Hæstiréttur íslands

Mál nr. 161/2006


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. október 2006.

Nr. 161/2006.

Húsanes ehf.

(Stefán BJ Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Klæðningu ehf.

(Ásgeir Jónsson hdl.)

 

Verksamningur. Matsgerð.

H þótti hafa sannað með mati dómkvaddra matsmanna að hann hefði þegar greitt að fullu fyrir jarðvegsvinnu, sem K hafði tekið að sér fyrir hann. Var H því sýknað af kröfu K um frekari greiðslu vegna verksins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2006. Hann krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnda og að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um endurgjald fyrir hluta jarðvegsvinnu, sem stefndi vann fyrir áfrýjanda, við nýbyggingu að Kristnibraut 95-97 í Reykjavík. Við verkið var miðað við samning sem aðilar höfðu áður gert um samskonar verk við Kristnibraut 99-101, en uppgjör þess virðist hafa verið ágreiningslaust. Við fyrra verkið hafði sá háttur verið hafður á að stefndi bar magntölur byggðar á framvindu verksins undir áfrýjanda áður en reikningur var gerður. Var sama aðferð notuð í byrjun við hið síðara verk en síðan hvarf stefndi frá því verklagi og reis ágreiningur aðila um sama leyti.

Stefndi krefst greiðslu á 1.705.392 krónum samkvæmt reikningum dagsettum 12. maí og 5. júní 2004, að frádreginni innborgun 4. júní 2004 að fjárhæð 500.000 krónur og þeirri lækkun reikninganna sem hann sætti í héraði 310.500 krónur. Áfrýjandi mótmælti tilteknum liðum reikninganna eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Þar sem ekki náðist samkomulag voru að kröfu hans dómkvaddir tveir matsmenn til að meta þá liði í reikningsgerð stefnda sem hann mótmælti. Er matsbeiðni og matsgerð ítarlega lýst í héraðsdómi. Héraðsdómur hafnaði kröfu áfrýjanda um að byggt yrði á matsgerðinni þar sem hún tæki aðeins til hluta verksins. Með matsgerðinni voru metin þau atriði í reikningsgerð stefnda sem mótmæli áfrýjanda lutu að. Henni hefur ekki verið hnekkt og verður því lögð til grundvallar dómi í málinu.

Upplýst er og ágreiningslaust að ekki hafði verið greitt sérstaklega fyrir aðfluttan sand vegna hins fyrra verks, enda slíks ekki krafist. Hefur stefndi borið því við að um mistök hafi verið að ræða. Hvað sem líður réttmæti þeirrar fullyrðingar, er ágreiningslaust með aðilum að hið umdeilda verk skyldi vinna á sama grunni og fyrra verkið. Að þessu virtu verður ekki talið að stefnda hafi borið sérstök greiðsla fyrir aðfluttan sand í hinu síðara verki, enda er ekkert upplýst um hvort og í hvaða mæli hið síðara verk kallaði á meiri sandnotkun en hið fyrra.

Samkvæmt því sem að framan greinir og í samræmi við niðurstöðu matsgerðar, verður talið að áfrýjandi hafi sýnt fram á að hann hafi þegar greitt stefnda að minnsta kosti það sem honum bar fyrir hið umdeilda verk. Breytir engu um þessa niðurstöðu þótt fallist yrði á að matsmenn hefðu ekki tekið með í útreikninga sína efni í uppfyllingu á bílastæði á um 1.5 m spildu næst húsinu, en hvort svo hafi verið verður ekki með vissu ráðið af vætti matsmanna. Verður áfrýjandi því sýknaður og stefnda gert að greiða honum málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum að teknu tilliti til kostnaðar við matsgerð, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Húsanes ehf., skal vera sýkn af dómkröfum stefnda, Klæðningar ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda 1.400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. desember 2005.

Stefnandi er Klæðning ehf., [kt.], Bæjarlind 4, Kópavogi, en stefndi er Húsanes ehf., [kt.], Hafnargötu 12, Keflavík.

Umboðsmaður stefnanda er Ásgeir Jónsson hdl. en umboðsmaður stefnda er Jónas Þór Guðmundsson hdl.

I.  Dómkröfur.

1.  Endanleg dómkrafa er sú, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.205.392 krónur ásamt dráttarvöxtum af kr. 1.024.780 krónum frá 12. júní 2004 til 5. júlí 2004, en af kr. 1.205.392 krónum frá þeim tíma til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

1.  Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

II.  Málavextir.

Stefnandi máls þessa er verktaki, sem gerir út gröfur, vörubíla og önnur jarðvinnslutæki sem og veitir þjónustu tengda því.

Stefndi er hinsvegar byggingaraðili sem hugðist byggja fjölbýlishús á lóðunum nr. 95-97 og 99-101 við Kristnibraut  Reykjavík.  Stefnandi útbjó tilboðsskrá um lóðargerð fyrir lóðina nr. 99-101 við Kristnibraut og bauð út verkið.  Stefnandi hafði meðal annarra gert tilboð í verkið og hljóðaði tilboð hans upp á 4.720.000 krónur m/vsk. og eru þar tilgreind ákveðin einingarverð.

Stefnandi var ekki með lægsta tilboðið, en eftir að hann hafði samþykkt að veita 10% afslátt af einingarverðum var tilboði hans tekið.  Stefnandi lauk þessu verki í samræmi við tilboðið og hefur það verið gert upp án ágreinings.

Þegar svo kom að því að byggja á lóð nr. 95-97 varð að samkomulagi milli aðila, að stefnandi tæki að sér lóðargerð þar á sömu einingarverðum og giltu fyrir lóð nr. 99-101.  Ekki var samt um að ræða ákveðið tilboðsverð miðað við uppgefnar magntölur, en fram er komið af hálfu stefnda að hann taldi lóðirnar álíka.  Stefnandi skilaði svo reikningum til stefnda miðað við framvindu verksins, sem mun hafa hafist í janúar 2004.  Reikningarnir voru greiddir nokkuð eftir að þeir bárust, en þeir reikningar sem stefnt er út af voru ekki greiddir í beinu framhaldi, en þá hafði stefndi greitt 4.639.219 krónur. Eftir útgáfu síðustu reikninga greiddi stefndi  500.000 krónur og hafði því í allt greitt 5.139.219 krónur og taldi að verkið ætti þá að vera fullgreitt. Hafði hann þá hliðsjón af fyrra tilboði og eigin útreikningum á því sem grafið hafði verið upp og svo fyllingu.   Ágreiningur er um  greiðsluskyldu stefnda.

Við skoðun á magntölum vegna uppúrtektar fyllingar og sands, sem stefnandi lagði fram til grundvallar reikningsgerð sinni, kvað stefndi hafa komið í ljós að þær voru alltof háar og þær gætu ekki staðist.  Þá hafi stefnandi reynst vera að krefja um greiðslu fyrir sand sérstaklega án þess að til þess væri heimild og hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu stefnda við það.  Eftir nánari athugun taldi stefndi hafa komið á daginn að hann hafi ofgreitt stefnanda að minnsta kosti 309.668 krónur.  Í þessu sambandi vísaði stefndi til þess fyrirkomulags, sem var milli aðila í sambandi við jarðvinnu vegna Kristnibrautar nr. 99 -101, en þá hafi stefnandi ávallt sent upplýsingar um magntölur til verkfræðings stefnda til samþykktar áður en til reikningsgerðar kom, til að koma í veg fyrir ágreining síðar, en frá þessu vinnulagi hafi stefnandi horfið einhliða í sambandi við reikningsgerð vegna Kristnibrautar nr. 95-97.  Stefnandi hafði hafnað öllum athugasemdum stefnda með bréfi dags. 14. júlí 2004 og tókst ekki að leysa úr ágreiningi aðila. Fram kemur hjá stefnda að hann hafi ítrekað freistað þess að ná samkomulagi, en málið endað þannig að hann hafi fengið annan verktaka til að ljúka jarðvinnu við Kristnibraut 95-97.  Stefnandi hafði þá höfðað mál á hendur honum vegna vangreiddra reikninga.

Reynt var enn að ná sáttum milli aðila hér fyrir dómi en án árangurs og í framhaldi af því voru að ósk stefnda dómkvaddir þann 16. desember 2004 þeir Hjörtur Hansson, byggingarverkfræðingur, Akraseli 31, Reykjavík og Jónas Halldórsson verkfræðingur, Hjallahrauni 15, Hafnarfirði til að meta eftirtalin atriði varðandi jarðvinnu við Kristnibraut 95-97 í Reykjavík.

1.  Hversu mikið magn af efni hefur komið upp við uppúrtekt á bílastæði við jarðvinnu við Kristnibraut 95-97 í Reykjavík samkvæmt mælingum Hreins Jónassonar, verkefnastjóra matsþola og Hauks Margeirssonar, verkfræðings matsbeiðanda, á bílaplani, dags. 5. mars 2004 (dskj. nr. 20)?

2.  Hversu mikið magn af efni hefur þurft við fyllingu í sökkla við jarðvinnu við Kristnibraut 95-97 í Reykjavík samkvæmt botnmælingum Hreins Jónassonar, verkefnastjóra matsþola 21. janúar 2004 (dskj. nr.22)?

3.  Hversu mikið magn af sandi hefur þurft við fyllingu sands að lögnum við jarðvinnu við Kristnibraut 95-97 í Reykjavík samkvæmt teikningum fyrir lagnir í grunni, dags. 26. janúar 2004 (dskj. nr. 24 og 25)?

Niðurstöður matsmanna eru þessar.

1.  Ytri mörk uppgraftrar fyrir bílastæði koma fram á dskj. nr. 20, en hins vegar kemur þar ekki fram hvað áður hafði verið grafið mikið fyrir húsunum.  Á fylgiskjali 5, er sýnt við hvaða mörk miðað er við í útreikningum á flatarmáli uppgraftrar bílastæðis. Við útreikning á rúmmáli er miðað við að meðalþykkt jarðvegs, sem fjarlægður var úr bílastæði, hafi verið 0,9 m eins og málsaðilar komu sér saman um á matsfundi 2 og er uppúrtekt því 1.016 m3.

2.  Fylgiskjal 6 er teikning sem sýnir hvernig magn fyllingar inn í sökkla er reiknað en heildarmagn fyllingar er 637 m3 og er þá miðað við þau mörk sökkla sem ákveðin voru á matsfundi 2.  Innifalið í því magni er sandfylling í lagnaskurði undir botnplötu, sem er 33 m3 skv. fskj. 7.

3.  Fylgiskjal 7 er teikning sem sýnir nokkur þversnið lagnaskurða sem notuð eru til þess að meta hve mikill sandur hafi farið í kringum lagnir undir botnplötu og utan við sökkla.

Engar teikningar eru til sem sýna þversnið lagnaskurða og eru þessi snið því teiknuð upp sem líkleg þversnið mismunandi lagnaskurða að mati matsmanna.  Lengd hinna mismunandi lagnaskurða er tekin upp eftir teikningum Tækniþj. Bæjarlind 14 nr. L-1 og L-2, dags. 26.01.2004, dskj. nr. 24 og 25.  Heildarmagn sands í lagnaskurði skv. ofannefndu er 91 m3.

Á matsfundi 25. febrúar sl. hafði verið rætt um það hvort ástæða væri til að matsmenn mætu fyllingarmagn í bílaplani og meðfram húsinu og ætlaði lögmaður stefnda að athuga það, en engin fyrirmæli komu síðar þar um.

Eftir að matsgerðin var lögð fram var þrívegis reynt að ná sáttum með aðilum, en án árangurs.

III.  Málsástæður og lagarök.

1.  Stefnandi byggir kröfu sína á tveimur reikningum útgefnum 12. maí og 5. júní 2004 samtals að fjárhæð 1.705.392 krónur, en frá því dragast 500.000 krónur sem greiddar voru 4. júní 2004.   Stefnandi vísar til þess að reikningsgerðin sé í samræmi við samkomulag aðila um að tilboðsskrá vegna Kristnibrautar 99-101 með samþykktum breytingum gilti og um lóð nr. 95-97, en líta verði samt til þess, að þó að lóðir þessar séu svipaðar séu þær ekki eins.  Hann vísar í hreyfingarlista, dskj. nr. 7 um hvernig viðskiptin gengu fyrir sig.

Stefnandi mótmælir því, að fylling með rörum hafi verið innifalin í liðunum jarðvinna vegna skolplagna, dren og regnvatnslagna og hafi það verið mistök að gera ekki samskonar kröfu vegna lóðar nr. 99-101 við Kristnibraut.  Vísað er til þess að á lóð nr. 95-97 við Kristnibraut hafi hæðarmismunur verið um 3 metrar og verði því ekki alveg miðað við kostnaðinn við lóðina nr. 99-101 við Kristnibraut.  Stefnandi taldi matsgerð ekki svara því hvort reikningsgerð stefnanda stæðist, þar sem ekki hafi verið farið að tilmælum stefnanda á matsfundi 25. febrúar s.l. um að matsmenn mætu og fyllingarmagn í bílaplön og meðfram húsum.

Til þess að byggja hefði mátt á matsgerðinni hefði þurft að meta uppúrtekt úr öllu svæðinu og fyllingarefnið sem hafi farið í það.  Stefnandi taldi þannig matsgerðina ekki gefa rétta mynd af verknaðarþætti stefnanda og því hafi ekki verið tilefni til að krefjast yfirmats.  Hann kvað ósannað að sandurinn hafi átt að vera innifalinn í einingaverði, tilboðsskráin beri það ekki með sér og það sé ekki venja en ef svo væri, væri það aðeins vegna lagna, en sandur hafi verið fluttur á staðinn í sambandi við önnur not.

Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga.  Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001 og málskostnaðarkrafan styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

2.  Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi eigi engar fjárkröfur á hendur honum vegna meintrar jarðvinnu við Kristnibraut nr. 95-97 í Reykjavík.

Hann mótmælir kröfum stefnanda og þeim forsendum og magntölum sem liggi þeim til grundvallar sem röngum, tilhæfulausum og ósönnuðum.  Hann heldur því fram að magntölur vegna uppúrtektar, fyllingar og sands, sem stefnandi leggi til grundvallar reikningsgerð sinni vegna Kristnibrautar 95-97 séu alltof háar og geti ekki staðist. Verkfræðingar stefnda hafi reiknað út oftaldar magntölur og byggt á þeim útreikningum og tekið á þeim verkþáttum sem sundurliðunarblöðin sem fylgdu hinum umdeildu reikningum stefnanda fjalla um og eru þá röksemdir stefnda þessar.

"Uppúrtekt á c) bílastæði". Samkvæmt mælingum Hreins Jónassonar, verkefnastjóra stefnanda, og Hauks Margeirssonar, verkfræðings stefnda (dskj. nr. 20), og teikningum og útreikningi þess síðarnefnda (dskj. nr. 21 og 16) er flatarmál bifreiðastæðisins 1.087 m2 og meðalþykkt uppúrtektar 0,8 metrar, og verður rúmmálið þá 1.087 x 0,8 = 870 m3. Á hinum umdeildu reikningum stefnanda er magnið hins vegar sagt vera 1.338 m3. Mismunur er því 468 m3. Oftaldar magntölur vegna uppúrtektar eru þannig 468 m3. Ofreiknað vegna þess er þá 468 x 540 (einingaverð með 10% afslætti) = kr. 252.720.

"Fylling b1) í sökkla og b2) í sökkla maí". Samkvæmt botnmælingum Hreins Jónassonar, verkefnastjóra stefnanda, og Hauks Margeirssonar, verkfræðings stefnda (dskj. nr. 22), og teikningum og útreikningi þess síðarnefnda (dskj. nr. 23 og 16) er fylling inn í sökkla 588 m3. Flatarmál innan sökkla er u.þ.b. 600 m2, sem merkir að fyllingin er að meðaltali 1 meter á þykkt. Um það bil 250 m2 af sökklinum er á klöpp, sem var tekin í hæðina 75,8 og fyllt var í hæðina 76,3, þannig að á því svæði var þykktin einungis 0,5 metrar. Á hinum umdeildu reikningum stefnanda er fylling í sökkla talin vera samtals 1.261 m3, samkvæmt nefndum verkþáttum, sem þýðir að meðalþykkt fyllingarinnar er talin vera 2,1 metri, sem er langt frá lagi. Munur á magni er því 673 m3. Oftaldar magntölur í fyllingu eru þannig 673 m3. Ofreiknað vegna þess er þá 673 x 1.080 (einingaverð með 10% afslætti) = kr. 726.840.

"Fylling e) sandur" og "Lagnir". Byggt er á því af hálfu stefnda, að samkvæmt samningi aðila, venjum, viðmiðunarstöðlum og eðli máls, beri að telja alla vinnu og sand innifalinn í einingaverði jarðvinnu vegna lagna (sjá dskj. nr. 16). Á hinum umdeildu reikningum er hins vegar krafist greiðslu fyrir sandinn sérstaklega að því er varðar Kristnibraut 95-97. Kemur þetta fyrst fram á þessum reikningum (dskj. nr. 13 og 14). Enginn slíkur liður er hins vegar á reikningum fyrir Kristnibraut 99-101 og vitnar það um efni samnings aðila að þessu leyti (sjá dskj. nr. 7 og 8). Þá skal hér bent á Byggingarlykil Hannarrs, ráðgjafaþjónustu, sem venja er að hafa til viðmiðunar varðandi hámarksverð á hverja einingu við jarðvinnu. Þar er gert ráð fyrir því að sandur sé innifalinn í einingaverðum (dskj. nr. 26). Í þessu sambandi verður jafnframt að horfa til þess, að starfsmenn stefnda önnuðust í reynd alla jöfnun sands og drenmalar, þrátt fyrir að öll vinna við jarðvinnu eigi að vera innifalin í einingarverðum. Því er mótmælt, að greiða beri fyrir sand sérstaklega, enda andstætt þeim atriðum, sem nefnd eru að framan.

Til vara er byggt á því, að því er þetta atriði snertir, að ósanngjarnt væri, hvað sem öðru líður, að gera stefnda að greiða fyrir sandinn sérstaklega, samkvæmt meginreglum verktaka- og kröfuréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga og fjárhæð og greiðslu verkkaups, sbr. og lögjöfnun frá 1. mgr. 45 gr. og 2. ml. 47. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, og 4. og 28. gr. laga nr. 42/2000, um þjónustukaup. Uppgefin magntala stefnanda vegna sands er 238 m3. Ofreiknað vegna þess er þá 238 x 2.250 (einingaverð með 10% afslætti) = kr. 535.500 (dskj. nr. 16).

Verði ekki fallist á að venja sé fyrir því að telja sand innifalinn í einingaverðum jarðvinnu vegna lagna ásamt vinnuþættinum sjálfum eða, til vara, að ósanngjarnt sé að gera stefnda að greiða sérstaklega fyrir sandinn, byggir stefndi á því til þrautavara, varðandi þetta atriði sérstaklega, að magntölur sands séu oftaldar, hvað sem öðru líður. Samkvæmt lagnateikningum (dskj. nr. 24 og 25) og mælingum verkfræðings stefnda eru lagnirnar, sem um er að tefla, samtals u.þ.b. 400 metrar á lengd, og samkvæmt teikningum á að vera 15 cm sandlag umhverfis lagnirnar, eða 0,16 m3/m. Jafnvel þótt reiknað væri með tvöföldu magni af sandi, þar sem gera má ráð fyrir að þörf sé á nokkru meira af sandi en uppteiknað magn segir til um, og það margfaldað með lengd lagna, fást einungis 128 m3 (dskj. nr. 16). Mismunur er því 110 m3. Stefndi byggir á því, að oftaldar magntölur sands séu þannig a.m.k. 110 m3. Ofreiknað vegna þess er þá 110 x 2.250 (einingarverð með 10% afslætti) = kr. 247.500. - Stefnandi ætti þá eingöngu rétt greiðslu á kr. 288.000 vegna sands (sem stefndi hefur þegar greitt fyrir og meira til, sbr. síðar).

Samtals er því ofreiknað kr. 1.515.060, en kr. 1.227.060 ef miðað er við varamálsástæðu stefnda varðandi sandinn.

Miðað við niðurstöður matsgerðar hafi framangreindar tölur breyst þannig:

1. liður.  Þar sé miðað við að meðal þykkt uppúrtektar sé 0,9 metrar og flatarmál bílastæðis sé 1129 m2 sé þá rúmmál uppúrtektar 1016 m3, en stefnandi miði við 1338 m2 og mismunur því 322 m2 það sinnum 540 krónur gerir 173.880 krónur sem stefndi hafi ofreiknað.

2. liður.  Samkvæmt mati matsmanna hafa farið 637 m3 í fyllingu vegna sökkla, en stefndi krefur fyrir 1261 m3 og því sé oftalið um 624 m3 og miðað við einingaverð sé það 624x1080 eða 673.920 krónur.

3. liður.  Stefndi telur sig ekki eiga að greiða neitt vegna sandfyllingar og því sé ofreiknað fyrir sand um 238 m3 á 2.250.00 krónur á m2 eða um 535.000 krónur.   Ef miðað sé við að sandfylling með rörum sé ekki innifalin hafi farið 91 m3 í að fylla með lögnum og því ofreikni stefndi um 147 m2 á 2.250 krónur m3 eða 330.150 krónur.

Stefndi telji því stefnanda m/v matsgerð hafa ofreiknað um 1.383.300 krónur ef sanduppfylling er innifalin, en ella um 1.178.550 krónur.

Samkvæmt þessu skuldi stefnandi honum 177.908 krónur, sé miðað við að sandfylling sé innifalin í jarðvinnunni, en ella 26.822 krónur.

Stefndi vísar til þess, að ósannað sé að sandfyllingin hafi ekki verið innifalin og beri stefnandi sönnunarbyrðina þar um.

Stefndi mótmælir og dráttarvaxtakröfu stefnanda en umkrafðir reikningar hafi  ekki verið með gjalddaga og því ekki rétt að taka dráttarvexti fyrr en mánuði eftir að stefndi fékk innheimtubréf frá stefnda eða 20. ágúst 2004 og er í því sambandi vísað í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

 

Um kröfur sínar vísar stefndi að öðru leyti til grundvallarreglunnar um skuldbindingargildi samninga og meginreglu verktakaréttar og kröfuréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga.

Um varakröfu er og vísað með löggjöfum til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 4. gr. og 28. gr. laga um þjónustukaup.  Þá styðjist málskostnaðarkrafan við XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.

IV.  Sönnunarfærsla.

Í málinu gáfu skýrslu fyrirsvarsmaður stefnanda, Sigþór Ari Sigþórsson, kt. 290868-5489, Hulduborgum 3, Reykjavík og Hreinn Jónasson, stjórnarformaður þess og yfirverkstjóri, kt. 280551-7599, Grófarsmára 14, Kópavogi, en fyrir stefnda gaf skýrslu framkvæmdastjóri þess Jóhannes Ellertsson, kt. 130962-7269, Háholti 7, Keflavík.

Vitni í málinu báru Haukur Margeirsson, kt. 070249-3919, Þingholtsbraut 7, Kópavogi og matsmennirnir Jónas Halldórsson, verkfræðingur, kt. 081071-2939, Smyrlahrauni 20, Hafnarfirði og Hjörtur Hansson, byggingarverkfræðingur, kt. 150946-4929, Heiðarhjalla 1, Kópavogi.

Í framburði Sigþórs Ara Sigþórssonar fyrirsvarsmanns stefnanda kemur fram að reikningar hafi verið gerðir á stefnda í lok hvers verkþáttar og ekki verið ágreiningur með aðilum fyrr en stefnda hafi verið gerður reikningur fyrir sand og sandakstur 12. maí 2004, en stefndu hafi talið, að þeir hafi ekki átt að borga fyrir sand undir og meðfram lögnum og vísað í tilboðsskrána dskj. nr. 6 og ætti það að vera innifalið í liðum um jarðvegsvinnu vegna skolplagna, en stefnendur hafi ekki krafist sérstaklega greiðslu fyrir sand í sambandi við lóðina nr. 99-101 við Kristnibraut.  Hann kvað það hins vegar hafa verið mistök að það var ekki gert, en samt eigi enn eftir að gera lokareikning vegna þess verks.  Hann kvað tilboðsskrána hafa verið leiðrétta, þar sem niðurstöðutala hafi reynst um einni milljón króna lægri en útreiknuð einingarverð m/v magn, er þau höfðu verið lögð saman.  Hafi þá verið talað um gröft og fyllingu með lögnum og einingarverðið fyrir það verið mun hagstæðara fyrir stefnda, og ekki borið við að sandur væri meðtalinn.  Hann kvað sandinn ekki hafa bara farið undir og með rörum heldur hafi og farið sandur undir mannvirki og plön og einnig undir plötu.  Þá hafi og verið verktaki að vinna þarna hjá, sem hafi fengið sand.  Sandur hafi verið fluttur á staðinn eftir pöntun stefnda og hann getað ráðstafað honum að vild.  Hann kvað stefnda hafa séð um að leggja rörin og þétta með þeim og vísaði til þess, að sá sem það gerði sæi um að sanda með þeim.

Hann mótmælti ekki matsgerðinni út af fyrir sig, en taldi hana ná of skammt.  Hún hefði þurft að ná yfir heildarfyllingarmagn í bílaplan og meðfram húsum. Hann kvað hafa farið fyllingarefni í sökkla og að þeim.  Hann kvað ekki hafa verið ágreining um uppúrtöku úr lóðinni og hann ekki vitað af honum fyrr en eftir að beðið var um mat.  Hann kvað reikning vegna heildaruppúrtöku í mars ekki hafa verið mótmælt í sambandi við innágreiðslu upp á 2.000.000 króna.  Hann kvaðst hafa sent skilagrein eða yfirlit um framvindu verksins til Hauks Margeirssonar, sem svo hafi veitt leyfi til þess að hann skrifaði inn á greiðslureikning.  Hann skýrði reikninga stefnanda um uppúrtöku og fyllingar.

Hreinn Jónasson, stjórnarmaður hjá stefnanda og yfirverkstjóri þar, kvað hafa verið um þjónustusamning að ræða milli aðila.  Stefnandi hafi séð um uppúrtöku úr lóðunum og útvegað efni eftir pöntun.  Hann kvaðst hafa séð um uppgjör og mælingar í sambandi við lóð nr. 99-101 við Kristnibraut og það verið gert upp í samráði við Hauk Margeirsson, en svo hafi Sigþór tekið við af honum.  Hann kvað sand aldrei hafa verið innifalinn í einingaverði, heldur hafi stefnandi bara útvegað hann og hafi það verið mistök að krefjast ekki greiðslu fyrir sand í fyrra verkinu.  Hann hafði verið á öðrum matsfundi og þá hafi stefnandi viljað fá breytingar á matsbeiðninni og viljað láta mæla hlutina í heild sinni, þannig að mælingin næði ekki bara til fyllingar í sökklum, heldur líka til fyllingar utan við sökkla báðu megin, en hæðarmunur í lóðinni hafi sumstaðar verið mjög mikill eða um 2,7 metrar.  Þá hafi þurft að útbúa púða undir krana og vinnusvæði fyrir járnamenn.  Hann kvað stefnda hafa grófjafnað grúsina,  bleytt hana og þjappað.  Hann kvað stefnda ekki hafa kvittað fyrir afhendingu sands.  Hann kvað ekki hafa verið samið um að ÍST-30 gilti.  Hann kvað hafa verið grafið vel út fyrir sökkla.

Jóhann Ellertsson, fyrirsvarsmaður stefnda, kvaðst hafa komið að samningum við stefnanda.  Hann kvaðst fyrst hafa séð akstursskýrslur stefnanda merkt dskj. nr. 41, hér fyrir dómi.  Hann kvað einingaverð í tilboðsskrá hafa verið lækkað af stefnanda miðað við að tilboðsverðið væri í heild 4,7 milljónir króna og svo hafi verið veittur 10% afsláttur og eftir þessa leiðréttingu hafi stefnandi farið í síðara verkið og sömu einingarverð átt að gilda.  Hann kvað Sigþór hafa byrjað að koma með framvindureikninga og Hauki Margeirssyni þótt það óþægilegt, en Hreinn hafði farið yfir magntölur með honum áður en reikningar voru gerðir.  Hann kvað svo hafa komið 2,8 milljón króna reikningar frá stefnanda, sem Hauki þóttu of háir, en hann samþykkt innágreiðslureikning upp á 2.000.000 króna.  Reikningi hafi samt verið mótmælt, þar sem stefndi hafi talið að þar greindar magntölur gætu ekki staðist.  Þá hafi sandur átt að vera innifalinn í einingaverði nema annað væri tekið fram.  Hann vissi ekki um annan sand, en sand með lögnum.  Hann kannaðist ekki við að stefndu hafi séð um að grófjafna, bleyta og þjappa grús.

Vitnið Haukur Margeirsson vann verkfræðivinnu fyrir stefnda í sambandi við þetta verk sem og önnur og bar vitni í málinu. Það hafði komið að mælingu á magni í jarðvegsvinnu og yfirfór tölur um magn þess fyllingarefnis, sem verktakinn taldi sig hafa komið með.  Það hafði ekki komið að verksamningum.  Það kvað stefnanda hafa tekið með uppgröft úr bílaplani 2 metra frá húsi að bílaplani, sem grafið hafði verið upp um leið og grafið var upp fyrir húsinu.  Það kveðst hafa tekið saman á dómskj. nr. 49, það sem það taldi vera réttar magntölur og vildi að verktakinn endurskoðaði reikninga sína eða tilgreindi magn út frá því.  Það kvaðst svo hafa gert sjálfstæða reikninga um þetta sbr. dskj. nr. 16.  Það kvað ekki hafa verið búið að grafa upp úr bílastæðinu þegar stefnandi fór frá verkinu, það hafi vantað 200-300 m3, en í járnaplan hafi farið 20-30 m3.

Vitnið Jónas Halldórsson, staðfesti matsgerð sína í málinu.  Það kvað hafa verið grafið upp úr meiru en bílastæðinu og hafi meðalfjarlægð frá húsi að bílastæði, sem reiknað var með að grafið hafi verið reynst 1,5 m og flatarmál svæðisins sem grafið hafi verið upp verið 1129 m2 og heildarmagn uppúrtektar innan sökkla og með sökklum væri 1016 m3, en þá væri ekki með svæðið frá bílastæði að húsi.

Það sagði að þegar rúmmál fyllingar efnis væri reiknað væri ekki gert ráð fyrir rýrnun vegna þjöppunar.

Vitnið Hjörtur Hansson staðfesti og matsgerðina.  Það kvað flatarmál bílastæðis hafa verið 1129 m2 og rúmmál uppúrtektar 1016 m3.  Það kannaðist við að á 2. matsfundi hafi stefnandi viljað láta meta heildarfyllingarmagn lóðar, sem grafið hafði verið upp og ætlaði lögmaður matsbeiðanda að athuga það, en síðar hafi komið skilaboð um að matsbeiðnin stæði óbreytt.  Það kvað þá matsmenn ekki hafa verið beðna um að meta fyllingarmagn í bílastæði.

V.  Niðurstöður.

Óumdeilt er í málinu að tilboðsskrá sem samþykkt hafði verið milli aðila um Kristnibraut 99-101 skyldi gilda um framkvæmdir við lóðir nr. 95-97 við Kristnibraut að því er einingarverð varðaði eins og þau höfðu verið leiðrétt af stefnanda og með 10% afslætti frá tilboðsskrá.

Fallast má á það að þó að lóðarstærðin fyrir húsin nr. 95-97 og 99-101 við Kristnibraut séu svipuð eru lóðirnar ekki alveg eins og geta því niðurstöður tilboðsskrárinnar ekki gilt óbreyttar um lóðirnar nr. 95-97 við Kristnibraut.

Þá er það mat réttarins að framlögð matsgerð í málinu sé það takmörkuð, að hún hafi lítið gildi við að leysa úr þeim ágreiningi sem er milli aðila og hefðu farið betur á því að matsbeiðni hefði verið breytt að kröfu stefnanda á öðrum matsfundi, en þeir útreikningar sem fram komu í matsgerð hefðu verkfræðingar aðila getað sjálfir framkvæmt án mikils aukakostnaðar.

Þá er það mat réttarins að sú aðferð sem tíðkaðist milli aðila um reikningsgerð og uppgjör, þ.e. að aðilar færu saman yfir magntölur fyrir útgáfu reikninga í sambandi við Kristnibraut 99-101 séu í samræmi við þær reglur og venjur sem gilda í sambandi við verksamninga og verktökur.  Sú aðferð að annar aðilinn gerir einhliða reikninga miðað við framlegð verksins er mun óalgengari og leiðir fremur til deilna og ágreinings síðar, eðlilegra væri að um innágreiðslur væri að ræða með vísun til að síðar yrði farið í sameiningu yfir magntölur.  Verður stefnandi að bera halla af þessu.

Við samþykkt tilboðsskrárinnar verður að telja, að komist hafi á verksamningur milli aðila og gildi um hann samningalög og lög um lausafjárkaup með lögjöfnun.

Verður nú fjallað um einstaka liði verksamningsins, sem ágreiningur er um.

Rétturinn telur að þegar borin séu saman tilboðsskráin, dómskj. nr. 26 og dómskj. nr. 13 komi fram mismunur á einingaverðum sem ekki verði skýrður öðruvísi en að sandur með rörum sé innifalinn í einingaverðum samkv. tilboðsskrá, sem samrýmist því að ekki var gerð krafa um greiðslu þessa kostnaðar við lóðargerð að Kristnibraut 99-101. Sá sem kemur að gerð tilboðsskrárinnar af hálfu stefnanda var ekki kvaddur til skýrslutöku  fyrir dóminn til að bera um þetta..  Það þykir mega að mestu byggja á matsgerð um hve mikið magn sands hafi farið í fyllingu sands með lögnum, en þó er ljóst þegar þverskurðirnir eru skoðaðir sem fylgdu matsgerðinni að heldur meira magn sands hefur notast, en þar er gert ráð fyrir og þykir rétt að miða við 100 m3 og verður því reikningur stefnanda lækkaður um 310.500 krónur.

Gögn málsins svo sem ljósmyndir, framburður o.fl. leiða í ljós, að sandur hefur farið í fleira en   með lögnum, t.d. er líklegt að einhver sandur hafi verið settur undir plötu, áður en hún var steypt, og þykir ekki ástæða til að vefengja reikninga stefnanda vegna sands, en þeir eru studdir með akstursnótum og ber því stefnda að greiða stefnanda 250.000 krónur fyrir sand.

Rétturinn telur að að öðru leyti hafi stefnda ekki tekist að sýna fram á að reikningar stefnanda séu ósanngjarnir eða tilhæfulausir og í ósamræmi við tilboðsskrána.  Fyrir liggur að matsgerðin nær einungs til upptektar úr bílastæðinu, en ekki úr húsgrunninum og eingöngu eru metnar fyllingar inn í sökkla, en ekki utan með þeim eða í bílastæðið og því þykir matið ekki nægja til að hnekkja reikningsgerð stefnanda, og verður  því  byggt á reikningsgerðinni.  Fullyrðingar stefnda um að annar verktaki hafi annast hluta af því verki, sem stefnandi krefur greiðslu fyrir er ekki studd neinum gögnum, en stefndi var í stöðu til að fylgjast með öllum verkþáttum í sambandi við lóðargerðina.

Samkvæmt þessu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda 894.892 krónur.  Vaxtakrafa stefnanda er tekin til greina þannig að stefndi greiði dráttarvexti af kr. 714.280,- frá 12. júní 2004 til 5. júlí 2004, en af 894.892 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þegar virt er að mál þetta var höfðað nær því í beinu framhaldi af reikningsgerð án fullnægjandi aðgerða til að ná sáttum á grundvelli heildarúttektar á verkinu og að stefnandi breytti einhliða aðferðinni við gerð framvindu reikninga, sem var líkleg til að valda ágreiningi síðar, þykir málskostnaður stefnanda, sem stefnda ber að greiða hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Dóm þennan kveða upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Stanley Pálsson, verkfræðingur.

DÓMSORÐ

Stefndi, Húsanes ehf., greiði stefnanda Klæðningu ehf., 894.892 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 714.280 krónum frá 12. júní 2004 til 5. júlí 2004, en af 894.892 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.