Hæstiréttur íslands
Mál nr. 346/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 10. júní 2013. |
|
Nr. 346/2013.
|
Kaupþing hf. (Guðni Á Haraldsson hrl.) gegn Steingrími P. Kárasyni (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli fjármálafyrirtækisins K hf. á hendur S var vísað frá dómi. S hafði verið starfsmaður K hf. og tekið lán hjá fyrirtækinu sem meðal annars var varið til kaupa á hlutabréfum í því. Bar S persónulega ábyrgð á endurgreiðslu 10% lánsins. Áður en K hf. var tekið til slitameðferðar felldi stjórn þess niður persónulega ábyrgð sem S bar á þeim hluta lánsins sem var til hlutabréfakaupa í K hf. Höfðaði K hf. málið á hendur S til riftunar þessarar eftirgjafar og endurgreiðslu auðgunar S vegna hennar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að útreikningur kröfunnar væri nægilega reifaður af hálfu K hf. Ekki var talið skipta máli þótt krafa K hf. hafði verið framseld til A hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins eftir að skilanefnd var sett yfir K hf. Þá var ekki talið að málsókn A hf. til innheimtu á þeim hluta lánsins sem ekki var varið til hlutabréfakaupa í K hf. skaraðist á við mál K hf. gegn S. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins tók varnaraðili á árinu 1997 til starfa hjá félagi, sem myndaði síðar sóknaraðila með sameiningu við annað félag. Varnaraðili kveðst hafa unnið þar við áhættustýringu og stjórnað því sviði sóknaraðila þegar hann lét af störfum, en það mun hann hafa gert í framhaldi af því að Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd.
Í málatilbúnaði varnaraðila er því lýst að sóknaraðili hafi á síðasta áratug mótað þá stefnu að starfsmenn sínir og þá einkum stjórnendur yrðu hluthafar í sóknaraðila og hafi þetta orðið hluti af starfskjörum þeirra. Á árinu 2005 hafi Fjármálaeftirlitið fundið að því að starfsmenn sóknaraðila hafi leitað lánsfjár hjá keppinautum hans til að standa straum af slíkum hlutabréfakaupum og hafi stjórn hans samþykkt af því tilefni í september á því ári að lán til starfsmanna í þessu skyni yrðu ávallt fengin hjá sér. Varnaraðili, sem virðist þá hafa átt orðið 2.362.133 hluti í sóknaraðila, gerði 1. desember 2005 samning við sóknaraðila um lán að fjárhæð 865.927.822 krónur, sem var bundið vísitölu neysluverðs og átti að bera kjörvexti með 0,5% álagi og endurgreiða í einu lagi sama dag á árinu 2010. Samhliða þessu setti varnaraðili fyrrgreinda hluti að handveði til sóknaraðila til að tryggja greiðslu skuldarinnar. Í tengslum við þessa veðsetningu var svofellt ákvæði í lánssamningi aðilanna: „Ábyrgð lántaka á skuldinni skv. lánasamningi þessum takmarkast við andvirði handveðsins og hvers kyns viðbótartrygginga sem hann kann að leggja fram ... en auk þess skal hann því til viðbótar bera ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún er á hverjum tíma með öðrum eignum sínum.“ Í fylgiskjali með lánssamningnum var að finna sundurliðun á fjárhæðum, sem varnaraðili virðist hafa varið til kaupa á hlutum í sóknaraðila allt frá árinu 2000, og mynduðu þær fjárhæð lánsins ásamt lið, sem bar heitið „viðbótarlán“ og nam 120.225.760 krónum. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila tengdist þessi síðastgreindi hluti lánsins, sem var liðlega 13,884% af því, ekki kaupum varnaraðila á hlutum í félaginu.
Auk lánsins, sem að framan er lýst, mun varnaraðili hafa gert samninga 6. október 2004 og 4. janúar 2006 við sóknaraðila um tvö önnur lán, annars vegar að fjárhæð 88.897 svissneskir frankar og hins vegar 42.000.000 krónur, og munu þau ekki hafa tengst kaupum á hlutum í sóknaraðila. Sóknaraðili kveður öll lánin þrjú hafa verið sameinuð í eitt, sem aðilarnir gerðu samning um 21. apríl 2006. Fjárhæð þessa nýja láns var 15.607.470,42 svissneskir frankar, sem mun hafa numið samanlögðu uppgreiðsluverði eldri lánanna, gjalddagi þess var 1. desember 2010 og átti það að bera svonefnda LIBOR vexti með 1,2% álagi. Í samningnum var mælt fyrir um að handveðréttur sóknaraðila, sem áður var getið, tæki til þessarar nýju skuldar. Þar var jafnframt sams konar ákvæði og í lánssamningnum frá 1. desember 2005 um takmörkun á ábyrgð varnaraðila á endurgreiðslu skuldarinnar. Samkvæmt útreikningi, sem sóknaraðili hefur lagt fram, áttu 81,6981926% af fjárhæð þessa nýja láns rætur að rekja til fyrrnefndra kaupa varnaraðila á hlutum í sóknaraðila, en afgangur þess, 18,3018074% fjárhæðarinnar, var slíkum viðskiptum óviðkomandi.
Aftur gerðu aðilarnir samning 22. janúar 2007 um lán, sem þessu sinni var að fjárhæð 881.163.504 krónur, og kveður sóknaraðili lánsfénu hafa verið varið til að greiða upp lán samkvæmt samningi þeirra frá 21. apríl 2006. Eftir málatilbúnaði sóknaraðila var þetta nýjasta lán síðan gert upp með fé, sem varnaraðili tók að láni með enn einum samningi þeirra 25. mars 2008. Fjárhæð lánsins samkvæmt þeim samningi var 13.753.157,66 svissneskir frankar, sem varnaraðili skyldi endurgreiða í einu lagi 1. desember 2010, og átti skuldin að bera LIBOR vexti með 1,2% álagi. Í báðum samningunum, sem hér um ræðir, var kveðið á um að fyrrnefndur handveðréttur í hlutum í sóknaraðila stæði til tryggingar skuld varnaraðila og þar var enn að finna sams konar fyrirmæli um takmarkaða ábyrgð hans á endurgreiðslu skuldarinnar og fram komu í lánssamningnum 1. desember 2005. Sóknaraðili kveður áðurgreind hlutföll hafa haldist óbreytt af fjárhæð lánanna samkvæmt síðustu samningunum tveimur milli þess hluta skuldar varnaraðila, sem stafaði af kaupum á hlutum í sóknaraðila og var þannig 81,6981926% af skuldinni, og þess hluta, sem var óviðkomandi þeim kaupum, eða 18,3018074% hennar.
Á fundi stjórnar sóknaraðila 25. september 2008 var ákveðið að veita forstjóra hans „heimild til þess að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við öll hlutafjárkaupalán starfsmanna, sem keypt hafa hluti í Kaupþingi, með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnunum sé kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum“, svo sem komist var að orði í fundargerð. Þar sagði jafnframt að ábyrgð starfsmannanna „takmarkast við hlutabréfin sem hafa verið sett að veði.“ Þessu til samræmis gaf forstjóri sóknaraðila út yfirlýsingu til varnaraðila á ensku, sem hljóðar þannig í framlagðri þýðingu: „Kaupþing banki ... hefur ákveðið að fullnusta ekki ábyrgð þína vegna hlutafjárkaupalána þinna varðandi kaup á hlutabréfum í Kaupþingi. Ábyrgð þín takmarkast við hlutabréf í Kaupþingi sem sett voru sem veð.“
Í framhaldi af því að Fjármálaeftirlitið setti skilanefnd yfir sóknaraðila 9. október 2008 var stofnaður Nýi Kaupþing banki hf., sem nú ber heitið Arion banki hf. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. sama mánaðar var ráðstafað til nýja bankans öllum eignum sóknaraðila „hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum“, en þó að undanteknum eignum og réttindum, sem getið var í viðauka við ákvörðunina. Samkvæmt yfirlýsingu löggilts endurskoðanda, sem veitti Fjármálaeftirlitinu aðstoð við gerð stofnefnahagsreiknings fyrir nýja bankann, voru meðal eigna, sem fluttar voru til hans frá sóknaraðila, „útlán til lykilstjórnenda Kaupþings banka hf, að mestu leyti vegna hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum, en þessi lán voru áður hýst í útibúi 690 hjá Kaupþingi banka hf.“ Í yfirlýsingunni kom einnig fram að bókfært verð þessara útlána hafi samtals verið 55.360.430.370 krónur, en „mat þeirra í stofnefnahagsreikningi Nýja Kaupþing banka hf, sem útbúinn var af FME, var kr. 0.“ Óumdeilt er í málinu að krafa samkvæmt áðurgreindum lánssamningi sóknaraðila við varnaraðila frá 25. mars 2008 hafi verið meðal þeirra útlána, sem um ræddi í yfirlýsingu löggilta endurskoðandans og færðust til nýja bankans. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila voru þessi réttindi metin verðlaus við flutning þeirra til nýja bankans sökum þess að „engin persónuleg ábyrgð var lengur til staðar vegna lánveitinganna og lánin eingöngu tryggð með veði í hlutabréfum í Kaupþingi sem voru án vafa einskis virði“, svo sem segir í héraðsdómsstefnu.
Með bréfi til varnaraðila 25. ágúst 2010 lýsti sóknaraðili yfir riftun á þeirri ráðstöfun félagsins 25. september 2008 að „fella niður persónulega ábyrgð“ varnaraðila á greiðslu skuldbindingar sinnar samkvæmt lánssamningi aðilanna frá 25. mars 2008. Um heimild til þessa vísaði sóknaraðili til 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þessu fylgdi sóknaraðili eftir með því að höfða mál þetta á hendur varnaraðila 20. október 2010, en í stefnu krafðist sóknaraðili þess að fyrrgreindri ráðstöfun yrði rift og varnaraðila gert að greiða sér 99.300.472 krónur með dráttarvöxtum frá 25. september 2008 til greiðsludags. Undir rekstri málsins fékk sóknaraðili kyrrsettar nánar tilteknar eignir til tryggingar greiðslunni, sem hann gerði kröfu um, og var mál til staðfestingar kyrrsetningunni sameinað máli þessu 17. nóvember 2011. Sóknaraðili breytti framangreindum dómkröfum sínum í þinghaldi í héraði 4. apríl 2013 með því að lækka fjárhæðina, sem hann krafðist að fá greidda, aðallega í 98.704.992 krónur, en til vara 91.883.523 krónur. Með hinum kærða úrskurði var málinu sem fyrr segir vísað frá héraðsdómi.
II
Sóknaraðili skýrir fjárhæðina, sem hann krefst aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér, á þann hátt að heildarfjárhæð skuldar þess síðarnefnda samkvæmt lánssamningi þeirra frá 25. mars 2008 hafi numið 1.208.166.176 krónum þegar ráðstöfunin, sem hann leitast við að fá rift, var framkvæmd 25. september sama ár. Af þeirri fjárhæð hafi 18,3018074% ekki átt rætur að rekja til kaupa varnaraðila á hlutabréfum í sóknaraðila eða 221.116.247 krónur. Það gagnstæða hafi á hinn bóginn átt við um afgang skuldarinnar eða 987.049.929 krónur. Með ráðstöfuninni 25. september 2008 hafi óskert ábyrgð varnaraðila á 10% af þessum síðarnefnda hluta skuldarinnar, 98.704.992 krónum, verið gefin eftir og er það sú fjárhæð, sem sóknaraðili krefst nú að fá greidda. Útreikningurinn á þessari fjárhæð er nægilega reifaður af hendi sóknaraðila og getur engum vafa valdið. Sóknaraðili hefur höfðað mál á hendur fleiri fyrrverandi starfsmönnum sínum, sem höfðu fengið lán hjá honum til kaupa á hlutabréfum í félaginu með kjörum hliðstæðum þeim, sem varnaraðili naut samkvæmt áðursögðu, þar á meðal með sömu takmörkun á ábyrgð á endurgreiðslu skuldarinnar. Í þeim málum hefur sóknaraðili leitað riftunar á eftirgjöf þessarar takmörkuðu ábyrgðar ásamt greiðslu á 10% af fjárhæð skuldar gagnaðila síns eins og hún stóð 25. september 2008. Í dómum, sem gengið hafa í Hæstarétti í slíkum málum, hafa kröfur sóknaraðila af þessum toga verið teknar til greina, meðal annars í dómi 10. maí 2012 í máli nr. 518/2011, með því að lagt hefur verið til grundvallar að gagnaðilinn hafi auðgast um sem svari eftirgjöf á ábyrgð sinni og þar með tjóni sóknaraðila. Hafa úrslit slíkra mála orðið á þennan veg þótt kröfur vegna lána til hlutabréfakaupa, sem sóknaraðili átti á hendur starfsmönnum sínum, hafi verið framseldar Nýja Kaupþingi banka hf. með áðurnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008, alveg á sama hátt og krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila á grundvelli lánssamnings þeirra frá 25. mars sama ár. Að þessu marki verður því ekki séð að nokkuð skorti á reifun sóknaraðila á grundvelli endurgreiðslukröfunnar, sem hann gerir á hendur varnaraðila.
Í hinum kærða úrskurði er vikið að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2013 í máli, sem Arion banki hf. höfðaði gegn varnaraðila, en sá dómur var ekki lagður fram í máli þessu fyrr en undir rekstri þess fyrir Hæstarétti. Í því máli leitaði Arion banki hf. meðal annars dóms um skyldu varnaraðila til að greiða 10% af þeim hluta skuldar sinnar samkvæmt lánssamningnum frá 25. mars 2008, sem átti ekki rætur að rekja til kaupa á hlutabréfum í sóknaraðila, og byggði á því að bankinn hefði fengið kröfuna framselda með fyrrgreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Af þessum dómi er vafalaust að krafa bankans laut aðeins að tíunda hluta af 18,3018074% skuldarinnar samkvæmt lánssamningnum, en eftirgjöfin á takmarkaðri ábyrgð varnaraðila 25. september 2008 tók ekki til þess hluta skuldarinnar og var dómurinn því óviðkomandi þeirri kröfu, sem sóknaraðili gerir í máli þessu. Dómi í því máli, sem tók til greina kröfu Arion banka hf. að þessu leyti, hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, en málinu er ólokið hér fyrir dómi. Þessi málsókn Arion banka hf. skarast á engan hátt við mál sóknaraðila á hendur varnaraðila og getur engum vandkvæðum valdið að því er varðar reifun þess.
Á máli þessu eru að öðru leyti engir þeir annmarkar, sem valdið gætu vísun þess frá dómi. Eru því ekki efni til annars en að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Steingrímur P. Kárason, greiði sóknaraðila, Kaupþingi hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2013.
Mál þetta er höfðað 20. október 2010 og dómtekið 16. apríl 2013 að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík. Stefndi er Steingrímur Páll Kárason, Rue Auguste Liesch, Bertrange í Lúxemborg.
Með ákvörðun dómara 17. nóvember 2011 var mál sem stefnandi hafði höfðað gegn stefnda með réttarstefnu birtri 14. júlí 2011, til staðfestingar kyrrsetningargerð, sameinað máli þessu.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru í fyrsta lagi þær að rift verði þeirri ráðstöfun stefnanda 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu lánasamnings aðila nr. 7334 frá 25. mars 2008. Í öðru lagi gerir stefnandi, aðallega, þá kröfu að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 98.704.992 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001, frá 25. september 2008 til greiðsludags, en til vara að hann verði dæmdur til að greiða 91.883.523 krónur með sömu vöxtum frá sama degi. Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að staðfest verði kyrrsetningargerð Sýslumannsins í Reykjavík 23. júní 2011 þar sem kyrrsettar voru eftirtaldar eignir stefnda: 20% hlutafjár í Hvítsstöðum ehf., kt. 470503-3190, 33.33% hlutafjár í Langárfossi ehf., eignarhluta stefnda í Breiðuvík nr. 5, Reykjavík og Smiðshöfða 9, Reykjavík, og greiðslum að fjárhæð kr. 4.5 milljónir skv. kaupsamningi 20. desember 2010 um fasteignina nr. 15 við Breiðuvík, Reykjavík. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins, til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara stórfelldar lækkunar þeirra. Þá krefst hann þess að felld verði úr gildi fyrrgreind kyrrsetning Sýslumannsins í Reykjavík 23. júní 2011. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Það athugast að hinn 27. maí 2011 var leyst úr frávísunarkröfu stefnda sem grundvölluð var á því að málið væri höfðað á röngu varnarþingi og málshöfðunarfrestir væru liðnir svo og að málatilbúnaður stefnanda væri vanreifaður. Frávísunarkrafa stefnda nú er hins vegar byggð á því að stefnandi hafi breytt grundvelli málatilbúnaðar síns undir meðferð málsins.
Svo sem áður segir var mál þetta þingfest 16. desember 2010 en fyrst tekið fyrir af dómara samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hinn 12. apríl 2011. Stafar dráttur á meðferð málsins að meginstefnu af því ákveðið var, með vísan til samkomulags aðila, að fresta frekari meðferð málsins þar til dómur Hæstaréttar Íslands í tilteknum samkynja málum lægi fyrir, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 10. maí 2012 í máli nr. 518/2011, en einnig vegna úrlausna um matsbeiðni sem stefndi lagði fram 6. júní 2012 og enn á ný 22. nóvember sama árs. Með dómi Hæstaréttar 14. janúar 2013 í máli nr. 736/2012 var endanlega leyst úr síðari matsbeiðni stefnda þannig að unnt væri að ljúka gagnaöflun og ákveða aðalmeðferð.
Undirritaður dómari hefur farið með málið frá og með 6. febrúar 2013.
Málsatvik
Stefndi hóf störf hjá stefnanda árið 1997 og starfaði sem yfirmaður áhættustýringar hans. Í greinargerð stefnda er lýst þeirri stefnu stefnanda að tengja saman hagsmuni bankans og starfsmanna, einkum stjórnenda, með því að stuðla að kaupum á hlutum í stefnanda allt frá því hlutabréf í stefnanda voru skráð í kauphöll á árinu 2000. Þessi stefna hafi verið útfærð nánar á árunum 2003 og 2004, m.a. með stofnun sérstakrar launanefndar, og kynnt fyrir Fjármálaeftirlitinu. Þá er í greinargerð gerð grein fyrir kaupréttarkerfi sem komið var á fót í þessu skyni og lýst samþykkt aðalfundar stefnanda 27. mars 2004 þar sem ákveðið var að veita starfsmönnum kauprétt til hlutabréfakaupa og staðfest að heimildir starfsmanna gætu numið allt að 9% af útgefnum hlutum í stefnanda. Einnig hafi verið samþykkt að fela stjórn stefnanda að veita lán til hlutabréfakaupa til samræmis við almennar reglur stefnanda. Forsenda þessarar stefnu hafi verið sú að starfsmenn yrðu skaðlausir af viðskiptum með hluti í stefnanda. Árið 2005 hafi verið ákveðið, að fenginni athugasemd Fjármálaeftirlitsins, að hlutabréfakaup starfsmanna væru fjármögnum með lánum stefnanda sjálfs.
Í greinargerð er rakið hvernig stefnandi tryggði að starfsmenn yrðu skaðlausir af hlutabréfakaupum í stefnanda með því að starfsmönnum var tryggður söluréttur með ákveðnum skilmálum. Þá segir að í kjölfar innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla árið 2005 hafi verið gerð krafa um að stefnandi myndi draga sölurétt starfsmanna frá eiginfjárgrunni sínum. Af þessu tilefni hafi verið ákveðið að fella niður kaup- og sölurétt og veita starfsmönnum þess í stað lán til hlutabréfakaupa. Hafi ábyrgð starfsmanna í einhverjum tilvikum verið takmörkuð við 10% af stöðu lánsins hverju sinni. Í tengslum við þessa breytingu hafi stefndi fallið frá sölurétti sínum vegna bréfa í stefnanda samkvæmt samningi frá 2003 og hafi í framhaldinu tekið lán hjá stefnanda fyrir hlutabréfakaupum í samræmi við starfskjarastefnu stefnanda. Hinir keyptu hlutir hafi verið settir stefnanda að veði til tryggingar greiðslum á lánunum sem veitt voru til kaupanna. Sala hinna veðsettu hluta hafi verið óheimil, nema stefnandi veitti sérstakt skriflegt samþykki fyrir henni. Framangreindur lánssamningur hafi verið endurfjármagnaður með lánssamningi 21. apríl 2006 og svo aftur þann 22. janúar 2007. Sá samningur hafi síðan verið endurfjármagnaður með þeim lánssamningi sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á.
Hinn 25. mars 2008 gerði stefndi lánasamning nr. 7334 við Kaupþing um lán að fjárhæð 13.753.157.66 svissneskra franka eða jafngildi 1.000.192.528 króna með gjalddaga 1. desember 2010. Svo sem áður greinir var lánið veitt til uppgreiðslu á fyrra láni. Af umræddri fjárhæð fóru 822.068.948 krónur til kaupa á hlutabréfum í stefnanda eða 82.19 %. Lánið varð að greiða í þeim gjaldmiðli sem það samanstóð af sbr. gr. 2.9. í lánasamningi. Skv. 6.gr. samkomulagsins takmarkaðist ábyrgð stefnda við 10% af fjárhæð lánsins eins og það stóð á hverjum tíma. Vextir skyldu vera LIBOR að viðbættu 1.20% vaxtaálagi. Þeir skyldu reiknast á þriggja mánaða fresti í fyrsta sinn 25. júní 2008 og leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 25. mars 2009. Hinn 25. september 2008 stóð sá hluti lánsins sem notaður var til hlutabréfakaupa í 993.004.716 samkvæmt því sem greinir í stefnu.
Á fundi stjórnar stefnanda 25. og 26. september 2008 var lögð fram greinargerð frá starfskjaranefnd hans sem tekin hafði verið saman fyrr í þeim mánuði. Í henni var meðal annars tekið fram að í samræmi við launastefnu stefnanda hefði hann gert starfsmönnum sínum kleift að kaupa hluti í stefnanda og hefði hann fjármagnað þau kaup. Síðan sagði: „Nefndinni er áhyggjuefni að sumir háttsettir stjórnunarstarfsmenn eiga í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna nýlegs falls verðs hlutabréfa. Nefndin er þeirrar skoðunar að taka ætti skref til úrbóta í máli þessu. Megináhersla bankans ætti að vera á að lykilstarfsmönnum hans sé unnt að einbeita sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum.“ Á grundvelli tillagna nefndarinnar ákvað stjórnin að veita Hreiðari Má Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Kaupþingssamstæðunnar, heimild til að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaupalán þeirra með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Samkvæmt því gaf stefnandi út yfirlýsingu 25. september 2008 til stefnda þar sem honum var tilkynnt að stefnandi hefði ákveðið „að fullnusta ekki persónulega ábyrgð“ hans vegna lána til kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Takmarkaðist ábyrgð hans við hlutabréf í stefnanda sem sett hefði verið sem veð.
Af hálfu stefnda er rakið að á þessum tíma hafi verðmæti veðsettra hlutabréfa stefnda verið langt yfir skuldinni. Persónulegir hagsmunir stefnda hafi falist í því að fram færi uppgjör og hann yrði leystur undan áhættu vegna hlutabréfakaupanna í samræmi við ákvæði lánasamninganna og handveðsins.
Tveimur vikum síðar, 8. október 2008, fór stjórn stefnanda þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar hans í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Daginn eftir, 9. október, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar stefnanda og skipaði jafnframt skilanefnd sem tók við heimildum stjórnarinnar. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var öllum eignum stefnanda, þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., að undanskildum nánar tilgreindum eignum. Samkvæmt því voru kröfur stefnanda á hendur stefnda vegna fyrrgreindra lánasamninga framseldar til umrædds banka. Í stefnu segir að mat á þessum kröfum í stofnefnahagsreikningi Arion banka hf. hafi verið ekkert þar sem engin persónuleg ábyrgð væri lengur til staðar og tryggingar væru verðlausar.
Hinn 25. maí 2009 var stefnanda skipuð slitastjórn sem ákvað að rifta þeirri ráðstöfun frá 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu lánasamninganna tveggja. Var honum tilkynnt þessi ákvörðun slitastjórnarinnar með bréfi 25. ágúst 2010 og hann jafnframt krafinn um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar vegna riftunarinnar.
Með beiðni áritaðri um móttöku 1. júní 2011 krafðist stefnandi kyrrsetningar í eignum stefnda í framhaldi af höfðun máls þess. Hinn 23. júní 2011 kyrrsetti Sýslumaðurinn í Reykjavík að kröfu stefnanda eftirtaldar eignir sem stefnandi telur tilheyra stefnda: 20% hlutafjár í Hvítsstöðum ehf., 33.33% hlutafjár í Langárfossi ehf., eignarhluta stefnda í Breiðuvík 5, Reykjavík og Smiðshöfða 9, Reykjavík, og greiðslum að fjárhæð 4.5 milljónir króna skv. kaupsamningi 20. desember 2010 um fasteignina nr. 15 við Breiðuvík, Reykjavík. Við fyrirtöku kyrrsetningarmálsins hjá sýslumanni krafðist stefnandi þess að honum yrði veittur aðgangur að fasteigninni Smiðshöfða 9, Reykjavík, þar sem hann taldi að væri geymt óskráð lausafé í eigu stefnda. Hafnaði sýslumaður beiðni sóknaraðila. Sóknaraðili skaut þessari ákvörðun sýslumanns til dómstóla. Með dómi Hæstaréttar 26. janúar 2012 í máli nr. 40/2012 var staðfestur úrskurður héraðsdóms á þá leið að sýslumanni væri skylt að halda áfram kyrrsetningargerðinni að Smiðshöfða 9 að undangenginni boðun til varnaraðila, Steingríms Páls Kárasonar.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu Vignir Rafn Gíslason, lögg. endurskoðandi, og Gísli Sigurbjörn Óttarsson, starfsmaður áhættustýringar Arion banka hf. skýrslu. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur sérstaklega.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi mótmælir kröfu stefnda um frávísun málsins. Hann bendir á að í stefnu sé gerður áskilnaður um breytingu á kröfugerð verði á því byggt að umrædd lán hafi verið bundin við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þá mótmælir hann fullyrðingum stefnda um vanreifun málsins að öðru leyti.
Stefnandi reisir aðild sína til sóknar á 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009. Hann vísar til þess að þótt framangreindir lánasamningar hafi verið framseldir Nýja Kaupþingi banka hf., Nú Arion banka með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins standi slíkt ekki í vegi fyrir því að stefnandi krefjist riftunar umræddra ráðstafana, enda sé verið að endurheimta verðmæti sem stefnandi hafi gefið eftir fyrir framsal kröfuréttindanna. Stefnandi hafi, ásamt kröfuhöfum sínum, orðið fyrir verðmætamissi sem hann vilji endurheimta. Þannig er á því byggt að verðmæti umræddra lánasamninga hafi verið rýrt með því að fella niður persónulega ábyrgð stefnda og að flutningur lánanna til annars aðila breyti ekki þessari niðurfellingu. Því sé krafan um auðgun stefnda eign stefnanda.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda sé gjöf sem sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ráðstöfunin hafi rýrt eignir stefnanda með því að hún hafi falið í sér eftirgjöf kröfuréttinda. Ráðstöfunin hafi leitt til auðgunar stefnda þar sem hann hafi losnað undan persónulegri greiðsluskyldu og njóti fjármuna sem að öðrum kosti hefðu runnið til stefnanda. Stefnandi telur einnig að ljóst sé að um gjafatilgang hafi verið að ræða. Ráðstöfuninni hafi verið ætlað að ívilna stefnda og öðrum starfsmönnum og létta af þeim fjárhagslegar byrðar á kostnað stefnanda þannig að þeir gætu einbeitt sér að störfum sínum í þágu bankans á erfiðleikatímum. Ákvörðunin hafi verið tekin þegar fyrirsvarsmönnum var, eða mátti vera, ljóst að tekið var að fjara undan fjárhag bankans eða a.m.k. að hætt væri við að svo yrði í ljósi þess ástands sem þá ríkti í bankakerfinu. Með vísan til framangreinds telur stefnandi að um sé að ræða gjöf í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti, enda byggist umrædd ákvörðun bankans hvorki á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu hans.
Verði ekki fallist á að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti byggir stefnandi til vara á því að hún sé riftanlega á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. sömu laga, en stefnandi telur öll skilyrði þeirrar greinar uppfyllt. Ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg þar sem hún hafi ekki verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi. Ráðstöfunin hafi verið óvenjuleg og framkvæmd á miklu erfiðleikatímabili í starfsemi bankans og hafi fyrirsvarsmönnum stefnanda mátt vera það ljóst. Stefnandi hafi einnig verið ógjaldfær á þeim tíma sem hér um ræði, þ.e. staða hans hafi verið slík að hann hafi í raun ekki verið fær um að greiða skuldir sem féllu á gjalddaga í fyrirsjáanlegri framtíð. Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi, sem var forstjóri stefnanda, hafi vitað, eða í öllu falli mátt vita, um ógjaldfærni stefnanda þegar ráðstöfunin var gerð og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 eigi hann rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem af ráðstöfuninni leiddi. Stefnandi byggir á því að auðgun stefnda svari til hinnar persónulegu ábyrgðar sem var felld niður. Ef ekki hefði komið til niðurfellingar persónulegrar ábyrgðar stefnda á láni gagnvart stefnanda, hefði stefnandi getað krafið stefnda persónulega um greiðslu eftirstöðva lánsins. Með umræddri ákvörðun bankans hafi sá möguleiki stefnanda falið niður og það leitt til samsvarandi auðgunar stefnda. Tjón stefnanda svari jafnframt til þeirrar auðgunar stefnda.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að uppgreiðsluverðmæti þess hluta lánsins sem notaður var til hlutabréfakaupa hafi numið þann 25. september 2008 993.004.716 krónum. Vegna 10% takmörkunar nemi fjárhæðin 99.300.472 krónum sem sé kröfugerð stefnanda. Stefnandi vísar til þess að ef miðað er við að um hafi verið að ræða ólögmætt gengistryggt lán samkvæmt fordæmum Hæstaréttar nemi staða lánsins 25. september 2008 hærri fjárhæð. Lýsir stefnandi því yfir að hann geri ekki kröfu um þessa hærri fjárhæð. Dráttarvaxtakrafa er studd við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og vísað til dómvenju þess efnis að riftunarkröfur beri dráttarvexti frá þeim degi sem hinn riftanlega ráðstöfun fór fram.
Stefnandi vísar til þess að verði riftun ekki viðurkennd á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en þess í stað á grundvelli 141. gr. laganna, þá eigi stefnandi skaðabótakröfu á hendur stefnda eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að tjón stefnanda, í skilningi skaðabótareglna, sé hið sama og samkvæmt auðgunarkröfu hans sem rakin er hér að framan.
Að því er lýtur að síðustu efniskröfu stefnanda vísar stefnandi til þess að miklar líkur séu á því að fallist verði á riftunarkröfu hans og ólíklegt sé að málinu verði vísað frá dómi. Skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 sé því uppfyllt en búast megi við að langur tími geti liðið þar til endanlegur dómur gengur. Stefndi hafi haft frammi ráðstafanir sem telja megi líklegar til að minnka og takmarka líkur á því að það takist að fullnusta kröfu stefnanda og einnig hafi efnahagsstaða stefnda versnað. Þá sé krafa málsins mjög há og standi líkur til þess að mestallar eigur stefnda muni ganga til greiðslu kröfunnar. Þá liggi fyrir að stefndi hafi flutt lögheimili sitt til Lúxemborgar og þannig gert það örðugra fyrir stefnanda að tryggja kröfu sína. Telur stefnandi að þegar af þeirri ástæðu séu líkur á að stefndi flytji frekari eignir úr landi og það hafi í för með sér minnilíkur á að stefnanda takist að fullnusta kröfu sína gagnvart stefnda. Stefnandi bendir einnig á möguleika stefnda til að koma fjármunum úr landi með öðrum hætti. Stefndi sé eigandi þeirra eigna sem kyrrsettar voru. Samkvæmt öllu framansögðu verði að ætla að það muni draga mjög úr líkum á að stefnandi fái fullnustu kröfu sinnar ef ekki verður af staðfestingu á kyrrsetningu. Af því leiði að öllum skilyrðum laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann teljist fullnægt.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í endanlegum málatilbúnaði sínum hefur stefndi haldið sjónarmiðum sínum um vanreifun til streitu. Stefndi vísar til þess að engin leið sé að átta sig á því hvaða þýðingu stefnandi leggur í framangreinda yfirlýsingu 25. september 2008 eða hver sé sú persónulega ábyrgð sem hafi verið felld niður með henni. Að hluta til virðist sem stefnandi byggi á því að hin persónulega ábyrgð sem vísað sé til sé ábyrgð stefnda á skuld skv. lánasamningum þeim sem um ræðir en af því myndi leiða að stefndi bæri ekki lengur persónulega ábyrgð á lánasamningunum. Þessi málsástæða stangist hins vegar á við þá staðreynd að Arion banki hf. hafi gert kröfur gegn stefnda vegna lánasamninga á grundvelli persónulegrar ábyrgðar stefnda. Þannig sé ótvírætt að stefnandi og Arion banki hf. séu ekki sammála um þá niðurstöðu að „persónuleg ábyrgð“ stefnda sé niður fallin og að lánið hafi eingöngu verið tryggt með veði í hlutabréfum í Kaupþingi. Stefndi telur einnig óljóst hvort skilja eigi málatilbúnað stefnanda þannig að skuld samkvæmt lánasamningi hafi verið felld niður. Af framlögðum gögnum sé algerlega ómögulegt að átta sig á því hver sú krafa sé sem stefnandi telur sig hafa átt og hvernig hún sé fundin. Stefndi telur einnig að fullyrðing stefnanda um ætlað tjón sitt sé óútskýrð og villandi. Stefndi leggur áherslu á að fullyrðingar stefnanda, svo og gögn málsins, bendi til þess að þeir lánasamningar sem um ræði í málinu hafi verið metnir á núll krónur við framsal til Arion banka hf. Stefndi bendir hins vegar á að allir samningarnir hafi verið metnir með þessum hætti jafnvel þótt persónuleg ábyrgð hefði ekki verið felld niður að fullu í öllum tilvikum. Einnig hefur stefndi bent á að í fjölda annarra tilvika, þ. á m. í tilviki stefnda, hafi lán verið flutt yfir til Arion banka hf. án þess að greiðsla hafi komið fyrir. Sú forsenda endurgreiðslukröfu stefnanda að fullt verð hefði komið fyrir þessi lán, ef ekki hefði komið til yfirlýsing stefnanda 25. september 2008, standist ekki. Grundvöllur endurgreiðslukröfu stefnanda sé því vanreifaður.
Stefndi bendir einnig á að lán nr. 2933, 3160 og 6036 hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu, sbr. ítrekuð fordæmi Hæstaréttar, án þess að útreikningur endurgreiðslukröfu taki nokkurt tillit þess. Þetta varði frávísun málsins án kröfu. Stefndi mótmælir nýjum útreikningi stefnanda á endurgreiðslukröfu, sem lagður var fram undir meðferð málsins, þar sem miðað er við vexti Seðlabanka Íslands. Telur stefndi að með þessum útreikningi hafi stefnandi gerbreytt grundvelli málsins og beri að vísa málinu frá dómi af þeirri ástæðu.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að sú krafa sem stefnandi hafi uppi hafi verið framseld Arion banka hf. 21. október 2008 með öllum tilheyrandi kröfuréttindum og tryggingarréttindum. Stefndi áréttar í þessu sambandi að Arion banki hf. hafi höfðað mál gegn stefnda á grundvelli persónulegrar ábyrgðar hans vegna þeirra lánasamninga sem mál þetta varði. Af þessum ástæðum beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts.
Stefndi reisir málatilbúnað sinn einnig á því að skilyrði bresti til riftunar. Að því er lýtur að 131. gr. laga nr. 21/1991 vísar hann til þess að miða beri við að skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt 25. september 2008. Stefndi telur hins vegar að engin rýrnun hafi orðið á eignum stefnanda á þessum degi enda hafi hann þá ekki gefið eftir neina kröfu. Ljóst sé að engin persónuleg ábyrgð hafi verið fyrir hendi á þessum degi þar sem verðmæti veðsettra hlutabréfa var langt yfir lánsfjárhæð. Ekki hafi því verið um gjöf að ræða eða ótilhlýðilega ráðstöfun.
Stefndi bendir einnig á að af hálfu stefnanda hafi verið komið í veg fyrir möguleika stefnda til að verja fjárhagslega stöðu sína með sölu á hlutabréfum sínum í stefnanda eftir að tryggingarþekja fór undir 120%. Ákvörðun stjórnar stefnanda hafi ekki verið annað en staðfesting á þeim loforðum sem veitt höfðu verið starfsmönnum í lok árs 2007 og allt fram að falli stefnanda í október 2008 um skaðleysi af hlutabréfakaupum í stefnanda. Ákvörðunin hafi verið tekin án samráðs við stefnda og sé ekki hægt að halda því fram nú að hún hafi verið á ábyrgð hans.
Stefndi byggir á því með vísan til framangreindra sjónarmiða að ekki hafi verið sýnt fram á auðgun hans vegna umræddrar ráðstöfunar. Þá telur stefndi að tilgangur stefnanda með yfirlýsingunni 25. september 2008 hafi verið sá að koma í veg fyrir eða fresta því að þurfa að ganga að þeim veðum sem að baki kröfunni stóðu og gera upp við starfsmenn. Þetta hafi verið gert með hagsmuni stefnanda að leiðarljósi enda hafi starfsmenn haft hag af uppgjöri umsvifalaust. Það séu því hrein öfugmæli að líkja ráðstöfun stjórnar stefnanda við gjafagerning til starfsmanna. Stefndi telur einnig að meta verði aðstæður heildstætt. Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að halda frið við starfsmenn og losna undan kröfum um uppgjör. Þetta beri að líta á sem gagngjald fyrir niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar starfsmanna.
Stefndi mótmælir því að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt. Að því er varðar ætlaðan ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar vísar stefndi til þeirra sjónarmiða sem áður hefur verið rætt um í tengslum við 131. gr. laganna, en jafnframt leggur stefndi áherslu á að útilokað sé að hann teljist hafa verið grandvís um ótilhlýðileika við þær aðstæður teljist ótilhlýðileiki sannaður. Stefndi telur að stefnandi hafi ekki verið ógjaldfær eða a.m.k. að ekki hafi verið sýnt fram á ógjaldfærni hans 25. september 2008. Þá álítur stefndi að hann geti ekki talist hafa verið grandvís um ógjaldfærni. Áréttar stefndi í þessu sambandi að hlutabréf stefnanda voru skráð í Kauphöll Íslands og gengu þar kaupum og sölum á margföldu nafnverði, einnig að Seðlabanki Íslands lánaði stefnanda 500 milljónir evra 6. október 2008.
Stefndi mótmælir endurgreiðslukröfu stefnanda. Vísar hann til framangreindra sjónarmiða á þá leið að hvorki hafi verið sýnt fram á auðgun hans með ráðstöfuninni 25. september 2008 né tjón stefnanda við framsal krafna til Arion banka hf. 21. október 2008. Stefnandi geti því ekki átt kröfur á hendur stefnda, hvorki eftir 1. mgr. 142. gr. né 3. mgr. 142. laga nr. 21/1991.
Verði fallist á endurgreiðslukröfu stefnanda að einhverju leyti krefst stefndi þess að krafan verði lækkuð af sanngirnisástæðum, sbr. 145. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi bendir þessu til stuðnings á framangreind sjónarmið þess efnis að krafa stefnanda tengist launakjörum stefnda samkvæmt samþykktri starfskjarastefnu stefnanda og að stefnda hafi í raun verið lofað skaðleysi af hlutabréfakaupum í stefnanda. Riftanleiki persónulegrar ábyrgðar teljist einnig brostin forsenda þar sem stefndi hefði selt hlutabréf sín á þessum tíma ef þetta atriði hefði legið fyrir og gert upp skuldir sínar að fullu. Stefndi vísar einnig til þess að hagsmunir málsins séu litlir með hliðsjón af slitabúi stefnanda og hagsmunum kröfuhafa.
Stefndi byggir kröfu sína um ógildingu kyrrsetningargerðar sýslumanns 28. júní 2011 á því að gerðin hafi verið haldin slíkum annmörkum að ekki verði komist hjá því að ógilda hana. Hann vísar til 1. mgr. 21. gr. laga nr. 89/1990 um aðför um þá meginreglu að gerðarþola skuli tilkynnt með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé komin fram um aðför. Telur stefndi ekki fram komið að hann hafi verið boðaður til gerðarinnar með lögmætum hætti eða með lögmæltum fyrirvara. Tölvupóstur til lögmanns stefnda teljist ekki lögmælt boðun. Sama gildi kvittun fyrir viðtöku stefnda á boðun. Sú kvittun beri ekki með sér að hún hafi verið afhent stefnda eða þar til bærum aðila fyrir hans hönd. Þá hafi verið um að ræða tilkynningu sem afhent hafi verið degi áður en gerðin fór fram hjá sýslumanni sem hafi verið andstætt áðurgreindum lagafyrirmælum. Verði því að líta svo á að engin boðun hafi farið fram en gerðin hafi ekki farið fram á grundvelli undanþáguákvæðis 3. mgr. 21. gr. fyrrgreindra laga.
Þá bendir stefndi á að kyrrsetningin uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um heimild til slíkra gerða, enda sé stefndi ekki eigandi að einkahlutafélaginu Langárfossi ehf. Vísar stefndi hvað þetta varðar til bls. 9 í samandregnum ársreikningi Hvítsstaða ehf. fyrir árið 2009 þar sem fram komi að félagið Hvítsstaðir ehf. eigi allt hlutafé í félaginu.Varðandi kyrrsetningu á tveimur greiðslum að fjárhæð 2.200.000 krónum og 2.300.000 krónum skv. A-lið kaupsamnings 20. desember 2010 um fasteignina Breiðuvík 15, bendir stefndi á að greiðslur þessar hafi verið á gjalddaga 20. desember 2010 og 20. febrúar 2011 eða nokkuð fyrir umrædda kyrrsetningu. Báðar þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi og því engin krafa lengur til staðar til að kyrrsetja. Í munnlegum málflutningi taldi stefndi einnig að ekki væri unnt að staðfesta kyrrsetningu sýslumanns þar sem henni hefði aldrei lokið formlega.
Af öllu framangreindu sé ljóst að veigamikill annamarki hafi verið á framkvæmd og efni kyrrsetningargerðarinnar. Stefndi telur í ljósi þess hve veigamikill annmarkinn er að ekki verði hjá því komist að ógilda kyrrsetningargerðina.
Niðurstaða
Samkvæmt 6. gr. áðurgreinds lánsamnings aðila 25. mars 2008 bar stefndi persónulega ábyrgð „á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún er á hverjum tíma“. Með yfirlýsingu forstjóra stefnanda 25. september sama árs var þessi ábyrgð stefnanda felld niður einvörðungu að því er snerti kaup á hlutabréfum í stefnanda. Stefnandi gengur út frá því í málatilbúnaði sínum að 17,91% af fjárhæð lánsins hafi verið greitt stefnda út í peningum og einungis 82,09% fjárhæðarinnar hafi þannig runnið til kaupa hlutabréfa í stefnanda. Miðar stefnandi auðgun stefnda og endurgreiðslukröfu sína við 10% af þessari síðarnefndu fjárhæð.
Óumdeilt er að kröfuréttindi samkvæmt téðum lánasamningi voru flutt til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú ber heitið Arion banki hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008. Liggur fyrir að Arion banki hf. höfðaði hinn 2. ágúst 2011 mál til innheimtu ákveðins hluta umrædds láns á grundvelli persónulegrar ábyrgðar stefnda og var dómur héraðsdóms um þá kröfu kveðinn upp 25. janúar 2013. Er því slegið föstu í forsendum héraðsdóms að yfirlýsing forstjóra stefnanda 25. september 2008 um niðurfellingu hafi eingöngu tekið til þess hluta lánsins sem notaður var til kaupa á hlutum í stefnanda, svo sem byggt er á í málatilbúnaði stefnanda. Var ráðstöfun stefnanda 25. september 2008 því ekki talin hafa áhrif á greiðslukröfu Arion banka hf. gegn stefnda í málinu.
Eins og áður segir bar stefndi ábyrgð á greiðslu 10% af „heildarfjárhæð lánsins“ eins og það var á hverjum tíma samkvæmt 6. gr. lánasamningsins. Með ráðstöfun stefnanda 25. september 2008 var fjárhæð lánsins ekki felld niður með neinum hætti heldur aðeins persónuleg ábyrgð stefnda vegna hluta fjárhæðarinnar, svo sem áður segir. Ekki kemur fram í ákvæðum samningsins að ef fallið sé frá persónulegri ábyrgð vegna hluta lánsfjárhæðar skuli hin persónulega ábyrgð lækka að tiltölu og taka mið af annarri og lægri fjárhæð en upphaflegri fjárhæð lánsins. Þá hefur ekki verið rökstutt af hálfu stefnanda að slík niðurstaða leiði af öðrum gögnum málsins eða af almennum reglum.
Af fyrirliggjandi gögnum verður þannig ekki annað ráðið en að persónuleg ábyrgð stefnda gagnvart fjárhæð, sem nam 17,91% af heildarfjárhæð lánsins, hafi staðið óhögguð þrátt fyrir ráðstöfun stefnanda 25. september 2008. Samkvæmt þessu bar stefndi persónulega ábyrgð á fjárhæð sem svaraði eftir sem áður til 10% af heildarfjárhæð skuldarinnar, ef marka má fyrirliggjandi gögn og lýsingu málsatvika. Sem fyrr greinir verður að ganga út frá því, hvað sem líður kröfugerð Arion banka hf. í framangreindu héraðsdómsmáli, að umrædd ábyrgð stefnda hafi fylgt kröfuréttindum samkvæmt lánssamningnum við flutning hans til Nýja Kaupþings banka hf. 21. október 2008 og sé það á valdi handhafa þessara réttinda að virkja ábyrgð stefnda.
Með hliðsjón af framangreindu er það álit dómsins að verulega skorti á að stefnandi hafi gert viðhlítandi grein fyrir því með hvaða hætti ráðstöfunin 25. september 2008 leiddi til auðgunar stefnda og hvernig krafa stefnanda um endurgreiðslu fær að öðru leyti stoð í gögnum og atvikum málsins. Þótt á það verði fallist, einkum með vísan til dóms Hæstaréttar 10. maí 2012 í máli nr. 518/2011, að fullnægt sé skilyrðum 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að rifta téðri ráðstöfun stefnanda, er grundvöllur umræddrar endurgreiðslukröfu þannig alfarið óútskýrður. Er að þessu leyti fallist á meginsjónarmið stefnda um vanreifun málatilbúnaðar stefnanda sem telja verður að stefnanda hafi gefist nægur kostur á að tjá sig um við munnlegan flutning málsins.
Hvað sem líður skilyrðum 131. gr. laga nr. 21/1991 leiðir af framangreindri niðurstöðu að stefnandi hefur ekki gert líklegt að hann hafi af því sjálfstæði hagsmuni að fá dóm um riftun ráðstöfunar stefnanda 25. september 2008. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu sjálfkrafa frá dómi í heild sinni.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir að öllu virtu hæfilega ákveðinn 350.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Haraldsson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Kaupþing hf., greiði stefnda, Steingrími Páli Kárasyni, 350.000 í málskostnað.