Hæstiréttur íslands

Mál nr. 552/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Samningur
  • Uppsögn
  • Málsástæða
  • Aðfinnslur


                                              

Þriðjudaginn 9. október 2012.

Nr. 552/2012.

Teris

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.

(Jóhann Pétursson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Samningur. Uppsögn. Málsástæða. Aðfinnslur.

T lýsti kröfu við slit sparisjóðsins S en T hafði séð um rekstur ýmiss konar tölvu- og upplýsingakerfa fyrir S. Talið var að samningar aðila hefðu fallið niður þegar S var skipuð slitastjórn en krafa T var vegna tímabils sem hófst eftir það tímamark. Var því ekki fallist á kröfu T að þessu leyti, enda töldust hvorki hafa komist á nýir samningar milli aðila né eldri samningar verið framlengdir. Þá var ekki fallist á með T að S bæri að greiða fyrir hýsingu T á gögnum úr tölvukerfum S þann tíma sem Fjármálaeftirlitið taldi að varðveita þyrfti gögnin til framtíðar. Vísað var til þess að þótt S bæri ábyrgð á varðveislu gagnanna hefði þess ekki verið óskað af hálfu slitastjórnar S að T hýsti þau í samræmi við fyrirmæli Fjármálaeftirlitsins. Kröfu T var því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediksdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2012, þar sem hafnað var nánar tilteknum kröfum, sem sóknaraðili hafði lýst við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að þrjár kröfur hans verði viðurkenndar við slit varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, í fyrsta lagi krafa að fjárhæð 193.429.806 krónur, í öðru lagi krafa aðallega að fjárhæð 35.267.640 krónur en til vara 22.436.888 krónur og í þriðja lagi krafa aðallega að fjárhæð 439.532.635 krónur en til vara 300.518.496 krónur. Sóknaraðili krefst þess einnig að fyrstnefndu kröfurnar tvær beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum, í fyrra tilvikinu frá 1. ágúst 2009 en í því síðara frá 1. febrúar 2010. Til vara krefst hann þess að sömu kröfur verði viðurkenndar við slit varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. fyrrnefndra laga, en að því frágengnu að þær verði viðurkenndar með öðrum lægri fjárhæðum. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að kröfur sóknaraðila, að því marki sem þær kunni að verða teknar til greina, verði látnar njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að ágreiningur aðilanna snýst um hvort sóknaraðili eigi kröfur á hendur varnaraðila á grundvelli samninga þeirra um tölvuþjónustu, annars vegar kröfu um greiðslu á uppsagnarfresti og hins vegar endurgjald fyrir svonefnda hýsingu gagna frá varnaraðila eftir að samningunum hafi verið sagt upp. Í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti er því sérstaklega borið við að hluti af kröfum hans, að fjárhæð 12.224.231 króna, eigi rætur að rekja til þjónustu, sem hann hafi veitt varnaraðila áður en uppsagnarfrestur á samningum þeirra hófst. Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi kom að vísu fram að hluti af kröfu hans vegna tiltekinna þjónustuliða tæki „að mestu til uppsagnartímabils“ samkvæmt samningunum, en einnig „til tímabila fyrir það tímamark.“ Í greinargerðinni var þess ekki getið nánar hvaða hluti kröfunnar hafi fallið til fyrir uppsögn samninganna og verður það ekki ráðið af gögnum málsins. Þar var heldur ekki reifað hvaða áhrif þetta gæti haft varðandi viðurkenningu á hluta af kröfu sóknaraðila. Verður því að líta svo á að málsástæða um þetta hafi í reynd ekki komið fram fyrir héraðsdómi og getur hún ekki komist að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að eftir að aðilarnir lögðu fram greinargerðir fyrir Hæstarétti hvor fyrir sitt leyti lagði sóknaraðili fram svonefndar athugasemdir til að svara málatilbúnaði í greinargerð varnaraðila og lagði sá síðarnefndi einnig fram athugasemdir fyrir sitt leyti í kjölfarið. Fyrir þessum skriflega málflutningi aðilanna er engin lagaheimild og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Teris, greiði varnaraðila, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2012.

A

Mál þetta, sem þingfest var 11. maí 2011, var tekið var til úrskurðar 10. maí sl.

Sóknaraðili er Teris, Hlíðasmára 19, Kópavogi.

Varnaraðili er slitastjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Reykjavík.

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess að við slitameðferð á búi varnaraðila, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, verði kröfur hans, er hann lýsti með kröfulýsingu, nr. 192 á kröfuskrá, teknar til greina, svo breyttar:

I.                    Aðallega, að

1.       Kröfur samkvæmt B-lið í kröfulýsingu, eins og þær hafa verið leiðréttar og sem nánar eru sundurliðaðar á dskj. 51 í málinu, verði ásamt dráttarvöxtum viðurkenndar sem búskröfur samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 með kr. 193.429.806. Nánar tiltekið er um að ræða svohljóðandi kröfur sem allar eru gjaldfallnar við framlagningu greinargerðar þessarar: Kr. 193.429.806 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 592.052 frá 1.8. 2009 til 1.9. 2009, af kr. 2.588.247 frá þeim degi til 1.10. 2009, af kr. 6.010.180 frá þeim degi til 1.11. 2009, af kr. 9.739.092 frá þeim degi til 1.12. 2009, af kr. 13.464.983 frá þeim degi til 1.1. 2010, af kr. 25.961.300 frá þeim degi til 1.2. 2010, af kr. 37.787.822 frá þeim degi til 1.3. 2010, af kr. 49.580.790 frá þeim degi til 1.4. 2010, af kr. 61.446.237 frá þeim degi til 1.5. 2010, af kr. 73.341.815 frá þeim degi til 1.6. 2010, af kr. 84.614.607 frá þeim degi til 1.7 2010, af kr. 95.797.363 frá þeim degi til 1.8. 2010, af kr. 106.358.374 frá þeim degi til 1.9. 2010, af kr. 118.193.703 frá þeim degi til 1.10. 2010, af kr. 130.424.901 frá þeim degi til 1.11. 2010, af kr. 146.993.252 frá þeim degi til 1.12. 2010, af kr. 160.088.762 frá þeim degi til 1.1. 2011, af kr. 163.658.736 frá þeim degi til 1.2. 2011, af kr. 167.086.883 frá þeim degi til 1.3. 2011, af kr. 170.636.766 frá þeim degi til 1.4. 2011, af kr. 175.090.595 frá þeim degi til 1.5. 2011, af kr. 179.647.391 frá þeim degi til 1.6. 2011, af kr. 184.202.938 frá þeim degi til 1.7. 2011, af kr. 188.816.372 frá þeim degi til 1.8. 2011 og af kr. 193.429.806 frá þeim degi til greiðsludags.

2.       Kröfur samkvæmt C-lið í kröfulýsingu, eins og þær hafa verið leiðréttar og sem nánar eru sundurliðaðar á dskj. 293 (áður 52) og dskj. 294 (áður 53) í málinu, verði viðurkenndar sem búskröfur samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, aðallega með kr. 35.267.640 en til vara með kr. 22.436.888. Nánar tiltekið er um að ræða svohljóðandi kröfur sem allar eru gjaldfallnar við framlagningu greinargerðar þessarar:

a)      Aðallega kr. 35.267.640 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 111.600 frá 1.2 2010 til 1.3 2010, af kr. 223.200 frá þeim degi til 1.4. 2010, af kr. 334.800 frá þeim degi til 1.5. 2010, af kr. 446.400 frá þeim degi til 1.6. 2010, af kr. 558.000 frá þeim degi til 1.7. 2010, af kr. 669.600 frá þeim degi til 1.8. 2010, af kr. 1.481.137 frá þeim degi  til 1.9. 2010, af kr.  2.292.674 frá þeim degi til 1.10 2010, af kr. 3.104.210 frá þeim degi til 1.11. 2010, af kr. 3.915.747 frá þeim degi til 1.12. 2010, af kr. 4.727.284 frá þeim degi til 1.1 2011, af kr. 8.020.045 frá þeim degi til 1.2. 2011, af kr. 11.312.806 frá þeim degi til 1.3. 2011, af kr. 14.605.566 frá þeim degi til 1.4. 2011, af kr. 18.737.981 frá þeim degi til 1.5. 2011, af kr. 22.870.396 frá þeim degi  til 1.6. 2011, af kr. 27.002.811 frá þeim degi til 1.7. 2011, af kr. 31.135.226 frá þeim degi til 1.8. 2011 og af kr. 35.267.640 frá þeim degi til greiðsludags.

b)      Til vara kr. 22.436.888 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 69.750 frá 1.2.2010 til 1.3.2010, af kr. 139.500 frá þeim degi til 1.4.2010, af kr. 209.250 frá þeim degi til 1.5.2010, af kr. 279.000 frá þeim degi til 1.6.2010, af kr. 348.750 frá þeim degi til 1.7.2010, af kr. 418.500 frá þeim degi til 1.8. 2010, af kr. 862.975 frá þeim degi til 1.9.2010, af kr. 1.307.450 frá þeim degi til 1.10.2010, af kr. 1.751.925 frá þeim degi til 1.11.2010, af kr. 2.196.400 frá þeim degi til 1.12.2010, af kr. 2.640.875 frá þeim degi til 1.1.2011, af kr. 4.775.216 frá þeim degi til 1.2.2011, af kr. 6.909.557 frá þeim degi til 1.3.2011, af kr. 9.043.898 frá þeim degi til 1.4.2011, af kr. 11.722.496 frá þeim degi til 1.5.2011, af kr. 14.401.094 frá þeim degi til 1.6.2011, af kr. 17.079.692 frá þeim degi til 1.7.2011, af kr.19.758.290 frá þeim degi til 1.8.2011 og af kr. 22.436.888 frá þeim degi til greiðsludags.

3. Kröfur samkvæmt C-lið í kröfulýsingu, eins og þær hafa verið leiðréttar og sem nánar eru sundurliðaðar á dskj. 293 (áður 52) og dskj. 294 (áður 53) í málinu, verði viðurkenndar sem búskröfur samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 a) aðallega með kr. 436.897.372 en b) til vara með kr. 299.107.657. Nánar tiltekið er um að ræða kröfu vegna hýsingar sem ekki var gjaldfallin við ritun greinargerðar en gjaldfellur á tímabilinu 1. júlí 2011 til 1. mars 2017, þó aldrei lengur en þar til Fjármálaeftirlitið hefur staðfest að eyða megi gögnum sem eru í varðveislu sóknaraðila.

II.           Til vara, að

1.       Kröfur samkvæmt B-lið í kröfulýsingu, eins og þær hafa verið leiðréttar og sem nánar eru sundurliðaðar á dskj. 51 í málinu, verði ásamt dráttarvöxtum viðurkenndar sem búskröfur samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 með kr. 193.429.806. Nánar tiltekið er um að ræða svohljóðandi kröfur sem allar eru gjaldfallnar við framlagningu greinargerðar þessarar: Kr. 193.429.806 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 592.052 frá 1.8. 2009 til 1.9. 2009, af kr. 2.588.247 frá þeim degi til 1.10. 2009, af kr. 6.010.180 frá þeim degi til 1.11. 2009, af kr. 9.739.092 frá þeim degi til 1.12. 2009, af kr. 13.464.983 frá þeim degi til 1.1. 2010, af kr. 25.961.300 frá þeim degi til 1.2. 2010, af kr. 37.787.822 frá þeim degi til 1.3. 2010, af kr. 49.580.790 frá þeim degi til 1.4. 2010, af kr. 61.446.237  frá þeim degi til 1.5. 2010, af kr. 73.341.815 frá þeim degi til 1.6. 2010, af kr. 84.614.607 frá þeim degi til 1.7 2010, af kr. 95.797.363 frá þeim degi til 1.8. 2010, af kr. 106.358.374 frá þeim degi til 1.9. 2010, af kr. 118.193.703 frá þeim degi til 1.10. 2010, af kr. 130.424.901 frá þeim degi til 1.11. 2010, af kr. 146.993.252 frá þeim degi til 1.12. 2010, af kr. 160.088.762 frá þeim degi til 1.1. 2011, af kr. 163.658.736 frá þeim degi til 1.2. 2011, af kr. 167.086.883 frá þeim degi til 1.3. 2011, af kr. 170.636.766 frá þeim degi til 1.4. 2011, af kr. 175.090.595 frá þeim degi til 1.5. 2011, af kr. 179.647.391 frá þeim degi til 1.6. 2011, af kr. 184.202.938 frá þeim degi til 1.7. 2011, af kr. 188.816.372 frá þeim degi til 1.8. 2011 og af kr. 193.429.806 frá þeim degi til greiðsludags.

2.       Kröfur samkvæmt C-lið í kröfulýsingu, eins og þær hafa verið leiðréttar og sem nánar eru sundurliðaðar á dskj. 295 og 296 í málinu, verði viðurkenndar sem búskröfur samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, a) aðallega með kr. 96.564.530 en b) til vara með kr. 64.705.792. Nánar tiltekið er um að ræða svohljóðandi kröfur sem allar eru gjaldfallnar við framlagningu greinargerðar þessarar: 

a)    Aðallega kr. 96.564.530  með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 811.537 frá 1.9.2009 til 1.10.2009, af kr. 1.623.074 frá þeim degi til 1.11.2009, af kr. 2.434.610 frá þeim degi til 1.12.2009, af kr. 3.246.147 frá þeim degi til 1.1.2010, af kr. 6.538.908 frá þeim degi til 1.2 2010, af kr. 9.831.669 frá þeim degi til 1.3 2010, af kr. 13.124.430 frá þeim degi til 1.4. 2010, af kr. 16.417.190 frá þeim degi til 1.5. 2010, af kr. 19.709.951 frá þeim degi til 1.6. 2010, af kr. 23.002.712 frá þeim degi til 1.7. 2010, af kr. 26.295.473 frá þeim degi til 1.8. 2010, af kr. 29.588.234 frá þeim degi  til 1.9. 2010, af kr. 34.633.529 frá þeim degi til 1.10 2010, af kr. 39.678.824 frá þeim degi til 1.11. 2010, af kr. 44.724.120 frá þeim degi til 1.12. 2010, af kr. 49.769.415 frá þeim degi til 1.1 2011, af kr. 54.814.711 frá þeim degi til 1.2. 2011, af kr. 59.860.006 frá þeim degi til 1.3. 2011, af kr. 64.905.301 frá þeim degi til 1.4. 2011, af kr. 71.237.147 frá þeim degi til 1.5. 2011, af kr. 77.568.993 frá þeim degi til 1.6. 2011, af kr. 83.900.839 frá þeim degi til 1.7. 2011, af kr. 90.232.684 frá þeim degi til 1.8. 2011 og af kr. 96.564.530 frá þeim degi til greiðsludags.

b)    Til vara kr. 64.705.792 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 444.475 frá 1.9.2009 til 1.10.2009, af kr. 888.950 frá þeim degi til 1.11.2009, af kr. 1.333.425 frá þeim degi til 1.12.209, af kr. 1.777.900 frá þeim degi til 1.1.2010, af kr. 3.912.241 frá þeim degi til 1.2.2010, af kr. 6.046.583 frá þeim degi til 1.3.2010, af kr. 8.180.923 frá þeim degi til 1.4.2010, af kr. 10.315.264 frá þeim degi til 1.5.2010, af kr. 12.449.605 frá þeim degi til 1.6.2010, af kr. 14.583.946 frá þeim degi til 1.7.2010, af kr. 16.718.287 frá þeim degi til 1.8. 2010, af kr. 18.852.628 frá þeim degi til 1.9.2010, af kr. 22.306.727 frá þeim degi til 1.10.2010, af kr. 25.760.826 frá þeim degi til 1.11.2010, af kr. 29.214.925 frá þeim degi til 1.12.2010, af kr. 32.669.024 frá þeim degi til 1.1.2011, af kr. 36.123.123 frá þeim degi til 1.2.2011, af kr. 39.377.222 frá þeim degi til 1.3.2011, af kr. 43.031.321 frá þeim degi til 1.4.2011, af kr. 47.366.215 frá þeim degi til 1.5.2011, af kr. 51.701.109 frá þeim degi til 1.6.2011, af kr. 56.036.004 frá þeim degi til 1.7.2011, af kr. 60.370.898 frá þeim degi til 1.8.2011 og af kr. 64.705.792 frá þeim degi til greiðsludags.

c)            Kröfur samkvæmt C-lið í kröfulýsingu, eins og þær hafa verið leiðréttar og sem nánar eru sundurliðaðar á dskj. 295 og 296 í málinu, verði viðurkenndar sem búskröfur samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, aðallega með kr. 436.897.372 en til vara með kr. 299.107.657. Nánar tiltekið er um að ræða kröfu vegna hýsingar sem ekki var gjaldfallin við ritun greinargerðar en gjaldfellur á tímabilinu 1. júlí 2011 til 1. mars 2017, þó aldrei lengur en þar til Fjármálaeftirlitið hefur staðfest að eyða megi gögnum sem eru í varðveislu sóknaraðila.

III.                         Til þrautavara, að kröfur samkvæmt B- og C-liðum í kröfulýsingu, eins og þær hafa verið leiðréttar og settar fram að framan, verði viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

IV.                          Til þrautaþrautavara, að kröfur samkvæmt B- og C-liðum í kröfulýsingu, eins og þær hafa verið leiðréttar og settar fram að framan, verði viðurkenndar með annarri lægri fjárhæð að mati dómsins.

V.            Í öllum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við aðalmeðferð.  Málskostnaður beri virðisaukaskatt samkvæmt lögum nr. 50/1988.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Til vara er þess krafist að dómkröfur sóknaraðila, að því marki sem þær kunna að verða teknar til greina, verði viðurkenndar sem almennar kröfur skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

B

Málavextir

Laugardaginn 21. mars 2009 vék Fjármálaeftirlitið (FME) stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON) frá og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðinn. Ákvörðun þessi var tekin með stoð í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Með lögum nr. 44/2009 varð skilanefnd SPRON að bráðabirgðastjórn félagsins en sömu einstaklingar voru í bráðabirgðastjórninni og verið höfðu í skilanefnd félagsins. Í samræmi við 1. tl. 3. mgr. 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009, óskaði bráðabirgðastjórn varnaraðila eftir því að félagið yrði tekið til slitameðferðar, sbr. 3. tl. 2. mgr. 101. gr. laganna. Var úrskurður um töku félagsins til slitameðferðar kveðinn upp af Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 23. júní 2009 og félaginu skipuð slitastjórn. 

Í ákvörðun FME kemur fram að innlánastarfsemi SPRON skyldi hætt og voru öll innlán félagsins flutt til Nýja Kaupþings banka hf. sem nú heitir Arion banki. Auk þessa yfirtók Nýi Kaupþing banki hf. skuldbindingar SPRON samkvæmt inn- og útflutningaábyrgðum, sem og ábyrgðir vegna efnda fyrirtækja og einstaklinga sem tengjast reglubundinni starfsemi eins og nánar er mælt fyrir um í ákvörðun FME. Áður en FME tók ákvörðun sína var sóknaraðili upplýstur um að til þessa gæti komið. Eftir að FME hafði tekið nefnda ákvörðun var öllum útibúum SPRON lokað og flestum starfsmönnum félagsins sagt upp en starfsemi SPRON var sameinuð á einn stað undir stjórn skilanefndarinnar. Í ákvörðun FME er tekið fram stofnað skyldi sérstakt dótturfélag SPRON sem tæki við öllum eignum félagsins og jafnframt við öllum tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON. Drómi hefur nú tekið við þeim réttindum og skyldum sem fyrir var mælt í ákvörðun FME.

Sóknaraðili er ekki eiginlegt félag en hefur frá árinu 1989 verið rekið á grundvelli sérstaks samstarfssamnings. Aðilar að samstarfssamningnum voru í fyrstu eingöngu sparisjóðir er störfuðu á grundvelli þágildandi laga um sparisjóði auk Lánastofnunar sparisjóðanna (síðar Sparisjóðabanki Íslands). Á síðari árum hafa önnur fjármálafyrirtæki bæst í hóp samstarfsaðila. Að sögn sóknaraðila var félagið ekki rekið með hagnaðarsjónarmið í huga heldur var miðað við að tekjur fyrir veitta þjónustu stæðu undir rekstrarkostnaði líkt og fram kemur í 7. gr. samstarfssamningsins. Sóknaraðili er ekki sjálfstæður skattaðili heldur reikningsfærir hver samstarfsaðili sína hlutdeild í sóknaraðila. Á árinu 2003 var það fyrirkomulag tekið upp að eignarhlutir samstarfsaðila í sóknaraðila voru fastsettir og þá haft til hliðsjónar það magn þjónustu sem hver þeirra keypti af sóknaraðila. Hinn 21. mars 2009, þegar FME skipaði varnaraðila bráðabirgðastjórn, átti SPRON 22,89% í sóknaraðila.

Sóknaraðili veitti SPRON víðtæka tölvuþjónustu fram til þess að FME tók félagið yfir og í raun hafði sóknaraðili um langt skeið sinnt nærri allri tölvu- og upplýsingaþjónustu fyrir SPRON og dótturfélög þess. Þjónustan var byggð á samningi milli aðila frá því í júní 2008 og samkvæmt honum keypti varnaraðili þjónustu vegna alls 28 kerfa og eftir að samningurinn var undirritaður bættust fjögur kerfi við. Þjónusta vegna hvers kerfis skiptist síðan eftir atvikum í nánar greinda þætti eins og samningurinn og fylgiskjöl hans bera með sér.

Aðila greinir verulega á í lýsingu sinni á málavöxtum og verður nú gerð grein fyrir því hvernig þeir lýsa atvikum máls að því undanskildu sem að framan er rakið.

Sóknaraðili greinir frá því að í samningum um einstaka þjónustuþætti sé mælt fyrir um að sóknaraðili skuli fylgja bestun (best practices) við þróun og rekstur þjónustu sinnar, m.a. með því að aðlaga þjónustuna að nýjungum sem fram koma hjá framleiðendum og tengdum kerfum. Sóknaraðila bar að sjá um rekstur og þjónustu við hvert kerfi, m.a. með ákveðnum viðbragðstíma, fyrirfram skilgreindum uppitíma, hýsingu, afritun og öryggisúttektum eins og nánar er rakið í samningnum. Einnig starfræki sóknaraðili sérstaka notendaaðstoð sem þjónustukaupi hafði aðgang að eins og nánar er útlistað í samningi um hvert einstakt kerfi. Þjónustusamningurinn og fylgiskjöl hans endurspegli þannig að miklu leyti þá þætti sem eru ráðandi í kostnaðargreiningu fyrirtækisins sem gjaldskrá þess er byggð á.

Sóknaraðili segir að milli málsaðila hafi verið í gildi samningur ábyrgðar- og vinnsluaðila, dags. 13. febrúar 2004 (hér eftir nefndur vinnslusamningur). Í honum er kveðið á um að sóknaraðili sé vinnsluaðili persónuupplýsinga fyrir varnaraðila sem ábyrgðaraðila í skilningi 12. og 13. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í 1. mgr. 5. gr. samningsins er kveðið á um að vinnsluaðila sé einungis heimilt að starfa í samræmi við fyrirmæli ábyrgðaraðila nema lög mæli fyrir á annan veg. Í 8. gr. samningsins er ákvæði þess efnis að persónuupplýsingar samkvæmt samningnum skuli varðveita eins lengi og lög mæli fyrir um. Í viðauka 1 við samninginn er fjallað nánar um geymslutíma einstakra skráa.

Sóknaraðili segist leggja ríka áherslu á að uppfylla leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2005 um rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila. Hann hafi því lagt mikið upp úr því að tryggja upplýsingaöryggi og eftirfylgni við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og hlotið vottun samkvæmt alþjóðlegum staðli (ISO/IEC 27001:2005) um stjórnun upplýsingaöryggis. Auk þessa hafi sóknaraðili sett sér ítarlegar öryggiskröfur um meðhöndlun og vinnslu gagna.

Sóknaraðili segir samning aðila frá 9. júní 2008 hafa verið endurnýjun á eldri sambærilegum samningi. Á árinu 2008 greiddi varnaraðili sóknaraðila samtals kr. 577.487.100 fyrir veitta þjónustu samkvæmt samningnum, bókfærð þjónusta nam á árinu 2009 kr. 348.487.327 og á árinu 2010 kr. 165.094.329. Mál þetta er risið vegna þess hluta þjónustu áranna 2009 til 2011 sem enn sé ógreiddur. Sóknaraðili kveðst, í lok árs 2008, hafa byrjað að veita samstarfsaðilum afslátt frá verðskrá en ekki hafi verið gerðar sérstakar breytingar á þjónustusamningnum af því tilefni. Afsláttur hafi síðan verið aukinn 1. apríl 2009.

Sóknaraðili bendir á að í 10. gr. þjónustusamningsins sé mælt fyrir um að hann sé uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót. Um einstakar tegundir þjónustu gilti þó styttri uppsagnarfrestur, ýmist sex mánuðir, þrír mánuðir eða einn mánuður.

Ágreiningur um greiðsluskyldu

                Sóknaraðili greinir frá því að eftir að varnaraðila var skipuð bráðabirgðastjórn hafi henni verið nauðsynlegt að fá áfram aðgang að þjónustu sóknaraðila. Varnaraðili hafi strax sýnt mikla tregðu við að greiða fyrir veitta þjónustu en þrátt fyrir það hafi sóknaraðili haldið áfram að veita varnaraðila alla þá þjónustu er hann óskaði eftir. Í maímánuði 2009 hafi legið fyrir að varnaraðili neitaði að greiða fyrir þjónustuna. Ágreiningur hafi risið með aðilum um réttarstöðu varnaraðila þar sem varnaraðili hélt því fram að honum væri óheimilt að greiða en sóknaraðili taldi að lög hömluðu því ekki að varnaraðili greiddi fyrir nauðsynleg útgjöld til að halda gangandi starfsemi þeirri er varnaraðili hafði með höndum. Studdi sóknaraðili þessa afstöðu við ummæli í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 44/2009 en þar segir að ekki þyki fært að binda hendur bráðabirgðastjórnar með sama hætti og gert er í 19. til 21. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi því talið að varnaraðila væri heimilt að greiða fyrir nauðsynlega upplýsingatækniþjónustu á sama hátt og varnaraðili greiddi gjöld til orkuveitna. Hinn 18. maí 2009 sendi lögmaður sóknaraðila bréf til varnaraðila þar sem varað var við því að lokað yrði fyrir þjónustu ef ekki yrði greitt. Varnaraðili sinnti ekki aðvöruninni og lokaði því sóknaraðili fyrir þjónustuna föstudaginn 22. maí. Tæpri viku síðar opnaði sóknaraðili aftur fyrir þjónustuna en þá höfðu aðilar gert með sér samkomulag.

Með samkomulagi þessu, er undirritað var hinn 28. maí 2009, féllst varnaraðili á að greiða kr. 50.000.000 af útistandandi reikningum en sóknaraðili féllst á að lýsa eftirstöðvunum, er námu kr. 12.586.336, í bú varnaraðila. Jafnframt lofaði varnaraðili að greiða framvegis á gjalddaga reikninga fyrir þá þjónustu er hann nýtti sér, en tilgangur þessa ákvæðis var að afmarka þá reikninga, er bráðabirgðastjórnin taldi sér heimilt að greiða, frá öðrum reikningum er hún taldi sér ekki heimilt að greiða. Þeim kröfum sem út af stæðu yrði síðan lýst í bú varnaraðila í þeim tilgangi að fá úrskurð dómstóla um ágreininginn. Sóknaraðili telur að þetta hafi verið einn helsti tilgangurinn með samkomulaginu. Vegna þessa var því verklagi komið á (en þó ekki fyrr en frá því snemma árs 2010) að sóknaraðili flokkaði reikninga í tvennt um leið og þeir voru gefnir út, annars vegar reikninga sem hann merkti til greiðslu á gjalddaga og hins vegar reikninga sem hann merkti þannig að þeim yrði lýst í bú varnaraðila.

Fyrir lá að allar eignir varnaraðila yrðu færðar til dótturfélags í eigu varnaraðila, Dróma hf. Á þessum tíma hafði bráðabirgðastjórn varnaraðila ekki tekið ákvörðun um hvort hún myndi kaupa þjónustu af sóknaraðila á því tímabili sem ljóst var að væri fram undan við slit varnaraðila, hvort hún kysi að fela öðrum að annast þjónustu á sviði upplýsingatækni eða kysi jafnvel að fela eigin starfsmönnum að annast nauðsynleg verkefni á þessu sviði. Skuldbatt sóknaraðili sig til þess með samkomulaginu að ef eftir því yrði leitað myndi hann afhenda gögn til Dróma hf. eða varðveita þau í kerfum sínum. Jafnframt tóku aðilar fram í samkomulaginu að greiða þyrfti fyrir slíka þjónustu samkvæmt verðskrá sóknaraðila og einnig að afhending gagna kynni að taka þann tíma sem áætlað umfang segði til um.

Að sögn sóknaraðila urðu breytingar á réttarstöðu varnaraðila, sem að framan eru raktar, ekki til þess að réttarsamband aðila samkvæmt þjónustusamningnum breyttist en sá samningur hafi áfram verið í gildi með 12 mánaða uppsagnarfresti. Sóknaraðili hafi haldið áfram að þjónusta varnaraðila eins og áður, en tilteknum þáttum þjónustunnar var þó hætt að beiðni varnaraðila eins og nánar verður gerð grein fyrir síðar.

Uppsagnir á þjónustu - uppsagnarfrestir

             Sóknaraðili reisir kröfur sínar, vegna þeirra kerfa sem krafist er greiðslu fyrir afnot af og vegna uppsagnarfrests, á því að uppsögn samningsins við sóknaraðila hafi í meginatriðum átt sér stað í þrem áföngum, vorið 2009, haustið 2009 og sumarið 2010.

Með tölvupósti varnaraðila hinn 14. maí 2009 var Reuters-kerfinu sagt upp.

Með tölvupósti, sem Guðrún Torfhildur Gísladóttir sendi til sóknaraðila hinn 29. maí 2009 (Guðrún Torfhildur átti sæti í bráðabirgðastjórn SPRON), var eftirfarandi kerfum sagt upp: Gjaldtökukerfi, Millifærslukerfi, Viðmótsþjónustum og Netbanka. Uppsagnarfrestur varðandi þessi kerfi var 12 mánuðir. Með sama tölvupósti var Loka einnig sagt upp en uppsagnarfrestur varðandi það kerfi var 6 mánuðir.

Með tölvupósti varnaraðila þann 12. október 2009 var Símkerfi sagt upp, en á því kerfi var uppsagnarfrestur 12 mánuðir.

Með tölvupósti, sem Katrín Thorsteinsson af hálfu varnaraðila sendi sóknaraðila hinn 29. október 2010, var eftirtöldum kerfum sagt upp: Innheimtukerfi, Afgreiðslukerfi, Vanskilakerfi, Ábyrgðakerfi, Netbanka (heimabankaumsjón) IT2, Hlutvís, Húsbréfakerfi, Lánstrausti, Opinberum skýrslum, Reiknivélum og Moss. Uppsagnarfrestur allra þessa kerfa var 12 mánuðir.

Verðskrá sóknaraðila, sem gilti við fall varnaraðila, er meðal gagna málsins. Samkvæmt verðskránni er þóknun fyrir flestar tegundir þjónustu skipt í tvennt, annars vegar áskriftargjöld (leyfisgjald, viðhaldsgjöld og gjald fyrir rekstur og notendaþjónustu) og hins vegar gjöld sem nefna má gjöld fyrir notkun. Áskriftargjöld ráðast af fjölda starfsstöðva viðskiptavinar og er um að ræða fimm flokka þar sem flokkur 1 tekur til þjónustu við fyrirtæki sem hafa 1 til 25 notendur en flokkur 5 til fyrirtækja sem hafa 241 til 400 notendur. Við fall varnaraðila var hann í flokki 5. Röðun viðskiptavinar í flokk átti sér stað einu sinni á ári í samræmi við ákvæði samningsins um árs uppsagnarfrest á flestum tegundum þjónustu. Gjöld fyrir notkun ráðast af fjölda eininga eins og nánar kemur fram í verðskrá fyrir hvert kerfi.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að lög standi til þess að fjármálafyrirtækjum beri að varðveita gögn í tiltekinn árafjölda. Fram til þess að hrun varð á fjármálamarkaði á árunum 2008 og 2009 hafði sóknaraðili eingöngu þjónustað fjármálafyrirtæki í rekstri en ekki selt sérstaka þjónustu við hýsingu gagna án þess að selja jafnframt þjónustu við þau kerfi til þeirra sem unnu með gögnin. Sóknaraðili hafði því ekki sérstakan lið í gjaldskrá sinni fyrir sértæka hýsingu gagna. Við endurskoðun gjaldskrár hinn 1. janúar 2010 var settur slíkur liður.

                Samkvæmt þjónustusamningnum gilti eins og áður segir almennt 12 mánaða uppsagnarfrestur. Í því fólst m.a., eins og að framan greinir, að röðun viðskiptavina í stærðarflokka átti sér stað einu sinni á ári. Þrátt fyrir þetta samþykkti sóknaraðili, að beiðni varnaraðila, að breyta gjaldtöku sinni á uppsagnarfrestinum fyrir þau kerfi er þá hafði enn ekki verið sagt upp, frá því sem samningurinn kvað á um, þ.e. flokk 5, í það að nota flokk 4 sem viðmiðun. Vísast hér til tölvupóstsamskipta Haraldar Þorbjörnssonar, viðskiptastjóra hjá sóknaraðila, til Heiðars Þórs Guðnasonar, starfsmanns varnaraðila, hinn 22. febrúar 2010, þar sem tilboðið var samþykkt af Heiðari Þór.

Sóknaraðili hefur á uppsagnarfrestinum gert varnaraðila reikninga, bæði fyrir þeirri þjónustu er skyldi „greiðslumerkja“ að teknu tilliti til framangreindrar lækkunar og fyrir þjónustu er sóknaraðili vissi að varnaraðili myndi ekki greiða en aðilar voru báðir meðvitaðir um að fá þyrfti um úrskurð dómstóla.

Í desember 2009 var Heiðar Þór Guðnason kynntur fyrir sóknaraðila sem fulltrúi varnaraðila hvað varðaði endurskipulagningu tölvukerfa og utanumhald um rafræn gögn. Fulltrúar frá varnaraðila funduðu með Heiðari Þór í lok desember og í janúarmánuði 2010. Hinn 13. janúar 2010 sendi sóknaraðili varnaraðila tilboð til Heiðars Þórs með verði fyrir hýsingu í nokkur kerfi. Tilboðið var miðað við að sóknaraðili myndi hýsa gögn úr tilteknum kerfum fyrir varnaraðila eftir að hann hætti annarri notkun kerfanna. Tilboðið var ekki miðað við það (eins og fyrra tilboð í september 2009 hafði gert) að sóknaraðili veitti varnaraðila aðgang að gögnunum eftir þörfum heldur var eingöngu miðað við varðveislu gagnanna hjá sóknaraðila. Þó var miðað við að varnaraðili hefði áfram aðgang að gögnum úr Spak gegnum netaðgang. Sökum þessa var tilboðið byggt á gjaldskrá sóknaraðila fyrir rekstrar- og notendaþjónustu og ekki gert ráð fyrir gjaldtöku fyrir viðhaldsgjöld nema hvað varðaði Spak og gögn úr IT2 sem er kerfi í eigu þriðja aðila. Í þeim tilgangi að liðka fyrir samningi við varnaraðila var tilboðið miðað við stærðarflokk 3, þótt forsendur til þess væru í raun ekki fyrir hendi, enda um að ræða gögn sem urðu til þegar stærð varnaraðila féll undir flokk 5. Ekki barst sérstakt svar við tilboðinu. Á þessum tíma var útrunninn uppsagnarfrestur fyrir Loka án þess að sóknaraðili hefði fengið sérstök fyrirmæli frá varnaraðila um hvað skyldi gera við gögnin er safnast höfðu upp í kerfinu og höfðu verið varðveitt af sóknaraðila á grundvelli samnings um afnot af þjónustu við það. Leit sóknaraðili svo á að það verð er hann hafði gefið varnaraðila upp gilti um hýsingu gagna úr því kerfi.

                Hinn 28. janúar 2010 fór Heiðar Þór Guðnason fram á það með tölvupósti, fyrir hönd varnaraðila, að fá afhent gögn úr eftirtöldum kerfum en þeim hafði öllum verið sagt upp: Loka, Afgreiðslukerfi, Heimabankaumsjón, Greiðsluþjónustukerfi, Innheimtukerfi, Millifærslukerfi, Ábyrgðarkerfum og IT2.

                Hinn 16. febrúar 2010 óskaði Heiðar Þór með tölvupósti eftir, fyrir hönd varnaraðila, að fá afhent gögn út Spak og Erindreka sem tilheyra „SPRON samstæðunni“.

                Hinn 10. mars 2010 óskaði Heiðar Þór með tölvupósti eftir að fá afhent póst- og skráargögn „Spron samstæðunnar“. Þann 11. mars 2010 óskaði Heiðar Þór með tölvupósti eftir að fá afhentar Carin símaupptökur „SPRON samstæðunnar“. Þann 20. maí 2010 óskaði Heiðar Þór eftir afritum (e. back-up) af póst- og skráargögnum miðað við sex dagsetningar, þá elstu 31. desember 2006.

                Við framkomnar beiðnir um afhendingu gagna hóf sóknaraðili þegar undirbúning að þeirri vinnu og í marsmánuði 2010 settu aðilar sameiginlega niður á blað ferli sem fylgja skyldi við afhendingu gagnanna til varnaraðila og eða Dróma hf.

                Með bréfi til varnaraðila, dags. 8. febrúar 2010, sem sóknaraðila var sent afrit af, fór Fjármálaeftirlitið fram á að fá ýmsar upplýsingar um fyrirhugaðan flutning gagna frá sóknaraðila til Dróma hf. Með tölvupósti hinn 29. mars 2010 gerði síðan Fjármálaeftirlitið sóknaraðila viðvart um það, með vísan til laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, að stofnunin heimilaði ekki að sóknaraðili eyddi gögnum „SPRON samstæðunnar“ nema að undangengnu samþykki eftirlitsins. Áttu fulltrúar sóknaraðila fund með starfsmönnum FME af þessu tilefni hinn 7. apríl s.á.

                Sóknaraðili afhenti varnaraðila í áföngum afrit af þeim gögnum er hann hafði óskað eftir en gögnin eru enn varðveitt í kerfum sóknaraðila, sbr. það er á eftir greinir um tilmæli Fjármálaeftirlitsins þar um. Því er mótmælt af hálfu sóknaraðila að tæknilegir örðugleikar hafi valdið töfum á flutningi gagna til varnaraðila.

Hinn 30. júní 2010 sendi varnaraðili tilkynningu til sóknaraðila um að allar starfsstöðvar varnaraðila hefðu verið aftengdar netkerfi varnaraðila. Leit sóknaraðili á þessa tilkynningu sem uppsögn þeirra kerfa er enn hafði ekki verið sagt upp, þ.e. eftirtalin kerfi: Erindreki, Þjóðskrá, Netkerfi, Póstur, Spakur og Starfsstöð, en uppsagnarfrestur á þessum kerfum var 12 mánuðir.

             Með bréfi, dags. 1. júlí 2010, tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að vinnsluaðilaábyrgð sóknaraðila væri lokið hvað varðaði vinnslu gagna fyrir varnaraðila. Af því tilefni ritaði lögmaður sóknaraðila hinn 5. júlí 2010 bréf til Fjármálaeftirlitsins þar sem spurst var fyrir um það hvort eftirliti því er stofnunin hefði haft með höndum gagnvart varnaraðila væri lokið. Varnaraðila var einnig ritað bréf sama dag. Þrátt fyrir ítrekanir barst fyrst svar við erindinu með bréfi Fjármálaeftirlitsins dags. 7. desember 2010. Þar sem sóknaraðili taldi svör Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurninni um eftirlit hvað varðaði öll gögn varnaraðila ekki fullkomlega skýr sendi hann eftirlitinu erindi, dags. 12. janúar sl., þar sem hann tilkynnti að ef ekki hefði borist athugasemd við það hinn 25. janúar yrði hafist handa við eyðingu gagna varnaraðila. Fyrir þann dag barst lögmanni sóknaraðila símtal frá Fjármálaeftirlitinu þar sem upplýst var að stofnunin hefði beint erindi til varnaraðila sem beðið var svars við. Þrátt fyrir fyrirspurn til stofnunarinnar um hvort svar hafi borist frá varnaraðila hefur stofnunin ekki upplýst um það.

             Sóknaraðili greinir frá því að af þessum sökum hafi hann neyðst til þess að hýsa gögn varnaraðila fram til dagsins í dag og af þeim sökum hefur hann krafið varnaraðila um greiðslu fyrir þjónustu við hýsingu þeirra.

             Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila hinn 21. janúar 2010. Kröfunni var hafnað og sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu með bréfi hinn 12. mars 2010. Engin endurskoðun á þeirri afstöðu hefur verið tilkynnt sóknaraðila þrátt fyrir að varnaraðili hafi látið í ljós að hann telji sóknaraðila eiga kröfu til skaðabóta á uppsagnarfresti. Starfsmaður slitastjórnar fundaði tvisvar með lögmanni sóknaraðila sumarið 2010 án þess að lausn fyndist á ágreiningnum. Með bréfi, dags. 18. október 2010, sendi lögmaður sóknaraðila endurskoðað yfirlit yfir kröfur er lýst hafði verið undir lið B í kröfulýsingu og krafðist þess að ágreiningi aðila yrði vísað til héraðsdóms. Engin tilkynning um viðurkenningu krafna að einhverju marki barst sóknaraðila í kjölfar þessa. Þrátt fyrir ítrekanir á beiðni um meðferð fyrir héraðsdómi var það fyrst með bréfi, dags. 24. mars sl., sem slitastjórn varnaraðila óskaði úrlausnar héraðsdóms á ágreiningnum.

Varnaraðili segir lýsingu sóknaraðila á málavöxtum ranga í veigamiklum atriðum og mótmælir henni, auk þess sem verulega skorti á að fullnægjandi grein sé gerð fyrir samskiptum aðila frá því í mars 2009. Því sé nauðsynlegt að skýra málavexti eins og þeir horfa við varnaraðila með tilvísun til þeirra gagna sem lögð eru fram í málinu.

Varnaraðili lýsir því að yfirtaka Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar SPRON og þær breytingar sem við það urðu á kjarnastarfsemi SPRON hafi leitt til þess að öllum útibúum SPRON var lokað þegar í stað og misstu flestir starfsmenn SPRON starf sitt. Starfsemi SPRON var sameinuð á einum stað undir stjórn skilanefndarinnar. Þessar breytingar leiddu til þess að SPRON hætti notkun fjölmargra upplýsingatæknikerfa sem áður höfðu verið notuð, s.s. af gjaldkerum í útibúum SPRON, fjárstýringardeild, bakvinnslu o.s.frv. Fjármálaeftirlitið hafði samráð við sóknaraðila áður en tilkynnt var opinberlega um yfirtökuna. Var sóknaraðili því vel upplýstur um framvindu mála frá upphafi.

Að sögn varnaraðila var eitt helsta verkefni skilanefndar SPRON, síðar bráðabirgðastjórnar, samkvæmt 4. tl. ákvörðunar FME, stofnun dótturfélags SPRON, Dróma hf., sem tók við öllum eignum, tryggingarréttindum og öðrum réttindum SPRON. Þjónusta vegna útlánasafns SPRON skyldi vera á hendi Nýja Kaupþings banka hf. á grundvelli þjónustusamnings. Yfirfærslu allra eigna og réttinda SPRON til Dróma hf. var að fullu lokið um mánaðamótin maí/júní 2009.

Sóknaraðili hafði um langt skeið sinnt nær allri tölvu- og upplýsingatækniþjónustu fyrir SPRON og dótturfélög. Þjónustan sem sóknaraðili veitti var afar mikilvægur þáttur í öllum rekstri SPRON, bæði fyrir innri starfsemi SPRON og dótturfélaga en ekki síst gagnvart viðskiptamönnum félaganna. Sóknaraðili hafi rekið og þjónustað stóran hluta tölvukerfa sem notuð voru í rekstri SPRON og þá hafi gögn, sem í kerfunum voru, verið hýst hjá sóknaraðila. Sóknaraðili hafi stýrt aðgangi starfsmanna að kerfum og haft yfirsýn yfir aðgangsmálin og notkun einstakra kerfa.

Þegar eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar SPRON var aðgengi allra starfsmanna SPRON og dótturfélaga að tölvum og tölvukerfum lokað að kröfu eftirlitsins, m.a. til að tryggja varðveislu gagna. Sóknaraðili hélt þó áfram að veita SPRON takmarkaða upplýsingatækniþjónustu, enda hafði SPRON ekki eigin tölvudeild og þjónusta sóknaraðila því nauðsynleg störfum skilanefndarinnar. Notendafjöldi og not kerfanna var hins vegar í algjöru lágmarki. Sum þeirra kerfa sem notuð voru fyrir fall SPRON hafa ekki verið notuð síðan fyrir yfirtökuna. Sóknaraðili hefur allt frá því í mars 2009 haft fulla yfirsýn yfir hina takmörkuðu notkun.

Varnaraðili segir að frá skipun skilanefndar SPRON hafi sóknaraðila verið kunnugt að skilanefndin myndi aðeins greiða „reikninga fyrir þá þjónustu sem veitt yrði“, eins og bókað er í fundargerð stjórnar sóknaraðila, 22. apríl 2009. Afstaða skilanefndarinnar hafi verið í samræmi við lagalega stöðu félagsins. Af fundargerðinni verði jafnframt ráðið að stjórn sóknaraðila gerði ráð fyrir verulegum tekjusamdrætti vegna falls SPRON og annarra sparisjóða. Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir 22,9% lægri tekjum en gert var í upphafi ársins. Þar af myndu tekjur vegna SPRON lækka um 75%. Varnaraðili telur framangreint staðfesta að sóknaraðili leit ekki svo á að þjónustusamningur aðila væri í gildi með sömu skilmálum og hann var fyrir yfirtökuna.

Í mars 2009 hafi það verklag verið tekið upp milli skilanefndarinnar og sóknaraðila að skilanefndin þurfti fyrir fram að samþykkja enduropnanir útstöðva, þ.e. aðgang starfsmanna að tölvum og tölvukerfum, sem og vinnu við önnur verkefni í hennar þágu. Fyrir fram gefið samþykki var skilyrði fyrir greiðslu reikninga. Fyrst í stað kom það í hlut Davíðs Arnars Einarssonar skilanefndarmanns að samþykkja aðgangsbeiðnir og enduropnanir tölvukerfa gagnvart sóknaraðila en fyrirkomulag þetta hafði verið kynnt og samþykkt af sóknaraðila.

Sóknaraðili var upplýstur um að væntanlegt slita- eða gjaldþrotaskiptabú SPRON myndi ekki ganga inn í samninga sóknaraðila og SPRON, eins og fram kemur í fundargerð sem er útbúin af fulltrúa sóknaraðila þann 29. apríl 2009. Í fundargerðinni kemur einnig fram að skilanefndin myndi kanna gerð nýs þjónustusamnings milli Dróma hf. og sóknaraðila en fyrir lá að Drómi hf. tæki við útlánum og öðrum eignum SPRON.

Að sögn varnaraðila kom fljótlega eftir fall SPRON upp ágreiningur um greiðsluskyldu SPRON vegna útgefinna reikninga sóknaraðila. Eins og áður var rakið taldi skilanefnd SPRON sér aðeins heimilt að greiða reikninga fyrir nauðsynlega þjónustu sem væru í samræmi við notendafjölda og notkun kerfanna. Í febrúar 2009 voru starfandi 199 starfsmenn hjá SPRON og dótturfélögum, þar af 151 starfsmaður hjá SPRON, en í mars 2009 hafi öllum starfsmönnum SPRON verið sagt upp störfum. Frá og með 1. júní 2009 var enginn starfsmaður hjá SPRON. Um 35 manns voru starfandi hjá Dróma hf. á sama tíma. Frá því í mars 2009 var ljóst að aðeins hluti þeirra tölvukerfa sem voru í notkun við fall SPRON væru nauðsynleg störfum skilanefndarinnar, auk þess sem fyrir lá að sá hluti yrði nýttur af mun færri starfsmönnum en áður.

Þrátt fyrir framangreinda fækkun starfsmanna hjá SPRON þegar í mars 2009 og miklu minni not þeirra tölvukerfa sem áfram voru notuð í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar SPRON var reikningsgerð sóknaraðila enn eins og SPRON væri fjármálafyrirtæki í fullum rekstri með yfir 241 starfsmann í sex útibúum og fulla nýtingu allra tölvukerfa. Skilanefnd/bráðabirgðastjórn SPRON féllst því ekki á takmarkalausa greiðsluskyldu.

Ágreiningur aðila um greiðsluskyldu leiddi til þess að bráðabirgðastjórn varnaraðila neitaði í maí 2009 að greiða útgefna reikninga sem þá voru að fjárhæð ríflega 62 milljónir króna. Áður hafði sóknaraðili fengið greiddar rúmar 18,9 milljónir króna frá 21. mars. Sóknaraðili greip í framhaldinu, hinn 22. maí 2009, til þess róttæka úrræðis að loka á allan aðgang að tölvukerfum SPRON, þ.m.t. netsamband, með augljósum afleiðingum fyrir félagið. Við þessa aðgerð misstu starfsmenn og bráðabirgðastjórn nauðsynlegan aðgang að upplýsingakerfum SPRON, þ. á m. tölvupósti og símum, í heila viku. Þetta leiddi til verulegra vandkvæða í samskiptum við yfirvöld, kröfuhafa og viðskiptamenn félagsins, ásamt því að koma í veg fyrir að bráðabirgðastjórnin hefði yfirsýn yfir fjárhag félagsins og gæti þannig sinnt því lögboðna hlutverki sínu að verja eigur þess.

Eftir viðræður aðila í kjölfar lokunar sóknaraðila tókst með þeim samkomulag þann 28. maí 2009 um greiðslu á útistandandi reikningum og framhald á þjónustu sóknaraðila. Samkvæmt 2. tl. samkomulagsins greiddi SPRON „lausnargjald“ að fjárhæð 50.000.000 króna gegn því að sóknaraðili opnaði aftur fyrir þá þjónustu sem nauðsynleg var bráðabirgðastjórninni. Greiðslan fól ekki í sér viðurkenningu á réttmæti reikninga sóknaraðila.

Í 3. tl. var samið um framhald á þjónustu sóknaraðila gagnvart SPRON með eftirfarandi hætti:

1.                   Að SPRON væri skuldbundið til að greiða útgefna reikninga „sem miðast við þá þjónustu sem SPRON nýtir sér eftir undirritunardag samkomulagsins […] í samræmi við notkun.“

2.                   Um útfösun kerfa segir: „Mánaðarlega getur SPRON tilkynnt um fækkun notenda í einstökum kerfum og mun innheimta fyrir kerfið endurspegla slíka beiðni frá og með næsta mánuði á eftir.“ Þá skuldbundu aðilar sig til að vinna að því í sameiningu að „fasa út“ öll kerfi sem SPRON hafði ekki lengur þörf fyrir og skyldi útfösunin hefjast 1. júní 2009.

3.                   Samið var um afhendingu gagna frá sóknaraðila til Dróma hf. Í samkomulaginu segir um þetta atriði: „Teris skuldbindur sig til að afhenda gögn til Dróma hf. ef eftir því verður leitað eða varðveita þau í kerfum sínum skv. samkomulagi við SPRON/Dróma á aðgengilegu kerfi.“ Þá var því lýst yfir að aðilar gerðu sér grein fyrir því að greiða þyrfti fyrir þessa þjónustu.

4.                   Þá var samið um eyðingu gagna að beiðni Dróma hf. samkvæmt verðskrá Teris.

Markmið maísamkomulagsins var að láta viðskipti SPRON og sóknaraðila fjara út í góðu samstarfi á meðan unnið væri að afhendingu gagna SPRON til Dróma hf. Á meðan sú vinna stæði yfir væri SPRON skylt að greiða fyrir þá þjónustu sem SPRON nýtti sér í samræmi við notkun. Þá væri SPRON jafnframt heimilt, á meðan unnið væri að afhendingu gagna SPRON til Dróma hf., að tilkynna mánaðarlega um fækkun notenda að kerfum og fasa þau út með sama hætti.

Þegar eftir gerð samkomulagsins í maí tók Björg Anna Kristinsdóttir, starfsmaður sóknaraðila, saman lista yfir kerfi í notkun og opna aðganga og sendi til varnaraðila með tölvupósti. Þeim tölvupósti svaraði Guðrún Torfhildur Gísladóttir fyrir hönd bráðabirgðastjórnar SPRON sama dag og tilkynnti um fækkun notenda af öllum kerfum eða þá að notkun þeirra væri hætt. Frekari samskipti er vörðuðu útfösun kerfa og fækkun notenda áttu sér stað á tímabilinu, eins og nánari grein verður gerð fyrir síðar.

Héraðsdómur Reykjavíkur varð, með úrskurði uppkveðnum þann 23. júní 2009, við beiðni bráðabirgðastjórnar SPRON um að félagið yrði tekið til slitameðferðar og skipaði varnaraðila slitastjórn, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við upphaf slitameðferðar SPRON hafði Drómi hf. tekið við öllum eignum og öðrum réttindum SPRON. Starfsemin fór á þessum tíma alfarið fram hjá Dróma hf. þar sem voru um 35 starfsmenn. Engir starfsmenn voru hjá SPRON. Því skal haldið til haga að Drómi hf. þáði takmarkaða þjónustu af sóknaraðila eftir 23. júní 2009, enda nauðbeygt til þess þar sem öll gögn SPRON voru í vörslum sóknaraðila.

Tilraunir Dróma hf. til að semja við sóknaraðila um upplýsingatækniþjónustu til framtíðar í samræmi við umfang starfsemi félagsins báru ekki árangur. Sóknaraðili gerði Dróma hf. tilboð þann 4. september 2009, sem ekki var samþykkt. Í miðjum samningaviðræðum í desember 2009 greip sóknaraðili svo til þess ráðs að setja fram afarkosti; tilteknir reikningar skyldu greiddir ella yrði lokað fyrir aðgang að öllum kerfum og þjónustu sóknaraðila. Drómi hf. sá sig knúinn til að greiða „lausnargjaldið“ með þeim fyrirvörum.  

Í desember 2009 var Heiðar Þór Guðnason kerfisfræðingur fenginn af Dróma hf. til þess verkefnis að annast samskipti við sóknaraðila vegna afhendingar allra gagna SPRON til Dróma hf. á grundvelli skuldbindinga sóknaraðila samkvæmt maísamkomulaginu. Heiðar Þór gerði tilraun til þess í janúar 2010 að ná samkomulagi við sóknaraðila um upplýsingatækniþjónustu fyrir Dróma hf., en samningar tókust ekki. Í greinargerð sóknaraðila er því haldið fram að framangreindum viðræðum og tilboðum sóknaraðila hafi verið beint að varnaraðila, sem er rangt enda sýna gögn málsins að nefndur Heiðar leitaði tilboða í þjónustu sóknaraðila fyrir Dróma hf.

Frá haustinu 2009 og fram á vorið 2010 keyrði Drómi hf. tölvukerfi starfsmanna félagsins að hluta til tvöfalt, þ.e. bæði í gegnum takmarkaða tengingu við kerfi sóknaraðila og innanhúss. Þessi háttur var hafður á þar sem sóknaraðili var enn með í sínum vörslum mikilvæg gögn sem nauðsynlegt var að hafa aðgang að. Það skal þó áréttað að fáir starfsmenn Dróma hf. höfðu svokallaðan skoðunaraðgang að þessum kerfum, þ.e. engin ný gögn voru lesin inn í kerfin heldur aðeins flett upp í þeim gögnum sem voru þar fyrir. Drómi hf. greiddi fyrir þessa þjónustu, ekki varnaraðili, en um þjónustuna var ekki gerður samningur.

Varnaraðili lýsir atvikum máls varðandi afhendingu gagna SPRON til Dróma hf. þannig að í  janúar og febrúar 2010 hafi Heiðar Þór, f.h. Dróma hf., óskað eftir afhendingu afrita af gögnum SPRON hjá sóknaraðila. Afhendingin hafi hins vegar reynst þung í vöfum vegna þátta í innra skipulagi sóknaraðila. Að mati varnaraðila og Dróma hf. bar lítið á samstarfsvilja hjá sóknaraðila og virtist sem orka hans færi í að reisa hindranir frekar en að finna lausnir og afhenda Dróma hf. gögnin eins og sóknaraðili hafði skuldbundið sig til gagnvart því félagi með maísamkomulaginu. Þessi afhendingardráttur olli tjóni, auk þess að valda erfiðleikum, m.a. fyrir rannsóknir á hugsanlegri sviksemi eða bótaskyldum athöfnum í aðdraganda falls SPRON.

Helsti tæknilegi vandinn við afhendingu gagna stafaði af því að sóknaraðili kaus að keyra og hýsa gögn allra sinna viðskiptamanna á sömu kerfum og gagnagrunnum. Afrit af gögnum SPRON „eru hluti af heildaröryggisafriti Teris af öllum gögnum sem Teris hýsir fyrir fjölda fyrirtækja“ eins og Sæmundur Sæmundsson, fv. forstjóri sóknaraðila, orðar það í bréfi til Fjármálaeftirlitsins. Þá komi fram í gögnum málsins að í janúar 2010 gat starfsmaður sóknaraðila ekki gefið nákvæmar upplýsingar um heildargagnamagn SPRON þar sem „gagnagrunnar eru samnýttir“. Fyrirkomulag sóknaraðila við varðveislu gagnanna er að mati varnaraðila ekki einungis vafasamt með hliðsjón af eðli gagnanna, heldur hefur það einnig valdið verulegum töfum á afhendingu þeirra þar sem sóknaraðili bjó ekki yfir tæknilegum úrræðum og verkferlum til að aðskilja gögn SPRON frá gögnum annarra viðskiptamanna. Loks náðist að þoka málinu áfram og var megnið af gögnum SPRON afhent Dróma hf. í júní og júlí 2010. Hafi afhending gagnanna ekki farið fram með fullnægjandi hætti er þar sóknaraðila einum um að kenna.

C

                Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að hann eigi kröfu á hendur varnaraðila fyrir þjónustu sem um var samið, samkvæmt þjónustusamningi aðila frá 9. júní 2008, að sóknaraðili veitti varnaraðila.

Kröfum sem óskað er úrlausnar dómsins um, þ.e. kröfum sem tilgreindar eru í B- og C-lið kröfulýsingar, er öllum lýst sem búskröfum samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Krafa samkvæmt lið B í kröfulýsingu.

Sóknaraðili heldur því fram að breytingar, sem urðu á yfirráðum á varnaraðila og réttarstöðu hans með skipun skilanefndar af hálfu Fjármálaeftirlitsins, tilkomu bráðabirgðastjórnar við gildistöku laga 44/2009 og skipun héraðsdóms á skilanefnd við upphaf slitameðferðar, hafi í raun ekki leitt til neinna breytinga á réttarsambandi málsaðila samkvæmt þjónustusamningnum. Samningurinn hafi gilt áfram með þeim uppsagnarfresti sem við átti um hvern þjónustuþátt fyrir sig, sem yfirleitt var 12 mánuðir. Að mati sóknaraðila staðfestir samkomulag málsaðila, sem gert var í maí 2009, að varnaraðili óskaði áfram eftir þjónustu sóknaraðila. Sóknaraðili hélt áfram að þjónusta varnaraðila eins og áður, en tilteknum þáttum þjónustunnar var þó hætt að beiðni varnaraðila. Beiðnir um afhendingu gagna á árinu 2010 staðfesti einnig að varnaraðili óskaði áfram eftir þjónustu sóknaraðila.

Kröfur samkvæmt B-lið eru því fyrir þjónustu sem samningur aðila kvað á um að svo miklu leyti sem þjónustan hefur ekki þegar verið greidd af varnaraðila. Krafan, sem tekur til viðhaldsgjalda, rekstrar- og notendaþjónustu og annarra gjalda samkvæmt verðskrá sóknaraðila, tekur að mestu til uppsagnartímabils samkvæmt samningnum en einnig til tímabila fyrir það tímamark. Vísast til sundurliðunar á dskj. 51 en nánar verður gerð grein fyrir kröfu vegna hvers einstaks kerfis síðar.

Sóknaraðili segir kröfur sínar vera búskröfur og vísar í því sambandi til 3. tl. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, enda er um að ræða kröfur sem urðu til með samningum skiptastjóra varnaraðila við sóknaraðila í skilningi ákvæðisins. Samningar um einstakar vörur féllu ekki úr gildi fyrr en með uppsögn varnaraðila; um þetta bera öll samskipti málsaðila vitni, enda er óumdeilt og viðurkennt í bréfi varnaraðila, þar sem ágreiningi aðila er vísað til héraðsdóms, að sóknaraðili hélt áfram að veita varnaraðila þjónustu eftir skipan bráðabirgðastjórnarinnar og eftir upphaf slitameðferðar. Notkun kerfanna hélt einnig áfram á uppsagnarfresti, ýmist bein notkun á kerfunum eða með því að gögn voru varðveitt í þeim. Samskiptin sýna m.a. að varnaraðili sagði einstökum þáttum þjónustunnar upp í áföngum en það staðfestir að lengd uppsagnarfrestsins var sú sem tiltekin er í hinum skriflega samningi og viðaukum hans. Sóknaraðili segir varnaraðila vera í stórfelldri mótsögn við sjálfan sig þegar hann heldur því fram annars vegar að sóknaraðili hafi haldið áfram að veita varnaraðila þjónustu á starfstíma bráðabirgðastjórnar og hins vegar að réttarsamband aðila hafi rofnað við skipan bráðabirgðastjórnar. Eftir að slitameðferð hófst átti sér stað uppsögn í október 2009, sbr. það sem að framan greinir, og síðustu þáttum þjónustunnar var sagt upp 30. júní 2010. Hefði samningurinn verið fallinn úr gildi hefði slitastjórn ekki sagt honum upp með sérstökum tilkynningum.

Sóknaraðili heldur því fram að um leið og skilanefnd var skipuð yfir varnaraðila hafi vaknað spurningar um hvort og að hve miklu leyti varnaraðili myndi óska eftir þjónustu sóknaraðila. Aðilar hafi verið í stöðugu sambandi um þetta atriði, bæði áður og eftir að slitameðferð hófst, en sóknaraðili byggir á því að slitastjórn varnaraðila hafi ákveðið að ganga inn í samning málsaðila, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í samræmi við 3. mgr. 91. gr. laganna fá kröfur sem stofnuðust frá og með 23. júní 2009 stöðu búskrafna. Sóknaraðili telur að athugasemdalausar greiðslur varnaraðila á reikningum sóknaraðila, fram til þess að þjónustuliðum var sagt upp, og samningur aðila um lækkun um gjaldflokk hinn 22. febrúar 2010 staðfesti þennan skilning, enda hefði varnaraðila í slitameðferðinni verið óheimilt að greiða aðrar kröfur en búskröfur þar sem fyrir liggur að eignir varnaraðila nægja aðeins til greiðslu upp í almennar kröfur við úthlutun þegar þar að kemur. Sóknaraðili byggir á því að samkomulag aðila frá í maí 2009 hafi ekki falið í sér að sóknaraðili félli frá kröfum er hann átti tilkall til samkvæmt þjónustusamningnum. Sóknaraðili segir óskiljanlegt að varnaraðili telji að kröfur sóknaraðila á uppsagnarfresti séu almennar kröfur þegar kröfur fyrir sömu þjónustu áður en til uppsagnar kom voru búskröfur sem voru greiddar af slitastjórninni.

Sóknaraðili gerir nánari grein fyrir kröfum sínum varðandi einstök kerfi og vísar í greinargerð sinni, í dæmaskyni, til reikninga en heldur því fram að reikningar hafi verið gerðir fyrir öllum kröfum og vísar í heildaryfirlit um þá, sem liggur frammi í málinu. Þá tekur hann fram að frá og með febrúarmánuði 2011 sé sala sóknaraðila á þjónustu til varnaraðila virðisaukaskattsskyld en frá þeim tíma var varnaraðili ekki lengur aðili að samstarfssamningnum við sóknaraðila. Þá segir sóknaraðili að þar sem sagt er að samningar um einstök kerfi hafi verið munnlegir sé átt við að um viðkomandi þjónustu hafi ekki verið undirritaður skriflegur viðauki við þjónustusamninginn, en í þeim tilfellum hafi komist á munnlegur samningur um þjónustuna í rekstri varnaraðila áður en bráðabirgðastjórn var skipuð. Viðkomandi þjónustu hafi sóknaraðili þannig veitt varnaraðila um nokkurn tíma. Skilmálar um þjónustuna voru þeir sömu og annars samkvæmt þjónustusamningnum og í samræmi við skriflega viðauka er yfirleitt voru gerðir um viðkomandi þjónustu við aðra viðskiptamenn. Umkrafið gjald sé síðan í samræmi við það sem áður hafði verið í samskiptum aðila. Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðili hafi greitt fyrir alla þjónustuna líkt og haldið er fram í bréfi til héraðsdóms.

                Sóknaraðili gerir í greinargerð sinni nánari grein fyrir einstökum kerfum og lýsir því hvað þau gera. Hér verða aðeins rakin aðalatriði varðandi hvert kerfi. Sóknaraðili vísar til þess að um kerfi þau er varnaraðili notaði hafi gilt samningar sem hann hefur lagt fram í málinu en í einstaka tilfellum hafi samningar verið munnlegir og er þess þá getið um það kerfi.

                1. Innheimtukerfi

Með þessu kerfi er mögulegt að halda utan um innheimtur fyrir þjónustukaupa og viðskiptavini hans. Í kerfinu eru m.a. varðveittar upplýsingar um kröfusögu viðskiptavina, upplýsingar kröfuhafa og stöðu krafna. Sóknaraðili sá um samskipti við Reiknistofu bankanna vegna innheimtukrafna nokkurra viðskiptavina varnaraðila og því hafi verið nauðsynlegt að halda kerfin opnu. Gögn úr kerfinu voru afhent á gagnagrunnsformi 13. september 2010. Kerfi þessu var sagt upp með tölvupósti hinn 29. október 2009 og tók uppsögnin gildi 1. nóvember það ár. Sóknaraðili krefst greiðslu til loka uppsagnarfrests eða út október 2010.

                Reikningar fyrir innheimtukerfi taka mið af verðskrá en frá henni er veittur 38% afsláttur af rekstrar- og notendaþjónustu en 28% afsláttur af notendagjöldum. Sóknaraðili segir kröfu fyrir hvern mánuð nema 760.779 krónum, samtals 9.129.348 krónur.

2. Afgreiðslukerfi

Kerfi þetta gerir mönnum kleift að afgreiða viðskiptavini varðandi greiðslu reikninga og krafna, stofnun og breytingar á reikningi, uppflettingar og fyrirspurnir um stöðu reikninga og lána, skráningar í fjárhagsbókhald, sölu gjaldeyris og annað sem lýtur að almennri afgreiðslu fjármálastofnana. Kerfið er tengt Reiknistofu bankana. Þá kveður sóknaraðili að kerfið varðveiti mikið af upplýsingum. Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að varnaraðili hafi, með tölvupósti hinn 29. maí 2009, óskað eftir því að kerfinu yrði haldið opnu en varnaraðili hafi með tölvupósti 29. október sama ár sagt kerfinu upp. Sóknaraðili krefst greiðslu fyrir kerfið á uppsagnarfresti miðað við gjaldskrá en þó með 8% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og 41% afslætti af notendagjöldum. Krafa fyrir hvern mánuð miðist við 1.618.215 krónur og því sé heildarupphæðin fyrir allan uppsagnarfrestinn, sem var 12 mánuðir, 19.418.580 krónur. Sóknaraðili kveðst hafa afhent varnaraðila afrit af gögnum í kerfinu hinn 10. ágúst 2010.

3. Greiðsluþjónustukerfi

Sóknaraðili kveður þetta kerfi hafa gert viðskiptavinum hans kleift að halda utan um greiðslu fyrir viðskiptavini banka og sparisjóða. Kerfið hafi m.a. varðveitt upplýsingar um greiðslusamninga og framvirkar greiðslur auk annars sem kerfið bauð upp á. Þann 9. september var munnleg ósk Heiðars Þórs Guðnasonar staðfest af honum sjálfum í tölvupósti um að sóknaraðili afhenti varnaraðila gögn úr Greiðsluþjónustukerfinu á gagnagrunnsformi. Kerfinu var sagt upp hinn 29. maí 2009 með tölvupósti, sjá dskj. 37. Uppsögnin tók gildi hinn 1. júní 2009 og er gerð krafa um greiðslu þóknunar til loka uppsagnarfrests, þ.e. út maímánuð 2010. Reikningar fyrir Greiðsluþjónustukerfið eru samkvæmt verðskrá en þó með 41,8% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og með 28% afslætti af viðhaldsgjöldum. Samanlögð fjárhæð krafna vegna Greiðsluþjónustukerfis er kr. 8.309.642.

                4. Gjaldtökukerfi

Kerfið stýrir gjaldtöku af fyrir fram skilgreindum gjaldtökureikningi viðskiptavina og er undirliggjandi fyrir ýmis önnur kerfi, t.d. Greiðsluþjónustukerfi og Innheimtukerfi. Nokkrir viðskiptavinir varnaraðila voru áfram þjónustaðir með innheimtu á kröfum í Innheimtukerfinu og nutu þá um leið þjónustu af Gjaldtökukerfinu. Kerfinu var sagt upp hinn 29. maí 2009 með tölvupósti. Uppsögnin tók gildi hinn 1. júní 2009 og er gerð krafa um greiðslu þóknunar til loka uppsagnarfrests, þ.e. út maímánuð 2010. Reikningar fyrir Gjaldtökukerfi eru samkvæmt verðskrá, en þó með 25,7% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og 28% afslætti af notendagjöldum. Krafan nemur kr. 153.173 fyrir hvern mánuð uppsagnarfrests, samtals kr. 1.684.903.

                5. Millifærslukerfi

Kerfi þetta gerir starfsmönnum þjónustukaupa kleift að framkvæma millifærslur af reikningum viðskiptamanna yfir á hvaða aðra reikninga sem er, bæði af reikningum í kerfum sóknaraðila og af reikningum skráðum hjá Reiknistofu bankanna. Allar millifærslur eru varðveittar í kerfinu og með því er einnig hægt að fletta upp einstökum millifærslum. Kerfinu var sagt upp hinn 29. maí 2009. Uppsögnin tók gildi hinn 1. júní 2009 og er gerð krafa um greiðslu þóknunar til loka uppsagnarfrests, þ.e. út maímánuð 2010. Aðgangi notenda var ekki lokað við uppsögnina og kerfið var mikið notað af starfsmönnum Dróma hf. og varnaraðila til að svara fyrirspurnum fyrrverandi viðskiptamanna varnaraðila um millifærslur á reikninga. Reikningar fyrir millifærslukerfi eru samkvæmt verðskrá, en þó með 35% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og af viðhaldsgjöldum. Krafan nemur kr. 360.846 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 3.969.306.

6. Vanskilakerfi/skuldastaða og vanskil

                Kerfið heldur utan um vanskil viðskiptavina þjónustukaupa og með því er hægt að flokka vanskil, senda ítrekunarbréf o.fl. í þeim dúr. Kerfið tengist kerfum milliinnheimtuaðila. Í tilkynningu varnaraðila um fækkun notenda, hinn 29. maí 2009, var sérstaklega óskað eftir áframhaldandi aðgangi nokkurra starfsmanna að kerfinu. Kerfinu var svo sagt upp með tölvupósti hinn 29. október 2009. Uppsögnin tók gildi hinn 1. nóvember 2009 og er gerð krafa um greiðslu þóknunar til loka uppsagnarfrests, þ.e. út októbermánuð 2010. Reikningar fyrir Vanskilakerfi eru samkvæmt verðskrá en með 31% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og viðhaldsgjöldum. Krafan nemur kr. 349.005 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 4.188.060.

7. Ábyrgðakerfi.

Með þessu kerfi var haldið utan um innlendar og erlendra ábyrgðir. Sóknaraðili bendir á að í tölvupósti frá 29. maí 2009 komi fram að starfsmaður SPRON eigi að hafa aðgang að erlendu ábyrgðunum en ekkert er nefnt varðandi innlendar ábyrgðir. Hinn 9. júní óskaði varnaraðili eftir því að aðgangur yrði opnaður fyrir starfsmann SPRON að innlendu ábyrgðunum en þá kom í ljós að aðgangur var opinn.

Unnin gögn um erlendar og innlendar ábyrgðir voru afhent varnaraðila 23. júní 2010 og 20. ágúst 2010. Gögn á gagnagrunnsformi voru afhent 10. ágúst 2010. Ábyrgðakerfinu var sagt upp með tölvupósti hinn 29. október 2009. Uppsögnin tók gildi hinn 1. nóvember 2009 og er gerð krafa um greiðslu eftirstöðva þóknunar til loka uppsagnarfrests, þ.e. út októbermánuð 2010.

Reikningar fyrir ábyrgðakerfi eru samkvæmt verðskrá, en þó með 33% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og viðhaldsgjöldum. Krafan nemur kr. 132.323 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 1.587.876.

                8. Netbankar/Vefbankar

Kerfið gerir viðskiptamanni þjónustukaupa kleift að afgreiða sig sjálfur gegnum internet. Kerfið skiptist í Heimabanka, Heimabankaumsjón, Fyrirtækjabanka, GSM banka og Bankatengingu.

Heimabanka varnaraðila var haldið opnum frá falli hans þar til aðgangi að honum var lokað þann 22. maí 2009 vegna ógreiddra reikninga sóknaraðila. Samkomulag hafði verið um það milli bráðabirgðastjórnar SPRON og Nýja Kaupþings banka að Heimabankanum yrði lokað þann 26. maí s.á. Fram til 18. maí 2009 gátu fyrrverandi viðskiptavinir varnaraðila gert fjárhagslegar færslur í Heimabankanum, en frá 18. maí og fram að lokun þann 22. maí var aðeins opið fyrir skoðunaraðgang.

Þann 28. maí var opnað fyrir þjónustu við varnaraðila á ný eftir að samkomulag náðist um uppgjör á ógreiddum reikningum. Heimabankinn var hins vegar ekki opnaður gagnvart fyrrverandi viðskiptavinum varnaraðila en það var bæði í samræmi við áætlun bráðabirgðastjórnar varnaraðila og Nýja Kaupþings banka um lokun, og einnig í samræmi við fyrirmæli frá varnaraðila í tölvupósti frá 29. maí þar sem segir um netbanka: „Loka öllum gagnvart SPRON. Hægt að kanna með NKB um framhald.“

Aðgangi starfsmanna varnaraðila að heimabankaumsjón var hins vegar ekki lokað. Heimabankaumsjón er hluti af netbankaþjónustu sóknaraðila við viðskiptavini sína, en kerfið er hins vegar ekki ætlað viðskiptavinum viðkomandi sparisjóðs (fjármálastofnunar) heldur starfsmönnum hans. Heimabankaumsjón var mikið notuð af starfsmönnum varnaraðila til að svara fyrirspurnum frá fyrrverandi viðskiptavinum. Varnaraðili sagði heimabankaumsjón upp með tölvupósti þann 30. október 2009. Staðfesting á því að varnaraðili hafi óskað eftir því að opið væri fyrir heimabankann í heild liggur fyrir í tölvupósti frá 26. október 2009, en með honum óskaði starfsmaður varnaraðila eftir því að heimabanka yrði lokað fyrir 1. nóvember.

Reikningar fyrir Netbanka eru samkvæmt verðskrá, en þó með 8% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og af notendagjöldum. Krafan er um kr. 970.531 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 11.646.372.

                9. Erindreki/Skjalavistun

Erindreki er kerfi sem skiptist í skjalavistunar- og skönnunarkerfi. Kerfið var notað þar til starfsstöðvar varnaraðila voru aftengdar af neti sóknaraðila hinn 30. júní 2010. Kerfinu var ekki sagt upp sérstaklega en sóknaraðili leit þannig á að með tilkynningu varnaraðila þann dag, um að allar starfsstöðvar hefðu verið aftengdar, hefði kerfinu þar með verið sagt upp. Afrit af gögnum úr Erindreka voru afhent varnaraðila hinn 3. mars 2010.

Fjárhæð kröfu fyrir áskriftargjöld er samkvæmt samningi málsaðila er komst á með tölvupósti hinn 22. febrúar 2010. Fól hann í sér lækkun á viðhaldsgjöldum og rekstrar- og notendagjöldum um einn flokk frá og með 1. janúar 2010 þannig að miðað var við verðskrárflokk 4 í stað flokks 5 áður. Krafist er áskriftargjalda fyrir tímabilið ágúst 2010 til júní 2010, kr. 175.000 fyrir hvern mánuð.

Einnig er krafið um eftirtalin notkunargjöld fyrir hvern mánuð, sbr. gjaldskrá, útg. 1. janúar 2010.

Sjö notendaleyfi fyrir hvern mánuð                                                                kr.                  19.530

kr. 2,2 fyrir hvert varðveitt Mb (40.659 Mb)                                   kr.                 89.450

                Fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. desember 2010 er þó krafist lægri fjárhæðar en gjaldskrá kvað á um. Einingafjöldi notendaleyfa og gagnamagns er miðaður við fjölda við upphaf uppsagnarfrests. Samanlögð fjárhæð krafna fyrir Erindreka er kr. 3.550.353.

                10. IT2 kerfi. Um þetta kerfi gilti munnlegur samningur sem fellur undir þjónustusamning aðila. Kerfið heldur utan um ýmsar tegundir samninga á gjaldeyris-,  millibanka-, lána-, hlutabréfa-, skuldabréfa- og afleiðumörkuðum.

Varnaraðili hefur greitt reikninga vegna IT2 út júlímánuð 2009. Krafa sóknaraðila er til komin vegna tímabilsins frá ágúst 2009 og fram til október 2010. Notkun IT2 kerfisins var sagt upp með tölvupósti þann 29. október 2009, uppsagnarfrestur var 12 mánuðir. Unnin gögn úr kerfinu voru afhent 15. júlí 2010, gagnagrunnsgögn voru afhent 13. september 2010.

Reikningar fyrir IT2 eru samkvæmt samningi aðila eins og hann hafði verið framkvæmdur, en þó með 18% afslætti í stað 10% afsláttar áður. Krafan nemur kr. 1.259.629 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 18.894.435.

11. Hlutvís

Hugbúnaður þessi heldur utan um hlutaskrá hlutafélaga, hluti og hlutabréf.  Kerfið gerir mönnum kleift að undirbúa hluthafafundi, umsjón með hlutafjárútboðum og eignatilfærslum hlutafjár. Notkun kerfisins var sagt upp með tölvupósti þann 29. október 2009, uppsagnarfrestur var 12 mánuðir.

Reikningar fyrir Hlutvískerfið eru samkvæmt verðskrá, en þó með 73,3% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og 56,5% afslætti af viðhaldsgjaldi. Krafan er um kr. 29.661 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 296.610.

                12. Húsbréfakerfi

Um Húsbréfakerfið var munnlegur samningur sem féll undir þjónustusamning en kerfi þetta heldur utan um skráningu húsbréfa. Notkun Húsbréfakerfisins var sagt upp með tölvupósti þann 29. október 2009. Uppsagnarfrestur kerfisins var 12 mánuðir.

Reikningar fyrir húsbréfakerfið eru samkvæmt verðskrá, en þó með 8% afslætti af rekstrar- og notendaþjónustu og af notendagjöldum. Krafan nemur kr. 85.560 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 1.283.400.

13. Lánstraust

Með aðgangi að þessu kerfi var unnt að fá gögn frá CreditInfo (áður Lánstraust). Ýmist er um að ræða beint aðgengi í gegnum uppflettiviðmót CreditInfo eða aðgengi í gegnum kerfi Teris að viðkomandi gögnum. SPRON nýtti sér þessa þjónustu og greiddi alla reikninga vegna Lánstrausts fram að því að samningnum var sagt upp 29. október 2009 og reyndar einnig fyrir nóvembermánuð 2009, eftir að samningnum hafði verið sagt upp.

Reikningar fyrir Lánstraust eru samkvæmt verðskrá. Krafan nemur kr. 744.000 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 8.184.000.

                14. Loki

Loki er kerfi sem heldur utan um afleiðusamninga, m.a. framvirka skiptasamninga, framvirka hlutabréfasamninga og skiptasamninga með hlutabréf. Notkun kerfisins var sagt upp með tölvupósti þann 28. maí 2009. Uppsagnarfrestur var sex mánuðir en greitt var fyrir júnímánuð. Hinn 28. janúar 2010 sendi varnaraðili sóknaraðila beiðni um afhendingu gagna úr Loka. Afrit af gögnum úr kerfinu voru afhent 3. febrúar 2010.

Reikningar fyrir Loka eru samkvæmt verðskrá, en þó með 18% afslætti. Krafan er um kr. 228.780 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 1.143.900.

                15. Þjóðskrá

Um Þjóðskrá gilti framlagður samningur. Um er að ræða aðgengi að þjóðskrá og fyrirtækjaskrá, annaðhvort í uppflettiviðmóti eða gegnum hin ýmsu kerfi sóknaraðila. Varnaraðili greiddi alla reikninga vegna kerfisins án fyrirvara fram til þess að því var sagt upp hinn 30. júní 2010 en uppsagnarfrestur var 12 mánuðir.

Áskriftarreikningar fyrir Þjóðskrá eru samkvæmt samningi málsaðila er komst á með tölvupósti hinn 22. febrúar 2010. Fól hann í sér lækkun á viðhaldsgjöldum og rekstrar- og notendagjöldum um einn verðskrárflokk frá og með 1. janúar 2010 þannig að miðað var við verðskrárflokk 4 í stað flokks 5 áður. Umsamið gjald frá og með 1. janúar 2010 var þannig kr. 40.000. Reyndar er krafist kr. 39.999 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 479.988.

Liðirnir „fyrirtækjaskrá pr. höfuðstöðvar“, og „þjóðskrá pr. höfuðstöðvar“ vegna ársins 2010 eru samkvæmt verðskrá er útgefin var 1. janúar 2010 en þar er kveðið á um undir liðnum Nafnaskrá mánaðarlegt gjald fyrir þjóðskrána kr. 9.326 og fyrir fyrirtækjaskrána kr. 7.615. Fyrir árið 2011 er krafan samkvæmt verðskrá, er útgefin var 1. janúar 2011, þar sem mánaðargjald fyrir þjóðskrána er kr. 10.847 og fyrir fyrirtækjaskrána kr. 8.856, en umkrafið gjald er þó lægra eða kr. 10.137 fyrir þjóðskrána og kr. 8.277 fyrir fyrirtækjaskrána. Samanlögð krafa vegna þjóðskrár er kr. 729.831.

16. Netkerfi

Netkerfi sóknaraðila er öflugt og víðtækt net. Sóknaraðili sá um tengingar varnaraðila við Reiknistofu bankanna, internetið og aðrar gagnaveitur. Sóknaraðili sá einnig um að setja upp og viðhalda vörnum gagnvart ógnum er steðja að netkerfinu. Varnaraðili greiddi sóknaraðila fyrir tengingar við netkerfið.

Varnaraðili notaði netkerfi sóknaraðila allt fram til þess að starfsstöðvar varnaraðila voru aftengdar af netinu þann 30. júní 2010. Lengst af miðaðist notkunin við netsamband í Lágmúla þar sem Drómi, SPRON og önnur félög samstæðunnar hafa starfsemi. Netsamband í útibúum var ekki notað eftir fall varnaraðila, en sóknaraðili er engu að síður skuldbundinn af samningum við fjarskiptabirgja vegna netsambands í þessi útibú. Notkun netkerfisins var sagt upp með tölvupósti þann 30. júní 2010 en uppsagnarfrestur var 12 mánuðir.

Áskriftarreikningar fyrir netkerfi eru samkvæmt samningi málsaðila er komst á með tölvupósti hinn 22. febrúar 2010. Fól hann í sér lækkun á viðhaldsgjöldum og rekstrar- og notendagjöldum um einn verðskrárflokk frá og með 1. janúar 2010 þannig að miðað var við verðskrárflokk 4 í stað flokks 5 áður. Þetta á við rekstrar- og notendagjöld vegna endabúnaðar netsambanda og nettengingar en umsamið gjald fyrir þessa þjónustu frá og með 1. janúar 2010 var kr. 75.000. Reikningar fyrir notkun eru samkvæmt gjaldskrám er samþykktar voru 1. apríl 2009 og 1. janúar 2010. Þeir samanstanda af:

Reikningum fyrir margföldunarstuðul netsambanda, kr. 1.479 fyrir hverja einingu (116,5 einingar) með 27,3% afslætti frá verðskrá, eða kr. 1.074,6 fyrir hverja einingu, alls kr. 1.549.460.

Reikningum fyrir endabúnað í útibúi, kr. 50.000 fyrir hvern endabúnað, á árinu 2010 með 28% afslætti eða kr. 36.000 en án afsláttar fyrir árið 2011, alls  kr.  516.000.

Reikningum fyrir hverja útstöð, kr. 4.112 með 26,5% afslætti fyrir hverja útstöð eða alls kr. 12.084.

Einnig er gerð krafa um greiðslu reikninga vegna netsambands í útibúum varnaraðila frá júnímánuði 2009, sem hér segir:

Reikninga fyrir margföldunarstuðul netsambanda, kr. 1.479 fyrir hverja einingu (yfirleitt 279 einingar í hverjum mánuði, en þó 232,5 í ágúst 2009 og 395,5 í nóvember 2009) með 27,3% afslætti frá verðskrá útg. 1. apríl 2009, eða kr. 1.074,6 fyrir hverja einingu kr. 3.073.485.

Reikninga vegna endabúnaðar netsambanda (einingafjöldi 47,4 en þó 39,5 í júlí 2009 og 80.99 í nóvember 2009), kr. 5.907 fyrir hvern endabúnað með 28% afslætti af verðskrá, eða kr. 4.253, alls kr. 2.125.201.

Reikninga vegna útstöðva (fjöldi útstöðva í júní 2009 er 30, í júlí s.á. þrjár, í ágúst s.á. tvær, í september s.á. ein, í nóvember s.á. 20 og í desember s.á. ein), kr. 4.112 fyrir hverja útstöð með 26,5% afslætti eða kr. 3.021, alls kr. 172.200.

Einingafjöldi er miðaður við fjölda við upphaf uppsagnarfrests. Samanlögð krafa vegna notkunargjalda er kr. 7.448.430, samanlögð krafa vegna áskriftargjalda (rekstrar- og notendaþjónustu) er kr. 824.989. Samanlögð heildarkrafa vegna Netkerfa er því kr. 8.545.309.

                17. Opinberar skýrslur

Kerfið auðveldar aðgang að skýrslum fyrir hluta af reglulegri skýrslugjöf til Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Varnaraðili greiddi fyrir notkun þessa kerfis út októbermánuð 2009.

Notkun kerfisins var sagt upp með tölvupósti þann 29. október 2009 og uppsagnarfrestur var 12 mánuðir. Reikningar fyrir Opinberar skýrslur eru samkvæmt verðskrá, en þó með 28% afslætti. Krafan er um kr. 56.951 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 683.412.

                18. Póstkerfi

Um er að ræða öfluga miðlæga Microsoft Exchange 2007 lausn sem sá um allar þarfir varnaraðila varðandi tölvupóst. Varnaraðili notaði póstkerfið þar til starfsstöðvar voru aftengdar af netkerfi sóknaraðila hinn 30. júní 2010 þegar kerfinu var sagt upp með tölvupósti.

Reikningar fyrir áskriftargjöld (viðhaldsgjöld og rekstrar- og notendagjöld) að Póstkerfinu á uppsagnarfresti eru samkvæmt samningi málsaðila er komst á með tölvupósti hinn 22. febrúar 2010. Fól hann í sér lækkun um einn verðskrárflokk frá og með 1. janúar 2010; var miðað við verðskrárflokk 4 í stað flokks 5 áður, en umsamið gjald frá og með 1. janúar 2010 var kr. 50.000. Fyrsti mánuður uppsagnarfrests var greiddur, samanlagt nemur þessi krafa því kr. 550.000. Reikningar fyrir notkun á uppsagnarfresti eru samkvæmt gjaldskrá er útgefin var 1. janúar 2010, bls. 11, og samanstanda af:

Reikningi fyrir hvert Mb í pósthólfi, rúmlega 75.000 mb á kr. 2,6 hvert mb með 8% afslætti, kr. 2.255.132.

Reikningi fyrir hvert pósthólf, 166 virk pósthólf í hverjum mánuði á kr. 1.349 hvert hólf, samtals kr. 2.522.753.

Einnig er gerð krafa vegna eldri tíma en ógreidd er krafa fyrir nóvembermánuð 2009 sem er grundvölluð með sama hætti. Einingafjöldi er miðaður við fjölda við upphaf uppsagnarfrests. Heildarkrafa vegna Póstkerfis nemur því kr. 6.370.971.

                19. Reuters

Um er að ræða kerfi til að stunda viðskipti á millibankamarkaði. Í kerfinu eru m.a. upplýsingar um gjaldmiðlagengi, vaxtagengi og fréttir af fyrirtækjum. Þann 16. apríl 2008 barst beiðni um að opna fyrir aðgang fyrir tiltekinn starfsmann. Kerfinu var sagt upp 14. maí 2009 og uppsagnarfrestur var 12 mánuðir. Reikningar fyrir Reuters eru samkvæmt verðskrá, en þó með 38% afslætti. Krafan er um kr. 310.000 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 2.790.000.

20. Símkerfi

Símkerfið veitir aðgang að IP símstöð sem hefur getu til að sjá um öll símstöðvarmál varnaraðila. Varnaraðili notaði símkerfið allt fram til þess að samningnum um þjónustuna var sagt upp með tölvupósti varnaraðila þann 12. október 2009. Í símtali Haraldar Þorbjörnssonar við Katrínu Þórdísi Thorsteinsson sama dag kom fram að hún vildi láta loka strax fyrir þjónustuna en ekki bíða út uppsagnarfrest eins og varnaraðili hafði þó rétt á. Varnaraðili greiddi alla reikninga vegna símkerfisins fram til þess að þjónustunni var sagt upp. Uppsagnarfrestur var 12 mánuðir.

Í símkerfinu eru varðveittar símaupptökur frá árinu 2005. Afrit af þessum gögnum voru afhent Dróma þann 31. maí 2010. Reikningar fyrir símkerfið eru samkvæmt verðskrá. Reikningar fyrir áskriftargjöld (rekstrar- og notendagjöld) eru ýmist með 27,3% eða 27,4% afslætti. Krafa vegna þeirra er svohljóðandi fyrir hvern mánuð:

símstöð                                                                                kr.              128.373

upptaka                                                                               kr.                97.969

skiptiborð                                                                            kr.                94.590

þjónustuver                                                                        kr.                94.590

Reikningar fyrir mánaðarleg notkunargjöld eru svohljóðandi:

Hver notandi þjónustuversbúnaðar                              kr.                  2.790

Hvert símanúmer                                                              kr.                    930

Hvert símanúmer tengt skiptiborði                kr.                    512

Hvert símanúmer í upptöku                                           kr.                 3.255

Einingafjöldi er miðaður við fjölda við upphaf uppsagnarfrests. Til frádráttar eru reiknaðar, vegna hýsingar gagna, kr. 1.050.000. Varnaraðili óskaði í maí 2010 eftir að fá afhent gögn úr símkerfi. Sóknaraðili krafðist þess þá að varnaraðili greiddi fyrir hýsingu gagnanna á uppsagnarfrestinum sem hafði hafist í október 2009. Var sú krafa greidd og því er hún bakfærð í yfirliti. Samtals nemur krafa vegna Símkerfis kr. 9.317.604.

21. Spakur

Spakur er safn hugbúnaðarreikninga sem saman mynda heilsteypt viðskiptatengslakerfi fyrir fjármálastofnanir, sem sýnir m.a. yfirlit yfir viðskipti viðskiptavinarins, verkferla, lánareglur og tryggingar. Kerfið skiptist í nokkrar einingar. Spakur var notaður fram að því að starfsstöðvar voru aftengdar af neti sóknaraðila þann 30. júní 2010. 

Varnaraðili greiddi fram til aprílmánaðar 2010 alla reikninga vegna Spaks án fyrirvara, að undanskildum reikningi fyrir notkun vegna nóvembermánaðar 2009. Kerfinu var sagt upp með tölvupósti hinn 30. júní 2010. Uppsagnarfrestur kerfisins var samkvæmt samningi 12 mánuðir. Í kerfinu eru varðveitt gögn um samskiptasögu, athugasemdir, fjárhag einstaklinga, ábyrgðir, veð og tryggingar. Afrit af þessum gögnum voru afhent á tímabilinu 4. maí til 28. júní 2010.

Reikningar fyrir áskriftargjöld (viðhaldsgjöld og rekstrar- og notendagjöld) að Spaki eru samkvæmt samningi málsaðila er komst á með tölvupósti hinn 22. febrúar 2010. Fól hann í sér lækkun um einn gjaldskrárflokk frá og með 1. janúar 2010 þannig að miðað var við verðskrárflokk 4 í stað flokks 5 áður. Umsamið gjald frá og með þessum tíma var kr. 1.850.000. Það athugist að reikningur fyrir mánuðina maí til ágúst 2010 var gefinn út í september 2010.

Reikningar fyrir notkun eru samkvæmt gjaldskrá er útgefin var 1. janúar 2010,  en með afslætti:

Fjöldi athugasemda, hver eining á kr. 2,9 með 18% afslætti  

Fjöldi skráðra trygginga, hver eining á kr. 19 með 37% afslætti

FMR-uppfærsla, hver eining á kr. 10 með 10% afslætti           

Samningar VSKM, hver eining á kr. 2 með 28% afslætti         

                         Skráðir vsk.menn, hver eining á kr. 1,7 með 13,9% afslætti

Einingafjöldi er miðaður við fjölda við upphaf uppsagnarfrests. Jafnframt er gerð krafa um ógreiddan reikning vegna nóvembermánaðar 2009 er hefur að geyma sömu kröfuliði og tilgreindir eru að framan auk eins FMR veðbandayfirlits á kr. 680. Samtals nemur krafa vegna Spaks kr. 33.772.127.

22. Starfsstöð

Sóknaraðili veitti varnaraðila umfangsmikla þjónustu við útstöðvar (starfsstöðvar). Þjónustan fólst í að viðhalda veiru- og ruslpóstvörnum á netþjónum og starfsstöðvum, umsýslu vegna uppfærslna, aðgangsstýringa og bilana, uppsetninga á samskrár- og heimasvæðum starfsmanna, skýrslugerð, fjartengi þjónustu o.fl. Þjónusta skv. samningnum skiptist í nokkra þætti, m.a. kaup á Microsoft-leyfum.

Varnaraðili notaði þjónustu sóknaraðila við starfsstöðvar allt fram til þess að starfsstöðvar voru aftengdar af neti sóknaraðila þann 30. júní 2010 eftir uppsögn. Uppsagnarfrestur var 12 mánuðir. Sóknaraðili varðveitti gögn í tengslum við þessa þjónustu, þ.e. gögn á heimasvæðum starfsmanna og samskrársvæðum. Afrit af þessum gögnum eins og þau stóðu í kerfum sóknaraðila voru afhent 3. maí 2010. Að beiðni varnaraðila hafa einnig verið afhent endurheimt gögn af heimasvæðum og samskrám miðað við nokkrar dagsetningar sem ákveðnar voru af slitastjórn varnaraðila.

Reikningar fyrir áskriftargjöld (viðhaldsgjöld og rekstrar- og notendagjöld) að Starfsstöðvum eru samkvæmt samningi málsaðila er komst á með tölvupósti hinn 22. febrúar 2010. Fól hann í sér lækkun um einn gjaldskrárflokk frá og með 1. janúar 2010 þannig að miðað var við verðskrárflokk 4 í stað flokks 5 áður. Umsamið gjald frá og með 1. janúar 2010 var þannig kr. 80.000.

Reikningar fyrir notkun eru samkvæmt gjaldskrá er útgefin var 1. janúar 2010.

Gagnagrunnsgjald pr. útstöð, hver eining á kr. 4.645 með 8% afslætti 

Heimasvæði pr. Mb, hver eining á kr. 1.04 með 8% afslætti

Samskrá pr. Mb, hver eining á kr. 1.04 með 8% afslætti.

                Einingafjöldi er miðaður við fjölda við upphaf uppsagnarfrests. Jafnframt er gerð krafa um ógreiddan reikning vegna nóvembermánaðar 2009 er hefur að geyma sömu kröfuliði og tilgreindir eru að framan, auk gjalds fyrir starfsstöð.

Samanlögð krafa vegna Starfsstöðva nemur kr. 4.166.919.

                23. Reiknivélar/Veflausnir

Reiknivélar er þjónusta sem viðskiptavinir sóknaraðila geta nýtt á vefsíðum sínum, s.s. lánareiknar o.þ.h. Notkun Reiknivéla var sagt upp með tölvupósti þann 29. október 2009.  Uppsagnarfrestur var 12 mánuðir.

Reikningar fyrir veflausnir eru samkvæmt verðskrá, er útgefin var 1. apríl 2009, en þar er kveðið á um grunngjald að fjárhæð kr. 45.000 en þó með 22,2% afslætti, eða kr. 41.400 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 662.400.

                24. Moss/Sharepoint-vefir

Innri vefir SPRON voru tveir, sá eldri er Webmaster-vefur, spron.spar.is. Yngri vefurinn er MOSS-vefur, innraspron.spar.is. Sá síðarnefndi var í prófunum við fall varnaraðila og hafði ekki verið tekinn til fullrar notkunar.

Þann 18. febrúar 2010 kom beiðni frá Guðjóni Þórðarsyni, starfsmanni varnaraðila, um að fá að sækja tvær Blade-vélar sem voru í eigu varnaraðila. Önnur þessara véla (appwebspron2) keyrði þá innraspron.spar.is. Þann 23. febrúar 2010 svaraði Heiðar Þór Guðnason spurningu sóknaraðila um hvort eyða mætti umræddum gögnum þar sem um þróunarverkefni væri að ræða og félagið hefði ekki áhyggjur eða áhuga á þessum gögnum. Sama dag var slökkt á vélunum og þær afhentar Heiðari. Diskarnir voru þó varðveittir þrátt fyrir að varnaraðili hefði engan áhuga á þeim og fékk Heiðar upplýsingar um það. Þann 28. apríl 2010 barst svo beiðni frá Heiðari um að appwebspron2 yrði ræst að nýju í því skyni að sækja þangað gögn. Þann 7. maí fékkst svo að nýju leyfi til að slökkva á lánsvélinni sem notuð var. Þann 31. ágúst 2010 fékkst staðfest frá Heiðari að sóknaraðila væri heimilt að eyða gögnum af innraspron.spar.is. 

Þjónustunni var sagt upp með tölvupósti hinn 29. október 2009. Varnaraðili greiddi fram til október 2009 reikninga vegna MOSS án fyrirvara. Gerð er krafa um að fá greidda þóknun á 12 mánaða uppsagnarfresti. Reikningar fyrir MOSS eru samkvæmt verðskrá, útg. 1. jan. 2010, og er krafist mánaðarlegra greiðslna fyrir þessa liði með 8% afslætti frá gjaldskrá:

Geymsla í Sharepoint á 1873 Mb, á kr. 4,2 pr. Mb                                                       kr.       7.237

Sér lén á innra neti                                                                                                                kr.    15.640

Eitt sharepoint designer leyfi                                                                                              kr.      1.400

Tenging við gagnagrunn                                                                                                      kr.    46.000

         Samtals                                                                                                      kr.              70.277

Reikningar fyrir júlímánuð 2009 eru þó lægri. Einingafjöldi er miðaður við fjölda við lok uppsagnarfrests. Samanlögð fjárhæð kröfu vegna Moss er kr. 842.980.

25. Viðmótsþjónustur

Í Viðmótsþjónustu felst tenging útstöðva viðskiptavinar við tölvukerfi annarra fyrirtækja, við kerfi kortafyrirtækja og kerfi Reiknistofu bankanna. Þessi þjónusta var notuð hjá varnaraðila, m.a. til að geta skoðað Tamaris-bókhaldskerfið hjá Reiknistofu bankanna.

Þann 16. júní 2009 barst verkbeiðni frá varnaraðila (Bjarna Þór Guðjónssyni) um að færslur í Bakverði (tímaskráningarkerfi) skiluðu sér ekki vegna villu í tengingum sem voru lagfærðar. Þann 23. júní 2009 barst önnur verkbeiðni frá varnaraðila (Geir Þórðarsyni) um að ekki væri hægt að prenta úr Birtu (Birtingarkerfi RB). Úr þeirri beiðni var leyst farsællega af starfsmönnum sóknaraðila en prentun úr Birtu reiðir sig á að samband sé til staðar við kerfið hjá RB í gegnum viðmótsþjónustu sóknaraðila.

Í yfirliti yfir fækkun notenda, frá 29. maí 2009, kemur fram að loka eigi viðmótsþjónustum, en athuga með Nýja Kaupþing banka. Viðmótsþjónustunni var hins vegar ekki lokað, enda fráleitt að gera það með hliðsjón af þörfum varnaraðila, sem reiddi sig á aðgengi að gögnum hjá RB og tímaskráningarkerfinu Bakverði. Aðgangur að viðmótsþjónustunni var fyrir hendi áfram og var hún notuð af starfsmönnum varnaraðila.

Krafa sóknaraðila vegna þessarar þjónustu er fyrir eftirstöðvar tólf mánaða uppsagnarfrests er byrjaði að líða hinn 1. júní 2009. Þann 23. desember greiddi varnaraðili kr. 877.136 fyrir tímabilið mars til október 2009 með fyrirvara um réttmæti innheimtunnar. Ógreidd er því þjónusta fyrir tímabilið nóvember 2009 til maí 2010.

Reikningar fyrir viðmótsþjónustur eru samkvæmt verðskrá en þó með 28% afslætti. Krafan er að fjárhæð kr. 108.140 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 756.980.

                26. Gagnaskemma/Gagnaaðgengi

Gagnaaðgengið veitti varnaraðila beinan aðgang að gögnum sem hann óskaði eftir. Notkun Gagnaskemmu var sagt upp með tölvupósti þann 29. október 2009 en uppsagnarfrestur var 12 mánuðir. Reikningar fyrir Gagnaskemmu eru samkvæmt verðskrá, er útgefin var 1. apríl 2009, þ.e. rekstrar- og notendaþjónusta og viðhaldsgjald fyrir þættina gagnaaðgengi, Business Objects og SQL (fyrirspurnaraðgengi), allt með 8% afslætti, eða kr. 2.440.800 fyrir hvern mánuð, samtals kr. 21.408.752.

Mánaðarlegir reikningar fyrir notkun eru sem hér segir:

Business Objects Deskl/Webl. 30 stk. á kr. 4.500                                                                       kr.         135.000

Aðgengi per töflu eða view, hrágögn, 15 stk. á kr. 100                                                              kr.             1.380

Gagnaaðgengissamningur                                                                                                               kr.             9.200

Gagnaheimar Teris, 29 stk. á kr. 1.200                                                                                         kr.           32.016

Infoview, 39 stk. á kr. 5.000                                                                                                           kr.         195.000

Samtals                 kr.                                                                                                                         2.617.396

Aðgengi per töflu, gagnaaðgengissamningur og Gagnaheimar Teris eru með 8% afslætti frá verðskrá. Samanlögð krafa vegna Gagnaskemmu nemur kr. 31.408.752.

27. Almennt/annað

Undir þessum lið er gerð krafa um greiðslu neðangreindra reikninga 

Srn 1626                     kr.                                                                                                  7.918

Srn 1627                     kr.                                                                                                  7.918

Prn 2389                     kr.                                                                                                79.900

Reikningar vegna Srn eru fyrir útlögðum kostnaði sóknaraðila vegna léns varnaraðila sem sóknaraðili sá um að endurnýja samkvæmt samningi málsaðila.

Reikningur Prn er vegna vinnu sóknaraðila fyrir varnaraðila við lokun á heimabanka Frjálsa Fjárfestingarbankans hf. og einnig vegna vinnu sóknaraðila fyrir varnaraðila við að útvega tölvupóst og heimasvæði tveggja starfsmanna miðað við 21. mars 2009. Ástæða þess að varnaraðili er krafinn um greiðslu vegna heimabanka Frjálsa Fjárfestingarbankans hf. er að bankinn hafði aldrei greitt sjálfur fyrir þjónustu vegna hans heldur hafði varnaraðili greitt fyrir hana. Samtals er krafist undir þessum lið kr. 95.736.

Samanlögð fjárhæð krafna undir B-lið er kr. 193.429.806.

Krafa samkvæmt lið C í kröfulýsingu.

Eins og að framan greinir var það snemma á árinu 2010 að varnaraðili óskaði eftir afhendingu gagna úr kerfum er sóknaraðili hafði þjónustað. Er málavöxtum varðandi afhendingu gagnanna lýst að framan en þar kom fram að þegar beiðni um afhendingu var sett fram var uppsagnarfrestur á Loka þegar liðinn. Engin uppsögn hafði átt sér stað á vinnslusamningnum.

Áður hefur komið fram að aðilar áttu í viðræðum um áframhaldandi þjónustu sóknaraðila fyrir varnaraðila eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila. Ekki kom til þess að gerður væri nýr skriflegur samningur um slíka þjónustu en vinnslusamningurinn var í gildi um vörslu gagnanna frá því að uppsagnarfresti lauk, auk þess sem þjónustusamningurinn rann sitt skeið á enda með því að einstökum þáttum hans var sagt upp og uppsagnarfresti lauk samkvæmt því. Í bréfi varnaraðila til dómsins, sjá dskj. 1, eru mótsagnakenndar fullyrðingar um skyldur sóknaraðila til að varðveita gögn varnaraðila. Hið rétta er að þrátt fyrir að tilkynning varnaraðila hinn 30. júní 2010 gæti skoðast sem ígildi uppsagnar á vinnslusamningnum var sóknaraðila ekki enn heimilt að eyða gögnum varnaraðila. Á þessum tíma var komin fram tilkynning Fjármálaeftirlitsins um að í gangi væri einhvers konar eftirlitsmál hjá stofnuninni er laut að gögnum varnaraðila og ekki hafði fengist svar frá stofnuninni um hver réttarstaða sóknaraðila væri hvað varðaði vörslur og meðferð gagnanna. Um þetta og um réttarsamband málsaðila sem ábyrgðaraðila og vinnsluaðila á þessum tíma vísast til laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, einkum 8. gr., skyldna sóknaraðila, sem mælt er fyrir um í leiðbeinandi tilmælum FME nr. 1/2005, og loks til afskipta Fjármálaeftirlitsins af meðferð gagnanna hjá sóknaraðila sem gerð er grein fyrir að framan. Fjármálaeftirlitið hefur enn ekki getað staðfest að lokið sé vinnsluaðilaábyrgð sóknaraðila á umræddum gögnum. Ummæli varnaraðila um lok vinnsluaðilaábyrgðar sóknaraðila hafa enga þýðingu í þessu sambandi þar sem varnaraðili lýtur eftirliti stofnunarinnar.

Sóknaraðili heldur því fram að afstaða Fjármálaeftirlitsins hafi leitt til þess að hann hafi ekki talið sig hafa heimild til að eyða gögnum sóknaraðila og því verið nauðbeygður til að varðveita þau áfram. Hann hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að krefja Fjármálaeftirlitið um svör við því hverjar skyldur hans væru í þessu efni en án árangurs. Þetta leiði til þess að sóknaraðila sé nauðsyn að krefja varnaraðila um endurgjald fyrir hýsingu frumgagna varnaraðila fyrir tímabilið eftir að uppsagnarfresti um einstök kerfi lauk og þar til vinnsluaðilaábyrgð varnaraðila lýkur, m.ö.o. þar til varnaraðila verður heimilt að eyða gögnunum. 

Sóknaraðili vísar til þess að endurgjald fyrir hýsingu gagna fram til þess að uppsagnarfresti lauk sé hluti af þóknun fyrir rekstur og notendaþjónustu. Í samkomulagi milli aðila frá 28. maí 2009 komi hins vegar fram að sóknaraðili skuli greiða varnaraðila fyrir varðveislu gagna. 

Krafa vegna hýsingar er út af gögnum sem eru vistuð í eftirtöldum kerfum:

Ábyrgðarkerfi (innlendar og erlendar ábyrgðir), Innheimtukerfi, Afgreiðslukerfi, Netbankar/Vefbankar, Erindreki, IT2, Greiðsluþjónusta, Loki, Millifærslukerfi, Póstkerfi, Starfsstöðvar (heimasvæði), Símkerfi og Spakur.

Fjárhæð kröfu um hýsingu eftir lok uppsagnarfrests grundvallast á því að fyrir hendi sé samningur málsaðila um hýsingu á gögnunum uns varnaraðila er heimilt að eyða þeim eða í það minnsta ígildi slíks samnings. Kröfunum er því lýst sem búskröfum samkvæm 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að fullkomin óvissa ríkir um hversu lengi honum er skylt að varðveita hin upprunalegu gögn og því sé honum nauðsynlegt að ganga út frá því að þetta ástand geti varað um lengri tíma. Því telur sóknaraðili sér nauðsynlegt að gera kröfu um þóknun út varðveislutíma gagnanna samkvæmt vinnslusamningnum. Sóknaraðila er ekki enn mögulegt að afmarka lokapunkt þess tímabils er krafist er greiðslu fyrir vegna hýsingar gagna. Því er krafan sett fram með þeim hætti að krafist sé greiðslu uns Fjármálaeftirlitið hefur staðfest að eyðing gagnanna sé heimil.

Kröfu um hýsingu er skipt í tvennt, annars vegar kröfu undið lið I. 2. þar sem gerð er krafa um greiðslu gjaldfallinnar þóknunar, og hins vegar krafa undir kröfulið I. 3. um viðurkenningu á því að sóknaraðila beri þóknun fyrir tímabilið frá 1. júlí 2011 og út varðveislutíma þeirra samkvæmt vinnslusamningnum, sem er út marsmánuð 2017 en þó aldrei lengur en þar til Fjármálaeftirlitið hefur staðfest að hann megi eyða gögnunum.

Krafa samkvæmt kröfuliðum I. 2. og I. 3. tekur mið af því að sóknaraðila sé nauðugur einn kostur að varðveita gögnin þannig að aðgengi að þeim sé tryggt og þá í þeim kerfum sem þau voru skráð í. Það hafi í för með sér að til fellur kostnaður við viðhald viðkomandi kerfa. Því sé gerð krafa um viðhaldsgjöld vegna kerfanna auk gjalds fyrir rekstrar- og notendaþjónustu. Þóknun fyrir þjónustuna gjaldfellur mánaðarlega í samræmi við það hvernig gjaldtöku er almennt háttað samkvæmt verðskrám sóknaraðila. Sóknaraðili hefur gert varnaraðila reikninga samkvæmt gjaldskrá sinni fyrir þessa liði. Sökum umfangs gagnanna er varnaraðili skyldugur að greiða gjald miðað við stærðarflokk 5 en sóknaraðili hefur þó ákveðið að reikna 60% afslátt frá því gjaldi. Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að umkrafið gjald sé einnig sanngjarnt með vísan til umfangs og eðlis þjónustunnar, sbr. m.a. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup sem hér yrði þá beitt með lögjöfnun. 

Um rökstuðning fyrir því að umkrafið gjald sé sanngjarnt endurgjald fyrir veitta þjónustu verður að líta til nokkurra þátta:

Gögn þau er sóknaraðili hýsir eftir lok uppsgnarfrests eru varðveitt uppsett í þeim kerfum er notuð voru við vinnslu gagnanna. Ástæða þess er sú að það er nauðsynlegt til að tryggja öryggi gagnanna, sér í lagi þá þætti upplýsingaöryggis sem lúta að réttleika (e.integrity), ósvikni (e. authenticity), óhrekjanleika (e. non-repudiation) og áreiðanleika (e. reliability), en ekki er unnt að tryggja þessa þætti fyllilega eftir flutning gagna yfir í aðra gagnagrunna en þá sem þau eru varðveitt í hjá sóknaraðila. Í þessu sambandi þarf m.a. að líta til þess að viðhalda þarf þeim kerfum sem um ræðir auk þess sem til fellur kostnaður við rekstur þeirra. Verðskrá sóknaraðila er sett á grundvelli kostnaðargreiningar fyrir hvert einstakt kerfi þar sem miðað er að því með heildarhagkvæmni rekstrarins að leiðarljósi, að rekstur fyrirtækisins standi undir kostnaði.

Telji dómurinn af einhverjum ástæðum ekki unnt að taka til greina kröfur sóknaraðila undir liðum I. 2. og 3. er gerð varakrafa undir liðum II. 2. a og b, en hún miðar við tilboð það sem sóknaraðili gerði varnaraðila hinn 13. janúar 2010. Í því tilboði voru ekki tilteknir liðir fyrir viðhaldsgjöld þar sem þá var miðað við að sóknaraðili gæti losnað undan samningnum með eðlilegum uppsagnarfresti og því ekki lögð áhersla á þátttöku varnaraðila í viðhaldi gagnanna.

Til skýringar á frávikum milli tilboðsins frá 13. janúar 2010 og reikninga sóknaraðila skal þess getið að í tilboðinu var í einum lið tiltekið gjald fyrir póstsögu, heimasvæði og samskrá en nú er krafist gjalds fyrir þessa þjónustu í tvennu lagi undir liðunum póstur og starfsstöð.

Varðandi þá hækkun á kröfugerð er felst í kröfum sóknaraðila, eins og þær eru settar fram fyrir dómnum, er vísað til ákvæðis 5. tl. 118. gr. gjaldþrotalaga. Eins og fram er komið eru atvik nú önnur en þegar kröfunni var lýst, eftir að Fjármálaeftirlitið hóf eftirlit með gögnum varnaraðila og gaf sóknaraðila fyrirmæli af því tilefni.

Til skýringar kröfu undir lið III er tekið fram að verði af einhverjum sökum einhverjir liðir krafna sóknaraðila ekki viðurkenndir sem búskröfur er þess krafist til vara að kröfurnar verði viðurkenndar sem almennar kröfur, sbr. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Til skýringar kröfu undir lið IV er tekið fram að verði kröfur af einhverjum ástæðum ekki viðurkenndar með þeirri fjárhæð er krafist er felst í þrautavarakröfu að þær verði teknar til greina með annarri lægri fjárhæð að mati dómsins. Til þessarar kröfu standa þau rök að ef einhverjir liðir kröfunnar yrðu ekki taldir eiga rétt á sér sé rétt að taka kröfuna til greina að því leyti sem hún væri þá talin réttmæt.

Sóknaraðili vill taka fram að hann lýsti einnig kröfu í bú Frjálsa fjárfestingarbankans hf. vegna krafna á uppsagnarfesti samnings við bankann. Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. hefur talið að varnaraðili væri réttur aðili að þeirri kröfu í stað bankans.

Hvað lagarök varðar vísar sóknaraðili til reglu samningaréttar um að samninga skuli halda, til 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup og til 3. tl. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til stuðnings varakröfu er vísað til 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en krafa um dráttarvexti styðst við 3. tl. 109. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Mál þetta varðar að mestu leyti starfsemi sóknaraðila sem ekki er virðisaukaskattsskyld (með undantekningu aðeins er varðar tímabilið frá febrúar sl.) og er honum því nauðsyn að fá fjárhæð sem svarar virðisaukaskatti af dæmdum málskostnaði greidda úr hendi varnaraðila.

D

                Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili heldur því fram að málatilbúnaður og kröfugerð sóknaraðila í máli þessu byggist í heild sinni á því að skilanefnd og/eða slitastjórn varnaraðila hafi gengið inn í samninga SPRON og sóknaraðila. Á þessum grunni séu meintar búskröfur sóknaraðila um greiðslur í uppsagnarfresti og fyrir hýsingu gagna reistar. Varnaraðili mótmælir þessum forsendum sóknaraðila sem röngum og ósönnuðum. Hið rétta sé að samningssamband sóknaraðila og SPRON hafi liðið undir lok þann 21. mars 2009 eða í síðasti lagi þann 23. júní 2009. Hvort sem er leiði til þess að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu.

Varnaraðili bendir í þessu sambandi á, máli sínu til stuðnings, að samningar SPRON og varnaraðila hafi fallið sjálfkrafa úr gildi hinn 21. mars 2009 og vísar til 10. gr. þjónustusamnings SPRON og sóknaraðila en þar segir: „Verði bú samningsaðila tekið til gjaldþrotaskipta fellur samningur þessi sjálfkrafa úr gildi.“ Varnaraðili byggir á því að samningurinn hafi fallið úr gildi þann 21. mars 2009 þegar Fármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar SPRON og ráðstafaði eignum og skuldum félagsins, enda hafi markmið 10. gr. þjónustusamnings aðila verið að binda sjálfkrafa enda á samninga aðila við ógjaldfærni annars aðila. Því beri að skýra ákvæðið rúmt. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var tekin á grundvelli laga nr. 125/2008 sem veittu Fjármálaeftirlitinu víðtækar heimildir til að grípa til ráðstafana vegna sérstakra aðstæðna eða atvika á fjármálamarkaði í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni.

Verði ekki fallist á að samningar SPRON og sóknaraðila hafi sjálfkrafa fallið úr gildi þann 21. mars 2009 samkvæmt 10. gr. þjónustusamningsins er á því byggt að samningarnir hafi fallið sjálfkrafa úr gildi þann 23. júní 2009 er SPRON var skipuð slitastjórn af Héraðsdómi Reykjavíkur. Að mati varnaraðila verður slitaferlinu í öllum atriðum jafnað til gjaldþrotaskiptameðferðar, enda sé slitameðferð einungis annað form gjaldþrotaskipta. Um slitameðferð SPRON, sem hófst með dómsathöfn, gilda samkvæmt 102. gr., 103. gr. og 104. gr. laga um fjármálafyrirtæki sömu reglur og eiga við um gjaldþrotaskipti. Markmið nefndrar 10. gr. þjónustusamningsins er að binda sjálfkrafa endi á réttarsamband aðila við þessar aðstæður.

Varnaraðili heldur því fram að slitabú SPRON hafi ekki tekið við réttindum og skyldum samkvæmt þjónustusamningi SPRON við sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili haldi því fram í greinargerð sinni að sú „breyting á réttarstöðu aðila“ sem fólst í skipun slitastjórnar yfir varnaraðila hafi í raun ekki „leitt til neinna breytinga“ á réttarsambandi málsaðila „samkvæmt þjónustusamningnum.“ Af þessari forsendu sóknaraðila leiðir hann hvort tveggja kröfur sínar um greiðslur í uppsagnarfresti og vegna hýsingar gagna. Varnaraðili hafnar því að skilningur sóknaraðila á réttarstöðu samningsaðila eftir 23. júní 2009 fái staðist.

Varnaraðili heldur því fram að slitameðferð hans miðist við 23. júní 2009 og bendir á að samkvæmt 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki gildi reglur gjaldþrotaskiptalaga um gagnkvæma samninga við slitameðferð fjármálafyrirtækis að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga.

Samkvæmt meginreglu 91. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. falla gagnkvæmir samningar þrotamanns niður við töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 1. mgr. 91. gr. sömu laga er þrotabúi heimilt að taka við réttindum og skyldum þrotamannsins eftir gagnkvæmum samningi. Þetta ákvæði, sem kveður á um heimild en ekki skyldu, var aldrei nýtt af hálfu slitastjórnar SPRON gagnvart sóknaraðila en um þetta kjarnaatriði hvíli sönnunarbyrði alfarið á sóknaraðila. Engin gögn, sem fylgdu með greinargerð sóknaraðila, renna minnstu stoðum undir málatilbúnað hans að þessu leyti. Þvert á móti sýni öll gögn málsins fram á að slitastjórn SPRON tók ekki við réttindum og skyldum samkvæmt þjónustusamningi sóknaraðila og SPRON, enda stóð það aldrei til. Það hafi legið fyrir við upphaf slitameðferðar SPRON að engir starfsmenn voru lengur starfandi hjá SPRON og að Drómi hf. hefði tekið við öllum eigum SPRON, þ.m.t. upplýsingaeignum.

Varnaraðili heldur því fram að í málatilbúnaði sóknaraðila sé á því byggt að skilanefnd varnaraðila hafi gengið inn í þjónustusamning SPRON og sóknaraðila. Því er hafnað. Jafnvel þótt svo hefði verið væru aðgerðir skilanefndarinnar ekki bindandi fyrir slitabú SPRON, enda tekur ákvæði 1. mgr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. aðeins til aðgerða slitastjórna, sbr. áðurnefnda 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Varnaraðili bendir á að samkvæmt 2. mgr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hvílir sú frumkvæðisskylda á viðsemjanda þrotamanns að krefjast þess að þrotabú taki afstöðu til þess innan hæfilegs frests hvort það muni nýta heimild sína skv. 1. mgr. en engin slík krafa kom fram af hálfu sóknaraðila. Í júní 2009 var báðum aðilum fullkomlega ljóst að SPRON hugðist ekki ganga inn í samninginn heldur yrði gerð tilraun til að finna flöt á nýjum þjónustusamningi sóknaraðila við Dróma hf.

Varnaraðili segir sóknaraðila vísa til 3. mgr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. til stuðnings kröfum sínum en án samhengis við 1. mgr. greinarinnar. Varnaraðili hafnar því að ákvæðið eigi hér við, enda er ljóst með samræmisskýringu við önnur ákvæði 91. gr. að ákvæðið getur aðeins átt við um þá afstöðu þegar heimild 1. mgr. 91. gr. er nýtt.

Með vísan til framangreinds telur varnaraðili ljóst að samningssamband sóknaraðila og SPRON sé liðið undir lok og því beri þegar af þeim sökum að hafna öllum kröfum sóknaraðila.

Varnaraðili skiptir málsástæðum sínum í tvo þætti fari svo að framangreindar málsástæðu leiði ekki til sýknu. Annars vegar varðandi kröfu sóknaraðila um greiðslu fyrir hýsingu gagna og hins vegar varðandi greiðslu í uppsagnarfresti.

Varðandi gjald fyrir hýsingu gagna til ársins 2018 bendir varnaraðili á að hvorki í þjónustusamningi sóknaraðila og SPRON né samningi sömu aðila um vinnslu persónuupplýsinga sé að finna ákvæði um gjald fyrir hýsingu. Varnaraðili hafi ekki óskað eftir að sóknaraðili hýsti gögn SPRON til ársins 2018 og þá hafi slík beiðni heldur ekki komið fram af hálfu Dróma hf. Varnaraðili leggur ríka áherslu á að sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að slíkur samningur hafi komist á og þá einnig hvaða verð var samið um fyrir hýsinguna. Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila gera ráð fyrir að honum sé heimilt, á grundvelli samnings sóknaraðila og SPRON um vinnslu persónuupplýsinga, að krefjast greiðslna fyrir hýsingu gagna SPRON til ársins 2018. Þessum skilningi er hafnað en hinn 1. júlí 2010 var sóknaraðila tilkynnt um lok vinnsluaðilaábyrgðar. Í vinnslusamningnum eru engin ákvæði um greiðslur til sóknaraðila á grundvelli samningsins, hvorki fyrir þjónustu sóknaraðila sem vinnsluaðila persónuupplýsinga né um greiðslur vegna hýsingar.

Varnaraðili bendir á að í gjaldskrá sóknaraðila, sem var í gildi þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar SPRON í mars 2009, var ekki kveðið sérstaklega á um gjald fyrir hýsingu gagna, sbr. gjaldskrá dags. 1. apríl 2008. Ekki var heldur kveðið á um slíka gjaldtöku í gjaldskrá dags. 1. apríl 2009. Sérstakur gjaldaliður fyrir hýsingu kom fyrst inn í gjaldskrána eftir fall SPRON. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að í gjaldskrá sóknaraðila, sem tók gildi þann 1. janúar 2010 og Haraldur Þorbjörnsson sendi Heiðari Þór Guðnasyni með tölvupósti þann 18. febrúar 2010, er þennan gjaldalið ekki að finna. Sú gjaldskrá, sem sóknaraðili leggur fram í málinu og ber sömu dagsetningu, er því ekki sú sama og sóknaraðili sendi Heiðari Þór umbeðinn og ber sömu dagsetningu. Óhjákvæmilegt sé því að draga þá ályktun að sóknaraðili hafi breytt gjaldskránni aftur í tímann í því skyni að gera tilraun til að skjóta stoðum undir málatilbúnað sinn í máli þessu. 

Hvenær sem breyting á gjaldskrá sóknaraðila var gerð er ljóst að sú ákvörðun var tekin einhliða af sóknaraðila og aldrei samþykkt af SPRON eða slitabúi SPRON. Auk þess telur varnaraðili að jafnvel þótt þessi gjaldaliður hafi verið tekinn upp í gjaldskrá sóknaraðila geti hann ekki bundið varnaraðila, enda aldrei um þessa þjónustu samið. SPRON var eðli málsins samkvæmt aðeins bundið við gjaldskrána um þá þjónustu sem óskað var eftir að kaupa af sóknaraðila og samningur var gerður um.

Að öðru leyti en að framan greinir bendir varnaraðili á máli sínu til stuðnings að hýsing á gögnum SPRON í tiltekinn tíma var innifalin í þeirri þjónustu sem SPRON keypti af sóknaraðila. Samkvæmt 1. gr. þjónustusamnings aðila tók þjónustusali (sóknaraðili) að sér að veita „þjónustukaupa tiltekna þjónustu á sviði upplýsingatækni og ráðgjafar, í samræmi við efni samningsins og meðfylgjandi fylgiskjala.“ Í fjölmörgum viðaukum þjónustusamningsins var samið um tilteknar vörur eða þjónustu sem sóknaraðili skyldi veita og var þar ávallt tiltekið að innifalið í hverjum þjónustuþætti væri afritun og hýsing/geymsla gagnanna í tiltekinn tíma.

Af þessu tilefni bendir varnaraðili á að í samningum um Ábyrgðakerfi, Erindreka, Innheimtu-, Afgreiðslu- og Greiðsluþjónustukerfi, SPAK, og Loka segir í þriðja lið samninganna að rekstur og þjónusta kerfanna feli í sér afritun kerfis og gagna. Kerfi og gögn séu afrituð daglega og geymd í tryggri geymslu í a.m.k. 30 daga. Afrit á mánaðamótum séu geymd í tryggri geymslu í a.m.k. 24 mánuði. Í samningi vegna Netbanka og vefbanka segi í þriðja lið að þjónustuaðili reki kerfið og feli það m.a. í sér afritun kerfis og gagna. Í samningi um póstkerfi komi fram að allur tölvupóstur í „Innboxi“ sé afritaður í lok dags og geymdur aðgengilegur í sex vikur. Einnig sé póstur úr sama boxi afritaður einu sinni í mánuði og geymdur í sjö ár í gagnageymslu þjónustuaðila á þeim miðli sem notaður er á hverjum tíma. Þá komi einnig fram að ef þjónustukaupi óski eftir annarri eða breyttri þjónustu varðandi afritun á pósti skuli það tekið fram í viðauka. Í samningi um starfsstöðvar (heimasvæði) komi fram að afrit séu tekin af heimasvæðum/samskráarsvæðum daglega og mánaðarlega séu tekin heildarafrit sem geymd eru í sjö ár. Komi til endurheimtu á gögnum sem eru eldri en fjögurra vikna skuli greitt fyrir það sérstaklega. Í tölvupósti frá Haraldi Þorbjörnssyni frá 24. júní 2009 komi fram að gert sé ráð fyrir geymslu tölvupósts og heimasvæða í langtímageymslu án sérstakrar greiðslu en þetta styðji skilning varnaraðila á samningnum. Í samningi um símkerfi komi fram að aðgengi skuli vera að hljóðskrám í fjórar vikur eftir símtal og geymsla á hljóðskrá í sjö ár, á þeim miðli sem notaður er hverju sinni. Varnaraðili segir sóknaraðila hafa samið alla samningana sem notaðir voru um framangreind kerfi.

                Varnaraðili bendir á að sóknaraðili krefjist greiðslu fyrir hýsingu gagna úr tölvukerfinu IT2 og svokölluðu millifærslukerfi. Engir samningar hafi verið lagðir fram eða ígildi þeirra um þjónustu sóknaraðila gagnvart SPRON vegna þessara tölvukerfa. Af þessu leiði að krafa sóknaraðila hvað þessi kerfi varðar er vanreifuð og ósönnuð. Varnaraðili hafnar því sem ósönnuðu að munnlegur samningur hafi tekist með aðilum um hýsingu gagna úr þessum kerfum til ársins 2018. Þá bendir varnaraðili á að í viðauka 1 við samning um vinnslu persónuupplýsinga er kveðið á um geymslutíma skráa ábyrgðaraðila. Þessi samningur verði ekki skilinn á annan veg en að varðveisla gagna í tiltekinn lágmarkstíma í samræmi við þar til greinda flokkun sé innifalin í þjónustu sóknaraðila.

                Varnaraðili segir að málatilbúnaður sóknaraðila, að því er varðar kröfur um hýsingu á gögnum, verði að öðru leyti en þegar hefur verið fjallað um ekki skilinn á annan veg en þann að sóknaraðili telji sig geta reist kröfur sínar á ákvæðum laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2005 og lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Málatilbúnaður sóknaraðila sé þó á reiki varðandi þetta atriði þar sem í kröfulýsingu sóknaraðila er vísað til „laga um bókhald“ án þess þó að það sé skýrt nánar. Í greinargerð sóknaraðila segi svo að „lögum samkvæmt [beri] fjármálafyrirtækjum að varðveita gögn í tiltekinn árafjölda“ en ekki er ljóst hvort sóknaraðili telji sig eiga undir lög um fjármálafyrirtæki í þessu samhengi eða ekki. Því verði varla annað ráðið en að sóknaraðili samsami sig varnaraðila að einhverju leyti. Þessum málatilbúnaði í heild sinni er hafnað, sem og óljósum vangaveltum sóknaraðila um „samningsígildi“ milli aðila o.s.frv. Staðreynd málsins er sú að sóknaraðili leitar í máli þessu dóms fyrir 430 milljóna króna kröfu fyrir „hýsingu á gögnum“ án þess að fyrir því sé nokkur stoð í lögum.

Hvað þetta varðar vísar varnaraðili til þess að lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi taka til eftirlitsskyldrar starfsemi sem tiltekin er í 2. gr. laganna. Sóknaraðili sé ekki fjármálafyrirtæki eins og þau eru skilgreind í 2. gr. laganna og því óbundinn af lögunum. Þar fyrir utan leggja lögin ekki greiðsluskyldu á varnaraðila gagnvart sóknaraðila fyrir hýsingu á gögnum til ársins 2018. Á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laganna hefur Fjármálaeftirlitið gefið út leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2005. Samkvæmt 1. gr. tilmælanna taka þau „til allra eftirlitsskyldra aðila, þ.e. þeirra aðila sem taldir eru upp í 2. gr. laga nr. 87/1998.“ Í 8. gr. tilmælanna segi m.a. að eftirlitsskyldur aðili beri ábyrgð á að rekstur upplýsingakerfa uppfylli allar kröfur sem til hans eru gerðar í tilmælunum. „Þetta á við hvort sem rekstri upplýsingakerfa er útvistað að hluta til eða í heild sinni.“ Í lok 8. gr. segir svo að „ábyrgð á áhættustýringu vegna útvistunar [liggi] ávallt hjá stjórn eftirlitsskylds aðila.“ Af þessu verði ráðið að hvorki nefnd lög né nefnd tilmæli nr. 1/2005 eiga við um sóknaraðila og því geti sóknaraðili ekki vísað til laganna eða tilmæla Fjármálaeftirlitsins varðandi skyldu til að hýsa gögn SPRON. Þá geti sóknaraðili ekki sótt heimildir í þessar reglur til að krefja sóknaraðila um greiðslu fyrir hýsingu gagna.

Varnaraðili heldur því einnig fram að samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hvíli öll ábyrgð á meðferð persónuupplýsinga á SPRON sem ábyrgðaraðila þeirra, sbr. t.d. 4. og 5. tl. 1. mgr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr., 11. gr. og 12. gr. laganna. Sóknaraðili, sem var aðeins vinnsluaðili persónuupplýsinganna, bar ekki ábyrgð á meðferð þeirra á meðan samningur ábyrgðaraðila og vinnsluaðila var í gildi og hvað þá eftir að sóknaraðila hafði verið tilkynnt um lok vinnsluaðilaábyrgðar. Í lögum nr. 77/2000 er ekki mælt fyrir um skyldu vinnsluaðila til að geyma þau gögn sem samningurinn tekur til eftir að honum hefur verið tilkynnt um lok vinnsluaðilaábyrgðar. Í lögunum er ekki heldur kveðið á um greiðsluskyldu ábyrgðaraðila vinnslunnar gagnvart vinnsluaðila. Kröfur sóknaraðila fái því ekki heldur stoð í lögum nr. 77/2000. Þá tekur varnaraðili fram að ekki er gerður áskilnaður í lögunum um að Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld „staðfesti lok vinnsluábyrgðar“ hvað svo sem átt er við með því í greinargerð sóknaraðila.

Varnaraðili heldur því einnig fram að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi Drómi hf. tekið við öllum eignum og réttindum SPRON, þ.m.t. upplýsingaeignir. Af því leiði að hann sé ekki réttur aðili að málinu varðandi kröfur um hýsingu gagna SPRON. Því beri að hafna kröfum sóknaraðila vegna þessa með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Af hálfu varnaraðila er einnig á því byggt, með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936, að víkja beri til hliðar mögulegum samningi eða ígildi samnings aðila um hýsingu gagna. Það sé bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að krefjast greiðslu fyrir hýsingu með þeim hætti sem sóknaraðili gerir. Að sama skapi er byggt á 29. og 33. gr. laga nr. 7/1936 sem og meginreglum samningaréttar um brostnar forsendur sem leiða til sömu niðurstöðu.

Til frekari stuðnings þessari málsástæðu bendir varnaraðili á að sóknaraðili breytti gjaldskrá sinni eftir að ágreiningur aðila kom upp og bætti einhliða og án samþykkis varnaraðila í hana gjaldalið fyrir hýsingu gagna auk þess sem þessi nýi liður skuli gilda aftur í tímann. Verði talið að gjaldskrárnar séu bindandi fyrir varnaraðila þá beri, í ljósi málsatvika, að víkja þeim til hliðar eða ógilda ákvæði þeirra um gjaldtöku fyrir hýsingu gagna. Að mati varnaraðila samrýmist það ekki nefndri 36. gr. að sóknaraðili breyti gjaldskrá sinni með framangreindum hætti sem síðan leiði til þess að varnaraðila verði gert að greiða 430 milljónir króna án þess að hann hafi nokkurn tíma samþykkt gjaldtökuna eða óskað eftir þjónustunni. Því sé krafa sóknaraðila fyrir hýsingu gagna ósanngjörn og andstæð öllum viðskiptavenjum.

Varnaraðili vísar hér einnig til þess að í bréfi fyrrverandi forstjóra sóknaraðila til Fjármálaeftirlitsins reki hann möguleika sóknaraðila til að tryggja aðgengi eftirlitsins að öryggisafritum SPRON. Eðli máls samkvæmt eigi þessir möguleikar einnig við um varnaraðila og Dróma hf. Í bréfinu komi fram að hýsing gagnanna leiði ekki til kostnaðar fyrir sóknaraðila. Umfang gagnanna sé ekki meira en það að unnt sé að geyma þau á einni fartölvu. Vegna þessa heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili þurfi ekki að bera neinn kostnað við geymslu gagnanna.

Varnaraðili bendir einnig á að gögn SPRON eru ekki sundurgreind frá öðrum göngum í vörslum sóknaraðila en þau séu hýst á sömu gagnagrunnum og gögn annarra viðskiptavina hans. Afrit af gögnum SPRON séu þannig geymd á sömu segulböndum og afrit af gögnum annarra viðskiptavina sóknaraðila. Þetta komi fram í nefndu bréfi fyrrverandi forstjóra sóknaraðila. Af þessu leiði að kröfur sóknaraðila lúta í raun ekki að hýsingu á gögnum SPRON heldur að gögnum allra viðskiptavina sóknaraðila en það sé ósanngjarnt að leggja kostnað á varnaraðila þegar svo háttar til.

Varnaraðili heldur því einnig fram að meintur samningur aðila hafi komist á vegna nauðungar. Hann og síðar Drómi hf. hafi ekki átt annarra kosta völ en að eiga í viðskiptum við sóknaraðila sem hafi haft öll gögn SPRON í sínum vörslum og dregið að afhenda þau. Telji dómurinn að samningur hafi komist á sé það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu sóknaraðila að bera hann fyrir sig, einkum þegar atvik málsins eru skoðuð. Slíkur samningur er að mati varnaraðila ógildanlegur á grundvelli 29. gr. laga nr. 7/1936.

Varnaraðili heldur því einnig fram að hann hafi enga þjónustu þegið af sóknaraðila frá því í júní 2010. Drómi hf. hafi hins vegar fengið afhent nær öll gögn SPRON sem voru hýst hjá sóknaraðila og þá reki Drómi hf. sjálfur þá tölvuþjónustu sem nauðsynleg er slitastjórn varnaraðila. Tengingu við tölvuþjónustu sóknaraðila hafi endanlega verið lokað í júní 2010. Í þessu efni bendir varnaraðili á að þjónustugjöld sóknaraðila hafi, skv. 7. gr. samstarfssamnings um rekstur sóknaraðila, átt að standa undir rekstrarkostnaði. Sóknaraðili, sem í raun var deild innan þeirra félaga sem stóðu að samstarfinu, hafi ekki verið rekinn með hagnaðarsjónarmiði. Því sé það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að sóknaraðili krefjist greiðslu fyrir hýsingu gagna þegar kostnaður við hana er enginn.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili telji sér skylt að hýsa gögn SPRON þar til Fjármálaeftirlitið heimilar eyðingu þeirra og á þeirri forsendu reisi sóknaraðili kröfur sínar um endurgjald fyrir hýsingu. Varnaraðili mótmælir þessu og kveður Fjármálaeftirlitið enga aðild eiga að máli þessu. Sóknaraðili sé einn til þess bær að gefa út yfirlýsingu þess efnis að afhending gagna SPRON til Dróma hf. hafi verið fullnægjandi. Því sé það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laga 7/1936 að sóknaraðili beri fyrir sig meintan samning eða samningsígildi um hýsingu gagna þegar hann hefur ekki lýst því yfir að öll gögn hafi verið afhent með fullnægjandi hætti.

Málsástæður varnaraðila varðandi kröfur sóknaraðila um greiðslur í uppsagnarfresti eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi bendir varnaraðili á að uppsagnarfrestur hafi verið afnuminn með samkomulagi aðila í maí 2009. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að varnaraðili hafi í heild eða að hluta tekið yfir réttindi og skyldur samkvæmt samningum SPRON og sóknaraðila sé auðsýnt, skv. ákvæðum 1. mgr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., að varnaraðili hafi tekið yfir skuldbindingar SPRON gagnvart sóknaraðila eins og þær voru í júní 2009. Ekki sé hægt að líta svo á að samkomulag aðila sem gert var í maí 2009 sé þar undanskilið, enda sé það samþykkt af þar til bærum aðilum og án fyrirvara. Eitt helsta atriði samkomulagsins, sem gert var í maí 2009, hafi verið að uppsagnarfrestir, samkvæmt samningum SPRON við sóknaraðila, voru afnumdir en þetta komi skýrt fram í samkomulaginu sjálfu en á stjórnarfundi í sóknaraðila hinn 29. maí 2009 hafi verið bókað með eftirfarandi hætti:

„Farið var yfir samkomulag sem SS skrifaði undir með fyrirvara um samþykki stjórnar þar sem í því er gert ráð fyrir að SPRON geti fasað út þjónustuþætti sem Teris veitir fyrirtækinu strax frá 1. júní án tillits til uppsagnarákvæða þjónustusamningsins sem í gildi er .“

Fundargerð þessi var staðfest án athugasemda á næsta stjórnarfundi á eftir, þann 19. júní 2009. Í tölvupóstsamskiptum aðila, daginn eftir að nefnt samkomulag var undirritað, kemur sami skilningur fram þar sem starfsmaður sóknaraðila skrifar:

„Komi til vinnu í tengslum við þau kerfi sem verið er að loka og uppsagnarfrestur fellur niður, verður það útselt.“

Kröfum sóknaraðila, sem byggjast á því að þrátt fyrir maísamkomulagið sé enn í gildi 6 til 12 mánaða uppsagnarfrestur á þeirri þjónustu sem sóknaraðili veitti SPRON, er með vísan til framangreinds alfarið hafnað. Skilningur varnaraðila á maísamkomulaginu er í fullkomnu samræmi við skilning stjórnar sóknaraðila og starfsmanna á efni þess.

                Í öðru lagi vísar varnaraðili í heild sinni, eftir því sem við á, til þeirra málsástæðna sem áður hafa verið raktar vegna krafna sóknaraðila um greiðslu fyrir hýsingu gagna, einkum ógildingarreglna samningaréttarins og reglna um aðildarskort, sem eiga við hér.

                Varðandi varakröfu sóknaraðila krefst varnaraðili þess, verði þær að einhverju marki teknar til greina, að þær verði lækkaðar verulega og samþykktar sem almennar kröfur.

                Varnaraðili telur að lagaskilyrði skorti til þess að samþykkja kröfur sóknaraðila sem búskröfur. Um rétthæð krafna í bú varnaraðila gilda sömu reglur og gilda um kröfur sem lýst er í þrotabú, þó þannig að innistæður teljast til forgangskrafna. Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eru reist á þeirri meginreglu að kröfuhafar njóti jafnræðis við skipti. Í fræðiritum og dómaframkvæmd er skýrt kveðið á um að frávik frá meginreglunni verði að styðjast við skýr lagafyrirmæli og slík lagafyrirmæli beri að túlka þröngt með hliðsjón af meginreglunni. Málatilbúnaður sóknaraðila felur í sér að krafa hans stæði framar öðrum kröfum við slit varnaraðila án þess að fyrir slíku væri viðhlítandi stoð.

Um búskröfur sóknaraðila er í greinargerð hans vísað til 3. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt ákvæðinu teljast til búskrafna „kröfur sem hafa orðið til á hendur þrotabúinu eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið bakar öðrum“.

Fyrri liður ákvæðisins leiðir til þess að kröfur sem orðið hafa til eftir 23. júní 2009 teljist ekki búskröfur, en þann dag var kveðinn upp úrskurður um skipun slitastjórnar varnaraðila. Auk þess þarf krafan að eiga rót sína að rekja til samninga sem skiptastjóri hefur gert. Líkt og áður hefur verið gerð grein fyrir gerði slitastjórn SPRON ekki samning við sóknaraðila, hvorki um tölvuþjónustu né hýsingu gagna. Kröfur sóknaraðila geti því ekki talist búskröfur samkvæmt fyrri lið ákvæðisins. Sönnunarbyrði um þetta hvíli alfarið á sóknaraðila en meginreglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um jafnræði kröfuhafa geri ríkar kröfur um sönnun á meintu samningssambandi aðila. Varnaraðili áréttar sérstaklega að kröfur um greiðslur í uppsagnarfresti á þeim þjónustuliðum sem var „útfasað“ eða sagt upp fyrir 23. júní 2009 eða fyrir hýsingu gagna fyrir þann tíma geta ekki talist til búskrafna, enda taki ákvæði 3. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ekki til aðgerða skilanefndar eða bráðabirgðastjórnar SPRON. Ef kröfur hafi stofnast vegna þessa tímabils teljist þær til almennra krafna.

Varnaraðili vísar varðandi síðara skilyrði í nefndum 3. tl. 110. gr. til þess að í þeim tilvikum þegar þrotabú nýtir ekki heimild sína til að ganga inn í gagnkvæma samninga þrotamanns samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þá gildi 94. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein geti viðsemjandi þrotabús, hér sóknaraðili, krafið búið um skaðabætur vegna þess tjóns sem hann verði fyrir við samningsslitin ef búið nýtir ekki heimild í 1. mgr. 91. gr. Mál sóknaraðila er ekki skaðabótamál í framangreindum skilningi þar sem það í heild sinni byggist á því að eftir 23. júní 2009 hafi verið í gildi samningur eða samningsígildi milli aðila. Því komi seinni liður 3. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipi o.fl. ekki til álita í máli þessu. Þar fyrir utan mótmælir varnaraðili því að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni, auk þess sem slíkt tjón sé ósannað.

Til stuðnings kröfum sínum til lækkunar á kröfum sóknaraðila bendir varnaraðili á að í samkomulaginu frá því í maí 2009 segi: „Aðilar munu í sameiningu vinna að því að fasa út öll kerfi (s.s. Spak) sem SPRON hefur ekki lengur þörf fyrir.“ Að mati varnaraðila leiðir þetta ákvæði samkomulagsins til þess að sóknaraðila var skylt að fasa út þau kerfi sem SPRON hafði ekki lengur not fyrir. Sóknaraðili hafi verið eini aðilinn sem hafði fullkomna yfirsýn yfir notkun SPRON á einstaka tölvukerfum sem bæði voru mörg og flókin. Af þessum sökum geti sóknaraðli ekki, í góðri trú, borið fyrir sig tilkynningar starfsmanna SPRON eða Dróma hf. varðandi það hvenær einstaka tölvukerfum var sagt upp og miðað kröfugerð sína við þær, slíkt samræmist ekki 36. gr. samningalaga. Af hálfu sóknaraðila sé kosið að miða uppsögn eða útfösun einstakra kerfa við tölvupóst Guðrúnar Torfhildar frá 29. maí 2009 og tölvupóst Katrínar Thorsteinsson, fyrrverandi starfsmanns Dróma hf., frá 29. október 2009. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðila hefði verið nær að notast við eigin upplýsingar í þessum efnum sem m.a. eru staðfestar af Haraldi Þorbjörnssyni, starfsmanni hans, sbr. tölvupóst frá 30. september og 13. október 2009, allt í anda samkomulagsins frá því í maí 2009. Í þessum tölvupósti staðfesti sóknaðili hvaða kerfi voru í notkun og hver ekki. Varnaraðili heldur því fram að eftirtalin kerfi hafi ekki verið notuð eftir fall SPRON: Innheimtukerfi, Afgreiðslukerfi, Greiðsluþjónustukerfi, Gjaldtökukerfi, Millifærslukerfi, Vanskilakerfi, Ábyrgðarkerfi, Netbankar/vefbankar, IT2, Hlutvís, Húsbréfakerfi, Loki, Opinberar skýrslur, Reuters, Reiknivélar/veflausnir, Moss/Sharepoint vefir, Viðmótsþjónustur, og Gagnaskemma/ gagnaaðgengi. Áréttað er að sóknaraðili ber sönnunarbyrði fyrir því að framangreind kerfi hafi verið notuð eftir fall SPRON.

Kröfum sóknaraðila um greiðslur í uppsagnarfresti vegna IT2, Húsbréfakerfis, Reuter og kerfis vegna Viðmótsþjónustu, sem byggjast skv. greinargerð sóknaraðila á „munnlegum samningi“, er sérstaklega mótmælt. Það er ósannað að slíkur munnlegur samningur hafi komist á með aðilum, hvaða einstaklingar hafi samið fyrir hönd aðila, hvenær, um hvað, til hve langs tíma o.s.frv.

Varnaraðili heldur því fram að nokkur kerfi hafi verið notuð af Dróma hf. eftir upphaf slitameðferðar SPRON og fyrir þá þjónustu hafi verið greitt en ekki hafi verið gerður um hana sérstakur samningur. Hinn 18. desember 2009 hafi sóknaraðila verið tilkynnt að aðeins þyrfti Microsoft-leyfi fyrir 14 útstöðvar. Með öðrum orðum voru aðeins 14 tölvur tengdar við tölvukerfi sóknaraðila þann dag. Þann 18. mars 2010 voru enn 14 útstöðvar að kerfum sóknaraðila. Eftirfarandi kerfi voru notuð af starfsmönnum Dróma hf. þann dag: Spakur með 6 notendur (skoðunaraðgangar), Póstkerfi með 8 notendur, Skráarþjónusta með 8 notendur, Envoy með 2 notendur og Erindreki með 1 notanda. Þá voru 7 notendur með tengingu við Reiknistofu bankanna (RB). Samhliða þessari notkun var aðgangur að netkerfi sóknaraðila fyrir framangreinda notendur sem og vegna starfsstöðva. Aðrar tengingar voru ekki við kerfi sóknaraðila.

Drómi hf. setti upp eigið símkerfi í október 2009 og gerði samning við Lánstraust/CreditInfo í nóvember sama ár og hætti því að nota framangreinda þjónustuliði hjá sóknaraðila eins og honum var kunnugt um. Þann 31. mars 2010 fækkaði útstöðvum um fimm. Voru því aðeins 9 útstöðvar með mjög takmarkaða tengingu við örfá kerfi sóknaraðila eftir þann dag. Í júní 2010 var svo alfarið lokað á allar tengingar við kerfi sóknaraðila.

Varnaraðili byggir einkum á aðildarskorti þegar kemur að kröfum sóknaraðila fyrir hin takmörkuðu not þeirra kerfa sem notuð voru eftir 23. júní 2009, enda voru kerfin þá notuð af Dróma hf. sem greiddi fyrir þau not. Verði ekki fallist á aðildarskort ber til vara að lækka fjárhæðir allra krafna sóknaraðila til samræmis við hin mjög svo takmörkuðu not af kerfunum sem að framan er greint.

Til frekari stuðnings fyrir kröfu um lækkun á kröfum sóknaraðila bendir varnaraðili á að fyrir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar SPRON hafi verið í gildi þjónustusamningur á milli SPRON og sóknaraðila um víðtæka tölvuþjónustu á sviði upplýsingatækni. Gjaldskrá sóknaraðila var sett upp í fimm flokkum. Í flokki 1 er miðað við 1-25 útstöðvar/notendur að kerfum, í flokki 2 er miðað við 26-60 útstöðvar o.s.frv. Eðli málsins samkvæmt eru gjöldin almennt hærri eftir því sem útstöðvar/notendur eru fleiri. SPRON hafði fyrir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins greitt gjöld samkvæmt flokki 5, þ.e. miðað við 241–400 notendur, þrátt fyrir að starfsmenn SPRON hafi verið mun færri frá október 2008. Í samningum aðila er enginn fyrirvari settur við þessa flokkun, t.d. um hvenær endurskoðun eigi að fara fram. Þeim skilningi sóknaraðila að röðun viðskiptavina í flokk hafi samkvæmt samningum aðila aðeins átt að eiga sér stað einu sinni á ári er sérstaklega mótmælt, enda kemur það hvergi fram í samningunum. Að mati varnaraðila átti röðun í flokka að fara fram mánaðarlega, enda markmið þjónustusamningsins að gjaldtaka væri í samræmi við notkun hverju sinni.

Fjöldi notenda að einstökum kerfum eftir fall SPRON fór aldrei yfir 25, sem leiðir til þess að innheimta fyrir kerfin, bæði í meintum uppsagnarfresti og vegna hýsingar gagna, ætti að hámarki að taka mið af gjaldflokki 1, eigi kröfur sóknaraðila á annað borð rétt á sér. Verði kröfur sóknaraðila teknar að einhverju leyti til greina ber því að lækka þær sem nemur lækkun milli gjaldflokkanna. Þeim skilningi sóknaraðila að gjaldtakan eigi að taka mið af stærð bankans, eins og hún var þegar flestir starfsmenn voru, fær enga stoð í samningi aðila eða kynningarefni sem fylgdi með þjónustusamningnum.

                Varnaraðili heldur því jafnframt fram, vegna kröfu sinnar um lækkun krafna sóknaraðila, að í kröfum sóknaraðila sé gerð krafa um greiðslu á rekstrar- og þjónustugjöldum, þrátt fyrir að kerfin séu ekki í notkun. Það fái ekki staðist að krefjast þessara greiðslna eftir lokun allra kerfa, enda séu allar forsendur fyrir gjaldtökunni brostnar auk þess sem hún fer í bága við 36. gr. samningalaga með hliðsjón af stöðu aðila og atvika sem síðar hafa komið til eins og áður er rakið. Hvorki samningar né lög sem málið varða verða túlkuð svo að á uppsagnarfresti eða hýsingartímabili gagna eigi kerfin að vera í fullum rekstri með tilheyrandi kostnaði.

Telji dómurinn að kröfur sóknaraðila um hýsingu á gögnum eigi sér stoð í samningum eða lögum getur sá áskilnaður aldrei náð lengra en til þess að afrit af gögnum SPRON séu geymd á afritunarspólum í öruggri geymslu. Enginn áskilnaður verður gerður til þess að kerfin séu í fullum rekstri eða þjónustu eftir að samningssamband aðila er liðið undir lok. Framsetning dómkrafna sóknaraðila fái því ekki staðist af þeim ástæðum.

Varnaraðili telur að hafna beri greiðslu fyrir notkun á nokkrum kerfum sem sóknaraðili gerir nánari grein fyrir með dómskjölum 51-53. Varnaraðili segir þessi kerfi ekki hafa verið notuð af honum á uppsagnarfresti og/eða hýsingartímabili. Sönnunarbyrði um þetta hvíli á sóknaraðila.

Varnaraðili heldur því einnig fram að sóknaraðili geti ekki bæði krafist greiðslu í uppsagnarfresti og greiðslu fyrir hýsingu á sama tíma, en í slíku felist tvígreiðsla. Hýsing sé, eins og varnaraðili hafi áður bent á, innifalin í þjónustu sóknaraðila samkvæmt hans eigin þjónustusamningi og viðaukum við hann.

                Varnaraðili gerir athugasemdir við kröfu sóknaraðila um greiðslu fyrir hýsingu og heldur því fram að krafan, ef hún er þá til staðar, sé ekki gjaldfallin. Orðalag kröfunnar, eins og hún er fram sett, staðfesti þetta en krafan miðist við greiðslu fyrir hýsingu frá 1. júlí 2011 til 1. mars 2017 en þó ekki lengur en þar til Fjármálaeftirlitið hefur staðfest að eyða megi gögnum sem eru í varðveislu sóknaraðila. Þessi framsetning kröfunnar sýni að krafan er ekki gjaldfallin og af þeim sökum ekki tæk til dóms. Því beri að hafna kröfunni a.m.k. að því marki sem hún er ekki gjaldfallin, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sem eigi hér við, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að sóknaraðila sé óheimilt að hækka kröfur sínar vegna hýsingar frá því sem fram kemur í kröfulýsingu en hann hafi hækkað kröfuna um 135 milljónir króna án lagaheimildar. Því er sérstaklega mótmælt að 5. tl. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. heimili slíka hækkun, enda varði það ákvæði undantekningu frá vanlýsingaráhrifum. Því liggi fyrir að kröfur sóknaraðila verði aldrei teknar til greina nema að hámarki þeirrar fjárhæðar sem greinir í kröfulýsingu sóknaraðila.

                Að endingu mótmælir varnaraðili málatilbúnaði og kröfugerð sóknaraðila í öllum atriðum, bæði sem röngum og ósönnuðum. Sóknaraðili samsvari tveimur aðskildum lögaðilum, varnaraðila og Dróma hf., í málatilbúnaði sínum án þess að fyrir því sé heimild eða stoð í lögum. Það sé höfuðatriði máls þessa að eftir 23. júní 2009 þáði Drómi hf. takmarkaða þjónustu af sóknaraðila og greiddi fyrir hana. Engar greiðslur hafi borist sóknaraðila frá SPRON eftir þann tíma, enda hafi SPRON enga þjónustu þegið af sóknaraðila.

                Varðandi lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum XII. kafla laganna um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja og breytingalaga nr. 125/2008. Þá er vísað til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 91. gr., 94. gr., 96. gr., 110. gr., 113. gr., 118. gr. og 178. gr. Vísað er til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 16. gr., 26. gr. og 129.–131. gr. um málskostnað. Jafnframt er vísað til meginreglna samningaréttar, s.s. um tilboð, löggerninga og brostnar forsendur, sem og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum III. kafla laga.

E

Niðurstaða

                Að framan er gerð grein fyrir því að hinn 21. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar SPRON og vék stjórn félagsins frá þegar í stað. Um leið skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög. Auk þessa ákvað Fjármálaeftirlitið m.a. að stofnað skyldi sérstakt hlutafélag í eigu SPRON sem tæki við öllum eignum félagsins og tryggingaréttindum þ.m.t. veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON. Í samræmi við ákvæði laga nr. 44/2009 sem tóku gildi hinn 22. apríl 2009 varð skilanefndin að bráðabirgðastjórn. Í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins stofnaði bráðabirgðastjórn SPRON Dróma hf. sem hinn 26. maí 2009 tók við öllum eignum SPRON og tryggingaréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 23. júní 2009 var félaginu síðan, að ósk bráðabirgðastjórnarinnar, skipuð slitastjórn.

                Sóknaraðili sá um nánast öll tölvukerfi SPRON meðan það félag var í rekstri. Eins og ítarlega hefur verið rakið voru þetta mörg tölvukerfi sem saman geymdu upplýsingar um nánast allt það sem máli skipti við rekstur sparisjóðsins. Eðli máls samkvæmt var skilanefnd, bráðabirgðastjórn og síðan slitastjórn varnaraðila nauðsyn að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem vistaðar voru hjá sóknaraðila en án aðgangs að þeim var í raun ógerlegt að skipta búi varnaraðila. Við úrlausn máls þess verður að hafa þetta í huga.

                Sóknaraðili breytti kröfugerð eftir að hann hafði skilað greinargerð til dómsins. Gerði hann þannig kröfu um þóknun fyrir hýsingu fyrir tímabilið sem uppsagnarfrestur nær yfir í stað þess að krefjast þóknunar fyrir þjónustu sem veitt var á grundvelli upphaflegs samning. Af hálfu varnaraðila var þessari breytingu á kröfugerð mótmælt. Fallast verður á með varnaraðila að þessi breyting á málatilbúnaði sóknaraðila sé of seint fram komin og ber því að hafna henni.

                Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að varnaraðili og eða Drómi hf. hafi greitt fyrir þá þjónustu sem sóknaraðili veitti þessum aðilum, enda miðast kröfur sóknaraðila aðallega við greiðslu í uppsagnarfresti og fyrir hýsingu gagna eftir lok uppsagnarfrests.

Sóknaraðili reisir kröfur sínar á því að engin breyting hafi í raun orðið á réttarsambandi aðila við skipun skilanefndar, bráðabirgðastjórnar og síðar slitastjórnar. Samningar sóknaraðila við SPRON hafi haldið gildi sínu og því beri varnaraðila að greiða fyrir notkun tölvukerfanna og þá haldi ákvæði um uppsagnarfrest einstakra kerfa gildi sínu. Þá sé varnaraðila einnig skylt að greiða fyrir hýsingu gagna allt til ársins 2017 eða að því tímamarki að Fjármálaeftirlitið lýsi því yfir að heimilt sé að eyða gögnum SPRON úr kerfum sóknaraðila.

                Í 10. gr. þjónustusamnings SPRON og sóknaraðila er ákvæði þess efnis að ef bú samningsaðila verði tekið til gjaldþrotaskipta falli samningurinn úr gildi. Þá er það meginregla samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að gagnkvæmir samningar þrotamanns falla niður við töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Af þessu verður ekki annað ráðið en að þjónustusamningurinn, þar með taldir viðaukar hans, hafi fallið niður eigi síðar en við skipun slitastjórnar varnaraðila. Að þeirri niðurstöðu fenginni kemur hér næst til skoðunar hvort og þá eftir atvikum með hvaða hætti ákvæði þjónustusamningsins kunni þrátt fyrir það að hafa verið í gildi eftir skipun slitastjórnarinnar.

                Fyrir liggur að aðilar gerðu ekki með sér samning þar sem fyrri þjónustusamningi og viðaukum við hann var breytt eða hann einfaldlega framlengdur. Af framburði þeirra sem fyrir dóminn komu má ráða að lagður var misjafn skilningur í þetta atriði eftir því fyrir hvorn aðilann þeir störfuðu. Starfsmenn sóknaraðila virðast líta svo á að varnaraðili hafi einfaldlega tekið við samningnum óbreyttum um leið og skilanefnd var skipuð. Starfsmenn varnaraðila litu hins vegar svo á að þeim hafi strax við skipun skilanefndar verið óheimilt að greiða fyrir annað en þá þjónustu sem veitt var.

                Af hálfu sóknaraðila er í málinu byggt á því að varnaraðili hafi með háttsemi sinni gengið inn í títtnefndan samning og af þeim sökum sé samningurinn, þ.m.t. ákvæði hans um uppsagnarfresti, í gildi. Hér er til þess að líta að rekstur fjármálafyrirtækis er algerlega háður því að fyrirtækið hafi aðgang að gögnum um viðskiptavini sína, útistandandi kröfur, stöðu lána, afborganir af lánum o.s.frv. Allar slíkar upplýsingar sem varnaraðili byggði rekstur sinn á voru eins og áður er getið hýstar hjá sóknaraðila. Vegna eðlis þeirra gagna sem sóknaraðili hafði umsjón með fyrir varnaraðila var augljóst að gögnunum mátti ekki eyða strax og þá var að sama skapi ljóst að nokkurn tíma tæki að afhenda varnaraðila þau. Var því ekki hjá því komist að aðilar málsins ættu í allnokkrum viðskiptum eftir að slitameðferð hófst á búi varnaraðila. Þá liggur fyrir að sóknaraðili átti í erfiðleikum með að afhenda gögn úr kerfum sínum, en sóknaraðili hafði þann háttinn á að í einstökum kerfum sem hann rak voru gögn allra viðskiptavina hans á viðkomandi kerfi og hélt hann gögnunum ekki aðskildum eftir við skiptavinum.

Í lok maímánaðar 2009 gerðu aðilar með sér samkomulag. Tildrög þess voru að sóknaraðili hafði, vegna ágreinings um greiðslur, lokað fyrir allan aðgang varnaraðila að tölvukerfum sem vistuð voru hjá sóknaraðila. Í 1. gr. samkomulagsins er tekið fram að uppi hafi verið ágreiningur milli aðila um uppgjör á útistandandi reikningum fyrir veitta þjónustu. Þar segir að varnaraðili telji að honum sé aðeins heimilt að greiða fyrir veitta þjónustu í samræmi við lagalega stöðu félagsins. Sóknaraðili telji hins vegar að varnaraðila beri að greiða alla útgefna reikninga.

Í ofangreindu samkomulagi er síðan mælt fyrir um framhald þjónustu sóknaraðila. Í 3. gr. samkomulagsins segir m.a. svo:

Þjónusta í samræmi við gildandi þjónustusamning

Spron hf. skuldbindur sig til að greiða framvegis útgefna reikninga sem miðast við þá þjónustu sem Spron nýtir sér (eftir undirritunardag samkomulagsins), þ.m.t. alla liði sem tilheyra viðkomandi þjónustu s.s. áskriftargjöld, notkunargjöld o.fl. í samræmi við notkun.

Útfösun kerfa:

Mánaðarlega getur Spron tilkynnt um fækkun notenda í einstökum kerfum og mun innheimta fyrir kerfið endurspegla slíka beiðni frá og með næsta mánuði á eftir. Aðilar munu í sameiningu vinna að því að fasa út öll kerfi (s.s.Spak) sem Spron hefur ekki lengur þörf fyrir. Skal miða við að útfösun geti hafist strax frá 1. júní 2009. Munu aðilar leggja fram samkomulag um útfösun ekki síðar en 3 vikum frá dagsetningu þessa samkomulags.

Afhending gagna:

Fyrir liggur að allar eignir Spron hf. og dótturfélaga þess munu verða færðar til Dróma hf. í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi. Teris skuldbindur sig til að afhenda gögn til Dróma hf. ef eftir því verður leitað eða varðveita þau í kerfum sínum skv. samkomulagi við Spron/Dróma á aðgengilegu formi. Aðilar gera sér grein fyrir því að greiða þarf fyrir slíka þjónustu skv. verðskrá Teris og hún kann að taka þann tíma sem áætlað umfang segir til um.

Eyðing gagna:

Ef Drómi hf. vill ekki fá afhent tiltekin gögn sín í samræmi við ofangreint, getur félagið óskað eftir því við Teris að slíkum gögnum verði eytt. Um kostnað fyrir slíkt fer eftir verðskrá Teris.“

Af samkomulagi þessu má ráða að strax í maí 2009 mátti sóknaraðila vera ljóst að varnaraðili taldi sér óheimilt að greiða fyrir aðra þjónustu sóknaraðila en hann sannarlega nýtti sér. Fyrir dóminum bar Sæmundur Sæmundsson, fyrrverandi forstjóri sóknaraðila, að hann hafi litið svo á að varnaraðili gengi inn í samninga SPRON og sóknaraðila án þess að um það hafi verið gerður sérstakur samningur. Á sömu lund var framburður Haraldar Þorbjörnssonar, viðskiptastjóra sóknaraðila, en hann kvaðst hafa gefið sér að varnaraðili hafi gengið inn í samningana. Hins vegar bar Hlynur Jónsson, formaður slitastjórnar varnaraðila, að ekki hafi komið til greina að ganga inn í samningana en sóknaraðila hafi verið gerð grein fyrir því að aðeins yrði greitt fyrir veitta þjónustu. Maísamkomulagið hafi verið gert í þeim tilgangi að vinda kostnað við tölvuþjónustu niður eins hratt og mögulegt var. Guðrún Torfhildur Gísladóttir, sem skipuð var í skilanefnd varnaraðila, bar að sóknaraðila hafi strax í upphafi verið ljóst að ekki stóð til að ganga inn í alla samninga SPRON og sóknaraðila. Um leið og slitameðferðin hófst hafi legið fyrir að varnaraðili taldi sér einungis heimilt að greiða fyrir veitta þjónustu.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili hafi ekki með réttu getað litið svo á að varnaraðili hafi gengið inni í alla samninga SPRON við sóknaraðila óbreytta. Verður því ekki fallist á kröfur sóknaraðila á þeim grunni.

Kemur þá til skoðunar hvort varnaraðili hafi með háttsemi sinni síðar gefið til kynna að hann gengi inn í samningana svo sem á er byggt af hálfu sóknaraðila. Áður er þess getið að í raun voru allar upplýsingar um rekstur SPRON hf., kröfuhafa, skuldunauta, stöðu viðskiptabréfa o.s.frv., vistaðar hjá sóknaraðila og aðgangur að þessum upplýsingum varnaraðila nauðsynlegur. Sóknaraðili var einn fær um að afhenda þessar upplýsingar, enda þær ekki til á öðrum stað. Slit fjármálafyrirtækis af þeirri stærð sem SPRON var á sínum tíma tekur augljóslega nokkurn tíma. Var því ekki óeðlilegt að aðilar ættu í samskiptum í allmarga mánuði meðan unnið var að slitum varnaraðila.

Fyrir dóminn hefur verið lagt mikið af gögnum. Þessi gögn bera ekki með sér að varnaraðili sé í raun að ganga inn í samningana. Þvert á móti bera þau með sér að varnaraðili hverfur ekki frá skilningi sínum í þá veru að honum sé eingöngu heimilt að greiða fyrir veitta þjónustu. Má í þessu sambandi nefna aðdragandann að samkomulagi aðila sem gert var í maí 2009. Vegna ágreinings um greiðslur greip sóknaraðili samkvæmt áðursögðu til þess róttæka úrræðis að loka fyrir öll tölvukerfi varnaraðila og opnaði hann ekki aftur fyrir aðganginn fyrr en samkomulagið hafði verið gert. Þetta bendir ekki til þess að sóknaraðili hafi getað gert ráð fyrir að varnaraðili gengi inn í samningana. Þá hafa samskipti aðila varðandi tölvukerfin gengið í meginatriðum út á að verið sé að loka kerfunum smátt og smátt (fasa út).

Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að frá gerð samkomulagsins í maí 2009 voru reikningar sóknaraðila í raun tvískiptir, þ.e. merkt var við það sem varnaraðili skyldi greiða fyrir en það sem eftir var af reikningunum var merkt þannig að þeirri fjárhæð yrði lýst í bú varnaraðila. Bendir þetta fyrirkomulag eindregið til þess að sóknaraðila hafi ekki getað dulist að varnaraðili hugðist ekki ganga inn í samninga SPRON við sóknaraðila. Þá liggur og fyrir að aðilar lögðu nokkuð á sig til að reyna að ná samkomulagi um áframhaldandi þjónustu sóknaraðila fyrir varnaraðila og eða Dróma hf. en þær tilraunir virðast hafa strandað á ágreiningi um endurgjald.

Að mati dómsins er ekki unnt að líta svo á að greiðsla varnaraðila á ákveðnum reikningum, sem ekki voru fyrir veitta þjónustu, geti orðið til þess að líta beri svo á að með því hafi varnaraðili viðurkennt greiðsluskyldu og þannig viðurkennt í raun að hann væri bundinn við títtnefnda samninga. Verður í þessu sambandi ekki litið framhjá þeirri aðstöðu sem varnaraðili var í er sóknaraðili lokaði alfarið fyrir að gang hans að gögnum eins og áður er rakið.

Að lokum verður hér einnig að horfa til ákvæðis 1. mgr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en ákvæðið varð virkt eigi síðar en 23. júní 2009 þegar varnaraðila var skipuð slitastjórn, sbr. ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í 1. mgr. nefndrar 91. gr. er mælt fyrir um heimild þrotabús til að taka við réttindum og skyldum þrotamanns eftir gagnkvæmum samningi. Þar sem ekki verður séð að varnaraðili hafi nýtt sér þessa heimild og hann raunar strax gefið sóknaraðila til kynna að hann hygðist eingöngu greiða fyrir veitta þjónustu. Átti sóknaraðili þess kost, sbr. ákvæði 2. mgr. 91. gr. nefndra laga, að skora á varnaraðila að taka afstöðu til þess, innan hæfilegs frests, hvort hann myndi nýta sér þessa heimild. Þetta gerði sóknaraðili ekki, þrátt fyrir að ekki verði annað ráðið en að fullt tilefni hafi verið til þess, heldur virðist hann hafa kosið að líta svo á strax í upphafi slitaferlisins að varnaraðili yfirtæki samningana.

Með vísan til alls þess sem her hefur verið rakið verður ekki á það fallist með sóknaraðila að varnaraðili hafi með háttsemi sinni gefið sóknaraðila tilefni til að ætla að hann gengi inn í samninga SPRON við sóknaraðila og hann þannig orðið bundinn við þá.

Samkvæmt framangreindur ber því að hafna aðalkröfu sóknaraðila og varakröfum hans sem byggja á því að varnaraðili hafi gengið inn í samninga SPRON og sóknaraðila. Verður af þeim sökum ekki fallist á með sóknaraðila að hann eigi rétt á að fá kröfur sem reistar eru á ákvæðum samninga SPRON við sóknaraðila um greiðslur í uppsagnarfresti viðurkenndar sem búskröfur við skipti á búi varnaraðila.

Sóknaraðili gerir einnig kröfu í bú varnaraðila vegna hýsingar gagna og lýsir hann þeirri kröfu sem búskröfu. Krafan er tvískipt annars vegar er krafist þóknunar sem þegar er gjaldfallin og hins vegar er gerð krafa um þóknun fyrir hýsingu gagna frá 1. júlí 2011 út varðveislutíma gagnanna sem að sögn sóknaraðila er út marsmánuð 2017. Krafan er þó afmörkuð með þeim hætti að gert er ráð fyrir að tímabilið verði ekki lengra en að þeim tímapunkti að Fjármálaeftirlitið lýsi því yfir að ekki sé lengur þörf á að geyma gögnin.

Kröfu fyrir hýsingu gagna á uppsagnarfresti er hafna með vísan til þeirrar niðurstöðu dómsins, er að framan greinir, að samningar aðila hafi fallið niður eigi síðar en 23. júní 2009 og þar með talinn uppsagnarfrestur.

Krafa sóknaraðila um endurgjald fyrir geymslu gagna frá 1. júlí 2011 út varðveislutíma gagnanna, er aðallega reist á því að sóknaraðila sé vegna fyrirmæla Fjármálaeftirlitsins óheimilt að eyða gögnunum og þá sé nauðsynlegt að vista þau í upprunalegum kerfum en það sé eina leiðin til að gögnin séu aðgengileg. Einnig heldur sóknaraðili því fram að skylt sé að varðveita gögnin í átta ár. Fjárhæð kröfunnar miðast við að fyrir hendi sé samningur aðila eða ígildi samnings þeirra á milli um hýsingu á gögnunum þar til heimilt er að eyða þeim.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi óskað eftir því við sóknaraðila að hann geymi gögn fyrir hann til ársins 2018 eða fram til þess tíma að Fjármálaeftirlitið lýsi því yfir að heimilt sé að eyða gögnunum. Verður krafa sóknaraðila því ekki tekin til greina á grundvelli slíks samkomulags.

Áður er rakið að samningar SPRON og sóknaraðila féllu niður eigi síðar en 23. júní 2009. Auk þess er í samningunum ekki að finna ákvæði um gjald fyrir hýsingu gagna eftir að samningssambandi aðila lýkur. Þá setti sóknaraðili fyrst í gjaldskrá sína lið um endurgjald fyrir hýsingu eftir að deilur aðila komu upp. Varnaraðili ber ábyrgð á því að kröfur Fjármálaeftirlitsins, sem fram koma í leiðbeinandi tilmælum eftirlitsins nr. 1/2005, séu uppfylltar en fyrirmælin voru gefin út á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í 8. gr. tilmælanna segir m.a. að eftirlitsskyldur aðili beri ábyrgð á að rekstur upplýsingakerfa uppfylli allar kröfur sem gerðar eru í tilmælunum og skiptir þá ekki máli hvort rekstri upplýsingakerfa sé útvistað að hluta til eða í heild. Þá ber hann og ábyrgð á gögnum sínum eftir lögum nr. 77/2000 um meðferð persónuupplýsinga. Nefnd lög nr. 87/1998 taka til þeirrar starfsemi sem getið er í 2. gr. laganna. Sóknaraðili fellur ekki undir þá grein. Af þessu leiðir að varnaraðili einn ber ábyrgð á því að gögn, sem hann vistaði hjá sóknaraðila, uppfylli kröfur sem gerðar eru um geymslu slíkra gagna. Sóknaraðili getur því ekki upp á sitt eindæmi ákveðið að vista gögnin og krefja síðan varnaraðila um endurgjald fyrir geymslu þeirra og skiptir þá engu hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir varnaraðila að gögnin séu ekki aðgengileg eða glötuð. Auk þess liggur fyrir að sóknaraðili hefur þegar afhent Dróma hf. öll eða nánast öll gögn sem vistuð voru í kerfum sóknaraðila og því ástæðulaust fyrir sóknaraðila að varðveita gögnin í kerfum sínum, en fyrir liggur að hinn 30. júní 2010 hafði Drómi hf. ekki lengur neinar tengingar við tölvukerfi sóknaraðila. Þá verður ekki séð að ósk nefndar sem rannsakar fall sparisjóðanna um gögn frá sóknaraðila er varða SPRON geti skipt hér máli en því hélt sóknaraðili fram í málflutningi sínum. Samkvæmt þessu og með vísan til alls þess sem að framan er rakið ber að hafna öllum kröfum sóknaraðila um endurgjald fyrir hýsingu gagna.

Kemur þá til skoðunar hvort efni séu til að taka kröfur sóknaraðila til greina sem almennar kröfur í bú varnaraðila í samræmi við varakröfu hans. Krafa sóknaraðila sem reist er á greiðslum í uppsagnarfresti og krafa um greiðslur fyrir hýsingu að loknum uppsagnarfresti er í eðli sínu skaðabótakrafa, sbr. 94. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili hefur ekki fært fram önnur rök fyrir þeirri kröfu en þau að vísa til sömu raka og fram koma varðandi aðalkröfu hans. Eru kröfur sóknaraðila, í þá veru að kröfur hans verði teknar til greina sem almennar kröfur því svo vanreifaðar að ekki er annar kostur en að vísa þeim frá dómi án kröfu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að taka kröfur sóknaraðila til greina með annarri og lægri fjárhæð.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins og tímaskýrslu lögmanns varnaraðila hæfilega ákveðinn 3.000.000 króna.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Erla S. Árnadóttir hæstaréttarlögmaður en af hálfu varnaraðila Bjarki Baxter héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. 

Úrskurðarorð:

Aðal-og varakröfu sóknaraðila, Teris, þess efnis að kröfur hans verði samþykktar sem búskröfur í slitabú varnaraðila, SPRON hf., er hafnað.

Varakröfu sóknaraðila þess efnis að kröfur hans verði samþykktar sem almennar kröfur í bú varnaraðila er vísað frá dómi.

Varakröfu sóknaraðila þess efnis að kröfur hans verði teknar til greina með lægri fjárhæð að mati dómsins er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 3.000.000 króna í málskostnað