Hæstiréttur íslands

Mál nr. 713/2009


Lykilorð

  • Fasteignakaup
  • Skaðabætur
  • Málsgrundvöllur
  • Áfrýjun
  • Greiðsla


Fimmtudaginn 21. október 2010.

Nr. 713/2009.

Hafnarfell hf.

(Garðar Briem hrl.)

gegn

Eiríki Ormi Víglundssyni og

Guðmundi H. Víglundssyni

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

og gagnsök

Fasteignakaup. Skaðabætur. Málsgrundvöllur. Áfrýjun. Greiðsla.

H gerði 12. febrúar 2004 kaupsamning við sameignarfélag E og G um kaup á fasteignum í þess eigu. Ekki varð af afhendingu 1. desember 2005 samkvæmt samkomulagi í afsali og gerðu H og sameignarfélagið í tvígang samkomulag um framlengingu  á afhendingarfresti, í hið fyrra sinn til 30. júní 2006 en hið síðara til 30. júní 2007, og fébætur vegna afhendingardráttarins. H höfðaði mál á hendur E og G þar sem hann krafði þá um umsamdar fébætur, vegna tímabilsins allt fram til 30. júní 2007, og um greiðslu fjárhæðar sem svaraði til framangreindra fébóta, vegna tímabilsins frá 1. júlí 2007 til afhendingardags 25. september 2008. Í héraði var fallist á kröfu H um greiðslu á umsömdum fébótum en kröfu um skaðabætur eftir 30. júní 2007 hafnað. Fyrir Hæstarétti var upplýst að E og G hefðu innt af hendi fullnaðargreiðslu á skuld sinni gagnvart H samkvæmt dómsorði héraðsdóms 4. september 2009. Um kröfuna sem héraðsdómur hafnaði segir í dómi Hæstaréttar að málatilbúnaður H fyrir Hæstarétti hefði í veigamiklum atriðum verið frábrugðinn málatilbúnaði hans í héraði og hefði hann meðal annars aflað matsgerðar eftir að héraðsdómur gekk. Væri þetta andstætt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 og var héraðsdómur staðfestur um þetta. Í dómi Hæstaréttar segir einnig að ekki hefði verið efni til annars en að dæma E og G til greiðslu málskostnaðar í héraði, enda hefði verið fallist á kröfu H um greiðslu umsaminna fébóta. Voru E og G því dæmdir til greiðslu málskostnaðar í héraði, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, en H á hinn bóginn gert að greiða þeim E og G málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 1. október 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 18. nóvember 2009 og áfrýjaði hann öðru sinni 14. desember 2010 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða sér 17.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.500.000 krónum frá 22. mars 2006 til 14. apríl 2007, af 9.500.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2007, af 10.000.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2007, af 10.500.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2007, af 11.000.000 krónum frá þeim degi til 1. október 2007, af 11.500.000 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, af 12.000.000 krónum frá þeim degi til 1. desember 2007, af 12.500.000 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2008, af 13.000.000 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2008, af 13.500.000 krónum frá þeim degi til 1. mars 2008, af 14.000.000 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2008, af 14.500.000 krónum frá þeim degi til 1. maí 2008, af 15.000.000 krónum frá þeim degi til 1. júní 2008, af 15.500.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2008, af 16.000.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2008, af 16.500.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2008, af 17.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu gagnáfrýjenda 4. september 2009 að fjárhæð 14.396.070 krónur. Til vara krefst hann lægri fjárhæðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi gagnáfrýjenda óskipt.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu fyrir sitt leyti 11. febrúar 2010. Þeir krefjast sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar úr hans hendi í héraði og fyrir Hæstarétti.

Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

I

Hinn 4. september 2009 greiddu gagnáfrýjendur aðaláfrýjanda 14.396.070 krónur. Aðilar eru sammála um að þetta hafi verið full greiðsla á skuld gagnáfrýjenda samkvæmt dómsorði héraðsdóms. Við greiðsluna gerðu gagnáfrýjendur fyrirvara „um endurheimtu að hluta eða öllu leyti, verði niðurstaða Hæstaréttar önnur og lægri en héraðsdóms.“ Verður talið að með þessum fyrirvara hafi þeir við haldið rétti sínum til að áfrýja héraðsdómi af sinni hálfu. Gagnáfrýjendur byggja kröfu sína um sýknu á því að með greiðslunni 4. september 2009 hafi þeir greitt meira en skylt hafi verið til að ljúka skuld sinni við aðaláfrýjanda, því þeir hafa talið að þeim hafi ekki verið skylt að greiða aðaláfrýjanda dráttarvexti af kröfunni fyrr en frá þingfestingu málsins í héraði 10. desember 2008, en ekki frá 14. október 2007, eins og niðurstaða héraðsdóms hljóðaði um. Hafa gagnáfrýjendur skýrt nefndan fyrirvara við greiðsluna svo að hann hafi lotið að þessu, þó að þeir hafi við endanlega kröfugerð fyrir Hæstarétti ekki talið sér unnt að krefjast sérstakrar dómsviðurkenningar á því. Samkvæmt öllu þessu er ljóst að í sýknukröfu gagnáfrýjenda felst efnislega krafa um staðfestingu á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, með nefndum fyrirvara um upphafsdag dráttarvaxta, en með þeirri breytingu þó að gagnáfrýjendum verði tildæmdur málskostnaður í héraði úr hendi aðaláfrýjanda.

II

Hinn 20. október 2009 dómkvaddi Héraðsdómur Reykjaness að beiðni aðaláfrýjanda matsmann til að meta eftirfarandi: „1. Hvert hefði verið eðlilegt og sanngjarnt leigugjald á markaði fyrir fasteignina Strandgata 82 fyrir hvern mánuð á tímabilinu frá 1. júlí 2007 til 30. september 2008. Hversu há eru fasteignagjöld, brunatryggingariðgjöld og lóðarleiga vegna fasteignarinnar á sama tímabili. 2. Hvert hefði verið eðlilegt og sanngjarnt leigugjald á markaði fyrir fasteignina Strandgata 84 fyrir hvern mánuð á tímabilinu frá 1. júlí 2007 til 30. september 2008. Hversu há eru fasteignagjöld, brunatryggingariðgjöld og lóðarleiga vegna fasteignarinnar á sama tímabili.“ Hefur aðaláfrýjandi lagt fram í Hæstarétti matsgerð hins dómkvadda matsmanns 18. desember 2009. Taldi hann húsaleigu „fyrir Strandgötu 82 og 84 frá 1. júlí 2007 til 30. september 2008 kr. 11.550.000 ...“. Eftir að hafa dregið frá þessari fjárhæð fasteignagjöld, brunatryggingariðgjöld og lóðarleigu, en matsgerðinni fylgdi útreikningur á þessum gjöldum, taldi aðaláfrýjandi leigutap sitt umrætt tímabil nema 7.746.736 krónum. Hann hefði krafist 7.500.000 króna í skaðabætur fyrir sama tímabil og bæri því með tilvísun til matsgerðarinnar að taka þá kröfu til greina að fullu.

III

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lagði aðaláfrýjandi við málssókn þessa þann grundvöll að kröfu sinni vegna tímabilsins 1. júlí 2007 til 30. september 2008 að um væri að ræða skaðabætur sér til handa vegna þess að sameignarfélag gagnáfrýjenda hefði ekki skilað hinum seldu fasteignum fyrr en við lok þessa tímabils. Byggði hann fjárhæð kröfu sinnar eingöngu á því að félag gagnáfrýjenda hefði skuldbundið sig með samningum til að greiða honum 500.000 krónur fyrir hvern mánuð, sem afhending þeirra hefði dregist fram yfir upphaflega umsaminn afhendingardag fram til 1. júlí 2007, en atvikum sem þetta varða er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Var þessi málatilbúnaður nægilega skýr til þess að dæma kröfu aðaláfrýjanda að efni til. Af forsendum héraðsdóms er ljóst að hann taldi ekki unnt að dæma gagnáfrýjendur til að greiða aðaláfrýjanda bætur á þessum grundvelli. Taldi dómurinn að aðaláfrýjandi bæri sönnunarbyrði fyrir því að hann hefði orðið fyrir tjóni umrætt tímabil eftir 1. júlí 2007 og jafnframt hvert tjón hans hefði orðið. Þar sem hann hefði ekki lagt fram gögn um þetta yrði að telja tjónið ósannað. Voru gagnáfrýjendur af þessari ástæðu sýknaðir af þessum hluta kröfu aðaláfrýjanda.

Aðaláfrýjandi aflaði fyrrgreindrar matsgerðar eftir að héraðsdómur gekk. Ljóst er að með henni freistar hann þess fyrir Hæstarétti að leggja nýjan grundvöll að kröfu sinni um bætur fyrir tímabilið 1. júlí 2007 til 30. september 2008, sem er í veigamiklum atriðum frábrugðinn málatilbúnaði hans í héraði. Gagnáfrýjendum gafst því ekki kostur á að verjast hinum nýja málatilbúnaði aðaláfrýjanda þar fyrir dómi eða héraðsdómi að dæma um hann. Aðaláfrýjanda er óheimilt að gera þessar breytingar á málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna um þennan þátt í kröfu aðaláfrýjanda.

Svo sem fyrr sagði styðja gagnáfrýjendur sýknukröfu sína af kröfu aðaláfrýjanda vegna tímabilsins fram til 1. júlí 2007 við fullnaðargreiðslu 4. september 2009 á skuldinni samkvæmt dómsorði héraðsdóms. Fallist verður á að taka beri þessa kröfu þeirra til greina að öðru leyti en því sem varðar málskostnað í héraði. Engin efni voru til annars en að dæma gagnáfrýjendur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði, enda var krafa þess síðarnefnda um greiðslu samkvæmt tveimur yfirlýsingum 22. febrúar 2006 og 14. mars 2007, samtals 9.500.000 krónur, tekin til greina að öllu leyti, en gagnáfrýjendur höfðu ekki innt af hendi greiðslu á þessari skuld auk þess sem þeir höfðu mótmælt fjárhæð hennar. Bar því með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að dæma þá til greiðslu málskostnaðar að því er þennan þátt málsins snerti. Samkvæmt þessu verða þeir dæmdir óskipt, sbr. 1. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991, til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Miðað við úrslit málsins verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjendum óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti og ákveðst hann eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjendur, Eiríkur Ormur Víglundsson og Guðmundur H. Víglundsson, eru sýknir af kröfu aðaláfrýjanda, Hafnarfells hf., að öðru leyti en því að þeir greiði honum málskostnað í héraði, 600.000 krónur.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2009.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 8. maí sl., er höfðað af Hafnarfelli hf., Fjarðargötu 13-15, Hafnarfirði, á hendur Eiríki Ormi Víglundssyni, Nesbala 23, Seltjarnarnesi, og Guðmundi H. Víglundssyni, Erluási 15, Hafnarfirði. Málið var þingfest 10. desember 2008.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 17.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 3.500.000 krónum frá 22. mars 2006 til 14. apríl 2007, af 9.500.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2007, af 10.000.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2007, af 10.500.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2007, af 11.000.000 krónum frá þeim degi til 1. október 2007, af 11.500.000 frá þeim degi til 1. nóvember 2007, af 12.000.000 krónum frá þeim degi til 1. desember 2007, af 12.500.000 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2008, af 13.000.000 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2008, af 13.500.000 krónum frá þeim degi til 1. mars 2008, af 14.000.000 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2008, af 14.500.000 krónum frá þeim degi til 1. maí 2008, af 15.000.000 krónum frá þeim degi til 1. júní 2008, af 15.500.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2008, af 16.000.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2008, af 16.500.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2008, af 17.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Í greinargerð sinni gerðu stefndu kröfu um frávísun málsins en fallið var frá þeirri kröfu í þinghaldi 4. mars sl. Endanlegar dómkröfur stefndu eru því þær að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega auk þess sem þess er krafist að stefndu verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.

II.

Helstu málavextir eru þeir að Vélsmiðja Orms og Víglundar sf., sem er sameignarfélag í eigu stefndu, annars vegar og stefnandi, sem þá hét Sjólaskip hf., hins vegar, gerðu með sér kaupsamning 12. febrúar 2004 um kaup stefnanda á fasteignum á lóðunum að Strandgötu 82 og 84 í Hafnarfirði ásamt lóðarréttindum á lóðunum. Á lóðinni að Strandgötu 82 er spilhús en stálgrindarhús í þremur samsettum hlutum á lóðinni að Strandgötu 84. Afsal var gefið út 19. febrúar 2004. Samkvæmt afsalinu var samkomulag um afhendingardag eignarinnar eigi síðar en 1. desember 2005. Ekki varð af afhendingu samkvæmt samkomulaginu og er óumdeilt í málinu að kaupandi og seljandi gerðu með sér samkomulag um að afhendingarfrestur yrði framlengdur til 30. júní 2006 og undirritaði vélsmiðjan af því tilefni yfirlýsingu þess efnis 22. febrúar 2006. Sama dag var jafnframt undirritað samkomulag um að vegna vanefnda á skuldum sínum um afhendingu samkvæmt kaupsamningi hefði seljandi fallist á að greiða kaupanda fébætur að fjárhæð 3.500.000 krónur. Þann 14. mars 2007 undirritaði vélsmiðjan yfirlýsingu um að hún myndi afhenda hina seldu eign eigi síðar en 30. júní 2007. Sama dag undirrituðu sömu aðilar samkomulag þar sem vísað er til samkomulagsins frá 22. febrúar 2006 og það framlengt um 12 mánuði eða til 30. júní 2007. Vegna framlengingarinnar skyldi seljandi greiða kaupanda fébætur að fjárhæð 6.000.000 króna.

                Samkvæmt framlögðum gögnum var Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. send áskorun dagsett 14. september 2007 þar sem skorað var á hana að standa við yfirlýsingar um að fjarlægja það, sem henni tilheyrði, af hinu selda og jafnframt tilkynnt að yrði svo ekki gert innan sjö sólarhringa, myndi kaupandi eignanna leita til dómstóla og rýming yrði látin fara fram á kostnað vélsmiðjunnar án frekari fyrirvara.

Með áskorun dagsettri 4. október 2007 var Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. gefin 10 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að greiða kaupanda eignanna samtals 14.148.832 krónur í bætur vegna þess að vélsmiðjan hafði ekki staðið við yfirlýsingar um að fjarlægja það, sem henni tilheyrði, af hinni seldu eign. Sundurliðast bótafjárhæðin þannig: 3.500.000 krónur samkvæmt samkomulaginu frá 22. febrúar 2006, 6.000.000 krónur samkvæmt samkomulaginu frá 14. mars 2007, fébætur að fjárhæð 1.500.000 krónur vegna tímabilsins frá 13. júní 2007 til 30. september 2007, dráttarvextir að fjárhæð 2.686.874 krónur og innheimtuþóknun að fjárhæð 461.958 krónur. Í áskoruninni var vélsmiðjunni jafnframt gefinn sjö sólarhringa frestur til að fjarlægja það, sem henni tilheyrði, af hinni seldu eign.

Þann 1. nóvember 2007 var Héraðsdómi Reykjaness send aðfararbeiðni þar sem krafist var dómsúrskurðar um að vélsmiðjunni yrði gert skylt að rýma lóðirnar en gerð var réttarsátt 20. desember sama ár þess efnis að rýmingu eigna og hreinsun lóðar skyldi lokið í síðasta lagi 28. febrúar 2008. Vegna vanefnda var sýslumanninum í Hafnarfirði send aðfararbeiðni 10. júlí 2008, sem tekin var fyrir 18. september sama ár, og var þá veittur frestur til þess að klára rýmingu og afhenda lykla til 25. september 2008. Þann dag var málið tekið fyrir á nýjan leik og lyklar afhentir. Óumdeilt er að rýmingu á lóðinni er ekki enn að fullu lokið. 

Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. samþykkti tvo tryggingarvíxla samtals að fjárhæð 9.500.000 krónur. Eru þeir varðveittir af stefnanda sem trygging fyrir efndum að hluta kröfu hans.

III.

Dómkröfur stefnanda eru byggðar á því að Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. hafi vanefnt tvo samninga sem hún gerði við stefnanda um greiðslu skaðabóta vegna dráttar á afhendingu fasteignar sem sameignarfélag stefndu hafði selt stefnanda. Annars vegar sé um að ræða fjárhæðina 3.500.000 krónur, sem lofað hafi verið að greiða 22. febrúar 2007 og hins vegar 6.000.000 krónur, sem lofað hafi verið að greiða 14. mars 2007. Ekki hafi verið staðið við greiðsluloforðin og engir gjaldfrestir hafi verið veittir og miði því stefnandi upphafsdag dráttarvaxta af dómkröfunum við það tímamark þegar einn mánuður var liðinn frá dagsetningu hvors samkomulags um sig.

Krafa stefnanda um greiðslu á 7.500.000 krónum, sem séu 500.000 krónur fyrir hvern mánuð, sem afhending dróst fram yfir 30. júní 2007, þ.e.a.s. í 15 mánuði fram til 30. september 2008, sé byggð á sömu forsendum og framangreindir tveir samningar þar sem gert var ráð fyrir því að bætur næmu 500.000 krónum fyrir hvern mánuð sem afhendingu seinkaði um. Sé kröfunni mjög í hóf stillt, enda hefði verið tekið mið af samkomulagsgerningum aðila án verðbóta. Upphafsdagur dráttarvaxta vegna þessa kröfuþáttar sé fyrsti dagur hvers mánaðar sem stefnandi hafi verið hindraður í að nýta eignir sínar.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi haft mikið fjármagn bundið í hinu selda og hafi með ólögmætum hætti verið hindraður í að nýta eignir sínar og hafi hann með tímafrekum aðgerðum, með atbeina dómstóla og sýslumanns, þurft að leita réttar síns til þess að geta fengið eignirnar í sínar hendur. Hafi framkoma stefndu í hans garð borið vott um yfirgangssemi og hirðuleysi um rétt annarra, auk þess sem þeir hafi í engu sinnt ítrekuðum kröfum stefnanda um greiðslu hinna umkröfðu skaðabóta, sem þeir hefðu þó að hluta til með afdráttarlausum yfirlýsingum skuldbundið sig til að greiða.

Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða fasteignakaupalaga nr. 40/2002 og almennra reglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Þá vísar stefnandi til vaxtalaga nr. 38/2001 og um málskostnað til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Stefndu byggja kröfu sína um lækkun dómkrafna stefnanda annars vegar á því að fjárhæð þeirra greiðslna, sem Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. hafi gengist undir að greiða stefnanda, sé allt of há. Sameignarfélagið hafi verið í nauðum vegna vanefnda Hafnarfjarðarbæjar og átt engra annarra kosta völ en að ganga að kröfum stefnanda, ef takast átti að halda rekstri félagsins áfram. Á sama tíma hefðu áætlanir stefnanda um nýtingu lóðarinnar brostið og hann hefði því í raun engin not haft fyrir hana. Með hliðsjón af því, séu umsamdar bætur allt of háar og ósanngjarnar í garð félagsins og eigenda þess. Rekstur félagsins á þessum stað og tíma hefði engan veginn getað staðið undir slíkum greiðslum, né hefðu þær verið í eðlilegu hlutfalli við þau not, sem félagið hafði af aðstöðunni. Beri því að lækka dómkröfur stefnanda með vísan til ákvæða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Stefndu hafna alfarið þeim hluta kröfugerðar stefnanda sem byggist á hvorugu samkomulaginu, sem lagt hefur verið fram í málinu. Þær kröfur byggist ekki á viðurkenndum sjónarmiðum og hvorki hafi verið sýnt frá á bótaskylduna, hvert tjón stefnanda sé, né fjárhæð þess. Enginn grundvöllur sé því til greiðslu skaðabóta stefnanda til handa. Fyrsta skylda bótakrefjanda sé að sýna fram á tjón sitt en stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni þann tíma sem vélsmiðjan nýtti mannvirki sín á lóðinni eftir að umsaminn afhendingartími var runninn upp. Stefnandi reki ekki skipasmíðastöð og hafi hvorki mannafla né tæki til slíks rekstrar. Ekki verði séð að lóðin hefði nýst með öðrum hætti eins og málum sé nú háttað. Þá hafi stefnandi nú haft full umráð eignarinnar í marga mánuði og hafi engin not getað haft af henni, að því undanskildu þegar tvö skip voru tekin upp í dráttarsleðanum en þá hefði vélsmiðja stefndu aðstoðað við upptökuna.

Framlögð samkomulagsskjöl séu ekki leigusamningar og í þeim felist ekkert mat á því hvað sé eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir afnot vélsmiðjunnar á eignum stefnanda. Engin starfsemi hafi verið í húsunum á þessum tíma og hefðu þau í raun aðeins nýst sem geymsla. Á árunum 2007 og 2008 hefði verið sáralítill rekstur í slippnum. Eina ástæða þess, að afhending slippsins dróst, hefði verið sú að til þess hefði þurft að eyðileggja brautirnar og þá aðstöðu sem þarna var. Hefði stefndu þótt það afleitt svo lengi sem engin önnur slík aðstaða hafði ekki verið sköpuð hér í bænum enda væri slík aðstaða mikilvæg fyrir bæjarfélagið.

Þar sem ekki liggi neitt fyrir um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og þar sem ekkert mat hafi heldur farið fram á því hagræði sem Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. hafi haft af því að hafa áframhaldandi not af slippnum, sé enginn grundvöllur til að ákveða stefnanda skaðabætur vegna þessa. Sönnunarbyrðin að þessu leyti hvíli á stefnanda en hann hafi enga tilraun gert til að sýna fram á réttmæti kröfugerðar sinnar og beri því að hafna henni.

Stefndu mótmæla sérstaklega öllum vaxtakröfum stefnanda. Enginn gjalddagi hafi verið ákveðinn á greiðslum samkvæmt framlögðum tveimur samkomulagsskjölum. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sé ekki heimilt að reikna dráttarvexti á slíkar kröfur fyrr en mánuður er liðinn frá því skuldari var sannanlega krafinn um greiðslu. Greiðsluáskorun hafi fyrst verið send vélsmiðjunni 14. september 2007 vegna 9.500.000 króna. Hinn 4. október 2007 hafi vélsmiðjunni síðan borist önnur áskorun vegna 11.000.000 króna að höfustóli. Stefndu hafi aldrei borist áskorun um greiðslu fyrr en með birtingu stefnu í þessu máli. Vaxtakröfur stefnanda samrýmist því ekki lögum og beri að hafna þeim eins og þær eru fram settar.

Um lagarök vísa stefndu til ógildingarkafla laga nr. 7/1936, sbr. einkum 36., 31. og 29. gr. laganna. Þá vísa þeir til almennra sjónarmiða um heilbrigða og sanngjarna viðskiptahætti og heimildar dómstóla til að leiðrétta augljóslega ósanngjarna samninga. Stefndu vísa einnig til reglna skaðabótaréttarins um sönnun og sönnunarbyrði að því er varðar bótagrundvöll, tjón og fjárhæð tjóns. Kröfu sína um málskostnað byggja stefndu á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Haraldur Reynir Jónsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, stefndi Guðmundur Helgi Víglundsson og Guðmundur Steinar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda. Verður gerð grein fyrir skýrslum þeirra eins og þurfa þykir hér á eftir.

Óumdeilt er að ekki hefur verið greitt samkvæmt samningum, sem stefnandi og Vélsmiðja Orms og Víglundar sf., sem er í eigu stefndu, gerðu með sér, annars vegar 22. febrúar 2006 og hins vegar 14. mars 2007. Krafa stefndu um lækkun dómkrafna stefnanda byggir eins og áður segir hins vegar á því að samningarnir hafi verið ósanngjarnir og því beri að ógilda þá. Þessu hefur stefnandi mótmælt.

Við mat á því hvort það verði talið ósanngjarnt af hálfu stefnanda eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samningana fyrir sig, verður að líta til efnis þeirra, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika, sem síðar komu til, sbr. ákvæði 2. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Í skýrslu Haraldar Reynis Jónssonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, við aðalmeðferð málsins kom fram að stefnandi hefði viljað fá 800.000 krónur á mánuði í skaðabætur vegna afhendingardráttar stefndu, þ.e. sem næmi 1% af kaupverði eignarinnar, en eftir samningaviðræður við stefndu  hefði samist um það með aðilum að vélsmiðjan greiddi 500.000 krónur á mánuði. Hefði enda öllum verið ljóst að vélsmiðjan ætti í fjárhagserfiðleikum. Guðmundur Steinar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda, staðfesti að stefnandi hefði í upphafi krafist 800.000 króna fyrir hvern mánuð en stefndu hefðu hins vegar boðið 300.000 til 400.000 krónur á mánuði en síðan hefði náðst samkomulag um greiðslu 500.000 króna á mánuði. Að sögn stefnda, Guðmundar Helga Víglundssonar, höfðu stefndu frá upphafi sagt að 800.000 krónur á mánuði væri of há fjárhæð fyrir þá að greiða og hefðu þeir því gert tillögu um helmingi lægri fjárhæð. Hins vegar er ágreiningslaust að um þau kjör hafi samist sem sett eru fram í framlögðum samningum.

Ekki þykir skipta hér máli í hvaða tilgangi stefnandi keypti hið selda, enda verður hvorki séð af gögnum málsins né ályktað af framburði aðila og vætti vitnis að tiltekin nýting hafi verið forsenda kaupa stefnanda á fasteigninni. Einnig kom fram hjá stefnda Guðmundi Helga að sú aðstaða, sem stefndu hefðu fengið vilyrði fyrir hjá Hafnarfjarðarbæ, hefði ekki verið gerð að forsendu í samningum milli málsaðila. Þá er ekkert fram komið í málinu sem leiðir líkum að því að hinar seldu húseignir hafi verið ónýtar eins og stefndu halda fram.

Af framangreindu er ljóst að aðilar málsins hafa samið um þær skaðabótagreiðslur, sem áðurnefndir samningar segja til um. Báðir aðilar hafa stundað atvinnurekstur og verður ekki fallist á það með stefndu að staða þeirra hafi verið svo ójöfn við samningsgerðina að það leiði til þess að samningunum verði vikið til hliðar í heild eða að hluta samkvæmt ógildingarákvæðum samningalaga nr. 7/1936. Þá hefur hvorki verið leitt í ljós að stefndu hafi gengið til samninganna af nauðung né hefur verið sýnt fram á það með gögnum, að umsamdar bætur hafi við undirritun samninganna eða nú verið of háar og ósanngjarnar eins og stefndu halda fram. Fyrir liggur að samningaviðræður fóru fram um fjárhæð bótanna og að niðurstaðan varð sú að vélsmiðja stefndu skyldi greiða stefnanda 500.000 krónur á mánuði á tilgreindu tímabili.

Að framangreindu virtu verður ekki talið að efni séu til að víkja til hliðar samningum aðila frá 22. febrúar 2006 og 14. mars 2007 um að vélsmiðja stefndu greiddi stefnanda þar tilgreindar skaðabætur. Ber stefndu því að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 9.500.000 krónur eins og krafist er samkvæmt þessum kröfulið. 

Eins og rakið er hér að framan sömdu stefnandi og vélsmiðja stefndu um það í tvígang að vélsmiðjan myndi vegna fyrirfram ákveðins tímabils greiða 500.000 krónur á mánuði vegna dráttar á afhendingu hins selda. Stefndu hafa hins vegar mótmælt kröfu stefnanda um að þeir greiði 500.000 krónur fyrir hvern mánuð sem afhending dróst fram yfir 30. júní 2007, enda hafi ekki verið um það samið. Þá hafi hvorki verið sýnt fram á bótaskylduna, tjón stefnanda né fjárhæð þess. Í skýrslu Haraldar Reynis, fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dóminum, kom fram að ekki hefði verið samið sérstaklega við vélsmiðjuna um bótagreiðslur að þessu leyti. Hins vegar hefði stefnandi talið eðlilegt að miða við sömu krónutölu fyrir hvern mánuð og áður hafði verið samið um. Að þessu virtu er ljóst að ekki var samið sérstaklega um greiðslu bóta fyrir greint tímabil. Krafa stefnanda er í stefnu sögð miða við sömu forsendur og framangreindir tveir samningar aðila, þ.e. að um sé að ræða bætur sem nema 500.000 krónum fyrir hvern mánuð sem afhending dróst. Verður því litið svo á að um skaðabótakröfu sé að ræða. Að þessu virtu er fallist á það með stefndu að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni og jafnframt hvert tjón hans hafi orðið. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu stefnanda að þessu leyti og verður því gegn mótmælum stefndu að telja að tjón stefnanda sé ósannað. Verða stefndu því sýknaðir af kröfum stefnanda samkvæmt þessum kröfulið.

Stefndu hafa mótmælt vaxtakröfum stefnanda sérstaklega. Ljóst er að í áðurnefndum samningum stefnanda og vélsmiðju stefndu er ekki tiltekinn sérstakur gjalddagi umsaminna fébóta að fjárhæð stamtals 9.500.000 sem er sú fjárhæð sem stefndu hafa samkvæmt framansögðu verið dæmdir til að greiða stefnanda. Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi sendi stefndu greiðsluáskorun dagsetta 14. september 2007 þar sem skorað var á þá að greiða framangreinda fjárhæð samkvæmt samningunum tveimur. Með vísan til ákvæða 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 þykir rétt að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 14. október 2007 að telja til greiðsludags.

Eftir framansögðu ber stefndu in solidum að greiða stefnanda 9.500.000 krónur í skaðabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. október 2007 til greiðsludags. 

Eftir niðurstöðu málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Arnfríður Einarsdóttir kveður upp dóm þennan.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

D ó m s o r ð :

Stefndu, Eiríkur Ormur Víglundsson, og Guðmundur H. Víglundsson, greiði in solidum stefnanda, Hafnarfelli hf., 9.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. október 2007 til greiðsludags. 

Málskostnaður fellur niður.