendum þessum er þó ljóst hverjir teljast erfingjar í dánarbúi X og er úrskurðurinn að því leyti bindandi úrslit sakarefnis í samræmi við almennar reglur.
Rétt er að málskostnaður falli niður.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu sýslumannsins í Reykjavík um að dánarbú X verði tekið til opinberra skipta.
Málskostnaður fellur niður.