Hæstiréttur íslands

Mál nr. 635/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


                                     

Mánudaginn 8. október 2012.

Nr. 635/2012.

Lögreglustjórinn á Selfossi

(enginn)

gegn

X

(Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms, um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttur og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. október 2012, þar sem  varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. október 2012 klukkan 13. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Krafa sóknaraðila um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi er reist á d. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og rökstudd með þeim hætti sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt hinu tilvitnaða lagaákvæði verður sakborningur meðal annars úrskurðaður í gæsluvarðhald ef slíkt má telja nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum hans. Af hálfu sóknaraðila eru ekki færð fram viðhlítandi rök eða gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu, að sú hætta sé yfirvofandi eða mjög líklegt að varnaraðili „valdi eldsvoða með ófyrirséðum afleiðingum“ eins og segir í kröfu um gæsluvarðhald. Þá kemur hvorki fram í gögnum málsins hvar á vegi er stödd rannsókn mála á hendur varnaraðila, sem gefa tilefni til þeirrar ályktunar að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi, sem fangelsisrefsing liggur við, né hvort ákvörðun hafi verið tekin um saksókn á hendur honum vegna slíkrar háttsemi. Er í þessu sambandi til þess að líta sem greinir í dómi Hæstaréttar 25. maí 2005 í máli nr. 215/2005, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2217, að heimild d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þá d. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, er eðli máls samkvæmt háð því að hvorki verði óhæfilegur dráttur á rannsókn né ákvörðun um ákæru og mál síðan rekið með viðhlítandi hraða. Þá verður varnaraðila ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli fyrrnefnds lagaákvæðis með vísan til þess að „vergangur hans [valdi] miklum ama hjá íbúum á Selfossi“ svo sem segir í kröfu sóknaraðila. Af framangreindu leiðir að sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að fullnægt sé skilyrðum þess að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald á grundvelli d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. október 2012.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að kærða, X, kt. [...], óstaðsettum í hús á Selfossi, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 13:00 þriðjudaginn 30. október n.k. á grundvelli d-liðar 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/200819/1991 um meðferð sakamála.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað.

Framangreind krafa var tekin fyrir kl. 14:35 í gær en dómarinn tók sér frest til kl. 13:00 í dag til þess að kveða upp úrskurð.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði sé langt leiddur af alvarlegri áfengissýki og hann sé útigangsmaður. Hann hafi tvisvar hlotið óskilorðsbundna fangelsisdóma fyrir afbrot sem flest öll séu tengd áfengisneyslu hans og vergangi. Frá því afplánun síðasta fangelsisdóms yfir honum hafi lokið í apríl á þessu ári hafi lögreglan þurft að hafa afskipti af honum í 124 skipti. Kvartað hafi verið undan honum nær daglega og hafi hann ítrekað verið til ama og leiðinda í verslunum og veitingastöðum og þar sem fólk safnist saman á Selfossi. Hann hafi einnig ítrekað ráðist á fólk og skemmt eigur þess. Þá hafi hann einnig lagt eld að þeim stöðum þar sem honum hafi verið úthýst eða ekki látið við vilja hans., t.d. hafi hann reynt að kveikja eld við anddyri lögreglustöðvarinnar á Selfossi í fyrrinótt.

Lögreglustjóri vísar til slæms ástands kærða og langvarandi áfengisneyslu hans og þá sé sú hætta fyrir hendi að kærði valdi eldsvoða með ófyrirséðum afleiðingum  auk þess sem ljóst sé að vergangur hans valdi miklum ama hjá íbúum á Selfossi. Með vísan til þessa og d-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. um meðferð sakamála er þess farið á leit að krafa um gæsluvarðhald á hendur kærða nái fram að ganga.

Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 má því aðeins úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef fram er kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing sé lögð við og samkvæmt d-lið sömu lagagreinar verður það skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi að vera fyrir hendi að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.

Í rannsóknargögnum kemur fram að frá árinu 2009 hafi rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi fengið til meðferðar fimm íkveikjumál þar sem kærði hafi haft réttarstöðu sakbornings. Þá hafi á þessu ári verið skráð 130 tilvik þar sem lögreglan hafi þurft að hafa afskipti af kærða. Hafi hann ýmist komið á lögreglustöðina og óskað eftir gistingu eða kvartað hafi verið undan honum þar sem hann hafi verið fólki til ama í verslunum og á veitingastöðum. Lögregla hafi mestar áhyggjur af þeirri áráttu kærða að kveikja eld við staði þar sem honum hafi verið úthýst en hann hafi nánast undantekningalaust verið ölvaður þegar höfð hafi verið afskipti af honum. Í rannsóknargögnum er lýst atviki frá 17. desember 2009 en þá var kærði grunaður um að hafa lagt eld að gúmmímottu sem var upp við vegg við hliðina á hurð að reiðhjólageymslu á jarðhæð [...]. Þann 28. desember 2010 var kærði handtekinn grunaður um að hafa kveikt í laufblöðum í anddyri starfsmannainngangs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands en kærði kvaðst ekkert muna eftir atvikinu sökum áfengisvímu. Þann 26. júní sl. var tilkynnt um eld aftan við húsnæði Nytjamarkaðarins að Eyravegi 3. Kærði kannaðist við að hafa verið að reykja við húsnæðið ásamt nokkrum unglingum og hefði kviknað í laufblaðahrúgu sökum þess að sígarettustubbum hefði verið hent í hana. Hann taldi sig hafa verið búinn að slökkva í glóðinni með því að stappa á laufblaðahrúgunni. Þann 13. september sl. mun kærði hafa reynt að komast inn á lögreglustöðina á Selfossi en þegar honum hafi ekki verið svarað hafi hann að sögn lögregluvarðstjóra á vakt kveikt í tveimur blöðum úr héraðsfréttablaði og lagt þau á mottu beint framan við dyrnar. Þá er kærði grunaður um að hafa aðfaranótt 2. október sl. lagt eld að rusli í mottu við útidyrahurð við lögreglustöðina. Lögreglu virðist að þessa dagana sé það fyrsta hugsun kærða að kveikja í þegar eitthvað sé gert á hlut hans.                

Kærði hefur á síðustu árum verið dæmdur fyrir ýmis brot, aðallega fyrir brot gegn áfengislögum, eignaspjöll og þjófnað, síðast hlaut hann þriggja mánaða fangelsi fyrir slík brot þann 2. janúar sl. Í þessum dómum kemur fram að kærði sé mjög langt leiddur af áfengissjúkdómi. Hann hafi misnotað áfengi í fjöldamörg ár og í miklu óhófi. Hann hafi hlotið mjög alvarlegan líkamlegan og andlegan skaða af drykkju sinni. Upplýst var við meðferð máls þessa að kærði er enn heimilislaus og ekkert lát er á áfengisneyslu hans og vergangi.  Kærði er nú grunaður um brot sem geta varðað hann þungri fangelsisrefsingu samkvæmt ákvæðum 164. gr. almennra hegningarlaga. Rökstuddur grunur leikur á því að fyrir kærða sé nú þannig komið sökum langvarandi áfengisneyslu hans að veruleg hætta sé á því að hann valdi eldsvoða með ófyrirséðum afleiðingum og ber því nauðsyn til að verja aðra fyrir kærða að þessu leyti. Eru því uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður krafa lögreglustjórans því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Af hálfu lögreglustjórans er ekki talið nauðsynlegt að kærði sæti nokkrum takmörkunum meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. október 2012 kl. 13:00.