Hæstiréttur íslands
Mál nr. 23/2002
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Börn
- Líkamstjón
- Örorka
- Lögjöfnun
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 19. júní 2002. |
|
Nr. 23/2002. |
Arnar Bjarkarsson(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.) gegn Ævari Ingólfssyni Gunnari Birni Gunnarssyni (Hákon Árnason hrl.) Ara Páli Ásmundssyni og(Ásgeir Jónsson hdl.) Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu |
Skaðabótamál. Börn. Líkamstjón. Örorka. Lögjöfnun. Gjafsókn.
AÁ og AB, sem leigt höfðu sér sæþotur til skemmtisiglingar, lentu í árekstri með þeim afleiðingum að AB varð fyrir líkamstjóni. Með hliðsjón af vitneskju þeirra um hættu af slíkum tækjum og aðstæðum í umrætt sinn var talið, að þeir hefðu báðir sýnt af sér slíkt gáleysi að skipta bæri sök á árekstrinum að jöfnu milli þeirra. Æ og G, sem ráku sæþotuleiguna, voru ekki taldir hafa brugðist eftirlitsskyldum sínum og ekkert benti til að atburðurinn hefði orðið vegna bilunar eða galla. Voru þeir því sýknaðir af kröfum AB. Eins og á stóð og með lögjöfnun frá 2. mgr. 24. gr. þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984, sbr. nú 2. mgr. 78. gr. laga nr. 71/1998, þótti rétt að lækka bætur úr hendi AÁ, enda yrði greiðsla þeirra honum óhæfilega þungbær að öðrum kosti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. janúar 2002. Hann krefst þess aðallega, að stefndu verði dæmdir til að greiða sér in solidum 7.923.444 krónur með 0,7% ársvöxtum af 8.988.370 krónum frá 7. ágúst 1996 til 1. nóvember sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1997, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní sama ár, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1999, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október sama ár, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2000, 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, 1,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár og 1,4% ársvöxtum frá þeim degi til 13. september 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og loks dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 26. október 2001 en af 7.923.444 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi allra stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti, en áfrýjandi nýtur gjafsóknar hér fyrir dómi. Til vara krefst áfrýjandi staðfestingar héraðsdóms gagnvart stefnda Ara Páli Ásmundssyni og að málskostnaður verði felldur niður gagnvart stefndu Ævari Ingólfssyni og Gunnari Birni Gunnarsyni.
Stefndu Ævar og Gunnar Björn krefjast staðfestingar héraðsdóms að því er þá varðar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda. Til vara krefjast þeir þess, að sök verði skipt, kröfur áfrýjanda lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefndi Ari Páll krefst aðallega sýknu af kröfu áfrýjanda en til vara, að skaðabótaábyrgð hans verði felld niður. Til þrautavara er þess krafist, að sök verði skipt og stefnukröfur lækkaðar. Stefndi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en hann hefur gjafsókn á báðum dómstigum.
Meðal nýrra gagna fyrir Hæstarétti er tjónskvittun vegna greiðslu réttargæslustefnda á 1.064.926 krónum til áfrýjanda 26. október 2001 úr slysatryggingu stefnda Ævars. Hefur áfrýjandi lækkað dómkröfu sína til samræmis við það.
Áfrýjandi og stefndi Ari Páll vissu báðir fullvel, hversu hættulegt gæti verið að sigla sæþotunum of nálægt hvorri annarri, enda höfðu þeir áður farið með slík tæki og var hættan af því brýnd fyrir þeim fyrir upphaf siglingarinnar.Veður og sjólag var gott og ekkert var til þess fallið að torvelda góða yfirsýn um sjávarflötinn. Með hliðsjón af þessu og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sýknu stefndu Ævars og Gunnars Björns, fébótaábyrgð stefnda Ara Páls, sakarskiptingu milli hans og áfrýjanda og ákvörðun bótafjárhæðar.
Stefndi Ari Páll var tæpra 16 ára á slysdegi. Í umsókn hans til dómsmálaráðuneytisins um gjafsókn 28. nóvember 2000 kom fram, og var það staðfest við málflutning fyrir Hæstarétti, að hann hafi einungis lokið grunnskólaprófi en ekki aflað sér annarrar menntunar. Hann hafi stundað ýmis verkamannastörf eftir að skólagöngu lauk, svo sem við fiskvinnslu og byggingarvinnu, en síðustu árin unnið í vélsmiðju föður síns, þar sem hann starfar nú. Stefndi er einhleypur og býr í leiguhúsnæði. Samkvæmt framlögðum skattframtölum hans hafa nettótekjur hans á mánuði á árunum 1999 til 2001 numið frá 87.444 krónum til 114.743 króna, en um sérstakar eignir er ekki að ræða. Þá er fram komið, að foreldrar hans höfðu ekki keypt ábyrgðartryggingu vegna hans, þegar hinn bótaskylda atburð bar að höndum. Eins og hér stendur á og með lögjöfnun frá 2. mgr. 24. gr. þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984, sbr. nú 2. mgr. 78. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þykir rétt að lækka bætur úr hendi stefnda Ara Páls, enda yrði greiðsla þeirra honum óhæfilega þungbær að öðrum kosti. Þykir hæfilegt, að hann greiði áfrýjanda 2.000.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði, en dráttarvextir reiknast ekki fyrr en frá uppsögu héraðsdóms.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest. Rétt þykir, að áfrýjandi greiði Ævari og Gunnari Birni málskostnað fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur hvorum um sig. Gjafsóknarkostnaður hans greiðist úr ríkissjóði, eins og segir í dómsorði. Málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda Ara Páls fellur niður, en gjafsóknarkostnaður hins síðarnefnda greiðist jafnframt úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Stefndu Ævar Ingólfsson og Gunnar Björn Gunnarsson eru sýknir af kröfu áfrýjanda, Arnars Bjarkarssonar.
Stefndi Ari Páll Ásmundsson greiði áfrýjanda 2.000.000 krónur með 0,7% ársvöxtum frá 7. ágúst 1996 til 1. nóvember sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1997, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní sama ár, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1999, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október sama ár, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2000, 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, 1,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 1,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september sama ár, 1,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember sama ár, 1,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2001, 1,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní sama ár, 1,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí sama ár og 1,7% ársvöxtum frá þeim degi til 19. október sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Áfrýjandi greiði stefndu Ævari og Gunnari Birni málskostnað fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur hvorum um sig. Gjafsóknarkostnaður hans greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti milli áfrýjanda og stefnda Ara Páls fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnda Ara Páls greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. október 2001.
Ár 2001, föstudaginn 19. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í dómhúsinu að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp dómur í málinu nr. E-1546/2000: Arnar Bjarkarsson gegn Ævari Ingólfssyni, Gunnari Birni Gunnarssyni og Ara Páli Ásmundssyni og gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.
Málið var höfðað með stefnu birtri 31. júlí, 1. ágúst og 9. ágúst 2000 og dómtekið 27. september 2001. Stefnandi er Arnar Bjarkarsson, kt. 120374-4009, til heimilis að Sóltúni 18, Keflavík, en stefndu eru Ævar Ingólfsson, kt. 211065-5759, Lyngmóum 16, Njarðvík, Gunnar Björn Gunnarsson, kt. 170962-3269, Freyjuvöllum 7, Njarðvík og Ari Páll Ásmundsson, kt. 120974-3439, Heiðarhvammi 9, Keflavík. Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 5, Reykjavík.
Málið er rekið sem skaðabótamál og varðar ágreining um bótaskyldu stefndu vegna slyss stefnanda 7. ágúst 1990.
Aðalkrafa stefnanda er sú að stefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða honum krónur 8.988.370, með ársvöxtum, sem nemi 0,7% frá 7. ágúst 1996 til 1. nóvember sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. febrúar 1997, 0,9% frá þeim degi til 1. júní sama ár, 1% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. september sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% frá þeim degi til 1. mars sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,7% frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,6% frá þeim degi til 1. apríl 1999, 0,7% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. júlí sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. október sama ár, 1% frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. febrúar 2000, 1,2% frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1,4% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1,2% frá þeim degi til 1. júlí sama ár, 1,3% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 1,4% frá þeim degi til 1. september sama ár, 1,5% frá þeim degi til 10. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og loks með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Til vara krefst stefnandi annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins, auk málskostnaðar.
Stefndu Ævar og Gunnar Björn krefjast aðallega sýknu og greiðslu málskostnaðar, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefndi Ari Páll krefst aðallega sýknu, til vara að skaðabótaábyrgð hans verði felld niður og til þrautavara að sök verði skipt í málinu og stefnukröfur lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefndi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðherra 23. janúar 2001.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki hafðar uppi sjálfstæðar kröfur í málinu, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
I.
Í málinu liggur fyrir að stefnandi og stefndi Ari Páll leigðu sitt hvora sæþotuna (Jet-ski) til skemmtisiglingar kl. 21:35 að kvöldi þriðjudagsins 7. ágúst 1990 af stefndu Ævari og Gunnari Birni, sem ráku sæþotuleigu undir nafninu „Sjósleðaleigan“ í skúr við Duus-bryggju í Keflavík. Leigan, sem aðeins var starfrækt frá maílokum 1990 til 1. september sama ár, var ekki skráð í firmaskrá. Í tengslum við reksturinn hafði stefndi Ævar keypt ábyrgðartryggingu og einnig slysatryggingu af réttargæslustefnda. Í leigusamningi, sem stefnandi og stefndi Ari Páll undirrituðu hvor fyrir sig, segir meðal annars að leigutaka hafi verið sérstaklega gerð grein fyrir hættu, sem geti verið samfara notkun hinnar vélknúnu sæþotu, sem hann taki á leigu og að leigutaki skuldbindi sig til þess að sýna fyllstu varkárni og halda hraða sæþotunnar innan þeirra marka að hvorki leigutaka né öðrum stafi hætta af. Þá undirrituðu piltarnir enn fremur yfirlýsingu um að þeir tækju fulla ábyrgð á sjálfum sér og á öðrum sem þeir kynnu að valda tjóni. Stefnandi var 16 ára er hann gerði samninginn og stefndi Ari Páll á 16. aldursári. Af hálfu piltanna er viðurkennt að starfsmaður leigunnar, Einar Jónsson, hafi brýnt fyrir þeim í upphafi leigutímans að fara varlega, að fara ekki of langt frá landi og eigi heldur of nærri og að halda að minnsta kosti 50-100 metra bili á milli tækjanna. Leigugjald mun hafa verið 1.500 krónur fyrir hvora sæþotu og leigutíminn hálf klukkustund. Fyrir liggur að ekki voru aðrar sæþotur í útleigu á sama tíma. Þegar leigutíminn var úti setti Einar upp númeraspjöld á skúrinn til merkis um að piltarnir skyldu sigla í land. Að sögn Einars hefðu þeir ekki sinnt þeim boðum og því hefði hann veifað til þeirra. Piltarnir tóku í framhaldi stefnuna á Duus-bryggju, en síðan gerðust einhver þau atvik, sem urðu til þess að árekstur varð milli sæþotanna með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist alvarlega. Málsaðila greinir á um orsök eða orsakir slyssins.
Lögregla kom á vettvang kl. 22:27. Í frumskýrslu, sem gerð var vegna málsins, segir að stefnandi hafi greint lögreglu frá því að hann og stefndi Ari Páll hefðu verið á leið í land á sitt hvorri sæþotunni þegar Ari Páll hefði misst stjórn á sinni sæþotu og hún lent með fullum þunga á vinstra læri stefnanda. Í sömu skýrslu segir að stefndi Ari Páll hafi tjáð lögreglu að hann og stefnandi hefðu verið á leið í land og hann verið rétt ókominn að stefnanda, með sæþotu sína í „botn-inngjöf“, þegar stefnandi hefði snúið sinni sæþotu þannig að sjór hefði gusast framan í andlit Ara Páls, hann blindast og misst stjórn á sæþotu sinni með framangreindum afleiðingum. Svo virðist sem ekki hafi verið frekar aðhafst af hálfu lögreglu fyrr en í febrúar 1992, en þá voru, að beiðni réttargæslustefnda, teknar skýrslur af stefnanda, stefndu Gunnari Birni og Ara Páli og vitnunum Einari Jónssyni og Sigríði Birnu Björnsdóttur, sambýliskonu stefnda Gunnars Björns.
Stefnandi skýrði lögreglu svo frá að hann hefði verið búinn að fara 12-15 sinnum á sæþotu fyrir slysið og hefði honum í upphafi verið sagt til um notkun og stjórn slíkra tækja. Hann kvaðst hafa verið á hægri siglingu, á „spegilsléttum sjó“ í um 300 metra fjarlægð frá bryggju við sæþotuleiguna þegar hann hefði séð að veifað var til þeirra félaga að koma í land. Á sama tíma hefði stefndi Ari Páll verið um 100-200 metrum utar og verið að snúa við. Stefnandi hefði síðan tekið rólegan sveig og í framhaldi heyrt í sæþotu Ara Páls fyrir aftan sig. Þegar hann hefði litið við hefði sæþota Ara Páls skollið á sæþotu hans, runnið upp eftir henni og lent á vinstra læri hans.
Stefndi Ari Páll kvaðst hafa verið búinn að leigja sæþotur í 10-20 skipti fyrir slysið. Hann kvað slysið hafa orðið með þeim hætti að þeir félagar hefðu verið „að snúa við á punktinum“, en það sé gert með því að keyra á fullri ferð og beygja síðan í botn. Við það snúist sæþotan og sökkvi að framan. Greint sinn hefði stefnandi Arnar verið nýbúinn að snúa við og hann sjálfur verið á fullri ferð „með allt í botni“ þegar hann hefði allt í einu séð Arnar fyrir framan sig. Að sögn stefnda hefði hann ekkert getað gert til að afstýra árekstri við Arnar. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvað hefði gerst, þ.e. hvort Arnar hefði siglt í veg fyrir hann eða hvort hann hefði siglt Arnar uppi.
Einar Jónsson kvaðst hafa verið að vinna á sæþotuleigunni umrætt sinn og hefði hann afgreitt piltana tvo. Hann kvaðst hafa séð þegar þeir sigldu í átt að bryggju við sæþotuleiguna í lok leigutímans. Piltarnir hefðu verið á mikilli ferð og lítið bil verið á milli sæþotanna; aðeins 2-3 metrar. Í stað þess að koma að bryggjunni hefðu þeir beygt í sitt hvora áttina og haldið aftur til hafs, en því næst sveigt sæþotunum að hvor annarri aftur „á þrælmikilli ferð“ og hefði sá er síðar hefði beygt siglt aftan á hinn og sæþota hans farið upp á hina. Að sögn Einars hefðu sæþoturnar verið um 150-200 metra frá landi þegar áreksturinn varð.
Stefndi Gunnar Björn og Sigríður Birna Björnsdóttir voru stödd við sæþotu-leiguna þegar áreksturinn varð. Gunnar Björn bar að sæþoturnar hefðu ekki verið leigðar út til fólks yngra en 16 ára. Hann kvaðst muna eftir að piltarnir tveir hefðu verið brýndir á helstu reglur sæþotuleigunnar og að þeir hefðu sagt að þeir þekktu til reglnanna því þeir væru búnir að fara svo oft á sæþotu. Að sögn Gunnars hefðu piltanir farið að settum reglum fram að því er þeir hefðu verið kallaðir í land, en þá hefðu þeir farið að sigla nærri hvor öðrum. Hann kvaðst ekki hafa séð sæþoturnar rekast á, en þegar þær hefðu verið um 100 metra frá landi hefði hann séð að þær voru kyrrstæðar hjá hvor annarri. Í framhaldi hefði hann áttað sig á því að eitthvað hefði komið fyrir.
Sigríður Birna kvað piltana hafa verið að sigla í átt að landi þegar þeim hefði verið gert ljóst að þeir ættu að koma að bryggju. Þeir hefðu ekki sinnt þeim boðum, en þess í stað haldið áfram til hliðar í hring. Að sögn Sigríðar hefði ekki verið hægt að tala um sérstakan glannaskap af hálfu piltanna, en þeir hefðu samt siglt óþarflega nærri hvor öðrum. Hún hefði síðan séð greinilega er sæþoturnar hefðu skollið saman.
II.
Stefnandi var fluttur á Sjúkrahús Keflavíkur eftir slysið, þar sem teknar voru röntgenmyndir af vinstri lærlegg. Í ljós kom þverbrot á neðri þriðjung lærleggsins með hliðrun og styttingu. Hann var síðan fluttur á bæklunarskurðdeild Landspítalans þar sem hann gekkst undir aðgerð á læri. Gert var að brotinu með því að setja það í réttar skorður og festa með mergnagla. Stefnandi var útskrifaður 24. ágúst 1990 og gekk þá við hækjur. Gögn málsins bera með sér að við læknisskoðun 21. október sama ár hafi vinstri ganglimur mælst 0,5 cm styttri en sá hægri. Stefnandi hefur æ síðan átt við meiðsli að stríða í vinstra hné og var meira og minna undir læknishendi í rúm fimm ár frá slysdegi; einnig vegna verkja í baki og vinstri mjöðm. Hann gekkst undir aðgerð 12. september 1991, en þá var mergnaglinn fjarlægður, auk þess sem liðspeglun var gerð á vinstra hné. Á árinu 1993 greindust brjóskskemmdir undir vinstri hnéskel og í ljós kom að ytri liðþófi var rifinn. Hluti hans var því fjarlægður með aðgerð (liðspeglun). Við skoðun í nóvember 1995 mun stefnandi hafa verið með vaxandi bakverk og þráláta verki í vinstra hné og greindust sem fyrr slitbreytingar í hnénu, auk þess sem í ljós kom rifa í innri liðþófa. Var því hluti þess liðþófa fjarlægður með liðspeglun 24. sama mánaðar.
Fyrir liggur að Atli Þór Ólason sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum mat örorku stefnanda 5. nóvember 1992 og einnig Jónas Hallgrímsson læknir 16. apríl 1993. Að áliti þeirra var varanleg örorka stefnanda vegna nefnds slyss metin 15%. Stefnandi gekkst þriðja sinni undir örorkumat haustið 2000, sem framkvæmt var af Atla Þór Ólasyni. Í örorkumatinu, sem dagsett er 28. september 2000, segir meðal annars svo um læknisskoðun á stefnanda:
„Arnar gengur eilítið haltur á vinstra fæti. Fær aukin óþægindi í vinstra hné og mjöðm við að ganga með bogin hné. Greinileg rýrnun er á lærvöðvum ofan vinstri hnéliðar. ... Nokkur eymsli finnast utanvert á vinstra mjaðmarsvæði, yfir mjaðmarhnútu og inn í nára. 11 cm vel gróið aðgerðarör er utanvert á mjaðmarsvæði. 9 cm langt ör er neðan á lærinu utanverðu. Verkur kemur fram við hreyfingu í mjaðmarlið. ... Í vinstra hné eru eymsli innan- og utanvert yfir liðglufum svo og undir hnéskel. Mikið brak og hrjúfleiki finnst undir hnéskel við hreyfingu hnéliðar. Við að pressa liðfleti saman kemur fram verkur.“ Sjúkdómsgreining samkvæmt örorkumati er sem hér segir:
1) Gróið brot á vinstri lærlegg (háð sjósleðaslysi 07.08. 1990).
2) Tognun í vinstra hné með sköddun á liðþófum og liðbrjóski einnig
undir hnéskel (háð sjósleðaslysi 07.08. 1990).
3) Erting við vinstri mjöðm ásamt dofa á vinstra læri (háð sjósleðaslysi
07.08. 1990).
4) Rof á 5. mjóhryggjarboga (óháð sjósleðaslysi 07.08. 1990).
5) Mjóhryggjaróþægindi (hugsanlega að hluta tengt sjósleðaslysi
07.08. 1990).
Niðurstaða örorkumats er síðan svohljóðandi:
,,Fyrir sjósleðaslysið 07.08. 1990 var Arnar Bjarkarsson einkennalaus frá baki og ganglimum. Í slysinu var Arnar á sjósleða er annar sjósleði kom á fullri ferð á vinstri hnélið hans og olli áverka á læri og hné. Áverki á hné var þverbrot á læri sem meðhöndlað var með innri beinfestingu og greri eðlilega. Auk þess hlaut Arnar áverka á vinstra hné og hefur haft óþægindi þar allt frá slysinu.
Í dag hefur hann ertingarhné með eymslum innan- og utanvert á hnélið svo og undir hnéskel og greinst hefur rifinn liðþófi sem hefur verið fjarlægður. Slitbreytingar eru greinilegar í hné. Þá var þekkt við fyrri örorkumöt dofi á vinstra læri. Frá því örorkumöt voru gerð hafa komið fram meiri óþægindi í vinstra hné og gerðar hafa verði speglanir og aðgerðir sem ekki hafa bætt ástand. Óþægindin virðast fara vaxandi og draga úr starfsgetu Arnars. Hann hefur mikil eymsli í hnénu og vöðvarýrnun á læri sem merki um að hann beiti vinstra fæti minna en þeim hægra. Þá er kraftur í fætinum heldur minni vinstra en hægra megin. Allt þetta getur leitt til þess að álag á mjóhrygg verði meira en ella.
Arnar hefur frá 1995 haft bakóþægindi en röntgenmyndir hafa sýnt meðfæddan byggingargalla. Hugsanlegt er að einhver hluti óþægindanna verði rakinn til skakks álags á bak vegna hnéóþæginda. Telja verður að ástand Arnars hafi versnað frá 1992. Varanleg örorka er metin 20%.
Við sjósleðaslysið þann 07.08. 1990 varð Arnar Bjarkarsson fyrir eftirfarandi starfsorkuskerðingu:
Tímabundin örorka:
Frá slysadegi 07.08. 1990 til 31.12. 1990 100%
Frá 01.01. 1991 til 01.03. 1991 50%
Frá 02.03. 1991 til 11.09. 1991 0%
Frá 12.09. 1991 til 12.11. 1991 100%
1993 í einn mánuð 100%
Frá 24.11. 1995 einn mánuður 100%
Varanleg örorka 20%“
III.
Guðjón Hansen tryggingafræðingur reiknaði út örorkutjón stefnanda 6. nóvember 2000 á grundvelli hins nýja örorkumats. Samkvæmt tjónsútreikningnum nemur höfuðstólsverðmæti tapaðra vinnutekna hans á slysdegi, án tillits til tjóns vegna tapaðra lífeyrisréttinda, krónum 10.600.046. Í stefnu var gerð krafa um greiðslu bóta að fjárhæð krónur 15.000.000, en kröfugerð breytt 10. nóvember 2000 til samræmis við líkindareikning tryggingafræðingsins. Kröfugerðin var enn leiðrétt á aðalmeðferðardegi 27. september 2001 og nemur endanleg höfuðstólskrafa krónum 8.988.370. Verður gerð grein fyrir sundurliðun hennar í kafla VI. hér á eftir.
IV.
Af gögnum málsins verður ráðið að nýr lögmaður hafi tekið við kröfugerð fyrir hönd stefnanda í maí 2000 og að hann hafi í bréfi til réttargæslustefnda 21. júní sama ár óskað eftir afstöðu vátryggingafélagsins til bótaskyldu vegna umrædds slyss 7. ágúst 1990. Greiðsluskyldu vegna ábyrgðartryggingar stefnda Ævars var hafnað með bréfi réttargæslustefnda 11. júlí 2000, en jafnframt bent á að stefndi Ævar hefði einnig keypt slysatryggingu í þágu þeirra er kynnu að slasast við notkun sæþotanna og ætti stefnandi rétt til bóta samkvæmt henni. Í framhaldi af svarbréfinu sendi lögmaðurinn stefndu bréf 19. júlí sama ár, þar sem bótaábyrgð var lýst á hendur þeim og þeim tilkynnt að málssókn væri í undirbúningi. Af hálfu stefndu er ekki á því byggt að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir sakir tómlætis.
V.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð 27. september síðastliðinn. Hann kvaðst sem fyrr hafa verið búinn að sigla sæþotu í 12-15 skipti þegar slysið varð. Umrætt sinn hefði hann stefnt í átt að landi þegar hann hefði séð starfsmann sæþotuleigunnar gefa þeim félögum merki um að koma að bryggju. Að sögn stefnanda hefði hann þá litið til vinstri, séð stefnda Ara Pál skáhallt fyrir aftan sig í um 100-150 metra fjarlægð og veifað til hans. Í framhaldi hefði Ari Páll snúið sæþotu sinni í átt að bryggjunni. Sjálfur hefði hann haldið för sinni áfram, líklega með 20-30 km/klst., og sveigt rólega til hægri í átt að bryggju. Örfáum sekúndum síðar hefði hann heyrt vélarhljóð „allt of nálægt“ sér, litið til vinstri og í sama mund hefði sæþota Ara Páls skollið á vinstra læri hans. Stefnandi kvað orsök slyssins væntanlega vera þá að Ari Páll hefði misst stjórn á sæþotu sinni. Hann kvað rangt að hann hefði hnitað í hringi á leið til lands og einnig að sæþota hans hefði verið á mikilli ferð þegar slysið varð.
Stefndi Ari Páll skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði aðeins verið búinn að prófa sæþotur í tvö skipti fyrir slyssdag og sagði ranglega eftir sér í lögregluskýrslu um þetta atriði. Þá væri ekki rétt að hann hefði siglt á eftir stefnanda er slysið hefði borið að höndum. Í framhaldi kvaðst hann muna afar óljóst eftir atburðarás, en sagðist hafa verið að sigla sæþotu sinni „á fullri ferð“ áfram, skáhallt í átt að bryggju, þegar stefnandi hefði allt í einu birst í um það bil einni og hálfri „sleðalengd“ fyrir framan hann. Hann kvaðst á þeirri stundu ekki hafa vitað að búið væri að gefa þeim félögum merki um að koma í land. Að sögn stefnda hefði hann líklega verið „að horfa eitthvað annað“ örskömmu fyrir slysið og ekki getað sveigt frá og því siglt á fullri ferð á sæþotu stefnanda. Árekstur hefði af þeim sökum verið óumflýjanlegur. „Maður fór bara svona í panic“ eins og stefndi komst að orði. Stefndi ítrekaði að hann hefði ekki verið að beygja sinni sæþotu er slysið varð og því hlyti stefnandi að hafa sveigt í veg fyrir hann, alla vega myndi hann ekki betur en að stefnandi hefði allt í einu birst fyrir framan hann. Fyrir dómi var borin undir stefnda ætluð lýsing hans á atburðarás í frumskýrslu lögreglu dagsettri 7. ágúst 1990. Hann kvaðst ekki muna eftir slíkri frásögn og benti á að hann hefði verið í miður góðu ástandi eftir slysið. Í framhaldi kvað hann atvikalýsingu viðkomandi lögreglumanns vera ónákvæma.
Stefndi Gunnar Björn staðfesti lögregluskýrslu sína fyrir dómi; þó þannig að hann kvað það hafa verið viðmiðunarreglu hjá sæþotuleigunni að leigja aðeins sæþotur til fólk á 16. aldursári og eldri. Hann kvaðst að öðru leyti muna afar óljóst eftir málsatvikum. Stefndi kvað umræddar sæþotur hafa verið af gerðinni Yamaha 500.
Stefndi Ævar gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst ekki hafa verið staddur á vettvangi er slysið varð. Fram kom í skýrslu stefnda að sú regla hefði verið viðhöfð af hálfu sæþotuleigunnar að leigja ekki sæþotur til fólks yngra en 16 ára eða fólks á 16. aldursári. Stefndi kvað umræddar sæþotur hafa verið af gerðinni Yamaha 500.
Sigríður Birna Björnsdóttir gaf skýrslu vitnis fyrir dómi. Hún greindi frá því að stefnandi og stefndi Ari Páll hefðu greint sinn tekið „aukahring“ eftir að búið hefði verið að kalla þá í land. Á þeirri stundu hefðu þeir verið allt of nálægt hvor öðrum; þó ekki þannig að hún hefði upplifað það sem „vítavert gáleysi“ af þeirra hálfu. Nánar aðspurð sagði Sigríður að piltarnir hefðu ekki sveigt í hring frá hvor öðrum heldur beygt í sömu átt og þeir verið að snúa við er slysið hefði borið að höndum.
Einar Jónsson bar fyrir dómi að hann hefði greint sinn veifað til piltanna tveggja um að snúa til lands. Í framhaldi hefðu þeir siglt sæþotunum samsíða á mikilli ferð og of nálægt hvor annarri í átt að bryggju, en því næst allt í einu sveigt þeim í U-beygju frá hvor öðrum og aftur til hafs og komið til baka á svipaðri ferð í U-beygju að hvor öðrum og hefði þá önnur sæþotan komið aftan að hinni og lent upp á henni í um 100-150 metra fjarlægð frá landi. Í lok skýrslugjafar var lesin upp fyrir Einari lýsing hans á aðdraganda slyssins í framburðarskýrslu hjá lögreglu í febrúar 1992 og sagði hann þar rétt eftir sér haft.
Ingvar Bjarnason deildarstjóri hjá Merkúr hf., umboðsaðila fyrir Yamaha sæþotur á Íslandi bar fyrir dómi að umræddar sæþotur hefðu verið tveggja manna, af gerðinni Yamaha MJ500T, með 32ja hestafla vél og hámarkshraða 56 km/klst. samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Mjög einfalt væri að ná tökum á slíkum sæþotum og gæti viðkomandi setið á tækinu eins og á stól. Stýrisbúnaður væri svo einfaldur að auðveldara væri að stjórna sæþotu af nefndri gerð en lítilli skel með utanborðsmótor. Í framhaldi sagði Ingvar að þetta væri „eins og að vera á reiðhjóli“. Hann kvað sæþotur í dag hins vegar vera miklu aflmeiri, með allt að 150 hestafla vél og hámarkshraða yfir 100 km/klst. Að sögn Ingvars væru engar leiðbeiningarreglur til frá framleiðanda sæþotanna varðandi aldurslágmark til stjórnunar slíkra tækja. Þá væri honum ekki kunnugt um að settar hefðu verið almennar reglur um notkun sæþota hér á landi og bætti því við að Siglingastofnun Íslands hefði ekki gert athugasemdir við innflutning þeirra.
VI.
Stefnandi styður kröfu sína á hendur stefnda Ara Páli við almennu skaðabótaregluna utan samninga (sakarregluna) og byggir einkum á því að stefndi hafi valdið stefnanda umræddu líkamstjóni með gáleysislegu háttalagi við stjórn sæþotu. Stefndi hafi ekki gætt þess að hafa nægjanlegt bil á milli sæþotanna tveggja, eins og honum hafi borið ótvíræð skylda til og siglt þotu sinni á fullri ferð í hlið sæþotu stefnanda. Hraði sæþotunnar hafi verið alltof mikill miðað við aðstæður, enda geri stefndi sér ekki fyllilega grein fyrir aðdraganda að árekstrinum. Vísar stefnandi hér til 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en sama meginregla gildi til sjós. Stefndi beri því óskoraða ábyrgð á tjóni stefnanda, enda séu engin haldbær rök til að fella ábyrgð á stefnanda eða skipta sök í málinu.
Krafa á hendur stefndu Ævari og Gunnari Birni er í fyrsta lagi á því byggð að stefndu beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda vegna mikilla hættueiginleika þeirrar starfsemi sem þeir ráku í ágóðaskyni. Megi líkja stjórnun sæþotu við akstur bifhjóls þar sem reglur um hlutlæga ábyrgð gildi.
Verði ekki á þetta fallist er í annan stað byggt á því að beita beri sakarreglunni með mjög ströngu sakarmati, þar sem stefndu hafi brotið eigin starfsreglur með því að leigja meðstefnda Ara Páli, aðeins 15 ára gömlum og reynslulitlum, hið vandmeðfarna og hættulega tæki, sem hann hafi ekki haft nægjanlegt vald á. Þetta hafi stefndu vitað og því hafi þeim verið ljóst hverjar afleiðingar það kynni að hafa í för með sér að leigja meðstefnda sæþotu. Í leigusamningi, sem gerður hafi verið við piltinn, séu ströng ákvæði um fjárhagsábyrgð leigutaka og ábyrgð á tjóni sem viðkomandi kunni að valda sjálfum sér eða öðrum við notkun sæþota. Ákvæðin séu öll óbærileg fyrir ófjárráða einstakling og bendi ótvírætt til þess að leigutakar skuli vera eldri en 15-16 ára unglingar, en jafnframt séu þau í raun óskuldbindandi fyrir stefnda Ara Pál, sem og stefnanda, sbr. 1. mgr. 75. gr. lögræðislaganna nr. 71/1997 og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Þá er enn fremur byggt á því að stefndu Ævar og Gunnar Björn hafi ekki gert neinar ráðstafanir til að koma í veg fyrir glannalegan hraða sæþotu meðstefnda Ara Páls þegar hann hefði nálgast stefnanda óðfluga. Ekkert fjarskiptasamband hafi verið á milli sæþotuleigunnar og sæþotanna. Þá hafi ekki verið tiltæk sæþota í landi til að fylgjast með ferðum hinna og grípa inn í atburðarásina og afstýra hættu. Beri stefndu fébótaábyrgð á þessum óforsvaranlegu aðstæðum.
Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að engin rannsókn hafi barið fram á sæþotu stefnda Ara Páls eftir slysið, en það hafi staðið stefndu Ævari og Gunnari Birni nær en stefnanda að hlutast til um slíka rannsókn. Ekki sé hægt að útiloka að um bilun hafi verið að ræða í sæþotunni, en á því beri stefndu fulla bótaábyrgð.
Loks byggir stefnandi á því að stefndu Ævar og Gunnar Björn beri fébótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna ungs aldurs hans, reynsluleysis við stjórn sæþota og hættueiginleika slíkra tækja og vísar í því sambandi til sömu raka og að framan eru nefnd varðandi meðstefnda Ara Pál.
Stefnandi skýrir aðild réttargæslustefnda með því að stefndi Ævar hafi keypt almenna slysatryggingu og frjálsa ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélaginu og taki þær til tjóns af því tagi sem deilt sé um í málinu, enda sé áhættan ekki undanskilin í vátryggingaskilmálum félagsins. Hvorki verði séð af skilmálunum né vátryggingaskírteinum að félagið hafi gert fyrirvara eða athugasemdir við aldursmörk leigutaka eða starfshætti leigusala.
Stefnandi styður fjárhæð dómkröfu sinnar einkum við líkindareikning Guðjóns Hansen tryggingafræðings frá 6. nóvember 2000 og sundurliðar hana með svofelldum hætti:
|
1. Bætur fyrir tímabundna örorku |
kr. 1.462.167 |
|
2. Bætur fyrir varanlega örorku -30% lækkun vegna skatta- og eingreiðsluhagræðis |
kr. 9.137.879 kr. 2.741.363 |
|
|
kr. 7.858.683 |
|
3. Töpuð lífeyrissjóðsréttindi |
kr. 629.687 |
|
4. Miskabætur |
kr. 500.000 |
|
Samtals |
kr. 8.988.370. |
Bætur fyrir tímabundna og varanlega örorku eru enn fremur studdar örorkumati Atla Þórs Ólasonar frá 28. september 2000, en sérfræðingurinn hafi metið tímabundna örorku stefnanda 100% í tæplega 9 mánuði (7 daga skorti), 50% í 2 mánuði og loks varanlega örorku 20% frá 13. nóvember 1991. Um forsendur útreiknings á tjóni stefnanda samkvæmt framansögðu vísar hann til útreiknings tryggingafræðingsins.
Miskabótakröfu sína byggir stefnandi á því að augljóst sé að hann hafi þolað mikla verki og óþægindi vegna meiðsla sinna, bæði í tómstundum og í starfi, en með hliðsjón af niðurstöðum nefnds örorkumats verði að telja kröfunni í hóf stillt. Við munnlegan málflutning skírskotaði lögmaður stefnanda kröfunni til stuðnings til 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem í gildi hefði verið á tjónsdegi.
Lögmaður stefnanda vísaði einnig í málflutningi til reglna nr. 661/1996 um smíði báta styttri en 6 metrar, einkum 7. gr., og kvaðst byggja á þeim varðandi það hvernig standa hefði átt að rekstri sæþotuleigunnar, sbr. áður reglur nr. 357/1990 um smíði og öryggisbúnað báta styttri en 6 m að lengd. Þeirri málsástæðu var mótmælt af hálfu stefndu Ævars og Gunnars Björns, sem nýrri og allt of seint fram kominni.
VII.
Stefndu Ævar og Gunnar Björn reisa sýknukröfu sína á því að þeir beri ekki að skaðabótarétti nokkra bótaábyrgð á slysi stefnanda.
Fyrir það fyrsta sé rekstur sæþotuleigu ekki hættulegur atvinnurekstur og geti stefndu því ekki borið hlutlæga ábyrgð á slysi stefnanda eftir reglum skaðabótaréttar um hættulega starfsemi, enda hvergi að finna lagaheimild eða dómafordæmi fyrir svo strangri bótaábyrgð sæþotuleiga. Þá sé sigling sæþota fjarri því að vera hættuleg og alls eðlisólík akstri bifhjóls eða annarra vélknúinna ökutækja, sbr. meðal annars vitnisburður Ingvars Bjarnasonar fyrir dómi. Sigling sæþota sé þvert á móti afar auðveld, enda séu ekki gerðar kröfur um tilskilin réttindi, próf eða aldursmörk til að mega stjórna slíku tæki, gagnstætt því sem gildi um bifhjól. Siglingu sæþota á sjó og akstri ökutækis á landi verði því ekki borin að jöfnu og því verði ákvæðum umferðarlaga um hlutlæga bótaábyrgð á slysum af völdum skráningarskyldra ökutækja ekki beitt um slys af völdum sæþota; hvorki fyrir lögjöfnun eða með öðrum hætti. Þá verði sérreglum 36. gr. laganna um ökuhraða heldur ekki beitt um siglingu sæþota.
Í annan stað eigi stefndu enga sök á því að sæþoturnar rákust saman. Sé þar við stjórnendur tækjanna eina að sakast, en upplýst sé með vitnisburði sjónarvotta að þeir hafi siglt sæþotunum ógætilega og í átt að hvor öðrum rétt fyrir slysið. Þannig eigi stefnandi sjálfur sök á slysinu og verði af þeim ástæðum að bera tjón sitt sjálfur. Ekki hafi verið saknæmt að leigja stefnanda og meðstefnda Ara Páli sæþotu umrætt sinn, enda stefnandi 16 ára og meðstefndi að verða 16 og báðir vanir siglingu slíkra tækja. Breyti þar engu sú starfsregla stefndu að leigja ekki yngra fólki en 16 ára sæþotu, enda aðeins um viðmiðunarreglu að ræða og ósaknæmt að bótarétti að víkja frá henni. Að auki hafi piltarnir þekkt vel þær varúðarreglur um bil milli sæþotanna, sem þeim hafi borið að fylgja og því hafi stefndu og starfsmenn þeirra enga ástæðu haft til að ætla að brugðið yrði út af þeim. Fari því fjarri að stefndu hafi mátt vera ljóst að slys kynni að hljótast af útleigu sæþotu til meðstefnda. Enn fremur sé ósannað nokkurt orsakasamband milli aldurs piltanna og slyssins.
Þá sé ósannað að stefndu eða starfsmenn þeirra hafi getað afstýrt slysinu, en það hafi borið að höndum með skjótum hætti og því enginn tími til aðgerða úr landi. Breyti þar engu þótt bátur eða sæþota hefði verið til taks við bryggju eða þótt fjarskiptasamband hefði verið milli leigunnar og sæþota piltanna.
Stefndu kveða ekkert benda til þess að sæþota meðstefnda Ara Páls hafi verið biluð eða að hún hafi bilað meðan á útleigu stóð og það valdið slysinu. Hafi því ekkert tilefni verið til að láta rannsaka sæþotuna. Því séu engin skilyrði fyrir hendi til að beita reglum um öfuga sönnunarbyrði. Ætluð bilun í tækinu sé með öllu ósönnuð og því verði bótaábyrgð ekki reist á reglum skaðabótaréttarins um bilun eða galla í tæki.
Loks beri stefndu ekki skaðabótaábyrgð eða einhvers konar húsbóndaábyrgð á hegðun og gjörðum leigutaka sæþotanna gagnvart hvor öðrum, en til þess skorti lagaheimild. Hafi leigutökunum líka verið sérstaklega á það bent í leigusamningi að þeir bæru fulla ábyrgð á sjálfum sér og gagnvart öðrum þeim sem þeir kynnu að valda tjóni.
Varakröfu sína byggja stefndu á því að skipta beri sök í málinu og færa niður bætur til stefnanda í takt við það. Er í því sambandi vísað til eigin sakar stefnanda samkvæmt framansögðu. Við munnlegan málflutning skírskotaði lögmaður stefndu hér einnig til ákvæðis í 13. kapítula mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281 um áhættutöku í leik. Þá beri einnig að lækka einstaka liði bótakröfunnar, en þeim sé mótmælt tölulega sem of háum og kröfum byggðum á örorkumati og tjónsútreikningi enn fremur sem röngum og að hluta ósönnuðum. Loks sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
VIII.
Stefndi Ari Páll byggir sýknukröfu í fyrsta lagi á því að ósannað sé að hann hafi valdið slysinu. Af vætti Einars Jónssonar og Sigríðar Birnu Björnsdóttur, sjónarvotta að slysinu, verði allt eins ráðið að stefnandi hafi beygt í veg fyrir stefnda og eigi þannig sjálfur alla sök á slysinu.
Þá bendi lýsing sömu sjónarvotta til þess að stefndi og stefnandi hafi gert sér að leik að sigla hættulega nálægt hvor öðrum á sæþotunum, sem að lokum hafi leitt til árekstrar. Beri því með vísan til ákvæðis í 13. kapítula mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281 um áhættutöku í leik, sem samrýmist ólögfestum reglum skaðabótaréttarins um réttaráhrif áhættutöku í íþróttum eða leikjum, að sýkna stefnda og láta stefnanda bera tjón sitt sjálfur.
Stefndi byggir í þriðja lagi á því að leigusamningur sá er gerður hafi verið við hann 7. ágúst 1990 hafi ekkert skuldbindingargildi gagnvart honum, þar sem hann hafi verið ólögráða fyrir aldurs sakir, sbr. 1. mgr. 22. gr. lögræðislaga nr. 68/1984, sbr. nú 1. mgr. 76. gr. lögræðislaganna nr. 71/1997. Með vísan til þessa hljóti leigusalar, meðstefndu Ævar og Gunnar Björn, sem leigðu honum, ólögráða, sæþotu, að bera fulla ábyrgð á tjóni sem hann kunni að hafa valdið, enda um hættulegan rekstur að ræða, auk þess sem meðstefndu hafi brotið gegn eigin reglum um aldurslágmark við útleigu sæþotunnar.
Loks byggir stefndi á því að ekki sé útilokað að vélarbilun í sæþotu hans hafi valdið slysinu, en slík bilun geti ekki talist á hans ábyrgð. Beri af þeirri ástæðu að sýkna hann af kröfu stefnanda.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að meginregla 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eigi við um siglingu sæþota, enda eigi slík tæki fátt skylt með stjórnun vélknúinna ökutækja á landi.
Varakröfu sína byggir stefndi á því að verði hann talinn eiga einhverja sök á tjóni stefnanda þá beri að fella skaðabótaábyrgð hans niður með vísan til 1. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með lögjöfnun frá 2. mgr. 24. gr. eldri lögræðislaga, sbr. samhljóða ákvæði í 2. mgr. 78. gr. núgildandi laga. Því til stuðnings bendir stefndi á að hann hafi aðeins verið 15 ára gamall á tjónsdegi og óvanur stjórnun sæþota. Af framburði sjónarvotta verði jafnvel ráðið að hann og stefnandi hafi verið í háskalegum leik á sæþotunum þegar slysið varð. Þá hafi hvorki stefndi né foreldrar hans verið vátryggðir fyrir slíku tjóni, sem mál þetta snúist um, auk þess sem fjárhagur hans sé afar bágur, eins og gjafsókn honum til handa bendi til.
Þrautavarakröfuna styður stefndi þeim rökum að verði hann talinn eiga einhverja sök á tjóni stefnanda þá beri að skipta sök í málinu og færa bætur niður til samræmis við það. Stefndi vísar hér einnig til sömu sjónarmiða og í varakröfu um lækkunarheimildir dómstóla. Jafnframt mótmælir hann bótakröfu stefnanda og einstökum bótaliðum sem of háum og vísar í því sambandi til rökstuðnings meðstefndu og mótmæla þeirra varðandi örorkumat og örorkutjónsútreikning. Að auki telur stefndi að ósannað sé að óþægindi stefnanda í baki tengist á nokkurn hátt slysinu 7. ágúst 1990, eins og ljóst sé af örorkumati frá 28. september 2000. Rýri þetta verulega gildi örorkumatsins, enda verði ekki annað séð en að umrædd bakóþægindi, sem hefjist á árinu 1995, hafi haft áhrif á mat á varanlegri örorku stefnanda og leitt til 5% hækkunar frá tveimur eldri örorkumötum.
IX.
Samkvæmt framlögðu vottorði Veðurstofu Íslands um veður á Keflavíkurflugvelli 7. ágúst 1990 mun veður hafa verið gott kl. 21 að kvöldi; léttskýjað, skyggni ágætt og vindhraði 3,1 m/s. Við mælingu kl. 24 var orðið skýjað, en dregið hafði úr vindhraða niður í 1,5 m/s. Ágreiningslaust er að stefnandi hafi slasast laust eftir kl. 22 þegar hann var að sigla sæþotu úti á sjálfri Keflavíkinni, sem samnefnt sveitarfélag dró til skamms tíma nafn sitt af. Að sögn stefnanda hafi sjór verið „spegilsléttur“. Þegar framangreind atriði eru virt og hliðsjón er höfð af framburði annarra aðila og vitna í málinu þykir ekkert fram komið, sem bendir til þess að veður og/eða sjólag hafi verið meðorsakavaldur að tjónsatburðinum.
Í málinu er óumdeilt að umræddar sæþotur hafi verið af gerðinni Yamaha MJ500T, með sæti fyrir stjórnanda og einn farþega. Meðal málskjala eru upplýsingar frá framleiðanda um stærð og búnað sæþotanna, sem ekki er mótmælt efnislega. Þar er þyngd sæþotanna sögð 158 kg., án eldsneytis og olíu, og hámarkshraði 56 km/klst. Samkvæmt vætti Ingvars Bjarnasonar starfsmanns Merkúr hf., umboðsaðila fyrir Yamaha sæþotur, sem einnig er ómótmælt, mun uppgefinn hámarkshraði miðast við bestu hugsanlegu aðstæður. Vitnið lýsti því fyrir dómi hvernig drifbúnaði sæþota væri háttað, en hann grundvallast á því að við eldsneytisinngjöf snýst skrúfa undir sæþotunni og sogar vatn inn í nokkurs konar hólk eða þrýstidrif, sem síðan spýtir vatninu undir miklum þrýstingi aftur undan sæþotunni og knýr hana áfram. Sæþotunni er síðan, líkt og reiðhjóli, stjórnað með stýrisörmum, sem snúa þrýstidrifinu undir vatnsyfirborði, og gera notandanum kleyft að stjórna stefnu sæþotunnar. Að sögn vitnisins væri hraða sæþotanna eingöngu stjórnað með eldsneytisinngjöf. Þegar henni sleppti hætti vatn að renna gegnum þrýstidrifið og um leið væri ekki lengur unnt að breyta stefnu sæþotunnar. Stöðvunarvegalengd ráðist síðan af hraða sæþotunnar í upphafi og skriðþunga hennar. Yfirleitt stöðvist sæþotan því á nokkrum sekúndum.
Af hálfu stefnanda var því hreyft við munnlegan málflutning að stefndu Ævar og Gunnar Björn hefðu ekki hagað rekstri sæþotuleigu sinnar í samræmi við reglur nr. 661/1996 um smíði báta styttri en 6 metrar, einkum 7. gr., sem lýtur að starfsleyfi siglingaklúbba og bátaleiga. Samsvarandi ákvæði um sérstakt starfsleyfi var ekki að finna í eldri reglum nr. 357/1990 um smíði og öryggisbúnað báta styttri en 6 metrar að lengd, sem voru í gildi á tjónsdegi. Í grein 1.2. þeirra reglna er og sérstaklega tekið fram að þær gildi ekki um smábáta, sem blásnir eru upp með loftkenndu efni eða „svokallaða vatnasleða“. Af málatilbúnaði stefnanda er ekki ljóst hvernig hann tengir hina nýju málsástæðu við sakarefnið, en í ljósi þess að reglur nr. 661/1996 höfðu ekki verið settar þegar hinn umþrætti atburður varð og málsástæðunni er að auki mótmælt sem of seint fram kominni kemur hún þegar af þeim ástæðum ekki til frekari skoðunar við úrlausn málsins.
Koma þá til álita aðrar málsástæður stefnanda, sem hann reisir kröfu sína á gagnvart stefndu Ævari og Gunnari Birni. Hann byggir í fyrsta lagi á hreinni hlutlægri bótaábyrgð stefndu, þar sem rekstur sæþotuleigu teljist í eðli sínu til hættulegrar starfsemi og líkir stjórnun sæþotu við akstur bifhjóls, en þar gildi reglur um hlutlæga ábyrgð. Mál þetta snýst um árekstur tveggja sæþota á sjó. Reglur umferðarlaga nr. 50/1987 gilda því ekki, sbr. 1. gr. laganna. Þá gildir hin hlutlæga ábyrgðarregla umferðarlaga, sem lögfest er í 88. gr., yfirleitt ekki um tjón eigenda eða ökumanna, sem hlut eiga að árekstri skráningarskyldra ökutækja, en tjón þeirra bætist eftir almennum skaðabótareglum. Stefnanda stoðar því ekki að vísa til hlutlægrar ábyrgðarreglu umferðarlaga kröfu sinni til stuðnings. Hlutlæg ábyrgð án beinnar heimildar í settum lögum er fátíð hér á landi þótt örfá dæmi þekkist úr dómaframkvæmd. Hefur þá verið um að tefla óvænta bilun eða galla í hættulegu tæki eða öryggisbúnaði á vinnustað, sem beinlínis leiddi til tjónsatburðar. Því er ekki til að dreifa í máli þessu. Af vætti Ingvars Bjarnasonar, sem fyrr er nefndur, má enn fremur ráða að mjög einfalt sé að ná tökum á stjórn sæþotu og líkti vitnið því við að stjórna árabát með utanborðsmótor eða reiðhjóli. Að þessum atriðum virtum verður ekki fallist á að um hættulegan atvinnurekstur sé að ræða, auk þess sem ósannað er að orsakatengsl séu á milli útleigu á sæþotum og þess tjónsatburðar, sem um er deilt í málinu. Þá verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á að sæþotur séu í eðli sínu vandmeðfarin eða hættuleg tæki, þótt vissulega geti þau valdið tjóni ef ekki er gætt nægilegrar varkárni. Enn fremur verður sök ekki felld á stefndu á þeim grunni einum að þeir hafi leigt 15 og 16 ára unglingum sæþotu, enda engin sett ákvæði í lögum eða reglum, sem kveða á um tilskilinn lágmarksaldur til að mega stjórna slíku tæki. Þykir í þeim efnum mega líta til ákvæðis 3. mgr. 55. gr. umferðarlaga um stjórn léttra bifhjóla, sem bundið er við 15 ára lágmarksaldur viðkomandi. Breyta engu í þessu sambandi áður nefndir leigusamningar, sem gerðir voru við stefnanda og stefnda Ara Pál, en þeir voru ekki skuldbindandi fyrir þá samkvæmt 1. mgr. 22. gr. lögræðislaga nr. 68/1984, sbr. nú 1. mgr. 76. gr. lögræðislaganna nr. 71/1997, að því leyti sem samningarnir fólu í sér fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart þeim sjálfum eða þriðja manni.
Ekki verður fallist á með stefnanda að stefndu Ævar og Gunnar Björn hafi á nokkurn hátt brugðist eftirlitsskyldum með stefnanda eða stefnda Ara Páli umrætt sinn og verður fráleitt talið að gera megi svo ríkar kröfur til þeirra sem rekstraraðila sæþotuleigu að þeim hafi borið að fylgjast svo grannt með leigutökum við siglingu sæþota að unnt væri að grípa inn í atburðarás og afstýra yfirvofandi hættuástandi, svo sem stefnandi byggir á í málinu. Fyrir liggur að piltarnir tveir fylgdu settum fyrirmælum leigusala allt fram til þess að leigutíminn var útrunninn og hefði í engu breytt um orsakir tjónsatburðarins þótt fjarskiptasamband hefði verið milli leigusala og leigutaka eða sæþota verið til taks í landi þá er atvikið gerðist. Þá er ekkert fram komið í málinu, sem bendir til þess að bilun eða galli í sæþotu stefnda Ara Páls hafi valdið tjónsatburðinum. Verður stefndu því ekki lagt til lasts að hlutast eigi til um rannsókn á nefndri sæþotu. Ber samkvæmt þessu og í ljósi alls framanritaðs að sýkna stefndu Ævar og Gunnar Björn af kröfu stefnanda.
Kemur þá næst til álita hvort stefndi Ari Páll beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda að einhverju eða öllu leyti. Við sönnunarmat verður ekki byggt á framburði málsaðila fyrir dómi nema að því leyti sem hann er í aðalatriðum þeim aðila óhagstæður sem skýrslu gefur.
Frásögn stefnda Ara Páls um aðdraganda tjónsatburðarins við skýrslugjöf hjá lögreglu í febrúar 1992 og síðar fyrir dómi nýtur ekki stuðnings í öðrum gögnum málsins. Hann viðurkenndi hjá lögreglu að hafa fyrir atburðinn leigt sæþotu í 10-20 skipti og sagði að umrætt sinn hefðu hann og stefnandi gert sér að leik að snúa sæþotunum við „á punktinum“. Stefnandi hefði verið nýbúinn að snúa sinni sæþotu við með greindum hætti er stefndi hefði siglt á sæþotu hans á fullri ferð og ekkert getað gert til að afstýra árekstri. Fyrir dómi kvaðst stefndi aðeins hafa verið búinn að leigja sæþotu í tvígang fyrir tjónsdag. Með hliðsjón af því sem áður segir um sönnunargildi aðilaskýrslna fyrir dómi þykir verða að byggja á fyrri framburði stefnda að þessu leyti, enda lögregluskýrslan gefin án tengsla við rekstur þessa dómsmáls. Stefndi sagði enn fremur fyrir dómi að hann hefði greint sinn siglt sæþotu sinni á fullri ferð áfram, skáhallt í átt að Duus-bryggju, þegar stefnandi hefði allt í einu birst í um það bil einni og hálfri „sleðalengd“ fyrir framan hann. Að sögn stefnda hefði hann á þeirri stundu líklega verið að horfa eitthvert annað og því ekki getað afstýrt árekstri milli sæþotanna. Ljóst er af þessum framburði stefnda að hann hefur ekki gætt nægilegrar varkárni við stjórn sinnar sæþotu.
Frásögn stefnanda um aðdraganda tjónsatburðarins hjá lögreglu og fyrir dómi er því sama marki brennd að hún nýtur ekki stuðnings í öðrum sakargögnum. Stefnandi var engu að síður stöðugur í framburði sínum og greindi frá því að hann hefði séð þegar starfsmaður sæþotuleigunnar hefði veifað þeim félögum til merkis um að koma í land. Í framhaldi hefði hann sveigt sæþotu sinni rólega til hægri í átt að bryggju og átt sér einskis ills von er hann hefði heyrt í sæþotu stefnda Ara Páls skáhallt fyrir aftan sig og litið við, en í sömu andrá hefði sæþota stefnda skollið á hans, runnið upp eftir henni og lent á vinstra læri hans. Stefnandi dró ekki úr fyrir dómi að hann hefði fyrir tjónsdag verið búinn að fara 12-15 sinnum á sæþotu og að honum hefði í upphafi verið sagt til um notkun og stjórn slíkra tækja.
Einar Jónsson starfsmaður sæþotuleigunnar var nýbúinn að veifa til stefnanda og stefnda Ara Páls til merkis um að leigutími þeirra væri útrunninn og að þeim bæri að koma í land. Vitnið fylgdist síðan með siglingu sæþotanna og var sjónarvottur að árekstri þeirra. Samkvæmt vætti Einars hjá lögreglu og fyrir dómi munu piltarnir hafa siglt sæþotunum samsíða á mikilli ferð í átt að Duus-bryggju, með aðeins tveggja til þriggja metra bili á milli tækjanna. Í stað þess að koma að bryggjunni hefðu þeir skyndilega beygt í sitt hvora áttina og tekið svokallaða U-beygju í átt til hafs, en því næst sveigt þotunum aftur að hvor annarri í U-beygju á svipaðri ferð og hefði sá er síðar hefði beygt, stefndi Ari Páll, komið aftan að hinni og þota hans lent upp á henni í um 100-200 metra fjarlægð frá landi. Við mat á sönnunargildi vitnisburðar Einars ber að líta til þess að hann hafði aðeins starfað hjá stefndu Ævari og Gunnari Birni um skamma hríð fyrir tjónsatburðinn og hafði hvorki þá né nú önnur tengsl við stefndu. Verður því ekki séð að vitnið hafi neina þá hagsmuni af niðurstöðu í málinu, sem til þess séu fallnir að rýra sönnunargildi vitnisburðar hans. Að þessu virtu þykir mega leggja vitnisburð Einars til grundvallar um aðdraganda að tjónsatburðinum, en hann fær stoð í dómsvætti Sigríðar Birnu Björnsdóttur, sem einnig fylgdist með aðdraganda að árekstrinum úr landi, um að stefnandi og stefndi Ari Páll hafi siglt sæþotunum allt of nálægt hvor annarri skömmu áður en árekstur varð.
Með hliðsjón af vitnisburði Einars samkvæmt framansögðu verður við það að miða að stefnandi og stefndi Ari Páll hafi, eftir að leigutíminn var útrunninn og þrátt fyrir fyrirmæli um að halda ávallt 50-100 metra bili á milli sæþotanna, siglt þeim með aðeins örfárra metra bili á milli þeirra, í framhaldi sveigt þeim í sitt hvora áttina og hnitað hring uns þeir mættust aftur með þekktum afleiðingum. Á þeirri leið verður að ætla að piltarnir, sem voru tiltölulega vanir stjórn sæþota, hafi verið meðvitaðir um siglingu hvors annars og hafi því, er sæþoturnar nálguðust að nýju, borið að bregðast við með nægri gætni og fyrirhyggju til að afstýra yfirvofandi árekstri, til dæmis með því að sveigja af leið, draga úr hraða sæþotanna eða sleppa taki á eldsneytisgjöf, en fyrir liggur að með því hefðu sæþoturnar, önnur eða báðar, stöðvast innan fárra sekúndna. Með því að bregðast hvor um sig þessari aðgæsluskyldu og brjóta einnig fyrirmæli um lágmarksbil milli sæþotanna, sem þeim voru kunn, verður að telja að stefnandi og stefndi Ari Páll hafi sýnt af sér slíkt gáleysi við stjórn sæþotanna, sem leitt hafi til árekstrarins, að skipta beri sök á árekstrinum að jöfnu milli þeirra. Breytir engu í því sambandi þótt stefnandi hafi fyrr lokið við að hnita sinn hring og stefndi því siglt skáhallt inn í vinstri hlið sæþotu hans, eins og ráðið verður af vætti Einars Jónssonar, enda lítur dómurinn svo á, miðað við háttalag piltanna og hraða sæþotanna, að hending ein hafi ráðið því hvor piltanna kæmi fyrr út úr sínum hring. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hvorki fallist á með stefnda Ara Páli að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til bóta á grundvelli ólögfestra sjónarmiða skaðabótaréttarins um áhættutöku né heldur ákvæða 13. kapítula mannhelgisbálks Jónsbókar, sbr. til dæmis hrd. 1976:1048.
Óumdeilt verður að telja að stefnandi hafi orðið fyrir meiðslum, sem leiddu til starfsorkuskerðingar, er sæþota undir stjórn stefnda Ara Páls lenti á vinstra fæti hans. Svo sem áður greinir sundurliðar stefnandi kröfu á hendur stefnda þannig:
|
1. Bætur fyrir tímabundna örorku |
kr. 1.462.167 |
|
2. Bætur fyrir varanlega örorku |
kr. 9.137.879 |
|
-30% lækkun vegna skatta- og eingreiðsluhagræðis |
kr. 2.741.363 |
|
|
kr. 7.858.683 |
|
3. Töpuð lífeyrissjóðsréttindi |
kr. 629.687 |
|
4. Miskabætur |
kr. 500.000 |
|
Samtals |
kr. 8.988.370. |
Verður nú tekin afstaða til einstakra kröfuliða.
Um lið 1.
Af hálfu stefnda er kröfu samkvæmt þessum lið mótmælt sem ósannaðri, en margdæmt sé að aðeins beri að bæta sannað, raunverulegt tímabundið vinnutekjutap, en ekki ósannað, áætlað tekjutap. Fallist er á með stefnda að krafa stefnanda um bætur samkvæmt þessum lið hafi ekki verið studd viðhlítandi gögnum um missi launatekna. Gegn mótmælum stefnda verður hún því ekki tekin til greina.
Um liði 2 og 3.
Stefndi mótmælir þessum kröfuliðum bæði sem röngum og of háum. Af hálfu stefnanda hefur verið lagt fram örorkumat Atla Þórs Ólasonar læknis frá 28. september 2000, þar sem metin er læknisfræðileg örorka stefnanda. Þykir bera að leggja það mat til grundvallar, enda hefur því ekki verið hnekkt. Er og löng dómvenja fyrir því að stuðst sé við álit læknis við mat á því hvort starfsorka tjónþola sé skert af völdum slyss og aflahæfi hafi minnkað af þeim sökum. Þá verður höfð hliðsjón af örorkutjónsútreikningi Guðjóns Hansen tryggingafræðings frá 6. nóvember 2000 við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku, en þeim útreikningi hefur heldur ekki verið hnekkt. Þá ber og samkvæmt dómvenju að horfa til hagræðis af eingreiðslu og skattfrelsis slíkra bóta. Að þessu virtu þykir örorkutjón stefnanda hæfilega ákveðið krónur 6.000.000. Fallist er á fjárhæð kröfu um bætur fyrir töpuð lífeyrissjóðsréttindi, krónur 629.687 samkvæmt greindum útreikningi.
Um lið 4.
Kröfu samkvæmt þessum lið er mótmælt sem allt of hárri og í ósamræmi við dómvenju. Hún er studd við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem féll brott 1. júlí 1993 við gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af sjúkrasögu stefnanda samkvæmt framansögðu og vísan til téðrar lagagreinar þykir fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin krónur 400.000.
Heildarbætur vegna slyssins ákvarðast þannig krónur 7.029.687. Á grundvelli sakarskiptingar kemur því í hlut stefnda að greiða stefnanda helming þeirrar fjárhæðar eða krónur 3.514.843, nema þær ástæður séu fyrir hendi að fallast beri á kröfu stefnda um lækkun bóta úr hans hendi á grundvelli lögjöfnunar frá 2. mgr. 24. gr. eldri lögræðislaga nr. 68/1984, sbr. nú 2. mgr. 78. gr. lögræðislaganna nr. 71/1997. Ekki kemur hins vegar til álita að fella skaðabótaábyrgð niður á grundvelli 1. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda heimild til slíks ekki í lögum á þeim tíma er tjónið varð. Kemur lögjöfnun frá tilvitnuðum ákvæðum lögræðislaga eigi til álita í því sambandi, enda er þar aðeins kveðið á um heimild dómstóla til að færa niður bótafjárhæð. Þeirri heimild ber aðeins að beita í einstökum undantekningartilvikum, ef sérstakar og óvenjulegar ástæður eru fyrir hendi, til dæmis þegar ólögráða og efnalítill maður veldur stórfelldu tjóni vegna lítils háttar yfirsjónar og reglur skaðabótaréttar myndu ella leiða til ósanngjarnrar niðurstöðu, sbr. hrd. 1974:356. Eins og hér háttar atvikum verður ekki fallist á að slík sjónarmið komi til álita. Því dæmist stefndi til að greiða stefnanda krónur 3.514.843, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar segir í dómsorði.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegum að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.
Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum og málsúrslitum milli stefnanda og stefndu Ævars og Gunnars Björns er ljóst að stefnandi hefur tapað máli sínu á hendur þeim. Að því virtu þykir rétt að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn krónur 200.000 til hvors þeirra.
Stefnandi hefur á hinn bóginn unnið mál sitt að nokkru á hendur stefnda Ara Páli og tapað því að nokkru. Með hliðsjón af því þykir samkvæmt framansögðu rétt að stefnandi og stefndi Ari Páll beri hvor sinn kostnað af málinu, að öðru leyti en því að stefndi dæmist til að greiða stefnanda útlagðan kostnað vegna öflunar örorkumats og örorkutjónsútreiknings, sem lögð voru til grundvallar í málinu, eða samtals krónur 110.179.
Gjafsóknarkostnaður stefnda Ara Páls greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin krónur 250.000, að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.
DÓMSORÐ:
Stefndu Ævar Ingólfsson og Gunnar Björn Gunnarsson eru sýknir af kröfu stefnanda, Arnars Bjarkarssonar, í málinu. Stefnandi greiði stefndu hvorum um sig 200.000 krónur í málskostnað.
Stefndi Ari Páll Ásmundsson greiði stefnanda krónur 3.514.843, með ársvöxtum, sem nemur 0,7% frá 7. ágúst 1996 til 1. nóvember sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. febrúar 1997, 0,9% frá þeim degi til 1. júní sama ár, 1% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. september sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% frá þeim degi til 1. mars sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,7% frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,6% frá þeim degi til 1. apríl 1999, 0,7% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. júlí sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. október sama ár, 1% frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. febrúar 2000, 1,2% frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1,4% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1,2% frá þeim degi til 1. júlí sama ár, 1,3% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 1,4% frá þeim degi til 1. september sama ár, 1,5% frá þeim degi til 10. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og loks með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi Ari Páll greiði stefnanda 110.179 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnda Ara Páls greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.